Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 18:39:45 (2339)

2001-12-03 18:39:45# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[18:39]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki tókst að fá svar frá hæstv. forseta í þessari umferð og reyni ég það aftur. Hæstv. forseti lýsti því yfir í dag, lýsti því yfir úr stóli forseta þingsins, að niðurstaða forsrh. væri rétt. Það stendur hér í útskrift frá þinginu. Hver er niðurstaða hæstv. forsrh.? Hún er þessi, með leyfi forseta: ,,Upplýsingar um endurgjald til einstakra viðsemjenda`` o.s.frv. ,,er skylt að takmarka aðgang að slíkum upplýsingum, ef hann er til þess fallinn að skaða þá hagsmuni, ...`` þar sem er vitnað í upplýsingalög sem eiga ekki við. Það hefur komið fram í þessari umræðu. ,,Í því felst þó jafnframt að slíkar upplýsingar eru undirorpnar þagnarskyldu af hálfu stjórnvalda að viðlagðri ábyrgð.``

Síðan kemur: ,,... hefur ráðuneytið jafnframt heitið viðsemjendum sínum að gæta trúnaðar við meðferð þeirra.``

Því ítreka ég þá spurningu sem ég bar upp við hæstv. forseta Alþingis, 1. þm. Norðurl. e.: Hvar liggur sú heimild embættismanna að undanþiggja tilteknar upplýsingar upplýsingarétti þingmanna? Hvar liggur sú heimild? Hver veitti þeim þá heimild? Hver heimilar þeim að gefa slík loforð þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrár, þrátt fyrir skýlaus ákvæði þess efnis að upplýsingalög eigi ekki við um Alþingi? Hver veitir þeim þessa heimild? Þetta tók hv. 1. þm. Norðurl. e., sem gegndi jafnframt starfi forseta Alþingis, undir af forsetastóli og ég verð að segja, virðulegi forseti, og ítreka það sem ég hef sagt í umræðunni að þessi úrskurður á sér vart hliðstæðu.