2001-11-28 01:37:44# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[25:37]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þegar umræðan um fjárlögin hófst í dag um tvöleytið gerði stjórnarandstaðan það að tillögu sinni að umræðunni yrði skotið á frest. Ástæðan var sú að við töldum óvissuþætti of marga, of mikla.

Sannast sagna er þessi 2. umr. um fjárlög frábrugðin umræðum fyrri ára að ýmsu leyti. Ekki er fast land undir fótum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Eins og hér hefur komið fram lýsti hæstv. forsrh. því yfir í fjölmiðlum nú um helgina að á döfinni væri að kynna niðurskurðartillögur upp á 3--3,5 milljarða kr. Þær tillögur höfðu hins vegar ekki verið ræddar við fjárlaganefndarfulltrúa og formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., virtist koma af fjöllum ef marka má viðtal við hann sem birtist í Morgunblaðinu í morgun.

Annað er að eðlilegt hefði verið að endurskoðuð tekju\-áætlun og lánsfjáráætlun lægi fyrir. En það verður að segjast þó að oft hefur það viljað brenna við að svo væri ekki við 2. umr. fjárlaga.

Hitt eykur einnig á óvissuna, að við eigum enn eftir að afgreiða skattapakka ríkisstjórnarinnar sem felur í sér umfangsmiklar breytingar á skattlagningu í landinu, lækkun tekjuskatta fyrirtækja, breytingar á tekjusköttum einstaklinga, einkum ívilnanir til hátekjuhópa og millitekjuhópa, sérstaklega hátekjuhópa. Í grófum dráttum er verið að létta skattbyrði af fjármagni og fyrirtækjum og færa hana yfir á launatengda starfsemi.

Komið hefur fram í umsögnum, m.a. Þjóðhagsstofnunar, að þetta komi til með að veikja verulega stöðu ríkissjóðs og stöðu sveitarfélaganna í landinu. Það eru ekki aðeins gagnrýnisraddir eða efasemdir sem hafa heyrst úr þeirri átt heldur hefur einnig komið fram mjög hörð gagnrýni m.a. frá verkalýðshreyfingunni á þær skattatillögur. Ég veit ekki betur en hæstv. fjmrh. hafi lýst því yfir í fjölmiðlum að farið yrði rækilega yfir þá gagnrýni og kannað hvort ríkisstjórnin sé reiðubúin að taka hana til greina að einhverju leyti.

En einnig þetta eykur á óvissuna og það var í ljósi þessa sem við lögðum til að 2. umr. um fjárlagafrv. yrði skotið á frest.

Reyndar er margt óljóst í stöðunni nú um stundir. Þannig stangast á spádómar Þjóðhagsstofnunar annars vegar og OECD og hins vegar ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin gerir enn ráð fyrir 1% hagvexti á komandi ári. OECD gerir ráð fyrir samdrætti upp á 0,6%, Þjóðhagsstofnun samdrætti upp á 0,3%. Þarna stangast sitthvað á.

Þótt þetta sé óljóst er margt ljóst í þeirri stöðu sem nú blasir við. Það er t.d. ljóst að skuldastaða þjóðarinnar er alvarlegri en hún hefur nokkru sinni verið í sögu þjóðarinnar. Í annan stað er líka ljóst að verðgildi krónunnar hefur rýrnað verulega á undangengnum missirum, sem síðan hefur leitt til þess að ráðstöfunartekjur heimilanna hafa stórlega rýrnað.

Einnig er ljóst að verðbólga er nú meiri en hún hefur verið um nokkurt árabil. Þá er á það að líta að viðskiptahallinn hefur reynst meira og alvarlegra efnahagsmein en flestir gerðu sér grein fyrir fyrir fáeinum árum þegar hallaði á ógæfuhliðina og kemur til með að skilja eftir sig dýpri og verri sár en margir ætluðu þá.

Ég vil segja örfá orð um hvern þessara liða fyrir sig.

Viðskiptahallinn í fyrra nam í fyrsta skipti í sögu þjóðarinnar yfir 10% af vergri landsframleiðslu. Hann hefur aldrei verið eins mikill og í fyrra. Sennilega verður hann heldur minni á þessu ári og gert er ráð fyrir að enn muni hugsanlega draga úr honum á næsta ári. En ef litið er til fimm ára, frá 1998, er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn nemi um 250 milljörðum kr.

Þetta leiðir hugann að því að velgengni ríkissjóðs á undangengnum árum hefur byggst á þessum mikla halla. Hann eða innflutningur til landsins umfram efni hefur skapað þenslu í atvinnulífinu sem síðan hefur skapað ríkissjóði auknar tekjur. Þegar dregur úr viðskiptahallanum, þegar hann minnkar, þá minnka tekjur ríkissjóðs að sama skapi.

Verðbólgan hefur á þessu ári verið yfir 8% og það er rangt sem kom fram í máli hæstv. fjmrh. að launafólk hefði ekki orðið fyrir neinni kaupmáttarrýrnun á þessu ári. Á þessu ári var samið um 6,9% hækkun á kauptaxta. En þegar verðbólgan er komin yfir 8% þá segir það sig sjálft að þarna er um kaupmáttarrýrnun að ræða.

Að sönnu hafa margir hópar sem betur fer fengið umtalsvert meiri kauphækkanir. En þeir eru til og það eru fjölmennir hópar, ekki síst í hópi láglaunafólks, sem búa við þessa kauphækkun eina. Þeir láglaunahópar hafa sannarlega orðið fyrir verulegri eða nokkurri kaupmáttarrýrnun.

Verðgildi krónunnar. Við þekkjum það að hún hefur rýrnað stórlega, 25% mun það vera að meðaltali gagnvart erlendum gjaldmiðlum, 30% gagnvart bandaríkjadollar. Í ársbyrjun kostaði bandaríkjadollar 82,90 en kostar núna í kringum 110 kr. Þetta breytist dag frá degi, mun sennilega vera 111 núna. En þetta er veruleg rýrnun sem segir til sín í hækkun á aðfluttri vöru til landsins og hefur þar af leiðandi í för með sér rýrnun á ráðstöfunarfjármagni heimilanna.

[25:45]

Skuldastaða þjóðarinnar er verri en hún hefur nokkru sinni verið. Því miður gætti nokkurrar óskhyggju í tali hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar þegar hann talaði um að þar stefndi allt á betri veg. Hann sagði að okkur hefði auðnast að ná skuldum ríkisins verulega niður og heldur betur væri bjart fram undan. Það er rétt að ef við lítum á skuldir ríkisins um miðjan tíunda áratuginn hefur okkur tekist að ná skuldum ríkissjóðs talsvert niður. Ef við hins vegar hverfum lengra aftur í tímann, til upphafs tíunda áratugarins, erum við ekki í betri stöðu að þessu leyti. Þannig eru skuldir ríkissjóðs samkvæmt áætlun Þjóðhagsstofnunar áætlaðar á þessu ári 39,2% af vergri landsframleiðslu en voru 32,4% árið 1990, þ.e. lægra hlutfall. Skuldir sveitarfélaganna voru þá, árið 1990, í byrjun tíunda áratugarins, 4,3% af vergri landsframleiðslu en samkvæmt áætlun Þjóðhagsstofnunar verða þær 7,1% á þessu ári.

Ef litið er á nettóskuldir hins opinbera --- vegna þess að iðulega er það svo að ríkið skuldar sveitarfélögunum og sveitarfélögin skulda ríki þannig að eðlilegt er að líta til nettóskulda hins opinbera --- er áætlað að á árinu 2001 verði þær 27,5% af vergri landsframleiðslu en voru umtalsvert lægri árið 1990 eða 19,1% af vergri landsframleiðslu.

Það sem er óhugnanlegast þegar skuldastaða þjóðarinnar er gaumgæfð er að hún hefur aldrei nokkurn tímann verið verri en núna og nemur 259% af vergri landsframleiðslu. Samkvæmt áætlunum og útreikningum Þjóðhagsstofnunar munu skuldir heimilanna á þessu ári nema 675 milljörðum kr. og skuldir fyrirtækjanna 1.045 milljörðum kr. Á liðnum árum hefur ríkið verið að reyna að færa skuldabaggann af eigin herðum yfir á herðar sveitarfélaganna og síðan yfir á fyrirtækin. Það kemur m.a. fram í eða er afleiðing einkaframkvæmdarstefnu ríkisins.

Þegar t.d. elliheimilið Sóltún er reist eru skuldirnar við það ekki bókfærðar hjá ríkinu. Þær eru bókfærðar hjá fyrirtækinu sem reisir elliheimilið. Enda þótt ríkið komi til með að fjármagna hverja einustu krónu í þessu elliheimili eru skuldirnar bókfærðar á annan aðila. Því er ekki annað raunsætt eða raunhæft þegar við skoðum skuldbindingar þjóðarinnar en að líta á heildardæmið, að sjálfsögðu, og ekki síst með tilliti til þess að í tilvikum eins og elliheimilinu Sóltúni þar sem einkaframkvæmdin hefur verið innleidd eru skuldbindingarnar á endanum að sjálfsögðu hjá ríkinu og þeim sem koma til með að nýta sér þessa þjónustu. Minnast menn þá einkaframkvæmdarbæklings ríkisstjórnarinnar þar sem segir að í framtíðinni muni notendur koma til með að greiða beint úr eigin vasa fyrir þessa þjónustu, a.m.k. í ríkari mæli en nú er gert.

Herra forseti. Við umræðuna um fjárlögin að undanförnu hefur stjórnarandstaðan verið gagnrýnd nokkuð fyrir svartsýni og að hún hafi ekki verið ábyrg í þessari umræðu. Þessu vísa ég algjörlega á bug. Staðreyndin er sú að við höfum kappkostað að benda á jákvæða þætti í efnahagslífinu nú um stundir og viljað nýta okkur það sem jákvætt er til uppbyggingar.

Það er staðreynd að markaðir fyrir íslenska útflutningsvöru hafa verið góðir. Vísa ég þar að sjálfsögðu fyrst og fremst til sjávarafurða. Komið hefur fram að álverð hefur heldur lækkað. Þegar á heildina er litið hafa markaðsaðstæður verið okkur hagstæðar og ef við hefðum haldið vel og rétt á spöðunum á undanförnum árum værum við ekki að stefna inn í þann vanda sem við því miður erum að gera núna.

Hvernig á þá að taka af ábyrgð á efnahagsmálunum? Jú, það er hægt að gera með skynsamlegu samspili skattlagningar og útgjalda ríkissjóðs. Við höfum gagnrýnt þær áherslur sem ríkið hefur haft þar uppi. Í annan stað er mjög mikilvægt að gefa þjóðinni, fyrirtækjum og heimilum, rétt skilaboð. Það skiptir mjög miklu máli.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hitti nefnilega naglann á höfuðið þegar hann sagði réttilega að með lántökum væru menn, hvort sem væri um að ræða heimili eða fyrirtæki, að ráðstafa framtíðartekjum sínum. Og það skiptir nokkru máli að menn geri sér grein fyrir því hverjar líklegar framtíðartekjur þeirra eru. Munum við búa við áframhaldandi hagvöxt og mikinn hagvöxt eða komum við hugsanlega til með að þurfa að búa við einhvern samdrátt? Munu rauntekjur mínar, það fjármagn sem ég hef handa á milli, aukast eða er sú hætta fyrir hendi að það muni dragast eitthvað saman? Og ef svo er þarf maður að sýna meiri varfærni, t.d. við lántökur. Og það er til þessarar varfærni sem við höfum verið að hvetja.

Að lokum langar mig til að víkja að málflutningi talsmanna Sjálfstfl. í þessari umræðu. Þeir sem hafa haft sig mest í frammi af talsmönnum Sjálfstfl. við þessa umræðu, utan hæstvirtra ráðherra, hafa verið varaformaður fjárln., hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, og Pétur H. Blöndal, sérfræðingur Sjálfstfl. í velferðarmálum og almannatryggingum.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson flutti hefðbundna fjárlagaræðu sína fyrr í kvöld. Hann sagði að allan þann vanda sem ríkissjóður byggi við mætti rekja til útþenslu í opinbera geiranum og til launahækkana. Það er alveg rétt. Á undanförnum missirum hafa sem betur fer orðið nokkrar launahækkanir og ég hef ekki heyrt hæstv. fjmrh. kveinka sér mikið undan þeim. Sjúkraliðar --- það er svona nærtækasta dæmið af því að þeir voru að ljúka við samninga --- voru með í byrjunarlaun tæpar 89 þús. kr. á mánuði. Núna var samið við þá stétt þannig að byrjunarlaunin verða um 115 þús. og hækka síðan eftir einhvern starfsaldur í 119 þús. Föst meðallaun þessarar stéttar koma til með að verða tæplega 143 þús. kr. á mánuði. Sannast sagna finnst mér þetta ekki mikið kaup. Mér finnst þetta ekki há upphæð. Þetta er stétt sem vinnur mjög erfið störf á sjúkrahúsum. Þótt okkur finnist þetta ekki há upphæð var þarna um umtalsverðar kjarabætur að ræða í síðustu samningum. Og mér finnst það vera fagnaðarefni.

Mér finnst það líka vera fagnaðarefni sem menn eru sífellt að emja hér undan, að ellilífeyrisþegar fái einhverja hlutdeild í þessum kjarabótum. Mér finnst það gott. Staðreyndin er nefnilega sú að fólk í almannaþjónustu hefur búið við mjög bág kjör, lágt kaup, og svo sannarlega mjög lágt kaup miðað við það sem gerist í okkar viðmiðunarríkjum, t.d. á Norðurlöndunum. Það er mjög gott að þetta skuli vera heldur lagað.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði að síðan hefði orðið alveg geysileg útþensla hér í þjónustu við fatlaða. Það er alveg rétt. Ýmis skref hafa verið stigin. En menn hafa líka verið að vekja athygli á því að íslenska þjóðfélagið, þessi ein ríkasta þjóð í heiminum --- er hún ekki númer sex í röðinni núna? --- ver mun minna fjármagni og minna af sameiginlegum verðmætum sínum til málefna fatlaðra og til velferðarmála almennt, miklu minna en gerist á Norðurlöndunum og minna en gerist í ýmsum þeim ríkjum sem við berum okkur gjarnan saman við.

Ég vakti athygli á því fyrr í umræðunni að ríkisstjórnin hefði að mínum dómi kolranga forgangsröðun þegar hún væri að ráðstafa skattfé. Hún hefði t.d. ekki staðið við loforð og fyrirheit sem samtökum fatlaðra voru gefin fyrir fáeinum árum um að útrýma biðlistum eftir húsnæði. Þetta var gert fyrir kosningarnar 1999. Ég man eftir mörgum kosningafundum sem ég sótti þar sem fulltrúar allra flokka voru og þar sem fulltrúar Sjálfstfl. og Framsfl. lýstu því afdráttarlaust yfir að þeir mundu standa við áætlun sem þá hafði verið gerð um að útrýma biðlistum fatlaðra eftir húsnæði fyrir árið 2006. Við þetta hefur ekki verið staðið.

Aftur var sett niður nefnd á árinu 2000 til að gera um það tillögur hvernig þessum biðlistum yrði útrýmt. Ekki hefur heldur verið staðið við þau fyrirheit sem þá voru gefin. Samkvæmt biðlistanefndinni 1998 sem kynnt var fyrir kosningarnar 1999 hefði átt að verja 139 millj. á þessu ári í þessu skyni. Uppreiknað væru það 178,2 millj. kr. samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk frá Landssamtökunum Þroskahjálp. Þegar búið var að færa þessar tölur niður samkvæmt biðlistanefndinni á árinu 2000 var talan komin úr 139 millj. í 81,2 millj. sem væri uppreiknað 88 millj.

En hvað skyldi vera í því frv. sem við erum hér með til umfjöllunar? Hverju skyldi verða varið í þessu skyni til verkefnisins? 23 millj. kr. Er að undra að menn setji þetta í samhengi við fjáraustur ríkisins á öðrum sviðum? Er að undra að menn veki athygli á því að við erum að verja í eitt sendiráð í Japan tæpum milljarði króna? Og hæstv. utanrrh. leyfir sér að koma hingað og kveinka sér undan því að menn geri þennan samanburð.

Ég mótmæli harðlega að óeðlilegt sé að slíkt sé gert.

Það er líka eðlilegt að við skoðum fjárausturinn í þessa flottræfilsráðstefnu NATO hér á næsta ári sem á að kosta a.m.k. á fjórða hundrað millj. kr. Og þetta er gert á sama tíma og ríkisstjórnin er að svíkja fyrirheit sem samtökum fatlaðra voru gefin um að útrýma biðlistum eftir húsnæði. Þetta eru staðreyndir og menn verða að vera menn til að horfast í augu við þær. Þeir eiga ekki að láta þar við sitja heldur eigum við áður en fjárlögunum er lokað að gera bragarbót í þessu efni.

[26:00]

Þetta var um öll ósköpin og þennan mikla rausnarhug sem ríkisstjórnin og ríkisvaldið hefur sýnt fötluðum á undanförnum árum, sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gerði sérstaklega að umræðuefni.

Ég vil þá víkja að málflutningi hins aðaltalsmanns Sjálfstfl. í velferðarmálum og almannatryggingum og opinberum rekstri, hv. þm. Péturs H. Blöndals. Honum verður tíðrætt um það þessa dagana að nú þurfi heldur betur að draga saman seglin. Það á að vera allra meina bót að fækka starfsfólki í almannaþjónustu.

Hann gerði þetta að sérstöku umræðuefni í þingræðu 11. okt. sl. Þá setti Pétur H. Blöndal, hv. talsmaður Sjálfstfl. í velferðarmálum, fram þá hugmynd að við færum að dæmi Granda hf. sem á síðustu fimm eða tíu árum hefði fækkað starfsfólki um helming. Þetta eigum við að gera líka í hinni opinberu þjónustu, sagði þessi talsmaður Sjálfstfl. í velferðarmálum. Þetta á ekki að þurfa að bitna á þjónustunni, sagði hv. þm.

En orðrétt sagði hann, með leyfi forseta, og vísaði þá til niðurskurðarins hjá Granda hf.:

,,Þetta vil ég líka sjá í heilbrigðiskerfinu. Ég vil sjá að fólki fækki um helming, læknum, hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum, um helming, ...``

Þetta eru tillögur sem eru settar fram að því er virðist vera af fullri alvöru af hálfu þessa talsmanns Sjálfstfl. í velferðarmálum og almannatryggingum. Mér finnst ástæða til að vekja sérstaklega athygli á þessu.

Herra forseti. Ég ætla að vona að þær ábendingar sem hér hafa komið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar um breytingar á fjárlagafrv., um breyttar áherslur í ýmsum efnum verði teknar til greina áður en umræðu verður endanlega lokið um fjárlagafrv.