2001-11-28 01:35:45# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[25:35]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hefur hnykkt á skilningi sínum á þessu máli og allt í góðu lagi með það. Ég lít engu að síður þannig á að við séum sammála um að menningarstefna sé til bóta. Ég hef fylgst með því hvernig hæstv. ráðherra hefur verið að búa til eða hanna upp á nýtt allar fjárveitingar til sjálfstæðra atvinnuleikhópa og ég hef fagnað því. Búið er að gera mjög mikla bragarbót á, bót sem er í því fólgin að það er algjörlega gegnsætt hvernig fjárhagsáætlanir hópanna eru gerðar. Eftirfylgnin er skýr. Það er allt mjög aðgengilegt á netinu. Það er úthlutunarnefnd sem allir vita að starfar eftir ákveðnum reglum og allir þekkja þetta kerfi sem búið er að koma upp. Þess vegna ríkir ákveðin sameiginleg meðvitund um menningarstefnuna í málefnum atvinnuleikhópa. Hún mótast að sjálfsögðu af því fjármagni sem ætlað er til hópanna í fjárlagafrv. Það sama á auðvitað að gilda um menningarstefnu í öðrum málaflokkum eins og t.d. í safnamálum eða þjóðminjageiranum eða fornleifaverndinni.

Ég lít því enn svo á að við hæstv. ráðherra séum sammála og ég treysti því að hér verði um öfluga stefnu að ræða sem verði skýr og auðvelt að stjórna eftir. Ég treysti því, og þykist náttúrlega vita, að það komi til með að skila sér inn í þennan mikilvæga málaflokk, fornleifaverndina og minjaverndina.