Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 11:06:06 (2780)

2001-12-08 11:06:06# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[11:06]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég mundi fara varlega í það í sporum hæstv. forsrh. að vera að tala um og bera saman kaupmátt nú og einhvern tímann áður, einfaldlega vegna þess, eins og ég var að vitna til, að sú launahækkun sem var samið um í síðustu kjarasamningum er löngu horfin, og það er vegna þess að ríkisstjórnin hefur glutrað niður allri stjórn á efnahagsmálum. Það sem við stöndum frammi fyrir nú er að verðlagshækkunin hefur verið svo mikil að kjarasamningar eru í uppnámi.

Það er auðvitað bara barnaskapur að vera að bera saman stöðuna 1991 og þá sem hefur verið 2--3 síðustu árin með þeirri uppsveiflu sem hefur verið í efnahagslífinu. Auðvitað voru miklu meiri þrengingar í ríkisfjármálum árið 1991 heldur en núna. Mér finnst það í takt við það sem þessi flokkur stendur fyrir, Sjálfstfl., að forsrh. skuli hafa geð í sér að standa hér og verja tryggingafélögin sem hafa verið að níðast á bifreiðaeigendum með hækkunum á lögboðnum tryggingum langt umfram það sem skaðabótalögin gáfu tilefni til. Svo stendur hann hér og talar um skattamál og skattalækkanir --- allir vita hvernig skattalækkanirnar voru 1997. Fyrst og fremst þeir sem höfðu nokkuð betri tekjur fengu skattalækkanir, og á kostnað hverra, herra forseti? Á kostnað lægst launaða fólksins sem er með tekjur undir 90 þús. kr. þar sem skattleysismörkin höfðu verið fryst. Það er fólk sem er með tekjur undir 90 þús. kr., lífeyrisþegar og láglaunafólk, sem greiðir einn milljarð í ríkissjóð og til sveitarfélaganna í skatt á ári á sama tíma og verið er að lækka skatta á stóreignafólki og stórfyrirtækjum langt undir það sem eðlilegt er. Ég er ekki hissa á því, herra forseti, þó að forsrh. líði illa í ræðustólnum.