Úrskurður forseta

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 15:25:00 (2283)

2001-12-03 15:25:00# 127. lþ. 41.93 fundur 190#B úrskurður forseta# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[15:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að telja það afar óheppilega fundarstjórn hjá forseta að forseti skuli velja það undir lokin á umræðu um störf þingsins að fara með ákaflega pólitískan úrskurð sinn í þessu upplýsingamáli, þar sem hann úrskurðar Alþingi í óhag en framkvæmdarvaldinu í hag og gegn rétti þingmanna til að krefja upplýsinga, m.a. um meðferð opinbers fjár, en hagar síðan fundarstjórn þannig að þingmönnum gefst ekki kostur á að rökræða málið. Forseta á að vera ljóst að í máli sem hann treystir sér til að úrskurða um án nokkurs fyrirvara, að því er virðist, því að hér var verið að ræða um störf þingsins, verður að gefa þingmönnum færi á að rökræða málið.

Ég er algerlega ósammála úrskurði forseta og tel hið mesta hneyksli að sjálfur forseti Alþingis skuli fótumtroða svo rétt þingmanna til upplýsinga. Ég tel algerlega óviðunandi að okkur þingmönnum gefist ekki færi á því með einhverjum hætti að ræða þetta mál. Þess vegna vil ég setja það í hendur hæstv. forseta, sem varla getur átt sér það markmið sérstaklega með fundarstjórn hér að koma í veg fyrir eðlileg skoðanaskipti um mikilvæg mál --- það væri þá langt gengið --- með hvaða hætti hann telur heppilegast að sjá fyrir því að um þetta grafalvarlega mál geti þingmenn rætt, helst nú þegar eða svo fljótt sem við verður komið, og átt þess kost að eiga skoðanaskipti um þetta. Það er auðvitað um að ræða mjög stóran og alvarlegan atburð ef þessi síðasta og sennilega svæsnasta tilraun framkvæmdarvaldsins til að fótumtroða rétt Alþingis og alþingismanna til upplýsinga nær fram að ganga og er ofan í kaupið studd af forseta þingsins. Þá er skörin farin að færast upp í bekkinn og ég trúi því a.m.k. ekki að menn fái ekki tíma og tóm til þess að ræða málið.