Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 11:28:35 (2782)

2001-12-08 11:28:35# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[11:28]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er tvennt sem ég vildi mega nefna. Hv. þm. sagði að þetta mál, bandormurinn, væri sérstök yfirlýsing um það af minni hálfu og ríkisstjórnarinnar, skýr og ótvíræð, að efnahagslífið væri brostið. Því fer auðvitað fjarri. Ef efnahagslífið væri brostið, ef menn væru að horfa framan í kreppu eins og talað er um, þá væru menn ekki að slást fyrir því með heilmiklum erfiðleikum að sjá til þess að ríkissjóður væri rekinn með afgangi. Ef efnahagslífið væri brostið, ef menn sæju framan í mikla kreppu, þá væri líklegra að menn hefðu tekið þá ákvörðun að reka ríkissjóð með töluverðum halla til að mæta þeirri staðreynd ef hún lægi á borðinu. Sú staðreynd að menn eru að berjast um og vinna að því að tryggja að ríkissjóður sé rekinn með afgangi segir einmitt að við teljum okkur vera að komast í gegnum þá niðursveiflu sem orðin var og sem að sumu leyti var nauðsynleg, eins og kom fram í upphafsræðu minni.

Það er annað atriði sem vakti athygli mína. Hv. þm. sagði að hann undraðist það að menn væru að baka sér óvinsældir og hafa svo svona lítið upp úr krafsinu. Þá skildi ég þetta með bifreiðagjaldið sem hv. þm. tók þátt í að hækka um 50%. Þeir hafa setið þarna og sagt: Það verður svo óvinsælt að hækka þetta um 10%, við verðum óvinsælir og höfum lítið upp úr krafsinu, við skulum fara upp í 50%, hafa verulega mikið upp úr krafsinu. Þá kom fram skýringin og ég er hv. þm. afskaplega þakklátur fyrir að koma með þá skýringu. Ég var að velta því fyrir mér af hverju þeir fóru svona rosalega harkalega að almenningi á sinni tíð þegar þeir hækkuðu þetta gjald um 50%.