Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 23:28:12 (2030)

2001-11-27 23:28:12# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[23:28]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Mér skilst að á það hafi verið bent í umræðu í kvöld og kvartað hafi verið yfir því að ég hafi verið fjarverandi. Ég vildi upplýsa að ég hef verið á fundi í allt kvöld með utanríkisráðherra Noregs í ráðherrabústaðnum og sat einnig að kvöldverði með honum. Ég taldi mér skylt að sinna þeim málum þó að mér sé að sjálfsögðu líka skylt að sinna hér þingstörfum. Ég vildi að hv. þm. vissu af þeirri ástæðu fyrir því að ég gat ekki verið viðstaddur þessa umræðu.

Mér skilst einnig að hér hafi verið talað um utanríkisþjónustuna og sérstaklega þrjú mál, þ.e. sendiráð í Japan, sem mönnum hefur verið nokkuð tíðrætt um, NATO-fund á næsta ári og Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Opnun sendiráðs í Japan hefur lengi verið áhugamál margra. Þrívegis hefur verið flutt þáltill., hún var flutt hér á Alþingi af stjórnarandstöðu, og síðan var þessi þáltill. samþykkt 1998. Hún var samþykkt samhljóða. Þar kemur m.a. fram, með leyfi hæstv. forseta:

,,Talsverður kostnaður er því fylgjandi að koma á fót sendiráði og reka það. Í Tókíó er húsnæðiskostnaður hærri en gerist víða annars staðar. Ekki er í tillögunni tekin afstaða til hvort mæta skuli þessum tilkostnaði vegna sendiráðs í Japan með endurskipulagningu á sendiráðsstarfsemi okkar annars staðar, eða hvort nauðsynlegt reynist að auka það fjármagn sem utanríkisþjónustan hefur til ráðstöfunar til að gæta hagsmuna Íslands á erlendri grundu á tímum sífellt aukinna alþjóðasamskipta.``

[23:30]

Ég held að það hafi verið alveg ljóst þegar þessi tillaga var flutt að húsnæðiskostnaður í Tókíó er miklu meiri en víðast annars staðar í heiminum og verðlag þar miklu hærra. Það var kannski ein aðalástæðan fyrir því að Íslendingar opnuðu fyrst sendiráð í Kína á sínum tíma en ekki í Tókíó þrátt fyrir að Japan væri eitt af okkar stærstu viðskiptalöndum og þetta land er eitt af helstu iðnríkjum heims. Markaðurinn í Japan er u.þ.b. 60% af Bandaríkjamarkaði. Markaðurinn er álíka stór í Frakklandi og Þýskalandi og markaður í Japan, og talið er að það sé eftir miklu að slægjast í þessu landi, m.a. á sviði ferðaþjónustu.

Síðan kemur að því, þegar undirbúningur er búinn að standa yfir árum saman, að koma þessu í framkvæmd. Ég vil taka fram að það var líka starfandi nefnd um utanríkisþjónustuna með fulltrúum allra flokka hér á Alþingi þar sem niðurstaða var samhljóða um að opna bæri sendiráð í Japan. Síðan sendum við okkar fólk á vettvang til að undirbúa þetta mál og kanna með hvaða hætti væri best að standa að því. Það var gert og viðkomandi einstaklingar, sem bæði voru frá utanrrn. og fjmrn. og studdir af sérfræðingum í Japan með aðstoð okkar ágæta konsúls sem þar er, komast að þeirri niðurstöðu að það sé langtum hagkvæmara fyrir Íslendinga að kaupa húsnæði í stað þess að leigja. Það lá alveg ljóst fyrir í upphafi að um var að ræða háar fjárhæðir. Ég fór sem utanrrh. með þetta mál í utanrmn., lagði það þar fyrir og lagði fram það mat að ódýrara væri talið til lengri tíma litið að kaupa en leigja, það mundi borga sig upp á svona 14 árum.

Síðan leyfa menn sér að bera saman húsaleigu annars vegar og stofnkostnað hins vegar eins og sambærilegar tölur. Það er svona álíka og ef ungur maður sem er að hugsa um að kaupa sér 10 millj. kr. íbúð en það kostar 600 þús. á ári að leigja hana og hann kemst að þeirri niðurstöðu að það sé náttúrlega miklu ódýrara að leigja en að kaupa. Þetta er ekki frambærilegt og í þessu máli hefur verið haft stöðugt samráð.

Mér kemur á óvart þegar þingmenn frá ákveðnum flokkum eru búnir að vera að berjast fyrir máli árum saman --- mér er alveg sama þó að viðkomandi flokkar hafi skipt um nafn --- og falla svo í þá gryfju, vegna þess að það hentar þeim á þeim tíma að gleyma öllu sem á undan er gengið, að fara í þennan billega málflutning. (SJS: Hvað er svona ódýrt í þessu máli? Ekki sendiráðið.) Nei, hv. þm., það hefur alltaf legið fyrir. Það vissi hv. þm. Hjörleifur Guttormsson þegar hann flutti þessa tillögu. Það vissi hv. þm. Steingrímur Sigfússon þegar hann studdi þessa tillögu þannig að það hefur alltaf legið fyrir að það yrði dýrt. En það er náttúrlega alveg ljóst að húsnæðisverð á þessu svæði er ekki það sama og hér á landi.

Ég vil líka minna á í þessu samhengi að viðkomandi þjóð, Japan, ákvað að opna sendiráð hér á Íslandi. Það skiptir að sjálfsögðu líka miklu máli að þessi mikla viðskiptaþjóð og menningarþjóð skuli jafnframt ákveða að opna sendiráð hér.

Nú má vel vera að það sé skoðun hv. þm. að það sé engin ástæða til að gæta hagsmuna landsins meðal þessarar þjóðar. Mér hefur skilist að það sé ekki ástæða til að leggja mikið upp úr því að ræða við Evrópusambandið, það sé ekki mikilvægt fyrir Íslendinga. Það virðist ekki skipta miklu máli að kosta miklu til til að gæta hagsmuna gagnvart Japan. Ég spyr: Hvar ætla þessir þingmenn að leita eftir því að auka viðskipti Íslands? Hvað er það sem þeir leggja áherslu á í íslenskri utanríkisþjónustu? Ég skil þá þannig að þeir séu núna komnir að þeirri niðurstöðu að það hafi ekki verið nein ástæða til að opna sendiráð í Japan. Ég skil málflutninginn þannig, og þá er sagt að best sé að gera það á einhvern ódýrari máta. Eiga þá hv. þingmenn við að það hefði sem sagt verið rétt að leigja og ekki að fara eftir áliti sérfræðinga um að það væri miklu ódýrara að kaupa? Nú hefur markaðurinn stigið um ein 20%. Hann var talinn í algjöru lágmarki. Fyrir þessu var gerð grein í hv. utanrmn. á sínum tíma. Það má vel vera að hv. þingmenn hafi ekki verið viðstaddir þar. Þegar þessi þáltill. var flutt á hv. Alþingi var fasteignaverð miklu hærra í Tókíó.

Næsta atriði sem hv. þingmenn hafa tekið hér til umfjöllunar er NATO-fundurinn. Ég geri mér grein fyrir því að hv. þingmenn Vinstri grænna eru andvígir aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og telja að Íslendingar eigi ekkert erindi þar. Hann er sennilega eini flokkurinn í Evrópu sem hefur þessa skoðun. Það er eiginlega ekki að verða neinn flokkur einu sinni í Rússlandi sem útilokar aðild Rússa að Atlantshafsbandalaginu. Þannig er nú staðan. Það vill svo til að Atlantshafsbandalagið og Rússland eru að færast sífellt nær hvort öðru.

Það er hins vegar ljóst að ákveðnar skyldur fylgja því að vera í Atlantshafsbandalaginu og menn verða að leggja þar eitthvað af mörkum. Við erum eina þjóðin í Atlantshafsbandalaginu sem höfum ekki her og leggjum því afskaplega lítið til varnarskuldbindinga Atlantshafsbandalagsins. Við höfum talið það skyldu okkar að taka þátt í þeim kostnaði --- og það höfum við gert einstaka sinnum --- sem fylgir fundahaldi Atlantshafsbandalagsins.

Við höfum líka talið það vera mikilvægt fyrir Ísland, fyrir kynningu Íslands, að vekja athygli á Íslandi, vekja athygli í gegnum alþjóðlega fjölmiðla á að hér sé sjálfstæð þjóð sem stendur í báða fætur, er fullgildur aðili að Atlantshafsbandalaginu ásamt mörgum öflugustu þjóðum heims, bandalagi sem hefur verið öflugasti málsvari friðar í heiminum.

Það er líka alveg ljóst að það er mikilvægt fyrir Ísland, íslenska ferðaþjónustu, að hér á landi eigi sér annað slagið stað alþjóðlegir viðburðir. Það er mjög eftirsótt í heiminum að taka við ýmsum alþjóðlegum viðburðum sem fjölmiðlar fylgjast ítarlega með. Við töldum það eftirsóknarvert á sínum tíma að halda leiðatogafundinn og þannig gæti ég lengi talið. Mikið af þeim kostnaði sem hér leggst til varðar húsnæði, hótel og margt í þeim dúr. Viðkomandi aðilar koma hingað á eigin kostnað. Þeir kaupa sér fargjald með íslensku flugfélagi. Þeir fylla öll hótel í borginni þannig að þeir skilja eftir sig mikið fé. Þeir koma með mikið af aðstoðarfólki með sér þannig að hér fyllist allt af fólki meðan á þessu stendur og það verður mikil umfjöllun um landið.

Ég hefði talið að við þyrftum sérstaklega á því að halda nú um þessar mundir þegar heldur illa lítur út um stundarsakir í ferðaþjónustu í heiminum. Menn verða líka að líta á þann hluta málsins.

Að því er varðar Flugstöð Leifs Eiríkssonar, herra forseti, hafa áætlanir um þá flugstöð staðist, nema tvær. Í fyrsta lagi hefur gengið breyst meira en gert var ráð fyrir og þar með hafa skuldirnar aukist sem genginu svarar. Í öðru lagi hefur farþegafjöldi um Keflavíkurflugvöll minnkað allverulega eftir 11. september. Það er staðreynd sem ekki verður umflúin og það er nokkuð sem við þurfum að leggja sérstaka áherslu á að vinna upp á nýjan leik og skiptir miklu máli. En það gat enginn séð fyrir.

Flugstöðin var stækkuð. Í fyrsta lagi var hún stækkuð vegna þess að gert var ráð fyrir mikilli aukningu farþega. Í öðru lagi ákváðum við að vera með í Schengen sem hv. þingmenn Vinstri grænna voru að vísu á móti eins og svo mörgu öðru sem varðar alþjóðleg samskipti og aukin samskipti við umheiminn, og það er þeirra mál. Að mínu mati var það lífsnauðsynlegt fyrir íslenska þjóð að taka þátt í þessu samstarfi, m.a. til þess að viðhalda norrænu samstarfi sem ég hélt að hv. þingmenn legðu eitthvað upp úr. Þeir hafa að vísu ákveðið það hér í ræðustól á Alþingi að það hefði verið hægt að leysa allt saman með öðrum hætti, og það er í sjálfu sér ekki fyrsta samningslotan sem þeir taka við sjálfa sig í ræðustól hér á Alþingi, og sjálfsagt ekki sú síðasta. Það liggur alveg ljóst fyrir í dag að aðildin að Schengen var eina leiðin til að viðhalda norrænu samstarfi á þessu sviði.

Ég vil, herra forseti, aftur afsaka það að ég gat ekki verið viðstaddur þessa umræðu og hlustað á allt sem hér fór fram en taldi nauðsynlegt að koma þessum sjónarmiðum hér á framfæri í tilefni þessarar umræðu.