Málefni hælisleitandi flóttamanna

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 15:56:04 (2306)

2001-12-03 15:56:04# 127. lþ. 41.1 fundur 183#B málefni hælisleitandi flóttamanna# (óundirbúin fsp.), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[15:56]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er rétt að gera skýran greinarmun á því hvort um er að ræða flóttamenn sem hafa flóttamannastatus eða hælisleitendur. Flóttamenn sem hafa flóttamannastatus og er boðið hingað til lands koma á vegum félmrn. og félmrn. kostar uppihald þeirra fyrsta árið og kaupir þjónustu af Rauða krossinum og einstökum sveitarfélögum. Þeir fá kennslu í íslensku og margvíslega aðstoð fyrsta árið og eftir árið bjarga þeir sér.

Það stendur ekki á okkur í félmrn. að koma að vinnu við að ræða málefni hælisleitenda. Mér er hins vegar ekki kunnugt um að beiðni hafi borist um það. Þó getur það vel verið að hún hafi borist til ráðuneytisstjóra þó að mér hafi ekki verið gerð grein fyrir því. En ég veit ekki til þess að sú beiðni hafi komið til okkar en það er sjálfsagt að taka jákvætt í að leggja fram vinnu í þessu efni ef beiðni berst um það.