Fjáraukalög 2001

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 14:10:49 (2498)

2001-12-05 14:10:49# 127. lþ. 43.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 127. lþ.

[14:10]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Eina svarið sem Alþingi getur gefið við þessar aðstæður og ekki misskilst er að fella út þessa fyrirhuguðu fjárveitingu eða aukafjárveitingu öllu heldur til forsrn. Forsrn. neitar að upplýsa Alþingi um hvernig eigi að ráðstafa litlum 300 millj. kr. sem ráðuneytið telur sig þurfa til einkavæðingarmálefna. Þá er ekki annað að gera fyrir Alþingi en að segja ósköp einfaldlega: Þá er ekki hægt að afgreiða þessar fjárheimildir.

Forsrn. væri þá kannski minnt á það, sem ekki virðist vanþörf á, hvar fjárveitingavaldið liggur. Ég óttast að hluti þess vanda sem nú er uppi sé sá að það sé algerlega búið að rugla þessu saman og mönnum finnist að hér sé bara færiband þar sem eigi að afgreiða það sem forsrn., öðrum ráðuneytum eða framkvæmdarvaldinu sýnist og að einungis eigi eftir að færa hnappinn upp í gamla tukthúsið. En hér liggur valdið og þess vegna á Alþingi að senda skilaboð til framkvæmdarvaldsins sem ekki misskiljast.