Ferill 489. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 774  —  489. mál.




Frumvarp til laga



um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu.
    Lögin gilda ekki um rafræna þjónustu sem snertir skattamálefni, vernd persónuupplýsinga, ólögmætt samráð eða samstilltar aðgerðir fyrirtækja, hagsmunagæslu lögmanna fyrir dómstólum, fjárhættustarfsemi sem felst í því að leggja fram fé í áhættuleikjum og starfsemi lögbókenda að því marki sem í henni felst beiting opinbers valds.
    Viðskiptaráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum.

2. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Rafræn þjónusta: Þjónusta sem almennt er veitt gegn greiðslu, úr fjarlægð, með rafrænum hætti að beiðni þjónustuþega.
     2.      Þjónustuveitandi: Einstaklingur eða lögpersóna sem lætur í té rafræna þjónustu.
     3.      Þjónustuþegi: Einstaklingur eða lögpersóna sem í atvinnuskyni eða í öðrum tilgangi nýtir sér rafræna þjónustu.

II. KAFLI
Regla upprunalands.
3. gr.
Meginregla.

    Rafræn þjónusta sem þjónustuveitendur með staðfestu á Íslandi veita skal vera í samræmi við íslensk lög um stofnun og starfrækslu þjónustunnar.
    Engin höft skulu vera á frelsi þjónustuveitanda með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu til að veita þjónustu hér á landi að því er varðar lagalegar kröfur um stofnun og starfrækslu þjónustunnar.
    Þjónustuveitandi telst hafa staðfestu í tilteknu ríki ef hann stundar þar virka atvinnustarfsemi ótímabundið í fastri starfsstöð.

4. gr.
Almennar undantekningar frá meginreglu.

    Ákvæði 3. gr. gilda ekki um eftirfarandi:
     1.      rétt aðila til að semja um hvaða lög gildi um samninga þeirra,
     2.      samningsskyldur í tengslum við neytendasamninga,
     3.      formlegt gildi samninga sem stofna eða yfirfæra rétt yfir fasteignum, þegar slíkir samningar eru háðir ófrávíkjanlegum formkröfum samkvæmt lögum þess ríkis þar sem fasteignin er,
     4.      höfundarétt og skyld réttindi,
     5.      að hvaða marki óumbeðnar viðskiptaorðsendingar í tölvupósti eru leyfilegar,
     6.      útgáfu rafeyris af hálfu fyrirtækja sem veitt hefur verið undanþága skv. 8. gr. tilskipunar 2000/46/EBE,
     7.      markaðssetningu bréfa í verðbréfasjóðum skv. 44. gr. tilskipunar 1985/611/EB, og
     8.      staðfesturétt og rétt til að veita tryggingaþjónustu samkvæmt tilskipun 92/49/EBE, tilskipun 92/96/EBE, tilskipun 88/357/EBE og tilskipun 90/619/EBE.


5. gr.
Einstakar undantekningar frá meginreglu.

    Stjórnvöld geta í einstökum tilfellum vikið frá ákvæðum 2. mgr. 3. gr. og takmarkað frjálst flæði rafrænnar þjónustu ef takmörkun er nauðsynleg til verndar:
     1.      almennu siðferði, allsherjarreglu, almannaöryggi,
     2.      lífi og heilsu manna, eða
     3.      neytendum.
    Takmarkanir skv. 1. mgr. mega því aðeins beinast að þjónustuveitanda að hann brjóti gegn þeim verndarhagsmunum sem þar eru nefndir eða að veruleg hætta sé á að hann muni brjóta gegn þeim. Takmarkanirnar skulu ekki ganga lengra en nauðsyn ber til.
    Ekki er heimilt að grípa til sérstakra aðgerða skv. 1. mgr. gegn einstökum þjónustuveitendum nema aðildarríki þar sem þjónustuveitandi hefur staðfestu hafi vanrækt, þrátt fyrir beiðni íslenskra stjórnvalda, að grípa til aðgerða gegn brotum eða að úrræðin hafi verið ófullnægjandi. Tilkynna skal Eftirlitsstofnun EFTA og því ríki þar sem umræddur þjónustuveitandi hefur staðfestu um fyrirhugaðar aðgerðir. Þetta á þó ekki við um lögbann eða rannsókn sakamáls.
    Í áríðandi málum geta stjórnvöld vikið frá ákvæðum 3. mgr. Í þeim tilvikum skal tilkynna um aðgerðirnar svo skjótt sem kostur er til Eftirlitsstofnunar EFTA og til þess aðildarríkis þar sem þjónustuveitandi hefur staðfestu. Í tilkynningunni skal gefið til kynna hvers vegna málið er talið áríðandi.

III. KAFLI
Upplýsingaskylda.
6. gr.
Almennar upplýsingar.

    Þjónustuveitandi skal veita greiðan og samfelldan aðgang að eftirfarandi upplýsingum um sig:
     1.      nafni,
     2.      heimilisfangi þar sem hann hefur staðfestu,
     3.      kennitölu,
     4.      póstfangi, netfangi og öðrum þeim upplýsingum sem gera mögulegt að hafa samband við hann á greiðan hátt,
     5.      virðisaukaskattsnúmeri þjónustuveitanda,
     6.      þeirri opinberri skrá sem hann er skráður hjá, svo sem hlutafélagaskrá, samvinnufélagaskrá eða firmaskrá, og
     7.      leyfi og eftirlitsaðila ef starfsemi hans er háð leyfum.
    Ef um lögverndað starf er að ræða skal þjónustuveitandi einnig tilgreina:
     1.      starfsheiti og í hvaða landi það er veitt,
     2.      samtök sem þjónustuveitandi eða fyrirsvarsmaður hans er skráður hjá, og
     3.      gildandi starfs- eða siðareglur og með hvaða hætti er unnt að nálgast þær.
    Ef verð er gefið upp í tengslum við rafræna þjónustu skal það gert með skýrum og ótvíræðum hætti. Auk þess skal sérstaklega tekið fram hvort skattar og afhendingarkostnaður felist í verði.

7. gr.
Upplýsingar í tengslum við markaðssetningu.

    Þjónustuveitandi skal tryggja að upplýsingar í tengslum við markaðssetningu, sem er hluti af eða myndar rafræna þjónustu, séu settar fram með þeim hætti að auðvelt sé að bera kennsl á þann einstakling eða lögpersónu sem stendur að baki markaðssetningunni.
    Kynning á tilboði, keppni og leik skal vera sett fram á skýran og ótvíræðan hátt. Sama gildir um skilyrði sem fullnægja þarf til að geta tekið tilboði eða tekið þátt í keppni eða leik.

IV. KAFLI
Rafrænir samningar.
8. gr.
Rafrænir samningar jafngildir skriflegum.

    Ef gerð er krafa um skriflegan samning í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða með öðrum hætti er fullnægjandi að mæta þeirri kröfu með rafrænum samningi, enda sé samningurinn aðgengilegur báðum aðilum og unnt að varðveita hann.
    Ákvæði 1. mgr. gilda einnig um kröfur til skriflegra tilkynninga eða annarra aðgerða sem aðilar samnings þurfa að framkvæma í tengslum við samningssamband þeirra og samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða með öðrum hætti skulu vera skriflegar.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda ekki um samninga á sviði sifja- og erfðaréttar, stimpilskylda samninga og samninga sem stofna eða yfirfæra rétt yfir fasteignum, nema þegar um leigurétt er að ræða. Þá gilda þau ekki um þinglýsingar og lögbókandagerðir.

9. gr.
Upplýsingaskylda við pöntun.

    Þjónustuveitandi skal veita eftirfarandi upplýsingar með skýrum og ótvíræðum hætti áður en þjónustuþegi leggur inn pöntun:
     1.      hvaða tæknileg skref beri að taka til þess að ljúka samningsgerð,
     2.      hvort þjónustuveitandinn varðveiti gerðan samning,
     3.      hvort samningur verði aðgengilegur,
     4.      um tæknilegar leiðir til þess að finna og leiðrétta innsláttarvillur áður en pöntun er gerð,
     5.      um þau tungumál sem unnt er að gera samninginn á, og
     6.      hvaða siðareglum hann fylgi og hvernig unnt sé að nálgast þær á rafrænu formi.
    Ákvæði 1. mgr. eru frávíkjanleg ef enginn aðili samningsins er neytandi. Þau skulu ekki gilda um samninga sem eru einvörðungu gerðir með því að skiptast á tölvupóstssendingum eða með öðrum sambærilegum hætti.
    Almennir samningsskilmálar og almenn skilyrði skulu látin í té með þeim hætti að þjónustuþegi geti varðveitt þau og kallað þau fram.

10. gr.
Staðfesting á móttöku pöntunar.

    Þjónustuveitandi skal staðfesta móttöku pöntunar frá þjónustuþega með rafrænum hætti án tafar.
    Pöntun og staðfesting telst móttekin þegar aðilarnir, sem þeim er beint til, hafa aðgang að þeim.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. eru frávíkjanleg ef enginn aðili samningsins er neytandi. Ákvæði 1. mgr. skulu ekki gilda um samninga sem eru einvörðungu gerðir með því að skiptast á tölvupóstssendingum eða með öðrum sambærilegum hætti.


11. gr.
Aðrar skyldur áður en pöntun er gerð.

    Þjónustuveitandi skal gefa þjónustuþega kost á skilvirkum og aðgengilegum tæknilegum leiðum til þess að finna og leiðrétta innsláttarvillur áður en pöntun er gerð.
    Ákvæði 1. mgr. eru frávíkjanleg ef enginn aðili samningsins er neytandi. Þau skulu ekki gilda um samninga sem eru einvörðungu gerðir með því að skiptast á tölvupóstssendingum eða með öðrum sambærilegum hætti.

V. KAFLI
Takmörkun ábyrgðar milligönguaðila.
12. gr.
Takmörkun ábyrgðar vegna miðlunar.

    Þjónustuveitandi sem miðlar gögnum sem þjónustuþegi lætur í té um fjarskiptanet eða veitir aðgang að fjarskiptaneti ber ekki ábyrgð vegna miðlunar gagnanna að því tilskildu að þjónustuveitandinn:
     1.      eigi ekki frumkvæði að miðluninni,
     2.      velji ekki viðtakanda þeirra gagna sem er miðlað, og
     3.      velji hvorki né breyti þeim gögnum sem er miðlað.
    Ákvæði 1. mgr. gilda um sjálfvirka, millistigs- og skammtímageymslu þeirra gagna sem eru flutt að því tilskildu að:
     1.      geymslan sé óhjákvæmileg vegna miðlunar, og
     2.      gögnin séu ekki geymd lengur en nauðsynlegt er vegna miðlunar.

13. gr.
Takmörkun ábyrgðar vegna skyndivistunar.

    Þjónustuveitandi sem miðlar gögnum sem þjónustuþegi lætur í té um fjarskiptanet eða veitir aðgang að fjarskiptaneti ber ekki ábyrgð á sjálfvirkri, millistigs- og skammtímageymslu þeirra gagna, sem er eingöngu gerð í þeim tilgangi að auka skilvirkni við miðlun til annarra þjónustuþega, að því tilskildu að þjónustuveitandinn:
     1.      breyti ekki gögnunum,
     2.      fullnægi skilyrðum um aðgang að gögnunum,
     3.      fari eftir viðurkenndum reglum í atvinnugreininni um uppfærslu gagnanna, og
     4.      grípi ekki inn í löglega notkun viðurkenndrar tækni í atvinnugreininni sem notuð er til að komast yfir upplýsingar um notkun gagnanna.
    Takmörkun ábyrgðar skv. 1. mgr. er háð því að þjónustuveitandi fjarlægi eða hindri aðgang að gögnunum um leið og hann hefur fengið:
     1.      rökstudda vitneskju um að dómstóll eða stjórnvald hafi fyrirskipað brottfellingu eða hindrun aðgangs að gögnunum, eða
     2.      rökstudda vitneskju þess efnis að gögnin hafi verið fjarlægð úr fjarskiptaneti við upptök miðlunar eða að hindraður hafi verið aðgangur að þeim þar.


14. gr.
Takmörkun ábyrgðar vegna hýsingar.

    Þjónustuveitandi sem hýsir gögn sem látin eru í té af þjónustuþega ber ekki ábyrgð á þeim að því tilskildu að hann fjarlægi þau eða hindri aðgang að þeim án tafar eftir að hann hefur fengið:
     1.      vitneskju um að sýslumaður hafi lagt lögbann við hýsingu gagnanna eða dómur hafi fallið um brottfellingu þeirra eða hindrun aðgangs að þeim,
     2.      tilkynningu skv. 15. gr., ef um meint brot gegn ákvæðum höfundalaga er að ræða, eða
     3.      vitneskju um gögn sem innihalda barnaklám.
    Ákvæði 1. mgr. um takmörkun ábyrgðar gildir ekki þegar þjónustuþegi kemur fram í umboði eða undir stjórn þjónustuveitanda.

15. gr.
Tilkynning til þjónustuveitanda.

    Tilkynning skv. 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. skal innihalda:
     1.      nafn sendanda, heimilisfang og frekari upplýsingar sem gera þjónustuveitanda kleift að komast í samband við sendanda,
     2.      nafn rétthafa, heimilisfang og frekari upplýsingar sem gera þjónustuveitanda kleift að komast í samband við rétthafa,
     3.      tilgreiningu og staðsetningu þeirra gagna sem krafist er að felld verði brott eða komið í veg fyrir aðgang að,
     4.      tilgreiningu hugverks eða listflutnings sem er grundvöllur kröfu,
     5.      yfirlýsingu um að upplýsingar í tilkynningu séu réttar,
     6.      yfirlýsingu um að sendandi sé rétthafi eða hafi umboð frá rétthafa, og
     7.      undirskrift sendanda.
    Séu verulegir annmarkar á tilkynningu skv. 1. mgr. ber þjónustuveitanda ekki að bregðast við henni. Ef annmarkar tilkynningar eru einungis minni háttar skal þjónustuveitandi án tafar gefa sendanda tækifæri til að bæta þar úr. Verði sendandi ekki við þeim tilmælum hefur tilkynningin ekki áhrif á ábyrgð þjónustuveitanda.

16. gr.
Tilkynning til þjónustuþega.

    Þjónustuveitandi skal tilkynna þjónustuþega um brottfellingu gagna eða hindrun aðgangs að gögnum í samræmi við 14. gr. um leið og hún fer fram og senda honum afrit tilkynningar skv. 15. gr. Skal hann þá einnig tilkynna þjónustuþega um rétt hans til að senda gagntilkynningu skv. 17. gr.

17. gr.
Aðgangur veittur að gögnum á ný.

    Telji þjónustuþegi brottfellingu eða hindrun aðgangs að gögnum ekki eiga við rök að styðjast er honum unnt að krefjast þess af þjónustuveitanda að veittur verði aðgangur að gögnum á ný. Slíkt skal gert með gagntilkynningu sem geymir:
     1.      nafn þjónustuþega, heimilisfang og frekari upplýsingar sem gera kleift að komast í samband við hann,
     2.      málavexti og rök fyrir kröfum þjónustuþega,
     3.      tilgreiningu gagna sem krafist er að veittur verður aðgangur að og staðsetningu þeirra, og
     4.      undirskrift þjónustuþega.
    Fái þjónustuveitandi gagntilkynningu, sem ekki eru verulegir annmarkar á, skal hann tilkynna sendanda tilkynningar skv. 15. gr. um kröfuna án tafar og senda honum afrit gagntilkynningar. Skal honum einnig tilkynnt að aðgangur verði veittur að gögnunum á ný, nema fram komi upplýsingar innan tveggja vikna um höfðun dómsmáls vegna málsins. Berist þjónustuveitanda ekki vitneskja um höfðun dómsmáls vegna málsins innan tveggja vikna frá sendingu tilkynningar samkvæmt þessari málsgrein skal hann verða við kröfu um aðgang að gögnum á ný án tafar.
    Séu verulegir annmarkar á kröfu skv. 1. mgr. ber þjónustuveitanda ekki að bregðast við henni. Ef annmarkar kröfu eru einungis minni háttar skal þjónustuveitandi gefa sendanda tækifæri til að bæta þar úr.

18. gr.
Skaðabótaábyrgð.

    Nú kemst dómstóll að þeirri niðurstöðu að brottfelling gagna eða hindrun aðgangs að þeim hafi ekki verið réttmæt og skal þá sá sem fór fram á brottfellingu eða hindrun bæta þann miska og það fjártjón, þar á meðal spjöll á lánstrausti og viðskiptahagsmunum, sem telja má að brottfellingin eða hindrunin hafi valdið. Sama gildir gagnvart þeim sem krafist hefur að aðgangur verði veittur að gögnum á ný ef dómstóll kemst að þeirri niðurstöðu að sú aðgerð hafi ekki verið réttmæt. Heimilt er að dæma skaðabætur eftir álitum ef ljóst þykir að fjárhagslegt tjón hafi orðið en ekki er unnt að sanna fjárhæð þess.

VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.
19. gr.
Eftirlit.

    Samkeppnisstofnun hefur eftirlit með að farið sé eftir 6.–7. gr. og 9.–11. gr. laga þessara. Ef brotið er gegn ákvæðum þessum gilda ákvæði samkeppnislaga um úrræði samkeppnisyfirvalda, stjórnvaldssektir og málsmeðferð.

20. gr.
Tengiliður.

    Viðskiptaráðuneytið skal vera tengiliður vegna samstarfs við önnur aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu um rafræn viðskipti. Þá skal viðskiptaráðuneytið vera tengiliður þar sem þjónustuþegar og þjónustuveitendur geta aflað sér almennra upplýsinga um rafræna þjónustu, þar á meðal um samningsréttindi og samningsskyldur, úrræði í deilumálum og upplýsingar um stjórnvöld, samtök eða stofnanir sem geta veitt frekari upplýsingar. Ráðuneytið getur falið öðrum aðilum að vera tengiliður samkvæmt ákvæði þessu eftir nánari reglum sem ráðherra setur.


21. gr.
Innleiðing.

    Lög þessi eru sett með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 91/2000 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og til þess að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2000/31/EB frá 8. júní 2000 um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum („tilskipun um rafræn viðskipti“). Lög þessi hafa verið tilkynnt í samræmi við ákvæði tilskipunar 98/34/EB sem setur reglur um tilhögun upplýsingaskipta vegna tæknilegra reglna.

22. gr.


Gildistaka.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

23. gr.
Breyting á lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000.

    Við 2. mgr. 28. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef markpóstur er sendur með rafrænum hætti er skylt að fram komi á ótvíræðan hátt um leið og hann er móttekinn að um slíkan póst sé að ræða.

24. gr.
Breyting á læknalögum, nr. 53/1988.

    1. mgr. 17. gr. laganna orðast svo:
    Lækni er einungis heimilt að auglýsa læknastarfsemi sína með efnislegum og látlausum auglýsingum þegar hann hefur störf eða breyting verður á aðsetri eða viðtalstíma. Lækni er heimilt að auðkenna sig með nafni, sérgrein, aðsetri, síma og viðtalstíma á dyraspjöldum, nafnspjöldum og lyfseðlum.

25. gr.
Breyting á lögum um tannlækningar, nr. 38/1985.

    11. gr. laganna orðast svo:
    Tannlæknum eru óheimilar hvers konar auglýsingar um starfsemi sína sem tannlæknar. Við opnun tannlæknastofu má þó auglýsa það með látlausum auglýsingum. Tannlæknum og stéttarfélagi þeirra ber að vinna gegn því að eftir þeim séu birt ummæli eða samtöl eða um þá ritaðar greinar í blöð eða tímarit í auglýsingaskyni. Verði ekki komið í veg fyrir það ber þeim eða stéttarfélagi þeirra jafnskjótt að leiðrétta það sem ofmælt kann að hafa verið.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Endurskoða skal ákvæði 19. gr. laga þessara þegar fimm ár eru liðin frá gildistöku þeirra með hliðsjón af reynslu af eftirlitinu og umfangi þess.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.

    Hinn 29. maí 2000 skipaði viðskiptaráðherra fimm manna nefnd til að vinna að undirbúningi innleiðingar tilskipunar um rafræn viðskipti í íslenskan rétt. Formaður nefndarinnar var Jónína S. Lárusdóttir, deildarsérfræðingur í viðskiptaráðuneyti, en aðrir nefndarmenn voru Benedikt Bogason, þá skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Einar Hannesson, lögfræðingur í samgönguráðuneyti, Hafsteinn S. Hafsteinsson, deildarsérfræðingur í fjármálaráðuneyti, og Þórunn J. Hafstein, þá skrifstofustjóri í menntamálaráðuneyti. Nefndin lauk störfum hinn 21. janúar 2002 og afhenti viðskiptaráðherra tillögur sínar að frumvarpi til laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Byggist frumvarp þetta á tillögum nefndarinnar.
    Einnig tók viðskiptaráðuneytið þátt í norrænu samstarfi við innleiðingu tilskipunarinnar. Miðaði það samstarf að því að stuðla að samræmingu norrænnar löggjafar á þessu sviði og miðlunar upplýsinga á milli sérfræðinga.
    Hinn 27. október 2000 tók sameiginlega EES-nefndin ákvörðun nr. 91/2000 um að breyta XI. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 31/2000 frá 8. júní 2000, um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum („tilskipun um rafræn viðskipti“). Ákvörðunin var tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Samkvæmt 103. gr. EES-samningsins hefur Ísland sex mánuði frá framangreindri ákvörðun til að tilkynna um afléttingu hins stjórnskipulega fyrirvara. Með þingsályktun, dags. 27. mars 2001, ályktaði Alþingi að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Skv. 22. gr. tilskipunarinnar skulu nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til innleiðingar á tilskipuninni hafa verið samþykkt fyrir 17. janúar 2002.
     Í framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið, sem gefin var út í október 1996, voru skilgreind þrjú forgangsverkefni sem talin eru mikilvægur þáttur í því að stefnan nái fram að ganga. Verkefnin voru átak á sviði menntamála, fullnægjandi flutningsgeta og flutningsöryggi fjarskiptakerfis. Jafnframt var lögð áhersla á að útboðsstefnu ríkisins yrði fylgt við kaup hugbúnaðar. Ákveðið var að forsætisráðuneyti færi með yfirstjórn verkefnisins og bæri ábyrgð á verkaskiptingu og samræmingu á störfum einstakra ráðuneyta, mati á árangri og heildarendurskoðun stefnunnar. Í framhaldi af því var skipuð verkefnisstjórn um upplýsingasamfélag sem í sitja fulltrúar fimm ráðuneyta. Í aprílmánuði á árinu 2000 gerði verkefnisstjórn um upplýsingasamfélag það að tillögu sinni að stjórnvöld gerðu rafræn viðskipti og rafræna stjórnsýslu að fjórða forgangsverkefni sínu við framkvæmd stefnunnar um upplýsingasamfélagið. Í vinnuáætlun verkefnisstjórnar kom fram að setja þyrfti lagaákvæði um efnisreglur tilskipunar um rafræn viðskipti. Tillaga verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélag var lögð fyrir ríkisstjórn í apríl 2000. Er frumvarp þetta því liður í að fylgja eftir framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið.

II. Meginefni tilskipunar um rafræn viðskipti.

1.     Umfang og markmið.
    Meginmarkmið tilskipunarinnar er að tryggja að um rafræna þjónustu (e. information society service) gildi meginregla Evrópusambandsins um frjálst flæði þjónustu, þ.e. að unnt verði að veita þjónustuna á öllu Evrópska efnahagssvæðinu ef hún fullnægir lagaákvæðum upprunalands.
    Ákvæði tilskipunar um rafræn viðskipti bætast við þau ákvæði sem hafa áhrif á lagaumhverfi rafrænnar þjónustu. Tilskipunin hefur þannig ekki að geyma heildstæða löggjöf sem gildir um rafræna þjónustu, heldur ákveðin lágmarksákvæði sem þeir sem hyggjast veita þjónustuna þurfa að fullnægja.
    Rafræn þjónusta er skilgreind í tilskipuninni sem þjónusta sem almennt er veitt gegn greiðslu, úr fjarlægð, með rafrænum búnaði, fyrir vinnslu og geymslu gagna og að beiðni þess einstaklings sem þiggur þjónustuna. Hún tekur bæði til rafrænnar þjónustu við neytendur og þjónustu sem veitt er á milli þeirra sem stunda viðskipti. Þá tekur tilskipunin einnig til rafrænnar þjónustu sem veitt er án endurgjalds, t.d. þjónustu sem fjármögnuð er með auglýsingum eða styrkjum.

2.     Hinn innri markaður.
    Kjarni tilskipunar um rafræn viðskipti felst í 3. gr. hennar um reglu upprunalands. Hún felur bæði í sér ákvæði um eftirlit upprunalands og reglu um gagnkvæma viðurkenningu.
    Ákvæði um eftirlit upprunalands felur í sér að stjórnvöld þess lands þar sem veitandi rafrænnar þjónustu hefur staðfestu skulu hafa eftirlit með að hin rafræna þjónusta sé í samræmi við lög. Sú regla gildir óháð því hvort þjónustunni er beint til annarra landa að hluta til eða að öllu leyti.
    Grunnregla um gagnkvæma viðurkenningu felur það í sér að stjórnvöld í einu ríki á Evrópska efnahagssvæðinu geti ekki hindrað að rafræn þjónusta sé veitt þar, enda sé veitandi þjónustunnar með staðfestu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Nokkrar undantekningar eru frá upprunalandsreglu 3. gr. tilskipunarinnar. Taka þær m.a. til neytendasamninga, höfundaréttar og grannréttinda, sbr. viðauka við tilskipunina. Þá kveður tilskipunin á um að í sérstökum undantekningartilfellum geti aðildarríki sett takmarkanir á veitingu rafrænnar þjónustu frá öðru aðildarríki sé það nauðsynlegt til að vernda mikilvæga almannahagsmuni, svo sem í baráttu gegn kynþáttahatri.

3.     Þjónustuveitendur.
    Í tilskipuninni er tilgreint að staðfesta þjónustuveitanda teljist sá staður þar sem þjónustan er starfrækt í raun í gegnum fasta atvinnustöð, óháð því hvar vefsíða er hýst eða netþjónn staðsettur. Slíkri tilgreiningu er ætlað að eyða óvissu og tryggja að þjónustuveitendum verði ekki unnt að komast hjá eftirliti í því aðildarríki þar sem starfræksla þeirra fer í raun fram.
Þá felur tilskipunin í sér að óheimilt verður að gera starfrækslu rafrænnar þjónustu sem slíka háða leyfisveitingu, umfram það sem leiðir af almennum reglum um þá þjónustu sem veita á. Sem dæmi má nefna að ekki má gera starfrækslu lögmanna á netinu háða öðrum leyfum en þeim sem almennt þarf til að stunda lögmennsku.
    Loks kveður tilskipunin á um nokkrar lágmarksreglur um upplýsingaskyldu þjónustuveitanda. Annars vegar er þeim gert skylt að veita greiðan og samfelldan aðgang að grunnupplýsingum um nafn sitt, heimilisfang o.fl. Hins vegar er þeim gert skylt að veita nánari upplýsingar ef þjónustuþegi hyggst leggja inn pöntun í tengslum við rafræna þjónustu.

4.     Rafrænir samningar.
    Tilskipunin leggur skyldur á aðildarríkin að tryggja að réttarkerfi þeirra heimili að samningar séu gerðir með rafrænum hætti, með fáum undantekningum sem taka m.a. til samninga á sviði sifja- og erfðaréttar, samninga sem stofna eða yfirfæra rétt yfir fasteignum, nema þegar um leigurétt er að ræða og samninga sem lögum samkvæmt krefjast þátttöku dómstóla, stjórnvalda eða annarra sem fara með opinbert vald.

5.     Ábyrgð milligönguaðila.
    Til að eyða lagalegri óvissu og til að tryggja samræmi á milli aðildarríkja er kveðið á um takmörkun á ábyrgð þjónustuveitenda sem eru milligönguaðilar, þ.e. þeirra sem veita aðgang að fjarskiptaneti, miðla gögnum um fjarskiptanet eða hýsa gögn sem þjónustuþegi lætur í té. Kveðið er á um þá meginreglu að milligönguaðilar skuli ekki bera ábyrgð á innihaldi þeirra gagna sem þeir hýsa eða miðla, nema að fullnægðum ákveðnum skilyrðum, svo sem vitneskju um gögnin.

6.     Viðskiptaorðsendingar.
    Í tilskipuninni er hugtakið viðskiptaorðsending skilgreint, en það nær m.a. yfir auglýsingar og beina markaðssetningu. Auk þess er kveðið á um tilteknar kröfur við sendingu slíkra orðsendinga til að efla traust neytenda og tryggja að þeir hafi upplýsingar um þá sem veita þjónustu.
    Ef aðildarríki leyfir óumbeðnar viðskiptaorðsendingar skal það tryggja að slíkar upplýsingar séu ætíð auðgreinanlegar um leið og þær koma til viðtakanda. Þá eru þjónustuveitendur sem senda slíkar upplýsingar skyldugir til að kanna reglulega úrsagnarskrá þar sem menn sem ekki hafa áhuga á að fá slíkan póst geta skráð sig.
    Einnig er kveðið á um að lögvernduðum starfsgreinum skuli heimilt að veita þjónustu á rafrænu formi og að lagareglur um auglýsingar starfsgreinanna skuli ekki koma í veg fyrir að viðkomandi starfsgreinar geti starfrækt vefsíður.

7.     Innleiðing.
    Tilskipunin miðar að því að styrkja úrræði til að ná fram rétti á sviði rafrænna viðskipta. Þannig er t.d. hvatt til að settar verði siðareglur á vettvangi Evrópusambandsins og til samstarfs á milli aðildarríkja við framkvæmd reglnanna.
    Tilskipunin fjallar hvorki um breytingar á Brussel-samningnum um varnarþing, viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum (sbr. Lúganósamninginn að því er varðar EES-ríki), né á Rómarsamningnum að því er varðar lagaval í neytendasamningum.

III. Meginefni frumvarpsins.

1.     Almennt.
    Tilskipun um rafræn viðskipti hefur rúmt gildissvið og snerta ákvæði hennar mismunandi réttarsvið. Innleiðing tilskipunarinnar með breytingum laga á ýmsum sviðum þjóðfélagsins hefði því verið mjög umfangsmikil og óhagkvæm. Í ljósi þessa og þar sem önnur Norðurlönd hafa ákveðið að gera tillögu að innleiðingu tilskipunarinnar í eina löggjöf er lagt til að sama leið verið farin hér á landi.
    Lagt er til að frumvarpið beri heitið frumvarp til laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Mikilvægt þótti að hugtakið rafræn viðskipti kæmi fram í titli frumvarpsins þar sem tilskipun sú sem það styðst við er jafnan nefnd tilskipun um rafræn viðskipti. Ljóst er þó að rafræn viðskipti er undirhugtak rafrænnar þjónustu.
    Í fyrsta kafla frumvarpsins eru almenn ákvæði um gildissvið frumvarpsins og orðskýringar. Annar kafli fjallar um reglu upprunalands og almennar og sérstakar undanþágur frá henni. Þá hefur þriðji kafli frumvarpsins að geyma almenn ákvæði um upplýsingaskyldu þjónustuveitenda. Fjórði kafli fjallar hins vegar um upplýsingaskyldu þjónustuveitanda í tengslum við pantanir og kveður á um aðrar skyldur þjónustuveitenda í tengslum við pantanir. Einnig hefur fjórði kafli frumvarpsins að geyma mikilsverða reglu frumvarpsins um að rafrænir samningar skuli vera jafngildir skriflegum. Í fimmta kafla frumvarpsins er kveðið á um takmörkun ábyrgðar þeirra þjónustuveitenda sem teljast milligönguaðilar. Loks eru í sjötta kafla ýmis ákvæði um afleiðingu brota og breytingar á lögum sem gera verður til að innleiða tilskipunina að fullu í íslenskan rétt.

2.     Gildissvið.
    Gildissvið frumvarpsins er ákvarðað með hliðsjón af tilskipun um rafræn viðskipti. Þannig tekur það til allra veitenda rafrænnar þjónustu sem hafa staðfestu hér á landi, óháð því hvort þjónustu þeirra er beint á íslenskan markað, markað innan EES-landa eða utan þeirra.
    Ef frumvarpið verður að lögum mun það einnig hafa áhrif á þjónustuveitendur með staðfestu í öðru landi sem er aðili að EES-samningnum þar sem kveðið er á um þá meginreglu í frumvarpinu að ekki megi takmarka frjálst flæði rafrænnar þjónustu á hinum innra markaði. Undantekningar eru frá þeirri meginreglu, sbr. 4. og 5. gr. frumvarpsins.
    Rafræn þjónusta er grunnhugtak í frumvarpinu og markar mjög gildissvið þess. Í samræmi við ákvæði tilskipunar um rafræn viðskipti er rafræn þjónusta skilgreind sem sú þjónusta sem almennt er veitt gegn greiðslu, úr fjarlægð, með rafrænum búnaði að beiðni þess einstaklings sem þiggur þjónustuna.
    Frumvarpið tekur ekki til þjónustu sem ekki telst rafræn þjónusta, t.d. vegna þess að hún telst almennt ekki veitt gegn greiðslu, ekki veitt með rafrænum búnaði eða ekki að beiðni þess einstaklings sem þiggur þjónustuna. Taka má sem dæmi að sé lausafjármunur boðinn til kaups á netinu til afhendingar með pósti fellur eingöngu sá hluti viðskiptanna sem fer fram á netinu undir gildissvið frumvarpsins. Vöruafhendingin sem slík fellur þannig utan gildissviðs frumvarpsins. Nánar verður fjallað um hugtakið rafræn þjónusta í kafla 3.1 hér að aftan.
    Þá tekur frumvarpið ekki til rafrænnar þjónustu sem snertir skattamálefni, vernd persónuupplýsinga, hringamyndanir, starfsemi lögbókanda, hagsmunagæslu lögmanna fyrir dómstólum og fjárhættustarfsemi sem felst í því að leggja fram fé í áhættuleikjum, sbr. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Það styðst við 5. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar.

3.     Orðskýringar.
3.1.     Rafræn þjónusta.
    Eins og áður er getið er rafræn þjónusta skilgreind sem sú þjónusta sem almennt er veitt gegn greiðslu, úr fjarlægð, með rafrænum búnaði að beiðni þess einstaklings sem þiggur þjónustuna.
    Í fyrsta lagi felur rafræn þjónusta í sér skilyrði um að þjónustan sé almennt veitt gegn greiðslu. Því fellur beinlínutengd sala vöru undir hugtakið. Hins vegar getur þjónusta sem ekki er veitt gegn endurgjaldi frá þjónustuþega fallið undir hugtakið ef hún felur í sér atvinnustarfsemi. Þjónusta sem felur í sér upplýsingagjöf sem fjármögnuð er með auglýsingum getur þannig fallið undir hugtakið. Einnig getur þjónusta sem felst í leit að gögnum eða aðgengi að þeim talist til rafrænnar þjónustu, jafnvel þótt sá sem biður um leitina eða aðgengið greiði ekki fyrir þjónustuna. Samkvæmt þessu telst eftirtalið til rafrænnar þjónustu, enda felur hún í sér atvinnustarfsemi: upplýsingaþjónusta á netinu, aðgangsþjónusta á netinu, flutningur gagna um netið, hýsing gagna, SMS-skilaboð, WAP-þjónusta og leitarþjónusta á netinu. Þá falla sala og auglýsingar á netinu undir hugtakið. Hins vegar mundu heimasíður einstaklinga sem birta einungis persónulegar myndir og upplýsingar ekki falla undir hugtakið.
    Í öðru lagi felur rafræn þjónusta í sér skilyrði að þjónustan sé veitt úr fjarlægð með rafrænum búnaði. Í því felst að þjónustuveitandi og þjónustuþegi mega ekki vera augliti til auglitis þegar þjónustan er veitt. Þjónusta sem veitt er á netinu og fellur undir rafræna þjónustu samkvæmt frumvarpinu er m.a. pöntun og kaup á farmiðum og þjónusta sem felst í læknisfræðilegri ráðgjöf á netinu. Þá telst þjónusta sem veitir möguleika á vistun forrita eða þátttöku í tölvuleikjum rafræn þjónusta samkvæmt frumvarpinu. Hins vegar fellur þjónusta sem felst í viðveru viðskiptamanns á ferðaskrifstofu, læknisrannsókn með rafrænum búnaði, aðgengi að tölvuspilum í spilasölum eða afhending tölvuforrita á disklingum eða geisladiskum ekki undir hugtakið rafræn þjónusta.
    Í þriðja lagi skal þjónustan vera veitt með rafrænum búnaði sem gerir það að verkum að vinnsla (þar með talin stafræn samþjöppun) og geymsla gagna geti farið fram við sendingu og móttöku þeirra. Þjónusta á netinu fellur því innan hugtaksins, auk WAP-sendinga, en ekki síma-, símbréfs- eða telexþjónusta. Lokuð gagnanet, svo sem heimabankar og hraðbankar, geta talist til rafrænnar þjónustu, t.d. þegar um er að ræða rafræna millifærslu fjármuna á milli tveggja bankareikninga. Hins vegar telst úttekt peninga úr hraðbanka sem slík ekki til rafrænnar þjónustu.
    Í fjórða lagi þarf þjónusta að vera veitt að beiðni þess einstaklings sem þiggur þjónustuna. Þannig er um rafræna þjónustu að ræða þegar þjónustuþegi fer inn á heimasíðu og fer fram á þjónustu með því að styðja á hnapp (e. icon). Hins vegar teljast venjulegar sjónvarps- eða útvarpssendingar til almennings ekki til rafrænnar þjónustu þar sem þær eru sendar út án tillits til hvort þjónustuþegi hafi óskað eftir því.
    Dæmi um þjónustu sem telst til rafrænnar þjónustu, þar sem hún er veitt að beiðni þjónustuþega, eru kvikmyndasýningar sem þjónustuþegi biður sérstaklega um (e. video on demand), heimasíður sem veita upplýsingar um sjónvarpsdagskrá og viðskiptaorðsendingar sem sendar eru í tölvupósti. Hins vegar teljast hvorki sjónvarps- né útvarpssendingar til rafrænnar þjónustu, jafnvel þótt unnt sé að nálgast þær á netinu, ef þjónustuþegi getur ekki ákveðið hvar og hvenær hann nýtur þjónustunnar.

3.2.     Þjónustuveitandi.
    Í frumvarpinu er þjónustuveitandi skilgreindur sem einstaklingur eða lögpersóna sem lætur í té rafræna þjónustu. Sem dæmi um þjónustuveitanda í skilningi frumvarpsins má nefna þá sem veita aðgang að netinu og þá sem veita þjónustu eða selja vöru á netinu.

3.3.     Þjónustuþegi.
    Þjónustuþegi er skilgreindur í frumvarpinu sem einstaklingur eða lögpersóna sem í atvinnuskyni eða í öðrum tilgangi nýtir sér rafræna þjónustu.
    Skilgreining hugtaksins þjónustuþegi nær til hvers kyns notkunar rafrænnar þjónustu, t.d. leitar upplýsinga á netinu í eigin þágu eða í atvinnuskyni.

4.     Regla upprunalands.
4.1.     Meginreglan.
    Kjarni tilskipunar um rafræn viðskipti felst í upprunalandsreglu 3. gr. hennar. Hún felur í sér ákvæði um að þjónustan skuli vera í samræmi við lög upprunalands að því er varðar þær kröfur sem gerðar eru að lögum um stofnun og starfrækslu þjónustunnar. Einnig felur hún í sér reglu um gagnkvæma viðurkenningu. Sem dæmi má nefna að regla upprunalands gerir það að verkum að íslensk stjórnvöld skuli hafa eftirlit með að stofnun og starfræksla þjónustuveitanda með staðfestu hér á landi sé í samræmi við íslensk lög. Sú regla gildir óháð því hvort þjónustunni er beint að hluta eða öllu leyti til annarra landa.
    Regla upprunalands gildir eingöngu að því er varðar þær kröfur sem gerðar eru að lögum um stofnun og starfrækslu þjónustunnar eða á „hinu samræmda sviði“, eins og það er nefnt í tilskipuninni (e. coordinated field). Kröfunum ber að fullnægja hvort sem þær eru almennar eða taka sérstaklega til rafrænnar þjónustu. Innan upprunalandsreglunnar falla t.d. kröfur um menntun, hæfi, leyfi eða tilkynningar sem gerðar eru þegar veitandi rafrænnar þjónustu hefur starfsemi sína. Kröfur sem falla innan upprunalandsreglunnar og gerðar eru við veitingu rafrænnar þjónustu eru t.d. kröfur um framferði þjónustuveitandans, kröfur um gæði eða innihald þjónustunnar, þar á meðal kröfur sem gilda um auglýsingar og samninga eða kröfur viðvíkjandi ábyrgð þjónustuveitandans.
    Utan upprunalandsreglunnar falla kröfur til þjónustu sem ekki telst rafræn þjónusta. Þannig falla kröfur sem gerðar eru til vöru utan upprunalandsreglunnar, svo sem öryggiskröfur eða kröfur til merkinga vöru. Einnig falla kröfur vegna vöruafhendinga utan upprunalandsreglu, eins og kröfur vegna dreifingar lyfja.
    Stjórnvöld sem munu hafa eftirlit með rafrænni þjónustu eru þau sem annast framkvæmd viðkomandi laga og reglna um stofnun og starfrækslu þjónustunnar. Hér á landi verða því mörg stjórnvöld sem munu hafa eftirlit með starfrækslu þjónustuveitenda. Sem dæmi má nefna að Samkeppnisstofnun mun hafa eftirlit með að þjónustuveitendur fylgi ákvæðum samkeppnislaga um bann við óréttmætum viðskiptaháttum og Fjármálaeftirlitið mun hafa eftirlit með þeirri starfsemi fjármálafyrirtækja sem telst til rafrænnar þjónustu.
    Grunnregla um gagnkvæma viðurkenningu felur í sér að íslensk stjórnvöld eða dómstólar geti að meginstefnu til ekki hindrað að rafræn þjónusta sé veitt í viðkomandi ríki, enda sé veitandi þjónustunnar með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Í 3. mgr. 3. gr. er kveðið á um hvar litið skuli á að þjónustuveitandi hafi staðfestu. Þjónustuveitandi telst með staðfestu í tilteknu ríki ef hann stundar þar virka atvinnustarfsemi ótímabundið í fastri starfsstöð. Ákveða ber hvar þjónustuveitandi hefur staðfestu í samræmi við réttarframkvæmd Evrópudómstólsins og EFTA-dómstólsins, en samkvæmt henni felst í hugtakinu staðfesta að rekin sé virk atvinnustarfsemi ótímabundið í fastri starfsstöð. Einnig telst félag hafa staðfestu þar sem það hefur verið skráð í tiltekinn tíma. Í tilskipuninni kemur fram að tilvist og notkun nauðsynlegra aðferða og tækni til þess að láta þjónustuna í té jafngildi ekki staðfestu þjónustuveitanda í sjálfu sér. Staðfesta þjónustuveitanda telst því ekki þar sem vefþjónn, sem vefsíða er vistuð á, er staðsettur eða þar sem vefsíða er aðgengileg, heldur þar sem þjónustuveitandinn stundar atvinnurekstur sinn í raun. Í tilvikum þar sem erfitt er að skera úr um hvaðan tiltekin þjónusta er veitt, t.d. ef þjónustuveitandinn stundar atvinnurekstur sinn frá mörgum stöðum, skal ákvarða staðfestu þar sem miðstöð viðkomandi starfsemi hans fer fram.
    Til þess að þjónustuveitandi hafi staðfestu á Íslandi þarf hann því að reka þar virka atvinnustarfsemi sína ótímabundið frá fastri starfsstöð. Sem dæmi um þjónustuveitanda með staðfestu á Íslandi má nefna félag sem er stofnað og skráð sem íslenskt félag samkvæmt lögum um hlutafélög og sem hefur þar lögheimili.

4.2.     Almennar undantekningar frá meginreglu.
    Samkvæmt viðauka við tilskipun um rafræn viðskipti eru nokkrar almennar undantekningar gerðar frá meginreglu um reglu upprunalands. Ástæða þeirra felst m.a. í því að á nokkrum sviðum er gildandi Evrópuréttur ekki í samræmi við upprunalandsreglu. Gerð er tillaga að innleiðingu viðaukans í 4. gr. frumvarpsins. Þjónustuveitendur þurfa því jafnvel að hlíta þeim reglum sem gilda í öllum þeim löndum sem þeir beina þjónustu sinni til á þeim sviðum sem undantekningar taka til.
    Við túlkun undantekninga 4. gr. frumvarpsins um rétt aðila til að ákvarða þau lög sem um samning gilda, samningsskilmála í neytendasamningum og formlegt gildi samninga um rétt yfir fasteignum ber að hafa í huga 4. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Þar er kveðið á um að tilskipunin skuli hvorki hafa í för með sér viðbótarreglur á sviði alþjóðlegs einkamálaréttar né fjalla um lögsögu dómstóla. Tilskipunin hefur því ekki áhrif á reglur Lúganósamningsins um neytendavarnarþing, sbr. lög um Lúganósamninginn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum, nr. 68/1995.

4.3.     Sérstakar undantekningar frá meginreglu.
    Kveðið er á um sérstakar undantekningar frá reglu upprunalands í 5. gr. frumvarpsins. Þær undantekningar eru tæmandi taldar. Þá er kveðið á um hvaða málsmeðferð ber að fylgja ef íslensk stjórnvöld hyggjast beita íslenskum rétti gagnvart veitendum rafrænnar þjónustu sem staðfestu hafa á Evrópska efnahagssvæðinu, utan Íslands. Ekki er skylt að fylgja þeirri málsmeðferð þegar um rannsókn og meðferð sakamála er að ræða, sbr. 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins. Því þurfa íslensk stjórnvöld ekki að tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA eða viðkomandi aðildarríkis ef lögregla, ákæruvald eða önnur stjórnvöld gera ráðstafanir sem hindra gagnkvæma viðurkenningu, enda eru ráðstafanirnar liður í rannsókn eða meðferð sakamála. Sem dæmi má nefna að ekki þarf að tilkynna viðkomandi aðildarríki eða Eftirlitsstofnun EFTA ef aðgangur almennings á Íslandi er hindraður að barnaklámi sem refsivert er skv. 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, ef hindrunin er liður í rannsókn eða meðferð sakamáls.

5.     Upplýsingaskylda.
    Til að styrkja réttaröryggi og traust manna til rafrænnar þjónustu er í 6. gr. frumvarpsins kveðið á um lágmarksupplýsingar sem veitendum þjónustunnar ber að veita. Er þar til dæmis kveðið á um að þjónustuveitendum beri að veita upplýsingar um nafn sitt, heimilisfang og aðrar þær upplýsingar sem gera mönnum kleift að komast í samband við þá. Það skal áréttað sérstaklega að frekari kröfur til upplýsingagjafar geta verið lögfestar á öðrum sviðum sem geta haft áhrif á upplýsingaskyldu veitenda rafrænnar þjónustu, svo sem í lögum um húsgöngu- og fjarsölusamninga, nr. 46/2000, og í lögum um neytendalán, nr. 121/1994.
    Ákvæði 7. gr. frumvarpsins kveða á um frekari kröfur til upplýsingagjafar þegar um er að ræða markaðssetningu. Ákvæðin miða að því að tryggja gagnsæi og auka traust manna til rafrænnar þjónustu. Vísað er til athugasemda við 7. gr. frumvarpsins að því er varðar markaðssetningarhugtakið.

6.     Rafrænir samningar.
    Tilskipunin leggur þær skyldur á aðildarríki EES-samningsins að þau tryggi að heimilt verði að lögum að gera samninga með rafrænum hætti. Aðildarríkin skulu tryggja að gildandi lög hindri ekki gildi rafrænna samninga.
    Það er meginregla íslensks samningaréttar að samningar séu ekki formbundnir. Frá þessari meginreglu eru ýmsar undantekningar sem geta stuðst við lög, samkomulag aðila, eðli máls eða venju. Þannig getur lagatúlkun leitt til þess að litið verði svo á að skriflegt form sé skilyrði fyrir gildi samnings.
    Undantekningar frá meginreglu um formleysi samninga geta stuðst við mismunandi sjónarmið. Tilgangur áskilnaðar um tiltekið form, þ.m.t. skriflegt, getur verið að tryggja sönnun, tryggja að samningsaðilar geri sér glögga grein fyrir þeim skuldbindingum sem þeir takast á hendur með samningi eða að tryggja að samningur sé aðgengilegur og tiltækur öðrum aðilum en samningsaðilum.
    Eins og aðrar rafrænar upplýsingar eru rafrænir samningar eingöngu mynstur úr rafhleðslum og eyðum sem hægt er að senda á milli tölva með rafboðum. Rafrænar upplýsingar eru að öllu jöfnu aðgengilegar og varðveitanlegar með vél- og hugbúnaði með sambærilegum hætti og skriflegar upplýsingar. Því er yfirleitt hægt að lesa rafrænar upplýsingar af skjá eða prenta þær á blað. Ef rafrænir samningar fullnægja því lágmarksskilyrði að vera aðgengilegir virðist einsýnt að rafrænir samningar geti fyllilega gegnt öllum þeim hlutverkum skriflegra samninga sem að framan greinir. Að réttu lagi verður tæplega séð að efnisrök reglna sem áskilja tiltekið form leiði til þess að rafrænir samningar njóti sérstöðu. Í þeim tilvikum mæla því rök með því að rafrænir samningar fullnægi skilyrðum um skriflega samninga.
    Hins vegar verður til þess að líta að með skilyrðum um að samningar skuli vera skriflegir getur verið talið að vísað sé til ákveðinnar tækni við viljatjáningu, þ.e. að orð séu letruð eða prentuð á pappír eða annað áþreifanlegt efni. Rafræn tjáskipti fara á hinn bóginn fram með rafrænum boðum eins og áður er rakið.
    Að því virtu og með tilliti til þess sem fyrr er rakið getur leikið nokkur vafi á því hvort rafrænir samningar fullnægi skilyrðum réttarreglna um að samningar skuli vera skriflegir. Því er lagt til að lögfest verði almenn fyrirmæli til að taka af vafa í þessu efni.
    Á hinn bóginn tryggir meginregla íslensks réttar, um að gildi samninga sé óháð formi þeirra, möguleika á að gera rafræna samninga, ef lög, stjórnsýslufyrirmæli eða annað mælir ekki fyrir um sérstakt form þeirra. Því þarf ekki að lögfesta sérstaka reglu þar að lútandi. Að því er varðar skilyrði um undirritun samningsaðila ber að nefna að 4. gr. laga um rafrænar undirskriftir, nr. 28/2001, mælir fyrir um að fullgildar rafrænar undirskriftir séu jafngildar handrituðum og að aðrar rafrænar undirskriftir geti fullnægt skilyrðum um handritaðar undirskriftir.

7.     Skylda við samningsgerð.
    Ákvæði 9. gr. frumvarpsins kveða á um hvaða upplýsingar þjónustuveitanda ber að veita áður en þjónustuþegi leggur inn pöntun. Hér er um lágmarkskröfur að ræða til viðbótar við annan áskilnað um upplýsingagjöf samkvæmt frumvarpinu eða lögum.
    Einnig eru í 10. og 11. gr. frumvarpsins frekari ákvæði um skyldur þjónustuveitanda við samningsgerð. Þau eru frávíkjanleg ef aðilar samningsins eru ekki neytendur. Þá gilda þau ekki um samninga sem eru gerðir með því að skiptast á tölvupóstssendingum eða öðrum sambærilegum sendingum á milli einstaklinga eða lögpersóna. Af samanburðarskýringu þessara ákvæða leiðir því að ekki er unnt að víkja frá þeim ef um neytendasamninga er að ræða, nema til samnings sé stofnað með tölvupósti eða öðrum sambærilegum sendingum.

8.     Takmörkun ábyrgðar þjónustuveitenda.
    Í 12.–14. gr. tilskipunarinnar eru ákvæði um takmörkun ábyrgðar þjónustuveitanda. Kveða þau á um takmörkun skaðabóta- og refsiábyrgðar þjónustuveitenda við tilteknar aðstæður. Ef skilyrðum takmörkunar ábyrgðar þjónustuveitenda er ekki fullnægt er mögulegt að þjónustuveitendur þurfi að sæta ábyrgð, en það er undir aðildarríkjunum komið að ákvarða hana í landsrétti sínum.
    Greint er á milli mismunandi tegunda þjónustu í 12.–14. gr. tilskipunarinnar, en þau ákvæði endurspeglast í sömu greinum frumvarpsins. Í 12. gr. er fjallað um takmörkun ábyrgðar þjónustuveitanda sem miðlar gögnum um fjarskiptanet eða veitir aðgang að fjarskiptaneti. Í 13. gr. er kveðið á um takmörkun ábyrgðar sambærilegs þjónustuveitanda vegna sjálfvirkrar, millistigs- og skammtímageymslu gagna. Í 14. gr. er loks kveðið á um takmörkun ábyrgðar þeirra þjónustuveitenda sem hýsa gögn. Í umræddum tilvikum eru gögn látin í té af þjónustuþega. Þjónustuveitandi hefur því hvorki vitneskju um né yfirráð yfir þeim gögnum sem eru send, geymd eða hýst.
    Ákvæðunum er einungis ætlað að takmarka ábyrgð þjónustuveitenda í tilteknum tilfellum vegna innihalds gagna sem eru skyndivistuð, hýst eða þeim miðlað. Ekki er ætlunin að takmarka ábyrgð þjónustuveitenda við aðrar aðstæður, svo sem hugsanlega skaðabótaábyrgð þeirra gagnvart samningsaðilum sínum ef seinkun verður á miðlun gagna vegna bilunar í kerfi.
    Ákvæði 12. gr. frumvarpsins um takmörkun ábyrgðar vegna miðlunar ber að túlka með hliðsjón af eðli opins kerfis eins og netsins. Þegar gögnum er miðlað á netinu er þeim skipt upp í svokallaða pakka þannig að unnt sé að miðla mismunandi hlutum gagnanna með ólíkum leiðum og flýta þannig miðluninni. Pökkunum er síðan miðlað um mörg fjarskiptanet og þeir settir saman á viðtökustað. Þegar á miðluninni stendur verða sjálfkrafa til eintök af pökkunum í örskamma stund. Án þessara eintaka mundi flutningur á netinu ekki geta orðið. Ákvæði 12. gr. kveður á um takmörkun ábyrgðar þeirra sem gera umrædda miðlun mögulega, að nánari skilyrðum fullnægðum.
    Ákvæði 13. gr. fjallar um takmörkun ábyrgðar vegna þeirra eintaka sem verða til við skyndivistun. Margar heimsóknir á vinsælar heimasíður sem ekki eru hýstar hjá þjónustuveitanda geta haft í för með sér tafir á sendingum og álag. Því grípa þjónustuveitendur oft til þess ráðs að vista vinsælar heimasíður á netþjóni sínum. Þjónustuþegi fær því viðkomandi gögn frá netþjóni þjónustuveitanda síns, en ekki þeim netþjóni þar sem heimasíðan er hýst. Þjónustuþegi fær þannig hraðari og betri þjónustu, enda endurnýi þjónustuveitandi eintak sitt svo oft sem þörf er á. Með skyndivistun er þannig átt við vistun á gögnum á vefþjóni þjónustuveitanda, t.d. heimasíðum. Umrædd eintök verða því ekki til með sjálfvirkum hætti, eins og þau sem fjallað er um í 12. gr., heldur eru þau gerð til að gera miðlun um netið skilvirkari.
    Takmörkun ábyrgðar skv. 12. og 13. gr. er meðal annars háð því að þjónustuveitandi geri ekki breytingar á gögnunum sem hann sendir. Breytingar gagna sem verða vegna tæknilegra aðgerða meðan á sendingunni stendur hafa ekki áhrif á ábyrgð þjónustuveitanda þar sem þær hafa ekki áhrif á heilleika gagnanna sem eru send. Hér er meðal annars átt við breytingar sem felast í því að skipta gögnunum upp í svokallaða pakka til þess að tryggja skilvirka sendingu gagna á netinu. Hins vegar eiga ákvæði um takmörkun ábyrgðar ekki við um þá þjónustuveitendur sem af ásettu ráði eiga samstarf um ólögmætt athæfi við þjónustuþega þar sem slíkt gengur lengra en hrein miðlun eða skyndivistun gagna.
    Ákvæði 14. gr. kveður á um takmörkun ábyrgðar vegna hýsingar. Með hýsingu er t.d. átt við vistun gagna, sem gerð eru aðgengileg almenningi á netinu, með varanlegum hætti á netþjóni. Þjónustuveitendur sem bjóða aðgang að netinu bjóða að jafnaði einnig svæði á netþjóni þeirra þannig að þjónustuþegar geti vistað þar gögn til langframa, t.d. heimasíður. Sem dæmi um annars konar hýsingu má nefna spjallrásir (e. chat rooms), þar sem unnt er að eiga samskipti á netinu, og aðra miðla þar sem mögulegt er að gögn, svo sem tilkynningar eða skrár, séu vistuð beint af þjónustuþega þannig að þau verði aðgengileg öðrum (e. bulletin boards).
    Í 15.–18. gr. frumvarpsins er kveðið nánar á um hvernig þjónustuveitanda ber að bregðast við ef hann fær vitneskju um ólögmæt gögn. Í greinunum hefur verið tekið tillit til þeirra hagsmuna sem vegast á í þessu sambandi, annars vegar tjáningarfrelsis og frekari þróunar rafrænnar þjónustu og hins vegar mikilvægis þess að koma á skilvirkan hátt í veg fyrir útbreiðslu ólögmæts efnis.

9. Ýmis ákvæði.
    Sjötti kafli frumvarpsins hefur að geyma ákvæði um afleiðingu brota, tengiliði vegna samstarfs um rafræn viðskipti og breytingar á öðrum lögum. Gert er ráð fyrir að Samkeppnisstofnun hafi eftirlit með að farið sé eftir 6.–7. gr. og 9.–11. gr. frumvarpsins og að ákvæði samkeppnislaga gildi um úrræði stofnunarinnar, stjórnvaldssektir og málsmeðferð.
    Lagt er til að viðskiptaráðuneytið verði tengiliður í alþjóðlegu samstarfi um rafræn viðskipti. Þá er gert ráð fyrir að viðskiptaráðuneytið verði einnig sá aðili sem menn geta leitað til í því augnamiði að fá upplýsingar um lagaumhverfi rafrænna viðskipta.
    Loks eru, í samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti, lagðar til breytingar á lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, læknalögum, nr. 53/1988, og lögum um tannlækningar, nr. 38/1985, til þess að tryggja fullnægjandi innleiðingu á tilskipun um rafræn viðskipti.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Ákvæði 1. mgr. mælir fyrir um gildissvið frumvarpsins. Frumvarpið tekur til rafrænnar þjónustu. Um skilgreiningu á rafrænni þjónustu vísast til kafla III.3.1. í almennum athugasemdum. Að því er varðar þær kröfur sem gerðar eru að lögum um stofnun og starfrækslu þjónustunnar gilda íslensk lög um þá þjónustuveitendur sem hafa staðfestu hér á landi skv. 3. gr. frumvarpsins. Því hafa íslensk stjórnvöld eftirlit með þjónustuveitendum með staðfestu hér á landi að því er varðar stofnun og starfrækslu þjónustunnar. Regla þessi er nefnd regla upprunalands. Að því er varðar aðrar lagalegar kröfur en um stofnun og starfrækslu rafrænnar þjónustu gildir regla upprunalands ekki. Íslensk stjórnvöld gætu því ekki stutt eftirlit sitt með þjónustuveitendum á öðrum sviðum en varða stofnun og starfrækslu þjónustunnar við ákvæði 3. gr. laga þessara. Á því sviði gilda almennar reglur viðkomandi laga um eftirlit. Um almennt gildissvið frumvarpsins er vísað til kafla III.2 í almennum athugasemdum.
    Ákvæði 2. mgr. telur upp þau svið sem falla utan gildissviðs frumvarpsins. Þau styðjast við 5. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Frumvarpið tekur ekki til skattamálefna. Reglur um rafræna þjónustu á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins geta snert skattamálefni þar sem nú er víðs vegar unnt að telja fram til skatts með rafrænum hætti. Undantekning um að skattamálefni falli utan gildissviðs tilskipunarinnar og þar með frumvarpsins hefur þau áhrif að einstök ríki geta sett sérstakar reglur sem snerta skattamálefni og rafræna þjónustu, óháð tilskipuninni.
    Þá fellur rafræn þjónusta sem snertir vernd persónuupplýsinga utan gildissviðs frumvarpsins. Um vernd persónuupplýsinga hefur verið fjallað í tilskipun 95/46/EB um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og í tilskipun 97/66/EB um vinnslu persónuupplýsinga og um verndun einkalífs á fjarskiptasviðinu. Þessar tilskipanir hafa verið innleiddar með lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, og lögum um fjarskipti, nr. 107/1999. Ákvæði framangreindra tilskipana og laga munu einnig taka til rafrænnar þjónustu. Því er óþarft að ákvæði frumvarps þessa taki til verndar persónuupplýsinga.
    Einnig falla ólögmætt samráð eða samstilltar aðgerðir fyrirtækja utan gildissviðs frumvarpsins. Því geta íslensk samkeppnisyfirvöld beitt valdheimildum sínum gagnvart lögaðilum sem hafa staðfestu utan Íslands, þrátt fyrir ákvæði II. kafla frumvarpsins, ef það samræmist öðrum ákvæðum íslenskra laga.
    Enn fremur er starfsemi lögbókenda utan gildissviðs frumvarpsins, að því marki sem í henni felst beiting opinbers valds. Því mun starfsemi lögbókenda hér á landi falla utan við gildissvið frumvarpsins. Hins vegar felst beiting opinbers valds ekki í starfsemi lögbókenda í nokkrum ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Slík starfsemi gæti fallið undir gildissvið frumvarpsins fullnægi hún öðrum áskilnaði þess. Í þeim tilvikum mættu íslensk stjórnvöld ekki leggja höft á slíka þjónustu hér á landi, sbr. 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins.
    Þá fellur hagsmunagæsla fyrir dómstólum utan gildissviðs frumvarpsins. Með hagsmunagæslu fyrir dómstólum er ekki einungis átt við mætingar í þinghöld. Einnig er átt við allt það sem tengist hagsmunagæslunni, svo sem birtingu stefnu, framlagningu skjala, fundi með viðskiptavini. Loks fellur fjárhættustarfsemi sem felst í að leggja fram fé í áhættuleikjum utan gildissviðs frumvarpsins. Hins vegar falla leikir sem ekki eru boðnir fram gegn greiðslu innan gildissviðs frumvarpsins, t.d. leikir sem eru fjármagnaðir með auglýsingum eða eru til þess fallnir að auglýsa tiltekna vöru.
    Ákvæði 3. mgr. þarfnast ekki skýringa.

Um 2. gr.

    Í greininni er að finna orðskýringar sem áður hefur verið fjallað um í almennum athugasemdum, kafla III.3. Við orðskýringu hugtaka er fylgt 2. gr. tilskipunarinnar.

Um 3. gr.

    Ákvæðið hefur að geyma eina af meginreglum frumvarpsins, þ.e. reglu upprunalands. Hér er stuðst við 1. og 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að rafræn þjónusta sem þjónustuveitendur með staðfestu á Íslandi veita skuli vera í samræmi við íslensk lög sem gilda um stofnun og starfrækslu þjónustunnar. Þannig er ljóst að íslensk stjórnvöld skulu hafa eftirlit með þjónustuveitendum, hvert á sínu sviði. Regla upprunalands hefur þau áhrif að íslenskum stjórnvöldum verður unnt að hafa eftirlit með að starfsemi og stofnun þjónustuveitenda með staðfestu hér á landi sé í samræmi við íslensk lög. Þannig munu íslensk samkeppnisyfirvöld t.d. hafa eftirlit með því að ákvæðum laga um bann við óréttmætum viðskiptaháttum sé fylgt af þeim þjónustuveitendum sem hafa staðfestu hér á landi, sbr. VI. kafla samkeppnislaga, nr. 8/1993. Ekki skiptir máli í þessu sambandi hvort lagaákvæðum, sem stjórnvöld styðja eftirlit sitt við, sé beint sérstaklega að rafrænni þjónustu. Íslensk stjórnvöld munu hafa eftirlit með að öllum þeim ákvæðum íslenskra laga sem varða stofnun og starfrækslu þjónustunnar sé fylgt af þjónustuveitendum með staðfestu hér á landi.
    Frumvarpið tekur að meginstefnu aðeins til ríkisréttarlegra ákvæða laga. Þannig segir það fyrir um hvers lands lögum þjónustuveitendum ber að fylgja að því er varðar ríkisréttarlegar kröfur. Hins vegar mælir frumvarpið almennt ekki fyrir um hvers lands lög gilda í einkaréttarlegum samningssamböndum.
    Ákvæði 2. mgr. kveður á um að engin höft skuli vera á frelsi þjónustuveitanda með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu til að veita þjónustu hér á landi að því er varðar þær kröfur sem gerðar eru að lögum um stofnun og starfrækslu þjónustunnar. Íslensk stjórnvöld geta hins vegar eftir sem áður takmarkað rafræna þjónustu þjónustuveitenda sem hafa staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins, að öðrum skilyrðum laga fullnægðum. Um nánari skýringar er vísað til kafla III.4 í almennum athugasemdum.
    Í 3. mgr. er fjallað um hvar ákvarða skuli staðfestu þjónustuveitanda. Um staðfestu er fjallað ítarlega í kafla III.4.1 og vísast þangað til nánari skýringa á ákvæðinu.

Um 4. gr.

    Í greininni er listi yfir almennar undantekningar frá reglu upprunalands. Ákvæðin styðjast við 3. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar, ásamt fylgiskjali hennar. Listi þessi er tæmandi. Á þessum afmörkuðu sviðum hafa stjórnvöld því vald til að hafa eftirlit með þjónustuveitendum, þótt þeir hafi staðfestu utan Íslands, að fullnægðum öðrum skilyrðum laga.
    Í 1. tölul. er fjallað um rétt aðila til þess að semja um lög þau sem um samninga þeirra skulu gilda. Samkvæmt grunnreglu alþjóðlegs einkamálaréttar hafa aðilar rétt til þess að velja hvers lands lög skuli gilda um réttarsamband þeirra í milli. Skv. 1. tölul. skulu slíkir samningar gilda, óháð reglu upprunalands í 3. gr. frumvarpsins. Undantekningar hafa þó verið gerðar að því er varðar neytendasamninga, sbr. 2. tölul.
    Í 2. tölul. er vikið að samningsskyldum í tengslum við neytendasamninga. Ákvæði þetta tekur til upplýsinga um mikilvæga grunnþætti samningsins, meðal annars rétt neytenda, sem hafa afgerandi áhrif á ákvörðun um að ganga til samninga. Undantekningin tekur því til upplýsinga sem gefnar eru fyrir samningsstofnun en sjást ekki af samningnum og höfðu afgerandi áhrif á ákvörðun um að ganga til samninga. Einnig tekur undantekningin til upplýsinga sem hafa réttaráhrif sem ekki er unnt að semja sig frá í neytendasamningum. Frumvarpið hefur ekki áhrif á gildandi lög um samningsskyldur á sviði neytendasamninga. Þar af leiðandi hefur það ekki þau áhrif að neytendur með fasta búsetu hér á landi séu sviptir þeirri vernd sem ófrávíkjanlegar reglur sem fjalla um samningsskyldur í íslenskum lögum veita þeim. Um skýringu á hugtakinu neytandi vísast til umfjöllunar um 2. mgr. 9. gr.
    Í 3. tölul. er kveðið á um að regla upprunalands gildi ekki að því er varðar formlegt gildi samninga, sem stofna eða yfirfæra rétt í fasteignum, þegar slíkir samningar eru háðir ófrávíkjanlegum formkröfum samkvæmt lögum þess ríkis þar sem fasteignin er. Þó svo að slíkar formkröfur séu ekki fyrir hendi hér á landi getur undantekningin haft þýðingu hér. Hún gefur til kynna að önnur lönd innan Evrópska efnahagssvæðisins geti framfylgt þeim kröfum sem þau gera á þessu sviði gagnvart þjónustuveitendum sem hafa staðfestu á Íslandi.
    Við skýringu á framangreindum undantekningum ber að hafa í huga að í frumvarpinu er ekki ætlunin að setja nýjar reglur á sviði alþjóðlegs einkamálaréttar eða hafa áhrif á lögsögu dómstóla.
    Ákvæði 4. tölul. tekur til höfundaréttar og skyldra réttinda. Með skyldum réttindum er átt við svokölluð grannréttindi höfundaréttar, þ.e. réttindi listflytjenda, hljómplötuframleiðenda og útvarpsstofnana. Ástæða fyrir undantekningunni er nýlega samþykkt tilskipun á vegum Evrópusambandsins um höfundarétt í upplýsingasamfélagi (tilskipun 2000/29/EB). Ákvæði 4. tölul. hafa þau áhrif að frumvarp þetta hefur ekki áhrif á niðurstöðu um hvers lands lög gilda þegar spurning rís um höfundaréttarbrot þjónustuveitanda.
    Í 5. tölul. er kveðið á um að regla upprunalands eigi ekki við þegar meta á að hvaða marki óumbeðnar viðskiptaorðsendingar í tölvupósti séu leyfilegar. Íslensk stjórnvöld geta því á því sviði, að öðrum skilyrðum fullnægðum, beitt eftirlitshlutverki sínu gagnvart þjónustuveitendum sem hafa staðfestu utan Íslands.
    Í 6. tölul. er tekið á útgáfu rafeyris af hálfu fyrirtækja sem veitt hefur verið undanþága skv. 8. gr. tilskipunar nr. 2000/46/EBE um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim. Meginregla umræddrar tilskipunar er að rafeyrisstofnanir séu undir eftirliti heimaríkis og njóti gagnkvæmrar viðurkenningar. Í 8. gr. tilskipunarinnar er undantekning frá meginreglunni sem tekur einungis til hluta þeirra stofnana sem hafa heimildir til að gefa út rafeyri. Þannig gerir tilskipunin ráð fyrir að minni útgefendur, eða útgefendur sem einungis gefa út rafeyriskort sem nota má í takmörkuðum mæli, geti gefið út slík kort, án þess að öðlast um leið rétt til að veita þjónustu yfir landamæri. Undantekning 6. tölul. mælir fyrir um að slíkar rafeyrisstofnanir geti verið undir eftirliti hér, þó svo að þær hafi staðfestu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Frumvarp til innleiðingar umræddrar tilskipunar hefur verið lagt fram á Alþingi.
    Í 7. tölul. er fjallað um markaðssetningu bréfa í verðbréfasjóðum skv. 44. gr. tilskipunar 1985/611/EB. Skv. 2. mgr. 44. gr. umræddrar tilskipunar skal hvert fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu sem auglýsir hlutdeildarskírteini til sölu í tilteknu ríki hlíta þargildandi reglum um auglýsinguna. Undantekning þessi mælir því fyrir um að verðbréfasjóðir geti þurft að hlíta íslenskum reglum um auglýsingar þrátt fyrir að þeir hafi staðfestu utan Íslands. Ákvæðið er innleitt í 7. gr. reglugerðar nr. 369/1993 um starfsemi og markaðssetningu erlendra verðbréfasjóða á Íslandi.
    Í 8. tölul. er tekið á staðfesturétti og rétti til að veita tryggingaþjónustu samkvæmt tilskipun 92/49/EBE, tilskipun 92/96/EBE, tilskipun 88/357/EBE og tilskipun 90/619/EBE. Nánar tiltekið er hér átt við 30. gr. og IV. hluta tilskipunar 92/49/EBE, IV. hluta tilskipunar 92/96/EBE, 7. og 8. gr. tilskipunar 88/357/EBE og 4. gr. tilskipunar 90/619/EBE. Framangreind ákvæði kveða á um stjórnvöld hvaða lands hafa eftirlit með tiltekinni starfsemi tryggingafyrirtækja. Þau ákvæði ganga því framar ákvæði frumvarps þessa um upprunalandsreglu.

Um 5. gr.

    Í greininni er kveðið á um hvenær íslensk stjórnvöld, sem til þess eru bær að lögum, geti takmarkað veitingu rafrænnar þjónustu þótt hún sé ekki veitt af þjónustuveitanda með staðfestu hér á landi og þó svo að almenn ákvæði 4. gr. um undanþágu frá reglu upprunalands eigi ekki við. Gert er ráð fyrir að mat fari fram í hverju tilfelli fyrir sig um hvort skilyrði ákvæðisins séu fyrir hendi áður en til aðgerða er gripið. Ákvæði 5. gr. geta til dæmis átt við þegar þjónustuveitandi með staðfestu utan Íslands veitir rafræna þjónustu sem er í samræmi við lög upprunalands en brýtur gegn refsilöggjöf hér á landi sem miðar m.a. að verndun almenns siðferðis, t.d. ákvæðum almennra hegningarlaga um bann við rógi gegn kynþáttum eða kynhneigð, sbr. 233. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Í slíkum tilvikum geta stjórnvöld, sem til þess eru bær að lögum, takmarkað frjálst flæði rafrænnar þjónustu.
    Samkvæmt ákvæðum greinarinnar eru þrjú efnisleg skilyrði þess að grípa megi til aðgerða. Í fyrsta lagi þurfa þær að vera nauðsynlegar til verndunar tilteknum hagsmunum, sbr. 1.–3. tölul. 1. mgr. Í öðru lagi skal einungis til þeirra gripið að þjónustuveitandi vinni gegn þeim verndarhagsmunum sem nefndir eru í 1.–3. tölul. 1. mgr. eða veruleg hætta sé á að hann muni vinna gegn þeim. Í þriðja lagi skal meðalhófs gætt við val aðgerða.
    Í 1. tölul. 1. mgr. er tilgreint að aðgerðir þurfi að vera nauðsynlegar til verndunar almennu siðferði, allsherjarreglu eða almannaöryggi. Með allsherjarreglu í greininni er átt við það að koma í veg fyrir refsilagabrot, koma upp um þau og ákæra fyrir þau. Einnig er átt við verndun ólögráða barna og baráttu gegn því að vekja upp hatur vegna kynþáttar, kynferðis, trúarbragða eða þjóðernis eða því að misbjóða mannlegri reisn. Með skilyrði ákvæðisins um að aðgerðir skuli vera nauðsynlegar til að vernda almannaöryggi er m.a. átt við að þær miði að því að standa vörð um þjóðaröryggi og landvarnir. Í 2. tölul. 1. mgr. er kveðið á um að aðgerðir geti fallið innan ákvæðis 1. mgr. ef þær eru nauðsynlegar til verndunar lífi og heilsu manna. Í 3. tölul.1. mgr. er kveðið á um að aðgerðir geti fallið innan ákvæðis 1. mgr. ef þær eru nauðsynlegar fyrir neytendavernd. Hér getur einnig fallið undir vernd fjárfesta.
    Í 3. og 4. mgr. er kveðið á um hvernig standa skuli að aðgerðunum. Meginreglan er sú að fyrst þurfi að gefa því aðildarríki þar sem þjónustuveitandi hefur staðfestu tækifæri til að grípa til aðgerða gegn brotunum. Hvorki eru ákvæði í frumvarpinu né í tilskipun um rafræn viðskipti sem mæla fyrir um hversu langan tíma verði að gefa aðildarríkjum til að grípa til viðeigandi ráðstafana. Ljóst er þó af meginreglu upprunalands að gefa verði aðildarríkjum þann tíma sem sanngjarnt er að ætla að þau þurfi til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana. Beri það ekki árangur er íslenskum stjórnvöldum fyrst heimilt að grípa til nefndra aðgerða, enda tilkynni þau Eftirlitsstofnun EFTA og viðkomandi aðildarríki um fyrirhugaðar aðgerðir. Í áríðandi málum og þegar um er að ræða lögbann eða aðgerðir vegna rannsóknar sakamála þarf ekki að fylgja meginreglu um fyrirframtilkynningar. Í slíkum tilvikum geta íslensk stjórnvöld beitt íslenskum réttarreglum sem snerta rannsókn sakamála, óháð staðfestu viðkomandi þjónustuveitanda og án þess að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um aðgerðirnar fyrr en eftir á.

Um 6. gr.

    Greinin styðst við 5. gr. tilskipunarinnar. Í henni er kveðið á um þær almennu upplýsingar sem þjónustuveitandi skuli veita greiðan og samfelldan aðgang að. Ákvæðin eru því til fyllingar öðrum ákvæðum laga um upplýsingaskyldu sem átt geta við veitendur rafrænnar þjónustu, t.d. í ákvæðum laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga, nr. 46/2000, og laga um neytendalán, nr. 121/1994.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að aðgangur að upplýsingum skuli vera greiður. Þá kröfu ber að túlka með hliðsjón af þeirri tækni sem til er hverju sinni og þeim miðli sem notaður er til að veita rafræna þjónustu. Þannig er unnt að gera strangari kröfur til aðgengis að upplýsingum þegar þjónustuveitandi veitir rafræna þjónustu á netinu en þegar hann veitir samsvarandi þjónustu í gegnum farsíma með svokallaðri WAP-tækni. Ef veitt er rafræn þjónusta á netinu skal vera unnt að nálgast upplýsingarnar á heimasíðu veitandans eða á undirliggjandi síðum ef ljóst er á heimasíðunni hvar upplýsingarnar er að finna.
    Þá er einnig gert að skilyrði skv. 1. mgr. að aðgangur að upplýsingum sé samfelldur. Með því er átt við að þjónustuveitandi skal gera það sem í hans valdi stendur til að ætíð sé unnt að afla viðkomandi upplýsinga. Þannig er þjónustuveitanda ekki heimilt að fjarlægja upplýsingarnar eða takmarka aðgang að þeim. Einnig felst í ákvæði þessu að þjónustuveitandi skuli sjá til þess að upplýsingarnar séu uppfærðar þegar á því er þörf.
    Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. skal þjónustuveitandi veita upplýsingar um nafn sitt. Ef þjónustuveitandi er lögpersóna skal gefa upp nafn hennar eins og það er skráð í fyrirtækjaskrá, firmaskrá eða annarri opinberri skrá. Skv. 2. tölul. skal þjónustuveitandi veita upplýsingar um hvar hann hefur staðfestu. Vísað er til kafla III.4.1 í almennum athugasemdum að því er varðar skilgreiningu á staðfestu. Ákvæði 3. tölul. mælir fyrir um að veita skuli upplýsingar um kennitölu. Markmið að baki 1.–3. tölul. er að gera stjórnvöldum og þjónustuþegum kleift að hafa samband við þjónustuveitanda sem veitir rafræna þjónustu, t.d. í gegnum heimasíðu á netinu. Skv. 4. tölul. 1. mgr. skal þjónustuveitandi einnig gefa upp póstfang, netfang og aðrar þær upplýsingar sem eru forsenda þess að unnt sé að hafa samband við þjónustuveitanda á greiðan hátt. Eingöngu er gert ráð fyrir að þjónustuveitandi gefi upp póstfang ef það er annað en heimilisfang, skv. 2. tölul. 1. mgr., t.d. ef um pósthólf er að ræða. Með öðrum upplýsingum í ákvæðinu er t.d. átt við símanúmer og símbréfsnúmer, ef um það er að ræða. Í 5. tölul. 1. mgr. er mælt fyrir um að þjónustuveitandi skuli gefa upplýsingar um virðisaukaskattsnúmer sitt ef hann hefur það og skv. 6. tölul. skal hann veita upplýsingar um þá opinberu skrá sem hann er skráður hjá. Er þar átt við að þjónustuveitandi skuli gefa upp hvar starfsemi hans er skráð, t.d. hlutafélagaskrá, samvinnufélagaskrá, sjálfseignarstofnanaskrá eða firmaskrá. Ef þjónustuveitandi er skráður hjá firmaskrá er rétt að hann gefi einnig upp hvar sú firmaskrá er vistuð. Loks skal skv. 7. tölul. 1. mgr. veita upplýsingar um þau leyfi sem þjónustuveitandi hefur og þá eftirlitsaðila sem hafa eftirlit með starfsemi hans ef starfsemi hans er háð leyfum.
    Samkvæmt 2. mgr. skal þjónustuveitandi gefa nánari upplýsingar ef hann veitir þjónustu sem telst til lögverndaðs starfs. Skal hann þá veita upplýsingar um starfsheiti sitt eða fyrirsvarsmanns síns, samtök sem viðkomandi er skráður hjá og þær starfs- eða siðareglur sem gilda á viðkomandi sviði og með hvaða hætti unnt er að nálgast þær. Með lögvernduðu starfi er átt við starfsgrein sem fellur undir d-lið 1. gr. tilskipunar ráðsins 89/48/EBE frá 21. desember 1988 um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur að minnsta kosti í þrjú ár. Þá er einnig átt við starfsgreinar sem falla undir ákvæði f-liðar 1. gr. tilskipunar ráðsins 92/51/EBE frá 18. júní 1992 um annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og starfsþjálfun til viðbótar tilskipun 89/48/EBE. Í framangreindum ákvæðum felst að lögverndað starf sé hvert það starf sem samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum krefst leyfis, skráningar eða þess háttar. Umræddum tilskipunum verður einungis beitt á störf sem sértækar tilskipanir taka ekki til. Til eru sjö tilskipanir sem taka til sérstakra starfsstétta: hjúkrunarfræðinga, tannlækna, dýralækna, ljósmæðra, arkitekta, lyfjafræðinga og lækna. Starfsstéttir þessar teljast einnig til lögverndaðs starfs í skilningi frumvarpsins.
    Ákvæði 3. mgr. mælir fyrir um að upplýsingar um verð í tengslum við rafræna þjónustu skuli veittar með skýrum og ótvíræðum hætti og sérstaklega skuli tekið fram hvort skattar og afhendingarkostnaður séu innifaldir í verði. Ákvæðin fela í sér innleiðingu á 2. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar. Með „skýrum og ótvíræðum hætti“ er átt við að auðvelt skal vera að koma auga á upplýsingarnar og tileinka sér þær. Skyldan til að gefa upplýsingar um verð er óháð því hvort þjónustuþegi er neytandi. Ákvæði þessi gilda samhliða öðrum ákvæðum laga sem gilda um upplýsingar um verð, t.d. reglum um verðupplýsingar í auglýsingum nr. 21/1995 sem settar hafa verið með heimild í 30. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993.

Um 7. gr.

    Í greininni er kveðið á um hvaða upplýsingar ber að gefa í tengslum við markaðssetningu sem er hluti af eða myndar rafræna þjónustu. Ákvæðin styðjast við b–d-lið 6. gr. tilskipunarinnar.
    Með markaðssetningu er átt við hvers konar upplýsingagjöf sem ætlað er að vekja með beinum eða óbeinum hætti athygli á vöru, þjónustu eða ímynd félags, stofnunar eða persónu sem stundar verslunar-, iðnaðar- eða handverksstarfsemi eða lögverndað starf. Hins vegar teljast upplýsingar sem veita beinan aðgang að starfsemi hlutaðeigandi þjónustuveitanda ekki til markaðssetningar, t.d. veffang eða netfang. Það sama má segja um upplýsingar sem varða vöru, þjónustu eða ímynd viðkomandi þjónustuveitanda sem eru teknar saman án atbeina eða áhrifa hans, einkum þegar það er gert án endurgjalds. Sem dæmi um markaðssetningu eru hvers kyns beinar auglýsingar á vörum eða þjónustu. Einnig geta óbeinar auglýsingar talist til markaðssetningar, svo sem styrkir, leikir, keppni og afsláttur. Hvers konar leikir geta fallið hér undir, bæði leikir sem teljast til fjárhættuspila og leikir sem notaðir eru til markaðssetningar.
    Kveðið er á um það í 1. mgr. að auðvelt skuli vera að bera kennsl á þann einstakling eða lögpersónu sem stendur að baki markaðssetningu. Með því er átt við þann einstakling eða lögpersónu sem notar markaðssetninguna til að kynna þær vörur eða þjónustu sem viðkomandi hefur á boðstólum. Ekki er átt við þann sem kemur auglýsingu á framfæri fyrir þjónustuveitanda, svo sem auglýsingastofu eða þann sem hýsir markaðssetningarefnið á netþjóni sínum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um þær kröfur sem gerðar eru við kynningu á tilboði, keppni og leik. Kveðið er á um að kynning á tilboði, keppni og leik skuli vera sett fram á skýran og ótvíræðan hátt. Sama gildi um skilyrði sem fullnægja þurfi til að geta tekið tilboði eða tekið þátt í keppni eða leik. Því þarf að vera auðvelt að nálgast upplýsingar um skilyrði til að taka þátt í keppni eða leik eða fá afslátt. Skilyrðin þurfa einnig að vera þannig fram sett að hvorki vakni vafi um þau né sé erfitt að tileinka sér þau. Með tilboði er til dæmis átt við afslátt, verðlaun eða gjafir sem ætlað er að vekja með beinum eða óbeinum hætti athygli á vörum, þjónustu eða ímynd félags, stofnunar eða persónu í atvinnustarfsemi.

Um 8. gr.

    Ákvæðið kveður á um hvernig mögulegt er að fullnægja kröfum um skriflega samninga með rafrænum hætti. Ákvæðið byggist á 9. gr. tilskipunarinnar.
    Samkvæmt ákvæðinu er unnt að fullnægja skilyrði um skriflega samninga með rafrænum hætti, að nánari skilyrðum fullnægðum. Hið sama gildir um skriflegar tilkynningar og aðrar aðgerðir sem aðilar samnings þurfa að framkvæma í tengslum við samningssamband. Með skilyrðinu um aðgengileika er átt við að samningurinn sé læsilegur og skiljanlegur. Ef forrit er nauðsynlegt til að gera samninginn læsilegan og skiljanlegan skal það varðveitt til að fullnægja skilyrði um aðgengileika. Með skilyrði um varðveitanleika er átt við að unnt sé að ganga að efni samningsins eftir að til hans hefur verið stofnað. Getur það skilyrði t.d. gert það að verkum að unnt sé að leggja rafrænan samning fram í dómsmálum. Þegar lög mæla fyrir um að aðilar samningsins haldi hver sínu eintaki er því skilyrði fullnægt þegar allir aðilar samningsins hafa aðgang að honum, þótt á rafrænu formi sé.
    Samkvæmt 3. mgr. gilda ákvæði 1. og 2. mgr. m.a. ekki á sviði sifja- og erfðaréttar. Þannig verður ekki unnt að gera kaupmála í rafrænu formi, sbr. 80. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993. Hins vegar verður nú unnt að gera leigusamninga um fasteign í rafrænu formi. Einnig verður áfram þörf á að hafa þá löggerninga sem eru stimpilskyldir á pappírsformi, sbr. lög nr. 36/1978, um stimpilgjald, auk þeirra ráðstafana sem er þinglýst eða staðfestar eru með lögbókandagerð, sbr. þinglýsingalög, nr. 39/1978, og lög um lögbókandagerðir, nr. 86/1989.
    Um nánari skýringu á ákvæðinu vísast til kafla III.6 í almennum athugasemdum.


Um 9. gr.

    Hér er kveðið á um þær kröfur sem gerðar eru til þjónustuveitanda um upplýsingagjöf í tengslum við pöntun. Ákvæðin fela í sér innleiðingu 10. gr. tilskipunarinnar.
    Veita skal upplýsingarnar áður en þjónustuþegi leggur inn pöntun, t.d. með því að styðja á hnapp (e. icon) á tölvuskjá. Upplýsingarnar skulu veittar með skýrum og ótvíræðum hætti. Með því er átt við að auðvelt skal vera fyrir þjónustuþega að kynna og tileinka sér þær.
    Samkvæmt 1. tölul. skal veita upplýsingar um hvaða tæknileg skref þurfi að taka til að ljúka samningsgerð. Rétt er að vekja athygli á að hér er ekki átt við lögfræðileg atriði samningsgerðar. Skv. 2. tölul. skal þjónustuveitandi upplýsa hvort hann muni geyma samninginn. Ákvæðið mælir ekki fyrir um skyldu til að varðveita samninginn; einungis þarf að upplýsa um hvort slíkt verði gert. Ákvæði 3. tölul. mælir fyrir um að þjónustuveitandi skuli veita upplýsingar um hvort samningur verði aðgengilegur, komi hann til með að varðveita hann. Ekki er einungis átt við aðgengi í rafrænu formi; þjónustuveitanda ber einnig að veita upplýsingar um aðgengi samningsins ef þjónustuþega er gert kleift að nálgast útprentaðan samning. Þá skal þjónustuveitandi veita upplýsingar um þær tæknilegu leiðir sem fyrir hendi eru til þess að finna og leiðrétta innsláttarvillur áður en pöntun er gerð skv. 4. tölul. Til þess að ákvæði þetta nái tilgangi sínum er ljóst að þjónustuveitendur verði að veita upplýsingar þessar á fyrstu skrefum samningsgerðar. Ákvæðið tengist 11. gr. frumvarpsins sem mælir fyrir um skyldur þjónustuveitanda til að gefa þjónustuþega kost á skilvirkum og aðgengilegum tæknilegum leiðum til þess að finna og leiðrétta innsláttarvillur áður en pöntun er gerð. Þjónustuveitandi skal einnig veita upplýsingar um þau tungumál sem mögulegt er að gera samning á skv. 5. tölul. Ekki er mælt fyrir um skyldu til að veita möguleika á að ljúka samningsgerð á tilteknu tungumáli. Loks skal þjónustuveitandi skv. 6. tölul. veita upplýsingar um hvaða siðareglum hann fylgi og hvernig unnt sé að nálgast þær á rafrænu formi. Með siðareglum er átt við þau ákvæði sem einkaréttarleg samtök hafa samið og þjónustuveitendum er í sjálfsvald sett hvort þeir gerast aðilar að. Algengt er að notkun einhvers konar auðkennis sé tengt siðareglunum sem gefur til kynna að þjónustuveitandi hafi tekið á sig skyldur samkvæmt reglunum. Veita má upplýsingar um hvernig mögulegt sé að nálgast siðareglur á rafrænu formi með því t.d. að gefa upp veffang þeirra eða setja upp krækju sem vísar til þeirra.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að unnt sé að víkja frá ákvæðum 1. mgr. með samningum ef enginn aðila samningsins er neytandi. Með neytanda er í tilskipuninni og frumvarpinu átt við einstakling sem gerir löggerninga eða annað í einhverjum þeim tilgangi sem liggur utan við viðskiptasvið hans, starfsemi eða atvinnu. Ekki er talin þörf á að innleiða skilgreiningu tilskipunarinnar á neytanda sérstaklega þar sem hún er í samræmi við notkun á hugtakinu í íslenskum lögum, sbr. t.d. 4. gr. laga um lausafjárkaup, nr. 50/2000, 4. gr. laga um neytendalán, nr. 121/1994, 1. gr. laga um þjónustukaup, nr. 42/2000, og 2. gr. laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga. Skv. 2. mgr. 9. gr. skulu ákvæði 1. mgr. ekki gilda um samninga sem gerðir eru með því að skiptast á tölvupóstssendingum eða með öðrum sambærilegum hætti. Með hinu síðastnefnda er átt við aðrar einstaklingsbundnar sendingar, t.d. svokallaðar SMS-sendingar. Ákvæðum 1. mgr. 9. gr., 10. gr. og 11. gr. frumvarps þessa er beint sérstaklega að rafrænni þjónustu sem veitt er á netinu þótt gildissvið frumvarpsins sé ekki takmarkað við netið. Framangreindum ákvæðum er ætlað að tryggja að upplýsingar séu veittar þjónustuþegum og stuðla að færri mistökum við gerð pöntunar við notkun netsíðna sem eru á vegum þjónustuveitenda. Þegar um tölvupóstssendingar er að ræða hefur þjónustuþegi oft sjálfur valið það samskiptaform. Því er ekki þörf á sömu vernd og þegar hann leggur inn pöntun á síðu sem er á vegum þjónustuveitanda. Einnig er til þess að taka að erfitt getur reynst, ef ekki ómögulegt, að fullnægja skyldum framangreindra ákvæða þegar samningagerð fer fram með notkun tölvupóstssendinga.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að samningsskilmálar og almenn skilyrði skuli látin í té með þeim hætti að þjónustuþegi geti varðveitt þau og kallað þau fram. Ákvæðið styðst við 3. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar. Skilyrðum ákvæðisins er fullnægt ef t.d. mögulegt er að vista framangreindar upplýsingar á geisladisk eða diskling.

Um 10. gr.

    Ákvæðin styðjast við 1. og 3. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar. Ákvæði 1. mgr. mæla fyrir um skyldu þjónustuveitanda til að staðfesta móttöku pöntunar með rafrænum hætti án tafar. Því er ekki nægilegt að staðfesta móttöku pöntunar með öðrum leiðum en rafrænum. Mælt er fyrir um að staðfestingu beri að senda án tafar. Í ljósi tækniþróunar og stöðu hennar nú er hér um afar stuttan tíma að ræða.
    Samkvæmt 2. mgr. skulu pöntun og staðfesting vera talin móttekin þegar aðilarnir sem þeim er beint til hafa aðgang að þeim, óháð vitneskju þeirra. Tölvupóstur með viðhengi sem ekki er unnt að opna vegna tæknilegrar bilunar telst varla móttekin í skilningi tilskipunarinnar þar sem ekki er unnt að líta svo á að aðilar hafi aðgang að viðhenginu í slíkum tilfellum. Sama gildir um tölvupóst sem ekki er unnt að opna þar sem þjónustuveitandi hefur lokað aðgangi að tölvupóstinum. Markmið þessa ákvæðis er ekki að hafa áhrif á mat á því hvenær samningur telst hafa stofnast á netinu. Markmið þess er að stuðla að pöntunum og afgreiðslum í samræmi við ósk kaupanda.
    Um 3. mgr. vísast til athugasemda við 2. mgr. 9. gr.
    

Um 11. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um að þjónustuveitandi skuli gefa þjónustuþega kost á skilvirkum og aðgengilegum tæknilegum leiðum til þess að finna og leiðrétta innsláttarvillur áður en pöntun er gerð. Með greininni er gerð tillaga að innleiðingu 2. og 3. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar.
    Innsláttarvillur geta t.d. komið í ljós þegar veitt er yfirlit á vefsíðu yfir þær upplýsingar sem þjónustuþegi hefur gefið upp. Þjónustuþega verður í þeim tilvikum að vera kleift að fletta yfir í þær skjámyndir þar sem upplýsingarnar voru veittar upprunalega og leiðrétta þær.
    Um 2. mgr. vísast til athugasemda við 2. mgr. 9. gr.
    

Um V. kafla.

    Ákvæði þessa kafla kveða á um hvenær þjónustuveitandi, sem er milligönguaðili við miðlun gagna, ber ekki ábyrgð á gögnum sem hann miðlar, vistar með skyndivistun eða hýsir. Frumvarpið kveður ekki á um hvenær þjónustuveitandi getur orðið ábyrgur fyrir slíkum gögnum ef skilyrði takmörkunar ábyrgðar eru ekki fyrir hendi. Þá hafa ákvæði frumvarpsins ekki áhrif á lögbannsúrræði aðila. Loks skulu ákvæðin ekki hafa í för með sér almenna skyldu þjónustuveitenda til að hafa eftirlit með þeim gögnum sem þeir flytja, vista með skyndivistun eða hýsa, né almenna skyldu að leita uppi staðreyndir eða aðstæður sem benda til ólöglegrar starfsemi.
    Takmörkun ábyrgðar þjónustuveitanda nær til innihalds þeirra gagna sem hann miðlar, vistar með skyndivistun eða hýsir. Ákvæðin taka bæði til takmörkunar refsiábyrgðar og skaðabótaábyrgðar.
    Um frekari skýringar á kaflanum og einstökum ákvæðum hans vísast til kafla III.8 í almennum athugasemdum og athugasemda við einstakar greinar.

Um 12. gr.

    Ákvæði greinarinnar taka til takmörkunar ábyrgðar vegna miðlunar gagna og styðst við 12. gr. tilskipunarinnar.
    Hugtakið miðlun er ekki skilgreint í ákvæðinu, en af orðalagi þess leiðir að átt er við miðlun gagna eða veitingu aðgangs að fjarskiptaneti. Hér er því t.d. kveðið á um takmörkun ábyrgðar fjarskiptafyrirtækja þegar þau miðla gögnum eða veita aðgang að fjarskiptaneti, sbr. umfjöllun í kafla III.8 í almennum athugasemdum.
    Í 1. mgr. er kveðið á um frekari skilyrði þess að takmörkun ábyrgðar eigi við, m.a. að þjónustuveitandi breyti ekki þeim gögnum sem er miðlað. Sú útlitsbreyting sem verður á gögnum eingöngu við að birta þau með hjálp annarrar tækni, t.d. mynd á netinu sem sýna á með hjálp WAP-tækni, telst ekki breyting í skilningi ákvæðisins.
    Af 2. mgr. leiðir að ákvæði um takmörkun ábyrgðar vegna miðlunar gilda einnig um sjálfvirka, millistigs- og skammtímageymslu þeirra gagna sem eru flutt að því tilskildu að geymslan sé óhjákvæmileg vegna miðlunar og að efnið sé ekki geymt lengur en nauðsynlegt er vegna hennar. Hér er því fjallað um þá vistun sem gerist sjálfkrafa í tengslum við miðlun gagna, en ekki þá skyndivistun sem gerð er til að auka skilvirkni við miðlun gagna (e. caching). Um þá síðarnefndu er fjallað í 1. mgr. 13. gr. frumvarpsins. Rétt er að benda á að vistunin verður að fullnægja öllum skilyrðum, þ.e. vera sjálfvirk, millistigs- og skammtímageymsla, til þess að falla undir ákvæðið. Ekki er kveðið á um nákvæma fresti í þessu sambandi, heldur verður að meta hvert tilvik fyrir sig í ljósi þeirra tæknimöguleika sem fyrir hendi eru á hverjum tíma.

Um 13. gr.

    Í greininni er kveðið á um takmörkun ábyrgðar þjónustuveitanda vegna skyndivistunar gagna. Greinin styðst við 13. gr. tilskipunarinnar.
    Sú skyndivistun sem fjallað er um í greininni er sú geymsla gagna sem framkvæmd er til að auka skilvirkni við miðlun gagna (e. caching). Netþjónustur hér á landi sem annars staðar vista gjarnan eintak af heimasíðum sem eru hýstar á netþjónum erlendis. Er þetta gert til þess að viðskiptamönnum þeirra berist viðkomandi síða með snöggum hætti og til að minnka álag á fjarskiptakerfi. Skyndivistun sú sem kveðið er á um í 2. mgr. 12. gr. er hins vegar sú vistun sem gerist sjálfkrafa í tengslum við miðlun gagnanna. Hér er því kveðið á um takmörkun ábyrgðar netþjónustu sem nota skyndivistun við veitingu þjónustu sinnar.
    Kveðið er á um nánari skilyrði fyrir takmörkun ábyrgðar í 1. og 2. mgr. Um skýringar ákvæði 1. tölul. 1. mgr. er vísað til umfjöllunar um 1. mgr. 12. gr. frumvarpsins. Til þess að falla undir ákvæðið um takmörkun ábyrgðar skal þjónustuveitandi fullnægja skilyrðum um aðgang að gögnunum skv. 2. tölul. Slík skilyrði geta t.d. leitt til þess að þjónustuveitandi skuli greiða fyrir aðgang að téðum gögnum gegn lykilorði. Þriðja skilyrði takmörkunar ábyrgðar er að þjónustuveitandi fari eftir viðurkenndum reglum í atvinnugreininni um uppfærslu gagnanna, sbr. 3. tölul. Þjónustuþegi veit ekki hvort sú heimasíða sem hann heimsækir á netinu er hin upprunalega eða hvort hún er vistuð með skyndivistun hjá þjónustuveitanda. Þess vegna er það afar mikilvægt að gögnin séu uppfærð með reglubundnu millibili. Með „viðurkenndum reglum í atvinnugreininni“ er átt við að hafa skuli hliðsjón af viðurkenndum og góðum venjum á viðkomandi sviði þegar metið er hversu títt skal uppfæra gögnin. Loks skal þjónustuveitandi fullnægja skilyrði takmörkunar ábyrgðar að hann hafi ekki gripið inn í löglega notkun viðurkenndrar tækni sem notuð er til að komast yfir upplýsingar um notkun gagnanna, sbr. 4. tölul. Sem dæmi um upplýsingar um notkun gagnanna má nefna upplýsingar um hversu margar heimsóknir hafa verið skráðar á tiltekna heimasíðu á netinu. Slíkar upplýsingar geta haft mikið gildi, t.d. vegna auglýsingatekna. Skyndivistun síðna á netinu getur gert það að verkum að erfitt reynist að afla slíkra upplýsinga. Þó eru fyrir hendi tæknilausnir sem taka á þessu vandamáli. Ákvæði 4. tölul. gera það að verkum að þjónustuveitanda er ekki heimilt að hafa áhrif á slíka tækni vilji hann falla undir ákvæði um takmörkun ábyrgðar samkvæmt greininni. Með „viðurkenndri tækni í atvinnugreininni“ er átt við tækni sem er almennt viðurkennd og notuð á viðkomandi sviði.
    Samkvæmt 2. mgr. er takmörkun ábyrgðar þjónustuveitanda einnig háð því að hann fjarlægi gögnin þegar hann hefur fengið rökstudda vitneskju um tiltekin atriði, m.a. að gögnin hafi verið fjarlægð úr fjarskiptaneti við upptök miðlunar eða aðgangur hafi verið hindraður að gögnunum. Með því er átt við að gögnin séu ekki lengur aðgengileg á þeim netþjóni þar sem þau eru hýst, þ.e. hinum erlenda netþjóni. Með hugtakinu rökstudd vitneskja eru settar strangari kröfur til sönnunar á vitneskju þjónustuveitanda en ef takmörkun ábyrgðar væri einungis bundin við vitneskju hans.

Um 14. gr.

    Í greininni er kveðið á um takmörkun ábyrgðar þjónustuveitanda vegna hýsingar. Með henni er 14. gr. tilskipunarinnar innleidd. Til hýsingar getur t.d. talist þegar þjónustuþegi leigir svæði á netþjóni á vegum þjónustuveitanda til hýsingar á heimasíðu. Við nánari túlkun á ákvæðinu þarf að hafa í huga skilgreiningu á rafrænni þjónustu sem fjallað hefur verið um hér að framan í kafla III.3.1 í almennum athugasemdum.
    Takmörkun ábyrgðar samkvæmt greininni er háð því að þjónustuveitandi fjarlægi gögn eða hindri aðgang að þeim án tafar í tilteknum tilvikum. Í greininni hefur verið tekið tillit til þeirra hagsmuna sem vegast á í þessu sambandi, annars vegar tjáningarfrelsis og frekari þróunar rafrænnar þjónustu og hins vegar mikilvægis þess að koma í veg fyrir útbreiðslu ólögmætra gagna á skilvirkan hátt.
    Í fyrsta lagi skal þjónustuveitandi fjarlægja gögn eða hindra aðgang að þeim ef hann hefur fengið vitneskju um að sýslumaður hafi lagt lögbann við hýsingu gagnanna eða dómur hafi fallið um brottfellingu þeirra eða hindrun aðgangs að þeim. Í þeim tilvikum hefur farið fram lögformleg sönnun á ólögmæti gagna fyrir dómi eða sýslumanni og því brýnt að koma í veg fyrir útbreiðslu þess. Aðilum ætti einnig að vera hægt um vik að tilkynna viðkomandi þjónustuveitanda um úrlausn dómstóla eða sýslumanns og stuðla þannig að vitneskju hans.
    Í öðru lagi eru skilyrði takmörkunar á ábyrgð vegna meintra brota gegn ákvæðum höfundalaga þau að þjónustuveitandi fjarlægi gögn eða hindri aðgang að þeim þegar hann hefur fengið tilkynningu skv. 15. gr. frumvarpsins. Með broti gegn ákvæðum höfundalaga er bæði átt við brot gegn höfundarétti, t.d. 3. og 4. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, og brot gegn ákvæðum sömu laga um svokölluð grannréttindi, þ.e. réttindi listflytjenda, hljómplötuframleiðenda og útvarpsstöðva, sbr. V. kafla laganna. Minnt er á að nýlega var sett á vegum Evrópusambandsins tilskipun um höfundarétt í upplýsingasamfélagi (tilskipun 2000/29/ EB). Í 15.–18. gr. frumvarpsins er kveðið nánar á um það ferli sem mögulegt er að fylgja ef um meint höfundaréttarbrot er að ræða. Við samningu greinanna var haft í huga að tjáningarfrelsi yrði í heiðri haft þannig að ekki væri auðvelt að láta hindra aðgang að gögnum á netinu. Þannig er kveðið á um að aðgangur skuli veittur að gögnum á ný komi fram krafa þar að lútandi og öðrum skilyrðum er fullnægt, sbr. 17. gr. frumvarpsins. Þá er einnig kveðið á um hlutlæga bótaábyrgð vegna rangrar upplýsingagjafar í 18. gr. frumvarpsins. Hins vegar hefur reynslan sýnt að tjón vegna höfundaréttarbrota með stafrænni tækni, þ.m.t. dreifingu á netinu, geta verið umtalsverð. Er það ekki síst vegna þess hversu auðvelt er að dreifa gögnum á netinu og hversu skamman tíma það tekur. Því er talið að nauðsynlegt sé að mæla fyrir um að rétthafar og umboðsmenn þeirra geti sent tilkynningu skv. 15. gr. frumvarpsins og þannig stuðlað að stöðvun á dreifingu gagnanna.
    Í þriðja lagi er takmörkun ábyrgðar þjónustuveitanda háð því að hann fjarlægi eða hindri aðgang að gögnum ef hann hefur fengið vitneskju um að þau innihalda barnaklám. Varsla barnakláms er refsiverð skv. 210. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Talið er að um svo alvarlegt efni sé að ræða að stuðla verði að fjarlægingu þess eða hindrun aðgangs að því svo skjótt sem unnt er.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ákvæði greinarinnar um takmörkun ábyrgðar eigi ekki við þegar þjónustuþegi kemur fram í umboði eða undir stjórn þjónustuveitanda. Ákvæðið miðar að því að tryggja að þjónustuveitendur geti ekki takmarkað ábyrgð sína vegna gagna sem eru í raun á þeirra vegum.

Um 15. gr.

    Ákvæðið fjallar um þær upplýsingar sem tilkynning um meint brot gegn ákvæðum höfundalaga á að geyma.
    Í 1. og 2. tölul. 1. mgr. er mælt fyrir um að gefa skuli upp þær upplýsingar sem gera þjónustuveitanda kleift að komast í samband við sendanda og rétthafa. Er hér t.d. átt við símbréfsnúmer, símanúmer og netfang, ef við á. Með rétthafa er átt við höfundaréttarhafa eða rétthafa grannréttinda höfundaréttar, sbr. V. kafla höfundalaga, nr. 73/1972. Ákvæði 3. tölul. kveða á um að tilgreina skuli þau gögn sem krafist er fjarlægingar á eða hindrunar aðgangs að og staðsetningu þeirra. Með staðsetningu er t.d. átt við veffang þeirra. Tilgreining þessi skal vera svo nákvæm að þjónustuveitandi geti gert sér grein fyrir hvað átt er við. Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. skal tilkynning innihalda upplýsingar um það hugverk eða listflutning sem er grundvöllur kröfu. Þannig þarf sá sem tilkynnir um meint höfundaréttarbrot að sýna fram á grundvöll kröfunnar til að hún nái fram að ganga. Með 5. tölul. er tilkynnendum gert að lýsa því yfir að upplýsingar í tilkynningu séu réttar. Er það gert til þess að stuðla enn frekar að réttmætum tilkynningum. Ákvæði 6. tölul. mæla fyrir um að tilkynning þurfi að innihalda yfirlýsingu um að sendandi sé rétthafi eða hafi umboð frá honum. Er þannig komið í veg fyrir að hver sem er geti sent tilkynningar skv. 15. gr. frumvarpsins. Með 7. tölul. er kveðið á um að yfirlýsing þurfi að vera undirrituð af sendanda. Minnt er á að skv. 4. gr. laga um rafrænar undirskriftir, nr. 28/2001, er fullgild rafræn undirskrift ætíð jafngild handritaðri. Aðrar rafrænar undirskriftir geta og fullnægt áskilnaði um undirskrift.
    Í 2. mgr. er kveðið á um hvernig þjónustuveitandi skuli bregðast við ef annmarkar eru á tilkynningu samkvæmt þessari grein. Mat á því hversu verulegir annmarkar teljast verður að fara fram í hverju tilfelli fyrir sig. Sem dæmi má nefna að veiti sendandi tilkynningar engar upplýsingar sem gera þjónustuveitanda kleift að komast í samband við hann teljast það verulegir annmarkar.

Um 16. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um hvernig þjónustuveitandi skuli bregðast við þegar hann hefur fjarlægt gögn í samræmi við 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. Ákvæðinu er ætlað að stuðla að því að þjónustuþegi viti af að gögn hafi verið fjarlægð eða aðgangur að þeim hindraður og rétti sínum til að krefjast þess að veittur verði aðgangur að þeim á ný svo fljótt sem unnt er.

Um 17. gr.

    Ákvæðin eiga að tryggja að þjónustuþegi eigi rétt á að aðgangur verði veittur að gögnum á ný, að fullnægðum ákveðnum skilyrðum. Meintum höfundaréttarhafa eða umboðsmanni hans er einnig veitt færi á að hefja málsókn um málið og koma þannig í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum á ný. Ekki er gert ráð fyrir að þjónustuveitandi meti efnislega hvort krafa þjónustuþega um að veita aðgang að gögnum á ný eigi við rök að styðjast. Þjónustuveitanda er einungis skylt að athuga hvort gagntilkynning þjónustuþega innihaldi þau atriði sem nauðsynleg eru samkvæmt ákvæðinu. Ef svo er ekki telst hún haldin annmarka í skilningi ákvæðisins. Ef gagntilkynning telst ekki haldin annmarka ber þjónustuveitanda að tilkynna meintum höfundaréttarhafa eða umboðsmanni hans um gagntilkynninguna. Einnig ber honum að upplýsa um möguleika þeirra á að höfða mál um kröfuna og að slík málshöfðun komi í veg fyrir að veittur verði aðgangur að gögnum á ný. Minnt er á að mál telst höfðað þegar stefna er birt eða árituð um viðtöku samrits hennar eða stefndi mætir að öðrum kosti fyrir dómi þar sem stefnandi afhendir honum samrit stefnu og þingfestir mál, sbr. 93. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Nægilegt er því að senda þjónustuveitanda áritaða stefnu, birtingarvottorð eða endurrit þinghalds þar sem stefndi hefur mætt óstefndur og mál hefur verið þingfest. Ef ekki berast gögn um málshöfðun innan 14 daga frá því að þjónustuveitandi sendi meintum höfundaréttarhafa eða umboðsmanni hans upplýsingar um gagntilkynningu þjónustuþega ber honum að veita aðgang að gögnum á ný án tafar.
    Um nánari skýringu á ákvæðum um innihald tilkynningarinnar og verulega annmarka vísast til athugasemda við 15. gr. frumvarpsins.

Um 18. gr.

    Í greininni er kveðið á um skaðabótaábyrgð vegna óréttmætrar fjarlægingar gagna eða hindrunar aðgangs að þeim. Einnig er fjallað um afleiðingar þess að dómstóll komist að þeirri niðurstöðu að krafa um að veita aðgang að gögnum á ný hafi ekki verið réttmæt. Höfð var hliðsjón af sambærilegum ákvæðum í lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, við samningu ákvæðisins. Ákvæðunum er ætlað að hafa varnaðaráhrif gegn tilkynningum um brot gegn höfundalögum og tilkynningum um að veita aðgang að gögnum á ný sem ekki eiga við rök að styðjast.
    Rétt er að vekja athygli á að þjónustuþega væri almennt unnt að gera kröfu í sama dómsmáli um skaðabætur samkvæmt greininni og að veittur yrði aðgangur að gögnum á ný, þar sem þær eru frá sömu rót runnar.

Um 19. gr.

     Í greininni er kveðið á um að Samkeppnisstofnun skuli hafa eftirlit með tilteknum greinum frumvarpsins, þ.e. 6., 7., 9., 10. og 11. gr. Þar sem þær greinar hafa að geyma sambærileg ákvæði og eru í VI. kafla samkeppnislaga, nr. 8/1993, um bann gegn óréttmætum viðskiptaháttum þykir fara vel á því að Samkeppnisstofnun hafi eftirlit með tilgreindum ákvæðum frumvarpsins.
    Um úrræði samkeppnisyfirvalda, stjórnvaldssektir og málsmeðferð er vísað til samkeppnislaga. Er hér einkum haft í huga ákvæði 2. mgr. 30. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993, um úrræði, ákvæði 51. gr. sömu laga um stjórnvaldssektir og ákvæði 58. gr. laganna um málskot.

Um 20. gr.

    Ákvæðið kveður á um hver skuli vera tengiliður í evrópsku samstarfi á sviði rafrænna viðskipta. Greinin styðst við 19. gr. tilskipunarinnar sem segir að aðildarríkin skuli hafa samstarf við önnur aðildarríki og skuli í því skyni tilnefna einn eða fleiri tengiliði. Þá kemur fram í 4. mgr. 19. gr. tilskipunarinnar að aðildarríki skuli koma á fót tengiliðum þar sem þjónustuþegar og þjónustuveitendur geti aflað sér almennra upplýsinga um samningsréttindi og samningsskyldur og kæruleiðir og leiðir til úrbóta sem í boði eru í deilumálum. Einnig skulu þjónustuþegar og þjónustuveitendur geta aflað sér þar ítarlegra upplýsinga um stjórnvöld, samtök eða stofnanir sem geta veitt þeim frekari upplýsingar eða hagnýta aðstoð. Samkvæmt þessari frumvarpsgrein er lagt til að viðskiptaráðuneytið verði a.m.k. fyrst um sinn umræddur tengiliður. Það breytir hins vegar ekki skyldu annarra stjórnvalda að veita þeim upplýsingar sem til þeirra leita, sbr. t.d. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Um 21. gr.

    Ákvæðið styðst við 2. mgr. 22. gr. tilskipunarinnar og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 22. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 23. gr.


    Í 7. gr. tilskipunar um rafræn viðskipti er kveðið á um að unnt skuli vera að bera kennsl á markpóst sem sendur er með rafrænum hætti á skýran og ótvíræðan hátt um leið og viðtakandinn fær hann í hendur. Þar sem slíkt er ekki gert í 28. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, sem fjallar um markpóst, er nauðsynlegt að gera breytingu þar á.

Um 24. gr.

    Í 8. gr. tilskipunar um rafræn viðskipti kemur fram að aðildarríki skuli tryggja að notkun viðskiptaorðsendinga, sem eru hluti af eða mynda rafræna þjónustu og aðili að lögverndaðri starfsgrein veitir, sé heimil með fyrirvara um að hún samræmist starfsreglum, einkum um sjálfstæði, virðingu og heiður starfsgreinarinnar. Með lögvernduðu starfi er átt við hvert það starf sem samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum krefst leyfis, skráningar eða þess háttar, sbr. og athugasemdir við 6. gr. frumvarpsins. Með viðskiptaorðsendingu er átt við hvers konar orðsendingu sem er ætlað að vekja, með beinum eða óbeinum hætti, athygli á vörum, þjónustu eða ímynd félags, stofnunar eða persónu sem stundar verslunar-, iðnaðar- eða handverksstarfsemi eða lögverndaða starfsgrein, sbr. f-lið 2. gr. tilskipunarinnar. Þar sem lækningar teljast til lögverndaðrar starfsgreinar á 8. gr. tilskipunarinnar við um lækna. 1. mgr. 17. gr. gildandi læknalaga hljóðar svo:
    „Lækni er einungis heimilt að auglýsa læknastarfsemi sína með efnislegum og látlausum auglýsingum í blöðum sem birta má í hæsta lagi þrisvar þegar hann hefur störf eða breyting verður á aðsetri eða viðtalstíma. Lækni er heimilt að auðkenna sig með nafni, sérgrein, aðsetri, síma og viðtalstíma á dyraspjöldum, nafnspjöldum og lyfseðlum.“
    Því eru lagðar til breytingar á læknalögunum þannig að þau leggi ekki tálmanir við að læknar nýti sér rafræna þjónustu við beinar eða óbeinar auglýsingar.


Um 25. gr.

    11. gr. gildandi laga um tannlækningar hljóðar svo:
    „Tannlæknum eru óheimilar hvers konar auglýsingar um starfsemi sína sem tannlæknar. Við opnun tannlæknastofu má þó auglýsa það með látlausri auglýsingu í blöðum sem mest má birta þrisvar sinnum. Tannlæknum og stéttarfélagi þeirra ber að vinna gegn því að eftir þeim séu birt ummæli eða samtöl eða um þá ritaðar greinar í blöð eða tímarit í auglýsingaskyni. Verði ekki komið í veg fyrir það ber þeim eða stéttarfélagi þeirra jafnskjótt að leiðrétta það sem ofmælt kann að hafa verið.“
    Því eru lagðar til breytingar á lögunum þannig að þau leggi ekki tálmanir við að tannlæknar nýti sér rafræna þjónustu við beinar eða óbeinar auglýsingar. Um frekari skýringar á ákvæðinu vísast til athugasemda við 24. gr. frumvarpsins.
Fylgiskjal I.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2000/31/EB

frá 8. júní 2000

um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum („tilskipun um rafræn viðskipti“)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 47. gr., 55. gr. og 95. gr.,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),

í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)      Markmið Evrópusambandsins er að skapa æ nánari tengsl milli ríkja og þjóða Evrópu í því skyni að tryggja efnahags- og félagslegar framfarir. Í samræmi við 2. mgr. 14. gr. sáttmálans nær innri markaðurinn yfir svæði án innri landamæra þar sem frjálsir vöruflutningar, frjáls þjónustustarfsemi og staðfesturéttur eru tryggð. Þróun þjónustu í upplýsingasamfélaginu innan svæðis án innri landamæra er afgerandi í því skyni að ryðja úr vegi hindrunum sem skilja að þjóðir Evrópu.

2)      Þróun rafrænna viðskipta innan upplýsingasamfélagsins skapar kjörin atvinnutækifæri í bandalaginu, einkum í litlum og meðalstórum fyrirtækjum, og mun stuðla að hagvexti og fjárfestingu evrópskra félaga í nýjungum og getur einnig aukið samkeppnishæfni evrópsks iðnaðar, að því tilskildu að allir hafi aðgang að Netinu.

3)      Lög og einkenni réttarfars í bandalaginu stuðla í ríkum mæli að því að gera evrópskum borgurum og atvinnurekendum kleift að nýta til fulls tækifæri sem rafræn viðskipti bjóða, án tillits til landamæra. Því er markmiðið með þessari tilskipun að tryggja víðtæka samþættingu bandalagslaga, þannig að til verði raunverulegt svæði án innri landamæra fyrir þjónustu í upplýsingasamfélaginu.

4)      Mikils er um vert að tryggja að rafræn viðskipti njóti til fulls góðs af innri markaðinum sem leiði til víðtækrar samþættingar í bandalaginu, eins og raunin er um tilskipun ráðsins 89/552/EBE frá 3. október 1989 um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um sjónvarpsrekstur ( 4 ).

5)      Fjöldi lagalegra hindrana í vegi eðlilegrar starfsemi innri markaðarins hamla þróun þjónustu í upplýsingasamfélaginu innan bandalagsins og gera það síður fýsilegt að nýta sér staðfesturétt og frelsi til að veita þjónustu. Þessar hindranir stafa af mismunandi löggjöf og réttaróvissu um það hvaða innlendar reglur gilda um slíka þjónustu. Þar eð löggjöf á viðkomandi sviðum er hvorki samræmd né aðlöguð hver annarri kann að vera unnt að réttlæta fyrrnefndar hindranir í ljósi réttarframkvæmdar dómstóls Evrópubandalaganna. Réttaróvissa ríkir um það í hve ríkum mæli aðildarríkjunum er heimilt að hafa eftirlit með þjónustustarfsemi sem er upprunnin í öðru aðildarríki.

6)      Með hliðsjón af markmiðum bandalagsins, sem koma fram í 43. og 49. gr. sáttmálans og afleiddum lögum þess, ber að ryðja þessum hindrunum úr vegi með því að samræma tiltekin, innlend lög og skýra tiltekin, lögfræðileg hugtök á vettvangi bandalagsins nægilega vel til þess að starfsemi innri markaðarins geti farið fram með eðlilegum hætti. Þar eð tilskipun þessi fjallar einvörðungu um tiltekin sérmál, sem valda vandkvæðum fyrir starfsemi innri markaðarins, er hún í fullu samræmi við þá nauðsyn að fylgja dreifræðisreglunni eins og hún er sett fram í 5. gr. sáttmálans.

7)      Í því skyni að tryggja réttaröryggi og tiltrú neytenda skal í tilskipun þessari mælt fyrir um skýran og almennan ramma fyrir tiltekna lagalega þætti í tengslum við rafræn viðskipti á innri markaðinum.

8)      Markmiðið með þessari tilskipun er að móta lagaramma til að tryggja frjálsa þjónustustarfsemi í upplýsingasamfélaginu milli aðildarríkjanna en ekki að samhæfa svið refsiréttar sem slíkt.

9)      Frjáls þjónustustarfsemi í upplýsingasamfélaginu getur í mörgum tilvikum endurspeglað víðtækari meginreglu í lögum bandalagsins með sérstökum hætti, þ.e. meginregluna um tjáningarfrelsi, eins og hún er skilgreind í 1. mgr. 10. gr. sáttmálans um verndun mannréttinda og mannfrelsis sem öll aðildarríkin hafa fullgilt. Af þessum ástæðum skal með tilskipunum, sem fjalla um veitingu þjónustu í upplýsingasamfélaginu, tryggja að frjáls þátttaka í þessari starfsemi sé heimil með hliðsjón af fyrrnefndri grein, einvörðungu með fyrirvara um þær takmarkanir sem mælt er fyrir um í 2. mgr. hennar og 1. mgr. 46. gr. sáttmálans. Tilskipun þessari er ekki ætlað að hafa áhrif á innlendar grundvallarreglur og meginreglur um tjáningarfrelsi.

10)      Ráðstafanirnar, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, takmarkast, í samræmi við meðalhófsregluna, einungis við það lágmark sem er nauðsynlegt til þess að ná því marki að starfsemi innri markaðarins sé með eðlilegum hætti. Ef aðgerða er þörf á vettvangi bandalagsins og til þess að tilvist svæðis án innri landamæra sé tryggð í raun, að því er varðar rafræn viðskipti, skal tilskipunin slá skjaldborg um markmið í almannaþágu, einkum þau sem miða að verndun ólögráða barna og mannlegrar reisnar, neytendavernd og verndun almannaheilbrigðis. Samkvæmt 152. gr. sáttmálans er verndun almannaheilbrigðis grundvallaratriði í öðrum stefnumálum bandalagsins.

11)      Tilskipun þessi er einkum með fyrirvara um umfang verndunar almannaheilbrigðis og neytendahagsmuna, eins og mælt er fyrir um það í lögum bandalagsins.Tilskipun ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum ( 1 ) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB frá 20. maí 1997 um neytendavernd að því er varðar fjarsölusamninga ( 2 ) innihalda meðal annarra mikilvægar reglur um neytendavernd á sviði samninga. Fyrrnefndar tilskipanir gilda og í heild sinni um þjónustu í upplýsingasamfélaginu. Þessar sömu réttarreglur bandalagsins, sem gilda að fullu um þjónustu í upplýsingasamfélaginu, ná einnig yfir, einkum og sér í lagi, tilskipun ráðsins 84/450/EBE frá 10. september 1984 um villandi auglýsingar ( 3 ), tilskipun ráðsins 87/102/EBE frá 22. desember 1986 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán ( 4 ), tilskipun ráðsins 93/22/EBE frá 10. maí 1993 um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta ( 5 ), tilskipun ráðsins 90/314/EBE frá 13. júní 1990 um ferðapakka, orlofspakka og skoðunarferðapakka ( 6 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/6/EB frá 16. febrúar 1998 um neytendavernd að því er varðar upplýsingar um verð á vöru sem er boðin neytendum ( 7 ), tilskipun ráðsins 92/59/EBE frá 29. júní 1992 um öryggi framleiðsluvöru ( 8 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/47/EB frá 26. október 1994 um verndun kaupenda vegna tiltekinna þátta í samningum um kaup á réttindum til að nýta fasteignir á skiptileigugrunni ( 1 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/27/EB frá 19. maí 1998 um lögbann til verndar hagsmunum neytenda ( 2 ), tilskipun ráðsins 85/374/EBE frá 25. júlí 1985 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum vegna skaðsemisábyrgðar á gölluðum vörum ( 3 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/44/EB frá 25. maí 1999 um tiltekna þætti í sölu neysluvara og ábyrgð þar að lútandi ( 4 ), væntanlega tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um fjarmarkaðssetningu fjármálaþjónustu fyrir neytendur og tilskipun ráðsins 92/28/EBE frá 31. mars 1992 um auglýsingu lyfja sem ætluð eru mönnum ( 5 ). Tilskipun þessi skal vera með fyrirvara um tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/43/EB frá 6. júlí 1998 um samræmingu laga og stjórnsýslufyrirmæla aðildarríkjanna um auglýsingu tóbaksvara og kostun í tengslum við þær ( 6 ) sem er samþykkt innan ramma innri markaðarins eða með fyrirvara um tilskipanir um verndun almannaheilbrigðis. Tilskipun þessi er til fyllingar krafna um upplýsingar sem eru gerðar í fyrrnefndum tilskipunum, einkum tilskipun 97/7/EB.

12)      Nauðsynlegt er að útiloka tiltekna starfsemi frá gildissviði þessarar tilskipunar af þeirri ástæðu að ekki er unnt, á þessu stigi, að tryggja frelsi til að veita þjónustu á þessum sviðum samkvæmt sáttmálanum eða gildandi, afleiddri löggjöf. Að girt sé fyrir þessa starfsemi útilokar ekki gerninga sem kynnu að reynast nauðsynlegir til þess að innri markaðurinn geti starfað með eðlilegum hætti. Útiloka ber skattlagningu frá gildissviðs þessarar tilskipunar, einkum virðisaukaskatt sem er lagður á fjölmargar þjónustugreinar sem falla undir gildissvið hennar.

13)      Með þessari tilskipun er hvorki ætlunin að setja reglur um skattaálögur né að hindra undirbúning gerninga á vettvangi bandalagsins um skattaálögur á sviði rafrænna viðskipta.
14)      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( 7 ) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/66/EB frá 15. desember 1997 um vinnslu persónuupplýsinga og um verndun einkalífs á fjarskiptasviðinu ( 8 ), sem gilda að fullu um þjónustu í upplýsingasamfélaginu, gilda einar um verndun einstaklinga með tilliti til vinnslu persónuupplýsinga. Tilskipanir þessar mynda þegar lagaramma um svið persónuupplýsinga og því ber ekki nauðsyn til að fjalla um það málefni í þessari tilskipun til þess að tryggja snurðulausa starfsemi innri markaðarins, einkum frjálsa miðlun persónuupplýsinga milli aðildarríkja. Framkvæma ber og beita þessari tilskipun í fullu samræmi við meginreglur um verndun persónuupplýsinga, einkum að því er varðar óumbeðnar viðskiptaorðsendingar og ábyrgð milliliða. Með tilskipun þessari er ekki unnt að koma í veg fyrir nafnlausa notkun opinna netkerfa eins og Netsins.

15)      Fjarskiptaleynd er tryggð með 5. gr. tilskipunar 97/66/EB. Aðildarríkin skulu, í samræmi við fyrrnefnda tilskipun, banna hvers kyns hleranir slíkra fjarskipta eða eftirlit með þeim nema af hálfu sendenda og viðtakenda, nema því aðeins að slíkt sé heimilt lögum samkvæmt.

16)      Eina fjárhættustarfsemin sem fellur ekki undir gildissvið þessarar tilskipunar eru áhættuleikir, happdrætti eða veðmálaviðskipti sem fela í sér að lagt er fram áhættufé. Þetta gildir ekki um keppni eða leiki í auglýsingaskyni þar sem markmiðið er að stuðla að sölu vöru eða þjónustu og þar sem greiðslur, ef um þær er að ræða, eru aðeins inntar af hendi til þess að verða sér úti um þær vörur eða þjónustu sem er auglýst.

17)      Skilgreiningu á þjónustu í upplýsingasamfélaginu er þegar að finna í bandalagslögum, í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/34/EB frá 22. júní 1998 um aðferð við framsetningu upplýsinga vegna tæknilegra staðla og fyrirmæla og reglur um þjónustu sem tengist upplýsingasamfélaginu ( 1 ) og í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/84/EB frá 20. nóvember 1998 um lögverndun þjónustu sem er byggð á, eða er fólgin í, skilyrtum aðgangi ( 2 ). Þessi skilgreining gildir um alla þjónustu sem venjulega er veitt gegn greiðslu, úr fjarlægð, með rafrænum búnaði fyrir vinnslu (þar með talin stafræn samþjöppun) og til gagnageymslu og að beiðni þess einstaklings sem þiggur þjónustuna. Þessi skilgreining gildir ekki um þá þjónustu sem um getur í viðmiðunarskránni í V. viðauka við tilskipun 98/34/EB og felst ekki í gagnavinnslu og -geymslu.

18)      Þjónusta í upplýsingasamfélaginu nær yfir vítt svið beinlínutengdrar atvinnustarfsemi. Þessi starfsemi getur einkum falist í beinlínutengdri sölu vara. Starfsemi, eins og vöruafhending sem slík eða framboð þjónustu sem er ekki beinlínutengd, er ekki talin með. Þjónusta í upplýsingasamfélaginu er ekki bundin einvörðungu við þjónustu sem er tilefni beinlínutengdra samninga en nær einnig, þegar um er að ræða atvinnustarfsemi, til þjónustu sem ekki er greidd af þeim sem njóta hennar, t.d. þjónustu þar sem beinlínutengdar upplýsingar eða viðskiptaorðsendingar eru í boði eða þjónustu þar sem tæki eru látin í té sem gera kleift að leita að gögnum, fá aðgang að þeim og sækja þau. Þjónusta í upplýsingasamfélaginu nær einnig til þjónustu sem felst í upplýsingaflutningi um boðskiptanet, því að veita aðgang að boðskiptaneti eða að hýsa upplýsingar sem þjónustuþegi lætur í té. Sjónvarp, í skilningi tilskipunar 89/552/EBE, og útvarp eru ekki þjónusta í upplýsingasamfélaginu þar eð ekki er um þjónustu að ræða sem er látin í té samkvæmt einstökum beiðnum. Þjónusta sem er miðlað frá einum stað til annars, eins og pöntunarsjónvarp eða viðskiptaorðsendingar í tölvupósti, telst hins vegar þjónusta í upplýsingasamfélaginu. Notkun tölvupósts eða sambærilegra, einstakra orðsendinga, til dæmis af hálfu einstaklinga sem eru með umsvif utan við fag sitt, starfsemi eða atvinnugrein, þar með talin notkun þeirra við gerð samninga þeirra í milli, telst ekki þjónusta í upplýsingasamfélaginu. Samningsbundin tengsl milli starfsmanns og vinnuveitanda hans teljast ekki þjónusta í upplýsingasamfélaginu. Starfsemi, sem eðli máls samkvæmt getur ekki farið fram úr fjarlægð og með rafrænum hætti, eins og lögboðin endurskoðun reikninga félaga eða læknisfræðileg ráðgjöf sem krefst þess að sjúklingur sé skoðaður, telst ekki þjónusta í upplýsingasamfélaginu.

19)      Ákveða ber hvar þjónustuveitandi hefur staðfestu í samræmi við réttarframkvæmd dómstólsins, en samkvæmt henni felst í hugtakinu staðfesta að rekin sé virk atvinnustarfsemi ótímabundið í fastri starfstöð. Þessari kröfu er einnig fullnægt ef félag er stofnað í tiltekinn tíma. Staðurinn þar sem félag, sem veitir þjónustu um vefsetur á Netinu, hefur staðfestu er ekki staðurinn þar sem tæknibúnaðurinn á bak við vefsíðu þess er eða staðurinn þar sem vefsíða þess er aðgengileg, heldur staðurinn þar sem það stundar atvinnurekstur sinn. Í tilvikum þar sem þjónustuveitandi hefur staðfestu á nokkrum stöðum er mikilvægt að ákveða hvaðan viðkomandi þjónusta er veitt. Í tilvikum þar sem erfitt er að skera úr um hvaðan tiltekin þjónusta er veitt, ef um er að ræða fjölda staða þar sem þjónustuveitandinn hefur staðfestu, skal velja staðinn þar sem miðstöð starfsemi hans, sem tengist þeirri sérstöku þjónustu sem um er að ræða, er.

20)      Skilgreining hugtaksins „þjónustuþegi“ nær til hvers kyns notkunar þjónustu í upplýsingasamfélaginu, bæði af hálfu þeirra sem veita þjónustu um opin netkerfi eins og Netið og þeirra sem leita upplýsinga á Netinu í eigin þágu eða í atvinnuskyni.

21)      Gildissvið hins samræmda sviðs er með fyrirvara um væntanlega samhæfingu á vettvangi bandalagsins sem tengist þjónustu í upplýsingasamfélaginu og væntanlega löggjöf sem verður samþykkt á innlendum vettvangi í samræmi við lög bandalagsins. Hið samræmda svið tekur einvörðungu til krafna sem eru gerðar vegna beinlínutengdrar starfsemi, t.d. beinlínutengdra upplýsinga, auglýsinga, innkaupa og samningsgerðar, en ekki krafna aðildarríkjanna lögum samkvæmt um vörur, t.d. öryggisstaðla, kvaðir um merkingar eða ábyrgð á vörum, eða krafna aðildarríkjanna um afhendingu vara eða flutning, þar með talin lyfjadreifing. Hið samræmda svið fjallar ekki um rétt yfirvalda til þess að neyta forkaupsréttar að því er varðar tilteknar vörur, t.d. listaverk.

22)      Hafa ber eftirlit með þjónustu í upplýsingasamfélaginu þar sem hún er upprunnin í því skyni að verndun almennings sé í raun tryggð. Til þess að svo megi verða ber nauðsyn til að tryggja að viðkomandi lögbær yfirvöld veiti ekki aðeins eigin ríkisborgurum slíka vernd heldur og öllum ríkisborgurum í bandalaginu. Í því skyni að efla gagnkvæmt traust milli aðildarríkjanna er afar mikilvægt að sú ábyrgð, sem hvílir á aðildarríkinu þar sem þjónustan er upprunin, komi fram með skýrum hætti. Ennfremur ætti meginreglan að vera sú að lög aðildarríkisins, þar sem þjónustuveitandinn hefur staðfestu, gildi um slíka þjónustu í upplýsingasamfélaginu til þess að unnt sé að tryggja með skilvirkum hætti frelsi til að veita þjónustu og réttaröryggi þeim til handa sem veita og þiggja þjónustu.

23)      Með þessari tilskipun er hvorki ætlunin að setja viðbótarreglur um alþjóðlegan einkamálarétt í tengslum við mismun milli réttarreglna einstakra landa né fjalla um lögsögu dómstóla. Ákvæði gildandi laga, sem reglur alþjóðlegs einkamálaréttar gefa til kynna, takmarka ekki frelsi til að veita þjónustu í upplýsingasamfélaginu eins og kveðið er á um í tilskipun þessari.

24)      Að því er varðar þessa tilskipun og þrátt fyrir regluna um eftirlit, þar sem þjónusta í upplýsingasamfélaginu er upprunin, telst lögmætt, samkvæmt skilmálum þessarar tilskipunar, að aðildarríki geri ráðstafanir til þess að takmarka frelsi til að veita þjónustu í upplýsingasamfélaginu.

25)      Innlendir dómstólar, þar með taldir dómstólar á sviði einkamálaréttar sem fjalla um deilumál sem falla undir einkamálarétt, geta gert ráðstafanir til að víkja frá frelsi til að veita þjónustu í upplýsingasamfélaginu í samræmi við þau skilyrði sem kveðið er á um í þessari tilskipun.

26)      Aðildarríkjunum er heimilt, í samræmi við skilyrðin sem kveðið er á um í þessari tilskipun, að beita innlendum reglum á sviði refsiréttar og sakamála í því augnamiði að allar rannsóknir og aðrar nauðsynlegar ráðstafanir verði gerðar til þess að koma upp um afbrot og ákæra fyrir þau, án þess að nauðsynlegt sé að tilkynna framkvæmdastjórninni um slíkar ráðstafanir.

27)      Tilskipun þessi, ásamt væntanlegri tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur, stuðlar að mótun lagaramma um framboð beinlínutengdrar fjármálaþjónustu. Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á væntanlegt frumkvæði á sviði fjármálaþjónustu, einkum með tilliti til samhæfingar siðareglna á þessu sviði. Sá kostur, sem aðildarríkin eiga völ á við vissar aðstæður og kveðið er á um í þessari tilskipun, að takmarka frelsi til að veita þjónustu í upplýsingasamfélaginu í því skyni að vernda neytendur nær einnig til ráðstafana á sviði fjármálaþjónustu, einkum ráðstafana sem miða að því að vernda fjárfesta.

28)      Sú skuldbinding aðildarríkjanna, að gera aðgengi að starfsemi veitenda þjónustu í upplýsingasamfélaginu óháð undanfarandi heimild, á ekki við um póstþjónustu sem er fjallað um í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/67/EB frá 15. desember 1997 um sameiginlegar reglur varðandi þróun innri markaðar bandalagsins á sviði póstþjónustu og umbætur á þeirri þjónustu ( 1 ) og felst í afhendingu útprentaðs tölvupóstskeytis í áþreifanlegu formi og hefur ekki áhrif á valfrjáls faggildingarkerfi, einkum ætluð vottunaraðilum á sviði rafrænna undirskrifta.

29)      Viðskiptaorðsendingar eru afgerandi fyrir fjármögnun þjónustu í upplýsingasamfélaginu og þróun nýrrar, ókeypis þjónustu af margvíslegum toga. Óhjákvæmilegt er, í þágu neytendaverndar og góðra viðskiptahátta, að viðskiptaorðsendingar, meðal annars um afslátt, söluhvetjandi tilboð og söluhvetjandi keppni eða leiki, uppfylli fjölda krafna um gagnsæi. Þessar kröfur eru með fyrirvara um tilskipun 97/7/EB. Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á gildandi tilskipanir um viðskiptaorðsendingar, einkum tilskipun 98/43/EB.

30)      Óumbeðnar viðskiptaorðsendingar í tölvupósti kunna að vera óæskilegar fyrir neytendur og veitendur þjónustu í upplýsingasamfélaginu og geta truflað snurðulausa starfsemi gagnvirkra netkerfa. Tilskipun þessi fjallar ekki um samþykki viðtakenda óumbeðinna viðskiptaorðsendinga í tilteknu formi, en í tilskipunum 97/7/EB og 97/66/EB hefur nú þegar verið fjallað um slíkt samþykki sérstaklega. Í aðildarríkjum, sem heimila óumbeðnar viðskiptaorðsendingar í tölvupósti, ber að hvetja til og stuðla að viðeigandi framtaki innan atvinnugreinarinnar sem miðar að síun. Að auki er nauðsynlegt að ávallt sé auðvelt að bera kennsl á óumbeðnar viðskiptaorðsendingar sem slíkar í því skyni að auka gagnsæi og greiða fyrir því að slíkt framtak nái fram að ganga. Óumbeðnar viðskiptaorðsendingar í tölvupósti skulu ekki leiða til aukins fjarskiptakostnaðar fyrir viðtakanda.

31)      Aðildarríki, sem heimila að þjónustuveitendur, sem hafa staðfestu á landsvæði þeirra, sendi óumbeðnar viðskiptaorðsendingar í tölvupósti án fyrirfram samþykkis viðtakanda, skulu sjá til þess að þjónustuveitendurnir fylgist reglulega með og taki mið af úrsagnarskránum sem einstaklingar, sem ekki óska eftir að fá sendar slíkar viðskiptaorðsendingar, geta látið færa sig í.

32)      Til þess að unnt sé að yfirstíga hindranir í vegi þróunar þjónustu yfir landamæri innan bandalagsins, sem aðilar innan lögverndaðra starfsgreina kynnu að bjóða fram á Netinu, ber nauðsyn til að tryggja, á vettvangi bandalagsins, að starfsreglur, sem miða sérstaklega að því að vernda neytendur eða almannaheilbrigði, séu virtar. Siðareglur á vettvangi bandalagsins eru heppilegasta leiðin til þess að ákveða siðareglur starfsgreinar sem gildi um viðskiptaorðsendingar. Hvetja ber til þess að slíkar reglur séu samdar eða, þar sem það á við, aðlagaðar með fyrirvara um sjálfsforræði starfsgreinanefnda og -samtaka.

33)      Tilskipun þessi kemur til fyllingar bandalagslögum og innlendum lögum um lögverndaðar starfsgreinar og safnar saman í eitt og viðheldur samstæðu safni gildandi reglna á þessu sviði.

34)      Hverju aðildarríki ber að breyta löggjöf sinni þar sem fram koma kröfur, einkum formkröfur, sem líklegt er að dragi úr samningsgerð með rafrænum hætti. Gera skal skipulega athugun á allri löggjöf, sem þarfnast slíkra breytinga, sem skal ná til allra nauðsynlegra þrepa og aðgerða samningsgerðarinnar, einnig varðveislu samnings í skjalasafni. Þessar breytingar ættu að leiða til þess að unnt verði að gera samninga með rafrænum hætti. Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/93/EB frá 13. desember 1999 um ramma bandalagsins varðandi rafrænar undirskriftir ( 1 ) er fjallað um réttaráhrif rafrænna undirskrifta. Staðfesting þjónustuveitanda á móttöku getur verið fólgin í því að veita þá beinlínutengdu þjónustu sem er greitt fyrir.

35)      Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á svigrúm aðildarríkjanna til þess að viðhalda eða samþykkja almennar eða sértækar lagakröfur sem gilda um samninga sem er unnt að uppfylla með rafrænum hætti, einkum kröfur um öruggar rafrænar undirskriftir.

36)      Aðildarríkjunum er heimilt að viðhalda takmörkunum á notkun rafrænna samninga með tilliti til samninga sem lögum samkvæmt krefjast þátttöku dómstóla, stjórnvalda eða starfsgreina sem fara með opinbert vald. Hið sama gildi einnig um samninga sem krefjast þátttöku dómstóla, stjórnvalda eða starfsgreina, sem fara með opinbert vald, í því augnamiði að hafa áhrif gagnvart þriðja aðila svo og samninga sem lögum samkvæmt krefjast vottunar eða staðfestingar lögbókanda.

37)      Skylda aðildarríkjanna, að ryðja úr vegi hindrunum fyrir notkun rafrænna samninga, á aðeins við um hindranir, sem rekja má til lagakrafna, en ekki um hindranir sem lúta að framkvæmd og rekja má til þess að ógerlegt er í vissum tilvikum að nota rafrænar aðferðir.

38)      Aðildarríkjunum ber að standa við skuldbindingar sínar og ryðja úr vegi hindrunum fyrir notkun rafrænna samninga í samræmi við lagakröfur sem gilda um samninga sem lög bandalagsins fjalla um.

39)      Undanþágur frá ákvæðum um samninga, sem eru einvörðungu gerðir í tölvupósti eða með sambærilegum einstökum orðsendingum, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, og fjalla um upplýsingar sem látnar verða í té og pantanir, skulu ekki leiða til þess að veitendur þjónustu í upplýsingasamfélaginu geti sniðgengið þessi ákvæði.

40)      Bæði núverandi og nýtt ósamræmi í löggjöf aðildarríkjanna og réttarframkvæmd þeirra á sviði ábyrgðar þjónustuveitenda sem gegna hlutverki milliliða, hindrar snurðulausa starfsemi innri markaðarins, einkum með því að hamla þróun þjónustu yfir landamæri og raska samkeppni. Þjónustuveitendum er skylt að grípa til aðgerða við tilteknar aðstæður í því skyni að koma í veg fyrir eða stöðva ólöglegt athæfi. Ákvæði þessarar tilskipunar ættu að skapa réttar forsendur fyrir þróun hraðvirkra og traustra aðferða til þess að eyða ólöglegum upplýsingum og hindra aðgang að þeim. Þróa ber slíkt kerfi á grundvelli frjálsra samninga milli allra hlutaðeigandi aðila og ber aðildarríkjunum að stuðla að tilurð þess. Allir, sem taka þátt í því að veita þjónustu í upplýsingasamfélaginu, hafa hag af því að slíkar aðferðir séu samþykktar og þeim beitt. Ákvæði þessarar tilskipunar, sem fjalla um ábyrgð, ættu ekki að koma í veg fyrir að ólíkir hagsmunaaðilar geti þróað tæknileg varnar- og sanngreiningarkerfi og rekið þau á skilvirkan hátt og einnig tæknileg eftirlitstæki, sem unnt er að smíða fyrir tilstuðlan stafrænnar tækni, innan þeirra marka sem mælt er fyrir um í tilskipunum 95/46/EB og 97/66/EB.

41)      Tilskipun þessi skapar jafnvægi milli þeirra hagsmuna sem eru í húfi og setur meginreglur sem unnt er að byggja á samninga og staðla í atvinnulífinu.

42)      Undanþágur frá ábyrgð, sem þessi tilskipun kveður á um, gilda einungis um tilvik þar sem starfsemi þjónustuveitenda í upplýsingasamfélaginu er takmörkuð við tæknilegan rekstur og það að veita aðgang að fjarskiptaneti, sem upplýsingar sem þriðju aðilar hafa á boðstólum eru sendar um eða geymdar tímabundið, í þeim tilgangi einum að sendingin verði skilvirkari. Þessi starfsemi er eingöngu tæknileg, sjálfvirk og hlutlaus sem merkir að hlutaðeigandi þjónustuveitandi í upplýsingasamfélaginu hefur hvorki þekkingu á né yfirráð yfir þeim upplýsingum sem eru sendar eða geymdar.

43)      Þjónustuveitandi getur verið undanþeginn ábyrgð á hreinni áframmiðlun („mere conduit“) og sjálfvirkri, millistigs- og tímabundinni geymslu („caching“) þegar hann á engan þátt í upplýsingunum sem eru sendar. Þetta er meðal annars undir því komið að hlutaðeigandi geri engar breytingar á upplýsingunum sem hann sendir. Þessi krafa á ekki við um tæknilegar aðgerðir meðan á sendingu stendur, þar eð þær breyta í engu heilleika þeirra upplýsinga sem felast í sendingunni.

44)      Þjónustuveitandi, sem af ásettu ráði á samstarf við þann sem þiggur þjónustu hans um ólöglegt athæfi, gengur lengra en hrein áframmiðlun og sjálfvirk, millistigs- og tímabundin geymsla heimila og þar af leiðandi eiga undanþágur frá ábyrgð, sem gilda um þessa starfsemi, ekki við um hann.

45)      Takmörkuð ábyrgð þjónustuveitenda sem eru milliliðir, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, hefur engin áhrif á hugsanleg fyrirmæli af ýmsum toga. Slík fyrirmæli geta einkum falist í úrskurðum dómstóla eða stjórnvalda, þar sem krafa er gerð um að brotum sé hætt eða komið sé í veg fyrir þau, meðal annars að ólöglegum upplýsingum sé eytt eða að aðgengi að þeim sé hindrað.

46)      Ef veitandi þjónustu í upplýsingasamfélaginu, sem felst í því að geyma upplýsingar, vill að takmörkuð ábyrgð gildi um hann skal hann, ef hann fær áreiðanlega vitneskju um ólöglegt athæfi, tafarlaust gera ráðstafanir til þess að eyða viðkomandi upplýsingum eða tryggja að aðgengi að þeim sé hindrað. Þegar upplýsingum er eytt eða aðgengi að þeim hindrað ber að virða meginregluna um tjáningarfrelsi og fylgja þeirri málsmeðferð sem samþykkt hefur verið innanlands í þessu skyni. Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á svigrúm aðildarríkjanna til að samþykkja sérkröfur sem ber að uppfylla tafarlaust áður en upplýsingum er eytt eða aðgengi að þeim hindrað.

47)      Aðildarríkjunum er óheimilt að leggja einvörðungu almenna eftirlitsskyldu á herðar þjónustuveitenda. Þetta á ekki við um eftirlitsskyldur í sérstökum tilvikum og hefur, einkum og sér í lagi, ekki áhrif á fyrirmæli innlendra yfirvalda í samræmi við landslög.

48)      Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á svigrúm aðildarríkjanna til að skylda þjónustuveitendur, sem hýsa upplýsingar sem þiggjendur þjónustu þeirra láta í té, til þess að vera á varðbergi, eins og eðlilegt má teljast og tilgreint er í innlendum lögum, í því skyni að koma upp um og í veg fyrir ólöglegt athæfi af vissum toga.
49)      Aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni ber að hvetja til þess að settar verði siðareglur. Þessu er ekki ætlað að skerða frelsi hagsmunaaðila til þess að ákveða hvort þeir taki upp slíkar siðareglur eða svigrúm þeirra til að ákveða hvort þeir kjósi að hlíta slíkum reglum.

50)      Mikils er um vert að fyrirhuguð tilskipun um samhæfingu tiltekinna þátta sem lúta að höfundarrétti og réttindum í upplýsingasamfélaginu sem tengjast honum og þessi tilskipun öðlist gildi á svipuðum tíma svo að unnt verði að setja skýran ramma reglna um ábyrgð milliliða með tilliti til brota á sviði höfundarréttar og réttinda sem tengjast honum.

51)      Hverju aðildarríki ber, ef nauðsyn krefur, að breyta löggjöf sem kann að koma í veg fyrir að unnt sé að beita reglum um lausn deilumála utan dómstóla eftir rafrænum leiðum. Fyrrnefnd breyting skal leiða til þess að slíkar reglur geti virkað í raun og á skilvirkan hátt að lögum og í reynd, jafnvel yfir landamæri.

52)      Skilvirk framkvæmd þess frelsis, sem innri markaðurinn býr yfir, kallar á að þeir sem verða fyrir tjóni eigi kost á skilvirkum leiðum til lausnar deilumála. Tjón sem kann að verða samfara þjónustu í upplýsingasamfélaginu einkennist bæði af því hve brátt það ber að og hversu víðtækt það er í landfræðilegum skilningi. Með tilliti til þessa séreinkennis og nauðsynjar þess að tryggja að innlend yfirvöld stofni ekki í hættu því gagnkvæma trausti sem þau ættu að bera hver til annars er sú krafa gerð í þessari tilskipun að aðildarríkin sjái til þess að viðeigandi tækifæri bjóðist til málshöfðunar. Aðildarríkjunum ber að kanna þörfina á því að bjóða fram þann kost að reka mál eftir viðeigandi rafrænum leiðum.

53)      Tilskipun 98/27/EB, sem gildir um þjónustu í upplýsingasamfélaginu, fjallar um fyrirkomulag vegna lögbannskrafna sem er ætlað að vernda sameiginlega hagsmuni neytenda. Þetta kerfi mun stuðla að frjálsri þjónustustarfsemi í upplýsingasamfélaginu með því að tryggja neytendavernd í ríkum mæli.

54)      Þau viðurlög, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, eru með fyrirvara um önnur viðurlög eða réttarúrræði að landslögum. Aðildarríkjunum ber ekki skylda til þess að ákvarða viðurlög á sviði refsiréttar fyrir brot á ákvæðum landslaga sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun.

55)      Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á gildandi lög um samningsskyldur á sviði neytendasamninga. Þar af leiðandi getur tilskipun þessi ekki svipt neytandann þeirri vernd sem ófrávíkjanlegar reglur, sem fjalla um samningsskyldur í lögum þess aðildarríkis þar sem hann hefur fasta búsetu, tryggja honum.

56)      Hvað varðar undanþáguna í tilskipun þessari ber að túlka samningsskyldur í neytendasamningum á þann hátt að í þeim felist upplýsing um mikilvæga grunnþætti samningsins, meðal annars rétt neytenda, sem hafa afgerandi áhrif á þá ákvörðun að ganga til samninga.

57)      Samkvæmt réttarvenju dómstólsins heldur aðildarríki rétti sínum til þess að aðhafast gegn þjónustuveitanda, sem hefur staðfestu í öðru aðildarríki en beinir starfsemi sinni allri, eða að mestum hluta, inn á landsvæði fyrrnefnda aðildarríkisins, hafi hlutaðeigandi þjónustuveitandi valið staðfestu sína með það í huga að skjóta sér undan þeirri löggjöf sem hefði gilt um hann hefði hann haft staðfestu á landsvæði fyrrnefnda aðildarríkisins.

58)      Tilskipun þessari er ekki ætlað að gilda um þjónustu sem þjónustuveitendur, sem hafa staðfestu í þriðju löndum, veita. Með hliðsjón af hnattvæðingu rafrænna viðskipta er engu að síður við hæfi að tryggja að reglur bandalagsins samræmist alþjóðlegum reglum. Tilskipun þessi er með fyrirvara um niðurstöður viðræðna á vettvangi alþjóðastofnana (meðal annarra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, Efnahags- og framfarastofnunarinnar og nefndar Sameinuðu þjóðanna um alþjóðlegan verslunarrétt (Uncitral)) um lögfræðileg úrlausnarefni.

59)      Þrátt fyrir hnattvæðingu í rafrænum orðsendingum er nauðsynlegt að samræma innlendar reglur á vettvangi Evrópusambandsins, í því skyni að koma í veg fyrir að innri markaðurinn klofni og til þess að koma á fót viðeigandi evrópskum lagaramma. Slík samræming ætti einnig að stuðla að því að ná fram sterkri, sameiginlegri samningsstöðu á alþjóðavettvangi.

60)      Til þess að rafræn viðskipti geti þróast óhindrað þarf lagaramminn að vera skýr og einfaldur, rökréttur og í samræmi við þær reglur sem gilda á alþjóðavettvangi svo að hann hafi ekki neikvæð áhrif á samkeppnishæfni evrópsks iðnaðar eða hindri nýsköpun á því sviði.

61)      Ef markaðurinn á í raun að geta starfað með rafrænum hætti á hnattræna vísu verða Evrópusambandið og helstu svæði utan þess að eiga samráð sín á milli til þess að samræmi ríki á milli laga og málsmeðferðarreglna þeirra.

62)      Efla ber samvinnu við þriðju lönd á sviði rafrænna viðskipta, einkum við lönd sem hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu, þróunarlöndin og önnur viðskiptalönd Evrópusambandsins.

63)      Samþykkt þessarar tilskipunar hindrar ekki aðildarríkin í því að taka mið af ýmsum félagslegum, samfélagslegum og menningarlegum áhrifum sem felast í tilkomu upplýsingasamfélagsins. Hún ætti ekki að hindra sérstaklega ráðstafanir sem aðildarríki kunna að samþykkja í samræmi við bandalagslög í því skyni að ná félags-, menningar- og lýðræðislegum markmiðum um leið og tekið er tillit til ólíkra tungumála þeirra, sérkenna þjóða og héraða svo og menningararfs þeirra og tryggja og viðhalda aðgangi almennings að þjónustu í upplýsingasamfélaginu á sem breiðustu sviði. Í öllu falli er þróun upplýsingasamfélagsins ætlað að tryggja aðgang borgara í bandalaginu að evrópskum menningararfi í stafrænu umhverfi.

64)      Aðildarríkin ráða yfir ágætri aðferð til þess að láta í té opinbera þjónustu á sviði menningar, mennta og tungumála með rafrænum orðsendingum.

65)      Í ályktun sinni frá 19. janúar 1999 um þátt neytenda í upplýsingasamfélaginu ( 1 ) lagði ráðið áherslu á að neytendavernd á þessu sviði skuli gefinn sérstakur gaumur. Framkvæmdastjórnin mun kanna að hvaða marki gildandi reglur um neytendavernd veita ófullnægjandi vernd í upplýsingasamfélaginu og mun, þar sem nauðsyn krefur, benda á annmarka á þessari löggjöf og þeim málum þar sem viðbótarráðstafana kann að vera þörf. Ef nauðsyn krefur ber framkvæmdastjórninni að leggja fram sérstakar viðbótartillögur til þess að lagfæra þá annmarka sem bent mun hafa verið á með þeim hætti.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. kafli

ALMENN ÁKVÆÐI

1. gr.

Markmið og gildissvið

1.      Með þessari tilskipun er leitast við að stuðla að eðlilegri starfsemi innri markaðarins með því að tryggja frjálsa þjónustustarfsemi milli aðildarríkjanna á sviði upplýsingasamfélagsins.

2.      Með tilskipun þessari fer fram, að því marki sem er nauðsynlegt til þess að ná þeim markmiðum sem um getur í 1. mgr., samræming tiltekinna innlendra ákvæða um þjónustu í upplýsingasamfélaginu, sem varðar innri markaðinn, staðfestu þjónustuveitenda, viðskiptaorðsendingar, rafræna samninga, ábyrgð milliliða, siðareglur, lausn deilumála utan dómstóla, málshöfðun og samvinnu milli aðildarríkja.

3.      Tilskipun þessi kemur til fyllingar gildandi bandalagslögum um þjónustu í upplýsingasamfélaginu með fyrirvara sérstaklega um umfang verndunar almannaheilbrigðis og neytendahagsmuna, eins og lög bandalagsins mæla fyrir um það og innlend löggjöf þeim til framkvæmdar að því marki sem slíkt heftir ekki frelsi til að veita þjónustu í upplýsingasamfélaginu.

4.      Með þessari tilskipun er hvorki ætlunin að setja viðbótarreglur um alþjóðlegan einkamálarétt né fjalla um lögsögu dómstóla.

5.      Tilskipun þessi gildir ekki um:

          a)      skattlagningu;

          b)      álitamál sem varða þjónustu í upplýsingasamfélaginu og fjallað er um í tilskipunum 95/46/EB og 97/66/EB;

          c)      álitamál sem varða samninga eða venjur sem er fjallað um í lögum um einokunarhringi;

          d)      eftirtalda þjónustustarfsemi í upplýsingasamfélaginu:


              —    starfsemi lögbókenda eða svipaða starfsemi að því marki sem í henni felast bein og sérstök tengsl við beitingu almannavaldsins,

              —    að koma fram sem fulltrúi umbjóðanda og verja hagsmuni hans fyrir dómstólum,

              —    fjárhættustarfsemi sem felst í því að leggja fram áhættufé í áhættuleikjum, meðal annars happdrættum og veðmálaviðskiptum.

6.      Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á ráðstafanir sem eru gerðar á vettvangi bandalagsins eða innanlands, í samræmi við bandalagslög, í því skyni að stuðla að fjölbreytni menningar og tungumála og að tryggja að staðinn sé vörður um fjölhyggju.

2. gr.

Skilgreiningar

Í tilskipun þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

     a)      „þjónusta í upplýsingasamfélaginu“: þjónusta í skilningi 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 98/34/EB, eins og henni var breytt með tilskipun 98/48/EB;

     b)      „þjónustuveitandi“: einstaklingur eða lögpersóna sem lætur í té þjónustu í upplýsingasamfélaginu;

     c)      „þjónustuveitandi með staðfestu“: þjónustuveitandi sem stundar virka atvinnustarfsemi ótímabundið í fastri starfsstöð. Tilvist og notkun nauðsynlegra aðferða og tækni til þess að láta þjónustuna í té jafngilda ekki staðfestu þjónustuveitanda í sjálfu sér;

     d)      „þjónustuþegi“: einstaklingur eða lögpersóna sem í atvinnuskyni eða í öðrum tilgangi nýtir sér þjónustu í upplýsingasamfélaginu, einkum í því skyni að leita eftir upplýsingum eða gera þær aðgengilegar;

     e)      „neytandi“: einstaklingur með umsvif í einhverjum þeim tilgangi sem liggur utan við viðskiptasvið hans, starfsemi eða atvinnu;


     f)      „viðskiptaorðsending“: hvers konar orðsending sem er ætlað að vekja, með beinum eða óbeinum hætti, athygli á vörum, þjónustu eða ímynd félags, stofnunar eða persónu sem stundar verslunar-, iðnaðar- eða handverksstarfsemi eða lögverndaða starfsgrein. Eftirfarandi telst ekki vera viðskiptaorðsending í sjálfu sér:

    —    upplýsingar sem veita beinan aðgang að starfsemi hlutaðeigandi félags, stofnunar eða persónu, einkum lénsheiti eða tölvupóstfang,

    —    orðsendingar sem varða vörur, þjónustu eða ímynd viðkomandi félags, stofnunar eða persónu sem eru teknar saman óháð þeim, einkum þegar það er gert án endurgjalds;

     g)      „lögvernduð starfsgrein“: starfsgrein annaðhvort í skilningi ákvæða d-liðar 1. gr. tilskipunar ráðsins 89/48/EBE frá 21. desember 1988 um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur að minnsta kosti í þrjú ár ( 1 ) eða ákvæða f-liðar 1. gr. tilskipunar ráðsins 92/51/ EBE frá 18. júní 1992 um annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og starfsþjálfun til viðbótar tilskipun 89/48/EBE ( 2 );

     h)      „samræmt svið“: kröfur sem mælt er fyrir um í réttarkerfum aðildarríkja og gilda um þjónustuveitendur í upplýsingasamfélaginu eða þjónustu í upplýsingasamfélaginu, hvort sem þær eru almenns eðlis eða ákveðnar sérstaklega þeirra vegna.

       i)      Hið samræmda svið á við um kröfur sem þjónustuveitandanum ber að uppfylla:

              —    þegar hann hefur þjónustustarfsemi í upplýsingasamfélaginu, t.d. kröfur um menntun og hæfi, leyfi eða tilkynningar,

              —    þegar hann stundar þjónustustarfsemi í upplýsingasamfélaginu, t.d. kröfur um framferði þjónustuveitandans, kröfur um gæði eða innihald þjónustunnar, meðal annars kröfur sem gilda um auglýsingar og samninga eða kröfur viðvíkjandi ábyrgð þjónustuveitandans;

       ii)      hið samræmda svið á ekki við um kröfur eins og til dæmis:

              —    kröfur til vörunnar,

              —    kröfur sem gilda um vöruafhendingu,

              —    kröfur sem gilda um þjónustu sem er ekki látin í té með rafrænum hætti.

3. gr.

Innri markaður

1.      Sérhvert aðildarríki skal tryggja að þjónusta í upplýsingasamfélaginu, sem þjónustuveitandi með staðfestu á landsvæði þess lætur í té, sé í samræmi við innlend ákvæði sem gilda í viðkomandi aðildarríki innan hins samræmda sviðs.

2.      Aðildarríkjunum er óheimilt, af ástæðum sem tengjast hinu samræmda sviði, að takmarka frelsi til þess að láta í té þjónustu í upplýsingasamfélaginu frá öðru aðildarríki.

3.      Ákvæði 1. og 2. mgr. gildi ekki um sviðin sem um getur í viðaukanum.

4.      Aðildarríkjunum er heimilt að gera ráðstafanir til þess að víkja frá 2. mgr. með tilliti til tiltekinnar þjónustu í upplýsingasamfélaginu að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:

          a)      ráðstafanirnar skulu vera:

           i)          nauðsynlegar af einni af eftirfarandi ástæðum:

                   —    allsherjarregla, einkum það að koma í veg fyrir refsilagabrot, koma upp um þau og ákæra fyrir þau, þar með talin verndun ólögráða barna og barátta gegn því að vekja upp hatur vegna kynþáttar, kynferðis, trúarbragða eða þjóðernis og að misbjóða mannlegri reisn þegar einstaklingar eiga í hlut,

                   —    verndun almannaheilbrigðis,

                   —    almannaöryggi, þar með talið að standa vörð um þjóðaröryggi og landvarnir,

                   —    neytendavernd, þar með talin vernd fjárfesta;

            ii)          gegn tiltekinni þjónustu í upplýsingasamfélaginu sem skaðar markmiðin sem um getur í i-lið eða stefnir þeim í verulega hættu;

            iii)          í réttu hlutfalli við fyrrnefnd markmið;

          b)      aðildarríkið hafi, áður en það gerir umræddar ráðstafanir og með fyrirvara um málarekstur fyrir dómstóli, meðal annars undirbúningsmálarekstur og athafnir í tengslum við rannsókn á sakamáli:

              —    beðið aðildarríkið, sem um getur í 1. mgr., að gera ráðstafanir og það síðarnefnda gerði ekki slíkar ráðstafanir eða þær reyndust ófullnægjandi,

              —    tilkynnt framkvæmdastjórninni og aðildarríkinu, sem um getur í 1. mgr., um fyrirætlanir sínar um að gera slíkar ráðstafanir.

5.      Aðildarríkjunum er í bráðatilvikum heimilt að víkja frá skilyrðunum sem mælt er fyrir um í b-lið 4. mgr. Í slíku tilviki skal tilkynna hið fyrsta um þær ráðstafanir, sem um er að ræða, til framkvæmdastjórnarinnar og aðildarríkisins sem um getur í 1. mgr. og geta um ástæður þess að aðildarríkið telur að um bráðatilvik sé að ræða.

6.      Framkvæmdastjórnin skal, með fyrirvara um svigrúm aðildarríkisins til að gera þær ráðstafanir sem um er að ræða, ganga úr skugga um samræmi tilkynntu ráðstafananna við lög bandalagsins á eins skömmum tíma og frekast er unnt. Komist framkvæmdastjórnin að þeirri niðurstöðu að umrædd ráðstöfun samræmist ekki lögum bandalagsins skal hún fara þess á leit við hlutaðeigandi aðildarríki að það láti vera að gera fyrirhugaðar ráðstafanir eða bindi enda á umræddar ráðstafanir án tafar.

II. kafli

MEGINREGLUR

1. þáttur: Kröfur um staðfestu og upplýsingar

4. gr.

Meginreglan um að fyrirframleyfis sé ekki krafist

1.      Aðildarríkin skulu tryggja að veitanda þjónustu í upplýsingasamfélaginu sé ekki gert að afla sér leyfis áður en hann hefur starfsemi sína og ástundar hana eða uppfylla aðrar kröfur sem hafa sömu áhrif.

2.      Ákvæði 1. mgr. eru með fyrirvara um fyrirkomulag leyfisveitinga sem gildir ekki sérstaklega og einvörðungu um þjónustu í upplýsingasamfélaginu eða sem fjallað er um í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/13/EB frá 10. apríl 1997 um sameiginlegan ramma um almennar heimildir og rekstrarleyfi á sviði fjarskiptaþjónustu ( 1 ).

5. gr.

Almennar upplýsingar sem ber að veita

1.      Auk annarra krafna um upplýsingar sem bandalagslög mæla fyrir um skulu aðildarríkin tryggja að þjónustuveitandi veiti þjónustuþegum og lögbærum yfirvöldum greiðan, beinan og stöðugan aðgang að minnsta kosti að eftirfarandi upplýsingum:

          a)      nafni þjónustuveitandans;

          b)      heimilisfangi á þeim stað þar sem þjónustuveitandinn hefur staðfestu;

          c)      nánari upplýsingum um þjónustuveitandann, meðal annars tölvupóstfang hans, sem gerir kleift að hafa samband við hann á hraðvirkan hátt og eiga samskipti við hann með beinum og skilvirkum hætti;

          d)      ef þjónustuveitandinn er skráður í verslunarskrá, eða svipaðri skrá sem almenningur hefur aðgang að, þeirri verslunarskrá þar sem þjónustuveitandann er að finna og skráningarnúmeri hans eða sambærilegum leiðum til þess að bera kennsl á hann í skránni;

          e)      ef viðkomandi starfsemi er bundin leyfisveitingu, upplýsingum um hlutaðeigandi eftirlitsyfirvald;

          f)      með tilliti til lögverndaðra starfsgreina:

             —    þeim faglegu samtökum eða álíka stofnunum sem þjónustuveitandinn er skráður hjá,

             —    starfsheiti og aðildarríkinu þar sem það var veitt,

             —    tilvísun til gildandi starfsreglna í aðildarríkinu þar sem þjónustuveitandinn hefur staðfestu og með hvaða hætti er unnt að nálgast þær;

          g)      ef þjónustuveitandi stundar virðisaukaskattskylda starfsemi, kenninúmerinu sem um getur í 1. mgr. 22. gr. sjöttu tilskipunar ráðsins 77/388/EBE frá 17. maí 1977 um samræmingu laga aðildarríkjanna um veltuskatta — sameiginlegt virðisaukaskattkerfi: einsleitar matsforsendur ( 2 ).

2.      Aðildarríkin skulu að minnsta kosti tryggja, auk annarra krafna um upplýsingar sem bandalagslög mæla fyrir um, að þegar verð er gefið upp fyrir þjónustu í upplýsingasamfélaginu sé það gert með skýrum og ótvíræðum hætti og sérstaklega sé tekið fram hvort skattar og afhendingarkostnaður séu innifaldir.

2. þáttur: Viðskiptaorðsendingar

6. gr.

Upplýsingar sem ber að veita

Aðildarríkin skulu tryggja, auk annarra krafna um upplýsingar sem bandalagslög mæla fyrir um, að viðskiptaorðsendingar, sem eru hluti af eða mynda þjónustu í upplýsingasamfélaginu, séu að minnsta kosti í samræmi við eftirfarandi skilyrði:

     a)      auðvelt skal vera að bera kennsl á viðskiptaorðsendingarnar sem slíkar;

     b)      auðvelt skal vera að bera kennsl á þann einstakling eða lögpersónu sem viðskiptaorðsendingin er komin frá;

     c)      auðvelt skal vera að bera kennsl á kynningartilboð sem slík, eins og til dæmis afslátt, verðlaun og gjafir, ef þau eru leyfileg í aðildarríkinu þar sem þjónustuveitandinn hefur staðfestu og skilyrðin sem uppfylla þarf til þess að njóta þeirra skulu vera auðveldlega aðgengileg og sett fram á skýran og ótvíræðan hátt;

     d)      auðvelt skal vera að bera kennsl á keppni eða leiki í auglýsingaskyni sem slíka, ef þeir eru leyfilegir í aðildarríkinu þar sem þjónustuveitandinn hefur staðfestu, og skulu þátttökuskilyrðin vera auðveldlega aðgengileg og sett fram á skýran og ótvíræðan hátt;

7. gr.

Óumbeðnar viðskiptaorðsendingar

1.      Aðildarríki, sem heimila óumbeðnar viðskiptaorðsendingar í tölvupósti, skulu tryggja, auk annarra krafna sem bandalagslög mæla fyrir um, að unnt sé að bera kennsl á þess háttar viðskiptaorðsendingar sem slíkar frá þjónustuveitanda með staðfestu á landsvæðum þeirra á skýran og ótvíræðan hátt um leið og viðtakandinn móttekur þær.

2.      Með fyrirvara um tilskipun 97/7/EB og tilskipun 97/66/EB skulu aðildarríkin gera ráðstafanir til að tryggja að þjónustuveitendur, sem senda óumbeðnar viðskiptaorðsendingar í tölvupósti, fylgist reglulega með og haldi í heiðri úrsagnarskrárnar sem þeir, sem ekki óska eftir að fá sendar slíkar viðskiptaorðsendingar, geta látið færa sig í.

8. gr.

Lögverndaðar starfsgreinar

1.      Aðildarríkin skulu tryggja að notkun viðskiptaorðsendinga, sem eru hluti af eða mynda þjónustu í upplýsingasamfélaginu og aðili að lögverndaðri starfsgrein veitir, sé heimil með fyrirvara um að hún samræmist starfsreglum, einkum um sjálfstæði, virðingu og heiður starfsgreinarinnar, um þagnarskyldu og sanngirni gagnvart viðskiptamönnum og öðrum aðilum að starfsgreininni.
2.      Aðildarríkin og framkvæmdastjórnin skulu, með fyrirvara um sjálfsforræði starfsgreinafélaga og -samtaka, hvetja starfsgreinasamtök og -félög til að setja siðareglur á vettvangi bandalagsins í því skyni að ákvarða hvers kyns upplýsingar megi veita að því er varðar viðskiptaorðsendingar í samræmi við reglurnar sem um getur í 1. mgr.

3.      Þegar framkvæmdastjórnin undirbýr tillögur um bandalagsfrumkvæði, sem kunna að vera nauðsynlegar til þess að tryggja eðlilega starfsemi innri markaðarins með tilliti til upplýsinga sem um getur í 2. mgr., skal hún taka eðlilegt tillit til siðareglna sem gilda á vettvangi bandalagsins og aðhafast í náinni samvinnu við hlutaðeigandi starfsgreinasamtök og -félög.

4.      Tilskipun þessi gildi til viðbótar tilskipunum bandalagsins um aðgang að og ástundun starfsemi á sviði lögverndaðra starfsgreina.

3. þáttur: Samningar gerðir með rafrænum hætti

9. gr.

Meðferð samninga

1.      Aðildarríkin skulu tryggja að réttarkerfi þeirra heimili að samningar séu gerðir með rafrænum hætti. Aðildarríkin skulu tryggja sérstaklega að gildandi lagakröfur um samningaferli torveldi hvorki notkun rafrænna samninga né leiði til þess að slíkir samningar tapi réttaráhrifum sínum og lagalegu gildi sakir þess að þeir séu gerðir með rafrænum hætti.

2.      Aðildarríkjunum er heimilt að mæla fyrir um að ákvæði 1. mgr. gildi ekki um alla eða tiltekna samninga sem tilheyra einum eftirtalinna flokka:

          a)      samninga sem skapa eða yfirfæra rétt í fasteignum, nema þegar um leigurétt er að ræða;

          b)      samninga sem lögum samkvæmt krefjast þátttöku dómstóla, stjórnvalda eða starfsgreina sem fara með opinbert vald;

          c)      samninga um ábyrgðarskuldbindingar og veðtryggingar af hálfu persóna sem aðhafast í einhverjum þeim tilgangi sem liggur utan við fag þeirra, starfsemi eða atvinnugrein;

          d)      samninga á sviði sifja- og erfðaréttar.

3.      Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni hvaða flokka, sem um getur í 2. mgr., þau beita ekki ákvæðum 1. mgr. á. Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni skýrslu fimmta hvert ár um beitingu 2. mgr., þar sem koma fram ástæður þess að þau telja nauðsynlegt að viðhalda flokkinum sem um getur í b-lið 2. mgr. og þau beita ekki ákvæðum 1. mgr. á.

10. gr.

Upplýsingar sem ber að veita

1.      Aðildarríkin skulu tryggja, auk annarra krafna um upplýsingar sem bandalagslög mæla fyrir um, nema þegar aðilar, sem eru ekki neytendur, samþykkja annað, að þjónustuveitandi veiti að minnsta kosti eftirfarandi upplýsingar með skýrum, skiljanlegum og ótvíræðum hætti og áður en þjónustuþegi leggur inn pöntun sína:

          a)      hvaða ólíku tæknilegu skref ber að taka til þess að ljúka samningsgerð;

          b)      hvort þjónustuveitandinn skráir gerðan samning eða ekki og hvort hann verður aðgengilegur;

          c)      tæknilegar leiðir til þess að finna og leiðrétta innsláttarvillur áður en pöntun er gerð;

          d)      þau tungumál sem unnt er að gera samninginn á.

2.      Aðildarríkin skulu tryggja, nema þegar aðilar, sem eru ekki neytendur, samþykkja annað, að þjónustuveitandi gefi upp hvaða viðeigandi siðareglum hann fylgir og veiti upplýsingar um hvernig fletta megi upp í þeim með rafrænum hætti.

3.      Samningsskilmálar og almenn skilyrði sem þjónustuþegi fær upplýsingar um skulu látin í té með þeim hætti að hann geti varðveitt þau og framkallað á ný.

4.      Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda ekki um samninga sem eru einvörðungu gerðir með því að skiptast á tölvupóstsendingum eða með sambærilegum, einstökum orðsendingum.

11. gr.

Pöntun lögð inn

1.      Aðildarríkin skulu tryggja, nema þegar aðilar, sem eru ekki neytendur, samþykkja annað, að þegar þjónustuþegi leggur inn pöntun sína með rafrænum hætti gildi eftirfarandi meginreglur:

—    þjónustuveitandinn skal staðfesta að hafa móttekið pöntun þjónustuþegans án teljandi tafa og með rafrænum hætti,

—    líta ber svo á að pöntun og móttökustaðfesting séu mótteknar þegar aðilarnir, sem þeim er beint að, hafa aðgang að þeim.

2.      Aðildarríkin skulu tryggja, nema þegar aðilar, sem eru ekki neytendur, samþykkja annað, að þjónustuveitandi gefi þjónustuþega kost á viðeigandi, skilvirkum og aðgengilegum leiðum, tæknilegs eðlis, sem gera honum kleift að finna og leiðrétta innsláttarvillur áður en pöntun er gerð.

3.      Fyrri undirliður 1. mgr. og 2. mgr. gilda ekki um samninga sem eru einvörðungu gerðir með því að skiptast á tölvupóstsendingum eða með sambærilegum, einstökum orðsendingum.

4. þáttur: Ábyrgð þjónustuveitenda sem eru milliliðir

12. gr.

Hrein áframmiðlun („mere conduit“)

1.      Ef látin er í té þjónusta í upplýsingasamfélaginu, sem felst í flutningi um fjarskiptanet á upplýsingum sem þjónustuþegi lætur í té eða í því að veita aðgang að fjarskiptaneti, skulu aðildarríkin tryggja að þjónustuveitandinn sé ekki gerður ábyrgur fyrir þeim upplýsingum sem eru fluttar, með því skilyrði að þjónustuveitandinn:

          a)      hefji ekki flutninginn;

          b)      velji ekki viðtakanda þess sem er flutt; og

          c)      velji ekki eða breyti þeim upplýsingum sem eru fluttar.

2.      Í flutningi og aðgangi, sem um getur í 1. mgr., felst sjálfvirk, millistigs- og skammtímageymsla þeirra upplýsinga, sem eru fluttar, að því marki sem hún er aðeins vegna flutnings innan fjarskiptanetsins og að því tilskildu að upplýsingarnar séu ekki geymdar lengur en eðlilegt má telja að nauðsynlegt sé vegna flutningsins.
3.      Ákvæði þessarar greinar hafa ekki áhrif á það úrræði dómstóls eða stjórnvalds, í samræmi við réttarkerfi aðildarríkja, að krefjast þess að þjónustuveitandi stöðvi eða komi í veg fyrir brot.

13. gr.

Sjálfvirk, millistigs- og tímabundin geymsla („caching“)

1.      Ef látin er í té þjónusta í upplýsingasamfélaginu, sem felst í flutningi um fjarskiptanet á upplýsingum sem þjónustuþegi veitir eða í því að veita aðgang að fjarskiptaneti, skulu aðildarríkin tryggja að þjónustuveitandinn sé ekki gerður ábyrgur fyrir sjálfvirkri, millistigs- og skammtímageymslu þeirra upplýsinga, sem er aðeins til þess að gera skilvirkari áframflutning til annarra þiggjenda þjónustunnar, sem óska eftir honum, með því skilyrði að þjónustuveitandinn:

          a)      breyti ekki upplýsingunum;

          b)      uppfylli skilyrðin um aðgang að upplýsingunum;

          c)      fari eftir reglum um uppfærslu upplýsinganna sem eru tilgreindar með almennt viðurkenndum hætti og notaðar í atvinnugreininni;

          d)      grípi ekki inn í löglega notkun tækni, sem er almennt viðurkennd og notuð í iðnaði, til þess að komast yfir gögn um notkun upplýsinganna; og

          e)      bregðist skjótt við og eyði eða hindri aðgang að upplýsingunum, sem hann geymir, berist honum rökstudd vitneskja þess efnis að upplýsingunum hafi, við upptök flutnings, verið eytt úr netkerfinu eða aðgangur að þeim heftur eða að dómstóll eða stjórnvald hafi fyrirskipað slíka eyðingu eða heftingu.

2.      Ákvæði þessarar greinar hafa ekki áhrif á það úrræði dómstóls eða stjórnvalds að krefjast þess af þjónustuveitanda, í samræmi við réttarkerfi aðildarríkjanna, að hann sjái til þess að brotum sé hætt eða komið sé í veg fyrir þau.

14. gr.

Hýsing

1.      Ef látin er í té þjónusta í upplýsingasamfélaginu, sem felst í geymslu upplýsinga sem þjónustuþegi veitir, skulu aðildarríkin tryggja að þjónustuveitandinn sé ekki gerður ábyrgur fyrir þeim upplýsingum sem eru geymdar að beiðni þjónustuþega, að því tilskildu að þjónustuveitandinn:

          a)      hafi ekki beina vitneskju um ólöglega starfsemi eða upplýsingar og, að því er varðar skaðabótakröfur, sé ekki kunnugt um staðreyndir eða aðstæður sem hin ólöglega starfsemi eða upplýsingar eru raktar til; eða

          b)      hafi hann öðlast slíka vitneskju, grípi tafarlaust til aðgerða til þess að eyða upplýsingunum eða tryggi að aðgengi að þeim sé hindrað.

2.      Ákvæði 1. mgr. gilda ekki þegar þjónustuþegi kemur fram í umboði eða undir stjórn þjónustuveitandans.

3.      Ákvæði þessarar greinar hafa hvorki áhrif á það úrræði dómstóls eða stjórnvalds að krefjast þess af þjónustuveitanda, í samræmi við réttarkerfi aðildarríkjanna, að hann sjái til þess að brotum sé hætt eða komið sé í veg fyrir þau né það úrræði aðildarríkja að samþykkja aðferðir til þess að eyða eða hindra aðgang að upplýsingum.

15. gr.

Engin almenn eftirlitsskylda

1.      Aðildarríkin skulu hvorki leggja þá almenna skyldu á herðar þjónustuveitendum, þegar þeir láta í té þá þjónustu sem er fjallað um í 12., 13. og 14. gr., að hafa eftirlit með upplýsingunum sem þeir flytja eða geyma né þá almennu skyldu að leita uppi með virkum hætti staðreyndir eða aðstæður sem benda til ólöglegrar starfsemi.

2.      Aðildarríkjunum er heimilt að skylda veitendur þjónustu í upplýsingasamfélaginu til þess að tilkynna lögbærum stjórnvöldum án tafar um meinta ólöglega starfsemi sem er stunduð eða upplýsingar sem þiggjendur þjónustu þeirra láta í té eða skylda þá til þess að senda lögbærum stjórnvöldum, að beiðni þeirra, upplýsingar sem gera kleift að bera kennsl á þiggjendur þjónustu þeirra sem þeir hafa gert geymslusamninga við.

III. kafli

FRAMKVÆMD

16. gr.

Siðareglur

1.      Aðildarríkin og framkvæmdastjórnin skulu hvetja til þess:

          a)      að atvinnugreina-, fag- og neytendasamtök eða -stofnanir semji siðareglur á vettvangi bandalagsins sem er ætlað að stuðla að því að 5. til 15. gr. komi til framkvæmda á réttan hátt;

          b)      að framkvæmdastjórninni séu send drög að siðareglum, innlendum og á vettvangi bandalagsins, af fúsum og frjálsum vilja;

          c)      að fyrrnefndar siðareglur séu aðgengilegar á tungumálum bandalagsins í rafrænu formi;

          d)      að atvinnugreina-, fag- og neytendasamtök eða -stofnanir sendi aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni mat sitt viðvíkjandi beitingu siðareglna sinna og áhrifum þeirra á framkvæmd, venjur og siði sem tengjast rafrænum viðskiptum;

          e)      að samdar séu siðareglur um verndun ólögráða barna og mannlegrar reisnar.

2.      Aðildarríkin og framkvæmdastjórnin skulu hvetja til þess að samtök og stofnanir, sem vinna í þágu neytenda, eigi þátt í því að semja og hrinda í framkvæmd siðareglum sem hafa áhrif á hagsmuni þeirra og eru samdar í samræmi við ákvæði a-liðar 1. mgr. Þar sem það á við ber að hafa samráð við samtök sem gæta hagsmuna sjónskertra og fatlaðra til þess að taka megi tillit til sérþarfa þeirra.

17. gr.

Lausn deilumála utan dómstóla

1.      Aðildarríkin skulu tryggja að komi til ágreinings milli veitanda þjónustu í upplýsingasamfélaginu og þiggjanda þjónustunnar, komi löggjöf þeirra ekki í veg fyrir að unnt sé að beita reglum um lausn deilumála utan dómstóla, sem tiltækar eru samkvæmt landslögum, meðal annars eftir rafrænum leiðum.

2.      Aðildarríkin skulu hvetja aðila, sem annast lausn deilumála utan dómstóla, einkum deilumála sem varða neytendur, til þess að haga starfsemi sinni þannig að öryggi hlutaðeigandi aðila sé tryggt með tilliti til málsmeðferðar.

3.      Aðildarríkin skulu hvetja aðila, sem annast lausn deilumála utan dómstóla, til þess að tilkynna framkvæmdastjórninni um mikilvægar ákvarðanir sem þeir taka um þjónustu í upplýsingasamfélaginu og senda allar aðrar upplýsingar um starfsvenjur, notkun og siði sem tengjast rafrænum viðskiptum.

18. gr.

Málshöfðun

1.      Aðildarríkin skulu tryggja að málshöfðun í samræmi við landslög vegna þjónustustarfsemi í upplýsingasamfélaginu geti leitt til skjótrar samþykktar ráðstafana, meðal annars bráðabirgðaráðstafana, sem er ætlað að binda enda á meint brot og koma í veg fyrir að þeir hagsmunir, sem um ræðir, verði skaðaðir enn frekar.

2.      Eftirfarandi bætist við viðaukann við tilskipun 98/27/EB:

    „11.    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/31/EB frá 8. júní 2000 um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum („tilskipun um rafræn viðskipti“) (Stjtíð. EB L 178, 17.7.2000, bls. 1).“

19. gr.

Samvinna

1.      Aðildarríkin skulu vera í stakk búin til þess að halda úti nauðsynlegu eftirliti og athugunum til þess að koma ákvæðum þessarar tilskipunar í framkvæmd með skilvirkum hætti og tryggja að þjónustuveitendur veiti þeim nauðsynlegar upplýsingar.

2.      Aðildarríkin skulu hafa samstarf við önnur aðildarríki. Þau skulu í því skyni tilnefna einn eða fleiri tengiliði og senda öðrum aðildarríkjum og framkvæmdastjórninni upplýsingar um þá.

3.      Aðildarríkin skulu, eins skjótt og auðið er og í samræmi við landslög, láta í té alla þá aðstoð og upplýsingar sem önnur aðildarríki eða framkvæmdastjórnin fara fram á, meðal annars með viðeigandi rafrænum hætti.

4.      Aðildarríkin skulu koma á fót tengiliðum, sem skulu vera aðgengilegir að minnsta kosti með rafrænum hætti, þar sem þjónustuþegar og -veitendur geta aflað sér:

          a)      almennra upplýsinga um samningsréttindi og -skyldur og kæruleiðir og leiðir til úrbóta sem í boði eru í deilumálum, þar með talin hagnýt atriði ef slíkar leiðir eru farnar;

          b)      ítarlegra upplýsinga um stjórnvöld, samtök eða stofnanir sem geta veitt þeim frekari upplýsingar eða hagnýta aðstoð.

5.      Aðildarríkin skulu hvetja til þess að framkvæmdastjórninni sé tilkynnt um allar mikilvægar stjórnsýsluákvarðanir eða dómsúrskurði sem eru teknar eða falla á landsvæði þeirra í deilumálum sem snúast um þjónustu í upplýsingasamfélaginu og um starfsvenjur, notkun og siði sem tengjast rafrænum viðskiptum. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna hinum aðildarríkjunum um þær ákvarðanir.

20. gr.

Viðurlög

Aðildarríkin skulu ákveða viðurlög sem gilda um brot á innlendum ákvæðum sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að þeim sé komið til framkvæmda. Viðurlögin, sem þau kveða á um, skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brot og letjandi.

IV. kafli

LOKAÁKVÆÐI

21. gr.

Endurskoðun

1.      Framkvæmdastjórnin skal, fyrir 17. júlí 2003 og annað hvert ár eftir það, senda Evrópuþinginu, ráðinu og efnahags- og félagsmálanefndinni skýrslu um beitingu þessarar tilskipunar ásamt tillögum, ef nauðsyn krefur, um aðlögun hennar að laga-, tækni- og efnahagslegri þróun á sviði þjónustu í upplýsingasamfélaginu, einkum til þess að koma í veg fyrir glæpi og vernda ólögráða börn, með hliðsjón af neytendavernd og því að innri markaðurinn geti starfað eðlilega.

2.      Í skýrslunni skal, þegar kannað er hvort nauðsynlegt sé að aðlaga tilskipun þessa, einkum greina hvort þörf sé tillagna um ábyrgð veitenda stikluleggja- og leitarvélaþjónustu, aðferðir til að fjarlægja ólöglegt innihald („notice and take down procedures“) og hver sé ábyrgur eftir að innihald hefur verið fjarlægt. Enn fremur skal í ljósi tækniþróunar greina í skýrslunni þörfina fyrir viðbótarskilyrði sem ber að fullnægja til að vera undanþeginn ábyrgð samkvæmt ákvæðum 12. og 13. gr. og svigrúm til þess að beita meginreglum innri markaðarins varðandi óumbeðnar viðskiptaorðsendingar í tölvupósti.

22. gr.

Lögleiðing

1.      Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari fyrir 17. janúar 2002. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

2.      Þegar aðildarríkin samþykkja ráðstafanirnar, sem um getur í 1. mgr., skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

23. gr.

Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

24. gr.

Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Lúxemborg 8. júní 2000.

Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
N. FONTAINE G. d'OLIVEIRA MARTINS
forseti. forseti.

VIÐAUKI

UNDANÞÁGUR FRÁ ÁKVÆÐUM 3. GR.

Eins og kveðið er á um í 3. mgr. 3. gr. gilda ákvæði 1. og 2. mgr. 3. gr. ekki um:
          höfundarrétt og skyld réttindi, réttindi sem um getur í tilskipun 87/54/EEC ( 1 ) og tilskipun 96/9/EB ( 2 ) og hugverkarétt á sviði iðnaðar,
          útgáfu rafrænna peninga af hálfu stofnana sem aðildarríkin hafa veitt eina þeirra undanþágna sem kveðið er á um í 1. mgr. 8. gr. tilskipunar 2000/46/EB ( 3 ),
          2. mgr. 44. gr. tilskipunar 85/611/EBE ( 4 ),
          30. gr. og IV. hluta tilskipunar 92/49/EBE ( 5 ), IV. hluta tilskipunar 92/96/EBE ( 6 ), 7. og 8. gr. tilskipunar 88/357/EBE ( 7 ) og 4. gr. tilskipunar 90/619/EBE ( 8 ),
          frelsi aðila til þess að velja lög sem gilda um samning þeirra í milli,
          samningsskyldur á sviði neytendasamninga,
          formlegt gildi samninga, sem mynda eða flytja rétt í fasteign, þegar lögboðnar kröfur gilda um slíka samninga samkvæmt lögum þess aðildarríkis þar sem fasteignin er staðsett,
          að hvaða marki óumbeðnar viðskiptaorðsendingar í tölvupósti eru leyfilegar.


Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu.

    Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að lögfesta reglur og skilgreiningar um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu og rafeyrisfyrirtæki. Kveðið er á um í 19. gr. frumvarpsins að Samkeppnisstofnun skuli hafa eftirlit með framkvæmd ákvæða laganna sem m.a. kveða á um að þær heimasíður sem eru á veraldarvefnum í atvinnuskyni skuli vera með ábyrgðarmann og tilboð á vefnum gagnsæ og auðskiljanleg.
    Gert er ráð fyrir að álag Samkeppnisstofnunar vegna lögfestingar frumvarpsins aukist um sem samsvarar hálfu starfsgildi eða sem nemur 2 m.kr. á ári.
( 1) Stjtíð. EB C 30, 5.2.1999, bls. 4.
( 2) Stjtíð. EB C 169, 16.6.1999, bls. 36.
( 3) Álit Evrópuþingsins frá 6. maí 1999 (Stjtíð. EB C 279, 1.10.1999, bls. 389), sameiginleg afstaða ráðsins frá 28. febrúar 2000 (Stjtíð. EB C 128, 8.5.2000, bls. 32) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 4. maí 2000 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB).
( 4) Stjtíð. EB L 298, 17.10.1989, bls. 23. Tilskipuninni var breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/36/EB (Stjtíð. EB L 202, 30.7.1997, bls. 60).
( 1) Stjtíð. EB L 95, 21.4.1993, bls. 29.
( 2) Stjtíð. EB L 144, 4.6.1999, bls. 19.
( 3) Stjtíð. EB L 250, 19.9.1984, bls. 17. Tilskipuninni var breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/55/EB (Stjtíð. EB L 290, 23.10.1997, bls. 18).
( 4) Stjtíð. EB L 42, 12.2.1987, bls. 48. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/7/EB (Stjtíð. EB L 101, 1.4.1998, bls. 17).
( 5) Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, bls. 27. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/9/EB (Stjtíð. EB L 84, 26.3.1997, bls. 22).
( 6) Stjtíð. EB L 158, 23.6.1990, bls. 59.
( 7) Stjtíð. EB L 80, 18.3.1998, bls. 27.
( 8) Stjtíð. EB L 228, 11.8.1992, bls. 24.
( 1) Stjtíð. EB L 280, 29.10.1994, bls. 83.
( 2) Stjtíð. EB L 166, 11.6.1998, bls. 51. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 1999/44/EB (Stjtíð. EB L 171, 7.7.1999, bls. 12).
( 3) Stjtíð. EB L 210, 7.8.1985, bls. 29. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 1999/34/EB (Stjtíð. EB L 141, 4.6.1999, bls. 20).
( 4) Stjtíð. EB L 171, 7.7.1999, bls. 12.
( 5) Stjtíð. EB L 113, 30.4.1992, bls. 13.
( 6) Stjtíð. EB L 213, 30.7.1998, bls. 9.
( 7) Stjtíð. EB L 281, 23.11.1995, bls. 31.
( 8) Stjtíð. EB L 24, 30.1.1998, bls. 1.
( 1) Stjtíð. EB L 204, 21.7.1998, bls. 37. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 98/48/EB (Stjtíð. EB L 217, 5.8.1998, bls. 18).
( 2) Stjtíð. EB L 320, 28.11.1998, bls. 54.
( 1) Stjtíð. EB L 15, 21.1.1998, bls. 14.
( 1) Stjtíð. EB L 13, 19.1.2000, bls. 12.
( 1) Stjtíð. EB C 23, 28.1.1999, bls. 1.
( 1) Stjtíð. EB L 19, 24.1.1989, bls. 16.
( 2) Stjtíð. EB L 209, 24.7.1992, bls. 25. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 97/38/EB (Stjtíð. EB L 184, 12.7.1997, bls. 31).
( 1) Stjtíð. EB L 117, 7.5.1997, bls. 15.
( 2) Stjtíð. EB L 145, 13.6.1977, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 1999/85/EB (Stjtíð. EB L 277, 28.10.1999, bls. 34).
( 1) Stjtíð. EB L 24, 27.1.1987, bls. 36.
( 2) Stjtíð. EB L 77, 27.3.1996, bls. 20.
( 3) Hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB.
( 4) Stjtíð. EB L 375, 31.12.1985, bls. 3. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 95/26/EB (Stjtíð. EB L 168, 18.7.1995, bls. 7).
( 5) Stjtíð. EB L 228, 11.8.1992, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 95/26/EB.
( 6) Stjtíð. EB L 360, 9.12.1992, bls. 2. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 95/26/EB.
( 7) Stjtíð. EB L 172, 4.7.1988, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 92/49/EB.
( 8) Stjtíð. EB L 330, 29.11.1990, bls. 50. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 92/96/EB.