2001-11-28 00:27:28# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[24:27]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði hvort ég tjáði huga flokksbræðra minna. Það hef ég aldrei nokkurn tíma gert. Ég hef aldrei sagt: Við sjálfstæðismenn hugsum svona og svona eins og margir aðrir hv. þingmenn segja um sína flokksbræður. Við sjálfstæðismenn höfum nefnilega ekki sameiginlega hugsun eða sameiginlegan heila eða sameiginlega sál og ætlumst ekki til þess þannig að ég get ekki tjáð huga flokksbræðra minna.

Síðan sagði hv. þm. að ég segði að gengisfallið væri jákvætt. Það er ekki rétt, hann misskildi mig. Ég sagði að gengisfallið kæmi ekki endilega beint fram í verðlagi eins og margir virðast álíta, og það gerðist hérna fyrir 10--20 árum. Þá var gengisfelling og hún var komin inn í verðlagið samkvæmt ákveðinni reikningsformúlu eftir fjóra mánuði. Það gerist ekki lengur vegna þess að samkeppnin vinnur þar á móti, og síðan er spurning um kaupmátt. Ég er langt frá því að segja að gengisfall sé jákvætt, alls ekki. Gengisfallið er allt of mikið, það ætti að vera miklu minna. Það eru nánast allir sammála um að gengið sé orðið allt of lágt, raungengið sé orðið svo lágt að hagur útflutningsfyrirtækja hljóti að vinna á móti því. Það yrði þannig mjög undarlegt ef gengið héldist lengi svona lágt því þá færu útflutningsfyrirtækin að græða svo mikið að gengið hlyti að hækka þegar þau flyttu inn allan gróðann.