Fjárlög 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 15:45:49 (2857)

2001-12-08 15:45:49# 127. lþ. 47.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, PHB (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[15:45]

Pétur H. Blöndal (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tel mjög jákvætt að fjárlögin séu afgreidd með afgangi. Jafnvel fyrir sölu eigna. Það er mjög mikilvægt teikn til atvinnulífsins og til erlendra viðskiptavina þess og þjóðarinnar allrar.

Ég hef gagnrýnt nokkuð í umræðum þann eiginleika þessa frv. að fjalla mikið um einstakar framkvæmdir. Ég tel að það sé verkefni framkvæmdarvaldsins og ég hef líka gagnrýnt það að Alþingi semji ekki lög og það séu óhrein skipti á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. En þetta er frv. ríkisstjórnarinnar og ég styð hana. Hún hefur gert mjög margt gott. Atvinnuleysið er nánast núll hér á landi, einsdæmi í heiminum. Laun hafa hækkað sem hvergi annars staðar og nú stendur til að lækka skatta þannig að ég get ekki annað en stutt fjárlagafrv. þessarar ríkisstjórnar. Við höfum auk þess lifað eitt lengasta hagvaxtartímabil og þó að núna dragi eitthvað úr hagvextinum, þá er sú lægð miklu minni en oft áður. Mér finnst mjög bjart fram undan og þetta frv. er gott og ríkisstjórnin hefur skilað góðum verkum. Ég segi já við þessu frv.