2001-11-28 02:29:46# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[26:29]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að verða við beiðni hv. þm. um að rifja upp hver niðurstaða þingflokks Samfylkingarinnar er um stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi. Fyrir liggur samþykkt um að endanleg ákvörðun á flokkslegum grunni verður ekki tekin fyrr en umhverfisferlinu er lokið (SJS: Siv ræður.) sem er að sjálfsögðu nákvæmlega það sama, vænti ég, og gert verður af hálfu ríkisstjórnarinnar. Umhverfisferlinu verður lokið og þá mun hin formlega flokkslega niðurstaða Samfylkingarinnar liggja fyrir.

Hins vegar liggur það auðvitað ljóst fyrir að einstakir þingmenn hafa ákveðna skoðun og það hefur komið fram í umræðum á Alþingi við m.a. tillögu frá nokkrum hv. þm. Vinstri grænna sem boðuðu að rétt væri að senda nokkur hundruð milljónir austur á firði til að gera bragarbót þar á ýmsum sviðum. En í þeirri umræðu kom einmitt fram hjá nokkrum hv. þm. Samfylkingarinnar að þeir eru mjög ákveðnir virkjunarsinnar og telja að stóriðja muni að sjálfsögðu bæta bæði atvinnulíf og mannlíf á Austfjörðum.