2001-11-28 01:11:26# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[25:11]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir þær spurningar sem hún bar fram þótt ég sé ekki viss um að mér takist að svara þeim með tilhlýðilegum hætti, enda vék hv. þm. að ýmsum atriðum er snúa að ráðherrum og er rétt að þeir svari fyrir það, þó svo að einungis hæstv. menntmrh. sé hér viðstaddur en hæstv. umhvrh. ekki.

Hv. þm. spyr hvaða meðferð álit umhvn. hafi fengið í fjárln. Því er til að svara að formaður nefndarinnar kom á fund fjárln. og flutti þar nál. og gerði grein fyrir þeim umræðum og áherslum sem þar komu fram. Umræður urðu nokkrar í fjárln. og niðurstöðuna má finna í þeim tillögum sem hér eru lagðar fram og í nál. og fundargerðum.

Ég vil vísa þeim spurningum sem hér eru lagðar fram um Snæfellsnesþjóðgarð og Vatnajökulsþjóðgarð til hæstv. umhvrh. sem ekki er viðstödd. Ég fellst á það sem hv. þm. segir um stofnanir er heyra undir umhvrn. Þar eru vissulega mjög mörg og þörf verkefni sem flutt voru af þeim og ég þekki þau mætavel vegna fyrri starfa fyrir umhvn. Ég tek undir að þar þyrfti að taka á en því miður gefa fjárlög Alþingis ekki tækifæri til þeirra umsvifa sem vert væri.

Að baki útdeilingar eða fjárveitinga til einstakra verkefna út um land sem þingmaðurinn gerði að umræðuefni og spurði um, hafði nefndin að sjálfsögðu margvísleg gögn og upplýsingar, m.a. frá húsafriðunarnefnd, en að baki lágu, hæstv. forseti, í þrjú ár til viðbótar sjónarmið í ferðamálum, húsavernd, byggðasjónarmið og atvinnusaga sem nefndin hafði til hliðsjónar við tillögur sínar.