2001-11-28 02:25:28# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[26:25]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlýt að vekja athygli á því að það var hv. þm. Jón Bjarnason sem flutti þessa tillögu hér inni á Alþingi. Auðvitað er öllum mönnum frjálst að breyta tillöguflutningi sínum. Menn hafa væntanlega tækifæri til þess hér. Ekki er ég að draga úr því. Það liggur hins vegar jafnljóst fyrir að þarna liggur þessi tillaga frammi ásamt ýmsum öðrum frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni.

Varðandi það sem kom hér fram og ég gleymdi að svara í fyrra andsvari mínu, þ.e. umhverfisstefnu hv. þingmanna Vinstri grænna og að þeir væru á móti stóriðju af umhverfisástæðum, er náttúrlega rétt að vekja athygli á því að framkvæmdin hefur nú þegar farið í umhverfismat (Gripið fram í.) og verið samþykkt sem slík. Þess vegna ættum við samkvæmt okkar kerfi, sem margir eru mjög hlynntir, að vilja að slíkar framkvæmdir fari í umhverfismat, verði samþykktar eftir atvikum og þær nái þá fram að ganga. Það á við um álver í Reyðarfirði og það á við um hafnarframkvæmdir í Reyðarfirði.