2001-11-28 02:26:46# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[26:26]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur fyrir að vekja athygli á þessari undarlegu brtt. sem hér liggur fyrir við fjárlögin.

Það er auðvitað búið að koma fram hjá samflokksmönnum hv. þm. Jóns Bjarnasonar að hér er greinilega um mistök að ræða og við væntum þess auðvitað að þessi mistök verði lagfærð svo fljótt sem verða má þannig að hér liggi ekki frammi tillögur um eitthvað allt annað en flutningsmenn eiga við.

Hins vegar er auðvitað nauðsynlegt, vegna þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað, að geta þess að þetta kapp hv. þingmanna Vinstri grænna að reyna með öllum brögðum og klækjum að klekkja á þeim fyrirhuguðu framkvæmdum sem menn hafa verið að hugsa sér á Austurlandi til að efla þar mannlíf og atvinnulíf og nota síðan röksemdir einstakra hagfræðinga, teknar úr öllu samhengi, (Gripið fram í.) og bera saman við þær niðurstöður sem menn hafa verið að vinna að hjá ýmsum stofnunum þar sem menn hafa jafnvel notað þau orð að hér sé líklega einn stærsti gullmoli sem þjóðin hefur átt möguleika á í mjög langan tíma ... (KolH: Er þingmaðurinn að halda ræðu?)

Herra forseti. Ég er í andsvari við hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur og leyfi mér að nýta þann tíma sem mér er ætlaður til þess burt séð frá því hvað óróleiki hv. þingmanna Vinstri grænna er (Gripið fram í.) mikill eða lítill.

Herra forseti. Þess vegna var full þörf á að vekja athygli á því að svo mikið er kapp Vinstri grænna að klekkja á þessum framkvæmdum og þessum hugmyndum öllum að ekki er einu sinni haft fyrir því að athuga út á hvað tillögur þeirra ganga.

Herra forseti. Við munum að sjálfsögðu bíða þess að þetta verði lagfært og við tökum það að sjálfsögðu gilt að hér hafi orðið mistök og við vonum að þingmennirnir lagfæri þetta fyrr en síðar.