Verklag við afgreiðslu fjárlaga

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 13:50:27 (1950)

2001-11-27 13:50:27# 127. lþ. 36.91 fundur 163#B verklag við afgreiðslu fjárlaga# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[13:50]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég kann málflutningi hv. formanns fjárln. afar illa. Hv. formanni fjárln. var vel ljóst þegar málið var afgreitt úr fjárln. á sunnudaginn að þá var ítarlega spurt hvort nokkuð annað væri á ferðinni en að allt væri opið. Hann tilkynnti engar stórvægilegar breytingar á fjárlagafrv. í sjálfu sér. Síðan varð ljóst í fréttum bæði á sunnudag og mánudag að niðurskurðartillögur voru á ferðinni.

Á fundi sem var boðaður í gær að frumkvæði fulltrúa Samfylkingarinnar var þetta eitt á dagskrá. Málið var afgreitt út úr nefnd á sunnudagskvöld. Við vöktum athygli á því og ég vakti athygli á því að málið væri ekki að mínu viti þingtækt eins og það var en hægt væri að láta alls konar umræður fara fram.

Sömuleiðis var fundur í gær þar sem á dagskrá var einungis að ræða þennan fréttaflutning og það að fjárlögin og fjárlagaumræðan væru komin út í þjóðfélagið, í fjölmiðla, en væru ekki í fjárln. Þar gagnrýndi ég bæði formann og varaformann fyrir að þannig væri unnið og benti bæði hv. formanni og varaformanni á að frv. væri í höndum fjárln., og þar ætti að vinna það, en ekki í höndum ríkisstjórnarinnar. Og ég þykist vita að hv. formaður geti kannað það að ég lagði til að bókað yrði að ég taldi málið ekki þingtækt með eðlilegum hætti eins og það væri, miðað við þær aðstæður að kynnt var veruleg aukning gjalda utan þingsins eins og gert var.

Herra forseti. Mér þykir miður að þurfa að harma framkomu hv. formanns fjárln. Ég tel hana lítt sæmandi hér í þessari umræðu, þ.e. það sem hann hefur vikið að mér. Ég þakka samt fyrir það að hann gat þess að ég hefði unnið þarna heiðarlega og ég mun gera það áfram þrátt fyrir (Forseti hringir.) að ummæli sem mér finnst ekki passa séu látin falla hér.