2001-11-28 02:20:11# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[26:20]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Leitt er til þess að vita að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir virðist ekki almennilega ráða við það að eiga skoðanaskipti við fólk sem hefur að einhverju leyti önnur viðhorf.

Það liggur alveg fyrir að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er andvíg stórvirkjun við Kárahnjúka og tilheyrandi álveri á Reyðarfirði. Við höfum það sjónarmið að umhverfisspjöllin sem slíkum framkvæmdum yrðu samfara séu ekki réttlætanleg, séu ekki verjandi. Og þó að menn kunni að sjá í þeim framkvæmdum einhverja ávinninga og kosti, sem umdeilanlegt er, er það algjörlega bjargföst sannfæring okkar að umhverfisröskun og spjöll af þessu tagi séu ekki verjandi, séu ekki réttlætanleg. Það ræður mestu um afstöðu okkar þótt fleira komi til.

En hv. þm. virðist fyrirmunað að skilja, svo ekki sé nú sagt virða, þessa niðurstöðu okkar og að við komumst að þessari niðurstöðu og höfum þessa skoðun, heldur hefur uppi málflutning af því tagi sem við heyrðum hér áðan. Af þessu leiðir að sjálfsögðu að við teljum ekki rétt að binda hendur íslenska ríkisins með verulegum fjárveitingum til hafnargerðar til þessarar stóriðju og allra síst áður en nokkur ákvörðun hefur verið tekin um framkvæmdirnar. Það verður ekki fyrr en í september á næsta ári eins og tímaplön liggja nú fyrir.

Að fara að lesa út úr því síðan að við séum andvíg almennum hafnarframkvæmdum í Fjarðabyggð frekar en annars staðar á landinu er langt fyrir neðan virðingu hv. þm. Og skyldi svo hafa tekist til, sem ég hef reyndar ekki haft tíma til að kanna, að einhver mistök hafi orðið við að útbúa brtt. veit hv. þm. ósköp vel að þá hafa orðið einhver mistök. Það er ekki málflutningur sem menn lyfta sér hátt á, herra forseti, að ætla þá að fara að reyna að gera lítið úr mönnum og bera upp á menn andstöðu við framkvæmdir, t.d. í smábátahöfninni á Norðfirði á slíkum grunni. Það er ekki hátt risið á slíku, herra forseti.