Málefni hælisleitandi flóttamanna

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 16:01:37 (2310)

2001-12-03 16:01:37# 127. lþ. 41.1 fundur 183#B málefni hælisleitandi flóttamanna# (óundirbúin fsp.), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[16:01]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég hlýt að mega tala fjórum sinnum eins og hv. fyrirspyrjandi. Ég tel að það sé nokkuð djúpt tekið í árinni að vera að telja þetta fólk þátttakendur í okkar samfélagi. Því hefur nefnilega verið neitað um að vera þátttakendur í okkar samfélagi, því miður. Gjarnan hefði verið gott að geta boðið það velkomið en einhverjir annmarkar hafa væntanlega verið á komu þess. Þetta er fólk sem í sumum tilfellum a.m.k. brennir vegabréfin sín og vill ekki gera grein fyrir sér og það er vandamál sem verður að takast á við hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Ég tel auðvitað eðlilegt að reyna að koma mannúðlega fram við þetta fólk en við getum hins vegar ekki farið að opna landið fyrir hverjum sem vill koma. Það er fjarri lagi. (Gripið fram í.) Það er rétt að þetta fólk er komið hingað og það er sjálfsagt að reyna að liðsinna þessum börnum, ég hef alveg fulla samúð með þeim og, eins og ég er búinn að margsegja, tilbúinn að leggja fram vinnu í að ræða þau mál við þar til bæra aðila.