Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 15:02:32 (2839)

2001-12-08 15:02:32# 127. lþ. 47.2 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[15:02]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Breyting á hátekjuskatti rýrir tekjur ríkissjóðs um 600 millj. kr. á ári en að sama skapi bætir þessi breyting hag tekjuhæsta fólksins, þeirra sem búa við skást kjörin í landinu um þessar sömu 600 millj. kr. Þetta er lítill hluti þjóðarinnar sem fær að jafnaði meðgjöf upp á 40 þús. kr. á ári, sumir minna, aðrir meira. Hverjir niðurgreiða þessa meðgjöf? Það er lægst launaða fólkið. Það eru öryrkjarnir. Því að í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins er þetta fólk nú skattlagt. Það greiðir í ríkissjóð 70 þús. kr. á ári til þess m.a. að fjármagna þessar siðlausu skattkerfisbreytingar ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í.) Já, þetta hét siðleysi og það heitir enn siðleysi.