Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 21:12:34 (2017)

2001-11-27 21:12:34# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[21:12]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Til frekari skýringar er í breytingartillögum við fjárlagafrv. gert ráð fyrir 30 millj. fyrir allt árið þannig að ekki er gert ráð fyrir því að semja við Flugfélag Íslands um að veita þessa þjónustu allt næsta ár. Því er ekki um það að ræða að sú upphæð renni öll til þess félags.

Ég gat þess að við töldum hvorki tíma né tóm til þess að bjóða þetta út. Annað flugfélag hafði lýst áhuga sínum og vilja til þess að fljúga þarna áfram en í ljós kom að ekki var um það að ræða að það félag hefði yfir að ráða þeim vélakosti sem gera verður kröfu um í svo langt flug, og Flugfélag Íslands hafði sinnt þessu.

Ég vil að öðru leyti vegna ræðu hv. þm. nefna að það er alveg af og frá að vél Flugmálastjórnar trufli samkeppnisrekstur í innanlandsflugi. Ég held að sú þjónusta við ráðherra sem gert hefur verið mikið úr og fleiri æðstu embættismenn þjóðarinnar sem hefur verið veitt með flugvél Flugmálastjórnar, að sú starfsemi eða þau viðskipti munu ekki standa undir eða tryggja rekstur eins flugfélags. Ég held að það sé alveg af og frá. Það er skýrt skilgreint hvað um er að ræða og það er fjarri lagi að sú starfsemi sé truflandi fyrir samkeppni í áætunarflugi innan lands.