2001-11-28 00:29:07# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[24:29]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að ég skuli hafa misskilið hv. þm. varðandi gengisfallið.

Hins vegar þarf ég að leiðrétta annað. Ég taldi ekki að hv. þm. tjáði hug flokksbræðra sinna heldur sagði ég að oft væri hægt að ráða í hvað flokksbræður hans væru að hugsa með því að hlusta á hv. þm. vegna þess að hann á það til að vera hreinskilnari en margur flokksbræðra hans og þess vegna er oft auðveldara að fá skýringar á ýmsu háttalagi flokksbræðra hv. þm. með því að hlusta á hann.

Ég vil ítreka spurningu mína um það hvað hv. þm. átti við með því að hann vildi aga. Telur hann það vænlegt til að aga þjóðina að auka hugsanlega atvinnuleysið, taka örlítið á þeim sem hafa eytt um efni fram? Þá væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hjá hv. þm. hvernig best væri að gera slíkt. Einnig væri gott að fá skýringu á þeirri staðhæfingu að gengisfallið væri svo jákvætt fyrir útflutningsfyrirtækin að það mundi jafnvel vinna á móti hinu neikvæða, og samkeppnin væri slík að þrátt fyrir að gengisfallið væri þetta mikið eins og það hefur verið ætti það ekki að koma fram í hærra vöruverði.

Herra forseti. Ég held að hv. þm., eins og svo sem oft hefur komið fram hér í ræðum hans, lifi á stundum í örlítið annarri veröld en við mörg hin. En ég endurtek, herra forseti, að hv. þm. er oft hreinskilinn og ég vænti þess að hann verði það enn á ný í seinna andsvari sínu.