Ferill 551. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 864  —  551. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um fullgildingu stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.

(Lögð fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu sem undirritaður var í Vaduz í Liechtenstein 21. júní 2001.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Fríverslunarsamtök Evrópu (European Free Trade Association, EFTA) voru stofnuð með svokölluðum Stokkhólmssamningi, sem undirritaður var í Stokkhólmi 4. janúar 1960. Stofnaðilar voru Austurríki, Danmörk, Noregur, Portúgal, Svíþjóð, Sviss og Bretland en síðar bættust Finnland, Ísland og Liechtenstein í hóp aðildarríkja samtakanna. Stokkhólmssamningurinn gilti aðeins um fríverslun með vörur og aðra samvinnu milli aðildarríkjanna henni tengda.
    Eins og kunnugt er eru EFTA-ríkin aðeins fjögur í dag, Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss. Hin ríkin hafa orðið aðilar að Evrópusambandinu (ESB). EFTA-ríkin fjögur hafa hins vegar með mismunandi hætti víðtæka samvinnu við ESB. Á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) hafa Ísland, Liechtenstein og Noregur víðtæka samvinnu við ESB og aðildarríki þess, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið. Sviss er ekki aðili að EES-samningnum en hefur hins vegar gert sjö samninga við ESB sem eru áþekkir EES-samningnum að efni til á þeim sviðum sem þeir ná yfir.
    Þetta hefur í för með sér að ýmsar grundvallarreglur gilda á milli allra EFTA-ríkjanna og ESB en eining er ekki að þessu leytinu á milli þeirra innbyrðis. Af þessum sökum þótti ástæða m.a. til að endurskoða Stokkhólmssamninginn til að tryggja að sömu reglur giltu á milli Sviss annars vegar og EES/EFTA-ríkjanna hins vegar og giltu á milli þeirra og ESB.
    Í öðru lagi voru í kjölfar samninga um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar gerðir nokkrir fjölþjóðaviðskiptasamningar á ýmsum sviðum, t.d. um þjónustu, hugverkarétt og opinber innkaup. EFTA-ríkin töldu að grundvallarákvæði þessara samninga ættu að koma fram í Stokkhólmssamningnum og yrðu þannig til að auka samvinnu aðildarríkjanna á þessum mikilvægum sviðum.
    Í þriðja lagi hefur EFTA á síðastliðnum tíu árum gert fríverslunarsamninga við öll ríki Mið- og Austur-Evrópu, Tyrkland, Ísrael, Palestínu og nú síðast við Mexíkó og Jórdaníu. Nú standa yfir viðræður um fríverslunarsamninga við Chíle, Egyptaland, Túnis, Kýpur og Singapúr. Gildissvið þeirra fríverslunarsamninga sem gerðir hafa verið á síðustu árum nær til fleiri sviða en fríverslunar. Varð sú staðreynd til að vekja athygli á því að EFTA-ríkjunum var nauðsynlegt að hafa sameiginlega stefnuskrá einnig hvað varðar þessi nýju atriði. Stokkhólmssamningurinn endurspeglar ekki lengur hin víðtæku viðskiptatengsl sem samtökin hafa komið á við ríki víðs vegar um heiminn.
    Á fundi EFTA-ráðherra aðildarríkjanna í júní 1999 var ákveðið að hefja endurskoðun Stokkhólmssamningsins. Sérstökum stýrihópi skipuðum fulltrúum allra EFTA-ríkjanna var komið á laggirnar sem og sérstökum nefndum og sérfræðingahópum. Drög að nýjum samningi voru lögð fram í lokaskýrslu stýrihópsins í febrúar 2001. Samningaviðræður fóru síðan fram á milli aðildarríkjanna 2.–6. apríl 2001 í Genf og lauk þeim með gerð sérstaks samkomulags um breytingar á Stokkhólmssamningnum. Á ráðherrafundi EFTA-ríkjanna 21. júní 2001 í Vaduz í Liechtenstein var hinn nýi stofnsamningur undirritaður (Vaduz-samningurinn).
    Breytingarnar, sem gerðar voru með Vaduz-samningnum, eru mjög yfirgripsmiklar. Stokkhólmssamningurinn tók aðeins til fríverslunar með vörur og geymdi auk þess ákvæði um ríkisaðstoð, opinber fyrirtæki og einkasölur, undirboð og samkeppnisreglur. Með Vaduz-samningnum hafa ákvæði um þessi atriði verið endurskoðuð og bætt við ákvæðum um tæknilegar hindranir, hugverkavernd, frelsi fólks til flutninga, fjárfestingar, þjónustuviðskipti og opinber innkaup auk þess sem stofnanaþátturinn hefur verið endurskoðaður.
    Þrátt fyrir hin nýju efnissvið Vaduz-samningsins ber að hafa í huga að Ísland, Liechtenstein og Noregur höfðu sem aðilar að EES-samningnum þegar komið á sín í millum þeim reglum sem samningurinn geymir. Sviss og ESB höfðu einnig samið um sömu reglur.
    Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu nýjungum og breytingum sem samningurinn hefur að geyma.
    Fullgilding samningsins mun leiða til nokkurra breytinga á ýmsum lögum, einkanlega í þá veru að sams konar réttindi nái til samskipta við Sviss eins og nú eru á Evrópska efnahagssvæðinu. Sérstakt frumvarp þar að lútandi er í undirbúningi og fyrirhugað er að leggja það fyrir yfirstandandi þing.
    Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með þingsályktunartillögu þessari.

Nýjungar.


Samræmismat.
    Bæði EES-samningurinn og tvíhliða samningarnir á milli ESB og Sviss geyma sambærileg ákvæði um sameiginlega viðurkenningu á samræmismati á milli EFTA-ríkjanna og ESB. Þessar reglur voru felldar inn í Vaduz-samninginn og gildir því gagnkvæm viðurkenning á milli EFTA-ríkjanna á skýrslum, vottorðum, leyfum, samræmismerkjum og yfirlýsingum framleiðenda.
    Bókun 12 við EES-samninginn og tvíhliða samkomulag á milli Sviss og ESB gerir ráð fyrir að ESB sjái um viðræður við þriðju ríki um sameiginlega viðurkenningu á staðlaðri vottun með það fyrir augum að gagnkvæmt samkomulag náist á milli ESB og EFTA-ríkjanna og ESB annars vegar og þriðju ríkjanna hins vegar. Vaduz-samningurinn gerir einnig ráð fyrir þessari tilhögun.
    Eftirfarandi vörur og þjónusta fellur undir Vaduz-samninginn að því er varðar viðurkenningu á samræmismati:
     *      Vélar
     *      Persónuhlífar
     *      Leikföng
     *      Lækningatæki
     *      Gashylki og katlar
     *      Þrýstihylki
     *      Endabúnaður til fjarskipta
     *      Búnaður og öryggiskerfi til notkunar á sprengihættusvæðum
     *      Rafföng og rafsegulsviðssamhæfi
     *      Byggingarsvæði og búnaður
     *      Mælitæki og tilbúnar pakkningar
     *      Vélknúin ökutæki
     *      Landbúnaðar- og skógræktardráttarvélar
     *      Eftirlit með góðum starfsvenjum við rannsóknir og vottun framleiðslulota vegna lyfjavara.

Hugverkaréttindi.
    Samkvæmt Vaduz-samningnum munu EFTA-ríkin framvegis veita hvert öðru nægilega og árangursríka vernd hugverkaréttinda, þ.m.t. eru ráðstafanir til að vernda þessi réttindi gegn brotum, eftirlíkingu og ólöglegri nýtingu. Hugverkaréttindi taka til höfundarréttar og skyldra réttinda, þ.m.t. eru tölvuforrit og gagnagrunnar, vörumerki sem auðkenna vöru og þjónustu, landfræðilegar merkingar, m.a. upprunaheiti fyrir vörur og þjónustu, iðnhönnun, einkaleyfi, yrkisréttur, svæðislýsingar smárása og trúnaðarupplýsingar.
    EFTA-ríkin veita ríkisborgurum hvert annars eigi lakari vernd á hugverkaréttindum þeirra en þau veita eigin ríkisborgurum (landskjarameðferð) og þeim verður heldur ekki veitt lakari vernd en veitt eru ríkisborgurum þriðju ríkja (bestukjarameðferð). Undanþágur frá þessum almennu reglum verða aðeins veittar í samræmi við samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hugverkarétt í viðskiptum („TRIPS-samningurinn“).
    Ákvæðin um hugverkarétt í Vaduz-samningnum eru annars grundvölluð á eftirfarandi samningum:
     *      Parísarsamþykkt frá 20. mars 1883 um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar (Stokkhólmsgerð, 1967).
     *      Bernarsáttmálanum frá 9. september 1886 til verndar bókmenntum og listaverkum (Parísargerð, 1971).
     *      Alþjóðasamningi frá 26. október 1961 um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana (Rómarsamningnum).
     *      Samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) frá 15. apríl 1994 um hugverkarétt í viðskiptum („TRIPS-samningnum“).
     *      Genfargerðinni (1999) um Haagsamninginn um alþjóðlega skráningu iðnhönnunar.
     *      Samningi Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) um höfundarrétt (Genf 1966).
     *      Samningi Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) um flutning og hljóðritanir (Genf 1996).
    Varðandi uppfinningar á öllum tæknisviðum skal verndin miðuð við þá vernd sem um getur í Evrópusamningi um einkaleyfi frá 5. október 1973 eins og hann kemur til framkvæmda í landsrétti þessara ríkja. Á Íslandi og í Noregi skal verndin vera sambærileg þeirri sem um getur í EES-samningnum eins og hann kemur til framkvæmda í landsrétti þessara ríkja.

Frjáls för fólks, almannatryggingar og gagnkvæm viðurkenning prófskírteina.
    Með Vaduz-samningnum eru innleidd ákvæði í áföngum um frjálsa för launþega á milli aðildarríkjanna. Svissneskir ríkisborgarar fá heimild til frjálsrar farar til Noregs og Íslands um leið og samningurinn öðlast gildi en frjáls för ríkisborgara annarra EFTA-ríkja til Sviss er háð allt að fimm ára aðlögunartíma. Sviss hefur heimild á þessu tímabili til að setja sérstaka kvóta fyrir fjölda ríkisborgara EFTA-ríkjanna. EFTA-ráðið hefur hins vegar heimild til þess að taka þá til endurskoðunar ef þeir reynast ófullnægjandi. Sérstakar reglur gilda hins vegar um kaup ríkisborgara Íslands, Liechtensteins og Noregs á fasteignum í Sviss. Þeir munu engu að síður njóta sömu réttinda og svissneskir ríkisborgarar njóta í Sviss.
    Liechtenstein mun einnig smátt og smátt draga úr hindrunum sem gilda um frjálsa för svissneskra borgara til ríkisins til samræmis við þau skilyrði sem nú eru í gildi samkvæmt EES-samningnum og kveðið er á um í sérstakri bókun við samninginn.
    Ríkisborgarar EFTA-ríkjanna hafa full atvinnuréttindi, komu- og brottfararfrelsi, búsetuheimild, staðfesturétt og sömuleiðis rétt til að bjóða fram þjónustu sína í allt að 90 daga og á jafnréttisgrundvelli. Rétt er að taka fram að sambærileg ákvæði eru í gildi samkvæmt EES-samningnum hvað varðar rétt ríkisborgara Íslands, Liechtensteins og Noregs til frjálsrar ferðar á milli þessara ríkja. Með Vaduz-samningnum bætist Sviss í þann hóp.
    Réttinum til frjálsrar farar fylgir einnig almannatryggingaréttur. Stefnt er að því að samræma almannatryggingakerfin í aðildarríkjunum til að koma í veg fyrir að mismunandi lagaákvæði aðildarríkjanna hindri frjálsa för þeirra sem rétt eiga til hennar til samræmis við félagsleg réttindi innan EES og á milli Sviss og ESB. Samræmdu reglurnar miða að eftirfarandi markmiðum:
     *      Einstaklingurinn lýtur löggjöf þess ríkis sem hann dvelur í (meginregla).
     *      Ríkisborgarar EFTA-ríkjanna njóta jafnræðis á við ríkisborgara þess EFTA-ríkis sem þeir dveljast í.
     *      Aðildarríki verða að taka tillit til skyldugreiðslna í öðru aðildarríki þegar bótagreiðslur eru ákveðnar.
     *      Réttur til bótagreiðslna helst óbreyttur þótt bótaþegi flytjist til annars aðildarríkis.
    Þessar grundvallarreglur gilda um eftirfarandi réttindi innan almannatryggingakerfisins: Veikindi og fæðingarorlof, vinnuslys, atvinnusjúkdóma, örorkubætur, ellilaun, makabætur, dánarbætur, atvinnuleysisbætur og fjölskyldubætur.
    Vaduz-samningurinn gerir einnig ráð fyrir gagnkvæmri viðurkenningu prófskírteina sem auðvelda mun launþegum að flytja á milli aðildarríkjanna. Auk þess munu prófskírteini, sem aflað er í eftirfarandi greinum við æðri menntastofnun í einu EFTA-ríkjanna, framvegis verða viðurkennd í eftirfarandi starfsemi í hinum EFTA-ríkjunum:
     *      lögfræðistörf,
     *      lækningar og skyld störf,
     *      byggingalist,
     *      verslunar- og milliliðastarfsemi.

Fjárfesting og þjónusta.
    Vaduz-samningurinn hefur að geyma yfirgripsmikil ákvæði sem ætlað er að auka frjálsræði til fjárfestinga og þjónustuviðskipta milli aðildarríkjanna. Þó munu ýmsar hömlur gilda enn um sinn. Er þar einkum um að ræða margvíslega fyrirvara sem einstök aðildarríki gerðu þegar samningurinn var gerður. Gert er ráð fyrir að þeir verði endurskoðaðir í því augnamiði að leggja þá niður. Ísland, Liechtenstein og Noregur sem aðildarríki EES-samningsins hafa að sjálfsögðu aflétt flestum af þessum takmörkunum á fjárfestingum og þjónustuviðskiptum sín í millum og gagnvart aðildarríkjum ESB. Hvað Sviss varðar er hins vegar ekki um slíkt að ræða gagnvart hinum EFTA-ríkjunum.
    Fyrirtæki eða félag sem stofnað er í samræmi við lög eins EFTA-ríkis getur stofnað til og rekið viðskipti í öðru EFTA-ríki án nokkurra takmarkana að því tilskildu að engir fyrirvarar hafi verið gerðir um þessa atvinnustarfsemi af hálfu viðkomandi aðildarríkis. EFTA-ríkin hafa jafnframt samið um að leggja ekki á neinar nýjar takmarkanir í þessa veru. EFTA-ríkjunum ber að veita fyrirtækjum sem stofnuð eru í öðrum EFTA-ríkjum bæði landskjarameðferð og bestukjarameðferð en þó með vissum fyrirvörum.
    Um stofnun einkafyrirtækja gilda sérreglur sem og um stofnun félaga og fyrirtækja sem munu annast flug- og láðflutninga.
    Fjármagnsflutningar verða háðir takmörkunum, þó ekki hvað varðar staðfesturétt. Gert er ráð fyrir að reglur þessar verði teknar til endurskoðunar innan tveggja ára í þeim tilgangi að afnema allar hömlur á fjármagnsflutningum.
    Samkvæmt Vaduz-samningnum geta ríkisborgarar EFTA-ríkjanna sótt aðföng og þjónustu til annars ríkis með vissum minni háttar takmörkunum. Hið sama gildir um þjónustu sem ríkisborgari EFTA-ríkis býður í öðru aðildarríki. Takmarkanir þessar verða einnig endurskoðaðar á næstu tveimur árum. Aðildarríkin hafa einnig í þessum efnum samþykkt kyrrstöðuákvæði um að ekki skuli komið á fyrri takmörkunum á þjónustu eða nýjar settar á.
    Með Vaduz-samningnum skuldbinda EFTA-ríkin sig til að veita ríkisborgurum annarra aðildarríkja bestukjarameðferð eins og gildir um fjárfestingar. Aðildarríkin hafa einnig samið um að ívilnanir varðandi viðskipti með þjónustu sem aðildarríki kann að veita ESB munu einnig gilda fyrir aðildarríkin. Þetta er mikilvægt atriði, einkum ef Sviss skyldi semja við ESB um ný atriði í ljósi sameiginlegrar yfirlýsingar Sviss og ESB þegar hinir sjö samstarfssamningar þeirra voru undirritaðir.
    Flestar þær takmarkanir sem eru á viðskiptum með þjónustu í samningnum eru í samræmi við ákvæði hins almenna samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um þjónustuviðskipti („GATS-samningsins“). Ísland mun þó veita Sviss að flestu leyti sömu kjör og er að finna um viðskipti með þjónustu í EES-samningnum með þeirri einu undantekningu að svissneskum ríkisborgurum verður óheimilt að fjárfesta í íslenskum flugfélögum. Þessar takmarkanir verða þó endurskoðaðar innan tveggja ára.

Flutningar á vegum, með járnbrautum og í lofti.
    Svo sem áður segir gilda sérstakar reglur um flutningaþjónustu. Mikilvægir þættir í tvíhliða samningi ESB og Sviss hafa verið teknir inn í samninginn, þar á meðal ákvæði úr EB-rétti sem varða flutninga á vegum, eftir járnbrautum og með flugvélum.
    Hvað varðar vega- og járnbrautaflutninga gerir Vaduz-samningurinn ráð fyrir gagnkvæmri opnun markaða á milli EFTA-ríkjanna. Ákvæðin í samningnum um þessi efni eru byggð á reglum ESB og eru orðin hluti af EES-samningnum og varða m.a.:
     *      aðgengi að störfum og markaði,
     *      félagslega og tæknilega staðla,
     *      reglur um alþjóðlega farm- og fólksflutninga með bifreiðum og aðgengi að járnbrautarkerfum,
     *      skilyrði fyrir veitingu til reksturs járnbrauta og úthlutun á teinaslóðum,
     *      landskvóta sem Sviss úthlutar Íslandi, Liechtenstein og Noregi fyrir vissar tegundir flutningavagna yfir svissnesku Alpana. Þessir kvótar eru háðir bráðabirgðafyrirkomulagi til ársins 2004 og greiðslu vegatolla í Sviss.
    Ákvæðin í samningnum um flug geyma skilyrði þess að flugfélög frá EFTA-ríkjunum fái að aðgang að mörkuðum hvert annars. Þetta snertir í raun aðeins flug á milli Sviss annars vegar og Íslands, Liechtenstein, Noregs hins vegar þar sem síðastnefndu þrjú EFTA-ríkin hafa nú þegar aðgang að öllum flugmarkaði EES sem einnig nær til lofthelgi ESB-ríkjanna. Auk þess munu allir núgildandi tvíhliða loftferðasamningar halda gildi sínu að því leyti sem ákvæði þeirra snerta ekki ákvæði samningsins og þau fela ekki í sér mismunun á grundvelli þjóðernis og raska ekki samkeppni.
    Sú meginregla gildir samkvæmt Vaduz-samningnum að réttur til að stofna flugfélög er óhindraður nema hvað varðar rétt ríkisborgara Sviss til að eiga hlut í flugfélögum á Íslandi. Önnur ákvæði samningsins miða að því að skapa opin og sömu skilyrði á flugmarkaði EFTA-ríkjanna hvað varðar veitingu og eftirlit með ríkisaðstoð, fargjöldum og verðlagningu þjónustu, tilhögun rafrænna bókunarkerfa, reglur um umhverfisvernd, veitingu flugrekstrarleyfa, lendingarleyfi, aðgang að flughlöðum, ábyrgð flugrekstraraðila, tæknilegar samræmingaraðgerðir og loftferðaöryggi.

Opinber innkaup.
    Kaflinn um opinber innkaup í Vaduz-samningnum er grundvallaður á ákvæðum samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um opinber innkaup en öll EFTA-ríkin eru aðilar að honum. Aðgangur birgja er hins vegar víðtækari samkvæmt Vaduz-samningnum og gildir um aðgang birgja og þjónustuveitenda að kaupum á vöru og þjónustu, meðal annars byggingarþjónustu, járnbrautarfyrirtækja, stofnana á sviði orkumála (að frátöldum rafmagnsveitum) og einkarekinna þjónustustofnana á sviði vatnsveitu, raforku, samgangna í þéttbýli, hafna og flughafna aðildarríkjanna. Skylda er að bjóða út vöru og þjónustu þegar viðmiðunarmörk fara yfir 400.000 evrur og 5.000.000 evrur þegar um verkframkvæmdir er að ræða.
    Aukinn réttur verktaka í EFTA-ríkjunum til að taka þátt í útboðum vegna opinberra framkvæmda í öllum EFTA-ríkjum mun leiða til aukinnar samkeppni og lægri verkefna- og aðfangakostnaðar.

Breytingar.


    Þeir kaflar sem voru í Stokkhólmssamningnum hafa flestir verið endurskoðaðir en sætt mismiklum efnislegum breytingum.

Vörukaup.
    Kaflinn um vörukaup hefur einnig verið endurskoðaður, einkum varðandi landbúnaðarvörur. Ákvæðin hafa verið gerð neytendavænni en jafnframt hefur tillit verið tekið til sérstöðu landbúnaðar. Engar efnislegar breytingar hafa verið gerðar á ákvæðum um unnar kjötvörur. Möguleikar eru til staðar eftir því sem áður til álagningar á innflutningstollum, niðurgreiðslum innanlands og útflutningsbótum. Meginreglunni um bestukjarameðferð sem veitt er ESB-ríki, þriðja ríki og EFTA-ríki er einnig viðhaldið.
    EFTA-ríkin eru sammála um að gera ýmsar breytingar til að auðvelda viðskipti með landbúnaðarvörur sín í millum. Í fyrsta lagi hafa núgildandi tollaívilnanir á algengustu landbúnaðarvörum verið felldar inn í samninginn en hefur áður verið að finna í gagnkvæmum samningum á milli aðildarríkjanna. Í öðru lagi hafa einstök aðildarríki gert sín í millum viðbótarsamkomulag um ívilnanir fyrir algengar landbúnaðarafurðir eins og t.d. osta, ýmsar grænmetistegundir (salat, agúrkur), hross á fæti, kinda- og geitakjöt.
    Auk þess munu viðskipti með sáðvörur og lífrænt ræktaðar vörur verða auðveldari með því að dregið hefur verið úr ýmsum tæknilegum hindrunum eða þær felldar niður í samræmi við ákvæði EES-samningsins og samning Sviss og ESB um landbúnaðarafurðir.
    Samræmdar reglur varðandi heilbrigði dýra og plantna eru í samningnum og byggjast þær á ákvæðum samnings Alþjóðaviðskiptastofunarinnar um heilbrigði dýra og plantna. Ekki er hins vegar útilokað að nákvæmari reglur verði settar um þetta efni síðar í ljósi þeirrar þróunar sem kann að verða á vettvangi EES-samningsins.

Opinber fyrirtæki og einkasölur.
    Almenn ákvæði um opinber fyrirtæki og einkasölur hafa verið endurskoðuð en eru efnislega samhljóða þeim ákvæðum sem er að finna í Stokkhólmssamningnum.

Ríkisstyrkir.
    Ákvæðin um ríkisstyrki hafa að verulegu leyti verið aðlöguð ákvæðum XVI. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um styrki og jöfnunarráðstafanir.

Öryggisákvæði.
    Núverandi ákvæði er leyst af hólmi með samsvarandi ákvæði og er að finna í EES-samningnum en þó með ákvæði um gerðardómsmeðferð komi til ágreinings.

Undirboð.
    Þessum ákvæðum hefur verið breytt í ljósi aðildar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni.

Stofnanaþáttur.
    Þessar breytingar eru helstar varðandi stofnanaþátt samningsins:
     *      upptalning á verkefnum EFTA-ráðsins;
     *      nákvæm upptalning á nefndum og ráðum sem EFTA-ráðið hefur komið á fót;
     *      sérstök ákvæði um lausn deilumála, þar á meðal um gerðardómsmeðferð er leysir af hólmi núverandi ákvæði um viðræðu og sáttaumleitanir;
     *      almenn ákvæði um verndun réttinda og skuldbindinga samkvæmt EES-samningnum, á grundvelli norrænnar samvinnu og tollabandalags Liechtenstein og Sviss;
     *      ákvæði um samstarf varðandi fjármála- og peningamálastefnu;
     *      almennt ákvæði um að aðildarríkjunum beri að viðhafa gegnsæi gagnvart þegnum varðandi upplýsingar um ákvarðanir sem teknar hafa verið í tengslum við samninginn;
     *      almenn ákvæði um að starfsmönnum samtakanna beri að virða trúnað og þagnarskyldu um störf sín;
     *      ákvæði um að nýjum aðildarríkjum beri að gerast aðilar að fríverslunarsamningum þeim sem gerðir hafa verið af hálfu samtakanna;
     *      úrsögn úr samtökunum hefur verið gerð einfaldari;
     *      skýrari reglur um fullgildingu á breytingum á samningnum.

Stofnun nýrra nefnda.
    Flestum nýju nefndanna verður komið fót vegna réttarreglna ESB til að tryggja að nýju svið Vaduz-samningsins fái viðeigandi vettvang, sérstaklega hvað varðar sáðvörur, lífrænan landbúnað, gagnkvæmt samræmismat, flutninga í lofti, á vegum og með járnbrautum og opinberar framkvæmdir. Þó þessum nefndum hafi verið komið á fót með ákvörðun ráðsins á vettvangi EES-samningsins er þess þó vænst að starfslið það sem sinnir EES-samningnum nýtist einnig sem stuðningur við verkefni og störf þessara nýju EFTA-nefnda.

Endurskoðun.


    Vaduz-samningurinn mun framvegis verða í stöðugri endurskoðun. Sú fyrsta fer fram þremur mánuðum eftir að samningurinn tekur gildi.
    Vaduz-samningurinn geymir einnig nokkur endurskoðunarákvæði sem gerir kleift að þróa samstarf EFTA-ríkjanna enn frekar á ýmsum sviðum, t.d. að láta ákvæði um ríkisstyrki, opinber fyrirtæki og einkasölur einnig ná til þjónustu eða í þeim tilgangi að fjarlægja stig af stigi þær takmarkanir sem enn eru á viðskiptafrelsinu, einkum varðandi fjárfestingar og þjónustuviðskipti. Á öðrum sviðum kann vernd að verða aukin, t.d. varðandi hugverkarétt. Einnig verða endurskoðaðar reglur um aðlögunartíma og kvóta fyrir flutninga á vegum og með járnbrautum og frjálsa för fólks.

Athugasemdir við einstaka kafla samningsins.


Formáli.


    Í formálsorðum er gerð grein fyrir sögulegri þróun EFTA og ástæðum þess að Stokkhólmssamningurinn var endurskoðaður eins og vikið var hér að framan. Enn fremur er vikið að markmiðum samtakanna en um þau er frekar fjallað í 1. kafla samningsins.
    Þá er minnt á aðild EFTA-ríkjanna að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og að stuðst sé við grundvallarákvæði þeirrar stofnunar. Þess sér meðal annars stað í þeim ákvæðum formálsorðanna að aðildarríkin geri sér ljóst að stefnur þeirra á sviði viðskipta og umhverfismálastefna þurfi að styðja hver við aðra til þess að unnt sé að ná markmiðinu um sjálfbæra þróun. Efnislega sambærilegt ákvæði er einmitt að finna í formálsorðum að samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina.

1. kafli: Markmið (1.–2. gr.).

    Kafli þessi hefur að geyma hefðbundin upphafsákvæði samninga alþjóðastofnana og alþjóðasamtaka. Í 1. gr. er gerð grein fyrir heiti samtakanna og í 2. gr. eru markmið þeirra rakin.
    Markmiðin eru talin upp í sjö liðum. Þau markmið sem nefnd eru í a) um efnahagssamvinnu til að stuðla að áframhaldandi þróun í viðskiptum og efnahagstengslum, í b) um frjáls vöruskipti og í e) um að sanngjörn skilyrði ríki í viðskiptum milli aðildarríkjanna eru efnislega áþekk upphaflegum markmiðum stofnsamningsins. Ákvæðin í c) og d) um að auka í áföngum frjálsa för fólks og frelsi í viðskiptum með þjónustu og í fjárfestingum og í f) og g) um opnun markaða á sviði opinberra innkaupa og að veita hugverkaréttindum viðeigandi vernd í samræmi við ströngustu alþjóðlega staðla eru hins vegar ný af nálinni.
    Markmið þessi marka um leið efnislegt gildissvið samningsins. Nánari útfærslu þeirra er að finna í einstökum köflum samningsins eins og vikið verður að hér á eftir. Samningurinn tekur til yfirráðasvæðis aðildarríkjanna. Í viðauka U eru sérákvæði um Svalbarða en þar segir að við fullgildingu samningsins hafi Noregur rétt til að undanþiggja Svalbarðasvæðið frá ákvæðum samningsins nema að því er varðar vöruviðskipti. Áþekkt ákvæði er að finna í fríverslunarsamningum á milli EFTA og þriðju ríkja.

2. kafli: Frjálsir vöruflutningar (3.–13. gr., viðaukar A–G).

    Ákvæði 3. gr. um bann við inn- og útflutningstollum, 4. gr. um bann við álagningu beinna sem óbeinna skatta á vöru aðildarríkja umfram það sem lagt er beint eða óbeint á samsvarandi innlendar framleiðsluvörur og ákvæði 7. gr. um bann við magntakmörkunum á inn- og útflutning eða ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif eru samhljóða grundvallarreglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og eiga sér hliðstæðu í ákvæðum EES-samningsins. Þessar reglur eru meginreglur sem sæta vissum undantekningum í öðrum ákvæðum í þessum kafla.
    Hvað magntakmarkanir varðar sérstaklega er ákvæði að finna í 13. gr. þar sem aðildarríkjunum er veitt heimild til að beita magntakmörkunum sem réttlætast kunna af almennu siðgæði, allsherjarreglu eða almannaöryggi, verndun lífs og heilsu manna eða dýra, gróður- eða umhverfisvernd, verndun þjóðarverðmæta er hafa listrænt, sögulegt eða fornfræðilegt gildi eða verndun eignarréttinda á sviði iðnaðar og viðskipta. Slíkt bann eða takmarkanir mega þó ekki leiða til gerræðislegrar mismununar eða til þess að duldar takmarkanir séu lagðar á viðskipti milli aðildarríkjanna.
    Um upprunareglur er fjallað í 5. gr. og nánari útfærslu þeirra er að finna í viðauka A. Þessar reglur eru í samræmi við upprunareglur þær sem er að finna í fríverslunarsamningum þeim sem EFTA hefur gert við þriðju ríki. Sambærilegar reglur er einnig að finna í EES-samningnum. Skv. 3. mgr. 53. gr. Vaduz-samningsins er EFTA-ráðinu heimilt að breyta þessum viðauka.
    Í 6. gr. er að finna almenn ákvæði um gagnkvæma aðstoð aðildarríkjanna í tollamálum og gildir sú samvinna hvort sem viðkomandi vörutegund fellur undir gildissvið Vaduz-samningsins eða ekki. Skyldur stjórnvalda í þessum efnum eru nánar útfærðar í viðauka B við samninginn.
    Um landbúnaðarvörur eru ákvæði í 8. og 9. gr. og í viðauka C. Þær eru flokkaðar í þrennt í I.–III. hluta viðauka C þar sem þær eru tilgreindar með tollskrárnúmerum. Efnisleg ákvæði um þessa flokka er aftur á móti að finna í 8. og 9. gr. samningsins.
    Í I. flokki eru vörur sem aðildarríkjunum ber að leyfa skilyrðislausan innflutning á en þeim er hins vegar heimilt skv. 9. gr. að setja á þessar vörutegundir fastan toll, beita innlendum verðjöfnunarráðstöfunum og grípa til ráðstafana vegna útflutnings.
    Aðeins fáein tollskrárnúmer í I. hluta fjalla um viðskipti með landbúnaðarvörur er varða Ísland. Á vörum í þessum tollskrárnúmerum eru ekki innflutningstollar nema á ávaxtasafa undir vörulið nr. 2009 þar sem um er að ræða 20% toll. Með þessari eftirgjöf á tolli nýtur því Sviss sem EFTA-ríki sömu tolla á innflutningi og ríkin sem aðild eiga að EES-samningnum.
    Í II. hluta eru vörur sem aðildarríkin mega undanþiggja gildissviði samningsins hvað varðar frjálsan innflutning, álagningu tolla, sérstakan skatt og heimild til að beita magntakmörkunum. Í III. hluta eru aftur á móti ákvæði þar sem aðildarríkin lýsa vilja sínum til að ýta undir samræmda þróun í viðskiptum eftir því sem unnt er innan ramma stefnu þeirra í landbúnaðarmálum.
    EFTA-ráðið hefur samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 53. gr. Vaduz-samningsins heimild til að breyta ákvæðunum í viðauka C.
    Þær ívilnanir sem aðildarríkin eru reiðubúin til að veita varðandi landbúnaðarvörur upprunnar í hinum aðildarríkjunum er að finna í töflum 1–3 í viðauka D. Hlut Íslands í þessum efnum er að finna í töflu 1 og tekur hann til fjögurra tollskrárnúmera. Ekki er þörf að breyta íslenskri löggjöf vegna þessara ákvæða.
    Varðandi fisk og aðrar sjávarafurðir tekur 10. gr. sérstaklega fram að ákvæðum Vaduz-samningsins skuli beita um þær vörutegundir. Frjáls viðskipti gilda því um þessar vörutegundir á milli EFTA-ríkjanna eins og verið hefur.
    Sérrreglur gilda enn fremur um sáðvörur og er þær að finna í viðauka E. Í viðauka F er hins vegar að finna sérreglur um lífrænan landbúnað. Þessi ákvæði eiga sér hliðstæðu í ákvæðum EES-samningsins og slík ákvæði er einnig að finna í almennum lögum, sbr. lög nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, og lög nr. 162/1994, um lífræna landbúnaðarframleiðslu. Ákvæði þetta er því í samræmi við íslensk lög að þessu leyti.
    Loks er að nefna viðauka G um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna sem kveður á um að gilda skuli meðal EFTA-ríkjanna ákvæði samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna.

III. kafli: Tæknilegar viðskiptahindranir (14.–15. gr., viðaukar H–I).

    EES-samningurinn og samningar Sviss og ESB hafa að geyma sambærileg ákvæði um tæknilegar hindranir. Þessar reglur eru teknar upp í Vaduz-samningnum í 14. og 15. gr. og viðauka H. Greinar þessar leysa af hólmi ákvæði um tæknilegar hindranir sem er að finna í 10.–12. gr. Stokkhólmssamningsins.
    Helstu breytingarnar frá Stokkhólmssamningnum eru að ákvæði 14. gr. og viðauki H taka til þjónustuviðskipta („öll þjónusta í upplýsingasamfélagi…“, sbr. 2. mgr. 1. gr. viðaukans). Um er að ræða þjónustu gegn endurgjaldi, sem veitt er með rafrænum aðferðum eftir sérstakri beiðni, sbr. 2. mgr. 1. gr. Af þessu leiðir að allar reglur í viðauka H um tæknilegar viðskiptahindranir, sem hingað til hafa einungis átt við um vörur, ná nú til þjónustuviðskipta. Sem dæmi má nefna að í 2. mgr. 3. gr. viðaukans kemur nú fram að fresta skuli formlegri setningu reglna um fjarþjónustu í fjóra mánuði frá þeim degi sem tilkynnt var um fyrirhugaða setningu reglnanna, samkvæmt nánari ákvæðum greinarinnar. EFTA-ráðið hefur heimild til að breyta viðaukanum, sbr. 3. mgr. 53. gr. samningsins.
    Þá fjallar 15. gr. samningsins og viðauki I um gagnkvæma viðurkenningu með tilliti til samræmismats, þ.e. viðurkenningu annars vegar af hálfu Íslands, Liechtensteins og Noregs og hins vegar af hálfu Sviss. Vegna ákvæða í viðbæti 1 og 2 við viðauka I um lyf og lækningatæki er nauðsynlegt að breyta ákvæðum lyfjalaga, nr. 93/1994, og laga um lækningatæki, nr. 16/2001. Frumvarp þar að lútandi verður lagt fram á yfirstandandi þingi.

IV. kafli: Ríkisaðstoð (16. gr.).

    Stokkhólmssamningurinn hefur að geyma ákvæði um ríkisaðstoð, sbr. 13. gr. hans. Þau ákvæði hafa verið endurskoðuð og Vaduz-samningurinn gerir nú ráð fyrir að um réttindi og skyldur aðildarríkjanna varðandi ríkisaðstoð fari eftir reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sbr. XVII. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samning stofnunarinnar um styrki og jöfnunarráðstafanir nema annað segi í viðauka Q um flutninga í lofti. Gert er ráð fyrir að aðildarríkin endurskoði gildissvið þessa kafla með það í huga að láta verklagsreglur um ríkisaðstoð ná til þjónustustarfsemi að teknu tilliti til alþjóðlegrar þróunar á þessu sviði og skal endurskoðunin fara fram á árs fresti.

V. kafli: Opinber fyrirtæki og einkasala (17. gr.).

    Ákvæði 17. gr. Vaduz-samningsins eru um margt efnislega samhljóða 14. gr. Stokkhólmssamningsins. Í 17. gr. er sérstaklega tekið fram að ákvæði viðauka Q um flutninga í lofti skuli einnig gilda um opinber fyrirtæki og einkasölu.

VI. kafli: Samkeppnisreglur (18. gr.).

    Ákvæði 18. gr. Vaduz-samningsins um samkeppni, þar sem kveðið er á um samninga milli fyrirtækja sem raska samkeppni og misnotkun fyrirtækja á markaðsráðandi aðstöðu, fela ekki í sér efnislega breytingu frá gildandi ákvæðum 15. gr. Stokkhólmssamningsins og eru efnislega samhljóða 53. og 54. gr. EES-samningsins, þ.e. samkeppnisgreinunum, nema hvað ákvæðin beinast að ríkjum sem samþykkja að tiltekin hegðun sé óásættanleg og getur þá ríkið brugðist við með því að óska eftir viðræðum við hin aðildarríkin.

VII. kafli: Hugverkavernd (19. gr., viðauki J).

    Í Stokkhólmssamningnum voru engin ákvæði um hugverkaréttindi. Nú er gert ráð fyrir ákvæðum um þessi réttindi í VII. kafla Vaduz-samningsins, þ.e. 19. gr., og viðauka J sem geymir sjö greinar.
    Í 1. gr. viðaukans eru talin upp þau ýmsu réttarsvið sem falla undir hugverkaréttindi. Þessum réttindum er oft skipt upp í annars vegar höfundarrétt og hins vegar hugverkarétt á sviði iðnaðar. Bæði þessi réttarsvið falla undir gildissvið viðaukans.
    Samkvæmt 1. lið 2. gr. viðaukans staðfesta aðildarríkin að þeim sé skylt að fylgja þargreindum alþjóðasamningum. Ísland hefur verið aðili að öllum þessum samningum um nokkurt skeið og staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt þeim.
    Í 2. lið 2. gr. eru taldir upp þeir alþjóðasamningar sem aðildarríkin skuldbinda sig til að vera eða gerast aðilar að fyrir 1. janúar 2005. Ísland er þegar aðili að Genfarsamningnum frá 1999 um breytingu á Haag-samningnum um alþjóðlega skráningu hönnunar. Ísland er hins vegar hvorki aðili að samningi Alþjóðahugverkastofnunarinnar um höfundarrétt né samningi sömu stofnunar um flutning og hljóðritanir. Unnið er nú að lagabreytingum til að gera það mögulegt að Ísland geti orðið aðili að þessum samningum fyrir 1. janúar 2005 eins og kveðið er á um í viðaukanum.
    Samkvæmt 3. lið 2. gr. ætla aðildarríkin að sjá til þess að sérfræðingar ráðfæri sig um mál er snerta þá alþjóðasamninga sem aðildarríkin eru aðilar að eða samninga sem þau munu gerast aðilar að. Í 3. gr. skuldbinda ríkin sig aftur á móti til þess að sjá til þess að lög þeirra tryggi ákveðna lágmarksvernd á sviði einkaleyfa.
    Með ákvæði 4. gr. skuldbinda ríkin sig hins vegar til þess að lög þeirra tryggi fullnægjandi vernd fyrir hönnun, m.a. með því að veita fimm ára vernd frá umsóknardegi með möguleika á endurnýjun verndar í a.m.k. fjögur skipti.
    Í 5. gr. skuldbinda ríkin sig til að tryggja fullnægjandi leiðir til að vernda landfræðilegar tilvísanir, þ.á m. upprunamerkingar varðandi alla vöru og þjónustu.
    Ákvæði 6. gr. varða öflun og viðhald hugverkaréttinda. Samkvæmt ákvæðinu eiga aðildarríkin að sjá til þess að meðferð við veitingu eða skráningu réttinda sé í samræmi við þá meðferð sem kveðið er á um í samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hugverkarétt í viðskiptum (TRIPS-samningnum) sem er hluti af samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina, WTO-samningum. Skv. 7. gr. eiga aðildarríkin að hafa í sinni löggjöf ákvæði um réttarrúræði og viðurlög sem svara til slíkra ákvæða í TRIPS-samningnum.
    Ákvæðin í 19. gr. Vaduz-samningsins skylda hins vegar aðildarríki til að gera ráðstafanir til að veita árangursríka og örugga vernd hugverkaréttinda. Í þessum efnum ber aðildarríkjunum að veita ríkisborgurum annarra aðildarríkja ekki lakari vernd en þau veita eigin ríkisborgurum og jafnframt að veita ríkisborgurum annarra ríkja eigi lakari vernd en veitt er ríkisborgurum þriðju ríkja nema heimildir séu til þess í 3.–5. gr. samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hugverkarétt í viðskiptum.

VIII. kafli. Frjáls för fólks (20.–22. gr., viðauki K).

    Bæði EES-samningurinn og samningarnir á milli Sviss og ESB geyma ákvæði um frjálsa för fólks á milli aðildarríkjanna. Ákvæðin í þessum samningum eru sambærileg og þau er nú að finna í 20. gr. Vaduz-samningsins og viðauka K með vissum undantekningum varðandi Sviss.
    Ákvæði Vaduz-samningsins taka til launafólks, sjálfstætt starfandi einstaklinga og fólks sem er ekki á vinnumarkaði en er sjálfu sér nægt fjárhagslega, svo og fjölskyldumeðlima, að uppfylltum nánar greindum skilyrðum. Þessir einstaklingar öðlast samkvæmt Vaduz-samningnum rétt til atvinnu, frjálsrar farar milli EFTA-ríkjanna, rétt til að koma á fót eigin fyrirtæki og dvalar í móttökuríki, rétt til að veita þjónustu í allt að 90 daga á ári og rétt til jafnræðis.
    Varðandi Sviss gilda hins vegar eftirfarandi sérákvæði:
     *      Ákvæði um frjálsa för svissneskra ríkisborgara til Íslands og Noregs tekur gildi um leið og samningur þessi. Hins vegar er veittur allt að fimm ára aðlögunartími varðandi rétt ríkisborgara annarra EFTA-ríkja til og frá Sviss.
     *      Frá gildistöku Vaduz-samningsins veitir Sviss sérstaka kvóta fyrir fjölda íbúa annarra EFTA-ríkja sem mega flytjast til Sviss. Þessum kvótum má breyta samkvæmt ákvörðun EFTA-ráðsins og að liðnum fimm árum falla allar slíkar fjöldatakmarkanir úr gildi.
     *      Liechtenstein dregur í áföngum úr fjöldatakmörkunum á frjálsri för svissneskra borgara þar til náð er stigi sambærilegu ákvæðum EES-samningsins.
     *      Sérreglur gilda um fólk sem býr rétt handan landamæra og starfar í Sviss, sem og varðandi þjónustu og rétt til að eignast fasteignir í Sviss. Ríkisborgarar EFTA-ríkjanna sem búsettir eru í Sviss munu hins vegar öðlast sömu réttindi og svissneskir ríkisborgarar.
    Samræming almannatryggingakerfa á milli EES/EFTA-ríkjanna og ríkja ESB er tryggð á grundvelli ákvæða EES-samningsins. Sambærileg ákvæði er einnig að finna í samningum Sviss og ESB. Skv. 21. gr. Vaduz-samningsins og viðauka K gilda þessi sömu samræmingarákvæði á milli aðildarríkja EFTA-samningsins.
    Sömu athugasemdir eiga einnig við um gagnkvæma viðurkenningu á menntun og hæfni sem er að finna í 22. gr. Vaduz-samningsins og viðauka K. Sambærileg ákvæði er bæði að finna í EES-samningnum og samningunum á milli Sviss og ESB.
    Ákvæði þessi krefjast lagabreytinga og er fyrirhugað að leggja fram frumvarp þar að lútandi á yfirstandandi löggjafarþingi.

IX. kafli: Fjárfestingar og X. kafli: Þjónustuviðskipti
(23.– 35. gr., viðaukar L–Q).

    Ákvæði Stokkhólmssamningsins um fjárfestingar voru afar takmörkuð. Í 16. gr. voru ákvæði sem nær einvörðungu voru sniðin að fjárfestingarráðstöfunum sem áhrif kynnu að hafa á viðskipti milli einstakra EFTA-ríkja.
    Í 23.–27. gr. Vaduz-samningsins er nú að finna ákvæði um stofnsetningarrétt, um framsetningu fyrirvara einstakra aðildarríkja og afnám þeirra í áföngum, um landskjararéttindi, um rétt aðildarríkjanna til þess að beita ráðstöfunum til verndar fjármálakerfum sínum og um fjármagnsflutninga á milli ríkja. Reglur þessar eru grundvallaðar á ákvæðum EES-samningsins og gilda nú þegar í samskiptum EES/EFTA-ríkjanna.
    Ákvæði um þjónustuviðskipti er nýjung í Vaduz-samningnum. Ákvæði þessi eru grundvölluð á ákvæðum hins almenna samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um þjónustuviðskipti en öll EFTA-ríkin eru aðilar að þeim samningi með aðild sinni að Alþjóðaviðskiptastofnuninni.
    Í viðaukum L–O er að finna fyrirvara sem einstaka aðildarríki gerðu um rétt til fjárfestingar. Fyrirvara Íslands er að finna í viðauka L, fyrirvara Liechtenstein er að finna í M, fyrirvarar Noregs eru í viðauka N og fyrirvarar Sviss í viðauka O. EES/EFTA-ríkin eru sín á milli bundin af ákvæðum EES-samningsins og því gilda fyrirvarar þeirra á grundvelli Vaduz-samningsins einvörðungu gagnvart Sviss. Fyrirvarar Sviss hafa hins vegar gildi gagnvart hinum aðildarríkjunum.
    Samkvæmt viðauka L takmarkar Ísland einvörðungu rétt svissneskra ríkisborgara til að fjárfesta í íslenskum flugfélögum. Að öðru leyti njóta svissneskir ríkisborgarar sama réttar og ríkisborgarar hinna EFTA-ríkjanna til að fjárfesta á Íslandi.
    Aðildarríkin urðu ásátt um að endurskoða fyrirvara um flutninga í lofti innan tveggja ára frá gildistöku Vaduz-samningsins með það að leiðarljósi að afnema þær hömlur sem enn eru við lýði á flutningum í lofti eins og fram kemur í viðauka Q. Sambærileg ákvæði um flutninga á vegum er að finna í viðauka P.
    Nauðsynlegt er að breyta lögum til að tryggja ríkisborgurum Sviss þessi réttindi og verður lagafrumvarp þar að lútandi lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi.
    Ákvæði 35. gr. samningsins og viðaukar P og Q fjalla sérstaklega um flutninga með vörur og farþega milli tveggja eða fleiri ríkja. Í viðauka P er fjallað um flutninga á landi, það er á vegum og með járnbrautum, en í viðauka Q um flutninga í lofti.
    Með því að gera samning um flutninga á landi er verið að færa samskipti Sviss og hinna EFTA-ríkjanna til nútímalegra horfs. Ísland og Sviss hafa ekki gert samning um landsamgöngur en Sviss hefur haft sérstakan samning við Liechtenstein um þessi mál og í gildi hefur verið samningur milli Noregs og Sviss.
    Landfræðileg staða Íslands og það að Vaduz-samningurinn er ekki um innanlandsflutninga, veldur því að áhrif hans á íslenska hagsmuni eru mjög takmörkuð. Eftir gildistöku hans geta íslenskir flutningsaðilar, sem stunda landflutninga í Evrópu, farið í gegnum Sviss. Gert er ráð fyrir að EFTA-ríkin fái úthlutað kvótum til flutninga sem byggðir eru á akstri (tkm) síðustu þriggja ára, sbr. 26. gr. viðauka P. Kvótinn fyrir Ísland er hærri en hægt var að sýna fram á vegna fyrri aksturs íslenskra aðila um svæðið. Með þessari breytingu fá EES/EFTA-ríkin ákveðinn fjölda leyfa í sinn hlut frá Sviss, til að ferðast gegnum landið.
    Ákvæði Vaduz-samningsins á sviði flugsamgangna hafa engar breytingar í för með sér á milli EES/EFTA-ríkjanna þar sem ákvæðið gengur ekki lengra en ákvæði EES-samningsins hvað flugsamgöngur varðar. Með samningnum er fyrst og fremst verið að tryggja að EFTA-ríkin hafi ekki lakari samninga sín á milli en einstök þeirra hafa við þriðju ríki.
    Í tvíhliða samningi sem Sviss gerði við Evrópusambandið voru teknar inn gerðir sem gilda á flugsviðinu innan Evrópusambandsins og jafnframt Evrópska efnahagssvæðinu. Allar viðkomandi gerðir sem teknar eru upp í viðauka eru hluti EES-samningsins sem nú verður hluti Vaduz-samningsins. Til þessara gerða er vísað í viðauka Q.
    Fram til þessa hefur ekki verið í gildi tvíhliða loftferðasamningur á milli Íslands og Sviss og því hefur flug milli ríkjanna verið háð sérstökum leyfum. Breytingarnar fyrir Ísland og íslenska hagsmuni eftir fullgildingu Vaduz-samningsins eru að íslensk flugfélög geta hafið flug til Sviss og byrjað starfsemi þar vegna tryggðs staðfesturéttar og sama gildir um svissneska flugrekendur hér á landi.

XI. kafli: Undirboð (36. gr.).

    Ákvæðin um undirboð í 36. gr. Vaduz-samningsins hafa verið einfölduð frá 17. gr. Stokkhólmssamningsins. Þess ber að geta að öll aðildarríki samtakanna eru aðilar að samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um undirboð og undirboðstolla þar sem er að finna fyllri ákvæði um undirboð.

XII. kafli: Opinber innkaup (37. gr., viðauki R).

    Ákvæði 37. gr. og viðauki R byggjast á samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um opinber innkaup en ganga þó lengra þar sem gildissvið Vaduz-samningsins er víðtækara. Opnað er fyrir opinber innkaup hjá fleiri aðilum en verið hefur, t.d. orkufyrirtækjum og vatnsveitum. Ákvæðin taka því til sömu starfsemi og gert er í ákvæðum EES-samningsins um opinber innkaup. Sú skylda er lögð á aðildarríkin að tryggja gegnsæjan og gagnkvæman aðgang, án mismununar, að mörkuðum sínum á sviði opinberra innkaupa og tryggja þannig opna og virka samkeppni á því sviði, byggða á jafnræðissjónarmiðum. Tilgangur kaflans er frekari opnun markaða á sviði opinberra innkaupa en verið hefur. Þá leiðir það af Vaduz-samningnum að Sviss mun opna innkaupamarkaði sína á sveitarstjórnarstigi fyrir fyrirtækjum frá EFTA-ríkjunum.
    Kaflinn kallar ekki á lagabreytingu þar sem í lögum um opinber innkaup, nr. 94/2001, er gert ráð fyrir því að birgjar fái þau réttindi sem kveðið er á um í fríverslunar- og milliríkjasamningum, sbr. 8. gr. laganna.

XIII. kafli: Peningagreiðslur (38. gr.).

    Ákvæði þetta er sett til áréttingar og fyllingar á ákvæðum um frjálsa för fólks og frjálst flæði vöru og þjónustu. Án frjálsrar tilfærslu á peningum væru réttindi þessi harla lítils virði.

XIV. kafli: Undantekningar og öryggisráðstafanir (39.–41. gr.).

    Í þessum kafla er aðildarríkjunum veitt heimild til að gera ráðstafanir vegna öryggishagsmuna, ráðstafanir vegna innanlandsátaka, stríðs og styrjaldarástands sem og ráðstafanir sem snerta framleiðslu á vopnum eða viðskipti með vopn, skotfæri og hergögn eða aðrar framleiðsluvörur eða þjónustu, nauðsynlegar til varna, eða varða rannsóknir, þróun eða framleiðslu, nauðsynlega til varna, enda raski þessar ráðstafanir ekki samkeppnisskilyrðum hvað varðar framleiðsluvörur eða þjónustu sem er ekki sérstaklega ætluð til hernaðarþarfa eins og nánar er rakið í 39. gr.
    Ákvæði 40. gr. heimila hins vegar ríkjum að grípa til sérstakra ráðstafana ef hætta er á alvarlegum efnahagslegum eða þjóðfélagslegum erfiðleikum eða erfiðleikum í umhverfismálum að því er varðar sérstakar atvinnugreinar eða sérstök svæði sem líklegt er að verði viðvarandi. Aðgerðir þessar skulu vera takmarkaðar, bæði er varðar umfang og gildistíma, við það sem telst bráðnauðsynlegt til þess að ráða bót á ástandinu.
    Fyrrnefndu ráðstafananna geta aðildarríkin gripið til einhliða en þær síðarnefndu ber að tilkynna EFTA-ráðinu. Í kjölfar þess fer í gang samráðsferli eins og nánar er lýst í 41. gr. samningsins.

XV. kafli: Samvinna um stefnu í efnahags- og peningamálum (42. gr.).

    Grein þessi á samsvörun í 30. gr. Stokkhólmssamningsins en hefur í hinni endurskoðuðu útgáfu verið einfölduð. Í 42. gr. Vaduz-samningsins er gert ráð fyrir að aðildarríkin hafi með sér almennan samráðsvettvang um stefnu, ástand og horfur í efnahagsmálum enda kunna þau mál að hafa bein áhrif á framkvæmd samningsins. Lokaákvæði 42. gr. árétta að hér sé einvörðungu um að ræða skipti á skoðunum og upplýsingum sem fari fram án nokkurra skuldbindinga.

XVI. kafli: stofnanaákvæði (43.–45. gr., viðauki S).

    EFTA-ráðið hefur í reynd sinnt ýmsum verkefnum fram yfir það sem kveðið er á um í 32. gr. Stokkhólmssamningsins. Þessi verkefni eru nú upptalin í 43. gr. Vaduz-samningsins. Nefndir og ráð á vegum EFTA-ráðsins eru nú tilgreind í viðauka S en ráðinu er eftir sem áður heimilt að ákveða þá skipan mála eins og það telur hagfelldast. Að öðru leyti eru ekki neinar efnisbreytingar á stofnanaþáttum samningsins.

XVII. kafli Samráð og lausn deilumála (46.–48. gr., viðauki T).

    Stokkhólmssamningur hafði í 31. gr. að geyma ákvæði um viðræður um ágreining. Vaduz-samningurinn geymir nú markvissari ákvæði en áður og gerir nú ráð fyrir lausn deilumála með gerðardómi ef þörf krefur.
    Á aðildarríkjunum hvílir sú skylda að gera sitt ýtrasta til að ná samkomulagi um túlkun og beitingu Vaduz-samningsins og á grundvelli samvinnu og samráðs að finna lausn á deilumálum sem allir aðilar geta sætt sig við. Ráðið er í þessum efnum sá vettvangur þar sem slíkur ágreiningur skal leystur.
    Komi til þess að ekki finnist lausn á ágreiningi getur eitt þeirra aðildarríkja sem aðild á að deilunni vísað henni til meðferðar gerðardóms. Það aðildarríki sem vísar deilunni til gerðardóms skal tilnefna einn gerðarmann en önnur ríki deilunnar skuli tilnefna annan. Komi til þess að gagnaðilinn láti fyrirfarast að skipa gerðarmann skal leita til forseta Alþjóðadómstólsins með tilnefningu á gerðarmanni í stað þess sem gagnaðilar skyldu hafa skipað.
    Sameiginlega skulu aðilar deilunnar koma sér saman um formann gerðardómsins. Sá skal hins vegar hvorki vera ríkisborgari deiluaðila né hafa fasta búsetu á yfirráðasvæði þeirra. Ná deiluaðilar ekki samkomulagi um skipun formannsins skal leita til forseta Alþjóðadómstólsins um skipun hans eins og nánar er kveðið á um í 1. gr. viðauka T.
    Þótt úrskurðir gerðardómsins séu endanlegir og bindandi fyrir deiluaðila og þeim skuli fullnægt án tafar er engu að síður gert ráð fyrir að deiluaðilar ræði niðurstöðu gerðardómsins og reyni enn á grundvelli hennar að ná samkomulagi. Gerist það hins vegar ekki og ekki hefur verið gerð nein ráðstöfun til að framkvæma úrskurðinn er kæruríkinu eða kæruríkjunum heimilt að leita eftir samkomulagi við aðildarríki, sem kæra beinist gegn, um greiðslu bóta eða fresta ávinningi sem hefur samsvarandi áhrif til handa aðildarríkinu sem kæra beinist gegn þar til deiluaðilar hafa komið sér saman um lausn deilunnar.

XVII. kafli: Almenn ákvæði (49.–59. gr., viðauki U).

    Í þessum kafla eru margvísleg ákvæði almenns eðlis sem varða samninginn í heild sinni. Flest þessara ákvæða eru hefðbundin ákvæði alþjóðasamnings eins og um fullgildingu (54. gr.), gildistöku (55. gr.), aðild nýrra ríkja (56. gr.), uppsögn (57. gr.) og breytingar (59. gr.).
    Vaduz-samningurinn hefur engin áhrif á skyldur aðildarríkjanna samkvæmt samningnum við þriðju ríki eða marghliða samninga sem þau kunna að vera aðilar að. Í 49. gr. eru sérstök ákvæði um að Vaduz-samningurinn er með fyrirvara um þær reglur sem gilda um aðildarríkin samkvæmt EES-samningnum um grundvöll norrænnar samvinnu og innan svæðisbandalags Sviss og Liechtenstein.
    Aðildarríkin skulu sömuleiðis gera bæði almennar og sérstakar ráðstafanir til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af samningi þessum leiðir og viðhafa sjónarmið um gagnsæi í samskiptum við almenning í ríkjum sínum varðandi birtingu laga, aðgang að reglum um málsmeðferð og stjórnsýsluúrskurðum og dómúrskurðum sem hafa almenna skírskotun. Hið sama gildir um alþjóðasamninga sem haft gætu áhrif á framkvæmd samningsins eins og lýst er í 51. gr. samningsins.
    Í 52. gr. er lögð trúnaðarskylda á fulltrúa, sendimenn og sérfræðinga aðildarríkjanna svo og að aðrir starfsmenn skulu bundnir þagnarskyldu einnig eftir að þeir láta af störfum um vitneskju sem á að fara leynt í starfi þeirra, einkum upplýsingar um fyrirtæki, viðskiptatengsl þeirra og kostnaðarþætti.
    Um viðauka (53. gr.) og landfræðilegt gildissvið (58. gr. og viðauki U) hefur verið fjallað áður í athugasemdum þessum.

Fylgiskjal.


STOFNSAMNINGUR FRÍVERSLUNARSAMTAKA
EVRÓPU


    Lýðveldið Ísland, Furstadæmið Liechtenstein, Konungsríkið Noregur og Svissneska ríkjasambandið (sem nefnast hér á eftir „aðildarríkin“),

    sem með hliðsjón af þeim niðurstöðum Lýðveldisins Austurríkis, Konungsríkisins Danmerkur, Konungsríkisins Noregs, Lýðveldisins Portúgals, Konungsríkisins Svíþjóðar, Svissneska ríkjasambandsins og Hins sameinaða konungsríkis Stóra Bretlands og Norður-Írlands sem er að finna í samningnum um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu (sem nefnist hér á eftir „samningurinn“) frá 4. janúar 1960,
    sem með hliðsjón af þátttöku Lýðveldisins Finnlands og síðar aðildar þess 1. janúar 1986 og aðildar Lýðveldisins Íslands 1. mars 1970 og Furstadæmisins Liechtenstein 1. september 1991,

    sem með hliðsjón af uppsögn samningsins af hálfu Konungsríkisins Danmerkur og Breska konungsríkisins 1. janúar 1973, Lýðveldisins Portúgals 1. janúar 1986, Lýðveldisins Austurríkis, Lýðveldisins Finnlands og Konungsríkisins Svíþjóðar 1. janúar 1995,
    sem með hliðsjón af fríverslunarsamningum milli aðildarríkjanna annars vegar og þriðju aðila hins vegar,
    sem árétta að höfuðáhersla er lögð á náin samskipti milli aðildarríkjanna og að greiða fyrir áframhaldandi góðum tengslum við Evrópusambandið sem grundvallast á nálægð, sameiginlegu gildismati frá forni fari og evrópskri samkennd,

    sem eru staðráðin í að auka samvinnu innan Fríverslunarsamtaka Evrópu, greiða enn frekar fyrir frjálsum vöruflutningum, stefna að því að koma í áföngum á frelsi fólks til flutninga og frelsi í viðskiptum með þjónustu og fjárfestingar, opna enn frekar markað opinberra innkaupa í EFTA-ríkjunum og veita viðeigandi vernd fyrir hugverkaréttindi við sanngjörn samkeppnisskilyrði,


    sem byggja á réttindum sínum og skyldum samkvæmt samningi um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og öðrum marghliða og tvíhliða gerningum um samstarf,
    sem gera sér ljóst að stefnur þeirra á sviði viðskipta og umhverfismála þurfa að styðja hver við aðra til þess að unnt sé að ná markmiðinu um sjálfbæra þróun,
    sem staðfesta þá skuldbindingu að fylgja viðurkenndum grundvallarréttindum á vinnumarkaði, vekja athygli á því að þau leitast við að koma slíkum stöðlum á framfæri á viðeigandi marghliða vettvangi og láta í ljós þá trú sína að hagvöxtur og hagþróun, er byggjast á auknum viðskiptum og auknu frelsi í viðskiptum, renni stoðum undir slíka staðla,

    hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

I. KAFLI: MARKMIÐ
1. gr.
Samtökin

    Hér með eru stofnuð alþjóðleg samtök sem skulu bera heitið Fríverslunarsamtök Evrópu, hér á eftir nefnd „samtökin“.

2. gr.
Markmið

    Markmið samtakanna skulu vera þessi:
a)    að stuðla að áframhaldandi þróun og jafnvægi í viðskiptum og efnahagstengslum milli aðildarríkjanna á svæði samtakanna, á grundvelli sanngjarnra samkeppnisskilyrða og samsvarandi reglna,
b)    frjáls vöruviðskipti,
c)    að auka í áföngum frelsi fólks til flutninga,

d)    að auka í áföngum frelsi í viðskiptum með þjónustu og fjárfestingar,
e)    að sjá til þess að sanngjörn samkeppnisskilyrði ríki í viðskiptum milli aðildarríkjanna,
f)    að opna markaði aðildarríkjanna á sviði opinberra innkaupa,
g)    að veita hugverkaréttindum viðeigandi vernd í samræmi við ströngustu alþjóðlega staðla.


II. KAFLI: FRJÁLSIR VÖRUFLUTNINGAR

3. gr.
Útflutnings- og innflutningstollar og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif

    Aðildarríkjunum er óheimilt að leggja útflutnings- og innflutningstolla og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif á sín í milli. Þetta á einnig við um fjáröflunartolla.

4. gr.
Innlendir skattar

1.     Aðildarríki er óheimilt að leggja, beint eða óbeint, hvers konar innlenda skatta á framleiðsluvörur annarra aðildarríkja umfram það sem er lagt, beint eða óbeint, á samsvarandi innlendar framleiðsluvörur.
2.     Aðildarríki er enn fremur óheimilt að leggja hvers konar innlenda skatta á framleiðsluvörur annarra aðildarríkja þannig að öðrum framleiðsluvörum sé veitt óbein vernd.
3.     Ef framleiðsluvörur er fluttar til yfirráðasvæðis annars aðildarríkis má endurgreiðsla á innlendum skatti ekki vera hærri en sá innlendi skattur sem var lagður á þær beint eða óbeint.

5. gr.
Upprunareglur

    Í viðauka A er að finna upprunareglur og fyrirkomulag á samvinnu stjórnvalda í tollamálum.


6. gr.
Gagnkvæm aðstoð í tollamálum

1.     Aðildarríkin skulu almennt veita hvert öðru aðstoð í tollamálum í samræmi við ákvæði í viðauka B og sjá þannig til þess að löggjöf þeirra í tollamálum sé beitt með réttum hætti.
2.     Ákvæði í viðauka B skulu gilda um allar framleiðsluvörur óháð því hvort þær falla undir ákvæði þessa samnings.

7. gr.
Magntakmarkanir á innflutningi og útflutningi og ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif

    Aðildarríkjunum er óheimilt að beita hvert gagnvart öðru magntakmörkunum á innflutningi og útflutningi svo og ráðstöfunum sem hafa samsvarandi áhrif.

8. gr.
Landbúnaðarvörur

1.     Með hliðsjón af sérstökum atriðum er hafa áhrif á landbúnað skulu grunnvörur í landbúnaði og vörur unnar úr hráefnum úr landbúnaði, sem eru skráðar í viðauka C, háðar eftirfarandi reglum:

a)    Í tengslum við vörur, sem eru skráðar í I. hluta í viðauka C, skulu ákvæði þessa samnings gilda með viðeigandi tilliti til þess fyrirkomulags sem kveðið er á um í 9. gr.
b)    Í tengslum við vörur, sem eru skráðar í II. eða III. hluta í viðauka C og með viðeigandi tilliti til þess fyrirkomulags sem kveðið er á um í 9. gr., skulu 2., 3., 4. og 7. gr. ekki gilda.
c)    Í tengslum við vörur, sem eru skráðar í III. hluta í viðauka C, lýsa aðildarríkin yfir vilja sínum til að ýta undir samræmda þróun í viðskipum eftir því sem unnt er innan ramma stefna þeirra í landbúnaðarmálum. Í þessu augnamiði skal Ísland veita tollaívilnanir fyrir landbúnaðarafurðir sem eru upprunnar í Noregi og Sviss1 eins og tilgreint er í töflu 1 í viðauka D, Noregur veita tollaívilnanir fyrir landbúnaðarafurðir sem eru upprunnar á Íslandi og í Sviss2 eins og tilgreint er í töflu 2 í viðauka D og Sviss3 veita tollaívilnanir fyrir landbúnaðarafurðir sem eru upprunnar á Íslandi og í Noregi eins og tilgreint er í töflu 3 í viðauka D. Ákvæði 15. gr. í viðauka A gilda ekki um vörur sem eru skráðar í III. hluta í viðauka C.
2.     Ákvæði IV. kafla um ríkisaðstoð, VI. kafla um samkeppni og XII. kafla um opinber innkaup gilda ekki um landbúnaðarvörur.

9. gr.
I. og II. hluti – Vörur í viðauka C (unnar landbúnaðarafurðir)

1.     Til þess að tekið sé tillit til mismunandi verðs á landbúnaðarhráefnum, sem eru notuð í vörur sem tilgreindar eru í I. hluta í viðauka C sem um getur í a-lið 8. gr., útilokar þessi samningur ekki, að því er þessar vörur varðar:
a)    að fastur tollur sé lagður á innflutning,
b)    að heimilt sé að gera innlendar verðjöfnunarráðstafanir,
c)    að ráðstafanir séu gerðar við útflutning.
2.     Fastur tollur, sem er lagður á við innflutning vara sem skráðar eru í I. hluta í viðauka C, skal grundvallast á en ekki vera umfram þann mun sem er á verði innanlands og heimsmarkaðsverði á landbúnaðarhráefnum sem notuð eru í umræddar vörur.
3.     Aðildarríki skal ekki, með viðeigandi tilliti til ákvæða í 2. mgr., veita vörum, sem eru skráðar í I. eða II. hluta í viðauka C og eru fluttar inn frá yfirráðasvæði annars aðildarríkis, lakari meðferð en það veitir innflutningi frá yfirráðasvæði Evrópubandalagsins eða öðrum fríverslunaraðilum.

4.     Aðildarríkin skulu tilkynna hvert öðru um allar breytingar á meðferð sem Evrópubandalagið eða annar fríverslunaraðili nýtur fyrir framleiðsluvörur sem eru skráðar í I. eða II. hluta í viðauka C.


1 Gildir einnig um Furstadæmið Liechtenstein á meðan samningur við Sviss um tollabandalag frá 29. mars 1923 er í gildi.
2 Gildir einnig um Furstadæmið Liechtenstein á meðan samningur við Sviss um tollabandalag frá 29. mars 1923 er í gildi.
3 Gildir einnig um Furstadæmið Liechtenstein á meðan samningur við Sviss um tollabandalag frá 29. mars 1923 er í gildi.

10. gr.
Fiskur og aðrar sjávarafurðir

    Beita skal ákvæðum þessa samnings í tengslum við fisk og aðrar sjávarafurðir.

11. gr.
Sáðvörur og lífrænn landbúnaður

1.     Í viðauka E er að finna sérreglur um sáðvörur.
2.     Í viðauka F er að finna sérreglur um lífrænan landbúnað.

12. gr.
Ráðstafanir um hollustuhætti og heilbrigði
dýra og plantna

    Ákvæði í viðauka G eiga við um réttindi og skyldur aðildarríkjanna að því er varðar ráðstafanir um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna.

13. gr.
Undantekningar

    Ákvæði 7. gr. koma ekki í veg fyrir að leggja megi bann við eða takmarka innflutning, útflutning eða umflutning vöru sem réttlætist af almennu siðgæði, allsherjarreglu eða almannaöryggi, verndun lífs og heilsu manna eða dýra, gróður- eða umhverfisvernd, verndun þjóðarverðmæta er hafa listrænt, sögulegt eða fornfræðilegt gildi eða verndun eignaréttinda á sviði iðnaðar og viðskipta. Slíkt bann eða takmarkanir mega þó ekki leiða til geðþóttabundinnar mismununar eða til þess að duldar takmarkanir séu lagðar á viðskipti milli aðildarríkjanna.


III. KAFLI: TÆKNILEGAR VIÐSKIPTAHINDRANIR
14. gr.
Tilkynnt um drög að tæknilegum reglum

1.     Aðildarríkin skulu tilkynna ráðinu um leið og gerlegt er um öll drög að tæknilegum reglum eða breytingar á þeim.
2.     Í viðauka H er að finna ákvæði um málsmeðferð við tilkynningar.

15. gr.
Gagnkvæm viðurkenning með tilliti
til samræmismats

    Með fyrirvara um 7. gr. viðurkenna Sviss annars vegar og Ísland, Liechtenstein og Noregur hins vegar, í samræmi við viðauka I og með gagnkvæmum hætti, skýrslur, vottorð, leyfi, samræmismerki og yfirlýsingar framleiðanda um samræmi.


IV. KAFLI: RÍKISAÐSTOÐ
16. gr.
Ríkisaðstoð

1.     Farið skal með réttindi og skyldur aðildarríkjanna að því er varðar ríkisaðstoð í samræmi við XVI. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um styrki og jöfnunarráðstafanir, sem eru tekin upp í og eru hluti samningsins, nema kveðið sé á um annað í viðauka Q.
2.     Aðildarríkin skulu ekki beita jöfnunarráðstöfunum, eins og kveðið er á um í V. hluta í WTO-samningnum um styrki og jöfnunarráðstafanir, gagnvart öðru aðildarríki í samræmi við 36. gr.

3.     Aðildarríkin skulu endurskoða gildissvið þessa kafla með það í huga að láta verklagsreglur um ríkisaðstoð ná til þjónustustarfsemi að teknu tilliti til alþjóðlegrar þróunar á þessu sviði. Þessi endurskoðun skal fara fram á árs fresti.


V. KAFLI: OPINBER FYRIRTÆKI
OG EINKASALA

17. gr.
Opinber fyrirtæki og einkasala

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að opinber fyrirtæki láti vera að beita
a)    ráðstöfunum, sem hafa í för með sér vernd fyrir innlenda framleiðslu og brytu í bága við samninginn, ef þær væru framkvæmdar með tollum eða gjöldum, sem hafa samsvarandi áhrif, magntakmörkunum eða ríkisaðstoð, eða
b)    misrétti í viðskiptum vegna þjóðernis að því leyti sem það spillir þeim ávinningi sem vænta má að leiði af því að tollar og magntakmarkanir eru afnumin í viðskiptum milli aðildarríkjanna eða því að slíkir tollar eða magntakmarkanir eru ekki fyrir hendi.
2.     Að því er þessa grein varðar merkir „opinbert fyrirtæki“ ríkisstofnanir, svæðis- eða staðaryfirvöld, opinber fyrirtæki og hver önnur sú stofnun, þar sem aðildarríki stjórnar eða hefur varanleg áhrif á innflutning frá eða útflutning til yfirráðasvæðis aðildarríkis, samkvæmt lögum eða venju.

3.     Ákvæði 1. mgr. 18. gr. skulu einnig gilda um starfsemi opinberra fyrirtækja og fyrirtækja sem njóta sér- eða einkaréttinda er aðildarríkin hafa veitt þeim, en beiting ákvæðanna má þó ekki hindra, að lögum eða í raun, framkvæmd opinberra verkefna sem þeim eru fengin.

4.     Ákvæði 3. mgr. gilda um viðauka Q. Aðildarríkin skulu endurskoða gildissvið þessa kafla með það í huga að láta verklagsreglurnar ná til annarrar þjónustustarfsemi að teknu tilliti til alþjóðlegrar þróunar á þessu sviði. Þessi endurskoðun skal fara fram á árs fresti.
5.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að ekki séu teknir upp starfshættir sem lýst er í 1. mgr. þessarar greinar.
6.     Ef aðildarríkin hafa ekki nægilegt lagalegt vald til þess að stýra í þessu efni starfsemi svæðis- eða staðaryfirvalda, eða fyrirtækja undir þeirra stjórn, skulu þau engu að síður reyna að sjá til þess að þessi yfirvöld eða fyrirtæki hlíti ákvæðum þessara greinar.


VI. KAFLI: SAMKEPPNISREGLUR
18. gr.
Samkeppni

1.     Aðildarríkin eru þeirrar skoðunar að eftirfarandi viðskiptahættir séu ósamrýmanlegir samningi þessum að svo miklu leyti sem þeir spilla þeim ávinningi sem búist er við að leiði af honum:
a)    samningar milli fyrirtækja, ákvarðanir samtaka fyrirtækja og samstilltir viðskiptahættir fyrirtækja sem hafa það að markmiði eða leiða til útilokunar, takmörkunar eða röskunar samkeppni,

b)    misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi aðstöðu á yfirráðasvæðum aðildarríkjanna eða á verulegum hluta þeirra.
2.     Líti aðildarríki svo á að tilteknir viðskiptahættir séu ósamrýmanlegir þessari grein getur það farið fram á samráðsfund í samræmi við málsmeðferðina sem sett er fram í 47. gr. og er því heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir með þeim skilyrðum, sem eru sett fram í 2. mgr. 40. gr., til þess að leysa þá erfiðleika sem þessir viðskiptahættir hafa í för með sér.

VII. KAFLI: HUGVERKAVERND

19. gr.

1.     Aðildarríkjunum ber að gera ráðstafanir til að veita og tryggja nægilega og árangursríka vernd hugverkaréttinda, þar með taldar ráðstafanir til að vernda þessi réttindi gegn brotum, eftirlíkingu og ólöglegri nýtingu, í samræmi við ákvæði þessarar greinar, viðauka J við þennan samning og alþjóðasamninga sem um getur í honum.
2.     Aðildarríkin skulu ekki veita ríkisborgurum annarra aðildarríkja lakari kjör en þau veita eigin ríkisborgurum. Undanþágur frá þessari skyldu skulu veittar í samræmi við efnisleg ákvæði 3. gr. samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hugverkarétt í viðskiptum (TRIPS-samningsins).
3.     Aðildarríkin skulu ekki veita ríkisborgurum annarra aðildarríkja lakari meðferð en veitt er ríkisborgurum annarra ríkja. Undanþágur frá þessari skyldu skulu veittar í samræmi við efnisleg ákvæði TRIPS-samningsins, einkum 4. og 5. gr.

4.     Aðildarríkin samþykkja, að beiðni samningsríkis, að endurskoða ákvæði um vernd hugverkaréttinda með það í huga að auka þessa vernd enn frekar og forðast eða ráða bót á röskun í viðskiptum sem stafar af verndun hugverkaréttinda eins og hún er núna.



VIII. KAFLI: FRELSI FÓLKS
TIL FLUTNINGA

20. gr.
Flutningar fólks

1.     Aðildarríkin skulu tryggja, sín á milli, frelsi fólks til flutninga í samræmi við ákvæði í viðauka K og í bókun við hann um frelsi fólks til flutninga milli Liechtenstein og Sviss.

2.     Markmið þessarar greinar, til hagsbóta fyrir ríkisborgara aðildarríkjanna, skulu vera eftirfarandi:
a)    að veita þeim rétt til komu, búsetu og atvinnu sem launþegar eða sjálfstætt starfandi einstaklingar og rétt til dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna,
b)    að auðvelda þjónustustarfsemi á yfirráðasvæði aðildarríkjanna og einkum að auka frelsi til að veita þjónustu til skamms tíma,

c)    að veita þeim sem starfa ekki í gistiríkinu rétt til komu og búsetu á yfirráðasvæði aðildarríkjanna,

d)    að veita þeim sömu lífs-, starfs- og atvinnuskilyrði og ríkisborgarar njóta.


21. gr.
Samræming almannatryggingakerfa

    Til þess að greiða fyrir frelsi fólks til flutninga skulu aðildarríkin, í samræmi við 2. viðbæti í viðauka K og bókun við hann um frelsi fólks til flutninga milli Liechtenstein og Sviss, gera ráð fyrir samræmingu almannatryggingakerfa einkum með það að markmiði:

a)    að tryggja jafna meðferð,
b)    að ákvarða hvaða löggjöf skuli gilda,
c)    að leggja saman, með það að markmiði að öðlast og viðhalda rétti til bóta og útreiknings á bótafjárhæð, öll tímabil sem tillit er tekið til samkvæmt innlendri löggjöf í viðkomandi ríkjum,

d)    að greiða bætur til þeirra sem eru búsettir á yfirráðasvæðum aðildarríkjanna,
e)    að stuðla að gagnkvæmri aðstoð og samvinnu yfirvalda og stofnanna í stjórnsýslumálum.

22. gr.
Gagnkvæm viðurkenning á menntun og hæfi

    Aðildarríkin skulu, í því skyni að auðvelda ríkisborgurum aðildarríkjanna að hefja og stunda störf sem launþegar og sjálfstætt starfandi einstaklingar, gera nauðsynlegar ráðstafanir, sem tíundaðar eru í 3. viðbæti við viðauka K og bókun við hann um frelsi fólks til flutninga milli Liechtenstein og Sviss, til að viðurkenna með gagnkvæmum hætti prófskírteini, vottorð og annan vitnisburð um formlega menntun og hæfi og samræma ákvæði sem mælt er fyrir um í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna að því er varðar rétt launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga til að hefja og stunda störf.


IX. KAFLI: FJÁRFESTINGAR
I. þáttur: Stofnsetning
23. gr.
Meginreglur og gildissvið

1.     Innan ramma og með fyrirvara um ákvæði þessa samnings skulu engar takmarkanir vera á rétti til að setja á stofn félög eða fyrirtæki í samræmi við lög aðildarríkis og hafa skráða skrifstofu, yfirstjórn eða aðalstarfsstöð á yfirráðasvæði aðildarríkjanna. Hið sama gildir um rétt félaga eða fyrirtækja aðildarríkis, sem hafa staðfestu á yfirráðasvæði annars aðildarríkis, til að setja á stofn umboð, útibú eða dótturfyrirtæki.

    Staðfesturéttur felur í sér rétt til að stofna, eignast og reka fyrirtæki, einkum félög eða fyrirtæki í skilningi 2. mgr., með þeim skilyrðum sem gilda í því aðildarríki þar sem staðfestan er fengin, þó með fyrirvara um ákvæðin hér á eftir.


2.     Í þessum kafla merkir:
a)    „dótturfyrirtæki“: fyrirtæki sem móðurfyrirtækið stýrir í raun,

b)    „félög eða fyrirtæki“: félög eða fyrirtæki stofnuð á grundvelli einkamálaréttar eða verslunarréttar, þar með talin samvinnufélög, svo og aðrar lögpersónur sem lúta allsherjarrétti eða einkamálarétti, þó að frátöldum þeim sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni; til þess unnt sé að líta á félag eða fyrirtæki sem slíkt í aðildarríki verður það að hafa raunveruleg og viðvarandi tengsl við efnahagslíf í því aðildarríki.
3.     Í viðaukum L til O er að finna sérákvæði og undanþágur varðandi staðfesturéttinn. Aðildarríkin skulu leitast við að hætta smám saman hvers konar mismunun sem þau viðhalda í samræmi við viðauka L til O. Aðildarríkin samþykkja að endurskoða þetta ákvæði, þar með talið viðaukana, innan tveggja ára frá gildistöku samningsins um breytingu á samningnum um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu frá 21. júní 2001 með það fyrir augum að draga úr og afnema að lokum þær takmarkanir sem eru enn fyrir hendi.
4.     Aðildarríki skal ekki samþykkja, frá gildistöku samningsins um breytingu á samningnum um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu frá 21. júní 2001, ráðstafanir sem fela í sér mismunun eða frekari mismunun að því er varðar stofnun og starfsemi félaga eða fyrirtækja annars aðildarríkis borið saman við þá meðferð sem félög eða fyrirtæki þess sjálfs njóta.

5.     Að því er varðar aðildarríki, sem njóta undanþágu í viðaukum L til O, skulu þau veita félögum eða fyrirtækjum annars aðildarríkis eigi lakari meðferð en veitt er félögum eða fyrirtækjum þriðju aðila annarra en Evrópubandalagsins. Aðildarríkin skuldbinda sig enn fremur til að veita hvert öðru, með gagnkvæmum hætti, þann ávinning sem er að finna í nýjum samningum milli aðildarríkis og Evrópubandalagsins, með fyrirvara um ákvörðun ráðsins.


6.     Ákvæði 35. gr. og viðauka P og Q skulu gilda um staðfesturétt á sviði flutninga á vegum, járnbrautum og í lofti, með fyrirvara um sérákvæði og undanþágur í viðaukum L og M.

7.     Ákvæði 20. gr., viðauka K og bókun við hann um frelsi fólks til flutninga milli Liechtenstein og Sviss skulu gilda um staðfesturétt einstaklinga.



24. gr.
Innlend meðferð

1.     Innan gildissviðs þessa kafla og með fyrirvara um sérákvæði sem þar er finna:

a)    skulu aðildarríkin veita hvert öðru ekki lakari meðferð en þau veita innlendum félögum eða fyrirtækjum,
b)    er aðildarríki heimilt að setja reglur um stofnun og starfsemi félaga eða fyrirtækja að því tilskildu að þessar reglur feli ekki í sér mismunun gagnvart félögum eða fyrirtækjum annarra aðildarríkja borið saman við innlend félög eða fyrirtæki.

2.     Ákvæði þessarar greinar koma ekki í veg fyrir beitingu aðildarríkis á tilteknum reglum varðandi stofnun og starfsemi útibúa og umboðsskrifstofa félaga annars aðildarríkis, sem eru ekki skráð á yfirráðasvæði fyrstnefnda aðildarríkisins, sem unnt er að réttlæta á grundvelli lagalegs eða tæknilegs mismunar á slíkum útibúum og umboðsskrifstofum annars vegar og útibúum og umboðsskrifstofum sem eru skráð á yfirráðasvæði þess hins vegar. Ekki skal ganga lengra í að veita mismunandi meðferð en brýna nauðsyn ber til vegna lagalegs eða tæknilegs mismunar.

25. gr.
Regla um fjármálamarkaðinn

1.     Að því er lýtur að fjármálaþjónustu kemur þessi kafli ekki í veg fyrir rétt aðildarríkjanna til að samþykkja nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að tryggja vernd fjárfesta, innistæðueigenda, skíreinishafa eða einstaklinga sem hafa sett fjármuni í vörslu þeirra eða til að tryggja áreiðanleika og stöðugleika fjármálakerfisins. Þessar ráðstafanir skulu í engu mismuna félögum eða fyrirtækjum hinna aðildarríkjanna ef miðað er við félög eða fyrirtæki aðildarríkisins sjálfs.
2.     Ekkert í þessum kafla ber að túlka þannig að þess sé krafist að aðili láti í té upplýsingar sem varða málefni og reikninga einstakra viðskiptamanna eða upplýsingar um trúnaðarmál eða eignarhluti sem opinberar stofnanir hafa vitneskju um.

26. gr.
Viðurkenning

1.     Aðildarríki er heimilt að ganga frá samningi eða fyrirkomulagi við tiltekið ríki um viðurkenningu staðla, viðmiðanir um veitingu heimilda, leyfa eða skírteina þjónustuveitenda og skal það þá veita öðrum aðildarríkjum næg tækifæri til að semja um aðild að slíkum samningi eða fyrirkomulagi eða til að gera sambærilega samninga.

2.     Ef aðildarríki veitir viðurkenningu, eins og kveðið er á um í 1. mgr., einhliða skal það gefa öðrum aðildarríkjum næg tækifæri til að sýna fram á að rétt sé að viðurkenna fengna reynslu, leyfi eða skírteini eða að kröfur hafi verið uppfylltar á yfirráðasvæði þeirra.
3.     Aðili skal ekki veita viðurkenningu með þeim hætti að hann mismuni löndum þegar hann beitir stöðlum sínum eða viðmiðunum um veitingu heimilda, leyfa eða skírteina til handa þjónustuveitendum né með þeim hætti að það skapi duldar takmarkanir í þjónustuviðskiptum.

27. gr.
Undantekningar

1.     Ákvæði þessa kafla gilda ekki, að því er aðildarríki varðar, um starfsemi er tengist meðferð opinbers valds í því aðildarríki, jafnvel þótt það sé óreglubundið.

2.     Ákvæði þessa kafla og ráðstafanir sem eru gerðar á grundvelli þeirra skulu ekki hafa áhrif á beitingu ákvæða sem mælt er fyrir um í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum er kveða á um sérstaka meðhöndlum erlendra félaga eða fyrirtækja á grundvelli allsherjarreglu, almannaöryggis, almannaheilbrigðis eða vegna umhverfisins.
3.     Að því tilskildu að þessum ráðstöfunum sé ekki beitt með þeim hætti að í þeim felist geðþóttabundin eða óréttlætanleg mismunun milli ríkja, þar sem samsvarandi aðstæður eru fyrir hendi eða duldar takmarkanir í þjónustuviðskiptum, kemur ekkert í þessum samningi í veg fyrir að aðildarríki samþykki eða framfylgi ráðstöfunum sem eru:

a)    ekki í samræmi við 24. gr., að því tilskildu að þegar annarri ólíkri meðferð er beitt sé miðað að því að tryggja sanngjarnar eða skilvirkar álögur4 og innheimtu beinna skatta að því er varðar þjónustu eða þjónustuveitendur annarra aðildarríkja,


4 Ráðstafanir sem miða að því að tryggja sanngjarnar eða skilvirkar álögur eða innheimtu beinna skatta taka til ráðstafana sem aðildarríki gerir samkvæmt skattakerfi sínu og:

i)    gilda um þjónustuveitendur, sem eru ekki búsettir í landinu, til viðurkenningar á þeirri staðreynd að skattskylda þeirra sem eru ekki búsettir í landinu er ákvörðuð með hliðsjón af skattskyldum hlutum sem eru upprunnir eða staðsettir á yfirráðasvæði aðildarríkisins, eða
ii)    gilda um þá sem ekki eru búsettir í landinu til að tryggja álagningu eða innheimtu skatta á yfirráðasvæði aðildarríkja, eða
iii)    gilda um þá sem eru ekki búsettir í landinu eða þá sem þar eru búsettir til að koma í veg fyrir undandrátt frá sköttum eða skattsvik, þar á meðal fullnusturáðstafanir, eða
iv)    gilda um neytendur þjónustu, sem er veitt á eða frá yfirráðasvæði annars aðildarríkis, til að tryggja að skattar af starfsemi, sem er upprunnin á yfirráðasvæði aðildarríkis, verði lagðir á eða innheimtir af slíkum neytendum, eða
v)    greina þjónustuveitendur, sem greiða skatt af hlutum sem eru skattskyldir á alþjóðavettvangi, frá öðrum þjónustuveitendum með því að viðurkenna eðlismun á skattstofni þeirra, eða
vi)    ákvarða, úthluta eða skipta tekjum, hagnaði, ágóða, tapi, frádrætti eða inneign einstaklinga eða útibúa í landinu eða milli tengdra einstaklinga eða útibúa sama einstaklings, til að vernda skattstofn aðildarríkisins.

b)    ekki í samræmi við 5. mgr. 23. gr., að því tilskildu að önnur ólík meðferð sé til komin vegna samnings til að koma í veg fyrir tvísköttun eða ákvæða til að komast hjá tvísköttun í öðrum alþjóðlegum samningi eða fyrirkomulagi sem aðildarríkið er bundið af.


II. þáttur: Fjármagnsflutningar
28. gr.

1.     Innan ramma þessa kafla skulu engar takmarkanir vera á fjármagnsflutningum milli aðildarríkjanna er tengjast stofnun félags eða fyrirtækis aðildarríkis á yfirráðasvæði annars aðildarríkis.

2.     Tryggja skal fjármagnsflutninga, er tengjast ekki stofnun milli aðildarríkjanna, í samræmi við alþjóðasamninga sem þau eiga aðild að.

3.     Aðildarríkin samþykkja að endurskoða núverandi ákvæði innan tveggja ára frá gildistöku samningsins um breytingu á samningnum um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu frá 21. júní 2001 með það í huga að víkka gildissvið og afnema að lokum þær takmarkanir sem eru enn fyrir hendi varðandi fjármagnsflutninga.

X. KAFLI: ÞJÓNUSTUVIÐSKIPTI
29. gr.
Meginreglur og gildissvið

1.     Innan ramma og með fyrirvara um ákvæði þessa samnings skulu engar takmarkanir vera á rétti einstaklinga, félaga eða fyrirtæki aðildarríkjanna til að veita þjónustu á yfirráðasvæði aðildarríkjanna hafi þau öðlast staðfestu í aðildarríki öðru en því þar sem veita á einstaklingum, félögum eða fyrirtækjum þjónustuna.

2.     Að því er þennan kafla varðar telst „þjónusta“ vera þjónusta sem er allajafna veitt gegn þóknun:


a)    frá yfirráðasvæði aðildarríkis á yfirráðasvæði annars aðildarríkis,
b)    á yfirráðasvæði aðildarríkis til neytanda þjónustu í öðru aðildarríki í samræmi við 7. mgr. hér á eftir,




Skattaheiti eða hugtök í a-lið 3. mgr. 27. gr. og í þessari neðanmálsgrein eru ákvörðuð í samræmi við skattaskilgreiningar og hugtök, eða jafngildar eða svipaðar skilgreiningar og hugtök, samkvæmt landslögum aðildarríkisins sem gerir ráðstafanirnar.

c)    af hálfu þjónustuveitanda aðildarríkis með nærveru einstaklinga þess aðildarríkis á yfirráðasvæði annars aðildarríkis í samræmi við 7. mgr. hér á eftir.
3.     Í viðaukum L til O er að finna sérákvæði og undanþágur varðandi réttinn til að veita þjónustu. Aðildarríkin skulu leitast við að hætta smám saman hvers konar mismunun sem þau viðhalda í samræmi við viðauka L til O. Aðildarríkin samþykkja að endurskoða þetta ákvæði, þar með talið viðaukana, innan tveggja ára frá gildistöku samningsins um breytingu á samningnum um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu frá 21. júní 2001 með það fyrir augum að draga úr og afnema að lokum þær takmarkanir sem eru enn fyrir hendi.

4.     Aðildarríki skal ekki samþykkja, frá gildistöku samningsins um breytingu á samningnum um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu frá 21. júní 2001, ráðstafanir sem fela í sér mismunun eða frekari mismunun að því er varðar þjónustu eða þjónustuveitendur annars aðildarríkis borið saman við þá meðferð sem samsvarandi þjónusta eða þjónustuveitendur þess sjálfs njóta.
5.     Að því er varðar aðildarríki, sem njóta undanþágu í viðaukum L til O, skulu þau veita vegna þjónustu eða þjónustuveitenda annars aðildarríkis eigi lakari meðferð en veitt er vegna samsvarandi þjónustu eða þjónustuveitendum þriðju aðila annarra en Evrópubandalagsins. Aðildarríkin skuldbinda sig enn fremur til að veita hvert öðru, með gagnkvæmum hætti, þann ávinning sem er að finna í nýjum samningum milli aðildarríkis og Evrópubandalagsins, með fyrirvara um ákvörðun ráðsins.

6.     Ákvæði 35. gr. og viðauka P og Q skulu gilda um réttinn til að veita þjónustu á sviði flutninga á vegum, járnbrautum og í lofti, með fyrirvara um sérákvæði og undanþágur í viðauka M.

7.     Ákvæði 20. gr., viðauka K og bókun við hann um frelsi fólks til flutninga milli Liechtenstein og Sviss skulu gilda um rétt einstaklinga, eins og kveðið er á um b- og c-lið 2. mgr., til að veita og njóta þjónustu í samræmi við meginreglurnar sem eru tíundaðar hér á eftir.


30. gr.
Innlend meðferð

    Innan gildissviðs þessa kafla og með fyrirvara um sérákvæði sem þar er finna:

a)    skulu aðildarríkin veita hvert öðru ekki lakari meðferð en þau veita innlendum einstaklingum, félögum eða fyrirtækjum er veita þjónustu,

b)    er aðildarríki heimilt að setja reglur um þjónustustarfsemi að því tilskildu að þessar reglur feli ekki í sér mismunun gagnvart einstaklingum, félögum eða fyrirtækjum annarra aðildarríkja borið saman við innlenda einstaklinga, félög eða fyrirtæki.

31. gr.
Regla um fjármálamarkaðinn

1.     Að því er lýtur að fjármálaþjónustu kemur þessi kafli ekki í veg fyrir rétt aðildarríkjanna til að samþykkja nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að tryggja vernd fjárfesta, innistæðueigenda, skíreinishafa eða einstaklinga sem hafa sett fjármuni í vörslu þeirra eða til að tryggja áreiðanleika og stöðugleika fjármálakerfisins. Þessar ráðstafanir skulu í engu mismuna félögum eða fyrirtækjum hinna aðildarríkjanna ef miðað er við félög eða fyrirtæki aðildarríkisins sjálfs.
2.     Ekkert í þessum kafla ber að túlka þannig að þess sé krafist að aðili láti í té upplýsingar sem varða málefni og reikninga einstakra viðskiptamanna eða upplýsingar um trúnaðarmál eða eignarhluti sem opinberar stofnanir hafa vitneskju um.

32. gr.
Viðurkenning

1.     Ákvæði 22. gr., viðauka K og bókun við hann um frelsi fólks til flutninga milli Liechtenstein og Sviss skulu gilda um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi og samræmingu ákvæða sem mælt er fyrir um í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna að því er varðar rétt einstaklinga til að hefja og stunda störf.


2.     Aðildarríki er heimilt að ganga frá samningi eða fyrirkomulagi við tiltekið ríki um viðurkenningu staðla, viðmiðanir um veitingu heimilda, leyfa eða skírteina þjónustuveitenda og skal það þá veita öðrum aðildarríkjum næg tækifæri til að semja um aðild að slíkum samningi eða fyrirkomulagi eða til að gera sambærilega samninga.

3.     Ef aðildarríki veitir viðurkenningu, eins og kveðið er á um í 2. mgr., einhliða skal það gefa öðrum aðildarríkjum næg tækifæri til að sýna fram á að rétt sé að viðurkenna fengna reynslu, leyfi eða skírteini eða að kröfur hafi verið uppfylltar á yfirráðasvæði þeirra.
4.     Aðili skal ekki veita viðurkenningu með þeim hætti að hann mismuni löndum þegar hann beitir stöðlum sínum eða viðmiðunum um veitingu heimilda, leyfa eða skírteina til handa þjónustuveitendum né með þeim hætti að það skapi duldar takmarkanir í þjónustuviðskiptum.

33. gr.
Undantekningar

1.     Ákvæði þessa kafla gilda ekki, að því er aðildarríki varðar, um starfsemi er tengist meðferð opinbers valds í því aðildarríki, jafnvel þótt það sé óreglubundið.

2.     Ákvæði þessa kafla og ráðstafanir sem eru gerðar á grundvelli þeirra skulu ekki hafa áhrif á beitingu ákvæða sem mælt er fyrir um í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum er kveða á um sérstaka meðhöndlum erlendra félaga eða fyrirtækja á grundvelli allsherjarreglu, almannaöryggis, almannaheilbrigðis eða vegna umhverfisins.
3.     Að því tilskildu að þessum ráðstöfunum sé ekki beitt með þeim hætti að í þeim felist geðþóttabundin eða óréttlætanleg mismunun milli ríkja þar sem samvarandi aðstæður eru fyrir hendi eða duldar takmarkanir í þjónustuviðskiptum kemur ekkert í þessum samningi í veg fyrir að aðildarríki samþykki eða framfylgi ráðstöfunum sem eru:

a)    ekki í samræmi við 30. gr., að því tilskildu að þegar annarri ólíkri meðferð er beitt sé miðað að því að tryggja sanngjarnar eða skilvirkar álögur5 og innheimtu beinna skatta að því er varðar þjónustu eða þjónustuveitendur annarra aðildarríkja,



5 Ráðstafanir sem miða að því að tryggja sanngjarnar eða skilvirkar álögur eða innheimtu beinna skatta taka til ráðstafana sem aðildarríki gerir samkvæmt skattakerfi sínu og:

i)    gilda um þjónustuveitendur, sem eru ekki búsettir í landinu, til viðurkenningar á þeirri staðreynd að skattskylda þeirra sem eru ekki búsettir í landinu er ákvörðuð með hliðsjón af skattskyldum hlutum sem eru upprunnir eða staðsettir á yfirráðasvæði aðildarríkisins, eða
ii)    gilda um þá sem ekki eru búsettir í landinu til að tryggja álagningu eða innheimtu skatta á yfirráðasvæði aðildarríkja, eða
iii)    gilda um þá sem eru ekki búsettir í landinu eða þá sem þar eru búsettir til að koma í veg fyrir undandrátt frá sköttum eða skattsvik, þar á meðal fullnusturáðstafanir, eða
iv)    gilda um neytendur þjónustu, sem er veitt á eða frá yfirráðasvæði annars aðildarríkis, til að tryggja að skattar af starfsemi, sem er upprunnin á yfirráðasvæði aðildarríkis, verði lagðir á eða innheimtir af slíkum neytendum, eða
b)    ekki í samræmi við 5. mgr. 29. gr., að því tilskildu að önnur ólík meðferð sé til komin vegna samnings til að koma í veg fyrir tvísköttun eða ákvæða til að komast hjá tvísköttun í öðrum alþjóðlegum samningi eða fyrirkomulagi sem aðildarríkið er bundið af.


34. gr.
Opinber innkaup

    Ekkert í þessum kafla skal túlkað á þann hátt að lagðar séu á skuldbindingar með tilliti til opinberra innkaupa.

35. gr.
Flutningar

    Aðildarríkin gefa öðrum aðildarríkjum frjálsan aðgang að mörkuðum sínum á sviði farþegaflutninga og vöruflutninga á vegum, járnbrautum og í lofti í samræmi við ákvæðin í viðauka P og Q, eftir því sem við á.

XI. VIÐAUKI: UNDIRBOÐ
36. gr.

    Í samskiptum aðildarríkjanna skal ekki beita ráðstöfunum gegn undirboðum, jöfnunartollum og ráðstöfunum gegn ólögmætum viðskiptaháttum sem rekja má til þriðju landa.

XII. KAFLI: OPINBER INNKAUP
37. gr.

1.     Aðildarríkin staðfesta réttindi sín og skyldur samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um opinber innkaup (GPA). Samkvæmt þessum samningi víkka aðildarríkin gildissvið skuldbindinga sinna samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um opinber innkaup með það að markmiði að auka frelsi á mörkuðum fyrir opinber innkaup í samræmi við viðauka R.




v)    greina þjónustuveitendur, sem greiða skatt af hlutum sem eru skattskyldir á alþjóðavettvangi, frá öðrum þjónustuveitendum með því að viðurkenna eðlismun á skattstofni þeirra, eða
vi)    ákvarða, úthluta eða skipta tekjum, hagnaði, ágóða, tapi, frádrætti eða inneign einstaklinga eða útibúa í landinu eða milli tengdra einstaklinga eða útibúa sama einstaklings, til að vernda skattstofn aðildarríkisins.

Skattaheiti eða hugtök í a-lið 3. mgr. 27. gr. og í þessari neðanmálsgrein eru ákvörðuð í samræmi við skattaskilgreiningar og hugtök, eða jafngildar eða svipaðar skilgreiningar og hugtök, samkvæmt landslögum aðildarríkisins sem gerir ráðstafanirnar.
2.     Aðildarríkin skulu í þessu skyni tryggja hvert öðru með gagnsæjum hætti og án mismununar aðgang að mörkuðum sínum fyrir opinber innkaup og sjá til þess að samkeppni verði opin og skilvirk og grundvallist á jafnri meðferð.

XIII. KAFLI: PENINGAGREIÐSLUR
38. gr.

    Engar takmarkanir skulu vera á peningagreiðslum er tengjast flutningi fólks á milli aðildarríkjanna svo og á vörum, þjónustu eða fjármagni eins og skilgreint er í 28. gr.


XIV. KAFLI: UNDANTEKNINGAR
OG ÖRYGGISRÁÐSTAFANIR

39. gr.
Undantekningar af öryggisástæðum

    Ekkert í samningi þessum skal hindra aðildarríki í að gera ráðstafanir:
a)     sem það telur nauðsynlegar til að girða fyrir uppljóstrun upplýsinga er telst vera andstæð mikilvægum öryggishagsmunum þess,
b)     sem snerta framleiðslu á eða viðskipti með vopn, skotfæri og hergögn eða aðrar framleiðsluvörur eða þjónustu, nauðsynlegar til varna, eða varða rannsóknir, þróun eða framleiðslu, nauðsynlega til varna, enda raski þessar ráðstafanir ekki samkeppnisskilyrðum hvað varðar framleiðsluvörur eða þjónustu sem eru ekki sérstaklega ætlaðar til hernaðarþarfa,
c)     sem það telur nauðsynlegar vegna eigin öryggis þegar alvarlegar innanlandserjur ógna lögum og reglu, stríð geisar eða alvarleg spenna ríkir í alþjóðamálum, sem leitt gæti til styrjaldar, eða til að uppfylla skyldur sem það hefur tekið á sig til að gæta friðar og alþjóðaöryggis.


Öryggisráðstafanir
40. gr.

1.     Ef hætta er á alvarlegum efnahagslegum eða þjóðfélagslegum erfiðleikum eða erfiðleikum í umhverfismálum að því er varðar sérstakar atvinnugreinar eða sérstök svæði, sem líklegt er að verði viðvarandi, getur aðildarríki gripið einhliða til viðeigandi ráðstafana með þeim skilyrðum og á þann hátt sem mælt er fyrir um í 41. gr.
2.     Slíkar öryggisráðstafanir skulu vera takmarkaðar, að því er varðar umfang og gildistíma, við það sem telst bráðnauðsynlegt til þess að ráða bót á ástandinu. Þær ráðstafanir skulu helst gerðar sem raska minnst framkvæmd samnings þessa.
3.     Öryggisráðstafanirnar skulu gilda gagnvart öllum aðildarríkjunum.
4.     Þessi grein er með fyrirvara um beitingu sérstakra öryggisákvæða sem eru tíunduð í viðaukunum við þennan samning eða sérstakra öryggisráðstafana í samræmi við 5. gr. samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um landbúnað.

41. gr.

1.     Aðildarríki sem hyggst grípa til öryggisráðstafana í samræmi við 40. gr. skal tilkynna hinum aðildarríkjunum það án tafar fyrir milligöngu ráðsins og skal veita allar nauðsynlegar upplýsingar.
2.     Aðildarríkin skulu tafarlaust bera saman ráð sín í ráðinu með það fyrir augum að finna lausn sem allir aðilar geta vel við unað.
3.     Hlutaðeigandi aðildarríki má ekki grípa til öryggisráðstafana fyrr en einum mánuði eftir dagsetningu tilkynningarinnar samkvæmt 1. mgr. nema samráði samkvæmt 2. mgr. hafi verið lokið áður en umræddur frestur var liðinn. Þegar óvenjulegar aðstæður, sem krefjast tafarlausra aðgerða, útiloka könnun fyrir fram getur hlutaðeigandi aðildarríki strax gripið til þeirra verndarráðstafana sem bráðnauðsynlegar teljast til þess að ráða bót á ástandinu.

4.     Hlutaðeigandi aðildarríki skal án tafar tilkynna ráðstafanirnar, sem gerðar hafa verið, til ráðsins og veita allar nauðsynlegar upplýsingar.
5.     Í ráðinu skal hafa samráð um öryggisráðstafanirnar á þriggja mánaða fresti frá því að gripið er til þeirra með það fyrir augum að fella þær niður fyrir áætluð lok gildistímabilsins eða takmarka umfang þeirra.
    Hvert aðildarríki getur hvenær sem er farið fram á það við ráðið að það endurskoði umræddar ráðstafanir.

XV. KAFLI: SAMVINNA UM STEFNU Í EFNAHAGS- OG PENINGAMÁLUM
42. gr.

    Aðildarríkin skulu skiptast á skoðunum og upplýsingum um framkvæmd samnings þessa og áhrif samstarfsins á efnahagsstarfsemi og framkvæmd stefnu í efnahags- og peningamálum. Þau geta enn fremur rætt stefnu, ástand og horfur í efnahagsmálum. Þessi skipti á skoðunum og upplýsingum skulu fara fram án nokkurra skuldbindinga.


XVI. KAFLI: STOFNANAÁKVÆÐI

43. gr.
Ráðið

1.     Það skal vera skylda ráðsins
a)    að fara með þau völd og störf sem því eru fengin samkvæmt þessum samningi,
b)    að ákveða breytingar á þessum samningi í samræmi við ákvæðin í honum,
c)    að hafa eftirlit með beitingu þessa samnings og fylgjast með framkvæmd hans,
d)    að kanna hvort frekari ráðstafanir skuli gerðar af hálfu aðildarríkjanna til þess að koma í framkvæmd markmiðum samtakanna,
e)    að greiða fyrir nánari tengslum við önnur ríki og ríkjasambönd,
f)    að leitast við að stofna til þeirra samskipta við aðrar alþjóðastofnanir sem geta stuðlað að því að markmiðum samtakanna verði náð,
g)    að gera viðskipta- og samstarfssamninga milli aðildarríkjanna og annarra ríkja, ríkjasambanda eða alþjóðastofnana,
h)    að leitast við að leysa deilumál sem upp kunna að koma í tengslum við túlkun eða beitingu þessa samnings, og
i)    að taka til umfjöllunar hvert það málefni sem haft gæti áhrif á framkvæmd þessa samnings.
2.     Hvert aðildarríki skal eiga fulltrúa í ráðinu og fara með eitt atkvæði.
3.     Ráðið getur ákveðið að koma á fót þeim stofnunum, nefndum og öðrum aðilum sem það telur nauðsynlegt til aðstoðar við að framkvæma hlutverk þess. Í viðauka S er að finna skrá yfir þessar stofnanir, nefndir og aðra aðila.
4.     Við framkvæmd skyldustarfa sinna samkvæmt þessari grein getur ráðið tekið ákvarðanir sem skulu vera bindandi fyrir öll aðildarríkin og beint tillögum til aðildarríkjanna.
5.     Ákvarðanir og tillögur ráðsins skulu gerðar samhljóða nema að því leyti sem öðruvísi er ákveðið í samningi þessum. Ákvarðanir og tillögur teljast samþykktar samhljóða nema eitthvert aðildarríkið greiði þeim mótatkvæði. Ákvarðanir og tillögur, sem afgreiða þarf með meirihlutasamþykki, þarfnast samþykkis þriggja aðildarríkja.

6.     Ef fjöldi aðildarríkjanna breytist getur ráðið ákveðið að breyta þeim atkvæðafjölda sem þarf til að samþykkja ákvarðanir og tillögur sem afgreiða skal með meirihlutasamþykki.

44. gr.
Fyrirkomulag á stjórn samtakanna

    Ráðið skal taka ákvarðanir í þeim tilgangi sem hér segir:
a)    að ákveða starfsreglur ráðsins og annarra stofnana samtakanna og má þar kveða á um að atriði, er varða málsmeðferð, megi ákvarða með meirihlutasamþykkt,
b)    að gera ráðstafanir um nauðsynlegt skrifstofuhald fyrir samtökin,
c)    að gera þær fjárhagslegu ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru vegna kostnaðar við stjórn samtakanna, ákveða eftir hvaða reglum fjárhagsáætlun skuli samin og hvernig kostnaðinum skuli skipt niður á aðildarríkin.

45. gr.
Löghæfi, sérréttindi og undanþágur

1.     Það löghæfi og þau sérréttindi og undanþágur, sem aðildarríkin viðurkenna og veita vegna samtakanna, skulu skráð í bókun við þennan samning.

2.     Ráðið getur, fyrir hönd samtakanna, gert samning við ríkisstjórn þess ríkis, þar sem aðalstöðvarnar verða staðsettar, um löghæfi, sérréttindi og undanþágur þær sem verða viðurkenndar og veittar í tengslum við samtökin.


XIII. KAFLI: SAMRÁÐ OG LAUSN DEILUMÁLA
46. gr.
Gildissvið

    Ákvæði þessa kafla gilda um hvert það málefni er varðar þennan samning, nema kveðið sé á um annað í honum.

47. gr.
Samráð

1.     Aðildarríkin skulu ætíð leitast við að ná samkomulagi um túlkun og beitingu þessa samnings og gera sitt ítrasta, á grundvelli samvinnu og samráðs, til að finna lausn, sem allir aðilar geta vel við unað, í málum sem haft gætu áhrif á framkvæmd hans.

2.     Aðildarríki er heimilt að leggja fyrir ráðið hvert það málefni er varðar túlkun og beitingu þessa samnings. Veita skal ráðinu allar þær upplýsingar sem gætu komið að gagni við nákvæma rannsókn málsins er miðar að því að finna lausn sem allir aðilar geta vel við unað. Ráðið skal í þessu skyni kanna alla möguleika á að viðhalda góðri framkvæmd samningsins.

3.     Ráðið skal koma saman innan 30 daga frá því að beiðni um samráð var veitt móttaka.


48. gr.
Gerðardómur

1.     Telji aðildarríki að ráðstöfun, sem annað aðildarríki beitir, brjóti gegn samningnum og finnist ekki lausn á málinu innan 45 daga frá því að samráðsfundir voru haldnir samkvæmt 47. gr. er einu eða fleiri aðildarríkjum, sem koma að deilumálinu, heimilt að vísa málinu til gerðardóms með skriflegri tilkynningu til þess aðildarríkis sem kærunni er beint gegn. Afrit af tilkynningunni skal sent öllum aðildarríkjunum þannig að hvert þeirra um sig geti ákveðið hvort það eigi verulegra hagsmuna að gæta í málinu. Ef fleiri aðildarríki en eitt leggja deiluna í gerðardóm og fleira en eitt aðildarríki tengjast sama máli skal koma á fót einum gerðardómi til að taka deilurnar til umfjöllunar þegar það er gerlegt.


2.     Aðildarríki sem á ekki aðild að deilunni skal, þegar það fær í hendur skriflega tilkynningu frá deiluaðilum, eiga rétt á að leggja fram skriflegar athugasemdir fyrir gerðardóminn, fá skriflegar athugasemdir frá deiluaðilum, vera viðstatt alla vitnaleiðslur og gera athugasemdir munnlega.
3.     Úrskurðir gerðardómsins eru endanlegir og bindandi fyrir deiluaðila og skal þeim fullnægt án tafar.

4.     Í viðauka T er að finna reglur um stofnun og starfsemi gerðardómsins og framkvæmd úrskurða hans.

XVIII. KAFLI: ALMENN ÁKVÆÐI
49. gr.
Skuldbindingar samkvæmt öðrum alþjóðasamningnum

1.     Ekkert í þessum samningi leysir aðildarríki undan skuldbindingum sínum samkvæmt samningum við þriðju ríki eða marghliða samningum sem þau eiga aðild að.

2.     Þessi samningur er með fyrirvara um þær reglur sem gilda um aðildarríkin samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, á grundvelli norrænnar samvinnu og innan svæðisbandalags Sviss og Liechtenstein.

50. gr.
Réttindi og skyldur aðildarríkjanna

    Aðildarríkin skulu gera allar almennar eða sérstakar ráðstafanir til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af samningi þessum leiðir. Þau skulu ekki gera neinar ráðstafanir sem geta teflt markmiðum þessa samnings í tvísýnu.


51. gr.
Gagnsæi

1.     Aðildarríkin skulu birta lög sín eða veita almenningi aðgang með öðrum hætti að lögum sínum, reglum, málsmeðferð og stjórnsýsluúrskurðum og dómsúrskurðum sem hafa almenna skírskotun, svo og alþjóðasamningum sem haft gætu áhrif á framkvæmd þessa samnings.
2.     Aðildarríkin skulu þegar í stað svara sértækum spurningum og veita hvert öðru upplýsingar, sé þess óskað, um málefni sem um getur í 1. mgr.


52. gr.
Trúnaður

    Fulltrúar, sendimenn og sérfræðingar samningsaðila, svo og embættismenn og aðrir starfsmenn samkvæmt samningi þessum, skulu bundnir þagnarskyldu, einnig eftir að þeir láta af störfum, um vitneskju sem á að fara leynt í starfi þeirra, einkum upplýsingar um fyrirtæki, viðskiptatengsl þeirra og kostnaðarþætti.


53. gr.
Viðaukar

1.     Viðaukar, viðbætar og bókanir við samning þennan eru óaðskiljanlegur hluti hans.
2.     Viðaukar samningsins eru þessir:

    Viðauki A    Um upprunareglur
    Viðauki B    Um gagnkvæma aðstoð stjórnvalda í tollamálum
    Viðauki C    Skrá yfir landbúnaðarvörur og vörur unnar úr hráefni úr landbúnaði, sem um getur í 1. mgr. 8. gr.

    Viðauki D    Skrá yfir tollaívilnanir á landbúnaðarvörum
    Viðauki E    Sáðvörur
    Viðauki F    Lífrænn landbúnaður
    Viðauki G    Ráðstafanir um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna
    Viðauki H    Reglur um tilhögun upplýsingaskipta vegna tæknilegra reglna og reglna um þjónustu í upplýsingasamfélaginu

    Viðauki I        Gagnkvæm viðurkenning með tilliti til samræmismats
    Viðauki J         Hugverkaréttindi
    Viðauki K    Frelsi fólks til flutninga
    Viðauki L    Fyrirvarar af hálfu Íslands um fjárfestingar og þjónustu
    Viðauki M    Fyrirvarar af hálfu Liechtenstein um fjárfestingar og þjónustu
    Viðauki N    Fyrirvarar af hálfu Noregs um fjárfestingar og þjónustu
    Viðauki O    Fyrirvarar af hálfu Sviss um fjárfestingar og þjónustu
    Viðauki P    Flutningar á landi
    Viðauki Q    Flutningar í lofti
    Viðauki R    Opinber innkaup
    Viðauki S    Stofnanir, nefndir og aðrir aðilar sem ráðið kemur á fót
    Viðauki T    Gerðardómur
    Viðauki U    Skrá um yfirráðasvæði sem 58. gr. á við um.
    Ráðið getur ákveðið að breyta ákvæðum þessarar málsgreinar.
3.     Ráðið getur ákveðið að breyta viðauka A, C, H, S og T, sem og viðbætunum við viðauka E, F, K, P, Q og R, nema kveðið sé á um annað í viðaukunum.

4.     Nefndin, sem er komið á fót samkvæmt viðauka I, getur ákveðið að breyta 4. gr. þess viðauka, sem og 1. og 2. viðbæti við hann. Hún skal tilkynna ráðinu um ákvörðun sína.

54. gr.
Fullgilding

1.     Undirritunarríkin skulu fullgilda þennan samning. Fullgildingarskjölum skal komið í vörslu ríkisstjórnar Svíþjóðar sem tilkynnir öllum hinum undirritunarríkjunum um það.
2.     Ríkisstjórn Noregs gegnir hlutverki vörsluaðila frá 17. nóvember 1995.
3.     Ráðið getur ákveðið að breyta ákvæðum þessarar greinar.

55. gr.
Gildistaka

    Samningur þessi öðlast gildi þegar öll undirritunarríki hafa komið fullgildingarskjölum sínum til vörslu.

56. gr.
Aðild og þátttaka

1.     Sérhvert ríki getur gerst aðili að þessum samningi að því tilskildu að ráðið samþykki aðild þess með þeim skilmálum og skilyrðum sem kunna að verða sett í þeirri ákvörðun. Aðildarskjalinu skal komið í vörslu hjá vörsluaðila sem tilkynnir öllum hinum aðildarríkjunum um það. Þessi samningur öðlast gildi að því er varðar ríkið, sem gerist aðili, á þeim degi sem tilgreindur er í ákvörðuninni.
2.     Ráðinu er heimilt að gera samning milli aðildarríkjanna og annars ríkis, sambandsríkja eða alþjóðastofnunar og mynda samtök um hver þau gagnkvæm réttindi og skyldur, sameiginlegar aðgerðir og sérstaka málsmeðferð eftir því sem við á. Leggja skal slíkan samning fyrir aðildarríkin til staðfestingar og öðlast hann gildi að því tilskildu að öll aðildarríkin hafi staðfest hann. Staðfestingarskjölum skal komið í vörslu hjá vörsluaðila sem tilkynnir öllum hinum aðildarríkjunum um það.

3.     Ríki, sem gerist aðili að þessum samningi, skal sækja um að gerast samningsaðili að fríverslunarsamningum milli aðildarríkjanna annars vegar og þriðju ríkja, sambandsríkja eða alþjóðastofnana hins vegar.

57. gr.
Uppsögn

1.     Aðildarríki er heimilt að segja upp þessum samningi að því tilskildu að það tilkynni það skriflega með 12 mánaða fyrirvara til vörsluaðilans sem tilkynnir hinum aðildarríkjunum um það.
2.     Áður en uppsögnin tekur gildi skulu aðildarríkin koma sér saman um viðeigandi fyrirkomulag og sanngjarna skiptingu kostnaðar vegna uppsagnarinnar.

58. gr.
Svæðisbundið gildissvið

    Samningur þessi tekur til yfirráðasvæða aðildarríkjanna, nema kveðið sé á um annað í viðauka U.


59. gr.
Breytingar

    Breytingar á ákvæðum þessa samnings skulu háðar ákvörðun ráðsins og sendar aðildarríkjunum til staðfestingar í samræmi við kröfur í innlendum lögum þeirra, nema kveðið sé á um annað í þessum samningi. Þær öðlast gildi á fyrsta degi annars mánaðar eftir að staðfestingarskjali hvers aðildarríkis hefur verið komið í vörslu hjá vörsluaðila sem tilkynnir öllum hinum aðildarríkjunum um það.



    ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.


    GJÖRT í Stokkhólmi 4. janúar 1960, í einu eintaki á ensku og á frönsku og eru báðir textarnir jafngildir og skal því komið í vörslu ríkisstjórnar Svíþjóðar sem sendir staðfest endurrit til allra annarra undirritunarríkja og inngönguríkja.


    BREYTT í Vaduz 12. júní 2001 í einu fullgiltu eintaki á ensku sem skal komið í vörslu ríkisstjórnar Noregs.

CONVENTION
ESTABLISHING THE
EUROPEAN FREE TRADE ASSOCIATION


    The Republic of Iceland, the Principality of Liechtenstein, the Kingdom of Norway and the Swiss Confederation (hereinafter referred to as the “Member States”);
    Having regard to the conclusion on 4 January 1960, between the Republic of Austria, the Kingdom of Denmark, the Kingdom of Norway, the Portuguese Republic, the Kingdom of Sweden, the Swiss Confederation and the United Kingdom of Great Britain and Northern Ireland, of the Convention establishing the European Free Trade Association (hereinafter referred to as the “Convention”);
    Having regard to the association with the Republic of Finland and its subsequent accession on 1 January 1986, and to the accessions by the Republic of Iceland on 1 March 1970 and by the Principality of Liechtenstein on 1 September 1991;
    Having regard to the successive withdrawals from the Convention by the Kingdom of Denmark and the United Kingdom on 1 January 1973; the Republic of Portugal on 1 January 1986; the Republic of Austria, the Republic of Finland and the Kingdom of Sweden on 1 January 1995;
    Having regard to the free trade agreements between the Member States on the one hand and third parties on the other;
    Reaffirming the high priority they attach to the privileged relationship between the Member States and to the facilitation of continuity in their respective good relations with the European Union, which are based on proximity, long-standing common values and European identity;
    Resolved to deepen the co-operation instituted within the European Free Trade Association, further facilitating the free movement of goods, aiming at the progressive attainment of free movement of persons and the progressive liberalisation of trade in services and investment, further opening up the public procurement markets in the EFTA States, and providing for the appropriate protection of intellectual property rights, under fair conditions of competition;
    Building on their respective rights and obligations under the Agreement establishing the World Trade Organization and other multilateral and bilateral instruments of co-operation;
    Recognising the need for mutually supportive trade and environmental policies in order to achieve the objective of sustainable development;

    Affirming their commitment to the observance of recognised core labour standards, noting their endeavours to promote such standards in the appropriate multilateral fora and expressing their belief that economic growth and development fostered by increased trade and further trade liberalisation contribute to the promotion of these standards;

    Have agreed as follows:

CHAPTER I : OBJECTIVES
ARTICLE 1
The Association

    An international organisation to be known as the European Free Trade Association, hereinafter referred to as “the Association”, is hereby established.

ARTICLE 2
Objectives

    The objectives of the Association shall be
(a)    to promote a continued and balanced strengthening of trade and economic relations between the Member States with fair conditions of competition, and the respect of equivalent rules, within the area of the Association;
(b)    the free trade in goods;
(c)    to progressively liberalise the free movement of persons;
(d)    the progressive liberalisation of trade in services and of investment;
(e)    to provide fair conditions of competition affecting trade between the Member States;
(f)    to open the public procurement markets of the Member States;
(g)    to provide appropriate protection of intellectual property rights, in accordance with the highest international standards.

CHAPTER II : FREE MOVEMENT OF GOODS
ARTICLE 3
Customs duties on imports and exports, and charges having equivalent effect

    Customs duties on imports and exports, and any charges having equivalent effect, shall be prohibited between the Member States. This shall also apply to customs duties of a fiscal nature.

ARTICLE 4
Internal taxation

1.     No Member State shall impose, directly or indirectly, on the products of other Member States any internal taxation of any kind in excess of that imposed directly or indirectly on similar domestic products.
2.     Furthermore, no Member State shall impose on the products of other Member States any internal taxation of such a nature as to afford indirect protection to other products.
3.     Where products are exported to the territory of any Member State, any repayment of internal taxation shall not exceed the internal taxation imposed on them whether directly or indirectly.

ARTICLE 5
Rules of origin

    The rules of origin and methods of administrative cooperation in customs administration are set out in Annex A.

ARTICLE 6
Mutual assistance in customs matters

1.     Member States shall assist each other in customs matters in general in accordance with the provisions of Annex B in order to ensure that their customs legislation is correctly applied.
2.     Annex B shall apply to all products whether or not covered by the provisions of this Convention.


ARTICLE 7
Quantitative restrictions on imports and exports, and measures having equivalent effect

    Quantitative restrictions on imports and exports, and all measures having equivalent effect, shall be prohibited between the Member States.


ARTICLE 8
Agricultural goods

1.     In view of the special considerations affecting agriculture, the basic agricultural goods and the goods processed from agricultural raw materials listed in Annex C shall be subject to the following rules:
(a)    In relation to the goods listed in Part I of Annex C, the provisions of this Convention shall apply, with due regard to the arrangements provided for in Article 9.
(b)    In relation to goods listed in Part II or in Part III of Annex C, and with due regard to the arrangements provided for in Article 9, Articles 2, 3, 4 and 7 shall not apply.
(c)    In relation to the goods listed in Part III of Annex C, the Member States declare their readiness to foster, in so far as their agricultural policies allow, the harmonious development of trade. In pursuance of this objective, Iceland shall grant tariff concessions to agricultural products originating in Norway and Switzerland1 as specified in Table 1 of Annex D, Norway shall grant tariff concessions to agricultural products originating in Iceland and Switzerland2 as specified in Table 2 of Annex D, and Switzerland3 shall grant tariff concessions to agricultural products originating in Iceland and Norway as specified in Table 3 of Annex D. Article 15 of Annex A shall not apply to goods listed in Part III of Annex C.
2.     Chapter IV on State aid, Chapter VI on competition and Chapter XII on public procurement shall not apply to agricultural goods.

ARTICLE 9
Parts I and II – Goods of Annex C (processed agricultural goods)

1.     In order to take account of differences in the cost of the agricultural raw materials incorporated in the goods specified in Part I of Annex C referred to in sub-paragraph (a) of Article 8, the Convention does not preclude, in respect of such goods:
(a)    the levying, upon import, of a fixed duty;
(b)    the application of internal price compensation measures;
(c)    the application of measures adopted upon export.
2.     The fixed duties, levied upon import of goods listed in Part I of Annex C, shall be based on, but not exceed, the differences between the domestic price and the world market price of the agricultural raw materials incorporated into the goods concerned.
3.     With due regard to the provisions in paragraph 2, no Member State shall accord to imports of goods listed in Part I or in Part II of Annex C from the territory of another Member State a treatment less favourable than it accords to imports from the territory of the European Community or any other free trade partner.
4.     The Member States shall notify each other of all changes in the treatment for products listed in Part I or in Part II of Annex C accorded to the European Community or any other free trade partner.


1 Also applies to the Principality of Liechtenstein as long as its Customs Union Treaty of 29 March 1923 with Switzerland remains in force.
2 Also applies to the Principality of Liechtenstein as long as its Customs Union Treaty of 29 March 1923 with Switzerland remains in force.
3 Also applies to the Principality of Liechtenstein as long as its Customs Union Treaty of 29 March 1923 with Switzerland remains in force.

ARTICLE 10
Fish and other marine products

    The provisions of this Convention shall apply in relation to fish and other marine products.

ARTICLE 11
Seeds and Organic Agriculture

1.     Specific rules on seeds are set out in Annex E.
2.     Specific rules on organic agriculture are set out in Annex F.

ARTICLE 12
Sanitary and phytosanitary measures


    The rights and obligations of the Member States in respect of sanitary and phytosanitary measures shall be governed by Annex G.

ARTICLE 13
Exceptions

    The provisions of Article 7 shall not preclude prohibitions or restrictions on imports, exports or goods in transit justified on grounds of public morality; public policy or public security; the protection of health and life of humans, animals or plants and of the environment; the protection of national treasures possessing artistic, historic or archaeological value; or the protection of industrial and commercial property. Such prohibitions or restrictions shall not, however, constitute a means of arbitrary discrimination or a disguised restriction on trade between the Member States.

CHAPTER III : TECHNICAL BARRIERS
TO TRADE

ARTICLE 14
Notification of draft technical regulations

1.     Member States shall notify to the Council at the earliest practicable stage all draft technical regulations or amendments thereto.
2.     The provisions on the notification procedure are set out in Annex H.

ARTICLE 15
Mutual recognition of conformity assessment


    Without prejudice to Article 7, Switzerland, on the one hand, and Iceland, Liechtenstein and Norway, on the other, grant mutual acceptance of reports, certificates, authorisations, conformity marks and manufacturer's declarations of conformity in accordance with Annex I.

CHAPTER IV : STATE AID
ARTICLE 16
State aid

1.     The rights and obligations of the Member States relating to State aid shall be based on Article XVI of the GATT 1994 and the WTO Agreement on Subsidies and Countervailing Measures, which are incorporated and made part of the Convention, except as otherwise provided for in Annex Q.
2.     Member States shall not apply countervailing measures as provided for under Part V of the WTO Agreement on Subsidies and Countervailing Measures in relation to any other Member State in accordance with Article 36.
3.     The Member States shall review the scope of application of this Chapter with a view to extending the disciplines with respect to State aid to the field of services, taking into account international developments in the sector. The reviews shall take place at yearly intervals.

CHAPTER V : PUBLIC UNDERTAKINGS AND MONOPOLIES
ARTICLE 17
Public undertakings and monopolies

1.     Member States shall ensure that public undertakings refrain from applying
(a)    measures the effect of which is to afford protection to domestic production which would be inconsistent with this Convention if achieved by means of a duty or charge with equivalent effect, quantitative restriction or government aid, or
(b)    trade discrimination on grounds of nationality in so far as it frustrates the benefits expected from the removal or absence of duties and quantitative restrictions on trade between Member States.


2.     For the purposes of this Article, “public undertakings” means central, regional, or local government authorities, public enterprises and any other organisation by means of which a Member State, by law or in practice, controls or appreciably influences imports from, or exports to, the territory of a Member State.
3.     The provisions of paragraph 1 of Article 18 shall also apply to the activities of public undertakings, and undertakings for which the Member States grant special or exclusive rights, in so far as the application of these provisions does not obstruct the performance, in law or in fact, of the particular public tasks assigned to them.
4.     Paragraph 3 shall apply to Annex Q. The Member States shall review the scope of application of this Chapter with a view to extending the disciplines to other services, taking into account international developments in the sector. The reviews shall take place at yearly intervals.
5.     Member States shall ensure that new practices of the kind described in paragraph 1 of this Article are not introduced.
6.     Where Member States do not have the necessary legal powers to control the activities of regional or local government authorities or enterprises under their control in these matters, they shall nevertheless endeavour to ensure that those authorities or enterprises comply with the provisions of this Article.

CHAPTER VI : RULES OF COMPETITION
ARTICLE 18
Competition

1.     Member States recognise that the following practices are incompatible with this Convention in so far as they frustrate the benefits arising from this Convention:
(a)    agreements between enterprises, decisions by associations of enterprises and concerted practices between enterprises which have as their object or result the prevention, restriction or distortion of competition;
(b)    abuse by one or more undertakings of a dominant position in the territories of the Member States as a whole or in a substantial part thereof.
2.     Should a Member State consider that a given practice is incompatible with this Article, it may ask for consultations in accordance with the procedures set out in Article 47 and take appropriate measures under the conditions set out in paragraph 2 of Article 40 to deal with the difficulties resulting from the practice in question.

CHAPTER VII : PROTECTION OF INTELLECTUAL PROPERTY
ARTICLE 19

1.     Member States shall grant and ensure adequate and effective protection of intellectual property rights, and provide for measures for the enforcement of such rights against infringement thereof, counterfeiting and piracy, in accordance with the provisions of this Article, Annex J to this Agreement and the international agreements referred to therein.
2.     Member States shall accord to each other's nationals treatment no less favourable than that they accord to their own nationals. Exemptions from this obligation must be in accordance with the substantive provisions of Article 3 of the TRIPS Agreement.

3.     Member States shall grant to each other's nationals treatment no less favourable than that accorded to nationals of any other State. Exemptions from this obligation must be in accordance with the substantive provisions of the TRIPS Agreement, in particular Articles 4 and 5 thereof.
4.     Member States agree, upon request of any Member State, to review the provisions on the protection of intellectual property rights contained in the present Article, with a view to further improve levels of protection and to avoid or remedy trade distortions caused by actual levels of protection of intellectual property rights.

CHAPTER VIII : FREE MOVEMENT
OF PERSONS

ARTICLE 20
Movement of persons

1.     Freedom of movement of persons shall be secured among Member States in accordance with the provisions set out in Annex K and in the Protocol to Annex K on the free movement of persons between Liechtenstein and Switzerland.
2.     The objective of this Article for the benefit of the nationals of the Member States shall be:
(a)    to accord a right of entry, residence, access to work as employed persons, establishment on a self-employed basis and the right to stay in the territory of the Member States;
(b)    to facilitate the provision of services in the territory of the Member States, and in particular to liberalise the provision of services of brief duration;
(c)    to accord a right of entry into, and residence in, the territory of the Member States to persons without an economic activity in the host State;
(d)    to accord the same living, employment and working conditions as those accorded to nationals.

ARTICLE 21
Coordination of social security systems

    In order to provide freedom of movement of persons, the Member States shall make provision, in accordance with Appendix 2 of Annex K and with the Protocol to Annex K on the free movement of persons between Liechtenstein and Switzerland, for the coordination of social security systems with the aim in particular of:
(a)    securing equality of treatment;
(b)    determining the legislation applicable;
(c)    aggregating, for the purpose of acquiring and retaining the right to benefit and of calculating the amount of benefit, of all periods taken into consideration by the national legislation of the States concerned;
(d)    paying benefits to persons resident in the territories of the Member States;
(e)    fostering mutual administrative assistance and cooperation between authorities and institutions.

ARTICLE 22
Mutual recognition of professional qualifications

    In order to make it easier for nationals of the Member States to take up and pursue activities as workers and self-employed persons, the Member States shall take the necessary measures, as contained in Appendix 3 to Annex K and in the Protocol to Annex K on the free movement of persons between Liechtenstein and Switzerland, concerning the mutual recognition of diplomas, certificates and other evidence of formal qualifications, and the coordination of the provisions laid down by law, regulation or administrative action in the Member States concerning the taking up and pursuit of activities by workers and self-employed persons.

CHAPTER IX : INVESTMENT
Section I: Establishment
ARTICLE 23
Principles and scope

1.     Within the framework of, and subject to, the provisions of this Convention, there shall be no restrictions on the right of establishment of companies or firms, formed in accordance with the law of a Member State and having their registered office, central administration or principal place of business in the territory of the Member States. This shall also apply to the setting up of agencies, branches or subsidiaries by companies or firms of any Member State established in the territory of any other Member State.
    The right of establishment shall include the right to set up, acquire and manage undertakings, in particular companies or firms within the meaning of paragraph 2, under the conditions laid down for its own undertakings by the law of the Member State where such establishment is effected, subject to the provisions set out hereafter.
2.     For the purposes of this Chapter:
(a)    “subsidiary” of a company shall mean a company which is effectively controlled by the first company;
(b)    “companies or firms” shall mean companies or firms constituted under civil or commercial law, including cooperative societies, and other legal persons governed by public or private law, save for those which are non-profit-making; in order to be considered as a company or firm of a Member State, the company or firm shall have a real and continuous link with the economy in that Member State.
3.     Annexes L to O contain specific provisions and exemptions regarding the right of establishment. The Member States shall endeavour to eliminate gradually remaining discriminations, which they may maintain in accordance with Annexes L to O. The Member States agree to review the present provision, including its Annexes, within two years after the entry into force of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association of 21 June 2001 with a view to reducing, and ultimately eliminating, the remaining restrictions.
4.     From the date of entry into force of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association of 21 June 2001, neither Member State shall adopt new, or more, discriminatory measures as regards the establishment and operation of companies or firms of another Member State, in comparison with the treatment accorded to its own companies or firms.
5.     In sectors covered by an exemption as contained in Annexes L to O, each Member State shall accord to companies or firms of another Member State treatment no less favourable than that accorded to companies or firms of third parties other than the European Community. As regards any new agreements concluded between any Member State and the European Community, the Member States further undertake to extend to each other, on the basis of reciprocity, the benefits of such agreements, subject to a decision by the Council.
6.     The right of establishment in the field of road, rail and air transport shall be governed by the provisions of Article 35 and Annexes P and Q, subject to the specific provisions and exemptions set out in Annexes L and M.
7.     The right of establishment of natural persons shall be governed by the provisions of Article 20, Annexes K and the Protocol to Annex K on movement of persons between Liechtenstein and Switzerland.

ARTICLE 24
National treatment

1.     Within the scope of application of this Chapter, and without prejudice to any special provisions contained herein:
(a)    Member States shall grant treatment no less favourable than that accorded to their own companies or firms;
(b)    each Member State may regulate the establishment and operation of companies or firms on its territory, in so far as these regulations do not discriminate against companies or firms of the other Member States in comparison to its own companies or firms.
2.     The provisions of this Article do not preclude the application by a Member State of particular rules concerning the establishment and operation in its territory of branches and agencies of companies of another Member State not incorporated in the territory of the first Member State, which are justified by legal or technical differences between such branches and agencies as compared to branches and agencies of companies incorporated in its territory. The difference in treatment shall not go beyond what is strictly necessary as a result of such legal or technical differences.

ARTICLE 25
Financial market regulation

1.     In respect of financial services, this Chapter does not prejudice the right of the Member States to adopt measures necessary for prudential grounds in order to ensure the protection of investors, depositors, policy holders, or persons to whom a fiduciary duty is owed, or to ensure the integrity and stability of the financial system. These measures shall not discriminate against companies or firms of the other Member States in comparison to its own companies or firms.

2.     Nothing in this Chapter shall be construed to require a Member State to disclose information relating to the affairs and accounts of individual customers or any confidential or proprietary information in the possession of public entities.

ARTICLE 26
Recognition

1.     A Member State may enter into an agreement or arrangement with a particular State providing for the recognition of standards, criteria for authorization, licensing or certification of service suppliers, in which case it shall offer adequate opportunity for any other Member State to negotiate its accession to such an agreement or arrangement or to negotiate comparable ones with it.
2.     Where a Member State accords recognition as provided for in paragraph 1 autonomously, it shall afford adequate opportunity for any other Member State to demonstrate that experience, licences or certifications obtained or requirements met in that other Member State's territory should be recognised.
3.     A Member State shall not accord recognition in a manner which would constitute a means of discrimination between countries in the application of its standards or criteria for the authorisation, licensing or certification of service suppliers, or a disguised restriction to establishment in the services sector.

ARTICLE 27
Exceptions

1.     The provisions of this Chapter shall not apply, so far as any given Member State is concerned, to activities which in that Member State are connected, even occasionally, with the exercise of official authority.
2.     The provisions of this Chapter and measures taken in pursuance thereof shall not prejudice the applicability of provisions laid down by law, regulation or administrative action providing for special treatment for foreign companies or firms on grounds of public policy, public security, public health or the environment.
3.     Subject to the requirement that such measures are not applied in a manner which would constitute a means of arbitrary or unjustifiable discrimination between States where like conditions prevail, or a disguised restriction on trade in services, nothing in this Convention shall be construed to prevent the adoption or enforcement by any Member State of measures:
(a)    inconsistent with Article 24, provided that the difference in treatment is aimed at ensuring the equitable or effective4 imposition or collection of direct taxes in respect of services or service suppliers of other Member States;


4 Measures that are aimed at ensuring the equitable or effective imposition or collection of direct taxes include measures taken by a Member under its taxation system which:
(i)    apply to non-resident service suppliers in recognition of the fact that the tax obligation of non-residents is determined with repsect to taxable items sourced or located in the Member State's territory; or

(ii)    apply to non-residents in order to ensure the imposition or collection of taxes in the Member State's territory; or

(iii)    apply to non-residents or residents in order to prevent the avoidance or evasion of taxes, including compliance measures; or

(iv)    apply to consumers of services supplied in or from the territory of another Member State in order to ensure the imposition or collection of taxes of such consumers derived from sources in the Member State's territory; or

(v)    distinguish service suppliers subject to tax on worldwide taxable items from other service suppliers, in recognition of the difference in the nature of the tax base between them; or
(vi)    determine, allocate or apportion income, profit, gain, loss, deduction or credit of resident persons or branches, or between related persons or branches of the same person, in order to safeguard the Member State's tax base.
(b)    inconsistent with paragraph 5 of Article 23, provided that the difference in treatment is the result of an agreement on the avoidance of double taxation or provisions on the avoidance of double taxation in any other international agreement or arrangement by which the Member State is bound.

Section II: Capital movement
ARTICLE 28

1.     Within the framework of this Chapter, there shall be no restrictions between the Member States on the movement of capital relating to the establishment in another Member State's territory of a company or firm of that Member State.
2.     The movement of capital not relating to establishment between the Member States shall be ensured in accordance with the international agreements to which they are parties.
3.     The Member States agree to review the present provision within two years after the entry into force of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association of 21 June 2001 in order to broaden the scope of, and ultimately eliminate the remaining restrictions to, the movement of capital.

CHAPTER X : TRADE IN SERVICES
ARTICLE 29
Principles and scope

1.     Within the framework of, and subject to, the provisions of this Convention, there shall be no restrictions on the right to supply services within the territory of the Member States in respect of natural persons, companies or firms of Member States who are established in a Member State other than that of the natural person, company or firm for whom the services are intended.
2.     For the purposes of this Chapter, services shall be considered to be “services” within the meaning of this Convention where they are normally supplied for remuneration
(a)    from the territory of one Member State into the territory of another Member State;
(b)    in the territory of a Member State to the service consumer of another Member State in accordance with paragraph 7 below;




Tax terms or concepts in paragraph 3(a) of Article 27 and in this footnote are determined according to tax definitions and concepts, or equivalent or similar definitions and concepts, under the domestic law of the Member State taking the measure.

(c)    by service supplier of a Member State, through presence of natural persons of that Member State in the territory of another Member State in accordance with paragraph 7 below.
3.     Annexes L to O contain specific provisions and exemptions regarding the right to supply services. The Member States shall endeavour to eliminate gradually remaining discriminations, which they may maintain in accordance with Annexes L to O. The Member States agree to review the present provision, including its Annexes, within two years after the entry into force of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association of 21 June 2001 with a view to reducing, and ultimately eliminating, the remaining restrictions.
4.     From the date of entry into force of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association of 21 June 2001, neither Member State shall adopt new, or more, discriminatory measures as regards services or service suppliers of another Member State, in comparison with the treatment accorded to its own like services or service suppliers.
5.     In sectors covered by an exemption as contained in Annexes L to O, each Member State shall accord to services or service suppliers of another Member State treatment no less favourable than that accorded to like services or service suppliers of third parties other than the European Community. As regards any new agreements concluded between any Member State and the European Community, the Member States further undertake to extend to each other, on the basis of reciprocity, the benefits of such agreements, subject to a decision by the Council.
6.     The right to supply services in the field of road, rail and air transport shall be governed by the provisions of Article 35 and Annexes P and Q, subject to the specific provisions and exemptions set out in Annex M.
7.     The supply or consumption of services by natural persons as provided for in paragraphs 2(b) and (c) shall be governed by the relevant provisions of Article 20, Annex K and the Protocol to Annex K on movement of persons between Liechtenstein and Switzerland, in accordance with the principles set out hereinafter.

ARTICLE 30
National treatment

    Within the scope of application of this Chapter, and without prejudice to any special provisions contained herein:
(a)    Member States shall grant treatment no less favourable than that accorded to their own natural persons, companies or firms providing services;
(b)    each Member State may regulate services activities within its territory in so far as these regulations do not discriminate against natural persons, companies or firms of the other Member States in comparison to its own natural persons, companies or firms.

ARTICLE 31
Financial market regulation

1.     In respect of financial services, this Chapter does not prejudice the right of the Member States to adopt measures necessary for prudential grounds in order to ensure the protection of investors, depositors, policy holders, or persons to whom a fiduciary duty is owed, or to ensure the integrity and stability of the financial system. These measures shall not discriminate against natural persons, companies or firms of the other Member States in comparison to its own natural persons, companies or firms.
2.     Nothing in this Chapter shall be construed to require a Member State to disclose information relating to the affairs and accounts of individual customers or any confidential or proprietary information in the possession of public entities.

ARTICLE 32
Recognition

1.     The mutual recognition between the Member States of diplomas, certificates and other evidence of formal qualifications, and the coordination of the provisions laid down by law, regulation or administrative action in the Member States concerning the taking up and pursuit of activities by natural persons, shall be governed by the relevant provisions of Article 22, Annex K and Appendix 3 thereto and the Protocol to Annex K on movement of persons between Liechtenstein and Switzerland.
2.     A Member State may enter into an agreement or arrangement with a particular State providing for the recognition of standards, criteria for authorization, licensing or certification of service suppliers, in which case it shall offer adequate opportunity for any other Member State to negotiate its accession to such an agreement or arrangement or to negotiate comparable ones with it.
3.     Where a Member State accords recognition as provided for in paragraph 2 autonomously, it shall afford adequate opportunity for any other Member State to demonstrate that experience, licences or certifications obtained or requirements met in that other Member State's territory should be recognised.
4.     A Member State shall not accord recognition in a manner which would constitute a means of discrimination between countries in the application of its standards or criteria for the authorisation, licensing or certification of service suppliers, or a disguised restriction to trade in services.

ARTICLE 33
Exceptions

1.     The provisions of this Chapter shall not apply, so far as any given Member State is concerned, to activities which in that Member State are connected, even occasionally, with the exercise of official authority.
2.     The provisions of this Chapter and measures taken in pursuance thereof shall not prejudice the applicability of provisions laid down by law, regulation or administrative action providing for special treatment of foreign service suppliers on grounds of public policy, public security, public health or the environment.
3.     Subject to the requirement that such measures are not applied in a manner which would constitute a means of arbitrary or unjustifiable discrimination between States where like conditions prevail, or a disguised restriction on trade in services, nothing in this Convention shall be construed to prevent the adoption or enforcement by any Member State of measures:
(a)    inconsistent with Article 30, provided that the difference in treatment is aimed at ensuring the equitable or effective5 imposition or collection of direct taxes in respect of services or service suppliers of other Member States;



5 Measures that are aimed at ensuring the equitable or effective imposition or collection of direct taxes include measures taken by a Member under its taxation system which:
(i)    apply to non-resident service suppliers in recognition of the fact that the tax obligation of non-residents is determined with repsect to taxable items sourced or located in the Member State's territory; or

(ii)    apply to non-residents in order to ensure the imposition or collection of taxes in the Member State's territory; or

(iii)    apply to non-residents or residents in order to prevent the avoidance or evasion of taxes, including compliance measures; or

(iv)    apply to consumers of services supplied in or from the territory of another Member State in order to ensure the imposition or collection of taxes of such consumers derived from sources in the Member State's territory; or

(b)    inconsistent with paragraph 5 of Article 29, provided that the difference in treatment is the result of an agreement on the avoidance of double taxation or provisions on the avoidance of double taxation in any other international agreement or arrangement by which the Member State is bound.

ARTICLE 34
Public procurement

    Nothing in this Chapter shall be construed to impose any obligations with respect to public procurement.

ARTICLE 35
Transport

    The Member States shall liberalise the access to each other's transport markets for the carriage of passengers and goods by road, rail and air in accordance with the provisions set out in Annex P and Annex Q respectively.

CHAPTER XI : DUMPING
ARTICLE 36

    Anti-dumping measures, countervailing duties and measures against illicit commercial practices attributable to third countries shall not be applied in relations between the Member States.

CHAPTER XII : PUBLIC PROCUREMENT
ARTICLE 37

1.     The Member States reaffirm their rights and obligations under the WTO Agreement on Government Procurement (GPA). Under this Convention, the Member States broaden the scope of their commitments under the WTO Government Procurement Agreement with an aim to pursue liberalisation in public procurement markets in accordance with Annex R.




(v)    distinguish service suppliers subject to tax on worldwide taxable items from other service suppliers, in recognition of the difference in the nature of the tax base between them; or
(vi)    determine, allocate or apportion income, profit, gain, loss, deduction or credit of resident persons or branches, or between related persons or branches of the same person, in order to safeguard the Member State's tax base.
Tax terms or concepts in paragraph 3(a) of Article 27 and in this footnote are determined according to tax definitions and concepts, or equivalent or similar definitions and concepts, under the domestic law of the Member State taking the measure.

2.     To this effect, the Member States shall secure non-discriminative, transparent and reciprocal access to their respective public procurement markets and shall ensure open and effective competition based on equal treatment.

CHAPTER XIII : CURRENT PAYMENTS
ARTICLE 38

    Current payments connected with the movement of goods, persons, services or capital as defined in Article 28 between Member States within the framework of the provisions of this Convention shall be free of all restrictions.

CHAPTER XIV : EXCEPTIONS
AND SAFEGUARDS

ARTICLE 39
Security exceptions

    Nothing in this Convention shall prevent a Member State from taking any measures:
(a)    which it considers necessary to prevent the disclosure of information contrary to its essential security interests;
(b)    which relate to the production of, or trade in, arms, munitions and war materials or other products or services indispensable for defence purposes or to research, development or production indispensable for defence purposes, provided that such measures do not impair the conditions of competition in respect of products or services not intended for specifically military purposes;
(c)    which it considers essential to its own security in the event of serious internal disturbances affecting the maintenance of law and order, in time of war or serious international tension constituting threat of war or in order to carry out obligations it has accepted for the purpose of maintaining peace and international security.

Safeguard measures
ARTICLE 40

1.     If serious economic, societal or environmental difficulties of a sectorial or regional nature liable to persist are arising, a Member State may unilaterally take appropriate measures under the conditions and procedures set out in Article 41.


2.     Such safeguard measures shall be restricted with regard to their scope and duration to what is strictly necessary in order to remedy the situation. Priority shall be given to such measures as will least disturb the functioning of this Convention.
3.     The safeguard measures shall apply with regard to all Member States.
4.     This Article is without prejudice to the application of specific safeguard provisions set out in the Annexes to this Convention or of special safeguard measures in accordance with Article 5 of the WTO Agreement on Agriculture.

ARTICLE 41

1.     A Member State which is considering taking safeguard measures under Article 40, shall, without delay, notify the other Member States through the Council and shall provide all relevant information.
2.     The Member States shall immediately enter into consultations in the Council with a view to finding a commonly acceptable solution.
3.     The Member State concerned may not take safeguard measures until one month has elapsed after the date of notification under paragraph 1, unless the consultation procedure under paragraph 2 has been concluded before the expiration of the stated time limit. When exceptional circumstances requiring immediate action exclude prior examination, the Member State concerned may apply forthwith the protective measures strictly necessary to remedy the situation.
4.     The Member State concerned shall, without delay, notify the measures taken to the Council and shall provide all relevant information.
5.     The safeguard measures taken shall be the subject of consultations in the Council every three months from the date of their adoption with a view to their abolition before the date of expiry envisaged, or to the limitation of their scope of application.
    Each Member State may at any time request the Council to review such measures.


CHAPTER XV : ECONOMIC AND MONETARY POLICY CO-OPERATION
ARTICLE 42

    The Member States shall exchange views and information concerning the implementation of this Convention and the impact of the integration on economic activities and on the conduct of economic and monetary policies. Furthermore, they may discuss macro-economic situations, policies and prospects. This exchange of views and information shall take place on a non-binding basis.

CHAPTER XVI : INSTITUTIONAL PROVISIONS
ARTICLE 43
The Council

1.     It shall be the responsibility of the Council
(a)    to exercise such powers and functions as are conferred upon it by this Convention;
(b)    to decide on amendments to this Convention in accordance with the provisions herein;
(c)    to supervise the application of this Convention and keep its operation under review;
(d)    to consider whether further action should be taken by Member States in order to promote the attainment of the objectives of the Association;
(e)    to facilitate the establishment of closer links with other States and unions of States;
(f)    to seek to establish such relationships with other international organisations as may facilitate the attainment of the objectives of the Association;
(g)    to negotiate trade and co-operation agreements between the Member States and any other State, union of States or international organisation;
(h)    to endeavour to resolve disputes that may arise regarding the interpretation or application of this Convention; and
(i)    to consider any other matter that may affect the operation of this Convention.
2.     Each Member State shall be represented in the Council and shall have one vote.
3.     The Council may decide to set up such organs, committees and other bodies, as it considers necessary to assist it in accomplishing its tasks. These organs, committees and other bodies are listed in Annex S.
4.     In exercising its responsibility under this Article, the Council may take decisions, which shall be binding on all Member States, and may make recommendations to Member States.
5.     Decisions and recommendations of the Council shall be made by unanimous vote, except in so far as this Convention provides otherwise. Decisions or recommendations shall be regarded as unanimous unless any Member State casts a negative vote. Decisions and recommendations which are to be made by majority vote, require the affirmative vote of three Member States.
6.     If the number of the Member States changes, the Council may decide to amend the number of votes required for decisions and recommendations which are to be made by majority vote.

ARTICLE 44
Administrative arrangements of the Association

    The Council shall take decisions for the following purposes:
(a)    to lay down the Rules of Procedure of the Council and of any other bodies of the Association, which may include provision that procedural questions may be decided by majority vote;
(b)    to make arrangements for the secretariat services required by the Association;
(c)    to establish the financial arrangements necessary for the administrative expenses of the Association, the procedure for establishing a budget and the apportionment of those expenses between the Member States.

ARTICLE 45
Legal capacity, privileges and immunities

1.     The legal capacity, privileges and immunities to be recognised and granted by the Member States in connection with the Association shall be laid down in a Protocol to this Convention.
2.     The Council, acting on behalf of the Association, may conclude with the Government of the State in whose territory the headquarters will be situated an agreement relating to the legal capacity and the privileges and immunities to be recognised and granted in connection with the Association.

CHAPTER XVII : CONSULTATIONS AND DISPUTE SETTLEMENT
ARTICLE 46
Scope

    The provisions of this Chapter shall apply to any matter arising from this Convention, unless otherwise specified in this Convention.

ARTICLE 47
Consultations

1.     The Member States shall at all times endeavour to agree on the interpretation and application of this Convention, and shall make every attempt through cooperation and consultations to arrive at a mutually satisfactory resolution of any matter that might affect its operation.
2.     Any Member State may bring any matter, which concerns the interpretation or application of this Convention before the Council. The Council shall be provided with all information, which might be of use in making possible an in-depth examination of the situation, with a view to finding an acceptable solution. To this end, the Council shall examine all possibilities to maintain the good functioning of the Convention.
3.     A meeting of the Council shall be held within 30 days from the receipt of the request for consultations.

ARTICLE 48
Arbitration

1.     In case a Member State considers that a measure applied by another Member State violates the Convention and the matter has not been resolved within 45 days after consultations have been held pursuant to Article 47, such matter may be referred to arbitration by one or more Member States parties to the dispute by means of a written notification addressed to the Member State complained against. A copy of this notification shall be communicated to all Member States so that each may determine whether it has a substantial interest in the matter. Where more than one Member State requests the submission to an arbitration tribunal of a dispute with the same Member State relating to the same question a single arbitration tribunal should be established to consider such disputes whenever feasible.
2.     A Member State which is not a party to the dispute, on delivery of a written notice to the disputing Member States, shall be entitled to make written submissions to the arbitration tribunal, receive written submissions of the disputing Member States, attend all hearings and make oral submissions.
3.     The award of the arbitration tribunal shall be final and binding upon the Member States parties to the dispute and shall be complied with promptly.
4.     The establishment and functioning of the arbitration tribunal and the implementation of arbitral awards are governed by the rules set out in Annex T.

CHAPTER XVIII : GENERAL PROVISIONS
ARTICLE 49
Obligations under other international agreements


1.     Nothing in this Convention shall be regarded as exempting any Member State from obligations which it has undertaken by virtue of agreements with third States or multilateral agreements to which they are parties.
2.     This Convention shall be without prejudice to the rules applicable to Member States governed by the Agreement on the European Economic Area, the Nordic cooperation and the regional union between Switzerland and Liechtenstein

ARTICLE 50
Rights and obligations of the Member States

    The Member States shall take all appropriate measures, whether general or particular, to ensure fulfilment of the obligations arising out of this Convention. They shall abstain from any measure which could jeopardize the attainment of the objectives of this Convention.

ARTICLE 51
Transparency

1.     The Member States shall publish their laws, or otherwise make publicly available their laws, regulations, procedures and administrative rulings and judicial decisions of general application as well as the international agreements which may affect the operation of this Convention.
2.     The Member States shall promptly respond to specific questions and provide, upon request, information to each other on matters referred to in paragraph 1.

ARTICLE 52
Confidentiality

    The representatives, delegates and experts of the Member States, as well as officials and other servants acting under this Convention shall be required, even after their duties have ceased, not to disclose information of the kind covered by the obligation of professional secrecy, in particular information about undertakings, their business relations or their cost components.

ARTICLE 53
Annexes

1.     The Annexes, Appendices and Protocols to this Convention shall form an integral part of it.
2.     The Annexes to this Convention are the following:
    Annex A        on Rules of Origin
    Annex B        on mutual administrative assistance in customs matters
    Annex C        List of agricultural goods and goods processed from agricultural raw materials referred to in paragraph 1 of Article 8
    Annex D        List of tariff concessions to agricultural products
    Annex E        Seeds
    Annex F        Organic agriculture
    Annex G        Sanitary and phytosanitary measures

    Annex H        Procedure for the provision of information in the field of technical regulations and of rules on Information Society services
    Annex I        Mutual recognition in relation to conformity assessment
    Annex J        Intellectual property rights
    Annex K        Movement of persons
    Annex L        Reservations by Iceland on investment and services
    Annex M        Reservations by Liechtenstein on investment and services
    Annex N        Reservations by Norway on investment and services
    Annex O        Reservations by Switzerland on investment and services
    Annex P        Land transport
    Annex Q        Air transport
    Annex R        Public procurement
    Annex S        Organs, committees and other bodies set up by the Council
    Annex T        Arbitration.
    Annex U        List of territories to which Article 58 applies.
    The Council may decide to amend the provisions to this paragraph.
3.     The Council may decide to amend Annexes A, C, H, S and T, as well as the Appendices to Annexes E, F, K, P, Q and R, unless otherwise provided in the Annexes.
4.     The Committee established under Annex I may decide to amend Article 4 of that Annex as well as Appendices 1 and 2 thereto. It shall inform the Council of its decision-making.

ARTICLE 54
Ratification

1.     This Convention shall be ratified by the signatory States. The instruments of ratification shall be deposited with the Government of Sweden, which shall notify all other signatory States.
2.     The Government of Norway shall act as Depositary as of 17 November 1995.
3.     The Council may decide to amend the provisions of this Article.

ARTICLE 55
Entry into force

    This Convention shall enter into force on the deposit of instruments of ratification by all signatory States.

ARTICLE 56
Accession and association

1.     Any State may accede to this Convention, provided that the Council decides to approve its accession, on such terms and conditions as may be set out in that decision. The instrument of accession shall be deposited with the Depositary, which shall notify all other Member States. This Convention shall enter into force in relation to an acceding State on the date indicated in that decision.
2.     The Council may negotiate an agreement between the Member States and any other State, union of States or international organisation, creating an association embodying such reciprocal rights and obligations, common actions and special procedures as may be appropriate. Such an agreement shall be submitted to the Member States for acceptance and shall enter into force provided that it is accepted by all Member States. Instruments of acceptance shall be deposited with the Depositary, which shall notify all other Member States.
3.     Any State acceding to this Convention shall apply to become a party to the free trade agreements between the Member States on the one hand and third states, unions of states or international organisations on the other.

ARTICLE 57
Withdrawal

1.     Any Member State may withdraw from this Convention provided that it gives twelve months' notice in writing to the Depositary, which shall notify all other Member States.
2.     Before the withdrawal takes effect, the Member States shall agree on appropriate arrangements and equitable cost-sharing relating to the withdrawal.


ARTICLE 58
Territorial application

    This Convention shall apply to the territories of the Member States except as provided for in Annex U.

ARTICLE 59
Amendment

    Except as otherwise provided for in this Convention, an amendment to the provisions of this Convention shall be subject to a decision of the Council which shall be submitted to the Member States for acceptance in accordance with their internal legal requirements. It shall enter into force, unless otherwise provided, on the first day of the second month following the deposit of the instruments of acceptance by all Member States with the Depositary, which shall notify all other Member States.

    IN WITNESS WHEREOF the undersigned, duly authorised thereto, have signed the present Convention.

    DONE at Stockholm this 4th day of January, 1960, in a single copy in the English and French languages, both texts being equally authentic, which shall be deposited with the Government of Sweden, by which certified copies shall be transmitted to all other signatory and acceding States.

    AMENDED at Vaduz this 21st day of June, 2001, in a single authentic copy in the English language, which shall be deposited with the Government of Norway.

VIÐAUKI A

um upprunareglur



EFNISYFIRLIT


I. BÁLKUR    ALMENN ÁKVÆÐI
    1. gr         Skilgreiningar

II. BÁLKUR    SKILGREINING HUGTAKSINS „UPPRUNAVÖRUR"“

    2. gr.         Almennar kröfur
    3. gr.         (Í þessum viðauka er engin 3. gr.)

    4. gr.         Uppsöfnun uppruna í aðildarríki

    5. gr.         Að öllu leyti heimafengnar vörur
    6. gr.         Framleiðsluvörur sem hlotið hafa nægilega aðvinnslu
    7. gr.         Ófullnægjandi aðvinnsla

    8. gr.        Skilgreiningareining
    9. gr.        Fylgihlutir, varahlutir og verkfæri
    10. gr.    Samstæður
    11. gr.    Atriði sem hafa ekki áhrif

III. BÁLKUR    SKILYRÐI VARÐANDI YFIRRÁÐASVÆÐI
    12. gr.    Meginregla um yfirráðasvæði
    13. gr.    Beinn flutningur
    14. gr.    Sýningar

IV. BÁLKUR    ENDURGREIÐSLA EÐA UNDANÞÁGA
    15. gr.    Bann við endurgreiðslu á eða undanþágu frá tollum

V. BÁLKUR    SÖNNUN Á UPPRUNA
    16. gr.     Almennar kröfur
    17. gr.    Reglur um útgáfu EUR.1-flutningsskírteinis
    18. gr.    EUR.1-flutningsskírteini gefin út eftir á
    19. gr.    Útgáfa á eftirriti af EUR.1-flutningsskírteininu
    20. gr.    Útgáfa EUR.1-flutningsskírteinis á grundvelli sönnunar á uppruna sem gefin var út áður
    20. gr. a    Bókhaldsleg aðgreining
    21. gr.    Skilyrði fyrir því að gefa út yfirlýsingu á vörureikningi
    22. gr.    Viðurkenndur útflytjandi
    23. gr.    Gildistími sönnunar á uppruna
    24. gr.    Sönnun á uppruna lögð fram
    25. gr.    Innflutningur í áföngum
    26. gr.    Undanþágur frá sönnunum á uppruna
    27. gr.    Fylgiskjöl
    28. gr.    Varðveisla sönnunar á uppruna og fylgiskjala
    29. gr.    Ósamræmi og villur í framsetningu
    30. gr.    Fjárhæðir gefnar upp í evrum

VI. BÁLKUR    FYRIRKOMULAG Á SAMVINNU STJÓRNVALDA
    31. gr.    Gagnkvæm aðstoð
    32. gr.    Sannprófun vegna sönnunar á uppruna
    33. gr.    Lausn deilumála
    34. gr.    Viðurlög
    35. gr.    Tollfrjáls svæði

I. BÁLKUR
ALMENN ÁKVÆÐI

1. gr.
Skilgreiningar

    Að því er þennan viðauka varðar merkir:
a)    „framleiðsla“: hvers konar aðvinnslu, þar með er talin samsetning eða sérvinnsla;

b)    „efni“: hvers konar efnisþátt, hráefni, íhluta eða hluta o.s.frv. sem notað er við framleiðslu vörunnar;
c)    „framleiðsluvara“: vöru sem er framleidd, jafnvel þótt fyrirhugað sé að nota hana í annars konar framleiðslu síðar;
d)    „vara“: bæði efni og framleiðsluvörur;
e)    „tollverð“: verð sem ákveðið er í samræmi við samninginn frá 1994 um framkvæmd VII. gr. Hins almenna samnings um tolla og viðskipti (samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um tollverðsákvörðun);
f)    „verksmiðjuverð“: verð sem framleiðanda í aðildarríkjunum er greitt fyrir framleiðsluvöruna frá verksmiðju hafi lokaaðvinnslan farið fram í fyrirtæki hans, að því tilskildu að í verðinu sé innifalið verðmæti alls efnis sem notað er, að frádregnum innlendum sköttum sem hafa verið endurgreiddir eða endurgreiða má þegar varan sem er heimafengin er flutt út;
g)    „verðmæti efnis“: tollverð við innflutning á efni sem notað hefur verið og er ekki upprunaefni eða, ef það er ekki þekkt og ekki verður sýnt fram á hvert það er, fyrsta verð sem sýnt er fram á að greitt hafi verið fyrir efnið í hlutaðeigandi aðildarríki;
h)    „verðmæti upprunaefna“: verðmæti slíkra efna eins og skilgreint er í g-lið að breyttu breytanda;

i)    „virðisauki“: verksmiðjuverð að frádregnu tollverði hvers efnis sem notað er og upprunnið er í landi sem um getur í 4. gr. eða, ef tollverð er ekki þekkt eða ekki verður sýnt fram á hvert það er, fyrsta verð sem sýna má fram á að greitt hafi verið fyrir slíkt efni í hlutaðeigandi aðildarríki;

j)    „kaflar“ og „vöruliðir“: kaflar og vöruliðir (fjögurra tölustafa tákn) í nafnaskránni sem myndar samræmdu vörulýsingar- og vörunúmeraskrána, sem í þessum viðauka er vísað til sem „samræmdu tollskrárinnar“ eða „ST“;

k)    „flokkað“: flokkun framleiðsluvara eða efna undir tilteknum vörulið;
l)    „vörusending“: framleiðsluvörur sem eru annaðhvort sendar samtímis frá einum útflytjanda til eins viðtakanda, eða vörur sem hafðar eru á sama flutningsskjali vegna flutnings frá útflytjanda til viðtakanda eða á sama vörureikningi ef flutningsskjal er ekki fyrir hendi;
m)    „yfirráðasvæði“: einnig landhelgi;
n)    „evra“: hinn sameiginlegi gjaldmiðill Myntbandalags Evrópu.

II. BÁLKUR
SKILGREINING HUGTAKSINS „UPPRUNAVÖRUR“

2. gr.
Almennar kröfur

1.     Við framkvæmd þessa samnings skulu eftirfarandi framleiðsluvörur taldar upprunnar á Íslandi eða í Noregi:
a)    framleiðsluvörur að öllu leyti fengnar á Íslandi eða í Noregi í skilningi 5. gr. þessa viðauka;
b)    framleiðsluvörur fengnar á Íslandi eða í Noregi, sem í eru notuð efni sem eru ekki að öllu leyti fengin þar, að því tilskildu:
    i)        að slík efni hafi hlotið nægilega aðvinnslu á Íslandi eða í Noregi í skilningi 6. gr. þessa viðauka; eða

    ii)    að slík efni séu upprunnin á Íslandi, í Noregi eða Sviss í skilningi þessa viðauka;

c)    vörur sem eru upprunnar á Evrópska efnahagssvæðinu (EES), í skilningi bókunar 4 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
2.     Við framkvæmd þessa samnings skulu eftirfarandi framleiðsluvörur taldar upprunnar í Sviss:

a)    framleiðsluvörur að öllu leyti fengnar í Sviss í skilningi 5. gr. þessa viðauka;
b)    framleiðsluvörur fengnar í Sviss, sem í eru notuð efni sem eru ekki að öllu leyti fengin þar, að því tilskildu:
    i)        að slík efni hafi hlotið nægilega aðvinnslu í Sviss í skilningi 6. gr. þessa viðauka; eða


    ii)    að slík efni séu upprunnin á Íslandi eða í Noregi í skilningi þessa viðauka.
3.     Framleiðsluvörur, sem eru upprunnar í aðildarríki og fluttar frá einu aðildarríki til annars í óbreyttu ástandi eða hafa ekki fengið aðvinnslu í útflutningsríkinu umfram það sem um getur í 7. gr. þessa viðauka, skulu halda uppruna sínum þrátt fyrir ákvæði ii-liðar í b-lið 1. mgr. og ii-liðar í b-lið 2. mgr.

4.     Við framkvæmd 3. mgr. teljast framleiðsluvörur, sem eru notaðar og upprunnar í tveimur eða fleiri aðildarríkjum og hafa ekki fengið aðvinnslu í útflutningsríkinu umfram það sem um getur í 7. gr. þessa viðauka, upprunnar í því aðildarríki þar sem verðmæti upprunaefna, sem notuð eru, er mest.



3. gr.
(Í þessum viðauka er engin 3. gr.)


4. gr.
Uppsöfnun uppruna í aðildarríki

1.     Með fyrirvara um 1. og 2. mgr. 2. gr. skulu framleiðsluvörur teljast upprunnar í aðildarríki ef þær eru fengnar þar og hafa að geyma efni sem eru upprunnin í Póllandi, Ungverjalandi, Lýðveldinu Tékklandi, Lýðveldinu Slóvakíu, Búlgaríu, Rúmeníu, Lettlandi, Litháen, Eistlandi, Slóveníu, Tyrklandi eða Evrópubandalaginu í samræmi við ákvæði bókunarinnar um upprunareglur, sem fylgir samningum sem gerðir hafa verið milli aðildarríkjanna og annaðhvort Evrópubandalagsins eða hvers þessara landa, enda hafi efnin fengið aðvinnslu í hlutaðeigandi aðildarríki umfram það sem um getur í 7. gr. þessa viðauka. Efnin þurfa ekki að hafa fengið nægilega aðvinnslu.


2.     Ef aðvinnsla í aðildarríki er ekki umfram þá meðferð sem um getur í 7. gr. telst heimafengna framleiðsluvaran vera upprunavara í hlutaðeigandi aðildarríki því aðeins að virðisaukinn þar sé meiri en virðisauki sérhvers efnis, sem er notað í vöruna og upprunnið annaðhvort í Evrópubandalaginu eða í einu þeirra landa sem um getur í 1. mgr. Sé sú ekki raunin telst viðkomandi framleiðsluvara vera upprunnin annaðhvort í Evrópubandalaginu eða í landinu þar sem verðmæti upprunaefna, sem notuð eru við aðvinnslu í hlutaðeigandi aðildarríki, er mest.


3.     Framleiðsluvörur, sem eru upprunnar annaðhvort í Evrópubandalaginu eða í einu þeirra landa sem um getur í 1. mgr. og hafa ekki fengið meðferð í hlutaðeigandi aðildarríki, skulu halda upprunaréttindum sínum þegar þær eru fluttar annaðhvort til Evrópubandalagsins eða eins þessara ríkja.
4.     Því aðeins er heimilt að beita uppsöfnun, sem kveðið er á um í þessar grein, að efnin eða vörurnar sem eru notaðar í framleiðsluvöruna hafi öðlast upprunaréttindi á grundvelli beitingar upprunareglna sem samsvara þeim upprunareglum sem tíundaðar eru í þessum viðauka.

5. gr.
Að öllu leyti heimafengnar vörur

1.     Eftirfarandi skal talið að öllu leyti fengið í aðildarríki (heimafengið):
a)     jarðefni unnin úr jörðu eða úr hafsbotni þar;

b)     vörur úr jurtaríkinu sem þar eru ræktaðar;
c)     lifandi dýr sem þar eru borin og alin;
d)     afurðir lifandi dýra sem þar eru alin;
e)     veiðibráð og fiskafurðir sem aflað er þar með veiðum;
f)     sjávarafurðir og aðrar afurðir sem teknar eru úr sjó utan landhelgi aðildarríkjanna af skipum þeirra;
g)     vörur framleiddar um borð í verksmiðjuskipum þeirra, eingöngu úr afurðum sem um getur í f-lið;

h)     notaðar vörur sem þar er safnað og eingöngu er unnt að nota til að vinna hráefni úr, þar á meðal notaðir hjólbarðar sem nýtast eingöngu til sólunar eða sem úrgangur;
i)     úrgangur og rusl sem til fellur vegna framleiðslustarfsemi þar;
j)     vörur unnar úr yfirborðslögum eða undirlögum hafsbotnsins utan landhelgi þeirra, að því tilskildu að þeir hafi einkarétt á að nýta þessi lög;
k)     vörur sem þar eru framleiddar eingöngu úr þeim framleiðsluvörum sem tilgreindar eru í a- til j-lið.
2.     Orðin „skip þeirra“ og „verksmiðjuskip þeirra“ í f- og g-lið 1. mgr. eiga aðeins við um skip og verksmiðjuskip:
a)    sem eru skráð eða skrásett í aðildarríki;

b)    sem sigla undir fána aðildarríkis;
c)    sem eru að minnsta kosti 50 af hundraði í eigu ríkisborgara aðildarríkis, eða í eigu fyrirtækis sem hefur aðalstöðvar í einu þessara ríkja enda séu framkvæmdastjóri eða framkvæmdastjórar þess, stjórnarformaður eða formaður umsjónarnefndar og meirihluti stjórnarnefndarmanna eða umsjónarnefndarmanna ríkisborgarar aðildarríkis; auk þess sé að minnsta kosti helmingur höfuðstóls í eigu þessara ríkja eða opinberra stofnana eða ríkisborgara þessara ríkja, ef um er að ræða sameignarfélög eða hlutafélög;
d)    þar sem skipstjóri og yfirmenn eru ríkisborgarar aðildarríkis; og
e)    þegar að minnsta kosti 75 af hundraði áhafnarinnar eru ríkisborgarar aðildarríkis.

6. gr.
Framleiðsluvörur sem hlotið hafa nægilega aðvinnslu

1.     Að því er varðar 2. gr. skulu framleiðsluvörur sem eru ekki að öllu leyti heimafengnar teljast hafa hlotið nægilega aðvinnslu hafi skilyrðum í skránni í II. viðbæti verið fullnægt.
    Skilyrði þessi eiga við um aðvinnslu efna sem eru ekki upprunaefni og eru notuð við framleiðslu þeirra vara sem samningur þessi tekur til, og gilda þau einungis um slík efni. Af þeim sökum skal framleiðsluvara, sem telst upprunavara vegna þess að skilyrðum sem sett eru í skránni er fullnægt og er notuð við framleiðslu annarrar vöru, ekki þurfa að fullnægja skilyrðum sem gilda um framleiðsluvöruna sem hún er sett saman við og skal ekki taka tillit til efna sem eru notuð við framleiðslu hennar og eru ekki upprunaefni.

2.     Þrátt fyrir 1. mgr. skulu efni, sem ekki teljast upprunaefni, því aðeins notuð við framleiðslu vöru samkvæmt þeim skilyrðum, sem sett eru í skránni, að:
a)    heildarverðmæti þeirra sé ekki meira en 10 af hundraði af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar;
b)    við beitingu þessarar málsgreinar sé ekki farið yfir neina af þeim hundraðshlutatölum sem eru tilgreindar í skránni sem hámarksverðmæti efna sem eru ekki upprunaefni.
    Þessi málsgrein gildir ekki um framleiðsluvörur sem teljast til 50.–63. kafla í samræmdu tollskránni.
3.     Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda nema að því leyti sem kveðið er á um í 7. gr.

7. gr.
Ófullnægjandi aðvinnsla

1.     Með fyrirvara um 2. mgr. teljast eftirfarandi aðgerðir ófullnægjandi aðvinnsla sem ekki veitir upprunaréttindi óháð því hvort kröfum 6. gr. hefur verið fullnægt:

a)    aðgerðir til að tryggja að framleiðsluvörur haldist óskemmdar meðan á flutningi og geymslu stendur;
b)    uppskipting og sameining umbúða;
c)    þvottur, hreinsun, þar með talið að hreinsa burt ryk, oxíð, olíu, málningu eða annað sem myndar hjúp á vörunni;
d)    straujun og pressun textílefna;
e)    einfaldar aðgerðar til að mála og fægja;
f)    afhýðing, bleiking, að hluta eða að öllu leyti, fæging og gljáhúðun korns og hrísgrjóna;
g)    aðgerðir til að lita sykur eða búa til sykurmola;
h)    afhýða, taka steina úr og taka skurn af ávöxtum, hnetum og grænmeti;
i)    skerping, einföld slípun eða einfaldur skurður;
j)    sigta, sálda, sundurgreina, flokka, velja saman (þar á meðal að útbúa hluti í samstæður);

k)    einföld setning á flöskur, í dósir, glös, poka, kassa, öskjur, á spjöld eða töflur og allar aðrar einfaldar pökkunaraðgerðir;
l)    festing eða prentun merkja, kennimerkja, miða eða annarra slíkra auðkenna á framleiðsluvörur eða umbúðir þeirra;
m)    einföld blöndun framleiðsluvara, hvort sem um er að ræða ólíkar vörur eða ekki;
n)    einföld samsetning vöruhluta þannig að úr verði fullgerð framleiðsluvara eða sundurhlutun framleiðsluvara í vöruhluta;
o)    sameining tveggja eða fleiri aðgerða sem tilgreindar eru í a- til n-lið;
p)    slátrun dýra.
2.     Litið skal á allar aðgerðir, sem fara fram í einu aðildarríkjanna á tiltekinni framleiðsluvöru, sem eina heild þegar ákvarðað er hvort aðvinnsla hennar teljist ófullnægjandi í skilningi 1. mgr.



8. gr.
Skilgreiningareining

1.     Skilgreiningareining vegna beitingar ákvæða þessa viðauka er sú framleiðsluvara sem telst grunneining við flokkun samkvæmt nafnaskrá samræmdu tollskrárinnar.

    Af þessu leiðir að:
a)    þegar framleiðsluvara er sett saman úr mörgum hlutum og flokkuð í einn og sama vörulið samkvæmt skilmálum samræmdu tollskrárinnar telst heildin vera ein skilgreiningareining;
b)    þegar í vörusendingu eru margar sams konar framleiðsluvörur, sem flokkaðar eru í sama vörulið samræmdu tollskrárinnar, skal hver einstök framleiðsluvara tekin fyrir þegar ákvæðum þessa viðauka er beitt.
2.     Þegar umbúðir eru, samkvæmt 5. almennu reglu samræmdu tollskrárinnar, taldar hluti framleiðsluvöru við flokkun skal telja þær með við ákvörðun uppruna.

9. gr.
Fylgihlutir, varahlutir og verkfæri

    Fylgihluti, varahluti og verkfæri, sem send eru með búnaði, vél, tæki eða ökutæki og teljast eðlilegur búnaður og eru innifalin í verðinu eða eru ekki á sérstökum vörureikningi, skal skoða sem hluta af viðkomandi búnaði, vél, tæki eða ökutæki.



10. gr.
Samstæður

    Samstæður, sem skilgreindar eru í 3. almennu reglu samræmdu tollskrárinnar, skulu skoðast sem upprunavörur þegar allir vöruíhlutarnir eru upprunavörur. Þó skal samstæða, sem er samsett bæði af upprunavörum og vörum sem eru ekki upprunavörur, teljast í heild upprunavara, að því tilskildu að verðmæti þeirra vara sem eru ekki upprunavörur, sé ekki meira en 15 af hundraði af verksmiðjuverði samstæðunnar.

11. gr.
Atriði sem hafa ekki áhrif

    Þegar ákvarða þarf hvort framleiðsluvara sé upprunavara er ekki nauðsynlegt að ákvarða uppruna eftirfarandi, þótt notað hafi verið við framleiðslu vörunnar:
a)    orku og eldsneytis;
b)    verksmiðju og búnaðar;
c)    véla og verkfæra;
d)    vara sem ekki mynda og ekki var ætlað að mynda efnisþátt í framleiðsluvörunni fullgerðri.


III. BÁLKUR
SKILYRÐI VARÐANDI YFIRRÁÐASVÆÐI

12. gr.
Meginregla um yfirráðasvæði

1.     Ef ekki er kveðið á um annað í 4. gr. og 3. mgr. þessarar greinar verður að fullnægja skilyrðum í II. bálki, um öflun upprunaréttinda á yfirráðasvæði eins aðildarríkis, óslitið.

2.     Ef ekki er kveðið á um annað í 4. gr. skal ekki litið á vörur, sem fluttar eru út frá aðildarríki til lands annars en aðildarríkis og síðan fluttar inn aftur, sem upprunavörur nema hægt sé að sýna fram á það með fullnægjandi hætti að mati tollyfirvalda að:

a)    vörurnar sem eru fluttar inn aftur séu þær sömu og voru fluttar út; og
b)    ekki hafi verið gerð á þeim nein aðgerð umfram það sem nauðsynlegt er til að varðveita gæði þeirra í því landi eða á meðan á útflutningi stóð.
3.     Aðvinnsla utan yfirráðasvæðis hlutaðeigandi aðildarríkis á efnum, sem eru flutt út frá því aðildarríki og flutt inn aftur, hefur ekki áhrif á öflun upprunaréttinda í samræmi við skilyrði II. bálks, að því tilskildu að:

a)    efnin séu fengin að öllu leyti í aðildarríki eða hafi fengið aðvinnslu umfram þær ófullnægjandi aðgerðir sem getið er í 7. gr. áður en þau voru flutt út; og

b)    hægt sé að sýna fram á það með fullnægjandi hætti að mati tollyfirvalda að:
    i)        endurinnfluttu vörurnar hafi fengist með aðvinnslu útfluttu efnanna; og
    ii)    heildarvirðisauki, sem fæst utan hlutaðeigandi aðildarríkis með beitingu ákvæða þessarar greinar, nemi ekki meira en 10 hundraðshlutum af verksmiðjuverði fullunninnar framleiðsluvöru sem krafist er upprunaréttinda fyrir.
4.     Að því er 3. mgr. varðar skulu skilyrði um öflun upprunaréttinda, sem mælt er fyrir um í II. bálki, ekki eiga við um aðvinnslu utan hlutaðeigandi aðildarríkis. Ef reglu í skrá II. viðbætis um hámarksverðmæti fyrir öll efni, sem eru notuð en eru ekki upprunaefni, er beitt til að ákvarða uppruna fullunninnar framleiðsluvöru skal heildarverðmæti efna, sem eru notuð í hlutaðeigandi aðildarríki en eru ekki upprunaefni, ásamt heildarverðmæti, sem fæst utan þess aðildarríkis með beitingu ákvæða þessarar greinar, ekki vera hærra en uppgefinn hundraðshluti.


5.     Að því er varðar beitingu ákvæða 3. og 4. mgr. merkir „heildarvirðisauki“ allan kostnað sem til fellur utan hlutaðeigandi aðildarríkis, að meðtöldu verðmæti efna sem eru sett saman við þar.
6.     Ákvæði 3. og 4. mgr. gilda ekki um framleiðsluvörur sem fullnægja ekki skilyrðum í skrá II. viðbætis og teljast einungis hafa fengið nægilega aðvinnslu ef hinum almennu frávikum í 2. mgr. 6. gr. er beitt.

7.     Ákvæði 3. og 4. mgr. gilda ekki um framleiðsluvörur sem teljast til 50.–63. kafla í samræmdu tollskránni.
8.     Hvers konar aðvinnsla utan aðildarríkis, sem fellur undir ákvæði þessarar greinar, skal fara fram á grundvelli fyrirkomulags um vinnslu á öðrum stað eða sambærilegs fyrirkomulags.


13. gr.
Beinn flutningur

1.     Sú fríðindameðferð sem kveðið er á um í þessum samningi gildir einungis um framleiðsluvörur sem fullnægja þeim kröfum sem settar eru fram í þessum viðauka og eru fluttar beint milli aðildarríkjanna eða um yfirráðasvæði hinna landanna eða Evrópubandalagsins eins og um getur í 4. gr. Hins vegar má flytja framleiðsluvörur í einni vörusendingu um önnur yfirráðasvæði vegna umfermingar eða bráðabirgðageymslu á þeim yfirráðasvæðum, ef tilefni er til, að því tilskildu að vörurnar séu undir eftirliti tollyfirvalda í landinu þar sem umfermingin eða geymslan á sér stað og hljóti ekki aðra meðferð en affermingu, endurfermingu eða meðferð sem miðar að því að forða þeim frá skemmdum.

    Heimilt er að flytja framleiðsluvörur sem eru upprunavörur um leiðslukerfi yfir önnur yfirráðasvæði en yfirráðasvæði aðildarríkis.
2.     Sannanir um að skilyrðunum, sem um getur í 1. mgr., hafi verið fullnægt skulu lagðar fram hjá tollyfirvöldum í innflutningslandinu með:

a)    einu farmskírteini sem gildir um flutninginn frá útflutningslandinu um umflutningslandið; eða

b)    skírteini, sem tollyfirvöld umflutningslandsins gefa út, þar sem fram kemur:
    i)        nákvæm lýsing á framleiðsluvörunni;
    ii)    dagsetningar affermingar og endurfermingar og, þar sem við á, heiti hlutaðeigandi skipa eða annar flutningsmáti; og

    iii)    við hvaða aðstæður framleiðsluvaran var geymd í umflutningslandinu; eða
c)    að öðrum kosti, hvers konar skjöl sem færa sönnur á þetta.

14. gr.
Sýningar

1.     Upprunavörur sem sendar eru frá aðildarríkjunum á vörusýningu utan aðildarríkjanna, landanna eða Evrópubandalagsins eins og um getur í 4. gr. og seldar eftir sýninguna til innflutnings í öðru aðildarríki skulu við innflutninginn njóta góðs af ákvæðum þessa samnings að því tilskildu að sýnt sé fram á það með fullnægjandi hætti að mati tollyfirvalda að:

a)    útflytjandinn hafi sent þessar framleiðsluvörur frá aðildarríki til landsins þar sem sýningin er haldin og sýnt þær þar;
b)    sá útflytjandi hafi selt framleiðsluvörurnar eða ráðstafað þeim með öðrum hætti til viðtakanda í öðru aðildarríki;
c)    framleiðsluvörurnar hafi verið sendar á meðan á sýningunni stóð eða strax eftir hana í því ástandi sem þær voru þegar þær voru sendar til sýningar; og
d)    framleiðsluvörurnar hafi ekki, frá því að þær voru sendar til sýningar, verið notaðar í öðru skyni en til sýningar á sýningunni.
2.     Sönnun á uppruna skal gefin út eða útbúin í samræmi við ákvæði V. bálks og lögð fram með venjulegum hætti hjá tollyfirvöldum í innflutningslandinu. Þar skal tilgreint nafn sýningarinnar og sýningarstaður. Ef nauðsyn ber til má krefjast skjalfestra viðbótarsönnunargagna um við hvaða aðstæður þær eru sýndar.

3.     Ákvæði 1. mgr. skulu taka til allra vöru-, iðn-, landbúnaðar- eða handverkssýninga, kaupstefna eða áþekkra opinberra sýninga sem eru ekki skipulagðar í eiginhagsmunaskyni í sölubúðum eða verslunarhúsnæði með það fyrir augum að selja erlendar framleiðsluvörur, enda séu þær undir tolleftirliti meðan á sýningu stendur.

IV. BÁLKUR
ENDURGREIÐSLA EÐA UNDANÞÁGA

15. gr.
Bann við endurgreiðslu á eða undanþágu
frá tollum

1.     Efni sem teljast ekki vera upprunaefni en eru notuð við framleiðslu á vörum, sem eru upprunnar í aðildarríki, eða einu hinna landanna eða Evrópubandalaginu eins og um getur í 4. gr. og gefin hefur verið út eða útbúin sönnun á uppruna fyrir í samræmi við ákvæði V. bálks, skulu ekki njóta endurgreiðslu á eða undanþágu frá neins konar tollum í aðildarríkjunum.
2.     Bannið í 1. mgr. gildir um hvers konar fyrirkomulag varðandi endurgreiðslur, eftirgjöf eða niðurfellingu á greiðslum, að fullu eða að hluta, á tollum eða gjöldum sem hafa samsvarandi áhrif sem beitt er hjá aðildarríkjunum vegna efna sem notuð eru við framleiðslu, ef slíkum endurgreiðslum, eftirgjöf eða niðurfellingu á greiðslum er beitt, beint eða í reynd, þegar framleiðsluvaran sem unnin er úr áðurnefndum efnum er flutt út en ekki þegar hún er til notkunar innanlands.
3.     Útflytjandi framleiðsluvöru, sem sönnun á uppruna tekur til, skal vera reiðubúinn að leggja fram, hvenær sem er, að beiðni tollyfirvalda, öll tilheyrandi skjöl því til staðfestingar að ekki hafi verið um endurgreiðslu að ræða fyrir þau efni sem eru ekki upprunaefni og notuð voru við framleiðslu á viðkomandi vöru og að allir tollar, eða gjöld sem hafa samsvarandi áhrif, sem falla á slíkt efni hafi verið greidd.
4.     Ákvæði 1.–3. mgr. gilda einnig um umbúðir í skilningi 2. mgr. 8. gr., fylgihluti, varahluti og verkfæri í skilningi 9. gr. og framleiðsluvörur í samstæðum í skilningi 10. gr. þegar slíkir hlutir eru ekki upprunavörur.

5.     Ákvæði 1.–4. mgr. gilda aðeins um efni þeirrar tegundar sem samningurinn tekur til. Þau skulu heldur ekki koma í veg fyrir að beitt verði ráðstöfunum um endurgreiðslu vegna landbúnaðarafurða við útflutning í samræmi við ákvæði þessa samnings.



V. BÁLKUR
SÖNNUN Á UPPRUNA

16. gr.
Almennar kröfur

1.     Upprunavörur, í skilningi þessa viðauka, skulu við innflutning til aðildarríkis njóta góðs af ákvæðum þessa samnings gegn framvísun:

a)    EUR.1-flutningsskírteinis, samkvæmt fyrirmynd í III. viðbæti; eða
b)    yfirlýsingar útflytjanda, í þeim tilvikum sem frá er greint í 1. mgr. 21. gr., en texta hennar er að finna í IV. viðbæti, sem gefin er á vörureikningi, afhendingarseðli eða öðru því viðskiptaskjali sem lýsir viðkomandi vöru nægilega vel til að hægt sé að bera kennsl á hana (hér á eftir nefnd „yfirlýsing á vörureikningi“).
2.     Þrátt fyrir 1. mgr. skulu upprunavörur í skilningi þessa viðauka, í þeim tilvikum sem greint er frá í 26. gr., njóta góðs af ákvæðum þessa samnings án þess að nauðsynlegt sé að framvísa skjölunum sem um getur í 1. mgr.

17. gr.
Reglur um útgáfu EUR.1-flutningsskírteinis


1.     Tollyfirvöld í útflutningslandinu skulu gefa út EUR.1-flutningsskírteini hafi útflytjandi skilað inn skriflegri umsókn eða fulltrúi hans á hans ábyrgð.


2.     Útflytjandi eða fulltrúi hans skal í þessu skyni bæði fylla út EUR.1-flutningsskírteini og umsóknina en sýnishorn af þeim er að finna í III. viðbæti. Eyðublöðin skulu fyllt út á einu af tungumálunum sem samningurinn er gerður á og í samræmi við ákvæði laga útflutningslandsins. Ef þau eru handskrifuð skulu þau útfyllt með bleki og með prentstöfum. Vörulýsingin skal skrifuð í reitinn sem er ætlaður til þess án þess að skilja eftir auðar línur. Ef reitur er ekki notaður að fullu skal draga lárétta línu neðan við síðustu línu lýsingarinnar og strika yfir ónýtta svæðið.


3.     Útflytjandi sem sækir um útgáfu EUR.1-flutningsskírteinis skal vera reiðubúinn að leggja fram hvenær sem er, að beiðni tollyfirvalda í útflutningslandinu þar sem EUR.1-flutningsskírteinið er gefið út, öll tilheyrandi skjöl þar sem vottað er að viðkomandi framleiðsluvara sé upprunavara og að öllum öðrum kröfum sem settar eru fram í þessum viðauka sé fullnægt.
4.     Tollyfirvöld í aðildarríki skulu gefa út EUR.1-flutningsskírteini ef viðkomandi framleiðsluvörur geta talist upprunnar í aðildarríki eða einu hinna landanna eða í Evrópubandalaginu eins og um getur í 4. gr. og fullnægja öðrum kröfum þessa viðauka.


5.     Tollyfirvöld sem gefa skírteinið út skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að sannreyna að viðkomandi framleiðsluvörur séu upprunavörur og að öðrum kröfum þessa viðauka hafi verið fullnægt. Þau hafa í þessu tilliti rétt til að krefjast hvers konar sannana og athuga bókhald útflytjandans eða viðhafa annars konar eftirlit sem þau álíta nauðsynlegt. Tollyfirvöld sem gefa skírteinið út skulu einnig tryggja að þau eyðublöð sem um getur í 2. mgr. séu rétt útfyllt. Einkum skal athuga hvort það svæði sem ætlað er fyrir vörulýsingu sé útfyllt þannig að engin hætta sé á sviksamlegum viðbótum.

6.     Útgáfudagur EUR.1-flutningsskírteinis skal koma fram í reit 11 á skírteininu.
7.     Tollyfirvöld skulu gefa út EUR.1-flutningsskírteini sem er tiltækt útflytjanda um leið og útflutningur hefur átt sér stað eða verið tryggður.


18. gr.
EUR.1-flutningsskírteini gefin út eftir á


1.     Þrátt fyrir 7. mgr. 17. gr. er heimilt, í undantekningartilvikum, að gefa EUR.1-flutningsskírteinið út eftir að útflutningur framleiðsluvörunnar hefur átt sér stað, að því tilskildu að:
a)    það hafi ekki verið gefið út þegar útflutningurinn átti sér stað vegna mistaka eða yfirsjóna eða sérstakra aðstæðna; eða
b)    sýnt sé fram á það á fullnægjandi hátt, að mati tollyfirvalda, að EUR.1-flutningsskírteinið hafi verið gefið út en ekki verið samþykkt við innflutning af tæknilegum ástæðum.
2.     Við framkvæmd 1. mgr. skal útflytjandinn taka fram í umsókninni hvar og hvenær útflutningur framleiðsluvöru, sem EUR.1-flutningsskírteinið á við um, á sér stað og taka fram ástæður fyrir beiðninni.
3.     Tollyfirvöldum er einungis heimilt að gefa út EUR.1-flutningsskírteinið eftir á þegar gengið hefur verið úr skugga um að upplýsingarnar sem fram koma í umsókn útflytjandans séu samhljóða þeim sem viðkomandi gögn hafa að geyma.
4.     EUR.1-flutningsskírteini sem eru gefin út eftir á skulu vera árituð með einni af eftirfarandi setningum:
    „NACHTRÄGLICH AUSGESTELLT“,
     „DÉLIVRÈ À POSTERIORI“,
    „RILASCIATO A POSTERIORI“,
    „ISSUED RETROSPECTIVELY“,
    „ÚTGEFIÐ EFTIR Á“,
    „UTSTEDT SENERE“
5.     Áritunin sem um getur í 4. mgr. skal færð í athugasemdareit EUR.1-flutningsskírteinisins.


19. gr.
Útgáfa á eftirriti af EUR.1-flutningsskírteininu

1.     Hafi EUR.1-flutningsskírteini verið stolið, það glatast eða eyðilagst getur útflytjandinn sótt um, til þeirra tollyfirvalda sem gáfu það út, að fá eftirrit gert á grundvelli útflutningsskjala sem eru í þeirra vörslu.

2.     Eftirritið sem er gefið út á þennan hátt skal vera áritað með einhverju eftirfarandi orða:
    „DUPLIKAT“, „DUPLICATA“,
     „DUPLICATO“, „DUPLICATE“, „EFTIRRIT“
3.     Áritunin sem um getur í 2. mgr. skal færð í athugasemdareit eftirrits EUR.1-flutningsskírteinisins.

4.     Eftirritið skal vera með sömu útgáfudagsetningu og upphaflega EUR.1-flutningsskírteinið og gilda frá og með þeim degi.

20. gr.
Útgáfa EUR.1-flutningsskírteinis á grundvelli sönnunar á uppruna sem gefin var út áður

    Ef upprunavörur eru settar undir eftirlit tollstöðvar í aðildarríki skal sá möguleiki vera fyrir hendi að láta eitt eða fleiri EUR.1-flutningsskírteini koma í stað upphaflegrar sönnunar á uppruna í þeim tilgangi að senda allar þessar framleiðsluvörur eða hluta þeirra til annars staðar í aðildarríki. Sú tollstöð sem hefur eftirlit með framleiðsluvörunum skal gefa út EUR.1-flutningsskírteini sem kemur í stað annars skjals.

20. gr. a
Bókhaldsleg aðgreining

1.     Ef umtalsverður kostnaður eða verulegir örðugleikar fylgja því að halda aðskildum birgðum af upprunaefnum og efnum af sama tagi, sem ekki eru upprunaefni, og geta komið hvert í stað annars, geta tollyfirvöld, samkvæmt skriflegri beiðni þeirra sem hlut eiga að máli, heimilað að nota kerfi það er nefnist „aðgreint bókhald“ til að halda utan um slíkar birgðir.
2.     Með því kerfi á að vera unnt að tryggja að á tilteknu viðmiðunartímabili sé fjöldi heimafenginna framleiðsluvara sem talist geta „upprunavörur“ sá sami og sá sem væri heimafenginn ef um efnislegan aðskilnað birgðanna hefði verið að ræða.
3.     Tollyfirvöld geta veitt slíka heimild með hverjum þeim skilyrðum sem talin eru viðeigandi.
4.     Kerfi þetta ber að skrá, nota og halda við í samræmi við almennt viðurkenndar bókhaldsreglur sem gilda í landinu þar sem varan er framleidd.
5.     Sá sem nýtur góðs af þessari einföldun getur gefið út upprunasönnun eða, eftir atvikum, farið fram á að gefin verði út upprunasönnun um það magn framleiðsluvara sem geta talist upprunavörur. Að beiðni tollyfirvalda skal hann leggja fram greinargerð um hvernig magnið var ákvarðað.
6.     Tollyfirvöld skulu fylgjast með því hvernig slík heimild er notuð og er þeim heimilt að afturkalla hana hvenær sem er ef handhafinn notar hana ótilhlýðilega eða uppfyllir ekki þau skilyrði sem sett eru í þessum viðauka.


21. gr.
Skilyrði fyrir því að gefa út yfirlýsingu á vörureikningi

1.     Heimilt er að eftirfarandi aðilar gefi út yfirlýsingu á vörureikningi sem um getur í b-lið 1. mgr. 16. gr.:
a)    viðurkenndur útflytjandi í skilningi 22. gr.; eða

b)    útflytjandi vörusendingar sem inniheldur einn eða fleiri pakka með upprunavörum að heildarverðmæti ekki meira en 6 000 evrur.

2.     Heimilt er að gefa út yfirlýsingu á vörureikningi ef viðkomandi framleiðsluvörur teljast vörur upprunnar í aðildarríki eða einu hinna landanna eða í Evrópubandalaginu eins og um getur í 4. gr. og fullnægja öðrum kröfum þessa viðauka.

3.     Útflytjandi sem gefur út yfirlýsingu á vörureikningi skal vera reiðubúinn að leggja fram, hvenær sem er, að beiðni tollyfirvalda í útflutningslandinu, öll tilheyrandi skjöl sem sanna upprunaréttindi viðkomandi framleiðsluvara og að öðrum kröfum þessa viðauka hafi verið fullnægt.
4.     Yfirlýsing á vörureikningi skal gefin út með þeim hætti að útflytjandi vélritar, stimplar eða prentar á vörureikninginn, afhendingarseðilinn eða annað viðskiptaskjal yfirlýsingu með þeim texta sem fram kemur í IV. viðbæti og skal hann nota útgáfu á einu tungumálanna sem um getur í þeim viðbæti í samræmi við ákvæði landslaga útflutningslandsins. Yfirlýsinguna má einnig handskrifa og þá skal skrifa með bleki og prentstöfum.
5.     Yfirlýsing á vörureikningi skal vera með upprunalegri eiginhandarundirskrift útflytjandans. Þess skal þó ekki krafist af viðurkenndum útflytjanda í skilningi 22. gr. að hann undirriti yfirlýsingu á vörureikningi að því tilskildu að hann afhendi tollyfirvöldum í útflutningslandinu skriflega yfirlýsingu þess efnis að hann taki fulla ábyrgð á sérhverri yfirlýsingu á vörureikningi sem auðkennd er honum eins og hann hafi undirritað hana með eigin hendi.
6.     Útflytjandi getur gefið út yfirlýsingu á vörureikningi þegar framleiðsluvörurnar sem hún tekur til eru fluttar út eða síðar með því skilyrði að henni sé framvísað í innflutningslandinu eigi síðar en tveimur árum eftir innflutning framleiðsluvaranna sem hún á við um.

22. gr.
Viðurkenndur útflytjandi

1.     Tollyfirvöld í útflutningslandinu geta heimilað útflytjanda, hér á eftir nefndur „viðurkenndur útflytjandi“, sem stundar tíðar sendingar á framleiðsluvörum samkvæmt samningnum, að gefa út yfirlýsingu á vörureikningi óháð verðmæti viðkomandi framleiðsluvara. Útflytjandi sem fer fram á slíka heimild skal veita tollyfirvöldum fullnægjandi tryggingar fyrir því að vörurnar séu upprunavörur og fullnægja auk þess öðrum kröfum þessa viðauka.


2.     Tollyfirvöld geta viðurkennt útflytjanda með þeim skilyrðum sem þau telja viðeigandi.

3.     Tollyfirvöld skulu gefa viðurkenndum útflytjanda tollleyfisnúmer sem skal koma fram á yfirlýsingu á vörureikningi.
4.     Tollyfirvöld skulu hafa eftirlit með notkun viðurkennda útflytjandans á leyfinu.
5.     Tollyfirvöld geta afturkallað leyfið hvenær sem er. Þau skulu gera það ef viðurkenndur útflytjandi veitir ekki lengur þær tryggingar sem um getur í 1. mgr., fullnægir ekki þeim skilyrðum sem um getur í 2. mgr. eða misnotar leyfið með öðrum hætti.


23. gr.
Gildistími sönnunar á uppruna

1.     Sönnun á uppruna skal gilda í fjóra mánuði frá útgáfudegi í útflutningslandinu og skal hún lögð fram áður en sá tími er liðinn hjá tollyfirvöldum innflutningslandsins.
2.     Heimilt er að taka við sönnun á uppruna, sem lögð er fram hjá tollyfirvöldum innflutningslandsins, eftir að frestur sá sem tilgreindur er í 1. mgr. er útrunninn til að beita fríðindameðferð hafi umrædd skjöl ekki verið lögð fram fyrir lok frestsins vegna sérstakra aðstæðna.

3.     Í öðrum tilvikum, þegar sönnun á uppruna er lögð fram of seint, geta tollyfirvöld innflutningslandsins tekið við henni ef framleiðsluvörunum hefur verið framvísað fyrir lok frestsins.

24. gr.
Sönnun á uppruna lögð fram

    Leggja skal fram sönnun á uppruna hjá tollyfirvöldum í innflutningslandinu í samræmi við þær reglur sem gilda í því landi. Þessi yfirvöld geta krafist þýðingar á skjalinu með sönnun á uppruna og einnig krafist þess að aðflutningsskýrslunni fylgi greinargerð frá innflytjanda þess efnis að framleiðsluvörurnar fullnægi þeim skilyrðum sem nauðsynleg teljast vegna framkvæmdar þessa samnings.

25. gr.
Innflutningur í áföngum

    Þegar sundurteknar eða ósamsettar framleiðsluvörur, í skilningi a-liðar 2. reglu í hinum almennu reglum samræmdu tollskrárinnar, sem heyra undir XVI. og XVII. flokk eða nr. 7308 og 9406 í samræmdu tollskránni, eru fluttar inn í áföngum að beiðni innflytjanda og með þeim skilyrðum, sem sett eru af tollyfirvöldum í innflutningslandinu, skal leggja fram eina sönnun á uppruna fyrir þær framleiðsluvörur hjá tollyfirvöldum þegar byrjað er að flytja þær inn.

26. gr.
Undanþágur frá sönnunum á uppruna

1.     Framleiðsluvörur sem eru sendar sem smábögglar frá einum einstaklingi til annars, eða eru í einkafarangri ferðamanna, skulu taldar upprunavörur án þess að framvísa þurfi sönnun á uppruna, að því tilskildu að vörurnar hafi ekki verið fluttar inn á viðskiptagrundvelli og að lýst hafi verið yfir að þær uppfylli kröfur þessa viðauka og enginn vafi leiki á um sannleiksgildi slíkrar yfirlýsingar. Ef framleiðsluvörurnar eru sendar í pósti má gefa yfirlýsinguna á CN 22/CN 23-tollseðli eða á blaði sem er fest við það skjal.

2.     Innflutningur sem er tilfallandi og hefur eingöngu að geyma framleiðsluvörur til persónulegra nota viðtakenda eða ferðamanna eða fjölskyldna þeirra skal ekki talinn innflutningur viðskiptalegs eðlis ef ljóst er af eðli og magni framleiðsluvaranna að enginn viðskiptalegur tilgangur býr að baki.
3.     Enn fremur má heildarverðmæti slíkra framleiðsluvara ekki vera meira en 500 evrur ef um litla pakka er að ræða og 1 200 evrur ef um er að ræða framleiðsluvörur í einkafarangri ferðamanna.

27. gr.
Fylgiskjöl

    Þau skjöl, sem um getur í 3. mgr. 17. gr. og 3. mgr. 21. gr. og er ætlað að sanna að framleiðsluvörur sem falla undir EUR.1-flutningsskírteinið eða yfirlýsingu á vörureikningi geti talist framleiðsluvörur upprunnar í aðildarríki eða einu hinna landanna eða í Evrópubandalaginu eins og um getur í 4. gr. og fullnægi öðrum kröfum þessa viðauka, geta meðal annars verið:
a)    sannanir um þá vinnslu sem útflytjandi eða birgir hefur framkvæmt til þess að fá umræddar vörur sem finna má til dæmis í reikningum eða fyrirtækjabókhaldi hans;
b)    skjöl sem staðfesta upprunaréttindi efna sem notuð hafa verið og eru gefin út í aðildarríkinu þar sem skjölin eru notuð í samræmi við lög aðildarríkisins;
c)    skjöl sem staðfesta þá aðvinnslu sem efni hafa hlotið í aðildarríki og eru gefin út í hlutaðeigandi aðildarríki þar sem skjölin eru notuð í samræmi við lög aðildarríkisins;

d)    EUR.1-flutningsskírteini eða yfirlýsing á vörureikningi til sönnunar á upprunaréttindum efna sem notuð hafa verið, gefin út í öðru aðildarríki í samræmi við þennan viðauka, eða í einu hinna landanna eða í Evrópubandalaginu eins og um getur í 4. gr. í samræmi við þá grein;

e)    viðeigandi sannanir um aðvinnslu utan yfirráðasvæða aðildarríkjanna með beitingu 12. gr. er sanna að kröfur þeirrar greinar hafi verið uppfylltar.


28. gr.
Varðveisla sönnunar á uppruna og fylgiskjala


1.     Útflytjandi sem sækir um útgáfu EUR.1-flutningsskírteinis skal varðveita, í að minnsta kosti þrjú ár, þau skjöl sem um getur í 3. mgr. 17. gr.
2.     Útflytjandi sem gefur út yfirlýsingu á vörureikningi skal varðveita í að minnsta kosti þrjú ár eintak af henni ásamt skjölunum sem um getur í 3. mgr. 21. gr.
3.     Tollyfirvöld í útflutningslandinu er gefa út EUR.1-flutningsskírteini skulu varðveita í að minnsta kosti þrjú ár umsóknareyðublað það sem um getur í 2. mgr. 17. gr.
4.     Tollyfirvöld í innflutningslandinu skulu varðveita í að minnsta kosti þrjú ár EUR.1-flutningsskírteini og yfirlýsingar á vörureikningum sem þeim eru afhent.

29. gr.
Ósamræmi og villur í framsetningu

1.     Uppgötvist lítils háttar ósamræmi milli staðhæfinga sem settar eru fram í sönnun á uppruna og þeirra sem fram koma á skjölum, sem afhent eru tollyfirvöldum vegna formsatriða sem fullnægja þarf fyrir innflutning á framleiðsluvörum, skal það ekki verða sjálfkrafa til þess að sönnun á uppruna teljist ógild ef fram koma óyggjandi sannanir fyrir því að þetta skjal svari til þeirra framleiðsluvara sem um ræðir.
2.     Augljósar villur í framsetningu eins og vélritunarvillur á sönnun á uppruna skulu ekki leiða til þess að skjalinu sé hafnað ef villurnar eru þess eðlis að enginn vafi leikur á að staðhæfingarnar í því séu réttar.

30. gr.
Fjárhæðir gefnar upp í evrum

1.     Við beitingu ákvæða b-liðar 1. mgr. 21. gr. og 3. mgr. 26. gr. skulu hlutaðeigandi lönd, í þeim tilvikum þar sem reikningur fyrir framleiðsluvörur er í öðrum gjaldmiðli en evrum, ákveða á hverju ári þær fjárhæðir í innlendum gjaldmiðlum aðildarríkjanna og landanna, sem um getur í 4. gr., er jafngilda fjárhæðum sem eru gefnar upp í evrum.
2.     Sending skal njóta hags af ákvæðum b-liðar 1. mgr. 21. gr. eða 3. mgr. 26. gr., að því er varðar þann gjaldmiðil sem er á reikningnum, í samræmi við þá fjárhæð sem hlutaðeigandi land hefur ákveðið.
3.     Fjárhæð í innlendum gjaldmiðli skal vera jafngild fjárhæð sem er gefin upp í evrum fyrsta virkan dag í október og skal hún gilda frá 1. janúar næsta árs. Tilkynna skal hlutaðeigandi löndum um þær fjárhæðir sem um ræðir.

4.     Heimilt er að námunda fjárhæðina sem fram kemur við umreikning á fjárhæð, sem er gefin upp í evrum, yfir í innlendan gjaldmiðil. Ekki má muna meira en 5 af hundraði á námunduðu fjárhæðinni og þeirri fjárhæð sem út kemur við umreikninginn.
    Heimilt er að halda fjárhæð í innlendum gjaldmiðli, er jafngildir fjárhæð sem er gefin upp í evrum, óbreyttri ef umreikningur hennar leiðir, við árlega aðlögun sem kveðið er á um í 3. mgr, ekki til meiri hækkunar á henni en 15 af hundraði í innlendum gjaldmiðli áður en námundað er. Heimilt er að halda fjárhæð í innlendum gjaldmiðli óbreyttri ef umreikningur leiðir til þess að jafnvirði hennar lækkar.

5.     Ráðið skal, að beiðni aðildarríkis, endurskoða fjárhæðina sem er gefin upp í evrum. Ráðið skal við endurskoðunina skoða hvort æskilegt sé að viðhalda áhrifum viðkomandi takmarkana að raungildi. Í þessu skyni getur hún ákveðið að breyta fjárhæðum sem gefnar eru upp í evrum.


VI. BÁLKUR
FYRIRKOMULAG Á SAMVINNU STJÓRNVALDA

31. gr.
Gagnkvæm aðstoð

    Til þess að tryggja að þessum viðauka sé rétt beitt skulu aðildarríkin aðstoða hvert annað, fyrir tilstuðlan tollyfirvalda sinna, við að sannreyna áreiðanleika EUR.1-flutningsskírteina og yfirlýsinga á vörureikningi og upplýsinganna sem fram koma á þeim skjölum.


32. gr.
Sannprófun vegna sönnunar á uppruna

1.     Sannprófun vegna sönnunar á uppruna skal framkvæmd með úrtakskönnunum eða hvenær sem tollyfirvöld í innflutningslandinu hafa rökstudda ástæðu til að draga í efa áreiðanleika slíkra skjala, upprunaréttindi viðkomandi framleiðsluvara eða að öðrum kröfum þessa viðauka hafi verið fullnægt.
2.     Vegna framkvæmdar ákvæða 1. mgr. skulu tollyfirvöld í innflutningslandinu endursenda EUR.1-flutningsskírteinið og vörureikninginn, hafi honum verið framvísað, yfirlýsingu á vörureikningi eða afrit af þessum skjölum til tollyfirvalda í útflutningslandinu og tilgreina, þar sem það á við, ástæður fyrir því að fyrirspurnin er gerð. Skjöl og upplýsingar, sem aflað hefur verið og benda til þess að upplýsingar gefnar á sönnun á uppruna séu rangar, skulu sendar til stuðnings beiðni um sannprófun.

3.     Sannprófunin skal framkvæmd af tollyfirvöldum í útflutningslandinu. Þau mega í þessum tilgangi óska eftir hvers konar sönnunum og framkvæma hverja þá skoðun á bókhaldi útflytjanda eða viðhafa annað eftirlit sem þau telja nauðsynlegt.

4.     Ef tollyfirvöld í innflutningslandinu ákveða að fresta fríðindameðferð á viðkomandi framleiðsluvörum á meðan beðið er niðurstöðu sannprófunarinnar skulu þau heimila innflytjanda að leysa framleiðsluvörurnar út með þeim varúðarráðstöfunum sem þau álíta nauðsynlegar.
5.     Tilkynna skal þeim tollyfirvöldum sem fara fram á sannprófunina um niðurstöður hennar eins fljótt og unnt er. Koma skal skýrt fram í niðurstöðunum hvort skjölin séu áreiðanleg og hvort telja megi að viðkomandi framleiðsluvörur séu upprunnar í aðildarríki eða einu hinna landanna eða í Evrópubandalaginu eins og um getur í 4. gr. og hvort öðrum kröfum þessa viðauka hafi verið fullnægt.

6.     Ef ekkert svar berst innan tíu mánaða eða ekki eru veittar nægilegar upplýsingar í því til unnt sé að ákvarða áreiðanleika skjalsins sem um ræðir og raunverulegur uppruni framleiðsluvaranna er dreginn í efa skulu tollyfirvöldin sem lögðu beiðnina fram eiga rétt á því að synja um fríðindameðferð, nema í við sérstakar aðstæður.


33. gr.
Lausn deilumála

    Ef upp rísa deilur í tengslum við reglur um sannprófun í 32. gr. sem tollyfirvöld er fóru fram á sannprófunina og tollyfirvöld sem bera ábyrgð á framkvæmd hennar geta ekki leyst eða þær leiða til þess að vafi leiki á hvernig túlka beri þennan viðauka, skal vísa þeim til ráðsins.

    Lausn deilumála milli innflytjanda og tollyfirvalda í innflutningslandinu skal í öllum tilvikum heyra undir löggjöf þess lands.


34. gr.
Viðurlög

    Hver sá sem gefur út eða veldur því að gefið er út skjal með röngum upplýsingum í því skyni að afla sér fríðindameðferðar fyrir framleiðsluvörur skal sæta viðurlögum.

35. gr.
Tollfrjáls svæði

1.     Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að í stað framleiðsluvara, sem verslað er með í skjóli sönnunar á uppruna og fluttar eru um tollfrjáls svæði á yfirráðasvæði þeirra, komi ekki aðrar vörur og að þær hljóti ekki aðra meðferð en þá sem eðlileg telst til að verja þær skemmdum.

2.     Þegar framleiðsluvörur, sem eru upprunnar í aðildarríki og fluttar inn á tollfrjálst svæði í skjóli sönnunar á uppruna og hljóta meðferð eða vinnslu, skulu hlutaðeigandi yfirvöld veita undanþágu frá ákvæðum 1. mgr. og gefa út nýtt EUR.1-skírteini, að beiðni útflytjanda, ef meðferð eða vinnsla vörunnar er í samræmi við ákvæði þessa viðauka.



I. VIÐBÆTIR VIÐ VIÐAUKA A

Skýringar við skrána í II. viðbæti


Skýring 1:
Í skránni koma fram þau skilyrði sem allar framleiðsluvörur er samningurinn tekur til þurfa að uppfylla til þess að þær teljist hafa hlotið nægilega aðvinnslu í skilningi 6. gr. viðaukans.

Skýring 2:
2.1        Í fyrstu tveimur dálkum skrárinnar er framleiðsluvörunni sem fengin er lýst. Í 1. dálki er númer vöruliðar eða númer kafla samræmdu tollskrárinnar og í 2. dálki er vörulýsing, sem notuð er í þeirri tollskrá, fyrir þann vörulið eða kafla. Fyrir hvert atriði í fyrstu tveimur dálkunum er tilgreind regla í 3. og 4. dálki. Þegar orðið „úr“ fer á undan atriði í fyrsta dálki merkir það að reglan í 3. og 4. dálki gildir aðeins um hluta þess vöruliðar eða kafla eins og lýst er í 2. dálki.

2.2        Þegar nokkrum vöruliðum er safnað saman í 1. dálki, eða númer kafla er tilgreint og vörulýsingin í 2. dálki er því almennt orðuð, gilda viðkomandi reglur í 3. eða 4. dálki um allar framleiðsluvörur sem í samræmdu tollskránni eru flokkaðar undir vöruliði kaflans eða einhverja þá vöruliði sem teknir eru saman í 1. dálki.


2.3        Þegar mismunandi reglur í skránni gilda um mismunandi framleiðsluvörur innan vöruliðar felur hver undirliður í sér lýsingu á þeim hluta vöruliðarins sem viðeigandi reglur í 3. og 4. dálki gilda um.
2.4        Þegar regla er tilgreind bæði í 3. og 4. dálki fyrir færslu í fyrstu tveimur dálkunum má útflytjandi velja hvora regluna sem er. Ef engin regla um uppruna er tilgreind í 4. dálki á að beita reglunni í 3. dálki.



Skýring 3:
3.1        Ákvæði 6. gr. bókunarinnar um framleiðsluvörur, sem hafa fengið upprunaréttindi og eru notaðar við framleiðslu annarra vara, gilda hvort sem slíkar vörur hafa fengið upprunaréttindin í verksmiðjunni þar sem þær eru notaðar eða í annarri verksmiðju í samningsríki.

         Dæmi:
        Vél í nr. 8407, þar sem sú regla gildir að verðmæti þeirra efna sem teljast ekki upprunaefni og má nota við framleiðsluna megi ekki vera meira en 60% af verksmiðjuverði, er gerð úr „öðru stálblendi gróflega formuðu með smíði“ í nr. úr 7224.
        Hafi þetta smíðaefni verið unnið í samningsríki úr málmhleifi (ingot), sem ekki telst upprunaefni, hefur smíðaefnið þegar öðlast upprunaréttindi samkvæmt reglunni fyrir nr. úr 7224 í skránni. Smíðaefnið telst þá til upprunaefni við verðmætaútreikning vélarinnar án tillits til þess hvort það var framleitt í hlutaðeigandi samningsríki. Verðmæti málmhleifsins, sem ekki telst upprunaefni, er því ekki reiknað með þegar tekið er saman verðmæti þeirra efna sem notuð voru og ekki teljast upprunaefni.

3.2         Reglan í skránni felur í sér lágmarksaðvinnslu sem krafist er og frekari aðvinnsla veitir einnig upprunaréttindi; á hinn bóginn getur minni aðvinnsla ekki veitt upprunaréttindi. Ef regla kveður þannig á um að efni sem ekki telst upprunaefni megi nota á vissu framleiðslustigi er heimilt að nota slík efni á fyrra framleiðslustigi en notkun þeirra á síðari stigum er óheimil.



3.3         Með fyrirvara um skýringu 3.2, má einnig nota efni úr sama vörulið og framleiðslan fellur undir þegar regla kveður á um að nota megi „efni í hvaða vörulið sem er“, þó með þeim sérstöku takmörkunum sem kunna að felast í reglunni. Samt sem áður er með orðasambandinu „framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, þar á meðal öðrum efnum í nr. …“, átt við að eingöngu megi nota efni sem er flokkað undir sama vörulið og framleiðsluvara með annarri vörulýsingu en á framleiðsluvörunni sem tilgreind er í 2. dálki í skránni.
3.4         Þegar regla í skránni felur í sér að framleiða megi vöru úr fleiri en einu efni er átt við að nota megi eitt eða fleiri þessara efna. Ekki þarf að nota þau öll.

         Dæmi:
        Reglan um dúk í nr. 5208 til 5212 felur í sér að nota megi náttúrlegar trefjar auk kemískra efna og annarra efna. Með þessu er ekki átt við að nota verði hvort tveggja; nota má annað hvort eða hvort tveggja.

3.5         Þegar regla í skránni felur í sér að vara verði að vera framleidd úr sérstöku efni er skilyrðið því augljóslega ekki til hindrunar að notuð séu önnur efni sem ekki geta eðlis síns vegna uppfyllt skilyrði reglunnar. (Sjá einnig skýringu 6.2 hér á eftir sem tengist textílefnum).

        Dæmi:
        Reglan um matvæli í nr. 1904, sem útilokar sérstaklega að notað sé korn eða afleiður þess, hindrar ekki að notað sé steinefni, kemísk efni eða önnur aukefni sem ekki eru framleidd úr korni.
        Þetta á hins vegar ekki við um vörur sem hægt er að framleiða úr efni af sama tagi á fyrri stigum framleiðslunnar, þótt ekki sé hægt að framleiða þær úr því sérstaka efni sem tilgreint er í skránni.
         Dæmi:
        Ef um er að ræða fatnað úr 62. kafla úr efnum sem eru ekki ofin og með minna af syntetískum efnum en 50 af hundraði, og heimilt er að nota einvörðungu garn sem er ekki upprunavara í þennan flokk fatnaðar, er ekki hægt að hefja framleiðsluna úr dúk sem er ekki ofinn – jafnvel þótt að öðru jöfnu sé ekki hægt að framleiða dúk, sem ekki er ofinn, úr garni. Í slíkum tilvikum myndi upphafsefni að öðru jöfnu vera á undan vinnslustigi garns – þ.e. trefjastigi.
3.6         Þegar í reglu í skránni eru tilgreindar tvær hundraðshlutatölur fyrir hámarksverðmæti efna sem teljast ekki upprunaefni og heimilt er að nota er ekki hægt að leggja þessar hundraðshlutatölur saman. Hámarksverðmæti allra þeirra efna sem ekki teljast upprunaefni má með öðrum orðum aldrei fara yfir hæstu hundraðshlutatöluna sem er tilgreind. Ekki má heldur fara yfir einstakar hundraðshlutatölur fyrir þau tilteknu efni sem þær gilda um.

Skýring 4:
4.1         Orðin „náttúrlegar trefjar“ eru notuð í skránni til að vísa til trefja annarra en gervi- eða syntetískra þráða. Þau eiga einungis við á þeim stigum framleiðslunnar sem koma á undan spuna, að meðtöldum úrgangi og, nema annað sé tekið fram, trefjum sem hafa verið kembdar, greiddar eða unnar á annan hátt, þó ekki spunnar.
4.2         Orðin „náttúrlegar trefjar“ eiga einnig við um hrosshár í nr. 0503, silki í nr. 5002 og 5003 og auk þess ullartrefjar, fín- eða grófgert dýrahár í nr. 5101-5105, baðmullartrefjar í nr. 5201-5203 og aðrar jurtatrefjar í nr. 5301-5305.


4.3         Orðin „textílmassi“, „kemísk efni“ og „efni til pappírsgerðar“ eru notuð í skránni til þess að lýsa efnunum sem flokkast ekki í 50.–63. kafla og nota má til framleiðslu á gervitrefjum, syntetískum trefjum eða pappírstrefjum eða gervigarni, syntetísku garni eða pappírsgarni.
4.4         Orðin „tilbúnar stutttrefjar“ eru notuð í skránni til að vísa til syntetískra þátta eða gervivöndulþátta, stutttrefja eða úrgangs í nr. 5501-5507.


Skýring 5:
5.1         Þegar vísað er í þessa skýringu vegna ákveðinnar framleiðsluvöru í skránni skulu skilyrðin í 3. dálki ekki gilda um grunntextílefni sem notuð eru við framleiðslu hennar og í heild eru 10 af hundraði eða minna af heildarþyngd allra þeirra grunntextílefna sem notuð eru. (Sjá einnig skýringar 5.3 og 5.4 hér á eftir).

5.2         Þessi mörk eiga hins vegar einungis við um blandaðar framleiðsluvörur gerðar úr tveimur eða fleiri grunntextílefnum.

        Eftirfarandi telst grunntextílefni:
         –    silki,
         –    ull,
         –    grófgert dýrahár,
         –    fíngert dýrahár,
         –    hrosshár,
         –    baðmull,
         –    efni til pappírsgerðar og pappír,
         –    hör,
         –    hampur,
         –    júta og aðrar basttextíltrefjar,
         –    sísal- og aðrar textíltrefjar af agava-ætt,

         –    kókostrefjar, abaca, ramí og aðrar textíltrefjar úr jurtaríkinu,
         –    syntetískir þræðir,
         –    gerviþræðir,
         –    straumleiðandi þræðir,
         –    syntetískar stutttrefjar úr pólyprópyleni,

         –    syntetískar stutttrefjar úr pólyester,

         –    syntetískar stutttrefjar úr pólyamíði,

         –    syntetískar stutttrefjar úr pólyakrýlónítríli,

         –    syntetískar stutttrefjar úr pólyímíði,

         –    syntetískar stutttrefjar úr pólyetraflúoretýleni,
         –    syntetískar stutttrefjar úr pólyfenýlensúlfíði,

         –    syntetískar stutttrefjar úr pólyvinýlklóríði,

         –    aðrar syntetískar stutttrefjar,
         –     gervitrefjar úr viskósa,
         –     aðrar gervistutttrefjar,
         –    garn úr pólýúretani með sveigjanlegum pólyeterþáttum, einnig yfirspunnum,

         –    garn úr pólýúretani með sveigjanlegum pólyesterþáttum, einnig yfirspunnum,

         –    vörur úr nr. 5605 (málmgarn) sem innihalda ræmu með kjarna úr álþynnum eða kjarna úr plastfilmu, einnig húðuð með áldufti, ekki yfir 5 mm að breidd, lögð með lími milli tveggja plastfilma,


         –    aðrar vörur í nr. 5605.
        Dæmi:
        Garn í nr. 5205, sem gert er úr baðmullartrefjum í nr. 5203 og syntetískum stutttrefjum í nr. 5506, er blandað garn. Af því leiðir að nota má syntetískar stutttrefjar sem teljast ekki upprunaefni og fullnægja ekki upprunareglunum (en í þeim er krafist að framleitt sé úr kemískum efnum eða textílmassa) og vega allt að 8 af hundraði af þyngd garnsins.
         Dæmi:
        Ullardúkur í nr. 5112, sem gerður er úr ullargarni í nr. 5107 og syntetísku stutttrefjagarni í nr. 5509, telst blandaður dúkur. Af því leiðir að nota má syntetískt garn sem fullnægir ekki upprunareglunum (sem krefjast framleiðslu úr kemískum efnum eða textílmassa) eða ullargarn sem fullnægir ekki upprunareglunum (sem krefjast framleiðslu úr náttúrlegum trefjum sem ekki eru kembdar, greiddar né unnar á annan hátt undir spuna) eða blöndu úr hvoru tveggja, að því tilskildu að þau vegi samtals ekki meira en 10 af hundraði af þyngd dúksins.

         Dæmi:
        Límbundinn textíldúkur í nr. 5802, sem gerður er úr baðmullargarni í nr. 5205 og baðmullardúk í nr. 5210, er aðeins blönduð framleiðsluvara ef baðmullardúkurinn er sjálfur blandaður dúkur gerður úr garni sem flokkast í tvo aðskilda vöruliði eða ef baðmullargarnið sem er notað er sjálft blandað.
        Dæmi:
        Ef límbundni textíldúkurinn hefði verið gerður úr baðmullargarni í nr. 5205 og syntetískum dúk í nr. 5407 hefðu tvö aðskilin grunntextílefni augljóslega verið notuð og límbundni dúkurinn því verið blönduð framleiðsluvara.

5.3        Ef framleiðsluvara inniheldur „garn úr pólýúretani liðað með hreyfanlegum pólýeterliðum, einnig yfirspunnið“, er leyfilegt frávik 20 af hundraði fyrir þetta garn.

5.4         Ef í framleiðsluvörum er ræma með kjarna úr álþynnum eða kjarna úr plastfilmu, einnig húðuð með áldufti, ekki yfir 5 mm að breidd, lögð með lími milli tveggja plastfilma, er leyfilegt frávik 30 af hundraði að því er varðar þessa ræmu.


Skýring 6:
6.1         Varðandi textílvörur, sem auðkenndar eru í skránni með neðanmálsgrein sem vísar til þessarar skýringar, má nota textílefni, þó ekki fóður og millifóður, sem uppfylla ekki skilyrði reglunnar í 3. dálki skrárinnar fyrir hina tilbúnu vöru, að því tilskildu að þau séu flokkuð í annan vörulið en framleiðsluvaran og að verðmæti þeirra fari ekki yfir 8% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar.

6.2         Með fyrirvara um skýringu 6.3 er notkun efna sem eru ekki flokkuð undir 50.–63. kafla engum takmörkunum háð við framleiðslu á textílvörum, hvort sem þau innihalda textílefni eða ekki.
        Dæmi:
        Ef í reglu í skránni segir að nota verði garn í tiltekna vöru úr textílefni, svo sem buxur, hindrar það ekki að notaðir séu hlutir úr málmi, svo sem hnappar, vegna þess að hnappar flokkast ekki undir 50.–63. kafla. Á sama hátt hindrar það ekki notkun á rennilásum jafnvel þó að í þeim megi að jafnaði finna textílefni.

6.3         Þegar hundraðshlutaregla gildir skal telja með verðmæti efna sem flokkast ekki undir 50.–63. kafla þegar reiknað er út verðmæti efna sem eru ekki upprunavörur en eru notuð til framleiðslunnar.

Skýring 7
7.1         Að því er varðar nr. úr 2707, 2713 til 2715, úr 2901, úr 2902 og úr 3403, telst eftirfarandi vera „sérstök vinnsla“:
        a)     eiming við lágþrýsting;
         b)    endureiming með mjög ítarlegu þáttunarferli;
         c)    sundrun;
         d)    umbreyting;
         e)    útdráttur með sérhæfðum leysiefnum;
         f)        vinnsla sem felur í sér allar eftirtaldar aðgerðir: vinnsla með óblandaðri brennisteinssýru, rjúkandi brennisteinssýru (óleum) eða brennisteinsanhýdríði; hlutleysing með alkalíefnum; aflitun og hreinsun með náttúrulega virkum jarðefnum, ávirkum jarðefnum, ávirkum viðarkolum eða báxíti;
         g)    fjölliðun;
         h)    alkylun;
         i)        hverfing (ísómering).
7.2         Að því er varðar nr. 2710, 2711 og 2712, telst eftirfarandi vera „sérstök vinnsla“:

         a)    eiming við lágþrýsting;
         b)    endureiming með mjög ítarlegu þáttunarferli;
         c)    sundrun;
         d)    umbreyting;
         e)    útdráttur með sérhæfðum leysiefnum;
         f)        vinnsla sem felur í sér allar eftirtaldar aðgerðir: vinnsla með óblandaðri brennisteinssýru, rjúkandi brennisteinssýru (óleum) eða brennisteinsanhýdríði; hlutleysing með alkalíefnum; aflitun og hreinsun með náttúrulega virkum jarðefnum, ávirkum jarðefnum, ávirkum viðarkolum eða báxíti;
         g)    fjölliðun;
         h)    alkylun;
         ij)    hverfing (ísómering);
         k)    að því er varðar þykkar olíur sem falla einungis undir nr. úr 2710, hreinsun brennisteins með vatnsefnum er leiðir til að minnsta kosti 85% minnkunar á brennisteinsinnihaldi framleiðsluvara sem eru unnar með þessum hætti (ASTM D 1266-59 T-aðferðinni);
         l)        að því er varðar framleiðsluvörur sem falla einungis undir nr. 2710, hreinsun paraffíns með annarri vinnsluaðferð en síun;
         m)    að því er varðar þykkar olíur sem falla einungis undir nr. úr 2710, meðferð með vatnsefnum við meira en 20 bara þrýsting og hærra hitastig en 250° C með notkun hvata, til annars en að hreinsa brennistein, þegar vatnsefni er virkur þáttur í kemísku efnahvarfi. Þó telst frekari meðferð smurolíu með vatnsefnum í nr. úr 2710 (svo sem lokavinnsla með vatnsefnum eða aflitun), einkum til að bæta lit eða stöðugleika, ekki vera sérstök vinnsla;


         n)    að því er varðar brennsluolíur sem falla einungis undir nr. úr 2710, eiming við venjulegan loftþrýsting með því skilyrði að minna en 30% af þessum framleiðsluvörum, miðað við rúmmál og að meðtöldu tapi, eimist við 300° C með ASTM D-86-aðferðinni;
         o)    að því er varðar þykkar olíur, aðrar en gasolíur og brennsluolíur sem falla einungis undir nr. úr 2710, meðferð með hátíðnirafhleðslu.
7.3         Að því er varðar nr. úr 2707, 2713 til 2715, úr 2901, úr 2902 og úr 3403 veita einfaldar aðgerðir, svo sem hreinsun, afhelling, fjarlæging salts, sundurgreining vatns, síun, litun, merking, þar sem brennisteinsinnihald fæst með blöndun framleiðsluvara með misjafnlega miklu brennisteinsinnihaldi, hvers konar samsetning þessara aðgerða eða álíka aðgerðir, ekki upprunaréttindi.

ANNEX A

on Rules of Origin



TABLE OF CONTENTS


TITLE I         GENERAL PROVISIONS
    Article 1    Definitions

TITLE II    DEFINITION OF THE CONCEPT OF “ORIGINATING PRODUCTS”
    Article 2    General requirements
    Article 3    (This annex does not contain an Article 3)
    Article 4    Cumulation of origin in a Member State
    Article 5    Wholly obtained products
    Article 6    Sufficiently worked or processed products
    Article 7    Insufficient working or processing operations
    Article 8     Unit of qualification
    Article 9    Accessories, spare parts and tools
    Article 10    Sets
    Article 11    Neutral elements

TITLE III    TERRITORIAL REQUIREMENTS
    Article 12    Principle of territoriality
    Article 13    Direct transport
    Article 14    Exhibitions

TITLE IV    DRAWBACK OR EXEMPTION

    Article 15    Prohibition of drawback of, or exemption from, customs duties

TITLE V    PROOF OF ORIGIN
    Article 16    General requirements
    Article 17    Procedure for the issue of a movement certificate EUR.1
    Article 18    Movement certificates EUR.1 issued retrospectively
    Article 19    Issue of a duplicate movement certificate EUR.1
    Article 20    Issue of movement certificates EUR.1 on the basis of a proof of origin issued or made out previously
    Article 20 a    Accounting segregation
    Article 21    Conditions for making out an invoice declaration
    Article 22    Approved exporter
    Article 23    Validity of proof of origin
    Article 24    Submission of proof of origin
    Article 25    Importation by instalments
    Article 26    Exemptions from proof of origin

    Article 27    Supporting documents
    Article 28    Preservation of proof of origin and supporting documents
    Article 29    Discrepancies and formal errors
    Article 30     Amounts expressed in euro

TITLE VI    ARRANGEMENTS FOR ADMINISTRATIVE COOPERATION
    Article 31    Mutual assistance
    Article 32    Verification of proofs of origin

    Article 33    Dispute settlement
    Article 34    Penalties
    Article 35    Free zones

TITLE I
GENERAL PROVISIONS

ARTICLE 1
Definitions

    For the purposes of this Annex:
(a)    “manufacture” means any kind of working or processing including assembly or specific operations;
(b)    “material” means any ingredient, raw material, component or part, etc., used in the manufacture of the product;
(c)    “product” means the product being manufactured, even if it is intended for later use in another manufacturing operation;
(d)    “goods” means both materials and products;
(e)    “customs value” means the value as determined in accordance with the 1994 Agreement on implementation of Article VII of the General Agreement on Tariffs and Trade (WTO Agreement on customs valuation);
(f)    “ex-works price” means the price paid for the product ex works to the manufacturer in the Member States in whose undertaking the last working or processing is carried out, provided the price includes the value of all the materials used, minus any internal taxes which are, or may be, repaid when the product obtained is exported;

(g)    “value of materials” means the customs value at the time of importation of the non-originating materials used, or, if this is not known and cannot be ascertained, the first ascertainable price paid for the materials in the Member State concerned;
(h)    “value of originating materials” means the value of such materials as defined in sub-paragraph (g) applied mutatis mutandis;
(i)    “added value” shall be taken to be the ex-works price minus the customs value of each of the materials incorporated which originate in the other countries referred to in Article 4 or, where the customs value is not known or cannot be ascertained, the first verifiable price paid for the materials in the Member State concerned;
(j)    “chapters” and “headings” mean the chapters and the headings (four-digit codes) used in the nomenclature which makes up the Harmonized Commodity Description and Coding System, referred to in this Annex as “the Harmonized System” or “HS”;
(k)    “classified” refers to the classification of a product or material under a particular heading;
(l)    “consignment” means products which are either sent simultaneously from one exporter to one consignee or covered by a single transport document covering their shipment from the exporter to the consignee or, in the absence of such a document, by a single invoice;
(m)    “territories” includes territorial waters;
(n)    “euro” means the single currency of the European Monetary Union.

TITLE II
DEFINITION OF THE CONCEPT OF “ORIGINATING PRODUCTS”

ARTICLE 2
General requirements

1.     For the purpose of implementing this Convention, the following products shall be considered as originating in Iceland or Norway:
(a)    products wholly obtained in Iceland or Norway within the meaning of Article 5 of this Annex;
(b)    products obtained in Iceland or Norway incorporating materials which have not been wholly obtained there, provided that:
    (i)    such materials have undergone sufficient working or processing in Iceland or Norway within the meaning of Article 6 of this Annex; or that
    (ii)    such materials originate in Iceland, Norway or Switzerland within the meaning of this Annex.
(c)    goods originating in the European Economic Area (EEA), within the meaning of Protocol 4 to the Agreement on the European Economic Area.
2.     For the purpose of implementing this Convention, the following products shall be considered as originating in Switzerland:
(a)    products wholly obtained in Switzerland within the meaning of Article 5 of this Annex;
(b)    products obtained in Switzerland incorporating materials which have not been wholly obtained there, provided that:
    (i)    such materials have undergone sufficient working or processing in Switzerland within the meaning of Article 6 of this Annex; or that
    (ii)    such materials originate in Iceland or Norway within the meaning of this Annex.
3.     Notwithstanding the provisions of sub-paragraphs 1(b)(ii) and 2(b)(ii), products originating in a Member State and exported from one Member State to another in the same state or having undergone in the exporting Member State no working or processing going beyond that referred to in Article 7 of this Annex, retain their origin.
4.     For the purpose of implementing paragraph 3, where products originating in two or more of the Member States are used and those products have undergone no working or processing in the exporting Member State going beyond that referred to in Article 7 of this Annex, the product shall be considered as originating in the Member State which accounts for the highest value of originating materials used.

ARTICLE 3
(This Annex does not contain an Article 3)


ARTICLE 4
Cumulation of origin in a Member State

1.     Subject to the provisions of Article 2 (1) and (2), products shall be considered as originating in a Member State if they have been obtained there by incorporating materials originating in Poland, Hungary, the Czech Republic, the Slovak Republic, Bulgaria, Romania, Latvia, Lithuania, Estonia, Slovenia, Turkey or the European Community in accordance with the provisions of the Protocol on rules of origin annexed to the Agreements concluded between the Member States and either the European Community or each of the said countries, provided these materials have undergone treatment in the Member State concerned going beyond that referred to in Article 7 of this Annex. The materials need not to have undergone sufficient working or processing.
2.     Where working or processing in a Member State does not go beyond the treatment referred to in Article 7, the product obtained shall be considered as originating in the Member State concerned only if the value added there exceeds that of any incorporated materials originating either in the European Community or in one of the other countries referred to in paragraph 1. If it does not, the product concerned shall be considered as originating either in the European Community or in the country which accounts for the highest value of originating materials used in working or processing in the Member State concerned.
3.     Products originating either in the European Community or in one of the countries referred to in paragraph 1 and not having undergone any treatment in the Member State concerned shall retain the status of originating product if they are exported to either the European Community or one of those countries.
4.     The cumulation provided for in this Article may be applied only where the materials or products incorporated have acquired the status of originating product by application of rules of origin identical to those set out in this Annex.


ARTICLE 5
Wholly obtained products

1.     The following shall be considered as wholly obtained in a Member State:
(a)    mineral products extracted from their soil or from their seabed;
(b)    vegetable products harvested there;
(c)    live animals born and raised there;
(d)    products from live animals raised there;
(e)    products obtained by hunting or fishing conducted there;
(f)    products of sea fishing and other products taken from the sea outside the territorial waters of the Member States by their vessels;
(g)    products made aboard their factory ships exclusively from products referred to in sub-paragraph (f);
(h)    used articles collected there fit only for the recovery of raw materials, including used tyres fit only for retreading or for use as waste;

(i)    waste and scrap resulting from manufacturing operations conducted there;
(j)    products extracted from marine soil or subsoil outside their territorial waters provided that they have sole rights to work that soil or subsoil;
(k)    goods produced there exclusively from the products specified in sub-paragraphs (a) to (j).
2.     The terms “their vessels” and “their factory ships” in sub-paragraphs 1(f) and (g) shall apply only to vessels and factory ships:
(a)    which are registered or recorded in a Member State;
(b)    which sail under the flag of a Member State;
(c)    which are owned to an extent of at least 50 per cent by nationals of a Member State, or by a company with its head office in one of these States, of which the manager or managers, Chairman of the Board of Directors or the Supervisory Board, and the majority of the members of such boards are nationals of a Member State and of which, in addition, in the case of partnerships or limited companies, at least half the capital belongs to those States or to public bodies or nationals of the said States;
(d)    of which the master and officers are nationals of a Member State; and
(e)    of which at least 75 per cent of the crew are nationals of a Member State.

ARTICLE 6
Sufficiently worked or processed products


1.     For the purposes of Article 2, products which are not wholly obtained are considered to be sufficiently worked or processed when the conditions set out in the list in Appendix II are fulfilled.
    The conditions referred to above indicate, for all products covered by this Convention, the working or processing which must be carried out on non-originating materials used in manufacturing and apply only in relation to such materials. Accordingly, it follows that if a product, which has acquired originating status by fulfilling the conditions set out in the list is used in the manufacture of another product, the conditions applicable to the product in which it is incorporated do not apply to it, and no account shall be taken of the non-originating materials which may have been used in its manufacture.
2.     Notwithstanding paragraph 1, non-originating materials which, according to the conditions set out in the list, should not be used in the manufacture of a product may nevertheless be used, provided that:
(a)    their total value does not exceed 10 per cent of the ex-works price of the product;

(b)    any of the percentages given in the list for the maximum value of non-originating materials are not exceeded through the application of this paragraph.
    This paragraph shall not apply to products falling within Chapters 50 to 63 of the Harmonized System.
3.     Paragraphs 1 and 2 shall apply except as provided in Article 7.

ARTICLE 7
Insufficient working or processing

1.     Without prejudice to paragraph 2, the following operations shall be considered as insufficient working or processing to confer the status of originating products, whether or not the requirements of Article 6 are satisfied:
(a)    preserving operations to ensure that the products remain in good condition during transport and storage;
(b)    breaking-up and assembly of packages;
(c)    washing, cleaning; removal of dust, oxide, oil, paint or other coverings;

(d)    ironing or pressing of textiles;
(e)    simple painting and polishing operations;
(f)    husking, partial or total bleaching, polishing, and glazing of cereals and rice;
(g)    operations to colour sugar or form sugar lumps;
(h)    peeling, stoning and shelling, of fruits, nuts and vegetables;
(i)    sharpening, simple grinding or simple cutting;
(j)    sifting, screening, sorting, classifying, grading, matching; (including the making-up of sets of articles);
(k)    simple placing in bottles, cans, flasks, bags, cases, boxes, fixing on cards or boards and all other simple packaging operations;
(l)    affixing or printing marks, labels, logos and other like distinguishing signs on products or their packaging;
(m)    simple mixing of products, whether or not of different kinds;
(n)    simple assembly of parts of articles to constitute a complete article or disassembly of products into parts;
(o)    a combination of two or more operations specified in subparagraphs (a) to (n);
(p)    slaughter of animals.
2.     All operations carried out in one of the Member States on a given product shall be considered together when determining whether the working or processing undergone by that product is to be regarded as insufficient within the meaning of paragraph 1.

ARTICLE 8
Unit of qualification

1.     The unit of qualification for the application of the provisions of this Annex shall be the particular product which is considered as the basic unit when determining classification using the nomenclature of the Harmonized System.
    Accordingly, it follows that:
(a)    when a product composed of a group or assembly of articles is classified under the terms of the Harmonized System in a single heading, the whole constitutes the unit of qualification;
(b)    when a consignment consists of a number of identical products classified under the same heading of the Harmonized System, each product must be taken individually when applying the provisions of this Annex.
2.     Where, under general rule 5 of the Harmonized System, packaging is included with the product for classification purposes, it shall be included for the purposes of determining origin.

ARTICLE 9
Accessories, spare parts and tools

    Accessories, spare parts and tools dispatched with a piece of equipment, machine, apparatus or vehicle, which are part of the normal equipment and included in the price thereof or which are not separately invoiced, shall be regarded as one with the piece of equipment, machine, apparatus or vehicle in question.

ARTICLE 10
Sets

    Sets, as defined in general rule 3 of the Harmonized System, shall be regarded as originating when all component products are originating. Nevertheless, when a set is composed of originating and non-originating products, the set as a whole shall be regarded as originating, provided that the value of the non-originating products does not exceed 15 per cent of the ex-works price of the set.


ARTICLE 11
Neutral elements

    In order to determine whether a product originates, it shall not be necessary to determine the origin of the following which might be used in its manufacture :
(a)    energy and fuel;
(b)    plant and equipment;
(c)    machines and tools;
(d)    goods which do not enter and which are not intended to enter into the final composition of the product.

TITLE III
TERRITORIAL REQUIREMENTS

ARTICLE 12
Principle of territoriality

1.     The conditions set out in Title II relative to the acquisition of originating status must be fulfilled without interruption in one of the Member States, except as provided for in Article 4 and paragraph 3 below.
2.     If originating goods exported from one Member State to another country other than a Member State are returned, except in so far as provided for in Article 4 they must be considered as non-originating, unless it can be demonstrated to the satisfaction of the customs authorities that:
(a)    the goods returned are the same goods as those exported; and
(b)    they have not undergone any operation beyond that necessary to preserve them in good condition while in that country or while being exported.
3.     The acquisition of originating status in a Member State under the conditions set out in Title II shall not be affected by working or processing carried out outside the Member State concerned on materials exported from that Member State and subsequently reimported there, provided that:
(a)    the said materials are wholly obtained in a Member State or have undergone there working or processing going beyond the insufficient operations listed in Article 7 prior to their exportation; and
(b)    it can be demonstrated to the satisfaction of the customs authorities that:
    (i)    the reimported goods result from the working or processing of the exported materials; and
    (ii)    the total added value acquired outside the Member State concerned through the application of this Article does not exceed 10 per cent of the ex-works price of the final product for which originating status is claimed.

4.     For the purposes of paragraph 3, the conditions set out in Title II relative to the acquisition of originating status shall not apply in respect of working or processing carried out outside the Member State concerned. Nevertheless, where, in the list in Appendix II, a rule giving the maximum value of all the non-originating materials used is applied in determining the originating status of the final product concerned, the total value of the non-originating materials used in the Member State concerned and the total value acquired outside that Member State through the application of this Article taken together shall not exceed the percentage given.
5.     For the purposes of paragraphs 3 and 4, “total added value” shall mean all costs accumulated outside the Member State concerned, including all the value of the materials added there.
6.     Paragraphs 3 and 4 shall not apply to products which do not fulfill the conditions set out in the list in Appendix II and which can only be considered as sufficiently worked or processed as a result of the application of the general tolerance in Article 6 (2).
7.     Paragraphs 3 and 4 shall not apply to products falling within Chapters 50 to 63 of the Harmonized System.
8.     Any working or processing of the kind covered by the provisions of this Article carried out outside a Member State shall be effected by means of outward processing arrangements, or similar arrangements.

ARTICLE 13
Direct transport

1.     The preferential treatment provided for under the Convention applies only to products, satisfying the requirements of this Annex, which are transported directly between the Member States or through the territories of the other countries or the European Community as referred to in Article 4. However, products constituting one single consignment may be transported through other territories with, should the occasion arise, trans-shipment or temporary warehousing in such territories, provided that they remain under the surveillance of the customs authorities in the country of transit or warehousing and do not undergo operations other than unloading, reloading or any operation designed to preserve them in good condition.
    Originating products may be transported by pipeline across territory other than that of a Member State.
2.     Evidence that the conditions set out in paragraph 1 have been fulfilled shall be supplied to the customs authorities of the importing country by the production of:
(a)    a single transport document covering the passage from the exporting country through the country of transit; or
(b)    a certificate issued by the customs authorities of the country of transit:
    (i)    giving an exact description of the products;
    (ii)    stating the dates of unloading and reloading of the products and, where applicable, the names of the ships, or the other means of transport used; and
    (iii)    certifying the conditions under which the products remained in the transit country; or
(c)    failing these, any substantiating documents.


ARTICLE 14
Exhibitions

1.     Originating products, sent from one of the Member States for exhibition outside the Member States, the countries or the European Community as referred to in Article 4 and sold after the exhibition for importation in another Member State shall benefit on importation from the provisions of the Convention provided it is shown to the satisfaction of the customs authorities that :
(a)    an exporter has consigned these products from a Member State to the country in which the exhibition is held and has exhibited them there;
(b)    the products have been sold or otherwise disposed of by that exporter to a person in another Member State;
(c)    the products have been consigned during the exhibition or immediately thereafter in the state in which they were sent for exhibition; and

(d)    the products have not, since they were consigned for exhibition, been used for any purpose other than demonstration at the exhibition.
2.     A proof of origin must be issued or made out in accordance with the provisions of Title V and submitted to the customs authorities of the importing country in the normal manner. The name and address of the exhibition must be indicated thereon. Where necessary, additional documentary evidence of the conditions under which they have been exhibited may be required.
3.     Paragraph 1 shall apply to any trade, industrial, agricultural or crafts exhibition, fair or similar public show or display which is not organized for private purposes in shops or business premises with a view to the sale of foreign products, and during which the products remain under customs control.


TITLE IV
DRAWBACK OR EXEMPTION

ARTICLE 15
Prohibition of drawback of, or exemption from, customs duties

1.     Non-originating materials used in the manufacture of products originating in a Member State, or in one of the other countries or the European Community as referred to in Article 4 for which a proof of origin is issued or made out in accordance with the provisions of Title V shall not be subject in any of the Member States to drawback of, or exemption from, customs duties of whatever kind.
2.     The prohibition in paragraph 1 shall apply to any arrangement for refund, remission or non-payment, partial or complete, of customs duties or charges having an equivalent effect, applicable in any of the Member States to materials used in the manufacture, where such refund, remission or non-payment applies, expressly or in effect, when products obtained from the said materials are exported and not when they are retained for home use there.

3.     The exporter of products covered by a proof of origin shall be prepared to submit at any time, upon request from the customs authorities, all appropriate documents proving that no drawback has been obtained in respect of the non-originating materials used in the manufacture of the products concerned and that all customs duties or charges having equivalent effect applicable to such materials have actually been paid.
4.     The provisions of paragraphs 1 to 3 shall also apply in respect of packaging within the meaning of Article 8 (2), accessories, spare parts and tools within the meaning of Article 9 and products in a set within the meaning of Article 10 when such items are non-originating.
5.     The provisions of paragraphs 1 to 4 shall apply only in respect of materials which are of the kind to which the Convention applies. Furthermore, they shall not preclude the application of a system of export refund for agricultural products, applicable upon export in accordance with the provisions of the Convention.

TITLE V
PROOF OF ORIGIN

ARTICLE 16
General requirements

1.     Originating products within the meaning of this Annex shall, on importation into one of the Member States, benefit from this Convention upon submission of either:
(a)    a movement certificate EUR.1, a specimen of which appears in Appendix III; or
(b)    in the cases specified in Article 21(1), a declaration, the text of which appears in Appendix IV, given by the exporter on an invoice, a delivery note or any other commercial document which describes the products concerned in sufficient detail to enable them to be identified (hereinafter referred to as the “invoice declaration”).
2.     Notwithstanding paragraph 1, originating products within the meaning of this Annex shall, in the cases specified in Article 26, benefit from this Convention without it being necessary to submit any of the documents referred to above.

ARTICLE 17
Procedure for the issue of a movement certificate EUR.1

1.     A movement certificate EUR.1 shall be issued by the customs authorities of the exporting country on application having been made in writing by the exporter or, under the exporter's responsibility, by his authorized representative.
2.     For this purpose, the exporter or his authorized representative shall fill out both the movement certificate EUR.1 and the application form, specimens of which appear in Appendix III. These forms shall be completed in one of the languages in which this Convention is drawn up and in accordance with the provisions of the domestic law of the exporting country. If they are handwritten, they shall be completed in ink in printed characters. The description of the products must be given in the box reserved for this purpose without leaving any blank lines. Where the box is not completely filled, a horizontal line must be drawn below the last line of the description, the empty space being crossed through.
3.     The exporter applying for the issue of a movement certificate EUR.1 shall be prepared to submit at any time, at the request of the customs authorities of the exporting country where the movement certificate EUR.1 is issued, all appropriate documents proving the originating status of the products concerned as well as the fulfilment of the other requirements of this Annex.
4.     A movement certificate EUR.1 shall be issued by the customs authorities of a Member State if the products concerned can be considered as products originating in a Member State, or in one of the other countries or the European Community as referred to in Article 4 and fulfill the other requirements of this Annex.
5.     The issuing customs authorities shall take any steps necessary to verify the originating status of the products and the fulfilment of the other requirements of this Annex. For this purpose, they shall have the right to call for any evidence and to carry out any inspection of the exporter's accounts or any other check considered appropriate. The issuing customs authorities shall also ensure that the forms referred to in paragraph 2 are duly completed. In particular, they shall check whether the space reserved for the description of the products has been completed in such a manner as to exclude all possibility of fraudulent additions.
6.     The date of issue of the movement certificate EUR.1 shall be indicated in Box 11 of the certificate.
7.     A movement certificate EUR.1 shall be issued by the customs authorities and made available to the exporter as soon as actual exportation has been effected or ensured.

ARTICLE 18
Movement certificates EUR.1 issued retrospectively

1.     Notwithstanding Article 17(7), a movement certificate EUR.1 may exceptionally be issued after exportation of the products to which it relates if:

(a)    it was not issued at the time of exportation because of errors or involuntary omissions or special circumstances; or
(b)    it is demonstrated to the satisfaction of the customs authorities that a movement certificate EUR.1 was issued but was not accepted at importation for technical reasons.
2.     For the implementation of paragraph 1, the exporter must indicate in his application the place and date of exportation of the products to which the movement certificate EUR.1 relates, and state the reasons for his request.
3.     The customs authorities may issue a movement certificate EUR.1 retrospectively only after verifying that the information supplied in the exporter's application agrees with that in the corresponding file.

4.     Movement certificates EUR.1 issued retrospectively must be endorsed with one of the following phrases:
    “NACHTRÄGLICH AUSGESTELLT”,
    “DELIVRE A POSTERIORI”,
    “RILASCIATO A POSTERIORI”,
    “ISSUED RETROSPECTIVELY”,
    “ÚTGEFIÐ EFTIR Á”,
    “UTSTEDT SENERE”
5.     The endorsement referred to in paragraph 4 shall be inserted in the “Remarks” box of the movement certificate EUR.1.

ARTICLE 19
Issue of a duplicate movement certificate EUR.1

1.     In the event of theft, loss or destruction of a movement certificate EUR.1, the exporter may apply to the customs authorities which issued it for a duplicate made out on the basis of the export documents in their possession.
2.     The duplicate issued in this way must be endorsed with one of the following words:
    “DUPLIKAT”, “DUPLICATA”,
    “DUPLICATO”, “DUPLICATE”, “EFTIRRIT”
3.     The endorsement referred to in paragraph 2 shall be inserted in the “Remarks” box of the duplicate movement certificate EUR.1.
4.     The duplicate, which must bear the date of issue of the original movement certificate EUR.1, shall take effect as from that date.

ARTICLE 20
Issue of movement certificates EUR.1 on the basis of a proof of origin issued or made out previously

    When originating products are placed under the control of a customs office in a Member State, it shall be possible to replace the original proof of origin by one or more movement certificates EUR.1 for the purpose of sending all or some of these products elsewhere within a Member State. The replacement movement certificate(s) EUR.1 shall be issued by the customs office under whose control the products are placed.

ARTICLE 20 a
Accounting segregation

1.     Where considerable cost or material difficulties arise in keeping separate stocks of originating and non-originating materials which are identical and interchangeable, the customs authorities may, at the written request of those concerned, authorise the so-called “accounting segregation” method to be used for managing such stocks.

2.     This method must be able to ensure that, for a specific reference-period, the number of products obtained which could be considered as “originating” is the same as that which would have been obtained if there had been physical segregation of the stocks.
3.     The customs authorities may grant such authorisation, subject to any conditions deemed appropriate.
4.     This method is recorded and applied on the basis of the general accounting principles applicable in the country where the product was manufactured.
5.     The beneficiary of this facilitation may issue or apply for proofs of origin, as the case may be, for the quantity of products which may be considered as originating. At the request of the customs authorities, the beneficiary shall provide a statement of how the quantities have been managed.
6.     The customs authorities shall monitor the use made of the authorisation and may withdraw it at any time whenever the beneficiary makes improper use of the authorisation in any manner whatsoever or fails to fulfil any of the other conditions laid down in this Protocol.

ARTICLE 21
Conditions for making out an invoice declaration


1.     An invoice declaration as referred to in Article 16(1)(b) may be made out:

(a)    by an approved exporter within the meaning of Article 22, or
(b)    by any exporter for any consignment consisting of one or more packages containing originating products whose total value does not exceed 6,000 euros.
2.     An invoice declaration may be made out if the products concerned can be considered as products originating in a Member State, or in one of the other countries or the European Community as referred to in Article 4 and fulfill the other requirements of this Annex.
3.     The exporter making out an invoice declaration shall be prepared to submit at any time, at the request of the customs authorities of the exporting country, all appropriate documents proving the originating status of the products concerned as well as the fulfilment of the other requirements of this Annex.
4.     An invoice declaration shall be made out by the exporter by typing, stamping or printing on the invoice, the delivery note or another commercial document, the declaration, the text of which appears in Appendix IV, using one of the linguistic versions set out in that Appendix and in accordance with the provisions of the domestic law of the exporting country. If the declaration is handwritten, it shall be written in ink in printed characters.
5.     Invoice declarations shall bear the original signature of the exporter in manuscript. However, an approved exporter within the meaning of Article 22 shall not be required to sign such declarations provided that he gives the customs authorities of the exporting country a written undertaking that he accepts full responsibility for any invoice declaration which identifies him as if it had been signed in manuscript by him.
6.     An invoice declaration may be made out by the exporter when the products to which it relates are exported, or after exportation on condition that it is presented in the importing country no longer than two years after the importation of the products to which it relates.

ARTICLE 22
Approved exporter

1.     The customs authorities of the exporting country may authorize any exporter, hereafter referred to as “approved exporter”, who makes frequent shipments of products under this Convention to make out invoice declarations irrespective of the value of the products concerned. An exporter seeking such authorization must offer to the satisfaction of the customs authorities all guarantees necessary to verify the originating status of the products as well as the fulfilment of the other requirements of this Annex.
2.     The customs authorities may grant the status of approved exporter subject to any conditions which they consider appropriate.
3.     The customs authorities shall grant to the approved exporter a customs authorization number which shall appear on the invoice declaration.
4.     The customs authorities shall monitor the use of the authorization by the approved exporter.
5.     The customs authorities may withdraw the authorization at any time. They shall do so where the approved exporter no longer offers the guarantees referred to in paragraph 1, does not fulfill the conditions referred to in paragraph 2 or otherwise makes an incorrect use of the authorization.

ARTICLE 23
Validity of proof of origin

1.     A proof of origin shall be valid for four months from the date of issue in the exporting country, and must be submitted within the said period to the customs authorities of the importing country.
2.     Proofs of origin which are submitted to the customs authorities of the importing country after the final date for presentation specified in paragraph 1 may be accepted for the purpose of applying preferential treatment, where the failure to submit these documents by the final date set is due to exceptional circumstances.
3.     In other cases of belated presentation, the customs authorities of the importing country may accept the proofs of origin where the products have been submitted before the said final date.

ARTICLE 24
Submission of proof of origin

    Proofs of origin shall be submitted to the customs authorities of the importing country in accordance with the procedures applicable in that country. The said authorities may require a translation of a proof of origin and may also require the import declaration to be accompanied by a statement from the importer to the effect that the products meet the conditions required for the implementation of this Convention.

ARTICLE 25
Importation by instalments

    Where, at the request of the importer and on the conditions laid down by the customs authorities of the importing country, dismantled or non-assembled products within the meaning of general rule 2(a) of the Harmonized System falling within Sections XVI and XVII or heading Nos. 7308 and 9406 of the Harmonized System are imported by instalments, a single proof of origin for such products shall be submitted to the customs authorities upon importation of the first instalment.

ARTICLE 26
Exemptions from proof of origin

1.     Products sent as small packages from private persons to private persons or forming part of travellers' personal luggage shall be admitted as originating products without requiring the submission of a proof of origin, provided that such products are not imported by way of trade and have been declared as meeting the requirements of this Annex and where there is no doubt as to the veracity of such a declaration. In the case of products sent by post, this declaration can be made on the customs declaration CN22 / CN23 or on a sheet of paper annexed to that document.
2.     Imports which are occasional and consist solely of products for the personal use of the recipients or travellers or their families shall not be considered as imports by way of trade if it is evident from the nature and quantity of the products that no commercial purpose is in view.
3.     Furthermore, the total value of these products shall not exceed 500 euros in the case of small packages or 1200 euros in the case of products forming part of travellers' personal luggage.

ARTICLE 27
Supporting documents

    The documents referred to in Articles 17(3) and 21(3) used for the purpose of proving that products covered by a movement certificate EUR.1 or an invoice declaration can be considered as products originating in a Member State, or in one of the other countries or the European Communityas referred to in Article 4 and fulfill the other requirements of this Annex may consist inter alia of the following:
(a)    direct evidence of the processes carried out by the exporter or supplier to obtain the goods concerned, contained for example in his accounts or internal bookkeeping;
(b)    documents proving the originating status of materials used, issued or made out in the Member State where these documents are used in accordance with domestic law of that Member State;
(c)    documents proving the working or processing of materials in the a Member State, issued or made out in the Member State concerned, where these documents are used in accordance with domestic law of that Member State;
(d)    movement certificates EUR.1 or invoice declarations proving the originating status of materials used, issued or made out in another Member State in accordance with this Annex, or in one of the other countries or the European Community as referred to in Article 4, in accordance with that Article.
(e)    appropriate evidence concerning working or processing undergone outside the territories of the Member States by application of Article 12, proving that the requirements of that Article have been satisfied.

ARTICLE 28
Preservation of proof of origin and supporting documents

1.     The exporter applying for the issue of a movement certificate EUR.1 shall keep for at least three years the documents referred to in Article 17(3).
2.     The exporter making out an invoice declaration shall keep for at least three years a copy of this invoice declaration as well as the documents referred to in Article 21(3).
3.     The customs authorities of the exporting country issuing a movement certificate EUR.1 shall keep for at least three years the application form referred to in Article 17(2).
4.     The customs authorities of the importing country shall keep for at least three years the movement certificates EUR.1 and the invoice declarations submitted to them.

ARTICLE 29
Discrepancies and formal errors

1.     The discovery of slight discrepancies between the statements made in the proof of origin and those made in the documents submitted to the customs office for the purpose of carrying out the formalities for importing the products shall not ipso facto render the proof of origin null and void if it is duly established that this document does correspond to the products submitted.

2.     Obvious formal errors such as typing errors on a proof of origin should not cause this document to be rejected if these errors are not such as to create doubts concerning the correctness of the statements made in this document.

ARTICLE 30
Amounts expressed in euro

1.     For the application of the provisions of Article 21 (1)(b) and Article 26 (3) in cases where products are invoiced in a currency other than euro, amounts in the national currencies of the Member States and the countries referred to in Article 4 equivalent to the amounts expressed in euro shall be fixed annually by each of the countries concerned.
2.     A consignment shall benefit from the provisions of Article 21 (1)(b) or Article 26 (3) by reference to the currency in which the invoice is drawn up, according to the amount fixed by the country concerned.
3.     The amount to be used in any given national currency shall be the equivalent in that currency of the amounts expressed in euro as at the first working day of October and shall apply from 1 January the following year. The countries concerned shall be notified of the relevant amounts.
4.     A country may round up or down the amount resulting from the conversion into its national currency of an amount expressed in euro. The rounded-off amount may not differ from the amount resulting from the conversion by more than 5 per cent.
    A country may retain unchanged its national currency equivalent of an amount expressed in euro if, at the time of the annual adjustment provided for in paragraph 3, the conversion of that amount, prior to any rounding-off, results in an increase of less than 15 per cent in the national currency equivalent. The national currency equivalent may be retained unchanged if the conversion would result in a decrease in that equivalent value.
5.     The amount expressed in euro shall be reviewed by the Council at the request of any Member State. When carrying out this review, the Council shall consider the desirability of preserving the effects of the limits concerned in real terms. For this purpose, it may decide to modify the amounts expressed in euro.

TITLE VI
ARRANGEMENTS FOR ADMINISTRATIVE COOPERATION

ARTICLE 31
Mutual assistance

    In order to ensure the proper application of this Annex, the Member States shall assist each other, through the competent customs administrations, in checking the authenticity of the movement certificates EUR.1 and the invoice declarations and the correctness of the information given in these documents.

ARTICLE 32
Verification of proofs of origin

1.     Subsequent verifications of proofs of origin shall be carried out at random or whenever the customs authorities of the importing country have reasonable doubts as to the authenticity of such documents, the originating status of the products concerned or the fulfilment of the other requirements of this Annex.
2.     For the purposes of implementing the provisions of paragraph 1, the customs authorities of the importing country shall return the movement certificate EUR.1 and the invoice, if it has been submitted, the invoice declaration, or a copy of these documents, to the customs authorities of the exporting country giving, where appropriate, the reasons for the enquiry. Any documents and information obtained suggesting that the information given on the proof of origin is incorrect shall be forwarded in support of the request for verification.
3.     The verification shall be carried out by the customs authorities of the exporting country. For this purpose, they shall have the right to call for any evidence and to carry out any inspection of the exporter's accounts or any other check considered appropriate.
4.     If the customs authorities of the importing country decide to suspend the granting of preferential treatment to the products concerned while awaiting the results of the verification, release of the products shall be offered to the importer subject to any precautionary measures judged necessary.
5.     The customs authorities requesting the verification shall be informed of the results of this verification as soon as possible. These results must indicate clearly whether the documents are authentic and whether the products concerned can be considered as products originating in a Member State or one of the other countries or the European Community as referred to in Article 4 and fulfill the other requirements of this Annex.
6.     If in cases of reasonable doubt there is no reply within ten months of the date of the verification request or if the reply does not contain sufficient information to determine the authenticity of the document in question or the real origin of the products, the requesting customs authorities shall, except in exceptional circumstances, refuse entitlement to the preferences.

ARTICLE 33
Dispute settlement

    Where disputes arise in relation to the verification procedures of Article 32 which cannot be settled between the customs authorities requesting a verification and the customs authorities responsible for carrying out this verification or where they raise a question as to the interpretation of this Annex, they shall be submitted to the Council.
    In all cases the settlement of disputes between the importer and the customs authorities of the importing country shall be under the legislation of the said country.

ARTICLE 34
Penalties

    Penalties shall be imposed on any person who draws up, or causes to be drawn up, a document which contains incorrect information for the purpose of obtaining a preferential treatment for products.

ARTICLE 35
Free zones

1.     The Member States shall take all necessary steps to ensure that products traded under cover of a proof of origin which in the course of transport use a free zone situated in their territory, are not substituted by other goods and do not undergo handling other than normal operations designed to prevent their deterioration.
2.     By means of an exemption to the provisions contained in paragraph 1, when products originating in a Member State are imported into a free zone under cover of a proof of origin and undergo treatment or processing, the authorities concerned shall issue a new EUR.1 certificate at the exporter's request, if the treatment or processing undergone is in conformity with the provisions of this Annex.


APPENDIX I TO ANNEX A

Introductory notes to the list in Appendix II


Note 1:
The list sets out the conditions required for all products to be considered as sufficiently worked or processed within the meaning of Article 6 of the Annex.


Note 2:
2.1        The first two columns in the list describe the product obtained. The first column gives the heading number or chapter number used in the Harmonized System and the second column gives the description of goods used in that system for that heading or chapter. For each entry in the first two columns a rule is specified in columns 3 or 4. Where, in some cases, the entry in the first column is preceded by an 'ex', this signifies that the rules in columns 3 or 4 apply only to the part of that heading as described in column 2.
2.2        Where several heading numbers are grouped together in column 1 or a chapter number is given and the description of products in column 2 is therefore given in general terms, the adjacent rules in columns 3 or 4 apply to all products which, under the Harmonized System, are classified in headings of the chapter or in any of the headings grouped together in column 1.
2.3        Where there are different rules in the list applying to different products within a heading, each indent contains the description of that part of the heading covered by the adjacent rules in columns 3 or 4.
2.4        Where, for an entry in the first two columns, a rule is specified in both columns 3 and 4, the exporter may opt, as an alternative, to apply either the rule set out in column 3 or that set out in column 4. If no origin rule is given in column 4, the rule set out in column 3 has to be applied.

Note 3:
3.1        The provisions of Article 6 of the Protocol concerning products having acquired originating status which are used in the manufacture of other products apply regardless of whether this status has been acquired inside the factory where these products are used or in another factory in a State Party.
        Example:
        An engine of heading No 8407, for which the rule states that the value of the non-originating materials which may be incorporated may not exceed 40 per cent of the ex-works price, is made from “other alloy steel roughly shaped by forging” of heading No ex 7224.
        If this forging has been forged in the State Party concerned from a non-originating ingot, it has already acquired originating status by virtue of the rule for heading No ex 7224 in the list. The forging can then count as originating in the value calculation for the engine regardless of whether it was produced in the same factory or in another factory in the State Party concerned. The value of the non-originating ingot is thus not taken into account when adding up the value of the non-originating materials used.
3.2        The rule in the list represents the minimum amount of working or processing required and the carrying out of more working or processing also confers originating status; conversely, the carrying out of less working or processing cannot confer originating status. Thus if a rule provides that non-originating material at a certain level of manufacture may be used, the use of such material at an earlier stage of manufacture is allowed and the use of such material at a later stage is not.
3.3        Without prejudice to Note 3.2 where a rule states that “materials of any heading” may be used, materials of the same heading as the product may also be used, subject, however, to any specific limitations which may also be contained in the rule. However, the expression “manufacture from materials of any heading, including other materials of heading No …” means that only materials classified in the same heading as the product of a different description than that of the product as given in column 2 of the list may be used.
3.4        When a rule in the list specifies that a product may be manufactured from more than one material, this means that any one or more materials may be used. It does not require that all be used.
        Example:
        The rule for fabrics of heading No 5208 to 5212 provides that natural fibres may be used and that chemical materials, among other materials, may also be used. This does not mean that both have to be used; it is possible to use one or the other or both.
3.5        Where a rule in the list specifies that a product must be manufactured from a particular material, the condition obviously does not prevent the use of other materials which, because of their inherent nature, cannot satisfy the rule. (See also Note 6.2 below in relation to textiles).
         Example:
        The rule for prepared foods of heading No 1904 which specifically excludes the use of cereals and their derivatives does not prevent the use of mineral salts, chemicals and other additives which are not products from cereals.
        However, this does not apply to products which, although they cannot be manufactured from the particular material specified in the list, can be produced from a material of the same nature at an earlier stage of manufacture.
         Example:
        In the case of an article of apparel of ex Chapter 62 made from non-woven materials, if the use of only non-originating yarn is allowed for this class of article, it is not possible to start from non-woven cloth – even if non-woven cloths cannot normally be made from yarn. In such cases, the starting material would normally be at the stage before yarn – that is the fibre stage.

3.6        Where, in a rule in the list, two percentages are given for the maximum value of non-originating materials that can be used, then these percentages may not be added together. In other words, the maximum value of all the non-originating materials used may never exceed the highest of the percentages given. Furthermore, the individual percentages must not be exceeded in relation to the particular materials they apply to.

Note 4:
4.1        The term “natural fibres” is used in the list to refer to fibres other than artificial or synthetic fibres. It is restricted to the stages before spinning takes place, including waste, and, unless otherwise specified, includes fibres that have been carded, combed or otherwise processed but not spun.

4.2        The term “natural fibres” includes horsehair of heading No 0503, silk of heading Nos 5002 and 5003 as well as the wool fibres, fine or coarse animal hair of heading Nos 5101 to 5105, the cotton fibres of heading Nos 5201 to 5203 and the other vegetable fibres of heading Nos 5301 to 5305.
4.3        The terms “textile pulp”, “chemical materials” and “paper-making materials” are used in the list to describe the materials not classified in Chapters 50 to 63, which can be used to manufacture artificial, synthetic or paper fibres or yarns.
4.4        The term “man-made staple fibres” is used in the list to refer to synthetic or artificial filament tow, staple fibres or waste, of heading Nos 5501 to 5507.

Note 5:
5.1        Where for a given product in the list a reference is made to this note, the conditions set out in column 3 shall not be applied to any basic textile materials, used in the manufacture of this product, which, taken together, represent 10 per cent or less of the total weight of all the basic textile materials used. (See also Notes 5.3 and 5.4 below).
5.2        However, the tolerance mentioned in Note 5.1 may only be applied to mixed products which have been made from two or more basic textile materials.
        The following are the basic textile materials:
         –    silk,
         –    wool,
         –    coarse animal hair,
         –    fine animal hair,
         –    horsehair,
         –    cotton,
         –    paper-making materials and paper,
         –    flax,
         –    true hemp,
         –    jute and other textile bast fibres,
         –    sisal and other textile fibres of the genus Agave,
         –    coconut, abaca, ramie and other vegetable textile fibres,
         –    synthetic man-made filaments,
         –    artificial man-made filaments,
         –    current conducting filaments,
         –    synthetic man-made staple fibres of polypropylene,
         –    synthetic man-made staple fibres of polyester,
         –    synthetic man-made staple fibres of polyamide,
         –    synthetic man-made staple fibres of polyacrylonitrile,
         –    synthetic man-made staple fibres of polyimide,
         –    synthetic man-made staple fibres of polytetrafluoroethylene,
         –    synthetic man-made staple fibres of polyphenylene sulphide,
         –    synthetic man-made staple fibres of polyvinyl chloride,
         –    other synthetic man-made staple fibres,
         –    artificial man-made staple fibres of viscose,
         –    other artificial man-made staple fibres,
         –    yarn made of polyurethane segmented with flexible segments of polyether whether or not gimped,
         –    yarn made of polyurethane segmented with flexible segments of polyester whether or not gimped,
         –    products of heading No 5605 (metallized yarn) incorporating strip consisting of a core of aluminium foil or of a core of plastic film whether or not coated with aluminium powder, of a width not exceeding 5 mm, sandwiched by means of a transparent or coloured adhesive between two layers of plastic film,
         –    other products of heading No 5605.
         Example:
        A yarn of heading No 5205 made from cotton fibres of heading No 5203 and synthetic staple fibres of heading No 5506 is a mixed yarn. Therefore, non-originating synthetic staple fibres that do not satisfy the origin rules (which require manufacture from chemical materials or textile pulp) may be used up to a weight of 10 per cent of the yarn.
        Example:
        A woollen fabric of heading No 5112 made from woollen yarn of heading No 5107 and synthetic yarn of staple fibres of heading No 5509 is a mixed fabric. Therefore synthetic yarn which does not satisfy the origin rules (which require manufacture from chemical materials or textile pulp) or woollen yarn that does not satisfy the origin rules (which require manufacture from natural fibres, not carded or combed or otherwise prepared for spinning) or a combination of the two may be used provided their total weight does not exceed 10 per cent of the weight of the fabric.
        Example:
        Tufted textile fabric of heading No 5802 made from cotton yarn of heading No 5205 and cotton fabric of heading No 5210 is only a mixed product if the cotton fabric is itself a mixed fabric being made from yarns classified in two separate headings or if the cotton yarns used are themselves mixtures.
        Example:
        If the tufted textile fabric concerned had been made from cotton yarn of heading No 5205 and synthetic fabric of heading No 5407, then, obviously, the yarns used are two separate basic textile materials and the tufted textile fabric is accordingly a mixed product.
5.3        In the case of products incorporating “yarn made of polyurethane segmented with flexible segments of polyether whether or not gimped” this tolerance is 20 per cent in respect of this yarn.
5.4        In the case of products incorporating “strip consisting of a core of aluminium foil or of a core of plastic film whether or not coated with aluminium powder, of a width not exceeding 5 mm, sandwiched by means of an adhesive between two films of plastic film”, this tolerance is 30 per cent in respect of this strip.

Note 6:
6.1        In the case of those textile products which are marked in the list by a footnote referring to this note, textile materials, with the exception of linings and interlinings, which do not satisfy the rule set out in the list in column 3 for the made-up product concerned may be used provided that they are classified in a heading other than that of the product and that their value does not exceed 8 per cent of the ex-works price of the product.
6.2        Without prejudice to Note 6.3, materials which are not classified within Chapters 50 to 63 may be used freely in the manufacture of textile products, whether or not they contain textiles.

        Example:
        If a rule in the list provides that for a particular textile item, such as trousers, yarn must be used, this does not prevent the use of metal items, such as buttons, because buttons are not classified within Chapters 50 to 63. For the same reason, it does not prevent the use of slide-fasteners even though slide-fasteners normally contain textiles.
6.3        Where a percentage rule applies, the value of materials which are not classified within Chapters 50 to 63 must be taken into account when calculating the value of the non-originating materials incorporated.

Note 7
7.1        For the purposes of heading Nos ex 2707, 2713 to 2715, ex 2901, ex 2902 and ex 3403, the “specific processes” are the following:
        (a)    vacuum distillation;
        (b)    redistillation by a very thorough fractionation process;
        (c)    cracking;
        (d)    reforming;
        (e)    extraction by means of selective solvents;
        (f)    the process comprising all the following operations: processing with concentrated sulphuric acid, oleum or sulphuric anhydride; neutralization with alkaline agents; decolorization and purification with naturally active earth, activated earth, activated charcoal or bauxite;
        (g)    polymerization;
        (h)    alkylation;
        (i)    isomerization.
7.2        For the purposes of heading Nos 2710, 2711 and 2712, the “specific processes” are the following:
        (a)    vacuum distillation;
        (b)    redistillation by a very thorough fractionation process;
        (c)    cracking;
        (d)    reforming;
        (e)    extraction by means of selective solvents;
        (f)    the process comprising all the following operations: processing with concentrated sulphuric acid, oleum or sulphuric anhydride; neutralization with alkaline agents; decolorization and purification with naturally active earth, activated earth, activated charcoal or bauxite;
        (g)    polymerization;
        (h)    alkylation;
        (ij)    isomerization;
        (k)    in respect of heavy oils falling within heading No ex 2710 only, desulphurization with hydrogen resulting in a reduction of at least 85 per cent of the sulphur content of the products processed (ASTM D 1266-59 T method);

        (l)    in respect of products falling within heading No 2710 only, deparaffining by a process other than filtering;
        (m)    in respect of heavy oils falling within heading No ex 2710 only, treatment with hydrogen at a pressure of more than 20 bar and a temperature of more than 250°C with the use of a catalyst, other than to effect desulphurization, when the hydrogen constitutes an active element in a chemical reaction. The further treatment with hydrogen of lubricating oils of heading No ex 2710 (e.g. hydrofinishing or decolorization) in order, more especially, to improve colour or stability shall not, however, be deemed to be a specific process;
        (n)    in respect of fuel oils falling within heading No ex 2710 only, atmospheric distillation, on condition that less than 30 per cent of these products distils, by volume, including losses, at 300°C by the ASTM D 86 method;

        (o)    in respect of heavy oils other than gas oils and fuel oils falling within heading No ex 2710 only, treatment by means of a high-frequency electrical brush-discharge.
7.3        For the purposes of heading Nos ex 2707, 2713 to 2715, ex 2901, ex 2902 and ex 3403, simple operations such as cleaning, decanting, desalting, water separation, filtering, colouring, marking, obtaining a sulphur content as a result of mixing products with different sulphur contents, any combination of these operations or like operations do not confer origin.

II. VIÐBÆTIR VIÐ A. VIÐAUKA



Skrá yfir tilskilda aðvinnslu
efna sem ekki teljast upprunaefni
til að framleiðsluvaran öðlist upprunaréttindi


Vörur í þessari skrá er ekki allar að finna í samningnum.
Því verður að skoða aðra hluta samningsins.


ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
1. kafli Lifandi dýr Öll dýr í 1. kafla verða að vera heimafengin að öllu leyti
2. kafli Kjöt og ætir hlutar af dýrum Framleiðsla úr efnum í 1. og 2. kafla sem verða að vera heimafengin að öllu leyti
3. kafli Fiskur og krabbadýr, lindýr og aðrir vatnahryggleysingjar Framleiðsla úr efnum í 3. kafla sem verða að vera heimafengin að öllu leyti
úr 4. kafla Mjólkurafurðir; fuglaegg; náttúrlegt hunang; ætar vörur úr dýraríkinu, ót.a., þó ekki:

Framleiðsla úr efnum í 4. kafla sem verða að vera heimafengin að öllu leyti
0403 Áfir, hleypt mjólk og rjómi, jógúrt, kefír og önnur gerjuð eða sýrð mjólk og rjómi, einnig kjarnað eða með viðbættum sykri eða öðru sætuefni, eða bragðbætt eða með ávöxtum, hnetum eða kakaói Framleiðsla:
–    úr efnum í 4. kafla sem verða að vera heimafengin að öllu leyti;
–    úr hvers konar ávaxtasafa (þó ekki ananas-, súraldin- eða greipaldinsafa) í nr. 2009 sem verður þegar að vera upprunavara;
–    úr efnum í 17. kafla sem að verðmæti eru ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 5. kafla Vörur úr dýraríkinu, ót.a., þó ekki: Framleiðsla úr efnum í 5. kafla sem verða að vera heimafengin að öllu leyti
úr 0502 Burstir eða hár af grísum, alisvínum eða villisvínum Hreinsun, sótthreinsun, flokkun og sléttun bursta og hára
6. kafli Lifandi tré og aðrar plöntur; blómlaukar, rætur og þess háttar; afskorin blóm og lauf til skrauts Framleiðsla:
–    úr efnum í 6. kafla sem verða að vera heimafengin að öllu leyti;
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
7. kafli Matjurtir og tilteknar rætur og hnýði Framleiðsla úr efnum í 7. kafla sem verða að vera heimafengin að öllu leyti

APPENDIX II TO ANNEX A

List of working or processing required to be carried out
on non-originating materials in order that the product
manufactured can obtain originating status


The products mentioned in the list may not all be covered by the Convention.
It is therefore necessary to consult the other parts of the Convention.


HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
Chapter 01 Live animals All the animals of Chapter 1 used must be wholly obtained
Chapter 02 Meat and edible meat offal Manufacture in which all the materials of Chapters 1 and 2 used must be wholly obtained
Chapter 03 Fish and crustaceans, molluscs and other aquatic invertebrates Manufacture in which all the materials of Chapter 3 used must be wholly obtained
ex Chapter 04 Dairy produce; birds' eggs; natural honey; edible products of animal origin, not elsewhere specified or included; except for: Manufacture in which all the materials of Chapter 4 used must be wholly obtained
0403 Buttermilk, curdled milk and cream, yoghurt, kephir and other fermented or acidified milk and cream, whether or not concentrated or containing added sugar or other sweetening matter or flavoured or containing added fruit, nuts or cocoa Manufacture in which:
–    all the materials of Chapter 4 used must be wholly obtained;
–    any fruit juice (except those of pineapple, lime or grapefruit) of heading No 2009 used must already be originating;
–    the value of any materials of Chapter 17 used does not exceed 30% of the ex-works price of the product

ex Chapter 05 Products of animal origin, not elsewhere specified or included; except for: Manufacture in which all the materials of Chapter 5 used must be wholly obtained
ex 0502 Prepared pigs', hogs' or boars' bristles and hair Cleaning, disinfecting, sorting and straightening of bristles and hair
Chapter 06 Live trees and other plants; bulbs, roots and the like; cut flowers and ornamental foliage Manufacture in which:
–    all the materials of Chapter 6 used must be wholly obtained;
–    the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
Chapter 07 Edible vegetables and certain roots and tubers Manufacture in which all the materials of Chapter 7 used must be wholly obtained
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
8. kafli Ætir ávextir og hnetur; hýði af sítrusávöxtum eða melónum Framleiðsla:
–    úr ávöxtum og hnetum sem verða að vera heimafengin að öllu leyti;
–    úr efnum í 17. kafla sem að verðmæti eru ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 9. kafla Kaffi, te, maté og krydd, þó ekki: Framleiðsla úr efnum í 9. kafla sem verða að vera heimafengin að öllu leyti
0901 Kaffi, einnig brennt eða koffeínsneytt; kaffiskurn og kaffihýði; kaffilíki sem inniheldur eitthvað af kaffi:
Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er
0902 Te, einnig bragðbætt Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er
úr 0910 Kryddblöndur Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er
10. kafli Korn Framleiðsla úr efnum í 10. kafla sem verða að vera heimafengin að öllu leyti
úr 11. kafla Malaðar vörur; malt; sterkja; inúlín; hveitiglúten, þó ekki: Framleiðsla úr korni, matjurtum, rótum og hnýðum í vörulið nr. 0714 eða ávöxtum sem verða að vera heimafengin að öllu leyti
úr 1106 Mjöl, fín- eða grófmalað, og duft úr þurrkuðum, afhýddum belgávöxtum í nr. 0713
Þurrkun og mölun belgávaxta í nr. 0708
12. kafli Olíufræ og olíurík aldin; ýmiss konar sáðkorn, fræ og aldin; plöntur til notkunar í iðnaði og til lyfja; hálmur og fóður Framleiðsla úr efnum í 12. kafla sem verða að vera heimafengin að öllu leyti
1301 Kvoðulakk; náttúrlegar gúmkvoður; resín, gúmmí-harpixar og oleóresín (t.d. balsöm): Framleiðsla þar sem efni í vörulið nr. 1301 er að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
1302 Jurtasafar og jurtakjarnar; pektínefni, pektínöt og pektöt; agar og önnur jurtaslím og hleypiefni, einnig umbreytt, unnið úr vörum úr jurtaríkinu:

HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
Chapter 08 Edible fruit and nuts; peel of citrus fruits or melons Manufacture in which:
–    all the fruit and nuts used must be wholly obtained;
–    the value of any materials of Chapter 17 used does not exceed 30% of the value of the ex-works price of the product
ex Chapter 09 Coffee, tea, maté and spices; except for: Manufacture in which all the materials of Chapter 9 used must be wholly obtained
0901 Coffee, whether or not roasted or decaffeinated; coffee husks and skins; coffee substitutes containing coffee in any proportion Manufacture from materials of any heading
0902 Tea, whether or not flavoured Manufacture from materials of any heading
ex 0910 Mixtures of spices Manufacture from materials of any heading
Chapter 10 Cereals Manufacture in which all the materials of Chapter 10 used must be wholly obtained
ex Chapter 11 Products of the milling industry; malt; starches; inulin; wheat gluten; except for: Manufacture in which all the cereals, edible vegetables, roots and tubers of heading No 0714 or fruit used must be wholly obtained
ex 1106 Flour, meal and powder of the dried, shelled leguminous vegetables of heading No 0713 Drying and milling of leguminous vegetables of heading No 0708
Chapter 12 Oil seeds and oleaginous fruits; miscellaneous grains, seeds and fruit; industrial or medicinal plants; straw and fodder Manufacture in which all the materials of Chapter 12 used must be wholly obtained
1301 Lac; natural gums, resins, gum-resins and oleoresins (for example, balsams) Manufacture in which the value of any materials of heading No 1301 used may not exceed 50% of the ex-works price of the product
1302 Vegetable saps and extracts; pectic substances, pectinates and pectates; agar-agar and other mucilages and thickeners, whether or not modified, derived from vegetable products:
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
–    Jurtaslím og hleypiefni, einnig umbreytt, unnið úr vörum úr jurtaríkinu: Framleiðsla úr jurtaslími og hleypiefnum sem hefur ekki verið umbreytt
–    Annað Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
14. kafli Fléttiefni úr jurtaríkinu; vörur úr jurtaríkinu, ót.a. Framleiðsla úr efnum í 14. kafla sem verða að vera heimafengin að öllu leyti
Úr 15. kafla Feiti og olíur úr dýra- og jurtaríkinu og klofningsefni þeirra; unnin matarfeiti;vax úr dýra- eða jurtaríkinu, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
1501 Svínafeiti (þar með talin hreinsuð svínafeiti (Lard)) og alifuglafeiti, þó ekki vörur í nr. 0209 eða 1503:
–    Feiti úr beinum eða úrgangsefnum Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, þó ekki í nr. 0203, 0206 eða 0207 eða bein í nr. 0506
–    Annað Framleiðsla úr svínakjöti eða ætum hlutum af svínum í vörulið nr. 0203 eða 0206 eða úr alifuglakjöti eða ætum hlutum af alifuglum í nr.  0207
1502 Fita af dýrum af nautgripaætt, kindum eða geitum, þó ekki vörur í nr.1503:
–    Feiti úr beinum eða úrgangsefnum Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, þó ekki í vöruliðum nr. 0201, 0202, 0204 eða 0206 eða bein í vörulið nr. 0506
–    Annað Framleiðsla úr efnum í 2. kafla sem verða að vera heimafengin að öllu leyti
1504 Feiti og olíur og þættir þeirra, úr fiski eða sjávarspendýrum, einnig hreinsuð en ekki efnafræðilega umbreytt:
–    Fastir þættir Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, einnig öðrum efnum í nr. 1504
–    Annað Framleiðsla úr efnum í 2. og 3. kafla sem verða að vera heimafengin að öllu leyti
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
–    Mucilages and thickeners, modified, derived from vegetable products Manufacture from non-modified mucilages and thickeners
–    Other Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
Chapter 14 Vegetable plaiting materials; vegetable products not elsewhere specified or included Manufacture in which all the materials of Chapter 14 used must be wholly obtained
Ex Chapter 15 Animal or vegetable fats and oils and their cleavage products; prepared edible fats; animals or vegetable waxes; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
1501 Pig fat (including lard) and poultry fat, other than that of heading No 0209 or 1503:
–    Fats from bones or waste Manufacture from materials of any heading except those of heading No 0203, 0206 or 0207 or bones of heading No 0506
–    Other Manufacture from meat or edible offal of swine of heading No 0203 or 0206 or of meat and edible offal of poultry of heading No 0207
1502 Fats of bovine animals, sheep or goats, other than those of heading No 1503
–    Fats from bones or waste Manufacture from materials of any heading except those of heading No 0201, 0202, 0204 or 0206 or bones of heading No 0506
–    Other Manufacture in which all the materials of Chapter 2 used must be wholly obtained
1504 Fats and oils and their fractions, of fish or marine mammals, whether or not refined, but not chemically modified:
–    Solid fractions Manufacture from materials of any heading including other materials of heading No 1504
–    Other Manufacture in which all the materials of Chapters 2 and 3 used must be wholly obtained
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
úr 1505 Hreinsað lanólín Framleiðsla úr hrárri ullarfeiti í nr. 1505
1506 Önnur dýrafeiti og -olíur og þættir þeirra, einnig hreinsað en ekki efnafræðilega umbreytt:
–    Fastir þættir Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, einnig önnur efni í nr. 1506
–    Annað Framleiðsla úr efnum í 2. kafla sem verða að vera heimafengin að öllu leyti
1507 til 1515 Jurtaolía og þættir hennar
–    Sojabauna-, jarðhnetu-, pálma-, kókoshnetu-, pálmakjarna-, babassú-, tung- og oiticica-olía, myrtuvax og japanskt vax, þættir jójóbaolíu og olíur til tækni- og iðnaðarnota annarra en framleiðsla matvæla til manneldis

Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    Fastir þættir, þó ekki jójóbaolíu Framleiðsla úr öðrum efnum í nr. 1507 til 1515
–    Annað Framleiðsla úr jurtaefnum sem verða að vera heimafengin að öllu leyti
1516 Feiti eða olíur úr dýra- eða jurtaríkinu og þættir þeirra, hert að fullu eða að hluta, víxlesterað, enduresterað eða elaídínerað, einnig hreinsað en ekki frekar unnið Framleiðsla:
–    úr efnum í 2. kafla sem verða að vera heimafengin að öllu leyti;
–    úr jurtaefnum sem verða að vera heimafengin að öllu leyti. Þó má nota efni í nr. 1507, 1508, 1511 og 1513
1517 Smjörlíki; blöndur eða framleiðsla til manneldis úr jurtafeiti eða -olíum eða þáttum úr mismunandi fitu eða olíum þessa kafla, þó ekki feiti eða olíur til manneldis eða þættir þeirra í nr. 1516
Framleiðsla:
–    úr efnum í 2. og 4. kafla sem verða að vera heimafengin að öllu leyti;
–    úr jurtaefnum sem verða að vera heimafengin að öllu leyti. Þó má nota efni í nr. 1507, 1508, 1511 og 1513
16. kafli Framleiðsla úr kjöti, fiski eða krabbadýrum, lindýrum eða öðrum vatnahryggleysingjum Framleiðsla úr dýrum í 1. kafla. Öll efni í 3. kafla verða að vera heimafengin að öllu leyti
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
ex 1505 Refined lanolin Manufacture from crude wool grease of heading No 1505
1506 Other animal fats and oils and their fractions, whether or not refined, but not chemically modified
–    Solid fractions Manufacture from materials of any heading including other materials of heading No 1506
–    Other Manufacture in which all the materials of Chapter 2 used must be wholly obtained
1507 to 1515 Vegetable oils and their fractions:
–    Soya, ground nut, palm, copra, palm kernel, babassu, tung and oiticica oil, myrtle wax and Japan wax, fractions of jojoba oil and oils for technical or industrial uses other that the manufacture of foodstuffs for human consumption Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
–    Solid fractions, except for that of jojoba oil Manufacture from other materials of heading No 1507 to 1515
–    Other Manufacture in which all the vegetable materials used must be wholly obtained
1516 Animal or vegetable fats and oils and their fractions, partly or wholly hydrogenated, inter-esterified, re-esterified or elaidinized, whether or not refined, but not further prepared Manufacture in which:
–    all the materials of Chapter 2 used must be wholly obtained;
–    all the vegetable materials used must be wholly obtained. However, materials of headings 1507, 1508, 1511 and 1513 may be used
1517 Margarine; edible mixtures or preparations of animal or vegetable fats or oils or of fractions of different fats or oils of this Chapter, other than edible fats or oils or their fractions of heading No 1516 Manufacture in which:
–    all the materials of Chapters 2 and 4 used must be wholly obtained;
–    all the vegetable materials used must be wholly obtained. However, materials of headings 1507, 1508, 1511 and 1513 may be used
Chapter 16 Preparations of meat, of fish or of crustaceans, molluscs or other aquatic invertebrates Manufacture from animals of Chapter 1. All the materials of Chapter 3 used must be wholly obtained
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
úr 17. kafla Sykur og sætindi, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 1701 Reyr- eða rófusykur og kemískt hreinn súkrósi, í föstu formi, bragðbættur eða litaður: Framleiðsla þar sem verðmæti efnanna í 17. kafla er ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
1702 Annar sykur, þar með talinn kemískt hreinn laktósi, maltósi, glúkósi og frúktósi, í föstu formi; sykursíróp sem inniheldur hvorki bragðefni né litarefni; gervihunang, einnig blandað náttúrlegu hunangi; karamel
–    Kemískt hreinn maltósi og frúktósi Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, einnig öðrum efnum í nr. 1702
–    Annar sykur í föstu formi, bragðbættur eða litaður Framleiðsla þar sem verðmæti efnanna í 17. kafla er ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    Annað Framleiðsla úr efnum sem verða öll að vera upprunavara
úr 1703 Melassi unninn með kjörnun eða hreinsun sykurs, bragðbætts eða litaðs Framleiðsla þar sem verðmæti efnanna í 17. kafla er ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
1704 Sætindi (þar með talið hvítt súkkulaði) án kakaóinnihalds Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum í 17. kafla sem að verðmæti eru ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
18. kafli Kakaó og framleiðsla úr kakaói Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran;
–    úr efnum í 17. kafla sem að verðmæti eru ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
ex Chapter 17 Sugars and sugar confectionery; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex 1701 Cane or beet sugar and chemically pure sucrose, in solid form, flavoured or coloured Manufacture in which the value of any materials of Chapter 17 used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
1702 Other sugars, including chemically pure lactose, maltose, glucose and fructose, in solid form; sugar syrups not containing added flavouring or colouring matter; artificial honey, whether or not mixed with natural honey; caramel:
–    Chemically pure maltose and fructose Manufacture from materials of any heading including other materials of heading No 1702
–    Other sugars in solid form, flavoured or coloured Manufacture in which the value of any materials of Chapter 17 used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
–    Other Manufacture in which all the materials used must already be originating
ex 1703 Molasses resulting from the extraction or refining of sugar, flavoured or coloured Manufacture in which the value of any materials of Chapter 17 used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
1704 Sugar confectionery (including white chocolate), not containing cocoa Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of any materials of Chapter 17 used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
Chapter 18 Cocoa and cocoa preparations Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of any materials of Chapter 17 used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
1901 Maltkjarni; framleiðsla úr mjöli, fín-eða grófmöluðu, sterkju eða maltkjarna, sem ekki inniheldur kakaó eða inniheldur minna en 40% miðað við þyngd af kakaói reiknað út frá algerlega fitusneyddum grunni, ót.a.; matvæli úr vörum í nr. 0401-0404 sem ekki innihalda kakaó eða innihalda minna en 5%, miðað við þyngd, af kakaói reiknað út frá algerlega fitusneyddum grunni,ót.a.:

–    Maltkjarni Framleiðsla úr korni í 10. kafla
–    Annað Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum í 17. kafla sem að verðmæti eru ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
1902 Pasta, einnig soðin eða fyllt með kjöti eða öðrum efnum) eða unnin á annan hátt, svo sem spaghettí, makkarónur, núðlur, lasagne, gnocchi, ravíólí, kannellóní; kúskús, einnig unnið:

–    Sem inniheldur 20% eða minna, miðað við þyngd af kjöti, hlutum af dýrum, fiski, krabbadýrum eða lindýrum Framleiðsla úr kornvörum og afleiðum þess (nema harðhveiti og afleiðum þess) sem verða að vera heimafengnar að öllu leyti
–    Sem inniheldur meira en 20%, miðað við þyngd, af kjöti, hlutum af dýrum, fiski, krabbadýrum eða lindýrum Framleiðsla:
–    kornvörum og afleiðum þess (nema harðhveiti og afleiðum þess) sem verða að vera heimafengnar að öllu leyti
–    úr efnum í 2. og 3. kafla sem verða að vera heimafengin að öllu leyti
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
1901 Malt extract; food preparations of flour, meal, starch or malt extract, not containing cocoa or containing less than 40% by weight of cocoa calculated on a totally defatted basis, not elsewhere specified or included; food preparations of goods of heading No 0401 to 0404, not containing cocoa or containing less than 5% by weight of cocoa calculated on a totally defatted basis, not elsewhere specified or included:
–    Malt extract Manufacture from cereals of Chapter 10
–    Other Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of any materials of Chapter 17 used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
1902 Pasta, whether or not cooked or stuffed (with meat or other substances) or otherwise prepared, such as spaghetti, macaroni, noodles, lasagna, gnocchi, ravioli, cannelloni; couscous, whether or not prepared:
–    Containing 20% or less by weight of meat, meat offal, fish, crustaceans or molluscs
Manufacture in which all the cereals and derivatives (except durum wheat and its derivatives) used must be wholly obtained
–    Containing more than 20% by weight of meat, meat offal, fish, crustaceans or molluscs Manufacture in which:
–    all cereals and derivatives (except durum wheat and its derivatives) used must be wholly obtained;
–    all the materials of Chapters 2 and 3 used must be wholly obtained
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
1903 Tapíókamjöl og tapíókalíki úr sterkju, sem flögur, grjón, perlur, sáldur eða í áþekkri mynd
Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, öðrum en kartöflusterkju í nr. 1108
1904 Matvæli úr belgdu eða steiktu korni eða kornvörum (t.d. kornflögur); korn (annað en maís), sem grjón eða sem flögur eða önnur unnin grjón (þó ekki mjöl, fín- eða grófmalað), forsoðið eða unnið á annan hátt, ót.a.: Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast ekki undir nr. 1806;
–    þar sem korn og mjöl (nema harðhveiti og afleiður þess og Zea indurata maize) verður að vera heimafengið að öllu leyti;  1
–    úr efnum í 17. kafla sem að verðmæti eru ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
1905 Brauð, sætabrauð, kökur, kex og aðrar brauðvörur, einnig með kakaói; altarisbrauð, lyfjahylki, innsiglunaroblátur, rísþynnur og áþekkar vörur



Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, þó ekki efnum í 11. kafla
úr 20. kafla Framleiðsla úr matjurtum, ávöxtum, hnetum eða öðrum plöntuhlutum, þó ekki: Framleiðsla úr ávöxtum, hnetum eða matjurtum sem verða að vera heimafengin að öllu leyti
úr 2001 Kínverskar kartöflur, sætar kartöflur og aðrir svipaðir ætir plöntuhlutar sem innihalda 5% eða meira af sterkju miðað við þyngd, unnið eða varið skemmdum með ediki eða ediksýru Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 2004 og
úr 2005
Kartöflur, fín- eða grófmalaðar eða flögur, unnar eða varðar skemmdum á annan hátt en með ediki eða ediksýru Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
2006 Matjurtir, ávextir, hnetur, ávaxtahýði og aðrir plöntuhlutar, varið skemmdum með sykri (gegndreypt, gljásykrað eða kristallað) Framleiðsla þar sem verðmæti efnanna í 17. kafla er ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
1903 Tapioca and substitutes therefor prepared from starch, in the form of flakes, grains, pearls, siftings or in similar forms Manufacture from materials of any heading except potato starch of heading No 1108
1904 Prepared foods obtained by the swelling or roasting of cereals or cereal products (for example, corn flakes); cereals, (other than maize (corn)) in grain form or in the form of flakes or other worked grains (except flour and meal), pre-cooked, or otherwise prepared, not elsewhere specified or included Manufacture:
–    from materials not classified within heading No 1806;
–    in which all the cereals and flour (except durum wheat and its derivatives and Zea indurata maize) used must be wholly obtained; 1
–    in which the value of any materials of Chapter 17 used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
1905 Bread, pastry, cakes, biscuits and other bakers' wares, whether or not containing cocoa; communion wafers, empty cachets of a kind suitable for pharmaceutical use, sealing wafers, rice paper and similar products Manufacture from materials of any heading except those of Chapter 11
ex Chapter 20 Preparations of vegetables, fruit, nuts or other parts of plants; except for: Manufacture in which all the fruit, nuts or vegetables used must be wholly obtained
ex 2001 Yams, sweet potatoes and similar edible parts of plants containing 5% or more by weight of starch, prepared or preserved by vinegar or acetic acid
Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex 2004 and
ex 2005
Potatoes in the form of flour, meal or flakes, prepared or preserved otherwise than by vinegar or acetic acid Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
2006 Vegetables, fruit, nuts, fruit-peel and other parts of plants, preserved by sugar (drained, glacé or crystallized) Manufacture in which the value of any materials of Chapter 17 used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
2007 Sulta, ávaxtahlaup, mauk, ávaxta-eða hnetudeig, soðið, einnig með viðbættum sykri eða öðru sætuefni: Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum í 17. kafla sem að verðmæti eru ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 2008 –    Hnetur án viðbætts sykurs eða áfengis Framleiðsla úr upprunalegum hnetum og olíufræjum í nr. 0801, 0802 og 1202-1207 sem að verðmæti í heild eru yfir 60% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    Hnetusmjör; kornblöndur; pálmakjarni; maís (korn) Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    Annað, þó ekki ávextir og hnetur sem matreidd eru á annan hátt en með gufusuðu eða suðu í vatni, án viðbætts sykurs, frosin Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum í 17. kafla sem að verðmæti eru ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
2009 Ávaxtasafi (þar með talið þrúguþykkni) og matjurtasafi, ógerjaður og án viðbætts áfengis, einnig með viðbættum sykri eða öðru sætuefni Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum í 17. kafla sem að verðmæti eru ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 21. kafla Ýmis matvælaframleiðsla, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
2101 Kjarni, kraftur og seyði úr kaffi, tei eða maté og framleiðsla að stofni til úr þessum vörum eða að stofni til úr kaffi, tei eða maté; brenndar síkóríurætur og annað brennt kaffilíki, og kjarni, kraftur og seyði úr þeim
Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    þar sem allar síkóríurætur verða að vera heimafengnar að öllu leyti
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
2007 Jams, fruit jellies, marmalades, fruit or nut purée and fruit or nut pastes, being cooked preparations, whether or not containing added sugar or other sweetening matter Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of any materials of Chapter 17 used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
ex 2008 –    Nuts, not containing added sugar or spirits Manufacture in which the value of the originating nuts and oil seeds of heading No 0801, 0802 and 1202 to 1207 used exceeds 60% of the ex-works price of the product
–    Peanut butter; mixtures based on cereals; palm hearts; maize (corn) Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
–    Other except for fruit and nuts cooked otherwise than by steaming or boiling in water, not containing added sugar, frozen Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of any materials of Chapter 17 used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
2009 Fruit juices and vegetable juices (including grape must), unfermented and not containing added spirit, whether or not containing added sugar or other sweetening matter Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of any materials of Chapter 17 used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
ex Chapter 21 Miscellaneous edible preparations; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
2101 Extracts, essences and concentrates, of coffee, tea, maté, and preparations with a basis of these products or with a basis of coffee, tea or maté; roasted chicory and other coffee substitutes, and extracts, essences and concentrates thereof Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    all the chicory used must be wholly obtained
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
2103 Sósur og framleiðsla í þær; blönduð bragðefni og blönduð bragðbætiefni; mustarðsmjöl, fín- eða grófmalað, og unninn mustarður:
–    Sósur og framleiðsla í þær; blönduð bragðefni og blönduð bragðbætiefni; Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota mustarðsmjöl, fín- eða grófmalað, og unninn mustarð
–    mustarðsmjöl, fín- eða grófmalað, og unninn mustarður: Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er
úr 2104 Súpur og seyði og framleiðsla í það Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, öðrum en grænmeti, unnu eða vörðu skemmdum, í nr. 2002-2005
2106 Matvæli, ót.a. Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum í 17. kafla sem að verðmæti eru ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 22. kafla Drykkjarvörur, áfengir vökvar og edik, þó ekki: Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    þar sem allar þrúgur, eða önnur efni unnin úr þeim, verða að vera heimafengnar að öllu leyti
2202 Vatn, þar með talið ölkelduvatn og loftblandað vatn, með viðbættum sykri eða öðru sætuefni eða bragðbætt, og aðrar óáfengar drykkjarvörur, þó ekki ávaxtasafar eða matjurtasafar í nr. 2009 Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran;
–    úr efnum í 17. kafla sem að verðmæti eru ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem allur ávaxtasafi (annar en ananas-, súraldin- og greipaldinsafi) verður að vera upprunavara
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
2103 Sauces and preparations therefor; mixed condiments and mixed seasonings; mustard flour and meal and prepared mustard:
–    Sauces and preparations therefor; mixed condiments and mixed seasonings Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, mustard flour or meal or prepared mustard may be used
–    Mustard flour and meal and prepared mustard Manufacture from materials of any heading
ex 2104 Soups and broths and preparations therefor Manufacture from materials of any heading except prepared or preserved vegetables of heading No 2002 to 2005
2106 Food preparations not elsewhere specified or included Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of any materials of Chapter 17 used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
ex Chapter 22 Beverages, spirits and vinegar; except for: Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    all the grapes or any material derived from grapes used must be wholly obtained
2202 Waters, including mineral waters and aerated waters, containing added sugar or other sweetening matter or flavoured, and other non-alcoholic beverages, not including fruit or vegetable juices of heading No 2009 Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of any materials of Chapter 17 used does not exceed 30% of the ex-works price of the product;
–    any fruit juice used (except for pineapple, lime and grapefruit juices) must already be originating
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
2207 Ómengað etylalkóhól að alkóhólstyrkleika 80% eða meira miðað við rúmmál; etylalkóhól og aðrir áfengir vökvar, mengað, að hvaða styrkleika sem er Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast ekki undir nr. 2207 eða 2208
–    þar sem allar þrúgur, eða önnur efni unnin úr þeim, verða að vera heimafengnar að öllu leyti eða ef öll efnin teljast þegar upprunavörur má nota „arrak“ í allt að 5% af rúmmáli

2208 Ómengað etylalkóhól að alkóhólstyrkleika minna en 80% miðað við rúmmál; áfengir vökvar, líkjörar og aðrar áfengar drykkjarvörur Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast ekki undir nr. 2207 eða 2208
–    þar sem allar þrúgur, eða önnur efni unnin úr þeim, verða að vera heimafengnar að öllu leyti eða ef öll efnin teljast þegar upprunavörur má nota „arrak“ í allt að 5% af rúmmáli

úr 23. kafla Leifar og úrgangur frá matvælaframleiðslu; unnið skepnufóður, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 2301 Hvalmjöl, mjöl, fínmalað eða grófmalað, og kögglar úr fiski eða krabbadýrum, lindýrum eða öðrum vatnahryggleysingjum, óhæft til manneldis Framleiðsla úr efnum í 2. og 3. kafla sem verða að vera heimafengin að öllu leyti
úr 2303 Leifar frá sterkjugerð úr maís (aðrar en hreinn vínandi sem lagt er í bleyti í), með meira en 40% prótín miðað við þyngd af þurri vörunni

Framleiðsla úr maís sem verður að vera heimafenginn að öllu leyti
úr 2306 Olíukökur og aðrar fastar leifar frá kjörnun ólífuolíu, sem innihalda meira en 3% ólífuolíu.
Framleiðsla úr ólífum sem verða að vera heimafengnar að öllu leyti
2309 Framleiðsla til dýraeldis Framleiðsla úr:
–    korni, sykri eða melassa, kjöti eða mjólk sem verður að vera upprunavara
–    efnum í 3. kafla sem verða að vera heimafengin að öllu leyti
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
2207 Undenatured ethyl alcohol of an alcoholic strength by volume of 80 % vol or higher; ethyl alcohol and other spirits, denatured, of any strength Manufacture:
–    from materials not classified within heading Nos 2207 or 2208,
–    in which all the grapes or any material derived from grapes used must be wholly obtained or if all the other materials used are already originating, arrack may be used up to a limit of 5 % by volume
2208 Undenatured ethyl alcohol of an alcoholic strength by volume of less than 80% vol; spirits, liqueurs and other spirituous beverages Manufacture:
–    from materials not classified within heading No 2207 or 2208;
–    in which all the grapes or any material derived from grapes used must be wholly obtained or if all the other materials used are already originating, arrack may be used up to a limit of 5% by volume
ex Chapter 23 Residues and waste from the food industries; prepared animal fodder; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex 2301 Whale meal; flours, meals and pellets of fish or of crustaceans, molluscs or other aquatic invertebrates, unfit for human consumption Manufacture in which all the materials of Chapters 2 and 3 used must be wholly obtained
ex 2303 Residues from the manufacture of starch from maize (excluding concentrated steeping liquors), of a protein content, calculated on the dry product, exceeding 40% by weight Manufacture in which all the maize used must be wholly obtained
ex 2306 Oil cake and other solid residues resulting from the extraction of olive oil, containing more than 3% of olive oil Manufacture in which all the olives used must be wholly obtained
2309 Preparations of a kind used in animal feeding Manufacture in which:
–    all the cereals, sugar or molasses, meat or milk used must already be originating;
–    all the materials of Chapter 3 used must be wholly obtained
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
24. kafli Tóbak og framleitt tóbakslíki, þó ekki: Framleiðsla úr efnum í 24. kafla sem verða að vera heimafengin að öllu leyti
2402 Vindlar, einnig endaskornir, smávindlar og vindlingar, úr tóbaki eða tóbakslíki Framleiðsla sem verður að vera upprunavara að minnsta kosti 70% miðað við þyngd óunnins tóbaks eða tóbaksúrgangs í nr. 2401
úr 2403 Reyktóbak Framleiðsla sem verður að vera upprunavara að minnsta kosti 70% miðað við þyngd óunnins tóbaks eða tóbaksúrgangs í nr. 2401
úr 25. kafla Salt; brennisteinn; mold og steintegundir; gipsefni, kalk og sement, þó ekki:
Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 2504 Náttúrlegt kristallað grafít, með auknu kolefnisinnihaldi, hreinsað og malað
Aukning kolefnisinnihalds, hreinsun og mölun óhreinsaðs kristallaðs grafíts
úr 2515 Marmari, einungis sagaður eða hlutaður sundur með öðrum hætti í rétthyrningslaga (þar með talið ferningslaga) blokkir eða hellur, 25 cm eða minna að þykkt Sagaður eða hlutaður sundur með öðrum hætti (jafnvel þegar sagaður), meira en 25 cm að þykkt
úr 2516 Granít, porfyr, basalt, sandsteinn og annar steinn til höggmyndagerðar eða bygginga, einungis sagað eða hlutað sundur með öðrum hætti í rétthyrningslaga (þar með talið ferningslaga) blokkir eða hellur, 25 cm eða minna að þykkt Sagaður eða hlutaður sundur með öðrum hætti (jafnvel þegar sagaður), meira en 25 cm að þykkt
úr 2518 Brennt dólómít Brennsla á óbrenndu dólómíti
úr 2519 Mulið, náttúrlegt magnesíum karbónat (magnesít), í loftþéttum umbúðum, og magnesíumoxíð, einnig hreint, þó ekki brædd magnesía eða glædd magnesía

Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota náttúrlegt magnesíumkarbónat (magnesít)
úr 2520 Gipsefni sérstaklega framleitt til tannsmíða eða tannlækninga Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
Chapter 24 Tobacco and manufactured tobacco substitutes; except for: Manufacture in which all the materials of Chapter 24 used must be wholly obtained
2402 Cigars, cherrots, cigarillos and cigarettes, of tobacco or of tobacco substitutes Manufacture in which at least 70% by weight of the unmanufactured tobacco or tobacco refuse of heading No 2401 used must already be originating
ex 2403 Smoking tobacco Manufacture in which at least 70% by weight of the unmanufactured tobacco or tobacco refuse of heading No 2401 used must already be originating
ex Chapter 25 Salt; sulphur, earths and stone; plastering materials; lime and cement; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex 2504 Natural crystalline graphite, with enriched carbon content, purified and ground Enriching of the carbon content, purifying and grinding of crude crystalline graphite
ex 2515 Marble, merely cut by sawing or otherwise into blocks or slabs of a rectangular (including square) shape, of a thickness not exceeding 25 cm Cutting, by sawing or otherwise, of marble (even if already sawn) of a thickness exceeding 25 cm
ex 2516 Granite, porphyry, basalt, sandstone and other monumental and building stone, merely cut by sawing or otherwise, into blocks or slabs of a rectangular (including square) shape, of a thickness not exceeding 25 cm Cutting, by sawing or otherwise, of stone (even if already sawn) of a thickness exceeding 25 cm
ex 2518 Calcined dolomite Calcination of dolomite not calcined
ex 2519 Crushed natural magnesium carbonate (magnesite), in hermetically sealed containers, and magnesium oxide, whether or not pure, other than fused magnesia or dead-burned (sintered) magnesia Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, natural magnesium carbonate (magnesite) may be used
ex 2520 Plasters specially prepared for dentistry Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
úr 2524 Náttúrlegar asbesttrefjar Framleiðsla úr asbestkirni
úr 2525 Gljásteinsduft Mölun gljásteins eða gljásteinsúrgangs
úr 2530 Jarðlitir, brenndir eða muldir í duft Brennsla eða mölun jarðlita
26. kafli Málmgrýti, gjall og aska Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 27. kafla Eldsneyti úr steinaríkinu, jarðolíur og efni eimd úr þeim; jarðbiksefni; jarðvax, þó ekki:
Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 2707 Olíur sem í er meiri þungi arómatískra efnisþátta en óarómatískra efnisþátta og eru áþekkar jarðolíum sem framleiddar eru með eimingu úr háhitaðri koltjöru sem eimast meira en 65% miðað við rúmmál við 250°C (þar með talið blöndur af bensíni og bensóli), ætlaðar til notkunar sem orku- eða hitagjafi

Hreinsun og/eða ein eða fleiri tegundir annarrar sérstakrar vinnslu  1
eða
önnur vinnsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið ef verðmæti þeirra í heild eru ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 2709 Óunnar olíur fengnar úr tjörukenndum steinefnum Eiming tjörukenndra steinefna með niðurbroti
2710 Jarðolíur og olíur fengnar úr tjörukenndum steinefnum, þó ekki óunnar; framleiðsla sem í er miðað við þyngd 70% eða meira af jarðolíum eða olíum fengnum úr tjörukenndum steinefnum, ót.a. enda séu þessar olíur grunnþáttur framleiðslunnar Hreinsun og/eða ein eða fleiri tegundir annarrar sérstakrar vinnslu  2
eða
önnur vinnsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið ef verðmæti þeirra í heild eru ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar

HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
ex 2524 Natural asbestos fibres Manufacture from asbestos concentrate
ex 2525 Mica powder Grinding of mica or mica waste
ex 2530 Earth colours, calcined or powdered Calcination or grinding of earth colours
Chapter 26 Ores, slag and ash Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex Chapter 27 Mineral fuels, mineral oils and products of their distillation; bituminous substances; mineral waxes; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex 2707 Oils in which the weight of the aromatic constituents exceeds that of the non-aromatic constituents, being oils similar to mineral oils obtained by distillation of high temperature coal tar, of which more than 65% by volume distils at a temperature of up to 250.C (including mixtures of petroleum spirit and benzole), for use as power or heating fuels Operations of refining and/or one or more specific process(es)  1
or
Other operations in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ex 2709 Crude oils obtained from bituminous minerals Destructive distillation of bituminous materials
2710 Petroleum oils and oils obtained from bituminous materials, other than crude; preparations not elsewhere specified or included, containing by weight 70% or more of petroleum oils or of oils obtained from bituminous materials, these oils being the basic constituents of the preparations Operations of refining and/or one or more specific process(es)  2
or
Other operations in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
2711 Jarðolíugas og annað loftkennt kolvatnsefni Hreinsun og/eða ein eða fleiri tegundir annarrar sérstakrar vinnslu  1
eða
önnur vinnsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið ef verðmæti þeirra er ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
2712 Vaselín; paraffín, örkristallað jarðolíuvax, kolavax, ósókerít, brúnkolavax, móvax, annað jarðefnavax, og áþekkar vörur fengnar með efnasmíð eða öðrum aðferðum, einnig litað Hreinsun og/eða ein eða fleiri tegundir annarrar sérstakrar vinnslu  1
eða
önnur vinnsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið ef verðmæti þeirra er ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
2713 Jarðolíukox, jarðolíubítumen og aðrar leifar úr jarðolíum eða olíum úr bikkenndum steinefnum Hreinsun og/eða ein eða fleiri tegundir annarrar sérstakrar vinnslu  2
eða
önnur vinnsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið ef verðmæti þeirra er ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
2714 Jarðbik og asfalt, náttúrlegt; bítúmen- eða olíuleir og tjörusandur; asfaltít og asfaltsteinn Hreinsun og/eða ein eða fleiri tegundir annarrar sérstakrar vinnslu  2
eða
önnur vinnsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið ef verðmæti þeirra er ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
2711 Petroleum gases and other gaseous hydrocarbons Operations of refining and/or one or more specific process(es)  1
or
Other operations in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 50% of the ex-works price of the product
2712 Petroleum jelly; paraffin wax, microcrystalline petroleum wax, slack wax, ozokerite, lignite wax, peat wax, other mineral waxes and similar products obtained by synthesis or by other processes, whether or not coloured Operations of refining and/or one or more specific process(es) 1
or
Other operations in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 50% of the ex-works price of the product
2713 Petroleum coke, petroleum bitumen and other residues of petroleum oils or of oils obtained from bituminous materials Operations of refining and/or one or more specific process(es)  2
or
Other operations in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 50% of the ex-works price of the product
2714 Bitumen and asphalt, natural; bituminous or oil shale and tar sands; asphaltites and asphaltic rocks Operations of refining and/or one or more specific process(es) 1
or
Other operations in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
2715 Bítúmenblöndur að meginstofni úr náttúrlegu asfalti, náttúrlegu bítúmeni, jarðolíubítúmeni, jarðtjöru eða jarðtjörubiki Hreinsun og/eða ein eða fleiri tegundir annarrar sérstakrar vinnslu  1
eða
önnur vinnsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið ef verðmæti þeirra er ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 28. kafla Ólífræn kemísk efni; lífræn eða ólífræn sambönd góðmálma, sjaldgæfra jarðmálma, geislavirkra frumefna eða samsætna, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 2805 Málmblöndur Framleiðsla með rafgreiningar- eða varmaaðferðum þar sem verðmæti efnanna í heild fer ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 2811 Brennisteinstríoxíð Framleiðsla úr brennisteinsdíoxíði Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 2833 Álsúlfat Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 2840 Natríum perbórat Framleiðsla úr dínatríum tetrabóratpentahydrati Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
2715 Bituminous mixtures based on natural asphalt, on natural bitumen, on petroleum bitumen, on mineral tar or on mineral tar pitch Operations of refining and/or one or more specific process(es)  1
or
Other operations in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 50% of the ex-works price of the product
Ex Chapter 28 Inorganic chemicals; organic or inorganic compounds or precious metals, of rare-earth metals, of radioactive elements or of isotopes; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex 2805 “Mischmetall” Manufacture by electrolytic or thermal treatment in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ex 2811 Sulphur trioxide Manufacture from sulphur dioxide Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex 2833 Aluminium sulphate Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ex 2840 Sodium perborate Manufacture from disodium tetraborate pentahydrate Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
úr 29. kafla Lífræn efni, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 2901 Raðtengd kolvatnsefni sem notuð eru sem eldsneyti til orkugjafar eða hitunar Hreinsun og/eða ein eða fleiri tegundir annarrar sérstakrar vinnslu  1
eða
önnur vinnsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið ef verðmæti þeirra í heild eru ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 2902 Cyclan og cyclen (þó ekki azúlen), bensen, tólúen, xylen sem notuð eru sem eldsneyti til orkugjafar eða hitunar Hreinsun og/eða ein eða fleiri tegundir annarrar sérstakrar vinnslu  1
eða
önnur vinnsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið ef verðmæti þeirra er ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 2905 Málmalkóhólöt alkóhóls í þessum vörulið og etanóls eða glýseróls Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, að meðtöldum öðrum efnum í nr. 2905. Þó má nota málmalkóhólöt sem flokkast undir þennan vörulið, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
2915 Mettaðar raðtengdar monokarboxylsýrur og anhydríð, halíð, peroxíð og peroxýsýrur þeirra; halógen-, súlfó-, nítró- eða nítrósóafleiður þeirra Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er. Þó má heildarverðmæti efna í nr. 2915 og 2916 sem notuð eru ekki vera yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
ex Chapter 29 Organic chemicals; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex 2901 Acyclic hydrocarbons for use as power or heating fuels Operations of refining and/or one or more specific process(es)  1
or
Other operations in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ex 2902 Cyclanes and cyclenes (other than azulenes), benzene, toluene, xylenes, for use as power or heating fuels Operations of refining and/or one or more specific process(es) 1
or
Other operations in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used, provided their value does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ex 2905 Metal alcoholates of alcohols of this heading and of ethanol or glycerol Manufacture from materials of any heading, including other materials of heading No 2905. However, metal alcoholates of this heading may be used, provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
2915 Saturated acyclic monocarboxylic acids and their anhydrides, halides, peroxides and peroxyacids; their halogenated, sulphonated, nitrated or nitrosated derivatives Manufacture from materials of any heading. However, the value of all the materials of heading No 2915 and 2916 used may not exceed 20% of the ex-works price of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
úr 2932 –    Innri eterar ásamt halógen-, súlfó-, nítró- eða nítrósóafleiðum þeirra Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er. Þó má heildarverðmæti efna í nr. 2909 sem notuð eru ekki vera yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    Hringasetöl og innri hemiasetöl og halógen-, súlfó-, nítró- eða nítrósóafleiður þeirra Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
2933 Heterohringliðasambönd einungis með köfnunarefnisheterofrumeindum Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er. Þó má heildarverðmæti efna í nr. 2932 og 2933 sem notuð eru ekki vera yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
2934 Kjarnasýrur og sölt þeirra; önnur heterohringliðasambönd Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er. Þó má heildarverðmæti efna í nr. 2932, 2933 og 2934 sem notuð eru ekki vera yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 30. kafla Lækningavörur, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið ef verðmæti þeirra í heild eru ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
3002 Mannsblóð; dýrablóð framleitt til lækninga, varnar gegn sjúkdómum eða sjúkdómsgreiningar; mótsermi og aðrir blóðþættir og umbreyttar ónæmisfræðilegar vörur, einnig fengnar með líftæknifræðilegum aðferðum; bóluefni, toxín, ræktaðar örverur (þó ekki ger) og áþekkar vörur:

HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
ex 2932 –    Internal ethers and their halogenated, sulphonated, nitrated or nitrosated derivatives Manufacture from materials of any heading. However, the value of all the materials of heading No 2909 used may not exceed 20% of the ex-works price of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
–    Cyclic acetals and internal hemiacetals and their halogenated, sulphonated, nitrated or nitrosated derivatives Manufacture from materials of any heading Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
2933 Heterocyclic compounds with nitrogen heteroatom(s) only Manufacture from materials of any heading. However, the value of all the materials of heading No 2932 and 2933 used may not exceed 20% of the ex-works price of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
2934 Nucleic acids and their salts; other heterocyclic compounds Manufacture from materials of any heading. However the value of all the materials of heading No 2932, 2933 and 2934 used may not exceed 20% of the ex-works price of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex Chapter 30 Pharmaceutical products; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product
3002 Human blood; animal blood prepared for therapeutic; prophylactic or diagnostic uses; antisera and other blood fractions and modified immunological products whether or not obtained by means of biotechnological processes; vaccines, toxins, cultures of micro-organisms (excluding yeasts) and similar products:
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
–    Vörur gerðar úr tveimur eða fleiri efnisþáttum, sem blandað hefur verið saman, til lækninga eða varnar gegn sjúkdómum eða óblandaðar vörur sem notaðar eru í þessum tilgangi, í afmældum skömmtum, formaðar eða í umbúðum til smásölu Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, þar með talin önnur efni í nr. 3002. Einnig má nota efni sem svara til þessarar lýsingar, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    Annað:
––    Mannsblóð Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, þar með talin önnur efni í nr. 3002. Einnig má nota efni sem svara til þessarar lýsingar, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
––    Dýrablóð framleitt til lækninga eða til varnar gegn sjúkdómum Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, þar með talin önnur efni í nr. 3002. Einnig má nota efni sem svara til þessarar lýsingar, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
––    Blóðþættir aðrir en mótsermi, blóðrauði og blóðvatnsglóbúlín Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, þar með talin önnur efni í nr. 3002. Einnig má nota efni sem svara til þessarar lýsingar, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
––    Blóðrauði, blóðglóbúlín og blóðvatnsglóbúlín Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, þar með talin önnur efni í nr. 3002. Einnig má nota efni sem svara til þessarar lýsingar, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
––    Annað Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, þar með talin önnur efni í nr. 3002. Einnig má nota efni sem svara til þessarar lýsingar, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
3003 og 3004 Lyf (þó ekki vörur í nr. 3002, 3005 eða 3006):
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
–    Products consisting of two or more constituents which have been mixed together for therapeutic or prophylactic uses or unmixed products for these uses, put up in measured doses or in forms or packings for retail sale Manufacture from materials of any heading, including other materials of heading No 3002. The materials of this description may also be used, provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product
–    Other:
––    human blood
Manufacture from materials of any heading, including other materials of heading No 3002. The materials of this description may also be used, provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product
––    animal blood prepared for therapeutic or prophylactic uses Manufacture from materials of any heading, including other materials of heading No 3002. The materials of this description may also be used, provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product
––    blood fractions other than antisera, haemoglobin and serum globulin Manufacture from materials of any heading, including other materials of heading No 3002. The materials of this description may also be used, provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product
––    haemoglobin, blood globulin and serum globulin Manufacture from materials of any heading, including other materials of heading No 3002. The materials of this description may also be used, provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product
––    other Manufacture from materials of any heading, including other materials of heading No 3002. The materials of this description may also be used, provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product
3003 and 3004 Medicaments (excluding goods of heading No 3002, 3005 or 3006):
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
–    Fengin úr sýklalyfjum í nr. 2941 Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni í nr. 3003 eða 3004, enda sé verðmæti þeirra samanlagt ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    Annað Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir nr. 3003 eða 3004, enda sé heildarverðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti efnanna í heild er ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 31. kafla Áburður, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 3105 Áburður, úr steinaríkinu eða kemískur, sem inniheldur tvö eða þrjú af áburðarefnunum köfnunarefni, fosfór og kalíum; annar áburður; vörur sem teljast til þessa kafla í töflum eða áþekku formi eða í 10 kg umbúðum brúttó eða minni, þó ekki:

–    natríumnítrat
–    kalsíumsýanamíð
–    kalíumsúlfat
–    magnesíumkalíumsúlfat
Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti efnanna í heild er ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
–    Obtained from amikacin of heading No 2941 Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials of heading No 3003 or 3004 may be used provided their value, taken together, does not exceed 20% of the ex-works price of the product
–    Other Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials of heading No 3003 or 3004 may be used provided their value, taken together, does not exceed 20% of the ex-works price of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ex Chapter 31 Fertilizers; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value, does not exceed 20% of the ex-works price of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex 3105 Mineral or chemical fertilizers containing two or three of the fertilizing elements nitrogen, phosphorous and potassium; other fertilizers; goods of this Chapter in tablets or similar forms or in packages of a gross weight not exceeding 10 kg, except for:
–    sodium nitrate
–    calcium cyanamide
–    potassium sulphate
–    magnesium potassium sulphate
Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
úr 32. kafla Sútunar- eða litakjarnar; tannín og afleiður þeirra; leysilitir (dyes), dreifulitir (pigment) og önnur litunarefni; málning og lökk; kítti og önnur þéttiefni; blek, þó ekki:
Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 3201 Tannín og sölt þess, estrar, eterar og aðrar afleiður Framleiðsla úr tannínkjörnum úr jurtaríkinu Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
3205 Litlögur (colour lakes); blöndur sem tilgreindar eru í 3. athugasemd við þennan kafla að meginstofni úr litlegi  1 Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, þó ekki í nr. 3203, 3204 og 3205. Þó má nota efni sem flokkast undir nr. 3205, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 33. kafla Rokgjarnar olíur og resinóíð; ilmvörur, snyrtivörur eða hreinlætisvörur, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
3301 Rokgjarnar olíur (einnig terpensnauðar), einnig fastar eða fljótandi; resinóíð; útdregin oleóresín; kjarnar úr rokgjörnum olíum í feiti, órokgjörnum olíum eða vaxi eða þess háttar, fengnir með „enfleurage“ eða „maceration“; terpenríkar aukaafurðir frá terpensneyðingu rokgjarnra olía; vatnskennt eimi og vatnsupplausnir úr rokgjörnum olíum Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, þar með talin efni úr öðrum „flokki“ 2 í þessum vörulið. Þó má nota efni úr sama flokki, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
ex Chapter 32 Tanning or dyeing extracts; tannins and their derivatives; dyes, pigments and other colouring matter; paints and varnishes; putty and other mastics; inks; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex 3201 Tannins and their salts, esters, ethers, and other derivatives Manufacture from tanning extracts of vegetable origin Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
3205 Colour lakes; preparations as specified in Note 3 to this Chapter based on colour lakes  1 Manufacture from materials of any heading, except heading No 3203, 3204 and 3205. However, materials from heading No 3205 may be used provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex Chapter 33 Essential oils and resinoids; perfumery, cosmetic or toilet preparations, except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
3301 Essential oils (terpeneless or not), including concretes and absolutes; resinoids; extracted oleoresins; concentrates of essential oils in fats, in fixed oils, in waxes or the like, obtained by enfleurage or maceration; terpenic by-products of the deterpenation of essential oils: aqueous distillates and aqueous solutions of essential oils Manufacture from materials of any heading, including materials of a different “group” 2 in this heading. However, materials of the same group may be used, provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
úr 34. kafla Sápa, lífræn yfirborðsvirk efni, þvottaefni, smurefni, gervivax, unnið vax, fægi- eða ræstiefni, kerti og áþekkar vörur, mótunarefni, tannvax og tannlækningavörur að meginstofni úr gipsefnum, þó ekki:


Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 3403 Smurefni sem innihalda jarðolíu eða olíu sem fengin er úr tjörukenndum steinefnum, enda séu þau minna en 70% miðað við þyngd Hreinsun og/eða ein eða fleiri tegundir annarrar sérstakrar vinnslu  1
eða
vinnsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið ef verðmæti þeirra er ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar

3404 Gervivax og unnið vax:
–    Að meginstofni til úr parafíni, jarðolíuvaxi, vaxi fengnu úr jarðbiksefnum, kolavaxi eða skelvaxi Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    Annað Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, þó ekki:
–    hertar olíur með vaxeinkenni í nr. 1516;
–    fitusýrur án kemískrar skilgreiningar eða iðnaðarfitualkóhól með vaxeinkenni efna í nr. 3823
–    efni í nr. 3404
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Þó má nota þessi efni, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
ex Chapter 34 Soap, organic surface-active agents, washing preparations, lubricating preparations, artificial waxes, prepared waxes, polishing or scouring preparations, candles and similar articles, modelling pastes, “dental waxes” and dental preparations with a basis of plaster; except for Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex 3403 Lubricating preparations containing petroleum oils or oils obtained from bituminous minerals, provided they represent less than 70% by weight Operations of refining and/or one or more specific process(es)  1
or
Other operations in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 50% of the ex-works price of the product
3404 Artificial waxes and prepared waxes:
–    With a basis of paraffin, petroleum waxes, waxes obtained from bituminous minerals, slack wax or scale wax Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 50% of the ex-works price of the product
–    Other Manufacture from materials of any heading, except:
–    hydrogenated oils having the character of waxes of heading No 1516;
–    fatty acids not chemically defined or industrial fatty alcohols having the character of waxes of heading No 3823
–    materials of heading No 3404
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
However, these materials may be used provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
úr 35. kafla Albúmínkennd efni; umbreytt sterkja; lím; ensím; þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
3505 Dextrín og önnur umbreytt sterkja (t.d. forgelatíneruð eða estruð sterkja); lím að meginstofni úr sterkju eða dextríni eða annarri umbreyttri sterkju:
–    Eteruð og estruð sterkja Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, þar með talin önnur efni í nr. 3505 Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    Annað Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, þó ekki í nr. 1108 Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 3507 Unnin ensím, ót.a. Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
36. kafli Sprengiefni; flugeldavörur; eldspýtur; kveikiblendi; tilteknar eldfimar blöndur Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 37. kafla  Ljósmynda- eða kvikmyndavörur, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
ex Chapter 35 Albuminoidal substances; modified starches; glues; enzymes; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
3505 Dextrins and other modified starches (for example, pregelatinized or esterified starches); glues based on starches, or on dextrins or other modified starches:
–    Starch ethers and esters Manufacture from materials of any heading, except those of heading No 3505 Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
–    Other Manufacture from materials of any heading, except those of heading No 1108 Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex 3507 Prepared enzymes not elsewhere specified or included Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
Chapter 36 Explosives; pyrotechnic products; matches; pyrophoric alloys; certain combustible preparations Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex Chapter 37 Photographic or cinematographic goods; except for Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
3701 Ljósnæmar plötur og filmur, flatar, ólýstar, úr hvers konar efni öðru en pappír, pappa eða textílefni; filmur til skyndiframköllunar, flatar, ljósnæmar, ólýstar, einnig samlokur (packs):
–    Litfilmur til skyndiframköllunar í samlokum (packs) Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en nr. 3701 eða 3702. Þó má nota efni í nr. 3702, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar

–    Annað Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en nr. 3701 eða 3702. Þó má nota efni í nr. 3701 og 3702, enda sé samanlagt verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar

Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
3702 Ljósnæmar filmur í rúllum, ólýstar, úr hvers konar efni öðru en pappír, pappa eða textílefni; filmur til skyndiframköllunar, í rúllum, ljósnæmar, ólýstar
Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en nr. 3701 eða 3702 Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
3704 Ljósmyndaplötur, -filmur, -pappír, -pappi og -textílefni, lýst en ekki framkallað Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en nr. 3701 til 3704 Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 38. kafla Ýmsar kemískar vörur, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
3701 Photographic plates and film in the flat, sensitized, unexposed, of any material other than paper, paperboard or textiles; instant print film in the flat, sensitized, unexposed, whether or not in packs:
–    Instant print film for colour photography, in packs Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than heading No 3701 or 3702. However, materials from heading No 3702 may be used provided their value does not exceed 30% of the ex-works price of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
–    Other Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than heading No 3701 or 3702. However, materials from heading No 3701 and 3702 may be used provided their value taken together, does not exceed 20% of the ex-works price of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
3702 Photographic film in rolls, sensitized, unexposed, of any material other than paper, paperboard or textiles; instant print film in rolls, sensitized, unexposed Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than heading No 3701 or 3702 Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
3704 Photographic plates, film paper, paperboard and textiles, exposed but not developed Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than heading No 3701 to 3704 Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex Chapter 38 Miscellaneous chemical products; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
úr 3801 –    Hlaupkennd grafít í sviflausn í olíu og hálfhlaupkennd grafít; kolefniskennt deig í rafskaut
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    Grafít í formi deigs, sem inniheldur yfir 30% af grafít með jarðolíu miðað við þyngd Framleiðsla úr efnum í nr. 3403 sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 3803 Hreinsuð tallolía Hreinsun á hrárri tallolíu Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 3805 Hreinsuð súlfatterpentína Aðvinnsla sem felur í sér eimingu og hreinsun á hrárri súlfatterpentínu Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 3806 Estragúmkvoða Framleiðsla úr resinsýrum Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 3807 Viðarbik (viðartjörubik) Eiming viðartjöru Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar

HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
ex 3801 –    Colloidal graphite in suspension in oil and semi-colloidal graphite; carbonaceous pastes for electrodes Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
–    Graphite in paste form, being a mixture of more than 30% by weight of graphite with mineral oils Manufacture in which the value of all the materials of heading No 3403 used does not exceed 20% of the ex-works price of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex 3803 Refined tall oil Refining of crude tall oil Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex 3805 Spirits of sulphate turpentine, purified Purification by distillation or refining of raw spirits of sulphate turpentine Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex 3806 Ester gums Manufacture from resin acids Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex 3807 Wood pitch (wood tar pitch) Distillation of wood tar Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
3808 Efni til varnar gegn eða útrýmingar á skordýrum, nagdýrum, sveppum og illgresi, efni til að hindra spírun og efni til að stjórna plöntuvexti, sótthreinsandi efni og áþekkar vörur í formi eða umbúðum til smásölu eða sem blöndur eða hlutir (t.d. brennisteinsunnin bönd, kveikir og kerti, og flugnaveiðarar) Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
3809 Áferðar- og íburðarefni (finishing agents), litberar til að hraða litun eða festingu litunarefna og aðrar vörur og blöndur (t.d. fyllir og litfestir) sem notað er í textíl-, pappírs-, leður- eða skyldum iðnaði, ót.a.


Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
3810 Unnin sýruböð til yfirborðsmeðferðar á málmum; bræðsluefni og önnur hjálparefni til notkunar við lóðun, bras eða logsuðu; duft og deig til að lóða, brasa og logsjóða, úr málmi og öðrum efnum; efni til nota sem kjarni eða hjúpur fyrir rafskaut og stangir til logsuðu
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
3811 Efni til varnar vélabanki, oxunartálmi, harpixtálmi, smurbætiefni, tæringarvarnaefni og önnur tilbúin íblöndunarefni, fyrir jarðolíur (þar með talið bensín) eða fyrir aðra vökva sem notaðir eru í sama tilgangi og jarðolía:

–    Tilbúin íblöndunarefni fyrir smurolíur sem innihalda jarðolíur eða olíur fengnar úr tjörukenndum steinefnum Framleiðsla úr efnum í nr. 3811 sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
3808 Insecticides, rodenticides, fungicides, herbicides, anti-sprouting products and plant-growth regulators, disinfectants and similar products, put up in forms of packings for retail sale or as preparations or articles (for example, sulphur-treated bands, wicks and candles, and fly-papers) Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
3809 Finishing agents, dye carriers to accelerate the dyeing or fixing of dyestuffs and other products and preparations (for example, dressings and mordants), of a kind used in the textile, paper, leather or like industries, not elsewhere specified or included Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
3810 Pickling preparations for metal surfaces; fluxes and other auxiliary preparations for soldering, brazing or welding; soldering, brazing or welding powders and pastes consisting of metal and other materials; preparations of a kind used as cores or coatings for welding electrodes or rods Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
3811 Anti-knock preparations, oxidation inhibitors, gum inhibitors, viscosity improvers, anti-corrosive preparations and other prepared additives, for mineral oils (including gasoline) or for other liquids used for the same purposes as mineral oils:
–    Prepared additives for lubricating oil, containing petroleum oils or oils obtained from bituminous minerals Manufacture in which the value of all the materials of heading No 3811 used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
–    Annað Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
3812 Unnir gúmmíhvatar (rubber accelerators); samsett mýkiefni fyrir gúmmí eða plast, ót.a.; mótoxunarefni og önnur samsett varðveisluefni (stabilisers) fyrir gúmmí eða plast

Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
3813 Blöndur og hleðslur fyrir slökkvitæki; hlaðin slökkvihylki Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
3814 Lífræn samsett upplausnarefni og þynnar, ót.a.; unnir málningar- eða lakkeyðar Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
3818 Kemísk frumefni efnabætt til nota í rafeindatækni, sem diskar, þynnur eða í áþekku formi; kemísk sambönd efnabætt til nota í rafeindatækni Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
3819 Hemlavökvi og annar unninn vökvi fyrir vökvaskipt drif sem inniheldur ekki eða inniheldur minna en 70% af jarðolíu eða olíu úr tjörukenndum steinefnum miðað við þyngd
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
3820 Frostlögur og unninn afísingarvökvi Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
3822 Prófefni á grunni til greininga eða fyrir rannsóknastofur og unnin prófefni til greininga eða fyrir rannsóknastofur, einnig á grunni, þó ekki þau sem eru í nr. 3002 eða 3006
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
3823 Einbasískar karboxyfitusýrur frá iðnaði; sýruolía frá hreinsun; feitialkóhól frá iðnaði:
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
–    Other Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
3812 Prepared rubber accelerators; compound plasticizers for rubber or plastics, not elsewhere specified or included; anti-oxidizing preparations and other compound stabilizers for rubber or plastics Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
3813 Preparations and charges for fire-extinguishers; charged fire-extinguishing grenades Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
3814 Organic composite solvents and thinners, not elsewhere specified or included; prepared paint or varnish removers Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
3818 Chemical elements doped for use in electronics, in the form of discs, wafers or similar forms; chemical compounds doped for use in electronics Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
3819 Hydraulic brake fluids and other prepared liquids for hydraulic transmission, not containing or containing less than 70% by weight of petroleum oils or oils obtained from bituminous minerals Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
3820 Anti-freezing preparations and prepared de-icing fluids Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
3822 Diagnostic or laboratory reagents on a backing and prepared diagnostic or laboratory reagents, whether or not on a backing, other than those of heading No 3002 or 3006 Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
3823 Industrial monocarboxylic fatty acids; acid oils from refining; industrial fatty alcohols :
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
–    Einbasískar karboxyfitusýrur frá iðnaði; sýruolía frá hreinsun Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    Feitialkóhól frá iðnaði Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, þar með talin önnur efni í nr. 3823
3824 Tilbúin bindiefni fyrir málmsteypumót eða málmsteypukjarna; kemískar vörur og framleiðsla kemísks eða skylds iðnaðar (þar með taldar blöndur úr náttúrlegum efnum), ót.a.; úrgangsefni kemísks eða skylds iðnaðar, ót.a.



–    Eftirtalið í þessum vörulið:
    Tilbúin bindiefni fyrir málmsteypumót eða málmsteypukjarna að meginstofni úr náttúrulegum resínefnum
    Naftansýrur, sölt þeirra óuppleysanleg í vatni og estrar þeirra
Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
    Sorbitól, annað en í nr. 2905
    Jarðolíusúlfónöt, þó ekki jarðolíusúlfónöt úr alkalímálmum, ammóníum eða etanólamíð; þíófenaðar súlfónsýrur úr olíum úr tjörukenndum steinefnum og sölt þeirra

    Jónaskiptar
    Flýtar fyrir lofttæmipípur
    Alkalísk járnoxíð til gashreinsunar
    Ammóníum gasvatn og notað oxíð fengið við gaskolahreinsun
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
–    Industrial monocarboxylic fatty acids, acid oils from refining Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
–    Industrial fatty alcohols Manufacture from materials of any heading including other materials of heading No 3823
3824 Prepared binders for foundry moulds or cores; chemical products and preparations of the chemical or allied industries (including those consisting of mixtures of natural products), not elsewhere specified or included; residual products of the chemical or allied industries, not elsewhere specified or included:
–    The following of this heading:
    Prepared binders for foundry moulds or cores based on natural resinous products

    Naphthenic acids, their water insoluble salts and their esters
Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
    Sorbitol, other than that of heading No 2905
    Petroleum sulphonates, excluding petroleum sulphonates of alkali metals, of ammonium or of ethanolamines; thiophenated sulphonic acids of oils obtained from bituminous minerals, and their salts
    Ion exchangers
    Getters for vacuum tubes
    Alkaline iron oxide for the purification of gas
    Ammoniacal gas liquors and spent oxide produced in coal gas purification
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
    Súlfónaftansýrur, sölt þeirra og estrar óuppleysanleg í vatni
    Fúsilolía og Dippelolía
    Blönduð sölt með mismunandi anjónum
    Fjölritunardeig, að meginstofni úr gelatíni, einnig á pappír eða textílundirlagi
–    Annað Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
3901 til 3915 Fjölliður etylens, í frumgerðum úrgangur, afklippur og rusl úr plasti, þó ekki úr 3907 og 3912, sem um gildir eftirfarandi regla:
–    Framleiðsluvörur úr einfjölliðuauka þar sem ein einliða vegur meira en 99% af heildarinnihaldi fjölliða Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem efni í 39. kafla er að verðmæti ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar  1
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    Annað Framleiðsla úr efnum í 39. kafla sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar 1 Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 3907 –    Samfjölliður, gerðar úr pólykarbónati og akrylónítríl-bútadíen-styren samfjölliðum (ABS) Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má verðmæti efna sem flokkast undir sama vörulið ekki vera yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar 1

HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
    Sulphonaphthenic acids, their water insoluble salts and their esters
    Fusel oil and Dippel's oil
    Mixtures of salts having different anions
    Copying pastes with a basis of gelatin, whether or not on a paper or textile backing
–    Other Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
3901 to 3915 Plastics in primary forms, waste, parings and scrap, of plastic; except for heading No ex 3907 and 3912 for which the rules are set out below:
–    Addition homopolymerization products in which a single monomer contributes more than 99% by weight to the total polymer content Manufacture in which:
–    the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product;
–    the value of any materials of Chapter 39 used does not exceed 20% of the ex-works price of the product  1
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
–    Other Manufacture in which the value of the materials of Chapter 39 used does not exceed 20% of the ex-works price of the product  1 Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
ex 3907 –    Copolymer, made from polycarbonate and acrylonitrile-butadiene-styrene copolymer (ABS) Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, materials classified within the same heading may be used provided their value does not exceed 50% of the ex-works price of the product 1
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
–    Pólyestri Framleiðsla úr efnum í 39. kafla sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar og/eða framleiðsla úr pólycarbónötum úr tetrabromo-(bisfenól A)
3912 Sellulósi og kemískar afleiður hans ót.a., í frumgerðum Framleiðsla þar sem verðmæti efna sem flokkast undir sama vörulið og framleiðsluvaran er ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
3916 til 3921 Hálfunnar vörur úr plasti, þó ekki úr 3916, 3917, 3920 og úr 3921 sem um gilda eftirfarandi reglur:

–    Flatvörur, unnar meira en aðeins á yfirborði eða skornar í aðra lögun en rétthyrninga (þar með talið ferningar), aðrar vörur sem hlotið hafa frekari vinnslu en einungis yfirborðsmeðferð Framleiðsla úr efni í 39. kafla sem í heild er að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    Annað:
––    Framleiðsluvörur úr einfjölliðuauka þar sem ein einliða vegur meira en 99% af heildarinnihaldi fjölliða
Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem efni í 39. kafla er að verðmæti ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar  1
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
––    Annað Framleiðsla þar sem efni í 39. kafla er að verðmæti ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar  1 Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
–    Polyester Manufacture in which the value of any materials of Chapter 39 used does not exceed 20% of the ex-works price of the product and/or manufacture from polycarbonate of tetrabromo-(bisphenol A)
3912 Cellulose and its chemical derivatives, not elsewhere specified or included, in primary forms Manufacture in which the value of any materials classified in the same heading as the product does not exceed 20% of the ex-works price of the product
3916 to 3921 Semi-manufactures and articles of plastics; except for heading No ex 3916, ex 3917, ex 3920 and ex 3921, for which the rules are set out below:
–    Flat products, further worked than only surface-worked or cut into forms other than rectangular (including square); other products, further worked than only surface-worked Manufacture in which the value of any materials of Chapter 39 used does not exceed 50% of the ex-works price of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
–    Other:
––    Addition homopolymerization products in which a single monomer contributes more than 99% by weight to the total polymer content Manufacture in which:
–    the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product;
–    the value of any materials of Chapter 39 used does not exceed 20% of the ex-works price of the product  1
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
––    Other Manufacture in which the value of any materials of Chapter 39 used does not exceed 20% of the ex-works price of the product  1 Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
úr 3916 og
úr 3917
Prófílar og slöngur Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar og
–    þar sem efni sem flokkast undir sama vörulið og framleiðsluvaran eru að verðmæti ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 3920 –    Jóníumblöð og filmur Framleiðsla úr hitadeigu efni að hluta til úr salti sem er samfjölliður úr etýlen og metaakrýlsýru sem er að hluta til gerð hlutlaus með málmjónum, einkum sinki og natríum Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    Blöð úr endurunnum sellúlósa, pólyamíðum eða pólyetýleni Framleiðsla þar sem verðmæti efna sem flokkast undir sama vörulið, er ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 3921 Plasthimnur, málmhúðaðar Framleiðsla úr mjög gagnsæjum polýestrahimnum sem eru ekki meira en 23 míkron að þykkt  1 Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
3922 til 3926 Vörur úr plasti Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 40. kafla Gúmmí og vörur úr því, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 4001 Lagskiptar plötur úr hrágúmmíi til skógerðar Lagskipting á blöðum úr náttúrlegu gúmmíi
4005 Blandað (compounded) gúmmí, óvúlkaníserað, í frumgerðum eða í plötum, blöðum eða ræmum Framleiðsla úr efnum, að undanskildu náttúrlegu gúmmíi, sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
ex 3916 and ex 3917 Profile shapes and tubes Manufacture in which:
–    the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product;
–    the value of any materials classified within the same heading as the product does not exceed 20% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
ex 3920 –    Ionomer sheet or film Manufacture from a thermoplastic partial salt which is a copolymer of ethylene and methacrylic acid partly neutralized with metal ions, mainly zinc and sodium Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
–    Sheets of regenerated cellulose, polyamides or polyethylene Manufacture in which the value of any materials classified in the same heading as the product does not exceed 20% of the ex-works price of the product
ex 3921 Foils of plastic, metallized Manufacture from highly transparent polyester foils with a thickness of less than 23 micron  1 Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
3922 to 3926 Articles of plastics Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ex Chapter 40 Rubber and articles thereof; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex 4001 Laminated slabs or crepe rubber for shoes Lamination of sheets of natural rubber
4005 Compound rubber, unvulcanized, in primary forms or in plates, sheets or strip Manufacture in which the value of all the materials used, except natural rubber, does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
4012 Sólaðir eða notaðir lofthjólbarðar úr gúmmíi; gegnheilir eða púðahjólbarðar, skiptanlegir hjólbarðaslitfletir og -felgubönd, úr gúmmíi:
–    Sólaðir, loft-, gegnheilir eða púðahjólbarðar úr gúmmíi
Sólun notaðra hjólbarða
–    Annað Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, þó ekki nr. 4011 eða 4012
úr 4017 Vörur úr harðgúmmíi Framleiðsla úr harðgúmmíi
úr 41. kafla Óunnar húðir og skinn (þó ekki loðskinn) og leður, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 4102 Óunnin skinn af sauðfé, án ullar Ull tekin af skinnum af sauðfé, með ull
4104 til 4107 Leður, án hára eða ullar, þó ekki leður í nr. 4108 eða 4109 Endursútun á forsútuðu leðri
eða
framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
4109 Lakkleður og lagskipað lakkleður; málmhúðað leður Framleiðsla úr leðri í nr. 4104 til 4107, enda sé verðmæti þess ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
42. kafli Vörur úr leðri; reiðtygi og aktygi; ferðabúnaður, handtöskur og áþekkar hirslur; vörur úr dýraþörmum (þó ekki silkiormaþörmum)
Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 43. kafla  Loðskinn og loðskinnsgervi; framleiðsla úr þeim, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 4302 Sútuð eða verkuð loðskinn, samsett:
–    Plötur, krossar og svipuð form Bleiking eða litun svo og skurður og samsetning á ósamsettum sútuðum eða verkuðum loðskinnum
–    Annað Framleiðsla úr ósamsettum, sútuðum eða verkuðum loðskinnum
4303 Fatnaður, fylgihlutir og aðrar vörur úr loðskinni Framleiðsla úr ósamsettum, sútuðum eða verkuðum loðskinnum í nr. 4302
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
4012 Retreaded or used pneumatic tyres of rubber; solid or cushion tyres, interchangeable tyre treads and tyre flaps of rubber:
–    Retreaded pneumatic, solid or cushion tyres, of rubber
Retreading of used tyres
–    Other
Manufacture from materials of any heading, except those of heading No 4011 or 4012
ex 4017 Articles of hard rubber Manufacture from hard rubber
ex Chapter 41 Raw hides and skins (other than furskins) and leather; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex 4102 Raw skins of sheep or lambs, without wool on Removal of wool from sheep or lamb skins, with wool on
4104 to 4107 Leather, without hair or wool, other than leather of heading No 4108 or 4109 Retanning of pre-tanned leather
or
Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
4109 Patent leather and patent laminated leather; metallized leather Manufacture from leather of heading No 4104 to 4107 provided its value does not exceed 50% of the ex-works price of the product
Chapter 42 Articles of leather; saddlery and harness; travel goods, handbags and similar containers; articles of animal gut (other than silk worm gut) Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex Chapter 43 Furskins and artificial fur; manufactures thereof; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex 4302 Tanned or dressed furskins, assembled:
–    Plates, crosses and similar forms Bleaching or dyeing, in addition to cutting and assembly of non-assembled, tanned or dressed furskins
–    Other Manufacture from non-assembled, tanned or dressed furskins
4303 Articles of apparel, clothing accessories and other articles of furskin Manufacture from non-assembled, tanned or dressed furskins of heading No 4302
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
úr 44. kafla Viður og vörur úr viði; viðarkol, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 4403 Trjábolir, gróflega tilhöggnir Framleiðsla úr óunnum trjábolum, einnig birktir eða gróflega tilhöggnir
úr 4407 Viður sagaður eða högginn eftir endilöngu, flagaður eða birktur, yfir 6 mm að þykkt, einnig heflaður, slípaður eða fingurskeyttur Heflun, slípun eða fingurskeyting
úr 4408 Spónaþynnur og þynnur í krossvið ekki yfir 6 mm að þykkt (einnig splæstar) og annar viður sagaður eftir endilöngu, flagaður eða birktur, ekki yfir 6 mm að þykkt einnig heflaður, slípaður eða fingurskeyttur Splæsing, heflun, slípun eða fingurskeyting
úr 4409 Viður unninn til samfellu á hvaða brún eða hlið sem er, einnig heflaður, slípaður eða fingurskeyttur:
–    Slípaður eða fingurskeyttur Slípun eða fingurskeyting
–    Listar hvers konar Listar hvers konar
úr 4410 til
úr 4413
Listar hvers konar, einnig mótaðir gólflistar og aðrar mótaðar plötur Listar hvers konar
úr 4415 Umbúðakassar, öskjur, grindur, hylki og áþekkar umbúðir, úr viði Framleiðsla úr ótilsniðnum borðum
úr 4416 Ámur, tunnur, ker, balar og aðrar beykisvörur og hlutar til þeirra, úr viði Framleiðsla úr klofnum stöfum, sem aðeins eru sagaðir á tveimur hliðum en óunnir að öðru leyti
úr 4418 –    Trésmíðavörur til bygginga Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota holviðarþiljur og þakspón

–    Listar hvers konar Listar hvers konar
úr 4421 Eldspýtnaefni, viðarnaglar og -pinnar fyrir skófatnað Framleiðsla úr viði í hvaða vörulið sem er, þó ekki mótuðum viði í nr. 4409
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
ex Chapter 44 Wood and articles of wood; wood charcoal; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex 4403 Wood roughly squared Manufacture from wood in the rough, whether or not stripped of its bark or merely roughed down
ex 4407 Wood sawn or chipped lengthwise, sliced or peeled, of a thickness exceeding 6 mm, planed, sanded or finger-jointed Planing, sanding or finger-jointing
ex 4408 Veneer sheets and sheets for plywood, of a thickness not exceeding 6 mm, spliced, and other wood sawn lengthwise, sliced or peeled of a thickness not exceeding 6 mm, planed, sanded or finger-jointed Splicing, planing, sanding or finger-jointing
ex 4409 Wood continuously shaped along any of its edges or faces, whether or not planed, sanded or finger-jointed:
–    Sanded or fingerjointed Sanding or finger-jointing
–    Beadings and mouldings
Beading or moulding
ex 4410 to
ex 4413
Beadings and mouldings, including moulded skirting and other moulded boards Beading or moulding
ex 4415 Packing cases, boxes, crates, drums and similar packings, of wood Manufacture from boards not cut to size
ex 4416 Casks, barrels, vats, tubs and other coopers' products and parts thereof, of wood Manufacture from riven staves, not further worked than sawn on the two principal surfaces
ex 4418 –    Builders' joinery and carpentry of wood Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, cellular wood panels, shingles and shakes may be used
–    Beadings and mouldings Beading or moulding
ex 4421 Match splints; wooden pegs or pins for footwear Manufacture from wood of any heading except drawn wood of heading No 4409
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
úr 45. kafla Korkur og vörur úr korki, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
4503 Vörur úr náttúrlegum korki Framleiðsla úr korki í nr. 4501
46. kafli Framleiðsla úr strái, úr espartó eða öðrum fléttiefnum; körfugerðarvörur og tágasmíði Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
47. kafli Deig úr viði eða öðru trefjakenndu sellulósaefni; endurheimtur pappír og pappi (úrgangur og rusl) Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 48. kafla  Pappír og pappi; vörur úr pappírsdeigi, pappír eða pappa; þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 4811 Pappír og pappi, eingöngu línustrikaður eða rúðustrikaður Framleiðsla úr pappírsgerðarvörum í 47. kafla
4816 Kalkipappír, sjálfafritunarpappír og annar afritunarpappír eða færipappír (þó ekki vörur í nr. 4809), fjölritunarstenslar og offsetprentplötur, úr pappír, einnig í öskjum
Framleiðsla úr pappírsgerðarvörum í 47. kafla
4817 Umslög, bréfkort, póstkort án mynda og skrifkort, úr pappír eða pappa; öskjur, pokar, veski og skrifmöppur, úr pappír eða pappa, sem innihalda ýmiss konar bréfsefni Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    þar sem verðmæti efnanna í heild er ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 4818 Salernispappír Framleiðsla úr pappírsgerðarvörum í 47. kafla
úr 4819 Öskjur, box, kassar, pokar og önnur ílát til umbúða, úr pappír, pappa, sellulósavatti eða vef úr sellulósatrefjum Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    þar sem verðmæti efnanna í heild er ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
ex Chapter 45 Cork and articles of cork; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
4503 Articles of natural cork Manufacture from cork of heading No 4501
Chapter 46 Manufactures of straw, of esparto or of other plaiting materials; basketware and wickerwork Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
Chapter 47 Pulp of wood or of other fibrous cellulosic material; recovered (waste and scrap) paper or paperboard Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex Chapter 48 Paper and paperboard; articles of paper pulp, of paper or of paperboard; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex 4811 Paper and paperboard, ruled, lined or squared only Manufacture from paper-making materials of Chapter 47
4816 Carbon paper, self-copy paper and other copying or transfer papers (other than those of heading No 4809), duplicator stencils and offset plates, of paper, whether or not put up in boxes Manufacture from paper-making materials of Chapter 47
4817 Envelopes, letter cards, plain postcards and correspondence cards, of paper or paperboard; boxes, pouches, wallets and writing compendiums, of paper or paperboard, containing an assortment of paper stationery Manufacturing in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ex 4818 Toilet paper Manufacture from paper-making materials of Chapter 47
ex 4819 Cartons, boxes, cases, bags and other packing containers, of paper, paperboard, cellulose wadding or webs of cellulose fibres Manufacturing in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
úr 4820 Skrifblokkir Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 4823 Annar pappír, pappi, sellulósavatt eða vefur úr sellulósatrefjum, skorið í stærðir eða lögun Framleiðsla úr pappírsgerðarvörum í 47. kafla
úr 49. kafla  Prentaðar bækur, blöð, myndir og aðrar vörur prentiðnaðar; handrit, vélrit og uppdrættir, þó ekki:
Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
4909 Prentuð eða myndskreytt póstkort; prentuð kort með persónulegum óskum, skilaboðum eða tilkynningu, einnig með myndum, umslögum eða skrauti
Framleiðsla úr efnum sem flokkast ekki undir nr. 4909 eða 4911
4910 Almanök alls konar, prentuð, þar með talin dagatöl:
–    Eilífðaralmanök eða með útskiptanlegum almanaksblokkum á undirstöðu úr öðru efni en pappír eða pappa Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    þar sem verðmæti efnanna í heild er ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    Annað Framleiðsla úr efnum sem flokkast ekki undir nr. 4909 eða 4911
úr 50. kafla Silki, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 5003 Silkiúrgangur (þar með talið hjúpar, ónothæfir til afvinnslu, garnúrgangur og tætt hráefni), kembdur eða greiddur Kembing eða greiðsla silkiúrgangs
5004 til
úr 5006
Silkigarn og garn spunnið úr silkiúrgangi Framleiðsla úr  1 :
–    hrásilki eða silkiúrgangi, kembdu eða greiddu eða á annan hátt unnu undir spuna,
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
ex 4820 Letter pads Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ex 4823 Other paper, paperboard, cellulose wadding and webs of cellulose fibres, cut to size or shape Manufacture from paper-making materials of Chapter 47
ex Chapter 49 Printed books, newspapers, pictures and other products of the printing industry; manuscripts, typescripts and plans; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
4909 Printed or illustrated postcards; printed cards bearing personal greetings, messages or announcements, whether or not illustrated, with or without envelopes or trimmings Manufacture from materials not classified within heading No 4909 or 4911
4910 Calendars of any kind, printed, including calender blocks:
–    Calendars of the “perpetual” type or with replaceable blocks mounted on bases other than paper or paperboard Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
–    Other Manufacture from materials not classified in heading No 4909 or 4911
ex Chapter 50 Silk; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex 5003 Silk waste (including cocoons unsuitable for reeling, yarn waste and garnetted stock), carded or combed Carding or combing of silk waste
5004 to ex 5006 Silk yarn and yarn spun from silk waste Manufacture from 1 :
–    raw silk or silk waste carded or combed or otherwise prepared for spinning,
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
–    öðrum náttúrlegum trefjum hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna,
–    kemískum efnum eða textílmassa, eða
–    efnum til pappírsgerðar
5007 Ofinn dúkur úr silki eða silkiúrgangi:
–    Með gúmmíþræði
Framleiðsla úr einþráða garni  1
–    Annað Framleiðsla úr  1 :
–    kókosgarni
–    náttúrlegum trefjum
–    tilbúnum stutttrefjum hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna
–    kemískum efnum eða textílmassa eða
–    pappír
eða
þrykking ásamt að minnsta kosti tveimur aðgerðum til undirbúnings eða fullvinnslu (svo sem hreinsun, bleiking, mersivinnsla, hitun, ýfing, pressun, afhleyping, straufríjun, sléttun með gufumeðferð (decatising), gegndreyping, viðgerð, hnökrahreinsun), enda sé verðmæti óþrykkts dúks sem notaður er ekki yfir 47,5% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 51. kafla Ull, fíngert eða grófgert dýrahár; hrosshársgarn og ofinn dúkur, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
5106 til 5110 Garn úr ull eða fíngerðu eða grófgerðu dýrahári eða hrosshári Framleiðsla úr  1 :
–    hrásilki eða silkiúrgangi, kembdu eða greiddu eða á annan hátt unnu undir spuna
–    náttúrlegum trefjum hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna
–    kemískum efnum eða textílmassa eða
–    efnum til pappírsgerðar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
–    other natural fibres not carded or combed or otherwise prepared for spinning,
–    chemical materials or textile pulp, or
–    paper-making materials
5007 Woven fabrics of silk or of silk waste:
–    Incorporating rubber thread Manufacture from single yarn  1
–    Other Manufacture from 1 :
–    coir yarn,
–    natural fibres,
–    man-made staple fibres not carded or combed or otherwise prepared for spinning,
–    chemical materials or textile pulp, or
–    paper
or
Printing accompanied by at least two preparatory or finishing operations (such as scouring, bleaching, mercerizing, heat setting, raising, calendering, shrink resistance processing, permanent finishing, decatizing, impregnating, mending and burling) where the value of the unprinted fabric used does not exceed 47,5% of the ex-works price of the product
ex Chapter 51 Wool, fine or coarse animal hair; horsehair yarn and woven fabric; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
5106 to 5110 Yarn of wool, of fine or coarse animal hair or of horsehair Manufacture from  1 :
–    raw silk or silk waste carded or combed or otherwise prepared for spinning,
–    natural fibres not carded or combed or otherwise prepared for spinning,
–    chemical materials or textile pulp, or
–    paper-making materials
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
5111 til 5113 Ofinn dúkur úr ull, fíngerðu eða grófgerðu dýrahári eða hrosshári:
–    Með gúmmíþræði
Framleiðsla úr einþráða garni  1
–    Annað Framleiðsla úr  1 :
–    kókosgarni
–    náttúrlegum trefjum
–    tilbúnum stutttrefjum hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna
–    kemískum efnum eða textílmassa, eða
–    pappír
eða
þrykking ásamt að minnsta kosti tveimur aðgerðum til undirbúnings eða fullvinnslu (svo sem hreinsun, bleiking, mersivinnsla, hitun, ýfing, pressun, afhleyping, straufríjun, sléttun með gufumeðferð (decatising), gegndreyping, viðgerð, hnökrahreinsun), enda sé verðmæti óþrykkts dúks sem notaður er ekki yfir 47,5% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 52. kafla  Baðmull, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
5204 til 5207 Garn og þræðir úr baðmull Framleiðsla úr  1
–    hrásilki eða silkiúrgangi, kembdu eða greiddu eða á annan hátt unnu undir spuna
–    náttúrlegum trefjum hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna
–    kemískum efnum eða textílmassa, eða
–    efnum til pappírsgerðar
5208 til 5212 Ofinn baðmullardúkur:
–    Með gúmmíþræði Framleiðsla úr einþráða garni  1
–    Annað Framleiðsla úr  1 :
–    kókosgarni
–    náttúrlegum trefjum
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
5111 to 5113 Woven fabrics of wool, of fine or coarse animal hair or of horsehair:
–    Incorporating rubber thread Manufacture from single yarn 1
–    Other Manufacture from 1 :
–    coir yarn,
–    natural fibres,
–    man-made staple fibres not carded or combed or otherwise prepared for spinning,
–    chemical materials or textile pulp, or
–    paper
or
Printing accompanied by at least two preparatory or finishing operations (such as scouring, bleaching, mercerizing, heat setting, raising, calendering, shrink resistance processing, permanent finishing, decatizing, impregnating, mending and burling) where the value of the unprinted fabric used does not exceed 47,5% of the ex-works price of the product
ex Chapter 52 Cotton; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
5204 to 5207 Yarn and thread of cotton Manufacture from  1
–    aw silk or silk waste carded or combed or otherwise prepared for spinning,
–    natural fibres not carded or combed or otherwise prepared for spinning,
–    chemical materials or textile pulp, or
–    paper-making material
5208 to 5212 Woven fabrics of cotton:
–    Incorporating rubber thread Manufacture from single yarn 1
–    Other Manufacture from 1 :
–    coir yarn,
–    natural fibres,
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
–    tilbúnum stutttrefjum hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna
–    kemískum efnum eða textílmassa, eða
–    pappír
eða
þrykking ásamt að minnsta kosti tveimur aðgerðum til undirbúnings eða fullvinnslu (svo sem hreinsun, bleiking, mersivinnsla, hitun, ýfing, pressun, afhleyping, straufríjun, sléttun með gufumeðferð (decatising), gegndreyping, viðgerð, hnökrahreinsun), enda sé verðmæti óþrykkts dúks sem notaður er ekki yfir 47,5% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 53. kafla Aðrar textíltrefjar úr jurtaríkinu; pappírsgarn og ofinn dúkur úr pappírsgarni, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
5306 til 5308 Garn úr öðrum textíltrefjum úr jurtaríkinu; pappírsgarn Framleiðsla úr  1 :
–    hrásilki eða silkiúrgangi, kembdu eða greiddu eða á annan hátt unnu undir spuna
–    náttúrlegum trefjum hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna
–    kemískum efnum eða textílmassa, eða
–    efnum til pappírsgerðar
5309 til 5311 Ofnir dúkar úr öðrum textíltrefjum úr jurtaríkinu; ofnir dúkar úr pappírsgarni:
–    Með gúmmíþræði
Framleiðsla úr einþráða garni  1
–    Annað Framleiðsla úr  1 :
–    kókosgarni
–    jútugarn
–    náttúrlegum trefjum
–    tilbúnum stutttrefjum hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna
–    kemískum efnum eða textílmassa eða
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
–    man-made staple fibres not carded or combed or otherwise prepared for spinning,
–    chemical materials or textile pulp, or
–    paper
or
Printing accompanied by at least two preparatory or finishing operations (such as scouring, bleaching, mercerizing, heat setting, raising, calendering, shrink resistance processing, permanent finishing, decatizing, impregnating, mending and burling) where the value of the unprinted fabric used does not exceed 47,5% of the ex-works price of the product
ex Chapter 53 Other vegetable textile fibres; paper yarn and woven fabrics of paper yarn; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
5306 to 5308 Yarn of other vegetable textile fibres; paper yarn Manufacture from  1 :
–    raw silk or silk waste carded or combed or otherwise prepared for spinning,
–    natural fibres not carded or combed or otherwise prepared for spinning,
–    chemical materials or textile pulp, or
–    paper-making materials
5309 to 5311 Woven fabrics of other vegetable textile fibres; woven fabrics of paper yarn:
–    Incorporating rubber thread Manufacture from single yarn 1
–    Other Manufacture from 1 :
–    coir yarn,
–    jute yarn
–    natural fibres,
–    man-made staple fibres not carded or combed or otherwise prepared for spinning,
–    chemical materials or textile pulp, or
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
–    pappír
eða
þrykking ásamt að minnsta kosti tveimur aðgerðum til undirbúnings eða fullvinnslu (svo sem hreinsun, bleiking, mersivinnsla, hitun, ýfing, pressun, afhleyping, straufríjun, sléttun með gufumeðferð (decatising), gegndreyping, viðgerð, hnökrahreinsun), enda sé verðmæti óþrykkts dúks sem notaður er ekki yfir 47,5% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
5401 til 5406 Garn, einþáttungar og tilbúnir þræðir Framleiðsla úr  1 :
–    hrásilki eða silkiúrgangi, kembdu eða greiddu eða á annan hátt unnu undir spuna,
–    náttúrlegum trefjum hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna,
–    kemískum efnum eða textílmassa, eða
–    efnum til pappírsgerðar
5407 og 5408 Ofnir dúkar úr tilbúnu þráðgarni:
–    Með gúmmíþræði
Framleiðsla úr einþráða garni  1
–    Annað Framleiðsla úr:  1
–    kókosgarni
–    náttúrlegum trefjum
–    tilbúnum stutttrefjum hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna
–    kemískum efnum eða textílmassa, eða
–    pappír
eða

HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
–    paper
or

Printing accompanied by at least two preparatory or finishing operations (such as scouring, bleaching, mercerizing, heat setting, raising, calendering, shrink resistance processing, permanent finishing, decatizing, impregnating, mending and burling) where the value of the unprinted fabric used does not exceed 47,5% of the ex-works price of the product
5401 to 5406 Yarn, monofilament and thread of man-made filaments Manufacture from  1 :
–    raw silk or silk waste carded or combed or otherwise prepared for spinning;
–    natural fibres not carded or combed or otherwise prepared for spinning,
–    chemical materials or textile pulp, or
–    paper-making materials
5407 and 5408 Woven fabrics of man-made filament yarn:
–    Incorporating rubber thread Manufacture from single yarn  1
–    Other Manufacture from:  1
–    coir yarn,
–    natural fibres,
–    man-made staple fibres not carded or combed or otherwise prepared for spinning,
–    chemical materials or textile pulp, or
–    paper
or
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
þrykking ásamt að minnsta kosti tveimur aðgerðum til undirbúnings eða fullvinnslu (svo sem hreinsun, bleiking, mersivinnsla, hitun, ýfing, pressun, afhleyping, straufríjun, sléttun með gufumeðferð (decatising), gegndreyping, viðgerð, hnökrahreinsun), enda sé verðmæti óþrykkts dúks sem notaður er ekki yfir 47,5% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
5501 til 5507 Tilbúnar stutttrefjar Framleiðsla úr kemískum efnum eða textílmassa
5508 til 5511 Garn og saumþræðir úr tilbúnum stutttrefjum Framleiðsla úr  1 :
–    hrásilki eða silkiúrgangi, kembdu eða greiddu eða á annan hátt unnu undir spuna
–    náttúrlegum trefjum hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna
–    kemískum efnum eða textílmassa eða
–    efnum til pappírsgerðar
5512 til 5516 Ofnir dúkar úr tilbúnum stutttrefjum
–    Með gúmmíþræði
Framleiðsla úr einþráða garni  1
–    Annað Framleiðsla úr  1 :
–    kókosgarni
–    náttúrlegum trefjum
–    tilbúnum stutttrefjum hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna
–    kemískum efnum eða textílmassa eða
–    pappír
eða
þrykking ásamt að minnsta kosti tveimur aðgerðum til undirbúnings eða fullvinnslu (svo sem hreinsun, bleiking, mersivinnsla, hitun, ýfing, pressun, afhleyping, straufríjun, sléttun með gufumeðferð (decatising), gegndreyping, viðgerð, hnökrahreinsun), enda sé verðmæti óþrykkts dúks sem notaður er ekki yfir 47,5% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
Printing accompanied by at least two preparatory or finishing operations (such as scouring, bleaching, mercerizing, heat setting, raising, calendering, shrink resistance processing, permanent finishing, decatizing, impregnating, mending and burling) where the value of the unprinted fabric used does not exceed 47,5% of the ex-works price of the product
5501 to 5507 Man-made staple fibres Manufacture from chemical materials or textile pulp
5508 to 5511 Yarn and sewing thread of man-made staple fibres Manufacture from  1 :
–    raw silk or silk waste carded or combed or otherwise prepared for spinning,
–    natural fibres not carded or combed or otherwise prepared for spinning,
–    chemical materials or textile pulp, or
–    paper-making materials
5512 to 5516 Woven fabrics of man-made staple fibres:
–    Incorporating rubber thread Manufacture from single yarn 1
–    Other Manufacture from 1 :
–    coir yarn,
–    natural fibres,
–    man-made staple fibres not carded or combed or otherwise prepared for spinning,
–    chemical materials or textile pulp, or
–    paper
or
Printing accompanied by at least two preparatory or finishing operations (such as scouring, bleaching, mercerizing, heat setting, raising, calendering, shrink resistance processing, permanent finishing, decatizing, impregnating, mending and burling) where the value of the unprinted fabric used does not exceed 47,5% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
úr kafla 56 Vatt, flóki og vefleysur; sérgarn; seglgarn, snúrur, reipi og kaðlar og vörur úr þeim, þó ekki: Framleiðsla úr  1 :
–    kókosgarni
–    náttúrlegum trefjum
–    kemískum efnum eða textílmassa eða
–    efnum til pappírsgerðar
5602 Flóki, einnig gegndreyptur, húðaður, hjúpaður eða lagskipaður:
–    Stunginn flóki Framleiðsla úr  1 :
–    náttúrlegum trefjum
–    kemískum efnum eða textílmassa
Þó má nota:
–    pólyprópylen þræði í nr. 5402,
–    pólyprópylen trefjar í nr. 5503 eða 5506
–    pólyprópylen vöndulþræði í nr. 5501
sem að einingu til í öllum einþáttungum eða trefjum eru minna en 9 desítex, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar

–    Annað Framleiðsla úr  1 :
–    náttúrlegum trefjum
–    tilbúnum stutttrefjum úr kasíni eða
–    kemískum efnum eða textílmassa
5604 Gúmmíþráður og gúmmísnúra, hjúpað með textílefni; textílgarn og ræmur o.þ.h. sem lýst er í nr. 5404 eða 5405, gegndreypt, húðað, hjúpað eða klætt með gúmmíi eða plasti:
–    Gúmmíþráður og gúmmísnúra, hjúpað með textílefni Framleiðsla úr gúmmíþræði eða gúmmísnúru sem ekki eru hjúpuð með textílefni
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
ex Chapter 56 Wadding, felt and non-wovens; special yarns; twine, cordage, ropes and cables and articles thereof; except for: Manufacture from 1 :
–    coir yarn,
–    natural fibres,
–    chemical materials or textile pulp, or
–    paper making materials
5602 Felt, whether or not impregnated, coated, covered or laminated:
–    Needleloom felt Manufacture from 1 :
–    natural fibres,
–    chemical materials or textile pulp
However:
–    polypropylene filament of heading No 5402,
–    polypropylene fibres of heading No 5503 or 5506 or
–    polypropylene filament tow of heading No 5501,
of which the denomination in all cases of a single filament or fibre is less than 9 decitex may be used provided their value does not exceed 40% of the ex-works price of the product
–    Other Manufacture from 1 :
–    natural fibres,
–    man-made staple fibres made from casein, or
–    chemical materials or textile pulp
5604 Rubber thread and cord, textile covered; textile yarn, and strip and the like of heading No 5404 or 5405, impregnated, coated, covered or sheathed with rubber or plastics:
–    Rubber thread and cord, textile covered
Manufacture from rubber thread or cord, not textile covered
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
–    Annað Framleiðsla úr  1 :
–    náttúrlegum trefjum hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna
–    kemískum efnum eða textílmassa
–    efnum til pappírsgerðar
5605 Málmgarn, einnig yfirspunnið, sem er textílgarn eða ræmur o.þ.h. sem lýst er í nr. 5404 eða 5405, í sambandi við málm sem er þráður, ræma eða duft, eða húðað með málmi Framleiðsla úr  1 :
–    náttúrlegum trefjum
–    tilbúnum stutttrefjum hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna
–    kemískum efnum eða textílmassa eða
–    efnum til pappírsgerðar
5606 Yfirspunnið garn, og ræmur o.þ.h. í nr. 5404 eða 5405, yfirspunnið (þó ekki það sem er í nr. 5605 og yfirspunnið hrosshársgarn); chenillegarn (þar með talið hnökrað chenillegarn); lykkjurifflað garn Framleiðsla úr  1 :
–    náttúrlegum trefjum
–    tilbúnum stutttrefjum, hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna
–    kemískum efnum eða textílmassa, eða
–    efnum til pappírsgerðar
57. kafli Gólfteppi og aðrar gólfábreiður úr textílefnum:
–    Úr stungnum flóka Framleiðsla úr  1 :
–    náttúrlegum trefjum, eða
–    kemískum efnum eða textílmassa
Þó má nota:
–    pólyprópylen þræði í nr. 5402,
–    pólyprópylen trefjar í nr. 5503 eða 5506, eða
–    pólyprópylen vöndulþræði í nr. 5501
sem að einingu til í öllum einþáttungum eða trefjum eru minna en 9 desítex, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Heimilt er að nota undirlag úr jútu

HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
–    Other Manufacture from  1 :
–    natural fibres not carded or combed or otherwise processed for spinning,
–    chemical materials or textile pulp, or
–    paper-making materials
5605 Metallized yarn, whether or not gimped, being textile yarn, or strip or the like of heading No 5404 or 5405, combined with metal in the form of thread, strip or powder or covered with metal Manufacture from  1
–    natural fibres,
–    man-made staple fibres not carded or combed or otherwise processed for spinning,
–    chemical materials or textile pulp, or
–    paper-making materials
5606 Gimped yarn, and strip and the like of heading No 5404 or 5405, gimped (other than those of heading No 5605 and gimped horsehair yarn); chenille yarn (including flock chenille yarn; loop wale-yarn Manufacture from 1 :
–    natural fibres,
–    man-made staple fibres not carded or combed or otherwise processed for spinning,
–    chemical materials or textile pulp, or
–    paper-making materials
Chapter 57 Carpets and other textile floor coverings :
–    Of needleloom felt Manufacture from 1 :
–    natural fibres, or
–    chemical materials or textile pulp
However:
–    polypropylene filament of heading No 5402,
–    polypropylene fibres of heading Nos 5503 or 5506 or
–    polypropylene filament tow of heading No 5501,
of which the denomination in all cases of a single filament or fibre is less than 9 decitex may be used provided their value does not exceed 40% of the ex-works price of the product
Jute fabric may be used as backing
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
–    Úr öðrum flóka Framleiðsla úr  1 :
–    náttúrlegum trefjum, hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna
–    kemískum efnum eða textílmassa
–    Úr öðrum textílefnum Framleiðsla úr  1 :
–    kókosgarni eða jútugarni
–    syntetísku eða gerviþráðgarni,
–    náttúrlegum trefjum, eða
–    tilbúnum stutttrefjum hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna
Heimilt er að nota undirlag úr jútu
úr 58. kafla Ofinn dúkur til sérstakra nota; límbundinn textíldúkur; laufaborðar; veggteppi; leggingar; útsaumur, þó ekki:
–    með gúmmíþræði Framleiðsla úr einþráða garni  1
–    Annað Framleiðsla úr  1 :
–    náttúrlegum trefjum
–    tilbúnum stutttrefjum hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna, eða
–    kemískum efnum eða textílmassa
eða
þrykking ásamt að minnsta kosti tveimur aðgerðum til undirbúnings eða fullvinnslu (svo sem hreinsun, bleiking, mersivinnsla, hitun, ýfing, pressun, afhleyping, straufríjun, sléttun með gufumeðferð (decatising), gegndreyping, viðgerð, hnökrahreinsun), enda sé verðmæti óþrykkts dúks sem notaður er ekki yfir 47,5% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
5805 Handofin veggteppi af gerðinni góbelín, flandern, aubusson, beauvais og þess háttar og handsaumuð veggteppi (t.d. góbelínsaumur, krosssaumur), einnig fullgerð
Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
–    Of other felt Manufacture from 1 :
–    natural fibres not carded or combed or otherwise processed for spinning, or
–    chemical materials or textile pulp
–    Of other textile materials Manufacture from 1 :
–    coir yarn or jute yarn,
–    synthetic or artificial filament yarn,
–    natural fibres, or
–    man-made staple fibres not carded or combed or otherwise processed for spinning
Jute fabric may be used as backing
ex Chapter 58 Special woven fabrics; tufted textile fabrics; lace; tapestries; trimmings; embroidery; except for:
–    Combined with rubber thread Manufacture from single yarn 1
–    Other Manufacture from 1 :
–    natural fibres
–    man-made staple fibres not carded or combed or otherwise processed for spinning, or
–    chemical materials or textile pulp,
or
Printing accompanied by at least two preparatory or finishing operations (such as scouring, bleaching, mercerizing, heat setting, raising, calendering, shrink resistance processing, permanent finishing, decatizing, impregnating, mending and burling) where the value of the unprinted fabric used does not exceed 47,5% of the ex-works price of the product
5805 Hand-woven tapestries of the types gobelins, flanders, aubusson, beauvais and the like, and needle-worked tapestries (for example, petit point, cross stitch), whether or not made up Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
5810 Útsaumur sem metravara, ræmur eða mótíf Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    þar sem verðmæti efnanna í heild er ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
5901 Textíldúkur húðaður gúmkvoðu eða sterkjukenndum efnum, til nota í bókahlífar eða þess háttar; afritaléreft; unnið listmálunarléreft; stífléreft (buckram) og áþekkur stífur textíldúkur til hattagerðar

Framleiðsla úr garni
5902 Hjólbarðadúkur (tyre cord fabric), úr háþolnu garni úr næloni eða öðrum pólyamíðum, pólyestrum eða viskósarayoni
–    úr meira en 90% af textílefnum miðað við þyngd
Framleiðsla úr garni
–    Annað Framleiðsla úr kemískum efnum eða textílmassa
5903 Textíldúkur gegndreyptur, húðaður, hjúpaður eða lagskipaður með plasti, þó ekki dúkur í nr. 5902 Framleiðsla úr garni
eða
þrykking ásamt að minnsta kosti tveimur aðgerðum til undirbúnings eða fullvinnslu (svo sem hreinsun, bleiking, mersivinnsla, hitun, ýfing, pressun, afhleyping, straufríjun, sléttun með gufumeðferð (decatising), gegndreyping, viðgerð, hnökrahreinsun), enda sé verðmæti óþrykkts dúks sem notaður er ekki yfir 47,5% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
5904 Línóleum, einnig tilsniðið; gólfdúkur úr yfirborðshúðuðu eða yfirborðshjúpuðu textílundirlagi, einnig tilsniðinn

Framleiðsla úr garni  1 :
5905 Veggfóður úr textílefni:
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
5810 Embroidery in the piece, in strips or in motifs Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
5901 Textile fabrics coated with gum or amylaceous substances of a kind used for the outer covers of books or the like; tracing cloth; prepared painting canvas; buckram and similar stiffened textile fabrics of a kind used for hat foundations Manufacture from yarn
5902 Tyre cord fabric of high tenacity yarn of nylon or other polyamides, polyesters or viscose rayon:
–    Containing not more than 90% by weight of textile materials Manufacture from yarn
–    Other Manufacture from chemical materials or textile pulp
5903 Textile fabrics impregnated, coated, covered or laminated with plastics, other than those of heading No 5902 Manufacture from yarn
or
Printing accompanied by at least two preparatory or finishing operations (such as scouring, bleaching, mercerizing, heat setting, raising, calendering, shrink resistance processing, permanent finishing, decatizing, impregnating, mending and burling) where the value of the unprinted fabric used does not exceed 47,5% of the ex-works price of the product
5904 Linoleum, whether or not cut to shape; floor coverings consisting of a coating or covering applied on a textile backing, whether or not cut to shape Manufacture from yarn 1 :
5905 Textile wall coverings:
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
–    Gegndreypt, húðað, hjúpað eða lagskipað með gúmmíi, plasti eða öðrum efnum Framleiðsla úr garni
–    Annað Framleiðsla úr  1 :
–    kókosgarni
–    náttúrlegum trefjum
–    tilbúnum stutttrefjum hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna, eða
–    kemískum efnum eða textílmassa,
eða
þrykking ásamt að minnsta kosti tveimur aðgerðum til undirbúnings eða fullvinnslu (svo sem hreinsun, bleiking, mersivinnsla, hitun, ýfing, pressun, afhleyping, straufríjun, sléttun með gufumeðferð (decatising), gegndreyping, viðgerð, hnökrahreinsun), enda sé verðmæti óþrykkts dúks sem notaður er ekki yfir 47,5% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
5906 Gúmmíborinn textíldúkur, þó ekki dúkur í nr. 5902:
–    Prjónaðir eða heklaðir dúkar Framleiðsla úr  1 :
–    náttúrlegum trefjum
–    tilbúnum stutttrefjum hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna
–    kemískum efnum eða textílmassa
–    Aðrir dúkar gerðir úr syntetísku þráðgarni þar sem textílefni eru yfir 90% miðað við þyngd
Framleiðsla úr kemískum efnum
–    Annað Framleiðsla úr garni
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
–    Impregnated, coated, covered or laminated with rubber, plastics or other materials Manufacture from yarn
–    Other Manufacture from 1 :
–    coir yarn,
–    natural fibres
–    man-made staple fibres not carded or combed or otherwise processed for spinning, or
–    chemical materials or textile pulp,
or
Printing accompanied by at least two preparatory or finishing operations (such as scouring, bleaching, mercerizing, heat setting, raising, calendering, shrink resistance processing, permanent finishing, decatizing, impregnating, mending and burling) where the value of the unprinted fabric used does not exceed 47,5% of the ex-works price of the product
5906 Rubberized textile fabrics, other than those of heading No 5902:
–    Knitted or crocheted fabrics Manufacture from 1 :
–    natural fibres
–    man-made staple fibres not carded or combed or otherwise processed for spinning, or
–    chemical materials or textile pulp
–    Other fabrics made of synthetic filament yarn, containing more than 90% by weight of textile materials Manufacture from chemical materials
–    Other Manufacture from yarn
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
5907 Textíldúkur gegndreyptur, húðaður eða hjúpaður á annan hátt; máluð tjöld sem eru leiktjöld, svartur bakgrunnur í myndastofur eða þess háttar Framleiðsla úr garni
eða
þrykking ásamt að minnsta kosti tveimur aðgerðum til undirbúnings eða fullvinnslu (svo sem hreinsun, bleiking, mersivinnsla, hitun, ýfing, pressun, afhleyping, straufríjun, sléttun með gufumeðferð (decatising), gegndreyping, viðgerð, hnökrahreinsun), enda sé verðmæti óþrykkts dúks sem notaður er ekki yfir 47,5% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
5908 Kveikir úr textílefni, ofnir, fléttaðir eða prjónaðir, í lampa, ofna, kveikjara, kerti eða þess háttar; glóðarsokkar og slöngulaga prjónað glóðarnetefni til þeirra, einnig gegndreypt:
–    Glóðarsokkar, gegndreyptir Framleiðsla úr slöngulaga prjónuðu glóðarnetefni
–    Annað Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
5909 til 5911 Textílvörur til notkunar í iðnaði:
–    Fágunarskífur eða -hringir úr öðru en flóka í nr. 5911 Framleiðsla úr garni eða afgangsdúkum eða -tuskum í nr. 6310
–    Ofinn dúkur, af þeirri gerð sem er oft notuð til pappírsgerðar eða annarra tækninota, fóðraður með flóka, einnig gegndreyptur eða húðaður, slöngulaga eða endalaus með einþráða eða margþráða uppistöðu og/eða ívafi, eða sléttofinn með margþráða uppistöðu og/eða ívafi í nr. 5911 Framleiðsla úr  1 :
–    kókosgarni
–    eftirfarandi efnum:
    ––    garni úr pólytetraflúor etýleni  2
    ––    margþráða garni úr pólýamíði, húðuðu, gegndreyptu eða hjúpuðu með fenólresíni
    ––    garni úr syntetískum textílefnatrefjum úr arómatískum pólýamíðum, fengnum með fjölþéttingu m-fenýlendíamíða og isophthalsýru
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
5907 Textile fabrics otherwise impregnated, coated or covered; painted canvas being theatrical scenery, studio backcloths or the like Manufacture from yarn
or
Printing accompanied by at least two preparatory or finishing operations (such as scouring, bleaching, mercerizing, heat setting, raising, calendering, shrink resistance processing, permanent finishing, decatizing, impregnating, mending and burling) where the value of the unprinted fabric used does not exceed 47,5% of the ex-works price of the product
5908 Textile wicks, woven, plaited or knitted, for lamps, stoves, lighters, candles or the like; incandescent gas mantles and tubular knitted gas mantle fabric therefore, whether or not impregnated:
–    Incandescent gas mantles, impregnated Manufacture from tubular knitted gas mantle fabric
–    Other Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
5909 to 5911 Textile articles of a kind suitable for industrial use:
–    Polishing discs or rings other than of felt of heading No 5911 Manufacture from yarn or waste fabrics or rags of heading No 6310
–    Woven fabrics, of a kind commonly used in papermaking or other technical uses, felted or not, whether or not impregnated or coated, tubular or endless with single or multiple warp and/or weft, or flat woven with multiple warp and/or weft of heading No 5911 Manufacture from 1 :
–    coir yarn,
–    the following materials:
    ––    yarn of polytetrafluoroethylene 2
    ––    yarn, multiple, of polyamide, coated impregnated or covered with a phenolic resin,
    ––    yarn of synthetic textile fibres of aromatic polyamides, obtained by polycondensation of m-phenylenediamine and isophthalic acid
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
    ––    einþáttungi pólytetraflúoretýlens  1
    ––    garni úr syntetískum textílefnatrefjum úr póly-p-fenýlen terephtalamíði

    ––    glertrefjagarni, húðuðu með fenólresíni og yfirspunnið með akrylgarni  1
    ––    blandaðir polyestraeinþáttungar úr polyestra og resíni terephtalicsýru og 1.4-cyclohexanedincthanol og isophtalicsýru,
    ––    náttúrlegum trefjum
    ––    tilbúnum stutttrefjum, hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna, eða
    ––    kemískum efnum eða textílmassa
–    Annað Framleiðsla úr  2 :
–    kókosgarni
–    náttúrlegum trefjum
–    tilbúnum stutttrefjum hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna, eða
–    kemískum efnum eða textílmassa
60. kafli Prjónaður eða heklaður dúkur Framleiðsla úr  1 :
–    náttúrlegum trefjum
–    tilbúnum stutttrefjum hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna, eða
–    kemískum efnum eða textílmassa
61. kafli Fatnaður og fylgihlutir, prjónað eða heklað:
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
    ––    monofil of polytetrafluoroethylene 1
    ––    yarn of synthetic textile fibres of poly-p-phenylene terephthalamide,
    ––    glass fibre yarn, coated with phenol resin and gimped with acrylic yarn 1
    ––    copolyester monofilaments of a polyester and a resin of terephthalic acid and 1.4 cyclohexanedincthanol and isophthalic acid,
    ––    natural fibres
    ––    man-made staple fibres not carded or combed or otherwise processed for spinning, or

    ––    chemical materials or textile pulp
–    Other Manufacture from 2 :
–    coir yarn,
–    natural fibres
–    man-made staple fibres not carded or combed or otherwise processed for spinning, or
–    chemical materials or textile pulp
Chapter 60 Knitted or crocheted fabrics Manufacture from 1 :
–    natural fibres
–    man-made staple fibres not carded or combed or otherwise processed for spinning, or
–    chemical materials or textile pulp
Chapter 61 Articles of apparel and clothing accessories, knitted or crocheted:
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
–    Vara unnin með því að sauma eða festa saman með öðru móti tvö eða fleiri stykki sem hafa verið sniðin sérstaklega eða fengin sérsniðin úr prjónuðu eða hekluðu efni
Framleiðsla úr garni  1 , 2
–    Annað Framleiðsla úr  1 :
–    náttúrlegum trefjum
–    tilbúnum trefjum hvorki kembdum né greiddum eða unnum á annan hátt undir spuna, eða
–    kemískum efnum eða textílmassa
Úr 62. kafla Fatnaður og fylgihlutir, hvorki prjónaðir né heklaðir, þó ekki:
Framleiðsla úr garni  1,2
úr 6202,
úr 6204,
úr 6206,
úr 6209 og
úr 6211
Kvenna-, telpna- og ungbarnafatnaður og fylgihlutir fyrir börn, útsaumað Framleiðsla úr garni 2
eða
framleiðsla úr efni sem hefur ekki slíkt ytra lag, enda sé verðmæti efnisins ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar 2
úr 6210 og
úr 6216
Eldþolinn útbúnaður úr efni sem hefur þunnt ytra lag úr álblönduðum pólyestra Framleiðsla úr garni 2
eða
framleiðsla úr efni sem hefur ekki slíkt ytra lag, enda sé verðmæti efnisins ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar 2
6213 og 6214 Vasaklútar, sjöl, klútar, treflar, slár, slæður og þess háttar:
–    Útsaumað Framleiðsla úr óbleiktu, einþráða garni  1,2
eða
framleiðsla úr efni sem er ekki útsaumað enda sé verðmæti efnisins ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar  2
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
–    Obtained by sewing together or otherwise assembling, two or more pieces of knitted or crocheted fabric which have been either cut to form or obtained directly to form Manufacture from yarn 1 , 2
–    Other Manufacture from 1 :
–    natural fibres
–    man-made staple fibres not carded or combed or otherwise processed for spinning, or
–    chemical materials or textile pulp
Ex Chapter 62 Articles of apparel and clothing accessories, not knitted or crocheted; except for: Manufacture from yarn 1, 2
ex 6202,
ex 6204,
ex 6206,
ex 6209 and
ex 6211
Women's, girls' and babies' clothing and clothing accessories for babies, embroidered Manufacture from yarn 2
or
Manufacture from unembroidered fabric provided the value of the unembroidered fabric used does not exceed 40% of the ex-works price of the product 2
ex 6210 and
ex 6216
Fire resistant equipment of fabric covered with foil of aluminized polyester Manufacture from yarn 2
or
Manufacture from uncoated fabric provided the value of the uncoated fabric used does not exceed 40% of the ex-works price of the product 2
6213 and 6214 Handkerchiefs, shawls, scarves, mufflers, mantillas, veils and the like:
–    Embroidered Manufacture from unbleached single yarn 1,2
or
Manufacture from unembroidered fabric provided the value of the unembroidered fabric used does not exceed 40% of the ex-works price of the product 2
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
–    Annað Framleiðsla úr óbleiktu, einþráða garni  1 , 2
eða
gerð og síðan þrykking ásamt að minnsta kosti tveimur aðgerðum til undirbúnings eða fullvinnslu (svo sem hreinsun, bleiking, mersivinnsla, hitun, ýfing, pressun, afhleyping, straufríjun, sléttun með gufumeðferð (decatising), gegndreyping, viðgerð, hnökrahreinsun), enda sé verðmæti óþrykktrar vöru í nr. 6213 og 6214 sem notuð er ekki yfir 47,5% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
6217 Aðrir fullgerðir fylgihlutir fatnaðar; hlutar fatnaðar eða fylgihluta, þó ekki vörur í nr. 6212:
–    Útsaumaðir Framleiðsla úr garni  1
eða
framleiðsla úr efni sem er ekki útsaumað enda sé verðmæti efnisins ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar  1
–    Eldþolinn útbúnaður úr efni sem hefur þunnt ytra lag úr álblönduðum pólyestra Framleiðsla úr garni 1
eða
framleiðsla úr efni sem hefur ekki slíkt ytra lag, enda sé verðmæti efnisins ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar 1
–    Millifóður í kraga, og manséttur, tilsniðið Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    þar sem verðmæti efnanna í heild er ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    Annað Framleiðsla úr garni  1
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
–    Other Manufacture from unbleached single yarn 1 , 2
or
Making up followed by printing accompanied by at least two preparatory or finishing operations (such as scouring, bleaching, mercerizing, heat setting, raising, calendering, shrink resistance processing, permanent finishing, decatizing, impregnating, mending and burling) where the value of the unprinted goods of heading No 6213 and 6214 used does not exceed 47,5% of the ex-works price of the product
6217 Other made-up clothing accessories; parts of garments or of clothing accessories, other than those of heading No 6212:
–    Embroidered Manufacture from yarn 1
or
Manufacture from unembroidered fabric provided the value of the unembroidered fabric used does not exceed 40% of the ex-works price of the product 1
–    Fire resistant equipment of fabric covered with foil of aluminized polyester Manufacture from yarn 1
or
Manufacture from uncoated fabric provided the value of the uncoated fabric used does not exceed 40% of the ex-works price of the product 1
–    Interlinings for collars and cuffs, cut out Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
–    Other Manufacture from yarn 1
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
Úr 63. kafla Aðrar fullgerðar textílvörur; samstæður; notaður fatnaður og notaðar textílvörur; tuskur, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
6301 til 6304 Ábreiður, ferðateppi, sængurlín o.s.frv.; gluggatjöld o.s.frv.; aðrar vörur til húsbúnaðar
–    Úr flóka, úr vefleysu Framleiðsla úr 1 :
–    náttúrlegum trefjum, eða
–    kemískum efnum eða textílmassa
–    Annað:
    ––    Útsaumað Framleiðsla úr óbleiktu, einþráða garni  2 , 3
eða
framleiðsla úr efni sem ekki er útsaumað (öðru en prjónuðu eða hekluðu) enda sé verðmæti efnisins ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
    ––    Annað Framleiðsla úr óbleiktu, einþráða garni  2,3
6305 Sekkir og pokar til umbúða um vörur Framleiðsla úr  1 :
–    náttúrlegum trefjum
–    tilbúnum trefjum sem eru ekki kembdar, greiddar eða unnar að öðru leyti undir spuna,
    eða
–    kemískum efnum eða textílmassa
6306 Yfirbreiðslur, skyggni og sóltjöld: tjöld; segl á báta, seglbretti eða landför; viðlegubúnaður:
–    Úr vefleysu Framleiðsla úr  1,2 :
–    náttúrlegum trefjum eða
–    kemískum efnum eða textílmassa
–    Annað: Framleiðsla úr óbleiktu, einþráða garni  1,2
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
Ex Chapter 63 Other made-up textile articles; sets; worn clothing and worn textile articles; rags; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
6301 to 6304 Blankets, travelling rugs, bed linen etc.; curtains etc.; other furnishing articles:
–    Of felt, of non-wovens Manufacture from 1
–    natural fibres, or
–    chemical materials or textile pulp
–    Other:
    ––    Embroidered Manufacture from unbleached single yarn 2 , 3
or
Manufacture from unembroidered fabric (other than knitted or crocheted) provided the value of the unembroidered fabric used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
    ––    Other Manufacture from unbleached single yarn 2,3
6305 Sacks and bags, of a kind used for the packing of goods Manufacture from: 1
–    natural fibres,
–    man-made staple fibres not carded or combed or otherwise processed for spinning, or
–    chemical materials or textile pulp
6306 Tarpaulins, awnings and sunblinds; tents; sails for boats, sailboards or landcraft; camping goods:
–    Of non-wovens Manufacture from 1,2
–    natural fibres, or
–    chemical materials or textile pulp
–    Other Manufacture from unbleached single yarn 1, 2
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
6307 Aðrar fullgerðar vörur, þ.m.t. fatasnið Framleiðsla þar sem verðmæti efnanna í heild er ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
6308 Samstæður sem í er ofinn dúkur og garn, einnig með fylgihlutum, til að búa til úr gólfmottur, veggteppi, útsaumaða borðdúka eða pentudúka, eða áþekkar textílvörur, umbúnar til smásölu Hver hlutur samstæðunnar verður að vera í samræmi við þá reglu sem um hann gilti væri hann ekki hluti af samstæðunni. Þó má nota hluti sem ekki teljast upprunavörur ef verðmæti þeirra í heild er ekki yfir 15% af verksmiðjuverði samstæðunnar
úr 64. kafla Skófatnaður, legghlífar og þess háttar, þó ekki: Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, þó ekki samsetning skóyfirhluta við innri sóla eða aðra hluta sólans í nr. 6406
6406 Hlutar til skófatnaðar (þar með taldir yfirhlutar, einnig festir við sóla, þó ekki ytri sóla); innlegg, hælpúðar og áþekkar vörur; ökklahlífar, legghlífar og áþekkar vörur, og hlutar til þeirra
Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 65. kafla Höfuðfatnaður og hlutar til hans, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
6503 Flókahattar og annar höfuðfatnaður úr hattabolum, höttum eða skífum í nr. 6501, einnig fóðrað eða bryddað

Framleiðsla úr garni eða textíltrefjum  1
6505 Hattar og annar höfuðfatnaður, prjónað eða heklað, eða úr laufaborðum, flóka eða öðrum textíldúk, sem metravara (en ekki í ræmum), einnig fóðrað eða bryddað; hárnet úr hvers konar efni, einnig fóðruð eða brydduð
Framleiðsla úr garni eða textíltrefjum  1
úr 66. kafla Regnhlífar, sólhlífar, göngustafir, setustafir, svipur, keyri og hlutar til þeirra, þó ekki:
Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
6307 Other made-up articles, including dress patterns Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
6308 Sets consisting of woven fabric and yarn, whether or not with accessories, for making up into rugs, tapestries, embroidered table cloths or serviettes or similar textile articles, put up in packings for retail sale Each item in the set must satisfy the rule which would apply to it if it were not included in the set. However, non-originating articles may be incorporated provided their total value does not exceed 15% of the ex-works price of the set
ex Chapter 64 Footwear; gaiters and the like; except for: Manufacture from materials of any headings except for assemblies of uppers affixed to inner soles or to other sole components of heading No 6406
6406 Parts of footwear (including uppers whether or not attached to soles other than outer soles); removable in-soles, heel cushions and similar articles; gaiters, leggings and similar articles, and parts thereof Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
Ex Chapter 65 Headgear and parts thereof, except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
6503 Felt hats and other felt headgear, made from the hat bodies, hoods or plateaux of heading No 6501, whether or not lined or trimmed Manufacture from yarn or textile fibres 1
6505 Hats and other headgear, knitted or crocheted, or made up from lace, felt or other textile fabric, in the piece (but not in strips), whether or not lined or trimmed; hairnets of any material, whether or not lined or trimmed Manufacture from yarn or textile fibres 1
ex Chapter 66 Umbrellas, sun umbrellas, walking-sticks, seat-sticks, whips, riding-crops and parts thereof; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
6601 Regnhlífar og sólhlífar (þar með taldar göngustafsregnhlífar, regnhlífatjöld, garðhlífar og þess háttar regnhlífar) Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
67. kafli Unnar fjaðrir og dúnn og vörur úr fjöðrum eða dún; gerviblóm; vörur úr mannshári Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran

úr 68. kafla Vörur úr steini, gipsefni, sementi, asbesti, gljásteini eða áþekkum efnum, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 6803 Vörur úr flögusteini eða mótuðum flögusteini Framleiðsla úr unnum flögusteini
úr 6812 Vörur úr asbesti; vörur úr blöndum að meginstofni úr asbesti eða að meginstofni úr asbesti og magnesíumkarbónati
Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er
úr 6814 Vörur úr gljásteini, þar með talinn mótaður eða endurunninn gljásteinn, á uppistöðu úr pappír, pappa eða öðrum efnum Framleiðsla úr unnum gljásteini (þar með talinn mótaður eða endurunninn gljásteinn)
69. kafli Leirvörur Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 70. kafla Gler og glervörur, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 7003,
úr 7004 og
úr 7005
Gler með óspeglandi lagi Framleiðsla úr efnum í nr. 7001
7006 Gler úr nr. 7003, 7004 eða 7005, beygt, unnið á köntum, greypt, borað, gljábrennt eða unnið með öðrum hætti, en ekki innrammað eða lagt öðrum efnum:
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
6601 Umbrellas and sun umbrellas (including walking-stick umbrellas, garden umbrellas and similar umbrellas) Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
Chapter 67 Prepared feathers and down and articles made of feathers or of down; artificial flowers; articles of human hair Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex Chapter 68 Articles of stone, plaster, cement, asbestos, mica or similar materials; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex 6803 Articles of slate or of agglomerated slate Manufacture from worked slate
ex 6812 Articles of asbestos; articles of mixtures with a basis of asbestos or of mixtures with a basis of asbestos and magnesium carbonate Manufacture from materials of any heading
ex 6814 Articles of mica, including agglomerated or reconstituted mica, on a support of paper, paperboard or other materials Manufacture from worked mica (including agglomerated or reconstituted mica)
Chapter 69 Ceramic products Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex Chapter 70 Glass and glassware; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex 7003,
ex 7004 and
ex 7005
Glass with a non-reflecting layer Manufacture from materials of heading No 7001
7006 Glass of heading No 7003, 7004 or 7005, bent, edgeworked, engraved, drilled, enamelled or otherwise worked, but not framed or fitted with other materials:
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
–    Undirlag fyrir glerplötur húðað með þunnri rafeinangrandi filmu, í flokki hálfleiðara, í samræmi við staðla SEMII  1
Framleiðsla úr óhúðuðu undirlagi fyrir glerplötur í nr. 7006
–    Annað Framleiðsla úr efnum í nr. 7001
7007 Öryggisgler, úr hertu (tempered) eða lagskipuðu gleri
Framleiðsla úr efnum í nr. 7001
7008 Marglaga einangrunargler Framleiðsla úr efnum í nr. 7001
7009 Glerspeglar, einnig í römmum, þ.m.t. baksýnisspeglar
Framleiðsla úr efnum í nr. 7001
7010 Körfukútar, flöskur, pelar, krukkur, pottar, lyfjaflöskur, lyfjahylki og önnur ílát úr gleri, sem notað er til flutnings eða pökkunar á vörum; niðursuðukrukkur úr gleri; tappar, lok og annar lokunarbúnaður, úr gleri Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
eða
glerskurður, enda sé verðmæti óskorinnar vöru ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
7013 Glervörur notaðar sem borð-, eldhús-, bað- eða skrifstofubúnaður eða til innanhússskreytingar eða áþekkra nota (þó ekki vörur í nr. 7010 eða 7018) Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
eða
glerskurður, enda sé verðmæti óskorinnar vöru ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
eða
handskreyting (að undanskilinni silkiprentun) handblásinna glervara, enda sé verðmæti handblásinnar vöru ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar

úr 7019 Vörur úr glertrefjum (aðrar en garn) Framleiðsla úr:
–    ólituðum vöndlum, vafningum, garni eða söxuðum þráðum, eða
–    glerull
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
–    Glass plate substrate coated with dielectric thin film, semi-conductor grade, in accordance with SEMII standards 1 Manufacture from non-coated glass plate substrate of heading No 7006
–    Other Manufacture from materials of heading No 7001
7007 Safety glass, consisting of toughened (tempered) or laminated glass Manufacture from materials of heading No 7001
7008 Multiple-walled insulating units of glass Manufacture from materials of heading No 7001
7009 Glass mirrors whether or not framed, including rear-view mirrors Manufacture from materials of heading No 7001
7010 Carboys, bottles, flasks, jars, pots, phials, ampoules and other containers, of glass, of a kind used for the conveyance or packing of goods; preserving jars of glass; stoppers, lids and other closures, of glass Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
or
Cutting of glassware, provided the value of the uncut glassware does not exceed 50% of the ex-works price of the product
7013 Glassware of a kind used for table, kitchen, toilet, office, indoor decoration or similar purposes (other than that of heading No 7010 or 7018) Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
or
Cutting of glassware, provided the value of the uncut glassware does not exceed 50% of the ex-works price of the product
or
Hand-decoration (with the exception of silk-screen printing) of hand-blown glassware, provided the value of the hand-blown glassware does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ex 7019 Articles (other than yarn) of glass fibres Manufacture from:
–    uncoloured slivers, rovings, yarn or chopped strands, or
–    glass wool
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
úr 71. kafla Náttúrlegar eða ræktaðar perlur, eðalsteinar eða hálfeðalsteinar, góðmálmar, málmar klæddir góðmálmi, og vörur úr þessum efnum; glysvarningur; mynt, þó ekki:
Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 7101 Perlur, náttúrlegar eða ræktaðar, flokkaðar og dregnar á þráð til bráðabirgða til að auðvelda flutning Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 7102,
úr 7103 og
úr 7104
Unnir eðalsteinar eða hálfeðalsteinar (náttúrlegir, syntetískir eða endurgerðir steinar) Framleiðsla úr óunnum eðal- eða hálfeðalsteinum
7106, 7108
og 7110
Góðmálmar
–    Óunnir Framleiðsla úr efnum sem flokkast ekki undir nr. 7106, 7108 eða 7110
eða
sundurgreining góðmálma í nr. 7106, 7108 eða 7110 með rafhreinsunar-, hita- eða efnameðferð
eða
efnameðferð góðmálma í nr. 7106, 7108 eða 7110 innbyrðis eða við ódýra málma

–    Hálfunnir eða í duftformi Framleiðsla úr óunnum góðmálmum
úr 7107,
úr 7109 og
úr 7111
Málmar klæddir góðmálmi, hálfunnir Framleiðsla úr málmum sem klæddir eru góðmálmi, óunnum
7116 Vörur úr náttúrlegum eða ræktuðum perlum, eðalsteinum eða hálfeðalsteinum (náttúrlegum, syntetískum eða endurgerðum) Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
7117 Glysvarningur Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
eða
framleiðsla úr hlutum úr ódýrum málmi, hvorki húðuðum né plettuðum góðmálmi, enda sé verðmæti allra efnanna ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
ex Chapter 71 Natural or cultured pearls, precious or semi-precious stones, precious metals, metals clad with precious metal, and articles thereof; imitation jewellery; coin; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex 7101 Natural or cultured pearls, graded and temporarily strung for convenience of transport Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ex 7102,
ex 7103 and
ex 7104
Worked precious or semi-precious stones (natural, synthetic or reconstructed)
Manufacture from unworked precious or semi-precious stones
7106, 7108 and 7110 Precious metals:
–    Unwrought Manufacture from materials not classified within heading No 7106, 7108 or 7110
or
Electrolytic, thermal or chemical separation of precious metals of heading No 7106, 7108 or 7110
or
Alloying of precious metals of heading No 7106, 7108 or 7110 with each other or with base metals
–    Semi-manufactured or in powder form Manufacture from unwrought precious metals
ex 7107,
ex 7109 and
ex 7111
Metals clad with precious metals, semi-manufactured Manufacture from metals clad with precious metals, unwrought
7116 Articles of natural or cultured pearls, precious or semi-precious stones (natural, synthetic or reconstructed) Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
7117 Imitation jewellery Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
or
Manufacture from base metal parts, not plated or covered with precious metals, provided the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
úr 72. kafla Járn og stál, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
7207 Hálfunnar vörur úr járni eða óblendnu stáli Framleiðsla úr efnum í nr. 7201, 7202, 7203, 7204 eða 7205
7208 til 7216 Flatvalsaðar vörur, teinar og stengur, prófílar, form eða hlutir úr járni eða óblendnu stáli Framleiðsla úr steypuhleifum eða öðrum frumgerðum í nr. 7206
7217 Vír úr járni eða óblendnu stáli Framleiðsla úr hálfunnum efnum í nr. 7207
úr 7218,
7219 til 7222
Hálfunnar vörur, flatvalsaðar vörur, teinar og stengur, prófílar, form og hlutir úr ryðfríu stáli Framleiðsla úr steypuhleifum eða öðrum frumgerðum í nr. 7218
7223 Vír úr ryðfríu stáli Framleiðsla úr hálfunnum efnum í nr. 7218
úr 7224,
7225 til 7228
Hálfunnar vörur, flatvalsaðar vörur, teinar og stengur, heitvalsað, í óreglulega undnum vafningum; prófílar úr öðru stálblendi; holir borteinar og borstengur, úr blendnu eða óblendnu stáli
Framleiðsla úr steypuhleifum eða öðrum frumgerðum í nr. 7206, 7218 eða 7224
7229 Vír úr öðru stálblendi Framleiðsla úr hálfunnum efnum í nr. 7224
úr 73. kafla Vörur úr járni og stáli,
þó ekki:
Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 7301 Þilstál Framleiðsla úr efnum í nr. 7206
7302 Eftirtalið brautarbyggingarefni fyrir járnbrautir eða sporbrautir, úr járni eða stáli: Teinar, öryggisteinar og tannhjólateinar, skiptiblöð, tengispor, trjónustengur og önnur skiptistykki, brautarbitar (krosstengi), tengispangir, teinafestingar, festingafleygar, undirstöðuplötur (grunnplötur), teinagrip, teinastengur, festiplötur og annað efni sérstaklega ætlað til tengingar eða lagningar járnbrauta Framleiðsla úr efnum í nr. 7206
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
ex Chapter 72 Iron and steel; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
7207 Semi-finished products of iron or non-alloy steel Manufacture from materials of heading No 7201, 7202, 7203, 7204 or 7205
7208 to 7216 Flat rolled products, bars and rods, angles, shapes and sections of iron or non-alloy steel Manufacture from ingots or other primary forms of heading No 7206
7217 Wire of iron or non-alloy steel Manufacture from semi-finished materials of heading No 7207
ex 7218,
7219 to 7222
Semi-finished products, flat rolled products, bars and rods, angles, shapes and sections of stainless steel Manufacture from ingots or other primary forms of heading No 7218
7223 Wire of stainless steel Manufacture from semi-finished materials of heading No 7218
ex 7224,
7225 to 7228
Semi-finished products, flat rolled products, hot-rolled bars and rods, in irregularly wound coils; angles, shapes and sections, of other alloy steel; hollow drill bars and rods, of alloy or non-alloy steel Manufacture from ingots or other primary forms of heading No 7206, 7218 or 7224
7229 Wire of other alloy steel Manufacture from semi-finished materials of heading No 7224
ex Chapter 73 Articles of iron or steel; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex 7301 Sheet piling Manufacture from materials of heading No 7206
7302 Railway or tramway track construction materials of iron or steel, the following: rails, checkrails and rackrails, switch blades, crossing frogs, point rods and other crossing pieces, sleepers (cross-ties), fishplates, chairs, chair wedges, sole pates (base plates), rail clips, bedplates, ties and other material specialized for jointing or fixing rails
Manufacture from materials of heading No 7206
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
7304, 7305
og 7306
Leiðslur, pípur og holir prófílar, úr járni (þó ekki steypujárni) eða stáli Framleiðsla úr efnum í nr. 7206, 7207, 7218 eða 7224
úr 7307 Leiðslu- eða píputengi úr ryðfríu stáli (ISO nr. X5CrNiMo 1712), úr mörgum hlutum Rennismíði, borun, snörun, snittun, jöfnun og sandblástur á grófformuðu efni, að verðmæti ekki yfir 35% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
7308 Mannvirki (þó ekki forsmíðaðar byggingar í nr. 9406) og hlutar til mannvirkja (t.d. brýr og brúarhlutar, lokur (lock-gates), turnar, súlnagrindur, þök, þakgrindur, hurðir og gluggar og karmar til þeirra og þröskuldar fyrir hurðir, hlerar, handrið, stöplar og súlur), úr járni eða stáli; plötur, stengur, prófílar, leiðslur og þess háttar, tilsniðið til notkunar í mannvirki, úr járni eða stáli

Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Óheimilt er þó að nota soðna prófíla, form eða hluti í nr. 7301
úr 7315 Hjólbarðakeðjur Framleiðsla úr efnum í nr. 7315 sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 74. kafla Kopar og vörur úr honum, þó ekki: Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    þar sem verðmæti efnanna í heild er ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
7401 Koparsteinn; koparsement (felldur kopar) Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
7402 Óhreinsaður kopar; koparforskaut til rafhreinsunar Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
7403 Hreinsaður kopar og koparblendi, óunninn:
–    Hreinsaður kopar Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
7304, 7305 and 7306 Tubes, pipes and hollow profiles, of iron (other than cast iron) or steel Manufacture from materials of heading No 7206, 7207, 7218 or 7224
ex 7307 Tube or pipe fittings of stainless steel (ISO No X5CrNiMo 1712), consisting of several parts Turning, drilling, reaming, threading, deburring and sandblasting of forged blanks the value of which does not exceed 35% of the ex-works price of the product
7308 Structures (excluding prefabricated buildings of heading No 9406) and parts of structures (for example, bridges and bridge-sections, lock-gates, towers, lattice masts, roofs, roofing frameworks, doors and windows and their frames and thresholds for doors, shutters, balustrades, pillars and columns), of iron or steel; plates, rods, angles, shapes, sections, tubes and the like, prepared for use in structures, of iron or steel Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, welded angles, shapes and sections of heading No 7301 may not be used
ex 7315 Skid chains Manufacture in which the value of all the materials of heading No 7315 used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ex Chapter 74 Copper and articles thereof; except for: Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
7401 Copper mattes; cement copper (precipitated copper) Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the produc
7402 Unrefined copper; copper anodes for electrolytic refining Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
7403 Refined copper and copper alloys, unwrought:
–    Refined copper Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
–    Koparblendi og hreinsaður kopar sem inniheldur önnur efni Framleiðsla úr hreinsuðum kopar, óunnum eða úr koparúrgangi og -rusli
7404 Koparúrgangur og koparrusl Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
7405 Koparforblendi Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 75. kafla Nikkill og vörur úr honum; þó ekki: Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    þar sem verðmæti efnanna í heild er ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
7501 til 7503 Nikkilsteinn, nikkiloxíðfrauð og aðrar millistigsvörur frá nikkilvinnslu; óunninn nikkill; nikkilúrgangur og nikkilrusl
Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 76. kafla Ál og vörur úr því, þó ekki: Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    þar sem verðmæti efnanna í heild er ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
7601 Óunnið ál Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran, og
–    þar sem verðmæti efnanna í heild er ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
eða
framleiðsla með hita- eða rafmeðferð úr óblönduðu áli eða álúrgangi og álrusli
7602 Álúrgangur og álrusl Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
–    Copper alloys and refined copper containing other elements Manufacture from refined copper, unwrought, or waste and scrap of copper
7404 Copper waste and scrap Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
7405 Master alloys of copper Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex Chapter 75 Nickel and articles thereof; except for: Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
7501 to 7503 Nickel mattes, nickel oxide sinters and other intermediate products of nickel metallurgy; unwrought nickel; nickel waste and scrap Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex Chapter 76 Aluminium and articles thereof; except for: Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
7601 Unwrought aluminium Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product; and
–    the value of all the materials used does not exceed 50 per cent of the ex-works price of the product
or
Manufacture by thermal or electrolytic treatment from unalloyed aluminium or waste and scrap of aluminium
7602 Aluminium waste or scrap Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
úr 7616 Vörur úr áli aðrar en vírnet, vírdúkur, grindur, netefni, girðingaefni, styrktardúkur o.þ.h. (þar með talin endalaus bönd) úr álvír og möskvateygðar plötur úr áli Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran Þó má nota vírnet, vírdúk, grindur, netefni, girðingaefni, styrktardúk o.þ.h.(þar með talin endalaus bönd) úr álvír, eða möskvateygðar plötur úr áli;
–    þar sem verðmæti efnanna í heild er ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar

77. kafli Verður hugsanlega notaður síðar í Samræmdu tollskránni
úr 78. kafla Blý og vörur úr því, þó ekki: Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    þar sem verðmæti efnanna í heild er ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
7801 Óunnið blý:
–    Hreinsað blý Framleiðsla úr stöngum eða vinnslublýi
–    Annað Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Óheimilt er þó að nota úrgang og rusl sem flokkast undir nr. 7802
7802 Blýúrgangur og blýrusl Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 79. kafla Sink og vörur úr því, þó ekki: Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    þar sem verðmæti efnanna í heild er ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
ex 7616 Aluminium articles other than gauze, cloth, grill, netting, fencing, reinforcing fabric and similar materials (including endless bands) of aluminium wire, and expanded metal of aluminium Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, gauze, cloth, grill, netting, fencing, reinforcing fabric and similar materials (including endless bands) of aluminium wire or expanded metal of aluminium may be used;
–    the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
Chapter 77 Reserved for possible future use in HS
ex Chapter 78 Lead and articles thereof; except for: Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
7801 Unwrought lead:
–    Refined lead Manufacture from “bullion” or “work” lead
–    Other Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, waste and scrap of heading No 7802 may not be used
7802 Lead waste and scrap Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex Chapter 79 Zinc and articles thereof; except for: Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
7901 Óunnið sink Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Óheimilt er þó að nota úrgang og rusl sem flokkast undir nr. 7902
7902 Sinkúrgangur og rusl Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 80. kafla Tin og vörur úr því, þó ekki: Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran, og
–    þar sem verðmæti efnanna í heild er ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8001 Óunnið tin Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Óheimilt er þó að nota úrgang og rusl sem flokkast undir nr. 8002
8002 og 8007 Tinúrgangur og tinrusl; aðrar vörur úr tini Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
81. kafli Aðrir ódýrir málmar, keramíkmelmi; vörur úr þeim
–    Aðrir ódýrir málmar, unnir; vörur úr þeim Framleiðsla úr efnum sem öll flokkast undir sama vörulið og framleiðsluvaran og eru í heild að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    Annað Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 82. kafla Verkfæri, áhöld, eggjárn, skeiðar og gafflar, úr ódýrum málmi; hlutar til þeirra úr ódýrum málmi, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
8206 Verkfæri í tveimur eða fleiri af nr. 8202 til 8205, umbúin í vörusamstæður til smásölu Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en nr. 8202 til 8205. Þó er heimilt að hafa með í samstæðunni verkfæri í nr. 8202 til 8205, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 15% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
7901 Unwrought zinc Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, waste and scrap of heading No 7902 may not be used
7902 Zinc waste and scrap Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex Chapter 80 Tin and articles thereof; except for: Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
8001 Unwrought tin Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, waste and scrap of heading No 8002 may not be used
8002 and 8007 Tin waste and scrap; other articles of tin Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
Chapter 81 Other base metals; cermets; articles thereof:
–    Other base metals, wrought; articles thereof Manufacture in which the value of all the materials classified within the same heading as the product used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
–    Other Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex Chapter 82 Tools, implements, cutlery, spoons and forks, of base metal; parts thereof of base metal; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
8206 Tools of two or more of the heading No 8202 to 8205, put up in sets for retail sale Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than heading No 8202 to 8205. However, tools of heading No 8202 to 8205 may be incorporated into the set provided their value does not exceed 15% of the ex-works price of the set
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
8207 Skiptiverkfæri í handverkfæri, einnig aflknúin, eða í smíðavélar (t.d. til að pressa, stansa, höggva, snitta, bora, snara úr, rýma, fræsa, renna eða skrúfa), þar með talin mót til að draga eða þrykkja málm og verkfæri til að bora í berg eða jarðveg


Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    þar sem verðmæti efnanna í heild er ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8208 Hnífar og skurðarblöð í vélar eða vélræn tæki Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    þar sem verðmæti efnanna í heild er ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 8211 Hnífar með skurðarblöðum, einnig sagtennt (þar með taldir sniðlar), þó ekki hnífar í nr. 8208 Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó er heimilt að nota hnífblöð og -sköft úr ódýrum málmi
8214 Önnur eggjárn (t.d. hárklippur, kjötaxir eða eldhúsaxir, saxarar, hakkarar, pappírshnífar); áhöld til hand- eða fótsnyrtingar, einnig í samstæðum (þar með taldar naglaþjalir)
Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó er heimilt að nota sköft úr ódýrum málmi
8215 Skeiðar, gafflar, sleifar, gatasleifar, kökuspaðar, fiskhnífar, smjörhnífar, sykurtengur og áþekkur eldhús- eða borðbúnaður Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó er heimilt að nota sköft úr ódýrum málmi
úr 83. kafla Ýmsar vörur úr ódýrum málmi, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 8302 Aðrar festingar, áfellur (fittings) og áþekkar vörur fyrir smíði og sjálfvirkar dyralokur Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó er heimilt að nota önnur efni í nr. 8302, enda sé verðmæti þeirra í heild ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
8207 Interchangeable tools for hand tools, whether or not power-operated, or for machine-tools (for example, for pressing, stamping, punching, tapping, threading, drilling, boring, broaching, milling, turning, or screwdriving), including dies for drawing or extruding metal, and rock drilling or earth boring tools Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
8208 Knives and cutting blades, for machines or for mechanical appliances Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex 8211 Knives with cutting blades, serrated or not (including pruning knives), other than knives of heading No 8208 Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, knife blades and handles of base metal may be used
8214 Other articles of cutlery (for example, hair clippers, butchers' or kitchen cleavers, choppers and mincing knives, paper knives); manicure or pedicure sets and instruments (including nail files) Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, handles of base metal may be used
8215 Spoons, forks, ladles, skimmers, cake-servers, fish-knives, butterknives, sugar tongs and similar kitchen or tableware Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, handles of base metal may be used
ex Chapter 83
Miscellaneous articles of base metal; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product.
ex 8302 Other mountings, fittings and similar articles suitable for buildings, and automatic door closers Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, the other materials of heading No 8302 may be used provided their value does not exceed 20% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
úr 8306 Myndastyttur og aðrir skrautmunir úr ódýrum málmi Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó er heimilt að nota önnur efni í nr. 8306, enda sé verðmæti þeirra í heild ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 84. kafla Kjarnakljúfar, katlar, vélbúnaður og vélræn tæki; hlutar til þeirra, þó ekki: Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 8401 Kjarnaeldsneyti Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran  1 Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8402 Katlar til framleiðslu á vatnsgufu eða annarri gufu (þó ekki heitavatnsmiðstöðvarkatlar sem einnig geta framleitt lágþrýstigufu); háhitavatnskatlar Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8403 og
úr 8404
Katlar til miðstöðvarhitunar, þó ekki katlar í nr. 8402 og aukavélakostur til nota með kötlum til miðstöðvarhitunar Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en nr. 8403 eða 8404 Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8406 Vatnsgufuaflshverflar og aðrir gufuaflshverflar Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8407 Stimpil- eða hverfibrunahreyflar með neistakveikju Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
ex 8306 Statuettes and other ornaments of base metal Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, the other materials of heading No 8306 may be used provided their value does not exceed 30% of the ex-works price of the product
ex Chapter 84 Nuclear reactors, boilers, machinery and mechanical appliances; parts thereof; except for: Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
ex 8401 Nuclear fuel elements Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product 1 Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
8402 Steam or other vapour generating boilers (other than central heating hot water boilers capable also of producing low pressure steam); super heated water boilers Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
8403 and ex 8404 Central heating boilers other than those of heading No 8402 and auxiliary plant for central heating boilers Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than heading No 8403 or 8404 Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
8406 Steam turbines and other vapour turbines Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
8407 Spark-ignition reciprocating or rotary internal combustion piston engines Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
8408 Stimpilbrunahreyflar með þrýstikveikju (dísil- eða hálfdísilhreyflar) Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8409 Hlutar eingöngu eða aðallega nothæfir til hreyfla í nr. 8407 eða 8408 Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8411 Þrýstihverflar, skrúfuhverflar og aðrir gashverflar Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8412 Aðrar vélar og hreyflar: Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 8413 Snúningsdælur með viðlægri færslu Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 8414 Viftur, blásarar og svipuð tæki fyrir iðnað Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8415 Loftjöfnunartæki með hreyfilknúinni viftu og búnaði til að breyta rakastigi og hitastigi, þar með taldar vélar þar sem ekki er sjálfstætt hægt að stjórna rakastigi:
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar

HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
8408 Compression-ignition internal combustion piston engines (diesel or semi-diesel engines) Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
8409 Parts suitable for use solely or principally with the engines of heading No 8407 or 8408 Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
8411 Turbo-jets, turbo propellers and other gas turbines Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
8412 Other engines and motors Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex 8413 Rotary positive displacement pumps Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
ex 8414 Industrial fans, blowers and the like Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
8415 Air conditioning machines, comprising a motor-driven fan and elements for changing the temperature and humidity, including those machines in which the humidity cannot be separately regulated Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
8418 Kæliskápar, frystar og annar kæli- eða frystibúnaður, einnig fyrir rafmagn; varmadælur, þó ekki loftjöfnunartæki í nr. 8415 Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti notaðra efna, sem ekki teljast upprunaefni, er í heild ekki meira en verðmæti notaðra upprunavara
úr 8419 Vélar fyrir við, pappírsdeig, pappír eða pappa Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    í eru aðeins notuð, innan ofangreindra marka, efni flokkuð í sama vörulið og framleiðsluvaran að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8420 Sléttipressur eða aðrar völsunarvélar, þó ekki fyrir málma eða gler, og valsar til þeirra Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    í eru aðeins notuð, innan ofangreindra marka, efni flokkuð í sama vörulið og framleiðsluvaran að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8423 Vogir (þó ekki vogir með 5 cg nákvæmni eða meiri), þar með taldar talningar- og eftirlitsvogir; vogarlóð alls konar: Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
8418 Refrigerators, freezers and other refrigerating or freezing equipment, electric or other; heat pumps other than air conditioning machines of heading No 8415 Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
–    the value of all the non-originating materials used does not exceed the value of the originating materials used
ex 8419 Machines for wood, paper pulp, paper and paperboard industries Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where, within the above limit, the materials classified within the same heading as the product are only used up to a value of 25% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
8420 Calendering or other rolling machines, other than for metals or glass, and cylinders therefor Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where, within the above limit, the materials classified within the same heading as the product are only used up to a value of 25% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
8423 Weighing machinery (excluding balances of a sensitivity of 5 cg or better), including weight operated counting or checking machines; weighing machine weights of all kinds Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
8425 til 8428 Vélbúnaður til lyftingar, meðhöndlunar, hleðslu og losunar Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar og
–    í eru aðeins notuð, innan ofangreindra marka, efni flokkuð í nr. 8431 að verðmæti ekki yfir 10% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8429 Jarðýtur, vegheflar, jöfnunarvélar, skafarar, vélskóflur, gröfur, ámokstursvélar, vélþjöppur og valtarar, sjálfknúið:
–    Valtarar Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    Annað Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    sem í eru aðeins notuð, innan ofangreindra marka, efni flokkuð í nr. 8431 að verðmæti ekki yfir 10% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8430 Annar vélbúnaður til að færa, hefla, jafna, skafa, grafa, þjappa, binda, vinna eða bora í mold, steinefni eða málmgrýti; fallhamrar og stauratogarar; snjóplógar og snjóblásarar Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    sem í eru aðeins notuð, innan ofangreindra marka, efni flokkuð í nr. 8431 að verðmæti ekki yfir 10% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 8431 Hlutar eingöngu eða aðallega nothæfir í valtara Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
8425 to 8428 Lifting, handling, loading or unloading machinery Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where, within the above limit, the materials classified within heading No 8431 are only used up to a value of 10% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
8429 Self-propelled bulldozers, angledozers, graders, levellers, scrapers, mechanical shovels, excavators, shovel loaders, tamping machines and road rollers:
–    Road rollers Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
–    Other Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where, within the above limit, the materials classified within heading No 8431 are only used up to a value of 10% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
8430 Other moving, grading, levelling, scraping, excavating, tamping, compacting, extracting or boring machinery, for earth, minerals or ores; pile-drivers and pile-extractors; snow-ploughs and snow-blowers Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where, within the above limit, the value of the materials classified within heading No 8431 are only used up to a value of 10% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
ex 8431 Parts suitable for use solely or principally with road rollers Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
8439 Vélbúnaður til framleiðslu á deigi úr trefjakenndum sellulósa eða til framleiðslu eða vinnslu á pappír eða pappa Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    sem í eru aðeins notuð, innan ofangreindra marka, efni flokkuð í sama vörulið og framleiðsluvaran að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8441 Annar vélbúnaður til vinnslu á pappírsdeigi, pappír eða pappa, þar með taldar hvers konar pappírs- eða pappaskurðarvélar Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    sem í eru aðeins notuð, innan ofangreindra marka, efni flokkuð í sama vörulið og framleiðsluvaran að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8444 til 8447 Vélbúnaður í þessum vöruliðum til nota í textíliðnaði Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 8448 Hjálparbúnaður fyrir vélar í nr. 8444 og 8445 Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8452 Saumavélar, þó ekki bókasaumavélar í nr. 8440; hús-gögn, undirstöður og lok sérstaklega hannað fyrir saumavélar; saumavélanálar:

–    Saumavélar (einungis með stingsaumi) með hausum sem eru ekki meira en 16 kg að þyngd án mótors eða ekki meira en 17 kg að þyngd með mótor Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti efna sem eru notuð til að setja saman hausinn (án mótors) og ekki teljast upprunaefni er í heild ekki meira en verðmæti notaðra upprunavara og
–     búnaður til að stilla þræði, sauma út og sikksakka er upprunavörur
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
8439 Machinery for making pulp of fibrous cellulosic material or for making or finishing paper or paperboard Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where, within the above limit, the materials classified within the same heading as the product are only used up to a value of 25% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
8441 Other machinery for making up paper pulp, paper or paperboard, including cutting machines of all kinds Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where, within the above limit, the materials classified within the same heading as the product are only used up to a value of 25% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
8444 to 8447 Machines of these headings for use in the textile industry Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex 8448 Auxiliary machinery for use with machines of headings No 8444 and 8445 Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
8452 Sewing machines, other than book-sewing machines of heading No 8440; furniture, bases and covers specially designed for sewing machines; sewing machine needles:
–    Sewing machines (lock stitch only) with heads of a weight not exceeding 16 kg without motor or 17 kg with motor Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where the value of all the non-originating materials used in assembling the head (without motor) does not exceed the value of the originating materials used;
–     the thread tension, crochet and zigzag mechanisms used are already originating
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
–    Annað Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8456 til 8466 Vélar, vélbúnaður og fylgi- og varahlutir sem flokkast undir nr. 8456 til 8466 Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8469 til 8472 Skrifstofuvélar (til dæmis ritvélar, reiknivélar, gagnavinnsluvélar, fjölritunarvélar, heftivélar) Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar

8480 Mótakassar til málmsteypu; mótaundirstöður; mótamynstur; steypumót fyrir málm (þó ekki hrásteypumót), málmkarbíð, gler, jarðefni, gúmmí eða plast
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8482 Kúlu- eða keflaleg Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8484 Þéttingar og áþekk tengi úr málmplötum í sambandi við annað efni eða úr tveimur eða fleiri málmlögum; samstæður eða úrval af þéttingum og þess konar tengjum af mismunandi gerðum, í pokum, hylkjum eða áþekkum umbúðum; vélrænt þétti
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8485 Hlutar til vélbúnaðar, ekki búnir rafmagnstenglum, einangrurum, spólum, snertum eða öðrum rafmagns-búnaði, ót.a. í þessum kafla:

Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
–    Other Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
8456 to 8466 Machine-tools and machines and their parts and accessories of heading No 8456 to 8466 Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
8469 to 8472 Office machines (for example, typewriters, calculating machines, automatic data processing machines, duplicating machines, stapling machines) Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
8480 Moulding boxes for metal foundry; mould bases; moulding patterns; moulds for metal (other than ingot moulds), metal carbides, glass, mineral materials, rubber or plastics Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
8482 Ball or roller bearings Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
8484 Gaskets and similar joints of metal sheeting combined with other material or of two or more layers of metal; sets or assortments of gaskets and similar joints, dissimilar in composition, put up in pouches, envelopes or similar packings; mechanical seals Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
8485 Machinery parts, not containing electrical connectors, insulators, coils, contacts or other electrical features, not specified or included elsewhere in this Chapter Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
úr 85. kafla Rafbúnaður og -tæki og hlutar til þeirra; hljóðupptöku- og hljóðflutningstæki, mynd- og hljóðupptökutæki og mynd- og hljóðflutningstæki fyrir sjónvarp, og hlutar og fylgihlutir til þess konar vara, þó ekki: Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8501 Rafhreyflar og rafalar (þó ekki rafalasamstæður); Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    sem í eru aðeins notuð, innan ofangreindra marka, efni flokkuð í nr. 8503 að verðmæti ekki yfir 10% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8502 Rafalasamstæður og hverfistraumbreytar Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    sem í eru aðeins notuð, innan ofangreindra marka, efni flokkuð í nr. 8501 eða 8503 sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 10% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 8504 Orkugjafaeiningar fyrir sjálfvirkar gagnavinnsluvélar Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 8518 Hljóðnemar og standar fyrir þá; hátalarar, einnig í hátalaraboxi; rafmagnsheyrnartíðnimagnarar; rafmagnshljóðmagnarasett: Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti notaðra efna, sem ekki teljast upprunaefni, er í heild ekki meira en verðmæti notaðra upprunavara
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8519 Snúðar (plötusnúðar), plötuspilarar, snælduspilarar og önnur hljóðflutningstæki, án hljóðupptökubúnaðar Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti notaðra efna, sem ekki teljast upprunaefni, er í heild ekki meira en verðmæti notaðra upprunavara
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
ex Chapter 85 Electrical machinery and equipment and parts thereof; sound recorders and reproducers; television image and sound recorders and reproducers, and parts and accessories of such articles; except for: Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
8501 Electric motors and generators (excluding generating sets) Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where, within the above limit, the materials classified within heading No 8503 are only used up to a value of 10% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
8502 Electric generating sets and rotary converters Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where, within the above limit, the materials classified within heading No 8501 or 8503, taken together, are only used up to a value of 10% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
ex 8504 Power supply units for automatic data-processing machines Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex 8518 Microphones and stands therefor; loudspeakers, whether or not mounted in their enclosures; audio-frequency electric amplifiers; electric sound amplifier sets Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where the value of all the non-originating materials used does not exceed the value of the originating materials used
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
8519 Turntables (record-decks), record-players, cassette-players and other sound reproducing apparatus, not incorporating a sound recording device Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where the value of all the non-originating materials used does not exceed the value of the originating materials used
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
8520 Segulbandsupptökutæki og önnur hljóðupptökutæki, einnig með búnaði til endurskila á hljóði Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti notaðra efna, sem ekki teljast upprunaefni, er í heild ekki meira en verðmæti notaðra upprunavara
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8521 Myndupptökutæki eða myndflutningstæki (video), einnig með innbyggðum myndmóttakara (video tuner) Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti notaðra efna, sem ekki teljast upprunaefni, er í heild ekki meira en verðmæti notaðra upprunavara
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8522 Hlutar og fylgihlutir sem eingöngu eða aðallega eru nothæfir til tækjabúnaðar í nr. 8519-8521 Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8523 Fullgerðir óáteknir miðlar til hljóðupptöku eða áþekkrar upptöku á öðrum merkjum, þó ekki vörur í 37. kafla
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8524 Hljómplötur, bönd og aðrir áteknir miðlar fyrir hljóð eða önnur merki upptekin á áþekkan hátt, þar með talin mót og frumgerðir (masters) til framleiðslu á upptökum, þó ekki vörur í 37. kafla:
–    mót og frumgerðir til framleiðslu á upptökum Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    Annað Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    sem í eru aðeins notuð, innan ofangreindra marka, efni flokkuð í nr. 8523 að verðmæti ekki yfir 10% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
8520 Magnetic tape recorders and other sound recording apparatus, whether or not incorporating a sound reproducing device Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where the value of all the non-originating materials used does not exceed the value of the originating materials used
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
8521 Video recording or reproducing apparatus, whether or not incorporating a video tuner Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where the value of all the non-originating materials used does not exceed the value of the originating materials used
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
8522 Parts and accessories suitable for use solely or principally with the apparatus of heading No 8519 to 8521 Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
8523 Prepared unrecorded media for sound recording or similar recording of other phenomena, other than products of Chapter 37 Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
8524 Records, tapes and other recorded media for sound or other similarly recorded phenomena, including matrices and masters for the production of records, but excluding products of Chapter 37:
–    Matrices and masters for the production of records Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
–    Other Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where, within the above limit, the materials classified within heading No 8523 are only used up to a value of 10% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
8525 Senditæki fyrir firðtal, loftskeytasendingar, útvarpssendingar eða sjónvarp, einnig með móttökubúnaði eða hljóðupptöku- eða hljóðflutningsbúnaði; sjónvarpsmyndavélar; myndbandsmyndavélar fyrir kyrrmyndir og aðrar myndbandstökuvélar:
Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti notaðra efna, sem ekki teljast upprunaefni, er í heild ekki meira en verðmæti notaðra upprunavara
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8526 Ratsjár, radíómiðunartæki og radíófjarstýribúnaður Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti notaðra efna, sem ekki teljast upprunaefni, er í heild ekki meira en verðmæti notaðra upprunavara
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8527 Móttökutæki fyrir firðtal, loftskeytasendingar eða útvarpssendingar, einnig sambyggð, í sama hylki, með hljóðupptöku- eða hljóðflutningsbúnaði eða klukku Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti notaðra efna, sem ekki teljast upprunaefni, er í heild ekki meira en verðmæti notaðra upprunavara
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8528 Móttökutæki fyrir sjónvarp, einnig með útvarpsviðtæki eða hljóð- eða myndbandsupptökubúnaði eða -flutningsbúnaði; myndskjáir (video monitors) og myndvarpar (video projectors) Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti notaðra efna, sem ekki teljast upprunaefni, er í heild ekki meira en verðmæti notaðra upprunavara
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8529 Hlutar eingöngu eða aðallega nothæfir til tækja í nr. 8525 til 8528
–    eingöngu eða aðallega nothæfir til myndbandsupptökubúnaðar eða -flutningsbúnaðar Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
8525 Transmission apparatus for radio-telephony, radio-telegraphy; radio-broadcasting or television, whether or not incorporating reception apparatus or sound recording or reproducing apparatus; television cameras, still image video cameras and other video camera recorders Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where the value of all the non-originating materials used does not exceed the value of the originating materials used
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
8526 Radar apparatus, radio navigational aid apparatus and radio remote control apparatus Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where the value of all the non-originating materials used does not exceed the value of the originating materials used
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
8527 Reception apparatus for radio-telephony, radio-telegraphy or radio broadcasting, whether or not combined, in the same housing, with sound recording or reproducing apparatus or a clock Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where the value of all the non-originating materials used does not exceed the value of the originating materials used
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
8528 Reception apparatus for television, whether or not incorporating radio broadcast receivers or sound or video recording or reproducing apparatus; video monitors and video projectors Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where the value of all the non-originating materials used does not exceed the value of the originating materials used
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
8529 Parts suitable for use solely or principally with the apparatus of heading No 8525 to 8528:
–    Suitable for use solely or principally with video recording or reproducing apparatus Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
–    Annað Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti notaðra efna, sem ekki teljast upprunaefni, er í heild ekki meira en verðmæti notaðra upprunavara
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8535 og 8536 Raftækjabúnaður til að tengja, rjúfa eða vernda rafrásir, eða til tengingar við eða í rafrásum Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    sem í eru aðeins notuð, innan ofangreindra marka, efni flokkuð í nr. 8538 að verðmæti ekki yfir 10% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8537 Bretti, töflur, stjórnborð, borð, skápar og aðrar undirstöður, búið tveim eða fleiri tækjum í nr. 8535 eða 8536, til rafstýringar eða dreifingar á rafmagni, þar með talinn búnaður sem búinn er áhöldum eða tækjum í 90. kafla, og talnastjórntöflur, þó ekki skiptibúnaður í nr. 8517


Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    sem í eru aðeins notuð, innan ofangreindra marka, efni flokkuð í nr. 8538 að verðmæti ekki yfir 10% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 8541 Díóður, smárar og áþekkir hálfleiðarar, þó ekki þynnur sem hafa enn ekki verið skornar í flögur Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8542 Rafeindasamrásir og rafeindadvergrásir: Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    sem í eru aðeins notuð, innan ofangreindra marka, efni flokkuð í nr. 8541 eða 8542 sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 10% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
–    Other Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where the value of all the non-originating materials used does not exceed the value of the originating materials used
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
8535 and 8536 Electrical apparatus for switching or protecting electrical circuits, or for making connections to or in electrical circuits Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where, within the above limit, the materials classified within heading No 8538 are only used up to a value of 10% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
8537 Boards, panels, consoles, desks, cabinets and other bases, equipped with two or more apparatus of heading No 8535 or 8536, for electric control or the distribution of electricity, including those incorporating instruments or apparatus of Chapter 90, and numerical control apparatus, other than switching apparatus of heading No 8517 Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where, within the above limit, the materials classified within heading No 8538 are only used up to a value of 10% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
ex 8541 Diodes, transistors and similar semi-conductor devices, except wafers not yet cut into chips Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
8542 Electronic integrated circuits and microassemblies Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where, within the above limit, the materials classified within heading No 8541 or 8542, taken together, are only used up to a value of 10% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
8544 Einangraður (þar með talinn gljábrenndur eða skauthúðaður) vír, kaplar (þar með taldir samása kaplar) og aðrir einangraðir rafleiðarar, einnig með tengihlutum; ljósleiðarar úr sérslíðruðum trefjum, einnig búnir rafleiðurum eða með tengihlutum


Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8545 Rafskautskol, burstakol, lampakol, rafhlöðukol og aðrar vörur úr grafít eða öðru kolefni, einnig með málmi, til rafmagnsnotkunar

Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8546 Einangrarar úr hvers konar efni: Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8547 Einangrandi tengihlutir í rafmagnsvélar, -tæki eða -búnað sem eru að öllu leyti úr einangrandi efni, einnig þótt við mótun þeirra hafi eingöngu vegna samsetningar verið notaðir minni háttar efnisþættir úr málmi (t.d. tengihlutir með skrúfgangi), þó ekki einangrarar í nr. 8546; rafmagnsrör og tengi til þeirra, úr ódýrum málmi fóðrað með einangrandi efni

Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8548 Frumrafhlöð, frumrafhlöður og rafgeymar, sem úrgangur og rusl; notuð frumrafhlöð, notaðar frumrafhlöður og notaðir rafgeymar; rafmagnshlutar til vélbúnaðar eða tækjabúnaðar, ót.a. í þessum kafla

Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
8544 Insulated (including enamelled or anodised) wire, cable (including coaxial cable) and other insulated electric conductors, whether or not fitted with connectors; optical fibre cables, made up of individually sheathed fibres, whether or not assembled with electric conductors or fitted with connectors Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
8545 Carbon electrodes, carbon brushes, lamp carbons, battery carbons and other articles of graphite or other carbon, with or without metal, of a kind used for electrical purposes Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
8546 Electrical insulators of any material Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
8547 Insulating fittings for electrical machines, appliances or equipment, being fittings wholly of insulating materials apart from any minor components of metal (for example, threaded sockets) incorporated during moulding solely for purposes of assembly other than insulators of heading No 8546; electrical conduit tubing and joints therefor, of base metal lined with insulating material Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
8548 Waste and scrap of primary cells, primary batteries and electric accumulators; spent primary cells, spent primary batteries and spent electric accumulators; electrical parts of machinery or apparatus, not specified or included elsewhere in this Chapter Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
úr 86. kafla Eimreiðar, vagnar og hlutar til þeirra fyrir járnbrautir eða sporbrautir; sporbúnaður og tengihlutar fyrir járnbrautir eða sporbrautir og hlutar til þeirra; hvers konar vélrænn umferðamerkjabúnaður (þar með talinn rafknúinn), þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8608 Sporbúnaður og tengihlutar fyrir járnbrautir eða sporbrautir; vélrænn merkja-, öryggis- eða umferðarstjórnbúnaður (þar með talinn rafknúinn), fyrir járnbrautir, sporbrautir, vegi, vatnaleiðir, bifreiðastæði, hafnarmannvirki eða flugvelli; hlutar til þess sem að framan greinir
Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    þar sem verðmæti efnanna í heild er ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 87. kafla Ökutæki, þó ekki járn- eða sporbrautarvagnar og hlutar til þeirra, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8709 Vinnuvagnar, sjálfknúnir, án tækja til lyftingar eða meðhöndlunar, til nota í verksmiðjum, vörugeymslum, á hafnarsvæðum eða flugvöllum til flutnings á vörum stuttar vegalengdir; dráttarvélar til nota á stöðvarpöllum járnbrauta; hlutar til framangreindra ökutækja Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    þar sem verðmæti efnanna í heild er ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8710 Skriðdrekar og aðrir brynvarðir stríðsvagnar, vélknúnir, einnig búnir vopnum, og hlutar til slíkra ökutækja Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    þar sem verðmæti efnanna í heild er ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8711 Bifhjól (þar með talin stigin bifhjól) og reiðhjól með hjálparvél, með eða án hliðarvagns; hliðarvagnar:
–    Með stimpil-brunahreyfli með sprengirými:

HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
ex Chapter 86 Railway or tramway locomotives, rolling stock and parts thereof; railway or tramway track fixtures and fittings and parts thereof; mechanical (including electro-mechanical) traffic signalling equipment of all kinds; except for: Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
8608 Railway or tramway track fixtures and fittings; mechanical (including electro-mechanical) signalling, safety or traffic control equipment for railways, tramways, roads, inland waterways, parking facilities, port installations or airfields; parts of the foregoing Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
ex Chapter 87 Vehicles other than railway or tramway rolling-stock, and parts and accessories thereof; except for: Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
8709 Works trucks, self-propelled, not fitted with lifting or handling equipment, of the type used in factories, warehouses, dock areas or airports for short distance transport of goods; tractors of the type used on railway station platforms; parts of the foregoing vehicles Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
8710 Tanks and other armoured fighting vehicles, motorized, whether or not fitted with weapons, and parts of such vehicles Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
8711 Motorcycles (including mopeds) and cycles fitted with an auxiliary motor, with or without side-cars; side-cars:
–    With reciprocating internal combustion piston engine of a cylinder capacity:
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
––    50 cm3 eða minna Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti notaðra efna, sem ekki teljast upprunaefni, er í heild ekki meira en verðmæti notaðra upprunavara
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
––    Yfir 50 cm³ Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti notaðra efna, sem ekki teljast upprunaefni, er í heild ekki meira en verðmæti notaðra upprunavara
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    Annað Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti notaðra efna, sem ekki teljast upprunaefni, er í heild ekki meira en verðmæti notaðra upprunavara
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 8712 Reiðhjól án kúlulega Framleiðsla úr efnum sem flokkast ekki undir nr. 8714 Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8715 Barnavagnar og hlutar til þeirra Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8716 Tengivagnar og festivagnar; önnur ökutæki ekki vélrænt knúin; hlutar til þeirra Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
––    Not exceeding 50 cc Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where the value of all the non-originating materials used does not exceed the value of the originating materials used
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 20% of the ex-works price of the product
––    Exceeding 50 cc Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where the value of all the non-originating materials used does not exceed the value of the originating materials used
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
–    Other Manufacture:
–    in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where the value of all the non-originating materials used does not exceed the value of the originating materials used
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
ex 8712 Bicycles without ball bearings Manufacture from materials not classified in heading No 8714 Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
8715 Baby carriages and parts thereof Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
8716 Trailers and semi-trailers; other vehicles, not mechanically propelled; parts thereof Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
úr 88. kafla Loftför, geimför, og hlutar til þeirra, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 8804 Hverfifallhlífar Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er, einnig önnur efni í nr. 8804 Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
8805 Flugtaksbúnaður fyrir loftför; þilfarsfangarar eða svipaður búnaður; flughermar; hlutar til framangreindra vara Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
89. kafli Skip, bátar og fljótandi mannvirki Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Óheimilt er þó að nota skipsskrokka í nr. 8906 Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 90. kafla Áhöld og tækjabúnaður til optískra nota, ljósmyndunar, kvikmyndunar, mælinga, prófunar, nákvæmnivinnu, lyflækninga eða skurðlækninga; hlutar og fylgihlutir til þeirra, þó ekki: Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9001 Ljóstrefjar og ljóstrefjabúnt; ljósleiðarar, þó ekki í nr. 8544; þynnur og plötur úr ljósskautandi efni; linsur (einnig snertilinsur), strendingar (prisms), speglar og aðrar optískar vörur, úr hvers konar efni, án umgerðar, þó ekki þessar vörur úr gleri sem ekki hafa verið optískt unnar

Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
ex Chapter 88 Aircraft, spacecraft, and parts thereof; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex 8804 Rotochutes Manufacture from materials of any heading including other materials of heading No 8804 Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
8805 Aircraft launching gear; deck-arrestor or similar gear; ground flying trainers; parts of the foregoing articles Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
Chapter 89 Ships, boats and floating structures Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, hulls of heading No 8906 may not be used Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex Chapter 90 Optical, photographic, cinematographic, measuring, checking, precision, medical or surgical instruments and apparatus; parts and accessories thereof; except for: Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
9001 Optical fibres and optical fibre bundles; optical fibre cables other than those of heading No 8544; sheets and plates of polarizing material, lenses (including contact lenses), prisms, mirrors and other optical elements, of any material, unmounted, other than such elements of glass not optically worked Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
9002 Linsur, strendingar, speglar og aðrar optískar vörur, úr hvers konar efni, í umgerð, sem eru hlutar eða tengihlutar til áhalda eða tækjabúnaðar, þó ekki þessar vörur úr gleri sem ekki hafa verið optískt unnar Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9004 Gleraugu, hlífðargleraugu og þess háttar, til sjónréttingar, verndar eða annars Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 9005 Sjónaukar fyrir bæði augu eða annað, aðrir optískir sjónaukar, og umgerðir til þeirra, þó ekki stjörnufræðilegir linsusjónaukar og umgerðir til þeirra Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti notaðra efna, sem ekki teljast upprunaefni, er í heild ekki meira en verðmæti notaðra upprunavara
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 9006 Ljósmyndavélar (þó ekki fyrir kvikmyndir); leifturtæki til ljósmyndunar og leifturlampar, þó ekki glóðarlampar Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti notaðra efna, sem ekki teljast upprunaefni, er í heild ekki meira en verðmæti notaðra upprunavara
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9007 Kvikmyndavélar og kvikmyndasýningavélar, einnig með hljóðupptökutækjum eða hljóðflutningstækjum Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti notaðra efna, sem ekki teljast upprunaefni, er í heild ekki meira en verðmæti notaðra upprunavara
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
9002 Lenses, prisms, mirrors and other optical elements, of any materials, mounted, being parts of or fittings for instruments or apparatus, other than such elements of glass not optically worked
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
9004 Spectacles, goggles and the like, corrective, protective or other Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex 9005 Binoculars, monoculars, other optical telescopes, and mountings therefor, except for astronomical refracting telescopes and mountings therefor Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    the value of all the non-originating materials used does not exceed the value of the originating materials used
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
ex 9006 Photographic (other than cinematographic) cameras; photographic flashlight apparatus and flashbulbs other than electrically ignited flashbulbs Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    the value of all the non-originating materials used does not exceed the value of the originating materials used
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
9007 Cinematographic cameras and projectors, whether or not incorporating sound recording or reproducing apparatus Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    the value of all the non-originating materials used does not exceed the value of the originating materials used
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
9011 Sambyggðar optískar smásjár, einnig til örmyndatöku, örkvikmyndatöku eða örmyndvörpunar Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti notaðra efna, sem ekki teljast upprunaefni, er í heild ekki meira en verðmæti notaðra upprunavara
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 9014 Önnur áhöld og tæki til siglinga Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9015 Áhöld og tæki til landmælinga (þar með taldar mælingar eftir myndum), vatnamælinga, haffæðirannsókna, vatnafræðirannsókna, veðurfræðirannsókna eða jarðeðlisfræðirannsókna, þó ekki áttavitar; fjarlægðarmælar: Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9016 Vogir með 5 cg nákvæmni eða meiri, einnig með lóðum Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9017 Áhöld til teiknunar, afmörkunar eða útreiknings (t.d. teiknivélar, uppdráttaafritarar (pantographs), gráðubogar, teikniáhaldasamstæður, reiknistokkar, reikniskífur); handáhöld til lengdarmælinga (t.d. málstokkar og málbönd, örkvarðar, rennimál), ót.a. í þessum kafla



Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9018 Áhöld og tæki til lyflækninga, skurðlækninga, tannlækninga eða dýralækninga, þar með taldir leifturritar (scintigraphic apparatus), önnur rafmagnslækningatæki og sjónprófunaráhöld:
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
9011
Compound optical microscopes, including those for photomicrography, cinephotomicrography or microprojection Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    the value of all the non-originating materials used does not exceed the value of the originating materials used
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
ex 9014 Other navigational instruments and appliances Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
9015 Surveying (including photogrammetrical surveying), hydrographic, oceanographic, hydrological, meteorological or geophysical instruments and appliances, excluding compasses; rangefinders Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
9016 Balances of a sensitivity of 5 cg or better, with or without weights Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
9017 Drawing, marking-out or mathematical calculating instruments (for example, drafting machines, pantographs, protractors, drawing sets, slide rules, disc calculators): instruments for measuring length, for use in the hand (for example, measuring rods and tapes, micrometers, callipers) not specified or included elsewhere in this Chapter Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
9018 Instruments and appliances used in medical, surgical, dental or veterinary sciences, including scintigraphic apparatus, other electro-medical apparatus and sight-testing instruments:
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
–    Tannlæknastólar með sambyggðum tannlæknaáhöldum eða skálum til munnskolunar Framleiðsla úr efnum í hvaða vörulið sem er að meðtöldum öðrum efnum úr nr. 9018 Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    Annað Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    þar sem verðmæti efnanna í heild er ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9019 Tæki til mekanóterapí; nuddtæki; tæki til sálfræðilegrar hæfileikaprófunar; ósonterapí, oxygenterapí-, aerosólterapí-, gerviöndunar- eða önnur öndunartæki til lækninga Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9020 Annar öndunarbúnaður og gasgrímur, þó ekki verndargrímur sem hvorki eru búnar vélrænum hlutum né skiptanlegum síum Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9024 Vélar og tæki til að prófa hörku, styrkleika, þrýstiþol, þan eða aðra eðlisfræðilega eiginleika efna (t.d. málma, viðar, spunavara, pappírs, plasts):

Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9025 Flotvogir og þess konar flotáhöld, hitamælar, háhitamælar, loftvogir, rakamælar og rakaþrýstimælar, einnig sjálfritandi, og hvers konar samsetning þessara áhalda

Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
–    Dentists' chairs incorporating dental appliances or dentists' spittoons Manufacture from materials of any heading, including other materials of heading No 9018 Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
–    Other Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
9019 Mechano-therapy appliances; massage apparatus; psychological aptitude-testing apparatus; ozone therapy, oxygen therapy, aerosol therapy, artificial respiration or other therapeutic respiration apparatus Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
9020 Other breathing appliances and gas masks, excluding protective masks having neither mechanical parts nor replaceable filters Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 25% of the ex-works price of the product
9024 Machines and appliances for testing the hardness, strength, compressibility, elasticity or other mechanical properties of materials (for example, metals, wood, textiles, paper, plastics) Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
9025 Hydrometers and similar floating instruments, thermometers, pyrometers, barometers, hygrometers and psychrometers, recording or not, and any combination of these instruments Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
9026 Áhöld og tækjabúnaður til að mæla eða prófa flæði, hæð, þrýsting eða aðrar breytur í vökvum eða gasi (t.d. rennslismælar, vökvahæðarmælar, þrýstimælar, varmanotkunarmælar), þó ekki áhöld og tækjabúnaður í nr. 9014, 9015, 9028 eða 9032:
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9027 Áhöld og tækjabúnaður til eðlisfræðilegrar eða efnafræðilegrar greiningar (t.d. ljósskautunarmælar, ljósbrotsmælar, ljósrofsmælar, gas- eða reykgreiningartæki); áhöld og tækjabúnaður til að mæla eða prófa fljótanleika gropinleika, þenslu, yfirborðsspennu eða þess háttar; áhöld og tækjabúnaður til að mæla eða prófa magn hita, hljóðs eða ljóss (þar með taldir birtumælar); örsniðlar (microtomes)
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9028 Notkunar- og framleiðslumælar fyrir gas, vökva og rafmagn, þar með taldir mælar til prófunar á þeim:
–    Hlutar og fylgihlutir Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    Annað Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti notaðra efna, sem ekki teljast upprunaefni, er í heild ekki meira en verðmæti notaðra upprunavara
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9029 Snúningsteljarar, framleiðsluteljarar, ökugjaldsmælar, vegmælar, skrefateljarar og þess háttar; hraðamælar og snúningshraðamælar, þó ekki mælar í nr. 9014 eða 9015; snúðsjár
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
9026 Instruments and apparatus for measuring or checking the flow, level, pressure or other variables of liquids or gases (for example, flow meters, level gauges, manometers, heat meters), excluding instruments and apparatus of heading No 9014, 9015, 9028 or 9032 Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
9027 Instruments and apparatus for physical or chemical analysis (for example, polarimeters, refractometers, spectrometers, gas or smoke analysis apparatus); instruments and apparatus for measuring or checking viscosity, porosity, expansion, surface tension or the like; instruments and apparatus for measuring or checking quantities of heat, sound or light (including exposure meters); microtomes Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
9028 Gas, liquid or electricity supply or production meters, including calibrating meters therefor:
–    Parts and accessories Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
–    Other Manufacture in which:
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where the value of all the non-originating materials used does not exceed the value of the originating materials used
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
9029 Revolution counters, production counters, taximeters, milometers, pedometers and the like; speed indicators and tachometers, other than those of heading No 9014 or 9015; stroboscopes Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
9030 Sveiflusjár, litrófsgreiningartæki og önnur áhöld og tækjabúnaður til að mæla eða prófa rafmagnsstærðir, þó ekki mælar í nr. 9028; áhöld og tækjabúnaður til að mæla eða greina alfa-, beta-, gamma-, röntgen-, geim- eða aðra jónandi geislun:

Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9031 Áhöld, tækjabúnaður og vélar til mælinga eða prófana, ót.a. í þessum kafla; sniðmyndavörpur:
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9032 Áhöld og tækjabúnaður til sjálfvirkrar stillingar og stjórnunar: Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9033 Hlutar og fylgihlutir (ót.a. í þessum kafla) fyrir vélar, tæki, áhöld eða tækjabúnað í 90. kafla

Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 91. kafla Klukkur og úr og hlutar til þeirra; þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9105 Aðrar klukkur Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti notaðra efna, sem ekki teljast upprunaefni, er í heild ekki meira en verðmæti notaðra upprunavara
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9109 Klukkuverk, fullgerð og samsett Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    þar sem verðmæti notaðra efna, sem ekki teljast upprunaefni, er í heild ekki meira en verðmæti notaðra upprunavara
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
9030 Oscilloscopes, spectrum analysers and other instruments and apparatus for measuring or checking electrical quantities, excluding meters of heading No 9028; instruments and apparatus for measuring or detecting alpha, beta, gamma, X-ray, cosmic or other ionizing radiations Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
9031 Measuring or checking instruments, appliances and machines, not specified or included elsewhere in this Chapter; profile projectors Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
9032 Automatic regulating or controlling instruments and apparatus Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
9033 Parts and accessories (not specified or included elsewhere in this Chapter) for machines, appliances, instruments or apparatus of Chapter 90 Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex Chapter 91 Clocks and watches and parts thereof; except for: Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
9105 Other clocks Manufacture in which:
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where the value of all the non-originating materials used does not exceed the value of the originating materials used
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
9109 Clock movements, complete and assembled Manufacture in which:
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where the value of all the non-originating materials used does not exceed the value of the originating materials used
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
9110 Fullgerð úrverk eða klukkuverk, ósamsett eða samsett að hluta (gangverkssamstæður); ófullgerð úrverk eða klukkuverk, samsett; gróf úrverk eða klukkuverk Framleiðsla:
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    í eru aðeins notuð, innan ofangreindra marka, efni flokkuð í nr. 9114 að verðmæti ekki yfir 10% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9111 Úrkassar og hlutar til þeirra Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9112 Klukkukassar og kassar af áþekkri gerð fyrir aðrar vörur í þessum kafla, og hlutar til þeirra Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 30% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9113 Úrólar, úrbönd og úrfestar, og hlutar til þeirra:
–    Úr ódýrum málmi, einnig gull- eða silfurhúðuðum, eða málmi klæddum góðmálmi Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
–    Annað Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
92. kafli Hljóðfæri; hlutar og fylgihlutir til þess konar vara Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
93. kafli Vopn og skotfæri; hlutar og fylgihlutir til þeirra Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
9110 Complete watch or clock movements, unassembled or partly assembled (movement sets); incomplete watch or clock movements, assembled; rough watch or clock movements Manufacture in which:
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product;
–    where, within the above limit, the materials classified within heading No 9114 are only used up to a value of 10% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
9111 Watch cases and parts thereof Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
9112 Clock cases and cases of a similar type for other goods of this Chapter, and parts thereof Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
9113 Watch straps, watch bands and watch bracelets, and parts thereof:
–    Of base metal, whether or not plated, or of clad precious metal Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
–    Other Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
Chapter 92 Musical instruments; parts and accessories of such articles Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
Chapter 93 Arms and ammunition; parts and accessories thereof Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
úr 94. kafla Húsgögn; rekkjubúnaður, dýnur, rúmbotnar, púðar og áþekkur stoppaður húsbúnaður; lampar og ljósabúnaður, ót.a; ljósaskilti, ljósanafnskilti og þess háttar; forsmíðaðar byggingar, þó ekki:


Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 9401 og
úr 9403
Húsgögn úr ódýrum málmi sem í er notað óbólstrað baðmullarefni 300 g/m² að þyngd eða minna Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
eða
framleiðsla úr forsaumuðu baðmullarefni í nr. 9401 eða 9403, enda sé:
–    verðmæti þess ekki yfir 25% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar og
–    öll hin efnin séu þegar upprunavörur og flokkist ekki undir nr. 9401 eða 9403


Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9405 Lampar og ljósabúnaður, þar með talin leitarljós og kastljós og hlutar til þeirra, ót.a.; ljósaskilti, ljósanafnskilti og þess háttar sem tengt er föstum ljósgjafa, og hlutar til þeirra, ót.a.



Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9406 Forsmíðaðar byggingar Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 95. kafla Leikföng, leikspil og íþróttabúnaður; hlutar og fylgihlutir til þessara vara, þó ekki:
Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
ex Chapter 94 Furniture; bedding, mattresses, mattress supports, cushions and similar stuffed furnishings; lamps and lighting fittings, not elsewhere specified or included; illuminated signs, illuminated nameplates and the like; prefabricated buildings; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
ex 9401 and
ex 9403
Base metal furniture, incorporating unstuffed cotton cloth of a weight of 300 g/m2 or less Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
or
Manufacture from cotton cloth already made up in a form ready for use of heading No 9401 or 9403, provided:
–    its value does not exceed 25% of the ex-works price of the product;
–    all the other materials used are already originating and are classified in a heading other than heading No 9401 or 9403
Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 40% of the ex-works price of the product
9405 Lamps and lighting fittings including searchlights and spotlights and parts thereof, not elsewhere specified or included; illuminated signs, illuminated name-plates and the like, having a permanently fixed light source, and parts thereof not elsewhere specified or included Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
9406 Prefabricated buildings Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ex Chapter 95 Toys, games and sports requisites; parts and accessories thereof; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
9503 Önnur leikföng; smækkuð líkön (í stærðarhlutföllum) og áþekk tómstundalíkön, einnig gangfær; hvers konar þrautir Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 9506 Golfkylfur og hlutar þeirra Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó er heimilt að nota grófmótaða kubba við gerð golfkylfuhausa
úr 96. kafla Ýmsar framleiddar vörur, þó ekki: Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
úr 9601 og
úr 9602
Unnin útskurðarefni úr dýra-, jurta- eða steinaríkinu Framleiðsla úr „unnum“ útskurðarefnum í sama vörulið
úr 9603 Sópar og burstar (þó ekki hrískústar og svipaðar vörur og burstar úr marðar- eða íkornahári), handstýrðir vélrænir gólfsópar, án hreyfils; málningarpúðar og -rúllur; skaftþvögur og þveglar
Framleiðsla úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9605 Hreinlætis-, sauma- eða snyrtisett fyrir skó og fatnað til nota á ferðalögum Hver hlutur samstæðunnar verður að vera í samræmi við regluna sem um hann gilti væri hann ekki hluti af samstæðunni. Þó er heimilt að hafa með hluti sem ekki eru upprunavörur, enda sé verðmæti þeirra ekki yfir 15% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
9606 Hnappar, þrýstitölur, smellur og smelluhnappar, hnappamót og aðrir hlutar til þeirra vara; hnappaefni (button blanks) Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
9503 Other toys: reduced-size (“scale”) models and similar recreational models, working or not; puzzles of all kinds Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ex 9506 Golf clubs and parts thereof Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, roughly shaped blocks for making golf club heads may be used
ex Chapter 96 Miscellaneous manufactured articles; except for: Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
ex 9601 and
ex 9602
Articles of animal, vegetable or mineral carving materials Manufacture from “worked” carving materials of the same heading
ex 9603 Brooms and brushes (except for besoms and the like and brushes made from marten or squirrel hair); hand-operated mechanical floor sweepers, not motorized, paint pads and rollers, squeegees and mops Manufacture in which the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
9605 Travel sets for personal toilet, sewing or shoe or clothes cleaning Each item in the set must satisfy the rule, which would apply to it if it were not included in the set. However, non-originating articles may be incorporated, provided their total value does not exceed 15% of the ex-works price of the set
9606 Buttons, press-fasteners, snap-fasteners and press-studs, button moulds and other parts of these articles, button blanks Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
(1) (2) (3) eða (4)
9608 Kúlupennar; pennar og merkipennar með flókaoddi og öðrum gropoddi; sjálfblekungar, stylógrafpennar og aðrir pennar; eftirritunargrifflar; skrúfblýantar eða renniblýantar; penna-, blýants- og áþekk sköft; hlutar (einnig hettur og klemmur) til framangreindra vara, þó ekki vara í nr. 9609
Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran Þó má nota penna eða pennaodda sem flokkast undir sama vörulið
9612 Ritvélaborðar eða áþekk bönd með bleki eða unnin á annan hátt til áprentunar, einnig á spólum eða í hylkjum; blekpúðar, einnig með bleki eða í öskjum Framleiðsla:
–    úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
–    úr efnum sem í heild eru að verðmæti ekki yfir 50% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 9613 Kveikjarar með þrýstirafkveikju Framleiðsla þar sem verðmæti efna í nr. 9613 er ekki yfir 30% verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar
úr 9614 Reykjarpípur og pípuhausar Framleiðsla úr grófmótuðum kubbum
97. kafli Listaverk, safnmunir og forngripir Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran

HS heading No Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
(1) (2) (3) eða (4)
9608 Ball-point pens; felt-tipped and other porous-tipped pens and markers; fountain pens, stylograph pens and other pens; duplicating stylos; propelling or sliding pencils; penholders, pencil-holders and similar holders; parts (including caps and clips) of the foregoing articles, other than those of heading No 9609 Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product. However, nibs or nib-points classified within the same heading may be used
9612 Typewriter or similar ribbons, inked or otherwise prepared for giving impressions, whether or not on spools or in cartridges; ink-pads, whether or not inked, with or without boxes Manufacture in which:
–    all the materials used are classified within a heading other than that of the product;
–    the value of all the materials used does not exceed 50% of the ex-works price of the product
ex 9613 Lighters with piezo-igniter Manufacture in which the value of all the materials of heading No 9613 used does not exceed 30% of the ex-works price of the product
ex 9614 Smoking pipes and pipe bowls Manufacture from roughly shaped blocks
Chapter 97 Works of art, collectors' pieces and antiques Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product

III. VIÐBÆTIR VIÐ VIÐAUKA A

EUR.1-flutningsskírteinið og umsókn um EUR.1-flutningsskírteini


Fyrirmæli um prentun


1.     Hvert eyðublað skal vera 210 x 297 mm að stærð; leyfileg frávik í lengd eru frá mínus 5 mm og upp í plús 8 mm. Pappír sá sem notaður er skal vera hvítur skrifpappír, límvatnsborinn, sem inniheldur ekki vélunninn trémassa og vegur minnst 25 g á fermetra. Hann skal vera með grænu prentuðu bakgrunnsmynstri sem gerir allar falsanir með vélrænum eða kemískum hætti augljósar.
2.     Lögbær yfirvöld samningsaðilanna geta áskilið sér rétt til að annast prentun skírteinanna eða falið hana viðurkenndum prentsmiðjum. Í því tilviki skal vísað til viðurkenningarinnar á hverju skírteini. Á hvert skírteini skal vera skráð nafn og heimilisfang prentsmiðjunnar eða tákn sem gefur til kynna hver hún er. Skírteinið skal enn fremur bera raðnúmer, prentað eða ritað á annan hátt, sem auðkennir það.

APPENDIX III TO ANNEX A

Movement certificate EUR.1 and application for a movement certificate EUR.1


Printing Instructions


1.     Each form shall measure 210x 297 mm; a tolerance of up to minus 5 mm or plus 8 mm in the length may be allowed. The paper used must be white, sized for writing, not containing mechanical pulp and weighing not less than 25 g/ m2. It shall have a printed green guilloche pattern background making any falsification by mechanical or chemical means apparent to the eye.
2.     The competent authorities of the Member States may reserve the right to print the forms themselves or may have them printed by approved printers. In the latter case, each form must include a reference to such approval. Each form must bear the name and address of the printer or a mark by which the printer can be identified. It shall also bear a serial number, either printed or not, by which it can be identified.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



ATHUGASEMDIR


1.     Á flutningsskírteini má hvorki afmá það sem ritað hefur verið né rita ofan í það sem fyrir er. Breytingar skulu gerðar þannig að strikað er yfir röngu atriðin en hinum réttu er bætt við. Sá sem fyllir út skírteinið skal rita upphafsstafi sína við allar breytingar sem þannig eru gerðar og skulu þær staðfestar af tollyfirvöldunum í landinu eða á yfirráðasvæðinu þar sem skírteinið er gefið út.
2.     Óheimilt er að skilja eftir eyðu milli vöruliða á skírteininu og fyrir framan hvern vörulið ber að skrá vörunúmer. Strax á eftir síðasta vöruliðnum skal draga lárétt strik. Eyðu þá sem eftir verður ónotuð skal strika yfir þannig að engu verði aukið við síðar.
3.     Vörunum skal lýst í samræmi við viðskiptavenjur og af nægilegri nákvæmni til að unnt sé að þekkja þær af lýsingunni.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



NOTES


1.    Certificates must not contain erasures or words written over one another. Any alterations must be made by deleting the incorrect particulars and adding any necessary corrections. Any such alteration must be initialled by the person who completed the certificate and endorsed by the Customs authorities of the issuing country or territory.
2.    No spaces must be left between the items entered on the certificate and each item must be preceded by an item number. A horizontal line must be drawn immediately below the last item. Any unused space must be struck through in such a manner as to mark any later additions impossible.
3.    Goods must be described in accordance with commercial practice and with sufficient detail to enable them to be identified.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



VIÐBÆTIR IV VIÐ VIÐAUKA A



Yfirlýsing á vörureikningi


Yfirlýsing á vörureikningi, en texti hennar kemur fram á hér á eftir, skal gerð í samræmi við neðanmálsgreinarnar. Hins vegar þarf ekki að endurtaka neðanmálsgreinarnar.


Ensk útgáfa


The exporter of the products covered by this document (customs authorization No … ( 1 )) declares that, except where otherwise clearly indicated, these products are of … preferential origin ( 2 ).

Þýsk útgáfa

Der Ausführer (Ermächtigter Ausführer; Bewilligungs-Nr. … (1)) der Waren, auf die sich dieses Handelspapier bezieht, erklärt, dass diese Waren, soweit nicht anders angegeben, präferenzbegünstigte … Ursprungswaren sind (2).

Frönsk útgáfa


L'exportateur des produits couverts par le présent document (autorisation douanière n° … (1)) déclare que, sauf indication claire du contraire, ces produits ont l'origine préférentielle … (2).

Ítölsk útgáfa


L'esportatore delle merci contemplate nel presente documento (autorizzazione doganale n. … (1)) dichiara che, salvo indicazione contraria, le merci sono di origine preferenziale … (2).

Íslensk útgáfa


Útflytjandi framleiðsluvara sem skjal þetta tekur til (leyfi tollyfirvalda nr. … (1)), lýsir því yfir að vörurnar séu, ef annars er ekki greinilega getið, af … fríðindauppruna (2).

Norsk útgáfa


Eksportøren av produktene omfattet av dette dokument (tollmyndighetenes autorisasjonsnr. … (1)) erklærer at disse produktene, unntatt hvor annet er tydelig angitt, har … preferanseopprinnelse (2).


                        
( 3 )

                        (Staður og dagsetning)


                        
( 4 )

                       (Undirskrift útflytjanda;
                    auk þess þarf nafn þess sem undirritar yfirlýsinguna að koma fram með SKÝRUM STÖFUM)

APPENDIX IV TO ANNEX A



Invoice declaration


The invoice declaration, the text of which is given below, must be made out in accordance with the footnotes. However, the footnotes do not have to be reproduced.


English version

The exporter of the products covered by this document (customs authorization No … ( 1 )) declares that, except where otherwise clearly indicated, these products are of … preferential origin ( 2 ).

German version

Der Ausführer (Ermächtigter Ausführer; Bewilligungs-Nr. … ( 1 )) der Waren, auf die sich dieses Handelspapier bezieht, erklärt, dass diese Waren, soweit nicht anders angegeben, präferenzbegünstigte … Ursprungswaren sind ( 2 ).

French version

L'exportateur des produits couverts par le présent document (autorisation douanière n° … ( 1 )) déclare que, sauf indication claire du contraire, ces produits ont l'origine préférentielle … ( 2 ).

Italian version

L'esportatore delle merci contemplate nel presente documento (autorizzazione doganale n. … ( 1 )) dichiara che, salvo indicazione contraria, le merci sono di origine preferenziale … ( 2 ).

Icelandic Version

Útflytjandi framleiðsluvara sem skjal þetta tekur til (leyfi tollyfirvalda nr. … ( 1 )), lýsir því yfir að vörurnar séu, ef annars er ekki greinilega getið, af … fríðindauppruna ( 2 ).

Norwegian Version

Eksportøren av produktene omfattet av dette dokument (tollmyndighetenes autorisasjonsnr. … ( 1 )) erklærer at disse produktene, unntatt hvor annet er tydelig angitt, har … preferanseopprinnelse ( 2 ).


                        
( 3 )

                        (Place and date)


                        
( 4 )

                        (Signature of the exporter;
                    in addition the name of the person signing the declaration has to be INDICATED IN CLEAR SCRIPT)

V. VIÐBÆTIR VIÐ VIÐAUKA A

Valkvæðar upprunareglur fyrir viðskipti innan EFTA
með tilteknar framleiddar tóbaksvörur


1. gr.


    Útflytjanda er heimilt að velja að beita annaðhvort aðvinnslureglum í 3. gr. þessa viðbætis eða viðeigandi aðvinnslureglum fyrir viðkomandi framleiðsluvöru í II. viðbæti við viðauka A í þessum samningi, að því er varðar eftirtaldar framleiðsluvörur sem flokkast undir ST-númer:
    24.02    Vindlar, einnig endaskornir, smávindlar og vindlingar, úr tóbaki eða tóbakslíki
    24.03    Önnur framleiðsla úr tóbaki og framleitt tóbakslíki; jafnblandað eða endurunnið tóbak; tóbakskjarnar og tóbaksseyði
og framleiddar í EFTA-ríki og sem heimilt er að veita fríðindameðferð í samræmi við þennan samning.


2. gr.


    Þegar beita á upprunareglu í 3. gr. þessa viðbætis skal beita viðauka A við þennan samning að breyttu breytanda, að öðru leyti en því sem kveðið er á um í 4., 5. og 6. gr. hér á eftir.

3. gr.


    Valkvæðar upprunareglur sem gilda um framleiðsluvörur sem um getur í 1. gr. þessa viðbætis.
ST-númer Vörulýsing Aðvinnsla efna, sem ekki teljast upprunaefni,
er veitir upprunaréttindi
1 2 3 4
24.02 Vindlar, einnig endaskornir, smávindlar og vindlingar, úr tóbaki eða tóbakslíki Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran
24.03 Önnur framleiðsla úr tóbaki og framleitt tóbakslíki; jafnblandað eða endurunnið tóbak; tóbakskjarnar og tóbaksseyði Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran

4. gr.


    Að því er varðar framkvæmd þessa viðbætis verða framleiðsluvörur, sem öðlast upprunaréttindi í samræmi við ákvæði 3. gr. þessa viðbætis, að fá aðvinnslu í EFTA-ríkjunum.

5. gr.


    Ef upprunareglum í 3. gr. þessa viðbætis er beitt og upprunavörur í 1. gr. þessa viðbætis fá, samkvæmt þessum samningi, aðra meðferð en innflutningur slíkra framleiðsluvara er falla undir fríðindasamninga sem EFTA-ríkin hafa gert við Evrópubandalagið eða annað land, eins og um getur í 4. gr. í viðauka A við þennan samning, skulu framleiðsluvörur njóta fríðindameðferðarinnar, sem kveðið er á um í þessum samningi, hafi þeim fylgt sönnun um uppruna, sem um getur í V. bálki við viðauka A við þennan samning, sem EFTA-ríki gefur út eða útbýr og skal á hana ritað „Beiting V. viðbætis við viðauka A“ annaðhvort í reit 7 „Athugasemdir“ á EUR.1-flutningsskírteini eða sett sem texti við yfirlýsingu á vörureikningi.     


6. gr.


    Einungis má eiga viðskipti með framleiðsluvörur, sem hafa fengið upprunaréttindi í samræmi við upprunareglurnar í 3. gr. þessa viðbætis, innan EFTA-ríkjanna og er óheimilt að flytja þær aftur út í sama ástandi sem upprunavöru til Evrópubandalagsins eða annars lands sem um getur í 4. gr. í viðauka A við þennan samning eða nota þær sem upprunaefni vegna uppsöfnunar réttinda við framleiðslu annarrar vöru sem flytja á út til Evrópubandalagsins eða annars lands eins og um getur í 4. gr. í viðauka A við þennan samning.

APPENDIX V TO ANNEX A


Alternative rules of origin for trade within EFTA of certain
manufactured tobacco products


ARTICLE 1

    For the following products classified under HS heading Nos.:
    24.02    Cigars, cheroots, cigarillos and cigarettes, of tobacco or of tobacco substitutes;
    24.03    Other manufactured tobacco and manufactured tobacco substitutes; “homogenised” or “reconstituted” tobacco; tobacco extracts and essences;
manufactured in an EFTA State and eligible for preferential treatment according to this Convention, the exporter may opt, as an alternative, to apply either the working or processing rule as set out in Article 3 to this Appendix or the respective working or processing rules for the product concerned as set out in Appendix II to Annex A of this Convention.

ARTICLE 2

    When a rule of origin as set out in Article 3 of this Appendix is applied, Annex A to this Convention shall be applied mutatis mutandis, except as provided for in Article 4, 5 and 6 below.

ARTICLE 3

    Alternative rules of origin applicable for products referred to in Article 1 of this Appendix.
HS heading No. Description of product Working or processing carried out on non-originating materials that confers originating status
1 2 3 4
24.02 Cigars, cheroots, cigarillos and cigarettes, of tobacco or of tobacco substitutes Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product
24.03 Other manufactured tobacco and manufactured tobacco substitutes; “homogenised” or “reconstituted” tobacco; tobacco extracts and essences Manufacture in which all the materials used are classified within a heading other than that of the product

ARTICLE 4

    For the purpose of implementing this Appendix, products acquiring originating status according to the provisions of Article 3 of this Appendix must undergo any working or processing in EFTA States.

ARTICLE 5

    In case the rules of origin as set out in Article 3 of this Appendix are applied and where, by virtue of this Convention, originating products listed in Article 1 of this Appendix are to be treated differently from imports of such products covered by preferential Agreements concluded by the EFTA States with the European Community or any other country as referred to in Article 4 of Annex A to this Convention, the preferential treatment provided for by this Convention shall be applied to all products which are accompanied by a proof of origin referred to in Title V of Annex A to this Convention, issued or made out in an EFTA State, bearing the expression “Application of Appendix V to Annex A” either in box 7 “Remarks” of the movement certificate EUR.1 or as text added to the text of the invoice declaration.

ARTICLE 6

    Products having acquired originating status according to the rules of origin set out in Article 3 of this Appendix are solely to be traded within the EFTA States, and may not be re-exported in the same state as an originating product to the European Community or any other country referred to in Article 4 of Annex A to this Convention, or be used as input originating materials for cumulation purposes in the manufacture of another product to be exported to the European Community or any other country as referred to in Article 4 of Annex A to this Convention.

VIÐAUKI B

um gagnkvæma aðstoð stjórnvalda
í tollamálum


1. gr.
Skilgreiningar

    Að því er þennan viðauka varðar merkir:
a)    „vörur“: allar vörur sem falla undir 1.–97. kafla í samræmdu tollskránni án tillits til gildissviðs samningsins um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu, er nefnist hér á eftir „EFTA-samningurinn“;
b)    „tollalöggjöf“ lagaleg eða réttarfarsleg ákvæði sem einstök EFTA-ríki, er nefnast hér á eftir „aðildarríkin“, samþykkja um innflutning, útflutning og umflutning vöru og meðhöndlun hennar samkvæmt hvaða tollareglum sem er, að meðtöldu banni, takmörkunum og eftirliti;

c)    „yfirvald sem sækir um“: lögbært stjórnvald skipað af aðildarríki til þess að sækja um aðstoð í tollamálum;


d)    „yfirvald sem leitað er til“: lögbært stjórnvald skipað af aðildarríki til þess að taka við beiðnum um aðstoð í tollamálum;


e)    „brot á tollalöggjöf“: hvert brot á tollalöggjöf svo og hverja tilraun til þess að brjóta þá löggjöf.


2. gr.
Gildissvið

1.     Aðildarríkjunum ber að veita hvert öðru gagnkvæma aðstoð, á sviðum sem eru innan marka valdsviðs þeirra og á þann hátt og með þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í þessum viðauka, við að tryggja að löggjöfinni sé rétt beitt, einkum með því að koma í veg fyrir, ljóstra upp um og rannsaka brot á þeirri löggjöf.
2.     Aðstoð í tollamálum, eins og kveðið er á um í þessum viðauka, á við um hvert það stjórnvald aðildarríkjanna sem er til þess bært að beita ákvæðum þessa viðauka. Hún hefur ekki áhrif á reglur um gagnkvæma aðstoð í sakamálum. Hún tekur heldur ekki til upplýsinga sem eru fengnar í krafti þess valds sem notað er að beiðni dómsyfirvalda, nema þau hafi áður veitt samþykki sitt fyrir því að slíkar upplýsingar verði veittar.


3. gr.
Aðstoð samkvæmt beiðni

1.     Að beiðni yfirvalds sem sækir um skal yfirvald sem leitað er til veita því allar viðeigandi upplýsingar svo að það geti tryggt að farið sé að tollalöggjöf, þar á meðal upplýsingar um starfsemi sem tekið hefur verið eftir eða skipulögð og stríðir eða gæti strítt gegn slíkri löggjöf.
2.     Að beiðni yfirvalds sem sækir um skal yfirvald sem leitað er til láta vita hvort útflutningsvörur frá yfirráðasvæði eins aðildarríkjanna hafi verið fluttar inn á yfirráðasvæði þess á réttan hátt, og tilgreina, eftir því sem við á, samkvæmt hvaða tollareglum vörurnar voru meðhöndlaðar.
3.     Að beiðni yfirvalds sem sækir um skal yfirvald sem leitað er til gera nauðsynlegar ráðstafanir, innan ramma laganna, til þess að tryggja að eftirlit sé haft með:
a)    einstaklingum eða lögpersónum ef réttmæt ástæða er til að ætla að þeir brjóti eða hafi brotið tollalöggjöf;
b)    stöðum þar sem vörur eru geymdar á þann hátt að ástæða er til að ætla að þær styðji við starfsemi sem er brot á tollalöggjöf;

c)    vöruflutningum ef tilkynnt hefur verið að þeir geti haft í för með sér alvarlegt brot á tollalöggjöf;
d)    flutningatækjum ef réttmæt ástæða er til að ætla að þau hafi verið, séu eða geti verið notuð í starfsemi sem er brot á tollalöggjöf.


4. gr.
Aðstoð veitt að eigin frumkvæði

    Aðildarríkin skulu, að eigin frumkvæði og í samræmi við lög, reglur og aðra lagagerninga, veita hvert öðru aðstoð telji þau það nauðsynlegt við beitingu á tollalöggjöf, einkum þegar þau fá upplýsingar sem lúta að:

–    starfsemi sem stríðir gegn eða virðast stríða gegn slíkri löggjöf og gætu verið gagnlegar öðrum aðildarríkjum,
–    nýjum úrræðum eða aðferðum sem beitt er til þess að vinna að slíkri starfsemi,
–    vörum sem vitað er að tengjast alvarlegu broti á tollalöggjöf,
–    einstaklingum eða lögpersónum ef réttmæt ástæða er til að ætla að þeir brjóti eða hafi brotið alvarlega á tollalöggjöf,

–    flutningatækjum ef réttmæt ástæða er til að ætla að þau hafi verið notuð, séu notuð eða geti verið notuð við starfsemi sem er alvarlegt brot á tollalöggjöf.

5. gr.
Afhending/Tilkynningar

    Að beiðni yfirvalds sem sækir um skal yfirvald sem leitað er til gera allar nauðsynlegar ráðstafanir í samræmi við löggjöf sína til þess að:
–    afhenda öll skjöl,
–    tilkynna allar ákvarðanir, og aðra réttargerninga sem eru hluti af þeirri málsmeðferð sem um ræðir,
sem heyra undir gildissvið þessa viðauka til viðtakanda sem er búsettur eða hefur staðfestu á yfirráðasvæði þess. Í því tilviki skal 3. mgr. 6. gr. gilda um beiðni um afhendingu eða tilkynningu.

6. gr.
Form og efni aðstoðarbeiðna

1.     Beiðnir sem eru lagðar fram samkvæmt þessum viðauka skulu vera skriflegar. Nauðsynleg skjöl fyrir framkvæmd slíkrar beiðni skulu fylgja þeim. Í brýnum tilvikum er leyfilegt að samþykkja munnlegar beiðnir en þær skal þegar í stað staðfesta skriflega.

2.     Beiðnir sem lagðar eru fram samkvæmt 1. mgr. skulu fela í sér eftirfarandi upplýsingar:
a)    hvaða yfirvald leggur fram beiðnina,
b)     hvaða ráðstöfun farið er fram á,
c)     markmið með og ástæða fyrir beiðninni,
d)    hvaða lög, reglur og annar lagagerningur eru málinu viðkomandi,
e)    upplýsingar sem eru eins nákvæmar og tæmandi og unnt er um einstaklinga eða lögaðila sem rannsóknin beinist að,
f)    yfirlit yfir þau atriði sem málið varðar og fram komnar fyrirspurnir, nema í þeim tilvikum sem kveðið er á um í 5. gr.
3.     Beiðnir skulu lagðar fram á opinberu tungumáli þess yfirvalds sem leitað er til eða á tungumáli sem það yfirvald samþykkir.
4.     Ef beiðni fullnægir ekki formkröfum er hægt að fara fram á að hún verði leiðrétt eða fullgerð; þó má óska eftir því að varúðarráðstafanir verði gerðar.


7. gr.
Beiðnum framfylgt

1.     Til þess að framfylgja beiðni um aðstoð skal yfirvaldið, sem leitað er til, veita fyrirliggjandi upplýsingar, annast viðeigandi rannsókn eða láta rannsókn fara fram, innan marka valdsviðs síns og með öllum tiltækum ráðum, eins og það væri að bregðast við að eigin frumkvæði eða að beiðni annarra yfirvalda sama aðildarríkis. Þetta ákvæði á einnig við stjórnsýsludeildina sem yfirvaldið, sem leitað er til, beinir beiðninni til ef það er ekki einfært um að bregðast við.

2.     Beiðnum um aðstoð skal framfylgt í samræmi við lög, reglur og annan lagagerning aðildarríkisins sem leitað er til.
3.     Embættismenn með fullt umboð aðildarríkis geta, með samþykki annars hlutaðeigandi aðildarríkis og með fyrirvara um skilyrði sem síðarnefnda aðildarríkið setur, fengið upplýsingar um brot á tollalöggjöf sem yfirvaldið, sem sækir um, þarf á að halda vegna þessa viðauka frá skrifstofum yfirvaldsins sem leitað er til eða annars yfirvalds sem það ber ábyrgð á.


4.     Embættismenn aðildarríkis geta, með samþykki hlutaðeigandi aðildarríkis og með þeim skilyrðum sem það setur, verið viðstaddir rannsókn sem fram fer á yfirráðasvæði síðarnefnda aðildarríkisins.

8. gr.
Upplýsingum komið á framfæri

1.     Yfirvald sem leitað er til skal senda niðurstöður rannsókna til yfirvalds sem sækir um í formi skjala, staðfestra afrita skjala, skýrslna og sambærilegra gagna.
2.     Í staðinn fyrir skjölin sem kveðið er á um í 1. mgr. geta komið hvers kyns tölvugögn sem unnin eru í sama skyni.

9. gr.
Undantekningar frá þeirri skyldu að veita aðstoð

1.     Aðildarríkin geta neitað að veita þá aðstoð sem kveðið er á um í þessum viðauka ef hún:
a)    er líkleg til að hafa áhrif á fullveldi, allsherjarreglu, öryggi eða aðra mikilvæga hagsmuni; eða

b)    tekur til annarra reglna um gjaldeyri eða skatta en þeirra sem varða tolla; eða
c)    rýfur iðnaðar- eða viðskiptaleynd eða ljóstrar upp um atvinnuleyndarmál.
2.     Ef yfirvald óskar eftir aðstoð sem það væri sjálft ekki fært um að veita ef um væri beðið ber að vekja athygli á því í beiðninni. Það er undir yfirvaldinu, sem leitað er til, komið hvernig það bregst við slíkri beiðni.
3.     Ef hætt er við aðstoð eða synjað um hana skal þegar í stað tilkynna það yfirvaldinu sem sækir um og geta um ástæðu fyrir synjuninni.

10. gr.
Trúnaðarskylda

1.     Upplýsingar sem veittar eru í samræmi við þennan viðauka, í hvaða formi sem það er gert, skulu vera trúnaðarmál eða aðgangur að þeim takmarkaður. Þær heyra undir opinbera þagnarskyldu og njóta verndar í samræmi við viðeigandi lög sem gilda hjá aðildarríkinu sem fékk þær um sambærilegar upplýsingar.
2.     Því aðeins er heimilt að skiptast á persónuupplýsingum, þ.e. öllum upplýsingum er tengjast persónugreindum eða persónugreinanlegum einstaklingi, að viðtökuríkið skuldbindi sig til að veita slíkum gögnum í það minnsta jafngóða vernd og ætti við í sams konar tilviki í aðildarríkinu sem lætur þær í té.

11. gr.
Notkun upplýsinga

1.     Aðfengnar upplýsingar skal eingöngu nota í tengslum við þennan viðauka. Fari aðildarríki fram á að nota slíkar upplýsingar í öðrum tilgangi skal það leita fyrir fram eftir skriflegu samþykki þess stjórnvalds sem veitti þær. Slík notkun skal vera háð þeim takmörkunum sem það stjórnvald setur. Slíkar upplýsingar má veita öðrum yfirvöldum sem beinlínis berjast gegn ólöglegri eiturlyfjasölu.

2.     Ákvæði 1. mgr. koma ekki í veg fyrir notkun upplýsinga í hvers konar málarekstri af hálfu dómstóla eða stjórnvalda sem stofnað er til vegna þess að ekki hefur verið farið að tollalöggjöf. Tilkynna skal lögbæra yfirvaldinu, sem veitti upplýsingarnar, um slíka notkun þegar í stað.
3.     Aðildarríkin geta, í skráðum sönnunargögnum sínum, skýrslum og vitnisburði og í málarekstri og kærum sem koma fyrir dómstóla, notað upplýsingar sem fengist hafa og skjöl sem hafa verið skoðuð sem sönnunargögn í samræmi við ákvæði þessa viðauka.

12. gr.
Sérfræðingar og vitni

    Veita má embættismanni yfirvalds, sem leitað er til, heimild til þess að koma fyrir rétt, innan marka veittrar heimildar, sem sérfræðingur eða vitni í málarekstri fyrir dómstólnum eða stjórnvöldum í málum sem þessi viðauki tekur til í lögsögu annars aðildarríkis, og að leggja fram hluti, skjöl eða staðfest afrit þeirra eftir því sem nauðsynlegt er vegna málareksturs. Í beiðni um komu verður að tilgreina sérstaklega um hvaða málefni og í krafti hvaða stöðu eða hæfni embættismaðurinn verður yfirheyrður.


13. gr.
Kostnaður vegna aðstoðar

    Aðildarríkin skulu fella niður allar kröfur á hendur hvert öðru um endurgreiðslu kostnaðar sem stofnað er til samkvæmt þessum viðauka, nema, eftir því sem við á, greiðslur til sérfræðinga og vitna og til túlka og þýðenda sem eru ekki í þjónustu hins opinbera.

14. gr.
Beiting

1.     Beiting þessa viðauka skal falin tollyfirvöldum aðildarríkjanna. Þau skulu taka ákvarðanir um allar nauðsynlegar hagnýtar ráðstafanir og fyrirkomulag vegna beitingar hans, með hliðsjón af reglum um upplýsingavernd.

2.     Aðildarríkjunum ber að hafa samráð og veita síðan hvert öðru, fyrir milligöngu aðalskrifstofu EFTA, nákvæmar upplýsingar um þær framkvæmdarreglur sem samþykktar eru í samræmi við ákvæði þessa viðauka. Þau skulu einkum láta hvert öðru í té skrá yfir lögbær yfirvöld sem hafa heimild til að hlutast til um mál samkvæmt þessum viðauka.

15. gr.
Fylling

    Þessi viðauki skal koma til fyllingar en ekki hindra beitingu samninga um gagnkvæma aðstoð stjórnsýslustofnana sem gerðir hafa verið eða kunna að verða gerðir milli aðildarríkjanna og þriðju landa, svo og milli aðildarríkja Evrópubandalaganna og aðildarríkja EFTA og/eða þriðju landa. Hann skal ekki heldur koma í veg fyrir enn víðtækari gagnkvæma aðstoð sem veitt er samkvæmt slíkum samningum.

ANNEX B

on mutual administrative assistance in
customs matters

ARTICLE 1
Definitions

    For the purposes of this Annex:
(a)    “Goods” shall mean all goods falling within Chapters 1 to 97 of the Harmonized System, irrespective of the scope of the convention establishing the European Free Trade Association, hereinafter referred to as “EFTA Convention”;
(b)    “customs legislation” shall mean any legal or regulatory provision adopted by the individual EFTA Member States, hereinafter referred to as the “Member States”, governing the import, export, and transit of goods and their placing under any customs procedure, including measures of prohibition, restriction and control;
(c)    “applicant authority”, shall mean a competent administrative authority which has been appointed by a Member State for this purpose and which makes a request for assistance in customs matters;
(d)    “requested authority”, shall mean a competent administrative authority which has been appointed by a Member State for this purpose and which receives a request for assistance in customs matters;
(e)    “breaches of customs legislation” shall mean any violation or attempted violation of that legislation.

ARTICLE 2
Scope

1.     The Member States shall assist each other, in the areas within their competence, in the manner and under the conditions laid down in this Annex, in ensuring that the customs legislation is correctly applied, in particular by the prevention, detection and investigation of operations in breach of that legislation.
2.     Assistance in customs matters, as provided for in this Annex, shall apply to any administrative authority of the Member States which is competent for the application of this Annex. It shall not prejudice the rules governing mutual assistance in criminal matters. Nor shall it cover information obtained under powers exercised at the request of the judicial authorities, except where communication of such information has the prior authorization of the said authorities.

ARTICLE 3
Assistance on request

1.     At the request of the applicant authority, the requested authority shall furnish it with all relevant information which may enable it to ensure compliance with customs legislation, including information regarding operations noted or planned which are or might be in breach of such legislation.
2.     At the request of the applicant authority, the requested authority shall inform it whether goods exported from the territory of one of the Member States have been properly imported into its territory, specifying, where appropriate, the customs procedure applied to the goods.
3.     At the request of the applicant authority, the requested authority shall, within the framework of its laws, take the necessary steps to ensure special surveillance of:
(a)    natural or legal persons of whom there are reasonable grounds for believing that they are or have been in breach of customs legislation;
(b)    places where goods are stored in a way that gives grounds for suspecting that they are intended to supply operations in breach of customs legislation;
(c)    movements of goods notified as possibly giving rise to substantial breaches of customs legislation;
(d)    means of transport for which there are reasonable grounds for believing that they have been, are or may be used in operations in breach of customs legislation.

ARTICLE 4
Spontaneous assistance

    The Member States shall provide each other, at their own initiative and in accordance with their laws, rules and other legal instruments, with assistance if they consider that to be necessary for the correct application of customs legislation, particularly when they obtain information pertaining to:
–    operations which are or appear to be in breach of such legislation and which may be of interest to other Member States;
–    new means or methods employed in carrying out such operations;
–    goods known to be subject to substantial breaches of customs legislation;
–    natural or legal persons of whom there are reasonable grounds for believing that they are or have been in substantial breach of customs legislation;
–    means of transport for which there are reasonable grounds for believing that they have been, are or may be used in operations in substantial breach of customs legislation.

ARTICLE 5
Delivery/Notification

    At the request of the applicant authority, the requested authority shall, in accordance with its legislation, take all necessary measures in order:
–    to deliver all documents,
–    to notify all decisions, as well as any other relevant act which forms part of the procedure in question,
falling within the scope of this Annex to an addressee, residing or established in its territory. In such a case, Article 6 (3) shall apply to the request for delivery or notification.

ARTICLE 6
Form and substance of requests for assistance

1.     Requests pursuant to this Annex shall be made in writing. They shall be accompanied by the documents necessary to enable compliance with the request. When required because of the urgency of the situation, oral requests may be accepted, but must be confirmed in writing immediately.
2.     Requests pursuant to paragraph 1 shall include the following information :
(a)    the applicant authority making the request;
(b)    the measure requested;
(c)    the object of and the reason for the request;
(d)    the laws, rules and other legal elements involved;

(e)    indications as exact and comprehensive as possible on the natural or legal persons who are the target of the investigations;
(f)    a summary of the relevant facts and of the enquiries already carried out, except in cases provided for in Article 5.
3.     Requests shall be submitted in an official language of the requested authority or in a language acceptable to that authority.
4.     If a request does not meet the formal requirements, its correction or completion may be requested; precautionary measures may, however, be ordered.

ARTICLE 7
Execution of requests

1.     In order to comply with a request for assistance, the requested authority shall proceed, within the limits of its competence and available resources, as though it were acting on its own account or at the request of other authorities of that same Member State, by supplying information already possessed, by carrying out appropriate enquiries or by arranging for them to be carried out. This provision shall also apply to the administrative department to which the request has been addressed by the requested authority when the latter cannot act on its own.
2.     Requests for assistance shall be executed in accordance with the laws, rules and other legal instruments of the requested Member State.
3.     Duly authorized officials of a Member State may, with the agreement of the Member State involved and subject to the conditions laid down by the latter, obtain from the offices of the requested authority or other authority for which the requested authority is responsible, information relating to operations which are or may be in breach of customs legislation which the applicant authority needs, in the context of an enquiry, for the purposes of this Annex.
4.     Officials of a Member State may, with the agreement of the Member State involved and subject to the conditions laid down by the latter, be present at enquiries carried out in the latter's territory.

ARTICLE 8
Form in which information is to be communicated

1.     The requested authority shall communicate results of enquiries to the applicant authority in the form of documents, certified copies of documents, reports and the like.
2.     The documents provided for in paragraph 1 may be replaced by computerized information produced in any form for the same purpose.

ARTICLE 9
Exceptions to the obligation to provide assistance

1.     The Member States may refuse to give assistance as provided for in this Annex, where to do so would:
(a)    be likely to prejudice their sovereignty, public policy, their security or other essential interests; or
(b)    involve currency or tax regulations other than customs legislation; or
(c)    violate an industrial, commercial or professional secret.
2.     Where the applicant authority requests assistance which it would itself be unable to provide if so asked, it shall draw attention to that fact in its request. It shall then be for the requested authority to decide how to respond to such a request.
3.     If assistance is refused, the decision and the reasons therefor must be notified to the applicant authority without delay.

ARTICLE 10
Confidentiality

1.     Any information communicated in whatsoever form pursuant to this Annex shall be of a confidential or restricted nature. It shall be covered by the obligation of official secrecy and shall enjoy the protection extended to similar information under the relevant laws of the Member State which received it.
2.     Personal data, that is all information relating to an identified or identifiable individual, may be exchanged only where the receiving Member State undertakes to protect such data in at least an equivalent way to the one applicable to that particular case in the supplying Member State.

ARTICLE 11
Use of information

1.     Information obtained shall be used solely for the purposes of this Annex. Where one of the Member States requests the use of such information for other purposes, it shall ask for the prior written consent of the authority which furnished the information. Such use shall then be subject to any restrictions laid down by that authority. Such information may be communicated to other authorities directly involved in the combat of illicit drug traffic.
2.     Paragraph 1 shall not impede the use of information in any judicial or administrative proceedings instituted for failure to comply with customs legislation. The competent authority which supplied that information shall be notified of such use without delay.
3.     The Member States may, in their records of evidence, reports and testimonies and in proceedings and charges brought before the courts, use as evidence information obtained and documents consulted in accordance with the provisions of this Annex.

ARTICLE 12
Experts and witnesses

    An official of a requested authority may be authorized to appear, within the limitations of the authorization granted, as an expert or witness in judicial or administrative proceedings regarding the matters covered by this Annex in the jurisdiction of another Member State, and produce such objects, documents or authenticated copies thereof, as may be needed for the proceedings. The request for an appearance must indicate specifically on what matters and by virtue of what title or qualification the official will be questioned.

ARTICLE 13
Assistance expenses

    The Member States shall waive all claims on each other for the reimbursement of expenses incurred pursuant to this Annex, except, as appropriate, for expenses to experts and witnesses and to interpreters and translators who are not public service employees.

ARTICLE 14
Application

1.     The application of this Annex shall be entrusted to the customs authorities of the Member States. They shall decide on all practical measures and arrangements necessary for its application, taking into consideration the rules in force in the field of data protection.
2.     The Member States shall consult each other and subsequently keep each other informed through the EFTA Secretariat of the detailed rules of implementation which are adopted in accordance with the provisions of this Annex. In particular, they shall exchange the list of competent authorities authorized to intervene under this Annex.

ARTICLE 15
Complementarity

    This Annex shall complement and not impede application of any agreements on mutual administrative assistance which have been concluded or may be concluded between Member States and third countries as well as between Member States of the European Communities and the EFTA Member States and/or third countries. Nor shall it preclude more extensive mutual assistance granted under such agreements.


VIÐAUKI C

Skrá yfir landbúnaðarvörur og vörur unnar úr hráefni úr landbúnaði,
sem um getur í 1. mgr. 8. gr. *


ST-númer Vörulýsing
I. HLUTI
04.03 Áfir, hleypt mjólk og rjómi, jógúrt, kefír og önnur gerjuð eða sýrð mjólk og rjómi, einnig kjarnað eða með viðbættum sykri eða öðru sætuefni, eða bragðbætt eða með ávöxtum eða kakói:
10 -    Jógúrt:
úr 10 --        Með kakói
90 -    Annað:
úr 90 --        Bragðbætt eða með ávöxtum eða kakói
07.10 Matjurtir (ósoðnar eða soðnar með gufu eða í vatni), frystar:
40 -    Sykurmaís (Zea mays var. saccharata)
07.11 Matjurtir, rotvarðar til bráðabirgða (t.d. með brennisteinstvíildisgasi, saltlegi, brennisteinssýrlingi eða öðrum rotvarnarlausnum), en óhæfar í því ástandi til manneldis:
90 -    Aðrar matjurtir; matjurtablöndur:
úr 90 --        Sykurmaís (Zea mays var. saccharata)
13.02 Jurtasafar og jurtakjarnar; pektínefni, pektínöt og pektöt; agar og önnur jurtaslím og hleypiefni, einnig umbreytt, unnið úr vörum úr jurtaríkinu:
-    Jurtaslím og hleypiefni, einnig umbreytt, unnið úr vörum úr jurtaríkinu:
31
--        Agar:
úr 31 ---            Umbreytt
32 --        Jurtaslím og hleypiefni, einnig umbreytt, unnið úr fuglatrésbaunum, -fræi eða gúarfræi:
úr 32 ---            Umbreytt
39 --        Annað:
úr 39 ---            Umbreytt
17.02 Annar sykur, þar með talinn kemískt hreinn laktósi, maltósi, glúkósi og frúktósi, í föstu formi; sykursíróp sem inniheldur hvorki bragðefni né litarefni; gervihunang, einnig blandað náttúrlegu hunangi; karamel:
50
-    Kemískt hreinn frúktósi
17.04 Sætindi (þar með talið hvítt súkkulaði) án kakóinnihalds
18.06 Súkkulaði og önnur matvæli úr kakói
19.01 Maltkjarni; matvæli úr mjöli, fín- eða grófmöluðu, sterkju eða maltkjarna, sem ekki inniheldur kakóduft eða inniheldur minna en 50% miðað við þyngd af kakódufti ót.a.; matvæli úr vörum í nr. 04.01 til 04.04 sem ekki innihalda kakóduft eða innihalda minna en 10%, miðað við þyngd, af kakói, ót.a.:
10 -    Barnamatur, í smásöluumbúðum:
úr 10 --        Matvæli úr vörum í nr. 04.01 til 04.04
20 -    Blöndur og deig til framleiðslu á brauðvörum í nr. 19.05:

ANNEX C

List of agricultural goods and goods processed from
agricultural raw materials referred to in paragraph 1 of Article 8 *


HS heading No. Description of goods
PART I
04.03 Buttermilk, curdled milk and cream, yogurt, kephir and other fermented or acidified milk and cream, whether or not concentrated or containing added sugar or other sweetening matter or flavoured or containing added fruit or cocoa:
10 -    Yogurt:
ex 10 --        Containing added cocoa
90 -    Other:
ex 90 --        Flavoured or containing added fruit or cocoa
07.10 Vegetables (uncooked or cooked by steaming or boiling in water), frozen:
40 -    Sweet corn (Zea mays var. saccharata)
07.11 Vegetables provisionally preserved (for example, by sulphur dioxide gas, in brine, in sulphur water or in other preservative solutions), but unsuitable in that state for immediate consumption:
90 -    Other vegetables; mixtures of vegetables:
ex 90 --        Sweet corn (Zea mays var. saccharata)
13.02 Vegetable saps and extracts; pectic substances, pectinates and pectates; agar-agar and other mucilages and thickeners, whether or not modified, derived from vegetable products:
-    Mucilages and thickeners, whether or not modified, derived from vegetable products:
31 --        Agar-agar:
ex 31 ---            Modified
32 --        Mucilages and thickeners, whether or not modified, derived from locust beans, locust bean seeds or guar seeds:
ex 32 ---            Modified
39 --        Other:
ex 39 ---            Modified
17.02 Other sugars, including chemically pure lactose, maltose, glucose and fructose, in solid form; sugar syrups not containing added flavouring or colouring matter; artificial honey, whether or not mixed with natural honey; caramel:
50 -    Chemically pure fructose
17.04 Sugar confectionery (including white chocolate), not containing cocoa
18.06 Chocolate and other food preparations containing cocoa
19.01 Malt extract; food preparations of flour, meal, starch or malt extract, not containing cocoa powder or containing cocoa powder in a proportion by weight of less than 50%, not elsewhere specified or included; food preparations of goods of heading Nos. 04.01 to 04.04, not containing cocoa powder or containing cocoa powder in a proportion by weight of less than 10%, not elsewhere specified or included:
10 -    Preparations for infant use, put up for retail sale:
ex 10 --        Preparations of goods of heading Nos. 04.01 to 04.04
20 -    Mixes and doughs for the preparation of bakers' wares of heading No. 19.05:
ST-númer Vörulýsing
úr 20 --        Matvæli úr vörum í nr. 04.01 til 04.04
90 -    Annað:
úr 90 --    Maltkjarni og matvæli úr vörum í nr. 04.01 til 04.04
19.02 Pasta, einnig soðin eða fyllt (með kjöti eða öðrum efnum) eða unnin á annan hátt, svo sem spaghettí, makkarónur, núðlur, lasagna, gnocchi, ravíólí, kannellóní; kúskús, einnig unnið:
-    Ósoðin pasta, ekki fyllt eða unnin á annan hátt:
11
19
20
úr 20 --        Annað en vörur sem innihalda meira en 20%, miðað við þyngd af pylsum, kjöti, hlutum af dýrum eða blóði eða hvers kyns blöndu af því
30 -    Önnur pasta
40 -    Kúskús
19.04 Matvæli úr belgdu eða steiktu korni eða kornvörum (t.d. kornflögur); korn, annað en maís, sem grjón, forsoðið eða unnið á annan hátt
19.05 Brauð, sætabrauð, kökur, kex og aðrar brauðvörur, einnig með kakói; altarisbrauð, lyfjahylki, innsiglunaroblátur, rísþynnur og áþekkar vörur:
20 -    Hunangskökur (engiferkökur) og þess háttar
30 -    Sætakex; vöfflur og kexþynnur
40 -    Tvíbökur, ristað brauð og áþekkar ristaðar vörur
90 -    Annað:
úr 90 --        Annað en brauð, sem ekki inniheldur viðbætt hunang, egg, ost eða ávexti og ekki meira en 5% sykur miðað við þyngd þurrefnis, og ekki meira en 5% fitu
20.01 Matjurtir, ávextir, hnetur og aðrir ætir plöntuhlutar, unnið eða rotvarið með ediki eða ediksýru:
90 -    Annað:
úr 90 --        Sykurmaís (Zea mays var. saccharata)
20.04 Aðrar matjurtir, unnar eða rotvarðar á annan hátt en með ediki eða edikssýru, frystar:
90 -    Aðrar matjurtir eða matjurtablöndur:
úr 90 --        Sykurmaís (Zea mays var. saccharata)
20.05 Aðrar matjurtir, unnar eða rotvarðar á annan hátt en með ediki eða edikssýru, ófrystar:
80
-    Sykurmaís (Zea mays var. saccharata)
21.01 Kjarni, kraftur og seyði úr kaffi, tei eða maté og framleiðsla að stofni til úr þessum vörum eða að stofni til úr kaffi, tei eða maté; brenndar síkóríurætur og annað brennt kaffilíki, og kjarni, kraftur og seyði úr þeim:
10 -    Kjarni, kraftur og seyði úr kaffi og framleiðsla að stofni til úr þessum kjarna, krafti eða seyði eða að stofni til úr kaffi:
úr 10 --        Framleiðsla að stofni til úr kaffi
20 -    Kjarni, kraftur og seyði úr tei eða maté og framleiðsla að stofni til úr þessum kjarna, krafti eða seyði eða að stofni til úr tei eða maté:
úr 20 --        Framleiðsla að stofni til úr tei eða maté
30 -    Brenndar síkóríurætur og annað brennt kaffilíki, og kjarni, kraftur og seyði úr þeim
HS heading No. Description of goods
ex 20 --        Preparations of goods of heading Nos. 04.01 to 04.04
90 -    Other:
ex 90 --        Malt extract and preparations of goods of heading Nos. 04.01 to 04.04
19.02 Pasta, whether or not cooked or stuffed (with meat or other substances) or otherwise prepared, such as spaghetti, macaroni, noodles, lasagne, gnocchi, ravioli, cannelloni; couscous, whether or not prepared:
-    Uncooked pasta, not stuffed or otherwise prepared:
11 --        Containing eggs
19 --        Other
20 -    Stuffed pasta, whether or not cooked or otherwise prepared:
ex 20 --        Other than products containing more than 20% by weight of sausage, meat, meat offal or blood, or any combination thereof
30 -    Other pasta
40 -    Couscous
19.04 Prepared foods obtained by the swelling or roasting of cereals or cereal products (for example, corn flakes); cereals, other than maize (corn), in grain form, pre-cooked or otherwise prepared
19.05 Bread, pastry, cakes, biscuits and other bakers' wares, whether or not containing cocoa; communion wafers, empty cachets of a kind suitable for pharmaceutical use, sealing wafers, rice paper and similar products:
20 -    Gingerbread and the like
30 -    Sweet biscuits; waffles and wafers
40 -    Rusks, toasted bread and similar toasted products
90 -    Other:
ex 90 --        Other than bread not containing added honey, eggs, cheese or fruit, and containing by weight in the dry matter state not more than 5% of sugar and not more than 5% of fat
20.01 Vegetables, fruit, nuts and other edible parts of plants, prepared or preserved by vinegar or acetic acid:
90 -    Other:
ex 90 --        Sweet corn (Zea mays var. saccharata)
20.04 Other vegetables prepared or preserved otherwise than by vinegar or acetic acid, frozen:
90 -    Other vegetables and mixtures of vegetables:
ex 90 --        Sweet corn (Zea mays var. saccharata)
20.05 Other vegetables prepared or preserved otherwise than by vinegar or acetic acid, not frozen:
80 -    Sweet corn (Zea mays var. saccharata)
21.01 Extracts, essences and concentrates, of coffee, tea or maté and preparations with a basis of these products or with a basis of coffee, tea or maté; roasted chicory and other roasted coffee substitutes, and extracts, essences and concentrates thereof:
10 -    Extracts, essences and concentrates, of coffee, and preparations with a basis of these extracts, essences or concentrates or with a basis of coffee:
ex 10 --        Preparations with a basis of coffee
20 -    Extracts, essences and concentrates, of tea or maté, and preparations with a basis of these extracts, essences or concentrates or with a basis of tea or maté:
ex 20 --        Preparations with a basis of tea or maté
30 -    Roasted chicory and other roasted coffee substitutes, and extracts, essences and concentrates thereof
ST-númer Vörulýsing
21.03 Sósur og framleiðsla í þær; blönduð bragðefni og blönduð bragðbætiefni; mustarðsmjöl, fín- eða grófmalað, og unninn mustarður:
10 -    Sojasósa
20 -    Tómatsósur
90 -    Annað
21.04 Súpur og seyði og framleiðsla í það; jafnblönduð samsett matvæli:
10 -    Súpur og seyði og framleiðsla í það
20 -    Jafnblönduð samsett matvæli:
úr 20 --        Sem ekki innihalda kjöt eða hluta af dýrum
21.05 Rjómaís og annar ís til manneldis, einnig með kakóinnihaldi:
úr 21.05
-    Vörur í þessum vörulið, þó ekki rjómaís sem inniheldur fitu en ekki kakó
21.06 Matvæli, ót.a.:
10 -    Prótínseyði og textúruð prótínefni
90 -    Annað:
úr 90 --        Vörur þessa undirliðar, þó ekki:
    (a)    Fitufleyti og svipuð framleiðsla sem inniheldur meira en 15% af mjólkurfitu miðað við þyngd
    (b)    Bragðbætt eða litað sykursýróp
22.02 Vatn, þar með talið ölkelduvatn og loftblandað vatn, með viðbættum sykri eða öðru sætuefni eða bragðbætt, og aðrar óáfengar drykkjarvörur, þó ekki ávaxtasafar eða matjurtasafar í nr. 20.09.
22.03 Öl gert úr malti
22.08 Ómengað etylalkóhól að alkóhólstyrkleika 80% eða minna miðað við rúmmál; áfengir vökvar, líkjörar og aðrar áfengar drykkjarvörur; samsettar alkóhólblöndur til nota við framleiðslu á drykkjarvörum:
10 -    Samsettar alkóhólblöndur til nota við framleiðslu á drykkjarvörum
20 -    Áfengir vökvar eimaðir úr þrúguvíni eða þrúguhrati:
úr 20 --        Áfengir vökvar eimaðir úr þrúguvíni
30 -    Viskí
40 -    Romm og tafía
50 -    Gin og genever
90 -    Annað:
úr 90 --        Áfengir vökvar eimaðir úr korni; áfengir vökvar eimaðir úr melassa; ákavíti, eftirlíkingar af rommi og vodka; áfengir drykkir byggðir á áðurgreindum áfengum vökvum og á viskíi, rommi, tafíu, gini og genever; fíkjukoníak; líkjörar og áfengisblöndur
29.05 Raðtengd alkóhól ásamt halógen-, súlfó-, nítró- eða nítrósóafleiðum þeirra:
-    Önnur pólyhydrísk alkóhól:
43
--        Mannitól
44
--        D-glúkitól (sorbitól)
29.40 Sykrur, kemískt hreinar, þó ekki súkrósi, laktósi, maltósi, glúkósi og frúktósi; sykrueterar og sykruestrar, og sölt þeirra, þó ekki vörur í nr. 29.37, 29.38 eða 29.39:
úr 29.40
-    Sorbósi og sölt hans og estrar
HS heading No. Description of goods
21.03 Sauces and preparations therefor; mixed condiments and mixed seasonings; mustard flour and meal and prepared mustard:
10 -    Soya sauce
20 -    Tomato ketchup and other tomato sauces
90 -    Other
21.04 Soups and broths and preparations therefor; homogenised composite food preparations:
10 -    Soups and broths and preparations therefor
20 -    Homogenised composite food preparations:
ex 20 --        Not containing meat or meat offal
21.05 Ice cream and other edible ice, whether or not containing cocoa:
ex 21.05 -    Products of this heading, except ice cream containing fat but not containing cocoa
21.06 Food preparations not elsewhere specified or included:
10 -    Protein concentrates and textured protein substances
90 -    Other:
ex 90 --        Products of this sub-heading, except:
    (a)    Fat emulsions and similar preparations containing more than 15% by weight of milkfats
    (b)     Sugar syrups containing added flavouring or colouring matter
22.02 Waters, including mineral waters and aerated waters, containing added sugar or other sweetening matter or flavoured, and other non-alcoholic beverages, not including fruit or vegetable juices of heading No. 20.09
22.03 Beer made from malt
22.08 Undenatured ethyl alcohol of an alcoholic strength by volume of less than 80% vol; spirits, liqueurs and other spirituous beverages; compound alcoholic preparations of a kind used for the manufacture of beverages:
10 -    Compound alcoholic preparations of a kind used for the manufacture of beverages
20 -    Spirits obtained by distilling grape wine or grape marc:
ex 20 --        Spirits obtained by distilling grape wine
30 -    Whiskies
40 -    Rum and tafia
50 -    Gin and Geneva
90 -    Other:
ex 90 --        Spirits distilled from cereals; spiritsdistilled from molasses; aquavit, imitation rum and vodka; alcoholic beverages based on the foregoing spirits as well as on whisky, rum, tafia, gin and Geneva; fig brandy; liqueurs and cordials
29.05 Acyclic alcohols and their halogenated, sulphonated, nitrated or nitrosated derivatives:
-    Other polyhydric alcohols:
43 --        Mannitol
44 --        D-glucitol (sorbitol)
29.40 Sugars, chemically pure, other than sucrose, lactose, maltose, glucose and fructose; sugar ethers and sugar esters, and their salts, other than products of heading No. 29.37, 29.38 or 29.39:
ex 29.40 -    Sorbose and its salts and esters
ST-númer Vörulýsing
30.01 Kirtlar og önnur líffæri til lækninga, þurrkað, einnig í duftformi; kjarni til lækninga, úr kirtlum eða öðrum líffærum eða úr seyti þeirra; heparín og sölt þess; önnur efni úr mönnum eða dýrum framleidd til lækninga eða varnar gegn sjúkdómum, ót.a.:
90
-    Annað:
úr 90
--        Heparín og sölt þess
35.01 Kasín, kasínöt og aðrar kasínafleiður; kasínlím:
90
-    Annað:
úr 90
--        Kasínlím
35.02 Albúmín, albúmínöt og aðrar albúmínafleiður:
10
-    Eggjaalbúmín
90
-    Annað:
úr 90
--        Mjólkuralbúmín (mjólkurhvíta)
35.05 Dextrín og önnur umbreytt sterkja (t.d. forgelatíneruð eða estruð sterkja); lím að meginstofni úr sterkju eða dextríni eða annarri umbreyttri sterkju
35.07 Ensím; unnin ensím, ót.a.:
90
-    Annað:
úr 90
--        Unnin ensím sem innihalda efni sem hafa næringargildi
38.09 Áferðar- og íburðarefni (finishing agents), litberar til að hraða litun eða festingu litunarefna og aðrar vörur og blöndur (t.d. fyllir og litfestir) sem notað er í textíl-, pappírs-, leður- eða skyldum iðnaði, ót.a.:
10
-    Að stofni til úr sterkjukenndum efnum
-    Annað:
91
--        Til nota í textíliðnaði:
úr 91
---            Með 30% eða meira heildarinnihald sterkju eða afleiðum sterkju, miðað við þyngd
92
--        Til nota í pappírsiðnaði:
úr 92
---            Með 30% eða meira heildarinnihald sterkju eða afleiðum sterkju, miðað við þyngd
99
--        Annað:
úr 99
---            Með 30% eða meira heildarinnihald sterkju eða afleiður sterkju, miðað við þyngd
38.23 Tilbúin bindiefni fyrir málmsteypumót eða málmsteypukjarna; kemískar vörur og framleiðsla kemísks eða skylds iðnaðar (þar með taldar blöndur úr náttúrlegum efnum), ót.a.; úrgangsefni kemísks eða skylds iðnaðar, ót.a.:
10
-    Tilbúin bindiefni fyrir málmsteypumót eða málmsteypukjarna:
úr 10
--        Að stofni til sterkja eða dextrín eða með heildarinnihald 30% eða meira af sterkju eða afleiðum sterkju
60
-    Sorbitól, annað en í nr. 2905.44
90
-    Annað:
úr 90
--        Með 30% eða meira heildarinnihald miðað við þyngd af sykri, vörum sem heyra undir nr. 04.01 til 04.04, sterkju eða afleiðum sterkju
39.13 Náttúrlegar fjölliður (t.d. algínsýra) og umbreyttar náttúrlegar fjölliður (t.d. hert prótín, kemískar afleiður náttúrlegs gúmmís), ót.a., í frumgerðum:
90
-    Annað:
úr 90
--        Annað en hert prótín og kemískar afleiður náttúrlegs gúmmís
HS heading No. Description of goods
30.01 Glands and other organs for organo-therapeutic uses, dried, whether or not powdered; extracts of glands or other organs or of their secretions for organo-therapeutic uses; heparin and its salts; other human or animal substances prepared for therapeutic or prophylactic uses, not elsewhere specified or included:
90 -    Other:
ex 90 --        Heparin and its salts
35.01 Casein, caseinates and other casein derivatives; casein glues:
90 -    Other:
ex 90 --        Casein glues
35.02 Albumins, albuminates and other albumin derivatives:
10 -    Egg albumin
90 -    Other:
ex 90 --        Milk albumin (lactalbumin)
35.05 Dextrins and other modified starches (for example, pregelatinised or esterified starches); glues based on starches, or on dextrins or other modified starches
35.07 Enzymes; prepared enzymes not elsewhere specified or included:
90 -    Other:
ex 90 --        Prepared enzymes containing foodstuffs
38.09 Finishing agents, dye carriers to accelerate the dyeing or fixing of dyestuffs and other products and preparations (for example, dressings and mordants), of a kind used in the textile, paper, leather or like industries, not elsewhere specified or included:
10 -    With a basis of amylaceous substances
-    Other:
91 --        Of a kind used in the textile industry:
ex 91 ---            With a total content of 30% or more by weight of starch, or products derived from starch
92 --        Of a kind used in the paper industry:
ex 92 ---            With a total content of 30% or more by weight of starch, or products derived from starch
99 --        Other:
ex 99 ---            With a total content of 30% or more by weight of starch, or products derived from starch
38.23 Prepared binders for foundry moulds or cores; chemical products and preparations of the chemical or allied industries (including those consisting of mixture of natural products), not elsewhere specified or included; residual products of the chemical or allied industries, not elsewhere specified or included:
10 -    Prepared binders for foundry moulds or cores:
ex 10 --        Based on starch or dextrin or with a total content of 30% or more by weight of starch, or products derived from starch
60 -    Sorbitol other than that of sub-heading No. 2905.44
90 -    Other:
ex 90 --        With a total content of 30% or more by weight of sugar, products classified in heading Nos. 04.01 to 04.04, starch, or products derived from starch
39.13 Natural polymers (for example, alginic acid) and modified natural polymers (for example, hardened proteins, chemical derivatives of natural rubber), not elsewhere specified or included, in primary forms:
90 -    Other:
ex 90 --        Other than hardened proteins and chemical derivatives of natural rubber
ST-númer Vörulýsing
II. HLUTI
04.03 Áfir, hleypt mjólk og rjómi, jógúrt, kefír og önnur gerjuð eða sýrð mjólk og rjómi, einnig kjarnað eða með viðbættum sykri eða öðru sætuefni, eða bragðbætt eða með ávöxtum eða kakói:
10
-    Jógúrt:
úr 10
--        Bragðbætt eða með ávöxtum en ekki með kakói
19.01 Maltkjarni; framleiðsla úr mjöli, fín- eða grófmöluðu, sterkju eða maltkjarna, sem ekki inniheldur kakóduft eða inniheldur minna en 50% miðað við þyngd af kakódufti ót.a.; matvæli úr vörum í nr. 04.01til 04.04 sem ekki innihalda kakóduft eða innihalda minna en 10%, miðað við þyngd, af kakói, ót.a.:
10
-    Barnamatur, í smásöluumbúðum:
úr 10
--        Annað en framleiðsla úr vörum úr 04.01 til 04.04
20
-    Blöndur og deig til framleiðslu á brauðvörum í nr. 19.05:
úr 20
--        Annað en framleiðsla úr vörum úr 04.01 til 04.04
90
-    Annað:
úr 90
--        Annað en maltkjarni og matvæli úr vörum í nr. 04.01 til 04.04
19.03 Tapíókamjöl og tapíókalíki úr sterkju, sem flögur, grjón, perlur, sáldur eða í áþekkri mynd
19.05 Brauð, sætabrauð, kökur, kex og aðrar brauðvörur, einnig með kakói; altarisbrauð, lyfjahylki, innsiglunaroblátur, rísþynnur og áþekkar vörur:
10
-    Hrökkbrauð
90
-    Annað:
úr 90
--        Brauð, sem ekki inniheldur viðbætt hunang, egg, ost eða ávexti og ekki meira en 5% sykurs miðað við þyngd þurrefnis, og ekki meira en 5% fitu
20.04 Aðrar matjurtir, unnar eða rotvarðar á annan hátt en með ediki eða edikssýru, frystar:
10
-    Kartöflur:
úr 10
--        Fín- eða grófmalaðar eða flögur
20.05 Aðrar matjurtir, unnar eða rotvarðar á annan hátt en með ediki eða edikssýru, ófrystar:
20
-    Kartöflur:
úr 20
--        Fín- eða grófmalaðar eða flögur
20.08 Ávextir, hnetur og aðrir ætir plöntuhlutar, unnið eða rotvarið á annan hátt, einnig með viðbættum sykri eða öðru sætuefni eða áfengi, ót.a.:
-    Hnetur, jarðhnetur og önnur fræ, einnig blandað saman:
11
--        Jarðhnetur:
úr 11
---            Hnetusmjör
19
--        Annað, þar með talið blöndur:
úr 19
---            Blöndur að stofni til sáðkorn
-    Annað, þar með talið blöndur, aðrar en í nr. 2008.19:
99
--        Annað:
úr 99
---            Maís (korn) annað en sykurmaís (Zea mays var. saccharata)
21.02 Ger (lifandi eða dautt); aðrar einfruma örverur, dauðar (þó ekki bóluefni í nr. 30.02); unnið bökunarduft:
10
-    Lifandi ger:
HS heading No. Description of goods
PART II
04.03 Buttermilk, curdled milk and cream, yogurt, kephir and other fermented or acidified milk and cream, whether or not concentrated or containing added sugar or other sweetening matter or flavoured or containing added fruit or cocoa:
10 -    Yogurt:
ex 10 --        Flavoured or containing added fruit but not containing cocoa
19.01 Malt extract; food preparations of flour, meal, starch or malt extract, not containing cocoa powder or containing cocoa powder in a proportion by weight of less than 50%, not elsewhere specified or included; food preparations of goods of heading Nos. 04.01 to 04.04, not containing cocoa powder or containing cocoa powder in a proportion by weight of less than 10%, not elsewhere specified or included:
10 -    Preparations for infant use, put up for retail sale:
ex 10 --        Other than preparations of goods of heading Nos. 04.01 to 04.04
20 -    Mixes and doughs for the preparation of bakers' wares of heading No. 19.05:
ex 20 --        Other than preparations of goods of heading Nos. 04.01 to 04.04
90 -    Other:
ex 90 --        Other than malt extract and preparations of goods of heading Nos. 04.01 to 04.04
19.03 Tapioca and substitutes therefor prepared from starch, in the form of flakes, grains, pearls, siftings or in similar forms
19.05 Bread, pastry, cakes, biscuits and other bakers' wares, whether or not containing cocoa; communion wafers, empty cachets of a kind suitable for pharmaceutical use, sealing wafers, rice paper and similar products:
10 -    Crispbread
90 -    Other:
ex 90 --        Bread, not containing added honey, eggs, cheese or fruit, and containing by weight in the dry matter state not more than 5% of sugar and not more than 5% of fat
20.04 Other vegetables prepared or preserved otherwise than by vinegar or acetic acid, frozen:
10 -    Potatoes:
ex 10 --        In the form of flour, meal or flakes
20.05 Other vegetables prepared or preserved otherwise than by vinegar or acetic acid, not frozen:
20 -    Potatoes:
ex 20 --        In the form of flour, meal or flakes
20.08 Fruit, nuts and other edible parts of plants, otherwise prepared or preserved, whether or not containing added sugar or other sweetening matter or spirit, not elsewhere specified or included:
-    Nuts, ground-nuts and other seeds, whether or not mixed together:
11 --        Ground-nuts:
ex 11 ---            Peanut butter
19 --        Other, including mixtures:
ex 19 ---            Preparations based on cereal seeds
-    Other, including mixtures other than those of sub-heading No. 2008.19:
99 --        Other:
ex 99 ---            Maize (corn), other than sweet corn (Zea mays var. saccharata)
21.02 Yeasts (active or inactive); other single-cell micro-organisms, dead (but not including vaccines of heading No. 30.02); prepared baking powders:
10 -    Active yeasts:
ST-númer Vörulýsing
úr 10
--        Pressuger
21.05 Rjómaís og annar ís til manneldis, einnig með kakóinnihaldi:
úr 21.05
-    Rjómaís með fituinnihaldi en ekki með kakóinnihaldi
21.06 Matvæli, ót.a.:
90
-    Annað:
úr 90
--        Fitufleyti og svipuð framleiðsla sem inniheldur meira en 15% af mjólkurfitu miðað við þyngd
22.04 Vín úr nýjum þrúgum, einnig vín blönduð vínanda; þrúguþykkni annað en í nr. 20.09:
-    Annað vín; þrúguþykkni sem gerjun hefur verið hindruð eða stöðvuð í með íblöndun alkóhóls:
21
--        Í tveggja lítra umbúðum eða minni:
úr 21
---            Ógerjaður þrúgusafi eða ógerjað þrúguþykkni, með viðbættu alkóhóli
29
--        Annað:
úr 29
---            Ógerjaður þrúgusafi eða ógerjað þrúguþykkni, með viðbættu alkóhóli
22.05 Vermút og annað vín úr nýjum þrúgum bragðbætt með plöntum eða ilmefnum
22.08 Ómengað etylalkóhól að alkóhólstyrkleika minni en 80% miðað við rúmmál; áfengir vökvar, líkjörar og aðrar áfengar drykkjarvörur; samsettar alkóhólblöndur til nota við framleiðslu á drykkjarvörum:
20
-    Áfengir vökvar eimaðir úr þrúguvíni eða þrúguhrati:
úr 20
--        Áfengir vökvar eimaðir úr þrúguhrati
90
-    Annað:
úr 90
--        Annað en eftirfarandi: áfengir vökvar eimaðir úr korni; áfengir vökvar eimaðir úr melassa; ákavíti, eftirlíkingar af rommi og vodka; áfengir drykkir að stofni til úr áðurgreindum áfengum vökvum og á viskíi, rommi, tafíu, gini og genever; fíkjukoníak; líkjörar og áfengisblöndur
35.01 Kasín, kasínöt og aðrar kasínafleiður; kasínlím:
10
-    Kasín
90
-    Annað:
úr 90
--        kasínöt og aðrar kasínafleiður
III. HLUTI
1. kafli Lifandi dýr
2. kafli Kjöt og ætir hlutar af dýrum:
úr 2. kafla
-    Annað en hvalkjöt (úr 0208.90)
4. kafli Mjólkurafurðir; fuglaegg; náttúrlegt hunang; ætar vörur úr dýraríkinu, ót.a.:
úr 4. kafla
-    Annað en vörur í nr. 04.03, bragðbætt eða með ávöxtum eða kakói
05.04 Þarmar, blöðrur og magar úr dýrum (þó ekki úr fiski), heilt og í stykkjum:
úr 05.04
-    Annað en eftirfarandi vörur: ætir þarmar, blöðrur og magar, heilt og í stykkjum, úr sauðfé, svínum og dýrum af nautgripaætt
05.11 Vörur úr dýraríkinu, ót.a.; dauð dýr í 1. eða 3. kafla, óhæf til manneldis
6. kafli Lifandi tré og aðrar plöntur; blómlaukar, rætur og þess háttar; afskorin blóm og lauf til skrauts
7. kafli Matjurtir og tilteknar rætur og hnýði:
úr 7. kafla
-    Aðrar en eftirfarandi vörur:
HS heading No. Description of goods
ex 10 --        Pressed yeast
21.05 Ice cream and other edible ice, whether or not containing cocoa:
ex 21.05 -    Ice cream containing fat but not containing cocoa
21.06 Food preparations not elsewhere specified or included:
90 -    Other:
ex 90 --        Fat emulsions and similar preparations containing more than 15% by weight of milkfats
22.04 Wine of fresh grapes, including fortified wines; grape must other than that of heading No. 20.09:
-    Other wine; grape must with fermentation prevented or arrested by the addition of alcohol:
21 --        In containers holding 2 l or less:
ex 21 ---            Unfermented grape juice or unfermented grape must, with added alcohol
29 --        Other:
ex 29 ---            Unfermented grape juice or unfermented grape must, with added alcohol
22.05 Vermouth and other wine of fresh grapes flavoured with plants or aromatic substances
22.08 Undenatured ethyl alcohol of an alcoholic strength by volume of less than 80% vol; spirits, liqueurs and other spirituous beverages; compound alcoholic preparations of a kind used for the manufacture of beverages:
20 -    Spirits obtained by distilling grape wine or grape marc:
ex 20 --        Spirits obtained by distilling grape marc
90 -    Other:
ex 90 --        Other than the following: spirits distilled from cereals; spirits distilled from molasses; aquavit, imitation rum and vodka; alcoholic beverages based on the foregoing spirits as well as on whisky, rum, tafia, gin and Geneva; fig brandy; liqueurs and cordials
35.01 Casein, caseinates and other casein derivatives; casein glues:
10 -    Casein
90 -    Other:
ex 90 --        Caseinates and other casein derivatives
PART III
Chapter 1 Live animals
Chapter 2 Meat and edible meat offal:
ex Ch. 2 -    Other than whale meat (ex 0208.90)
Chapter 4 Dairy produce; birds' eggs; natural honey; edible products of animal origin, not elsewhere specified or included:
ex Ch. 4 -    Other than products of heading No. 04.03, flavoured or containing added fruit or cocoa
05.04 Guts, bladders and stomachs of animals (other than fish), whole and pieces thereof:
ex 05.04 -    Other than the following products: edible guts, bladders and stomachs, whole and pieces thereof, of sheep, pigs and bovine animals
05.11 Animal products not elsewhere specified or included; dead animals of Chapter 1 or 3, unfit for human consumption
Chapter 6 Live trees and other plants; bulbs, roots and the like; cut flowers and ornamental foliage
Chapter 7 Edible vegetables and certain roots and tubers:
ex Ch. 7 -    Other than the following products:
ST-númer Vörulýsing
    (a)    hvítlaukur, nýr eða kældur (0703.20) eða þurrkaður hvítlaukur, heill, skorinn, sneiddur, mulinn eða steyttur í duft, en ekki frekar unninn (úr 0712.90)
    (b)    sykurmaís (Zea mays var. saccharata); (úr 0710.40 og úr 0711.90)
8. kafli Ætir ávextir og hnetur; hýði af sítrusávöxtum eða melónum
9. kafli Kaffi, te, maté og krydd
10. kafli Korn
11. kafli Malaðar vörur; malt; sterkja; inúlín; hveitiglúten
12. kafli Olíufræ og olíurík aldin; ýmiss konar sáðkorn, fræ og aldin; plöntur til notkunar í iðnaði og til lyfja; hálmur og fóður, þó ekki:
-    Fræ af barrtrjátegundum til sáningar (úr 1209.99);
-    Sjávargróður og aðrir þörungar (1212.20)
15.01 Hreinsuð svínafeiti (lard); önnur svína- og alifuglafeiti, brædd og skírð, einnig pressuð eða unnin með upplausn
15.02 Fita af dýrum af nautgripaætt, kindum eða geitum, hrá eða brædd og skírð, einnig pressuð eða unnin með upplausn
15.03 Svínafeitisterín, svínaolía, tólgarsterín, oleóolía og tólgarolía, ekki gert að fleyti eða unnið á annan hátt:
15.06 Önnur dýrafeiti og -olíur og þættir þeirra, einnig hreinsað en ekki efnafræðilega umbreytt:
úr 15.06
-    Önnur en feiti úr skönkum nautgripa, innflutt til tækninota
15.07 til 15.15 Órokgjörn jurtafeiti og -olía og þættir hennar, einnig hreinsað en ekki efnafræðilega umbreytt, að undanskildu eftirfarandi:
-    Olíur, útdregnar úr ólífuleifum með íðefnum, til tækninota (úr 15.10);
-    Jójóbaolía og þættir hennar (1515.60)
15.16 Feiti eða olíur úr dýra- eða jurtaríkinu og þættir þeirra, hert að fullu eða að hluta, víxlesterað, enduresterað eða elaídínerað, einnig hreinsað en ekki frekar unnið:
10
-    Dýrafeiti og -olíur og þættir þeirra:
úr 10
--        Aðrar en að fullu úr fiski og sjávarspendýrum
20
-    Jurtafeiti og -olíur og þættir þeirra:
úr 20
--        Aðrar en hertar kristpálmaolíur
15.17 Smjörlíki; blöndur eða framleiðsla til manneldis úr jurtafeiti eða -olíum eða þáttum úr mismunandi fitu eða olíum þessa kafla, þó ekki feiti eða olíur til manneldis eða þættir þeirra í nr. 15.16
15.18 Feiti eða olíur úr dýra- eða jurtaríkinu og þættir þeirra, soðið, oxað, vatnssneytt, brennisteinsborið, blásið, fjölliðað með hita í lofttómi eða í eðalgasi eða umbreytt með öðrum hætti, þó ekki það sem er í nr. 15.16; blöndur eða framleiðsla, ekki til manneldis, úr feiti eða olíum dýra- eða jurtaríkisins eða úr þáttum úr mismunandi feiti eða olíum þessa kafla, ót.a.:
úr 15.18
-    Blöndur eða framleiðsla, ekki til manneldis, úr feiti eða olíum dýra- eða jurtaríkisins eða úr þáttum úr mismunandi feiti eða olíum þessa kafla, aðrar en blöndur sem eru aðallega úr vörum í nr. 15.04
16.01 Pylsur og þess háttar vörur úr kjöti, hlutum af dýrum eða blóði; matvæli gerð aðallega úr þessum vörum
16.02 Annað kjöt, hlutar af dýrum eða blóð, unnið eða rotvarið
16.03 Kjarnar og safar úr kjöti, fiski eða krabbadýrum, lindýrum eða öðrum vatnahryggleysingjum:
úr 16.03
-    Þó ekki eftirtaldar vörur:
a)    Kjötkraftur (hvalaafurð);
HS heading No. Description of goods
    (a)    garlic, fresh or chilled (0703.20) or dried garlic, whole, cut, sliced, broken or in powder, but not further prepared (ex 0712.90)
    (b)    sweet corn (Zea mays var. saccharata); (ex 0710.40 and ex 0711.90)
Chapter 8 Edible fruit and nuts; peel of citrus fruit or melons
Chapter 9 Coffee, tea, maté and spices
Chapter 10 Cereals
Chapter 11 Products of the milling industry; malt; starches; inulin; wheat gluten
Chapter 12 Oil seeds and oleaginous fruits; miscellaneous grains, seeds and fruit; industrial or medicinal plants; straw and fodder, except:
-    Seeds of coniferous species of a kind used for sowing (ex 1209.99);
-    Seaweeds and other algae (1212.20)
15.01 Lard; other pig fat and poultry fat, rendered, whether or not pressed or solvent-extracted
15.02 Fats of bovine animals, sheep or goats, raw or rendered, whether or not pressed or solvent-extracted
15.03 Lard stearin, lard oil, oleostearin, oleo-oil and tallow oil, not emulsified or mixed or otherwise prepared
15.06 Other animal fats and oils and their fractions, whether or not refined, but not chemically modified:
ex 15.06 -    Other than neat's-foot oil imported for technical purposes
15.07 to 15.15 Fixed vegetable fats and oils and their fractions, whether or not refined, but not chemically modified, except the following:
-    Oils extracted from olive residues by means of chemicals for technical purposes (ex 15.10);
-    Jojoba oil and its fractions (1515.60)
15.16 Animal or vegetable fats and oils and their fractions, partly or wholly hydrogenated, inter-esterified, re-esterified or elaidinised, whether or not refined, but not further prepared:
10 -    Animal fats and oils and their fractions:
ex 10 --        Other than those wholly of fish and marine mammals
20 -    Vegetable fats and oils and their fractions:
ex 20 --        Other than hydrogenated castor oil
15.17 Margarine; edible mixtures or preparations of animal or vegetable fats or oils or of fractions of different fats or oils of this Chapter, other than edible fats or oils or their fractions of heading No. 15.16
15.18 Animal or vegetable fats and oils and their fractions, boiled, oxidised, dehydrated, sulphurised, blown, polymerised by heat in vacuum or in inert gas or otherwise chemically modified, excluding those of heading No. 15.16; inedible mixtures or preparations of animal or vegetable fats or oils or of fractions of different fats or oils of this Chapter, not elsewhere specified or included:
ex 15.18 -    Inedible mixtures or preparations of animal or vegetable fats or oils or of fractions of different fats or oils of this Chapter, other than mixtures with a basis of products of heading No. 15.04
16.01 Sausages and similar products, of meat, meat offal or blood; food preparations based on these products
16.02 Other prepared or preserved meat, meat offal or blood
16.03 Extracts and juices of meat, fish or crustaceans, molluscs or other aquatic invertebrates:
ex 16.03 -    Except the following products:
    (a)    Whale meat extracts;
ST-númer Vörulýsing
b)    Kjarnar og safar úr krabbadýrum, lindýrum eða öðrum vatnahryggleysingjum
c)    Safar úr fiski
17.01 Reyr- eða rófusykur og kemískt hreinn súkrósi, í föstu formi:
17.02 Annar sykur, þar með talinn kemískt hreinn laktósi, maltósi, glúkósi og frúktósi, í föstu formi; sykursíróp sem inniheldur hvorki bragðefni né litarefni; gervihunang, einnig blandað náttúrlegu hunangi; karamel:
10
-    Laktósi og laktósasíróp
20
-    Hlynsykur og hlynsíróp
30
-    Glúkósi og glúkósasíróp sem inniheldur ekki frúktósa eða inniheldur sem þurrefni minna en 20% af frúktósa miðað við þyngd
40
-    Glúkósi og glúkósasíróp sem innheldur sem þurrefni að minnsta kosti 20% en þó minna en 50% af frúktósa miðað við þyngd
60
-    Annar frúktósi og frúktósasíróp sem inniheldur sem þurrefni meira en 50% af frúktósa miðað við þyngd
90
-    Annað, þar með taldar einsykrur (invert sugar):
úr 90
--        Annað en kemískt hreinn maltsykur (maltósi)
17.03 Melassi unninn með kjörnun eða hreinsun sykurs
18.01 Kakóbaunir, heilar eða muldar, hráar eða brenndar
18.02 Kakóskurn, kakóhýði, kakóskæni og annar kakóúrgangur
19.02 Pasta, einnig soðin eða fyllt (með kjöti eða öðrum efnum) eða unnin á annan hátt, svo sem spaghettí, makkarónur, núðlur, lasagna, gnocchi, ravíólí, kannellóní; kúskús, einnig unnið:
20
-    Fyllt pasta, einnig soðin eða unnin á annan hátt:
úr 20
--        Sem inniheldur meira en 20% miðað við þyngd af pylsum, kjöti, hlutum af dýrum eða blóði eða blöndum af því
20.01 Matjurtir, ávextir, hnetur og aðrir plöntuhlutar til manneldis, unnið eða rotvarið með ediki eða ediksýru:
10
-    Gúrkur og reitagúrkur
20
-    Laukur
90
-    Annað:
úr 90
--        Annað en sykurmaís (Zea mays var. saccharata)
20.02 Tómatar, unnir eða rotvarðir á annan hátt en með ediki eða ediksýru:
10
-    Tómatar, heilir eða hlutaðir
90
-    Annað:
úr 90
--        Annað en maukaðir tómatar eða tómatmauk í loftþéttum umbúðum sem inniheldur sem þurrefni ekki minna en 25% tómata miðað við þyngd, eingöngu úr tómötum og vatni, með eða án salts eða annarra efna til rotvarnar eða bragðbætis
20.03 Sveppir og jarðsveppir, unnið eða rotvarið á annan hátt en með ediki eða ediksýru
20.04 Aðrar matjurtir, unnar eða rotvarðar á annan hátt en með ediki eða ediksýru, frystar
10
-    Kartöflur:
úr 10
--        Annað en fín- eða grófmalaðar eða flögur
90
-    Aðrar matjurtir og matjurtablöndur:
úr 90
--        Aðrar en sykurmaís (Zea mays var. saccharata)
20.05 Aðrar matjurtir, unnar eða rotvarðar á annan hátt en með ediki eða ediksýru, ófrystar:
10
-    Jafnblandaðar matjurtir
20
-    Kartöflur:
HS heading No. Description of goods
    (b)    Extracts and juices of crustaceans, molluscs and other aquatic invertebrates
    (c)    Juices of fish
17.01 Cane or beet sugar and chemically pure sucrose, in solid form
17.02 Other sugars, including chemically pure lactose, maltose, glucose and fructose, in solid form; sugar syrups not containing added flavouring or colouring matter; artifical honey, whether or not mixed with natural honey; caramel:
10 -    Lactose and lactose syrup
20 -    Maple sugar and maple syrup
30 -    Glucose and glucose syrup, not containing fructose or containing in the dry state less than 20% by weight of fructose
40 -    Glucose and glucose syrup, containing in the dry state at least 20% but less than 50% by weight of fructose
60 -    Other fructose and fructose syrup, containing in the dry state more than 50% by weight of fructose
90 -    Other, including invert sugar:
ex 90 --        Other than chemically pure maltose
17.03 Molasses resulting from the extraction or refining of sugar
18.01 Cocoa beans, whole or broken, raw or roasted
18.02 Cocoa shells, husks, skins and other cocoa waste
19.02 Pasta, whether or not cooked or stuffed (with meat or other substances) or otherwise prepared, such as spaghetti, macaroni, noodles, lasagne, gnocchi, ravioli, cannelloni; couscous, whether or not prepared:
20 -    Stuffed pasta, whether or not cooked or otherwise prepared:
ex 20 --        Containing more than 20% by weight of sausage, meat, meat offal or blood, or any combination thereof
20.01 Vegetables, fruit, nuts and other edible parts of plants, prepared or preserved by vinegar or acetic acid:
10 -    Cucumbers and gherkins
20 -    Onions
90 -    Other:
ex 90 --        Other than sweet corn (Zea mays var. saccharata)
20.02 Tomatoes prepared or preserved otherwise than by vinegar or acetic acid:
10 -    Tomatoes, whole or in pieces
90 -    Other:
ex 90 --        Other than tomato pulp or paste in airtight containers with a dry weight content of not less than 25% tomato, wholly of tomato and water, with or without salt or other preserving, seasoning or flavouring ingredients
20.03 Mushrooms and truffles, prepared or preserved otherwise than by vinegar or acetic acid
20.04 Other vegetables prepared or preserved otherwise than by vinegar or acetic acid, frozen:
10 -    Potatoes:
ex 10 --        Other than in the form of flour, meal or flakes
90 -    Other vegetables and mixtures of vegetables:
ex 90 --        Other than sweet corn (Zea mays var. saccharata)
20.05 Other vegetables prepared or preserved otherwise than by vinegar or acetic acid, not frozen:
10 -    Homogenised vegetables
20 -    Potatoes:
ST-númer Vörulýsing
úr 20
--        Annað en fín- eða grófmalaðar eða flögur
30
-    Súrkál
40
-    Ertur (Pisum sativum)
-    Belgaldin (Vigna spp., Phaseolus spp.):
51
--        Belgaldin, afhýdd
59
--        Annað
60
-    Sperglar
70
-    Ólífur
90
-    Aðrar matjurtir og matjurtablöndur
20.06 Ávextir, hnetur, ávaxtahýði og aðrir plöntuhlutar, rotvarið með sykri (gegndreypt, gljásykrað eða kristallað)
20.07 Sulta, ávaxtahlaup, mauk, ávaxta- eða hnetudeig, soðið, einnig með viðbættum sykri eða öðru sætuefni
20.08 Ávextir, hnetur og aðrir ætir plöntuhlutar, unnið eða rotvarið á annan hátt, einnig með viðbættum sykri eða öðru sætuefni eða áfengi, ót.a.:
-    Hnetur, jarðhnetur og önnur fræ, einnig blandað saman:
11
--        Jarðhnetur:
úr 11
---            Annað en hnetusmjör
19
--        Annað, þar með taldar blöndur:
úr 19
---            Annað en blöndur byggðar á sáðkorni
20
-    Ananas
30
-    Sítrusávextir
40
-    Perur
50
-    Apríkósur
60
-    Kirsuber
70
-    Ferskjur
80
-    Jarðarber
-    Annað, þar með talið blöndur, aðrar en í nr. 2008.19:
91
--        Pálmakjarni
92
--        Blöndur
99
--        Annað:
úr 99
---            Annað en maís (korn)
20.09 Ávaxtasafi (þar með talið þrúguþykkni) og matjurtasafi, ógerjaður og án viðbætts áfengis, einnig með viðbættum sykri eða öðru sætuefni
21.02 Ger (lifandi eða dautt); aðrar einfruma örverur, dauðar (þó ekki bóluefni í nr. 30.02); unnið bökunarduft:
20
-    Dautt ger; aðrar einfruma örverur, dauðar:
úr 20
--        Aðrar einfruma örverur, dauðar, til nota í skepnufóður
21.04 Súpur og seyði og framleiðsla í það; jafnblönduð samsett matvæli:
20
-    Jafnblönduð samsett matvæli:
úr 20
--        Með kjöti eða hlutum af dýrum
21.06 Matvæli, ót.a.:
90
-    Annað:
úr 90
--        Sykursíróp sem inniheldur bragðefni og litarefni
HS heading No. Description of goods
ex 20 --        Other than in the form of flour, meal or flakes
30 -    Sauerkraut
40 -    Peas (Pisum sativum)
-    Beans (Vigna spp., Phaseolus spp.):
51 --        Beans, shelled
59 --        Other
60 -    Asparagus
70 -    Olives
90 -    Other vegetables and mixtures of vegetables
20.06 Fruit, nuts, fruit-peel and other parts of plants, preserved by sugar (drained, glacé or crystallised)
20.07 Jams, fruit jellies, marmalades, fruit or nut purée and fruit or nut pastes, being cooked preparations, whether or not containing added sugar or other sweetening matter
20.08 Fruit, nuts and other edible parts of plants, otherwise prepared or preserved, whether or not containing added sugar or other sweetening matter or spirit, not elsewhere specified or included:
-    Nuts, ground-nuts and other seeds, whether or not mixed together:
11 --        Ground-nuts:
ex 11 --            Other than peanut butter
19 --        Other, including mixtures:
ex 19 ---            Other than preparations based on cereal seeds
20 -    Pineapples
30 -    Citrus fruit
40 -    Pears
50 -    Apricots
60 -    Cherries
70 -    Peaches
80 -    Strawberries
-    Other, including mixtures other than those of sub-heading No. 2008.19:
91 --        Palm hearts
92 --        Mixtures
99 --        Other:
ex 99 ---            Other than maize (corn)
20.09 Fruit juices (including grape must) and vegetable juices, unfermented and not containing added spirit, whether or not containing added sugar or other sweetening matter
21.02 Yeasts (active or inactive); other single-cell micro-organisms, dead (but not including vaccines of heading No. 30.02); prepared baking powders:
20 -    Inactive yeasts; other single-cell micro-organisms, dead:
ex 20 --        Other single-cell micro-organisms, dead, used in animal feeding
21.04 Soups and broths and preparations therefor; homogenised composite food preparations:
20 -    Homogenised composite food preparations:
ex 20 --        Containing meat or meat offal
21.06 Food preparations not elsewhere specified or included:
90 -    Other:
ex 90 --        Sugar syrups containing added flavouring and colouring matter
ST-númer Vörulýsing
22.04 Vín úr nýjum þrúgum, einnig vín blönduð vínanda; þrúguþykkni annað en í nr. 20.09:
10
-    Freyðivín
-    Annað vín; þrúguþykkni sem gerjun hefur verið hindruð eða stöðvuð í með íblöndun alkóhóls:
21
--        Í tveggja lítra umbúðum eða minni:
úr 21
---            Annað en ógerjaður þrúgusafi eða ógerjað þrúguþykkni, með viðbættu alkóhóli
29
--        Annað:
úr 29
---            Annað en ógerjaður þrúgusafi eða ógerjað þrúguþykkni, með viðbættu alkóhóli
30
-    Annað þrúguþykkni
22.06 Aðrar gerjaðar drykkjarvörur (t.d. eplavín, peruvín, mjöður)
22.08 Ómengað etylalkóhól að alkóhólstyrkleika minni en 80% miðað við rúmmál; áfengir vökvar, líkjörar og aðrar áfengar drykkjarvörur; samsettar alkóhólblöndur til nota við framleiðslu á drykkjarvörum:
90
-    Annað:
úr 90
--        Ómengað etylalkóhól að alkóhólstyrkleika minna en 80% miðað við rúmmál
22.09 Edik og edikslíki fengið úr ediksýru
23.02 Klíð, hrat og aðrar leifar, einnig í kögglum, sem fellur til við sáldun, mölun eða vinnslu korns eða belgjurta
23.03 Leifar frá sterkjugerð og áþekkar leifar, rófudeig, bagasse og annar úrgangur frá sykurframleiðslu, hrosti og úrgangur frá bruggun eða eimingu, einnig í kögglum
23.04 Olíukökur og aðrar fastar leifar, einnig muldar eða í kögglum, frá kjörnun sojabaunaolíu
23.05 Olíukökur og aðrar fastar leifar, einnig muldar eða í kögglum, frá kjörnun jarðhnetuolíu
23.06 Olíukökur og aðrar fastar leifar, einnig muldar eða í kögglum, frá kjörnun jurtafeiti eða jurtaolíu, þó ekki í nr. 23.04 eða 23.05
23.08 Jurtaefni og jurtaúrgangur, jurtaleifar og aukaafurðir, einnig í kögglum, sem notað er til dýraeldis, ót.a.
23.09 Framleiðsla til dýraeldis:
10
-    Hunda- og kattafóður í smásöluumbúðum
90
-    Annað:
úr 90
--        Annað en fiskisoðkjarni
24.01 Óunnið tóbak; tóbaksúrgangur

HS heading No. Description of goods
22.04 Wine of fresh grapes, including fortified wines; grape must other than that of heading No. 20.09:
10 -    Sparkling wine
-    Other wine; grape must with fermentation prevented or arrested by the addition of alcohol:
21 --        In containers holding 2 l or less:
ex 21 ---            Other than unfermented grape juice or unfermented grape must, with added alcohol
29 --        Other:
ex 29 ---            Other than unfermented grape juice or unfermented grape must, with added alcohol
30 -    Other grape must
22.06 Other fermented beverages (for example, cider, perry, mead)
22.08 Undenatured ethyl alcohol of an alcoholic strength by volume of less than 80% vol.; spirits, liqueurs and other spirituous beverages; compound alcoholic preparations of a kind used for the manufacture of beverages:
90 -    Other:
ex 90 --        Undenatured ethyl alcohol of an alcoholic strength by volume of less than 80% vol.
22.09 Vinegar and substitutes for vinegar obtained from acetic acid
23.02 Bran, sharps and other residues, whether or not in the form of pellets, derived from the sifting, milling or other working of cereals or of leguminous plants
23.03 Residues of starch manufacture and similar residues, beet-pulp, bagasse and other waste of sugar manufacture, brewing or distilling dregs and waste, whether or not in the form of pellets
23.04 Oil-cake and other solid residues, whether or not ground or in the form of pellets, resulting from the extraction of soya-bean oil
23.05 Oil-cake and other solid residues, whether or not ground or in the form of pellets, resulting from the extraction of ground-nut oil
23.06 Oil-cake and other solid residues, whether or not ground or in the form of pellets, resulting from the extraction of vegetable fats or oils, other than those of heading No. 23.04 or 23.05
23.08 Vegetable materials and vegetable waste, vegetable residues and by-products, whether or not in the form of pellets, of a kind used in animal feeding, not elsewhere specified or included
23.09 Preparations of a kind used in animal feeding:
10 -    Dog or cat food, put up for retail sale
90 -    Other:
ex 90 --        Other than fish solubles
24.01 Unmanufactured tobacco; tobacco refuse

VIÐAUKI D

Skrá yfir tollaívilnanir á landbúnaðarvörum



Tafla 1

Ívilnanir af hálfu Íslands


Íslenskt tollskrárnúmer
Vörulýsing Gjaldskrá EFTA
Gildandi bestu kjör Ívilnun
úr 1106. Mjöl, fín- eða grófmalað, og duft úr þurrkuðum belgávöxtum í nr. 0713, úr sagó eða rótum eða hnýðum í nr. 0714 eða úr vörum í 8. kafla:
3000 - Úr vörum í 8. kafla 0 Tollfrjálst
2008. Ávextir, hnetur og aðrir ætir plöntuhlutar, unnið eða rotvarið á annan hátt, einnig með viðbættum sykri eða öðru sætiefni eða áfengi, ót.a.:
0 Tollfrjálst
2009. Ávaxtasafi (þar með talið þrúguþykkni) og matjurtasafi, ógerjaður og án viðbætts áfengis, einnig með viðbættum sykri eða öðru sætiefni: 20% Tollfrjálst
úr 2309. Framleiðsla til dýraeldis: Tollfrjálst
1000 - Hunda- og kattafóður í smásöluumbúðum 0 Tollfrjálst
9003 -- Fóðursölt, snefilefni, bætiefni, steinefnablöndur o.þ.h., tilreitt sem skepnufóður 0 Tollfrjálst


Tafla 2

Ívilnanir af hálfu Noregs


ST-númer Vörulýsing Bestu kjör
(2000)
EFTA
úr 02.03 Svínakjöt, nýtt, kælt eða fryst
- Nýtt eða kælt:
0203.11.00 -- Skrokkar og hálfir skrokkar 24,64 23,64
- Fryst:
0203.21.00 -- Skrokkar og hálfir skrokkar 24,64 23,64
04.05 Smjör og önnur fita og olía fengið úr mjólk; mjólkurviðbit
0405.10.00 - Smjör 25,19 22,39
0405.20.00 - Mjólkurviðbit 25,19 22,39
0405.90.00 - Annað 25,19 22,39
04.06 Ostur og ystingur 28,24/
28,04/
27,15/
24,68
Tollfrjálst 1

ANNEX D

List of tariff concessions on agricultural products



Table 1

Concessions by Iceland


Iceland Customs Tariff Heading No. Description of products Tariff for EFTA
MFN applied Con-cession
ex1106. Flour, meal and powder of the dried leguminous vegetables of heading No. 0713, of sago or of roots or tubers of heading No. 0714 or of the products of Chapter 8:
3000 - Of the products of Chapter 8 0 Free
2008. Fruit, nuts and other edible parts of plants, otherwise prepared or preserved, whether or not containing added sugar or other sweetening matter or spirit, not elsewhere specified or included: 0 Free
2009. Fruit juices (including grape must) and vegetable juices, unfermented and not containing added spirit, whether or not containing added sugar or other sweetening matter: 20% Free
ex2309. Preparations of a kind used in animal feeding: Free
1000 - Dog or cat food, put up for retail sale 0 Free
9003 -- Premixes prepared for animal feeding
0 Free


Table 2

Concessions by Norway


HS-no. Description of products MFN
(2000)
EFTA
ex 02.03 Meat of swine, fresh, chilled or frozen.
- Fresh or chilled:
0203.11.00 -- Carcasses and half-carcasses 24,64 23,64
- Frozen:
0203.21.00 -- Carcasses and half-carcasses 24,64 23,64
04.05 Butter and other fats and oils derived from milk; dairy spreads.
0405.10.00 - Butter 25,19 22,39
0405.20.00 - Dairy spreads 25,19 22,39
0405.90.00 - Other 25,19 22,39
04.06 Cheese and curd. 28,24/
28,04/
27,15/
24,68
Free 1
ST-númer Vörulýsing Bestu kjör
(2000)
EFTA
úr 04.07 Fuglsegg, í skurn, ný, rotvarin eða soðin
0407.00 - Hænuegg:
0407.00.11 -- Til útungunar 272% 229%
0407.00.19 -- Annað 12,59 10,59
úr 05.11 Vörur úr dýraríkinu, ót.a.; dauð dýr í 1. eða 3. kafla, óhæf til manneldis:
- Annað:
0511.99 -- Annað:
--- Blóðduft, óhæft til manneldis:
0511.99.11 ---- Til fóðurs og fóðurgerðar 3,53 2,33
0511.99.21 ---- Annað 0,36 Tollfrjálst
06.04 Lauf, greinar og aðrir plöntuhlutar, án blóma eða blómknappa og grös, mosi og skófir, sem notað er í vendi eða til skrauts, nýtt, þurrkað, litað, bleikt, gegndreypt eða unnið á annan hátt:
0604.10.00 - Mosi og skófir 1,2% Tollfrjálst
- Annað:
0604.91 -- Nýtt:
0604.91.10 --- Venushár (Adianthum) og Aspars, á tímabilinu 1. júní til 31. október 67% 66,9%
--- Annað:
0604.91.91 ---- Venushár (Adianthum) og Aspars, á tímabilinu 1. nóvember til 31. maí 0,12 Tollfrjálst
0604.91.92 ---- Jólatré 0,12 Tollfrjálst
0604.91.99 ---- Annað 0,12 Tollfrjálst
0604.99.00 -- Annað 3,9% Tollfrjálst
úr 07.02 Tómatar, nýir eða kældir
0702.00.30 - á tímabilinu 11. júlí til 14. október 8,86 7,86
0702.00.40 - á tímabilinu 15. október til 31. október 1,60 0,60
úr 07.03 Laukur, skalottlaukur, hvítlaukur, blaðlaukur og aðrar skyldar matjurtir, nýjar eða kældar
0703.20.00 - Hvítlaukur 0,03 Tollfrjálst
úr 07.05 Salat (Lactuca sativa) og síkoría (Cichorium spp.), nýtt eða kælt
- Salat:
úr 0705.11 -- Salat, kálhausar (head lettuce):
--- Jöklasalat:
0705.11.30 ---- á tímabilinu 1. desember til 28./29. febrúar Tollfrjálst Tollfrjálst
úr 07.06 Gulrætur, næpur, rauðrófur, hafursrót, seljurót, radísur og áþekkar ætar rætur, nýjar eða kældar
úr 0706.10 - Gulrætur og næpur:
0706.10.11 -- Gulrætur á tímabilinu 1. maí til 31. ágúst 2,61 2,53
0706.10.21 -- Gulrætur á tímabilinu 1. september til 30. apríl 1,15 1,07
úr 07.07 Gúrkur og reitagúrkur, nýjar eða kældar
- Slöngugúrkur:
0707.00.20 -- Á tímabilinu 1. nóvember til 30. nóvember 0,60 Tollfrjálst
0707.00.30 -- Á tímabilinu 1. desember til 9. mars Tollfrjálst Tollfrjálst
úr 07.09 Aðrar matjurtir, nýjar eða kældar:
HS-no. Description of products MFN
(2000)
EFTA
ex 04.07 Birds' eggs in shell, fresh preserved or cooked.
0407.00 - Hens' eggs:
0407.00.11 -- For hatching 272% 229%
0407.00.19 -- Other 12,59 10,59
ex 05.11 Animal products not elsewhere specified or included; Dead animals of chapter 1 or 3, unfit for human consumption.
- Other:
0511.99 -- Other:
--- Blood powder, unfit for human consumption:
0511.99.11 ---- For feed purpose 3,53 2,33
0511.99.21 ---- Other 0,36 Free
06.04 Foliage, branches and other parts of plants, without flowers or flower buds, and grasses, mosses and lichens, being goods of a kind suitable for bouquets or for ornamental purposes, fresh, dried, dyed, bleached, impregnated or otherwise prepared.
0604.10.00 - Mosses and lichens 1,2% Free
- Other:
0604.91 -- Fresh:
0604.91.10 --- Maidenhair fern (Adianthum) and Asparagus from 1 June to 31 October 67% 66,9%
--- Other:
0604.91.91 ---- Maidenhair fern (Adianthum) and Asparagus from 1 November to 31 May 0,12 Free
0604.91.92 ---- Christmas trees 0,12 Free
0604.91.99 ---- Other 0,12 Free
0604.99.00 -- Other 3,9% Free
ex 07.02 Tomatoes, fresh or chilled.
0702.00.30 - From 11 July to 14 October 8,86 7,86
0702.00.40 - From 15 October to 31 October 1,60 0,60
ex 07.03 Onions, shallots, garlic, leeks and other alliaceous vegetables, fresh or chilled.
0703.20.00 - Garlic 0,03 Free
ex 07.05 Lettuce (Lactuca sativa) and chicory (Cichorium spp.), fresh or chilled.
- Lettuce:
ex 0705.11 -- Cabbage lettuce (head lettuce):
--- Iceberg lettuce:
0705.11.30 ---- From 1 December to 28/29 February Free Free
ex 07.06 Carrots, turnips, salad beetroot, salsify, celeriac, radishes and similar edible roots, fresh or chilled.
ex 0706.10 - Carrots and turnips:
0706.10.11 -- Carrots from 1 May to 31 August 2,61 2,53
0706.10.21 -- Carrots from 1 September to 30 April 1,15 1,07
ex 07.07 Cucumbers and gherkins, fresh or chilled.
- Snake cucumbers:
0707.00.20 -- From 1 November to 30 November 0,60 Free
0707.00.30 -- From 1 December to 9 March Free Free
ex 07.09 Other vegetables, fresh or chilled.
ST-númer Vörulýsing Bestu kjör
(2000)
EFTA
- Sveppir og tröfflur:
0709.51 -- Sveppir:
0709.51.10 --- Ræktaðir ætisveppir 0,30 Tollfrjálst
úr 08.04 Döðlur, fíkjur, ananas, lárperur (avocado), guavaber, mangóaldin og mangóstínaldin, nýtt eða þurrkað:
úr 0804.20 - Fíkjur:
0804.20.90 -- Annað (annað en nýtt) 0,01 Tollfrjálst
úr 08.09 Apríkósur, kirsuber, ferskjur (þar með taldar nektarínur), plómur og þyrniplómur, nýtt:
0809.30 - Ferskjur, þar með taldar nektarínur
-- Ferskjur:
0809.30.10 --- Á tímabilinu 16. maí til 15. ágúst 0,12 Tollfrjálst
0809.30.20 --- Á tímabilinu 16. ágúst til 15. maí 0,24 Tollfrjálst
-- Nektarínur:
0809.30.30 --- Á tímabilinu 16. maí til 15. ágúst 0,12 Tollfrjálst
0809.30.90 --- Á tímabilinu 16. ágúst til 15. maí 0,24 Tollfrjálst
úr 08.10 Aðrir ávextir, nýir:
0810.10 - Jarðarber:
0810.10.11 -- Á tímabilinu 15. apríl til 8. júní 0,18 Tollfrjálst
-- Á tímabilinu 9. júní til 31. október
0810.10.23 --- Á tímabilinu 9. júní til 30. júní 7,21 6,91
0810.10.24 --- Á tímabilinu 1. júlí til 9. september 7,21 6,01
0810.10.25 --- Á tímabilinu 10. september til 31. október 1.92 0,72
0810.10.30 -- Á tímabilinu 1. nóvember til 31. mars 0,36 Tollfrjálst
0810.10.40 -- Á tímabilinu 1. apríl til 14. apríl 0,36 Tollfrjálst
0810.50.00 - Kiví 0,06 Tollfrjálst
úr 11.06 Mjöl, fín- eða grófmalað, og duft úr þurrkuðum belgávöxtum í nr. 0713, úr sagó eða rótum eða hnýðum í nr. 0714 eða úr vörum í 8. kafla
úr 1106.30 - Úr vörum í 8. kafla:
1106.30.90 -- Annað (annað en til fóðurs og fóðurgerðar) 0,04 Tollfrjálst
úr 12.09 Fræ, aldin og sporar til sáningar
- Rófufræ:
1209.11.00 -- Sykurrófufræ: 0,72 Tollfrjálst
úr 1209.19 -- Annað:
1209.19.02 --- Beðjufræ 29,06 28,46
1209.19.09 --- Annað (annað en næpu- og fóðurnæpufræ) 29,06 26,66
- Fóðurplöntufræ, þó ekki rófufræ
úr 1209.22 -- Smárafræ (Trifolium spp.):
1209.22.09 --- Annað (annað en rauðsmárafræ) 29,06 28,26
1209.23.00 -- Túnvingulfræ: 17,68 17,28
1209.24.00 -- Vallarsveifgrasfræ (Poa pratensis L.): 29,06 28,46
1209.25.00 -- Rýgrasfræ (Lolium multiflorum Lam., Lolium perenne L.) 29,06 28,46
úr 1209.29 -- Annað:
1209.29.10 --- Língresisfræ (Agrostis) 29,06 28,46
1209.29.20 ---Fræ af axhnoðapunti, sveifgrasi og skrauthala
14,81 14,41
- Annað:
HS-no. Description of products MFN
(2000)
EFTA
- Mushrooms and truffles:
0709.51 -- Mushrooms:
0709.51.10 --- Cultivated mushrooms (champignons) 0,30 Free
ex 08.04 Dates, figs, pineapples, avocados, guavas, mangoes and mangosteens, fresh or dried.
ex 0804.20 - Figs:
0804.20.90 -- Other (other than fresh) 0,01 Free
ex 08.09 Apricots, cherries, peaches (including nectarines), plums and sloes, fresh.
0809.30 - Peaches, including nectarines:
-- Peaches:
0809.30.10 --- From 16 May to 15 August 0,12 Free
0809.30.20 --- From 16 August to 15 May 0,24 Free
-- Nectarines:
0809.30.30 --- From 16 May to 15 August 0,12 Free
0809.30.90 --- From 16 August to 15 May 0,24 Free
ex 08.10 Other fruit, fresh.
0810.10 - Strawberries:
0810.10.11 -- From 15 April to 8 June 0,18 Free
-- From 9 June to 31 October:
0810.10.23 --- From 9 June to 30 June 7,21 6,91
0810.10.24 --- From 1 July to 9 September 7,21 6,01
0810.10.25 --- From 10 September to 31 October 1.92 0,72
0810.10.30 -- From 1 November to 31 March 0,36 Free
0810.10.40 -- From 1 April to 14 April 0,36 Free
0810.50.00 - Kiwi 0,06 Free
ex 11.06 Flour, meal and powder of the dried leguminous vegetables of heading No.07.13, of sago or of roots or tubers of heading No.07.14 or of the products of Chapter 8.
ex 1106.30 - Of the products of Chapter 8:
1106.30.90 -- Other (other than for feed purpose) 0,04 Free
ex 12.09 Seeds, fruit and spores, of a kind used for sowing.
- Beet seed:
1209.11.00 -- Sugar beet seed 0,72 Free
ex 1209.19 -- Other:
1209.19.02 --- Mangolds seed 29,06 28,46
1209.19.09 --- Other (other than seeds of turnips and swedes) 29,06 26,66
- Seeds of forage plants, other than beet seed:
ex 1209.22 -- Clover (Trifolium spp.) seed:
1209.22.09 --- Other (other than red clover seed) 29,06 28,26
1209.23.00 -- Fescue seed 17,68 17,28
1209.24.00 -- Kentucky blue grass (Poa pratensis L.) seed 29,06 28,46
1209.25.00 -- Rye grass (Lolium multiflorum Lam., Lolium perenne L.) seed 29,06 28,46
ex 1209.29 -- Other:
1209.29.10 --- Bent grass (agrostis) seed 29,06 28,46
1209.29.20 --- Orchard grass or “Cocks' foot”, meadow grass and fox-tail grass seed 14,81 14,41
- Other:
ST-númer Vörulýsing Bestu kjör
(2000)
EFTA
úr 1209.91 -- Matjurtafræ:
1209.91.10 --- Gúrku-, blómkáls-, gulróta-, lauk-, skallotlauks-, blaðlauks-, steinselju-, vetrarsalats- og salatfræ 0,18 Tollfrjálst
1209.91.99 --- Annað (annað en hvítkálsfræ) 0,72 Tollfrjálst
úr 15.01 Svínafeiti (þar með talin hreinsuð svínafeiti (Lard)) og alifuglafeiti, þó ekki vörur í nr. 02.09 eða 15.03:
1501.00.01 - Hreinsuð svínafeiti (til tækninota) 8,64 8,44
1501.00.09 - Annað (til tækninota) 8,64 8,56
úr 15.02 Fita af dýrum af nautgripaætt, kindum eða geitum, þó ekki vörur í nr. 15.03
- Annað (annað en til fóðurs og fóðurgerðar):
1502.00.20 -- Tólg 0,01 Tollfrjálst
1502.00.99 -- Annað 0,05 Tollfrjálst
15.05 Ullarfeiti og feitiefni unnin úr henni (þar með talið lanólín)
1505.10.00 - Ullarfeiti, hrá 0,02 Tollfrjálst
1505.90.00 - Annað 0,02 Tollfrjálst
úr 15.06 Önnur dýrafeiti og -olíur og þættir þeirra, einnig hreinsað en ekki efnafræðilega umbreytt
- Annað (annað en til fóðurs og fóðurgerðar):
1506.00.21 -- Beinafeiti, beinaolía og feiti úr skönkum nautgripa 0,05 Tollfrjálst
-- Annað:
1506.00.30 --- Þættir í föstu formi 5,1% Tollfrjálst
úr 15.18 Feiti eða olíur úr dýra- eða jurtaríkinu og þættir þeirra, soðið, oxað, vatnssneytt, brennisteinsborið, blásið, fjölliðað með hita í lofttómi eða í eðalgasi eða umbreytt með öðrum hætti, þó ekki það sem er í nr. 15.16; blöndur eða framleiðsla, ekki til manneldis úr feiti eða olíum dýra- eða jurtaríkisins eða úr þáttum úr mismunandi feiti eða olíum þessa kafla, ót.a.

1518.0011 - Þornandi olía og soðin línolía, til fóðurs og fóðurgerðar 3,91 3,63
- Annað
1518.0031 -- Þornandi olíur 0,08 Tollfrjálst
1518.0041 -- Línolía, soðin 0,07 Tollfrjálst
úr 20.01 Matjurtir, ávextir, hnetur og aðrir plöntuhlutar til manneldis, unnið eða rotvarið með ediki eða ediksýru
úr 2001.90 - Annað:
-- Matjurtir:
2001.90.10 --- Kapar 0,60 Tollfrjálst
2001.90.20 --- Ólífur 0,30 Tollfrjálst
úr 20.02 Tómatar, unnir eða rotvarðir á annan hátt en með ediki eða ediksýru:
úr 2002.10 - Tómatar, heilir eða hlutaðir
2002.10.01 -- Í loftþéttum umbúðum 1,50 0,80
úr 20.05 Aðrar matjurtir, unnar eða rotvarðar á annan hátt en með ediki eða ediksýru, ófrystar, þó ekki vörur í nr. 20.06
2005.70.00 - Ólífur 0,60 Tollfrjálst
HS-no. Description of products MFN
(2000)
EFTA
ex 1209.91 -- Vegetable seeds:
1209.91.10 --- Cucumber, cauliflower, carrot, onion, shallot, leek, parsley, endive and lettuce seed 0,18 Free
1209.91.99 --- Other (other than cabbage seed) 0,72 Free
ex 15.01 Pig fat (including lard) and poultry fat, other than that of heading No.02.09 or 15.03.
1501.00.01 - Lard (for technical purpose) 8,64 8,44
1501.00.09 - Other (for technical purpose) 8,64 8,56
ex 15.02 Fats of bovine animals, sheep or goats, other than those of heading No.15.03.
- Other (other than for feed purpose):
1502.00.20 -- Tallow 0,01 Free
1502.00.99 -- Other 0,05 Free
15.05 Wool grease and fatty substances derived therefrom (including lanolin).
1505.10.00 - Wool grease, crude 0,02 Free
1505.90.00 - Other 0,02 Free
ex 15.06 Other animal fats and oils and their fractions, whether or not refined, but not chemically modified.
- Other (other than for feed purpose):
1506.00.21 -- Bone fat, bone oil and neat's-foot oil 0,05 Free
-- Other:
1506.00.30 --- Solid fractions 5,1% Free
ex 15.18 Animal or vegetable fats and oils and their fractions, boiled, oxidised, dehydrated, sulphurised, blown, polymerised by heat in vacuum or in inert gas or otherwise chemically modified, excluding those of heading No. 15.16; inedible mixtures or preparations of animal of vegetable fats or oils or of fractions of different fats or oils of this Chapter, not elsewhere specified or included.
1518.0011 - Siccative oils and boiled linseed oil, for feed purpose 3,91 3,63
- Other
1518.0031 -- Siccative oils 0,08 Free
1518.0041 -- Linseed oil, boiled 0,07 Free
ex 20.01 Vegetables, fruit, nuts and other edible parts of plants, prepared or preserved by vinegar or acetic acid.
ex 2001.90 - Other:
-- Vegetables:
2001.90.10 --- Capers 0,60 Free
2001.90.20 --- Olives 0,30 Free
ex 20.02 Tomatoes prepared or preserved otherwise than by vinegar or acetic acid.
ex 2002.10 - Tomatoes, whole or in pieces:
2002.10.01 -- In airtight containers 1,50 0,80
ex 20.05 Other vegetables prepared or preserved otherwise than by vinegar or acetic acid, not frozen, other than products of heading No. 20.06.
2005.70.00 - Olives 0,60 Free
ST-númer Vörulýsing Bestu kjör
(2000)
EFTA
úr 20.08 Ávextir, hnetur og aðrir ætir plöntuhlutar, unnið eða rotvarið á annan hátt, einnig með viðbættum sykri eða öðru sætiefni eða áfengi, ót.a.
2008.40.00 - Perur 0,30 Tollfrjálst
- Annað, þar með talið blöndur, aðrar en í nr. 2008.19:
úr 2008.99 -- Annað:
2008.99.02 --- Plómur 0,64 Tollfrjálst
úr 20.09 Ávaxtasafi (þar með talið þrúguþykkni) og matjurtasafi, ógerjaður og án viðbætts áfengis, einnig með viðbættum sykri eða öðru sætiefni
2009.30 - Safi úr hvers konar öðrum sítrusávöxtum
2009.30.10 -- í 3 kg umbúðum eða stærri (með innihaldi) Tollfrjálst Tollfrjálst
-- Annað:
2009.30.91 --- Með viðbættum sykri 0,15 Tollfrjálst
2009.30.99 --- Annað 0,15 Tollfrjálst
úr 21.01 Kjarni, kraftur og seyði úr kaffi, tei eða maté og framleiðsla að stofni til úr þessum vörum eða að stofni til úr kaffi, tei eða maté; brenndar síkóríurætur og annað brennt kaffilíki, og kjarni, kraftur og seyði úr þeim
- Kjarni, kraftur og seyði úr kaffi og framleiðsla að stofni til úr þessum kjarna, krafti eða seyði eða að stofni til úr kaffi
úr 2101.12 -- Framleiðsla að stofni til úr kjarna, krafti eða seyði úr kaffi eða að stofni til úr kaffi
2101.12.02 --- Framleiðsla að stofni til úr kaffi 3% Tollfrjálst
2101.12.09 --- Annað (annað en það sem inniheldur ekki mjólkurfitu, mjólkurprótein, sykur eða sterkju eða sem inniheldur minna en 1,5% af mjólkurfitu, 2,5% eða minna af mjólkurpróteíni, 5% eða minna af sykri eða 5% af sterkju miðað við þyngd) 3% Tollfrjálst
úr 2101.20 - Kjarni, kraftur og seyði úr tei eða maté, og framleiðsla að stofni til úr þessum kjarna, krafti eða seyði eða að stofni til úr tei eða maté:
2101.20.10 -- Kjarni, kraftur og seyði úr tei Tollfrjálst Tollfrjálst
2101.20.91 -- Framleiðsla að stofni til úr tei eða maté 3% Tollfrjálst
-- Annað:
2101.20.99 --- Annað (annað en það sem inniheldur ekki mjólkurfitu, mjólkurprótein, sykur eða sterkju eða sem inniheldur minna en 1,5% af mjólkurfitu, 2,5% eða minna af mjólkurpróteíni, 5% eða minna af sykri eða 5% af sterkju miðað við þyngd) 3% Tollfrjálst
úr 23.09 Framleiðsla til dýraeldis
2309.10 - Hunda- og kattafóður í smásöluumbúðum:
-- Með kjöti af eða hlutum af landdýrum, í loftþéttum umbúðum
2309.10.11 --- Hundafóður 0,42 Tollfrjálst
2309.10.12 --- Kattafóður 0,42 Tollfrjálst
-- Annað:
2309.10.91 --- Hundafóður Tollfrjálst Tollfrjálst
2309.10.99 --- Kattafóður Tollfrjálst Tollfrjálst
úr 2309.10 - Annað
HS-no. Description of products MFN
(2000)
EFTA
ex 20.08 Fruit, nuts and other edible parts of plants, otherwise prepared or preserved, whether or not containing added sugar or other sweetening matter or spirit, not elsewhere specified or included.
2008.40.00 - Pears 0,30 Free
- Other, including mixtures other than those of subheading No. 2008.19:
ex 2008.99 -- Other:
2008.99.02 --- Plums 0,64 Free
ex 20.09 Fruit juices (including grape must) and vegetable juices, unfermented and not containing added spirit, whether or not containing added sugar or other sweetening matter.
2009.30 - Juice of any other single citrus fruit:
2009.30.10 -- In containers weighing, with contents, 3 kg or more Free Free
-- Other:
2009.30.91 --- Containg added sugar 0,15 Free
2009.30.99 --- Other 0,15 Free
ex 21.01 Extracts, essences and concentrates, of coffee, tea or maté and preparations with a basis of these products or with a basis of coffee, tea or mate; roasted chicory and other roasted coffee substitutes, and extracts, essences and concentrates thereof.
- Extracts, essences and concentrates, of coffee, and preparations with a basis of these extracts, essences or concentrates or with a basis of coffee:
ex 2101.12 -- Preparations with a basis of extracts, essences or concentrates or with a basis of coffee
2101.12.02 --- Preparations with a basis of coffee 3% Free
2101.12.09 --- Other (other than not containing milkfat, milk protein, sugar or starch, or containing less than 1,5 % by weight of milk fat, 2,5 % by weight of milk protein, 5 % by weight of sugar or 5 % by weight of starch) 3% Free
ex 2101.20 - Extracts, essences and concentrates of tea or maté, and preparations with a basis of these extracts, essences or concentrates or with a basis of tea or maté:
2101.20.10 -- Extracts, essences and concentrates of tea Free Free
2101.20.91 -- Preparations with a basis of tea or maté 3% Free
-- Other:
2101.20.99 --- Other (other than not containing milkfat, milk protein, sugar or starch, or containing less than 1,5 % by weight of milk fat, 2,5 % by weight of milk protein, 5 % by weight of sugar or 5 % by weight of starch) 3% Free
ex 23.09 Preparations of a kind used in animal feeding.
2309.10 - Dog or cat food, put up for retail sale:
-- Containing meat or meat offal of land animals, in airtight containers:
2309.10.11 --- Dog food 0,42 Free
2309.10.12 --- Cat food 0,42 Free
-- Other:
2309.10.91 --- Dog food Free Free
2309.10.99 --- Cat food Free Free
ex 2309.10 - Other:
ST-númer Vörulýsing Bestu kjör
(2000)
EFTA
-- Annað (annað en með kjöti af eða hlutum af landdýrum, í loftþéttum umbúðum)
--- Fiskafóður:
2309.9030 ---- Fyrir skrautfiska Tollfrjálst Tollfrjálst
--- Fuglafóður:
2309.9050 ---- Fyrir gæludýr Tollfrjálst Tollfrjálst
--- Annað:
2309.90.80 ---- Fyrir gæludýr Tollfrjálst Tollfrjálst


Tafla 3

Ívilnanir af hálfu Liechtenstein 1 /Sviss


Svissneskt tollskrár-
númer
Vörulýsing Tollur
Svissn. frankar / 100 kg brúttó
Gildandi bestu kjör Ívilnun
0101. Lifandi hestar, asnar, múlasnar og múldýr:
- Hestar:
-- Hreinræktuð dýr til undaneldis:
11 10 --- Flutt inn innan marka innflutningskvóta (Kv. nr. 1) 120.- Tollfrjálst
-- Annað:
--- Til slátrunar:
19 11 ---- Flutt inn innan marka innflutningskvóta (Kv. nr. 5) 90.- Bestu kjör mínus 10.-
--- Annað:
19 91 ---- Flutt inn innan marka innflutningskvóta (Kv. nr. 1) 120.- Tollfrjálst
0106. Önnur lifandi dýr:
00 90 - Annað :
úr 00 90 - Loðdýr Tollfrjálst Tollfrjálst
0204. Kinda-eða geitakjöt, nýtt, kælt eða fryst:
- Lambaskrokkar, heilir og hálfir, nýir eða kældir
10 10 -- Flutt inn innan marka innflutningskvóta (Kv. nr. 5) 30.- Bestu kjör mínus 10.-
- Annað kindakjöt, nýtt eða kælt:
-- Sneitt á annan hátt, með beini:
22 10 --- Flutt inn innan marka innflutningskvóta (Kv. nr. 5) 30.- Bestu kjör mínus 10.-
-- Beinlaust:
HS-no. Description of products MFN
(2000)
EFTA
-- Other (other than containing meat or meat offal of land animals, in airtight containers)
--- Fish fodder:
2309.9030 ---- For ornamental fish Free Free
--- Birds food:
2309.9050 ---- For pets Free Free
--- Other:
2309.90.80 ---- For pets Free Free


Table 3

Concessions by Liechtenstein 1 /Switzerland


Swiss Customs Tariff Heading No. Description of products Rate of Duty
Swiss Francs / 100 kg gross
MFN
applied
Con-cession
0101. Live horses, asses, mules and hinnies:
- Horses:
-- Pure-bred breeding animals:
11 10 --- Imported within the limits of the tariff quota (Q. No. 1) 120.- Free
-- Other:
--- For slaughter:
19 11 ---- Imported within the limits of the tariff quota (Q.No. 5) 90.- MFN minus 10.-
--- Other:
19 91 ---- Imported within the limits of the tariff quota (Q. No. 1) 120.- Free
0106. Other live animals:
00 90 - Other :
ex 00 90 - Fur-bearing animals Free Free
0204. Meat of sheep or goats, fresh, chilled or frozen:
- Carcasses and half-carcasses of lamb, fresh or chilled:
10 10 -- Imported within the limits of the tariff quota (Q. No. 5) 30.- MFN minus 10.-
- Other meat of sheep, fresh or chilled:
-- Other cuts with bone in:
22 10 --- Imported within the limits of the tariff quota (Q. No. 5) 30.- MFN minus 10.-
-- Boneless:
Svissneskt tollskrár-
númer
Vörulýsing Tollur
Svissn. frankar/ 100 kg brúttó
23 10 --- Flutt inn innan marka innflutningskvóta (Kv. nr. 5) 30.- Bestu kjör mínus 10.-
- Lambaskrokkar, heilir og hálfir, frystir:
30 10 -- Flutt inn innan marka innflutningskvóta (Kv. nr. 5) 30.- Bestu kjör mínus 10.-
- Annað kindakjöt, fryst:
-- Skrokkar og hálfir skrokkar:
41 10 --- Flutt inn innan marka innflutningskvóta (Kv. nr. 5) 30.- Bestu kjör mínus 10.-
-- Sneitt á annan hátt, með beini:
42 10 --- Flutt inn innan marka innflutningskvóta (Kv. nr. 5) 30.- Bestu kjör mínus 10.-
-- Beinlaust:
43 10 --- Flutt inn innan marka innflutningskvóta (Kv. nr. 5) 30.- Bestu kjör mínus 10.-
0205. Kjöt af hrossum, ösnum, múlösnum eða múldýrum, nýtt, kælt eða fryst
00 10 - Flutt inn innan marka innflutningskvóta (Kv. nr. 5) 20.- Bestu kjör mínus 9.-
0406. Ostur og ystingur, fluttur inn innan 60 tonna tollfrjáls kvóta EFTA 21.- til 442.- Tollfrjálst
0504. Þarmar, blöðrur og magar úr dýrum (þó ekki úr fiski), heilt og í stykkjum, nýtt, kælt, fryst, saltað, í saltlegi, þurrkað eða reykt:
- Aðrir magar úr dýrum í nr. 0101 til 0104; vinstur:
00 31 -- Hæft til manneldis 765.- Tollfrjálst
00 39 -- Annað -.50 Tollfrjálst
00 90 - Annað Tollfrjálst Tollfrjálst
0602. Aðrar lifandi plöntur (þ.m.t. rætur), græðlingar og gróðurkvistir; sveppaþræðir:
10 00 - Græðlingar og gróðurkvistir, án róta 6.80 Tollfrjálst
- Tré, runnar og búskar, einnig ágrætt, sem bera æta ávexti eða hnetur
-- Ungar plöntur (ræktaðar af fræjum eða afleggjurum):
--- Annað:
20 51 ---- Með berar rætur 6.80 Tollfrjálst
20 59 ---- Annað 5.20 Tollfrjálst
-- Annað:
--- Með berar rætur:
20 79 ---- Annað 22.- Tollfrjálst
--- Annað:
20 89 ---- Annað 19.60 Tollfrjálst
- Annað:
-- Ungar plöntur (ræktaðar af fræjum eða afleggjurum) nytjaplantna; sveppaþræðir:
90 11 --- Ungplöntur matjurta og upprúllað torf 1.40 Tollfrjálst
Swiss Customs Tariff Heading No. Description of products Rate of Duty
Swiss Francs / 100 kg gross
23 10 --- Imported within the limits of the tariff quota (Q. No. 5) 30.- MFN minus 10.-
- Carcasses and half-carcasses of lamb, frozen:
30 10 -- Imported within the limits of the tariff quota (Q. No. 5) 30.- MFN minus 10.-
- Other meat of sheep, frozen:
-- Carcasses and half-carcasses:
41 10 --- Imported within the limits of the tariff quota (Q. No. 5) 30.- MFN minus 10.-
-- Other cuts with bone in:
42 10 --- Imported within the limits of the tariff quota (Q. No. 5) 30.- MFN minus 10.-
-- Boneless:
43 10 --- Imported within the limits of the tariff quota (Q. No. 5) 30.- MFN minus 10.-
0205. Meat of horses, asses, mules or hinnies, fresh, chilled or frozen:
00 10 - Imported within the limits of the tariff quota (Q. No. 5) 20.- MFN minus 9.-
0406. Cheese and curd, imported within the limits of a duty free EFTA quota of 60 tons 21.- to 442.- Free
0504. Guts, bladders and stomachs of animals (other than fish), whole and pieces thereof, fresh, chilled, frozen, salted, in brine, dried or smoked:
- Other stomachs oft the animals of headings Nos. 0101 to 0104; tripe:
00 31 -- Fit for human consumption 765.- Free
00 39 -- Other -.50 Free
00 90 - Other Free Free
0602. Other live plants (including their roots) , cuttings and slips; mushroom spawn:
10 00 - Unrooted cuttings and slips 6.80 Free
- Trees, shrubs and bushes, grafted or not, of kinds which bear edible fruit or nuts:
-- Young plants (grown from seeds or scions) :
--- Other:
20 51 ---- With bare roots 6.80 Free
20 59 ---- Other 5.20 Free
-- Other:
--- With bare roots:
20 79 ---- Other 22.- Free
--- Other:
20 89 ---- Other 19.60 Free
- Other:
-- Young plants (grown from seeds or scions) of useful plants; mushroom spawn:
90 11 --- Vegetable seedlings and rolled turf 1.40 Free
Svissneskt tollskrár-
númer
Vörulýsing Tollur
Svissn. frankar/ 100 kg brúttó
90 12 --- Sveppaþræðir -.20 Tollfrjálst
90 19 --- Annað 5.20 Tollfrjálst
-- Annað:
90 91 --- Með berar rætur 22.- Tollfrjálst
90 99 --- Annað 19.60 Tollfrjálst
0603. Afskorin blóm og blómknappar sem notað er í vendi eða til skrauts, lifandi, þurrkað, litað, bleikt, gegndreypt eða unnið á annan hátt:
- Nýtt:
-- Á tímabilinu 1. maí til 25. október:
--- Nellikur:
10 31 ---- Innan marka innflutningskvóta (Kv. nr. 13) 25.- Tollfrjálst
--- Rósir:
10 41 ---- Innan marka innflutningskvóta (Kv. nr. 13) 12.50 Tollfrjálst
0604. Lauf, greinar og aðrir plöntuhlutar, án blóma eða blómknappa og grös, mosi og skófir, sem notað er í vendi eða til skrauts, nýtt, þurrkað, litað, bleikt, gegndreypt eða unnið á annan hátt:
- Mosi og skófir:
10 10 -- Nýtt eða ekki unnið á annan hátt en þurrkað Tollfrjálst Tollfrjálst
- Annað:
-- Nýtt:
--- Af trékenndum plöntum:
91 11 ---- Jólatré og greinar af barrtrjám Tollfrjálst Tollfrjálst
91 19 ---- Annað 5.- Tollfrjálst
91 90 --- Annað Tollfrjálst Tollfrjálst
-- Annað:
99 10 --- Ekki unnið á annan hátt en þurrkað Tollfrjálst Tollfrjálst
0702. Tómatar, nýir eða kældir:
- Kirsiberjatómatar:
00 10 -- Á tímabilinu 21. október til 30. apríl 5.- Tollfrjálst
- Peretti-tómatar (plómutómatar):
00 20 -- Á tímabilinu 21. október til 30. apríl 5.- Tollfrjálst
- Aðrir tómatar, 80 mm í þvermál eða meira (bufftómatar):
00 30 -- Á tímabilinu 21. október til 30. apríl 5.- Tollfrjálst
- Annað:
00 90 -- Á tímabilinu 21. október til 30. apríl 5.- Tollfrjálst
0703. Laukur, skalottlaukur, hvítlaukur, blaðlaukur og aðrar skyldar matjurtir, nýjar eða kældar:
- Laukur og skalottlaukur:
-- Sáðlaukar:
10 11 --- Frá 1. maí til 30. júní -.20 Tollfrjálst
--- Frá 1. júlí til 30. apríl:
10 13 ---- Innan marka innflutningskvóta (Kv. nr. 15) -.20 Tollfrjálst
-- Annar laukur og skalottlaukur:
--- Hvítur laukur, með grænan stilk (cipollote):
Swiss Customs Tariff Heading No. Description of products Rate of Duty
Swiss Francs / 100 kg gross
90 12 --- Mushroom spawn -.20 Free
90 19 --- Other 5.20 Free
-- Other:
90 91 --- With bare roots 22.- Free
90 99 --- Other 19.60 Free
0603. Cut flowers and flower buds of a kind suitable for bouquets or for ornamental purposes, fresh, dried, dyed, bleached, impregnated or otherwise prepared:
- Fresh:
-- From May 1 to October 25:
--- Carnations:
10 31 ---- Within the limits of the tariff quota (Q. No. 13) 25.- Free
--- Roses:
10 41 ---- Within the limits of the tariff quota (Q. No. 13) 12.50 Free
0604. Foliage, branches and other parts of plants, without flowers or flower buds, and grasses, mosses and lichens, being goods of a kind suitable for bouquets or for ornamental purposes, fresh, dried, dyed, bleached, impregnated or otherwise prepared:
- Mosses and lichens:
10 10 -- Fresh or not further prepared than dried Free Free
- Other:
-- Fresh:
--- Of ligneous plants:
91 11 ---- Christmas trees and branches of conifers Free Free
91 19 ---- Other 5.- Free
91 90 --- Other Free Free
-- Other:
99 10 --- Not further prepared than dried Free Free
0702. Tomatoes, fresh or chilled:
- Cherry tomatoes:
00 10 -- From October 21 to April 30 5.- Free
- Peretti tomatoes (plum tomatoes):
00 20 -- From October 21 to April 30 5.- Free
- Other tomatoes of a diameter of 80 mm or more (beef tomatoes):
00 30 -- From October 21 to April 30 5.- Free
- Other:
00 90 -- From October 21 to April 30 5.- Free
0703. Onions, shallots, garlic, leeks and other alliaceous vegetables, fresh or chilled:
- Onions and shallots:
-- Onion sets:
10 11 --- From May 1 to June 30 -.20 Free
--- From July 1 to April 30:
10 13 ---- Within the limits of the tariff quota (Q. No. 15) -.20 Free
-- Other onions and shallots:
--- White onions, green-stalked (cipollote):
Svissneskt tollskrár-
númer
Vörulýsing Tollur
Svissn. frankar/ 100 kg brúttó
10 20 ---- Frá 31. október til 31. mars 2.90 Tollfrjálst
---- Frá 1. apríl til 30. október
10 21 ----- Innan marka innflutningskvóta (Kv. nr. 15) 2.90 Tollfrjálst
--- Flatur hvítur laukur, innan við 35 mm í þvermál: Tollfrjálst
10 30 ---- Frá 31. október til 31. mars 2.90 Tollfrjálst
---- Frá 1. apríl til 30. október
10 31 ----- Innan marka innflutningskvóta (Kv. nr. 15) 2.90 Tollfrjálst
--- Strandlaukur (lampagioni):
10 40 ---- Frá 16. maí til 29. maí 2.90 Tollfrjálst
---- Frá 30. maí til 15. maí:
10 41 ----- Innan marka innflutningskvóta (Kv. nr. 15) 2.90 Tollfrjálst
--- Laukar, 70 mm í þvermál eða meira:
10 50 ---- Frá 16. maí til 29. maí 2.90 Tollfrjálst
---- Frá 30. maí til 15. maí:
10 51 ----- Innan marka innflutningskvóta (Kv. nr. 15) 2.90 Tollfrjálst
--- Rauður eða hvítur laukur, innan við 70 mm í þvermál, annar en í undirliðum 0703.1030/1039:
10 60 ---- Frá 16. maí til 29. maí 2.90 Tollfrjálst
---- Frá 30. maí til 15. maí:
10 61 ----- Innan marka innflutningskvóta (Kv. nr. 15) 2.90 Tollfrjálst
--- Annar laukur:
10 70 ---- Frá 16. maí til 29. maí 2.90 Tollfrjálst
---- Frá 30. maí til 15. maí
10 71 ----- Innan marka innflutningskvóta (Kv. nr. 15) 2.90 Tollfrjálst
10 80 --- Skallotlaukur 2.90 Tollfrjálst
0705. Salat (Lactuca sativa) og síkoría (Cichorium spp.), nýtt eða kælt:
- Salat:
-- Salat, kálhausar (head lettuce):
--- Jöklasalat án ytri blaða:
11 11 ---- Frá 1. janúar til febrúarloka 7.- Tollfrjálst
--- Flatur salatfífill (Batavia) og annað jöklasalat:
11 20 ---- Frá 1. janúar til febrúarloka 7.- Tollfrjálst
--- Annað:
11 91 ---- Frá 11. desember til febrúarloka 10.- Tollfrjálst
0707. Gúrkur og reitagúrkur, nýjar eða kældar:
- Gúrkur:
-- Salatgúrkur:
00 10 --- Frá 21. október til 14. apríl 10.- Tollfrjálst
-- Nostrano- eða Slicer-gúrkur:
00 20 --- Frá 21. október til 14. apríl 10.- Tollfrjálst
-- Lagmetisgúrkur, yfir 6 cm á lengd en undir 12 cm:
00 30 --- Frá 21. október til 14. apríl 10.- Tollfrjálst
0709. Aðrar matjurtir, nýjar eða kældar:
-- Paprikur:
Swiss Customs Tariff Heading No. Description of products Rate of Duty
Swiss Francs / 100 kg gross
10 20 ---- From October 31 to March 31 2.90 Free
---- From April 1 to October 30:
10 21 ----- Within the limits of the tariff quota (Q. No. 15) 2.90 Free
--- Flat white onions of a diameter not exceeding 35 mm:
10 30 ---- From October 31 to March 31 2.90 Free
---- From April 1 to October 30:
10 31 ----- Within the limits of the tariff quota (Q. No. 15) 2.90 Free
--- Wild onions (lampagioni):
10 40 ---- From May 16 to May 29 2.90 Free
---- From May 30 to May 15:
10 41 ----- Within the limits of the tariff quota (Q. No. 15) 2.90 Free
--- Onions of a diameter of 70 mm or more:
10 50 ---- From May 16 to May 29 2.90 Free
---- From May 30 to May 15:
10 51 ----- Within the limits of the tariff quota (Q. No. 15) 2.90 Free
--- Onions of a diameter of less than 70 mm, red or white, other than those of subdivisions 0703.1030/1039:
10 60 ---- From May 16 to May 29 2.90 Free
---- From May 30 to May 15:
10 61 ----- Within the limits of the tariff quota (Q. No. 15) 2.90 Free
--- Other onions:
10 70 ---- From May 16 to May 29 2.90 Free
---- From May 30 to May 15:
10 71 ----- Within the limits of the tariff quota (Q. No. 15) 2.90 Free
10 80 --- Shallots 2.90 Free
0705. Lettuce (Lactuca sativa) and chicory (Cichorium spp.), fresh or chilled:
- Lettuce:
-- Cabbage lettuce (head lettuce):
--- Iceberg lettuce without external leaves:
11 11 ---- From January 1 to the end of February 7.- Free
--- Batavia and other iceberg lettuce:
11 20 ---- From January 1 to the end of February 7.- Free
--- Other:
11 91 ---- From December 11 to the end of February 10.- Free
0707. Cucumbers and gherkins, fresh or chilled:
- Cucumbers:
-- Salad cucumbers:
00 10 --- From October 21 to April 14 10.- Free
-- Nostrano or Slicer cucumbers:
00 20 --- From October 21 to April 14 10.- Free
-- Cucumbers for preserving, of a length exceeding 6 cm but not exceeding 12 cm:
00 30 --- From October 21 to April 14 10.- Free
0709. Other vegetables, fresh or chilled:
-- Sweet peppers:
Svissneskt tollskrár-
númer
Vörulýsing Tollur
Svissn. frankar/ 100 kg brúttó
60 11 --- Frá 1. nóvember til 31. mars 6.- Tollfrjálst
0711. Matjurtir, rotvarðar til bráðabirgða (t.d. með brennisteinstvíildisgasi, saltlegi, brennisteinssýrlingi eða öðrum rotvarnarlausnum), en óhæfar í því ástandi til manneldis:
20 00 - Ólífur:
úr 20 00 -- Svartar ólífur 3.- Tollfrjálst
0713. Þurrkaðir belgávextir, afhýddir, einnig flysjaðir eða klofnir:
- Hænsnabaunir (garbanzos):
-- Heilir, óunnir:
20 19 --- Annað (ekki til dýraeldis, tækninota eða ölgerðar) Tollfrjálst Tollfrjálst
0802. Aðrar hnetur, nýjar eða þurrkaðar, einnig afhýddar eða flysjaðar:
50 00 - Hjartaaldin Tollfrjálst Tollfrjálst
- Annað:
úr 90 90 -- Annað, furuhnetur 4.- Tollfrjálst
0805. Sítrusávextir, nýir eða þurrkaðir:
30 00 - Sítrónur (Citrus limon, Citrus limonum) og súraldin (Citrus aurantifolia) Tollfrjálst Tollfrjálst
0807. Melónur (þar með taldar vatnsmelónur) og pápáaldin (papayas), nýtt:
- Melónur (þar með taldar vatnsmelónur):
11 00 -- Vatnsmelónur 2.- Tollfrjálst
19 00 -- Annað 2.- Tollfrjálst
0904. Pipar af ættinni Piper; þurrkaðir, pressaðir eða muldir ávextir af ættinni Capsicum eða af ættinni Pimenta:
- Pipar:
11 00 -- Hvorki pressaður eða mulinn Tollfrjálst Tollfrjálst
12 00 -- Pressaður eða mulinn 7.50 Tollfrjálst
- Ávextir af ættinni Capsicum eða af ættinni Pimenta, þurrkaðir, pressaðir eða muldir:
20 10 -- Ekki unninn Tollfrjálst Tollfrjálst
20 90 -- Annað Tollfrjálst Tollfrjálst
1207. Önnur olíufræ og olíurík aldin, einnig sundurskorin:
- Mustarðsfræ
-- Annað (en til dýraeldis eða olíuframleiðslu):
50 91 --- Til manneldis -.10 Tollfrjálst
50 99 --- Annað -.10 Tollfrjálst
1209. Fræ, aldin og sporar til sáningar:
- Rófufræ:
-- Sykurrófufræ:
11 90 --- Annað Tollfrjálst Tollfrjálst
-- Annað:
19 90 --- Annað Tollfrjálst Tollfrjálst
- Fóðurplöntufræ, þó ekki rófufræ:
Swiss Customs Tariff Heading No. Description of products Rate of Duty
Swiss Francs / 100 kg gross
60 11 --- From November 1 to March 31 6.- Free
0711. Vegetables provisionally preserved (for example, by sulphur dioxide gas, in brine, in sulphur water or in other preservative solutions), but unsuitable in that state for immediate consumption:
20 00 - Olives :
ex 20 00 -- Black olives 3.- Free
0713. Dried leguminous vegetables, shelled, whether or not skinned or split:
- Chickpeas (garbanzos):
-- Whole, unprocessed:
20 19 --- Other (not for animal feeding, technical purposes or making beer) Free Free
0802. Other nuts, fresh or dried, whether or not shelled or peeled:
50 00 - Pistachios Free Free
- Other:
ex 90 90 -- Other, pine nuts 4.- Free
0805. Citrus fruit, fresh or dried:
30 00 - Lemons (Citrus limon, Citrus limonum) and limes (Citrus aurantifolia) Free Free
0807. Melons (including watermelons) and papaws (papayas), fresh:
- Melons (including watermelons):
11 00 -- Watermelons 2.- Free
19 00 -- Other 2.- Free
0904. Pepper of the genus Piper; dried or crushed or ground fruits of the genus Capsicum or the genus Pimenta:
- Pepper:
11 00 -- Neither crushed nor ground Free Free
12 00 -- Crushed or ground 7.50 Free
- Fruits of the genus Capsicum or of the genus Pimenta, dried or crushed or ground:
20 10 -- Not processed Free Free
20 90 -- Other Free Free
1207. Other oil seeds and oleaginous fruits, whether or not broken:
- Mustard seeds:
-- Other (than for animal feeding or production of oil):
50 91 --- For human consumption -.10 Free
50 99 --- Other -.10 Free
1209. Seeds, fruit and spores, of a kind used for sowing:
- Beet seed:
-- Sugar beet seed:
11 90 --- Other Free Free
-- Other:
19 90 --- Other Free Free
- Seeds of forage plants, other than beet seed:
Svissneskt tollskrár-
númer
Vörulýsing Tollur
Svissn. frankar/ 100 kg brúttó
21 00 -- Refasmárafræ (alfalfa): Tollfrjálst Tollfrjálst
22 00 -- Smárafræ (Trifolium spp.): Tollfrjálst Tollfrjálst
23 00 -- Túnvingulfræ: Tollfrjálst Tollfrjálst
24 00 -- Vallarsveifgrasfræ (Poa pratensis L.): Tollfrjálst Tollfrjálst
25 00 -- Rýgrasfræ (Lolium multiflorum Lam., Lolium perenne L.): Tollfrjálst Tollfrjálst
26 00 -- Vallarfoxgrasfræ: Tollfrjálst Tollfrjálst
-- Annað:
--- Fræ af flækjum og lúpínu:
29 19 ---- Annað Tollfrjálst Tollfrjálst
29 80 --- Fræ af axhnoðapunti, gullinló, ginhafra, faxgrasi og þvíumlíku Tollfrjálst Tollfrjálst
29 90 --- Annað Tollfrjálst Tollfrjálst
30 00 - Fræ jurta sem ræktaðar eru aðallega vegna blóma þeirra Tollfrjálst Tollfrjálst
- Annað:
91 00 -- Matjurtafræ Tollfrjálst Tollfrjálst
-- Annað:
--- Annað:
99 99 ---- Annað Tollfrjálst Tollfrjálst
1212. Fuglatrésbaunir (jóhannesarbrauð), sjávargróður og aðrir þörungar, sykurrófur og sykurreyr, nýtt, kælt, fryst eða þurrkað, einnig mulið; aldinsteinar og -kjarnar og aðrar vörur úr jurtaríkinu (þar með taldar óbrenndar síkoríurætur af afbrigðinu Cichorium intybus sativum) sem aðallega er notað til manneldis, ót.a.:
- Annað:
-- Annað:
--- Þurrkaðar síkoríurætur:
99 19 ---- Annað Tollfrjálst Tollfrjálst
--- Annað:
99 99 ---- Annað Tollfrjálst Tollfrjálst
1501. Svínafeiti (þar með talin hreinsuð svínafeiti (Lard)) og alifuglafeiti, þó ekki vörur í nr. 0209 eða 1503:
- Svínafeiti (þar með talin hreinsuð svínafeiti (Lard)):
-- Annað:
úr 00 18 --- Í tönkum eða málmtunnum, til tækninota 1.- Tollfrjálst
úr 00 19 --- Annað, til tækninota 1.- Tollfrjálst
- Alifuglafeiti:
-- Annað:
úr 00 28 --- Í tönkum eða málmtunnum, til tækninota 1.- Tollfrjálst
úr 00 29 --- Annað, til tækninota 1.- Tollfrjálst
1502. Fita af dýrum af nautgripaætt, kindum eða geitum, þó ekki vörur í nr. 1503:
- Annað:
úr 00 91 -- Í tönkum eða málmtunnum, til tækninota 1.- Tollfrjálst
úr 00 99 -- Annað, til tækninota 1.- Tollfrjálst
1506. Önnur dýrafeiti og -olíur og þættir þeirra, einnig hreinsað en ekki efnafræðilega umbreytt:
Swiss Customs Tariff Heading No. Description of products Rate of Duty
Swiss Francs / 100 kg gross
21 00 -- Lucerne (alfalfa) seed Free Free
22 00 -- Clover (Trifolium spp.) seed Free Free
23 00 -- Fescue seed Free Free
24 00 -- Kentucky blue grass (Poa pratensis L.) seed Free Free
25 00 -- Rye grass (Lolium multiflorum Lam., Lolium perenne L.) seed Free Free
26 00 -- Timothy grass seed Free Free
-- Other:
--- Seeds of vetches and lupines:
29 19 ---- Other Free Free
29 80 --- Seeds of cock's foot, yellow oat grass, tall oat grass, brome grass and the like Free Free
29 90 --- Other Free Free
30 00 - Seeds of herbaceous plants cultivated principally for their flowers Free Free
- Other:
91 00 -- Vegetable seeds Free Free
-- Other:
--- Other:
99 99 ---- Other Free Free
1212. Locust beans, seaweeds and other algae, sugar beet and sugar cane, fresh, chilled, frozen or dried, whether or not ground; fruit stones and kernels and other vegetable products (including unroasted chicory roots of the variety Cichorium intybus sativum) of a kind used primarily for human consumption, not elsewhere specified or included:
- Other:
-- Other:
--- Dried chicory roots:
99 19 ---- Other Free Free
--- Other:
99 99 ---- Other Free Free
1501. Pig fat (including lard) and poultry fat, other than that of heading No. 0209 or 1503:
- Pig fat (including lard):
-- Other:
ex 00 18 --- In tanks or metal drums, for technical purposes 1.- Free
ex 00 19 --- Other, for technical purposes 1.- Free
- Poultry fat:
-- Other:
ex 00 28 --- In tanks or metal drums, for technical purposes 1.- Free
ex 00 29 --- Other, for technical purposes 1.- Free
1502. Fats of bovine animals, sheep or goats, other than those of heading No. 1503:
- Other:
ex 00 91 -- In tanks or metal drums, for technical purposes 1.- Free
ex 00 99 -- Other, for technical purposes 1.- Free
1506. Other animal fats and oils and their fractions, whether or not refined, but not chemically modified:
Svissneskt tollskrár-
númer
Vörulýsing Tollur
Svissn. frankar/ 100 kg brúttó
- Annað:
úr 00 91 -- Í tönkum eða málmtunnum, til tækninota 1.- Tollfrjálst
úr 00 99 -- Annað, til tækninota 1.- Tollfrjálst
1602. Annað kjöt, hlutar af dýrum eða blóð, unnið eða rotvarið:
- Úr dýralifur:
20 10 -- Að stofni til úr gæsalifur 71.- Tollfrjálst
2309. Framleiðsla til dýraeldis:
- Hunda-og kattafóður í smásöluumbúðum
10 10 -- Kex 5.90 Tollfrjálst
-- Í loftþéttum umbúðum:
10 21 --- Sem inniheldur mjólkurduft eða mysuduft 12.80 Tollfrjálst
10 29 --- Annað 11.- Tollfrjálst

Swiss Customs Tariff Heading No. Description of products Rate of Duty
Swiss Francs / 100 kg gross
- Other :
ex 00 91 -- In tanks or metal drums, for technical purposes 1.- Free
ex 00 99 -- Other, for technical purposes 1.- Free
1602. Other prepared or preserved meat, meat offal or blood:
- Of liver of any animal:
20 10 -- With a basis of goose liver 71.- Free
2309. Preparations of a kind used in animal feeding:
- Dog or cat food, put up for retail sale:
10 10 -- Biscuits 5.90 Free
-- In airtight containers:
10 21 --- Containing milk powder or whey powder 12.80 Free
10 29 --- Other 11.- Free

VIÐAUKI E

Sáðvörur (11. gr.)


1. gr.
Gildissvið

    Viðauki þessi gildir um sáðvörur af tilteknum nytjajurtum í landbúnaði sem falla undir lagagerninga sem skráðir eru í 1. viðbæti.

2. gr.
Viðurkenning á samræmi í lögum og reglum

1.     Aðildarríkin viðurkenna hér með að kröfurnar sem mælt er fyrir um í lagagerningum sem um getur í 1. þætti 1. viðbætis við þennan viðauka hafa sömu áhrif.
2.     Leyfð er verslun milli aðildarríkjanna með sáðvörur af tegundum sem eru skilgreindar í lagagerningum sem um getur í 1. mgr. og heimilt er að markaðssetja þær án takmarkana á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, samanber þó 6. og 7. gr. Eina skjalið sem krafist er sem staðfestingu þess að farið sé að lögum og reglum aðildarríkjanna skal vera merkimiði eða annað skjal sem krafist er fyrir markaðssetningu samkvæmt áðurnefndum lögum og reglum.
3.     Aðila sem bera ábyrgð á eftirliti með samræmi ber að skrá í 2. viðbæti.

3. gr.
Gagnkvæm viðurkenning á vottorðum

1.     Aðildarríkin skulu, að því er varðar sáðvörur af tegundum sem falla undir lagagerninga sem um getur í 2. þætti 1. viðbætis, viðurkenna vottorð, eins og það er skilgreint í 2. mgr., sem stofnanir, skráðar í 2. viðbæti, hafa útbúið í samræmi við lög og reglur hinna aðildarríkjanna.

2.     Að því er 1. mgr. varðar er „vottorð“ það skjal sem krafist er samkvæmt gildandi lögum og reglum aðildarríkjanna um innflutning á sáðvörum sem falla undir lagagerninga sem skráðir eru í 2. þætti 1. viðbætis.

4. gr.
Samræming laga

1.     Aðildarríkin skulu leitast við að samræma lög sín og reglur um markaðssetningu sáðvara af tegundum sem falla undir lagagerninga sem skráðar eru í 2. þætti 1. viðbætis og af tegundum sem falla ekki undir lagagerninga sem skráðar eru í 1. og 2. þætti 1. viðbætis.
2.     Setji eitthvert aðildarríkjanna ný lagaákvæði skuldbinda aðildarríkin sig til að kanna möguleikana á að víkka út gildissvið þessa viðauka þannig að hann nái yfir nýtt svið.
3.     Breyti eitthvert aðildarríkjanna lagaákvæðum um svið sem fellur undir þennan viðauka skuldbinda aðildarríkin sig til að meta afleiðingar slíkrar breytingar.

5. gr.
Nefnd um sáðvörur

1.     Ráðið skal koma á fót nefnd um sáðvörur (hér á eftir kölluð „nefndin“) og skal hún fjalla um öll mál sem upp kunna að koma í tengslum við þennan viðauka.
2.     Nefndin skal endurskoða reglulega lög og reglur aðildarríkjanna á þeim sviðum sem falla undir þennan viðauka.
3.     Nefndin getur einkum beint þeim tilmælum til ráðsins að breyta ákvæðum viðbætanna.


6. gr.
Afbrigði

1.     Aðildarríkin skulu leyfa á yfirráðasvæði sínu markaðssetningu sáðvara af afbrigðum sem eru skráð í sameiginlega skrá Evrópubandalagsins, að því tilskildu að þau falli undir lagagerninga sem skráðir eru í 1. þætti 1. viðbætis.
2.     Ákvæði 1. mgr. skal ekki gilda um erfðabreytt afbrigði.
3.     Aðildarríkin skulu tilkynna hvert öðru um umsóknir til samþykktar, afturköllun umsókna, skráningu nýrra afbrigða í innlendar skrár og breytingar á þeim. Þau skulu gefa hvert öðru, samkvæmt beiðni, stutta lýsingu á helstu einkennum sem tengjast notkun hvers nýs afbrigðis og á þeim einkennum sem hægt er að styðjast við til að þekkja tiltekið afbrigði frá öðrum þekktum afbrigðum.

    Sérhvert aðildarríki skal halda skrá sem er tiltæk hinum aðildarríkjunum og inniheldur lýsingu á hverju samþykktu afbrigði og greinilegt yfirlit yfir allar forsendur slíks samþykkis. Þegar um erfðabreytt afbrigði er að ræða skulu aðildarríkin tilkynna hvert öðru um niðurstöður áhættumats vegna sleppingar slíkra afbrigða út í umhverfið.

4.     Aðildarríkin geta haft tæknilegt samráð til að meta þau gögn sem samþykki tiltekins afbrigðis í aðildarríki byggist á. Nefndinni skal leyft að fylgjast með niðurstöðum slíks samráðs.

5.     Aðildarríkin skulu nota þau tölvukerfi fyrir upplýsingamiðlun sem þegar eru fyrir hendi eða þau kerfi sem verða þróuð til að gera miðlun upplýsinganna, sem um getur í 3. mgr., auðveldari.

7. gr.
Undanþágur

1.     Aðildarríkin skulu tilkynna hvert öðru um undanþágur sem varða markaðssetningu sáðvara og þeir hyggjast taka upp á yfirráðasvæði sínu eða hluta þess. Þegar undanþágur vara í skamman tíma eða verða að taka gildi tafarlaust nægir að tilkynna um þær eftir á.
2.     Með fyrirvara um 1. mgr. 6. gr. geta aðildarríkin ákveðið að banna á yfirráðasvæði sínu markaðssetningu sáðvara af samþykktum afbrigðum sem eru í sameiginlegri skrá Evrópubandalagsins.
3.     Ákvæði 2. mgr. skal gilda í tilvikum sem kveðið er á um í lagagerningum sem um getur í 1. þætti 1. viðbætis.
4.     Aðildarríkjunum er heimilt að skírskota til 2. mgr.:
a)    innan þriggja ára frá gildistöku þessa viðauka ef um er að ræða afbrigði sem voru í sameiginlegri skrá Evrópubandalaganna fyrir gildistöku þessa viðauka;
b)    innan þriggja ára frá því að tekið er við upplýsingunum sem um getur í 3. mgr. 6. gr. ef um er að ræða afbrigði sem voru í sameiginlegri skrá Evrópubandalagsins eftir gildistöku þessa viðauka.
5.     Ákvæði 4. mgr. skulu gilda á hliðstæðan hátt um afbrigði þeirra tegunda sem falla undir lagagerninga sem, samkvæmt 4. gr., er bætt við skrána í 1. þætti 1. viðbætis eftir gildistöku þessa viðauka.
6.     Aðildarríkin geta haft tæknilegt samráð til að meta áhrif undanþágnanna, sem um getur í 1. til 3. mgr., að því er þennan viðauka varðar.


8. gr.
Þriðju ríki

1.     Með fyrirvara um 10. gr. skal viðauki þessi einnig gilda um sáðvörur sem eru markaðssettar í aðildarríki, upprunnar í ríki sem ekki er aðildarríki og samþykktar í öllum aðildarríkjunum.
2.     Skrá yfir þriðju ríki sem um getur í 1. mgr., viðkomandi tegundir og gildissvið slíks samþykkis er að finna í 3. viðbæti.

9. gr.
Samanburðarprófanir

1.     Samanburðarprófanir geta farið fram með tilliti til eftirlits sem fer fram eftir á, á sýnum sáðvara úr framleiðslueiningum sem eru markaðssettar í aðildarríkjunum.
2.     Nefndin skal meta skipulagningu samanburðarprófana í aðildarríkjunum.

10. gr.
Samningar við þriðju ríki

    Aðildarríkin eru ásátt um að samningar um gagnkvæma viðurkenningu milli aðildarríkis og þriðja ríkis megi aldrei leiða til þess að hin aðildarríkin verði skuldbundin til að staðfesta skýrslur, vottorð, heimildir eða merkingar sem stofnanir fyrir samræmismat í þriðju ríkjum gefa út, nema aðildarríkin hafi veitt samþykki fyrir því.



1. VIÐBÆTIR

Löggjöf


1. þáttur (viðurkenning á samræmi í löggjöf)

A.    LAGAGERNINGAR SEM GILDA UM EFTA-RÍKI Á EVRÓPSKA EFNAHAGSSVÆÐINU:

Innlendar reglugerðir sem eru teknar upp á grundvelli eftirtalinna gerninga, sem eru felldir inn í EES-samninginn:

    1.         Meginlöggjöf

    Tilskipun ráðsins 66/402/EBE frá 14. júní 1966 um markaðssetningu sáðkorns (Stjtíð. EB L 125, 11.7.1966, bls. 2309/66), eins og henni var síðast breytt með tilskipun 96/72/EB (Stjtíð. EB L 304, 27.11.1996, bls. 10).

    Tilskipun ráðsins 70/457/EBE frá 29. september 1970 um sameiginlega skrá yfir stofna nytjajurta í landbúnaði (Stjtíð. EB L 225, 12.10.1970, bls. 1), eins og henni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 1994.

    2.         Framkvæmdarákvæði 1

    Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 72/180/EBE frá 14. apríl 1972 um einkenni og lágmarksskilyrði við skoðun á stofnum nytjajurta í landbúnaði (Stjtíð. EB L 108, 8.5.1972, bls. 8).

    Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 74/268/EBE frá 2. maí 1974 um sérstök skilyrði vegna „Avena fatua“ í fóðurjurtafræi og sáðkorni (Stjtíð. EB L 141, 24.5.1974, bls. 19), eins og henni var síðast breytt með tilskipun 78/511/EBE (Stjtíð. EB L 157, 15.6.1978, bls. 34).



1 Einungis um sáðkorn eftir því sem við á.
    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 80/755/EBE frá 17. júlí 1980 um að heimila óafmáanlegt letur á tilskildum upplýsingum á sáðkornsumbúðum (Stjtíð. EB L 207, 9.8.1980, bls. 37), eins og henni var síðast breytt með ákvörðun 81/109/EBE (Stjtíð. EB L 64, 11.3.1981, bls. 13).

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 81/675/EBE frá 28. júlí 1981 um að sérstakar gerðir lokunarbúnaðar séu „einnota“ í skilningi tilskipana ráðsins 66/400/EBE, 66/401/EBE, 66/402/EBE, 69/208/EBE og 70/458/EBE (Stjtíð. EB L 246, 29.8.1981, bls. 26), eins og henni var síðast breytt með ákvörðun 86/563/EBE (Stjtíð. EB L 327, 22.11.1986, bls. 50).

B.     LAGAGERNINGAR SEM GILDA UM SVISS 2 :


    Lög ríkjasambandsins frá 29. apríl 1998 um landbúnað (RO 1998 3033).

    Reglugerð frá 7. desember 1998 um framleiðslu og frjálsa dreifingu fjölgunarefnis plantna (RO 1999 420).

    Reglugerð efnahagsráðuneytis Svissneska ríkjasambandsins frá 7. desember 1998 um fræ og ungplöntur af tegundum ræktaðra plantna og fóðurjurta (RO 1999 781).

    Reglugerð Landbúnaðarskrifstofu Svissneska ríkjasambandsins um skrá yfir afbrigði af korni, kartöflum, fóðurjurtum og hampi (RO 1999 429). 3

2. þáttur (gagnkvæm viðurkenning á vottorðum)

A.    LAGAGERNINGAR SEM GILDA UM EFTA-RÍKI Á EVRÓPSKA EFNAHAGSSVÆÐINU:

Innlendar reglugerðir sem eru teknar upp á grundvelli eftirtalinna gerninga, sem eru felldir inn í EES-samninginn:

    1.         Meginlöggjöf

    Tilskipun ráðsins 66/400/EBE frá 14. júní um markaðssetningu sykurrófufræja (Stjtíð. EB L 125, 11.7.1966, bls. 2290/66), eins og henni var síðast breytt tilskipun ráðsins 96/72/EB (Stjtíð. EB L 304, 27.11.1996, bls. 10).


2 Tekur ekki til innlendra afbrigða sem heimilt er að markaðssetja í Sviss.
3 Einungis um korn eftir því sem við á.
    Tilskipun ráðsins 66/401/EBE frá 14. júní 1966 um markaðssetningu fóðurjurtafræja (Stjtíð. EB L 125, 11.7.1966, p. 2298/66), eins og henni var síðast breytt með tilskipun ráðsins 96/72/EB (Stjtíð. EB L 304, 27.11.1996, bls. 10).

    Tilskipun ráðsins 69/208/EBE frá 30. júní 1969 um markaðssetningu olíu- og     trefjajurtafræja (Stjtíð. EB L 169, 10.7.1969, bls. 3), eins og henni var síðast breytt með tilskipun ráðsins 96/72/EB (Stjtíð. EB L 304, 27.11.1996, bls. 10).

    2.         Framkvæmdarákvæði 4

    Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 75/502/EBE frá 25. júlí 1975 um að takmarka markaðssetningu á vallarsveifgrasfræi (Poa pratensis L.) við fræ sem er opinberlega vottfest sem „stofnfræ“ eða „vottað fræ“ (Stjtíð. EB L 228, 29.8.1975, bls. 26).

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 81/675/EEC frá 28. júlí 1981 um að sérstakar gerðir lokunarbúnaðar séu „einnota“ í skilningi tilskipana ráðsins 66/400/EBE, 66/401/EBE, 66/402/EBE, 69/208/EBE og 70/458/EBE (Stjtíð. EB L 246, 29.8.1981, bls. 26), eins og henni var síðast breytt með ákvörðun 86/563/EBE (Stjtíð. EB L 327, 22.11.1986, bls. 50).

    Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 86/109/EBE frá 27. febrúar 1986 um að takmarka markaðssetningu ákveðinna tegunda fóðurjurta og olíu- og trefjajurta við fræ sem eru opinberlega vottfest sem „stofnfræ“ eða „vottað fræ“ (Stjtíð. EB L 93, 8.4.1986, bls. 21), eins og henni var síðast breytt með tilskipun 91/376/EBE (Stjtíð. EB L 203, 26.7.1991, bls. 108).

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 87/309/EBE frá 2. júní 1987 um að heimila óafmáanlegt letur á tilskildum upplýsingum á umbúðum ákveðinna fóðurjurtafræja (Stjtíð. EB L 155, 16.6.1987, bls. 26), eins og henni var síðast breytt með ákvörðun 97/125/EB (Stjtíð. EB L 48, 19.2.1997, bls. 35).

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 92/195/EEC frá 17. mars 1992 um að skipuleggja tímabundna tilraun samkvæmt tilskipun ráðsins 66/401/EBE um markaðssetningu fóðurjurtafræja með það fyrir augum að auka hámarksþyngd vörueiningar (Stjtíð. EB L 88, 3.4.1992, bls. 59), eins og henni var síðast breytt með ákvörðun 96/203/EB (Stjtíð. EB L 65, 15.3.1996, bls. 41).


4 Að undanskildu sáðkorni eftir því sem við á.

B.     LAGAGERNINGAR SEM GILDA UM SVISS:


    Lög ríkjasambandsins frá 29. apríl 1998 um landbúnað (RO 1998 3033).

    Reglugerð frá 7. desember 1998 um framleiðslu og frjálsa dreifingu fjölgunarefnis plantna (RO 1999 420).

    Reglugerð efnahagsráðuneytis Svissneska ríkjasambandsins frá 7. desember 1998 um fræ og ungplöntur af tegundum ræktaðra plantna og fóðurjurta (RO 1999 781).

    Skrá yfir fræ, frá efnahagsráðuneyti Svissneska ríkjasambandsins, frá 6. júní 1974, eins og henni var síðast breytt 7. desember 1998 (RO 1999 408).

C.     TILSKILIN INNFLUTNINGSVOTTORÐ:

    Opinberir EB- eða OECD-merkimiðar fyrir umbúðir, gefnir út af aðilum sem eru skráðir í 2. viðbæti við þennan viðauka, og appelsínugul eða græn ISTA-vottorð eða álíka vottorð um greiningu fræja fyrir hverja framleiðslueiningu.


2. VIÐBÆTIR

Skoðun sáðvara og vottunaraðilar


ÍSLAND         Landbúnaðarráðuneytið
                        Sölvhólsgötu 7, 4. hæð
                        150 Reykjavík
LIECHTENSTEIN     Service des Semences et Plants
                        RAC Changins
                        Nyon
                        Dienst für Saat- und Pflanzgut
                        FAL Reckenholz
                        Zürich
NOREGUR            Norwegian Agricultural
                    Inspection Service
                        Moerveien 12
                        1430 Ås
SVISS                  Service des Semences et Plants
                        RAC Changins
                        Nyon
                        Dienst für Saat- und Pflanzgut
                        FAL Reckenholz
                        Zürich


3. VIÐBÆTIR

Skrá yfir þriðju ríki


Viðurkenning byggist á ákvörðun ráðsins 95/514/EB (Stjtíð. EB L 296, 9.12.1995, bls. 34), eins og henni var síðast breytt með ákvörðun 98/162/EB (Stjtíð. EB L 53, 24.2.1998, bls. 21), að því er varðar akurskoðun á plöntum sem bera fræ og fræjum, og ákvörðun ráðsins 97/788/EB (Stjtíð. EB L 322, 25.11.1998, bls. 39) að því er varðar eftirlit með starfsháttum við viðhald afbrigða.

ARGENTÍNA
AUSTURRÍKI
ÁSTRALÍA
BANDARÍKI NORÐUR-AMERÍKU
BELGÍA
BRESKA KONUNGSRÍKIÐ
BÚLGARÍA
DANMÖRK
FINNLAND
FRAKKLAND
GRIKKLAND
HOLLAND
ÍRLAND
ÍSRAEL
ÍTALÍA
KANADA
KRÓATÍA
LÚXEMBORG
LÝÐVELDIÐ TÉKKLAND
MAROKKÓ
NÝJA-SJÁLAND
PORTÚGAL
PÓLLAND
RÚMENÍA
SÍLE
SLÓVAKÍA
SLÓVENÍA
SPÁNN
SUÐUR-AFRÍKA
SVÍÞJÓÐ
TYRKLAND
UNGVERJALAND
ÚRÚGVÆ
ÞÝSKALAND

ANNEX E

Seeds (Art. 11)


ARTICLE 1
Scope

    This Annex applies to seeds of agricultural species covered by the legal acts listed in Appendix 1.


ARTICLE 2
Recognition of conformity of laws and regulations

1.     The Member States hereby recognise that the requirements laid down in the legal acts referred to in Section 1 of Appendix 1 hereto have the same effects.
2.     Seeds of the species defined in the legal acts referred to in paragraph 1 may be traded between the Member States and freely marketed in the territory of the Member States, without prejudice to Articles 6 and 7. The only document required as certification of compliance with the respective laws and regulations of the Member States shall be the label or any other document required for marketing under the said laws and regulations.
3.     The bodies responsible for conformity checks shall be listed in Appendix 2.

ARTICLE 3
Mutual recognition of certificates

1.          The Member States shall recognise, as regards seeds of the species covered by the legal acts referred to in Section 2 of Appendix 1, certificates as defined in paragraph 2 that have been drawn up in accordance with the laws and regulations of the other Member States by the bodies listed in Appendix 2.
2.     For the purposes of paragraph 1, “certificate” means the documents required under the respective laws and regulations of the Member States applicable to imports of seeds covered by the legal acts listed in Section 2 of Appendix 1.

ARTICLE 4
Approximation of laws

1.     The Member States shall endeavor to approximate their laws and regulations on the marketing of seeds of the species covered by the legal acts listed in Section 2 of Appendix 1 and of species that are not covered by the legal acts listed in Sections 1 and 2 of Appendix 1.
2.     Where any Member State adopts new legislative provisions, the Member States undertake to assess the possibility of extending the scope of this Annex to include the new sector.
3.     Where any Member State amends legislative provisions concerning a sector covered by this Annex, the Member States undertake to assess the consequences of such amendment.

ARTICLE 5
Committee on seeds

1.     The Council shall establish a Committee on seeds (hereinafter the “Committee”) which shall consider any matter which may arise in connection with this Annex.
2.     The Committee shall periodically consider the state of the laws and regulations of the Member States in the fields covered by this Annex.
3.     The Committee may in particular recommend to the Council to amend the provisions of the Appendices.

ARTICLE 6
Varieties

1.     The Member States shall permit in their territory the marketing of seeds of the varieties listed in the common catalogue of the European Community provided they are covered by the legal acts listed in section 1 of Appendix 1.
2.     Paragraph 1 shall not apply to genetically modified varieties.
3.     The Member States shall inform each other of applications, and withdrawals of applications, for acceptance, and of the registration of new varieties in a national catalogue and any amendments thereto. They shall provide each other on request with a brief description of the chief characteristics relating to the use of each new variety and the characteristics by which a variety can be distinguished from other known varieties.
    Each Member State shall keep files at the disposal of the other Member States containing a description of each accepted variety and a clear summary of all the grounds on which such acceptance is based. In the case of genetically modified varieties, the Member States shall inform each other of the results of risk assessments for the release of such varieties into the environment.
4.     The Member States may hold technical consultations with a view to assessing the data on which acceptance of a given variety is based in any Member State. Where appropriate, the Committee shall be kept informed of the results of such consultations.
5.     The Member States shall use existing computerised information exchange systems or such systems to be developed to facilitate the exchange of information as referred to in paragraph 3.

ARTICLE 7
Derogations

1.     The Member States shall inform each other of any derogations on the marketing of seeds that they intend to implement in their territory or in part thereof. In the case of derogations of short duration or which must enter into force immediately, ex-post notification shall suffice.
2.     Without prejudice to Paragraph 1 of Article 6, a Member State may decide to prohibit in its territory the marketing of seeds of accepted varieties in the common catalogue of the European Community.
3.     Paragraph 2 shall apply in cases provided for in the legal acts referred to in Section 1 of Appendix 1.

4.     Any Member State may have recourse to paragraph 2:
(a)    within three years following the entry into force of this Annex, in the case of varieties listed in the common catalogue of the European Community prior to the entry into force of this Annex;
(b)    within three years following the receipt of the information referred to in paragraph 3 of Article 6, in the case of varieties entered in the common catalogue of the European Community after the entry into force of this Annex.
5.     Paragraph 4 shall apply by analogy to varieties of the species covered by legal acts added, pursuant to Article 4, to the list in Section 1 of Appendix 1 after the entry into force of this Annex.
6.     The Member States may hold technical consultations with a view to assessing the implications for this Annex of derogations referred to in paragraphs 1 to 3.

ARTICLE 8
Third States

1.     Without prejudice to Article 10, this Annex shall also apply to seeds marketed in a Member State and originating in a State other than a Member State and recognised by all the Member States.
2.     The list of third States referred to in paragraph 1, the species concerned and the scope of such recognition are set out in Appendix 3.

ARTICLE 9
Comparative trials

1.     Comparative trials can be held with a view to ex-post checks of samples of seeds taken from batches marketed in the Member States.

2.     The Committee shall assess the organisation of comparative trials in the Member States.

ARTICLE 10
Agreements with third States

    The Member States agree that agreements on mutual recognition concluded by any Member State with any third State may under no circumstances give rise to any obligation on the other Member States to accept reports, certificates, authorisations or marks issued by the conformity assessment bodies of such third States, except where the Member States have agreed thereto.


APPENDIX 1

Legislation


Section 1 (recognition of conformity of legislation)

A.    LEGAL ACTS APPLICABLE TO THE EEA EFTA STATES:

National regulations introduced pursuant to the following acts, as incorporated in the EEA Agreement:


    1.        Basic legislation

    Council Directive 66/402/EEC of 14 June 1966 on the marketing of cereal seed (OJ L 125, 11.7.1966, p. 2309/66), as last amended by Directive 96/72/EC (OJ L 304, 27.11.1996, p. 10).


    Council Directive 70/457/EEC of 29 September 1970 on the common catalogue of varieties of agricultural plant species (OJ L 225, 12.10.1970, p. 1), as last amended by the Act of Accession of 1994.

    2.        Implementing provisions 1

    Commission Directive 72/180/EEC of 14 April 1972 determining the characteristics and minimum conditions for examining agricultural varieties (OJ L 108, 8.5.1972, p. 8).

    Commission Directive 74/268/EEC of 2 May 1974 laying down special conditions concerning the presence of 'Avena fatua' in fodder plant and cereal seed (OJ L 141, 24.5.1974, p. 19), as last amended by Directive 78/511/EEC (OJ L 157, 15.6.1978, p. 34).



1 Where applicable, only with regard to cereal seed.
    Commission Decision 80/755/EEC of 17 July 1980 authorising the indelible printing of prescribed information on packages of cereal seed (OJ L 207, 9.8.1980, p. 37), as last amended by Decision 81/109/EEC (OJ L 64, 11.3.1981, p. 13).

    Commission Decision 81/675/EEC of 28 July 1981 establishing that particular sealing systems are 'non-reusable systems' within the meaning of Council Directives 66/400/EEC, 66/401/EEC, 66/402/EEC, 69/208/EEC and 70/458/EEC (OJ L 246, 29.8.1981, p. 26), as last amended by Decision 86/563/EEC (OJ L 327, 22.11.1986, p. 50).

B.    LEGAL ACTS APPLICABLE TO SWITZERLAND 2 :

    Federal Law of 29 April 1998 on agriculture (RO 1998 3033).

    Ordinance of 7 December 1998 on the production and entry into free circulation of plant propagating material (RO 1999 420).

    Ordinance of the Swiss Federal Department of Economy of 7 December 1998 on seeds and seedlings of species of arable crops and fodder plants (RO 1999 781).

    Ordinance of the Swiss Federal Office for Agriculture on the catalogue of varieties of cereals, potatoes, fodder plants and hemp (RO 1999 429). 3

Section 2 (mutual recognition of certificates)

A.    LEGAL ACTS APPLICABLE TO THE EEA EFTA STATES:

National regulations introduced pursuant to the following acts, as incorporated in the EEA Agreement:


    1.         Basic legislation

    Council Directive 66/400/EEC of 14 June 1966 on the marketing of beet seed (OJ L 125, 11.7.1966, p. 2290/66), as last amended by Council Directive 96/72/EC (OJ L 304, 27.11.1996, p. 10).


2 Local varieties authorised for marketing in Switzerland are not covered.
3 Where applicable, only with regard to cereal.

    Council Directive 66/401/EEC of 14 June 1966 on the marketing of fodder plant seed (OJ L 125, 11.7.1966, p. 2298/66), as last amended by Council Directive 96/72/EC (OJ L 304, 27.11.1996, p. 10).

    Council Directive 69/208/EEC of 30 June 1969 on the marketing of seed of oil and fiber plants (OJ L 169, 10.7.1969, p. 3), as last amended by Council Directive 96/72/EC (OJ L 304, 27.11.1996, p. 10).

    2.         Implementing provisions 4

    Commission Directive 75/502/EEC of 25 July 1975 limiting the marketing of seed of smooth-stalk meadowgrass (Poa pratensis L.) to seed which has been officially certified 'basic seed' or 'certified seed' (OJ L 228, 29.8.1975, p. 26).

    Commission Decision 81/675/EEC of 28 July 1981 establishing that particular sealing systems are 'non-reusable systems' within the meaning of Council Directives 66/400/EEC, 66/401/EEC, 66/402/EEC, 69/208/EEC and 70/458/EEC (OJ L 246, 29.8.1981, p. 26), as last amended by Decision 86/563/EEC (OJ L 327, 22.11.1986, p. 50).

    Commission Directive 86/109/EEC of 27 February 1986 limiting the marketing of seed of certain species of fodder plants and oil and fiber plants to seed which has been officially certified as 'basic seed' or 'certified seed' (OJ L 93, 8.4.1986, p. 21), as last amended by Directive 91/376/EEC (OJ L 203, 26.7.1991, p. 108).


    Commission Decision 87/309/EEC of 2 June 1987 authorising the indelible printing of prescribed information on packages of seed of certain fodder plant species (OJ L 155, 16.6.1987, p. 26), as last amended by Decision 97/125/CE (OJ L 48, 19.2.1997, p. 35).

    Commission Decision 92/195/EEC of 17 March 1992 on the organisation of a temporary experiment under Council Directive 66/401/EEC on the marketing of fodder plant seed with regard to increasing the maximum weight of a lot (OJ L 88, 3.4.1992, p. 59), as last amended by Decision 96/203/EC (OJ L 65, 15.3.1996, p. 41).



4 Where applicable, excluding cereal seed.
B.    LEGAL ACTS APPLICABLE TO SWITZERLAND:

    Federal Law of 29 April 1998 on agriculture (RO 1998 3033).

    Ordinance of 7 December 1998 on the production and entry into free circulation of plant propagating material (RO 1999 420).

    Ordinance of the Swiss Federal Department of Economy of 7 December 1998 on seeds and seedlings of species of arable crops and fodder plants (RO 1999 781).

    Catalogue of seeds of the Swiss Federal Department of Economy of 6 June 1974, as last amended on 7 December 1998 (RO 1999 408).


C.    CERTIFICATES REQUIRED FOR IMPORTS:

    Official EC or OECD packaging labels issued by the bodies listed in Appendix 2 to this Annex and orange or green ISTA certificates or similar seed analysis certificates for each batch of seed.



APPENDIX 2

Seed inspection and certification bodies


ICELAND     Ministry of Agriculture
                     Sölvhólsgötu 7, 4th floor
                     150 Reykjavík
LIECHTENSTEIN     Service des Semences et Plants
                     RAC Changins
                    Nyon
                    Dienst für Saat- und Pflanzgut
                    FAL Reckenholz
                    Zürich
NORWAY    Norwegian Agricultural
                    Inspection Service
                    Moerveien 12
                    1430 Ås
SWITZERLAND     Service des Semences et Plants
                    RAC Changins
                    Nyon
                    Dienst für Saat- und Pflanzgut
                    FAL Reckenholz
                    Zürich


APPENDIX 3

List of third States


Recognition is based on Council Decision 95/514/EC (OJ L 296, 9.12.1995, p. 34), as last amended by Decision 98/162/EC (OJ L 53, 24.2.1998, p. 21), for field inspections of seed-producing crops and seeds produced, and on Council Decision 97/788/EC (OJ L 322, 25.11.1998, p. 39) for checks on practices for the maintenance of varieties.

ARGENTINA
AUSTRALIA
AUSTRIA
BELGIUM
BULGARIA
CANADA
CHILE
CROATIA
CZECH REPUBLIC
DENMARK
FINLAND
FRANCE
GERMANY
GREECE
HUNGARY
IRELAND
ISRAEL
ITALY
LUXEMBOURG
MOROCCO
NETHERLANDS
NEW ZEALAND
POLAND
PORTUGAL
ROMANIA
SLOVAKIA
SLOVENIA
SOUTH AFRICA
SPAIN
SWEDEN
TURKEY
UNITED KINGDOM
UNITED STATES OF AMERICA
URUGUAY


VIÐAUKI F

Lífrænn landbúnaður (11. gr.)


1. gr.
Markmið

    Með fyrirvara um skuldbindingar sínar að því er varðar framleiðsluvörur sem ekki eru upprunnar í aðildarríkjunum eða önnur lagaákvæði sem í gildi eru skuldbinda aðildarríkin sig, í samræmi við meginregluna um bann við mismunun og meginregluna um gagnkvæmni, til þess að ýta undir viðskipti með lífrænt ræktaðar landbúnaðarvörur og lífrænt ræktuð matvæli frá aðildarríkjunum sem samræmast lagagerningum sem skráðir eru í 1. viðbæti.

2. gr.
Gildissvið

1.     Viðauki þessi gildir um lífrænt ræktaðar plöntuafurðir og matvæli sem samræmast lagagerningum sem skráðir eru í 1. viðbæti.
2.     Aðildarríkin skuldbinda sig til að víkka út gildissvið þessa viðauka, þannig að hann taki til kvikfénaðar, dýraafurða og matvæla með innihaldsefnum úr dýraríkinu, þegar þau hafa samþykkt viðkomandi lög og reglur.

3. gr.
Jafngildisregla

1.     Aðildarríkin viðurkenna hér með lagagerninga sem skráðir eru í 1. viðbæti við þennan viðauka sem jafngilda. Aðildarríkin geta komið sér saman um að útiloka vissa þætti eða afurðir frá fyrirkomulagi um jafngildi. Þau skulu tilgreina þetta í 1. viðbæti.
2.     Aðildarríkin skulu gera sitt ítrasta til tryggja jafngilda þróun lagagerninga sem taka sérstaklega til afurða sem um getur í 2. gr.


4. gr.
Frjálsir flutningar á lífrænum afurðum

1.     Í samræmi við innlenda tilhögun á þessu sviði skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að geta flutt inn og markaðssett framleiðsluafurðir, sem um getur í 2. gr. og samræmast lagagerningum ríkjanna sem skráðir eru í l. viðbæti.

2.     Þetta skal ná yfir aðgengi að viðkomandi innlendum samræmismerkjum, opinberum kennimerkjum eða innsiglum sem eru notuð fyrir lífrænar afurðir á allar framleiðsluvörur, sem um getur í 2. gr. og samræmast lagagerningum ríkjanna sem skráðir eru í l. viðbæti.

5. gr.
Vörumerkingar

1.     Með tilliti til þess að þróa fyrirkomulag til að koma í veg fyrir að lífrænar framleiðsluafurðir, sem falla undir þennan viðauka, verði endurmerktar skulu aðildarríkin gera sitt ítrasta til að tryggja að lög þeirra og reglur kveði á um:
a)    verndun sömu hugtaka til að auðgreina lífrænar framleiðsluafurðir á opinberum tungumálum aðildarríkjanna;
b)    notkun sömu lögboðnu hugtakanna í athugasemdum á merkingum framleiðsluvara sem uppfylla jafngild skilyrði.
2.     Aðildarríkjunum er heimilt að tilgreina að framleiðsluafurðir, sem þau flytja inn hvert frá öðru, standist þær kröfur um vörumerkingar sem mælt er fyrir um í lagagerningum sem skráðir eru í 1. viðbæti

6. gr.
Þriðju ríki

1.     Aðildarríkin skulu gera sitt ítrasta til að tryggja að jafngildi ríki í innflutningsfyrirkomulagi fyrir lífrænt ræktaðar afurðir frá þriðju ríkjum.

2.     Til þess að tryggja jafngildi viðurkenningar í raun, þegar þriðju ríki eiga í hlut, skulu aðildarríkin hafa samráð áður en þau viðurkenna og bæta einhverju þriðja ríki í skrána sem í þessu skyni er felld inn í lög þeirra og reglur.

7. gr.
Miðlun upplýsinga

    Aðildarríkin skulu einkum senda hvert öðru eftirfarandi upplýsingar:
a)    skrá yfir lögbær yfirvöld og skoðunaraðila ásamt kenninúmerum, svo og eftirlitsskýrslur hlutaðeigandi yfirvalda;

b)    skrá yfir stjórnsýsluákvarðanir sem heimila innflutning á lífrænt ræktuðum afurðum frá þriðju ríkjum;
c)    upplýsingar um vanrækslu og brot á lagagerningum sem skráðir eru í 1. viðbæti, sem þau hafa komist á snoðir um.

8. gr.
Nefnd um lífrænar afurðir

1.     Ráðið skal koma á fót nefnd um lífrænar afurðir (hér á eftir kölluð „nefndin“) og skal hún fjalla um öll mál sem upp kunna að koma í tengslum við þennan viðauka.og framkvæmd á ákvæðum hans.

2.     Nefndin skal endurskoða reglulega lög og reglur aðildarríkjanna á þeim sviðum sem falla undir þennan viðauka. Hún ber einkum ábyrgð á:

a)    að sanna að lög og reglur aðildarríkjanna séu jafngild með tilliti til upptöku í 1. viðbæti;

b)    að beina þeim tilmælum til ráðsins, ef þörf krefur, að skrá nauðsynlegar reglur í 2. viðbæti með tilliti til þess að tryggja á yfirráðasvæði aðildarríkjanna samræmda beitingu laga og reglna sem falla undir þennan viðauka;
c)    að beina þeim tilmælum til ráðsins að víkka út gildissvið þessa viðauka, þannig að hann taki til annarra framleiðsluvara en þeirra sem falla undir 1. mgr. 2. gr.;
d)    að beina þeim tilmælum til ráðsins að breyta ákvæðum viðbætanna.


1. VIÐBÆTIR


Reglugerðir sem gilda í EFTA-ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu

Innlendar reglugerðir sem eru teknar upp á grundvelli eftirtalinna gerninga, sem eru felldir inn í EES-samninginn:

Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2092/91 frá 24. júní 1991 um lífræna framleiðslu landbúnaðarafurða og merkingar þar að lútandi á landbúnaðarafurðum og matvælum (Stjtíð. EB L 198, 22.7.1991, bls. 1), eins og henni var síðast breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr.1900/98 (Stjtíð. EB L 247, 5.9.1998, bls. 6).

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 94/92 frá 14. janúar 1992 um nákvæmar reglur um innflutning frá þriðju löndum sem kveðið er á um í reglugerð (EBE) nr. 2092/91 um lífræna framleiðslu landbúnaðarafurða og ábendingar þar að lútandi á landbúnaðarafurðum og matvælum (Stjtíð. EB L 11, 17.1.1992, bls. 14).

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 3457/92 frá 30. nóvember 1992 um nákvæmar reglur um skoðunarvottorð vegna innflutnings frá þriðju löndum til bandalagsins, sem kveðið er á um í reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2092/91 um lífræna framleiðslu landbúnaðarafurða og merkingar þar að lútandi á landbúnaðarafurðum og matvælum (Stjtíð. EB L 350, 1.12.1992, bls. 56).

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 207/93 frá 29. janúar 1993 um skilgreiningu á innihaldi VI. viðauka við reglugerð (EBE) nr. 2092/91 um lífræna framleiðslu landbúnaðarafurða og ábendingar þar að lútandi á landbúnaðarafurðum og matvælum og nákvæmar reglur um hvernig ber að hrinda ákvæðum 4. mgr. 5. gr. hennar í framkvæmd (Stjtíð. EB L 25, 2.2.1993, bls. 5), eins og henni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr 345/97 (Stjtíð. EB L 58, 27.2.1997, bls. 38).

Reglugerðir sem gilda í Sviss

Reglugerð frá 22. september 1997 um lífræna ræktun og merkingu á lífrænt ræktuðum plöntuafurðum og matvælum (reglugerð um lífræna ræktun), eins og henni var síðast breytt 23. ágúst 2000 (RO 2000 1625).

Reglugerð efnahagsráðuneytis Svissneska ríkjasambandsins frá 22. september 1997 um lífræna ræktun, eins og henni var síðast breytt 23. ágúst 2000 (RO 2000 1625).

Útilokun frá fyrirkomulagi um jafngildi

Svissneskar afurðir, að meginhluta úr innihaldsefnum sem eru framleidd samkvæmt fyrirkomulagi um aðlögun að lífrænni ræktun.


2. VIÐBÆTIR


Reglur um beitingu

- engar færslur -

ANNEX F

Organic agriculture (Art. 11)


ARTICLE 1
Objectives

    Without prejudice to their obligations with regard to products not originating in the Member States or other legislative provisions in force, the Member States undertake, in accordance with the principles of non-discrimination and reciprocity, to foster trade in organically produced agricultural products and foodstuffs from the Member States complying with the legal acts listed in Appendix 1.


ARTICLE 2
Scope

1.     This Annex shall apply to organically produced plant products and foodstuffs complying with the legal acts listed in Appendix 1.
2.     The Member States undertake to extend the scope of this Annex to livestock, animal products and foodstuffs containing ingredients of animal origin once they have adopted the relevant laws and regulations.

ARTICLE 3
Principle of equivalence

1.     The Member States hereby recognise the legal acts listed in Appendix 1 to this Annex as equivalent. The Member States may agree to exclude certain aspects or products from the equivalence arrangements. They shall specify this in Appendix 1.
2.     The Member States shall do their utmost to ensure that the legal acts specifically covering products as referred to in Article 2 develop along equivalent lines.

ARTICLE 4
Free movement of organic products

1.     In accordance with their internal procedures in this area, the Member States shall take the necessary measures so that products as referred to in Article 2 and complying with each other's legal acts listed in Appendix 1 can be imported and placed on the market.
2.     This shall include access to their respective national signs of conformity, official logos or seals used for organic products for all products as referred to in Article 2 and complying with each other's legal acts listed in Appendix 1.


ARTICLE 5
Labelling

1.     With a view to developing arrangements to prevent the relabelling of organic products covered by this Annex, the Member States shall do their utmost to ensure that their laws and regulations provide for:

(a)    the protection of the same terms designating organic products in their various official languages;

(b)    the use of the same compulsory terms in declarations on the labelling of products meeting equivalent conditions.
2.     The Member States may specify that products imported from each other meet the requirements on labelling laid down in their legal acts listed in Appendix 1.

ARTICLE 6
Third States

1.     The Member States shall do their utmost to ensure that the import arrangements applicable to organically produced products from third States are equivalent.
2.     With a view to ensuring equivalence in practice as regards recognition in the case of third States, the Member States shall consult each other before they recognise and include any third State in the list drawn up to that end in their laws and regulations.

ARTICLE 7
Exchange of information

    Member States shall in particular send each other the following information:
(a)    lists of their competent authorities and inspection bodies and the code numbers thereof, and reports on surveillance by the authorities responsible therefor;
(b)    lists of administrative decisions authorising imports of organically produced products from third States;
(c)    details of observed irregularities and infringements of the legal acts listed in Appendix 1.


ARTICLE 8
Committee on organic products

1.     The Council shall establish a Committee on Organic Products (hereinafter referred to as the “Committee”), which shall consider all matters which may arise in connection with this Annex and its implementation.
2.     The Committee shall periodically consider the state of the respective laws and regulations of the Member States in the fields covered by this Annex. It shall be responsible in particular for:

(a)    verifying that the Member States' laws and regulations are equivalent with a view to their inclusion in Appendix 1;
(b)    recommending to the Council, where necessary, that the requisite rules be included in Appendix 2 with a view to ensuring consistent application of the laws and regulations covered by this Annex in the territory of the Member States;
(c)    recommending to the Council that the scope of this Annex be extended to products other than those covered by Paragraph 1 of Article 2;

(d)    recommending to the Council to amend the provisions of the Appendices.


APPENDIX 1

Regulations applicable in the EEA EFTA States


National regulations introduced pursuant to the following acts, as incorporated in the EEA Agreement:


Council Regulation (EEC) No 2092/91 of 24 June 1991 on organic production of agricultural products and indications referring thereto on agricultural products and foodstuffs (OJ L 198, 22.7.1991, p. 1), as last amended by Commission Regulation (EC)
No 1900/98 of (OJ L 247, 5.9.1998, p. 6).


Commission Regulation (EEC) No 94/92 of 14 January 1992 laying down detailed rules for implementing the arrangements for imports from third countries provided for in Regulation (EEC) No 2092/91 on organic production of agricultural products and indications referring thereto on agricultural products and foodstuffs (OJ L 11, 17.1.1992, p. 14).

Commission Regulation (EEC) No 3457/92 of 30 November 1992 laying down detailed rules concerning the inspection certificate for imports from third countries into the Community provided for in Council Regulation (EEC) No 2092/91 on organic production of agricultural products and indications referring thereto on agricultural products and foodstuffs (OJ L 350, 1.12.1992, p. 56).

Commission Regulation (EEC) No 207/93 of 29 January 1993 defining the content of Annex VI to Regulation (EEC) No 2092/91 on organic production of agricultural products and indications referring thereto on agricultural products and foodstuffs and laying down detailed rules for implementing the provisions of Article 5(4) thereof (OJ L 25, 2.2.1993, p. 5), as last amended by Regulation (EC) No 345/97 (JO L 58, 27.2.1997, p. 38).


Regulations applicable in Switzerland

Ordinance of 22 September 1997 on organic farming and the labelling of organically produced plant products and foodstuffs (Ordinance on organic farming), as last amended on 23 August 2000 (RO 2000 1625).


Ordinance of the Swiss Federal Department of Economy of 22 September 1997 on organic farming, as last amended on 23 August 2000 (RO 2000 1625).


Exclusion from the equivalence arrangements

Swiss products based on ingredients produced under the arrangements for conversion to organic farming.



APPENDIX 2


Rules of application

- no entries -



VIÐAUKI G

Ráðstafanir um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna (12. gr.)


    Ákvæði samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna eiga við um réttindi og skyldur aðildarríkjanna að því er varðar ráðstafanir um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna.

ANNEX G

Sanitary and Phytosanitary Measures (Art. 12)



    The rights and obligations of the Member States in respect of sanitary and phytosanitary measures shall be governed by the WTO Agreement on the Application of Sanitary and Phytosanitary Measures.


VIÐAUKI H

Reglur um tilhögun upplýsingaskipta vegna tæknilegra reglna og reglna um þjónustu í upplýsingasamfélaginu (14. gr.)


1. gr.

    Í þessum viðauka er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.     „Vara“: öll iðnaðarvara og öll landbúnaðarvara, þar með taldar sjávarafurðir.
2.     „Þjónusta“: öll þjónusta í upplýsingasamfélaginu, þ.e. þjónusta sem veitt er gegn endurgjaldi, úr fjarlægð, með rafrænum aðferðum og að sérstakri beiðni viðtakanda.
    Nánar um þessa skilgreiningu:
–    „úr fjarlægð“ merkir að þjónustan er veitt án þess að aðilar séu viðstaddir samtímis,
–    „með rafrænum hætti“ merkir að þjónustan er upphaflega send og tekið við henni með rafrænum búnaði til vinnslu (þar með talin stafræn samþjöppun) og geymslu gagna, og að öllu leyti send, henni miðlað og tekið við henni um rafþráð, þráðlausan búnað, sjónrænt eða með öðrum þráðlausum aðferðum,
–    „að sérstakri beiðni viðtakanda“ merkir að þjónustan er veitt með gagnaflutningi að fenginni sérstakri beiðni.
    Viðauki þessi gildir ekki um:
–    útvarpssendingar,
–    sjónvarpssendingar.
3.     „Tækniforskrift“: forskrift í skjali þar sem tilgreindir eru þeir eiginleikar sem vara verður að hafa, þar með talið gæðastig, skil, öryggi eða stærðir og aðrar kröfur er lúta að því heiti sem varan er seld undir, íðorðanotkun, táknum, prófunum og prófunaraðferðum, umbúðum, áletrun eða umbúðamerkingum og aðferðum við mat á samræmi.


    Hugtakið „tækniforskrift“ nær einnig til aðferða við framleiðslu og vinnslu matvæla, dýrafóðurs og lyfja, auk aðferða við framleiðslu og vinnslu annarra vara, hafi þessar aðferðir áhrif á eiginleika þeirra.


4.     „Aðrar kröfur“: önnur krafa en tækniforskrift, sem vara skal uppfylla í þeim tilgangi að vernda, einkum og sér í lagi, neytendur eða umhverfið og sem hefur áhrif á líftíma hennar eftir að hún er markaðssett, svo sem skilyrði fyrir notkun, endurvinnsla, endurnotkun eða förgun, geti þessi skilyrði haft veruleg áhrif á samsetningu eða eðli vörunnar eða markaðssetningu hennar.
5.     „Regla um þjónustu“: almenn krafa sem tengist því að taka upp og stunda þjónustustarfsemi í skilningi 2. liðar, einkum ákvæði um þjónustuveitanda, þjónustu og viðtakanda þjónustu, að frátöldum reglum sem fjalla ekki með beinum hætti um þjónustu sem er skilgreind í þeim lið.

    Viðauki þessi gildir ekki á sviði fjarskiptaþjónustu. Í þessari málsgrein merkir „fjarskiptaþjónusta“ þjónustu sem að nokkru eða öllu leyti felst í því að senda og/eða beina merkjum um fjarskiptanet með fjarskiptaaðferðum, að undanskildum hljóðvarps- og sjónvarpssendingum.


    Viðauki þessi gildir ekki á sviði fjármálaþjónustu, svo sem fjárfestingarþjónustu, vátryggingar- og endurtryggingarstarfsemi, bankastarfsemi, starfsemi í tengslum við lífeyrissjóði og þjónustu í tengslum við viðskipti með framvirka staðlaða samninga eða kauprétt.
    Burtséð frá ákvæðum 3. mgr. 2. gr. þessa viðauka gildir viðauki þessi ekki um reglur vegna skipulegs markaðar (fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta) eða annarra markaða eða aðila sem annast greiðslujöfnun eða uppgjör á þessum mörkuðum.
    Nánar um þessa skilgreiningu:
–    regla telst fjalla með beinum hætti um upplýsingasamfélagið ef, með hliðsjón af þeim röksemdum og þeirri virkni sem í henni felst, sérstakt markmið og viðfang í öllum eða sumum sérákvæðum hennar er að stýra slíkri þjónustu á skilgreindan og markvissan hátt,
–    regla telst ekki fjalla með beinum hætti um upplýsingasamfélagið ef hún hefur einungis óbein eða ómeðvituð áhrif á slíka þjónustu.

6.     „Staðall“: tækniforskrift sem viðurkenndur stöðlunaraðili hefur samþykkt og beita má með endurteknum hætti eða að staðaldri en er ekki skylt að fara eftir og er einn eftirfarandi staðla:
–    alþjóðlegur staðall: staðall sem alþjóðleg staðlastofnun hefur samþykkt og almenningur hefur aðgang að,
–    evrópskur staðall: staðall sem evrópsk staðlastofnun hefur samþykkt og almenningur hefur aðgang að,
–    landsstaðall: staðall sem innlend staðlastofnun hefur samþykkt og almenningur hefur aðgang að.

7.     „Tæknileg regla“: tækniforskrift og aðrar kröfur, eða reglur um þjónustu, þar með talin viðeigandi stjórnsýsluákvæði, sem skylt er, samkvæmt lögum eða í raun, að fylgja þegar um er að ræða markaðssetningu, þjónustustarfsemi, staðfestu þjónustuveitenda eða við notkun í aðildarríki eða stórum hluta þess, ásamt lögum eða stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna, nema þau ákvæði sem kveðið er á um í 4. gr. þessa viðauka, sem banna framleiðslu, innflutning, markaðssetningu eða notkun vöru eða banna þjónustustarfsemi, notkun þjónustu eða staðfestu þjónustuveitenda.

     Tæknilegar reglur sem ber að hlíta í raun eru meðal annars:
–    lög eða stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkis sem annaðhvort vísa til tækniforskrifta eða annarra krafna eða reglna um þjónustu eða til siðareglna starfsgreinar eða framkvæmdareglna sem aftur vísa til tækniforskrifta eða annarra krafna eða reglna um þjónustu, en ef þessum forskriftum, kröfum eða reglum er hlítt má ganga út frá samræmi við skyldur samkvæmt fyrrnefndum lögum eða stjórnsýslufyrirmælum,

–    frjálsir samningar sem opinber stjórnvöld eru aðili að og kveða á um, í þágu almennings, að tækniforskriftum eða öðrum kröfum eða reglum um þjónustu sé hlítt, að undanskildum útboðslýsingum í tengslum við opinber innkaup,

–    tækniforskriftir eða aðrar kröfur eða reglur um þjónustu sem tengjast ráðstöfunum í skatta- eða fjármálum sem hafa áhrif á neyslu vara með því að hvatt er til að þessum tækniforskriftum eða öðrum kröfum eða reglum um þjónustu sé hlítt; tækniforskriftir eða aðrar kröfur eða reglur um þjónustu sem tengjast innlendum almannatryggingakerfum eru undanskildar.

    Hér er um að ræða tæknilegar reglur sem þau stjórnvöld, sem aðildarríkin tilnefna, setja og sem birtast í skrá sem ráðið mun semja fyrir gildistöku þessa viðauka.
    Beita skal sömu aðferð við að breyta skránni.

8.     „Drög að tæknilegri reglu“, texti tækniforskriftar eða annarrar kröfu, þar með talin stjórnsýsluákvæði, sem samin hefur verið í þeim tilgangi að fá textann samþykktan eða lagðan fram til samþykkis sem tæknilega reglu, enda sé hann á því samningsstigi að enn megi gera verulegar breytingar.

    Þessi viðauki gildir ekki um ráðstafanir sem aðildarríki telja nauðsynlegar til að vernda einstaklinga, einkum launþega, þegar vörur eru notaðar, að því tilskildu að þær ráðstafanir hafi ekki áhrif á vörurnar.

2. gr.

1.     Aðildarríkjunum ber, með fyrirvara um ákvæði 4. gr., að koma þegar í stað á framfæri við ráðið öllum drögum að tæknilegum reglum, að undanskildum þeim, þar sem alþjóðlegur eða evrópskur staðall er tekinn upp orðrétt. Þá nægir að veita henni upplýsingar um viðkomandi staðal. Þau skulu einnig láta ráðinu í té yfirlýsingu um ástæðurnar fyrir því að nauðsynlegt er að lögleiða umrædda tæknilega reglu, komi það ekki skýrt fram í sjálfum drögunum:
a)    Í tilkynningunni skulu vera orðrétt drög að tæknilegu reglunni, bæði á frummálinu og í orðréttri þýðingu eða í samantekt á ensku.

b)    Aðildarríkjunum ber, eftir því sem við á, að koma texta laga- eða reglugerðaákvæða, sem í aðalatriðum og beinlínis liggja til grundvallar, samtímis á framfæri ef nauðsynlegt er að þekkja til þessa texta þegar meta skal áhrif sem drög að tæknilegri reglu hafa, nema hann hafi áður verið sendur með fyrirfram orðsendingu.
c)    Aðildarríkjunum ber að koma drögunum aftur á framfæri samkvæmt fyrrnefndum skilmálum, geri þau breytingar á þeim sem hafa í för með sér umtalsverðar breytingar á gildissviði þeirra, stytta upphaflega tímaáætlun til framkvæmda, bæta við forskriftum eða kröfum eða herða þær sem fyrir eru.
d)    Ef drögunum er einkum ætlað að takmarka markaðssetningu eða notkun íðefnis, efnablöndu eða vöru, vegna heilsu almennings eða í þeim tilgangi að vernda neytendur eða umhverfi, ber aðildarríkjunum að senda annaðhvort yfirlit yfir eða tilvísun til allra upplýsinga sem máli skipta um viðkomandi efni, efnablöndu eða vöru og þekktar og fáanlegar staðgönguvörur, liggi þessar upplýsingar á lausu, og koma upplýsingum á framfæri um fyrirsjáanleg áhrif þessarar ráðstöfunar á heilsu almennings og verndun neytenda og umhverfis ásamt áhættumati sem fram fari, eftir því sem við á, í samræmi við almennar meginreglur um áhættumat nýrra og fyrirliggjandi íðefna.


e)    Ráðið skal þegar í stað tilkynna hinum aðildarríkjunum um drögin og öll skjöl sem hún fær í hendur. Henni er einnig heimilt, ef við á, að leita álits nefndarinnar (hér á eftir kölluð „nefndin“), sem um getur í 5. gr., á drögunum og álits þeirrar nefndar sem fjallar um viðkomandi svið.

f)    Umsagnir eða ítarlegt álit aðildarríkjanna varðandi tækniforskriftir eða aðrar kröfur eða reglur um þjónustu, sem um getur í þriðja undirlið annarrar undirgreinar 7. mgr. 1. gr., mega aðeins fjalla um þá þætti sem kunna að hindra viðskipti eða, að því er varðar reglur um þjónustu, frjálsa þjónustustarfsemi eða staðfesturétt þjónustuveitenda en ekki um þá þætti ráðstöfunarinnar sem lúta að skatta- eða fjármálum.

2.     Aðildarríkin geta sent athugasemdir sínar til þess aðildarríkis er sent hefur frá sér drög að tæknilegri reglu. Aðildarríkinu ber að taka athugasemdirnar til greina við samningu hinnar tæknilegu reglu, að því marki sem unnt er.
3.     Aðildarríkjunum ber að koma endanlegum texta tæknilegrar reglu á framfæri við ráðið án tafar.

4.     Ekki skal fara með upplýsingar, sem veittar eru samkvæmt þessari grein, sem trúnaðarmál nema aðildarríkið, sem sendir tilkynningu, fari þess eindregið á leit. Allar slíkar beiðnir skal rökstyðja. Í slíkum tilvikum er nefndinni og innlendum yfirvöldum heimilt, séu nauðsynlegar varúðarráðstafanir gerðar, að leita sérfræðiráðgjafar hjá einstaklingum eða lögpersónum í einkageiranum.

3. gr.

1.     Aðildarríkin skulu fresta að samþykkja drög að tæknilegri reglu í þrjá mánuði frá þeim degi er ráðinu berst orðsendingin sem um getur í 1. mgr. 2. gr.

2.     Aðildarríkin skulu fresta:
–    að samþykkja önnur drög að tæknilegri reglugerð, í formi frjáls samnings í skilningi annars undirliðar 7. mgr. 1. gr., í fjóra mánuði;

–    að samþykkja nokkur önnur drög að reglum um þjónustu í fjóra mánuði;
–    að samþykkja nokkur önnur drög að tæknilegum reglum í sex mánuði;
frá þeim degi er ráðinu berst orðsendingin, sem um getur í 1. mgr. 2. gr., leggi annað aðildarríki fram ítarlegt álit innan þriggja mánaða frá þeim degi, þess efnis að fyrirhugaðar ráðstafanir kunni að hindra frjálsa vöruflutninga eða frjálsa þjónustustarfsemi eða standa í vegi fyrir staðfesturétti þjónustuveitenda innan þátttökusvæðisins.

3.     Að því er varðar drög að reglum um þjónustu má ítarlegt álit aðildarríkja ekki hafa áhrif á neinar ráðstafanir í tengslum við menningarstefnu, einkum á sviði hljóð- og myndmiðlunar, sem aðildarríki kann að samþykkja í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar, að teknu tilliti til fjölbreytni tungumála, innlendra og svæðisbundinna séreinkenna og menningararfleifðar.
4.     Viðkomandi aðildarríki skal gefa ráðinu skýrslu um með hvaða hætti það hyggst bregðast við þessu ítarlega áliti.
5.     Að því er varðar reglur um þjónustu skal hlutaðeigandi aðildarríki, eftir því sem við á, tilgreina ástæðu þess að ekki er hægt að taka ítarlegt álit til greina.
6.     Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda ekki:

a)    ef aðildarríki neyðist, af brýnum ástæðum sem rekja má til alvarlegra og ófyrirséðra atvika sem tengjast því að vernda heilsu almennings eða öryggi, vernda dýr eða plöntur, og að því er varðar reglur um þjónustu sem og allsherjarreglu, sér í lagi að vernda ólögráða börn, til að semja tæknilega reglugerð á mjög skömmum tíma í þeim tilgangi að samþykkja og hrinda ákvæðum hennar í framkvæmd án tafar án þess að samráð komi til; eða
b)    ef aðildarríki neyðist, af brýnum ástæðum sem tengjast því að vernda öryggi og heilleika fjármálakerfisins, sér í lagi að vernda sparifjáreigendur, fjárfesta og þá sem tryggðir eru, til að setja og taka upp reglur um fjármálaþjónustu án tafar.

7.     Aðildarríkið skal, í orðsendingunni sem um getur í 2. gr., tilgreina hinar brýnu ástæður fyrir þeim ráðstöfunum sem gerðar eru. Rökstuðningur fyrir bráðaráðstöfunum skal vera nákvæmur, greinilega útlistaður og sérstök áhersla lögð á hve ófyrirsjáanleg og alvarleg sú hætta er sem hlutaðeigandi yfirvöld standa frammi fyrir og hve nauðsynlegt er að grípa tafarlaust til aðgerða í því skyni að bægja henni frá. Nefndin skal leggja fram álit sitt á orðsendingunni eins fljótt og við verður komið. Hún skal grípa til viðeigandi aðgerða ef þessari málsmeðferð er beitt með óviðeigandi hætti.

4. gr.

1.     Ákvæði 2. og 3. gr. gilda ekki um lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkjanna eða frjálsa samninga sem þau beita til að uppfylla skuldbindingar vegna alþjóðasamninga þar sem stefnt er að því að samþykkja almennar tækniforskriftir eða reglur um þjónustu.

2.     Ákvæði 3. gr. gilda ekki um lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkjanna sem banna framleiðslu svo fremi að þau hefti ekki frjálsa vöruflutninga.

3.     Ákvæði 3. gr. gilda ekki um tækniforskriftir eða aðrar kröfur eða reglur um þjónustu sem um getur í þriðja undirlið 7. mgr. 1. mgr.

5. gr.

1.     Ráðið skal koma á fót nefnd, sem skal vera ábyrg fyrir meðferð og réttri beitingu á ákvæðum þessa viðauka.
2.     Nefndin skal koma með tilmæli þar að lútandi.

3.     Nefndin getur einkum beint þeim tilmælum til ráðsins að breyta ákvæðum viðbætisins.
4.     Nefndin skal koma saman með sérstakri skipan nefndarmanna sem kanna vafaatriði varðandi þjónustu í upplýsingasamfélaginu.

ANNEX H

Procedure for the provision of information in the field of technical regulations and of rules on Information Society services (Art. 14)


ARTICLE 1

    For the purposes of this Annex, the following definitions shall apply:
1.     “Product”: any industrially manufactured product and any agricultural product, including fish products.
2.     “Service”: any Information Society service, that is to say, any service normally provided for remuneration, at distance, by electronic means and at the individual request of a recipient of services.
    For the purposes of this definition:
–    'at a distance' means that the service is provided without the parties being simultaneously present,
–    'by electronic means' means that the service is sent initially and received at its destination by means of electronic equipment for the processing (including digital compression) and storage of data, and entirely transmitted, conveyed and received by wire, by radio, by optical means or by other electromagnetic means,
–    'at the individual request of a recipient of services' means that the service is provided through the transmission of data on individual request.
    This Annex shall not apply to:
–    radio broadcasting services,
–    television broadcasting services.
3.     “Technical specification”: a specification contained in a document which lays down the characteristics required of a product such as levels of quality, performance, safety or dimensions, including the requirements applicable to the product as regards the name under which the product is sold, terminology, symbols, testing and test methods, packaging, marking or labeling and conformity assessment procedures.
    The term “technical specification” also covers production methods and processes used in respect of products intended for human and animal consumption, and medicinal products, as well as production methods and processes relating to other products, where these have an effect on their characteristics.
4.     “Other requirement”: a requirement, other than a technical specification, imposed on a product for the purpose of protecting, in particular, consumers or the environment and which affects its life cycle after it has been placed on the market, such as conditions of use, recycling, re-use, or disposal, where such conditions can significantly influence the composition or nature of the product or its marketing.
5.     “Rule on services”: requirement of a general nature relating to the taking-up and pursuit of service activities within the meaning of point 2, in particular provisions concerning the service provider, the services and the recipient of services, excluding any rules which are not specifically aimed at the services defined in that point.
    This Annex shall not apply to rules in the field of telecommunication services. For the purposes of this paragraph, “telecommunication services” means services whose provision consists wholly or partly in the transmission and routing of signals on a telecommunications network by means of telecommunications processes, with the exception of radio broadcasting and television.
    This Annex shall not apply to rules in the field of financial services, such as investment services, insurance and reinsurance operations, banking services, operations relating to pension funds, and services relating to dealing futures or options.

    With the exception of Article 2(3) this Annex shall not apply to rules enacted by or for regulated markets (investment services in the securities field) or by or for other markets or bodies carrying out clearing or settlement functions for those markets.
    For the purposes of this definition:
–    a rule shall be considered to be specifically aimed at Information Society services where, having regard to its statement of reasons and its operative part, the specific aim and object of all or some of its individual provisions is to regulate such services in an explicit and targeted manner,
–    a rule shall not be considered to be specifically aimed at Information Society services if it affects such services only in an implicit or incidental manner.
6.     “Standard”: a technical specification approved by a recognized standardization body for repeated or continuous application, with which compliance is not compulsory, and which is one of the following:
–    international standard: a standard adopted by an international standardization organization and made available to the public,
–    European standard: a standard adopted by one of the European standardization bodies and made available to the public,
–    national standard: a standard adopted by a national standardization body and made available to the public.
7.     “Technical regulation”: technical specifications and other requirements, or rules on services, including the relevant administrative provisions, the observance of which is compulsory, de jure or de facto, in the case of marketing, provision of a service, establishment of a service operator, or use in a Member State or a major part thereof, as well as laws, regulations or administrative provisions of Member States, except those provided for in Article 4 of this Annex prohibiting the manufacture, importation, marketing or use of a product, or prohibiting the provision or use of a service, or establishment as a service provider.
     De facto technical regulations include:

–    laws, regulations or administrative provisions of a Member State which refer either to technical specifications or other requirements or to rules on services or to professional codes or codes of practice which in turn refer to technical specifications or other requirements or to rules on services, compliance with which confers a presumption of conformity with the obligations imposed by the aforementioned laws, regulations or administrative provisions,
–    voluntary agreements to which a public authority is a contracting party and which provide, in the public interest, for compliance with technical specifications or other requirements or rules on services, excluding public procurement tender specifications,
–    technical specifications or other requirements or rules on services which are linked to fiscal or financial measures affecting the consumption of products or services by encouraging compliance with such technical specifications or other requirements or rules on services; technical specifications or other requirements or rules on services linked to national social-security systems are not included.
    This comprises technical regulations imposed by the authorities designated by the Member States and appearing on a list to be drawn up by the Council before the entry into force of this Annex.
    The same procedure shall be used for amending this list.
8.     “Draft technical regulation”: the text of a technical specification or other requirement, or rule on services, including administrative provisions formulated with the aim of enacting it or of ultimately having it enacted as a “technical regulation”, the text being at a stage of preparation at which substantial amendments can still be made.
    This Annex shall not apply to those measures which Member States consider necessary for the protection of persons, in particular workers, when products are used, provided that such measures do not affect the products.

ARTICLE 2

1.     Subject to Article 4, Member States shall immediately communicate to the Council any draft technical regulation, except where it merely transposes the full text of an international or European standard, in which case information regarding the relevant standard shall suffice; they shall also let the Council have a statement of the grounds which make the enactment of such a technical regulation necessary, where these are not already made clear in the draft:
(a)    The notification shall include the full text of the draft technical regulation both in the original language and in a full translation or a summary into English;
(b)    Where appropriate, and unless it has already been sent with a prior communication, Member States shall simultaneously communicate the text of the basic legislative or regulatory provisions principally and directly concerned, should knowledge of such text be necessary to assess the implications of the draft technical regulation;
(c)    Member States shall communicate the draft again under the above conditions if they make changes to the draft that have the effect of significantly altering its scope, shortening the timetable originally envisaged for implementation, adding specifications or requirements, or making the latter more restrictive;
(d)    Where, in particular, the draft seeks to limit the marketing or use of a chemical substance, preparation or product on grounds of public health, or of the protection of consumers or the environment, Member States shall also forward either a summary or the references of all relevant data relating to the substance, preparation or product concerned and to known and available substitutes, where such information may be available, and communicate the anticipated effects of the measure on public health and protection of the consumer and the environment, together with an analysis of the risk carried out as appropriate in accordance with the general principles for the risk evaluation of new and existing chemical substances;
(e)    The Council shall immediately notify the other Member States of the draft and all documents which have been forwarded to it; it may also, where appropriate, refer this draft, for an opinion to the Committee referred to in Article 5 (hereinafter the “Committee”), and to the committee responsible for the field in question;
(f)    With respect to the technical specifications or other requirements or rules on services referred to in the third indent of the second subparagraph of point 7 of Article 1, the comments or detailed opinions of the Member States may concern only the aspect which may hinder trade or, in respect of rules on services, the free movement of services or the freedom of establishment of service operators and not the fiscal or financial aspect of the measure.
2.     The Member States may make comments to the Member State which has forwarded a draft technical regulation. That Member State shall take such comments into account as far as possible in the subsequent preparation of the technical regulation.
3.     The Member States shall communicate the definitive text of a technical regulation to the Council without delay.
4.     Information supplied under this Article shall not be confidential except at the express request of the notifying Member State. Any such request shall be supported by reasons. In cases of this kind, if necessary precautions are taken, the Committee and the national authorities may seek expert advice from physical or legal persons in the private sector.


ARTICLE 3

1.     Member States shall postpone the adoption of a draft technical regulation for three months from the date of receipt by the Council of the communication referred to in Paragraph 1 of Article 2.
2.     Member States shall postpone:
–    for four months the adoption of a draft technical regulation in the form of a voluntary agreement within the meaning of Article 1(7), second indent;
–    for four months the adoption of any draft rule on services;
–    for six months the adoption of any other draft technical regulation;
from the date of receipt by the Council of the communication referred to in Article 2(1) if another Member State delivers a detailed opinion, within three months of that date, to the effect that the measure envisaged may create obstacles to the free movement of goods or services, or to the freedom of establishment of service operators within the area of the Association.
3.     With regard to draft rules on services, detailed opinions from Member States may not affect any cultural policy measures, in particular in the audiovisual sphere, which a Member State might adopt in accordance with its international obligations, taking account of their linguistic diversity, their specific national and regional characteristics and their cultural heritages.
4.     The Member State concerned shall report to the Council on the action it proposes to take on such detailed opinions.
5.     With respect to rules on services, the Member State concerned shall indicate, where appropriate, the reasons why the detailed opinions cannot be taken into account.
6.     Paragraphs 1 and 2 shall not apply in those cases where:
(a)    for urgent reasons, occasioned by serious and unforeseeable circumstances, relating to the protection of public health or safety, the protection of animals or the preservation of plants, and for rules on services, also for public policy, notably the protection of minors, a Member State is obliged to prepare technical regulations in a very short space of time in order to enact and introduce them immediately without any consultations being possible; or
(b)    for urgent reasons occasioned by serious circumstances relating to the protection of the security and the integrity of the financial system, notably the protection of depositors, investors and insured persons, the Member States are obliged to enact and implement rules on financial services immediately.
7.     The Member State shall give, in the communication referred to in Article 2, the reasons which warrant the urgency of the measures taken. The justification for urgent measures shall be detailed and clearly explained with particular emphasis on the unpredictability and the seriousness of the danger confronting the concerned authorities as well as the absolute necessity for immediate action to remedy it. The Committee shall give its views on the communication as soon as possible. It shall take appropriate action in cases where improper use is made of this procedure.

ARTICLE 4

1.     Article 2 and 3 shall not apply to those laws, regulations and administrative provisions of the Member States or voluntary agreements by means of which those Member States fulfil the obligations arising out of international agreements which result in the adoption of common technical specifications, or rules on services.
2.     Article 3 shall not apply to laws, regulations and administrative provisions of the Member States prohibiting manufacture insofar as they do not impede the free movement of products.
3.     Article 3 shall not apply to the technical specifications or other requirements or the rules on services referred to in Paragraph 7 of Article 1, third indent.

ARTICLE 5

1.     The Council shall establish a Committee which shall be responsible for the management and proper application of this Annex.
2.     For this purpose, the Committee shall make recommendations.
3.     The Committee may in particular recommend to the Council to amend the provisions of this Annex.
4.     The Committee shall meet in specific composition to examine questions concerning Information Society services.

VIÐAUKI I

Gagnkvæm viðurkenning með tilliti til samræmismats (15. gr.)


EFNISYFIRLIT


1.     Grunnákvæði
2.     Fyrsti viðbætir: Framleiðslusvið
3.    Annar viðbætir: Almennar reglur varðandi tilnefningu aðila sem annast samræmismat.

1. gr.
Markmið

1.     Sviss og EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu samþykkja hér með gagnkvæmt skýrslur, vottorð, leyfi og samræmismerki sem stofnanir, tíundaðar í 1. viðbæti, gefa út svo og samræmisyfirlýsingar framleiðanda er votta samræmi við kröfur hvers annars á sviðum er heyra undir 3. gr.

2.     Ef kröfur Sviss og á Evrópska efnahagssvæðinu teljast vera jafngildar skulu Sviss og EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu, í því skyni að forðast endurtekningu málsmeðferðar, samþykkja gagnkvæmt skýrslur, vottorð og leyfi sem stofnanir, tíundaðar í 1. viðbæti, gefa út og samræmisyfirlýsingar framleiðanda er votta samræmi við kröfur hins ríkisins á sviðum er heyra undir 3. gr. Skýrslur, vottorð, leyfi og samræmisyfirlýsingar framleiðanda skulu einkum gefa til kynna samræmi við gildandi löggjöf á Evrópska efnahagssvæðinu. Festa verður samræmismerki, sem krafist er samkvæmt löggjöf aðildarríkis, á framleiðsluvörur sem eru settar á markað í því aðildarríki.

3.     Nefndin, sem um getur í 10. gr. (sem nefnist hér á eftir „nefndin“) skal tilgreina þau tilvik þar sem 2. mgr. hér að framan á við.

2. gr.
Skilgreiningar

1.     Í þessum viðauka er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
    „EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu“: þeir aðilar að Fríverslunarsamtökum Evrópu sem tilheyra Evrópska efnahagssvæðinu, þ.e. Lýðveldið Ísland, Furstadæmið Liechtenstein og Konungsríkið Noregur;

    „Samræmismat“: kerfisbundin rannsókn til að ákvarða að hvaða marki framleiðsluvara, aðferðir eða þjónusta uppfyllir tilteknar kröfur;


    „Aðili sem annast samræmismat“: aðili í opinberri þjónustu eða á eigin vegum sem sinnir meðal annars því að framkvæma samræmismat, að öllu leyti eða að hluta til;

    „Tilnefningaryfirvald“: yfirvald sem hefur lagalegt umboð til að tilnefna aðila sem annast samræmismat innan lögsögu sinnar, fresta tilnefningu eða hætta við frestun eða afturkalla hana.
2.     Heimilt er að nota skilgreiningarnar, sem mælt er fyrir um í ISO/IEB Guide 2 (útgáfa frá 1996) og í Evrópustaðli EN 45020 (útgáfa frá 1993) í tengslum við „Almenn hugtök og skilgreiningar þeirra varðandi stöðlun og tengda starfsemi“ (General terms and their definitions concerning standardisation and related activities), til að setja fram merkingu almennra hugtaka sem varða samræmismat í þessum samningi.

3. gr.
Gildissvið

1.     Þessi viðauki tekur til skyldubundins verklags við samræmismat er fylgir í kjölfar laga og stjórnsýsluákvæða í 1. viðbæti.

2.     Í 1. viðbæti eru skilgreind framleiðslusvið er heyra undir þennan viðauka. Viðbætinum er skipt í kafla eftir efnissviðum og er þeim skipt aftur í meginatriðum sem hér segir:
    I. þáttur    lög og stjórnsýsluákvæði;

    II. þáttur    aðilar sem annast samræmismat;
    III. þáttur    tilnefningaryfirvöld;
    IV. þáttur    sérstakar reglur sem varða tilnefningu aðila sem annast samræmismat.

    V. þáttur     viðbótarákvæði.
3.     Í 2. viðbæti er að finna almennar reglur um tilnefningu aðila sem annast samræmismat.

4. gr.
Uppruni

1.     Þessi viðauki tekur til framleiðsluvara sem eru upprunnar í aðildarríkjunum1, með fyrirvara um sérákvæði sem mælt er fyrir um í 1. viðbæti.
2.     Ef slíkar framleiðsluvörur falla einnig undir samninga um gagnkvæma viðurkenningu með tilliti til samræmismats milli Sviss og Evrópubandalagsins tekur þessi viðauki einnig til framleiðsluvara sem eru upprunnar í Evrópubandalaginu.



1 Furstadæmið Liechtenstein er í tollabandalagi við Sviss og mun áfram nota hugtakið „upprunnið í Sviss“ vegna þessara sérstöku aðstæðna.
3.     Ákvarða skal uppruna í samræmi við upprunareglur, sem veita ekki fríðindi, sem eiga við í hverju aðildarríkjanna eða, þar sem við á, í Evrópubandalaginu. Ef reglur eru ósamhljóða skulu reglur aðildarríkisins, þar sem vörur eru settar á markað, gilda.

4.     Upprunavottorð má leggja fram sem sönnun um uppruna. Ekki skal krefjast vottorðsins ef um ræðir innflutning sem tilgreindur er með EUR.1-flutningsskírteini eða yfirlýsingu á vörureikningi sem er gefin út í samræmi við viðauka A í þessum samningi, að því tilskildu að í skjalinu sé eitt aðildarríkjanna eða Evrópubandalagið tilgreint sem upprunaland.


5. gr.
Aðilar sem annast samræmismat

    Aðildarríkin viðurkenna hér með að aðilar, sem eru skráðir í 1. viðbæti, uppfylla skilyrði sem gerð eru til þeirra sem koma til greina til að meta samræmi.

6. gr.
Tilnefningaryfirvöld

1.     Aðildarríkin skuldbinda sig hér með til að tryggja að tilnefningaryfirvöld þeirra hafi nauðsynlegt umboð og valdsvið til að tilnefna eða afturkalla tilnefningu aðila, sem eru skráðir í 1. viðbæti, fresta henni eða hætta við frestun hennar. Yfirvöld skulu fara eftir almennum reglum um tilnefningu í 2. viðbæti þegar aðilar sem annast samræmismat, eru tilnefndir, með fyrirvara um ákvæði viðeigandi IV. þáttar í 1. viðbæti. Þessi yfirvöld skulu fara eftir sömu reglum þegar tilnefning er afturkölluð, henni frestað eða hætt er við frestun hennar.
2.     Ákvörðun um að bæta aðilum sem annast samræmismat, við í 1. viðbæti eða fella þá út skal tekin að tillögu eins aðildarríkis í samræmi við málmeðferðina sem tíunduð er í 11. gr.

3.     Ef tilnefningaryfirvald frestar tilnefningu aðila, sem eru taldir upp í 1. viðbæti og annast samræmismat innan lögsögu þess, eða hættir við frestun tilnefningar skal viðkomandi aðildarríki þegar í stað tilkynna hinum aðildarríkjunum og formanni nefndarinnar um það. Aðildarríkin þurfa ekki að viðurkenna skýrslur, vottorð, leyfi og samræmismerki sem aðili, sem annast samræmismat, gefur út meðan á frestun stendur.

7. gr.
Sannprófun málsmeðferðar við tilnefningar

1.     Aðildarríkin skulu skiptast á upplýsingum um þá málmeðferð sem notuð er til að tryggja að aðilar, sem eru taldir upp í 1. viðbæti og annast samræmismat innan lögsögu þeirra, fari eftir almennum reglum um tilnefningu sem tíundaðar eru í 2. viðbæti með fyrirvara um ákvæði viðeigandi IV. þáttar í 1. viðbæti.
2.     Aðildarríkin skulu bera saman aðferðir við að sannreyna hvort aðilar hafi farið eftir almennum reglum um tilnefningu, sem tíundaðar eru í 2. viðbæti, með fyrirvara um ákvæði viðeigandi IV. þáttar í 1. viðbæti. Heimilt er að nota núverandi kerfi til faggildingar á aðilum sem annast samræmismat í aðildarríkjunum til slíks samanburðar.

3.     Sannprófun skal fara fram í samræmi við málmeðferðina sem nefndin annast framkvæmd á.

8. gr
Sannprófun þess að aðilar sem annast samræmismat fari að reglum

1.     Aðildarríki skal, við sérstakar aðstæður, hafa rétt til að draga í efa sérfræðiþekkingu aðila sem annast samræmismat, sem önnur aðildarríki gera tillögu um eða skráðir eru í 1. viðbæti og eru innan lögsögu hinna aðildarríkjanna. Það skal, í þessu skyni, leggja hlutlægar og rökstuddar ástæður skriflega fyrir hin aðildarríkin og formann nefndarinnar.

2.     Komi til ágreinings milli aðildarríkjanna, sem nefndin hefur staðfest, skulu aðildarríkin láta fara fram í sameiningu sannprófun á sérfræðiþekkingu aðila sem annast samræmismat, í samræmi við kröfur, með þátttöku hlutaðeigandi lögbærra yfirvalda. Ræða skal niðurstöðu sannprófunarinnar í nefndinni með það í huga að leysa málið eins fljótt og unnt er.


3.     Aðildarríki skal sjá til þess að sannprófun á sérfræðiþekkingu aðila sem annast samræmismat innan lögsögu þess geti farið fram eftir því sem þörf krefur.
4.     Lögbært tilnefningaryfirvald skal, nema nefndin ákveði annað, fresta tilnefningu aðilans, sem deilt er um, frá þeim tíma þegar ágreiningurinn er staðfestur þar til samkomulag næst innan nefndarinnar.


9. gr.
Framkvæmd viðaukans

1.     Aðildarríkin skulu hafa með sér samstarf með það að markmiði að tryggja fullnægjandi beitingu laga og stjórnsýsluákvæða sem tíunduð eru í 1. viðbæti.
2.     Tilnefningaryfirvöld skulu ganga úr skugga um með viðeigandi aðferðum hvort aðilar sem annast samræmismat innan lögsögu þeirra og tíundaðir eru í 1. viðbæti, fari að almennum reglum um tilnefningu sem tíundaðar eru í 2. viðbæti, með fyrirvara um ákvæði viðeigandi IV. þáttar í 1. viðbæti.
3.     Aðilar sem annast samræmismat og tíundaðir eru í 1. viðbæti, skulu hafa með sér samstarf á viðeigandi hátt innan ramma samstarfs og samanburðarstarfs sem aðildarríkin annast á sviðum er heyra undir 1. viðbæti, í því skyni að tryggja að málsmeðferð við samræmismat, sem kveðið er á um í lögum og stjórnsýslufyrirmælum sem heyra undir þennan viðauka, sé beitt með samræmdum hætti.

10. gr.
Nefnd

1.     Nefndin, sem komið er á fót í samræmi við 3. mgr. 43. gr. samningsins, skal gefa út tilmæli og taka ákvarðanir, við þær aðstæður sem kveðið er á um í þessum viðauka, í því skyni að annast og fylgjast með snurðulausri framkvæmd þessa viðauka. Henni er heimilt að fá sér til aðstoðar sérfræðinga, ráðgjafa eða vinnuhópa á tilteknum sviðum. Nefndin skal gera samhljóða ályktanir.
2.     Nefndin setur sér starfsreglur sem innihalda meðal annars ákvæði um fundarboðun, skipun og skipunartíma formanns.

3.     Nefndin skal koma saman eftir þörfum en að minnsta kosti einu sinni á ári. Hvert aðildarríki getur farið fram á að fundur verði haldinn.
4.     Nefndin getur tekið til umfjöllunar hvert það málefni er tengist þessum viðauka. Hún skal einkum annast eftirfarandi:
a)    að skrá aðila sem annast samræmismat, í 1. viðbæti;
b)    að fella brott aðila sem annast samræmismat, úr 1. viðbæti;
c)    að gera drög að málsmeðferð vegna framkvæmdar sannprófana sem kveðið er á um í 7. gr.;
d)    að gera drög að málsmeðferð vegna framkvæmdar sannprófana sem kveðið er á um í 8. gr.;
e)    að kanna lög og stjórnsýsluákvæði sem aðildarríki hefur tilkynnt um samkvæmt 12. gr. í því skyni að meta áhrif þeirra á viðaukann og breyta viðeigandi þáttum í 1. viðbæti.

5.     Nefndinni er heimilt að breyta viðbætunum við þennan viðauka að tillögu eins aðildarríkjanna.

6.     Formaður nefndarinnar skal tilkynna ráðinu þegar í stað um töf á öllum ákvörðunum nefndarinnar.


11. gr.
Aðilar sem annast samræmismat skráðir í eða felldir brott úr 1. viðbæti

    Nefndin skal ákveða að skrá aðila sem annast samræmismat, í 1. viðbæti eða fella hann brott úr 1. viðbæti í samræmi við eftirfarandi málsmeðferð:

a)    aðildarríki sem óskar eftir að bæta aðila sem annast samræmismat, við í 1. viðbæti eða fella hann brott úr honum skal tilkynna formanni nefndarinnar og hinum aðildarríkjunum um tillögu að ákvörðun þess efnis og leggja fram viðeigandi upplýsingar er lúta að þeirri beiðni;
b)    ef hin aðildarríkin samþykkja tillöguna eða hreyfa ekki andmælum innan 60 daga frá því að tilkynning um tillöguna er lögð fram skal nefndin samþykkja ákvörðunina sem tillaga er gerð um;
c)    ef annað aðildarríki hreyfir andmælum innan 60 daga skal málsmeðferðin, sem kveðið er á um í 2. mgr. 8. gr., gilda;
d)    formaður nefndarinnar skal tilkynna aðildarríkjunum þegar í stað um allar ákvarðanir nefndarinnar. Þær öðlast gildi á þeim degi sem tilgreindur er í ákvörðuninni;
e)    ef nefndin ákveður að skrá aðila sem annast samræmismat, í 1. viðbæti skulu aðildarríkin viðurkenna skýrslur, vottorð, leyfi og samræmismerki sem aðilinn gefur út frá gildistökudegi ákvörðunarinnar. Ef nefndin ákveður að fella aðila brott úr 1. viðbæti skulu aðildarríkin viðurkenna skýrslur, vottorð, leyfi og samræmismerki sem hann gefur út fram að gildistökudegi ákvörðunarinnar.



12. gr.
Skipti á upplýsingum

1.     Aðildarríkin skulu skiptast á öllum viðeigandi upplýsingum um framkvæmd og beitingu laga og stjórnsýsluákvæða sem tíunduð eru í 1. viðbæti.

2.     Hvert aðildarríki skal tilkynna hinum aðildarríkjunum um breytingar sem það hyggst gera á lögum og stjórnsýsluákvæðum sem varða viðfangsefni þessa viðauka og tilkynna hinum aðildarríkjunum um ný ákvæði að minnsta kosti 60 dögum fyrir gildistöku þeirra.
3.     Ef kveðið er á um það í löggjöf aðildarríkis að einstaklingur með staðfestu á yfirráðasvæðis þess skuli veita lögbæru yfirvaldi aðgang að tilteknum upplýsingum er yfirvaldinu einnig heimilt að fara fram á það að fá slíkar upplýsingar frá lögbærum yfirvöldum hinna aðildarríkjanna eða hafa beint samband við framleiðandann eða, ef við á, umboðsmann hans á yfirráðasvæði hinna aðildarríkjanna.

4.     Hvert aðildarríki skal þegar í stað tilkynna hinum aðildarríkjunum um öryggisráðstafanir sem gerðar eru á yfirráðasvæði þess.

13. gr.
Lausn deilumála

    Aðildarríki er heimilt að vísa deilum sem varða túlkun eða beitingu þessa viðauka til nefndarinnar sem um getur í 10. gr. Nefndin skal leitast við að leysa deiluna og hún skal hafa aðgang að öllum upplýsingum sem greitt gætu fyrir nákvæmri rannsókn á málinu með það í huga að finna viðunandi lausn. Nefndin skal í þessu skyni íhuga allar hugsanlegar leiðir til að tryggja snurðulausa framkvæmd þessa viðauka.


14. gr.
Samningar við þriðju ríki

    Aðildarríkin samþykkja hér með að samningar um gagnkvæma viðurkenningu sem eitthvert aðildarríkjanna hefur gert við þriðja ríki skuli undir engum kringumstæðum fela í sér skuldbindingu á hendur hinum aðildarríkjunum um að viðurkenna samræmisyfirlýsingar framleiðanda svo og skýrslur, vottorð, leyfi og samræmismerki sem aðilar sem annast samræmismat í þessu þriðja ríki, gefa út, nema fyrir hendi sér skýr samningur um það milli aðildarríkjanna. Nefndinni er heimilt að breyta 4. gr. þessa viðauka með hliðsjón af slíkum samningum við þriðju ríki.

15. gr.
Frestun

    Ef aðildarríki staðfestir að annað aðildarríki uppfylli ekki skilyrði þessa viðauka eða að beiting hliðstæðra skilyrða samkvæmt samningi við Evrópubandalagið er frestað er því heimilt, að höfðu samráði við nefndina, að fresta beitingu 1. viðbætis, að öllu leyti eða að hluta.


16. gr.
Áunnin réttindi

    Aðildarríkin skulu áfram viðurkenna skýrslur, vottorð, leyfi og samræmismerki og samræmisyfirlýsingar framleiðanda sem gefin eru út í samræmi við þennan viðauka, að því tilskildu að:
a)    beiðni um að hefja samræmismat hafi verið lögð fram áður en tilkynning um niðurfellingu þessa viðauka eða tilkynning um uppsögn samningsins bárust, og
b)    skýrslur, vottorð, leyfi og samræmismerki og samræmisyfirlýsingar framleiðanda hafi verið gefin út áður en niðurfelling eða uppsögn tóku gildi.


1. VIÐBÆTIR

Framleiðslusvið


    Þessum viðbæti er skipt upp í eftirfarandi kafla eftir sérsviðum:
1. kafli          Vélar
2. kafli          Persónuhlífar
3. kafli          Leikföng
4. kafli          Lækningatæki
5. kafli          Gastæki og katlar
6. kafli          Þrýstihylki
7. kafli         Endabúnaður til fjarskipta

8. kafli        Búnaður og öryggiskerfi til notkunar á sprengihættustöðum

9. kafli         Rafföng og rafsegulsviðssamhæfi

10. kafli    Byggingarsvæði og búnaður
11. kafli    Mælitæki og tilbúnar pakkningar

12. kafli    Vélknúin ökutæki
13. kafli    Landbúnaðar- og skógræktardráttarvélar
14. kafli    Góðar starfsvenjur við rannsóknir
15. kafli    Eftirlit með góðum starfsvenjum við rannsóknir og vottun framleiðslulota vegna lyfjavara

1. KAFLI
VÉLAR
I. ÞÁTTUR
LÖG OG STJÓRNSÝSLUÁKVÆÐI



Ákvæði sem falla undir 2. mgr. 1. gr.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/37/EB frá 22. júní 1998 um samræmingu laga aðildarríkjanna um vélar (Stjtíð. EB L 207, 23.7.1998, bls. 1) (1. tölul. í XXIV kafla, II. viðauka EES-samningsins eins og honum var breytt með ákvörðun 94/1999)

Sviss
    Lög ríkjasambandsins frá 19. mars 1976 um öryggi tæknibúnaðar (RO 1977 2370), eins og þeim var síðast breytt 18. júní 1993 (RO 1995 2766)


    Reglugerð frá 12. júní 1995 um öryggi tæknibúnaðar (RO 1995 2770), eins og henni var síðast breytt 17. júní 1996 (RO 1996 1867)


    Reglugerð frá 12. júní 1995 um málsmeðferð við samræmismat á tæknibúnaði (RO 1995 2783)


II. ÞÁTTUR
AÐILAR SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Nefndin skal, samkvæmt málsmeðferðinni sem lýst er í 11. gr. viðaukans, taka saman og viðhalda uppfærðri skrá yfir aðila sem annast samræmismat.


III. ÞÁTTUR
TILNEFNINGARYFIRVÖLD


EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu:
*      Ísland:
    Félagsmálaráðuneytið
*      Liechtenstein:
    Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein1
*      Noregur:
    Ráðuneyti stjórnsýslu og vinnumála


Sviss:
    Efnahagsþróunar- og atvinnumálaskrifstofa ríkjasambandsins

IV. ÞÁTTUR
SÉRSTAKAR REGLUR SEM VARÐA TILNEFNINGU AÐILA SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Við tilnefningu aðila sem annast samræmismat skulu tilnefningaryfirvöld fara að meginreglunum í 2. viðbæti og VII. viðauka við tilskipun 98/37/EB (1. tölul. í XXIV. kafla, II. viðauka EES-samningsins sem ákvörðun 94/1999 kom í staðinn fyrir).



1 Ríkisstjórn Liechtenstein er heimilt að skipa síðar viðeigandi sérstök innlend stjórnsýsluyfirvöld til að tilnefna aðila sem annast samræmismat.

V. ÞÁTTUR
VIÐBÓTARÁKVÆÐI


1.     Notaðar vélar
    Lögin og stjórnsýsluákvæðin sem talin eru upp í I. þætti skulu ekki gilda um notaðar vélar.

    Hinsvegar skal meginreglan í 2. málsgrein 1. gr. viðaukans gilda um vélar sem hafa verið löglega markaðssettar og/eða teknar í notkun í einu aðildarríki og fluttar út á markað annars aðildarríkis sem notaðar vélar.

    Önnur ákvæði um notaðar vélar sem eru í gildi í innflutningsaðildarríkinu, svo sem þau sem fjalla um öryggi á vinnustöðum, skulu gilda áfram.


2. KAFLI
PERSÓNUHLÍFAR

I. ÞÁTTUR
LÖG OG STJÓRNSÝSLUÁKVÆÐI



Ákvæði sem falla undir 2. mgr. 1. gr.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu
    Tilskipun ráðsins frá 21. desember 1989 um samræmingu laga aðildarríkjanna um persónuhlífar (89/686/EBE) (1. tölul. í XXII kafla, II. viðauka EES-samningsins), eins og honum var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/58/EB frá 3. september 1996 (Stjtíð. EB L 236, 18.9.1996, bls. 44) (þriðji undirliður, 1. tölul. í XXII kafla, II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 68/97)


Sviss
    Lög ríkjasambandsins frá 19. mars 1976 um öryggi tæknibúnaðar (RO 1977 2370), eins og þeim var síðast breytt 18. júní 1993 (RO 1995 2766)


    Reglugerð frá 12. júní 1995 um öryggi tæknibúnaðar (RO 1995 2770), eins og henni var síðast breytt 17. júní 1996 (RO 1996 1867)


    Reglugerð frá 12. júní 1995 um verklag við samræmismat á tæknibúnaði (RO 1995 2783)


II. ÞÁTTUR
AÐILAR SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Nefndin skal, samkvæmt málsmeðferðinni sem lýst er í 11. gr. viðaukans, taka saman og viðhalda uppfærðri skrá yfir aðila sem annast samræmismat.


III. ÞÁTTUR
TILNEFNINGARYFIRVÖLD


EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu:
*      Ísland:
    Félagsmálaráðuneytið
*      Liechtenstein:
    Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein2
*      Noregur:
    Ráðuneyti stjórnsýslu og vinnumála;

    Vegna persónuhlífa til nota á sjó:
    Viðskipta- og iðnaðarráðuneytið

Sviss:
    Efnahags- og atvinnumálaskrifstofa ríkjasambandsins

IV. ÞÁTTUR
SÉRSTAKAR REGLUR SEM VARÐA TILNEFNINGU AÐILA SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Við tilnefningu aðila sem annast samræmismat skulu tilnefningaryfirvöld fara að meginreglunum í 2. viðbæti og í V. viðauka við tilskipun 89/686/EBE (1. tölul. í XXII. kafla II. viðauka EES-samningsins).


3. KAFLI
LEIKFÖNG

I. ÞÁTTUR
LÖG OG STJÓRNSÝSLUÁKVÆÐI



Ákvæði sem falla undir 1. mgr. 1. gr.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu
    Tilskipun ráðsins frá 3. maí 1988 um samræmingu laga aðildarríkjanna um öryggi leikfanga (88/378/EBE) (Stjtíð. EB L 187, 16.7.1988, bls. 1) (1. tölul. í XXIII. kafla EES-samningsins),


2 Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein er heimilt að skipa síðar viðeigandi sérstök innlend stjórnsýsluyfirvöld til að tilnefna aðila sem annast samræmismat.

    eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn

Sviss
    Lög ríkjasambandsins frá 9. október 1992 um matvæli og vörur (RS 817.0) með áorðnum breytingum

    Tilskipun frá 1. mars 1995 um vörur (RS 817.04 með áorðnum breytingum

    Tilskipun frá 26. maí 1995 um öryggi leikfanga (RS 817.044.1) með áorðnum breytingum

II. ÞÁTTUR
AÐILAR SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Nefndin skal, samkvæmt málsmeðferðinni sem lýst er í 11. gr. viðaukans, taka saman og viðhalda uppfærðri skrá yfir aðila sem annast samræmismat.


III. ÞÁTTUR
TILNEFNINGARYFIRVÖLD


EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu:
*      Ísland:
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið
*      Liechtenstein:
    Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein3
*      Noregur:
    Ráðuneyti barna- og fjölskyldumála

Sviss:
    Heilbrigðismálaskrifstofa ríkjasambandsins

IV. ÞÁTTUR
SÉRSTAKAR REGLUR SEM VARÐA TILNEFNINGU AÐILA SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Við tilnefningu aðila sem annast samræmismat skulu tilnefningaryfirvöld fara að meginreglunum í 2. viðbæti og í III. viðauka við tilskipun 88/378/EBE (1. tölul. í XXIII. kafla EES-samningsins).








3 Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein er heimilt að skipa síðar viðeigandi sérstök innlend stjórnsýsluyfirvöld til að tilnefna aðila sem annast samræmismat.

V. ÞÁTTUR
VIÐBÓTARÁKVÆÐI


1.     Upplýsingar um vottorðið og tæknimöppuna

    Í samræmi við 4. mgr. 10. gr. tilskipunar 88/378/EBE (1. tölul. í XXIII. kafla EES-samningsins), er yfirvöldunum sem talin eru upp í III. þætti heimilt að fá, samkvæmt beiðni, afrit af vottorðinu og, samkvæmt rökstuddri beiðni, afrit af tæknimöppunni og skýrslum um rannsóknir og prófanir sem gerðar hafa verið.

2.     Tilkynning um ástæðu synjunar samþykktra aðila
    Í samræmi við 5. mgr. 10. gr. tilskipunar 88/378/EBE (1. tölul. í XXIII. kafla EES-samningsins), skulu svissnesku aðilarnir tilkynna Heilbrigðismálaskrifstofu ríkjasambandsins um synjun á útgáfu EB-gerðarprófunarvottorðs. Skrifstofan skal einnig tilkynna EFTA-ríkjunum á Evrópska efnahagssvæðinu þar um.

4. KAFLI
LÆKNINGATÆKI

I. ÞÁTTUR
LÖG OG STJÓRNSÝSLUÁKVÆÐI



Ákvæði sem falla undir 2. mgr. 1. gr.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu
    Tilskipun ráðsins frá 20. júní 1990 um samræmingu laga aðildarríkjanna um virk, ígræðanleg lækningatæki (90/385/EBE) (7. tölul. í X. kafla, II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun ráðsins 93/68/EBE frá 22. júlí 1993 (Stjtíð. EB L 220, 30.8.1993, bls.1) (annar undirliður, 7. tölul. í X. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94)

    Tilskipun ráðsins 93/42/EBE frá 14. júní 1993 um lækningatæki (27. tölul. a, í IX. kafla, II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94), eins og henni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/79/EB frá 27. október 1998 (Stjtíð. EB L 331, 7.12.1998, bls. 1.) (2. tölul. í XXX. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 166/99)

Sviss
    Lög ríkjasambandsins frá 19. mars 1976 um öryggi tæknibúnaðar (RO 1977 2370), eins og þeim var síðast breytt 18. júní 1993 (RO 1995 2766)


    Lög ríkjasambandsins frá 24. júní 1902 varðandi veik- og sterkstraumslagnir (RO 19 252 et RS 4 798 eins og þeim var síðast breytt 3. febrúar 1993 (RO 1993 901)

    Lög ríkjasambandsins frá 9. júní 1977 um mælikerfi (RO 1977 2394), eins og þeim var síðast breytt 18. júní 1993 (RO 1993 3149)

    Lög ríkjasambandsins frá 22. mars 1991 um geislavarnir (RO 1994 1933)

    Reglugerð frá 24. janúar 1996 um lækningatæki (RO 1996 987), eins og henni var síðast breytt 17. júní 1996 (RO 1996 1868)

II. ÞÁTTUR
AÐILAR SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Nefndin skal, samkvæmt málsmeðferðinni sem lýst er í 11. gr. viðaukans, taka saman og viðhalda uppfærðri skrá yfir aðila sem annast samræmismat.


III. ÞÁTTUR
TILNEFNINGARYFIRVÖLD


EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu:
*      Ísland:
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
*      Liechtenstein:
    Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein4
*      Noregur:
    Heilbrigðis- og félagsmálaeftirlitið

Sviss:
    Heilbrigðismálaskrifstofa ríkjasambandsins










4 Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein er heimilt að skipa síðar viðeigandi sérstök innlend stjórnsýsluyfirvöld til að tilnefna aðila sem annast samræmismat.

IV. ÞÁTTUR
SÉRSTAKAR REGLUR SEM VARÐA TILNEFNINGU AÐILA SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Við tilnefningu aðila sem annast samræmismat skulu tilnefningaryfirvöld fara að meginreglunum í 2. viðbæti við viðaukann og í XI. viðauka við tilskipun 93/42/EBE (27. tölul. a í IX. kafla, II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94), að því er varðar aðilana sem tilnefndir eru samkvæmt þeirri tilskipun, og í VIII. viðauka við tilskipun 90/385/EBE (7. tölul. í X. kafla II. viðauka EES-samningsins), hvað varðar aðilana sem tilnefndir eru samkvæmt henni.

V. ÞÁTTUR
VIÐBÓTARÁKVÆÐI


1.     Skráning þess sem ber ábyrgð á að setja lækningatæki á markað
    Hver sá framleiðandi sem setur á markað í aðildarríkjunum lækningatækin sem um getur í 14. gr. tilskipunar 93/42/EBE (27. tölul. a í IX. kafla, II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94) skal gera þar til bærum yfirvöldum í aðildarríkinu þar sem hann hafa skráða starfsstöð, viðvart um einstök atriði sem um getur í þeirri grein. Aðildarríkin skulu veita gagnkvæma viðurkenningu á skráningunni. Framleiðandinn skal ekki vera skuldbundinn til að tilnefna aðila, sem ber ábyrgð á því að setja lækningatæki á markað, með staðfestu á yfirráðasvæði hinna aðildarríkjanna.

2.     Merking lækningatækja
    Framleiðendur í aðildarríkjunum skulu tilgreina nafn sitt eða viðskiptaheiti og póstfang á vörumiða lækningatækja eins og tilgreint er í tölulið 13.3(a) í 1. viðauka við tilskipun 93/42/EBE (27. tölul. a í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94). Þeim skal ekki vera skylt að tilgreina nafn og póstfang þess sem ber ábyrgð á að setja lækningatækin á markað, fulltrúa eða innflytjanda með staðfestu á yfirráðasvæði hinna aðildarríkjanna, á vörumiða, ytri umbúðum og í notkunarleiðbeiningum.

3.     Skipti á upplýsingum
    Í samræmi við 9. gr. viðaukans, skulu aðildarríkin einkum skiptast á þeim upplýsingum sem um getur í 8. gr. tilskipunar 90/385/EBE (7. tölul. í X. kafla, II. viðauka EES-samningsins) og í gr. tilskipunar 93/42/EBE (27. tölul. a í IX. kafla, II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94).

5. KAFLI
GASTÆKI OG KATLAR

I. ÞÁTTUR
LÖG OG STJÓRNSÝSLUÁKVÆÐI



Ákvæði sem falla undir 1. mgr. 1. gr.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu
    Tilskipun ráðsins 92/42/EBE frá 21. maí 1992 um kröfur varðandi orkunýtni nýrra heitavatnskatla sem brenna fljótandi eða loftkenndu eldsneyti (Stjtíð. EB L 167, 22.06.1992, bls. 17) (3. tölul. í V. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn

Sviss
    Tilskipun frá 16. desember 1985 um mengunarvarnir í andrúmslofti (OAPC) (viðaukar 3 and 4) (RS 814.318.142.1) með áorðnum breytingum

Ákvæði sem falla undir 2. mgr. 1. gr.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu
    Tilskipun ráðsins frá 29. júní 1990 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi tæki sem brenna gasi (90/396/EBE) (2. tölul. í V. kafla, II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun ráðsins 93/68/EBE frá 22. júlí 1993 (Stjtíð. EB L 220, 30.8.1993, bls. 1) (fyrsti undirliður, 2. tölul. í V. kafla, II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94)

Sviss
    Lög ríkjasambandsins frá 19. mars 1976 um öryggi tæknibúnaðar (RO 1977 2370), eins og þeim var síðast breytt 18 Júní 1993 (RO 1995 2766)


    Reglugerð frá 12. júní 1995 um öryggi tæknibúnaðar (RO 1995 2770), eins og henni var síðast breytt 17. júní 1996 (RO 1996 1867)


    Reglugerð frá 12. júní 1995 um málsmeðferð við samræmismat á tæknibúnaði (RO 1995 2783)


II. ÞÁTTUR
AÐILAR SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Nefndin skal, samkvæmt málsmeðferðinni sem lýst er í 11. gr. viðaukans, taka saman og viðhalda uppfærðri skrá yfir aðila sem annast samræmismat.


III. ÞÁTTUR
TILNEFNINGARYFIRVÖLD


Ákvæði sem falla undir 1. mgr. 1. gr.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu:
*      Ísland:
    Félagsmálaráðuneytið
*      Liechtenstein:
    Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein5
*      Noregur:
    Vegna heitavatnskatla:
    Ráðuneyti sveitarstjórna og byggðaþróunar;

    Vegna gastækja/brenna loftkenndu eldsneyti:
    Ráðuneyti stjórnsýslu og vinnumála


Sviss:
    Umhverfis-, skógræktar- og landslagsskrifstofa ríkjasambandsins

Ákvæði sem falla undir 2. mgr. 1. gr.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu:
*      Ísland:
    Félagsmálaráðuneytið
*      Liechtenstein:
    Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein6
*      Noregur:
    Vegna heitavatnskatla:
    Ráðuneyti sveitarstjórna og byggðaþróunar;

    Vegna gastækja/brenna loftkenndu eldsneyti:
    Ráðuneyti stjórnsýslu og vinnumála


Sviss:
    Efnahags- og atvinnumálaskrifstofa ríkjasambandsins


5 Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein er heimilt að skipa síðar viðeigandi sérstök innlend stjórnsýsluyfirvöld til að tilnefna aðila sem annast samræmismat.
6 Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein er heimilt að skipa síðar viðeigandi sérstök innlend stjórnsýsluyfirvöld til að tilnefna aðila sem annast samræmismat.

IV. ÞÁTTUR
SÉRSTAKAR REGLUR SEM VARÐA TILNEFNINGU AÐILA SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Við tilnefningu aðila sem annast samræmismat skulu tilnefningaryfirvöld fara að meginreglunum í 2. viðbæti við viðaukann og í V. viðauka við tilskipun 92/42/EBE (3. tölul í V. kafla, II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94), að því er aðilana, sem tilnefndir eru samkvæmt þeirri tilskipun, snertir, og í V. viðauka við tilskipun 90/396/EBE (2. tölul. í V. kafla II. viðauka EES-samningsins), að því er varðar aðilana sem tilnefndir eru samkvæmt henni.

6. KAFLI
ÞRÝSTIHYLKI

I. ÞÁTTUR
LÖG OG STJÓRNSÝSLUÁKVÆÐI



Ákvæði sem falla undir 1. mgr. 1. gr.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu
    Tilskipun ráðsins frá 17. september 1984 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi saumlausa gashólka úr stáli (84/525/EBE) (Stjtíð. EB L 300, 19.11.1984, bls. 1) (3. tölul. í VIII. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn


    Tilskipun ráðsins frá 17. september 1984 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi saumlausa gashólka úr hreinu áli og álblöndu (84/526/EBE) (Stjtíð. EB L 300, 19.11.1984, bls. 20) (4. tölul. í VIII. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samningsins


    Tilskipun ráðsins frá 17. september 1984 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi soðna gashólka úr hreinu stáli (84/527/EBE) (Stjtíð. EB L 300, 19.11.1984, bls. 48) (5. tölul. í VIII. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn


    Tilskipun ráðsins frá 25. júní 1987 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi einföld þrýstihylki (87/404/EBE) (Stjtíð. EB L 220, 8.8.1987, bls. 48) (6. tölul. í VIII. kafla, II. viðauka EES- samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn


    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/23/EB frá 29. maí 1997 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna varðandi þrýstibúnað (Stjtíð. EB L 181, 9.7.1997, bls. 1) (fjórði undirliður, 2. tölul. í VIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 82/98), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn

Sviss
    Tilskipanir 84/525/EBE, 84/526/EBE og 84/527/EBE: engin tengd löggjöf

    Tilskipun 87/404/EBE:

    Lög ríkjasambandsins frá 20. mars 1981 um slysatryggingar (RS 832.20) með áorðnum breytingum

    Reglugerð frá 19. mars 1938 um uppsetningu og notkun þrýstihylkja (RS 832.312.12) með áorðnum breytingum

II. ÞÁTTUR
AÐILAR SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Nefndin skal, samkvæmt málsmeðferðinni sem lýst er í 11. gr. viðaukans, taka saman og viðhalda uppfærðri skrá yfir aðila sem annast samræmismat.


III. ÞÁTTUR
TILNEFNINGARYFIRVÖLD


EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu:
*      Ísland:
    Félagsmálaráðuneytið
*      Liechtenstein:
    Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein7
*      Noregur:
    Ráðuneyti stjórnsýslu og vinnumála


Sviss:
    Efnahags- og atvinnumálaskrifstofa ríkjasambandsins



7 Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein er heimilt að skipa síðar viðeigandi sérstök innlend stjórnsýsluyfirvöld til að tilnefna aðila sem annast samræmismat.

IV. ÞÁTTUR
SÉRSTAKAR REGLUR SEM VARÐA TILNEFNINGU AÐILA SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Við tilnefningu aðila sem annast samræmismat skulu tilnefningaryfirvöld fara að meginreglunum í 2. viðbæti við viðaukann og í III. viðauka við tilskipun 87/404/EBE (6. tölul. í VIII. kafla II. viðauka EES-samningsins).


V. ÞÁTTUR
VIÐBÓTARÁKVÆÐI


Viðurkenning Sviss á vottorðum
    Þegar ákvæði svissneskra laga, sem talin eru upp í I. þætti, mæla fyrir um málsmeðferð við samræmismat skal Sviss viðurkenna vottorð gefin út af aðila sem tilnefndur hefur verið af EFTA-ríkjunum á Evrópska efnahagssvæðinu og skráður í II. þætti, sem votta að varan sé í samræmi við staðal EN 286.

7. KAFLI
ENDABÚNAÐUR TIL FJARSKIPTA


I. ÞÁTTUR
LÖG OG STJÓRNSÝSLUÁKVÆÐI



Ákvæði sem falla undir 2. mgr. 1. gr.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/13/EB frá 12. febrúar 1998 um endabúnað til fjarskipta og búnað gervihnattajarðstöðva og gagnkvæma viðurkenningu á samræmi þeirra (Stjtíð. EB L 074, 12.3.1998, bls. 1) (4. tölul. zg í XVIII. kafla, II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með tilskipun 32/99)


    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 9. júlí 1997 um sameiginlega tækniforskrift vegna endabúnaðar sem tengja á almennum línuskiptum gagnanetum og ONP-leigurásum með X.21-skilflötum samkvæmt CCITT-tilmælum (97/544/EB) (Stjtíð. EB L 223,13.8.1997, bls. 18) (4. tölul. p í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 61/98)

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 9. júlí 1997 um sameiginlega tækniforskrift um almennar tengikröfur vegna gagnaendabúnaðar (DTE) sem tengja á pakkaskiptum almennum gagnanetum (PSPDN) sem bjóða upp á X.25-skilfleti samkvæmt CCITT-tilmælum (97/545/EB) (Stjtíð. EB L 223, 13.8.1997, bls. 21) (4. tölul. q í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 61/98)

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 9. júlí 1997 um sameiginlega tækniforskrift að almennum tengikröfum vegna endabúnaðar fyrir aukin stafræn þráðlaus fjarskipti (DECT) (2. útgáfa) (97/523/EB) (Stjtíð. EB L 215, 7.8.1997, bls. 48) (4. tölul. zb í XVIII. kafla, II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 116/98)

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 9. júlí 1997 um sameiginlega tækniforskrift að símaþjónustukröfum vegna aukinna stafrænna þráðlausra fjarskipta (DECT) (2. útgáfa) (97/524/EB) (Stjtíð. EB L 215, 07.08.1997, bls. 50) (4. tölul. zc í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 116/98)

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 28. nóvember 1995 um sameiginlega tækniforskrift að tengikröfum vegna endabúnaðar fyrir aukin stafræn þráðlaus fjarskipti (DECT) með almennu aðgangssniði (PAP) (95/525/EB) (Stjtíð. EB L 300, 13.12.1995, bls. 35) (4 tölul. k í XVIII. kafla, II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 3/97) 8

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 9. júlí 1997 um sameiginlega tækniforskrift að tengikröfum vegna skilflatar endabúnaðar fyrir tengingu við 2048 kílóbita/s stafrænar óskipulegar leigulínur fyrir frjálsan aðgang að netum (ONP) (1. breyting) (97/520/EB) (Stjtíð. EB L 215, 07.08.1997, bls. 41) (4 tölul. y í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 115/98)

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 9. júlí 1997 um sameiginlega tækniforskrift að tengikröfum vegna skilflatar endabúnaðar fyrir tengingu við 2048 kílóbita/s stafrænar skipulegar leigulínur fyrir frjálsan aðgang að netum (ONP) (97/521/EB) (Stjtíð. EB L 215, 07.08.1997, bls. 44) (liður z í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 115/98)



8 Þessi ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar hefur síðan verið felld niður. Tekið verður tillit til þess við næstu uppfærslu kaflans.

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 9. júlí 1997 um sameiginlega tækniforskrift að tengikröfum vegna skilflatar endabúnaðar fyrir tengingu við 64 kílóbita/s stafrænar ótakmarkaðar leigulínur fyrir frjálsan aðgang að netum (ONP) (1. breyting) (97/522/EB) (Stjtíð. EB L 215, 07.08.1997, bls. 46) (4 tölul. za í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 115/98)

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 9. júlí 1997 um sameiginlega tækniforskrift um almennar tengikröfur vegna endabúnaðar við tveggja þráða hliðrænar leigulínur í ONP-kerfinu (97/486/EB) (Stjtíð. EB L 208, 02.08.1997, bls. 44) (4. tölul. r í XVIII. kafla II.viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 62/98)

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 9. júlí 1997 um sameiginlega tækniforskrift um almennar tengikröfur vegna endabúnaðar við fjögurra þráða hliðrænar leigulínur í ONP-kerfinu (97/487/EB) (Stjtíð. EB L 208, 02.08.1997, bls. 47) (4. tölul. s í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 62/98)

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 28. nóvember 1995 um sameiginlega tækniforskrift fyrir stafrænt samþætt þjónustunet (ISDN-samnet) að því sem varðar 3,1 kHz talsímaþjónustu, tengikröfur fyrir talfæraendabúnað (95/526/EB) (Stjtíð. EB L 300, 13.12.1995, bls. 38) (4. tölul. l í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 3/97) 9

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 9. júlí 1997 um sameiginlega tækniforskrift að tengikröfum vegna endabúnaðar fyrir aukin stafræn þráðlaus fjarskipti (DECT) með almennu aðgangssniði (GAP) (97/525/EB) (Stjtíð. EB L 215, 07.08.1997, bls. 52) (4. tölul. zd í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 116/98)

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 19. september 1997 um sameiginlega tækniforskrift um tengikröfur vegna skilflata fyrir endabúnað sem tengja á 34 megabita/s óskipulegum og skipulegum leigulínum (97/639/EB) (Stjtíð. EB


9 Þessi ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar hefur síðan verið felld niður. Tekið verður tillit til þess við næstu uppfærslu kaflans.
    L 271, 03.10.1997, bls. 16) (4. tölul. t í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 62/98)

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 31. október 1997 um sameiginlega tækniforskrift um tengikröfur vegna skilflata fyrir endabúnað sem tengja á 140 megabita/s óskipulegum og skipulegum leigulínum (97/751/EB) (Stjtíð. EB L 305, 08.11.1997, bls. 66) (4. tölul. zh í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 65/99)

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 17. júní 1998 um sameiginlega tækniforskrift fyrir grunntengingu við samevrópska, stafræna, samþætta þjónustunetið (ISDN) (1. breyting) (tilkynnt með númeri C(1998) 1607) (98/515/EB) (Stjtíð. EB L 232,19.08.98, bls. 7) (4. tölul. zi í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 107/99)

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 17. júní 1998 um sameiginlega tækniforskrift fyrir frumtengingu við samevrópska, stafræna, samþætta þjónustunetið (ISDN) (1. breyting) (tilkynnt með númeri C(1998) 1613) (98/520/EB) (Stjtíð. EB L 232, 19.08.98, 19) (4. tölul. zn í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 107/99)

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 17. júní 1998 um sameiginlega tækniforskrift fyrir móttökubúnað fyrir almenna samevrópska þráðlausa boðkerfið (ERMES) (2. útgáfa) (tilkynnt með númeri C(1998) 1615) (98/522/EB) (Stjtíð. EB L 232, 19.08.98, bls. 25) (4. tölul. zp í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 109/99)

    Ákvörðun ráðsins frá 20. júlí 1998 um sameiginlega tækniforskrift fyrir kröfur varðandi tengingu endabúnaðar við hliðræn almenn sjálfvirk talsímakerfi (PSTN) (að frátöldum endabúnaði sem er gerður fyrir talsímaþjónustu byggða á rökstuddum tilvikum), þar sem númeraval innan kerfisins, ef boðið er upp á það, er með tónvali (DTMF-merkjasendingu) (98/482/EB) (Stjtíð. EB L 216, 04.08.98, bls. 8) (4. tölul. zu í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 111/99)


    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 4. september 1998 um sameiginlega tækniforskrift fyrir kröfur um talsímaþjónustu með almennum Evrópu-farsíma, II. áfangi (2. útgáfa) (tilkynnt með númeri C(1998) 2561) (98/542/EB) (Stjtíð. EB L 254, 16.09.98, bls. 28) (4. tölul. zs í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 110/99)


    Ákvörðun frá 3. september 1998 um sameiginlega tækniforskrift fyrir landstöðvakerfið fyrir flugfjarskipti (TFTS-kerfið) (tilkynnt með númeri C(1998) 2378) (98/535/EB) (Stjtíð. EB L 251, 11.09.98, bls. 36) (4. tölul. zze í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 29/2000)

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 17. júní 1998 um sameiginlega tækniforskrift fyrir færanlegar gervihnattajarðstöðvar á landi með litlum gagnasendingahraða (LMES) fyrir tíðnisviðin 11/12/14 GHz (tilkynnt með númeri C(1998) 1608) (98/516/EB) (Stjtíð. EB L 232, 19.08.1998, bls. 10) (4 tölul. zj í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 108/99)

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 17. júní 1998 um sameiginlega tækniforskrift fyrir færanlegar jarðstöðvar til fréttaöflunar um gervihnött (SNG TES) með tíðnisviðin 11-12/13-14 GHz (tilkynnt með númeri C(1998) 1609) (98/517/EB) (Stjtíð. EB L 232, 19.08.1998, bls. 12) (4. tölul. zk í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 108/99)

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 17. júní 1998 um sameiginlega tækniforskrift fyrir pakkastillta tengingu við ISDN í gegnum ISDN-frumtengingaraðgang (tilkynnt með númeri C(1998) 1610) (98/518/E) (Stjtíð. EB L 232, 19. 08.1998, bls. 14) (4 tölul. zl í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 107/99)

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 17. júní 1998 um sameiginlega tækniforskrift fyrir VSAT-endabúnað með tíðnisviðin 11/12/14 GHz (Tilkynnt með númeri C(1998) 1612) (98/519/EB) (Stjtíð. EB L 232, 19.08.98, bls. 17) (4. tölul. zm í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 108/99)

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 17. júní 1998 um sameiginlega tækniforskrift fyrir pakkastillta tengingu við ISDN um ISDN grunntengingu (tilkynnt með númeri C(1998) 1614) (98/521/EB) (Stjtíð. EB L 232, 19.08.98, bls. 22) (4. tölul. zo í XVIII. kafla EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 107/99)

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 3. september 1998 um sameiginlega tækniforskrift fyrir far-jarðstöðvar (MES), þar með taldar handjarðstöðvar, ætlaðar til einkafjarskiptanotkunar um gervihnattanet (S-PCN) með tíðnisviðin 1,6/2,4 GHz gegnum fargervihnattaþjónustu (MSS) (tilkynnt með númeri C(1998) 2375) (98/533/EB) (Stjtíð. EB L 247, 05.09.98, bls. 11) (4. tölul. zq í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 108/99)


    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 3. september 1998 um sameiginlega tækniforskrift fyrir far-jarðstöðvar (MES), þar með taldar handjarðstöðvar, ætlaðar til einkafjarskiptanotkunar um gervihnattanet (S-PCN) með tíðnisviðið 2,0 GHz gegnum fargervihnattaþjónustu (MSS) (tilkynnt með númeri C(1998) 2376 (98/534/EB) (Stjtíð. EB L 247, 05.09.98, bls. 13) (4. tölul. zr í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 108/99)


    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 4. september 1998 um sameiginlega tækniforskrift fyrir kröfur um talsímaþjónustu fyrir farsímastöðvar sem ætlaðar eru til nota við II. áfanga almennra stafrænna hólfskiptra fjarskiptaneta fyrir DCS 1800 tíðnisviði (II. útgáfa) (tilkynnt með númeri C(1998) 2562) (98/543/EB) (Stjtíð. EB L 254, 16.09.98, bls. 32) (4. tölul. zt í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 110/99)

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 16. september 1998 um sameiginlega tækniforskrift fyrir almennar tengikröfur vegna talsímaþjónustu með almennum Evrópufarsíma, II. áfangi (2. útgáfa) (tilkynnt með númeri C(1998) 2720) (98/574/EB) (Stjtíð. EB L 278, 15.10.98, bls. 30) (4 tölul. zv í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 112/99)


    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 16. september 1998 um sameiginlega tækniforskrift fyrir almennar tengikröfur vegna farsímastöðva sem ætlaðar eru til nota við II. áfanga almennra, stafrænna, hólfskiptra fjarskiptaneta fyrir GSM 1800 tíðnisviðið (2. útgáfa) (tilkynnt með númeri C(1998) 2721) (98/575/EB) (Stjtíð. EB L 278, 15.10.98, bls. 35) (4. tölul. zw í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 112/99)

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 16. september 1998 um sameiginlega tækniforskrift fyrir tengikröfur vegna endabúnaðar með innbyggða, hliðræna handstillingu til að tengja við almenna símakerfið (PSTN) (tilkynnt með númeri C(1998) 2722) (98/576/EB) (Stjtíð. EB L 278, 15.10.98, bls. 40) (4. tölul. zx í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 112/99)


    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 16. september 1998 um sameiginlega tækniforskrift fyrir gervihnattajarðstöðvar fyrir VSAT-endabúnað sem nota tíðnisviðin 4 GHz og 6 GHz. (tilkynnt með númeri C(1998) 2723) (98/577/EB) (Stjtíð. EB L 278, 15.10.98, bls. 43) (4. tölul. zy í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 112/99)


    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 16. september 1998 um sameiginlega tækniforskrift fyrir færanlegar gervihnattajarðstöðvar (LMES) á landi með litlum gagnasendingahraða fyrir tíðnisviðin 1,5/1,6 GHz (tilkynnt með númeri C(1998) 2724) (98/578/EB) (Stjtíð. EB L 278, 15.10.98, bls. 46) (4. tölul. zz í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 112/99)

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 30. nóvember 1998 um sameiginlega tækniforskrift fyrir færanlegar gervihnattajarðstöðvar (LMES) á landi fyrir tíðnisviðin 1,5/1,6 GHz (tilkynnt með númeri C(1998) 3695) (98/734/EB) (Stjtíð. EB L 351, 29.12.1998, bls. 37) (4. tölul. zza í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 164/99)

Sviss
    Lög ríkjasambandsins frá 30. apríl 1997 um fjarskipti (LTC; RO 1997 2187)

    Reglugerð ríkisstjórnarinnar frá 6. október 1997 um fjarskiptabúnað (OIT; RO 1997 2853)


    Reglugerð Fjarskiptamálaskrifstofu ríkjasambandsins (OFCOM) frá 9. desember 1997 um fjarskiptabúnað; (RO 1998 485)

    1. viðauki við OFCOM reglugerð um fjarskiptabúnað (RO 1998 488), eins og henni var síðast breytt 9. mars 1999 (RO 1999 1191)

    Tæknistaðlar sem skylt er að fara eftir:
    10.1 byggður á CTR1 (97/544/EB)
    10.2 byggður á CTR2, 2. útgáfu (97/545/EB)
    10.3 byggður á CTR3, 1. breytingu (98/515/EB)
    10.4 byggður á CTR4, 1. breytingu (98/520/EB)
    10.6 byggður á CTR6, 2. útgáfu (97/523/EB)
    10.7 byggður á CTR7, 2. útgáfu (98/522/EB)
    10.8 byggður á CTR8, (95/526/EB)
    10.10 byggður á CTR10, 2. útgáfu (97/524/EB)
    10.11 byggður á CTR11 (95/525/EB)
    10.12 byggður á CTR12, 1. breytingu (97/520/EB)
    10.13 byggður á CTR13 (97/521/EB)
    10.14 byggður á CTR14, 1. breytingu (97/522/EB)
    10.15 byggður á CTR15, (97/486/EB)
    10.17 byggður á CTR17, (97/487/EB)
    10.19 byggður á CTR19, 2. útgáfu (98/574/EB)
    10.20 byggður á CTR20, 2. útgáfu (98/542/EB)
    10.21 byggður á CTR21, (98/482/EB)
    10.22 byggður á CTR22 (97/525/EB)
    10.23 byggður á CTR23 (98/535/EB)
    10.24 byggður á CTR24 (97/639/EB)
    10.25 byggður á CTR25 (97/751/EB)
    10.26 byggður á CTR26 (98/578/EB)
    10.27 byggður á CTR27 (98/516/EB)
    10.28 byggður á CTR28 (98/519/EB)
    10.30 byggður á CTR30 (98/517/EB)
    10.31 byggður á CTR31, 2. útgáfu (98/575/EB)
    10.32 byggður á CTR32, 2. útgáfu (98/543/EB)
    10.33 byggður á CTR33 (98/521/EB)
    10.34 byggður á CTR34 (98/518/EB)
    10.38 byggður á CTR38 (98/576/EB)
    10.41 byggður á CTR41 (98/533/EB)
    10.42 byggður á CTR42 (98/534/EB)
    10.43 byggður á CTR43 (98/577/EB)
    10.44 byggður á CTR44 (98/734/EB)

II. ÞÁTTUR
AÐILAR SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Nefndin skal, samkvæmt málsmeðferðinni sem lýst er í 11. gr. viðaukans, taka saman og viðhalda uppfærðri skrá yfir aðila sem annast samræmismat.


III. ÞÁTTUR
TILNEFNINGARYFIRVÖLD


EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu:
*      Ísland:
    Samgönguráðuneytið
*      Liechtenstein:
    Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein10
*      Noregur:
    Samgöngu- og fjarskiptaráðuneytið

Sviss:
    Fjarskiptamálaskrifstofa ríkjasambandsins

IV. ÞÁTTUR
SÉRSTAKAR REGLUR SEM VARÐA TILNEFNINGU AÐILA SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Við tilnefningu aðila sem annast samræmismat skulu tilnefningaryfirvöld fara að meginreglunum í 2. viðbæti og í V. viðauka við tilskipun 98/13/EB (4. tölul. zg í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 32/99).


V. ÞÁTTUR
VIÐBÓTARÁKVÆÐI


1.     Stjórnsýsluákvörðun
    Aðildarríkin skulu viðurkenna gagnkvæmt stjórnsýsluákvörðun (6. mgr. 11. gr.) í tilskipun 98/13/EB (4. tölul. zg í XVIII. kafla II.viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 32/99), 31. gr. laga ríkjasambandsins frá 30. apríl 1997 um fjarskipti (LTC; RO 1977 2187) og 8. gr. ff reglugerðar ríkisstjórnarinnar frá 6. október 1997 um fjarskiptabúnað (OIT; RO 1997 2853)) sem samþykkja teng-







10 Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein er heimilt að skipa síðar viðeigandi sérstök innlend stjórnsýsluyfirvöld til að tilnefna aðila sem annast samræmismat.

ingu endabúnaðarins sem um ræðir við almennt fjarskiptanet. 11


2.     Tilkynning um yfirlýsingu framleiðanda eða birgis
    Þegar fjarskiptabúnaðurinn sem um getur í 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 98/13/EB (4. tölul. zg í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 32/99), er settur á markað í einhverju aðildarríkjanna skal sá sem ber ábyrgð á markaðssetningunni tilkynna tilkynntum aðila aðildarríkisins, þar sem búnaðurinn er fyrst settur á markað um yfirlýsingu framleiðanda eða birgis.


3.     Prófunarstofur
    Hvert og eitt aðildarríki skal upplýsa hin aðildarríkin um þær prófunarstofur sem tilnefndar hafa verið til að framkvæma prófanir sem lið í málsmeðferð þeirri sem um getur í 10. gr tilskipunar 98/13/EB (4. tölul. zg í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 32/99). Beita skal viðmiðunum tilskildra samhæfðra staðla um tilnefningu prófunarstofa.

4.     Skipti á upplýsingum milli aðila sem annast samræmismat
4.1        Í samræmi við 7. tölul. f í I. viðauka við tilskipun 98/13/EB (4 tölul. zg í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 32/99), skulu þeir aðilar sem annast samræmismat sem skráðir eru í II. þætti þessa viðbætis láta hinum aðilunum í té viðeigandi upplýsingar um gerðarprófunarvottorð sem hafa verið gefin út eða afturkölluð.
4.2        Í samræmi við 6. tölul. III. viðauka og 6. tölul. IV. viðauka við tilskipun 98/13/EB (4. tölul. zg í XVIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 32/99), skulu þeir aðilar sem annast samræmismat sem skráðir eru í II. þætti þessa viðbætis láta hinum aðilunum í té viðeigandi upplýsingar um gæðakerfisviðurkenningar sem hafa verið gefnar út eða afturkallaðar.







11 Með skírskotun til þessa viðauka ber að túlka hugtakið „almennt fjarskiptanet“ að því er varðar svissnesk lög sem „búnað sem þjónustuveitandi á sviði fjarskipta lætur í té“.

8. KAFLI
BÚNAÐUR OG ÖRYGGISKERFI TIL NOTKUNAR Á SPRENGIHÆTTUSTÖÐUM


I. ÞÁTTUR
LÖG OG STJÓRNSÝSLUÁKVÆÐI



Ákvæði sem falla undir 2. mgr. 1. gr.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/9/EB frá 23. mars 1994 um samhæfingu laga aðildarríkjanna varðandi búnað og öryggiskerfi sem eru ætluð til notkunar á sprengihættustöðum (Stjtíð. EB L 100, 19.04.1994, bls. 1) (7. tölul. a í X. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 14/94)


    Tilskipun ráðsins frá 18. desember 1975 um samræmingu laga aðildarríkjanna um rafföng til notkunar á sprengihættustöðum (76/117/EBE) (Stjtíð. EB L 24, 30.01.1976, bls. 45) (2. tölul. í X. kafla II. viðauka EES-samningsins)


    Tilskipun ráðsins frá 6. febrúar 1979 um samræmingu laga aðildarríkjanna um rafföng með tiltekna varnartilhögun til notkunar á sprengihættustöðum (79/196/EBE) (3. tölul. í X. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 97/53/EB frá 11. september 1997 (Stjtíð. EB L 257, 20.09.1997, bls. 27) (fimmti undirliður, 3. tölul. í X. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 57/98)

    Tilskipun ráðsins frá 15. febrúar 1982 um samræmingu laga aðildarríkjanna um rafföng til notkunar á sprengihættustöðum í námum þar sem eldfimt gas getur myndast (82/130/EBE) (4. tölul. í X. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 98/65/EB frá 3. september 1998 (Stjtíð. EB L 257, 19/09/1998, bls. 29) (fjórði undirliður, 4 tölul. í X. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 48/99)

Sviss
    Lög ríkjasambandsins frá 24. júní 1902 varðandi veik- og sterkstraumslagnir (RO 19 252 et RS 4 798), eins og þeim var síðast breytt 3 Febrúar 1993 (RO 1993 901)

    Reglugerð frá 2. mars 1998 um öryggi tækja og varnarbúnaðar sem ætlaður er til notkunar á sprengihættustöðum (RO 1998 963)


    Lög ríkjasambandsins frá 19. mars 1976 um öryggi tæknibúnaðar (RO 1977 2370), eins og þeim var síðast breytt 18. júní 1993 (RO 1995 2766)


    Reglugerð frá 12. júní 1995 um öryggi tæknibúnaðar (RO 1995 2770), eins og henni var síðast breytt 17. júní 1996 (RO 1996 1867)


    Reglugerð frá 12. júní 1995 um málsmeðferð við samræmismat á tæknibúnaði (RO 1995 2783)


II. ÞÁTTUR
AÐILAR SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Nefndin skal, samkvæmt málsmeðferðinni sem lýst er í 11. gr. viðaukans, taka saman og viðhalda uppfærðri skrá yfir aðila sem annast samræmismat.


III. ÞÁTTUR
TILNEFNINGARYFIRVÖLD


EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu:
*      Ísland:
    Félagsmálaráðuneytið
*      Liechtenstein:
    Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein12
*      Noregur:
    Ráðuneyti sveitarstjórna og vinnumála


Sviss:
    Orkumálaskrifstofa ríkjasambandsins

IV. ÞÁTTUR
SÉRSTAKAR REGLUR SEM VARÐA TILNEFNINGU AÐILA SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Við tilnefningu aðila sem annast samræmismat skulu tilnefningaryfirvöld fara að meginreglunum í 2. viðbæti og í XI. viðauka við tilskipun 94/9/EB (7.



12 Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein er heimilt að skipa síðar viðeigandi sérstök innlend stjórnsýsluyfirvöld til að tilnefna aðila sem annast samræmismat.

tölul. í X. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 14/94).


V. ÞÁTTUR
VIÐBÓTARÁKVÆÐI


1.     Skipti á upplýsingum
    Þeir aðilar sem annast samræmismat sem taldir eru upp í II. þætti skulu veita EFTA-ríkjunum á Evrópska efnahagssvæðinu, lögbærum svissneskum yfirvöldum og/eða öðrum aðilum sem annast samræmismat þær upplýsingar sem kveðið er á um í 2. mgr. 9. gr. tilskipunar 76/117/EBE (2. tölul. í X. kafla II. viðauka EES-samningsins).

2.     Tæknigögn
    Það skal teljast nægjanlegt að framleiðendur, viðurkenndir fulltrúar þeirra eða sá sem ber ábyrgð á að setja vörur á markað hafi tæknigögn, sem innlend yfirvöld krefjast vegna skoðunar, tiltæk á yfirráðasvæði einhvers aðildarríkjanna í að minnsta kosti tíu ár frá síðasta framleiðsludegi vörunnar.


    Aðildarríkin skuldbinda sig hér með til að senda öll viðeigandi tæknigögn til annarra aðildarríkja að beiðni þeirra.

9. KAFLI
RAFFÖNG OG RAFSEGULSVIÐSSAMHÆFI


I. ÞÁTTUR
LÖG OG STJÓRNSÝSLUÁKVÆÐI



Ákvæði sem falla undir 2. mgr. 1. gr.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu
    Tilskipun ráðsins frá 19. febrúar 1973 um samhæfingu laga aðildarríkjanna um rafföng sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka (73/23/EBE) (1. tölul. í X. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun ráðsins 93/68/EBE frá 22. júlí 1993 (Stjtíð. EB L 220, 30.08.1993, bls. 1) (fyrsti undirliður, 1. tölul. í X. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94)

    Tilskipun ráðsins frá 3. maí 1989 um samræmingu laga aðildarríkjanna um rafsegulsviðssamhæfi (89/336/EBE) (6. tölul. í X. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun ráðsins 93/68/EBE frá 22. júlí 1993 (Stjtíð. EB L 220, 30.08.1993, bls. 1) (annar undirliður, 6. tölul. í X. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94)

Sviss
    Lög ríkjasambandsins frá 24. júní 1902 varðandi veik- og sterkstraumslagnir (RO 19 252 et RS 4 798), eins og þeim var síðast breytt 3. febrúar 1993 (RO 1993 901)

    Reglugerð frá 30. mars 1994 um veikstraumslagnir (RO 1994 1185)

    Reglugerð frá 30. mars 1994 um sterkstraumslagnir (RO 1994 1199), eins og henni var síðast breytt 5. desember 1995 (RO 1995 1024)

    Reglugerð frá 9. apríl 1997 um lágspennurafbúnað (RO 1997 1016)

    Reglugerð frá 9. apríl 1997 rafsegulsviðssamhæfi (RO 1997 1008)

II. ÞÁTTUR
AÐILAR SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Nefndin skal, samkvæmt málsmeðferðinni sem lýst er í 11. gr. viðaukans, taka saman og viðhalda uppfærðri skrá yfir aðila sem annast samræmismat.


III. ÞÁTTUR
TILNEFNINGARYFIRVÖLD


EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu:
*      Ísland:
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið,
    Samgönguráðuneytið
*      Liechtenstein:
    Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein13
*      Noregur:
    Ráðuneyti stjórnsýslu og vinnumála


Sviss:
    Orkumálaskrifstofa ríkjasambandsins







13 Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein er heimilt að skipa síðar viðeigandi sérstök innlend stjórnsýsluyfirvöld til að tilnefna aðila sem annast samræmismat.

IV. ÞÁTTUR
SÉRSTAKAR REGLUR SEM VARÐA TILNEFNINGU AÐILA SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Við tilnefningu aðila sem annast samræmismat skulu tilnefningaryfirvöld fara að meginreglunum í 2. viðbæti og II. viðauka við tilskipun 89/336/EBE (6. tölul. í X. kafla II. viðauka EES-samningsins).


V. ÞÁTTUR
VIÐBÓTARÁKVÆÐI


1.     Tæknigögn
    Það skal teljast nægjanlegt að framleiðendur, viðurkenndir fulltrúar þeirra eða sá sem ber ábyrgð á að setja vörur á markað hafi tæknigögn, sem innlend yfirvöld krefjast vegna skoðunar, tiltæk á yfirráðasvæði einhvers aðildarríkjanna í að minnsta kosti tíu ár frá síðasta framleiðsludegi vörunnar.


    Aðildarríkin skuldbinda sig hér með til að senda öll viðeigandi tæknigögn til annarra aðildarríkja að beiðni þeirra.

2.     Staðlastofnanir
    Í samræmi við 11. gr. tilskipunar 73/23/EBE (fyrsti tölul. í X. kafla II. viðauka EES-samningsins), skulu aðildarríkin tilkynna hvert öðru um þær stofnanir sem bera ábyrgð á að semja staðlana sem um getur í 5. gr. þessarar tilskipunar.

3.     Þar til bærar stofnanir
    Aðildarríkin skulu tilkynna hvert öðru um og viðurkenna gagnkvæmt þær stofnanir sem gerðar hafa verið ábyrgar fyrir því að semja tækniskýrslur og/eða vottorð samkvæmt 2. mgr. 8. gr. tilskipunar 73/23/EBE (1. tölul. í X. kafla II. viðauka EES-samningsins) og 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 89/336/EBE (6. tölul. í X. kafla II. viðauka EES-samningsins).

4.     Sérstakar ráðstafanir
    Í samræmi við 2. mgr. 6. gr. tilskipunar 89/336/EBE (6. tölul. í X. kafla II. viðauka EES-samningsins), skulu aðildarríkin gera hinum aðildarríkjunum viðvart um sérstakar ráðstafanir sem gerðar eru í samræmi við 1. mgr. þeirrar greinar.

5.     Þar til bær yfirvöld
    Í samræmi við 6. mgr. 10. gr. tilskipunar 89/336/EBE (6. tölul. í X. kafla II. viðauka EES-samningsins), skulu aðildarríkin tilkynna hinum aðildarríkjunum um þar til bær yfirvöld sem getið er í þeirri grein.

10. KAFLI
BYGGINGARSVÆÐI OG BÚNAÐUR

I. ÞÁTTUR
LÖG OG STJÓRNSÝSLUÁKVÆÐI



Ákvæði sem falla undir 1. mgr. 1. gr.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu
    Tilskipun ráðsins frá 19. desember 1978 um samræmingu laga aðildarríkjanna um að ákvarða hávaðastig véla og búnaðar á byggingarsvæðum (79/113/EBE) (Stjtíð. EB L 33, 08.02.1979, bls.15) (1. tölul. í VI. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn


    Tilskipun ráðsins frá 17. september 1984 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi sameiginleg ákvæði um vélar og búnað á byggingarsvæðum (84/532/EBE) (Stjtíð. EB L 300, 19.11.1984, bls. 111) (2. tölul. í VI. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn

    Tilskipun ráðsins frá 17. september 1984 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi leyfilegt hljóðaflsstig loftpressna (84/533/EBE) (Stjtíð. EB L 300, 19.11.1984, bls. 123) (3. tölul. í VI. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn

    Tilskipun ráðsins frá 17. september 1984 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi leyfilegt hljóðaflsstig byggingarkrana (84/534/EBE) (Stjtíð. EB L 300, 19.11.1984, bls. 130) (4. tölul. í VI. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn

    Tilskipun ráðsins frá 17. september 1984 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi leyfilegt hljóðaflsstig rafsuðuvéla (84/535/EBE) (Stjtíð. EB L 300, 19.11.1984, bls. 142) (5. tölul. í VI. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn

    Tilskipun ráðsins frá 17. september 1984 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi leyfilegt hljóðaflsstig vélknúinna rafala (84/536/EBE) (Stjtíð. EB L 300, 19.11.19784, bls. 149) (6. tölul. í VI. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn

    Tilskipun ráðsins frá 17. september 1984 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi leyfilegt hljóðaflsstig vélknúinna handverkfæra fyrir múrbrot og fleygun (84/537/EBE) (Stjtíð. EB L 300, 19.11.1984, bls. 156) (7. tölul. í VI. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn


    Tilskipun ráðsins frá 22. desember 1986 um takmörkun hávaða frá vökva- og víragröfum, jarðýtum, hjóla- og beltaskóflum og traktorsgröfum (86/662/EBE) (Stjtíð. EB L 384, 31.1.1986, bls. 1) (10. tölul. í VI. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn

    Tilskipun ráðsins frá 17. september 1984 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi leyfilegt hljóðaflsstig garðsláttuvéla (84/538/EBE) (Stjtíð. EB L 300, 19.11.1984, bls. 171) (1. tölul. í VII. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn

Sviss
    Engin löggjöf

II. ÞÁTTUR
AÐILAR SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Nefndin skal, samkvæmt málsmeðferðinni sem lýst er í 11. gr. viðaukans, taka saman og viðhalda uppfærðri skrá yfir aðila sem annast samræmismat.


III. ÞÁTTUR
TILNEFNINGARYFIRVÖLD


EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu:
*      Ísland:
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið
*      Liechtenstein
    Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein14



14 Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein er heimilt að skipa síðar viðeigandi sérstök innlend stjórnsýsluyfirvöld til að tilnefna aðila sem annast samræmismat.
*      Noregur:
    Ráðuneyti sveitarstjórna og byggðaþróunar


Sviss:
    Umhverfis-, skógræktar- og landslagsskrifstofa ríkjasambandsins

IV. ÞÁTTUR
SÉRSTAKAR REGLUR SEM VARÐA TILNEFNINGU AÐILA SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Við tilnefningu aðila sem annast samræmismat skulu tilnefningaryfirvöld fara að meginreglunum í 2. viðbæti og í II. viðauka við tilskipun ráðsins 84/532/EBE (EES-samningsins 2. tölul. í VI. kafla II. viðauka), eins og henni var breytt með tilskipun ráðsins 88/665/EBE (fyrsti undirliður, 2. tölul. í VI. kafla II. viðauka EES-samningsins).


11. KAFLI
MÆLITÆKI OG TILBÚNAR PAKKNINGAR


I. ÞÁTTUR
LÖG OG STJÓRNSÝSLUÁKVÆÐI



Ákvæði sem falla undir 1. mgr. 1. gr.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu
    Tilskipun ráðsins frá 12. október 1971 um samræmingu laga aðildarríkjanna um að ákvarða hektólítraþyngd kornvöru (71/347/EBE) (Stjtíð. EB L 239, 25.10.1971, bls. 1) (5. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn


    Tilskipun ráðsins frá 12. október 1971 um samræmingu laga aðildarríkjanna um kvörðun á tönkum skipa (71/349/EBE) (Stjtíð. EB L 239, 25.10.1971, bls. 15) (7. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn


    Tilskipun ráðsins frá 17. desember 1974 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi rennslismæla fyrir kalt vatn (75/33/EBE) (Stjtíð. EB L 14, 20.01.1975, bls. 1) (7. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn

    Tilskipun ráðsins frá 27. júlí 1976 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi alkóhólmæla og alkóhól-flotmæla (76/765/EBE) (Stjtíð. EB L 262, 27.09.1976, bls. 143) (17. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn


    Tilskipun ráðsins frá 21. desember 1976 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi gjaldmæla leigubifreiða (77/95/EBE) (Stjtíð. EB L 26, 31.01.1977, bls. 59) (20. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn

    Tilskipun ráðsins frá 5. desember 1978 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi sjálfvirkar gátvigtunar- og þyngdarflokkunarvélar (78/1031/EBE) (Stjtíð. EB L 364, 27.12.1978, bls. 1) (22. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn

    Tilskipun ráðsins frá 11. september 1979 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi heitavatnsmæla (79/830/EBE) (Stjtíð. EB L 259, 15.10.1979, 1) (EES-samningsins 23. tölul. í IX. kafla II. viðauka), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn


    Tilskipun ráðsins frá 26. maí 1986 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi mælitæki til mælinga á loftþrýstingi í hjólbörðum vélknúinna ökutækja (86/217/EBE) (Stjtíð. EB L 152, 06.06.1986, bls. 48) (26. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn

    Tilskipun ráðsins um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi vogarbúnað sem er ekki sjálfvirkur (90/384/EBE) (Stjtíð. EB L 189, 20.07.1990, bls. 1) (27. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn


    Tilskipun ráðsins frá 19. desember 1974 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi tilgreint rúmmál tiltekins forpakkaðs vökva (75/106/EBE) (Stjtíð. EB L 42, 15.02.1975, bls. 1) (12. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn

    Tilskipun ráðsins frá 19. desember 1974 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi flöskur (ílát) sem notaðar eru sem mælikeröld (75/107/EBE) (Stjtíð. EB L 42, 15.02.1975, bls. 14) (13. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn

    Tilskipun ráðsins frá 20. janúar 1976 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi tilgreinda vigt eða rúmmál tiltekinnar forpakkaðrar vöru (76/211/EBE) (Stjtíð. EB L 46, 21.02.1976, bls. 1) (15. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn


    Tilskipun ráðsins frá 15. janúar 1980 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi tilgreint magn og rými sem leyfilegt er fyrir tilteknar forpakkaðar vörur (80/232/EBE) (Stjtíð. EB L 51, 25.02.1980, bls. 1) (25. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn


Sviss
    Reglugerð frá 21. maí 1986 um mælitæki fyrir varmaorku (RS 941.231) með áorðnum breytingum

    Reglugerð frá 15. júlí 1970 varðandi bindandi yfirlýsingar í viðskiptum með mælanlegar vörur (RS 941.281) með áorðnum breytingum

    Reglugerð frá 25. október 1972 um yfirlýsingar (RS 941.281.1) með áorðnum breytingum

    Reglugerð frá 3. desember 1973 um rúmmálsmælingar (RS 941.211) með áorðnum breytingum

    Reglugerð frá 17. desember 1984 um flokkun mælitækja (RS 941.210)

    Reglugerð frá 15. ágúst 1986 um vogarbúnað (RS 941.221.1)

Ákvæði sem falla undir 2. mgr. 1. gr.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu
    Tilskipun ráðsins frá 20. desember 1979 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi mælieiningar og um ógildingu tilskipunar 71/354/EBE (80/181/EBE) (24. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun ráðsins 89/617/EBE frá 27. nóvember 1989 (Stjtíð. EB L 357, 7/12/1989, bls. 28) (þriðji undirliður, 24. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun ráðsins frá 26. júlí 1971 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi sameiginleg ákvæði um mælitæki og aðferðir við mælifræðilegt eftirlit (71/316/EBE) (1. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun ráðsins 88/665/EBE frá 21. desember 1988 (Stjtíð. EB L 382, 31/12/1988, bls. 42) (sjöundi undirliður, 1. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun ráðsins frá 26. júlí 1971 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi 5–50 kg rétthyrningslaga lóð í millinákvæmnisflokki og 1–10 kg sívöl lóð í millinákvæmnisflokki (71/317/EBE) (Stjtíð. EB L 202, 6/9/1971, bls. 14) (2. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun ráðsins frá 26. júlí 1971 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi rennslismæla fyrir gasrúmmál (71/318/EBE) (3. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 82/623/EBE frá 1. júlí 1982 (Stjtíð. EB L 252, 27/8/1982, bls. 5) (þriðji undirliður, 3. tölul. IX. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun ráðsins frá 26. júlí 1971 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi rennslismæla fyrir vökva aðra en vatn (71/319/EBE) (Stjtíð. EB L 202, 6/9/1971, bls. 32) (4. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun ráðsins frá 12. október 1971 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi viðbótarbúnað með rennslismælum fyrir vökva aðra en vatn (71/348/EBE) (Stjtíð. EB L 239, 25/10/1971, bls. 9) (6. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun ráðsins frá 19. nóvember 1973 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi lengdarmælingar (73/362/EBE) (9. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 85/146/EBE frá 31. janúar 1985 (Stjtíð. EB L 54, 23/2/1985, bls. 29) (annar undirliður, 9. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun ráðsins frá 4. mars 1974 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi lóð sem eru frá 1 mg og upp í 50 kg að þyngd í hærri nákvæmnisflokkum (74/148/EBE) (Stjtíð. EB L 84, 28/3/1974, bls. 3) (10. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun ráðsins frá 24. júní 1975 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi samfelldan samlagningarvogarbúnað (75/410/EBE) (Stjtíð. EB L 183, 14/7/1975, bls. 25) (14. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins)


    Tilskipun ráðsins frá 27. júlí 1976 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi alkóhól-töflur (76/766/EBE) (Stjtíð. EB L 262, 27/9/1976, bls. 149) (18. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun ráðsins frá 4. nóvember 1976 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi kröfur til rafmagnsmæla (76/891/EBE) (19. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 82/621/EBE frá 1. júlí 1982 (Stjtíð. EB L 252, 27/8/1982, bls. 1) (1. undirliður, 19. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun ráðsins frá 5. apríl 1977 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi mælikerfi fyrir vökva aðra en vatn (77/313/EBE) (21. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 82/625/EBE frá 1. júlí 1982 (Stjtíð. EB L 252, 27/8/1982, bls. 10) (fyrsti undirliður, 21. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins)

Sviss
    Lög ríkjasambandsins frá 9. júní 1977 um mælikerfi (RO 1977 2394), eins og þeim var síðast breytt 18. júní 1993 (RO 1993 3149)

    Reglugerð frá 23. nóvember 1994 um mælieiningar (RO 1994 3109)

    Reglugerð frá 8. apríl 1991 um tæki til lengdarmælinga (RO 1991 1306)

    Reglugerð frá 1. desember 1986 um mælitæki fyrir vökva annan en vatn (RO 1987 216)


    Reglugerð frá 15. ágúst 1986 um vogarbúnað (RO 1986 2022), eins og henni var síðast breytt 21. nóvember 1995 (RO 1995 5646)

    Reglugerð frá 4. ágúst 1986 um mælitæki fyrir magn lofttegunda (RO 1986 1491)

    Reglugerð frá 4. ágúst 1986 um mælitæki fyrir raforku (RO 1986 1496)


II. ÞÁTTUR
AÐILAR SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Nefndin skal, samkvæmt málsmeðferðinni sem lýst er í 11. gr. viðaukans, taka saman og viðhalda uppfærðri skrá yfir aðila sem annast samræmismat.


III. ÞÁTTUR
TILNEFNINGARYFIRVÖLD


Ákvæði sem falla undir 1. mgr. 1. gr.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu:
*      Ísland:
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið
*      Liechtenstein
    Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein15
*      Noregur:
    Viðskipta- og iðnaðarráðuneytið

Sviss:
    Mælifræðiskrifstofa ríkjasambandsins

Ákvæði sem falla undir 2. mgr. 1. gr.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu:
*      Ísland:
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið
*      Liechtenstein:
    Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein16
*      Noregur:
    Viðskipta- og iðnaðarráðuneytið


15 Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein er heimilt að skipa síðar viðeigandi sérstök innlend stjórnsýsluyfirvöld til að tilnefna aðila sem annast samræmismat.
16 Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein er heimilt að skipa síðar viðeigandi sérstök innlend stjórnsýsluyfirvöld til að tilnefna aðila sem annast samræmismat.

Sviss:
    Mælifræðiskrifstofa ríkjasambandsins

IV. ÞÁTTUR
SÉRSTAKAR REGLUR SEM VARÐA TILNEFNINGU AÐILA SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Við tilnefningu aðila sem annast samræmismat skulu tilnefningaryfirvöld fara að meginreglunum í 2. viðbæti og í V. viðauka við tilskipun 90/384/EBE (27. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins), að því sem varðar vörur sem falla undir þá tilskipun.


V. ÞÁTTUR
VIÐBÓTARÁKVÆÐI


1.     Skipti á upplýsingum
    Þeir aðilar sem annast samræmismat, sem tilgreindir eru í II. þætti, skulu öðru hverju veita EFTA-ríkjunum á Evrópska efnahagssvæðinu og lögbærum svissneskum yfirvöldum þær upplýsingar sem kveðið er á um í tölul. 1.5, í II. viðauka við tilskipun 90/384/EBE (27. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins).
    Þeim aðilum sem annast samræmismat sem tilgreindir eru í II. þætti er heimilt að óska eftir upplýsingunum sem kveðið er á um í tölul. 1.6 í II. viðauka við tilskipun 90/384/EBE (27. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins).

2.     Tilbúnar pakkningar
    Sviss skal viðurkenna skoðanir sem gerðar hafa verið af ríkisstofnunum EFTA-ríkjanna á Evrópska efnahagssvæðinu, sem tilgreindar eru í II. þætti, í samræmi við gildandi lagaákvæði í EFTA-ríkjunum á Evrópska efnahagssvæðinu þegar um er að ræða tilbúnar pakkningar frá EFTA-ríkjunum á Evrópska efnahagssvæðinu sem settar eru á markað í Sviss.
    Hvað varðar tölfræðilegt eftirlit með yfirlýstu magni í tilbúnum pakkningum skulu EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu viðurkenna svissnesku aðferðina sem mælt er fyrir um í 24.–40. gr. reglugerðar um yfirlýsingar (RS 941.281.1) sem jafngilda aðferð EFTA-ríkjanna á Evrópska efnahagssvæðinu sem mælt er fyrir um í II. viðauka tilskipana 75/106/EBE (12. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins) og 76/211/EBE (15. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og þeim var breytt með tilskipun 78/891/EBE (fyrsti undirliður, 15. tölul. í IX. kafla II. viðauka EES-samningsins). Svissneskir framleiðendur sem nota tilbúnar pakkningar sem eru í samræmi við gildandi löggjöf í EFTA-ríkjunum á Evrópska efnahagssvæðinu og sem hafa verið skoðaðar samkvæmt svissnesku aðferðinni skulu setja „e“ merkið á þær vörur sem þeir flytja út til EFTA-ríkjanna á Evrópska efnahagssvæðinu.

12. KAFLI
VÉLKNÚIN ÖKUTÆKI

I. ÞÁTTUR
LÖG OG STJÓRNSÝSLUÁKVÆÐI



Ákvæði sem falla undir 2. mgr. 1. gr.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu
    Tilskipun ráðsins frá 6. febrúar 1970 um samræmingu laga aðildarríkjanna um gerðarviðurkenningu á vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra (70/156/EBE) (1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 98/14/EB frá 6. febrúar 1998 (Stjtíð. EB L 91,25/03/1998, bls. 1) (fjórtándi undirliður, 1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 16/99)

    Tilskipun ráðsins frá 6. febrúar 1970 um leyfilegt hljóðstig og útblásturskerfi vélknúinna ökutækja (70/157/EBE) (2. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 96/20/EB frá 27. mars 1996 (Stjtíð. EB L 92, 13/4/1996, bls. 23) (tíundi undirliður, 2. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 73/96)


    Tilskipun ráðsins frá 20. mars 1970 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi ráðstafanir gegn loftmengun frá hreyflum ökutækja með rafkveikju (70/220/EBE) (3. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/69/EB frá 8. október 1996 (Stjtíð. EB L 282, 1/11/1996, bls. 64) (fjórtándi undirliður, 3. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 74/97)


    Tilskipun ráðsins frá 20. mars 1970 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi eldsneytisgeyma fyrir fljótandi eldsneyti og undirakstursvörn á vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra (70/221/EBE) (4. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 97/19/EB frá 18. apríl 1997 (Stjtíð. EB L 125, 16/05/1997, bls. 1) (fjórði undirliður 4. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 39/98)

    Tilskipun ráðsins frá 20. mars 1970 um samræmingu laga aðildarríkjanna um flöt fyrir aftara skráningarmerki og festingar á því á vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra (70/222/EBE) (Stjtíð. EB L 76, 6/4/1970, bls. 25) (5. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins)


    Tilskipun ráðsins frá 8. júní 1970 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi stýrisbúnað vélknúinna ökutækja og eftirvagna þeirra (70/311/EBE) (6. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 92/62/EBE frá 2. júlí 1992 (Stjtíð. EB L 199, 18/7/1992, bls. 33) (annar undirliður, 6. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94)

    Tilskipun ráðsins frá 27. júlí 1970 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi dyr á vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra (70/387/EBE) (Stjtíð. EB L 176, 10/8/1970, bls. 5) (7. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun ráðsins frá 27. júlí 1970 um samræmingu laga aðildarríkjanna um hljóðmerkjabúnað vélknúinna ökutækja (70/388/EBE) (Stjtíð. EB L 176, 10/8/1970, bls. 12) (8. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun ráðsins frá 1. mars 1971 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi baksýnisspegla á vélknúnum ökutækjum (71/127/EBE) (9. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 88/321/EBE frá 16 maí 1988 (Stjtíð. EB L 147, 14/6/1988, bls. 77) (sjöundi undirliður, 9 tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun ráðsins frá 26. júlí 1971 um samræmingu laga aðildarríkjanna um hemlabúnað á vissum tegundum vélknúinna ökutækja og eftirvagna þeirra (71/320/EBE) (10. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins) eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 98/12/EBE frá 27. janúar 1998 (Stjtíð. EB L 081, 18/03/1998, bls. 1) (áttundi undirliður, 10. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 16/99)

    Tilskipun ráðsins EBE frá 20. júní 1972 um rafsegultruflanir (rafsegulsviðssamhæfi) í ökutækjum (72/245/EBE) (11. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 95/54/EB frá 31. október 1995 (Stjtíð. EB L 266, 8/11/1995, bls. 1) (annar undirliður, 11. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 72/96)


    Tilskipun ráðsins frá 2. ágúst 1972 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi aðgerðir gegn mengandi efnum í útblæstri dísilhreyfla til notkunar í ökutækjum (72/306/EBE (12. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 97/20/EB frá 18. apríl 1997 (Stjtíð. EB L 125, 16/05/1997, bls. 21) (annar undirliður, 12. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 28/98)

    Tilskipun ráðsins frá 17. desember 1973 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi innréttingar vélknúinna ökutækja (74/60/EBE) (13. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 78/632/EBE frá 19. maí 1978 (Stjtíð. EB L 206, 29/7/1978, bls. 26) (fyrsti undirliður, 13. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins)




    Tilskipun ráðsins frá 17. desember 1973 m samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi búnað til að koma í veg fyrir notkun vélknúins ökutækis án leyfis 74/61/EBE) (14. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 95/56/EB frá 8. nóvember 1995 (Stjtíð. EB L 286, 29/11/1995, bls. 1) (fyrsti undirliður, 14. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 74/96)

    Tilskipun ráðsins frá 4. júní 1974 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi innri stjórnbúnað vélknúinna ökutækja (hegðun stýrisbúnaðar í árekstri) (74/297/EBE) (15. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 91/662/EBE frá 6. desember 1991 (Stjtíð. EB L 366, 31/12/1991, bls. 1) (fyrsti undirliður, 15. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94)

    Tilskipun ráðsins frá 22. júlí 1974 um sæti, sætisfestingar og höfuðpúða í vélknúnum ökutækjum. (74/408/EBE) (16. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 96/37/EB frá 17. júní 1996 (Stjtíð. EB L 186, 25/7/1996, bls. 71) (annar undirliður, 16. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 62/97)


    Tilskipun ráðsins frá 17. september 1974 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi útstæða hluta vélknúinna ökutækja (74/483/EBE) (17. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun ráðsins 87/354/EBE frá 25. júní 1987 (Stjtíð. EB L 192, 11/7/1987, bls. 43) 17

    Tilskipun ráðsins frá 26. júní 1975 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi bakkskiptingu og hraðamæli vélknúinna ökutækja (75/443/EBE) (18. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 97/39/EB frá 24. júní 1997 (Stjtíð. EB L 177,05/07/1997, bls. 15) (fyrsti undirliður, 18. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 55/98)

    Tilskipun ráðsins frá 18. desember 1975 um samræmingu laga aðildarríkjanna um lögboðnar merkiplötur og áletranir á vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra, staðsetningu þeirra og uppsetningu (76/114/EBE) (19. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun ráðsins 87/354/EBE frá 25. júní 1987 (Stjtíð. EB L 192, 11/7/1987, bls. 43.) 18


17 Tilskipun ráðsins 87/354/EBE hefur enn ekki verið tekin upp að fullu í EES-samninginn. Það verður gert við næstu uppfærslu I. kafla, II. viðauka EES-samningsins, Vélknúin ökutæki.
18 Tilskipun ráðsins 87/354/EBE hefur enn ekki verið tekin upp að fullu í EES-samninginn. Það verður gert við næstu uppfærslu I. kafla II. viðauka EES-samningsins, Vélknúin ökutæki.

    Tilskipun ráðsins frá 18. desember 1975 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi festingar öryggisbelta í vélknúnum ökutækjum (76/115/EBE) (20. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 96/38/EB frá 17. júní 1996 (Stjtíð. EB L 187, 26/7/1996, bls. 95) (fjórði undirliður, 20. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 63/97)

    Tilskipun ráðsins frá 27. júlí 1976 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi ljósa- og ljósmerkjabúnað vélknúinna ökutækja og eftirvagna þeirra (76/756/EBE) (21. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 97/28/EB frá 11. júní 1997 (Stjtíð. EB L 171, 30/6/1997, bls. 1) (sjöundi undirliður, 21. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 29/98)

    Tilskipun ráðsins frá 27. júlí 1976 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi endurskin frá glitmerkjum á vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra (76/757/EBE) (22. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 97/29/EB frá 11. júní 1997 (Stjtíð. EB L 171, 30/6/1997, bls. 11) (þriðji undirliður, 22. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 70/98)

    Tilskipun ráðsins frá 27. júlí 1976 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi breiddarljósker, stöðuhliðarljósker að aftan og framan, hemlaljósker, ljósker fyrir dagljósabúnað og hliðarljósker á vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra (76/758/EBE) (23. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 97/30/EB frá 11. júní 1997 (Stjtíð. EB L 171, 30/6/1997, bls. 25) (fjórði undirliður, 23. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 40/98)

    Tilskipun ráðsins frá 27. júlí 1976 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi stefnuljósabúnað vélknúinna ökutækja og eftirvagna þeirra (76/759/EBE) (24. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 89/277/EBE frá 28. mars 1989 (Stjtíð. EB L 109, 20/4/1989, bls. 25) (þriðji undirliður, 24. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun ráðsins frá 27. júlí 1976 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi númersljós vélknúinna ökutækja og eftirvagna þeirra (76/760/EBE) (25. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun ráðsins 87/354/EBE frá 25. júní 1987 (Stjtíð. EB L 192, 11/7/1987, bls. 43) 19


    Tilskipun ráðsins frá 27. júlí 1976 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi aðalljós vélknúinna ökutækja sem virka sem háljós og/eða lágljós og varðandi glóðarþráðarperu fyrir slík aðalljós (76/761/EBE) (26. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 89/517/EBE frá 1. ágúst 1989 (Stjtíð. EB L 265, 12/9/1989, bls. 15) (þriðji undirliður, 26. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins)


    Tilskipun ráðsins frá 27. júlí 1976 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi þokuljósker að framan á vélknúnum ökutækjum og glóðarþráðarperur fyrir slík ljósker (76/762/EBE) (27. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun ráðsins 87/354/EBE frá 25. júní 1987 (Stjtíð. EB L 192, 11/7/1987, bls. 43) 20

    Tilskipun ráðsins frá 17. maí 1977 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi dráttarbúnað vélknúinna ökutækja (77/389/EBE) (28. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 96/64/EB frá 2. október 1996 (Stjtíð. EB L 258, 11/10/1996, bls. 26) (fyrsti undirliður, 28. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 75/97)

    Tilskipun ráðsins frá 28. júní 1977 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi þokuljós að aftan á vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra (77/538/EBE) (29. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast


19 Tilskipun ráðsins 87/354/EBE hefur enn ekki verið tekin upp að fullu í EES-samninginn. Það verður gert við næstu uppfærslu I. kafla II. viðauka EES-samningsins, Véknúin ökutæki.
20 Tilskipun ráðsins 87/354/EBE hefur enn ekki verið tekin upp að fullu í EES-samninginn. Það verður gert viðn æstu uppfærslu I. kafla II. viðauka EES-samningsins, Vélknúin ökutæki.

    breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 89/518/EBE frá 1. ágúst 1989 (Stjtíð. EB L 265, 12/9/1989, bls. 24) (þriðji undirliður, 29. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun ráðsins frá 28. júní 1977 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi bakkljós á vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra (77/539/EBE) (30. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 97/32/EB (Stjtíð. EB L 177, 30/06/1997, bls. 63) (þriðji undirliður, 30. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 42/98)

    Tilskipun ráðsins frá 28. júní 1977 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi stöðuljós á vélknúnum ökutækjum (77/540/EBE) (31. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun ráðsins 87/354/EBE frá 25. júní 1987 (Stjtíð. EB L 192, 11/7/1987, bls. 43) 21

    Tilskipun ráðsins frá 28. júní 1977 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi öryggisbelti og aðhaldsbúnað í vélknúnum ökutækjum (77/541/EBE) (32. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 96/36/EB frá 17. júní 1996 (Stjtíð. EB L 178, 17/7/1996, bls. 15) (sjötti undirliður, 32. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 76/97)

    Tilskipun ráðsins frá 27. september 1977 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi sjónsvið ökumanna vélknúinna ökutækja (77/649/EBE) (33. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 90/630/EBE frá 30. október 1990 (Stjtíð. EB L 341, 6/12/1990, bls. 20) (þriðji undirliður, 33. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94)

    Tilskipun ráðsins frá 21. desember 1977 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi innri stjórnbúnað vélknúinna ökutækja (merkingu stjórnrofa, gaumljósa og merkjabúnaðar)


21 Tilskipun ráðsins 87/354/EBE hefur enn ekki verið tekin upp að fullu í EES-samninginn. Það verður gert við næstu uppfærslu I. kafla II. viðauka EES-samningsins, Vélknúin ökutæki.
    (78/316/EBE) (34. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 94/53/EB frá 15. nóvember 1994 (Stjtíð. EB L 299, 22/11/1994, bls. 26) 22

    Tilskipun ráðsins frá 21. desember 1977 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi upphitun og rakahreinsun á rúðum vélknúinna ökutækja (78/317/EBE) (Stjtíð. EB L 81, 28/3/1978, bls. 27) (35. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun ráðsins frá 21. desember 1977 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi þurrku- og sprautubúnað vélknúinna ökutækja (78/318/EBE) (36. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 94/68/EB frá 16. desember 1994 (Stjtíð. EB L 354, 31/12/1994, bls. 1) (fyrsti undirliður, 36. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 40/95)

    Tilskipun ráðsins frá 12. júní 1978 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi hitakerfi í farþegarými vélknúinna ökutækja (78/548/EBE) (Stjtíð. EB L 168, 26/6/1978, bls. 40) (37. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins)


    Tilskipun ráðsins frá 12. júní 1978 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi hjólhlífar vélknúinna ökutækja (78/548/EBE) (38. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 94/78/EB frá 21. desember 1994 (Stjtíð. EB L 354, 31/12/1994, bls. 10) (fyrsti undirliður, 38. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 41/95)

    Tilskipun ráðsins frá 16. október 1978 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi höfuðpúða á sætum vélknúinna ökutækja (78/932/EBE) (39. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt





22 Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 94/53/EB hefur enn ekki verið tekin upp að fullu í EES-samninginn. Það verður gert við næstu uppfærslu I. kafla II. viðauka EES-samningsins, Vélknúin ökutæki.

    með tilskipun ráðsins 87/354/EBE frá 25. júní 1987 (Stjtíð. EB L 192, 11/7/1987, bls. 43) 23

    Tilskipun ráðsins frá 16. desember 1980 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi eldsneytiseyðslu vélknúinna ökutækja (80/1268/EBE) (42. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 93/116/EB frá 17. desember 1993 (Stjtíð. EB L 329, 30/12/1993, bls. 39) (annar undirliður, 42. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94)

    Tilskipun ráðsins frá 16. desember 1980 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi vélarafl vélknúinna ökutækja (80/1269/EBE) (43. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 97/21/EB frá 18. apríl 1997 (Stjtíð. EB L 125, 16/05/1997, bls. 31) (þriðji undirliður, 43. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 43/98)

    Tilskipun ráðsins frá 25. júlí 1996 um að ákveða leyfileg hámarksmál vegna umferðar innan aðildarríkja og milli landa og leyfilega hámarksþyngd vegna umferðar milli landa fyrir tiltekin ökutæki sem eru í notkun í bandalaginu (96/53/EB) (Stjtíð. EB L 235, 17/09/1996, bls. 59) (15. tölul. a í II. kafla, XIII. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 24/97)

    Tilskipun ráðsins frá 3. desember 1987 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi aðgerðir gegn mengandi efnum í útblæstri dísilhreyfla til nota í ökutækjum (88/77/EBE) (44. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun ráðsins 96/1/EB frá 22 janúar 1996 (Stjtíð. EB L 40, 17/2/1996, bls. 1) (annar undirliður, 44. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 75/96)

    Tilskipun ráðsins frá 13. apríl 1989 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi hliðarvörn (hliðarhlífar) á tilteknum vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra (89/297/EBE) (Stjtíð. EB


23 Tilskipun ráðsins 87/354/EBE hefur enn ekki verið tekin upp að fullu í EES-samninginn. Það verður gert við næstu uppfærslu I. kafla II. viðauka EES-samningsins, Vélknúin ökutæki.

    L 124, 5/5/1989, bls. 1) (45. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun ráðsins frá 18. júlí 1989 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi mynsturdýpt hjólbarða í tilteknum flokkum ökutækja og eftirvagna þeirra (89/459/EBE) (Stjtíð. EB L 226, 3/8/1989, bls. 4) (17. tölul. í II. kafli, XIII. viðauki EES-samningsins)

    Tilskipun ráðsins frá 27. mars 1991 um samræmingu laga aðildarríkjanna um fyrirkomulag hjól- og aurhlífa á tilteknum gerðum vélknúinna ökutækja og eftirvagna þeirra(91/226/EBE) (Stjtíð. EB L 103, 23/4/1991, bls. 5) (45. tölul. a í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94)

    Tilskipun ráðsins frá 10. febrúar 1992 um uppsetningu og notkun búnaðar sem takmarkar hraða í tilteknum flokkum vélknúinna ökutækja innan bandalagsins (92/6/EBE) (Stjtíð. EB L 57, 2/3/1992, bls. 27) (17. tölul. b. í II. kafla, XIII. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94)

    Tilskipun ráðsins frá 31. mars 1992 um massa og mál vélknúinna ökutækja í flokki M_1 (92/21/EBE) (45. tölul. b í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 95/48/EB frá 20. september 1995 (Stjtíð. EB L 233, 30/9/1995, bls. 73) (fyrsti undirliður, 45. tölul. b í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 76/96)

    Tilskipun ráðsins frá 31. mars 1992 um öryggisrúður og efni í rúður vélknúinna ökutækja og eftirvagna þeirra (92/22/EBE) (Stjtíð. EB L 129, 14/5/1992, bls. 11) (45. tölul. c í I. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun ráðsins frá 31. mars 1992 varðandi hjólbarða á vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra og ásetningu þeirra (92/23/EBE) (Stjtíð. EB L 129, 14/5/1992, bls. 95) (45. tölul. d í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94)

    Tilskipun ráðsins frá 31. mars 1992 um hraðatakmörkunarbúnað eða svipuð innbyggð hraðatakmörkunarkerfi í ákveðnum flokkum vélknúinna ökutækja (92/24/EBE) (Stjtíð. EB L 129, 14/5/1992, bls. 154) (45. tölul. e í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94)

    Tilskipun ráðsins frá 17. desember 1992 varðandi útstæða hluta framan við afturþil stýrishúss á vélknúnum ökutækjum í flokki N (92/114/EBE) (Stjtíð. EB L 409, 31/12/1992, bls. 17) (45. tölul. g í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94)

    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/20/EB frá 30. maí 1994 um vélrænan tengibúnað vélknúinna ökutækja og eftirvagna þeirra og festingu hans við ökutækin (Stjtíð. EB L 195, 29/7/1994, bls.1) (45. tölul. r í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 30/94)

    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/28/EB frá 24. október 1995 varðandi brunaeiginleika efna sem eru notuð við innréttingar á ökutækjum í tilteknum flokkum (Stjtíð. EB L 281, 23/11/1995, bls. 1) (45. tölul. t í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 1/97)

    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/27/EB frá 20. maí 1996 um verndun ökumanns og farþega í ökutækjum við högg frá hlið og breytingu á tilskipun 70/156/EBE (Stjtíð. EB L 169, 8/7/1996, bls. 1) (45. tölul. u í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 60/97)

    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/79/EB frá 16. desember 1996 um verndun ökumanns og farþega í vélknúnum ökutækjum við högg að framan og breytingu á tilskipun 70/156/EBE (Stjtíð. EB L 018, 21/01/1997, bls. 7) (45. tölul. v í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 44/98)

    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/27/EB frá 22. júlí 1997 um massa og mál tiltekinna flokka vélknúinna ökutækja og eftirvagna þeirra og breytingu á tilskipun 70/156/EBE (Stjtíð. EB L 233, 25/08/1997, bls. 1 og Stjtíð. EB L 263, 25/09/1997, bls. 30) (45. tölul. w í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 56/98)

Sviss
    Reglugerð frá 19. júní 1995 um tæknilegar kröfur vegna aflknúinna flutningsökutækja og eftirvagna þeirra (RO 1995 4145), eins og henni var síðast breytt 21. apríl 1997 (RO 1997 1280)

    Reglugerð frá 19. júní 1995 um gerðarviðurkenningu ökutækja (RO 1995 3997)

II. ÞÁTTUR
AÐILAR SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Nefndin skal, samkvæmt málsmeðferðinni sem lýst er í 11. gr. viðaukans, taka saman og viðhalda uppfærðri skrá yfir aðila sem annast samræmismat, tækniþjónustur og prófunarstofnanir.


EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu:
*      Ísland:
    Dóms- og kirkjumálaráðuneytið
*      Liechtenstein:
    Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein24
*      Noregur:
    Samgöngu- og fjarskiptaráðuneytið

Sviss:
    Yfirvald sem annast gerðarviðurkenningar
    Vegamálaskrifstofa ríkjasambandsins
    Section des homologations
    CH-3003 Berne

III. ÞÁTTUR
TILNEFNINGARYFIRVÖLD


EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu:
*      Ísland:
    Dóms- og kirkjumálaráðuneytið
*      Liechtenstein:
    Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein25
*      Noregur:
    Samgöngu- og fjarskiptaráðuneytið

Sviss:
    Vegamálaskrifstofa ríkjasambandsins








24 Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein er heimilt að skipa síðar viðeigandi sérstök innlend stjórnsýsluyfirvöld til að tilnefna aðila sem annast samræmismat.
25 Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein er heimilt að skipa síðar viðeigandi sérstök innlend stjórnsýsluyfirvöld til að tilnefna aðila sem annast samræmismat.

IV. ÞÁTTUR
SÉRSTAKAR REGLUR SEM VARÐA TILNEFNINGU AÐILA SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Við tilnefningu aðila sem annast samræmismat skulu tilnefningaryfirvöld vísa í viðkomandi lög og stjórnsýsluákvæði sem eru skráð í I. þætti.


V. ÞÁTTUR
VIÐBÓTARÁKVÆÐI


    Ákvæði þessa þáttar skulu eingöngu eiga við um samskipti Sviss og EFTA-ríkjanna á Evrópska efnahagssvæðinu.

1.     Skipti á upplýsingum
    Þar til bær gerðarviðurkenningaryfirvöld í Sviss og EFTA-ríkjunum á Evrópska efnahagssvæðinu skulu einkum skiptast á upplýsingunum sem getið er í 5. og 6. mgr. 4. gr. tilskipunar 70/156/EBE (1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var breytt með tilskipun 92/53/EBE (áttundi undirliður, 1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94) og eins og hún var síðast aðlöguð að tækniframförum með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 98/14/EB (fjórtándi undirliður, 1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 16/99).
    Nú neita Sviss eða EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu að veita gerðarviðurkenningu í samræmi við 2. mgr. 4. gr. tilskipunar 70/156/EBE (1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var breytt með tilskipun 92/53/EBE (áttundi undirliður, 1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94), og eins og hún var síðast aðlöguð að tækniframförum með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 98/14/EB (fjórtándi undirliður, 1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 16/99), og skulu þá þar til bær yfirvöld þeirra tilkynna hvert öðru um ákvörðun sína og rökstyðja hana.

2.     Viðurkenning gerðarviðurkenningar ökutækja
    Sviss skal einnig, í samræmi við tilskipun 70/156/EBE (1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var breytt með tilskipun 92/53/EBE (áttundi undirliður, 1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94), og eins og hún var síðast aðlöguð að tækniframförum með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 98/14/EB (fjórtándi undirliður, 1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 16/99), viðurkenna gerðarviðurkenningu ökutækja sem veitt hefur verið fyrir gildistöku viðaukans, af þar til bærum gerðarviðurkenningaryfirvöldum sem talin eru upp í II. þætti þessa kafla ef viðurkenningin er ennþá í gildi í EFTA-ríkjunum á Evrópska efnahagssvæðinu.
    EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu skulu viðurkenna svissneskar gerðarviðurkenningar þegar svissneskar kröfur teljast jafngildar kröfunum í tilskipun 70/156/EBE (1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var breytt með tilskipun 92/53/EBE (áttundi undirliður, 1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94), og eins og hún var síðast aðlöguð að tækniframförum með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 98/14/EB (fjórtándi undirliður, 1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 16/99).
    Viðurkenningu á gerðarviðurkenningum sem gefnar eru út í Sviss skal frestað komi upp sú staða að Sviss láti hjá líða að aðlaga löggjöf sína að allri gildandi gerðarviðurkenningalöggjöf EFTA-ríkjanna á Evrópska efnahagssvæðinu.

3.     Öryggisákvæði vegna gerðarviðurkenningar ökutækja
Ökutæki skráð og tekin í notkun
1.     EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu og Sviss skulu skrá og heimila að ný ökutæki séu seld eða tekin í notkun af ástæðum sem varða smíði þeirra og virkni þá aðeins að þeim fylgi gilt samræmisvottorð. Sé um að ræða ófullbúin ökutæki er EFTA-ríkjunum á Evrópska efnahagssvæðinu og Sviss óheimilt að banna sölu slíkra ökutæka en þau geta synjað um varanlega skráningu og að þau verði tekin í notkun uns þau hafa verið fullgerð.
2.     EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu og Sviss skulu heimila að selja eða taka í notkun íhluti eða aðskildar tæknieiningar þá aðeins að þær séu í samræmi við kröfur viðkomandi sértilskipunar eða jafngildar kröfur svissneskrar löggjafar.

3.     Ef EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu eða Sviss komast að raun um að ökutæki, íhlutir eða aðskildar tæknieiningar af tiltekinni gerð stofna umferðaröryggi í hættu þrátt fyrir að þeim fylgi gilt samræmisvottorð og þau séu rétt merkt, er þeim heimilt, í mest sex mánuði, að neita að skrá slík ökutæki, eða banna að slík ökutæki, íhlutir eða aðskildar tæknieiningar séu seldar eða tekar í notkun á yfirráðasvæði sínu. Ríkið skal þegar í stað tilkynna hlutaðeigandi EFTA-ríki á Evrópska efnahagssvæðinu og Sviss ákvörðun sína með þeim rökstuðningi sem ákvörðunin er byggð á. Véfengi EFTA-ríkið á Evrópska efnahagssvæðinu eða Sviss sem hefur veitt gerðarviðurkenningu, að umferðaröryggi stafi hætta af tilkynntu tilfelli skulu hlutaðeigandi EFTA-ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða Sviss leitast við að jafna þann ágreining. Nefndinni skal látin í té vitneskja um málið og skal hún, ef þörf krefur, boða til viðeigandi samráðsfunda til að ná samkomulagi.

Ráðstafanir tengdar samræmi framleiðslu
1.     Þegar EFTA-ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða Sviss veitir gerðarviðurkenningu skal það gera nauðsynlegar ráðstafanir í samræmi við X. viðauka við rammatilskipun 70/156/EBE (1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var breytt með tilskipun 92/53/EBE (áttundi undirliður, 1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94), og eins og hún var síðast aðlöguð að tækniframförum með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 98/14/EB (fjórtándi undirliður, 1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 16/99), með tilliti til þess að sanna að því er viðurkenninguna varðar, í samvinnu við viðurkenningaryfirvöld í öðrum EFTA-ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu eða Sviss ef þörf krefur, að viðunandi ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja að ökutæki, kerfi, íhlutir eða aðskildar tæknieiningar, sem framleiddar eru, séu í samræmi við viðurkennda gerð.
2.     Þegar EFTA-ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða Sviss hefur veitt gerðarviðurkenningu skal það gera nauðsynlegar ráðstafanir í samræmi við X. viðauka við rammatilskipun 70/156/EBE (1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var breytt með tilskipun 92/53/EBE (áttundi undirliður, 1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94), eins og hún var síðast aðlöguð að tækniframförum með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 98/14/EB (fjórtándi undirliður 1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 16/99), með tilliti til þess að sanna að því er viðurkenninguna varðar, í samvinnu við viðurkenningaryfirvöld í öðrum EFTA-ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu eða Sviss ef þörf krefur, að ráðstafanirnar sem um getur í 1. mgr. séu viðunandi og að ökutæki, kerfi, íhlutir eða aðskildar tæknieiningar, sem framleiddar eru, séu áfram í samræmi við viðurkennda gerð. Sannprófun á því að vörur séu í samræmi við viðurkennda gerð skal takmarkast við málsmeðferðina sem sett er fram í 2. þætti X. viðauka við rammatilskipun 70/156/EBE (1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var breytt með tilskipun 92/53/EBE (áttundi undirliður 1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94), eins og hún var síðast aðlöguð að tækniframförum með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 98/14/EB (fjórtándi undirliður, 8. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 16/99), og í þeim sértilskipunum sem innihalda sérkröfur.

Ósamræmi við viðurkennda gerð
1.     Finnist frávik í gerðarviðurkenningarvottorðinu og/eða upplýsingasafninu og ekki er heimild frá EFTA-ríkinu á Evrópska efnahagssvæðinu eða Sviss, sem veitti gerðarviðurkenninguna, fyrir þessum frávikum samkvæmt 3. eða 4. mgr. 5 gr. telst vera um ósamræmi við viðurkennda gerð að ræða. Ökutæki skal ekki teljast í ósamræmi við viðurkennda gerð þegar vikmörk eru leyfð samkvæmt sértilskipun og tillit tekið til vikmarkanna.

2.     Ef EFTA-ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða Sviss, sem hefur veitt gerðarviðurkenningu, kemst að raun um að ökutæki, íhlutir eða aðskildar tæknieiningar, sem hafa samræmisvottorð eða sem á er viðurkenningarmerki, samræmast ekki þeirri gerð sem það viðurkennir skal það gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að framleidd ökutæki, íhlutar eða aðskildar tæknieiningar verði framvegis í samræmi við viðurkennda gerð. Viðurkenningaryfirvöld viðkomandi EFTA-ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða Sviss skulu tilkynna yfirvöldum annarra EFTA-ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu og/eða Sviss um ráðstafanir sem gerðar hafa verið sem geta leitt til afturköllunar gerðarviðurkenningar.
3.     Sýni EFTA-ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða Sviss fram á að ökutæki, íhlutir eða aðskildar tæknieiningar sem hafa samræmisvottorð eða sem á er viðurkenningarmerki, séu ekki í samræmi við viðurkennda gerð, er því heimilt að fara fram á að EFTA-ríkið á Evrópska efnahagssvæðinu eða Sviss sem veitti gerðarviðurkenninguna sannprófi að framleidd ökutæki, íhlutir eða aðskildar tæknieiningar séu í samræmi við viðurkennda gerð. Þetta skal sannprófa eins fljótt og auðið er og hvernig sem atvikast vill innan sex mánaða frá þeim degi sem farið er fram á það.
4.     Þegar um er að ræða:
–    gerðarviðurkenningu ökutækis þar sem ósamræmi ökutækisins kemur til eingöngu vegna ósamræmis kerfis, íhlutar eða aðskilinnar tæknieiningar,
eða
–    gerðarviðurkenningu sem veitt er í mörgum áföngum þar sem ósamræmi fullgerðs ökutækis kemur til eingöngu vegna ósamræmis kerfis, íhlutar eða aðskilinnar tæknieiningar sem er hluti ófullgerðs ökutækis eða ófullgerða ökutækisins sjálfs,
skal viðurkenningaryfirvald fara fram á að EFTA-ríkið (ríkin) á Evrópska efnahagssvæðinu eða Sviss sem veitti viðkomandi kerfi, íhlut, aðskildri tæknieiningu eða ófullbúnu ökutæki gerðarviðurkenningu (-kenningar) geri nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að framleidd ökutæki verði framvegis í samræmi við viðurkennda gerð. Slíkar ráðstafanir skal gera eins fljótt og auðið er og hvernig sem atvikast vill innan sex mánaða frá þeim degi sem farið er fram á það, ef þörf er á í samráði við það EFTA-ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða Sviss sem lagði fram beiðnina.
    Þar sem ósamræmi er staðfest skulu viðurkenningaryfirvöld EFTA-ríkisins á Evrópska efnahagssvæðinu eða Sviss sem veitti kerfinu, íhlutnum eða aðskildu tæknieiningunni gerðarviðurkenningu eða samþykktu ófullgerða ökutækið gera þær ráðstafanir sem mælt er fyrir um í 2. mgr. tilskipunar 70/156/EBE (1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var breytt með tilskipun 92/53/EBE (áttundi undirliður, 1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94), eins og hún var síðast aðlöguð að tækniframförum með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 98/14/EB (fjórtándi undirliður, 1. tölul. í I. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 16/99).
5.     Viðurkenningaryfirvöld í EFTA-ríkjunum á Evrópska efnahagssvæðinu eða Sviss skulu tilkynna hvert öðru innan eins mánaðar um sérhverja afturköllun á gerðarviðurkenningu og um ástæður fyrir slíkum ráðstöfunum.
6.     Véfengi EFTA-ríkið á Evrópska efnahagssvæðinu eða Sviss sem hefur veitt gerðarviðurkenningu, skort á samræmi, sem því hefur verið tilkynnt um, skulu hlutaðeigandi aðildarríki og Sviss leitast við að jafna þann ágreining. Nefndinni skal látin í té vitneskja um málið og skal hún, ef þörf krefur, boða til viðeigandi samráðsfunda til að ná samkomulagi.

13. KAFLI
LANDBÚNAÐAR- OG SKÓGRÆKTARDRÁTTARVÉLAR

I. ÞÁTTUR
LÖG OG STJÓRNSÝSLUÁKVÆÐI



Ákvæði sem falla undir 2. mgr. 1. gr.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu
    Tilskipun ráðsins frá 4. mars 1974 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi gerðarviðurkenningu á landbúnaðardráttarvélum á hjólum (74/150/EBE) (1. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/54/EB frá 23. september 1997 (Stjtíð. EB L 277, 10/10/1997, bls. 24) (sjötti undirliður, 1. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 28/99)

    Tilskipun ráðsins frá 4. mars 1974 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi tiltekna hluta og eiginleika landbúnaðardráttarvéla á hjólum (74/151/EBE) (2. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 98/38/EB frá 3. júní 1998, (Stjtíð. EB L 170, 16/06/1998, bls. 13) (fjórði undirliður, 2. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 46/99)

    Tilskipun ráðsins frá 4. mars 1974 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi hámarkshraða ákveðinn með hönnun og burðarpalla landbúnaðardráttarvéla á hjólum (74/152/EBE) (3. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/54/EB frá 23. september 1997 (Stjtíð. EB L 277, 10/10/1997, bls. 24) (þriðji undirliður, 3. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 28/99)

    Tilskipun ráðsins frá 25. júní 1974 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi baksýnisspegla á landbúnaðardráttarvélum á hjólum (74/346/EBE) (4. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 98/40/EB frá 6. júní 1998, (Stjtíð. EB L 171, 16/06/1998, bls. 28) (fjórði undirliður, 4. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 47/99)

    Tilskipun ráðsins frá 25. júní 1974 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi sjónsvið og rúðuþurrkur á landbúnaðardráttarvélum á hjólum (74/347/EBE) (5. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/54/EB frá 23. september 1997 (Stjtíð. EB L 277, 10/10/1997, bls. 24) (þriðji undirliður, 5. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 28/99)


    Tilskipun ráðsins frá 20. maí 1975 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi stýrisbúnað landbúnaðardráttarvéla á hjólum (75/321/EBE) (6. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 98/39/EB frá 5. júní 1998 (Stjtíð. EB L 170, 16/06/1998, bls. 15) (fjórði undirliður, 6. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 46/99)

    Tilskipun ráðsins frá 20. maí 1975 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi aðgerðir gegn rafsegultruflunum frá hreyflum með neistakveikju í landbúnaðardráttarvélum á hjólum (75/322/EBE) (7. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/54/EB frá 23. september 1997 (Stjtíð. EB L 277, 10/10/1997, bls. 24) (annar undirliður, 7. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 28/99)


    Tilskipun ráðsins frá 6. apríl 1976 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi hemlabúnað landbúnaðardráttarvéla á hjólum (76/432/EBE) (8. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/54/EB frá 23. september 1997 (Stjtíð. EB L 277, 10/10/1997, bls. 24) (þriðji undirliður, 8. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 28/99)

    Tilskipun ráðsins frá 27. júlí 1976 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi farþegasæti í landbúnaðar- dráttarvélum á hjólum (76/763/EBE) (9. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/54/EB frá 23. september 1997 (Stjtíð. EB L 277, 10/10/1997, bls. 24) (annar undirliður, 9. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 28/99)

    Tilskipun ráðsins frá 29. mars 1977 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi hávaðamörk fyrir ökumenn landbúnaðardráttarvéla á hjólum (77/311/EBE) (10. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/54/EB frá 23. september 1997 (Stjtíð. EB L 277, 10/10/1997, bls. 24) (þriðji undirliður, 10. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 28/99)


    Tilskipun ráðsins frá 28. júní 1977 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi veltigrindur á landbúnaðardráttarvélum á hjólum. (77/536/EBE) (11. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun ráðsins 89/680/EBE frá 21 desember 1989 (Stjtíð. EB L 398, 30/12/1989, bls. 26) (þriðji undirliður, 11. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 28/99)

    Tilskipun ráðsins frá 28. júní 1977 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi aðgerðir gegn mengandi efnum í útblæstri dísilhreyfla til nota í landbúnaðardráttarvélum á hjólum (77/537/EBE) (12. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/54/EB frá 23. september 1997 (Stjtíð. EB L 277, 10/10/1997, bls. 24) (annar undirliður, 12. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 28/99)


    Tilskipun ráðsins frá 25. júlí 1978 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi ökumannssæti í landbúnaðar- dráttarvélum á hjólum (78/764/EBE) (13. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/54/EB frá 23. september 1997 (Stjtíð. EB L 277, 10/10/1997, bls. 24) (sjötti undirliður, 13. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 28/99)

    Tilskipun ráðsins frá 17. október 1978 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi ljósa- og ljósmerkjabúnað landbúnaðardráttarvéla á hjólum (78/933/EBE) (14. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/54/EB frá 23. september 1997 (Stjtíð. EB L 277, 10/10/1997, bls. 24) (annar undirliður, 14. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 28/99)


    Tilskipun ráðsins frá 17. maí 1979 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi gerðarviðurkenningu íhluta fyrir ljósa- og ljósmerkjabúnað landbúnaðardráttarvéla á hjólum (79/532/EBE) (15. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/54/EB frá 23. september 1997 (Stjtíð. EB L 277, 10/10/1997, bls. 24) (annar undirliður, 15. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 28/99)

    Tilskipun ráðsins frá 17. maí 1979 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi tengibúnað og bakkskiptingu á landbúnaðardráttarvélum á hjólum (79/533/EBE) (16. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/54/EB frá 23. september 1997 (Stjtíð. EB L 277, 10/10/1997, bls. 24) (annar undirliður, 16. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 28/99)


    Tilskipun ráðsins frá 25. júní 1979 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi veltigrindur landbúnaðardráttarvélum á hjólum (kyrrstöðuprófun) (79/622/EBE) (17. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 88/413/EBE frá 22. júní 1988 (Stjtíð. EB L 200, 26/7/1988, bls. 32) (þriðji undirliður, 17. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins)


    Tilskipun ráðsins frá 24. júní 1980 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi athafnarými, aðgang að ökumannssæti og dyr og glugga á landbúnaðardráttarvélum á hjólum (80/720/EBE) (18. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/54/EB frá 23. september 1997 (Stjtíð. EB L 277, 10/10/1997, bls. 24) (þriðji undirliður, 18. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 28/99)


    Tilskipun ráðsins frá 26. maí 1986 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi aflúttak á landbúnaðardráttarvélum á hjólum og hlífar fyrir það (86/297/EBE) (19. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/54/EB frá 23. september 1997 (Stjtíð. EB L 277, 10/10/1997, bls. 24) (fyrsti undirliður, 19. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 28/99)


    Tilskipun ráðsins frá 26. maí 1986 um aftanásettar veltigrindur fyrir landbúnaðardráttarvélar á hjólum með lítilli sporvídd (86/298/EBE) (20. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins, eins og henni var síðast breytt með tilskipun ráðsins 89/682/EBE frá 21. desember 1989 (Stjtíð. EB L 398, 30/12/1989, bls. 29) (fyrsti undirliður, 20. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 28/99)

    Tilskipun ráðsins frá 24. júlí 1986 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi uppsetningu, staðsetningu, gang og auðkenningu stjórnbúnaðar fyrir landbúnaðardráttarvélar á hjólum (86/415/EBE) (21. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/54/EB frá 23. september 1997 (Stjtíð. EB L 277, 10/10/1997, bls. 24) (fyrsti undirliður, 21. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 28/99)

    Tilskipun ráðsins frá 25. júní 1987 um veltigrindur framan við ökumannssæti á landbúnaðardráttarvélum á hjólum með lítilli sporvídd (87/402/EBE) (22. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun ráðsins 89/681/EBE frá 21. desember 1989 (Stjtíð. EB L 398, 30/12/1989, bls. 27) (fyrsti undirliður, 22. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun ráðsins frá 21. desember 1988 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi tiltekna íhluta og eiginleika landbúnaðardráttarvéla á hjólum (89/173/EBE) (23. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/54/EB frá 23. september 1997 (Stjtíð. EB L 277, 10/10/1997, bls. 24) (fyrsti undirliður, 1. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 28/99)


Sviss
    Reglugerð frá 19. júní 1995 um tæknilegar kröfur vegna landbúnaðardráttarvéla (RO 1995 4171)
    

    Reglugerð frá 19. júní 1995 um gerðarviðurkenningu ökutækja (RO 1995 3997)

II. ÞÁTTUR
AÐILAR SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Nefndin skal, samkvæmt málsmeðferðinni sem lýst er í 11. gr. viðaukans, taka saman og viðhalda uppfærðri skrá yfir yfirvöld sem annast gerðarviðurkenningu, tækniþjónustur og prófunarstofnanir.


EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu:
*      Ísland:
    Dóms- og kirkjumálaráðuneytið
*      Liechtenstein:
    Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein26
*      Noregur:
    Samgöngu- og fjarskiptaráðuneytið

Sviss
    Yfirvald sem annast gerðarviðurkenningu
    Vegamálaskrifstofa ríkjasambandsins
    CH-3003 Berne

III. ÞÁTTUR
TILNEFNINGARYFIRVÖLD


EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu:
*      Ísland:
    Dóms- og kirkjumálaráðuneytið
*      Liechtenstein:
    Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein27
*      Noregur:
    Að því er varðar gerðarviðurkenningar, ákveðna hluta og eiginleika, hámarkshraða sem er ákveðinn með hönnun og hleðslupalla, baksýnisspegla, rúðuþurrkur, stýrisbúnað, deyfingu rafsegultruflana frá neistakveikjuhreyflum, hemlabúnað, ráðstafanir til varnar mengun frá dísilhreyflum, uppsetningu ljósa og ljósmerkjabúnaðar, gerðarviðurkenningu íhluta ljósa og ljósmerkjabúnaðar, tengi- og aftengibúnað, uppsetningu, staðsetningu, starfrækslu og greiningu stjórntækja, ákveðna íhluti og eiginleika dráttarvéla á hjólum:
    Samgöngu- og fjarskiptaráðuneytið


    Að því er varðar farþegasæti, hávaðamörk fyrir ökumenn, veltigrindur, ökumannssæti, athafnarými, aðgang að ökumannssæti og hurðum og gluggum, aflúttök, aftanásettar veltigrindur landbúnaðardráttarvéla með lítilli sporvídd, framanásettar veltigrindur sem settar eru fyrir framan ökumannssæti landbúnaðardráttarvéla með lítilli sporvídd:


26 Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein er heimilt að skipa síðar viðeigandi sérstök innlend stjórnsýsluyfirvöld til að tilnefna aðila sem annast samræmismat.
27 Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein er heimilt að skipa síðar viðeigandi sérstök innlend stjórnsýsluyfirvöld til að tilnefna aðila sem annast samræmismat.

    Ráðuneyti stjórnsýslu og vinnumála


Sviss:
    Vegamálaskrifstofa ríkjasambandsins

IV. ÞÁTTUR
SÉRSTAKAR REGLUR SEM VARÐA TILNEFNINGU AÐILA SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Við tilnefningu aðila sem annast samræmismat skulu tilnefningaryfirvöld vísa í viðkomandi lög og stjórnsýsluákvæði sem eru skráð í I. þætti.


V. ÞÁTTUR
VIÐBÓTARÁKVÆÐI


Skipti á upplýsingum
    Þar til bær yfirvöld EFTA-ríkjanna á Evrópska efnahagssvæðinu og Sviss skulu tilkynna hvert öðru um samræmi (5 og 6. gr. tilskipunar 74/150/EBE) (1. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins) eða ósamræmi (8. gr. tilskipunar 74/150/EBE) (1. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins) ökutækja, búnaðar og kerfa sem sett eru á markað.

14. KAFLI
GÓÐAR STARFSVENJUR VIÐ RANNSÓKNIR

GILDISSVIÐ


    Ákvæði þessa kafla skulu gilda um prófun íðefna, bæði hreinna efna og efnablanda, í samræmi við góðar starfsvenjur við rannsóknir sem falla undir lögin og stjórnsýsluákvæðin sem talin eru upp í I. þætti. Ákvæði 4. gr. viðaukans um uppruna gilda ekki að því er varðar þennan kafla.

    Nema sérstakar skilgreiningar séu gefnar gilda skilgreiningarnar í „Meginreglur Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um góðar starfsvenjur við rannsóknir“ [II. viðbætir við ákvörðun ráðs Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) frá 12. maí 1981 C(81)30(lokaútgáfa)], „Viðmiðunarreglur um eftirlit með því að góðum starfsvenjum við rannsóknir sé fylgt“ [I. viðbætir við ákvörðun-tilmæli ráðsins frá 2. október 1989 C(89)87(lokaútgáfa)] og sammælisskjölum um góðar starfsvenjur við rannsóknir, ritröð Efnahags- og framfarastofnunarinnar um meginreglur um góðar starfsvenjur við rannsóknir og eftirlit með að þeim sé fylgt og öllum breytingum sem á þeim hafa verið gerðar.
    Aðildarríkin viðurkenna jafngildi áætlana hvers annars um eftirlit með því að fylgt sé góðum starfsvenjum við rannsóknir, sem eru í samræmi við ofangreindar ákvarðanir og tilmæli Efnahags- og framfarastofnunarinnar og lög og stjórnsýslulegar málsmeðferðir og meginreglur sem taldar eru upp í IV. þætti, eru jafngild á milli ríkjanna.
    Aðildarríkin samþykkja sín á milli rannsóknir og gögn, sem úr þeim koma, sem gerðar hafa verið í prófunarstöðvum aðildarríkjanna, sem skráðar eru í II. þætti, að því tilskildu að þau séu þátttakendur í áætlun viðkomandi aðildarríkis um eftirlit með því að góðum starfsvenjum við rannsóknir sé fylgt í samræmi við meginreglurnar og ákvæðin hér að framan.
    Aðildarríkin samþykkja sín á milli niðurstöður úr úttektum á rannsóknum og skoðunum á prófunarstöðvum sem eftirlitsyfirvöldin, sem um getur í III. þætti, framkvæma.

I. ÞÁTTUR
LÖG OG STJÓRNSÝSLUÁKVÆÐI



    Hvað prófun íðefna í samræmi við góðar starfsvenjur við rannsóknir varðar gilda viðeigandi hlutar þeirra laga og stjórnsýsluákvæða sem skráð eru hér á eftir.

Ákvæði sem falla undir 1. mgr. 1. gr.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu
     Aukefni í fóðri:
    Tilskipun ráðsins frá 18. apríl 1983 um setningu viðmiðunarreglna um mat á aukefnum í dýrafæðu (83/228/EBE) (Stjtíð. EB L 126, 13/05/1983, bls. 23) (16. tölul. í II. kafla, I. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn

    Tilskipun ráðsins frá 16. febrúar 1987 um að setja viðmiðunarreglur um mat á aukefnum í dýrafæðu (87/153/EBE) (Stjtíð. EB L 64, 07/02/1987, bls. 19) (2. tölul. í II. kafla, I. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn

     Matvæli:
    Tilskipun ráðsins frá 14. júní 1989 um opinbert matvælaeftirlit (89/397/EBE) (Stjtíð. EB L 186, 30.06.1989, bls. 23) (50. tölul. í XII. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn

    Tilskipun ráðsins frá 29. október 1993 um viðbótarákvæði um opinbert matvælaeftirlit (93/99/EBE) (Stjtíð. EB L 290, 24.11.1993, bls. 14) (54. tölul. n í II. kafla XII viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94), eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn

     Snyrtivörur:
    Tilskipun ráðsins frá 14. júní 1993 um sjöttu breytingu á tilskipun 76/768/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna um snyrtivörur (93/35/EBE) (Stjtíð. EB L 151, 23.06.1993, bls. 32) (tuttugasti og þriðji undirliður, 1. tölul. í XVI. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94) eins og henni var síðar breytt og hún tekin inn í EES-samninginn


Sviss
    Engin löggjöf sem tengist góðum starfsvenjum við rannsóknir

Ákvæði sem falla undir 2. mgr. 1. gr.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu
     Ný og skráð íðefni:
    Tilskipun ráðsins frá 18. desember 1986 um samhæfingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum um beitingu meginreglna varðandi góðar starfsvenjur við rannsóknir og sannprófun á beitingu þeirra vegna prófana á efnum (87/18/EBE) (Stjtíð. EB L 15, 17.01.1987, bls. 29) (8. tölul. í XV. kafla II. viðauka EES-samningsins)


    Tilskipun ráðsins frá 30. apríl 1992 um sjöundu breytingu á tilskipun 67/548/EBE um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum um flokkun, pökkun og merkingu hættulegra efna (92/32/EBE) (Stjtíð. EB L 154, 5/6/1992, bls. 1) (tíundi undirliður, 1. tölul. í XV. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94)


    Tilskipun ráðsins frá 7. júní 1988 um samræmingu á ákvæðum í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi flokkun, pökkun og merkingu á hættulegum efnablöndum (88/379/EBE) (Stjtíð. EB L 187, 16/7/1988, bls. 14) (10. tölul. í XV. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 793/93 frá 23. mars 1993 um mat og eftirlit með áhættu skráðra efna (Stjtíð. EB L 84, 5/4/1993, bls. 1) (12. tölul. e í XV. kafla II. viðauka EES-samningsins)

     Lyfjavörur:
    Tilskipun ráðsins frá 22. desember 1986 um breytingu á tilskipun 75/318/EBE (2. tölul. í XIII. kafla II.viðauka EES-samningsins) um samræmingu laga aðildarríkjanna um staðla og aðferðarlýsingar fyrir efnagreiningar, lyfja- og eiturefnafræðileg próf og klínískar prófanir á sérlyfjum (87/19/EBE) (Stjtíð. EB L 15, 17/1/1987, bls. 31) (annar undirliður, 2. tölul. í XIII. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun ráðsins frá 22. desember 1986 um breytingu á tilskipun 65/65/EBE (1. tölul. Í XIII. kafla II. viðauka EES-samningsins) um samræmingu ákvæða í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum um sérlyf (87/21/EBE) (Stjtíð. EB L 15 of 17/1/1987, bls. 36) (þriðji undirliður, 1. tölul. í XIII. kafla II. viðauka EES-samningsins)


    Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar frá 19. júlí 1991 um breytingu á viðauka við tilskipun 75/318/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna um staðla og aðferðarlýsingar fyrir efnagreiningar, lyfja- og eiturefnafræðileg próf og klínískar prófanir á lyfjum (91/507/EBE) (Stjtíð. EB L 270 of 26/9/1991, bls. 32) (fjórði undirliður, 2. tölul. í XIII. kafla II. viðauka 2 EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94)


     Dýralyf:
    Tilskipun ráðsins frá 22. desember 1986 um breytingu á tilskipun 81/852/EBE (6. tölul. í XIII. kafla II. viðauka EES-samningsins) um samræmingu laga aðildarríkjanna um staðla og aðferðarlýsingar fyrir efnagreiningar, lyfja- og eiturefnafræðileg próf og klínískar prófanir á dýralyfjum (87/20/EBE) (Stjtíð. EB L 15 of 17/1/1987, bls. 34) (fyrsti undirliður, 6. tölul. í XIII. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar frá 20. mars 1992 um breytingu á viðauka við tilskipun 81/852/EBE (6. tölul. XIII. í kafla II. viðauka EES-samningsins) um samræmingu laga aðildarríkjanna um staðla og aðferðarlýsingar fyrir efnagreiningar, lyfja- og eiturefnafræðileg próf og klínískar prófanir á dýralyfjum 92/18/EBE (Stjtíð. EB L 97, 10/04/92, bls. 1) (annar undirliður, 6. tölul. í XIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94)

     Plöntuvarnarefni:
    Tilskipun ráðsins frá 15. júlí 1991 um markaðssetningu plöntuvarnarefna (91/414/EBE) (Stjtíð. EB L 230, 19/8/1991, bls. 1) (1. tölul. í II. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar frá 27. júlí 1993 um breytingu á tilskipun ráðsins 91/414/EBE um markaðssetningu plöntuvarnarefna ((93/71/EBE) (Stjtíð. EB L 221 of 31/8/1993, bls. 27) (12. tölul. a í XV. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94)

    Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar frá 14. júlí 1995 um breytingu á tilskipun ráðsins 91/414/EBE um markaðssetningu plöntuvarnarefna (95/35/EB) (Stjtíð. EB L 172, 22/7/1995, bls. 6) (fimmti undirliður, 12. tölul. a í XV. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 15/96)

Sviss
    Lög ríkjasambandsins frá 7. október 1983 um umhverfisvernd (RO 1984 1122) eins og þeim var síðast breytt 21. desember 1995 (RO 1997 1155)

    Reglugerð frá 9. júní 1986 varðandi efni sem eru hættuleg umhverfinu (RO 1986 1254) eins og henni var síðast breytt 4. nóvember 1998 (RO 1999 39)

    Lög ríkjasambandsins frá 21. mars 1969 um viðskipti með eiturefni (RO 1972 430) eins og þeim var síðast breytt 21. desember 1995 (RO 1997 1155)

    Reglugerð frá 19. september 1983 um eiturefni (RO 1983 1387) eins og henni var síðast breytt 4. nóvember 1998 (RO 1999 56)

    Reglur frá 25. maí 1972 um framkvæmd samnings svissnesku kantónanna (intercantonal convention) um eftirlit með lyfjum eins og þeim var síðast breytt 23. nóvember 1995

II. ÞÁTTUR
AÐILAR SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Að því er varðar þennan sérkafla á „aðilar sem annast samræmismat“ við þær prófunarstöðvar sem viðurkenndar eru samkvæmt áætlun hvers aðildarríkis um eftirlit með góðum starfsvenjum við rannsóknir.
    Á grundvelli upplýsinga sem aðildarríkin veita samkvæmt V. þætti þessa kafla skal nefndin, samkvæmt málsmeðferðinni sem lýst er í 11. gr. viðaukans, útbúa og viðhalda uppfærðri skrá yfir þær prófunarstöðvar sem teljast í samræmi við reglur um góðar starfsvenjur við rannsóknir.


III. ÞÁTTUR
TILNEFNINGARYFIRVÖLD


    Í þessum sérkafla á „tilnefningaryfirvöld“ við þau opinberu yfirvöld í aðildarríkjunum sem bera ábyrgð á eftirliti með góðum starfsvenjum við rannsóknir.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu:
*      Ísland:
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið
*      Liechtenstein:
    Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein28
*      Noregur:
    Norska mælifræði- og löggildingarþjónustan


Sviss:
Umhverfis-, skógræktar-
og landslagsskrifstofa
ríkjasambandsins            Umhverfisrannsóknir
CH-3003 Berne             á öllum vörum

Svissneska lyfjastofnunin
Erlachstrasse 8            Heilbrigðisrannsóknir
P.O. Box                           á lyfjavörum
CH-3000 Berne 9


Heilbrigðismálaskrifstofa
ríkjasambandsins            Heilbrigðisrannsóknir
Íðefnasvið                        á öllum vörum
CH-3003 Berne               nema lyfjavörum

IV. ÞÁTTUR
SÉRSTAKAR MEGINREGLUR VIÐ TILNEFNINGU AÐILA SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Í þessum sérkafla á „tilnefning aðila sem annast samræmismat“ við þá málsmeðferð sem yfirvöld sem annast eftirlit með góðum starfsvenjum við



28 Ríkisstjórn Furstadæmisins Liechtenstein er heimilt að skipa síðar viðeigandi sérstök innlend stjórnsýsluyfirvöld til að tilnefna aðila sem annast samræmismat.
rannsóknir nota við viðurkenningu þess að prófunarstöðvar fari að reglum um góðar starfsvenjur við rannsóknir. Í þessu skyni skulu þau beita þeim meginreglum og málsmeðferð sem kveðið er á um í ákvæðunum sem talin eru upp hér á eftir og viðurkennd eru sem jafngild og í samræmi við áðurnefndar gerðir ráðs Efnahags- og framfarastofnunarinnar C(81)30 lokaútgáfa og C(89)87 (lokaútgáfa):

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu
    Tilskipun ráðsins frá 18. desember 1986 um samhæfingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum um beitingu meginreglna varðandi góðar starfsvenjur við rannsóknir og sannprófun á beitingu þeirra vegna prófana á efnum (87/18/EBE) (Stjtíð. EB L 15, 17/1/1987, bls. 29) (8. tölul. í XV. kafla II. viðauka EES-samningsins)


    Tilskipun ráðsins frá 9. júní 1988 um skoðun og sannprófun á góðum starfsvenjum við rannsóknir (88/320/EBE) (Stjtíð. EB L 145, 11/6/1988, bls. 35) (9. tölul. í XV. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar frá 18. desember 1989 um aðlögun að tækniframförum á viðauka við tilskipun ráðsins 88/320/EBE um skoðun og sannprófun á góðum starfsvenjum við rannsóknir (90/18/EBE) (Stjtíð. EB L 11, 13/1/1990, 37) (fyrsti undirliður, 9. tölul. í XV. kafla II. viðauka EES-samningsins)

Sviss
    Lög ríkjasambandsins frá 7. október 1983 um umhverfisvernd (RO 1984 1122) eins og þeim var síðast breytt 21. desember 1995 (RO 1197 1155)

    Reglugerð frá 9. júní 1986 varðandi efni sem eru hættuleg umhverfinu (RO 1986 1254) eins og henni var síðast breytt 4. nóvember 1998 (RO 1999 39)

    Lög ríkjasambandsins frá 21. mars 1969 um viðskipti með eiturefni (1972 435) eins og þeim var síðast breytt 21. desember 1995 (RO 1197 1155)

    Reglugerð frá 19. september 1983 um eiturefni (RO 1983 1387) eins og henni var síðast breytt 4. nóvember 1998 (RO 1999 56)

    Reglur frá 25. maí 1972 um framkvæmd samnings svissnesku kantónanna (intercantonal convention) um eftirlit með lyfjum, eins og þeim var síðast breytt 23. nóvember 1995

    Góðar starfsvenjur við rannsóknir í Sviss, verklag og meginreglur, DFI/IKS, mars 1986

V. ÞÁTTUR
VIÐBÓTARÁKVÆÐI


1.     Skipti á upplýsingum
    Í samræmi við 12. grein viðaukans láta aðildarríkin einkum hvort öðru í té, að minnsta kosti árlega, skrá yfir þær prófunarstöðvar sem í ljósi niðurstaðna eftirlits og úttekta á rannsóknum, fara að góðum starfsvenjum við rannsóknir, auk dagsetninga eftirlits eða úttekta og stöðu þess hversu vel er farið að góðum starfsvenjum.
    Í samræmi við 6. gr. viðaukans skulu aðildarríkin gera hvert öðru tímanlega grein fyrir því þegar prófunarstöð, sem fellur undir skilmála II. þáttar þessa sérkafla þar sem því er haldið fram að hún beiti góðum starfsvenjum við rannsóknir, lætur hjá líða að fara að slíkum starfsvenjum að því marki að það tefli í tvísýnu heilleika eða áreiðanleika þeirra rannsókna sem hún annast.
    Aðildarríkin skulu láta hvert öðru í té allar frekari upplýsingar um eftirlit með prófunarstöðvum eða úttektir á rannsóknum að fenginni rökstuddri beiðni frá öðru aðildarríki.

2.     Skoðun á prófunarstöðvum
    Sérhvert aðildarríki getur farið fram á frekari skoðanir á prófunarstöðvum eða úttekt á rannsóknum ef um er að ræða skjalfestar efasemdir um að prófun hafi farið fram í samræmi við góðar starfsvenjur við rannsóknir.
    Ef, í sérstökum tilfellum, efasemdir eru enn uppi og aðildarríkið sem fór fram á skoðunina getur rökstutt áhyggjuefni sitt er því heimilt, í samræmi við 8. gr. viðaukans, að tilnefna einn eða fleiri sérfræðinga þeirra yfirvalda sem talin eru upp í III. þætti til að taka þátt í skoðun á rannsóknastofu eða úttekt á rannsókn sem yfirvöld annarra aðildarríkja framkvæma.

3.     Trúnaðarkvaðir
    Í samræmi við 52. gr. samningsins, skulu aðildarríkin fara með sem trúnaðarmál allar upplýsingar sem þeim berast samkvæmt þessum sérkafla eða sem þeim bárust innan ramma þátttöku í skoðun eða úttekt á rannsókn sem fellur undir skilgreininguna á viðskiptaleyndarmáli eða viðskipta- eða fjárhagsupplýsingum sem eru trúnaðarmál. Þau skulu meðhöndla slíkar upplýsingar með að minnsta kosti sama trúnaði og aðildarríkið sem veitir upplýsingarnar gerir og tryggja að hvert það yfirvald sem upplýsingarnar eru sendar meðhöndli þær á sama hátt.


4.     Samstarf
    Samkvæmt 9. gr. viðaukans, getur sérhvert aðildarríki, að undangenginni beiðni, verið áheyrnarfulltrúi við skoðun prófunarstöðvar sem framkvæmd er af yfirvöldum annars aðildarríkis, fáist fyrir því samþykki viðkomandi prófunarstöðvar, í þeim tilgangi að tryggja viðvarandi skilning á skoðunarreglum hins aðildarríkisins.

15. KAFLI
EFTIRLIT MEÐ GÓÐUM STARFSVENJUM VIÐ RANNSÓKNIR OG VOTTUN FRAMLEIÐSLULOTA VEGNA LYFJAVARA

GILDISSVIÐ


    Ákvæði þessa sérkafla taka til allra lyfjavara, fjöldaframleiddra í Sviss eða EFTA-ríkjunum á Evrópska efnahagssvæðinu, sem kröfur um góða framleiðsluhætti (GMP) gilda um.

    Að því sem varðar lyfjavörur sem falla undir þennan kafla skal sérhvert aðildarríki viðurkenna niðurstöður eftirlits með framleiðendum, sem framkvæmt er af tilskildum skoðunarþjónustum í öðrum aðildarríkjum, og viðkomandi framleiðsluleyfi veitt af lögbærum yfirvöldum annarra aðildarríkja.

    Aðildarríkin skulu viðurkenna vottun framleiðandans um að hver framleiðslulota sé í samræmi við forskriftir án þess að endureftirlit fari fram við innflutning.
    Þar að auki skulu önnur aðildarríki viðurkenna lokasamþykkt framkvæmda af yfirvaldi í útflutningsaðildarríkinu.
    „Lyfjavörur“ merkir allar vörur sem lyfjalöggjöf EFTA-ríkjanna á Evrópska efnahagssvæðinu og Sviss, sem skráð er í I. þætti þessa kafla, gildir um. Skilgreiningin á lyfjavörum nær yfir öll lyf ætluð mönnum og dýrum, á borð við efnafræðilegar og líffræðilegar lyfjavörur, ónæmislyf, geislavirk lyf, stöðug lyf unnin úr blóði eða blóðvökva manna, forblöndur til tilreiðslu lyfjablandaðs dýrafóðurs, og eftir atvikum fjörefni, steinefni, jurtalyf, og smáskammtalyf.


    „Góðir framleiðsluhættir (GMP)“ eru sá þáttur gæðatryggingar sem tryggir að framleiðsla og eftirlit með vörum sé stöðugt og í samræmi við þá gæðastaðla sem gilda um fyrirhugaða notkun þeirra og í samræmi við kröfur sem markaðsleyfi og vöruforskrift gera. Að því er þennan kafla varðar ná þær yfir kerfið sem stýrir því hvernig framleiðandi fær forskriftir fyrir vörur og vinnsluferli frá handhafa markaðsleyfis eða umsækjanda og tryggir að lyfjavaran sé framleidd í samræmi við þessa forskrift (Jafngilt „sérmenntuðum starfsmanni“ vegna vottunar í EFTA-ríkjunum á Evrópska efnahagssvæðinu).
    Að því er varðar lyfjavörur sem falla undir löggjöf Sviss eða EFTA-ríkjanna á Evrópska efnahagssvæðinu, getur framleiðslufyrirtækið, samkvæmt þessum viðauka, farið fram á skoðun af hálfu þar til bærrar skoðunarþjónustu á staðnum. Þetta ákvæði skal meðal annars gilda um framleiðslu á virkum efnum í lyfjavörur, lyf á millistigi í framleiðslu og lyf á rannsóknastigi og skoðanir fyrir markaðssetningu. Starfstilhögun er sundurliðuð í 3. mgr., III. þáttar.


Vottun framleiðenda
    Að beiðni útflytjanda, innflytjanda eða lögbærs yfirvalds annars aðildarríkis skulu yfirvöld sem bera ábyrgð á að veita framleiðsluleyfi og á eftirliti með framleiðslu lyfjavara votta að framleiðandinn:


–    hafi tilskilin leyfi til að framleiða viðkomandi lyfjavöru eða til að annast tilgreinda framleiðslustarfsemi;
–    sæti reglubundinni skoðun yfirvalda;
–    fari að innlendum kröfum um góða framleiðsluhætti sem viðurkenndir eru sem jafngildir af aðildarríkjunum og eru skráðir í I. þætti þessa kafla. Séu aðrar kröfur um góða framleiðsluhætti notaðar til viðmiðunar skal það koma fram í vottorðinu.
    Vottorðin skulu einnig tilgreina framleiðslustað (-staði) (og samningsbundnar gæðastjórnunarrannsóknastofur, ef einhverjar).
    Vottorð skulu gefin út skjótt og ætti útgáfa þeirra ekki að taka meira en þrjátíu almanaksdaga. Í sérstökum tilvikum, til dæmis þegar ný skoðun þarf að fara fram, er heimilt að lengja þennan tíma í sextíu daga.

Vottun framleiðslulota
    Hverri framleiðslulotu skal fylgja framleiðslulotuvottorð sett fram af framleiðandanum (eiginvottorð) eftir að farið hefur fram full eðlisgreining og magngreining á öllum virkum innihaldsefnum og allar aðrar prófanir og eftirlit sem nauðsynleg eru til að tryggja að gæði vörunnar séu í samræmi við kröfur markaðsleyfisins. Þetta vottorð skal vottfesta að framleiðslulotan sé í samræmi við forskriftir og skal innflytjandi framleiðslulotunnar varðveita það. Vottorðið skal vera tiltækt fyrir lögbært yfirvald að beiðni þess.
    Við útgáfu vottorðs skal framleiðandinn taka til greina ákvæði gildandi vottunarkerfis Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um gæði lyfjavara í umferð á alþjóðlegum mörkuðum. Í vottorðinu skulu útlistaðar samþykktar forskriftir vörunnar, tilvísun greiningaraðferða og niðurstöður greiningarinnar. Vottorðið skal innihalda yfirlýsingu um að gögn um vinnslu og pökkun framleiðslulotunnar hafi verið athuguð og að þau hafi verið í samræmi við góða framleiðsluhætti. Framleiðslulotuvottorðið skal undirritað af þeim sem ber ábyrgð á lokasamþykkt framleiðslulotunnar til sölu eða afgreiðslu, það er að segja í EFTA-ríkjunum á Evrópska efnahagssvæðinu sá „sérmenntaði starfsmaður“ sem um getur í 21. gr. tilskipunar 75/319/EBE (fyrsti undirliður, 1. tölul. í XIII. kafla II. viðauka EES-samningsins), og í Sviss „ábyrgi aðilinn“ sem um getur í 4. og 5. gr. tilskipunar um ónæmisfræðilegar vörur til nota við dýralækningar og 10. gr. tilskipana svissnesku lyfjastofnunarinnar (IOCM) um framleiðslu lyfjavara.

Opinber lokasamþykkt á framleiðslulotum
    Þegar opinber málsmeðferð vegna lokasamþykktar framleiðslulotu gildir viðurkenna önnur aðildarríki opinbera lokasamþykkt sem framkvæmd er af yfirvaldi útflutningsaðildarríkisins (skráð í II. þætti). Framleiðandinn skal leggja fram vottorð um opinbera lokasamþykkt.
    Hvað EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu varðar er opinber málsmeðferð vegna loksamþykktar framleiðslulota tilgreind í skjalinu „Eftirlits/yfirvalds lokasamþykkt framleiðslulota bólusetningar- og blóðafurða frá 24. september 1998“ og aðrar sértækar málsmeðferðir við lokasamþykkt á framleiðslulotum. Hvað Sviss varðar er opinber málsmeðferð vegna lokasamþykktar framleiðslulota tilgreind í 22.–27. gr. tilskipunar um ónæmisfræðilegar vörur, 20.–25. gr. tilskipunar um ónæmisfræðilegar vörur til nota við dýralækningar og 4.–6. gr. tilskipana svissnesku lyfjastofnunarinnar (IOCM) um lokasamþykkt yfirvalds á framleiðslulotum.

I. ÞÁTTUR


    Hvað góða framleiðsluhætti varðar gilda viðeigandi hlutar þeirra laga og stjórnsýsluákvæða sem talin eru upp hér á eftir. Samt sem áður skulu viðmiðunargæðakröfur útflutningsvara, þar með talin framleiðsluaðferð og vöruforskriftir, vera þær sem settar eru fram í viðkomandi markaðsleyfi gefnu út af lögbæru yfirvaldi í innflutningsaðildarríkinu.


Ákvæði sem falla undir 2. mgr. 1. gr.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu
    Tilskipun ráðsins frá 26. janúar 1965 um samræmingu ákvæða í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum um sérlyf (65/65/EBE) (1. tölul. í XIII. kafla II. viðauka EES-samningsins), eins og henni var síðast breytt með tilskipun ráðsins 93/39/EBE frá 14. júní 1993 (Stjtíð. EB L 214, 24.8.1993, bls. 22) (sjötti undirliður 1. tölul. í XIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 74/99)

    Tilskipun ráðsins frá 20. maí 1975 um samræmingu ákvæða í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum um sérlyf (75/319/EBE) (fyrsti undirliður, 1. tölul. í XIII. kafla II. viðauka EES-samningsins) eins og henni var síðast breytt með tilskipun ráðsins 93/93/EBE frá 3. júní 1993 (Stjtíð. EB L 214, 24.8.1993, bls. 22) (sjötti undirliður, 1. tölul. í XIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 74/99) 29

    Tilskipun ráðsins frá 28. september 1981 um samræmingu laga aðildarríkjanna um dýralyf (81/851/EBE) (5. tölul. í XIII. kafla II. viðauka EES-samningsins) eins og henni var síðast breytt með tilskipun ráðsins 90/676/EBE frá 13. desember 1990 (Stjtíð. EB L 373, 31.12.1990, bls. 15) (fyrsti undirliður, 5. tölul. í XIII. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar frá 13. júní 1991 þar sem mælt er fyrir um meginreglur og viðmiðunarreglur um góða framleiðsluhætti lyfja sem ætluð eru mönnum (91/356/EBE) (Stjtíð. EB L 193, 17.7.1991, bls. 30) (15. tölul. í XIII. kafla II. viðauka EES-samningsins)

    Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar frá 23. júlí 1991 þar sem mælt er fyrir um meginreglur og viðmiðunarreglur um góða framleiðsluhætti í dýralyfjagerð (91/412/EBE) (Stjtíð. EB L 228, 17.8.1991, bls. 70) (15. tölul. a í XIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94)





29 Tilvísun til þessa ákvæðis í gagnkvæmum samningi Sviss og EB um gagnkvæma viðurkenningu er röng. Aðilar að ofangreindum samningi hafa samþykkt að leiðrétta þessi mistök við fyrstu uppfærslu viðaukanna eftir gildistöku samningsins.

    Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2309/93 frá 22. júlí 1993 um málsmeðferð bandalagsins við veitingu leyfa fyrir lyfjum sem ætluð eru mönnum og dýrum og eftirlit með þeim og um stofnun Lyfjamálastofnunar Evrópu (15. tölul. í XIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 74/99), eins og henni var síðast breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 649/98 frá 23. mars 1998 (Stjtíð. EB L 88, 24.3.1998, bls. 7) (fyrsti undirliður, 15. tölul. g í XIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 75/99)

    Tilskipun ráðsins 92/25/EBE frá 31. mars 1992 um heildsöludreifingu lyfja sem ætluð eru mönnum (Stjtíð. EB L 113, 30.4.1992. bls. 1) (15. tölul. b í XIII. kafla II. viðauka EES-samningsins, sem bætt er við með ákvörðun 7/94) og Viðmiðunarreglur um góðar starfsvenjur við dreifingu

    Leiðbeiningar um góða framleiðsluhætti IV. bindi reglna um lyfjavörur í Evrópusambandinu


Sviss
    Lög ríkjasambandsins frá 6. október 1989 um löggilta lyfjaskrá (RO 1990 570)

    Reglugerð frá 23. ágúst 1989 um ónæmisfræðilegar vörur (RO 1989 1797), eins og henni var síðast breytt 24. febrúar 1993 (RO 1993 963)

    Reglugerð frá 22. júní 1994 um geislavarnir (RO 1994 1947)

    Tilskipun ríkjasambandsins frá 22. mars 1996 um eftirlit með blóði, blóðafurðum og græðlingum (RO 1996 2296)

    Reglugerð frá 26. júní 1996 um eftirlit með blóði, blóðafurðum og græðlingum (RO 1996 2309)

    Lög ríkjasambandsins frá 1. júlí 1966 um dýrafarsóttir (RO 1966 1621)

    Reglugerð frá 27. júní 1995 um ónæmisfræðilegar vörur til nota við dýralækningar (RO 1995 3805)

    Samningur svissnesku kantónanna frá 3. júní 1971 um lyfjaeftirlit (RO 1972 1026), eins og honum var síðast breytt 1. janúar 1979 (RO 1979 252)

    Reglur frá 25. maí 1972 um framkvæmd samnings svissnesku kantónanna um lyfjaeftirlit, eins og þeim var síðast breytt 14. maí 1998


    Reglugerðir frá 18. maí 1995 svissnesku lyfjastofnunarinnar (IOCM) um framleiðslu lyfjavara


    Reglugerðir svissnesku lyfjastofnunarinnar frá 23. maí 1985 um framleiðslu virkra innihaldsefna í lyfjum

    Reglugerðir svissnesku lyfjastofnunarinnar frá 20. maí 1976 um heildsölu á lyfjum

    Reglugerðir svissnesku lyfjastofnunarinnar frá 24. nóvember 1994 um lokasamþykkt yfirvalds á framleiðslulotum.

    Reglugerðir svissnesku lyfjastofnunarinnar frá 19. maí 1988 um framleiðslu og dreifingu á lyfjablönduðu fóðri

    Reglugerðir svissnesku lyfjastofnunarinnar frá 19. nóvember 1998 um eftirlit með framleiðendum lyfjavara (Eftirlitstilskipanir)

II. ÞÁTTUR
AÐILAR SEM ANNAST SAMRÆMISMAT


    Hvað þennan kafla varðar á „aðilar sem annast samræmismat“ við opinberar skoðunarþjónustur aðildarríkjanna sem annast eftirlit með góðum framleiðsluháttum.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu
*      Ísland:
    Lyfjastofnun
    Eiðistorg 15–17
    172 Seltjarnarnes
    Ísland

*      Liechtenstein:
    Amt für Lebensmittelkontrolle und Veterinärwesen
    (Skrifstofa matvælaeftirlits og dýraheilbrigðismála)
    Kontrollstelle für Arzneimittel
    Postplatz 2
    Postfach 37
    FL – 9494 Schaan
*      Noregur:
    Norska lyfjastofnunin
    Lyfjaeftirlitið
    Sven Oftedals vei 6
    N-0950 Oslo

Sviss:
    Heilbrigðismálaskrifstofa ríkjasambandsins, Lífefnasvið, Berne (að því er varðar ónæmisfræðilegar vörur fyrir menn)

    Veirufræði- og ónæmisvarnastofnun, Rannsóknastöð dýraheilbrigðisskrifstofu ríkjasambandsins, 3147 Mittelhäusern (að því er varðar ónæmisfræðilegar vörur fyrir dýr)

    Svissneska lyfjastofnunin, 3000 Berne 9 (að því er varðar allar aðrar lyfjavörur fyrir menn)


III. ÞÁTTUR
VIÐBÓTARÁKVÆÐI


1.     Sending eftirlitsskýrsla
    Að fenginni rökstuddri beiðni skulu viðkomandi skoðunarþjónustur senda afrit af síðustu eftirlitsskýrslu um framleiðslustaðinn, eða í þeim tilfellum þegar greiningin hefur verið í höndum verktaka, um eftirlitsstaðinn. Beiðnin getur átt við „ítarlega skoðunarskýrslu“ eða „sértæka skýrslu“ (sjá 2. lið hér að neðan). Sérhvert aðildarríki skal fjalla um þessar skoðunarskýrslur með þeim trúnaðarkvöðum sem beðið er um af því aðildarríki sem leggur hana fram.
    Aðildarríkin munu sjá til þess að skoðunarskýrslur séu sendar ekki seinna en þrjátíu almanaksdögum frá því að um þær var beðið, fresturinn lengist í sextíu daga ef ný skoðun þarf að fara fram.

2.     Skoðunarskýrslur
    „Ítarleg skoðunarskýrsla“ felur í sér aðalmöppu um framleiðslustaðinn (tekin saman af framleiðandanum eða umsjónarmanni) og umsögn skoðunarþjónustunnar. „Sértæk skýrsla“ svarar sértækum fyrirspurnum um fyrirtæki frá öðru aðildarríki.

3.     Viðmiðanir um góða framleiðsluhætti
a)    Eftirlit skal haft með framleiðendum í samræmi við gildandi reglur um góða framleiðsluhætti í útflutningsaðildarríkinu (sjá I. þátt).
b)    Að því er varðar lyfjavörur sem falla undir lyfjalöggjöf innflutningsaðildarríkisins en ekki útflutningsaðildarríkisins skal þar til bær innlend skoðunarþjónusta, sem tilbúin er til að framkvæma skoðun á viðkomandi framleiðslustarfsemi, notast við eigin kröfur um góða framleiðsluhætti eða, ef ekki er um að ræða sérstakar kröfur um góða framleiðsluhætti, í samræmi við gildandi kröfur innflutningsaðildarríkisins um góða framleiðsluhætti.
         Að því er varðar tilteknar vörur eða vöruflokka (t.d. lyf á rannsóknastigi, grunnefni sem ekki takmarkast við virk innihaldsefni lyfja) skal jafngildi góðra framleiðsluhátta ákvarðað samkvæmt málsmeðferð sem ákveðin er af nefndinni.


4.     Eðli skoðananna
a)    Við skoðun skal metið á kerfisbundinn hátt hvernig framleiðandinn hlítir kröfum um góða framleiðsluhætti. Þetta teljast almennar skoðanir vegna góðra framleiðsluhátta (einnig fastar, reglubundnar eða kerfisbundnar skoðanir).
b)    Í „vöru- eða ferlismiðuðum“ skoðunum (sem geta verið skoðanir sem fara fram áður en markaðssetning á sér stað, eftir því sem við á) er sérstök áhersla lögð á framleiðslu einnar vöru eða nokkurra vara eða framleiðsluferlis og taka til mats á sannprófun og samræmi við sérstaka hluta ferlis eða eftirlitsþátta eins og þeim er lýst í markaðsleyfinu. Ef nauðsyn ber til skulu umsjónarmanni látnar í té viðeigandi vöruupplýsingar (gæðaskjöl úr umsóknar-/leyfisskjölum) í trúnaði.

5.     Gjöld
    Fyrirkomulag vegna gjalda fyrir skoðun/starfsstöð ákvarðast af staðsetningu framleiðandans. Gjöld vegna skoðunar/starfsstöðvar skal ekki innheimta af framleiðendum sem staðsettir eru á yfirráðasvæði annars aðildarríkis.

6.     Öryggisákvæði vegna skoðana
    Sérhvert aðildarríki áskilur sér rétt til þess að láta fara fram sínar eigin skoðanir af ástæðum sem öðrum aðildarríkjum eru gerðar ljósar. Slíkar skoðanir skulu fyrirfram tilkynntar hinu aðildarríkinu og skulu, í samræmi við 8. gr. viðaukans, framkvæmdar í sameiningu af þar til bærum yfirvöldum beggja aðildarríkjanna. Einungis skal grípa til þessa öryggisákvæðis í undantekningartilvikum.

7.     Upplýsingaskipti á milli yfirvalda og samræming gæðakrafna
    Í samræmi við almenn ákvæði viðaukans skulu aðildarríkin skiptast á öllum upplýsingum sem nauðsynlegar eru til gagnkvæmrar viðurkenningar skoðana.
    Viðkomandi yfirvöld í Sviss og EFTA-ríkjunum á Evrópska efnahagssvæðinu skulu einnig upplýsa hvert annað um allar nýjar tæknileiðbeiningar eða skoðunaraðferðir. Aðildarríkin skulu ráðgast hvert við annað fyrir samþykkt þeirra og skulu leitast við að þær verði samræmdar.

8.     Þjálfun skoðunarmanna
    Í samræmi við 9. gr. viðaukans skulu þjálfunarnámskeið fyrir skoðunarmenn sem skipulögð eru af yfirvöldum vera opin skoðunarmönnum annarra aðildarríkja. Aðildarríkin skulu tilkynna hvert öðru um slík námskeið.

9.     Sameiginlegar skoðanir
    Í samræmi við 12. gr. viðaukans og með gagnkvæmu samkomulagi aðildarríkjanna er heimilt að skipuleggja sameiginlegar skoðanir. Þessum skoðunum er ætlað að vinna að sameiginlegum skilningi og túlkun á framkvæmdum og kröfum. Verklagsreglur sem nefndin samþykkir skulu ráða skipulagi þessara skoðana og því hvernig þær eru framkvæmdar.


10.     Viðvörunarkerfi
    Aðildarríkin skulu koma sér saman um tengiliði til að gera yfirvöldum og framleiðendum kleift að gera yfirvöldum annarra aðildarríkja tilhlýðilega hratt viðvart um galla, innkallanir framleiðslulota, eftirlíkingar og önnur vandamál varðandi gæði sem gætu krafist aukaeftirlits eða frestunar á dreifingu framleiðslulotunnar. Samþykkja skal nákvæmt verklag vegna viðvörunar.
    Aðildarríkin skulu tryggja að allar frestanir eða innkallanir (í heild eða að hluta) á framleiðsluleyfum, sem stafa af ósamræmi við góða framleiðsluhætti og sem gætu haft áhrif á almannaheilbrigði, séu tilkynntar hinum aðildarríkjunum með tilhlýðilegu hraði.

11.     Tengiliðir
    Að því er varðar þennan viðauka eru tengiliðir vegna tæknilegra vandamála, svo sem skipta á skoðunarskýrslum, þjálfunarnámskeiða fyrir skoðunarmenn, tæknikrafna, eftirfarandi:

fyrir EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu:
*      Íslandi
    Lyfjastofnun
    Eiðistorg 15–17
    172 Seltjarnarnes
    Ísland

*      Liechtenstein:
    Amt für Lebensmittelkontrolle und Veterinärwesen
    (Skrifstofa matvælaeftirlits og dýraheilbrigðismála)
    Kontrollstelle für Arzneimittel
    Postplatz 2
    Postfach 37
    FL – 9494 Schaan
*      Noregur:
    Norska lyfjastofnunin
    Lyfjaeftirlitið
    Sven Oftedals vei 6
    N-0950 Oslo

fyrir Sviss:
    þær opinberu skoðunarþjónustur fyrir góða framleiðsluhætti sem skráðar eru í II. þætti hér að ofan.

12.     Ágreiningur
    Aðildarríkin skulu gera sitt besta til að leysa ágreining sem upp kemur varðandi meðal annars hvernig framleiðendur fylgja reglum og niðurstöður skoðunarskýrslna. Óleystum ágreiningi verður vísað til nefndarinnar sem um getur í 10. gr. viðaukans.



2. VIÐBÆTIR

Almennar reglur um tilnefningu aðila sem annast samræmismat


A.     Almenn skilyrði
1.    Samkæmt viðaukanum skulu tilnefningaryfirvöld ein teljast ábyrg fyrir hæfni og getu aðilanna sem þau hafa tilnefnt og skulu þau einungis tilnefna löglega auðkennanlega aðila innan sinnar lögsögu.
2.    Tilnefningaryfirvöld skulu tilnefna aðila til að annast samræmismat sem eru hæfir til að sanna á hlutlægan hátt að þeir hafi skilning, tilskilda reynslu og hæfni til að beita þeim kröfum og vottunaraðferðum sem mælt er fyrir um réttar- og stjórnsýsluákvæðunum sem um getur í 1. viðbæti og gilda um þær sérstöku vörur, vöruflokka eða svið sem tilnefning þeirra tekur til.

3.    Sönnun á sérfræðiþekkingu skal ná yfir:

    –    tækniþekkingu aðilans sem annast samræmismat á viðeigandi vörum, aðferðum eða þjónustu sem það er tilbúið til að fjalla um;
    –    skilning á tæknistöðlum og/eða réttar- og stjórnsýsluákvæðum sem sóst er eftir tilnefningu fyrir;
    –    raunhæfni til að framkvæma tiltekna samræmismatsstarfsemi;
    –     fullnægjandi stjórnun viðkomandi starfsemi, og

    –    allar aðrar kringumstæður sem nauðsynlegar eru til að tryggja að samræmismatið verði ævinlega framkvæmt á fullnægjandi hátt.
4.    Viðmiðanir um sérfræðiþekkingu skulu, að svo miklu leyti sem unnt er, byggðar á alþjóðlega viðurkenndum skjölum svo sem EN 45000 staðlaröðinni eða jafngildu ásamt viðbættum grunnskjölum eins og við á. Nauðsynlegt er að þessi skjöl séu túlkuð á þann hátt að tekið sé tillit til mismunandi krafna sem mælt er fyrir um í gildandi réttar- og stjórnsýsluákvæðum.


5.    Aðildarríkin skulu hvetja til samhæfingar málsmeðferðar við tilnefningar og samræmingar verklags við samræmismat með samvinnu tilnefningaryfirvalda og aðila sem annast samræmismat sem skal byggjast á samræmingarfundum, þátttöku í sameiginlegu viðurkenningarfyrirkomulagi, og fundum sérstakra starfshópa. Aðildarríkin skulu einnig hvetja faggildingaraðila til að taka þátt í gagnkvæmu viðurkenningarfyrirkomulagi

B.     Kerfi til sannprófunar á hæfni aðila sem annast samræmismat
6.    Í því augnamiði að sannprófa sérfræðiþekkingu aðila sem annast samræmismat, er yfirvöldum heimilt að nota hinar ýmsu aðferðir svo fremi að viðeigandi trúnaðarstig sé tryggt á milli aðildarríkjanna. Ef nauðsyn krefur skal aðildarríki láta tilnefningaryfirvald vita um hugsanlegar leiðir til að sýna fram á hæfni.
    a)    Faggilding
         Við faggildingu skal gengið út frá sérfræðiþekkingu aðila sem annast samræmismat hvað varðar beitingu krafna annarra aðildarríkja að því tilskildu að þar til bær faggildingaraðili:

    –    fari að gildandi alþjóðlegum ákvæðum er við eiga (EN 45000 stöðlunum eða ISO/IEB leiðbeiningum); og
    –    hafi undirritað marghliða samkomulag þar sem mælt er fyrir um jafningjamat, eða
    –    taki þátt í, undir forræði tilnefningaryfirvalds og í samræmi við hver þau skilyrði sem ákveðin eru, áætlunum um að bera saman og skiptast á tæknireynslu með það að markmiði að tryggja áframhaldandi traust á sérfræðiþekkingu aðila sem annast faggildingu og samræmismat. Slíkar áætlanir gætu náð yfir sameiginlegt mat, sérstakar samstarfsæfingar eða samræmismat.

         Þegar viðmiðanir sem gilda um aðila sem annast samræmismat krefjast þess að hinn síðarnefndi meti beint hversu vel vörur, aðferðir eða þjónusta uppfylla staðla eða tækniforskriftir er tilnefningaryfirvöldum heimilt að ganga út frá því að ef aðilinn sem annast samræmismat hefur faggildingu leiki ekki vafi á sérfræðiþekkingu hans að því tilskildu að það geri kleift að meta hæfni þessara aðila til að beita slíkum stöðlum eða tækniforskriftum. Tilnefning skal takmarkast við þessa starfsemi aðilans sem annast samræmismat.
         Þegar viðmiðanir sem gilda um aðila sem annast samræmismat krefjast þess að hinn síðarnefndi meti hversu vel vörur, aðferðir eða þjónusta uppfylla ekki beint staðla eða tækniforskriftir heldur almennar (grunn) kröfur er tilnefningaryfirvöldum heimilt að ganga út frá því að ef aðilinn sem annast samræmismat hefur faggildingu leiki ekki vafi á sérfræðiþekkingu hans, að því tilskildu að í þeim séu þættir sem gera kleift að meta hæfni aðilans sem annast samræmismat (sérfræðiþekking á vörunni, notkun hennar o.fl.). til að meta hversu vel varan uppfyllir þessar grunnkröfur Tilnefning skal takmarkast við þessa starfsemi aðilans sem annast samræmismat.

    b)    Önnur úrræði
         Ef faggildingarkerfi eða annað slíkt er ekki til staðar skulu hlutaðeigandi yfirvöld krefjast þess að aðilar sem annast samræmismat sýni fram á hæfni sína með öðrum hætti, til dæmis:
    –    með þátttöku í svæðisbundinni eða alþjóðlegri tilhögun gagnkvæmrar viðurkenningar eða vottunarkerfum;
    –    reglulegu jafningjamati sem byggt er á skýrum viðmiðunum og stjórnað af viðeigandi sérþekkingu;
    –    hæfnisprófum; eða
    –    samanburði aðila sem annast samræmismat.

C.     Mat á sannprófunarkerfinu
7.    Þegar skilgreint hefur verið sannprófunarkerfi til að meta hæfni aðila sem annast samræmismat mun hinum aðildarríkjunum boðið að ganga úr skugga um að kerfið tryggi samræmi tilnefningarferlisins við lagkröfur þeirra. Slíku eftirliti skal beint að því hvort sannprófunarkerfið sé viðeigandi og skilvirkt frekar en að sjálfum aðilunum sem annast samræmismat.


D.     Formleg tilnefning
8.    Þegar aðildarríkin senda nefndinni tillögur sínar um skráningu aðila sem annast samræmismat í viðbætana skulu þau leggja fram eftirtaldar upplýsingar um hvern aðila:

    a)     nafn;
    b)     póstfang;
    c)     símbréfanúmer;
    d)    sérkaflann, vöruflokka eða vörur, aðferðir og þjónustu sem tilnefningin nær yfir;

    e)    verklag við samræmismat sem tilnefningin nær yfir;
    f)        aðferðirnar sem notaðar voru til að ákvarða hæfni aðilans.

ANNEX I

Mutual recognition in relation to conformity assessment (Art. 15)



TABLE OF CONTENTS


1.    Basic provisions
2.    Appendix 1: Product sectors
3.    Appendix 2: General rules regarding the designation of Conformity assessment bodies

ARTICLE 1
Purpose

1.     Switzerland and the EEA EFTA States hereby grant mutual acceptance of reports, certificates, authorisations and conformity marks issued by the bodies listed in Appendix 1 and of the manufacturer's declarations of conformity certifying conformity to the requirements of each other in the areas covered by Article 3.
2.     In order to avoid duplication of procedures when Swiss and European Economic Area requirements are deemed equivalent, Switzerland and the EEA EFTA States shall mutually accept reports, certificates and authorisations issued by the bodies listed in Appendix 1 and manufacturer's declarations of conformity certifying conformity to their respective requirements in the areas covered by Article 3. Reports, certificates, authorisations and manufacturer's declarations of conformity shall in particular indicate conformity with the legislation applied in the European Economic Area. Conformity marks required by the legislation of one of the Member States must be affixed to products placed on the market of that Member State.
3.     The Committee referred to in Article 10 (hereinafter the “Committee”) shall specify the cases in which paragraph 2 above shall apply.

ARTICLE 2
Definitions

1.     For the purposes of this Annex:

    “EEA EFTA States” shall mean those Members of the European Free Trade Association that participate in the European Economic Area, i.e. the Republic of Iceland, the Principality of Liechtenstein and the Kingdom of Norway;

    “Conformity assessment” shall mean systematic examination to determine the extent to which a product, process or service fulfils specified requirements;

    “Conformity assessment body” shall mean a public or private law body whose activities include performance of all or any stage of the conformity assessment process;

    “Designating authority” shall mean an authority with the legal power to designate, suspend, withdraw designation or remove suspension of Conformity assessment bodies under its jurisdiction.
2.     The definitions laid down by ISO/IEC Guide 2 (1996 edition) and in European standard EN 45020 (1993 edition) in relation to “General terms and their definitions concerning standardisation and related activities” may be used to establish the meaning of the general terms relating to conformity assessment contained in this Convention.



ARTICLE 3
Scope

1.     This Annex covers the obligatory conformity assessment procedures ensuing from the legislative, regulatory and administrative provisions listed in Appendix 1.
2.     Appendix 1 defines the product sectors covered by this Annex. The Appendix is divided into sectoral chapters and these are subdivided in principle as follows:
    Section I    legislative, regulatory and administrative provisions;
    Section II    Conformity assessment bodies;
    Section III    Designating authorities;
    Section IV    special rules relating to the designation of conformity assessment bodies;
    Section V    any additional provisions.
3.     Appendix 2 sets out general rules applicable to the designation of conformity assessment bodies.

ARTICLE 4
Origin

1.     This Annex shall cover products originating in the Member States1, without prejudice to the special provisions laid down in Appendix 1.
2.     In the event that such products are also covered by agreements on mutual recognition in relation to conformity assessment between Switzerland and the European Community, this Annex shall also cover products originating in the European Community.



1 The Principality of Liechtenstein has a Customs Union with Switzerland and will, due to this circumstance, continue to use “Swiss origin”.
3.     Origin shall be determined in accordance with the rules governing non-preferential origin applicable in each of the Member States or, where appropriate, in the European Community. In the event of divergent rules, the rules of the Member State in which the goods will be placed on the market shall apply.
4.     Proof of origin may be provided by presentation of a certificate of origin. This certificate shall not be required in the case of imports covered by a movement certificate EUR 1 or by an invoice declaration issued in accordance with Annex A to this Convention, provided that that document indicates as the country of origin one of the Member States or the European Community.

ARTICLE 5
Conformity assessment bodies

    The Member States hereby recognise that the bodies listed in Appendix 1 fulfil the conditions of eligibility to assess conformity.


ARTICLE 6
Designating authorities

1.     The Member States hereby undertake to ensure that their Designating authorities have the necessary power and competence to designate or withdraw designation, suspend or remove suspension of the bodies listed in Appendix 1. For the designation of Conformity assessment bodies, the authorities shall observe the general principles for designation set out in Appendix 2, subject to the provisions of the respective Section IV in Appendix 1. These authorities shall observe the same principles when withdrawing designation, suspending or removing suspension.
2.     The decision to include Conformity assessment bodies in or remove them from Appendix 1 shall be taken on a proposal from one of the Member States in accordance with the procedure set out in Article 11.
3.     In the event of the suspension or withdrawal of the suspension by a Designating authority of a conformity assessment body listed in Appendix 1 under its jurisdiction, the Member State concerned shall immediately notify the other Member States and the Chairman of the Committee. Reports, certificates, authorisations and conformity marks issued by the Conformity assessment body while under suspension need not be recognised by the Member States.

ARTICLE 7
Verification of designation procedures

1.     The Member States shall exchange information concerning the procedures used to ensure that the Conformity assessment bodies under their jurisdiction listed in Appendix 1 comply with the general principles of designation outlined in Appendix 2 subject to the provisions of the respective Section IV in Appendix 1.
2.     The Member States shall compare methods used to verify conformity of the bodies with the general principles of designation outlined in Appendix 2, subject to the provisions of the respective Section IV in Appendix 1. Existing systems for the accreditation of Conformity assessment bodies in the Member States may be used for the purpose of such comparisons.
3.     Verification shall be carried out in accordance with the procedure implemented by the Committee.

ARTICLE 8
Verification of compliance of conformity assessment bodies

1.     Each Member State shall, in exceptional circumstances, have the right to contest the technical competence of the Conformity assessment bodies proposed by the other Member States or listed in Appendix 1 under the jurisdiction of the other Member States. For this purpose, it shall submit in writing an objective and reasoned argument to the other Member States and to the Chairman of the Committee.
2.     In the event of a disagreement between the Member States, confirmed in the Committee, a verification of the technical competence of the conformity assessment body in question shall be undertaken in accordance with requirements jointly by the Member States, with the participation of the competent authorities concerned. The result of that verification shall be discussed in the Committee with a view to resolving the issue as soon as possible.
3.     Each Member State shall ensure that the Conformity assessment bodies under its jurisdiction are available for verification of their technical competence as required.
4.     Unless otherwise decided by the Committee, the disputed body shall be suspended by the competent Designating authority from the time disagreement has been established until agreement has been reached in the Committee.

ARTICLE 9
Implementation of the Annex

1.     The Member States shall co-operate with a view to ensuring the satisfactory application of the legislative, regulatory and administrative provisions listed in Appendix 1.
2.     The Designating authorities shall ascertain by appropriate means whether the Conformity assessment bodies under their jurisdiction listed in Appendix 1 are observing the general principles of designation listed in Appendix 2, subject to the provisions listed in the respective Section IV in Appendix 1.
3.     The Conformity assessment bodies listed in Appendix 1 shall co-operate in an appropriate way in the framework of the co-ordination and comparison work conducted by the Member States in respect of the sectors covered by Appendix 1 in order to ensure that the conformity assessment procedures provided for in the laws and regulations covered by this Annex are applied in a consistent manner.

ARTICLE 10
Committee

1.     For the management and monitoring of the smooth functioning of this Annex, the Committee established in accordance with paragraph 3 of Article 43 of the Convention shall issue recommendations and take decisions in the circumstances provided for in this Annex. It may call on the assistance of experts, advisers or sectoral working groups. The Committee shall act by mutual agreement.
2.     The Committee shall establish its own rules of procedure, which shall contain, inter alia, provisions on the convening of meetings, the appointment of the chairman and the chairman's term of office.
3.     The Committee shall meet as and when necessary and at least once a year. Each Member State may request the convening of a meeting.
4.     The Committee may consider any matter related to this Annex. In particular, it shall be responsible for:
(a)    the inclusion of Conformity assessment bodies in Appendix 1;
(b)    the removal of Conformity assessment bodies from Appendix 1;
(c)    drawing up the procedure for carrying out the verifications provided for in Article 7;
(d)    drawing up the procedure for carrying out the verifications provided for in Article 8;
(e)    examining any legislative, regulatory and administrative provisions notified by one of the Member States pursuant to Article 12 in order to assess their repercussions on the Annex and to amend the appropriate sections in Appendix 1.
5.     The Committee may, on a proposal from one of the Member States, modify the Appendices to this Annex.
6.     The Chairman of the Committee shall notify the Council without delay of all decisions of the Committee.

ARTICLE 11
Inclusion of Conformity assessment bodies in Appendix 1 and their removal

    The Committee shall decide to include a Conformity assessment body in Appendix 1 or to remove it from Appendix 1 in accordance with the following procedure:
(a)    a Member State wishing to add to or remove from Appendix 1 any Conformity assessment body shall notify the Chairman of the Committee and the other Member States of the proposal for a decision to that effect, adding the appropriate information to its request;
(b)    if the other Member States agree to the proposal or raise no objection within 60 days of the notification of the proposal, the proposed decision shall be adopted by the Committee;
(c)    if another Member State raises objections within that 60-day period, the procedure provided for in paragraph 2 of Article 8 shall be applied;
(d)    the Chairman of the Committee shall notify the Member States without delay of all decisions of the Committee. They shall take effect from the date fixed in the decision;
(e)    if the Committee decides to include a Conformity assessment body in Appendix 1, the Member States shall recognise the reports, certificates, authorisations and conformity marks issued by that body with effect from the date of entry into force of the decision. If the Committee decides to remove a body from Appendix 1, the Member States shall recognise the reports, certificates, authorisations and conformity marks issued by that body until the date on which that decision takes effect.

ARTICLE 12
Information exchange

1.     The Member States shall exchange all relevant information regarding implementation and application of the legislative, regulatory and administrative provisions listed in Appendix 1.
2.     Each Member State shall inform the other Member States of the changes it intends to make to the legislative, regulatory and administrative provisions relating to the subject matter of this Annex and shall notify the other Member States of the new provisions at least 60 days before their entry into force.
3.     Where the legislation of one of the Member States stipulates that a specific item of information must be made available to the competent authority by a person established in its territory, that authority may also approach the competent authority of the other Member States or enter into direct contact with the manufacturer or, if appropriate, the latter's agent in the territory of the other Member States, in order to obtain that information.
4.     Each Member State shall immediately notify the other Member States of safeguard measures taken in its territory.

ARTICLE 13
Dispute settlement

    Each Member State may refer any dispute relating to the interpretation or application of this Annex to the Committee referred to in Article 10. The Committee shall endeavour to settle the dispute, and must be supplied with any information which may facilitate a thorough examination of the situation with a view to finding an acceptable solution. For that purpose, the Committee shall consider every possible means of maintaining the smooth functioning of this Annex.

ARTICLE 14
Agreements with third States

    The Member States hereby agree that mutual recognition agreements concluded by either Member State with a third State shall in no circumstances entail an obligation upon the other Member States in terms of the acceptance of manufacturer's declarations of conformity as well as of reports, certificates, authorisations and marks issued by Conformity assessment bodies in that third State, unless there is an explicit agreement between the Member States. The Committee may modify Article 4 of this Annex in order to take account of such agreements with third States.

ARTICLE 15
Suspension

    Where a Member State establishes that another Member State is failing to comply with the conditions of this Annex or is subject to a suspension of application of parallel conditions under an agreement with the European Community, it may, after consulting the Committee, suspend the application of Appendix 1 in full or in part.

ARTICLE 16
Acquired rights

    The Member States shall continue to recognize reports, certificates, authorizations and conformity marks and manufacturers' declarations of conformity issued in accordance with this Annex, provided that:
(a)    the request for conformity evaluation to be started was made before the notice of suspension of this Annex or notice of withdrawal from this Convention; and
(b)    the reports, certificates, authorizations and conformity marks and manufacturer's declarations of conformity were issued before the suspension or withdrawal took effect.


APPENDIX 1

Product sectors


    This Appendix is divided up into the following Chapters by sector:
Chapter 1    Machinery
Chapter 2    Personal protective equipment
Chapter 3    Toys
Chapter 4    Medical devices
Chapter 5    Gas appliances and boilers
Chapter 6    Pressure vessels
Chapter 7    Telecommunications terminal equipment
Chapter 8    Equipment and protective systems intended for use in potentially explosive atmospheres
Chapter 9    Electrical equipment and electromagnetic compatibility
Chapter 10    Construction plant and equipment
Chapter 11    Measuring instruments and prepackages
Chapter 12    Motor vehicles
Chapter 13    Agricultural and forestry tractors
Chapter 14    Good laboratory practice (GLP)
Chapter 15    Medicinal products GMP Inspection and Batch Certification


CHAPTER 1
MACHINERY

SECTION I
LEGISLATIVE, REGULATORY AND ADMINISTRATIVE PROVISIONS


Provisions covered by Article 1 paragraph 2

EEA EFTA States
    Directive 98/37/EC of the European Parliament and of the Council of 22 June 1998 on the approximation of the laws of the Member States relating to machinery (OJ L 207, 23.7.1998, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XXIV, point 1 as replaced by Decision No 94/1999)

Switzerland
    Federal Law of 19 March 1976 on the safety of technical installations and equipment (RO 1977 2370), as last amended on 18 June 1993 (RO 1995 2766)

    Ordinance of 12 June 1995 on the safety of technical installations and equipment (RO 1995 2770), as last amended on 17 June 1996 (RO 1996 1867)

    Ordinance of 12 June 1995 on the procedures of conformity assessment of technical installations and equipment (RO 1995 2783)

SECTION II
CONFORMITY ASSESSMENT BODIES


    The Committee shall draw up and keep up to date, according to the procedure described in Article 11 of the Annex, a list of the Conformity assessment bodies.

SECTION III
DESIGNATING AUTHORITIES


EEA EFTA States:
*      Iceland:
    Ministry of Social Affairs
*      Liechtenstein:
    The Government of Liechtenstein1
*      Norway:
    Ministry of Labour and Government Administration

Switzerland:
    Federal Office for Economic Development and Employment

SECTION IV
SPECIAL RULES RELATING TO THE DESIGNATION OF CONFORMITY ASSESSMENT BODIES


    For the designation of Conformity assessment bodies, the Designating authorities shall comply with the general principles contained in Appendix 2 and those in Annex VII to Directive 98/37/EC (EEA Agreement, Annex II, Chapter XXIV, point 1 as replaced by Decision No 94/1999).


1 The Government of Liechtenstein is entitled to appoint appropriate specific national administration bodies as designators of conformity assessment bodies at a future date.

SECTION V
SUPPLEMENTARY PROVISIONS


1.     Second-hand machinery
    The legislative, regulatory and administrative provisions listed in Section I shall not apply to second-hand machinery.
    The principle contained in paragraph 2 of Article 1 of the Annex shall apply, however, to machinery legally placed on the market and/or put into service in one of the Member States and exported as second-hand machinery to the market of another Member State.
    The other provisions relating to second-hand machinery, e.g. those relating to safety in the place of work in force in the importing state, shall remain applicable.

CHAPTER 2
PERSONAL PROTECTIVE EQUIPMENT

SECTION I
LEGISLATIVE, REGULATORY AND ADMINISTRATIVE PROVISIONS


Provisions covered by Article 1 paragraph 2

EEA EFTA States
    Council Directive of 21 December 1989 on the approximation of the laws of the Member States relating to personal protective equipment (89/686/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XXII, point 1), as last amended by Directive 96/58/EC of the European Parliament and of the Council of 3 September 1996 (OJ L 236, 18.9.1996, p. 44) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XXII, point 1, third indent as added by Decision No 68/97)

Switzerland
    Federal Law of 19 March 1976 on the safety of technical installations and equipment (RO 1977 2370), as last amended on 18 June 1993 (RO 1995 2766)

    Ordinance of 12 June 1995 on the safety of technical installations and equipment (RO 1995 2770), as last amended on 17 June 1996 (RO 1996 1867)

    Ordinance of 12 June 1995 on the procedures of conformity assessment of technical installations and equipment (RO 1995 2783)

SECTION II
CONFORMITY ASSESSMENT BODIES


    The Committee shall draw up and keep up to date, according to the procedure described in Article 11 of the Annex, a list of the Conformity assessment bodies.

SECTION III
DESIGNATING AUTHORITIES


EEA EFTA States:
*      Iceland:
    Ministry of Social Affairs
*      Liechtenstein:
    The Government of Liechtenstein2
*      Norway:
    Ministry of Labour and Government Administration;
    For personal protective marine equipment:
    Ministry of Trade and Industry

Switzerland:
    Federal Office for Economic Development and Employment

SECTION IV
SPECIAL RULES RELATING TO THE DESIGNATION OF CONFORMITY
ASSESSMENT BODIES


    For the designation of Conformity assessment bodies, the Designating authorities shall comply with the general principles contained in Appendix 2 and those in Annex V to Directive 89/686/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter XXII, point 1).

CHAPTER 3
TOYS

SECTION I
LEGISLATIVE, REGULATORY AND ADMINISTRATIVE PROVISIONS


Provisions covered by Article 1 paragraph 1

EEA EFTA States
    Council Directive of 3 May 1988 on the approximation of the laws of the Member States concerning the safety of toys (88/378/EEC) (OJ L 187, 16.7.1988, p. 1) (EEA Agreement, Chapter


2 The Government of Liechtenstein is entitled to appoint appropriate specific national administration bodies as designators of conformity assessment bodies at a future date.

    XXIII, point 1), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

Switzerland
    Federal Law of 9 October 1992 on foodstuffs and commodities (RS 817.0), as subsequently amended

    Ordinance of 1 March 1995 on commodities (RS 817.04), as subsequently amended

    Ordinance of 26 May 1995 on the safety of toys (RS 817.044.1), as subsequently amended

SECTION II
CONFORMITY ASSESSMENT BODIES


    The Committee shall draw up and keep up to date, according to the procedure described in Article 11 of the Annex, a list of the Conformity assessment bodies.

SECTION III
DESIGNATING AUTHORITIES


EEA EFTA States:
*      Iceland:
    Ministry of Industry and Commerce
*      Liechtenstein:
    The Government of Liechtenstein3
*      Norway:
    Ministry of Children and Family Affairs

Switzerland:
    Swiss Federal Office of Public Health

SECTION IV
SPECIAL RULES RELATING TO THE DESIGNATION OF CONFORMITY
ASSESSMENT BODIES


    For the designation of Conformity assessment bodies, the Designating authorities shall comply with the general principles contained in Appendix 2 and those in Annex III to Directive 88/378/EEC (EEA Agreement, Chapter XXIII, point 1).







3 The Government of Liechtenstein is entitled to appoint appropriate specific national administration bodies as designators of conformity assessment bodies at a future date.

SECTION V
SUPPLEMENTARY PROVISIONS


1.     Information concerning the certificate and the technical file
    In accordance with Article 10(4) of Directive 88/378/EEC (EEA Agreement, Chapter XXIII, point 1), the authorities listed in Section III may obtain on request a copy of the certificate and, on reasoned request, a copy of the technical file and the reports on the examinations and tests carried out.


2.     Notification of grounds for refusal by approved bodies
    In accordance with Article 10(5) of Directive 88/378/EEC (EEA Agreement, Chapter XXIII, point 1), the Swiss bodies shall inform the Swiss Federal Office of Public Health when refusing to issue an EC type-examination certificate. The Federal Office shall likewise notify the EEA EFTA States thereof.


CHAPTER 4
MEDICAL DEVICES

SECTION I
LEGISLATIVE, REGULATORY AND ADMINISTRATIVE PROVISIONS


Provisions covered by Article 1 paragraph 2

EEA EFTA States
    Council Directive of 20 June 1990 on the approximation of the laws of the Member States relating to active implantable medical devices (90/385/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter X, point 7), as last amended by Council Directive 93/68/EEC of 22 July 1993 (OJ L 220, 30.8.1993, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter X, point 7, second indent as added by Decision No 7/94)

    Council Directive of 14 June 1993 concerning medical devices (93/42/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 27a as inserted by Decision 7/94), as last amended by Directive 98/79/EC of the European Parliament and of the Council of 27 October 1998 (OJ L 331, 7.12.1998, p.1.) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XXX, point 2 as inserted by Decision No 166/99)

Switzerland
    Federal Law of 19 March 1976 on the safety of technical installations and equipment (RO 1977 2370), as last amended on 18 June 1993 (RO 1995 2766)

    Federal Law of 24 June 1902 concerning the electrical weak and heavy current installations (RO 19 252 et RS 4 798), as last amended on 3 February 1993 (RO 1993 901)

    Federal Law of 9 June 1977 on metrology (RO 1977 2394), as last amended on 18 June 1993 (RO 1993 3149)

    Federal Law of 22 March 1991 on radiation protection (RO 1994 1933)

    Ordinance of 24 January 1996 on medical devices (RO 1996 987), as last amended on 17 June 1996 (RO 1996 1868)

SECTION II
CONFORMITY ASSESSMENT BODIES


    The Committee shall draw up and keep up to date, according to the procedure described in Article 11 of the Annex, a list of the Conformity assessment bodies.

SECTION III
DESIGNATING AUTHORITIES


EEA EFTA States:
*      Iceland:
    Ministry of Health and Social Security
*      Liechtenstein:
    The Government of Liechtenstein4
*      Norway:
    Ministry of Health and Social Affairs

Switzerland:
    Swiss Federal Office of Public Health










4 The Government of Liechtenstein is entitled to appoint appropriate specific national administration bodies as designators of conformity assessment bodies at a future date.

SECTION IV
SPECIAL RULES RELATING TO THE DESIGNATION OF CONFORMITY
ASSESSMENT BODIES


    For the designation of Conformity assessment bodies, the Designating authorities shall comply with the general principles contained in Appendix 2 to the Annex and those in Annex XI to Directive 93/42/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 27a as inserted by Decision 7/94), in respect of the bodies designated under that Directive, and in Annex VIII to Directive 90/385/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter X, point 7), in respect of the bodies designated thereunder.

SECTION V
SUPPLEMENTARY PROVISIONS


1.     Registration of the person responsible for placing devices on the market
    Any manufacturer who places on the market of one of the Member States the medical devices referred to in Article 14 of Directive 93/42/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 27a as inserted by Decision 7/94) shall inform the competent authorities of the Member State in which he has his registered place of business of the particulars referred to in that Article. The Member States shall mutually recognise that registration. The manufacturer shall not be obliged to designate a person responsible for placing devices on the market established in the territory of the other Member States.

2.     Labelling of medical devices
    Manufacturers of the Member States shall indicate their name or trade name and address on the label of medical devices as specified in Annex 1, point 13.3(a) to Directive 93/42/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 27a as inserted by Decision 7/94). They shall not be obliged to indicate the name and address of the person responsible for placing the device on the market, of the representative or of the importer established within the territory of the other Member States on the label, outer packaging or instructions for use.

3.     Information exchanges
    In accordance with Article 9 of the Annex, the Member States shall in particular exchange the information referred to in Article 8 of Directive 90/385/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter X, point 7) and in Article of Directive 93/42/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 27a as inserted by Decision 7/94).

CHAPTER 5
GAS APPLIANCES AND BOILERS

SECTION I
LEGISLATIVE, REGULATORY AND ADMINISTRATIVE PROVISIONS


Provisions covered by Article 1 paragraph 1

EEA EFTA States
    Council Directive of 21 May 1992 on efficiency requirements for new hot-water boilers fired with liquid or gaseous fuels (92/42/EEC) (OJ L 167, 22.06.1992, p. 17) (EEA Agreement, Annex II, Chapter V, point 3 as inserted by Decision No 7/94), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement


Switzerland
    Ordinance of 16 December 1985 on Air Pollution Control (OAPC) (Annexes 3 and 4) (RS 814.318.142.1), as subsequently amended

Provisions covered by Article 1 paragraph 2

EEA EFTA States
    Council Directive of 29 June 1990 on the approximation of the laws of the Member States relating to appliances burning gaseous fuels (90/396/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter V, point 2), as last amended by Council Directive 93/68/EEC of 22 July 1993 (OJ L 220, 30.8.1993, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter V, point 2, first indent as added by Decision 7/94)

Switzerland
    Federal Law of 19 March 1976 on the safety of technical installations and equipment (RO 1977 2370), as last amended on 18 June 1993 (RO 1995 2766)

    Ordinance of 12 June 1995 on the safety of technical installations and equipment (RO 1995 2770), as last amended on 17 June 1996 (RO 1996 1867)

    Ordinance of 12 June 1995 on the procedures of conformity assessment of technical installations and equipment (RO 1995 2783)

SECTION II
CONFORMITY ASSESSMENT BODIES


    The Committee shall draw up and keep up to date, according to the procedure described in Article 11 of the Annex, a list of the Conformity assessment bodies.

SECTION III
DESIGNATING AUTHORITIES


Provisions covered by Article 1 paragraph 1

EEA EFTA States:
*      Iceland:
    Ministry of Social Affairs
*      Liechtenstein:
    The Government of Liechtenstein5
*      Norway:
    For hot water boilers:
    Ministry of Local Government and Regional Development;
    For gas appliances/burning gaseous fuels:
    Ministry of Labour and Government Administration

Switzerland:
    Federal Office of Environment, Forests and Landscape

Provisions covered by Article 1 paragraph 2

EEA EFTA States:
*      Iceland:
    Ministry of Social Affairs
*      Liechtenstein:
    The Government of Liechtenstein6
*      Norway:
    For hot water boilers:
    Ministry of Local Government and Regional Development;
    For gas appliances/burning gaseous fuels:
    Ministry of Labour and Government Administration

Switzerland:
    Federal Office for Economic Development and Employment


5 The Government of Liechtenstein is entitled to appoint appropriate specific national administration bodies as designators of conformity assessment bodies at a future date.
6 The Government of Liechtenstein is entitled to appoint appropriate specific national administration bodies as designators of conformity assessment bodies at a future date.

SECTION IV
SPECIAL RULES RELATING TO THE DESIGNATION OF CONFORMITY
ASSESSMENT BODIES


    For the designation of Conformity assessment bodies, the Designating authorities shall comply with the general principles contained in Appendix 2 to the Annex and those in Annex V to Directive 92/42/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter V, point 3 as inserted by Decision No 7/94), in respect of the bodies designated under that Directive, and in Annex V to Directive 90/396/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter V, point 2), in respect of the bodies designated thereunder.

CHAPTER 6
PRESSURE VESSELS

SECTION I
LEGISLATIVE, REGULATORY AND ADMINISTRATIVE PROVISIONS


Provisions covered by Article 1 paragraph 1

EEA EFTA States
    Council Directive of 17 September 1984 on the approximation of the laws of the Member States relating to seamless, steel gas cylinders (84/525/EEC) (OJ L 300, 19.11.1984, p.1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter VIII, point 3), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 17 September 1984 on the approximation of the laws of the Member States relating to seamless, unalloyed aluminium and aluminium alloy gas cylinders (84/526/EEC) (OJ L 300, 19.11.1984, p.20) (EEA Agreement, Annex II, Chapter VIII, point 4), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 17 September 1984 on the approximation of the laws of the Member States relating to welded unalloyed steel gas cylinders (84/527/EEC) (OJ L 300, 19.11.1984, p.48) (EEA Agreement, Annex II, Chapter VIII, point 5), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 25 June 1987 on the approximation of the laws of the Member States relating to simple pressure vessels (87/404/EEC) (OJ L 220, 8.8.1987, p.48) (EEA Agreement, Annex II, Chapter VIII, point 6), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Directive 97/23/EC of the European Parliament and of the Council of 29 May 1997 on the approximation of the laws of the Member States concerning pressure equipment (OJ L 181, 9.7.1997, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter VIII, point 2, fourth indent as added by Decision No 82/98), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

Switzerland
    Directives 84/525/EEC, 84/526/EEC and 84/527/EEC: no related legislation

    Directive 87/404/EEC:

    Federal Law of 20 March 1981 on accident insurance (RS 832.20), as subsequently amended


    Ordinance of 19 March 1938 on installation and operation of pressure vessels (RS 832.312.12), as subsequently amended

SECTION II
CONFORMITY ASSESSMENT BODIES


    The Committee shall draw up and keep up to date, according to the procedure described in Article 11 of the Annex, a list of the Conformity assessment bodies.

SECTION III
DESIGNATING AUTHORITIES


EEA EFTA States:
*      Iceland:
    Ministry of Social Affairs
*      Liechtenstein:
    The Government of Liechtenstein7
*      Norway:
    Ministry of Labour and Government Administration

Switzerland:
    Federal Office for Economic Development and Employment



7 The Government of Liechtenstein is entitled to appoint appropriate specific national administration bodies as designators of conformity assessment bodies at a future date.

SECTION IV
SPECIAL RULES RELATING TO THE DESIGNATION OF CONFORMITY
ASSESSMENT BODIES


    For the designation of Conformity assessment bodies, the Designating authorities shall comply with the general principles contained in Appendix 2 to the Annex and those in Annex III to Directive 87/404/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter VIII, point 6).

SECTION V
SUPPLEMENTARY PROVISIONS


Recognition of certificates by Switzerland
    Where the provisions of Swiss legislation listed in Section I lay down a conformity assessment procedure, Switzerland shall recognise certificates issued by a body designated by the EEA EFTA States listed in Section II which certifies that the product conforms to standard EN 286.

CHAPTER 7
TELECOMMUNICATIONS TERMINAL EQUIPMENT

SECTION I
LEGISLATIVE, REGULATORY AND ADMINISTRATIVE PROVISIONS


Provisions covered by Article 1 paragraph 2

EEA EFTA States
    Directive 98/13/EC of the European Parliament and of the Council of 12 February 1998 relating to telecommunications terminal equipment and satellite earth station equipment, including the mutual recognition of their conformity (OJ L 074, 12.3.1998, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zg, as inserted by Decision No 32/99)

    Commission Decision of 9 July 1997 on a common technical regulation for terminal equipment to be connected to public circuit switched data networks and ONP leased circuits using a CCITT Recommendation X.21 type interface (97/544/EC) (OJ L 223,13.8.1997, p. 18) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4p as inserted by Decision No 61/98)

    Commission Decision of 9 July 1997 on a common technical regulation for the general attachment requirements for Data Terminal Equipment (DTE) to connect to Packet Switched Public Data Networks (PSPDNs) offering CCITT Recommendation X.25 interfaces (97/545/EC) (OJ L 223, 13.8.1997, p. 21) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4q as inserted by Decision No 61/98)

    Commission Decision of 9 July 1997 on a common technical regulation for the general terminal attachment requirements for digital enhanced cordless telecommunications (DECT) (edition 2) (97/523/EC) (OJ L 215, 7.8.1997, p. 48) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zb as inserted by Decision No 116/98)


    Commission Decision of 9 July 1997 on a common technical regulation for the telephony application requirements for digital enhanced cordless telecommunications (DECT) (edition 2) (97/524/EC) (OJ L 215, 07.08.1997, p. 50) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zc as inserted by Decision No 116/98)

    Commission Decision of 28 November 1995 on a common technical regulation for attachment requirements for terminal equipment for digital European cordless telecommunications (DECT), public access profile (PAP) applications (95/525/EC) (OJ L 300, 13.12.1995, p. 35) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4k as inserted by Decision No 3/97) 8

    Commission Decision of 9 July 1997 on a common technical regulation for the attachment requirements for the terminal equipment interface for connection to 2 048 kbit/s digital unstructured ONP leased lines (Amendment 1) (97/520/EC) (OJ L 215, 07.08.1997, p. 41) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4y as inserted by Decision No 115/98)


    Commission Decision of 9 July 1997 on a common technical regulation for the attachment requirements for the terminal equipment interface for connection to 2 048 kbit/s digital structured ONP leased lines (97/521/EC) (OJ L 215, 07.08.1997, p. 44) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point z as inserted by Decision No 115/98)



8 In the meantime this Commission Decision has been repealed. This will be taken into account at the next update of this Chapter.

    Commission Decision of 9 July 1997 on a common technical regulation for the attachment requirements for the terminal equipment interface for connection to 64 kbit/s digital unrestricted ONP leased lines (Amendment 1) (97/522/EC) (OJ L 215, 07.08.1997, p. 46) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4za as inserted by Decision No 115/98)


    Commission Decision of 9 July 1997 on a common technical regulation for the general attachment requirements for terminal equipment to interface to Open Network Provision (ONP) two-wire analogue leased lines (97/486/EC) (OJ L 208, 02.08.1997, p. 44) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4r as inserted by Decision No 62/98)

    Commission Decision of 9 July 1997 on a common technical regulation for the general attachment requirements for terminal equipment to interface to Open Network Provision (ONP) four-wire analogue leased lines (97/487/EC) (OJ L 208, 02.08.1997, p. 47) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4s as inserted by Decision No 62/98)

    Commission Decision of 28 November 1995 on a common technical regulation for Integrated Services Digital Network (ISDN)+ Telephony 3.1 kHz teleservice, attachment requirements for handset terminals (95/526/EC) (OJ L 300, 13.12.1995, p.38) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4l as inserted by Decision No 3/97) 9

    Commission Decision of 9 July 1997 on a common technical regulation for the attachment requirements for terminal equipment for digital enhanced cordless telecommunications (DECT) generic access profile (GAP) applications (97/525/EC) (OJ L 215, 07.08.1997, p. 52) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zd as inserted by Decision No 116/98)

    Commission Decision of 19 September 1997 on a common technical regulation for the attachment requirements for the terminal equipment interface for connection to 34 Mbit/s digital unstructured and structured leased lines


9 In the meantime this Commission Decision has been repealed. This will be taken into account at the next update of this Chapter.
    (97/639/EC) (OJ L 271, 03.10.1997, p. 16) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4t as inserted by Decision No 62/98)

    Commission Decision of 31 October 1997 on a common technical regulation for the attachment requirements for the terminal equipment interface for connection to 140 Mbit/s digital unstructured and structured leased lines (97/751/EC) (OJ L 305, 08.11.1997, p. 66) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zh as inserted by Decision No 65/99)

    Commission Decision of 17 June 1998 on a common technical Regulation for the pan-European integrated services digital (ISDN) basic access (Amendment 1) (notified under document number C(1998) 1607) (98/515/EC) (OJ L 232,19.08.98, p.7) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zi as inserted by Decision No 107/99)

    Commission Decision of 17 June 1998 on a common technical Regulation for the pan-European integrated services digital network (ISDN) primary rate access (Amendment 1) (notified under document number C(1998) 1613) (98/520/EC) (OJ L 232, 19.08.98, p.19) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zn as inserted by Decision No 107/99)

    Commission Decision of 17 June 1998 on a common technical Regulation for public land-based enhanced radio message system (ERMES) receiver requirements (second edition) (notified under document number C(1998) 1615) (98/522/EC) (OJ L 232, 19.08.98, p.25) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zp as inserted by Decision No 109/99)

    Council Decision of 20 July 1998 on a common technical Regulation for the attachment requirements for connection to the analogue public switched telephone networks (PSTNs) of terminal equipment (excluding terminal equipment supporting the voice telephony justified case service) in which network addressing, if provided, is by means of dual tone multi-frequency (DTMF) signalling (98/482/EC) (OJ L 216, 04.08.98, p.8) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zu as inserted by Decision No 111/99)

    Commission Decision of 4 September 1998 on a common technical regulation for telephony application requirements for public pan-European cellular digital land-based mobile communications, phase II (edition 2) (notified under document number C(1998) 2561) (98/542/EC) (OJ L 254, 16.09.98, p.28) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zs as inserted by Decision No 110/99)

    Commission Decision of 3 September 1998 on a common technical Regulation for the terrestrial flight telecommunications system (TFTS) (notified under document number C(1998)2378) (98/535/EC) (OJ L 251, 11.09.98, p.36) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zze as inserted by Decision No 29/2000)

    Commission Decision of 17 June 1998 on a common technical Regulation for low data rate land mobile satellite earth stations (LMES) operating in the 11/12/14 GHz frequency bands (notified under document number C(1998) 1608) (98/516/EC) (OJ L 232, 19.08.1998, p.10) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zj as inserted by Decision No 108/99)


    Commission Decision of 17 June 1998 on a common technical Regulation for satellite news gathering transportable earth stations (SNG TES) operating in the 11-12/13-14 GHz frequency bands (notified under document number C(1998) 1609) (98/517/EC) (OJ L 232, 19.08.1998, p. 12) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zk as inserted by Decision No 108/99)


    Commission Decision of 17 June 1998 on a common technical Regulation for ISDN packet mode using ISDN primary rate access (notified under document number C(1998) 1610) (98/518/EC) (OJ L 232, 19. 08.1998, p. 14) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zl as inserted by Decision No 107/99)


    Commission Decision of 17 June 1998 on a common technical Regulation for very small aperture terminals (VSATs) operating in the 11/12/14 GHz frequency bands (notified under document number C(1998) 1612) (98/519/EC) (OJ L 232, 19.08.98, p.17) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zm as inserted by Decision No 108/99)

    Commission Decision of 17 June 1998 on a common technical Regulation for ISDN packet mode using ISDN basic access (notified under document number C(1998) 1614) (98/521/EC) (OJ L 232, 19.08.98, p.22) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zo as inserted by Decision No 107/99)

    Commission Decision of 3 September 1998 on a common technical Regulation for Satellite Personal Communications Networks (S-PCN) Mobile Earth Stations (MESs), including handheld earth stations, for S-PCN operating in the 1,6/2,4 GHz frequency bands under the Mobile Satellite Service (MSS) (notified under document number C(1998) 2375) (98/533/EC) (OJ L 247, 05.09.98, p.11) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zq as inserted by Decision No 108/99)

    Commission Decision of 3 September 1998 on a common technical Regulation for Satellite Personal Communications Networks (S-PCN) Mobile Earth Stations (MESs), including handheld earth stations, for S-PCN operating in the 2,0 GHz frequency bands under the Mobile Satellite Service (MSS) (notified under document number C(1998) 2376) (98/534/EC)(OJ L 247, 05.09.98, p.13) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zr as inserted by Decision No 108/99)

    Commission Decision of 4 September 1998 on a common technical regulation for the telephony application requirements for mobile stations intended to be used with phase II public digital cellular telecomunications networks operating in the DCS 1800 band (edition 2) (notified under document number C(1998) 2562) (98/543/EC) (OJ L 254, 16.09.98, p.32) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zt as inserted by Decision No 110/99)

    Commission Decision of 16 September 1998 on a common technical regulation for the general attachment requirements for public pan-European cellular digital land-based mobile communications, Phase II (Edition 2) (notified under document number C(1998) 2720) (98/574/EC) (OJ L 278, 15.10.98, p.30) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zv as inserted by Decision No 112/99)

    Commission Decision of 16 September 1998 on a common technical regulation for the general attachment requirements for mobile stations intended to be used with Phase II public digital cellular telecommunications networks operating in the GSM 1800 band (Edition 2) (notified under document number C(1998) 2721) (98/575/EC) (OJ L 278, 15.10.98, p.35) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zw as inserted by Decision No 112/99)

    Commission Decision of 16 September 1998 on a common technical regulation for the attachment requirements for terminal equipment to connect to public switched telephone networks (PSTNs) and incorporating an analogue handset function (notified under document number C(1998) 2722) (98/576/EC) (OJ L 278, 15.10.98, p.40) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zx as inserted by Decision No 112/99)

    Commission Decision of 16 September 1998 on a common technical regulation for very small aperture terminals (VSATs) satellite earth stations operating in the 4 GHz and 6 GHz frequency bands (notified under document number C(1998) 2723) (98/577/EC) (OJ L 278, 15.10.98, p.43) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zy as inserted by Decision No 112/99)

    Commission Decision of 16 September 1998 on a common technical regulation for low data rate land mobile satellite earth stations (LMES) operating in the 1,5/1,6 GHz frequency bands (notified under document number C(1998) 2724) (98/578/EC) (OJ L 278, 15.10.98, p.46 ) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zz as inserted by Decision No 112/99)


    Commission Decision of 30 November 1998 on a common technical Regulation for land mobile satellite earth stations (LMES) operating in the 1,5/1,6 GHz frequency bands (notified under document number C(1998) 3695) (98/734/EC) (OJ L 351, 29.12.1998, p.37) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zza as inserted by Decision No 164/99)

Switzerland
    Federal Law of 30 April 1997 on Telecommunications (LTC; RO 1997 2187)

    Ordinance of the Federal Council of 6 October 1997 on Telecommunications Equipment (OIT; RO 1997 2853)

    Ordinance of the Federal Office for Communications (OFCOM) of 9 December 1997 on Telecommunications Equipment; (RO 1998 485)

    Annex 1 to the OFCOM Ordinance on Telecommunications Equipment (RO 1998 488), as last amended on 9 March 1999 (RO 1999 1191)

    Technical standards declared to be obligatory:
    10.1 based on CTR1 (97/544/EC)
    10.2 based on CTR2 edition 2 (97/545/EC)
    10.3 based on CTR3 amendment 1(98/515/EC)
    10.4 based on CTR4 amendment 1 (98/520/EC)
    10.6 based on CTR6 edition 2 (97/523/EC)
    10.7 based on CTR7 edition 2 (98/522/EC)
    10.8 based on CTR8 (95/526/EC)
    10.10 based on CTR10 edition 2 (97/524/EC)
    10.11 based on CTR11 (95/525/EC)
    10.12 based on CTR12 amendment 1 (97/520/EC)
    10.13 based on CTR13 (97/521/EC)
    10.14 based on CTR14 amendment 1 (97/522/EC)
    10.15 based on CTR15 (97/486/EC)
    10.17 based on CTR17 (97/487/EC)
    10.19 based on CTR19 edition 2 (98/574/EC)
    10.20 based on CTR20 edition 2 (98/542/EC)
    10.21 based on CTR21 (98/482/EC)
    10.22 based on CTR22 (97/525/EC)
    10.23 based on CTR23 (98/535/EC)
    10.24 based on CTR24 (97/639/EC)
    10.25 based on CTR25 (97/751/EC)
    10.26 based on CTR26 (98/578/EC)
    10.27 based on CTR27 (98/516/EC)
    10.28 based on CTR28 (98/519/EC)
    10.30 based on CTR30 (98/517/EC)
    10.31 based on CTR31 edition 2 (98/575/EC)
    10.32 based on CTR32 edition 2 (98/543/EC)
    10.33 based on CTR33 (98/521/EC)
    10.34 based on CTR34 (98/518/EC)
    10.38 based on CTR38 (98/576/EC)
    10.41 based on CTR41 (98/533/EC)
    10.42 based on CTR42 (98/534/EC)
    10.43 based on CTR43 (98/577/EC)
    10.44 based on CTR44 (98/734/EC)

SECTION II
CONFORMITY ASSESSMENT BODIES


    The Committee shall draw up and keep up to date, according to the procedure described in Article 11 of the Annex, a list of the Conformity assessment bodies.

SECTION III
DESIGNATING AUTHORITIES


EEA EFTA States:
*      Iceland:
    Ministry of Transport and Communication
*      Liechtenstein:
    The Government of Liechtenstein10
*      Norway:
    Ministry of Transport and Communications

Switzerland:
    Federal Office for Communications

SECTION IV
SPECIAL RULES RELATING TO THE DESIGNATION OF CONFORMITY ASSESSMENT BODIES


    For the designation of Conformity assessment bodies, Designating authorities shall comply with the general principles contained in Appendix 2 and those in Annex V to Directive 98/13/EC (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zg, as inserted by Decision No 32/99).

SECTION V
SUPPLEMENTARY PROVISIONS


1.     Administrative Decision
    The Member States shall mutually recognise the administrative Decision (Art. 11(6), Directive 98/13/EC (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zg, as inserted by Decision No 32/99), Art. 31 of the Federal Law of 30 April 1997 on telecommunications (LTC; RO 1977 2187) and Art. 8 ff of the Ordinance of the Federal Council of 6 October 1997 on telecommunications equipment (OIT; RO







10 The Government of Liechtenstein is entitled to appoint appropriate specific national administration bodies as designators of conformity assessment bodies at a future date.

1997 2853)) approving connection of the terminal equipment concerned to the public telecommunications network. 11

2.     Notification of the manufacturer's or supplier's declaration
    When placing on the market of one of the Member States the telecommunications equipment referred to in Article 3(1) of Directive 98/13/EC (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zg, as inserted by Decision No 32/99), the person responsible shall notify the manufacturer's or supplier's declaration to the notified body of the Member State where the equipment is first placed on the market.

3.     Test laboratories
    Each Member State shall notify the other Member States of the test laboratories designated to carry out the tests pertaining to the procedures referred to in Article 10 of Directive 98/13/EC (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zg, as inserted by Decision No 32/99). The criteria fixed by the relevant harmonised standards for the designation of such laboratories shall be applied.

4.     Exchanges of information between Conformity assessment bodies
4.1        In accordance with Annex I, point 7f of Directive 98/13/EC (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zg, as inserted by Decision No 32/99), the Conformity assessment bodies listed in Section II of this Appendix shall make available to the other bodies the relevant information concerning type-examination certificates issued and withdrawn.
4.2        In accordance with Annex III, point 6, and Annex IV, point 6 of Directive 98/13/EC (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVIII, point 4zg, as inserted by Decision No 32/99), the Conformity assessment bodies listed in Section II of this Appendix shall make available to the other bodies the relevant information concerning quality system approvals issued and withdrawn.







11 In the context of this Annex, the expression “public telecommunications network” is to be interpreted for the purpose of Swiss law as “installations provided by a telecommunications services provider”.

CHAPTER 8
EQUIPMENT AND PROTECTIVE SYSTEMS INTENDED FOR USE IN POTENTIALLY EXPLOSIVE ATMOSPHERES

SECTION I
LEGISLATIVE, REGULATORY AND ADMINISTRATIVE PROVISIONS


Provisions covered by Article 1 paragraph 2

EEA EFTA States
    Directive of the European Parliament and the Council of 23 March 1994 on the approximation of the laws of the Member States concerning equipment and protective systems intended for use in potentially explosive atmospheres (94/9/EC) (OJ L 100, 19.04.1994, p.1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter X, point 7a as inserted by Decision No 14/94)

    Council Directive of 18 December 1975 on the approximation of the laws of the Member States concerning electrical equipment for use in potentially explosive atmospheres (76/117/EEC) (OJ L 24, 30.01.1976, p. 45) (EEA Agreement, Annex II, Chapter X, point 2)

    Council Directive of 6 February 1979 on the approximation of the laws of the Member States concerning electrical equipment for use in potentially explosive atmospheres employing certain types of protection (79/196/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter X, point 3), as last amended by Commission Directive 97/53/EC of 11 September 1997 (OJ L 257, 20.09.1997, p. 27) (EEA Agreement, Annex II, Chapter X, point 3, fifth indent as added by Decision No 57/98)

    Council Directive of 15 February 1982 on the approximation of the laws of the Member States concerning electrical equipment for use in potentially explosive atmospheres in mines susceptible to firedamp (82/130/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter X, point 4), as last amended by Commission Directive 98/65/EC of 3 September 1998 (OJ L 257, 19/09/1998, p. 29) (EEA Agreement, Annex II, Chapter X, point 4, fourth indent as added by Decision No 48/99)


Switzerland
    Federal Law of 24 June 1902 concerning the electrical weak an heavy current installations (RO 19 252 et RS 4 798), as last amended on 3 February 1993 (RO 1993 901)

    Ordinance of 2 March 1998 on the safety of equipment and protective systems intended for use in potentially explosive atmospheres (RO 1998 963)

    Federal Law of 19 March 1976 on the safety of technical installations and equipment (RO 1977 2370), as last amended on 18 June 1993 (RO 1995 2766)

    Ordinance of 12 June 1995 on the safety of technical installations and equipment (RO 1995 2770), as last amended on 17 June 1996 (RO 1996 1867)

    Ordinance of 12 June 1995 on the procedures of conformity assessment of technical installations and equipment (RO 1995 2783)

SECTION II
CONFORMITY ASSESSMENT BODIES


    The Committee shall draw up and keep up to date, according to the procedure described in Article 11 of the Annex, a list of the Conformity assessment bodies.

SECTION III
DESIGNATING AUTHORITIES


EEA EFTA States:
*      Iceland:
    Ministry of Social Affairs
*      Liechtenstein:
    The Government of Liechtenstein12
*      Norway:
    Ministry of Labour and Government Administration

Switzerland:
    Swiss Federal Office of Energy

SECTION IV
SPECIAL RULES RELATING TO THE DESIGNATION OF CONFORMITY ASSESSMENT BODIES


    For the designation of Conformity assessment bodies, Designating authorities shall comply with the general principles contained in Appendix 2 and those



12 The Government of Liechtenstein is entitled to appoint appropriate specific national administration bodies as designators of conformity assessment bodies at a future date.

in Annex XI to Directive 94/9/EC (EEA Agreement, Annex II, Chapter X, point 7a as inserted by Decision No 14/94).

SECTION V
SUPPLEMENTARY PROVISIONS


1.     Information exchange
    The Conformity assessment bodies listed in Section II shall provide the EEA EFTA States, the competent Swiss authorities and/or the other Conformity assessment bodies with the information provided for in Article 9(2) of Directive 76/117/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter X, point 2).


2.     Technical documentation
    It shall be sufficient for manufacturers, their authorised representatives or the person responsible for placing products on the market to hold the technical documents required by the national authorities for inspection purposes at their disposal in the territory of one of the Member States for a period of at least ten years after the last date of manufacture of the product.
    The Member States hereby undertake to forward all relevant technical documents at the request of the authorities of the other Member States.

CHAPTER 9
ELECTRICAL EQUIPMENT AND ELECTROMAGNETIC COMPATIBILITY

SECTION I
LEGISLATIVE, REGULATORY AND ADMINISTRATIVE PROVISIONS


Provisions covered by Article 1 paragraph 2

EEA EFTA States
    Council Directive of 19 February 1973 on the approximation of the laws of the Member States relating to electrical equipment designed for use within certain voltage limits (73/23/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter X, point 1), as last amended by Council Directive 93/68/EEC of 22 July 1993 (OJ L 220, 30.08.1993, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter X, point 1, first indent as added by Decision No 7/94)

    Council Directive of 3 May 1989 on the approximation of the laws of the Member States relating to electromagnetic compatibility (89/336/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter X, point 6), as last amended by Council Directive 93/68/EEC of 22 July 1993 (OJ L 220, 30.08.1993, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter X, point 6, second indent as added by Decision No 7/94)


Switzerland
    Federal Law of 24 June 1902 concerning the electrical weak an heavy current installations (RO 19 252 et RS 4 798), as last amended on 3 February 1993 (RO 1993 901)

    Ordinance of 30 March 1994 on electrical weak current installations (RO 1994 1185)

    Ordinance of 30 March 1994 on electrical heavy current installations (RO 1994 1199), as last amended on 5 December 1995 (RO 1995 1024)

    Ordinance of 9 April 1997 on electrical low voltage equipment (RO 1997 1016)

    Ordinance of 9 April 1997 on electromagnetic compatibility (RO 1997 1008)

SECTION II
CONFORMITY ASSESSMENT BODIES


    The Committee shall draw up and keep up to date, according to the procedure described in Article 11 of the Annex, a list of the Conformity assessment bodies.

SECTION III
DESIGNATING AUTHORITIES


EEA EFTA States:
*      Iceland:
    Ministry of Industry and Commerce,
    Ministry of Transport and Communication
*      Liechtenstein:
    The Government of Liechtenstein13
*      Norway:
    Ministry of Labour and Government Administration

Switzerland:
    Swiss Federal Office of Energy







13 The Government of Liechtenstein is entitled to appoint appropriate specific national administration bodies as designators of conformity assessment bodies at a future date.

SECTION IV
SPECIAL RULES RELATING TO THE DESIGNATION OF CONFORMITY ASSESSMENT BODIES


    For the designation of Conformity assessment bodies, Designating authorities shall comply with the general principles contained in Appendix 2 and those in Annex II to Directive 89/336/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter X, point 6).

SECTION V
SUPPLEMENTARY PROVISIONS


1.     Technical documentation
    It shall be sufficient for manufacturers, their authorised representatives or the person responsible for placing products on the market to hold the technical documents required by the national authorities for inspection purposes at their disposal in the territory of one of the Member States for a period of at least ten years after the last date of manufacture of the product.
    The Member States hereby undertake to forward all relevant documents at the request of the authorities of the other Member States.

2.     Standardisation bodies
    In accordance with Article 11 of Directive 73/23/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter X, point 1), the Member States shall notify each other of the bodies responsible for drawing up the standards referred to in Article 5 of this Directive.

3.     Competent bodies
    The Member States shall inform each other of and mutually recognise the bodies made responsible for drawing up technical reports and/or certificates pursuant to Article 8(2) of Directive 73/23/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter X, point 1) and Article 10(2) of Directive 89/336/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter X, point 6).


4.     Special measures
    In accordance with Article 6(2) of Directive 89/336/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter X, point 6), each Member State shall inform the other Member States of the special measures taken pursuant to paragraph 1 of that Article.

5.     Competent authorities
    In accordance with Article 10(6) of Directive 89/336/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter X, point 6), each Member State shall notify the other Member States of the competent authorities referred to in that Article.

CHAPTER 10
CONSTRUCTION PLANT AND EQUIPMENT

SECTION I
LEGISLATIVE, REGULATORY AND ADMINISTRATIVE PROVISIONS


Provisions covered by Article 1 paragraph 1

EEA EFTA States
    Council Directive of 19 December 1978 on the approximation of the laws of the Member States relating to the determination of the noise emission of construction plant and equipment (79/113/EEC) (OJ L 33, 08.02.1979, p. 15) (EEA Agreement, Annex II, Chapter VI, point 1), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 17 September 1984 on the approximation of the laws of the Member States relating to common provisions for construction plant and equipment (84/532/EEC) (OJ L 300, 19.11.1984, p. 111) (EEA Agreement, Annex II, Chapter VI, point 2), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 17 September 1984 on the approximation of the laws of the Member States relating to the permissible sound power level of compressors (84/533/EEC) (OJ L 300, 19.11.1984, p. 123) (EEA Agreement, Annex II, Chapter VI, point 3), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 17 September 1984 on the approximation of the laws of the Member States relating to the permissible sound power level of tower cranes (84/534/EEC) (OJ L 300, 19.11.1984, p. 130) (EEA Agreement, Annex II, Chapter VI, point 4), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 17 September 1984 on the approximation of the laws of the Member States relating to the permissible sound power level of welding generators (84/535/EEC) (OJ L 300, 19.11.1984, p. 142) (EEA Agreement, Annex II, Chapter VI, point 5), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 17 September 1984 on the approximation of the laws of the Member States relating to the permissible sound power level of power generators (84/536/EEC) (OJ L 300, 19.11.19784, p. 149) (EEA Agreement, Annex II, Chapter VI, point 6), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 17 September 1984 on the approximation of the laws of the Member States relating to the permissible sound power level of powered hand-held concrete-breakers and picks (84/537/EEC) (OJ L 300, 19.11.1984, p. 156) (EEA Agreement, Annex II, Chapter VI, point 7), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 22 December 1986 on the limitation of noise emitted by hydraulic excavators, rope-operated excavators, dozers, loaders and excavator-loaders (86/662/EEC) (OJ L 384, 31.1.1986, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter VI, point 10), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 17 September 1984 on the approximation of the laws of the Member States relating to the permissible sound power level of lawnmowers (84/538/EEC) (OJ L 300, 19.11.1984, p. 171) (EEA Agreement, Annex II, Chapter VII, point 1), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

Switzerland
    No legislation

SECTION II
CONFORMITY ASSESSMENT BODIES


    The Committee shall draw up and keep up to date, according to the procedure described in Article 11 of the Annex, a list of the Conformity assessment bodies.

SECTION III
DESIGNATING AUTHORITIES


EEA EFTA States:
*      Iceland:
    Ministry of Industry and Commerce
*      Liechtenstein:
    The Government of Liechtenstein14



14 The Government of Liechtenstein is entitled to appoint appropriate specific national administration bodies as designators of conformity assessment bodies at a future date.
*      Norway:
    Ministry of Local Government and Regional Development

Switzerland:
    Federal Office of Environment, Forests and Landscape

SECTION IV
SPECIAL RULES RELATING TO THE DESIGNATION OF CONFORMITY
ASSESSMENT BODIES


    For the designation of Conformity assessment bodies, Designating authorities shall comply with the general principles contained in Appendix 2 and those in Annex II to Council Directive 84/532/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter VI, point 2), as amended by Council Directive 88/665/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter VI, point 2, first indent).

CHAPTER 11
MEASURING INSTRUMENTS AND PREPACKAGES

SECTION I
LEGISLATIVE, REGULATORY AND ADMINISTRATIVE PROVISIONS


Provisions covered by Article 1 paragraph 1

EEA EFTA States
    Council Directive of 12 October 1971 on the approximation of the laws of the Member States relating to the measuring of the standard mass per storage volume of grain (71/347/EEC) (OJ L 239, 25.10.1971, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 5), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 12 October 1971 on the approximation of the laws of the Member States relating to the calibration of the tanks of vessels (71/349/EEC) (OJ L 239, 25.10.1971, p. 15) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 7), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 17 December 1974 on the approximation of the laws of the Member States relating to cold-water meters (75/33/EEC) (OJ L 14, 20.01.1975, p.1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 7), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 27 July 1976 on the approximation of the laws of the Member States relating to alcoholometers and alcohol hydrometers (76/765/EEC) (OJ L 262, 27.09.1976, p.143) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 17), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 21 December 1976 on the approximation of the laws of the Member States relating to taximeters (77/95/EEC) (OJ L 26,31.01.1977, p.59) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 20), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 5 December 1978 on the approximation of the laws of the Member States relating to automatic checkweighing and weight grading machines (78/1031/EEC) (OJ L 364, 27.12.1978, p.1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 22), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 11 September 1979 on the approximation of the laws of the Member States relating to hot-water meters (79/830/EEC) (OJ L 259, 15.10.1979, p.1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 23), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 26 May 1986 on the approximation of the laws of the Member States relating to tyre pressure gauges for motor vehicles (86/217/EEC) (OJ L 152, 06.06.1986, p.48) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 26), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 20 June 1990 on the harmonisation of the laws of the Member States relating to non-automatic weighing instruments (90/384/EEC) (OJ L 189, 20.07.1990, p.1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 27), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 19 December 1974 on the approximation of the laws of the Member States relating to the making-up by volume of certain prepackaged liquids (75/106/EEC) (OJ L 42, 15.02.1975, p.1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 12), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 19 December 1974 on the approximation of the laws of the Member States relating to bottles used as measuring containers (75/107/EEC) (OJ L 42, 15.02.1975, p.14) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 13), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 20 January 1976 on the approximation of the laws of the Member States relating to the making-up by weight or by volume of certain prepackaged products (76/211/EEC) (OJ L 46, 21.02.1976, p.1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 15), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 15 January 1980 on the approximation of the laws of the Member States relating to the ranges of nominal quantities and nominal capacities permitted for certain prepackaged products (80/232/EEC) (OJ L 51, 25.02.1980, p.1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 25), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

Switzerland
    Ordinance of 21 May 1986 on measuring instruments for thermal energy (RS 941.231), as subsequently amended

    Ordinance of 15 July 1970 concerning the binding declarations in trade with measurable goods (RS 941.281), as subsequently amended

    Ordinance of 25 October 1972 on declarations (RS 941.281.1), as subsequently amended

    Ordinance of 3 December 1973 on volume measures (RS 941.211), as subsequently amended


    Ordinance of 17 December 1984 on the qualification of measuring instruments (RS 941.210)

    Ordinance of 15 August 1986 on weighing instruments (RS 941.221.1)

Provisions covered by Article 1 paragraph 2

EEA EFTA States
    Council Directive of 20 December 1979 on the approximation of the laws of the Member States relating to units of measurement and on the repeal of Directive 71/354/EEC (80/181/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 24), as last amended by Council Directive 89/617/EEC of 27 November 1989 (OJ L 357, 7/12/1989, p. 28) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 24, third indent)

    Council Directive of 26 July 1971 on the approximation of the laws of the Member States relating to common provisions for both measuring instruments and methods of metrological control (71/316/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 1), as last amended by Council Directive 88/665/EEC of 21 December 1988 (OJ L 382, 31/12/1988, p. 42) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 1, seventh indent)

    Council Directive of 26 July 1971 on the approximation of the laws of the Member States relating to 5 to 50 kilogramme medium accuracy rectangular bar weights and 1 to 10 kilogramme medium accuracy cylindrical weights (71/317/EEC) (OJ L 202, 6/9/1971, p. 14) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 2)

    Council Directive of 26 July 1971 on the approximation of the laws of the Member States relating to gas volume meters (71/318/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 3), as last amended by Commission Directive 82/623/EEC of 1 July 1982 (OJ L 252, 27/8/1982, p. 5) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 3, third indent)


    Council Directive of 26 July 1971 on the approximation of the laws of the Member States relating to meters for liquids other than water (71/319/EEC) (OJ L 202, 6/9/1971, p. 32) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 4)

    Council Directive of 12 October 1971 on the approximation of the laws of the Member States relating to ancillary equipment for meters for liquids other than water (71/348/EEC) (OJ L 239, 25/10/1971, p. 9) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 6)

    Council Directive of 19 November 1973 on the approximation of the laws of the Member States relating to material measures of length (73/362/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 9), as last amended by Commission Directive 85/146/EEC of 31 January 1985 (OJ L 54, 23/2/1985, p. 29) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 9, second indent)


    Council Directive of 4 March 1974 on the approximation of the laws of the Member States relating to weights of from 1 mg to 50 kg of above-medium accuracy (74/148/EEC) (OJ L 84, 28/3/1974, p. 3) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 10)

    Council Directive of 24 June 1975 on the approximation of the laws of the Member States relating to continuous totalising weighing machines (75/410/EEC) (OJ L 183, 14/7/1975, p. 25) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 14)

    Council Directive of 27 July 1976 on the approximation of the laws of the Member States relating to alcohol tables (76/766/EEC) (OJ L 262, 27/9/1976, p. 149) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 18)

    Council Directive of 4 November 1976 on the approximation of the laws of the Member States relating to electrical energy meters (76/891/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 19), as last amended by Commission Directive 82/621/EEC of 1 July 1982 (OJ L 252, 27/8/1982, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 19, first indent)


    Council Directive of 5 April 1977 on the approximation of the laws of the Member States relating to measuring systems for liquids other than water (77/313/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 21), as last amended by Commission Directive 82/625/EEC of 1 July 1982 (OJ L 252, 27/8/1982, p. 10) (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 21, first indent)


Switzerland
    Federal Law of 9 June 1977 on metrology (RO 1977 2394), as last amended on 18 June 1993 (RO 1993 3149)

    Ordinance of 23 November 1994 on units of measurement (RO 1994 3109)

    Ordinance of 8 April 1991 on measuring instruments for length (RO 1991 1306)

    Ordinance of 1 December 1986 on measuring instruments for liquids other than water (RO 1987 216)

    Ordinance of 15 August 1986 on weights (RO 1986 2022), as last amended on 21 November 1995 (RO 1995 5646)

    Ordinance of 4 August 1986 on measuring instruments for gas quantities (RO 1986 1491)

    Ordinance of 4 August 1986 on measuring instruments for electrical energy and power (RO 1986 1496)

SECTION II
CONFORMITY ASSESSMENT BODIES


    The Committee shall draw up and keep up to date, according to the procedure described in Article 11 of the Annex, a list of the Conformity assessment bodies.

SECTION III
DESIGNATING AUTHORITIES


Provisions covered by Article 1 paragraph 1

EEA EFTA States:
*      Iceland:
    Ministry of Industry and Commerce
*      Liechtenstein:
    The Government of Liechtenstein15
*      Norway:
    Ministry of Trade and Industry

Switzerland:
    Swiss Federal Office of Metrology

Provisions covered by Article 1 paragraph 2

EEA EFTA States:
*      Iceland:
    Ministry of Industry and Commerce
*      Liechtenstein:
    The Government of Liechtenstein16
*      Norway:
    Ministry of Trade and Industry


15 The Government of Liechtenstein is entitled to appoint appropriate specific national administration bodies as designators of conformity assessment bodies at a future date.
16 The Government of Liechtenstein is entitled to appoint appropriate specific national administration bodies as designators of conformity assessment bodies at a future date.

Switzerland:
    Swiss Federal Office of Metrology

SECTION IV
SPECIAL RULES RELATING TO THE DESIGNATION OF CONFORMITY ASSESSMENT BODIES


    For the designation of Conformity assessment bodies, Designating authorities shall comply with the general principles contained in Appendix 2 and those in Annex V to Directive 90/384/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 27), as regards the products covered by that Directive.

SECTION V
SUPPLEMENTARY PROVISIONS


1.     Information exchange
    The Conformity assessment bodies listed in Section II shall periodically provide the EEA EFTA States and the competent Swiss authorities with the information provided for in point 1.5 of Annex II to Directive 90/384/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 27).

    The Conformity assessment bodies listed in Section II may request the information provided for in point 1.6 of Annex II to Directive 90/384/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 27).


2.     Prepackages
    Switzerland shall recognise checks carried out in accordance with the provisions of legislation applied in the EEA EFTA States listed in Section I by an EEA EFTA State body listed in Section II in the case of EEA EFTA States prepackages placed on the market in Switzerland.

    As regards statistical checking of the quantities declared on prepackages, the EEA EFTA States shall recognise the Swiss method laid down in Articles 24 to 40 of the Ordinance on declarations (RS 941.281.1) as equivalent to the EEA EFTA States method laid down in Annex II of Directives 75/106/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 12) and 76/211/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 15), as amended by Directive 78/891/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter IX, point 15, first indent). Swiss producers whose prepackages conform to legislation applied in the EEA EFTA States and have been checked according to the Swiss method shall affix the “e” mark on their products exported to the EEA EFTA States.




CHAPTER 12
MOTOR VEHICLES

SECTION I
LEGISLATIVE, REGULATORY AND ADMINISTRATIVE PROVISIONS


Provisions covered by Article 1 paragraph 2

EEA EFTA States
    Council Directive of 6 February 1970 on the approximation of the laws of the Member States relating to the type-approval of motor vehicles and their trailers (70/156/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1), as last amended by Commission Directive 98/14/EC of 6 February 1998 (OJ L 91,25/03/1998, p.1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1, fourteenth indent as added by Decision No 16/99)


    Council Directive of 6 February 1970 on the approximation of the laws of the Member States relating to the permissible sound level and the exhaust system of motor vehicles (70/157/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 2), as last amended by Commission Directive 96/20/EC of 27 March 1996 (OJ L 92, 13/4/1996, p. 23) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 2, tenth indent as added by Decision No 73/96)

    Council Directive of 20 March 1970 on the approximation of the laws of the Member States relating to measures to be taken against air pollution by gases from positive-ignition engines of motor vehicles (70/220/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 3), as last amended by Directive 96/69/EC of the European Parliament and of the Council of 8 October 1996 (OJ L 282, 1/11/1996, p. 64) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 3, fourteenth indent as added by Decision No 74/97)

    Council Directive of 20 March 1970 on the approximation of the laws of the Member States relating to liquid fuel tanks and rear protective devices for motor vehicles and their trailers (70/221/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 4), as last amended by Commission Directive 97/19/EC of 18 April 1997 (OJ L 125, 16/05/1997, p.1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 4, fourth indent as added by Decision No 39/98)


    Council Directive of 20 March 1970 on the approximation of the laws of the Member States relating to the space for mounting and the fixing of rear registration plates on motor vehicles and their trailers (70/222/EEC) (OJ L 76, 6/4/1970, p. 25) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 5)

    Council Directive of 8 June 1970 on the approximation of the laws of the Member States relating to the steering equipment for motor vehicles and their trailers (70/311/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 6), as last amended by Commission Directive 92/62/EEC of 2 July 1992 (OJ L 199, 18/7/1992, p. 33) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 6, second indent as added by Decision No 7/94)


    Council Directive of 27 July 1970 on the approximation of the laws of the Member States relating to the doors of motor vehicles and their trailers (70/387/EEC) (OJ L 176, 10/8/1970, p. 5) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 7)


    Council Directive of 27 July 1970 on the approximation of the laws of the Member States relating to audible warning devices for motor vehicles (70/388/EEC) (OJ L 176, 10/8/1970, p. 12) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 8)

    Council Directive of 1 March 1971 on the approximation of the laws of the Member States relating to the rear-view mirrors of motor vehicles (71/127/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 9), as last amended by Commission Directive 88/321/EEC of 16 May 1988 (OJ L 147, 14/6/1988, p. 77) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 9, seventh indent)


    Council Directive of 26 July 1971 on the approximation of the laws of the Member States relating to the braking devices of certain categories of motor vehicles and of their trailers (71/320/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 10), as last amended by Commission Directive 98/12/EC of 27 January 1998 (OJ L 081, 18/03/1998, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 10, eighth indent as added by Decision No 16/99)

    Council Directive of 20 June 1972 on the approximation of the laws of the Member States relating to the suppression of radio interference produced by spark-ignition engines fitted to motor vehicles (72/245/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 11), as last amended by Commission Directive 95/54/EC of 31 October 1995 (OJ L 266, 8/11/1995, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 11, second indent as added by Decision No 72/96)

    Council Directive of 2 August 1972 on the approximation of the laws of the Member States relating to the measures to be taken against the emission of pollutants from diesel engines for use in vehicles (72/306/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 12), as last amended by Commission Directive 97/20/EC of 18 April 1997 (OJ L 125, 16/05/1997, p.21) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 12, second indent as added by Decision No 28/98)


    Council Directive of 17 December 1973 on the approximation of the laws of the Member States relating to the interior fittings of motor vehicles (interior parts of the passenger compartment other than the interior rear-view mirrors, layout of controls, the roof or sliding roof, the backrest and rear part of the seats) (74/60/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 13), as last amended by Commission Directive 78/632/EEC of 19 May 1978 (OJ L 206, 29/7/1978, p. 26) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 13, first indent)

    Council Directive of 17 December 1973 on the approximation of the laws of the Member States relating to devices to prevent the unauthorised use of motor vehicles (74/61/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 14), as last amended by Commission Directive 95/56/EC of 8 November 1995 (OJ L 286, 29/11/1995, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 14, first indent as added by Decision No 74/96)


    Council Directive of 4 June 1974 on the approximation of the laws of the Member States relating to the interior fittings of motor vehicles (the behaviour of the steering mechanism in the event of an impact) (74/297/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 15), as last amended by Commission Directive 91/662/EEC of 6 December 1991 (OJ L 366, 31/12/1991, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 15, first indent as added by Decision No 7/94)

    Council Directive of 22 July 1974 on the approximation of the laws of the Member States relating to the interior fittings of motor vehicles (strength of seats and of their anchorages) (74/408/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 16), as last amended by Commission Directive 96/37/EC of 17 June 1996 (OJ L 186, 25/7/1996, p. 71) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 16, second indent as added by Decision No 62/97)

    Council Directive of 17 September 1974 on the approximation of the laws of the Member States relating to the external projections of motor vehicles (74/483/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 17), as last amended by Council Directive 87/354/EEC of 25 June 1987 (OJ L 192, 11/7/1987, p. 43) 17

    Council Directive of 26 June 1975 on the approximation of the laws of the Member States relating to the reverse and speedometer equipment of motor vehicles (75/443/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 18), as last amended by Commission Directive 97/39/EC of 24 June 1997 (OJ L 177,05/07/1997, p.15) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 18, first indent as added by Decision No 55/98)


    Council Directive of 18 December 1975 on the approximation of the laws of the Member States relating to statutory plates and inscriptions for motor vehicles and their trailers, and their location and method of attachment (76/114/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 19), as last amended by Council Directive 87/354/EEC of 25 June 1987 (OJ L 192, 11/7/1987, p.43.) 18


17 Council Directive 87/354/EEC has not yet been fully incorporated in the EEA. The incorporation will be completed at the next update of Chapter I, Motor Vehicles, of Annex II of the EEA Agreement.
18 Council Directive 87/354/EEC has not yet been fully incorporated in the EEA. The incorporation will be completed at the next update of Chapter I, Motor Vehicles, of Annex II of the EEA Agreement.

    Council Directive of 18 December 1975 on the approximation of the laws of the Member States relating to anchorages for motor-vehicle safety belts (76/115/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 20), as last amended by Commission Directive 96/38/EC of 17 June 1996 (OJ L 187, 26/7/1996, p. 95) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 20, fourth indent as added by Decision No 63/97)


    Council Directive of 27 July 1976 on the approximation of the laws of the Member States relating to the installation of lighting and light-signalling devices on motor vehicles and their trailers (76/756/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 21), as last amended by Commission Directive 97/28/EC of 11 June 1997 (OJ L 171, 30/6/1997, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 21, seventh indent as added by Decision No 29/98)

    Council Directive of 27 July 1976 on the approximation of the laws of the Member States relating to reflex reflectors for motor vehicles and their trailers (76/757/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 22), as last amended by Commission Directive 97/29/EC of 11 June 1997 (OJ L 171, 30/6/1997, p. 11) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 22, third indent as added by Decision No 70/98)


    Council Directive of 27 July 1976 on the approximation of the laws of the Member States relating to rear position (side) lamps and stop lamps for motor vehicles and their trailers (76/758/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 23), as last amended by Commission Directive 97/30/EC of 11 June 1997 (OJ L 171, 30/6/1997, p. 25) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 23, fourth indent as added by Decision No 40/98)



    Council Directive of 27 July 1976 on the approximation of the laws of the Member States relating to direction indicator lamps for motor vehicles and their trailers (76/759/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 24), as last amended by Commission Directive 89/277/EEC of 28 March 1989 (OJ L 109, 20/4/1989, p. 25) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 24, third indent)

    Council Directive of 27 July 1976 on the approximation of the laws of the Member States relating to the rear registration plate lamps for motor vehicles and their trailers (76/760/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 25), as last amended by Council Directive 87/354/EEC of 25 June1987 (OJ L 192, 11/7/1987, p. 43) 19

    Council Directive of 27 July 1976 on the approximation of the laws of the Member States relating to motor-vehicle headlamps which function as main-beam and/or dipped-beam headlamps and to incandescent electric filament lamps for such headlamps (76/761/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 26), as last amended by Commission Directive 89/517/EEC of 1 August 1989 (OJ L 265, 12/9/1989, p. 15) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 26, third indent)

    Council Directive of 27 July 1976 on the approximation of the laws of the Member States relating to front fog lamps for motor vehicles and filament lamps for such lamps (76/762/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 27), as last amended by Council Directive 87/354/EEC of 25 June 1987 (OJ L 192, 11/7/1987, p. 43) 20

    Council Directive of 17 May 1977 on the approximation of the laws of the Member States relating to motor-vehicle towing-devices (77/389/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 28), as last amended by Commission Directive 96/64/EC of 2 October 1996 (OJ L 258, 11/10/1996, p. 26) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 28, first indent as added by Decision No 75/97)


    Council Directive of 28 June 1977 on the approximation of the laws of the Member States relating to rear fog lamps for motor vehicles and their trailers (77/538/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 29), as last amended


19 Council Directive 87/354/EEC has not yet been fully incorporated in the EEA. The incorporation will be completed at the next update of Chapter I, Motor Vehicles, of Annex II of the EEA Agreement.
20 Council Directive 87/354/EEC has not yet been fully incorporated in the EEA. The incorporation will be completed at the next update of Chapter I, Motor Vehicles, of Annex II of the EEA Agreement.

    by Commission Directive 89/518/EEC of 1 August 1989 (OJ L 265, 12/9/1989, p. 24) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 29, third indent)

    Council Directive of 28 June 1977 on the approximation of the laws of the Member States relating to reversing lamps for motor vehicles and their trailers (77/539/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 30), as last amended by Commission Directive 97/32/EC (OJ L 177, 30/06/1997, p. 63) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 30, third indent as added by Decision No 42/98)


    Council Directive of 28 June 1977 on the approximation of the laws of the Member States relating to parking lamps for motor vehicles (77/540/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 31), as last amended by Council Directive 87/354/EEC of 25 June 1987 (OJ L 192, 11/7/1987, p. 43) 21

    Council Directive of 28 June 1977 on the approximation of the laws of the Member States relating to safety belts and restraint systems of motor vehicles (77/541/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 32), as last amended by Commission Directive 96/36/EC of 17 June 1996 (OJ L 178, 17/7/1996, p. 15) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 32, sixth indent as added by Decision No 76/97)


    Council Directive of 27 September 1977 on the approximation of the laws of the Member States relating to the field of vision of motor vehicle drivers (77/649/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 33), as last amended by Commission Directive 90/630/EEC of 30 October 1990 (OJ L 341, 6/12/1990, p. 20) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 33, third indent as added by Decision No 7/94)


    Council Directive of 21 December 1977 on the approximation of the laws of the Member States relating to the interior fittings of motor vehicles (identification of controls, tell-tales and indica-


21 Council Directive 87/354/EEC has not yet been fully incorporated in the EEA. The incorporation will be completed at the next update of Chapter I, Motor Vehicles, of Annex II of the EEA Agreement.
    tors) (78/316/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 34), as last amended by Commission Directive 94/53/EC of 15 November 1994 (OJ L 299, 22/11/1994, p. 26) 22


    Council Directive of 21 December 1977 on the approximation of the laws of the Member States relating to the defrosting and demisting systems of glazed surfaces of motor vehicles (78/317/EEC) (OJ L 81, 28/3/1978, p. 27) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 35)

    Council Directive of 21 December 1977 on the approximation of the laws of the Member States relating to the wiper and washer systems of motor vehicles (78/318/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 36), as last amended by Commission Directive 94/68/EC of 16 December 1994 (OJ L 354, 31/12/1994, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 36, first indent as added by Decision No 40/95)


    Council Directive of 12 June 1978 on the approximation of the laws of the Member States relating to heating systems for the passenger compartment of motor vehicles (78/548/EEC) (OJ L 168, 26/6/1978, p. 40) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 37)

    Council Directive of 12 June 1978 on the approximation of the laws of the Member States relating to the wheel guards of motor vehicles (78/549/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 38), as last amended by Commission Directive 94/78/EC of 21 December 1994 (OJ L 354, 31/12/1994, p. 10) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 38, first indent as added by Decision No 41/95)


    Council Directive of 16 October 1978 on the approximation of the laws of the Member States relating to head restraints of seats of motor vehicles (78/932/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 39), as last amended by Council





22 Commission Directive 94/53/EC has not yet been incorporated in the EEA. The incorporation will be completed at the next update of Chapter I, Motor Vehicles, of Annex II of the EEA Agreement.

    Directive 87/354/EEC of 25 June 1987 (OJ L 192, 11/7/1987, p. 43) 23

    Council Directive of 16 December 1980 on the approximation of the laws of the Member States relating to the fuel consumption of motor vehicles (80/1268/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 42), as last amended by Commission Directive 93/116/EC of 17 December 1993 (OJ L 329, 30/12/1993, p. 39) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 42, second indent as added by Decision No 7/94)


    Council Directive of 16 December 1980 on the approximation of the laws of the Member States relating to the engine power of motor vehicles (80/1269/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 43), as last amended by Commission Directive 97/21/EC of 18 April 1997 (OJ L 125,16/05/1997, p. 31) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 43, third indent as added by Decision No 43/98)


    Council Directive of 25 July 1996 laying down for certain road vehicles circulating within the Community the maximum authorised dimensions in national and international traffic and the maximum authorised weights in international traffic (96/53/EC) (OJ L 235, 17/09/1996, p. 59) (EEA Agreement, Annex XIII, Chapter II, point 15a as inserted by Decision No 24/97)


    Council Directive of 3 December 1987 on the approximation of the laws of the Member States relating to the measures to be taken against the emission of gaseous pollutants from diesel engines for use in vehicles (88/77/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 44), as last amended by Council Directive 96/1/EC of 22 January 1996 (OJ L 40, 17/2/1996, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 44, second indent as added by Decision No 75/96)

    Council Directive of 13 April 1989 on the approximation of the laws of the Member States relating to the lateral protection (side guards) of certain motor vehicles and their trailers


23 Council Directive 87/354/EEC has not yet been fully incorporated in the EEA. The incorporation will be completed at the next update of Chapter I, Motor Vehicles, of Annex II of the EEA Agreement.

    (89/297/EEC) (OJ L 124, 5/5/1989, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 45)

    Council Directive of 18 July 1989 on the approximation of the laws of the Member States relating to the tread depth of tyres of certain categories of motor vehicles and their trailers (89/459/EEC) (OJ L 226, 3/8/1989, p. 4) (EEA Agreement, Annex XIII, Chapter II, point 17)

    Council Directive of 27 March 1991 on the approximation of the laws of the Member States relating to the spray-suppression systems of certain categories of motor vehicles and their trailers (91/226/EEC) (OJ L 103, 23/4/1991, p. 5) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 45a as inserted by Decision No 7/94)

    Council Directive of 10 February 1992 on the installation and use of speed limitation devices for certain categories of motor vehicles in the Community (92/6/EEC) (OJ L 57, 2/3/1992, p. 27) (EEA Agreement, Annex XIII, Chapter II, point 17b as inserted by Decision No 7/94)


    Council Directive of 31 March 1992 on the masses and dimensions of motor vehicles of category M1 (92/21/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 45b as inserted by Decision No 7/94), as last amended by Commission Directive 95/48/EC of 20 September 1995 (OJ L 233, 30/9/1995, p. 73) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 45b, first indent as inserted by Decision No 76/96)


    Council Directive of 31 March 1992 on safety glazing and glazing materials on motor vehicles and their trailers (92/22/EEC) (OJ L 129, 14/5/1992, p. 11) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 45c)

    Council Directive of 31 March 1992 relating to tyres for motor vehicles and their trailers and to their fitting (92/23/EEC) (OJ L 129, 14/5/1992, p. 95) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 45d as inserted by Decision No 7/94)


    Council Directive of 31 March 1992 relating to speed limitation devices or similar speed limitation on-board systems of certain categories of motor vehicles (92/24/EEC) (OJ L 129, 14/5/1992, p. 154) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 45e as inserted by Decision No 7/94)

    Council Directive of 17 December 1992 relating to the external projections forward of the cab's rear panel of motor vehicles of category N (92/114/EEC) (OJ L 409, 31/12/1992, p. 17) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 45g as inserted by Decision No 7/94)

    Directive of the European Parliament and of the Council of 30 May 1994 relating to the mechanical coupling devices of motor vehicles and their trailers and their attachment to those vehicles (94/20/EC) (OJ L 195, 29/7/1994, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 45r as inserted by Decision No 30/94)

    Directive of the European Parliament and of the Council of 24 October 1995 relating to the burning behaviour of materials used in the interior construction of certain categories of motor vehicle (95/28/EC) (OJ L 281, 23/11/1995, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 45t as inserted by Decision No 1/97)

    Directive 96/27/EC of the European Parliament and of the Council of 20 May 1996 on the protection of occupants of motor vehicles in the event of a side impact and amending Directive 70/156/EEC (OJ L 169, 8/7/1996, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 45u as inserted by Decision No 60/97)

    Directive 96/79/EC of the European Parliament and of the Council of 16 December 1996 on the protection of occupants of motor vehicles in the event of a frontal impact and amending Directive 70/156/EEC (OJ L 018 , 21/01/1997 p. 7) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 45v as inserted by Decision No 44/98)

    Directive 97/27/EC of the European Parliament and of the Council of 22 July 1997 relating to the masses and dimensions of certain categories of motor vehicles and their trailers and amending Directive 70/156/EEC (OJ L 233, 25/08/1997, p. 1 and OJ L 263, 25/09/1997, p. 30) (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 45w as inserted by Decision No 56/98)

Switzerland
    Ordinance of 19 June 1995 on the technical requirements for power-driven transportation vehicles and their trailers (RO 1995 4145), as last amended on 21 April 1997 (RO 1997 1280)

    Ordinance of 19 June 1995 on type approval of road vehicles (RO 1995 3997)

SECTION II
CONFORMITY ASSESSMENT BODIES


    The Committee shall draw up and keep up to date, according to the procedure described in Article 11 of the Annex, a list of the authorities responsible for type-approval, technical services and testing bodies.

EEA EFTA States:
*      Iceland:
    Ministry of Justice
*      Liechtenstein:
    The Government of Liechtenstein24
*      Norway:
    Ministry of Transport and Communications

Switzerland:
    Authority responsible for type-approval
    Swiss Federal Roads Office
    Section des homologations
    CH-3003 Berne

SECTION III
DESIGNATING AUTHORITIES


EEA EFTA States:
*      Iceland:
    Ministry of Justice
*      Liechtenstein:
    The Government of Liechtenstein25
*      Norway:
    Ministry of Transport and Communication

Switzerland:
    Swiss Federal Roads Office








24 The Government of Liechtenstein is entitled to appoint appropriate specific national administration bodies as designators of conformity assessment bodies at a future date.
25 The Government of Liechtenstein is entitled to appoint appropriate specific national administration bodies as designators of conformity assessment bodies at a future date.

SECTION IV
SPECIAL RULES RELATING TO THE DESIGNATION OF CONFORMITY ASSESSMENT BODIES


    For the designation of Conformity assessment bodies, the Designating authorities shall refer to their respective legislative, regulatory and administrative provisions as listed in Section I.

SECTION V
SUPPLEMENTARY PROVISIONS


    The provisions of this section shall apply exclusively to relations between Switzerland and the EEA EFTA States.

1.     Information exchange
    The competent type-approval authorities in Switzerland and the EEA EFTA States shall in particular exchange the information referred to in Article 4(5) and (6) of Directive 70/156/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1), as amended by Directive 92/53/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1, eighth indent as added by Decision No 7/94) and as last adapted to technical progress by Commission Directive 98/14/EC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1, fourteenth indent as added by Decision No 16/99).

    In the event of refusal by Switzerland or the EEA EFTA States to grant type-approval in accordance with Article 4(2) of Directive 70/156/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1), as amended by Directive 92/53/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1, eighth indent as added by Decision No 7/94), and as last adapted to technical progress by Commission Directive 98/14/EC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1, fourteenth indent as added by Decision No 16/99), their competent authorities shall notify each other of their decision and give the reasons for it.


2.     Recognition of vehicle type-approval
    Switzerland shall also recognise vehicle type-approval granted before the entry into force of the Annex in accordance with Directive 70/156/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1), as amended by Directive 92/53/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1, eighth indent as added by Decision No 7/94), and as last adapted to technical progress by Commission Directive 98/14/EC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1, fourteenth indent as added by Decision No 16/99), by the authorities responsible for type-approval listed in Section II of this Chapter where that approval is still valid in the EEA EFTA States.


    The EEA EFTA States shall recognise Swiss type-approval where Switzerland's requirements are deemed to be equivalent to those of Directive 70/156/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1), as amended by Directive 92/53/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1, eighth indent as added by Decision No 7/94), and as last adapted to technical progress by Commission Directive 98/14/EC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1, fourteenth indent as added by Decision No 16/99).

    Recognition of Swiss-issued type-approval shall be suspended should Switzerland fail to adapt its legislation to all the type-approval legislation in force in the EEA EFTA States.


3.     Vehicle type-approval safeguard clauses

Registration and entry into service
1.     Each EEA EFTA State and Switzerland shall register, permit the sale or entry into service of new vehicles on grounds relating to their construction and functioning if, and only if, they are accompanied by a valid certificate of conformity. In the case of incomplete vehicles, each EEA EFTA State and Switzerland may not prohibit the sale of such vehicles but may refuse their permanent registration and entry into service so long as they are not completed.
2.     Each EEA EFTA State and Switzerland shall permit the sale or entry into service of components or separate technical units if, and only if, they comply with the requirements of the relevant separate Directive or the requirements of the Swiss legislation equivalent to the relevant separate Directive.
3.     If a EEA EFTA State or Switzerland finds that vehicles, components or separate technical units of a particular type are a serious risk to road safety although they are accompanied by a valid certificate of conformity or are properly marked, it may, for a maximum period of six months, refuse to register such vehicles or may prohibit the sale or entry into service in its territory of such vehicles, components or separate technical units. It shall forthwith notify the EEA EFTA States concerned and Switzerland thereof, stating the reasons on which its decision is based. If the EEA EFTA State or Switzerland which granted type-approval disputes the risk to road safety notified to it, the EEA EFTA States or Switzerland concerned shall endeavour to settle the dispute. The Committee shall be kept informed and shall, where necessary, hold appropriate consultations for the purpose of reaching a settlement.


Measures related to the conformity of production
1.     When a EEA EFTA State or Switzerland grants type-approval, it shall take the necessary measures in accordance with Annex X to Framework Directive 70/156/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1), as amended by Directive 92/53/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1, eighth indent as added by Decision No 7/94), and as last adapted to technical progress by Commission Directive 98/14/EC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1, fourteenth indent as added by Decision No 16/99), in relation to that approval to verify, if need be in co-operation with the approval authorities of the other EEA EFTA States or Switzerland, that adequate arrangements have been made to ensure that vehicles, systems, components or separate technical units produced, conform to the approved type.



2.     When a EEA EFTA State or Switzerland has granted a type approval, it shall take the necessary measures in accordance with Annex X to Framework Directive 70/156/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1), as amended by Directive 92/53/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1, eighth indent as added by Decision No 7/94), and as last adapted to technical progress by Commission Directive 98/14/EC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1, fourteenth indent as added by Decision No 16/99), in relation to that approval to verify, if need be in co-operation with the approval authorities of the other EEA EFTA States or Switzerland, that the arrangements referred to in paragraph 1 continue to be adequate and that vehicles, systems, components or separate technical units produced, continue to conform to the approved type. Verification to ensure that products conform to the approved type shall be limited to the procedures set out in Section 2 of Annex X to Framework Directive 70/156/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1), as amended by Directive 92/53/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1, eighth indent as added by Decision No 7/94), and as last adapted to technical progress by Commission Directive 98/14/EC(EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1, fourteenth indent as added by Decision No 16/99), and in those separate directives that contain specific requirements.




Nonconformity with the approved type
1.     There shall be failure to conform to the approved type where deviations from the particulars in the type-approval certificate and/or the information package are found to exist and where these deviations have not been authorised under Article 5 (3) or (4), by the EEA EFTA States or Switzerland which granted the type-approval. A vehicle shall not be considered to deviate from the approved type where tolerances are permitted by separate Directives and these tolerances are respected.
2.     Where a EEA EFTA State or Switzerland has granted type-approval and finds that vehicles, components or separate technical units accompanied by a certificate of conformity or bearing an approval mark do not conform to the type it has approved, it shall take the necessary measures to ensure that vehicles, components or separate technical units produced again conform to the approved type. The approval authorities of that EEA EFTA State or Switzerland shall notify those of the other EEA EFTA States and/or Switzerland of the measures taken which may extend to withdrawal of type-approval.


3.     If a EEA EFTA State or Switzerland demonstrates that vehicles, components or separate technical units accompanied by a certificate of conformity or bearing an approval mark do not conform to the approved type, it may request the EEA EFTA State or Switzerland which granted the type-approval to verify that vehicles, components or separate technical units produced conform to the approved type. Such action shall be taken as soon as possible and in any case within six months of the date of the request.

4.     In the case of:
–    a vehicle type-approval where the nonconformity of a vehicle arises exclusively from the nonconformity of a system, component or separate technical unit,
or
–    a multi-stage type-approval where the nonconformity of a completed vehicle arises exclusively from the nonconformity of a system, component or separate technical unit being part of the incomplete vehicle, or of the incomplete vehicle itself,
the vehicle-approval authority shall request the EEA EFTA State(s) or Switzerland which granted any relevant system, component, separate technical unit or incomplete vehicle type-approval(s) to take the necessary action to ensure that vehicles produced again conform to the approved type. Such action shall be taken as soon as possible and in any case within six months of the date of the request, if necessary in conjunction with the EEA EFTA State or Switzerland making the request.


    Where a failure to conform is established, the approval authorities of the EEA EFTA State or Switzerland which granted the system, component or separate technical unit type-approval or the approval of the incomplete vehicle shall take the measures set out in paragraph 2 of Directive 70/156/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1), as amended by Directive 92/53/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1, eighth indent as added by Decision No 7/94), and as last adapted to technical progress by Commission Directive 98/14/EC (EEA Agreement, Annex II, Chapter I, point 1, fourteenth indent as added by Decision No 16/99).


5.     The approval authorities of the EEA EFTA States or Switzerland shall inform each other within one month of any withdrawal of type-approval and of the reasons for such a measure.

6.     If the EEA EFTA State or Switzerland which granted type-approval disputes the failure to conform notified to it, the EEA EFTA States concerned and Switzerland shall endeavour to settle the dispute. The Committee shall be kept informed and shall, where necessary, hold appropriate consultations for the purpose of reaching a settlement.

CHAPTER 13
AGRICULTURAL OR FORESTRY TRACTORS


SECTION I
LEGISLATIVE, REGULATORY AND ADMINISTRATIVE PROVISIONS


Provisions covered by Article 1 paragraph 2

EEA EFTA States
    Council Directive of 4 March 1974 on the approximation of the laws of the Member States relating to the type-approval of wheeled agricultural or forestry tractors (74/150/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 1), as last amended by Directive 97/54/EC of the European Parliament and the Council of 23 September 1997 (OJ L 277, 10/10/1997, p. 24) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 1, sixth indent as added by Decision No 28/99)

    Council Directive of 4 March 1974 on the approximation of the laws of the Member States relating to certain parts and characteristics of wheeled agricultural or forestry tractors (74/151/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 2), as last amended by Commission Directive 98/38/EC of 3 June 1998, (OJ L 170, 16/06/1998, p. 13) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 2, fourth indent as added by Decision No 46/99)

    Council Directive of 4 March 1974 on the approximation of the laws of the Member States relating to the maximum design speed of and load platforms for wheeled agricultural or forestry tractors (74/152/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 3), as last amended by Directive 97/54/EC of the European Parliament and the Council of 23 September 1997 (OJ L 277, 10/10/1997, p. 24) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 3, third indent as added by Decision No 28/99)

    Council Directive of 25 June 1974 on the approximation of the laws of the Member States relating to rear-view mirrors for wheeled agricultural or forestry tractors (74/346/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 4), as last amended by Commission Directive 98/40/EC of 6 June 1998, (OJ L 171, 16/06/1998, p. 28) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 4, fourth indent as added by Decision No 47/99)


    Council Directive of 25 June 1974 on the approximation of the laws of the Member States relating to the field of vision and windscreen wipers for wheeled agricultural or forestry tractors (74/347/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 5), as last amended by Directive 97/54/EC of the European Parliament and the Council of 23 September 1997 (OJ L 277, 10/10/1997, p. 24) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 5, third indent as added by Decision No 28/99)

    Council Directive of 20 May 1975 on the approximation of the laws of the Member States relating to the steering equipment of wheeled agricultural or forestry tractors (75/321/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 6), as last amended by Commission Directive 98/39/EC of 5 June 1998 (OJ L 170, 16/06/1998, p. 15) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 6, fourth indent as added by Decision No 46/99)


    Council Directive of 20 May 1975 on the approximation of the laws of the Member States relating to the suppression of radio interference produced by spark-ignition engines fitted to wheeled agricultural or forestry tractors (75/322/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 7), as last amended by Directive 97/54/EC of the European Parliament and the Council of 23 September 1997 (OJ L 277, 10/10/1997, p. 24) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 7, second indent as added by Decision No 28/99)

    Council Directive of 6 April 1976 on the approximation of the laws of the Member States relating to the braking devices of wheeled agricultural or forestry tractors (76/432/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 8), as last amended by Directive 97/54/EC of the European Parliament and the Council of 23 September 1997 (OJ L 277, 10/10/1997, p. 24) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 8, third indent as added by Decision No 28/99)

    Council Directive of 27 July 1976 on the approximation of the laws of the Member States relating to passenger seats for wheeled agricultural or forestry tractors (76/763/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 9), as last amended by Directive 97/54/EC of the European Parliament and the Council of 23 September 1997 (OJ L 277, 10/10/1997, p. 24) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 9, second indent as added by Decision No 28/99)

    Council Directive of 29 March 1977 on the approximation of the laws of the Member States relating to the driver-perceived noise level of wheeled agricultural or forestry tractors (77/311/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 10), as last amended by Directive 97/54/EC of the European Parliament and the Council of 23 September 1997 (OJ L 277, 10/10/1997, p. 24) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 10, third indent as added by Decision No 28/99)

    Council Directive of 28 June 1977 on the approximation of the laws of the Member States relating to the roll-over protection structures of wheeled agricultural or forestry tractors (77/536/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 11), as last amended by Council Directive 89/680/EEC of 21 December 1989 (OJ L 398, 30/12/1989, p. 26) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 11, third indent as added by Decision No 28/99)

    Council Directive of 28 June 1977 on the approximation of the laws of the Member States relating to the measures to be taken against the emission of pollutants from diesel engines for use in wheeled agricultural or forestry tractors (77/537/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 12), as last amended by Directive 97/54/EC of the European Parliament and the Council of 23 September 1997 (OJ L 277, 10/10/1997, p. 24) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 12, second indent as added by Decision No 28/99)

    Council Directive of 25 July 1978 on the approximation of the laws of the Member States relating to the driver's seat on wheeled agricultural or forestry tractors (78/764/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 13), as last amended by Directive 97/54/EC of the European Parliament and the Council of 23 September 1997 (OJ L 277, 10/10/1997, p. 24) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 13, sixth indent as added by Decision No 28/99)

    Council Directive of 17 October 1978 on the approximation of the laws of the Member States relating to the installation of lighting and light-signalling devices on wheeled agricultural and forestry tractors (78/933/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 14), as last amended by Directive 97/54/EC of the European Parliament and the Council of 23 September 1997 (OJ L 277, 10/10/1997, p. 24) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 14, second indent as added by Decision No 28/99)

    Council Directive of 17 May 1979 on the approximation of the laws of the Member States relating to the component type-approval of lighting and light-signalling devices on wheeled agricultural or forestry tractors (79/532/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 15), as last amended by Directive 97/54/EC of the European Parliament and the Council of 23 September 1997 (OJ L 277, 10/10/1997, p. 24) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 15, second indent as added by Decision No 28/99)

    Council Directive of 17 May 1979 on the approximation of the laws of the Member States relating to the coupling device and the reverse of wheeled agricultural or forestry tractors (79/533/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 16), as last amended by Directive 97/54/EC of the European Parliament and the Council of 23 September 1997 (OJ L 277, 10/10/1997, p. 24) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 16, second indent as added by Decision No 28/99)

    Council Directive of 25 June 1979 on the approximation of the laws of the Member States relating to the roll-over protection structures of wheeled agricultural or forestry tractors (static testing) (79/622/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 17), as last amended by Commission Directive 88/413/EEC of 22 June 1988 (OJ L 200, 26/7/1988, p. 32) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 17, third indent)

    Council Directive of 24 June 1980 on the approximation of the laws of the Member States relating to the operating space, access to the driving position and the doors and windows of wheeled agricultural or forestry tractors (80/720/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 18), as last amended by Directive 97/54/EC of the European Parliament and the Council of 23 September 1997 (OJ L 277, 10/10/1997, p. 24) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 18, third indent as added by Decision No 28/99)

    Council Directive of 26 May 1986 on the approximation of the laws of the Member States relating to the power take-offs of wheeled agricultural and forestry tractors and their protection (86/297/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 19), as last amended by Directive 97/54/EC of the European Parliament and the Council of 23 September 1997 (OJ L 277, 10/10/1997, p. 24) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 19, first indent as added by Decision No 28/99)

    Council Directive of 26 May 1986 on rear-mounted roll-over protection structures of narrow-track wheeled agricultural and forestry tractors (86/298/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 20), as last amended by Council Directive 89/682/EEC of 21 December 1989 (OJ L 398, 30/12/1989, p. 29) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 20, first indent as added by Decision No 28/99)


    Council Directive of 24 July 1986 on the installation, location, operation and identification of the controls of wheeled agricultural or forestry tractors (86/415/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 21), as last amended by Directive 97/54/EC of the European Parliament and the Council of 23 September 1997 (OJ L 277, 10/10/1997, p. 24) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 21, first indent as added by Decision No 28/99)


    Council Directive of 25 June 1987 on roll-over protection structures mounted in front of the driver's seat on narrow-track wheeled agricultural and forestry tractors (87/402/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 22), as last amended by Council Directive 89/681/EEC of 21 December 1989 (OJ L 398, 30/12/1989, p. 27) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 22, first indent)

    Council Directive of 21 December 1988 on the approximation of the laws of the Member States relating to certain components and characteristics of wheeled agricultural or forestry tractors (89/173/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 23), as last amended by Directive 97/54/EC of the European Parliament and the Council of 23 September 1997 (OJ L 277, 10/10/1997, p. 24) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 1, first indent as added by Decision No 28/99)

Switzerland
    Ordinance of 19 June 1995 on the technical requirements for agricultural tractors (RO 1995 4171)

    Ordinance of 19 June 1995 on type approval of road vehicles (RO 1995 3997)

SECTION II
CONFORMITY ASSESSMENT BODIES


    The Committee shall draw up and keep up to date, according to the procedure described in Article 11 of the Annex, a list of the authorities responsible for type-approval, technical services and testing bodies.

EEA EFTA States:
*      Iceland:
    Ministry of Justice
*      Liechtenstein:
    The Government of Liechtenstein26
*      Norway:
    Ministry of Transport and Communications

Switzerland
    Authority responsible for type approval
    Swiss Federal Roads Office
    CH-3003 Berne

SECTION III
DESIGNATING AUTHORITIES


EEA EFTA States:
*      Iceland:
    Ministry of Justice
*      Liechtenstein:
    The Government of Liechtenstein27
*      Norway:
    For type approval, certain parts and characteristics, maximum design speed of and load platforms, rear-view mirrors, vision and windscreen wipers, steering equipment, suppression of radio interference produced by sparkignition engines, braking devices, measures to be taken against emission of pollutants from diesel engines, installation of lighting and light-signalling devices, component type-approval of lighting and light-signalling, coupling device and the reverse, installation, location, operation and identification of the controls, certain components and characteristics of wheeled tractors:
    Ministry of Transport and Communications
    For passenger seats, driver-perceived noise level, roll-over protection structures, drivers seat, operating space, access to the driving position and the doors and windows, power take-offs, rear-mounted roll-over protection structures of narrow-track tractors, roll-over protection structures mounted in front of the drivers seats on narrow-track tractors:


26 The Government of Liechtenstein is entitled to appoint appropriate specific national administration bodies as designators of conformity assessment bodies at a future date.
27 The Government of Liechtenstein is entitled to appoint appropriate specific national administration bodies as designators of conformity assessment bodies at a future date.

    Ministry of Labour and Government Administration

Switzerland:
    Swiss Federal Roads Office

SECTION IV
SPECIAL RULES RELATING TO THE DESIGNATION OF CONFORMITY ASSESSMENT BODIES


    For the designation of Conformity assessment bodies, the Designating authorities shall refer to their respective legislative, regulatory and administrative provisions as listed in Section I.

SECTION V
SUPPLEMENTARY PROVISIONS


Information exchange
    The competent EEA EFTA State's and Swiss authorities shall notify each other of conforming (Art. 5 and 6, Directive 74/150/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 1) or non-conforming (Art. 8, Directive 74/150/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 1) vehicles, devices and systems placed on the market.

CHAPTER 14
GOOD LABORATORY PRACTICE (GLP)

SCOPE AND COVERAGE


    The provisions of this Chapter shall apply to the testing of chemicals according to GLP, being either substances or preparations, covered by the legislative, regulatory and administrative provisions listed in Section I. For the purposes of this Chapter the provisions of Article 4 of the Annex concerning origin do not apply.
    Unless specific definitions are given, the definition of terms in the “OECD Principles of Good Laboratory Practice” [Appendix II to OECD Council Decision of 12 May 1981 C(81)30(Final)], the “Guides for Compliance Monitoring Procedures for Good Laboratory Practice” [Appendix I to Council Decision-Recommendation of 2 October 1989 C(89)87(Final)] and GLP Consensus documents, OECD Series on Principles of Good Laboratory Practice and Compliance Monitoring, and all amendments made thereto, shall apply.



    The Member States recognise the equivalence of each other's compliance monitoring programmes on Good Laboratory Practice that are in accordance with the OECD decisions and recommendations mentioned above and the legislative, regulatory and administrative procedures and principles listed in Section IV.
    The Member States mutually accept studies and data generated therefrom, produced by the test facilities of the other Member States listed in Section II provided they participate in the Good Laboratory Practice compliance monitoring programme of that Member State in accordance with the principles and provisions stated above.

    The Member States mutually accept the conclusions of study audits and test facility inspections performed by the monitoring authorities referred to in Section III.

SECTION I
LEGISLATIVE, REGULATORY AND ADMINISTRATIVE PROVISIONS


    With regard to the testing of chemicals according to GLP, the relevant parts of the legislative, regulatory and administrative provisions listed below shall apply.

Provisions covered by Article 1 paragraph 1

EEA EFTA States
     Feed additives:
    Council Directive of 18.4.83 on the fixing of guidelines for the assessment of certain products used in animal nutrition (83/228/EEC) (OJ L 126, 13/05/1983, p. 23) (EEA Agreement, Annex I, Chapter II, point 16), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 16.2.87 fixing guidelines for the assessment of additives in animal nutrition (87/153/EEC) (OJ L 64, 07/02/1987, p. 19) (EEA Agreement, Annex I, Chapter II, point 2), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

     Foodstuffs:
    Council Directive of 14.6.89 on the official control of foodstuffs (89/397/EEC) (OJ L 186 of 30.06.1989, p. 23) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XII, point 50), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

    Council Directive of 29.10.93 on the subject of additional measures concerning the official control of foodstuffs (93/99/EEC) (OJ L 290 of 24.11.1993, p. 14) (EEA Agreement, Annex XII, Chapter II, point 54n as inserted by Decision No 7/94), as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

     Cosmetics:
    Council Directive of 14.6.93 amending for the sixth time Directive 76/768/EEC on the approximation of the laws of the Member States relating to cosmetic products (93/35/EEC) (OJ L 151, 23.06.1993, p. 32) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XVI, point 1, twenty-third indent as added by Decision No 7/94) as subsequently amended and incorporated into the EEA Agreement

Switzerland
    No GLP-relevant legislation


Provisions covered by Article 1 paragraph 2

EEA EFTA States
     New and Existing Chemicals:
    Council Directive of 18.12.86 on the harmonisation of laws, regulations and administrative provisions relating to the application of the principles of good laboratory practice and the verification of their applications for tests on chemical substances (87/18/EEC) (OJ L 15, 17.01.1987, p. 29) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XV, point 8)

    Council Directive of 30.4.92 amending for the seventh time Directive 67/548/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter XV, point 1) on the approximation of the laws, regulations and administrative provisions relating to the classification, packaging and labelling of dangerous substances (92/32/EEC) (OJ L 154, 5/6/1992, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XV, point 1, tenth indent as added by Decision No 7/94)

    Council Directive of 7.6.88 on the approximation of the laws, regulations and administrative provisions of the Member States relating to the classification, packaging and labelling of dangerous preparations (88/379/EEC) (OJ L 187, 16/7/1988, p. 14) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XV, point 10)

    Council Regulation of 23.3.93 on the evaluation and control of the risks of existing substances (No 793/93/EEC) (OJ L 84, 5/4/1993, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XV, point 12e)

     Medicinal products:
    Council Directive of 22.12.86 amending Directive 75/318/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter XIII, point 2) on the approximation of the laws of the Member States relating to analytical, pharmaco-toxicological and clinical standards and protocols in respect of the testing of proprietary medicinal products (87/19/EEC) (OJ L 15, 17/1/1987, p. 31) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XIII, point 2, second indent)

    Council Directive of 22.12.86 amending Directive 65/65/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter XIII, point 1) on the approximation of provisions laid down by law, regulation or administrative action relating to proprietary medicinal products (87/21/CEE) (OJ L 15 of 17/1/1987, p. 36) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XIII, point 1, third indent)

    Commission Directive of 19.7.91 modifying the Appendix to Council Directive 75/318/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter XIII, point 2) on the approximation of the laws of Member States relating to analytical, pharmacotoxicological and clinical standards and protocols in respect of the testing of medicinal products (91/507/EEC) (OJ L 270 of 26/9/1991, p. 32) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XIII, point 2, fourth indent as added by Decision No 7/94)

     Veterinary Drugs:
    Council Directive of 22.12.86 amending Directive 81/852/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter XIII, point 6) on the approximation of the laws of the Member States relating to analytical, pharmaco-toxicological and clinical standards and protocols in respect of the testing of veterinary medicinal products (87/20/EEC) (OJ L 15 of 17/1/1987, p. 34) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XIII, point 6, first indent)

    Commission Directive of 20 March 1992 modifying the Annex to Council Directive 81/852/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter XIII, point 6) on the approximation of the laws of the Member States relating to analytical, pharmacotoxicological and clinical standards and protocols in respect of the testing of veterinary medicinal products (92/18/EEC) (OJ L 97 of 10/04/92, p.1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XIII, point 6, second indent as added by Decision No 7/94)

     Plant Protection Products:
    Council Directive of 15.7.91 concerning the placing of plant protection products on the market (91/414/EEC) (OJ L 230 of 19/8/1991, p. 1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter II, point 1)

    Commission Directive of 27.7.93 amending Council Directive 91/414 concerning the placing of plant protection products on the market (93/71/EEC) (OJ L 221 of 31/8/1993, p. 27) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XV, point 12a as inserted by Decision No 7/94)


    Commission Directive of 14.7.95 amending Council Directive 91/414/EEC concerning the placing on the market of plant protection products (95/35/EC) (OJ L 172 of 22/7/1995, p. 6) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XV, point 12a, fifth indent as added by Decision No 15/96)


Switzerland
    Federal law of 7 October 1983 on the protection of the environment (RO 1984 1122) as last amended on 21 December 1995 (RO 1997 1155)


    Ordinance of 9 June 1986 relating to dangerous substances for the environment (RO 1986 1254) as last amended on 4 November 1998 (RO 1999 39)

    Federal law of 21 March 1969 on trade in toxic substances (RO 1972 430) as last amended on 21 December 1995 (RO 1997 1155)


    Ordinance of 19 September 1983 relating to toxic substances (RO 1983 1387) as last amended on 4 November 1998 (RO 1999 56)

    Regulations of 25 May 1972 for the implementation of the intercantonal convention on the control of medicines, as last amended on 23 November 1995

SECTION II
CONFORMITY ASSESSMENT BODIES


    For the purpose of this Sectoral Chapter, “Conformity Assessment Bodies” means the test facilities recognised under each Member State's GLP monitoring programme.

    On the basis of information provided by the Member States according to Section V of this Chapter, the Committee shall establish and keep up to date, according to the procedure described in Article 11 of the Annex, a list of the test facilities that have been found to be in conformity with the GLP principles.

SECTION III
DESIGNATING AUTHORITIES


    For the purpose of this Sectoral Chapter, “Designating Authorities” means the official GLP Monitoring Authorities of the Member States.


EEA EFTA States:
*      Iceland:
    Ministry of Industry and Commerce
*      Liechtenstein:
    The Government of Liechtenstein28
*      Norway:
    The Norwegian Metrology Accreditiation Service

Switzerland:
Federal Office of Environment,    Environmental
Forests and Landscape        studies on all
CH-3003 Berne             products


Intercantonal Office for the
Control of Medicines        
Erlachstrasse 8            Health studies on
P.O. Box                          pharmaceutical
CH-3000 Berne 9               products

Federal Office of Public Health    Health studies on
Chemicals division          all products except
CH-3003 Berne               pharmaceuticals


SECTION IV
SPECIAL PRINCIPLES FOR DESIGNATING CONFORMITY ASSESSMENT BODIES



    For the purpose of this Sectoral Chapter, “designation of conformity assessment bodies” means the procedure by which the GLP Monitoring Authorities



28 The Government of Liechtenstein is entitled to appoint appropriate specific national administration bodies as designators of conformity assessment bodies at a future date.

recognise that test facilities comply with the GLP principles. To this end they shall apply the principles and procedures of their provisions listed below, that are recognised to be equivalent and in conformity with the aforementioned OECD Council Acts C(81)30 Final and C(89)87 (Final):



EEA EFTA States
    Council Directive of 18.12.86 on the harmonisation of laws, regulations and administrative provisions relating to the application of the principles of good laboratory practice and the verification of their applications for tests on chemical substances (87/18/EEC) (OJ L 15, 17/1/1987, p. 29) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XV, point 8)

    Council Directive of 9.6.88 on the inspection and verification of Good Laboratory Practice (GLP) (88/320/EEC) (OJ L 145, 11/6/1988, p. 35) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XV, point 9)


    Commission Directive of 18.12.89 adapting to technical progress the Appendix of Council Directive 88/320/EEC on the inspection and verification of good laboratory practice (GLP) (90/18/EEC) (OJ L 11, 13/1/1990, p. 37) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XV, point 9, first indent)

Switzerland
    Federal law of 7 October 1983 on the protection of the environment (RO 1984 1122) as last amended on 21 December 1995 (RO 1197 1155)


    Ordinance of 9 June 1986 relating to dangerous substances for the environment (RO 1986 1254) as last amended on 4 November 1998 (RO 1999 39)

    Federal law of 21 March 1969 on trade in toxic substances (1972 435) as last amended on 21 December 1995 (RO 1197 1155)

    Ordinance of 19 September 1983 relating to toxic substances (RO 1983 1387) as last amended on 4 November 1998 (RO 1999 56)

    Regulations of 25 May 1972 for the implementation of the intercantonal convention on the control of medicines, as last amended on 23 November 1995

    Good Laboratory Practice (GLP) in Switzerland, Procedures and Principles, DFI/IKS, March 1986

SECTION V
ADDITIONAL PROVISIONS


1.     Information exchange
    In accordance with Article 12 of the Annex, the Member States in particular provide each other at least annually with a list of the test facilities which, in the light of the results of the inspections and study audits, conform to Good Laboratory Practice, as well as of the dates of inspection or audit and their compliance status.
    In accordance with Article 6 of the Annex, the Member States shall inform each other in a timely manner when a test facility coming under the terms of Section II of this sectoral Chapter which states that it applies Good Laboratory Practice fails to conform to such practice to an extent which may jeopardise the integrity or authenticity of any such studies it conducts.
    The Member States shall supply each other with any additional information on a test facility inspection or study audit in response to a reasonable request from another Member State.

2.     Test Facility Inspections
    Each Member State may request further test facility inspection or study audits if there is a documented doubt as to whether a test was conducted in accordance with Good Laboratory Practice.

    If, in exceptional cases, doubts persist and the requesting Member State can justify special concern, it may, in accordance with Article 8 of the Annex, designate one or more experts of its authorities listed in Section III to participate in a laboratory inspection or the audit of a study conducted by the authorities of the other Member State.


3.     Confidentiality
    In conformity with Article 52 of the Convention, the Member States shall keep confidential any information brought to their knowledge pursuant to this Sectoral Chapter or that came to their knowledge in the framework of participation in an inspection or study audit and which falls within the definition of a trade secret or confidential commercial or financial information. They shall treat such information with at least the same confidentiality as that accorded to it by the providing Member State and ensure that any authority to whom the information is transmitted treats it in the same way.

4.     Co-operation
    Based on Article 9 of the Annex, each Member State may, on request, participate as an observer in an inspection of a test facility conducted by the authorities of another Member State with the consent of the test facility concerned in order to maintain a continuing understanding of the other Member State's inspection procedures.

CHAPTER 15
MEDICINAL PRODUCTS GMP INSPECTION AND BATCH CERTIFICATION


SCOPE AND COVERAGE


    The provisions of this Sectoral Chapter cover all medicinal products which are industrially manufactured in Switzerland or the EEA EFTA States, and to which Good Manufacturing Practice (GMP) requirements apply.
    For medicinal products covered by this Chapter, each Member State shall recognise the conclusions of inspections of manufacturers carried out by the relevant inspection services of the other Member States and the relevant manufacturing authorisations granted by the competent authorities of the other Member States.
    The manufacturer's certification of the conformity of each batch to its specifications shall be recognised by the other Member States without recontrol at import.
    In addition, official batch releases carried out by an authority of the exporting Member State will be recognised by the other Member States.
    “Medicinal products” means all products regulated by pharmaceutical legislation in the EEA EFTA States and Switzerland as listed in Section I of this Chapter. The definition of medicinal products includes all human and veterinary products, such as chemical and biological pharmaceuticals, immunologicals, radio-pharmaceuticals, stable medicinal products derived from human blood or human plasma, pre-mixes for the preparation of veterinary medicated feedingstuffs and, where appropriate, vitamins, minerals, herbal remedies and homeopathic medicinal products.
    “GMP” is that part of quality assurance which ensures that products are consistently produced and controlled to the quality standards appropriate to their intended use and as required by the marketing authorisation and products specifications. For the purpose of this Chapter it includes the system whereby the manufacturer receives the specification of the product and the process from the marketing authorisation holder or applicant and ensures that the medicinal product is made in compliance with this specification (Equivalent to “Qualified Person” for certification in the EEA EFTA States).
    With respect to medicinal products covered by the legislation of either Switzerland or the EEA EFTA States, the manufacturing company can request, for the purpose of the Annex, an inspection be made by the locally competent inspection service. This provision shall apply i.a. to the manufacture of active pharmaceutical ingredients, intermediate products and investigational medicinal products, as well as to pre-marketing inspections. Operational arrangements are detailed under Section III, paragraph 3.

Certification of manufacturers
    At the request of an exporter, importer or the competent authority of another Member State, the authorities responsible for granting manufacturing authorisations and for supervision of the manufacture of medicinal products shall certify that the manufacturer:
–    is appropriately authorised to manufacture the relevant medicinal product, or to carry out the relevant specified manufacturing operation;
–    is regularly inspected by the authorities;
–    complies with the national GMP requirements recognised as equivalent by the Member States, and which are listed in Section I of this Chapter. Should different GMP requirements be used as reference, this is to be mentioned in the certificate.
    The certificates shall also identify the site(s) of manufacture (and contract quality control laboratories, if any).
    Certificates shall be issued expeditiously, and the time taken should not exceed thirty calendar days. In exceptional cases, i.a. when a new inspection has to be carried out, this period may be extended to sixty days.

Batch certification
    Each batch exported shall be accompanied by a batch certificate established by the manufacturer (self-certification) after a full qualitative analysis, a quantitative analysis of all the active ingredients and all the other tests or checks necessary to ensure the quality of the product in accordance with the requirements of the marketing authorisation. This certificate shall attest that the batch meets its specifications and shall be kept by the importer of the batch. It will be made available upon request of the competent authority.
    When issuing a certificate, the manufacturer shall take account of the provisions of the current WHO certification scheme on the quality of pharmaceutical products moving in international commerce. The certificate shall detail the agreed specifications of the product, the reference of the analytical methods and the analytical results. It shall contain a statement that the batch processing and packaging records were reviewed and found in conformity with GMP. The batch certificate shall be signed by the person responsible for releasing the batch for sale or supply, i.e. in the EEA EFTA States the “qualified person” referred to in Article 21 of Directive 75/319/EEC (EEA Agreement, Annex II, Chapter XIII, point 1, first indent), and in Switzerland the responsible person referred to in Articles 4 and 5 of the Ordinance on immunobiological products, Articles 4 and 5 of the Ordinance on immunobiological products for veterinary use and Article 10 of the Directives of the IOCM on the manufacture of medicinal products.

Official Batch Release
    When an official batch release procedure applies, official batch releases carried out by an authority of the exporting Member State (listed in Section II) will be recognised by the other Member States. The manufacturer shall provide the certificate of the official batch release.
    For the EEA EFTA States, the official batch release procedure is specified in document “Control/Authority Batch Release of Vaccination and Blood Products of 24 September 1998” and different specific batch release procedures. For Switzerland, the official batch release procedure is specified in Articles 22–27 of the Ordinance on immunobiological products, Articles 20–25 of the Ordinance on immunobiological products for veterinary use and Articles 4–6 of the Directives of the IOCM on the Authority Batch Release.



SECTION I


    With regard to GMP, the relevant parts of the legislative, regulatory and administrative provisions listed below apply. However, the reference quality requirements of products to be exported, including their manufacturing method and product specifications, shall be those of the relevant marketing authorisation granted by the competent authority of the importing Member State.

Provisions covered by Article 1 paragraph 2

EEA EFTA States
    Council Directive of 26 January 1965 on the approximation of provisions laid down by law, regulation or administrative action relating to medicinal products (65/65/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XIII, point 1), as last amended by Council Directive 93/39/EEC of June 14, 1993 (OJ L 214, 24.8.1993, p.22) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XIII, point 1, sixth indent as added by Decision No 74/99)

    Council Directive of 20 May 1975 on the approximation of provisions laid down by law, regulation or administrative action relating to medicinal products (75/319/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XIII, point 1, first indent) as last amended by Council Directive 93/93/EEC of June 3, 1993 (OJ L 214, 24.8.1993, p.22) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XIII, point 1, sixth indent, as added by Decision No 74/99) 29

    Council Directive of 28 September 1981 on the approximation of the laws of the Member States relating to veterinary medicinal products (81/851/EEC) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XIII, point 5) as last amended by Council Directive 90/676/EEC of December 13, 1990 (OJ L 373, 31.12.1990, p.15) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XIII, point 5, first indent)

    Commission Directive of 13 June 1991 laying down the principles and guidelines of good manufacturing practice for medicinal products for human use (91/356/EEC) (OJ L 193, 17.7.1991, p.30) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XIII, point 15)

    Commission Directive of July 23, 1991 laying down the principles and guidelines of good manufacturing practice for veterinary medicinal products (91/412/EEC) (OJ L 228, 17.8.1991, p.70) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XIII, point 15a as inserted by Decision No 7/94)






29 The reference to this provision in the parallel Switzerland – EC Mutual Recognition Agreement is incorrect. The Parties to the aforementioned Agreement have agreed to correct this mistake at the time of the first update of the Annexes after the entry into force of their Agreement.

    Council Regulation (EEC) No 2309/93 of 22 July 1993 laying down Community procedures for the authorisation and supervision of medicinal products for human and veterinary use and establishing a European Agency for the Evaluation of Medicinal Products (EEA Agreement, Annex II, Chapter XIII, point 15g as inserted by Decision No 74/99), as last amended by Commission Regulation (EC) No 649/98 of 23 March 1998 (OJ L 88, 24.3.1998, p.7) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XIII, point 15g, first indent as added by Decision No 75/99)

    Council Directive of March 31, 1992 on the wholesale distribution of medicinal products for human use (92/25/EEC) (OJ L 113, 30.4.1992. p.1) (EEA Agreement, Annex II, Chapter XIII, point 15b as inserted by Decision No 7/94) and Guide to Good Distribution Practice


    Guide to Good Manufacturing Practice Volume IV of Rules Governing Medicinal Products in the European Community

Switzerland
    Federal law of October 6, 1989 on the pharmacopoeia (RO 1990 570)

    Ordinance of August 23, 1989 on immunobiological products (RO 1989 1797), as last amended on 24 February 1993 (RO 1993 963)

    Ordinance of June 22, 1994 on radioprotection (RO 1994 1947)

    Federal Decree of 22 March 1996 on the control of blood, blood products and transplants (RO 1996 2296)

    Ordinance of 26 June 1996 on the control of blood, blood products and transplants (RO 1996 2309)

    Federal Law of 1 July 1966 on epizootics (RO 1966 1621)

    Ordinance of June 27, 1995 on immunobiological products for veterinary use (RO 1995 3805)


    Intercantonal Convention of June 3, 1971 on the control of medicines (RO 1972 1026), as last amended on 1 January 1979 (RO 1979 252)


    Regulations of 25 May 1972 for the implementation of the intercantonal convention on the control of medicines, as last amended on on May 14, 1998

    Directives of May 18, 1995 of the Intercantonal Office for the Control of Medicines (IOCM) on the manufacture of medicinal products

    IOCM Directives of May 23, 1985 on the manufacture of active pharmaceutical ingredients


    IOCM Directives of May 20, 1976 for the wholesale of medicines

    IOCM Directives of November 24, 1994 on the Authority Batch Release


    IOCM Directives of May 19, 1988 on the manufacture and distribution of medicated feeding stuff

    IOCM Directives of November 19, 1998 for the Inspection of Manufacturers of Medicinal Products (Inspection Directives)

SECTION II
CONFORMITY ASSESSMENT BODIES


    For the purpose of this Chapter “Conformity Assessment Bodies” means the official GMP inspection services of each Member State.


EEA EFTA States:
*      Iceland:
    State Drug Inspectorate
    Lyfjaeftirlit ríkisins
    Eidistorg 15
    170 Seltjarnarnes
    Iceland
*      Liechtenstein:
    Amt für Lebensmittelkontrolle und Veterinärwesen
    (Office of foodstuff control and veterinary affairs)
    Kontrollstelle für Arzneimittel
    Postplatz 2
    Postfach 37
    FL – 9494 Schaan
*      Norway:
    Norwegian Medicines Agency
    Pharmaceutical Inspectorate
    Sven Oftedals vei 6
    N-0950 Oslo

Switzerland:
    Swiss Federal Office of Public Health, Division of Biologicals, Berne (for immunobiological products for human use)

    Institute for Virology and Immunoprophylaxis, Research Station of the Swiss Federal Veterinary Office, 3147 Mittelhäusern (for immunobiological products for veterinary use)

    Intercantonal Office for the Control of Medicines, 3000 Berne 9 (for all other medicinal products for human and veterinary use)

SECTION III
ADDITIONAL PROVISIONS


1.     Transmission of inspection reports
    Upon reasoned request, the relevant inspection services shall forward a copy of the last inspection report of the manufacturing site or, in case analytical operations are contracted out, of the control site. The request may concern a “full inspection report” or a “detailed report” (see item 2 below). Each Member State shall deal with these inspection reports with the degree of confidentiality requested by the providing Member State.
    Member States will ensure that inspection reports are forwarded in no more than thirty calendar days, this period being extended to sixty days should a new inspection be carried out.

2.     Inspection reports
    A “full inspection report” comprises a Site Master File (compiled by the manufacturer or by the inspectorate) and a narrative report by the inspectorate. A “detailed report” responds to specific queries about a firm by another Member State.

3.     GMP Reference
(a)    Manufacturers shall be inspected against the applicable GMP of the exporting Member State (see Section I).
(b)    With respect to medicinal products covered by the pharmaceutical legislation of the importing Member State but not the exporting one, the locally competent inspection service willing to carry out an inspection of the relevant manufacturing operations shall inspect against its own GMP or, in the absence of specific GMP requirements, against the applicable GMP of the importing Member State.

         For specific products or classes of products (e.g. investigational medicinal products, starting materials not limited to active pharmaceutical ingredients), equivalence of GMP requirements shall be determined according to a procedure established by the Committee.

4.     Nature of inspections
(a)    Inspections shall routinely assess the compliance of the manufacturer with GMP. These are called general GMP inspections (also regular, periodic, or routine inspections).

(b)    “Product- or process-oriented” inspections (which may be “pre-marketing” inspections as relevant) focus on the manufacture of one or a series of product(s) or process(es) and include an assessment of the validation of and compliance with specific process or control aspects as described in the marketing authorisation. Where necessary, relevant product information (the quality dossier of an application/authorisation dossier) shall be provided in confidence to the inspectorate.

5.     Fees
    The regime of inspection/establishment fees is determined by the manufacturer's location. Inspection/establishment fees shall not be charged to manufacturers located on the territory of another Member State.

6.     Safeguard clause for inspections
    Each Member State reserves the right to have its own inspection conducted for reasons identified to another Member State. Such inspections are to be notified in advance to that other Member State and shall, in accordance with Article 8 of the Annex, be carried out jointly by the competent authorities of the two Member States. Recourse to this safeguard clause should be an exception.

7.     Exchange of information between authorities and approximation of quality requirements
    In accordance with the general provisions of the Annex, the Member States shall exchange any information necessary for the mutual recognition of inspections.
    The relevant authorities in Switzerland and in the EEA EFTA States shall also keep each other informed of any new technical guidance or inspection procedure. The Member States shall consult each other before their adoption and shall endeavour to proceed towards their approximation.

8.     Inspectors training
    In accordance with Article 9 of the Annex, training sessions for inspectors, organised by the authorities, shall be accessible to inspectors of the other Member States. The Member States shall keep each other informed on these sessions.

9.     Joint inspections
    In accordance with Article 12 of the Annex, and by mutual agreement between the Member States, joint inspections may be organised. These inspections are intended to develop common understanding and interpretation of practice and requirements. The setting up of these inspections and their form shall be agreed through procedures approved by the Committee.

10.     Alert system
    Contact points shall be agreed between the Member States to permit authorities and manufacturers to inform the authorities of the other Member States with the appropriate speed in case of quality defect, batch recalls, counterfeiting and other problems concerning quality, which could necessitate additional controls or suspension of the distribution of the batch. A detailed alert procedure shall be agreed.
    The Member States shall ensure that any suspension or withdrawal (total or partial) of a manufacturing authorisation, based on non-compliance with GMP and which could have public health implications, are communicated to each other with the appropriate degree of urgency.

11.     Contact points
    For the purpose of the Annex, the contact points for any technical question, such as exchanges of inspection reports, inspectors training sessions, technical requirements, are:

for the EEA EFTA States:
*      Iceland:
    State Drug Inspectorate
    Lyfjaeftirlit ríkisins
    Eidistorg 15
    170 Seltjarnarnes
    Iceland
*      Liechtenstein:
    Amt für Lebensmittelkontrolle und Veterinärwesen
    (Office of foodstuff control and veterinary affairs)
    Kontrollstelle für Arzneimittel
    Postplatz 2
    Postfach 37
    FL – 9494 Schaan
*      Norway:
    Norwegian Medicines Agency
    Pharmaceutical Inspectorate
    Sven Oftedals vei 6
    N-0950 Oslo

for Switzerland:
    the official GMP inspection services listed in Section II above.


12.     Divergence of views
    The Member States shall use their best endeavours to resolve any divergence of views concerning inter alia compliance of manufacturers and conclusions of inspection reports. Unresolved divergences of view will be referred to the Committee referred to in Article 10 of the Annex.


APPENDIX 2

General rules regarding the designation of Conformity assessment bodies


A.     General terms and conditions
1.    Under the Annex, the Designating authorities shall remain solely responsible for the competence and the capacity of the bodies they have designated and shall designate only legally identifiable bodies under their jurisdiction.
2.    Designating authorities shall designate Conformity assessment bodies able to demonstrate by objective means that they understand and have the requisite experience and competence to apply the requirements and certification procedures laid down in the legislative, regulatory and administrative provisions referred to in Appendix 1, that are applicable to the specific product, product category or sector for which they are designated.
3.    Demonstration of technical competence shall cover:
    –    the conformity assessment body's technical knowledge of the relevant products, processes or services which it is willing to treat;
    –    the understanding of the technical standards and/or legislative, regulatory and administrative provisions for which designation is sought;
    –    the physical capability to perform a given conformity assessment activity;
    –    the adequate management of the activity concerned; and
    –    any other circumstance necessary to give assurance that the conformity assessment activity will be adequately performed at all times.
4.    The technical competence criteria shall be based as far as possible on internationally accepted documents, such as the EN 45000 series of standards or equivalents as well as on supplemented interpretative documents as appropriate. However these documents clearly need to be interpreted in such a way as to take account of the different types of requirements laid down in the applicable legislative, regulatory and administrative provisions.
5.    The Member States shall encourage harmonisation of designation procedures and co-ordination of conformity assessment procedures through co-operation between Designating authorities and Conformity assessment bodies based on co-ordination meetings, participation in mutual recognition arrangements, and ad hoc working party meetings. The Member States shall also encourage accreditation bodies to participate in mutual recognition arrangements.

B.     System for verification of Conformity assessment bodies' competence
6.    In order to verify the technical competence of Conformity assessment bodies, the authorities concerned may use various procedures ensuring an appropriate level of trust between the Member States. If necessary, a Member State shall indicate to the Designating authority possible ways of demonstrating competence.
    (a)    Accreditation
         Accreditation shall constitute a presumption of the technical competence of Conformity assessment bodies in relation to the application of the requirements of the other Member States provided that the competent accreditation body:
    –    complies with the relevant international provisions in force (EN 45000 standards or ISO/IEC guides); and
    –    is signatory to multilateral arrangements under which it is subject to peer evaluation, or
    –    takes part, under the authority of a Designating authority, and in accordance with whatever conditions are decided on, in programmes to conduct comparisons and exchange technical experience, in the interests of ensuring continued trust in the technical competence of the accreditation and conformity-assessment bodies. Such programmes could include joint evaluations, special co-operation exercises or conformity assessment.
         Where the criteria applicable to Conformity assessment bodies require the latter to assess the conformity of products, processes or services directly to standards or technical specifications, the Designating authorities may use accreditation as a presumption of the conformity assessment body's technical competence provided that it enables assessment of those bodies' ability to apply such standards or technical specifications. Designation shall be limited to those activities of the conformity assessment body.

         Where the criteria applicable to Conformity assessment bodies require the latter to assess the conformity of products, processes or services not directly to standards or technical specifications, but to general (essential) requirements, the Designating authorities may use accreditation as a presumption of the conformity assessment body's technical competence provided that it incorporates elements which will enable assessment of the capacity of the Conformity assessment body (technical knowledge of the product, of its use, etc.) to assess the conformity of the product to those essential requirements. Designation shall be limited to those activities of the Conformity assessment body.
    (b)    Other means
         If there is no accreditation scheme, or on other grounds, the authorities concerned shall require the Conformity assessment bodies to demonstrate their competence by other means, e.g.:
    –    participation in regional or international mutual recognition arrangements or certification systems;
    –    regular peer evaluation, based on clear criteria and conducted with the appropriate expertise;

    –    aptitude tests; or
    –    comparison of Conformity assessment bodies.

C.     Evaluation of the verification system
7.    Once a verification system to evaluate the competence of Conformity assessment bodies has been defined, the other Member States will be invited to check that the system guarantees the conformity of the designation process to its own legal requirements. Such checks shall focus on the appropriateness and effectiveness of the verification system rather than on the Conformity assessment bodies themselves.

D.     Formal designation
8.    When the Member States submit their proposals to the Committee on the inclusion of Conformity assessment bodies in the Appendices, they shall provide the following details in respect of each body:
    (a)    its name;
    (b)    its postal address;
    (c)    its fax number;
    (d)    the Sectoral Chapter, product categories or products, processes and services covered by the designation;
    (e)    the conformity assessment procedures covered by the designation;
    (f)    the methods used to establish the body's competence.


Viðauki J við samninginn – Hugverkaréttindi (19. gr.)


1. gr.
Hugverk

    Til hugverka teljast einkum höfundarréttur og skyld réttindi, þ.m.t. tölvuforrit og gagnagrunnar, skyld réttindi, vörumerki sem auðkenna vöru og þjónustu, landfræðilegar merkingar, þar með talið upprunaheiti fyrir vörur og þjónustu, iðnhönnun, einkaleyfi, plöntuafbrigði, svæðislýsingar smárása og trúnaðarupplýsingar.


2. gr.
Alþjóðasamningar

1.     Aðildarríkin staðfesta skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðasamningum sem þeir eru aðilar að, einkum eftirtöldum marghliða samningum:

–    Samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) frá 15. apríl 1994 um hugverkarétt í viðskiptum (TRIPS-samningurinn);
–    Parísarsamþykkt frá 20. mars 1883 um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar (Stokkhólmsgerð, 1967);
–    Bernarsáttmálanum frá 9. september 1886 til verndar bókmenntum og listaverkum (Parísargerð, 1971); og
–    Alþjóðasamningi frá 26. október 1961 um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana (Rómarsamningurinn).

2.     Aðildarríkin, sem eru ekki aðilar að einum eða fleiri af þeim samningum sem eru taldir upp hér á eftir, skulu öðlast aðild að eftirtöldum marghliða samningum fyrir 1. janúar 2005:
–    Genfargerðinni (1999) um Haagsamninginn um alþjóðlega skráningu iðnhönnunar;

–    samningi Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) um höfundarétt (Genf 1996); og
–    samningi Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) um flutning og hljóðritanir (Genf 1996).
3.     Aðildarríkin samþykkja að efna án tafar til samráðs með sérfræðingum, fari eitthvert aðildarríkjanna þess á leit, um starfsemi sem tengist áðurnefndum eða fyrirhuguðum alþjóðasamningum um samhæfingu, stjórnun og framkvæmd hugverkaréttinda og um starfsemi innan alþjóðastofnana, t.d. Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) og um samskipti aðildarríkjanna við þriðju lönd í málum sem varða hugverk.

3. gr.
Einkaleyfi

    Aðildarríkjunum ber að sjá til þess að landslög þeirra kveði að minnsta kosti á um:
a)    fullnægjandi og árangursríka vernd fyrir uppfinningar á öllum tæknisviðum. Í Liechtenstein og Sviss er átt við vernd sambærilega þeirri sem um getur í Evrópusamningi um einkaleyfi frá 5. október 1973, eins hann kemur til framkvæmda í landslögum. Á Íslandi og í Noregi er átt við vernd sambærilega þeirri sem um getur í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið frá 2. maí 1992, eins og hann kemur til framkvæmda í landslögum;
b)    viðbótarverndartímabil fyrir lyf og plöntuvarnarefni sem skal reiknað frá lokum 20 ára hámarkstímabils fyrir einkaleyfi og stendur yfir á tímabili sem er jafnlangt þeim tíma sem líður frá umsóknardegi fyrir einkaleyfið til þess dags þegar fyrsta markaðsleyfi fyrir framleiðsluvöruna er veitt, að frádregnum fimm árum. Slík viðbótarvernd skal vara lengst í fimm ár og veitt með eftirfarandi skilyrðum:

    –    framleiðsluvaran njóti verndar gildandi einkaleyfis;
    –    fylgt hafi verið málsmeðferð við veitingu opinbers markaðsleyfis vegna lyfsins eða plöntuvarnarefnisins;
    –    markaðsetningu einkaleyfisvörunnar hafi verið frestað á grundvelli stjórnsýslumeðferðar varðandi leyfi fyrir markaðsaðgangi þannig að virk notkun einkaleyfisins vari skemur en í 15 ár;

    –    samanlagt tímabil árangursríkar verndar sem í einkaleyfinu felst og viðbótarverndar sé ekki lengra en 15 ár.

4. gr.
Hönnun

    Aðildarríkjunum ber að sjá til þess að landslög þeirra kveði á um fullnægjandi og árangursríka vernd fyrir iðnhönnun, einkum með því að kveða á um fimm ára verndartímabil frá umsóknardegi með möguleika á endurnýjun til að minnsta kosti fjögurra samfelldra fimm ára tímabila. Aðildarríkjunum er heimilt að kveða á um styttri verndartímabil vegna hönnunar íhluta sem nota á til viðgerða á framleiðsluvörunni.

5. gr.
Landfræðilegar merkingar

    Aðildarríkjunum ber að sjá til þess að landslög þeirra kveði á um fullnægjandi og árangursríkar leiðir til að vernda landfræðilegar merkingar með tilliti til allra framleiðsluvara og allrar þjónustu, þar með talin upprunaheiti.

6. gr.
Um veitingu og viðhald hugverkaréttar


    Þegar réttindi til hugverka eru háð veitingu eða skráningu réttindanna ber aðildarríkjunum að sjá til þess að reglur um veitingu eða skráningu séu sambærilegar þeim reglum sem kveðið er á um í TRIPS-samningnum, einkum 62. gr.


7. gr.
Fullnusta hugverkaréttinda

    Aðildarríkin skulu samþykkja ákvæði um fullnustu hugverkaréttinda í landslögum sínum, sem eru sambærileg þeim ákvæðum sem kveðið er á um í TRIPS-samningnum, einkum í 41. til 61. gr.

Annex J to the Convention – Intellectual property rights (Art. 19)


ARTICLE 1
Intellectual property

    “Intellectual property” comprises in particular copyright, including computer programmes and databases, as well as neighbouring rights, trademarks for goods and services, geographical indications, including appellations of origin, for goods and services, industrial designs, patents, plant varieties, topographies of integrated circuits, as well as undisclosed information.

ARTICLE 2
International conventions

1.     The Member States reaffirm their obligations set out in the international agreements to which they are parties, in particular the following multilateral agreements:
–    WTO Agreement of 15 April 1994 on Trade-Related Aspects of Intellectual Property Rights (TRIPS Agreement);
–    Paris Convention of 20 March 1883 for the Protection of Industrial Property (Stockholm Act, 1967);
–    Berne Convention of 9 September 1886 for the Protection of Literary and Artistic Works (Paris Act, 1971); and
–    International Convention of 26 October 1961 for the Protection of Performers, Producers of Phonograms and Broadcasting Organisations (Rome Convention).
2.     The Member States which are not parties to one or more of the agreements listed below shall undertake to obtain their adherence to the following multilateral agreements before 1 January 2005:
–    the Geneva Act (1999) of the Hague Agreement Concerning the International Registration of Industrial Designs;
–    the WIPO Copyright Treaty (Geneva 1996); and

–    the WIPO Performances and Phonogram Treaty (Geneva 1996).
3.     The Member States agree to promptly hold expert consultations, upon request of any Member State, on activities relating to the identified or to future international conventions on harmonization, administration and enforcement of intellectual property rights and on activities in international organizations, such as the WTO and the World Intellectual Property Organization (WIPO), as well as relations of the Member States with third States on matters concerning intellectual property.

ARTICLE 3
Patents

    The Member States shall ensure in their national laws at least the following:
(a)    adequate and effective patent protection for inventions in all fields of technology. For Liechtenstein and Switzerland this means protection on a level corresponding to the one in the European Patent Convention of 5 October 1973, as implemented in national law. For Iceland and Norway this means protection on a level corresponding to the one in the Agreement on the European Economic Area of 2 May 1992, as implemented in national law;
(b)    an additional term of protection for pharmaceuticals and plant protection products which shall be calculated from the expiry of the maximum term of patent of 20 years for a period equal to the period which elapsed between the filing date of the patent application and the date of the first market authorization of the product, reduced by a period of five years. Such additional protection shall cover a period of five years at the most and shall be granted under the following conditions:
    –    the product is protected by a patent in force;

    –    there has been an official marketing authorization procedure for the medicinal or plant protection product;
    –    the marketing of the patented product has been postponed by administrative procedures regarding authorization of market access, so that the effective use of the patent amounts to less than 15 years;
    –    the effective protection conferred by the patent and the additional protection shall together not exceed 15 years.

ARTICLE 4
Designs

    The Member States shall ensure in their national laws adequate and effective protection of industrial designs by providing in particular a period of protection of five years from the date of application with a possibility of renewal for at least four consecutive periods of five years each. The Member States may provide for a shorter period of protection for designs of component parts used for the purpose of the repair of a product.

ARTICLE 5
Geographical indications

    The Member States shall ensure in their national laws adequate and effective means to protect geographical indications, including appellations of origin, with regard to all products and services.


ARTICLE 6
Acquisition and maintenance of intellectual property rights

    Where the acquisition of an intellectual property right is subject to the right being granted or registered, the Member States shall ensure that the procedures for grant or registration are of the same level as that provided in the TRIPS Agreement, in particular Article 62.

ARTICLE 7
Enforcement of intellectual property rights

    The Member States shall provide for enforcement provisions under their national laws of the same level as that provided in the TRIPS Agreement, in particular Articles 41 to 61.

VIÐAUKI K

Frelsi fólks til flutninga (VIII. kafli)


I.     GRUNNÁKVÆÐI

1. gr.
Markmið

    Markmið þessa viðauka skulu vera þessi, til hagsbóta fyrir ríkisborgara aðildarríkjanna:
a)    að veita þeim rétt til að koma til, hefja búsetu, taka upp atvinnu sem launþegar eða sjálfstætt starfandi einstaklingar og rétt til dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna;
b)    að auðvelda þjónustustarfsemi á yfirráðasvæði aðildarríkjanna og einkum að auka frelsi til að veita þjónustu til skamms tíma;

c)    að veita þeim sem starfa ekki í gistiríkinu rétt til að koma til og hefja búsetu á yfirráðasvæði aðildarríkjanna;
d)    að veita þeim sömu lífs-, starfs- og atvinnuskilyrði og ríkisborgarar gistiríkisins njóta.


2. gr.
Bann við mismunun

    Samkvæmt beitingu og í samræmi við ákvæði 1., 2. og 3. viðbætis við þennan viðauka er bannað að mismuna ríkisborgurum aðildarríkis á grundvelli þjóðernis séu þeir búsettir með löglegum hætti á yfirráðasvæði annars aðildarríkis.


3. gr.
Réttur til komu

    Tryggja skal rétt ríkisborgara aðildarríkis til komu á yfirráðasvæði annars aðildarríkis í samræmi við ákvæðin sem mælt er fyrir um í 1. viðbæti.


4. gr.
Réttur til búsetu og aðgangs að atvinnu


    Tryggja réttinn til búsetu og aðgangs að atvinnu nema kveðið sé á um annað í 10. gr. og í samræmi við ákvæði 1. viðbætis.


5. gr.
Einstaklingar sem veita þjónustu

1.     Einstaklingar sem veita þjónustu, þar með talin félög í samræmi við ákvæði 1. viðbætis, skulu hafa rétt til að veita þjónustu á yfirráðasvæði annars aðildarríkis í allt að 90 raunverulega starfsdaga á almanaksárinu með fyrirvara um aðra sérsamninga milli aðildarríkjanna er varða veitingu þjónustu sérstaklega (þar með talinn samningur hins opinbera um innkaup að því tilskildu að hann taki til veitingar þjónustu).

2.     Þjónustuveitendur skulu hafa rétt til að koma og vera búsettir á yfirráðasvæði hins aðildarríkisins:

a)    ef þeir hafa rétt til að veita þjónustu samkvæmt 1. mgr. eða á grundvelli ákvæða í samningi sem getið er í 1. mgr.; eða
b)    ef þeir hafa leyfi lögbærra yfirvalda í viðkomandi aðildarríki til að veita þjónustu, hafi skilyrðin sem eru tilgreind í a-lið ekki verið uppfyllt.

3.     Ríkisborgarar aðildarríkis sem fara inn á yfirráðasvæði annars aðildarríkis í þeim tilgangi einum að fá þjónustu skulu hafa rétt til komu og búsetu.
4.     Réttindin, sem um getur í þessari grein, eru tryggð í samræmi við ákvæðin sem mælt er fyrir um í 1., 2. og 3. viðbæti. Óheimilt er að vísa til ákvæða í 10. gr. um magntakmarkanir gagnvart einstaklingum sem um getur í þessari grein.

6. gr.
Búseturéttur einstaklinga sem stunda ekki atvinnu


    Réttur einstaklinga, sem stunda ekki atvinnu, til búsetu á yfirráðasvæði aðildarríkis er tryggður í samræmi við ákvæði 1. viðbætis um fólk sem tekur ekki þátt í atvinnulífinu.

7. gr.
Önnur réttindi

    Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir, í samræmi við 1. viðbæti, vegna eftirtalinna réttinda í tengslum við frelsi fólks til flutninga:
a)    rétt til sams konar meðferðar og innlendir ríkisborgarar njóta í tengslum við aðgang að og ástundun atvinnu og lífs-, starfs- og atvinnuskilyrði;
b)    rétt til að færa sig til í starfi og á milli landsvæða sem gerir ríkisborgurum annarra aðildarríkja kleift að ferðast óhindrað innan yfirráðasvæðis gistiríkisins og leita að atvinnu að eigin vali;

c)    rétt til dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkis eftir að þátttöku á vinnumarkaði lýkur;
d)    rétt aðstandenda til búsetu, óháð þjóðerni;

e)    rétt aðstandenda til að stunda atvinnu, óháð þjóðerni;
f)    rétt til að eignast fasteignir að því tilskildu að það tengist þeim réttindum sem þessi viðauki veitir;
g)    rétt, á aðlögunartímabilinu, til að snúa aftur til aðildarríkis, við lok atvinnuþátttöku eða búsetutímabils á yfirráðasvæði þess, í því skyni að stunda þar atvinnu; og rétt til að fá tímabundnu búsetuleyfi breytt í varanlegt búsetuleyfi.


8. gr.
Samræming almannatryggingakerfa

    Aðildarríkin skulu, í samræmi við 2. viðbæti, setja ákvæði um samræmingu almannatryggingakerfa einkum með það að markmiði:
a)    að tryggja jafnræði við málsmeðferð;
b)    að ákvarða hvaða löggjöf skuli gilda;
c)    að leggja saman, með það að markmiði að öðlast og viðhalda rétti til bóta og rétti til útreiknings á bótafjárhæð, öll tímabil sem tillit er tekið til samkvæmt innlendri löggjöf í viðkomandi ríkjum;

d)    að greiða bætur til þeirra sem eru búsettir á yfirráðasvæðum aðildarríkjanna;
e)    að stuðla að gagnkvæmri aðstoð og samvinnu yfirvalda og stofnana í stjórnsýslumálum.

9. gr.
Gagnkvæm viðurkenning á menntun og hæfi (prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi)

    Í því skyni að auðvelda ríkisborgurum aðildarríkjanna að fá aðgang að og stunda atvinnu sem launþegar og sjálfstætt starfandi einstaklingar svo og að veita þjónustu skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir, sem tíundaðar eru í 3. viðbæti, til að viðurkenna með gagnkvæmum hætti prófskírteini, vottorð og annan vitnisburð um formlega menntun og hæfi og samræma lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkjanna um aðgang launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga að vinnumarkaði og rétt þeirra til að hefja og stunda atvinnu og að veita þjónustu.













II.     ALMENN ÁKVÆÐI OG LOKAÁKVÆÐI

10. gr.
Bráðabirgðaákvæði og þróun þessa viðauka


1.     Í 51 ár frá gildistöku samningsins milli Evrópubandalagsins og aðildarríkja þess annars vegar og Svissneska ríkjasambandsins hins vegar um frelsi fólks til flutninga (hér á eftir nefndur „samningur Sviss og Evrópubandalagsins um frelsi fólks til flutninga“) er Sviss heimilt að viðhalda magntakmörkunum með tilliti til aðgangs að atvinnumarkaði að því er varðar eftirtalda tvo búsetuflokka: búsetu er varir lengur en í fjóra mánuði en skemur en í eitt ár og búsetu sem varir í eitt ár eða lengur. Engar takmarkanir skulu vera á búsetu sem varir skemur en í fjóra mánuði.

    Afnema skal allar magntakmarkanir vegna ríkisborgara annarra aðildarríkja frá upphafi sjötta ársins.

2.     Aðildarríkjunum er heimilt, í allt að tvö ár frá gildistöku samnings Sviss og Evrópubandalagsins um frelsi fólks til flutninga, að stýra því áfram hverjir í hópi starfandi manna skuli hafa forgang inn á almennan atvinnumarkað og hvaða launakjör og atvinnuskilyrði ríkisborgarar aðildarríkjanna skulu njóta, þar með taldir þeir einstaklingar sem veita þjónustu sem um getur í 5. gr. Nefndin, sem um getur í 14. gr., (kallast hér á eftir „nefndin“) skal fjalla um það fyrir lok fyrsta ársins hvort nauðsynlegt sé að viðhalda þessum takmörkunum. Ráðinu er heimilt að stytta hámarkstímann. Óheimilt er að beita þeim stjórntækjum, sem eru notuð til að stýra því hverjir í hópi starfandi manna skuli hafa forgang inn á almennan atvinnumarkað, gagnvart þeim sem veita þjónustu sem hefur verið gefin frjáls samkvæmt viðaukum P, Q og R, að svo miklu leyti sem þeir taka til veitingar þjónustu.
3.     Sviss skal, frá gildistöku samnings Sviss og Evrópubandalagsins um frelsi fólks til flutninga og til loka fimmta ársins, veita úr heildarkvóta sínum í það minnsta 300 ný búsetuleyfi er gilda í minnst eitt ár og 200 búsetuleyfi er gilda í minnst fjóra mánuði og mest eitt ár fyrir launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga frá hinum aðildarríkjunum. Ef samþykktur kvóti nægir ekki gerir ráðið ráðstafanir.






1 Bráðabirgðatímabilið rennur út um leið og samsvarandi tímabil í tvíhliða samningi Sviss og Evrópubandalagsins.

4.     Fjöldi nýrra búsetuleyfa sem Sviss gefur út fyrir launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga frá hinum aðildarríkjunum skal ekki vera minni en 300 leyfi á ári er gilda í minnst eitt ár og 200 leyfi á ári er gilda í minnst fjóra mánuði og mest eitt ár.

5.     Bráðabirgðaákvæði í 1. til 4. mgr., og einkum í 2. mgr. um það hverjir í hópi starfandi manna skuli hafa forgang inn á almennan atvinnumarkað og með hvaða hætti stýra megi launakjörum og atvinnuskilyrðum, skulu ekki gilda um launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem hafa heimild til að stunda atvinnu á yfirráðasvæði aðildarríkjanna við gildistöku samnings Sviss og Evrópubandalagsins um frelsi fólks til flutninga. Þessir einstaklingar skulu einkum njóta frelsis til að færa sig til í starfi og á milli landsvæða. Handhafar búsetuleyfa til skemmri tíma en eins árs eiga rétt á að fá leyfi sín endurnýjuð; óheimilt er að beita þeim rökum gegn þeim að magntakmörkunum hafi verið náð. Handhafa búsetuleyfa er gilda í minnst eitt ár öðlast sjálfkrafa rétt til að fá leyfi sín framlengd. Þessir launþegar og sjálfstætt starfandi einstaklingar skulu af þeim sökum njóta, frá gildistöku viðaukans, þeirra réttinda til frjálsra flutninga sem einstaklingar með staðfestu njóta samkvæmt grunnákvæðum hans, einkum 7. gr. hans.

6.     Sviss skal senda ráðinu tafarlaust og með reglubundnum hætti gagnleg tölfræðileg gögn og upplýsingar, þar með talið um ráðstafanir til framkvæmdar 2. mgr. Aðildarríki er heimilt að fara fram á að staðan verði tekin til endurskoðunar.
7.     Óheimilt er að beita magntakmörkunum gagnvart þeim sem sækja vinnu yfir landamæri.
8.     Mælt er fyrir um bráðabirgðaákvæði um almannatryggingar og endurtryggingu á framlögum til atvinnuleysistrygginga í bókun 1, 2 og 3 við 2. viðbæti.

11. gr.
Meðferð kæra

1.     Einstaklingar, sem falla undir þennan viðauka, skulu eiga rétt á að kæra beitingu ákvæða þessa viðauka til lögbærra yfirvalda viðkomandi aðildarríkis.

2.     Taka verður kærurnar til meðferðar innan hæfilegs frests.
3.     Einstaklingar, sem falla undir þennan viðauka, skulu hafa möguleika á að skjóta ákvörðunum um kærur til lögbærra innlendra dómsyfirvalda eða leggja fram kærur hjá þeim ef ákvörðun hefur ekki verið tekin innan hæfilegs frests.

12. gr.
Hagstæðari ákvæði

    Þessi viðauki kemur ekki í veg fyrir að ríkisborgarar aðildarríkjanna og aðstandendur þeirra geti notið hagstæðari innlendra ákvæða.


13. gr.
Kyrrstaða

    Aðildarríkin skuldbinda sig til að samþykkja ekki ráðstafanir til frekari takmörkunar gagnvart ríkisborgunum hvers annars sem falla undir þennan viðauka.

14. gr.
Nefnd um flutninga einstaklinga

1.     Ráðið skal skipa nefnd um flutninga einstaklinga sem skal annast stjórnun og rétta beitingu viðaukans. Það skal gefa út tilmæli í þessu skyni. Því er heimilt að skipa vinnuhópa um samræmingu almannatryggingakerfa og gagnkvæma viðurkenningu á menntun og hæfi.

2.     Til þess að tryggja rétta framkvæmd þessa viðauka skulu aðildarríkin skiptast reglulega á upplýsingum og hafa samráð innan nefndarinnar að beiðni aðildarríkis.
3.     Ráðinu er heimilt að ákveða að gera breytingar á 2. og 3. viðbæti við þennan viðauka.

15. gr.
Öryggisráðstafanir

    Ef upp koma alvarlegir efnahagslegir eða félagslegir erfiðleikar skal kalla nefndina saman, að beiðni aðildarríkis, til að kanna viðeigandi ráðstafanir til að bæta úr ástandinu. Ráðinu er heimilt að ákveða hvaða ráðstafanir skuli gerðar innan 60 daga frá því að beiðnin barst. Ráðinu er heimilt að framlengja þann frest. Gildissvið og tímalengd slíkra ráðstafana skulu ekki vera umfram það sem nauðsynlegt telst til að bæta úr ástandinu. Þær ráðstafanir njóta forgangs sem raska minnst framkvæmd þessa viðauka.


16. gr.
Vísun til laga bandalagsins

1.     Aðildarríkin skulu, í því skyni að ná þeim markmiðum sem stefnt er að með þessum viðauka, gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að í samskiptum þeirra gildi þau réttindi og skyldur sem eru sambærilegar réttindum og skyldum sem er að finna í lagagerðum Evrópubandalagsins og vísað er til, eins og þær eru felldar inn í EES-samninginn og samning Sviss og Evrópubandalagsins um frelsi fólks til flutninga.
2.     Að svo miklu leyti sem beiting þessa viðauka tekur til algengra hugtaka í þeim lagagerningum sem um getur í 1. mgr. skal taka tillit til viðeigandi fordæma sem fram hafa komið fyrir 21. júní 1999. Til að tryggja góða framkvæmd þessa viðauka skal ráðið, að beiðni aðildarríkis, ákveða hvaða áhrif fordæmi eftir 21. júní 1999 skuli hafa.

17. gr.
Þróun laga

1.     Aðildarríki skal veita hinum aðildarríkjunum upplýsingar á vettvangi nefndarinnar um leið hafið er ferli við að samþykkja drög að breytingum á löggjöf þess eða um leið og breyting verður á fordæmum sem yfirvöld styðjast við eða ef ekki eru fyrir hendi lagaúrræði vegna ákvarðana þeirra samkvæmt innlendum lögum á sviði sem fellur undir þennan viðauka.
2.     Nefndin skal efna til skoðanaskipta um áhrif slíkrar breytingar á góða framkvæmd þessa viðauka.


18. gr.
Tengsl við tvíhliða samninga um félagslegt öryggi


    Tvíhliða samningar milli aðildarríkjanna um félagslegt öryggi skulu felldir úr gildi við gildistöku þessa viðauka að því miklu leyti sem viðaukinn tekur til sama efnis, nema kveðið sé á um annað samkvæmt 2. viðbæti.

19. gr.
Tengsl við tvíhliða samninga um tvísköttun


1.     Ákvæði þessa viðauka hafa ekki áhrif á ákvæði tvíhliða samninga milli aðildarríkjanna um tvísköttun. Einkum skulu ákvæði þessa viðauka ekki hafa áhrif á skilgreiningu á því hverjir teljast „starfandi menn sem sækja vinnu yfir landamæri“ í samningum um tvísköttun.
2.     Ekkert ákvæði í þessum viðauka skal túlkað þannig að komið sé í veg fyrir að aðildarríkin geti gert greinarmun, við beitingu viðeigandi ákvæða í skattalöggjöf sinni, á skattgreiðendum sem búa ekki við sambærilegar aðstæður, einkum að því er varðar búsetustað.
3.     Ekkert ákvæði í þessum viðauka kemur í veg fyrir að aðildarríkin samþykki eða beiti ráðstöfunum til að tryggja álagningu, greiðslu og skilvirka endurheimt skatta eða hindri skattsvik samkvæmt innlendri skattalöggjöf eða samningum milli aðildarríkjanna sem miða að því að koma í veg fyrir tvísköttun eða öðru skattafyrirkomulagi.

20. gr.
Tengsl við tvíhliða samninga um önnur málefni en félagslegt öryggi og tvísköttun

1.     Þrátt fyrir ákvæði 18. og 19. gr. hefur þessi viðauki ekki áhrif á tvíhliða samninga milli aðildarríkjanna, til að mynda þá er varða einstaklinga, atvinnurekendur, samvinnu yfir landamæri eða staðbundna landamæraumferð, að því tilskildu að þeir séu samrýmanlegir þessum viðauka.
2.     Ef ekki er samræmi milli slíkra samninga og þessa viðauka skal hinn síðarnefndi ganga framar.

21. gr.
Áunnin réttindi

    Einstaklingar halda áunnum réttindum sínum þótt komi til uppsagnar eða endurnýjun eigi sér ekki stað. Aðildarríkin skulu gera með sér samning um til hvaða aðgerða skuli gripið vegna réttinda sem einstaklingar eru að ávinna sér.


1. VIÐBÆTIR
Flutningar fólks (20. gr.)


I.     ALMENN ÁKVÆÐI

1. gr.
Koma og brottför

1.     Aðildarríkin skulu heimila ríkisborgurum frá hinum aðildarríkjunum og aðstandendum þeirra í skilningi 3. gr. þessa viðbætis og launþegum sem starfa utan aðalstöðva í skilningi 16. gr. þessa viðbætis að koma á yfirráðasvæði þeirra einfaldlega með því að sýna gilt kennivottorð eða vegabréf.
    Óheimilt er að krefjast vegabréfsáritunar við komu, eða jafngildis hennar, nema að því er varðar aðstandendur og launþega utan aðalstöðva í skilningi 16. gr. þessa viðbætis sem hafa ekki ríkisfang í aðildarríki. Viðkomandi aðildarríki skal veita þessum einstaklingum hverja þá aðstöðu sem nauðsynleg er til að fá nauðsynlegar vegabréfsáritanir.
2.     Aðildarríkin skulu veita ríkisborgurum aðildarríkjanna og aðstandendum þeirra í skilningi 3. gr. þessa viðbætis og launþegum sem starfa utan aðalstöðva í skilningi 16. gr. þessa viðbætis rétt til að fara frá yfirráðasvæðum þeirra einfaldlega með því að sýna gilt kennivottorð eða vegabréf. Aðildarríkin skulu ekki krefja ríkisborgara annarra aðildarríkja um brottfararáritun eða jafngildi hennar.

    Aðildarríkin skulu, í samræmi við lög sín, gefa út eða endurnýja kennivottorð eða vegabréf til handa slíkum ríkisborgurum þar sem fram kemur til að mynda hvert þjóðerni handhafans er.
    Vegabréfið skal gilda í það minnsta í öllum aðildarríkjunum og þeim löndum sem handhafi þess verður að fara um til að komast á milli aðildarríkjanna. Ef vegabréf er eina skjalið sem handhafinn getur lögum samkvæmt notað til að fara úr landi skal það gilda í minnst fimm ár.

2. gr.
Búseta og atvinna

1.     Með fyrirvara um ákvæði um aðlögunartíma, sem mælt er fyrir um í 10. gr. viðaukans og VII. kafla þessa viðbætis, skulu ríkisborgarar aðildarríkis hafa rétt til að vera búsettir og stunda atvinnu á yfirráðasvæði hinna aðildarríkjanna samkvæmt þeirri málsmeðferð sem mælt er fyrir um í II. til IV. kafla. Færa skal sönnur á þennan rétt með útgáfu búsetuleyfis eða, fyrir einstaklinga frá landamærasvæðum, með útgáfu sérstaks búsetuleyfis.

    Ríkisborgarar aðildarríkis skulu eiga rétt á að sækja annað aðildarríki heim eða vera áfram þar að loknu starfstímabili, sem stóð í allt að eitt ár, í því skyni að leita sér að atvinnu og búa þar í hæfilegan tíma, allt að sex mánuði, við leit að starfi sem hæfir menntun þeirra og reynslu og, ef nauðsyn krefur, til þess að gera viðeigandi ráðstafanir til að hefja starf. Þeir sem eru að leita sér að atvinnu skulu eiga rétt, á yfirráðsvæði viðkomandi aðildarríkis, á sömu aðstoð og vinnumiðlanir í því ríki veita eigin ríkisborgunum. Heimilt er að halda þeim utan almannatryggingakerfa á meðan slík búseta varir.



2.     Ríkisborgarar aðildarríkjanna sem stunda ekki atvinnu í gistiríkinu og hafa ekki búseturétt samkvæmt öðrum ákvæðum viðaukans skulu hafa búseturétt að því tilskildu að þeir fullnægi forsendum sem mælt er fyrir um í V. kafla.


3.     Búsetuleyfi eða sérstök búsetuleyfi til handa ríkisborgurum aðildarríkjanna skulu gefin út og endurnýjuð án endurgjalds eða gegn greiðslu gjalds sem er ekki hærra en þau gjöld eða skattar sem ríkisborgurum er gert að greiða fyrir útgáfu kennivottorða. Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að einfalda formsatriði og málsmeðferð við að fá þessi skjöl eftir því sem unnt er.
4.     Aðildarríkjunum er heimilt að krefjast þess af ríkisborgurum frá hinum aðildarríkjunum að þeir tilkynni komu sína á yfirráðasvæðið.

3. gr.
Aðstandendur

1.     Einstaklingur, sem hefur búseturétt og er ríkisborgari aðildarríkis, á rétt á að fá aðstandendur sína til sín. Launþegi verður að ráða yfir húsnæði fyrir fjölskyldu sína sem telst viðunandi fyrir innlenda launþega á því svæði þar sem hann er ráðinn til starfa en þetta ákvæði má ekki leiða til þess að ríkisborgunum frá hinum aðildarríkjunum sé mismunað miðað við innlenda ríkisborgara.

2.     Eftirtaldir teljast vera aðstandendur óháð þjóðerni:
a)    maki og afkomendur þeirra undir 21 árs aldri eða þeir afkomendur sem eru á framfæri þeirra;

b)    ættingjar hans, og maka hans, í beinan legg af eldri kynslóð sem eru á framfæri hans;
c)    maki námsmanns og börn á framfæri þeirra.

    Aðildarríkin skulu greiða fyrir komu aðstandanda, sem fellur ekki undir ákvæði í a-, b- eða c-liðar, hafi hann verið á framfæri eða búið á heimili ríkisborgara aðildarríkis í upprunalandinu.


3.     Aðildarríkjunum er ekki heimilt að krefjast annarra skjala en þeirra sem eru talin upp hér á eftir vegna útgáfu búsetuleyfis fyrir aðstandendur ríkisborgara aðildarríkis:
a)    skjalsins sem var grundvöllur komu þeirra á yfirráðasvæðið;
b)    skjals sem lögbær yfirvöld í upprunaríkinu gefa út til að sanna tengsl þeirra;

c)    skjals sem lögbær yfirvöld í upprunaríkinu gefa út til að votta að aðstandendur séu á framfæri þess sem um getur í 1. mgr. eða búi á heimili hans í því ríki.

4.     Gildistími búsetuleyfis sem er gefið út til handa aðstandanda skal vera jafnlangur og gildistími leyfis til handa þeim sem hefur hann á framfæri sínu.

5.     Maki og börn á framfæri eða börn einstaklings undir 21 árs aldri sem hefur búseturétt skulu eiga rétt á að stund atvinnu óháð þjóðerni.

6.     Börn ríkisborgara aðildarríkis skulu, hvort sem ríkisborgarinn stundar eða hefur stundað atvinnu á yfirráðasvæði hins aðildarríkisins eða ekki, fá aðgang að almennri menntun, námi á samningi og starfsmenntun á sama grundvelli og ríkisborgarar í gistiríkinu ef þau búa á yfirráðasvæði þess. Aðildarríkin skulu ýta undir framtaksverkefni er gera þessum börnum kleift að stunda framangreint nám við bestu aðstæður.


4. gr.
Réttur til dvalar

1.     Ríkisborgarar aðildarríkis og aðstandendur þeirra skulu eiga rétt á að dvelja á yfirráðasvæði annars aðildarríkis eftir að atvinnuþátttöku þeirra lýkur.

2.     Í samræmi við 16. gr. viðaukans er vísað til reglugerðar (EBE) nr. 1251/70 (Stjtíð. EB L 142, 1970, bls. 42) og tilskipunar 75/34/EBE (Stjtíð. EB L 14, 1975, bls. 10) eins og þær eru felldar inn í EES-samninginn og samning Sviss og Evrópubandalagsins um frelsi fólks til flutninga eins og þær gilda 21. júní 1999.

5. gr.
Allsherjarregla

1.     Einungis er heimilt að takmarka réttindin, sem eru veitt samkvæmt ákvæðum þessa viðauka, á grundvelli allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis.
2.     Í samræmi við 16. gr. viðaukans er vísað til tilskipunar 64/221/EBE (Stjtíð. EB L 56, 1964, bls. 850), tilskipunar 72/194/EBE (Stjtíð. EB L 121, 1972, bls. 32) og tilskipunar 75/35/EBE (Stjtíð. EB L 14, 1975, bls. 10), eins og þær eru felldar inn í EES-samninginn og samning Sviss og Evrópubandalagsins um frelsi fólks til flutninga eins og þær gilda 21. júní 1999.

II.     LAUNÞEGAR

6. gr.
Reglur um búsetu

1.     Launþegi sem er ríkisborgari aðildarríkis (hér á eftir nefndur „launþegi“) og ráðinn til starfa til minnst eins árs hjá vinnuveitanda í gistiríkinu skal fá búsetuleyfi sem gildir í minnst fimm ár frá útgáfudegi. Það skal framlengt sjálfkrafa um að minnsta kosti fimm ár. Ef handhafinn er atvinnulaus gegn vilja sínum í meira en 12 mánuði samfellt má við fyrstu endurnýjun takmarka gildistímann sem skal þó ekki vera skemmri en eitt ár.


2.     Launþegi sem er ráðinn til starfa lengur en í þrjá mánuði en þó skemur en í eitt ár hjá vinnuveitanda í gistiríkinu skal fá búsetuleyfi sem gildir jafnlengi og ráðningarsamningur hans. Launþegi sem er ráðinn til starfa í allt að þrjá mánuði þarf ekki búsetuleyfi.

3.     Aðildarríkjunum er ekki heimilt að krefja einstakling um önnur skjöl en þau sem talin eru upp hér á eftir vegna útgáfu búsetuleyfis:
a)    skjalið sem var grundvöllur komu þeirra á yfirráðasvæðið;
b)    yfirlýsingu frá vinnuveitanda um ráðningarsamning eða skriflega staðfestingu á ráðningu.
4.     Búsetuleyfi skal gilda alls staðar á yfirráðasvæði útgáfuríkisins.
5.     Búsetuhlé sem varir skemur en í sex mánuði samfellt og fjarvera vegna uppfyllingar herskyldu skulu ekki hafa áhrif á gildistíma búsetuleyfisins.

6.     Óheimilt er að afturkalla gilt búsetuleyfi launþega af þeirri ástæðu einni að hann starfi ekki lengur, annaðhvort vegna tímabundinnar óvinnufærni af völdum slyss eða veikinda eða vegna atvinnuleysis gegn vilja sínum eins og þar til bær vinnumiðlun getur vottað.

7.     Umsækjanda er heimilt að hefja störf samkvæmt samningi sem hann hefur gert þótt formsatriðum vegna öflunar búsetuleyfis sé ekki lokið.


7. gr.
Launþegi sem sækir vinnu yfir landamæri

1.     Launþegi sem sækir vinnu yfir landamæri telst vera ríkisborgari í aðildarríki ef hann er búsettur á yfirráðasvæði aðildarríkis og stundar atvinnu sem launþegi á yfirráðasvæði annars aðildarríkis en snýr allajafna aftur á búsetustað sinn daglega eða í það minnsta vikulega.
2.     Ekki er krafist búsetuleyfis fyrir þá sem sækja vinnu yfir landamæri.
    Lögbærum yfirvöldum í ríkinu þar sem atvinnan er stunduð er engu að síður heimilt að gefa út sérstakt búsetuleyfi til handa launþega sem sækir vinnu yfir landamæri er gildi í minnst fimm ár eða svo lengi sem hann stundar atvinnu vari hún ekki lengur en í þrjá mánuði og skemur en í eitt ár. Leyfið skal framlengt um minnst fimm ár að því tilskildu að launþegi sem sækir vinnu yfir landamæri leggi fram sönnun um að hann stundi í raun atvinnu.
3.     Sérstök búsetuleyfi skulu gilda alls staðar á yfirráðasvæði útgáfuríkisins.

8. gr.
Að færa sig til í starfi og á milli landsvæða

1.     Launþegar eiga rétt á að færa sig til í starfi og á milli landsvæða alls staðar á yfirráðasvæði gistiríkisins.
2.     Að færa sig til í starfi merkir að skipta um vinnuveitanda, starf eða starfsgrein svo og að taka upp starf sem sjálfstætt starfandi einstaklingur. Að færa sig á milli landsvæða merkir að skipta um vinnustað og búsetustað.

9. gr.
Sams konar meðferð

1.      Óheimilt er að fara með launþega, sem er ríkisborgari aðildarríkis, á annan hátt en innlenda launþega á yfirráðasvæði hins aðildarríkisins einungis á grundvelli þjóðernis að því er varðar starfs- og atvinnuskilyrði, einkum að því er varðar laun, brottvikningu, endurskipun eða endurráðningu hafi hann misst vinnuna.

2.     Launþegi og aðstandendur hans, sem um getur í 3. mgr. þessa viðbætis, skulu njóta sömu skattaívilnana og fríðinda velferðarkerfisins og innlendir launþegar og aðstandendur þeirra.

3.     Hann skal eiga rétt á menntun á starfsmenntastofnunum og á miðstöðvum fyrir faglega endurmenntun og starfsendurhæfingu á sama grundvelli og með sömu skilyrðum og innlendir launþegar.

4.     Hvert það ákvæði í kjara- eða einstaklingssamningum eða öðru kjarafyrirkomulagi varðandi aðgang að störfum, störf, laun og önnur starfsskilyrði og brottvikningu verða sjálfkrafa ógild ef í þeim felst að erlendum launþegum, sem eru ríkisborgarar aðildarríkjanna, er mismunað.


5.     Launþegi, sem er ríkisborgari aðildarríkis og starfar á yfirráðasvæði annars aðildarríkis, skal njóta sams konar meðferðar og innlendir ríkisborgarar að því er varðar aðild að stéttarfélögum og réttindi tengd því, þar með talinn atkvæðisréttur og rétturinn til að gegna framkvæmdastjóra- og stjórnunarstöðum fyrir stéttarfélagið; heimilt er að útiloka hann frá því að taka þátt í stjórnun opinberra fyrirtækja og gegna opinberu embætti. Hann hefur enn fremur rétt til að bjóða sig fram til nefnda þar sem sæti eiga fulltrúar starfsmanna í fyrirtæki.

    Þessi ákvæði eru með fyrirvara um lög og reglur í gistiríkinu sem veita launþegum frá öðru aðildarríki frekari réttindi.

6.     Með fyrirvara um ákvæði 25. gr. þessa viðbætis skal launþegi, sem er ríkisborgari aðildarríkis og starfar á yfirráðasvæði annars aðildarríkis, njóta allra réttinda og hlunninda sem innlendir launþegar njóta að því er varðar húsnæði, þar með talið eignarhald á því húsnæði sem hann þarfnast.

    Slíkur launþegi skal njóta sama réttar og innlendir menn til að skrá sig á húsnæðislista á því svæði þar sem hann starfar, sé slíkur listi fyrir hendi; hann skal njóta alls ávinnings og forgangsréttar sem þessu fylgir. Ef fjölskylda hans hefur orðið eftir í upprunaríkinu skal hún teljast í þessu skyni búsett á þessu svæði ef slíkt hið sama á við um innlenda launþega.


10. gr.
Starf í opinberri þjónustu

    Heimilt er að neita ríkisborgara aðildarríkis, sem stundar atvinnu sem launþegi, um rétt til að starfa í opinberri þjónustu sem felur í sér meðferð opinbers valds og gæslu almennra hagsmuna ríkisins eða annarra opinberra stofnana.


III.     SJÁLFSTÆTT STARFANDI EINSTAKLINGAR

11. gr.
Reglur um búsetu

1.     Ríkisborgari aðildarríkis, sem vill öðlast staðfestu á yfirráðasvæði annars aðildarríkis, til að stunda þar sjálfstæða atvinnustarfsemi (hér á eftir nefndur „sjálfstætt starfandi einstaklingur“) skal fá búsetuleyfi til að minnsta kosti fimm ára frá útgáfudegi, að því tilskildu að hann leggi fyrir lögbær innlend yfirvöld sönnun um að hann hafi öðlast staðfestu eða óski eftir því.
2.     Búsetuleyfið skal framlengt sjálfkrafa um að minnsta kosti fimm ár að því tilskildu að sjálfstætt starfandi einstaklingurinn leggi fyrir lögbær innlend yfirvöld sönnun um að hann stundi sjálfstæða atvinnustarfsemi.
3.     Aðildarríkjunum er ekki heimilt að krefja sjálfstætt starfandi einstakling um annað en eftirtalið vegna útgáfu búsetuleyfis:
a)    skjalið sem var grundvöllur komu hans á yfirráðasvæðið;
b)    þá sönnun sem um getur í 1. og 2. mgr.
4.     Búsetuleyfi skal gilda alls staðar á yfirráðasvæði útgáfuríkisins.
5.     Búsetuhlé sem varir skemur en í sex mánuði samfellt og fjarvera vegna uppfyllingar herskyldu skulu ekki hafa áhrif á gildistíma búsetuleyfisins.

6.     Óheimilt er að afturkalla gilt búsetuleyfi einstaklings sem um getur í 1. mgr. af þeirri ástæðu einni að hann starfi ekki lengur vegna tímabundinnar óvinnufærni af völdum veikinda eða slyss.

12. gr.
Sjálfstætt starfandi einstaklingar sem sækja vinnu yfir landamæri

1.     Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem sækir vinnu yfir landamæri telst vera ríkisborgari í aðildarríki ef hann er búsettur á yfirráðasvæði aðildarríkis og stundar sjálfstæða atvinnustarfsemi á yfirráðasvæði annars aðildarríkis en snýr allajafna aftur á búsetustað sinn daglega eða í það minnsta vikulega.
2.     Ekki er krafist búsetuleyfis fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sækja vinnu yfir landamæri.
    Viðeigandi yfirvöldum í viðkomandi ríki er engu að síður heimilt að gefa út sérstakt búsetuleyfi til handa sjálfstætt starfandi einstaklingi sem sækir vinnu yfir landamæri er gildi í minnst fimm ár að því tilskildu að hann leggi fyrir lögbær innlend yfirvöld sönnun um að hann stundi eða óski eftir að stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi. Leyfið skal framlengt um minnst fimm ár að því tilskildu að sá sem sækir vinnu yfir landamæri leggi fram sönnun um að hann stundi sjálfstæða atvinnustarfsemi.
3.     Sérstök búsetuleyfi skulu gilda alls staðar á yfirráðasvæði útgáfuríkisins.

13. gr.
Að færa sig til í starfi og á milli landsvæða

1.     Sjálfstætt starfandi einstaklingar eiga rétt á að færa sig til í starfi og á milli landsvæða alls staðar á yfirráðasvæði gistiríkisins.
2.     Að færa sig til í starfi merkir að skipta um starfsgrein svo og að ráða sig í starf sem launþegi. Að færa sig á milli landsvæða merkir að skipta um vinnustað og búsetustað.

14. gr.
Sams konar meðferð

1.     Veita skal sjálfstætt starfandi einstaklingi eigi lakari meðferð í gistiríkinu en ríkisborgarar þess njóta að því er varðar aðgang og ástundun sjálfstæðrar atvinnustarfsemi.
2.     Ákvæði 9. gr. þessa viðbætis gilda að breyttu breytanda um sjálfstætt starfandi einstaklinga sem um getur í þessum kafla.

15. gr.
Meðferð opinbers valds

    Heimilt er að neita sjálfstætt starfandi einstaklingi um rétt til að stunda starfsemi sem felur í sér meðferð opinbers valds, jafnvel þótt það sé óreglubundið.

IV.     VEITING ÞJÓNUSTU

Einstaklingar sem veita þjónustu


16. gr.

    Samkvæmt 5. gr. viðaukans er eftirtalið bannað með hliðsjón af veitingu þjónustu:

a)    að takmarka alla veitingu þjónustu yfir landamæri á yfirráðasvæði aðildarríkis sem er umfram 90 raunverulega starfsdaga á almanaksárinu;

b)    að takmarka réttinn til komu og búsetu í þeim tilvikum sem falla undir 2. mgr. 5. gr. viðaukans að því er varðar:
    i)        einstaklinga sem veita þjónustu og eru ríkisborgarar aðildarríkis með staðfestu á yfirráðasvæði annars aðildarríkis en þess þar sem einstaklingur, sem fær þjónustuna, hefur ríkisfang;
    ii)    launþega, óháð þjóðerni, hjá einstaklingum sem veita þjónustu og eru hluti af almennum atvinnumarkaði eins aðildarríkis og sendir til að veita þjónustu á yfirráðasvæði annars aðildarríkis með fyrirvara um 1. gr.


17. gr.


    Ákvæði 16. gr. þessa viðbætis skulu gilda um félög sem eru sett á stofn í samræmi við lög aðildarríkis og hafa skráða skrifstofu, yfirstjórn eða aðalstarfsstöð á yfirráðasvæði aðildarríkis.


18. gr.


    Einstaklingi, sem veitir þjónustu og hefur rétt á að veita þjónustu eða hefur fengið leyfi til þess, er heimilt að stunda starfsemi sína í skamman tíma í ríkinu þar sem þjónustan er veitt með sömu skilmálum og gilda um ríkisborgara þess ríkis, í samræmi við ákvæði þessa viðbætis og 2. og 3. viðbætis viðaukans.


19. gr.


1.     Einstaklingar, sem um getur í b-lið 16. gr. þessa viðbætis og hafa rétt til að veita þjónustu, þurfa ekki búsetuleyfi vegna skemmri búsetutímabila en 90 daga. Skjölin, sem um getur í 1. gr. og voru grundvöllur komu á yfirráðasvæðið, taka til slíkrar búsetu.

2.     Einstaklingar, sem um getur í b-lið 16. gr. þessa viðbætis og hafa rétt til að veita þjónustu, eða hafa fengið leyfi til þess til lengri tíma en 90 daga skulu fá búsetuleyfi, til að renna stoðum undir þann rétt, til jafnlangs tíma og til stendur að veita þjónustuna.

3.     Búseturéttur skal gilda alls staðar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna.
4.     Aðildarríkjunum er ekki heimilt að krefja einstaklinga, sem um getur í b-lið 16. gr. þessa viðbætis, um annað en eftirtalið vegna útgáfu búsetuleyfis:
a)    skjalið sem var grundvöllur komu þeirra á yfirráðasvæðið;
b)    sönnun þess efnis að þeir veiti eða hafi óskað eftir því að veita þjónustu.

20. gr.


1.     Óheimilt er að veita þjónustu samkvæmt a-lið 16. gr. þessa viðbætis lengur en í 90 raunverulega starfsdaga alls á almanaksárinu, hvort sem þjónustan er veitt óslitið eða á samfelldum tímabilum.
2.     Ákvæði 1. mgr. skulu vera með fyrirvara um lagalegar skyldur sem þjónustuveitanda ber að inna af hendi samkvæmt þeirri ábyrgð sem einstaklingur sem fær þjónustuna er látin í té eða vegna óviðráðanlegra tilvika.

21. gr.


1.     Ákvæði 16. og 18. gr. þessa viðbætis skulu ekki gilda um starfsemi sem felur í sér meðferð opinbers valds í viðkomandi aðildarríki, jafnvel þótt það sé óreglubundið.
2.     Ákvæði 16. og 18. gr. þessa viðbætis og ráðstafanir sem eru samþykktar í krafti þeirra skulu gilda með fyrirvara um lög og stjórnsýslufyrirmæli varðandi vinnu- og starfsskilyrði launþega sem eru sendir til starfa utan aðalstöðva til að veita þjónustu. Í samræmi við 16. gr. viðaukans er vísað til tilskipunar 96/71/EB frá 16. desember 1996 um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu (Stjtíð. EB L 18, 1997, bls. 1), eins og hún er felld inn í EES-samninginn og samning Sviss og Evrópubandalagsins um frelsi fólks til flutninga eins og hún gildir 21. júní 1999.


3.     Ákvæði a-liðar 16. gr. og 18. gr. þessa viðbætis skulu gilda með fyrirvara um lög og stjórnsýslufyrirmæli er skulu ríkja í öllum aðildarríkjum við gildistöku viðaukans að því er varðar:

a)    starfsemi vinnumiðlana fyrir tímabundin störf og störf til bráðabirgða;
b)    fjármálaþjónustu ef veiting hennar er háð leyfi á yfirráðasvæði aðildarríkisins og þjónustuveitandinn lýtur varfærniseftirliti yfirvalda þess aðildarríkis.
4.     Ákvæði a-liðar 16. gr. og 18. gr. þessa viðbætis skulu gilda með fyrirvara um viðeigandi lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkjanna varðandi veitingu þjónustu í mest 90 raunverulega starfsdaga sem ófrávíkjanlegar kröfur eru gerðar um í þágu almannahagsmuna.


Einstaklingar sem fá þjónustu

22. gr.


1.     Einstaklingur sem fær þjónustu í skilningi 3. mgr. 5. gr. viðaukans þarfnast ekki leyfis vegna búsetu sem varir í þrjá mánuði eða skemur. Ef búsetutímabilið er lengra en þrír mánuðir skal sá sem þjónustuna fær fá útgefið búsetuleyfi sem gildir jafnlengi og þjónustan er veitt. Heimilt er að halda honum utan almannatryggingakerfa á meðan slík búseta hans varir.
2.     Búsetuleyfi skulu gilda alls staðar í útgáfuríkinu.


V.     EINSTAKLINGAR SEM STUNDA EKKI ATVINNU

23. gr.
Reglur um búsetu

1.     Einstaklingur, sem er ríkisborgar aðildarríkis og stunda ekki atvinnu í búseturíkinu og er án búseturéttar samkvæmt öðrum ákvæðum viðaukans, skal fá búsetuleyfi í minnst fimm ár að því tilskildu að hann sanni fyrir lögbærum innlendum yfirvöldum að hann og aðstandendur hans:

a)    hafi næg fjárráð og þurfi ekki að sækja um bætur frá félagslega kerfinu á meðan á dvöl þeirra stendur;
b)    hafi tryggingu gegn hvers konar sjúkdómum. 1
    Aðildarríkin mega krefjast þess, ef þau telja það nauðsynlegt, að búsetuleyfi séu endurnýjuð eftir fyrstu tvö búsetuárin.
2.     Fjárráð teljast vera næg ef þau eru umfram þá fjárhæð sem getið er hér á eftir sem ríkisborgarar geta sótt um félagslegar bætur með hliðsjón af persónulegum aðstæðum og, ef við á, aðstæðum fjölskyldu sinnar. Ef ekki er unnt að beita þessu skilyrði skulu fjárráð umsækjanda teljast næg ef þau eru yfir mörkum lágmarkslífeyris almannatrygginga í gistiríkinu.




1 Þess er krafist í Sviss að einstaklingar sem hyggjast ekki setjast þar að tryggi sig einnig vegna slysa og meðgöngu og fæðingar.
3.     Einstaklingum, sem hafa verið í starfi skemur en eitt ár á yfirráðasvæði aðildarríkis, er heimilt að búa þar að því tilskildu að þeir fullnægi skilyrðunum í 1. mgr. þessarar greinar. Atvinnuleysisbætur, sem þeir eiga rétt á samkvæmt innlendum lögum auk ákvæða 2. viðbætis viðaukans, eftir því sem við á, skulu teljast næg fjárráð í skilningi a-liðar 1. mgr. og 2. mgr. þessarar greinar.


4.     Gefa skal út búsetuleyfi til handa námsmanni, sem hefur ekki búseturétt á yfirráðasvæði annars aðildarríkis á grundvelli annarra ákvæða viðaukans, er gildir að minnsta kosti jafnlengi og nám hans stendur eða til eins árs ef nám hans stendur lengur en í eitt ár, að því tilskildu að hann sannfæri hlutaðeigandi innlend yfirvöld með yfirlýsingu, eða jafngildri aðferð kjósi hann það fremur, að hann hafi næg fjárráð til að tryggt sé að hvorki hann, maki hans né börn á framfæri hans muni ekki sækja um til almannatrygginga í gistiríkinu á meðan á dvöl þeirra stendur og að því tilskildu að hann sé skráður hjá viðurkenndri stofnun í því skyni að stunda þar, sem aðalstarf, starfsnám og hafi tryggingu er taki til hvers konar sjúkdóma. Í viðaukanum eru ekki settar reglur um aðgang að starfsnámi eða framfærsluaðstoð til handa námsmönnum sem falla undir þessa grein.

5.     Búsetuleyfi skal framlengt um minnst fimm ár að því tilskildu að skilyrðum fyrir því sé fullnægt. Framlengja skal búsetuleyfi námsmanna á hverju ári og skal það gilda í jafnlangan tíma og sá hluti námsins, sem ólokið er, stendur yfir.
6.     Búsetuhlé sem varir skemur en í sex mánuði samfellt og fjarvera vegna uppfyllingar herskyldu skulu ekki hafa áhrif á gildistíma búsetuleyfisins.

7.     Búsetuleyfi skal gilda alls staðar á yfirráðasvæði útgáfuríkisins.
8.     Réttur til búsetu skal haldast á meðan þeir sem njóta þess réttar fullnægja skilyrðunum sem mælt er fyrir um í 1. mgr.

VI.     KAUP Á FASTEIGNUM

24. gr.


1.     Ríkisborgari aðildarríkis, sem hefur rétt til búsetu og hefur fastan búsetustað sinn í gistiríkinu, skal njóta sömu réttinda og innlendir ríkisborgarar til að kaupa fasteignir. Honum er heimilt að koma sé upp föstum bústað í gistiríkinu hvenær sem er í samræmi við viðeigandi innlendar reglur óháð því hversu lengi hann starfar þar. Honum ber engin skylda til að losa sig við fasteignina þótt hann fari á brott úr gistiríkinu.
2.     Ríkisborgari aðildarríkis, sem hefur búseturétt en hefur ekki fastan bústað í gistiríkinu, skal njóta sömu réttinda og innlendir ríkisborgarar að því er varðar kaup á fasteignum sem hann þarfnast vegna starfsemi sinnar. Honum ber engin skylda til að losa sig við fasteignina þótt hann fari á brott úr gistiríkinu. Honum er einnig heimilt að festa kaup á aukabúsetustað eða -orlofsbústað. Viðaukinn hefur engin áhrif á reglur um hreina fjárfestingu eða viðskipti með óbyggt land og íbúðir.

3.     Maður sem sækir vinnu yfir landamæri skal njóta sömu réttinda og innlendur ríkisborgari að því er varðar kaup á fasteignum vegna starfa hans og kaupa á aukabúsetustað. Honum ber engin skylda til að losa sig við fasteignina þótt hann fari á brott úr gistiríkinu. Honum er einnig heimilt að festa kaup á orlofsbústað. Viðaukinn hefur engin áhrif á reglur um hreina fjárfestingu eða viðskipti með óbyggt land og íbúðir.

VII.     BRÁÐABIRGÐAÁKVÆÐI OG ÞRÓUN VIÐAUKANS

25. gr.
Almenn ákvæði

1.     Þegar magntakmörkunum, sem mælt er fyrir um í 10. gr. þessa viðbætis, er beitt skulu ákvæði í þessum kafla koma til viðbótar ákvæðum þessa viðbætis eða í stað þeirra, eftir því sem við á.

2.     Þegar magntakmörkunum, sem mælt er fyrir um í 10. gr. þessa viðauka, er beitt skal atvinna stunduð með fyrirvara um útgáfu búsetuleyfis og/eða atvinnuleyfis.

26. gr.
Reglur um búsetu launþega


1.     Búsetuleyfi launþega, sem hefur ráðningasamning til skemmri tíma en eins árs, skal framlengt um allt að 12 mánuði að því tilskildu að hann leggi fyrir lögbær innlend yfirvöld sönnun um að hann sé fær um að stunda atvinnu. Gefa skal út nýtt búsetuleyfi að því tilskildu að launþeginn leggi fram sönnun um að hann sé fær um að stunda atvinnu og að magntakmörkunum, sem mælt er fyrir um í 10. gr. viðaukans, hafi ekki verið náð. Honum ber engin skylda til að yfirgefa landið á milli þess sem ráðningarsamningar eru gerðir við hann í samræmi við 23. gr. þessa viðbætis.

2.     Aðildarríki getur krafist þess, á því tímabili sem um getur í 2. mgr. 10. gr. viðaukans, að lagður sé fram skriflegur samningur eða drög að samningi áður en fyrsta búsetuleyfi er gefið út.
         3. a) Einstaklingar, sem hafa áður gegnt tímabundnum störfum á yfirráðasvæði gistiríkisins í 30 mánuði hið minnsta, skulu sjálfkrafa öðlast rétt til að gegna starfi til ótakmarkaðs tíma. 2 Óheimilt er að synja þeim um þennan rétt með þeim rökum að magntakmörkunum hafi verið náð.

b)    Einstaklingar, sem gegndu áður árstíðabundnum störfum á yfirráðasvæði gistiríkisins í 50 mánuði hið minnsta á 15 ára tímabili og fullnægja ekki skilyrðum fyrir rétti til búsetuleyfis í samræmi við ákvæði a-liðar hér að framan, skulu öðlast sjálfkrafa rétt til að gegna starfi til ótakmarkaðs tíma.


27. gr.
Launþegar sem sækja vinnu yfir landamæri

1.     Launþegi, sem sækir vinnu yfir landamæri, telst vera ríkisborgari í aðildarríki ef hann er allajafna búsettur á landamærasvæðunum milli Sviss og grannríkja þess og stundar atvinnu sem launþegi á landmærasvæðum Sviss og grannríkja þess og kemur allajafna á búsetustað sinn daglega eða í það minnsta vikulega. Í þessum viðauka merkir landamærisvæði þau svæði sem eru skilgreind í samningum milli Sviss og grannríkja þess varðandi flutninga á landamærasvæðum.

2.     Sérstakt búsetuleyfi skal gilda alls staðar á landamærasvæði útgáfuríkisins.

28. gr.
Réttur launþega til endurkomu

1.     Launþegi, sem hafði búsetuleyfi til í það minnsta eins árs við gildistöku þessa viðauka og yfirgaf síðan gistiríkið, skal, innan sex ára frá brottför sinni, hafa forgangsrétt að kvóta fyrir ný búsetuleyfi að því tilskildu að hann geti sannað að hann sé fær um að stunda atvinnu.

2.     Launþegi, sem sækir vinnu yfir landamæri, skal eiga rétt á nýju sérstöku búsetuleyfi innan sex ára frá lokum síðasta starfs hans er stóð óslitið í þrjú ár, með fyrirvara um að hægt sé að færa sönnur á laun hans og atvinnuskilyrði ef hann er ráðinn til starfa í tvö ár eftir gildistöku þessa viðauka, að því tilskildu að hann leggi fyrir lögbær innlend yfirvöld sönnun um að hann sé fær um að stunda atvinnu.


2 Þeir skulu ekki vera í hópi starfandi manna sem hafa forgang inn á almennan atvinnumarkað eða falla undir eftirlit með launakjörum og starfsskilyrðum í tiltekinni atvinnugrein eða á tilteknum vinnustað.

3.     Ungt fólk, sem hefur farið brott af yfirráðasvæði aðildarríkis fyrir 21 árs aldur að lokinni minnst fimm ára búsetu þar, skal í fjögur ár eiga rétt á að koma aftur til þess aðildarríkis og stunda þar atvinnu.


29. gr.
Réttur launþega til að færa sig til í starfi
og á milli landsvæða

1.     Launþegi, sem er handhafi búsetuleyfis er gildir til skemmri tíma en eins árs, skal eiga rétt á að færa sig til í starfi og á milli landsvæða í tólf mánuði frá því að hann hóf störf. Einnig er, með fyrirvara um 10. gr. viðaukans, fyrir hendi sá réttur að taka upp starf sem sjálfstætt starfandi einstaklingur.

2.     Sérstök búsetuleyfi, sem eru gefin út til handa launþega sem sækir vinnu yfir landamæri, fela í sér rétt til að færa sig til í starfi og á milli landsvæða á öllum landamærasvæðum Sviss og grannríkja þess.

30. gr.
Reglur um búsetu sjálfstætt starfandi einstaklinga


    Ríkisborgari aðildarríkis, sem óskar eftir því að öðlast staðfestu á yfirráðasvæði annars aðildarríkis í því skyni að stunda þar sjálfstæða atvinnustarfsemi (hér á eftir nefndur „sjálfstætt starfandi einstaklingur“), skal fá búsetuleyfi sem gildir til sex mánaða. Hann skal fá búsetuleyfi sem gildir til í það minnsta fimm ára að því tilskildu að hann sanni fyrir lögbærum innlendum yfirvöldum við lok sex mánaða tímabilsins að hann stundi sjálfstæða atvinnustarfsemi. Heimilt er, ef nauðsyn krefur, að framlengja sex mánaða tímabilið um allt að tvo mánuði ef raunverulegar líkur eru á að hann geti lagt fram slíka sönnun.

31. gr.
Sjálfstætt starfandi einstaklingar sem
sækja vinnu yfir landamæri

1.     Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem sækir vinnu yfir landamæri, telst vera ríkisborgari aðildarríkis ef hann er allajafna búsettur á landamærasvæðunum Sviss og grannríkja þess og stundar sjálfstæða atvinnustarfsemi á landamærasvæðum Sviss og grannríkja þess og snýr allajafna aftur á búsetustað sinn daglega eða í það minnsta vikulega. Í þessum viðauka merkir landamærisvæði þau svæði sem eru skilgreind í samningum milli Sviss og grannríkja þess varðandi flutninga fólks á landamærasvæðum.

2.     Ríkisborgari aðildarríkis sem óskar þess, sem maður sem sækir vinnu yfir landamæri, að stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi á landamærasvæðum Sviss og grannríkja þess skal fá fyrir fram sérstakt bráðabirgðaleyfi til sex mánaða. Hann skal fá sérstakt búsetuleyfi til að minnsta kosti fimm ára að því tilskildu að hann leggi, fyrir lok sex mánaða tímabilsins, fyrir lögbær innlend yfirvöld sönnun um að hann stundi sjálfstæða atvinnustarfsemi. Heimilt er, ef nauðsyn krefur, að framlengja sex mánaða tímabilið um allt að tvo mánuði ef raunverulegar líkur eru á að hann geti lagt fram slíka sönnun.
3.     Sérstök búsetuleyfi skulu gilda alls staðar á landamærasvæði útgáfuríkisins.

32. gr.
Réttur sjálfstætt starfandi einstaklinga
til endurkomu

1.     Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem hefur verið handhafi búsetuleyfi til að minnsta kosti fimm ára og hefur farið brott úr gistiríkinu, skal eiga rétt á nýju leyfi næstu sex árin eftir brottförina að því tilskildu að hann hafi áður starfað í gistiríkinu í þrjú ár samfellt og leggi fyrir lögbær innlend yfirvöld sönnun um að hann sé fær um að stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi.
2.     Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem sækir vinnu yfir landamæri, skal eiga rétt á nýju sérstöku búsetuleyfi innan sex mánaða frá því að hann lagði niður fyrri starfsemi sem hafði staðið óslitið í fjögur ár að því tilskildu að hann leggi fyrir lögbær innlend yfirvöld sönnu um að hann sé fær um að stunda atvinnu.
3.     Ungt fólk, sem hefur farið brott af yfirráðasvæði aðildarríkis fyrir 21 árs aldur að lokinni minnst fimm ára búsetu þar, skal í fjögur ár eiga rétt á að koma aftur til þess aðildarríkis og stunda þar atvinnu.


33. gr.
Réttur sjálfstætt starfandi einstaklinga til
að færa sig til í starfi og á milli landsvæða

    Sérstök búsetuleyfi, sem eru gefin út til handa sjálfstætt starfandi einstaklingum sem sækja vinnu yfir landamæri, fela í sér rétt til að færa sig til í starfi og á milli landsvæða á landamærasvæðum Sviss og grannríkja þess. Sex mánaða búsetuleyfi, sem eru gefin út fyrir fram og til bráðabirgða (sérstök búsetuleyfi, að því er varðar þá sem sækja vinnu yfir landamæri), fela einungis í sér rétt til að færa sig á milli landsvæða.


2. VIÐBÆTIR

Samræming almannatryggingakerfa
(21. gr.)


1. gr.


1.     Aðildarríkin eru ásátt um að beita sín á milli, að því er varðar samræmingu almannatryggingakerfa, þeim gerðum bandalagsins sem vísað er til og teknar eru upp í EES-samninginn og samning Sviss og Evrópubandalagsins og varða frelsi fólks til flutninga, eins og þær gilda 21. júní 1999 og er breytt í A-hluta þessa viðbætis, eða reglum er jafngilda þessum gerðum.
2.     Hugtakið „aðildarríki“ í gerðum sem um getur í A-hluta þessa viðbætis ber skilja sem vísun til aðildarríkjanna í þessum samningi.


2. gr.


1.     Aðildarríkin skulu, í því skyni að beita ákvæðum þessa viðbætis, taka til greina þær gerðir bandalagsins, sem um getur í eða breytt er með B-hluta þessa viðbætis, eins og þær eru teknar upp í EES-samninginn og samning Sviss og Evrópubandalagsins um frelsi fólks til flutninga og eins og þær gilda 21. júní 1999.
2.     Aðildarríkin skulu, í því skyni að beita ákvæðum þessa viðbætis, taka tillit til þeirra gerða bandalagsins, sem um getur í eða breytt er með C-hluta þessa viðbætis, eins og þær eru teknar upp í EES-samninginn og samning Sviss og Evrópubandalagsins um frjálsa fólksflutninga og eins og þær gilda 21. júní 1999.

3. gr.


1.     Í bókun 1 við þennan viðbæti er að finna það fyrirkomulag sem er á atvinnuleysistryggingum fyrir starfandi menn frá aðildarríkjunum, nema frá Sviss hafi þeir búsetuleyfi sem gildir skemur en í eitt ár.

2.     A- og B-hluti gilda um samskipti Liechtenstein og Sviss samkvæmt þeim skilyrðum sem fram koma í bókun 2 við þennan viðbæti.
3.     A- og B-hluti gilda um samskipti Noregs og Sviss samkvæmt þeim skilyrðum sem fram koma í bókun 3 við þennan viðbæti.

A-HLUTI: GERÐIR SEM VÍSAÐ ER TIL

1.      371 R 1408 1: Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1408/71 frá 14. júní 1971 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja,

eins og hún var uppfærð með:
–     397 R 0118: Reglugerð ráðsins (EB) nr. 118/97 frá 2. desember 1996 um breytingu og uppfærslu á reglugerð (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja og reglugerð (EBE) nr. 574/72 sem kveður á um framkvæmd reglugerðar (EBE) nr. 1408/71,


1 Meginreglurnar um uppsöfnun réttinda til atvinnuleysisbóta og veitingu þeirra í því ríki þar sem viðkomandi vann síðast gilda án tillits til þess hversu lengi viðkomandi hefur gegnt starfi.
    Einstaklingum, sem hafa starfað skemur en í eitt ár á yfirráðasvæði aðildarríkis, er heimilt að búa þar áfram eftir starfslok í hæfilegan tíma, eða allt að sex mánuði, í því skyni að leita að nýju starfi og kynna sér framboð á störfum sem hæfa menntun þeirra og, ef nauðsyn krefur, gera nauðsynlegar ráðstafanir til að ráða sig til starfa. Þessum einstaklingum er einnig heimilt að dvelja áfram eftir starfslok ef þeir eru færir um að sjá fyrir sér og aðstandendum sínum með eigin fjármagni án þess að þiggja bætur frá velferðarkerfinu á meðan á dvöl þeirra stendur og ef þeir eru með tryggingu gegn hvers konar sjúkdómum. Til eigin fjármagns teljast atvinnuleysisbætur sem þeir eiga rétt á samkvæmt innlendri löggjöf og unnt er, ef nauðsyn krefur, að bæta við samkvæmt reglum um uppsöfnun. Fjármagn telst nægjanlegt ef það er meira en sem nemur þeim tekjum sem ríkisborgarar viðkomandi ríkis mega hafa, að teknu tilliti til persónulegra aðstæðna þeirra og jafnvel aðstandenda þeirra, til að geta sótt um bætur frá velferðarkerfinu. Ef þessi forsenda á ekki við telst fjármagn umsækjanda nægilegt ef það er meira en sem nemur lágmarkslífeyri almannatrygginga í gistiríkinu.
    Þeim, sem vinna árstíðabundið, er heimilt að nýta rétt til atvinnuleysisbóta í því ríki þar sem þeir störfuðu síðast óháð því hvenær þeirri árstíð lýkur. Þeim er heimilt að dvelja áfram eftir starfslok að því tilskildu að þeir uppfylli þau skilyrði sem getið er í fyrri málsgrein. Bjóði þeir sig áfram fram til starfa í búseturíkinu fá þeir atvinnuleysisbætur í því ríki í samræmi við ákvæði 71. gr. reglugerðar 1408/71.
    Þeim, sem sækja vinnu yfir landamæri, er heimilt að bjóða fram starfskrafta sína í búseturíkinu eða í því ríki þar sem þeir störfuðu síðast ef þeir hafa haldið við persónulegum og faglegum tengslum og eiga því meiri möguleika á að finna sér starf þar. Þeir fá atvinnuleysisbætur í ríkinu þar sem þeir bjóða sig fram til starfa.

–     397 R 1290: Reglugerð ráðsins (EB) nr. 1290/97 frá 27. júní 1997 um breytingu á reglugerð (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja og reglugerð (EBE) nr. 574/72 sem kveður á um framkvæmd reglugerðar (EBE) nr. 1408/71,

–     398 R 1223: Reglugerð ráðsins (EB) nr. 1223/98 frá 4. júní 1998 um breytingu á reglugerð (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja og reglugerð (EBE) nr. 574/72 sem kveður á um framkvæmd reglugerðar (EBE) nr. 1408/71,

–     398 R 1606: Reglugerð ráðsins (EB) nr. 1606/98 frá 29. júní 1998 um breytingu á reglugerð (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja og reglugerð (EBE) nr. 574/72 sem kveður á um framkvæmd reglugerðar (EBE) nr. 1408/71, með það í huga að rýmka gildissvið þeirra þannig að þær nái til sérstakra bótakerfa fyrir opinbera starfsmenn,
–     399 R 0307: Reglugerð ráðsins (EB) nr. 307/1999 frá 8. febrúar 1999 um breytingu á reglugerð (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja og reglugerð (EBE) nr. 574/72 sem kveður á um framkvæmd reglugerðar (EBE) nr. 1408/71, með það í huga að rýmka gildissvið þeirra þannig að þær nái til námsmanna.

Ákvæði reglugerðarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:

1.     Þriðja undirgrein j-liðar 1. gr. gildir ekki.


2.     Ákvæði 9. mgr. 94. gr. gilda ekki.

3.     Ákvæði 95. gr. a gilda ekki.

4.     Ákvæði 95. gr. b gilda ekki.

5.     Ákvæði 96. gr. gilda ekki.

6.     Eftirfarandi bætist við I. hluta I. viðauka:

    „P. ÍSLAND
    Einstaklingur sem er launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi ákvæða er tengjast slysatryggingum í lögum um almannatryggingar telst launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi ii-liðar í a-lið 1. gr. reglugerðarinnar.


    Q.     LIECHTENSTEIN
    Á ekki við.

    R.     NOREGUR
    Einstaklingur sem er launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi almannatryggingalaga telst launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi ii-liðar í a-lið 1. gr. reglugerðarinnar.“

    S.     SVISS
    Ef stofnun í Sviss er sú lögbæra stofnun sem veita á heilsugæslubætur í samræmi við 1. kafla III. bálks í reglugerðinni: a) launþegi í skilningi laga ríkjasambandsins um tryggingar vegna aldraðra og eftirlifenda telst vera „launþegi“ í skilningi ii-liðar í a-lið 1. gr. reglugerðarinnar; og b) sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laga ríkjasambandsins um tryggingar vegna aldraðra og eftirlifenda telst vera „sjálfstætt starfandi einstaklingur“ í skilningi ii-liðar í a-lið 1. gr. reglugerðarinnar.“


7.     Eftirfarandi bætist við II. hluta I. viðauka:

    „P. ÍSLAND
    Þegar réttur til aðstoðar er ákvarðaður samkvæmt ákvæðum 1. kafla III. bálks reglugerðarinnar merkir „aðstandandi“ maka eða barn sem er yngra en 25 ára.


    Q. LIECHTENSTEIN
    Þegar réttur til aðstoðar er ákvarðaður samkvæmt ákvæðum 1. kafla III. bálks reglugerðarinnar merkir „aðstandandi“ maka eða barn sem er á framfæri og yngra en 25 ára.


    R. NOREGUR
    Þegar réttur til aðstoðar er ákvarðaður samkvæmt ákvæðum 1. kafla III. bálks reglugerðarinnar merkir „aðstandandi“ maka eða barn sem er yngra en 25 ára.


    S.     SVISS
    Þegar réttur til aðstoðar er ákvarðaður samkvæmt ákvæðum 1. kafla III. bálks reglugerðarinnar merkir „aðstandandi“ maki og börn undir 18 ára aldri og þau börn undir 25 ára aldri sem eru enn við nám eða í starfsnámi.“



8.     Eftirfarandi bætist við I. hluta II. viðauka:

    „P.     ÍSLAND
    Á ekki við.

    Q.     LIECHTENSTEIN
    Á ekki við.

    R.     NOREGUR
    Á ekki við.

    S.     SVISS
    Kantónukerfin (Graubunden, Lucerne, St. Gallen) vegna fjölskyldugreiðslna til sjálfstætt starfandi einstaklinga.“

9.     Eftirfarandi bætist við II. hluta II. viðauka:

    „P.     ÍSLAND
    Engar.

    Q.     LIECHTENSTEIN
    Engar.

    R.     NOREGUR
    a)    Styrkir greiddir með eingreiðslu við barnsfæðingu samkvæmt almannatryggingalögunum.
    b)    Styrkir greiddir með eingreiðslu við ættleiðingu samkvæmt almannatryggingalögunum.

    S.     SVISS
    Styrkir vegna barnsburðar og ættleiðingar samkvæmt viðeigandi löggjöf kantónu um fjölskyldubætur (Fribourg, Geneva, Jura, Lucerne, Neuchatel, Schaffhausen, Schwyz, Solothurn, Uri, Valais, Vaud).“

10.     Eftirfarandi bætist við III. hluta II. viðauka:

    „P.     ÍSLAND
    Engar.

    Q.     LIECHTENSTEIN
    Engar.

    R.     NOREGUR
    Engar.

    S.     SVISS
    Á ekki við.“

11.     Eftirfarandi bætist við II. viðauka a:

    „P.     ÍSLAND
    Engar.

    Q.     LIECHTENSTEIN
    a)    Greiðslur til blindra (lög um greiðslur til blindra frá 17. desember 1970).

    b)    Greiðslur vegna meðgöngu og fæðingar (lög um greiðslur vegna meðgöngu og fæðingar frá 25. nóvember 1981).
    c)    Viðbótarbætur vegna elli-, eftirlifenda- og örorkutryggingar (lög um viðbótarbætur vegna elli-, eftirlifenda- og örorkutryggingar frá 10. desember 1954 eins og þau voru endurskoðuð 12. nóvember 1992).
    d)    Bjargarleysisgreiðslur (lög um viðbótarbætur vegna elli-, eftirlifenda- og örorkutryggingar frá 10. desember 1965 eins og þau voru endurskoðuð 12. nóvember 1992).

    R.     NOREGUR
    a)    Grunnbætur og umönnunarbætur í samræmi við grein 6-1 til 6-8 í almannatryggingalögunum nr. 19 frá 28. febrúar 1997 til að greiða viðbótarútgjöld eða sérstaka umönnun, hjúkrun eða heimilishjálp vegna fötlunar, þó ekki ef bótaþegi fær elli-, örorku- eða eftirlifendalífeyri frá almannatryggingunum.


    b)    Tryggður lágmarksviðbótarlífeyrir til þeirra sem eru fæddir með fötlun eða verða fatlaðir á unga aldri í samræmi við grein 3-21 og 3-22 í almannatryggingalögunum nr. 19 frá 28. febrúar 1997.
    c)    Bætur vegna umönnunar barna og bætur til eftirlifandi maka vegna menntunar í samræmi við grein 17-9 í almannatryggingalögunum nr. 19 frá 28. febrúar 1997.

    S.     SVISS
    a)    Viðbótarbætur (lög ríkjasambandsins frá 19. mars 1965 um viðbótarbætur) og svipaðar bætur sem kveðið er á um samkvæmt lögum kantónanna.
    b)    Lífeyrir vegna þrenginga samkvæmt örorkutryggingum (undirgrein 1a í 28. gr. laga ríkjasambandsins frá 19. júní 1959 um örorkutryggingar, eins og þeim var breytt 7. október 1994).
    c)    Iðgjaldsfrjálsar samsettar bætur vegna atvinnuleysis, eins og kveðið er á um í lögum kantóna.“

12.     Eftirfarandi bætist við A-hluta III. viðauka:

    „106.     ÍSLAND – LIECHTENSTEIN
    Enginn samningur.

    107.     ÍSLAND – NOREGUR
    Ákvæði 10. gr. samnings Norðurlanda um félagslegt öryggi frá 15. júní 1992.

    108.     ÍSLAND – SVISS
    Enginn samningur.

    109.     LIECHTENSTEIN – NOREGUR
    Enginn samningur.

    110.     LIECHTENSTEIN – SVISS
    a)    Ákvæði 4. gr. samnings um félagslegt öryggi frá 8. mars 1989, eins og honum var breytt með viðbótarsamningum nr. 1 frá 9. febrúar 1996 og nr. 2 frá 29. nóvember 2000, að því er varðar greiðslu bóta í peningum til einstaklinga sem eru búsettir í þriðja ríki.

            Ákvæði 1. og 2. mgr. 5. gr. svo og 6. gr. til 8. gr. a að því er varðar lagaákvæði þeirra tveggja ríkja sem falla undir 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar.

            Ákvæði 1. mgr. 14. gr. með þeim fyrirvara að ráðstafanir vegna endurhæfingar sem eru gerðar samkvæmt löggjöf síðasta ráðningarríkis eru einungis veittar í þrjú ár. Eftir það tekur tryggingakerfi búseturíkis við og fjallar um umsóknina eins og hún hefði komið fram samkvæmt löggjöf þess ríkis.


            Ákvæði 3. og 4. mgr. 14. gr. Ákvæði 20. til 22. gr.

            Ákvæði 20. liðar lokabókunar við framangreindan samning og 3. mgr. 3. gr. framangreinds viðbótarsamnings nr. 2.

    b)    Ákvæði 6. gr. samnings um atvinnuleysistryggingar frá 15. janúar 1979.

    111.     NOREGUR – SVISS
    Ákvæði 2. mgr. 6. gr. samnings um félagslegt öryggi frá 21. febrúar 1979.“

13.     Eftirfarandi bætist við B-hluta III. viðauka:

    „106.     ÍSLAND – LIECHTENSTEIN
    Enginn samningur.

    107.     ÍSLAND – NOREGUR
    Engar.

    108.     ÍSLAND – SVISS
    Enginn samningur.

    109.     LIECHTENSTEIN – NOREGUR
    Enginn samningur.

    110.     LIECHTENSTEIN – SVISS
    a)    Ákvæði 4. gr. samnings um félagslegt öryggi frá 8. mars 1989, eins og honum var breytt með viðbótarsamningum nr. 1 frá 9. febrúar 1996 og nr. 2 frá 29. nóvember 2000, að því er varðar greiðslu bóta í peningum til einstaklinga sem eru búsettir í þriðja ríki.
    b)    Ákvæði 6. gr. samnings um atvinnuleysistryggingar frá 15. janúar 1979.

    111.     NOREGUR – SVISS
    Ákvæði 2. mgr. 6. gr. samnings um félagslegt öryggi frá 21. febrúar 1997.“

14.     Eftirfarandi bætist við þátt A í IV. viðauka:


    „P.     ÍSLAND
    Engin.

    Q.     LIECHTENSTEIN
    Engin.

    R.     NOREGUR
    Engin.

    S.     SVISS
    Engin.“.

15.     Eftirfarandi bætist við þátt B í IV. viðauka:


    „P.     ÍSLAND
    Engin.

    Q.     LIECHTENSTEIN
    Engin.

    R.     NOREGUR
    Engin.

    S.     SVISS
    Engin.“.

16.     Eftirfarandi bætist við þátt C í IV. viðauka:


    „P.     ÍSLAND
    Allar umsóknir um grunnlífeyri og viðbótarlífeyri vegna elli og sérstakt bótakerfi vegna lífeyris opinberra starfsmanna.

    Q.     LIECHTENSTEIN
    Allar umsóknir um almennan elli-, eftirlifenda- og örorkulífeyri svo og elli-, eftirlifenda- og örorkulífeyri úr lífeyrissjóði starfsgreinar að svo miklu leyti sem engin ákvæði um lækkun er að finna í reglugerðum viðkomandi lífeyrissjóðs.


    R.     NOREGUR
    Allar umsóknir um ellilífeyri, að frátöldum lífeyri sem getið er í þætti D í IV. viðauka.

    S.     SVISS
    Allar umsóknir um elli-, eftirlifenda- og örorkulífeyri samkvæmt grunnkerfum og ellilífeyrir samkvæmt bótakerfum starfsgreina.“

17.    Eftirfarandi bætist við 2. lið þáttar D í IV. viðauka:
    „g)    Norskur örorkulífeyrir, einnig þegar honum er breytt í ellilífeyri við ellilífeyrisaldur, og allur lífeyrir (eftirlifenda- og ellilífeyrir) sem byggist á lífeyristekjum hins látna.


    h)    Svissneskur eftirlifenda- og örorkulífeyrir samkvæmt lögum ríkjasambandsins frá 25. júní 1982 um lífeyriskerfi starfsgreina vegna elli-, eftirlifenda- og örorkutrygginga.“

18.     Eftirfarandi bætist við VI. viðauka:

    „P.     ÍSLAND
    1.          Hafi launaðri vinnu eða sjálfstæðri atvinnustarfsemi verið lokið á Íslandi, og tilvikið verður þegar launuð vinna eða sjálfstæð atvinnustarfsemi er stunduð í öðru ríki sem reglugerðin tekur til og þar sem örorkulífeyrir, bæði samkvæmt almannatryggingakerfinu og viðbótarlífeyriskerfinu (lífeyrissjóðir), á Íslandi felur ekki lengur í sér tímabilið frá því að tilvik kemur fram og fram að því að lífeyrisaldri er náð (tímabil sem ekki er liðið), skal tekið tillit til tryggingatímabila sem falla undir löggjöf annars ríkis sem reglugerðin tekur til að því er varðar kröfuna um tímabil sem ekki er liðið eins og um væri að ræða tryggingatímabil á Íslandi.
    2.          Hægt er að krefja einstakling, sem fellur undir sérstakt bótakerfi fyrir opinbera starfsmenn og búsettur er á Íslandi, og
            sem ákvæði 2. til 7. þáttar í 1. kafla III. bálks eiga ekki við um, og
            sem ekki á rétt á íslenskum lífeyri,
            um greiðslu kostnaðar vegna aðstoðar við hann eða aðstandendur hans á Íslandi, svo fremi að aðstoðin heyri undir sérstaka bótakerfið, sem um ræðir, og/eða einstaklingsbundna tryggingarkerfið, sem kemur því til viðbótar.
    3.          Einstaklingar, sem eru tryggðir á Íslandi og eru í þjóðskrá, hafa þar fasta búsetu og hefja nám í öðru ríki, sem reglugerð þessi gildir um, eru tryggðir samkvæmt íslenska almannatryggingakerfinu. Trygging námsmanns er óháð námstíma. Flytji námsmaður fast aðsetur sitt frá Íslandi til annars ríkis, sem reglugerð þessi gildir um, eða stundi þar starf með virkum hætti, er trygging hans afturkölluð.


    Q.     LIECHTENSTEIN
    Launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur sem heyrir ekki lengur undir löggjöf Liechtenstein um örorkutryggingar telst tryggður, að því er varðar 3. kafla III. bálks reglugerðarinnar, samkvæmt þessari tryggingu og fær greiddan almennan örorkulífeyri ef hann:
    a)    daginn sem hin tryggða áhætta kemur fram samkvæmt ákvæðum löggjafar í Liechtenstein um örorkutryggingar annaðhvort:

             i)        samkvæmt ráðstöfunum vegna endurhæfingar nýtur bóta sem veittar eru samkvæmt örorkutryggingum í Liechtenstein; eða
             ii)    er tryggður samkvæmt löggjöf um elli-, eftirlifenda- eða örorkutryggingar í öðru ríki sem reglugerðin tekur til; eða

             iii)    getur gert kröfu um lífeyri samkvæmt örorku- eða ellilífeyristryggingu annars ríkis sem reglugerðin tekur til, eða þiggur slíkan lífeyri; eða

             iv)    er óvinnufær samkvæmt löggjöf annars ríkis sem reglugerðin tekur til og getur gert kröfu um bætur frá sjúkra- eða slysatryggingum þess ríkis, eða þiggur slíkar bætur; eða

             v)    getur gert kröfu, vegna atvinnuleysis, til bóta í peningum frá atvinnuleysistryggingum annars ríkis sem reglugerðin tekur til, eða þiggur slíkar bætur;

    b)    eða hefur starfað í Liechtenstein sem launþegi sem sækir vinnu yfir landamæri og greitt iðgjöld samkvæmt þeirri löggjöf í að minnsta kosti tólf mánuði á þriggja ára tímabili áður en áhættan kemur fram samkvæmt löggjöf í Liechtenstein; eða
    c)    verður að láta af störfum sínum sem launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur í Liechtenstein, vegna slysa eða veikinda, allan þann tíma sem hann dvelur í Liechtenstein; honum ber að greiða iðgjöld með sama hætti og sá sem ekki stundar ábatasama starfsemi.

    R.     NOREGUR
    1.          Bráðabirgðaákvæði í norskri löggjöf um styttingu tryggingatímabils, sem krafist er fyrir óskertan viðbótarlífeyri einstaklinga sem eru fæddir fyrir 1937, gilda um einstaklinga sem heyra undir reglugerðina, að því tilskildu að þeir hafi verið búsettir í Noregi, eða stundað þar ábatasöm störf annaðhvort sem launþegar eða sjálfstætt starfandi, í tilskilinn árafjölda eftir að þeir hafa náð sextán ára aldri og fyrir 1. janúar 1967. Þessi krafa felur í sér að hvert ár skal talið sem eitt ár þegar fæðingarár einstaklingsins er fyrir 1937.
    2.          Einstaklingur sem er tryggður samkvæmt almannatryggingalögum og veitir tryggðum öldruðum, fötluðum eða sjúkum einstaklingum nauðsynlega aðhlynningu, í samræmi við fyrirfram ákveðin skilyrði, skal fá lífeyrisstig metin vegna slíkra tímabila. Á sama hátt skal einstaklingur sem annast ung börn hljóta lífeyrisstig, þegar hann dvelur í öðru ríki sem reglugerðin tekur til en Noregi, að því tilskildu að hlutaðeigandi einstaklingur sé í barnsburðarleyfi samkvæmt norskri vinnulöggjöf.
    3.          Að svo miklu leyti sem norskur eftirlifenda- eða örorkulífeyrir greiðist samkvæmt reglugerðinni og er reiknaður í samræmi við 2. mgr. 46. gr. og með beitingu 45. gr., skulu ekki lengur gilda ákvæði 3. liðar í grein 12-2, 4. liðar í grein 17-3 og 4. liðar í grein 18-2 í almannatryggingalögunum sem lífeyrir kann að hafa verið veittur samkvæmt á grundvelli undanþágu frá þeirri almennu kröfu um að viðkomandi skuli hafa verið tryggður samkvæmt almannatryggingalögunum síðastliðin 3 ár fyrir tryggingaratburð.
    4.          Einstaklingar, sem eru tryggðir í Noregi og reglugerð þessi gildir um, þiggja lán eða námsstyrk úr Menntunarlánasjóði ríkisins (Statens lånekasse for utdanning) og hefja nám í öðru ríki, sem reglugerð þessi gildir um, eru tryggðir samkvæmt norska almannatryggingakerfinu. Að því er varðar nám í Danmörku, Finnlandi, Íslandi og Svíþjóð skal hlutaðeigandi námsmaður einnig vera skráður í norsku þjóðskrána. Trygging námsmanns er óháð námstíma. Stundi námsmaður starf með virkum hætti í öðru ríki, sem reglugerð þessi gildir um, er trygging hans afturkölluð.


    S.     SVISS
    1.          Ákvæði 2. gr. laga ríkjasambandsins um elli- og eftirlifendatryggingar og 1. gr. laga ríkjasambandsins um örorkutryggingar, sem gilda um valfrjálsar tryggingar á þessum tryggingasviðum, skulu gilda um einstaklinga, sem eru ríkisborgarar hinna aðildarríkjanna og eru búsettir utan Sviss, á yfirráðasvæði hinna aðildarríkjanna og yfirráðasvæði aðildarríkja Evrópubandalagsins, ef þeir gerast aðilar að valfrjálsa tryggingakerfinu eigi síðar en ári eftir þann dag sem þeir njóta ekki lengur tryggingar samkvæmt elli-, eftirlifenda- og örorkutryggingum að loknu minnst fimm ára samfelldu tryggingatímabili.

    2.          Ef einstaklingur nýtur ekki lengur trygginga samkvæmt elli-, eftirlifenda- og örorkutryggingum í Sviss eftir minnst fimm ára samfellt tryggingatímabil skal hann áfram hafa rétt til að njóta tryggingar með samþykki vinnuveitanda nema hann starfi í aðildarríki eða aðildarríki Evrópubandalagsins fyrir vinnuveitanda í Sviss og ef hann leggur fram umsókn þess efnis innan sex mánaða frá því að hann hættir að njóta tryggingar.
             3.    a)    Ef einstaklingur heyrir, við beitingu 1. mgr. 14. gr., 1. mgr. 14. gr. a og 17. gr., áfram undir löggjöf eins aðildarríkis á meðan hann hefur tekjur á yfirráðasvæði annars aðildarríkis skal hið sama gilda um maka hans og börn sem búa hjá honum á yfirráðasvæði síðarnefnda aðildarríkisins, að því tilskildu að þau hafi ekki sjálf tekjur á yfirráðasvæði þess ríkis.


        b)    Ef svissnesk löggjöf á við um maka og börn við beitingu a-liðar teljast þau vera tryggð svissneskri elli-, eftirlifenda- og örorkutryggingu.

    4.          Svissnesk lagaákvæði um skyldutryggingu samkvæmt sjúkratryggingakerfi eiga við um eftirfarandi einstaklinga sem eru ekki búsettir í Sviss:
    i)        einstaklinga sem heyra undir svissnesk lagaákvæði samkvæmt skilmálum II. bálks reglugerðarinnar;
    ii)    einstaklinga sem um gildir að Sviss telst vera lögbært ríki samkvæmt 28. gr., 28. gr. a eða 29. gr. reglugerðarinnar;
    iii)    einstaklinga sem njóta svissneskra atvinnuleysistryggingabóta;
    iv)    aðstandendur þessara einstaklinga eða starfandi einstaklings sem er búsettur í Sviss og er tryggður samkvæmt svissneska sjúkratryggingakerfinu.
    5.          Svissneskur tryggjandi skal, við beitingu 22. gr., 22. gr. a, 22. gr. b, 25. gr. og 31. gr. reglugerðarinnar bera allan kostnað sem færður er á reikninga.
    6.          Taka skal tillit til tímabils dagpeningatrygginga, sem lokið er samkvæmt tryggingakerfi annars aðildarríkis, þegar lækka skal eða auka á við hugsanlegan varasjóð fyrir dagpeningatryggingar vegna meðgöngu og fæðingar eða veikinda ef einstaklingurinn tryggir sig hjá svissneskum tryggjanda innan þriggja mánaða frá því að hann hættir að njóta trygginga í öðru ríki.
    7.          Litið skal svo á að launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur sem heyrir ekki lengur undir svissneska löggjöf um örorkutryggingar sé tryggður með þeirri tryggingu í eitt ár frá og með þeim degi sem því starfi, sem starfað var við fram að því að örorkan kom til, var raskað hafi hann orðið að láta af launuðu starfi eða sjálfstæðu starfi í Sviss vegna slyss eða sjúkdóms og ef úrskurður um örorku var metin í því ríki; honum ber að greiða framlög til elli-, eftirlifenda og örorkutrygginga eins og hann væri búsettur í Sviss.
    8.          Litið skal svo á að launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur sem heyrir ekki lengur undir svissneska löggjöf eða örorkutryggingar þar eð hann varð að hætta starfi í Sviss er tryggði honum nægar tekjur til framfærslu vegna slyss eða sjúkdóms sé áfram tryggður þeirri tryggingu með tilliti til endurhæfingarráðstafana og í þann tíma sem hann stundar slíka endurhæfingu nema því aðeins að byrji í öðru launuðu starfi utan Sviss.“


19.     Eftirfarandi bætist við VII. viðauka:
    „13.     Þegar einstaklingur búsettur á Íslandi starfar sjálfstætt á Íslandi og gegnir launuðu starfi í öðru ríki sem reglugerðin tekur til.
    14.          Þegar einstaklingur starfar sjálfstætt í Liechtenstein og gegnir launuðu starfi í öðru ríki sem reglugerðin tekur til.
    15.          Þegar einstaklingur búsettur í Noregi starfar sjálfstætt í Noregi og gegnir launuðu starfi í öðru ríki sem reglugerðin tekur til.
    16.          Þegar einstaklingur er sjálfstætt starfandi í Sviss og gegnir launuðu starfi á yfirráðasvæði annars aðildarríkis.“

2.      372 R 0574: Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 574/72 frá 21. mars 1972 sem kveður á um framkvæmd reglugerðar (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja,

eins og hún var uppfærð með:
–     397 R 0118: Reglugerð ráðsins (EB) nr. 118/97 frá 2. desember 1996 (Stjtíð. EB L 28, 30.1.97, bls. 1) um breytingu og uppfærslu á reglugerð (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja og reglugerð (EBE) nr. 574/72 sem kveður á um framkvæmd reglugerðar (EBE) nr. 1408/71,
–     397 R 1290: Reglugerð ráðsins (EB) nr. 1290/97 frá 27. júní 1997 (Stjtíð. EB L 176, 4.7.97, bls. 1) um breytingu á reglugerð (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja og reglugerð (EBE) nr. 574/72 sem kveður á um framkvæmd reglugerðar (EBE) nr. 1408/71,

–     398 R 1223: Reglugerð ráðsins (EB) nr. 1223/98 frá 4. júní 1998 (Stjtíð. EB L 168, 13.6.98, bls. 1) um breytingu á reglugerð (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja og reglugerð (EBE) nr. 574/72 sem kveður á um framkvæmd reglugerðar (EBE) nr. 1408/71,

–     398 R 1606: Reglugerð ráðsins (EB) nr. 1606/98 frá 29. júní 1998 (Stjtíð. EB L 209, 25.7.98, bls. 1) um breytingu á reglugerð (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja og reglugerð (EBE) nr. 574/72 sem kveður á um framkvæmd reglugerðar (EBE) nr. 1408/71, með það í huga að rýmka gildissvið þeirra þannig að þær nái til sérstakra bótakerfa fyrir opinbera starfsmenn,
–     399 R 0307: Reglugerð ráðsins (EB) nr. 307/1999 frá 8. febrúar 1999 (Stjtíð. EB L 38, 12.2.1999, bls. 1) um breytingu á reglugerð (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja og reglugerð (EBE) nr. 574/72 sem kveður á um framkvæmd reglugerðar (EBE) nr. 1408/71, með það í huga að rýmka gildissvið þeirra þannig að þær nái til námsmanna.

Ákvæði reglugerðarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:

1.     Eftirfarandi bætist við 1. viðauka:

    „P.     ÍSLAND
    1.         Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Reykjavík

    2.         Félagsmálaráðherra, Reykjavík

    3.         Fjármálaráðherra, Reykjavík


    Q.     LIECHTENSTEIN
    Die Regierung des Fürstentums Liechtenstein (ríkisstjórn furstadæmisins Liechtenstein), Vaduz


    R.     NOREGUR
    1.         Sosial- og helsedepartementet (heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytið), Ósló
    2.         Arbeids- og administrasjonsdepartementet (atvinnumála- og stjórnsýsluráðuneytið), Ósló
    3.         Barne- og familiedepartementet (barna- og fjölskyldumálaráðuneytið), Ósló
    4.         Justisdepartementet (dómsmálaráðuneytið), Ósló
    5.         Utenriksdepartementet (utanríkisráðuneytið), Ósló

    S.     SVISS
    1.        Bundesamt für Sozialversicherung, Bern – Office fédéral des assurances sociales, Berne – Ufficio federale delle assicurazioni sociali, Berna (almannatryggingaskrifstofa ríkjasambandsins, Bern)
    2.        Staatssekretariat für Wirtschaft, Direktion für Arbeit, Bern – Secrétariat d'Etat à l'économie, Direction du travail, Berne – Segretariato di Stato dell'economia, Direzione del lavoro, Berna (efnahagsskrifstofa ríkjasambandsins, vinnumáladeild, Bern)“.

2.     Eftirfarandi bætist við 2. viðauka:

    „P.     ÍSLAND
    1.         Vegna allra tilvika nema atvinnuleysis- og fjölskyldubóta:
            Tryggingastofnun ríkisins, Reykjavík.

    2.         Vegna atvinnuleysisbóta:
            Atvinnuleysistryggingasjóður, Vinnumálaskrifstofan, Reykjavík.

    3.         Vegna fjölskyldubóta:
             a)    Fjölskyldubætur að undanskildum barnabótum og barnabótaauka:
                       Tryggingastofnun ríkisins, Reykjavík.


             b)    Barnabætur og barnabótaauki:
                       Ríkisskattstjóri, Reykjavík.



    Q.     LIECHTENSTEIN
    1.         Bætur vegna veikinda og meðgöngu og fæðingar:
             –    viðurkenndur sjúkratryggingasjóður sem hlutaðeigandi einstaklingur er tryggður hjá; eða
             –    Amt für Volkswirtschaft (þjóðhagsstofnun).

    2.          Örorkubætur:
             a)     Örorkutryggingar:
                              Liechtensteinische Invalidenversicherung (örorkutryggingar Liechtensteins).

             b)     Bótakerfi starfsgreina:
                      lífeyrissjóðurinn sem síðasti vinnuveitandi er félagi í.
    3.          Lífeyrir vegna elli og andláts:
             a)     Elli- og eftirlifendatrygging:
                     Liechtensteinische Alters- und Hinterlassenenversicherung (elli- og eftirlifendatrygging Liechtensteins).
             b)     Bótakerfi starfsgreina:
                      lífeyrissjóðurinn sem síðasti vinnuveitandi er félagi í.
    4.          Bætur vegna vinnuslysa og atvinnusjúkdóma:
             slysatryggingasjóðurinn sem hlutaðeigandi einstaklingur er tryggður hjá; eða
             Amt für Volkswirtschaft (þjóðhagsstofnun).

    5.          Atvinnuleysisbætur:
              Amt für Volkswirtschaft (þjóðhagsstofnun).

    6.          Fjölskyldubætur:
             Liechtensteinische Familienausgleichskasse (fjölskyldubótasjóður Liechtensteins).


    R.     NOREGUR
    1.          Atvinnuleysisbætur:
            Arbeidsdirektoratet, Oslo, fylkesarbeidskontorene og de lokale arbeidskontor på bostedet eller oppholdsstedet (vinnumálaskrifstofan, Ósló, héraðsvinnumálaskrifstofur og staðbundnar vinnumálaskrifstofur á búsetustað eða dvalarstað).
    2.        Allar aðrar bætur sem heyra undir norsku almannatryggingalögin:
            Folketrygdkontoret for utenlandssaker (almannatryggingaskrifstofan vegna utanlandsmálefna), Ósló.
    3.        Fjölskyldugreiðslur:
            Rikstrygdeverket (tryggingastofnun ríkisins) Ósló og Folketrygdkontoret for utenlandssaker (almannatryggingaskrifstofan vegna utanlandsmálefna), Ósló
    4.         Lífeyristryggingakerfi sjómanna:
            Pensjonstrygden for sjømenn (lífeyristryggingar sjómanna), Ósló.
    5.        Lög frá 16. júní 1989 um atvinnuslysatryggingar (lov av 16. juni 1989 om yrkesskadeforsikring):
            Sá vátryggjandi sem vinnuveitandinn er tryggður hjá. Ef hann er ekki tryggður: Yrkesskadeforsikringsforeningen (atvinnuslysatryggingafélagið), Ósló.
    6.         Ábyrgðarkerfi fyrir almannatryggingabætur samkvæmt 32. lið í Sjómannalögunum frá 30. maí 1975 (sjømannsloven av 30. mai 1975)
             Sá vátryggjandi sem vinnuveitandinn er tryggður hjá.
    7.        Bætur samkvæmt lögum nr. 26 frá 28. júlí 1949 um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna í Noregi (lov av 28. juli 1949 nr 26 om Statens Pensjonskasse):
            Statens Pensjonskasse (lífeyrissjóður opinberra starfsmanna í Noregi).

    S.     SVISS
    1.        Bætur vegna veikinda og meðgöngu og fæðingar:
            Versicherer – Assureur – Assicuratore (tryggjandi) samkvæmt lögum ríkjasambandsins um sjúkratryggingar fyrir viðkomandi einstakling.
    2.         Örorkubætur:
            a)     Örorkutryggingar:
                      i)         Einstaklingar búsettir í Sviss:
                             IV-Stelle – Office AI – Ufficio AI (örorkutryggingaskrifstofa) kantónunnar þar sem þeir eru búsettir.
                    ii)    Einstaklingar ekki búsettir í Sviss:
                            IV-Stelle für Versicherte im Ausland, Genf – Office AI pour les assurés à l'étranger, Genève – Ufficio AI per gli assicurati all'estero, Ginevra (örorkutryggingaskrifstofa fyrir einstaklinga sem eru tryggðir erlendis, Genf).
            b)     Bótakerfi starfsgreina:
                    Lífeyrissjóðurinn sem síðasti vinnuveitandi er félagi í.
    3.         Lífeyrir vegna elli og andláts:
             a)     Elli- og eftirlifendatrygging:
                      i)         Einstaklingar búsettir í Sviss:
                              Ausgleichskasse – Caisse de compensation – Cassa di compensazione (bótasjóður) sem framlög voru síðast greidd til.

                      ii)    Einstaklingar ekki búsettir í Sviss:
                            Schweizerische Ausgleichskasse, Genf – Caisse suisse de compensation, Genève – Cassa svizzera di compensazione, Ginevra (svissneski bótasjóðurinn, Genf).

             b)     Bótakerfi starfsgreina:
                      Lífeyrissjóðurinn sem síðasti vinnuveitandi er félagi í.
    4.         Bætur vegna vinnuslysa og atvinnusjúkdóma:
             a)     Launþegar:
                    Slysatryggingasjóður sem launþeginn er tryggður hjá.
             b)     Sjálfstætt starfandi einstaklingur:
                    Slysatryggingasjóður sem viðkomandi einstaklingur kýs að tryggja sig hjá.

    5.         Atvinnuleysisbætur:
             a)     Algert atvinnuleysi:
                    Atvinnuleysistryggingasjóður að vali launþega.
             b)     Atvinnuleysi að hluta:
                    Atvinnuleysistryggingasjóður að vali launþega.
    6.         Fjölskyldubætur:
             a)     Kerfi ríkjasambandsins:
                      i)        Launþegar:
                            Kantonale Ausgleichskasse – Caisse cantonale de compensation – Cassa cantonale di compensazione (bótasjóður kantóna) þar sem launþeginn er félagi.

                      ii)    Sjálfstætt starfandi einstaklingar:
                            Kantonale Ausgleichskasse – Caisse cantonale de compensation – Cassa cantonale di compensazione (bótasjóður kantóna) í kantónu þar sem viðkomandi er búsettur.
             b)     Kerfi kantóna:
                      i)        Launþegar:
                            Familienausgleichskasse – Caisse de compensation familiale – Cassa di compensazione familiale (fjölskyldubótasjóður) þar sem launþeginn eða vinnuveitandinn er félagi.
                      ii)    Sjálfstætt starfandi einstaklingar:
                            Stofnun sem kantónan tilnefnir.“


3.      Eftirfarandi bætist aftan við 3. viðauka:

    „P. ÍSLAND
    1.        Bætur vegna veikinda, meðgöngu og fæðingar, örorku, elli, andláts, vinnuslysa og atvinnusjúkdóma:
            Tryggingastofnun ríkisins, Reykjavík.

    2.        Atvinnuleysisbætur:
            Atvinnuleysistryggingasjóður, Vinnumálaskrifstofan, Reykjavík.

    3.          Fjölskyldubætur:
             a)    Fjölskyldubætur að undanskildum barnabótum og barnabótaauka:
                    Tryggingastofnun ríkisins, Reykjavík.


            b)    Barnabætur og barnabótaauki:
                     Ríkisskattstjóri, Reykjavík.


    Q.     LIECHTENSTEIN
    1.        Bætur vegna veikinda, meðgöngu og fæðingar, vinnuslysa og atvinnusjúkdóma og atvinnuleysis:
            Amt für Volkswirtschaft (þjóðhagsstofnun).

    2.          Elli- og dánarbætur:
             a)     Elli- og eftirlifendatrygging:
                     Liechtensteinische Alters- und Hinterlassenenversicherung (elli- og eftirlifendatrygging Liechtensteins).
             b)     Bótakerfi starfsgreina:
                      Amt für Volkswirtschaft (þjóðhagsstofnun).
             c)    Atvinnutengt bótakerfi fyrir opinbera starfsmenn:
                     Stiftungsrat der Pensionskasse für das Staatspersonal (yfirstjórn atvinnutengds bótakerfis fyrir opinbera starfsmenn).
    3.          Örorkubætur:
             a)    Örorkutryggingar:
                     Liechtensteinische Invalidenversicherung (örorkutryggingar Liechtensteins).

             b)     Bótakerfi starfsgreina:
                      Amt für Volkswirtschaft (þjóðhagsstofnun).
             c)    Atvinnutengt bótakerfi fyrir opinbera starfsmenn:
                     Stiftungsrat der Pensionskasse für das Staatspersonal (yfirstjórn atvinnutengds bótakerfis fyrir opinbera starfsmenn).
    4.          Fjölskyldubætur:
             Liechtensteinische Familienausgleichskasse (fjölskyldubótasjóður Liechtensteins).


    R.     NOREGUR
    1.        De lokale arbeidskontor og trygdekontor på bostedet eller oppholdsstedet (staðbundnar vinnumálaskrifstofur og tryggingastofnanir á búsetustað eða dvalarstað).
    2.        Lög frá 16. júní 1989 um atvinnuslysatryggingar (lov av 16. juni 1989 om yrkesskadeforsikring):
            Sá vátryggjandi sem vinnuveitandinn er tryggður hjá. Ef hann er ekki tryggður: Yrkesskadeforsikringsforeningen (atvinnuslysatryggingafélagið), Ósló.
    3.        Ábyrgðarkerfi fyrir almannatryggingabætur samkvæmt 32. lið í Sjómannalögunum frá 30. maí 1975 (sjømannsloven av 30. mai 1975):
            Launþegar geta haft samband við vinnuveitanda á vinnustað, þ.e. um borð í skipi. Á dvalar- eða búsetustað skal launþegi hafa samband við vátryggjanda sem vinnuveitandi er tryggður hjá.
    4.        Bætur samkvæmt lögum nr. 26 frá 28. júlí 1949 um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna í Noregi (lov av 28. juli 1949 nr 26 om Statens Pensjonskasse):
            Statens Pensjonskasse (lífeyrissjóður opinberra starfsmanna í Noregi).

    S.     SVISS
    1.        Bætur vegna veikinda og meðgöngu og fæðingar:
            Gemeinsame Einrichtung KVG, Solothurn – Institution commune LAMal, Soleure – Istituzione commune LAMal, Soletta (samfélagsstofnun samkvæmt lögum ríkjasambandsins um sjúkratryggingar, Solothurn).
    2.         Örorkutryggingar:
             a)    Örorkutryggingar:
                    Schweizerische Ausgleichskasse, Genf – Caisse suisse de compensation, Genève – Cassa svizzera di compensazione, Ginevra (svissneski bótasjóðurinn, Genf).
            b)    Bótakerfi starfsgreina:
                    Sicherheitsfonds – Fonds de garantie – Fondo di garanzia LPP (ábyrgðarsjóður).
    3.         Lífeyrir vegna elli og andláts:
             a)     Elli- og eftirlifendatrygging:
                    Schweizerische Ausgleichskasse, Genf – Caisse suisse de compensation, Genève – Cassa svizzera di compensazione, Ginevra (svissneski bótasjóðurinn, Genf).
             b)     Bótakerfi starfsgreina:
                    Sicherheitsfonds – Fonds de garantie – Fondo di garanzia LPP (ábyrgðarsjóður).
    4.         Bætur vegna vinnuslysa og atvinnusjúkdóma:
            Schweizerische Unfallversicherungsanstalt, Luzern – Caisse nationale suisse d'assurance en cas d'accidents, Lucerne – Cassa nazionale svizzera di assicurazione contro gli incidenti, Lucerna (slysatryggingasjóður svissneska ríkisins, Lucerne).
    5.         Atvinnuleysisbætur:
             a)     Algert atvinnuleysi:
                    Atvinnuleysistryggingasjóður að vali launþega.
             b)     Atvinnuleysi að hluta:
                    Atvinnuleysistryggingasjóður að vali launþega.
    6.         Fjölskyldubætur:
            Stofnun tilnefnd af kantónuninni þar sem viðkomandi er búsettur eða gistikantónuninni.“
4.     Eftirfarandi bætist við 4. viðauka:

    „P. ÍSLAND
    1.        Bætur vegna veikinda, meðgöngu og fæðingar, örorku, elli, andláts, vinnuslysa og atvinnusjúkdóma:
            Tryggingastofnun ríkisins, Reykjavík.

    2.         Atvinnuleysisbætur:
            Atvinnuleysistryggingasjóður, Vinnumálaskrifstofan, Reykjavík.

    3.         Fjölskyldubætur:
             a)    Fjölskyldubætur að undanskildum barnabótum og barnabótaauka:
                     Tryggingastofnun ríkisins, Reykjavík.


             b)     Barnabætur og barnabótaauki:
                     Ríkisskattstjóri, Reykjavík.



    Q.     LIECHTENSTEIN
    1.        Bætur vegna veikinda, meðgöngu og fæðingar, vinnuslysa og atvinnusjúkdóma og atvinnuleysis:
            Amt für Volkswirtschaft (þjóðhagsstofnun).
    2.         Elli- og dánarbætur:
             a)     Elli- og eftirlifendatrygging:
                     Liechtensteinische Alters- und Hinterlassenenversicherung (elli- og eftirlifendatrygging Liechtensteins).
             b)     Bótakerfi starfsgreina:
                      Amt für Volkswirtschaft (þjóðhagsstofnun).
             c)    Atvinnutengt bótakerfi fyrir opinbera starfsmenn:
                     Geschäftsleitung der Pensionsversicherung für das Staatspersonal (framkvæmdastjórn atvinnutengds bótakerfis fyrir opinbera starfsmenn).
    3.         Örorkubætur:
             a)     Örorkutryggingar:
                     Liechtensteinische Invalidenversicherung (örorkutryggingar Liechtensteins).

             b)     Bótakerfi starfsgreina:
                      Amt für Volkswirtschaft (þjóðhagsstofnun).
             c)    Atvinnutengt bótakerfi fyrir opinbera starfsmenn:
                     Geschäftsleitung der Pensionsversicherung für das Staatspersonal (framkvæmdastjórn atvinnutengds bótakerfis fyrir opinbera starfsmenn).
    4.         Fjölskyldubætur:
            Liechtensteinische Familienausgleichskasse (fjölskyldubótasjóður Liechtensteins).


    R.     NOREGUR
    1.         Atvinnuleysisbætur:
            Arbeidsdirektoratet (vinnumálaskrifstofan), Ósló.
    1a.    Bætur samkvæmt lögum nr. 26 frá 28. júlí 1949 um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna í Noregi (lov av 28. juli 1949 nr 26 om Statens Pensjonskasse):
             Statens Pensjonskasse (lífeyrissjóður opinberra starfsmanna í Noregi).
    2.         Í öllum öðrum tilvikum:
            Rikstrygdeverket (tryggingastofnun ríkisins), Ósló.“.

    S.     SVISS
    1.         Bætur vegna veikinda og meðgöngu og fæðingar:
            Gemeinsame Einrichtung KVG, Solothurn – Institution commune LAMal, Soleure – Istituzione commune LAMal, Soletta (samfélagsstofnun samkvæmt lögum ríkjasambandsins um sjúkratryggingar, Solothurn).
    2.         Örorkutryggingar:
             a)     Örorkutryggingar:
                    Schweizerische Ausgleichskasse, Genf – Caisse suisse de compensation, Genève – Cassa svizzera di compensazione, Ginevra (svissneski bótasjóðurinn, Genf).
             b)     Bótakerfi starfsgreina:
                    Sicherheitsfonds – Fonds de garantie – Fondo di garanzia LPP (ábyrgðarsjóður).
    3.         Lífeyrir vegna elli og andláts:
             a)     Elli- og eftirlifendatrygging:
                    Schweizerische Ausgleichskasse, Genf – Caisse suisse de compensation, Genève – Cassa svizzera di compensazione, Ginevra (svissneski bótasjóðurinn, Genf).
             b)     Bótakerfi starfsgreina:
                    Sicherheitsfonds – Fonds de garantie – Fondo di garanzia LPP (ábyrgðarsjóður).
    4.         Bætur vegna vinnuslysa og atvinnusjúkdóma:
            Schweizerische Unfallversicherungsanstalt, Luzern – Caisse nationale suisse d'assurance en cas d'accidents, Lucerne – Cassa nazionale svizzera di assicurazione contro gli incidenti, Lucerna (slysatryggingasjóður svissneska ríkisins, Lucerne).
    5.         Atvinnuleysisbætur:
            Staatssekretariat für Wirtschaft, Direktion für Arbeit, Bern – Secrétariat d'Etat à l'économie, Direction du travail, Berne – Segretariato di Stato dell'economia, Direzione del lavoro, Berna (efnahagsskrifstofa ríkjasambandsins, vinnumáladeild, Bern).
    6.         Fjölskyldubætur:
            Bundesamt für Sozialversicherung, Bern – Office fédéral des assurances sociales, Berne – Ufficio federale delle assicurazioni sociali, Berna (almannatryggingaskrifstofa ríkjasambandsins, Bern).“

5.     Eftirfarandi bætist við 5. viðauka:

    „106.     ÍSLAND-LIECHTENSTEIN
    Á ekki við.

    107.     ÍSLAND-NOREGUR
    Ákvæði 23. gr. samnings Norðurlandanna um félagslegt öryggi frá 15. júní 1992: Samningur um gagnkvæma niðurfellingu endurgreiðslna samkvæmt 3. mgr. 36. gr., 3. mgr. 63. gr. og 3. mgr. 70. gr. reglugerðarinnar (aðstoð við veikindi og meðgöngu og fæðingu, vinnuslys og atvinnusjúkdóma og atvinnuleysisbætur) og 2. mgr. 105. gr. framkvæmdarreglugerðarinnar (kostnaður við eftirlit og læknisskoðanir).


    108.     ÍSLAND-SVISS
    Á ekki við.

    109.     LIECHTENSTEIN-NOREGUR
    Á ekki við.

    110.     LIECHTENSTEIN-SVISS
    Á ekki við.

    111.     NOREGUR-SVISS
    Á ekki við.“

6.     Eftirfarandi bætist við 6. viðauka:

    „P.     ÍSLAND
    Beinar greiðslur.

    Q.     LIECHTENSTEIN
    Beinar greiðslur.

    R.     NOREGUR
    Beinar greiðslur.

    S.     SVISS
    Beinar greiðslur.“

7.     Eftirfarandi bætist við 7. viðauka:

    „P.     ÍSLAND:
    Enginn.

    Q.     LIECHTENSTEIN:
    Liechtensteinische Landesbank (Landsbanki Liechtenstein), Vaduz.

    R.     NOREGUR:
    Sparebanken NOR (Sparisjóður Noregs), Ósló.


    S.     SVISS
    UBS S.A., Genf – Genève – Ginevra – Geneva.“

8.    Eftirfarandi er bætt inn við lok a-liðar í þætti A í 8. viðauka:

    „Ísland og Liechtenstein
    Ísland og Noregur
    Liechtenstein og Noregur“.

9.     Eftirfarandi bætist við 9. viðauka:

    „P. ÍSLAND
    Þegar meðaltalskostnaður á ári vegna aðstoðar er reiknaður út skal taka tillit til bóta sem veittar eru samkvæmt íslenskum almannatryggingareglum.

    Q. LIECHTENSTEIN
    Þegar meðaltalskostnaður á ári vegna aðstoðar er reiknaður út skal taka tillit til bóta sem viðurkenndir sjúkrasjóðir greiða í samræmi við ákvæði innlendrar löggjafar um sjúkratryggingar.


    R. NOREGUR
    Þegar meðaltalskostnaður á ári vegna aðstoðar er reiknaður út skal taka tillit til bóta sem veittar eru samkvæmt 5. kafla almannatryggingalaganna (lög frá 28. febrúar 1997), samkvæmt lögum frá 19. nóvember 1982 um heilsugæslu á vegum sveitarfélaga, samkvæmt lögum frá 2. júlí 1999 um sérhæfða heilbrigðisþjónustu.

    S.     SVISS
    Þegar meðaltalskostnaður á ári vegna aðstoðar er reiknaður út skal taka tillit til bóta sem tryggjendur veita samkvæmt lögum ríkjasambandsins um sjúkratryggingar.“

10.     Eftirfarandi bætist við 10. viðauka:

    „P. ÍSLAND
    1.        Við beitingu á d-lið 2. mgr. 13. gr., a-lið 1. mgr. 14. gr., b-lið 2. mgr. 14. gr., a-lið 1. mgr. 14. gr. a, 2. mgr. 14. gr. a, 4. mgr. 14. gr. a, 1. mgr. 14. gr. b, 2. mgr. 14. gr. b, 4. mgr. 14. gr. b og a-lið 14. gr. c í reglugerðinni og 11. gr., 11. gr. a, a-lið 2. mgr. 12. gr. a, c-lið 5. mgr. 12. gr. a og a-lið 7. mgr. 12. gr. a í framkvæmdarreglugerðinni:
            Alþjóðadeild Tryggingastofnunar ríkisins, Reykjavík.
    2.         Við beitingu 17. gr. reglugerðarinnar:
            Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, Reykjavík.


    3.        Við beitingu 1., 2., 3., 4., 5. og 8. kafla í III. bálki reglugerðarinnar og ákvæða sem tengjast þessum ákvæðum í framkvæmdarreglugerðinni:
            Tryggingastofnun ríkisins, Reykjavík.

    4.        Við beitingu 6. kafla í III. bálki reglugerðarinnar og ákvæða sem tengjast þessum ákvæðum í framkvæmdarreglugerðinni:
            Atvinnuleysistryggingasjóður, Vinnumálaskrifstofan, Reykjavík.


    5.        Við beitingu 7. kafla í III. bálki reglugerðarinnar og ákvæða sem tengjast þessum ákvæðum í framkvæmdarreglugerðinni:
            Ríkisskattstjóri, Reykjavík



    Q.     LIECHTENSTEIN
    1.         Við beitingu 1. mgr. 11. gr. framkvæmdarreglugerðarinnar:
            a)    Í tengslum við 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 14. gr. b í reglugerðinni:
                     Liechtensteinische Alters-, Hinterlassenen- und Invalidenversicherung (elli-, eftirlifenda- og örorkutryggingar Liechtensteins).
             b)    Í tengslum við 17. gr. reglugerðarinnar:
                     Amt für Volkswirtschaft (þjóðhagsstofnun).

    2.         Við beitingu 1. mgr. 11. gr. a í framkvæmdarreglugerðinni:
             a)    Í tengslum við 1. mgr. 14. gr. a og 2. mgr. 14. gr. b í reglugerðinni:
                     Liechtensteinische Alters-, Hinterlassenen- und Invaliden versicherung (elli-, eftirlifenda- og örorkutryggingar Liechtensteins).
             b)    Í tengslum við 17. gr. reglugerðarinnar:
                     Amt für Volkswirtschaft (þjóðhagsstofnun).

    3.        Við beitingu 2. og 3. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 14. gr. framkvæmdarreglugerðarinnar:
            Amt für Volkswirtschaft und Liechtensteinische Alters-, Hinterlassenen- und Invalidenversicherung (þjóðhagsstofnun og elli-, eftirlifenda- og örorkutryggingar Liechtensteins).


    4.        Við beitingu 38. gr. (1. mgr.), 70. gr. (1. og 2. mgr.), 82. gr. og 86. gr. (2. mgr.) framkvæmdarreglugerðarinnar:
            Gemeindeverwaltung (sveitarstjórn) á búsetustað.
    5.         Við beitingu 2. mgr. 80. gr. og 81. gr. framkvæmdarreglugerðarinnar:
            Amt für Volkswirtschaft (þjóðhagsstofnun).

    6.        Við beitingu 2. mgr. 102. gr. framkvæmdarreglugerðarinnar í tengslum við 36., 63. og 70. gr. reglugerðarinnar:
            Amt für Volkswirtschaft (þjóðhagsstofnun).

    7.         Við beitingu 2. mgr. 113. gr. framkvæmdarreglugerðarinnar:
            Amt für Volkswirtschaft (þjóðhagsstofnun).


    R.     NOREGUR
    1.        Við beitingu a- og b-liðar 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, a-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 11. gr. og framkvæmdarreglugerðarinnar, þegar vinnan fer fram utan Noregs, og b-liðar 1. mgr. 14. gr. a reglugerðarinnar:
            Folketrygdkontoret for utenlandssaker (tryggingastofnunin vegna utanlandsmálefna), Ósló.
    2.        Við beitingu a-liðar 1. mgr. 14. gr. a reglugerðarinnar fari vinnan fram í Noregi:
            Staðartryggingaskrifstofan í sveitarfélaginu þar sem hlutaðeigandi einstaklingur er búsettur.
    3.        Við beitingu a- og b-liðar 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar gegni hlutaðeigandi einstaklingur störfum í Noregi:
            Staðartryggingaskrifstofan í sveitarfélaginu þar sem vinnuveitandi hefur skráða skrifstofu og hafi vinnuveitandinn enga skráða skrifstofu í Noregi, Stavanger trygdekontor (staðartryggingaskrifstofan í Stavanger), Stavanger
    4.         Við beitingu 2. og 3. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar:
            Staðartryggingaskrifstofan í sveitarfélaginu þar sem hlutaðeigandi einstaklingur er búsettur.
    5.         Við beitingu 2. mgr. 14. gr. a reglugerðarinnar:
            Staðartryggingaskrifstofan í sveitarfélaginu þar sem vinnan fer fram.
    6.         Við beitingu 1. og 2. mgr. 14. gr. b reglugerðarinnar:
            Folketrygdkontoret for utenlandssaker (tryggingastofnunin vegna utanlandsmálefna), Ósló.
    7.         Við beitingu 17. gr. reglugerðarinnar:

            a)    Folketrygdkontoret for utenlandssaker (tryggingastofnunin vegna utanlandsmálefna), Ósló.
            b)    Stavanger trygdekontor (staðartryggingaskrifstofan í Stavanger), Stavanger, þegar um ræðir sérstaklega:
                     i)        þá sem vinna í Noregi fyrir erlendan vinnuveitanda sem hefur ekki skráða skrifstofu í Noregi,
                     ii)    þá sem vinna í Noregi fyrir vinnuveitanda sem hefur skráða skrifstofu í Stavanger.
    8.        Við beitingu 36., 63. og 87. gr. reglugerðarinnar og 2. mgr. 102. gr. og 1. mgr. 105. gr. framkvæmdarreglugerðarinnar:
            Rikstrygdeverket (tryggingastofnun ríkisins), Ósló.
    9.        Við beitingu annarra ákvæða 1., 2., 3., 4., 5., 7. og 8. kafla III. bálks reglugerðarinnar og ákvæða sem tengjast þeim ákvæðum í framkvæmdarreglugerðinni:
            Rikstrygdeverket (tryggingastofnun ríkisins), Ósló og tilnefndir aðilar (Folketrygdkontoret for utenlandssaker (Tryggingastofnunin vegna utanlandsmálefna), Ósló, svæðistryggingaskrifstofur og staðartryggingaskrifstofur).

    10.    Við beitingu 6. kafla III. bálks reglugerðarinnar og ákvæða sem tengjast þeim ákvæðum í framkvæmdarreglugerðinni:
            Arbeidsdirektoratet (vinnumálaskrifstofan), Ósló og þeir aðilar sem hún hefur tilnefnt.

    11.    Við beitingu 10. gr. a reglugerðarinnar og 2. gr. framkvæmdarreglugerðarinnar:
            Folketrygdkontoret for utenlandssaker (tryggingastofnunin vegna utanlandsmálefna), Ósló.

    12.    Vegna lífeyristryggingakerfis sjómanna:

             a)    Staðartryggingaskrifstofan á búsetustað sé hlutaðeigandi einstaklingur búsettur í Noregi.
             b)    Folketrygdkontoret for utenlandssaker (tryggingastofnunin vegna utanlandsmálefna), Ósló í tengslum við greiðslu bóta til einstaklinga sem eru búsettir erlendis.
    13.    Bætur samkvæmt lögum nr. 26 frá 28. júlí 1949 um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna í Noregi (lov av 28. juli 1949 nr 26 om Statens Pensjonskasse):
            Statens Pensjonskasse (lífeyrissjóður opinberra starfsmanna í Noregi).

    S.     SVISS
    1.         Við beitingu 1. mgr. 11. gr. framkvæmdarreglugerðarinnar:
             a)    að því er varðar 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 14. gr. b í reglugerðinni:
                    Ausgleichskasse der Alters-, Hinterlassenen- und Invalidenversicherung – Caisse de compensation de l'assurance-vieillesse, survivants et invalidité – Cassa die compensazione dell'assicurazione vecchiaia, superstiti e invalidità (þar til bær bótasjóður vegna elli-, eftirlifenda- og örorkutrygginga);

             b)     að því er varðar 17. gr. í reglugerðinni:
                    Bundesamt für Sozialversicherung, Bern – Office fédéral des assurances sociales, Berne – Ufficio federale delle assicurazioni sociali, Berna (almannatryggingaskrifstofa ríkjasambandsins, Bern).
    2.         Við beitingu 1. mgr. 11. gr. a í framkvæmdarreglugerðinni:
             a)    að því er varðar 1. mgr. 14. gr. a og 2. mgr. 14. gr. b í reglugerðinni:
                    Ausgleichskasse der Alters-, Hinterlassenen- und Invalidenversicherung – Caisse de compensation de l'assurance-vieillesse, survivants et invalidité – Cassa die compensazione dell'assicurazione vecchiaia, superstiti e invalidità (þar til bær bótasjóður vegna elli-, eftirlifenda- og örorkutrygginga);

             b)     að því er varðar 17. gr. í reglugerðinni:
                    Bundesamt für Sozialversicherung, Bern – Office fédéral des assurances sociales, Berne – Ufficio federale delle assicurazioni sociali, Berna (almannatryggingaskrifstofa ríkjasambandsins, Bern).
    3.         Við beitingu 12. gr. a í framkvæmdarreglugerðinni:
            Ausgleichskasse der Alters-, Hinterlassenen-und Invalidenversicherung – Caisse de compensation de l'assurance-vieillesse, survivants et invalidité – Cassa die compensazione dell'assicurazione vecchiaia, superstiti e invalidità (þar til bær bótasjóður vegna elli-, eftirlifenda- og örorkutrygginga).

    4.        Við beitingu 2. og 3. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 14. gr. í framkvæmdarreglugerðinni:
            Eidgenössische Ausgleichskasse, Bern – Caisse fédérale de compensation, Berne – Cassa federale di compensazione, Berna (almannatryggingaskrifstofa ríkjasambandsins, Bern).
    5.        Við beitingu 38. gr. (1. mgr.), 70. gr. (1. mgr.), 82. gr. (2. mgr.) og 86. gr. (2. mgr.) í framkvæmdarreglugerðinni:
            Gemeindeverwaltung – Administration communale – Amministrazione communale (staðaryfirvöld).
    6.         Við beitingu 2. mgr. 80. gr. og 81. gr. í framkvæmdarreglugerðinni:
            Staatssekretariat für Wirtschaft, Direktion für Arbeit, Bern – Secrétariat d'Etat à l'économie, Direction du travail, Berne – Segretariato di Stato dell'economia, Direzione del lavoro, Berna (efnahagsskrifstofa ríkjasambandsins, vinnumáladeild, Bern).

    7.         Við beitingu 2. mgr. 102. gr. í framkvæmdarreglugerðinni:
             a)     að því er varðar 36. gr. í reglugerðinni:
                    Gemeinsame Einrichtung KVG, Solothurn – Institution commune LAMal, Soleure – Istituzione commune LAMal, Soletta (samfélagsstofnun samkvæmt lögum ríkjasambandsins um sjúkratryggingar, Solothurn);

             b)     að því er varðar 63. gr. í reglugerðinni:
                    Schweizerische Unfallversicherungsanstalt, Luzern – Caisse nationale Suisse d'assurance en cas d'accidents, Lucerne – Cassa nazionale svizzera di assicurazione contro gli incidenti, Lucerna (slysatryggingasjóður svissneska ríkisins, Lucerne);

             c)     að því er varðar 70. gr. í reglugerðinni:
                    Staatssekretariat für Wirtschaft, Direktion für Arbeit, Bern – Secrétariat d'Etat à l'économie, Direction du travail, Berne – Segretariato di Stato dell'economia, Direzione del lavoro, Berna (efnahagsskrifstofa ríkjasambandsins, vinnumáladeild, Bern).

    8.         Við beitingu 2. mgr. 113. gr. í framkvæmdarreglugerðinni:
             a)    að því er varðar 1. mgr. 20. gr. í reglugerðinni:
                    Gemeinsame Einrichtung KVG, Solothurn – Institution commune LAMal, Soleure – Istituzione commune LAMal, Soletta (samfélagsstofnun samkvæmt lögum ríkjasambandsins um sjúkratryggingar, Solothurn);
             b)    að því er varðar 1. mgr. 62. gr. í framkvæmdarreglugerðinni:
                    Schweizerische Unfallversicherungsanstalt, Luzern – Caisse nationale Suisse d'assurance en cas d'accidents, Lucerne – Cassa nazionale svizzera di assicurazione contro gli incidenti, Lucerna (slysatryggingasjóður svissneska ríkisins, Lucerne).“

11.     Eftirfarandi bætist við 11. viðauka:

    „P.     ÍSLAND
    Engar.

    Q.     LIECHTENSTEIN
    Engar.

    R.     NOREGUR
    Engar.

    S.     SVISS
    Engar.“

3.      398 L 0049: Tilskipun ráðsins 98/49/EB frá 29. júní 1998 um verndun viðbótarlífeyrisréttinda launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem flytjast á milli aðildarríkja (Stjtíð. EB L 209, 25.7.1998, bls. 46).


B-HLUTI: GERÐIR SEM SAMNINGSAÐILAR SKULU TAKA TILHLÝÐILEGT TILLIT TIL

4.1 373 Y 0919(02): Ákvörðun nr. 74 frá 22. febrúar 1973 um heilsugæslu þegar um tímabundna dvöl er að ræða samkvæmt i-lið a-liðar 1. mgr. 22. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 og 21. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 574/72 (Stjtíð. EB nr. C 75, 19.9.1973, bls. 4).

4.2 373 Y 0919(03): Ákvörðun nr. 75 frá 22. febrúar 1973 varðandi umfjöllun umsókna sem taka á til endurskoðunar samkvæmt 5. mgr. 94. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71, óski örorkulífeyrisþegi þess (Stjtíð. EB nr. C 75, 19.9.1973, bls. 5).

4.3 373 Y 0919(06): Ákvörðun nr. 78 frá 22. febrúar 1973 um túlkun á a-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 574/72 varðandi framkvæmd ákvæða um skerðingu og frestun (Stjtíð. EB nr. C 75, 19.9.1973, bls. 8).

4.4 373 Y 0919(07): Ákvörðun nr. 79 frá 22. febrúar 1973 um túlkun á 2. mgr. 48. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 varðandi söfnun tryggingatímabila sem farið er með sem slík að því er varðar tryggingar vegna örorku, elli og andláts (Stjtíð. EB nr. C 75, 19.9.1973, bls. 9).

4.5 373 Y 0919(09): Ákvörðun nr. 81 frá 22. febrúar 1973 um söfnun tryggingatímabila sem lokið hefur verið í tilteknu starfi samkvæmt 2. mgr. 45. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 (Stjtíð.EB nr. C 75, 19.9.1973, bls. 11).

4.6 373 Y 0919(11): Ákvörðun nr. 83 frá 22. febrúar 1973 um túlkun á 2. mgr. 68. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 og 82. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 574/72 varðandi hækkun atvinnuleysisbóta vegna aðstandenda sem viðkomandi hefur á framfæri (Stjtíð. EB nr. C 75, 19.9.1973, bls. 14).


4.7 373 Y 0919(13): Ákvörðun nr. 85 frá 22. febrúar 1973 um túlkun á 1. mgr. 57. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 og á 3. mgr. 67. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 574/72 til ákvörðunar á viðeigandi löggjöf og stofnun sem ber ábyrgð á að greiða bætur vegna atvinnusjúkdóma (Stjtíð. EB nr. C 75, 19.9.1973, bls. 17).


4.8 373 Y 1113(02): Ákvörðun nr. 86 frá 24. september 1973 um starfshætti og samsetningu endurskoðunarnefndar framkvæmdaráðs Evrópubandalaganna um félagslegt öryggi farandlaunþega (Stjtíð. EB nr. C 96, 13.11.1973, bls. 2), eins og henni var breytt með: 395 D 0512: Ákvörðun nr. 159 frá 3. október 1995 (Stjtíð. EB nr. L 294, 8.12.1995, bls. 38).

4.9 374 Y 0720(06): Ákvörðun nr. 89 frá 20. mars 1973 um túlkun á 1. og 2. mgr. 16. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 varðandi starfsmenn sendiráða eða ræðismannsskrifstofa (Stjtíð. EB nr. C 86, 20.7.1974, bls. 7).

4.10 374 Y 0720(07): Ákvörðun nr. 91 frá 12. júlí 1973 um túlkun á 3. mgr. 46. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 varðandi úthlutun bóta sem viðkomandi á rétt á samkvæmt 1. mgr. umræddrar greinar (Stjtíð. EB nr. C 86, 20.7.1974, bls. 8).

4.11 374 Y 0823(04): Ákvörðun nr. 95 frá 24. janúar 1974 um túlkun á 2. mgr. 46. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 um útreikning á hlutfallslegum lífeyri (Stjtíð. EB nr. C 99, 23.8.1974, bls. 5).


4.12 374 Y 1017(03): Ákvörðun nr. 96 frá 15. mars 1974 varðandi endurskoðun bótaréttar samkvæmt 2. mgr. 49. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 (Stjtíð. EB nr. C 126, 17.10.1974, bls. 23).

4.13 375 Y 0705(02): Ákvörðun nr. 99 frá 13. mars 1975 um túlkun á 1. mgr. 107. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 574/72 varðandi þá skyldu að endurreikna gildandi bætur (Stjtíð. EB nr. C 150, 5.7.1975, bls. 2).

4.14 375 Y 0705(03): Ákvörðun nr. 100 frá 23. janúar 1975 um endurgreiðslu bóta í peningum sem stofnun á dvalar- eða búsetustað veitir fyrir hönd þar til bærrar stofnunar og hvernig endurgreiðslu þessara bóta er háttað (Stjtíð. EB nr. C 150, 5.7.1975, bls. 3).


4.15 376 Y 0526(03): Ákvörðun nr. 105 frá 19. desember 1975 um framkvæmd 50. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 (Stjtíð. EB nr. C 117, 26.5.1976, bls. 3).

4.16 378 Y 0530(02): Ákvörðun nr. 109 frá 18. nóvember 1977 um breytingu á ákvörðun nr. 92 frá 22. nóvember 1973 varðandi hugtakið tryggingaraðstoð vegna veikinda og meðgöngu og fæðingar sem um getur í 19. gr. (1. og 2. mgr.), 22. gr., 25. gr. (1., 3. og 4. mgr.), 26. gr., 28. gr. (1. mgr.), 28. gr. a, 29. gr. og 31. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 og ákvörðun þeirrar upphæðar sem á að endurgreiða samkvæmt 93., 94. og 95. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 574/72, svo og fyrirframgreiðslna samkvæmt 4. mgr. 102. gr. sömu reglugerðar (Stjtíð. EB nr. C 125, 30.5.1978, bls. 2).

4.17 383 Y 0115: Ákvörðun nr. 115 frá 15. desember 1982 varðandi gervilimi, meiri háttar hjálpartæki eða aðra verulega aðstoð sem kveðið er á um í 2. mgr. 24. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 (Stjtíð. EB nr. C 193, 20.7.1983, bls. 7).

4.18 383 Y 0117: Ákvörðun nr. 117 frá 7. júlí 1982 varðandi skilyrði fyrir framkvæmd a-liðar 1. mgr. 50. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 574/72 (Stjtíð. EB nr. C 238, 7.9.1983, bls. 3).

Ákvæði ákvörðunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:


Eftirfarandi bætist við 2. mgr. 2. liðar:

„Ísland
Tryggingastofnun ríkisins, Reykjavík.


Liechtenstein
Liechtensteinische Alters-, Hinterlassenen- und Invalidenversicherung (Elli-, eftirlifenda- og örorkutryggingar Liechtenstein), Vaduz.

Noregur
Rikstrygdeverket (Tryggingastofnun ríkisins), Ósló.


Sviss
Schweizerische Ausgleichskasse, Genf – Caisse suisse de compensation, Genève – Cassa svizzera di compensazione, Ginevra (svissneski bótasjóðurinn, Genf).“

4.19 383 Y 1112(02): Ákvörðun nr. 118 frá 20. apríl 1983 varðandi skilyrði fyrir framkvæmd b-liðar 1. mgr. 50. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 574/72 (Stjtíð. EB nr. C 306, 12.11.1983, bls. 2).

Ákvæði ákvörðunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:


Eftirfarandi bætist við 4. mgr. 2. liðar:

„Ísland
Tryggingastofnun ríkisins, Reykjavík.


Liechtenstein
Liechtensteinische Alters-, Hinterlassenen- und Invalidenversicherung (elli-, eftirlifenda- og örorkutryggingar Liechtensteins), Vaduz.

Noregur
Rikstrygdeverket (Tryggingastofnun ríkisins), Ósló.


Sviss
Schweizerische Ausgleichskasse, Genf – Caisse suisse de compensation, Genève – Cassa svizzera di compensazione, Ginevra (svissneski bótasjóðurinn, Genf).“

4.20 383 Y 1102(03): Ákvörðun nr. 119 frá 24. febrúar 1983 um túlkun á 76. gr. og 3. mgr. 79. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 og á 1. mgr. 10. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 574/72 varðandi skörun fjölskyldubóta og -greiðslna (Stjtíð. EB nr. C 295, 2.11.1983, bls. 3).


4.21 383 Y 0121: Ákvörðun nr. 121 frá 21. apríl 1983 um túlkun á 7. mgr. 17. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 574/72 varðandi gervilimi, meiri háttar hjálpartæki eða aðra verulega aðstoð (Stjtíð. EB nr. C 193, 20.7.1983, bls. 10).


4.22 386 Y 0126: Ákvörðun nr. 126 frá 17. október 1985 um beitingu a-liðar 1. mgr. 14. gr., a-liðar 1. mgr. 14. gr. a og 1. og 2. mgr. 14. gr. b í reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1408/71 (Stjtíð. EB nr. C 141, 7.6.1986, bls. 3).

4.23 387 Y 1009(01): Ákvörðun nr. 132 frá 23. apríl 1987 um túlkun á ii-lið í a-lið 3. mgr. 40. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 (Stjtíð. EB nr. C 271, 9.10.1987, bls. 3).

4.24 387 Y 1022(01): Ákvörðun nr. 133 frá 2. júlí 1987 um beitingu 7. mgr. 17. gr. og 6. mgr. 60. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 574/72 (Stjtíð. EB nr. C 284, 22.10.1987, bls. 3 og Stjtíð. EB nr. C 64, 9.3.1988, bls. 13).

4.25 388 Y 0309(01): Ákvörðun nr. 134 frá 1. júlí 1987 um túlkun á 2. mgr. 45. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 varðandi söfnun tryggingatímabila sem lokið hefur verið í starfsgrein sem heyrir undir sérstakt bótakerfi í einu eða fleiri aðildarríkjum (Stjtíð. EB nr. C 64, 9.3.1988, bls. 4).

4.26 388 Y 0309(03): Ákvörðun nr. 135 frá 1. júlí 1987 um veitingu þeirrar aðstoðar sem kveðið er á um í 7. mgr. 17. gr. og 6. mgr. 60. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 574/72 og hugtökin bráðatilvik í skilningi 20. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 og neyðartilvik í skilningi 7. mgr. 17. gr. og 6. mgr. 60. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 574/72 (Stjtíð. EB nr. C 281, 9.3.1988, bls. 7).


Ákvæði ákvörðunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:


Eftirfarandi bætist við 2. gr. nr. 2:
– „CHF 800 að því er varðar stofnun á búsetustað í Sviss;“
– „EUR 500 að því er varðar stofnanir á búsetustað á Íslandi, í Liechtenstein og Noregi“.

4.27 388 Y 0309(01): Ákvörðun nr. 136 frá 1. júlí 1987 um túlkun á 1. til 3. mgr. 45. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 um að tryggingatímabil sem lokið er samkvæmt löggjöf annarra aðildarríkja verði tekin til greina til að öðlast, viðhalda eða endurheimta rétt til bóta (Stjtíð. EB nr. C 64, 9.3.1988, bls. 7).

Ákvæði ákvörðunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:


Eftirfarandi bætist við viðaukann:

„P.     ÍSLAND
Engin.

Q.     LIECHTENSTEIN
Engin.

R.     NOREGUR
Engin.

S.     SVISS
Engin.“

4.28 389 Y 0606(01): Ákvörðun nr. 137 frá 15. desember 1988 um beitingu 3. mgr. 15. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 574/72 (Stjtíð. EB nr. C 140, 6.6.1989, bls. 3).

4.29 389 Y 1115(01): Ákvörðun nr. 138 frá 17. febrúar 1989 um túlkun á i-lið í c-lið 1. mgr. 22. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 við líffæraflutninga eða annars konar skurðlækningar sem krefjast líffræðilegra prófana en hlutaðeigandi einstaklingur er ekki í aðildarríkinu þar sem prófanirnar fara fram (Stjtíð. EB nr. C 287, 15.11.1989, bls. 3).


4.30 390 Y 0412(01): Ákvörðun nr. 139 frá 30. júní 1989 um það við hvaða dagsetningu skuli miða er ákvarða á hvaða gengi verði notað við umreikninginn sem um getur í 107. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 574/72 þegar tilteknar bætur og framlög eru reiknuð (Stjtíð. EB nr. C 94, 12.4. 1990, bls. 3).

4.31 390 Y 0412(02): Ákvörðun nr. 140 frá 17. október 1989 um það hvaða gengi verði notað af stofnun á búsetustað launþega, sem sækir vinnu yfir landamæri og er með öllu atvinnulaus, vegna síðasta kaups eða launa sem honum voru greidd í lögbæra ríkinu (Stjtíð. EB nr. C 94, 12.4.1990, bls. 4).

4.32 390 Y 0412(03): Ákvörðun nr. 141 frá 17. október 1989 um breytingu á ákvörðun nr. 127 frá 17. október 1985 varðandi söfnun skránna sem kveðið er á um í 4. mgr. 94. gr. og 4. mgr. 95. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 574/72 (Stjtíð. EB C 94, 12. 4. 1990, bls. 5).

4.33 390 Y 0330(01): Ákvörðun nr. 142 frá 13. febrúar 1990 um beitingu 73., 74. og 75. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 (Stjtíð. EB nr. C 80, 30.3.1990, bls. 7).

Ákvæði ákvörðunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:


a)     1. tölul. gildir ekki.
b)     3. tölul. gildir ekki.

4.34 391 D 0140: Ákvörðun nr. 144 frá 9. apríl 1990 um eyðublöð sem eru nauðsynleg vegna beitingar reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 og (EBE) nr. 574/72 (E 401 – E 410 F) (Stjtíð. EB nr. L 71, 18. 3. 1991, bls. 1).

4.35 391 D 0425: Ákvörðun nr. 147 frá 11. október 1990 um beitingu 76. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 (Stjtíð. EB nr. L 235, 23.8.1991, bls. 21), eins og henni var breytt með:
–     395 D 2353: Ákvörðun nr. 155 frá 6. júlí 1994 (E 401 til 411) (Stjtíð. EB nr. 209, 5.9.1995, bls. 1).

4.36 393 D 0068: Ákvörðun nr. 148 frá 25. júní 1992 um notkun vottorðs varðandi gildandi löggjöf (eyðublað E 101) þegar starfstímabil utan heimalands varir ekki lengur en þrjá mánuði (Stjtíð. EB nr. L 22, 30.1.1993, bls. 124).

4.37 393 D 0825: Ákvörðun nr. 150 frá 26. júní 1992 um beitingu 77., 78. og 79. (3. mgr.) gr. reglugerðar (EBE) nr. 1408/71 og ii-liðar í b-lið 1. mgr. 10. gr. reglugerðar (EBE) nr. 574/72 (Stjtíð. EB nr. C 229, 25.8.1993, bls. 5).

Ákvæði ákvörðunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:


Eftirfarandi bætist við viðaukann:

„P.     ÍSLAND
Tryggingastofnun ríkisins, Laugavegur 114, 150 Reykjavík.

Q.     LIECHTENSTEIN
1.     Fjölskyldubætur:
    Liechtensteinische Familienausgleichskasse (fjölskyldubótasjóður Liechtensteins).
2.    Lífeyrir til barna sem hafa misst annað eða bæði foreldri:
    Liechtensteinische Alters- und Hinterlassenenversicherung (elli- og eftirlifendatryggingar Liechtensteins).

R.     NOREGUR
Folketrygdkontoret for Utenlandssaker (tryggingastofnunin vegna utanlandsmálefna), Ósló.

S.     SVISS
Schweizerische Ausgleichskasse, Genf – Caisse suisse de compensation, Genève – Cassa svizzera di compensazione, Ginevra (svissneski bótasjóðurinn, Genf).“

4.38 394 D 0602: Ákvörðun nr. 151 frá 22. apríl 1993 um beitingu 10. gr. a í reglugerð (EBE) nr. 1408/71 og 2. gr. reglugerðar (EBE) nr. 1247/92 (Stjtíð. EB nr. L 244, 19.9.1994, bls. 1).

Ákvæði ákvörðunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:


Eftirfarandi bætist við viðaukann:

„13.     Ísland:
– Tryggingastofnun ríkisins, Laugavegur 114, 150 Reykjavík.

14.     Noregur:
– Folketrygdkontoret for Utenlandssaker (Tryggingastofnunin vegna utanlandsmálefna), Ósló.

15.     Liechtenstein:
– Amt für Volkswirtschaft (þjóðhagsstofnun) að því er varðar greiðslur vegna meðgöngu og fæðingar
– Liechtensteinische Alters- und Hinterlassenenversicherung (elli- og eftirlifendatryggingar Liechtensteins) að því er varðar greiðslur til ekkla, viðbótarbætur vegna elli-, eftirlifenda- og örorkutryggingar og bjargarleysisgreiðslur

– Liechtensteinische Invalidenversicherung (örorkutryggingar) að því er varðar greiðslur til blindra.


16.     Sviss:
1.     Örorka, elli og andlát:
    a)     Elli-, eftirlifenda- og örokutryggingar:
            Schweizerische Ausgleichskasse, Genf – Caisse suisse de compensation, Genève – Cassa svizzera di compensazione, Ginevra (svissneski bótasjóðurinn, Genf).
    b)     Bótakerfi starfsgreina:
            Sicherheitsfonds – Fonds de garantie – Fondo di garanzia LPP. Sú stofnun sem ber ábyrgð á elli-, eftirlifenda- og örorkutryggingum samkvæmt lögum ríkjasambandsins um bótakerfi starfsgreina.
2.     Atvinnuleysisbætur
    Staatssekretariat für Wirtschaft, Direktion für Arbeit, Bern – Secrétariat d'Etat à l'économie, Direction du travail, Berne – Segretariato di Stato dell'economia, Direzione del lavoro, Berna – (efnahagsskrifstofa ríkjasambandsins, vinnumáladeild, Bern).
3.     Fjölskyldubætur
    Bundesamt für Sozialversicherung, Bern – Office fédéral des assurances sociales, Berne – Ufficio federale delle assicurazioni sociali, Berna (almannatryggingaskrifstofa ríkjasambandsins, Bern).“

4.39 394 D 0604: Ákvörðun nr. 153 frá 7. október 1993 um eyðublöð sem eru nauðsynleg vegna beitingar reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 og (EBE) nr. 574/72 (E 001, E 103 til E 127) (Stjtíð. EB nr. L 244, 19. 9. 1994, bls. 22).

4.40 394 D 0605: Ákvörðun nr. 154 frá 8. febrúar 1994 um eyðublöð sem eru nauðsynleg vegna beitingar reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 og (EBE) nr. 574/72 (E 301, E 302, E 303) (Stjtíð. EB nr. L 244, 19. 9. 1994, bls. 123).

4.41 395 D 0353: Ákvörðun nr. 155 frá 6. júlí 1994 um eyðublöð sem eru nauðsynleg vegna beitingar reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 og (EBE) nr. 574/72 (E 401 – E 411) (Stjtíð. EB nr. L 209, 5. 9. 1995, bls. 1).

4.42 395 D 0419: Ákvörðun nr. 156 frá 7. apríl 1995 um forgangsreglur í tengslum við bótarétt vegna veikinda og meðgöngu og fæðingar (Stjtíð. EB nr. L 249, 17.10.1995, bls. 41).

4.43 396 D 0732: Ákvörðun nr. 158 frá 27. nóvember 1995 um eyðublöð sem eru nauðsynleg vegna beitingar reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 og (EBE) nr. 574/72 (E 201 – E 215) (Stjtíð. EB nr. L 336, 27. 12. 1996, bls. 1).

4.44 395 D 0512: Ákvörðun nr. 159 frá 3. október 1995 um breytingu á ákvörðun nr. 86 frá 24. september 1973 um starfshætti og samsetningu endurskoðunarnefndar framkvæmdaráðs Evrópubandalaganna um félagslegt öryggi farandlaunþega (Stjtíð. EB L 294, 8.12.1995 p. 38).


4.45 396 D 0172: Ákvörðun nr. 160 frá 28. nóvember 1995 um gildissvið ii-liðar í b-lið 1. mgr. 71. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 varðandi rétt launþega, annarra en þeirra sem sækja vinnu yfir landamæri, sem voru búsettir í öðru aðildarríki en hinu lögbæra ríki þegar þeir höfðu síðast atvinnu, til atvinnuleysisbóta (Stjtíð. EB nr. L 49, 28.2.1996, bls. 31).

4.46 396 D 0249: Ákvörðun nr. 161 frá 15. febrúar 1996 um endurgreiðslu þar til bærrar stofnunar aðildarríkis á kostnaði sem stofnað er til á meðan dvalist er í öðru aðildarríki í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 4. mgr. 34. gr. reglugerðar (EBE) nr. 574/72 (Stjtíð. EB nr. L 83, 2.4.1996, bls. 19)

4.47 396 D 0554: Ákvörðun nr. 162 frá 31. maí 1996 um túlkun á 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 14. gr. b í reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1408/71 um gildandi löggjöf fyrir launþega sem eru sendir til starfa utan aðalstöðva (Stjtíð. EB nr. L 241, 21.9.1996, bls. 28).

4.48 396 D 0555: Ákvörðun nr. 163 frá 31. maí 1996 um túlkun á a-lið 1. mgr. 22. gr. í reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1408/71 að því er varðar einstaklinga sem fá skilunar- eða súrefnismeðferð (Stjtíð. EB nr. L 241, 21.9.1996, bls. 31).

4.49 397 D 0533: Ákvörðun nr. 164 frá 27. nóvember 1996 um eyðublöð sem eru nauðsynleg vegna beitingar reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 og (EBE) nr. 574/72 (E 101 og E 102) (Stjtíð. EB nr. L 216, 8. 8. 1997, bls. 85).

4.50 397 D 0823: Ákvörðun nr. 165 frá júní 1997 um eyðublöð sem eru nauðsynleg vegna beitingar reglugerða ráðsins (EBE) nr. 1408/71 og (EBE) nr. 574/72 (E 128 og E 128B) (Stjtíð. EB L 341, 12.12.1997, bls. 61).

4.51 398 D 0441: Ákvörðun nr. 166 frá 2. október 1997 um breytingar á eyðublaði E 106 og E 109 (Stjtíð. EB L 195, 11.7.1998, bls. 25).

4.52 398 D 0442: Ákvörðun nr.167 frá 2. desember 1997 um breytingu á ákvörðun nr. 146 frá 10. október 1990 um túlkun á 9. mgr. 94. gr. reglugerðar (EBE) nr. 1408/71 (Stjtíð. EB L 195, 11.7.1998, bls. 35).

4.53 398 D 0443: Ákvörðun nr. 168 frá 11. júní 1998 um breytingar á eyðublaði E 121 og E 127 og niðurfellingu eyðublaðs E 122 (Stjtíð. EB L 195, 11.7.1998, bls. 37).

4.54 398 D 0444: Ákvörðun nr. 169 frá 11. júní 1998 um starfsreglur og skipan tækninefndar um gagnavinnslu er heyrir undir framkvæmdaráð um félagslegt öryggi farandlaunþega (Stjtíð. EB L 195, 11.7.1998, bls. 46).


4.55 398 D 0565: Ákvörðun nr. 170 frá 11. júní 1998 um breytingu á ákvörðun nr. 141 frá 17. október 1989 um samantekt skránna sem kveðið er á um í 4. mgr. 94. gr. og 4. mgr. 95. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 574/72 frá 21. mars 1972 (Stjtíð. EB L 275, 10.10.1998, bls. 40).


C-HLUTI: GERÐIR SEM SAMNINGSAÐILAR SKULU TAKA MIÐ AF

Aðildarríkin taki mið af efni eftirfarandi gerða:


5.1 Tilmæla nr. 14 frá 23. janúar 1975 um útgáfu eyðublaðs E 111 vegna launþega sem eru sendir til starfa erlendis (samþykkt af framkvæmdaráðinu á 139. fundi þess 23. janúar 1975).

5.2 Tilmæla nr. 15 frá 19. desember 1980 um hvaða tungumál skuli notað við útgáfu eyðublaðanna sem krafist er vegna reglugerða ráðsins (EBE) nr. 1408/71 og nr. 574/72 (samþykkt af framkvæmdaráðinu á 176. fundi þess 19. desember 1980).


5.3 385 Y 0016: Tilmæla nr. 16 frá 12. desember 1984 um gerð samkomulags samkvæmt 17. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 (Stjtíð. EB nr. C 273, 24.10.1985, bls. 3).

5.4 385 Y 0017: Tilmæla nr. 17 frá 12. desember 1984 um þau tölfræðilegu gögn sem afla skal á hverju ári vegna skýrslugerðar framkvæmdaráðsins (Stjtíð. EB nr. C 273, 24.10.1985, bls. 3).


5.5 386 Y 0018: Tilmæla nr. 18 frá 28. febrúar 1986 varðandi hvaða löggjöf skuli gilda um atvinnulausa einstaklinga sem gegna hlutastarfi í öðru aðildarríki en búseturíkinu (Stjtíð. EB nr. C 284, 11.11.1986, bls. 4).

5.6 392 Y 0019: Tilmæla nr. 19 frá 24. nóvember 1992 um aukið samstarf aðildarríkjanna um framkvæmd reglugerða bandalagsins (Stjtíð. EB nr. C 199, 23.7.1993, bls. 11).

5.7 396 X 0592: Tilmæla nr. 20 frá 31. maí 1996 varðandi bætta málsmeðferð við uppgjör á gagnkvæmum kröfum (Stjtíð. EB nr. L 259, 12.10.1996, bls. 19).

5.8 397 Y 0304(01): Tilmæla nr. 21 frá 28. nóvember 1996 um beitingu a-liðar 1. mgr. 69. gr. reglugerðar (EBE) nr. 1408/71 gagnvart atvinnulausum sem fylgja maka sínum sem starfar í öðru aðildarríki en hinu lögbæra ríki (Stjtíð. EB nr. C 67, 4. 3. 1997, bls. 3).

5.9 380 Y 0609(03): Endurskoðunar á yfirlýsingum aðildarríkjanna sem kveðið er á um í 5. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 frá 14. júní 1971 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja (Stjtíð. EB nr. C 139, 9.6.1980, bls. 1).

6.0 381 Y 0613(01): Yfirlýsingar Grikklands sem kveðið er á um í 5. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 frá 14. júní 1971 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja (Stjtíð. EB nr. C 143, 13.6. 1981, bls. 1).

6.1 380 Y 0609(01): Endurskoðunar á yfirlýsingum aðildarríkjanna sem kveðið er á um í 5. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 frá 14. júní 1971 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja (Stjtíð. EB C 139, 9.6.1980, bls. 1).

6.2 C/107/87/bls. 1: Yfirlýsinga aðildarríkjanna sem kveðið er á um í 5. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 frá 14. júní um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja (Stjtíð. EB nr. C 107, 22.4.1987, bls. 1).

6.3 C/323/80/bls. 1: Tilkynninga ríkisstjórna Sambandslýðveldisins Þýskalands og Stórhertogadæmisins Lúxemborgar til ráðsins um gerð samnings milli þessara tveggja ríkisstjórna um ýmis málefni er varða félagslegt öryggi, samkvæmt 2. mgr. 8. gr. og 96. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 frá 14. júní 1971 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja (Stjtíð. EB nr. C 323, 11.12.1980, bls. 1).

6.4 L/90/87/bls. 39: Yfirlýsingar Lýðveldisins Frakklands til ráðsins samkvæmt j-lið 1. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 frá 14. júní 1971 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja (Stjtíð. EB nr. L 90, 2.4.1987, bls. 39).

Bókun 1 við 2. viðbæti

ATVINNULEYSISTRYGGINGAR

1.    Eftirtaldar reglur gilda um atvinnuleysistryggingar fyrir starfandi menn sem hafa búsetuleyfi sem gildir til skemmri tíma en eins árs:

1.1    Einungis starfandi menn, sem hafa greitt framlög í Sviss eigi skemur en í þann tíma sem krafist er í samræmi við lög ríkjasambandsins um atvinnuleysistryggingar og gjaldþrotagreiðslur (loi fédérale sur l'assurance-chômage obligatoire et l'indemnité en cas d'insolvabilité – LACI) 1 og uppfylla einnig önnur skilyrði fyrir atvinnuleysisbótum, eiga rétt á slíkum bótum frá atvinnuleysistryggingum samkvæmt þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í lögum.
1.2    Hluti þeirra framlaga sem greiða ber vegna starfandi manna, sem hafa greitt framlög í of stuttan tíma til að veita þeim rétt til atvinnuleysisbóta í Sviss samkvæmt lið 1.1, skal endurgreiða til upprunaríkis þeirra í samræmi við ákvæði liðar 1.3 til að koma til móts við kostnað vegna bóta til þeirra ef þeir verða algerlega atvinnulausir; þeir hafa þannig engan rétt til bóta ef þeir verða algerlega atvinnulausir í Sviss. Þeir skulu engu að síður eiga rétt á greiðslum vegna veðurs og við gjaldþrot vinnuveitanda. Upprunaríkið skal greiða bætur vegna algers atvinnuleysis að því tilskildu að viðkomandi bjóði fram starfskrafta sína þar. Taka skal tillit til tryggingatímabila sem er lokið í Sviss á sama hátt og þeim hefði verið lokið í upprunaríkinu.



1.3    Árlega skal endurgreiða hluta af framlögum, sem greiða ber vegna starfandi manna og um getur í lið 1.2, í samræmi við eftirfarandi ákvæði:

    a)    Ríki skal reikna út heildarframlög þessara starfandi manna á grundvelli árlegs fjölda launþega og meðalframlaga á ári sem eru greidd vegna hvers launþega (framlög vinnuveitanda og launþega).

    b)    Endurgreiða ber upprunaríkjum starfandi manna hluta af þeirri fjárhæð, sem er reiknuð út með þessum hætti, er svarar til hlutar í atvinnuleysisbótum sem er hlutfallstala af öllum greiðslum sem um getur í lið 1.2, og skal Sviss halda eftir hluta fyrir varasjóð vegna bóta sem koma til greiðslu síðar. 2






1 Eins og er 6 mánuðir en 12 mánuðir ef um er að ræða endurtekið atvinnuleysi.
2 Endurgreidd framlög fyrir starfandi menn sem nýta rétt sinn til atvinnuleysisbóta í Sviss eftir að hafa greitt framlög í að minnsta kosti sex mánuði – á nokkrum búsetutímabilum – innan tveggja ára tímabils.

    c)    Sviss skal leggja fram á hverju ári greinargerð þar sem fram kemur hvaða framlög hafa verið endurgreidd. Þar skal koma fram grundvöllur útreikningsins og þær fjárhæðir sem hafa verið endurgreiddar, fari upprunaríkin fram á það. Upprunaríkin skulu á hverju ári tilkynna Sviss um fjölda þeirra sem fá atvinnuleysisbætur eins og um getur í lið 1.2.
1.4    Fyrsti málsliður í lið 1.2 og liður 1.2 eiga ekki við um Liechtenstein.
2.    Ákvæði 9. gr. samningsins um atvinnuleysistryggingar milli Sviss og Liechtenstein frá 15. janúar 1979 skulu gilda áfram.

3.    Fyrirkomulagið í 1. og 2. lið gildir um sjö ára skeið frá því að samningurinn öðlast gildi. Ef aðildarríki lendir, við lok þessa sjö ára tímabils, í erfiðleikum með að falla frá þessu fyrirkomulagi um endurgreiðslu framlaga eða Sviss í erfiðleikum með fyrirkomulag um uppsöfnun má hvaða aðildarríki sem er vísa málinu til vinnuhóps um félagslegt öryggi sem um getur í 14. gr. í viðaukanum.



GREIÐSLUR TIL ÓSJÁLFBJARGA EINSTAKLINGA

Með ákvörðun ráðsins skal kveða á um greiðslur til ósjálfbjarga einstaklinga samkvæmt lögum ríkjasambandsins um elli- og eftirlifendatryggingar (loi fédérale sur l'assurance-vieillesse et survivants) og lögum ríkjasambandsins um örorkutryggingar (loi fédérale sur l'assurance-invalidité) í texta 2. viðbætis við viðaukann í viðauka II a í reglugerð nr. 1408/71 um leið og breytingar á þessum lögum sem mæla fyrir um að þessar bætur skuli einungis fjármagnaðar af opinberum yfirvöldum, öðlast gildi.

BÓTAKERFI STARFSGREINA VARÐANDI ELLI-, EFTIRLIFENDA- OG ÖRORKULÍFEYRI


Þrátt fyrir 2. mgr. 10. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 skal, að fenginni beiðni, greiða út sérbætur, sem kveðið er á um samkvæmt lögum ríkjasambandsins um frjálsan flutning milli bótakerfa starfsgreina að því er varðar elli-, eftirlifenda- og örorkulífeyri (Loi fédérale sur le libre passage dans la prévoyance professionnelle vieillesse, survivants et invalidité) frá 17. desember 1993, til launþega eða sjálfstætt starfandi einstaklings sem hyggst flytjast búferlum frá Sviss og heyrir ekki lengur undir svissnesk lög, samkvæmt II. bálki reglugerðarinnar, að því tilskildu að hann flytjist frá Sviss innan fimm ára frá gildistöku viðaukans.

Bókun 2 við 2. viðbæti

A- og B-hluti 2. viðbætis gilda um samskipti Liechtenstein og Sviss samkvæmt skilyrðum þessarar bókunar:

1.     Skyldutrygging samkvæmt sjúkratryggingakerfi

1.1    Einstaklingar, sem eru búsettir í öðru þessara ríkja, heyra undir lagaákvæði um skyldubundnar sjúkratryggingar í búseturíki sínu ef:
    a)    þeir heyra undir lagaákvæði á öðrum sviðum almannatrygginga í öðru þessara ríkja vegna þess að þeir eru í starfi,

    b)    þeir heyra undir löggjöf í öðru þessara ríkja, samkvæmt III. bálki 1. kafla reglugerðarinnar, sem bótaþegar eða umsækjendur um lífeyri,
    c)    þeir fá atvinnuleysisbætur frá öðru þessara ríkja,
    d)    þeir eru aðstandendur einstaklings sem heyrir undir ákvæði um skyldubundnar sjúkratryggingar í öðru þessara ríkja samkvæmt a- til c-lið.
1.2    Skylda til að tryggja sig samkvæmt dagpeningatryggingakerfinu ákvarðast af þeirri löggjöf sem á við um einstaklinga er gegna launuðu starfi.

1.3    Starfandi menn, sem heyra samkvæmt a-lið í lið 1.1, undir ákvæði í Sviss og heyra undir ákvæði í Liechtenstein með vísun í lið 1.2, eiga rétt á styrk frá vinnuveitanda sínum í Liechtenstein er samsvarar þeim hluta sem vinnuveitendum þar ber að greiða til iðgjalda launþega sinna er eiga aðild að skyldubundnu sjúkratryggingakerfi í Liechtenstein.

1.4    Ákvæði 20. gr. reglugerðarinnar eiga við á hliðstæðan hátt um launþega sem sækja vinnu yfir landamæri og heyra, samkvæmt a-lið í lið 1.1, undir skyldubundnar sjúkratryggingar í búseturíki sínu.

2.    Lífeyrir frá elli-, eftirlifenda- og örorkutryggingakerfum vegna barna og barna sem hafa misst annað foreldri eða báða
    Ákvæði III. bálks 3. kafla reglugerðarinnar eiga við um:
    a)    hækkanir og viðbætur á lífeyri vegna barna ef lífeyrisþegi fær elli- eða örorkubætur einungis samkvæmt löggjöf í Liechtenstein og Sviss;

    b)    lífeyrir vegna barna, sem hafa misst annað foreldri eða báða, þó ekki lífeyrir sem er veittur samkvæmt tryggingakerfum vegna vinnuslysa ogatvinnusjúkdóma, ef hinn látni launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur heyrði einungis undir löggjöf í Liechtenstein og Sviss.

3.     Atvinnuleysistryggingar
    Launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem er algerlega atvinnulaus og uppfyllir, samkvæmt 1. mgr. 69. gr. reglugerðarinnar, skilyrði fyrir rétti til bóta í samræmi við löggjöf eins ríkis og flytur til annars ríkis í atvinnuleit, skal, þrátt fyrir fyrsta málslið í 1. mgr. 70. gr. reglugerðarinnar, fá bætur frá þar til bærri stofnun í fyrsta ríkinu og sæta eftirlitsreglum þess.



Bókun 3 við 2. viðbæti

A- og B-hluti 2. viðbætis gilda um samskipti Noregs og Sviss samkvæmt skilyrðum þessarar bókunar:


Ákvæði III. bálks 3. kafla reglugerðarinnar eiga við um:
a)    hækkanir og viðbætur á lífeyri vegna barna ef lífeyrisþegi fær elli- eða örorkubætur einungis samkvæmt löggjöf í Noregi og Sviss;


b)    lífeyri vegna barna, sem hafa misst annað foreldri eða báða, þó ekki lífeyri sem er veittur samkvæmt tryggingakerfum vegna vinnuslysa og atvinnusjúkdóma, ef hinn látni launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur heyrði einungis undir löggjöf í Noregi og Sviss.

3. VIÐBÆTIR

Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi (prófskírteini, vottorð og annar vitnisburður um formlega menntun og hæfi)
(22. gr.)


1.     Aðildarríkin eru ásátt um að beita sín á milli, að því er varðar gagnkvæma viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi, þeim gerðum bandalagsins sem vísað er til og teknar eru upp í EES-samninginn og samning Sviss og Evrópubandalagsins og varða frelsi fólks til flutninga, og eins og þær gilda 21. júní 1999 og er breytt í A-hluta þessa viðbætis, eða reglum er jafngilda þessum gerðum.
2.     Aðildarríkin skulu beita ákvæðum þessa viðbætis með því að taka tillit til gerða bandalagsins sem um getur í eða breytt er í B-hluta þessa viðbætis og teknar eru upp í EES-samninginn og samning Sviss og Evrópubandalagsins um frjálsa fólksflutninga, eins og þær gilda 21. júní 1999.

3.     Hugtakið „aðildarríki“ í gerðum sem um getur í A-hluta þessa viðbætis ber að skilja sem vísun til aðildarríkjanna í þessum samningi.



A-HLUTI GERÐIR SEM VÍSAÐ ER TIL


A.     ALMENNT KERFI

1.     389 L 0048: Tilskipun ráðsins 89/48/EBE frá 21. desember 1988 um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur að minnsta kosti í þrjú ár (Stjtíð. EB L 19, 24.1.1989, bls. 16).
2.     392 L 0051: Tilskipun ráðsins 92/51/EBE frá 18. júní 1992 um annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og starfsþjálfun til viðbótar tilskipun 89/48/EBE (Stjtíð. EB L 209, 24.7.1992, bls. 25), eins og henni var breytt með:
    – 394 L 0038: Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 94/38/EB frá 26. júlí 1994 um breytingu á viðaukum C og D við tilskipun ráðsins 92/51/EBE um annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og starfsþjálfun til viðbótar tilskipun 89/48/EBE (Stjtíð. EB L 217, 23. 8. 1994, bls. 8)
    – 395 L 0043: Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 95/43/EB frá 20. júlí 1995 um breytingu á viðaukum C og D við tilskipun ráðsins 92/51/EBE um annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og starfsþjálfun til viðbótar tilskipun 89/48/EBE (Stjtíð. EB L 184, 3.8.1995, bls. 21),
    – 395 D 0001: 95/1/EB, KBE, KSE, aðlögun gerninga er varða aðild nýrra aðildarríkja að Evrópusambandinu (Stjtíð. EB L 1, 1.1.1995, bls. 1),
    – 397 L 0038: Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 97/38/EB frá 20. júní 1997 um breytingu á viðauka C við tilskipun ráðsins 92/51/EBE um annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og starfsþjálfun til viðbótar tilskipun 89/48/EBE (Stjtíð. EB L 184, 3.8.1997, bls. 31).

Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:

I)    Eftirfarandi bætist við í viðauka C (SKRÁ YFIR NÁM SEM ER BYGGT UPP Á SÉRSTAKAN HÁTT EINS OG UM GETUR Í II-LIÐ ANNARS UNDIRLIÐAR FYRSTU UNDIRGREINAR Í A-LIÐ 1. GR.):
    a)    Í liðnum „2. Meistaranám (Mester/Meister/Maître) á sviði iðnnáms er fellur ekki undir tilskipanir sem eru taldar upp í viðauka A“ komi eftirfarandi:



             „Í Noregi
            nám fyrir:
            –    skrúðgarðyrkjumeistara („anleggsgartner“),
            –     tannfræðinga („tanntekniker“).
            sem felst í námi og þjálfun í minnst 14 ár samanlagt, að meðtöldu minnst fimm ára skipulögðu starfsnámi sem skiptist í lærlingstíma í minnst þrjú ár, þar sem námið fer fram á vinnustað að hluta til en að hluta til á starfsmenntastofnun, og í starfsþjálfunartíma í tvö ár sem lýkur með meistaraprófi er veitir rétt til að stunda iðnina, taka lærlinga og nota titilinn „Mester“.“




    b)     Í liðnum „3. Sjómennska“ komi eftirfarandi:

             i)         Undir liðnum „a) Sjóflutningar“:


                       „Á Íslandi
                      nám fyrir:
                      –    skipstjóra,
                      –    stýrimenn,
                      –    undirstýrimenn,

                      –    vélstjóra, 1. stigs.


                       Í Noregi
                       nám fyrir:
                       –    skipstjóra („skipsfører“),

                       –    yfirstýrimenn („overstyrmann“),

                       –    skipstjóra í strandsiglingum („kystskipper“),
                       –    undirstýrimenn („styrmann“),

                      –    yfirvélstjóra („maskinsjef“),

                      –    1. vélstjóra („1. maskinist“),

                      –    einvélstjóra („enemaskinist“),

                      –    vaktvélstjóra („maskinoffiser“),

                      sem felst:
                      –    á Íslandi í níu eða tíu ára grunnskólanámi, síðan tveggja ára siglingatíma og loks sérhæfðu starfsnámi í þrjú ár (fimm ár hjá vélstjórum):


                      –    í Noregi í níu ára grunnskólanámi, síðan grunnstarfsþjálfun á þriggja ára siglingatíma (tvö og hálft ár hjá vélstjórum), en við það bætist:


                      –    sérhæft starfsnám í eitt ár fyrir vaktstýrimenn,
                      –    sérhæft starfsnám í tvö ár fyrir aðra,

                     og frekari siglingatíma sem er viðurkenndur samkvæmt hinum alþjóðlega STCW-samningi (International Convention on Standards of Training, Certification and Watchkeeping for Seafarers, 1978).

                       Í Noregi
                      nám fyrir:
                      –    skipsrafvirkja („elektro-automasjonstekniker/skipselektriker“),

                     sem felst í níu ára grunnskólanámi, síðan grunnþjálfun í tvö ár og loks starfsreynslu í eitt ár á sjó og sérhæfðu starfsnámi í eitt ár.“


            ii)     Undir liðnum „b) Veiðar á rúmsjó“:


                        „Á Íslandi
                       nám fyrir:
                       –     skipstjóra,
                       –     stýrimenn,
                       –     undirstýrimenn,

                      sem felst í níu eða tíu ára grunnskólanámi, síðan tveggja ára siglingatíma og loks sérhæfðu starfsnámi í tvö ár sem lýkur með prófi viðurkenndu samkvæmt Torremolinos-samþykktinni (1977 International Convention for the Safety of Fishing Vessels).“


             iii)     Undir nýjum lið „c) Bormenn“:


                       „Í Noregi
                      nám fyrir:
                      –     pallstjóra („plattformsjef“),
                       –    stöðugleikastjóra („stabilitetssjef“),

                      –    stjórnstöðvarmenn („kontrollromoperatør“),
                      –     tæknistjóra („teknisk sjef“),

                      –    tæknilega aðstoðarmenn („teknisk assistant“),
                     sem felst í níu ára grunnskólanámi, síðan grunnþjálfun í tvö ár og loks einu starfsári á sjó, og


                      –    sérhæfðu starfsnámi í eitt ár hjá stjórnstöðvarmönnum,

                      –    sérhæfðu starfsnámi í tvö og hálft ár hjá öðrum.“
    c)    Undir liðnum „4. Tækninám“ komi eftirfarandi:

               „Í Liechtenstein
              nám fyrir:
              –     fjárhaldsmenn („Treuhändler“)
              Lengd, stig og kröfur:
             Námið grundvallast á níu ára skyldunámi og – nema lokaprófgráðu hafi verið náð – þriggja ára hagnýtri starfsþjálfun við verslunarstörf hjá fyrirtæki, en nauðsynlegt fræðilegt nám og almennt bóknám er sótt í starfsmenntaskóla sem hvorutveggja er nauðsynlegur undanfari verslunarprófs (Hæfnisvottorð fyrir verslunarmenn).


            Að lokinni þriggja ára starfsreynslu hjá fyrirtæki auk fjögurra ára fræðilegs náms til viðbótar, sem heimilt er að sinna samtímis, má þreyta verslunarpróf og öðlast þar með ofangreint starfsheiti.

             Heildarnámstími er að öðru jöfnu milli 16 og 19 ár.
              Reglugerðir:
            Starfsgreinin er lögvernduð með innlendri löggjöf. Nema, sem er að búa sig undir prófið, er frjálst að gera það á þann hátt sem hann kýs (starfsmenntaskólar, einkaskólar, fjarnám).
              –    endurskoðendur („Wirtschaftsprüfer“)
              Lengd, stig og kröfur:
            Námið grundvallast á níu ára skyldunámi ásamt þriggja ára hagnýtri starfsþjálfun við verslunarstörf hjá fyrirtæki, en nauðsynlegt fræðilegt nám og almennt bóknám er sótt í starfsmenntaskóla.


            Að lokinni þriggja ára starfsreynslu til viðbótar hjá fyrirtæki auk fimm ára bóklegs náms til viðbótar, sem heimilt er að sinna samtímis með fjarnámi, má þreyta verslunarpróf og öðlast þar með framangreint starfsheiti.
            Heildarnámstími er milli 17 og 18 ár. Nemar sem hafa fengið starfsþjálfun erlendis þurfa aðeins að leggja fram sönnun um eins árs frekari starfsreynslu í Liechtenstein.

              Reglugerðir:
            Starfsgreinin er lögvernduð með innlendri löggjöf.“
II)        Viðbæturnar við viðauka C í I. aðlögun skulu felldar saman við skrána í II. viðauka við tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 95/43/EB, eins og henni var breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 97/38 og eins og hún var tekin upp í EES-samninginn og samning Sviss og Evrópubandalagsins um frjálsa fólksflutninga.
III)        Skrár Sviss fyrir viðauka C og D í tilskipun 92/51/EBE verða teknar saman innan ramma beitingar þessa samnings.


B.     LÖGFRÆÐISTÖRF

3.     377 L 0249: Tilskipun ráðsins 77/249/EBE frá 22. mars 1977 um að auðvelda lögmönnum að neyta réttar til að veita þjónustu (Stjtíð. EB L 78, 26.3.1977, bls. 17), eins og henni var breytt með:
    – 1 79 H: Lögum um aðildarskilmála og aðlögun að sáttmálunum – aðild Lýðveldisins Grikklands að Evrópubandalögunum (Stjtíð. EB L 291, 19.11.1979, bls. 91);
    – 1 85 I: Lögum um aðildarskilmála og aðlögun að sáttmálunum – aðild Konungsríkisins Spánar og Lýðveldisins Portúgals að Evrópubandalögunum (Stjtíð. EB L 302, 15.11.1985, bls. 160);
    – 395 D 0001: 95/1/EB, KBE, KSE, aðlögun gerninga er varða aðild nýrra aðildarríkja að Evrópusambandinu (Stjtíð. EB L 1, 1.1.1995, bls. 1).


    Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:

    Eftirfarandi bætist við 2. mgr. 1. gr.:

    „Á Íslandi:         „Lögmaður“,
    Í Liechtenstein:     „Rechtsanwalt“,
    Í Noregi:             „Advokat“,
    Í Sviss:            „Avocat/Advokat, Rechtsanwalt, Anwalt, Fürsprecher, Fürsprech/Avvocato“.“


C.     LÆKNINGAR OG SKYLD STARFSEMI


4.     381 L 1057: Tilskipun ráðsins 81/1057/EBE frá 14. desember 1981 til viðbótar tilskipunum 75/362/EBE, 77/452/EBE, 78/686/EBE og 78/1026/EBE um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi lækna, hjúkrunarfræðinga í almennri hjúkrun, tannlækna og dýralækna með tilliti til áunninna réttinda (Stjtíð. EB L 385, 31.12.1981, bls. 25).


     Læknar

5.     393 L 0016: Tilskipun ráðsins 93/16/EBE frá 5. apríl 1993 um að greiða fyrir frjálsum flutningum lækna og um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum þeirra, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfni (Stjtíð. EB L 165, 7.7.1993, bls. 1), eins og henni var breytt með:
    – 398 L 0021: Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 98/21/EB frá 8. apríl 1998 um breytingu á tilskipun ráðsins 93/16/EBE um að greiða fyrir frjálsum flutningum lækna og um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum þeirra, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi (Stjtíð. EB L 119, 22.4.1998, bls. 15),
    – 398 L 0063: Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 98/63/EB frá 3. september 1998 um breytingu á tilskipun ráðsins 93/16/EBE um að greiða fyrir frjálsum flutningum lækna og um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum þeirra, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi (Stjtíð. EB L 253, 15.9.1998, bls. 24).

    Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:

    I)         Eftirfarandi bætist við 3. gr.:
              „m)     Á Íslandi:
                    „próf í læknisfræði frá læknadeild Háskóla Íslands“ og vottorð um starfsþjálfun á sjúkrahúsi sem lögbær yfirvöld gefa út;


             n)      Í Liechtenstein:
                    prófskírteini, vottorð og önnur starfsheiti sem veitt eru í öðru ríki sem tilskipun þessi tekur til og tilgreind í þessari grein, ásamt vottorði sem lögbær yfirvöld gefa út um að starfsþjálfun hafi verið lokið;

             o)      Í Noregi:
                    „bevis for bestått medisinsk embetseksamen“ (prófgráðan cand.med.) sem læknadeild háskóla veitir og vottorð um starfsþjálfun sem lögbær yfirvöld heilbrigðismála gefa út;

              p)      Í Sviss:
                    „titulaire du diplôme fédéral de médecin“
                    „Eidgenössisch diplomierter Arzt“
                    „titolare di diploma federale di medico“
                    sem Département fédéral de l'intérieur veitir.“
    II)     Eftirfarandi bætist við 2. mgr. 5. gr.:

              „Á Íslandi:
            „sérfræðileyfi“ sem heilbrigðisráðuneytið gefur út;

              Í Liechtenstein:
            prófskírteini, vottorð og önnur starfsheiti sem veitt eru í öðru ríki sem tilskipun þessi tekur til og tilgreind í þessari grein, ásamt vottorði sem lögbær yfirvöld gefa út um að starfsþjálfun hafi verið lokið;


              Í Noregi:
            „bevis for tillatelse til å benytte spesialisttittelen“ (vottorð um rétt til að kalla sig sérfræðing) sem lögbær yfirvöld gefa út;


              Í Sviss:
            „spécialiste“
            „Facharzt“
            „specialista“
            sem Département fédéral de l'intérieur veitir.“

    III)    Eftirfarandi færslum skal bætt við undirliðina í 3. mgr. 5. gr. eins og hér er tilgreint:

               svæfingalækningar:
             „Ísland:    svæfinga- og gjörgæslulæknisfræði
             Liechtenstein:     Anästhesiologie
             Noregur:     anestesiologi
             Sviss:          anesthésiologie
                                 Anästhesiologie
                                  anestesiologia,“;

              almennar skurðlækningar:
             „Ísland:     skurðlækningar
             Liechtenstein:    Chirurgie
             Noregur:     generell kirurgi
             Sviss:          chirurgie
                                 Chirurgie
                                 chirurgia,“;

              taugaskurðlækningar:
             „Ísland:     taugaskurðlækningar
             Liechtenstein:     Neurochirurgie
             Noregur:     nevrokirurgi
             Sviss:          neurochirurgie
                                 Neurochirurgie
                                 neurochirurgia,“;

              fæðingar- og kvenlækningar:
             „Ísland:     fæðingar- og kvenlækningar
              Liechtenstein:    Gynäkologie und Geburtshilfe
             Noregur:    fødselshjelp og kvinnesykdommer
             Sviss:         gynécologie et obstétrique
                               Gynäkologie und Geburtshilfe
                                ginecologia e ostetricia,“;

              lyflækningar:
        
    „Ísland:     lyflækningar
             Liechtenstein:     Innere Medizin
             Noregur:     indremedisin
             Sviss:          médecine interne
                                 Innere Medizin
                                 medicina interna,“;

              augnlækningar:
             „Ísland:     augnlækningar
             Liechtenstein:     Augenheilkunde
             Noregur:     øyesykdommer
             Sviss:          ophtalmologie
                                 Ophthalmologie
                                 oftalmologia,“;

              háls-, nef- og eyrnalækningar:
             „Ísland:     háls-, nef- og eyrnalækningar
             Liechtenstein:    Hals-, Nasen- und Ohrenkrankheiten
             Noregur:     øre-nese-halssykdommer
             Sviss:          oto-rhino-laryngologie
                                 Oto-Rhino-Laryngologie
                                 otorinolaringoiatria,“;

              barnalækningar:
             „Ísland:     barnalækningar
             Liechtenstein:     Kinderheilkunde
             Noregur:     barnesykdommer
             Sviss:          pédiatrie
                                 Kinder- und Jugendmedizin
                                 pediatria,“;

              lungnalækningar:
             „Ísland:     lungnalækningar
             Liechtenstein:     Lungenkrankheiten
             Noregur:     lungesykdommer
             Sviss:          pneumologie
                                 Pneumologie
                                 pneumologia,“;

              þvagfæralækningar:
             „Ísland:     þvagfæralækningar
             Liechtenstein:     Urologie
             Noregur:     urologi
             Sviss:          urologie
                                 Urologie
                                 urologia,“;

              bæklunarskurðlækningar:
             „Ísland:     bæklunarskurðlækningar
             Liechtenstein:     Orthopädische Chirurgie
             Noregur:     ortopedisk kirurgi
             Sviss:          chirurgie orthopédique
                                 Orthopädische Chirurgie
                                 chirurgia ortopedica,“;

              líffærameinafræði:
             „Ísland:     líffærameinafræði
             Liechtenstein:     Pathologie
             Noregur:     patologi
             Sviss:          pathologie
                                 Pathologie
                                 patologia,“;

              taugalækningar:
             „Ísland:     taugalækningar
             Liechtenstein:     Neurologie
             Noregur:     nevrologi
             Sviss:          neurologie
                                  Neurologie
                                 neurologia,“;

              geðlækningar:
             „Ísland:     geðlækningar
             Liechtenstein:    Psychiatrie und Psychotherapie
             Noregur:     psykiatri
             Sviss:          psychiatrie et psychothérapie
                                Psychiatrie und Psychotherapie
                                 psichiatria e psicoterapia.“

    IV)    Eftirfarandi færslum skal bætt við undirliðina í 2. mgr. 7. gr. eins og hér er tilgreint:

              örveru- og bakteríufræði:
             „Ísland:     örveru- og bakteríufræði
             Noregur:     medisinsk mikrobiologi,“;

              klínísk líffræði:
             „Ísland          klinísk líffræði
             Noregur:     klinisk kjemi,“;

              ónæmisfræði:
             „Ísland:     ónæmisfræði
             Noregur:    immunologi og transfusjonsmedisin,“;

              lýtalækningar:
             „Ísland:     lýtalækningar
             Noregur:     plastikkirurgi
             Sviss:         chirurgie plastique et reconstructive
                                Plastische und Wiederherstellungschirurgie
                                chirurgia plastica e ricostruttiva,“;

              brjóstholsskurðlækningar:
             „Ísland:     brjóstholsskurðlækningar
             Noregur:     thoraxkirurgi
             Sviss:         chirurgie cardiaque et vasculaire thoracique
                                Herz- und thorakale Gefässchirurgie
                                chirurgia del cuore e dei vasi toracici,“;

               barnaskurðlækningar:
             „Ísland:     barnaskurðlækningar
             Noregur:     barnekirurgi
             Sviss:          chirurgie pédiatrique
                                 Kinderchirurgie
                                 chirurgia pediatrica,“;

               æðaskurðlækningar:
             „Ísland:     æðaskurðlækningar
             Noregur:     karkirurgi,“;

              hjartalækningar:
             „Ísland:     hjartalækningar
             Noregur:     hjertesykdommer
             Sviss:          cardiologie
                                  Kardiologie
                                  cardiologia,“;

               meltingarfæralækningar:
              „Ísland:     meltingarfæralækningar
              Noregur:     fordøyelsessykdommer
              Sviss:          gastro-entérologie
                                  Gastroenterologie
                                  gastroenterologia,“;

               gigtarlækningar:
              „Ísland:     gigtarlækningar
              Liechtenstein:     Rheumatologie
              Noregur:     revmatologi
              Sviss:          rhumatologie
                                  Rheumatologie
                                  reumatologia,“;

               blóðmeinafræði:
              „Ísland:     blóðmeinafræði
              Noregur:     blodsykdommer
              Sviss:          hématologie
                                  Hämatologie
                                  ematologia,“;

               efnaskipta- og innkirtlalækningar:
              „Ísland:    efnaskipta- og innkirtlalækningar
              Noregur:     endokrinologi
              Sviss:          endocrinologie-diabétologie
                                 Endokrinologie-Diabetologie
                                endocrinologia-diabetologia,“;

               orku- og endurhæfingarlækningar:
              „Ísland:    orku- og endurhæfingarlækningar
              Liechtenstein:    Physikalische Medizin und Rehabilitation
              Noregur:    fysikalsk medisin og rehabilitering
              Sviss:         médecine physique et réadaptation
                                 Physikalische Medizin und Rehabilitation
                                medicina fisica e riabilitazione,“;

               húð- og kynsjúkdómalækningar:
              „Ísland:    húð- og kynsjúkdómalækningar
              Liechtenstein:    Dermatologie und Venereologie
              Noregur:    hudsykdommer og veneriske sykdommer
              Sviss:         dermatologie et vénéréologie
                                Dermatologie und Venerologie
                                dermatologia e venereologia,“;

               geislalækningar:
              „Ísland:     geislalækningar
              Noregur:     radiology,“;

               geislagreining:
              „Ísland          geislagreining
              Liechtenstein     Medizinische Radiologie
              Sviss:         radiologie médicale/radio-diagnostic
                                Medizinische Radiologie/Radiodiagnostik
                                radiologia medica/radiodiagnostica,“;

               geislameðferð:
              „Noregur:     onkologi
              Sviss:         radiologie médicale/radio-oncologie
                                 Medizinische Radiologie/Radio-Onkologie
                                radiologia medica/radio-oncologia,“;

               hitabeltissjúkdómafræði:
              „Sviss:          médecine tropicale
                                  Tropenmedizin
                                  medicina tropicale,“;

               barna- og unglingageðlækningar:
              „Ísland:    barna- og unglingageðlækningar
              Liechtenstein:    Kinder- und Jugendpsychiatrie und -psychotherapie
              Noregur:     barne- og ungdomspsykiatri
              Sviss:         psychiatrie et psychothérapie d'enfants et d'adolescents
                            Kinder- und Jugendpsychiatrie und -psychotherapie
                            psichiatria e psicoterapia infantile e dell'adolescenza,“;

               öldrunarlækningar:
              „Ísland:     öldrunarlækningar
              Liechtenstein:     Geriatrie
              Noregur:     geriatri,“;

               nýrnalækningar:
              „Ísland:     nýrnalækningar
              Noregur:     nyresykdommer
              Sviss:          néphrologie
                                  Nephrologie
                                  nefralogia,“;

               smitsjúkdómar:
              „Ísland:     smitsjúkdómar
              Noregur:     infeksjonssykdommer,“;

              félagslækningar:
              „Ísland:     félagslækningar
              Liechtenstein:    Prävention und Gesundheitswesen
              Noregur:     samfunnsmedisin
              Sviss:         prévention et santé publique
                                Prävention und Gesundheitswesen
                                prevenzione e salute pubblica,“;

               lyfjafræði:
              „Ísland:     lyfjafræði
              Noregur:     klinisk farmakologi,“;

               atvinnusjúkdómalækningar:
              „Ísland:     atvinnusjúkdómalækningar
              Noregur:     yrkesmedisin
              Sviss:          médecine du travail
                                 Arbeitsmedizin
                                 medicina del lavoro,“;

               ofnæmislækningar:
              „Ísland:     ofnæmislækningar
              Sviss:         allergologie et immunologie clinique
                                 Allergologie und klinische Immunologie
                                allergologia e immunologia clinica,“;

               meltingarfæraskurðlækningar:
              „Noregur:    gastroenterologisk kirurgi,“;

              tann-, munn- og kjálkaaðgerðir (undirstöðunám í læknisfræði og tannlækningum):
             „Liechtenstein:     Kieferchirurgie
             Noregur:    kjevekirurgi og munnhulesykdommer
             Sviss:          chirurgie maxillo-faciale
                                          Kiefer- und Gesichtschirurgie
                                chirurgia mascello-facciale,“;

               geislalæknisfræði:
              „Sviss:         radiologie médicale/médecine nucléaire
                                 Medizinische Radiologie/Nuklearmedizin
                                radiologia medica/medicina nucleare.“

     Hjúkrunarfræðingar

6.     377 L 0452: Tilskipun ráðsins 77/452/EBE frá 27. júní 1977 um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi hjúkrunarfræðinga í almennri hjúkrun, að meðtöldum ráðstöfunum er auðvelda að staðfesturéttar og réttar til að veita þjónustu sé neytt (Stjtíð. EB L 176, 15.7.1977, bls. 1), eins og henni var breytt með:
    – 1 79 H: Lögum um aðildarskilmála og aðlögun að sáttmálunum – aðild Lýðveldisins Grikklands að Evrópubandalögunum (Stjtíð. EB L 291, 19.11.1979, bls. 91);
    – 1 85 I: Lögum um aðildarskilmála og aðlögun að sáttmálunum – aðild Konungsríkisins Spánar og Lýðveldisins Portúgals að Evrópubandalögunum (Stjtíð. EB L 302, 15.11.1985, bls. 160);
    – 389 L 0594: Tilskipun ráðsins 89/594/EBE frá 30. október 1989 (Stjtíð. EB L 341, 23.11.1989, bls. 19),
    – 389 L 0595: Tilskipun ráðsins 89/595/EBE, 30. október 1989 (Stjtíð. EB L 341, 23.11.1989, bls. 30),
    – 390 L 0658: Tilskipun ráðsins 90/658/EBE frá 4. desember 1990 (Stjtíð. EB L 353, 17.12.1990, bls. 73),
    – 395 D 0001: 95/1/EB, KBE, KSE, aðlögun gerninga er varða aðild nýrra aðildarríkja að Evrópusambandinu (Stjtíð. EB L 1, 1.1.1995, bls. 1).

    Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:

    a)     Eftirfarandi bætist við 2. mgr. 1. gr.:

               „Á Íslandi:
              „hjúkrunarfræðingur“;

              Í Liechtenstein:

             „Krankenschwester – Krankenpfleger“;

              Í Noregi:
             „offentlig godkjent sykepleier“;

              Í Sviss:
             „infirmière, infirmier“,
             „Krankenschwester, Krankenpfleger“,
             „infermiera, infermiere“.“

    b)     Eftirfarandi bætist við 3. gr.:
              „o)     Á Íslandi:
                    „próf í hjúkrunarfræðum eða hjúkrunarpróf“ vottað af lögbærum yfirvöldum;
             p)     Í Liechtenstein:
                    prófskírteini, vottorð og önnur starfsheiti sem veitt eru í öðru ríki sem þessi tilskipun tekur til og tilgreind í þessari grein;
              q)      Í Noregi:
                    „bevis for bestått sykepleiereksamen“ (prófskírteini í almennri hjúkrun) sem hjúkrunarskóli veitir;
              r)          Í Sviss:
                    „infirmière diplômée en soins généraux, infirmier diplômé en soins généraux“,
                    „diplomierte Krankenschwester in allgemeiner Krankenpflege, diplomierter Krankenpfleger in allgemeine Krankenpflege“,
                    „infermiera diplomata in cure generali, infermiere diplomato in cure generali“
                    sem Conférence des directeurs cantonaux des affaires sanitaires (cds) veitir.“


7.     377 L 0453: Tilskipun ráðsins 77/453/EBE frá 27. júní 1977 um samræmingu á ákvæðum er varða starfsemi hjúkrunarfræðinga í almennri hjúkrun og sett eru með lögum og stjórnsýslufyrirmælum (Stjtíð. EB L 176, 15.7.1977, bls. 8), eins og henni var breytt með:
    – 389 L 0595: Tilskipun ráðsins 89/595/EBE frá 30. október 1989 (Stjtíð. EB L 341, 23.11.1989, bls. 30).

     Tannlæknar

8.     378 L 0686: Tilskipun ráðsins 78/686/EBE frá 25. júlí 1978 um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi tannlækna, að meðtöldum ráðstöfunum er auðvelda að staðfesturéttar og réttar til að veita þjónustu sé neytt (Stjtíð. EB L 233, 4.8.1978, bls. 1), eins og henni var breytt með:
    – 1 79 H: Lögum um aðildarskilmála og aðlögun að sáttmálunum – aðild Lýðveldisins Grikklands að Evrópubandalögunum (Stjtíð. EB L 291, 19.11.1979, bls. 91),
    – 1 85 I: Lögum um aðildarskilmála og aðlögun að sáttmálunum – aðild Konungsríkisins Spánar og Lýðveldisins Portúgals að Evrópubandalögunum (Stjtíð. EB L 302, 15.11.1985, bls. 160),
    – 389 L 0594: Tilskipun ráðsins 89/594/EBE frá 30. október 1989 (Stjtíð. EB L 341, 23.11.1989, bls. 19),
    – 390 L 0658: Tilskipun ráðsins 90/658/EBE frá 4. desember 1990 (Stjtíð. EB L 353, 17.12.1990, bls. 73),
    – 395 D 0001: 95/1/EB, KBE, KSE, aðlögun gerninga er varða aðild nýrra aðildarríkja að Evrópusambandinu (Stjtíð. EB L 1, 1.1.1995, bls. 1).

    Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:

    a)     Eftirfarandi bætist við 1. gr.:

               „Á Íslandi:
              „tannlæknir“,

               Í Liechtenstein:
              „Zahnarzt“,

               Í Noregi:
              „tannlege“,

               Í Sviss:
              „médecin-dentiste“,
              „Zahnarzt“,
              „medico-dentista“.“

    b)     Eftirfarandi bætist við 3. gr.:
              „m)      Á Íslandi:
                    „próf frá tannlæknadeild Háskóla Íslands“;

              n)     Í Liechtenstein:
                    prófskírteini, vottorð og önnur starfsheiti sem veitt eru í öðru ríki sem tilskipun þessi tekur til og tilgreind í þessari grein, ásamt vottorði sem lögbær yfirvöld gefa út um að starfsþjálfun hafi verið lokið;

             o)     Í Noregi:
                    „bevis for bestått odontologisk embetseksamen“ (prófgráðan cand. odont.) sem tannlæknadeild háskóla veitir;

             p)     Í Sviss:
                    „titulaire du diplôme fédéral de médecin-dentiste“,
                    „eidgenössisch diplomierter Zahnarzt“,
                    „titolare di diploma federale di medico-dentista“
                    sem Département fédéral de l'intérieur veitir.“

    c)    Eftirfarandi færslum skal bætt við undirliðina í 5. gr. eins og hér er tilgreint:
              1.         Tannréttingar:

                       „Í Noregi:
                    „bevis for gjennomgått spesialistutdanning i kjeveortopedi“ (vottorð um sérnám í tannréttingum) sem tannlæknadeild háskóla veitir;


                        Í Sviss:
                    „diplôme fédéral d'orthodontiste“,
                    „Diplom als Kieferorthopäde“,
                    „diploma di ortodontista“
                    sem Département fédéral de l'intérieur veitir.“;

             2.        Tannskurðlækningar:

                        „Í Noregi:
                    „bevis for gjennomgått spesialistutdanning i oralkirurgi“ (vottorð um sérnám í tannskurðlækningum) sem tannlæknadeild háskóla veitir.“

9.     378 L 0687: Tilskipun ráðsins 78/687/EBE frá 25. júlí 1978 um samræmingu á ákvæðum er varða starfsemi tannlækna og sett eru með lögum og stjórnsýslufyrirmælum (Stjtíð. EB L 233, 24.8.1978, bls. 10), eins og henni var breytt með:

    – 395 D 0001: 95/1/EB, KBE, KSE, aðlögun gerninga er varða aðild nýrra aðildarríkja að Evrópusambandinu (Stjtíð. EB L 1, 1.1.1995, bls. 1).

     Dýralæknar

10.     378 L 1026: Tilskipun ráðsins 78/1026/EBE frá 18. desember 1978 um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi í dýralækningum, að meðtöldum ráðstöfunum er auðvelda að staðfesturéttar og réttar til að veita þjónustu sé neytt (Stjtíð. EB L 362, 23.12.1978, bls. 1), eins og henni var breytt með:
    – 1 79 H: Lögum um aðildarskilmála og aðlögun að sáttmálunum – aðild Lýðveldisins Grikklands að Evrópubandalögunum (Stjtíð. EB L 291, 19.11.1979, bls. 91),
    – 1 85 I: Lögum um aðildarskilmála og aðlögun að sáttmálunum – aðild Konungsríkisins Spánar og Lýðveldisins Portúgals að Evrópubandalögunum (Stjtíð. EB L 302, 15.11.1985, bls. 160),
    – 389 L 0594: Tilskipun ráðsins 89/594/EBE frá 30. október 1989 (Stjtíð. EB L 341, 23.11.1989, bls. 19),
    – 390 L 0658: Tilskipun ráðsins 90/658/EBE frá 4. desember 1990 (Stjtíð. EB L 353, 17.12.1990, bls. 73),
    – 395 D 0001: 95/1/EB, KBE, KSE, aðlögun gerninga er varða aðild nýrra aðildarríkja að Evrópusambandinu (Stjtíð. EB L 1, 1.1.1995, bls. 1).

    Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:


    Eftirfarandi bætist við 3. gr.:
    „o)          Á Íslandi:
                prófskírteini, vottorð og önnur starfsheiti sem veitt eru í öðru ríki sem tilskipun þessi tekur til og tilgreind í þessari grein, ásamt vottorði sem lögbær yfirvöld gefa út um að starfsþjálfun hafi verið lokið;

    p)          Í Liechtenstein:
                prófskírteini, vottorð og önnur starfsheiti sem veitt eru í öðru ríki sem tilskipun þessi tekur til og tilgreind í þessari grein, ásamt vottorði sem lögbær yfirvöld gefa út um að starfsþjálfun hafi verið lokið;

    q)          Í Noregi:
                „eksamensbevis utstedt av Norges veterinærhøgskole for bestått veterinærmedisinsk embetseksamen“ (prófskírteini með cand.med.vet. gráðu) sem norski dýralæknaskólinn veitir;
    r)              Í Sviss:
                „titulaire du diplôme fédéral de vétérinaire“,
                „eidgenössisch diplomierter Tierarzt“,
                „titolare di diploma federale di veterinario“
                sem Département fédéral de l'intérieur veitir.“

11.     378 L 1027: Tilskipun ráðsins 78/1027/EBE frá 18. desember 1978 um samræmingu á ákvæðum er varða starfsemi dýralækna og sett eru með lögum eða stjórnsýslufyrirmælum (Stjtíð. EB L 362, 23.12.1978, bls. 7), eins og henni var breytt með:

    – 389 L 0594: Tilskipun ráðsins 89/594/EBE frá 30. október 1989 (Stjtíð. EB L 341, 23.11.1989, bls. 19).

     Ljósmæður

12.     380 L 0154: Tilskipun ráðsins 80/154/EBE frá 21. janúar 1980 um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi í ljósmóðurfræðum, að meðtöldum ráðstöfunum er auðvelda að staðfesturéttar og réttar til að veita þjónustu sé neytt (Stjtíð. EB L 33, 11.2.1980, bls. 1), eins og henni var breytt með:
    – 380 L 1273: Tilskipun ráðsins 80/1273/EBE frá 22. desember 1980 (Stjtíð. EB L 375, 31.12.1980, bls. 74),
    – 1 85 I: Lögum um aðildarskilmála og aðlögun að sáttmálunum – aðild Konungsríkisins Spánar og Lýðveldisins Portúgals að Evrópubandalögunum (Stjtíð. EB L 302, 15.11.1985, bls. 160),
    – 389 L 0594: Tilskipun ráðsins 89/594/EBE frá 30. október 1989 (Stjtíð. EB L 341, 23.11.1989, bls. 19),
    – 390 L 0658: Tilskipun ráðsins 90/658/EBE frá 4. desember 1990 (Stjtíð. EB L 353, 17.12.1990, bls. 73),
    – 395 D 0001: 95/1/EB, KBE, KSE, aðlögun gerninga er varða aðild nýrra aðildarríkja að Evrópusambandinu (Stjtíð. EB L 1, 1.1.1995, bls. 1).

    Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:

    a)     Eftirfarandi bætist við 1. gr.:

              „Á Íslandi:
             „ljósmóðir“,

              Í Liechtenstein:
             „Hebamme“,

               Í Noregi:
             „jordmor“,

               Í Sviss:
              „sage-femme“,
             „Hebamme“,
             „levatrice“.“

    b)     Eftirfarandi bætist við 3. gr.:
             m)      Á Íslandi:
                    „embættispróf frá Háskóla Íslands eða próf í ljósmóðurfræðum frá Ljósmæðraskóla Íslands“ vottað af lögbærum yfirvöldum;

              n)      Í Liechtenstein:
                    prófskírteini, vottorð og önnur starfsheiti sem veitt eru í öðru ríki sem tilskipun þessi tekur til og tilgreind í þessari grein;
              o)      Í Noregi:
                     „bevis for bestått jordmoreksamen“ (prófskírteini í ljósmóðurfræðum) sem ljósmæðraskóli veitir og vottorð um starfsþjálfun sem lögbær yfirvöld heilbrigðismála gefa út;
              p)      Í Sviss:
                     „sage-femme diplômée“,
                     „diplomierte Hebamme“,
                     „levatrice diplomata“
                     prófskírteini sem Conférence des directeurs cantonaux des affaires sanitaires (cds) veitir.“

13.     380 L 0155: Tilskipun ráðsins 80/155/EBE frá 21. janúar 1980 um samræmingu á ákvæðum er varða það að hefja og stunda starfsemi ljósmæðra og sett eru með lögum eða stjórnsýslufyrirmælum (Stjtíð. EB L 33, 11.2.1980, bls. 8), eins og henni var breytt með:
    – 389 L 0594: Tilskipun ráðsins 89/594/EBE frá 30. október 1989 (Stjtíð. EB L 341, 23.11.1989, bls. 19).

     Lyfjafræðingar

14.     385 L 0432: Tilskipun ráðsins 85/432/EBE frá 16. september 1985 um samræmingu á ákvæðum er varða ákveðna starfsemi á sviði lyfjafræði lyfsala og sett eru með lögum og stjórnsýslufyrirmælum (Stjtíð. EB L 253, 24.9.1985, bls. 34).


15.     385 L 0433: Tilskipun ráðsins 85/433/EBE frá 16. september 1985 um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi í lyfjafræði lyfsala, að meðtöldum ráðstöfunum er auðvelda að staðfesturéttar sé neytt að því er varðar ákveðna starfsemi á sviði lyfjafræði lyfsala (Stjtíð. EB L 253, 24.9.1985, bls. 37), eins og henni var breytt með:
    – 385 L 0584: Tilskipun ráðsins 85/584/EBE frá 20. desember 1985 (Stjtíð. EB L 372, 31.12.1985, bls. 42),
    – 390 L 0658: Tilskipun ráðsins 90/658/EBE frá 4. desember 1990 (Stjtíð. EB L 353, 17.12.1990, bls. 73),
    – 395 D 0001: 95/1/EB, KBE, KSE, aðlögun gerninga er varða aðild nýrra aðildarríkja að Evrópusambandinu (Stjtíð. EB L 1, 1.1.1995, bls. 1).

    Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:


    Eftirfarandi bætist aftan við 4. gr.:

    „m)      Á Íslandi:
                „próf frá Háskóla Íslands í lyfjafræði";


    n)          Í Liechtenstein:
                prófskírteini, vottorð og önnur starfsheiti sem veitt eru í öðru ríki sem tilskipun þessi tekur til og tilgreind í þessari grein, ásamt vottorði sem lögbær yfirvöld gefa út um að starfsþjálfun hafi verið lokið;

    o)         Í Noregi:
                „bevis for bestått cand.pharm. eksamen“ (prófskírteini með cand.pharm. gráðu) sem háskóladeild veitir;
    p)         Í Sviss:
                „titulaire du diplôme fédéral de pharmacien“,
                „eidgenössisch diplomierter Apotheker“,
                „titolare di diploma federale di farmacista“
                sem Département fédéral de l'intérieur veitir.“

D.     BYGGINGARLIST

16.     385 L 0384: Tilskipun ráðsins 85/384/EBE frá 10. júní 1985 um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi í byggingarlist, að meðtöldum ráðstöfunum er auðvelda að staðfesturéttar og réttar til að veita þjónustu sé neytt (Stjtíð. EB L 223, 21.8.1985, bls. 15), eins og henni var breytt með:
    – 385 L 0614: Tilskipun ráðsins 85/614/EBE frá 20. desember 1985 (Stjtíð. EB L 376, 31.12.1985, bls. 1),
    – 386 L 0017: Tilskipun ráðsins 86/17/EBE frá 27. janúar 1986 (Stjtíð. EB L 27, 1.2.1986, bls. 71),
    – 390 L 0658: Tilskipun ráðsins 90/658/EBE frá 4. desember 1990 (Stjtíð. EB L 353, 17.12.1990, bls. 73),
    – 395 D 0001: 95/1/EB, KBE, KSE, aðlögun gerninga er varða aðild nýrra aðildarríkja að Evrópusambandinu (Stjtíð. EB L 1, 1.1.1995, bls. 1).

    Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:

    a)     Eftirfarandi bætist við 11. gr.:
             „l)      Á Íslandi:
                    prófskírteini, vottorð og önnur starfsheiti sem veitt eru í öðru ríki sem tilskipun þessi tekur til og tilgreind í þessari grein, ásamt vottorði sem lögbær yfirvöld gefa út um að starfsþjálfun hafi verið lokið;

              m)      Í Liechtenstein:
                     prófskírteini frá „Fachhochschule“ (Dipl. – Arch. (FH));
              n)      Í Noregi:
                        –    prófskírteini (sivilarkitekt) sem er veitt af norsku tæknistofnuninni í háskólanum í Þrándheimi og byggingarlistarskólunum í Osló og Björgvin;


                       –    vottorð um félagsaðild að „Norske Arkitekters Landsforbund“ (NAL) hafi hlutaðeigandi einstaklingar hlotið þjálfun í ríki sem þessi tilskipun tekur til;
              o)      Í Sviss:
                    –    prófskírteini sem er veitt af „Ecoles polytechniques fédérales, Eidgenössische Technische Hochschulen, Politecnici Federal“ (arch.dipl.EPF, dipl.Arch.ETH, arch.dipl.PF),
                      –    prófskírteini sem er veitt af „Ecole d'architecture de l'Université de Genève“ (architecte diplômé EAUG),
                       –    vottorð frá „Fondation des registres suisses des ingénieurs, des architectes et des techniciens“, „Stiftung der Schweizerischen Register der Ingenieure, der Architekten und der Techniker“, „Fondazione dei Registri svizzeri degli ingegneri, degli architetti e dei tecnici (REG)“: architecte REG A, Architekt REG A, architetto REG A.“
    b)     Ákvæði 15. gr. gilda ekki.

E.     VERSLUN OG MILLILIÐIR

     Verslun með og dreifing á eiturefnum

17.     374 L 0556: Tilskipun ráðsins 74/556/EBE frá 4. júní 1974 sem hefur að geyma ítarleg ákvæði um bráðabirgðaráðstafanir vegna starfsemi, verslunar með og dreifingar á eiturefnum og vegna starfsemi sem felur í sér notkun slíkra efna í atvinnuskyni, að meðtalinni starfsemi milliliða (Stjtíð. EB L 307, 18.12.1974, bls. 1).

18.     374 L 0557: Tilskipun ráðsins 74/557/EBE frá 4. júní 1974 um hvernig koma skuli á staðfesturétti og rétti sjálfstætt starfandi einstaklinga og milliliða til að veita þjónustu á sviði verslunar með og dreifingar á eiturefnum (Stjtíð. EB L 307, 18.11.1974, bls. 5), eins og henni var breytt með:
    – 395 D 0001: 95/1/EB, KBE, KSE, aðlögun gerninga er varða aðild nýrra aðildarríkja að Evrópusambandinu (Stjtíð. EB L 1, 1.1.1995, bls. 1).

    Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:


    Eftirfarandi bætist við viðaukann:

     „Í Liechtenstein:
    1.        Bensól og tetraklórkolefni (reglugerð nr. 23 frá 1. júní 1964);
    2.        Öll eiturefni og efnaafurðir samkvæmt 2. gr. laga um eiturefni (SR 814.80), einkum þau sem eru tilgreind í skrá yfir eiturefni eða efnaafurðir 1, 2, 3 samkvæmt 3. gr. reglugerðar um eiturefni (SR 814.801) (sem er unnt að beita samkvæmt tollasáttmála, opinber auglýsing nr. 47 frá 28. ágúst 1979);


     Í Noregi:
    1.        Varnarefni sem falla undir lög um varnarefni frá 5. apríl 1963 og reglugerðir;
    2.        Efni sem falla undir reglugerð frá 1. júní 1990 um merkingar og viðskipti með efni sem geta verið hættuleg heilsu manna, ásamt viðeigandi reglugerð með skrá yfir efni.


     Í Sviss:
    Allar efnaafurðir og eiturefni samkvæmt 2. gr. laga um eiturefni (RS 814.80), einkum þau sem eru tilgreind í skrá yfir eiturefni og efnaafurðir í flokki 1, 2 og 3, samkvæmt 3. gr. reglugerðar um eiturefni (RS 814.801).“


     Sjálfstætt starfandi umboðssölumenn

19.     386 L 0653: Tilskipun ráðsins 86/653/EBE frá 18. desember 1986 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna er varða sjálfstætt starfandi umboðssölumenn (Stjtíð. EB L 382, 31.12.1986, bls. 17).

K.     ANNAÐ

20.     385 D 0368: Ákvörðun ráðsins 85/368/EBE frá 16. júlí 1985 um samanburð á kröfum um starfsmenntun og hæfi milli aðildarríkja Evrópubandalagsins (Stjtíð. EB L 199, 31.7.1985, bls. 56).


B-HLUTI GERÐIR SEM SAMNINGSAÐILAR SKULU TAKA MIÐ AF

Samningsaðilar taki mið af efni eftirfarandi gerða:


     Almennt

21.     C/81/74/bls.1: Orðsending frá framkvæmdastjórninni um sannanir, yfirlýsingar og vottorð varðandi óflekkað mannorð, að ekki hafi komið til gjaldþrots, eðli starfsemi og hve lengi hún hefur verið stunduð í landinu sem komið er frá, eins og kveðið er á um í tilskipunum ráðsins sem samþykktar voru fyrir 1. júní 1973 á sviði staðfesturéttar og réttar til að veita þjónustu (Stjtíð. EB nr. C 81, 13.7.1974, bls. 1).

22.     374 Y 0820(01): Ályktun ráðsins frá 6. júní 1974 um viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi (Stjtíð. EB nr. C 98, 20.8.1974, bls.1).

     Almennt kerfi

23.     389 L 0048: Greinargerð ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar við samþykkt tilskipunar 89/48/EBE frá 21. desember 1988 um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur að minnsta kosti í þrjú ár (Stjtíð. EB L 19, 24.1.1989, bls. 23).

     Læknar

24.     375 X 0366: Tilmæli ráðsins 75/366/EBE frá 16. júní 1975 um ríkisborgara Stórhertogadæmisins Lúxemborgar sem hafa prófskírteini í læknisfræði sem þeim hefur verið veitt í þriðja landi (Stjtíð. EB L 167, 30.6.1975, bls. 20).

25.     375 X 0367: Tilmæli ráðsins 75/367/EBE frá 16. júní 1975 um klíníska þjálfun lækna (Stjtíð. EB L 167, 30.6.1975, bls. 21).


26.     375 Y 0701(01): Greinargerðir ráðsins við samþykkt texta er varða staðfesturétt og rétt lækna til að veita þjónustu innan bandalagsins (Stjtíð. EB nr. C 146, 1.7.75, bls. 1).


27.     386 X 0458: Tilmæli ráðsins 86/458/EBE frá 15. september 1986 um ríkisborgara Stórhertogadæmisins Lúxemborgar sem hafa prófskírteini í læknisfræði frá þriðja ríki (Stjtíð. EB L 267, 19.9.1986, bls. 30).

28.     389 X 0601: Tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 89/601/EBE frá 8. nóvember 1989 um krabbameinsfræðslu starfsfólks í heilbrigðisþjónustu (Stjtíð. EB L 346, 27.11.1989, bls. 1).

     Tannlæknar

29.     378 Y 0824(01): Greinargerð ráðsins varðandi tilskipunina um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum er varða starfsemi tannlækna (Stjtíð. EB nr. C 202, 24.8.1978, bls. 1).

     Dýralæknar

30.     378 X 1029: Tilmæli ráðsins 78/1029/EBE frá 18. desember 1978 um ríkisborgara Stórhertogadæmisins Lúxemborgar sem hafa prófskírteini í dýralæknisfræði sem þeim hefur verið veitt í þriðja landi (Stjtíð. EB L 362, 23.12.1978, bls. 12).

31.     378 Y 1223(01): Greinargerðir ráðsins varðandi tilskipun um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi í dýralækningum, að meðtöldum ráðstöfunum er auðvelda að staðfesturéttar og réttar til að veita þjónustu sé neytt (Stjtíð. EB nr. C 308, 23.12.1978, bls. 1).

     Lyfjafræði

32.     385 X 0435: Tilmæli ráðsins 85/435/EBE frá 16. september 1985 um ríkisborgara Stórhertogadæmisins Lúxemborgar sem hafa prófskírteini í lyfjafræði frá þriðja ríki (Stjtíð. EB L 253, 24.9.1985, bls. 45).

     Byggingarlist

33.     385 X 0386: Tilmæli ráðsins 85/386/EBE frá 10. júní 1985 um þá sem hafa prófskírteini í byggingarlist sem er veitt í þriðja landi (Stjtíð. EB L 223, 21.8.1985, bls. 28).

ANNEX K

Free movement of persons (Chapter VIII)


I.     BASIC PROVISIONS

ARTICLE 1
Objectives

    The objectives of this Annex, for the benefit of nationals of the Member States, are:
(a)    to accord a right of entry, residence, access to work as employed persons, establishment on a self-employed basis and the right to stay in the territory of the Member States;
(b)    to facilitate the provision of services in the territory of the Member States, and in particular to liberalise the provision of services of brief duration;
(c)    to accord a right of entry into, and residence in, the territory of the Member States to persons without an economic activity in the host State;
(d)    to accord the same living, employment and working conditions as those accorded to nationals of the host State.

ARTICLE 2
Non-discrimination

    Nationals of one Member State who are lawfully resident in the territory of another Member State shall not, in application of and in accordance with the provisions of Appendices 1, 2 and 3 to this Annex, be the subject of any discrimination on grounds of nationality.

ARTICLE 3
Right of entry

    The right of entry of nationals of one Member State into the territory of another Member State shall be guaranteed in accordance with the provisions laid down in Appendix 1.

ARTICLE 4
Right of residence and access
to an economic activity

    The right of residence and access to an economic activity shall be guaranteed unless otherwise provided in Article 10 and in accordance with the provisions of Appendix 1.

ARTICLE 5
Persons providing services

1.     Without prejudice to other specific agreements between the Member States specifically concerning the provision of services (including the Government Procurement Agreement in so far as it covers the provision of services), persons providing services, including companies in accordance with the provisions of Appendix 1, shall have the right to provide a service in the territory of another Member State for a period not exceeding 90 days' of actual work in a calendar year.
2.     Providers of services shall have the right of entry into, and residence in, the territory of the other Member State:
(a)    where they have the right to provide a service under paragraph 1 or by virtue of the provisions of an agreement mentioned in paragraph 1; or
(b)    if the conditions specified in (a) are not fulfilled, where they have received authorisation to provide a service from the competent authorities of the Member State concerned.
3.     Nationals of a Member State entering the territory of another Member State solely to receive services shall have the right of entry and residence.
4.     The rights referred to in this Article shall be guaranteed in accordance with the provisions laid down in Appendices 1, 2 and 3. The quantitative limits of Article 10 may not be relied upon as against persons referred to in this Article.

ARTICLE 6
Right of residence for persons not pursuing an economic activity

    The right of residence in the territory of a Member State shall be guaranteed to persons not pursuing an economic activity in accordance with the provisions of Appendix 1 relating to non-active people.

ARTICLE 7
Other rights

    The Member States shall make provision, in accordance with Appendix 1, for the following rights in relation to the free movement of persons:
(a)    the right to equal treatment with nationals in respect of access to, and the pursuit of, an economic activity, and living, employment and working conditions;
(b)    the right to occupational and geographical mobility which enables nationals of the other Member States to move freely within the territory of the host State and to pursue the occupation of their choice;
(c)    the right to stay in the territory of a Member State after the end of an economic activity;
(d)    the right of residence for members of the family, irrespective of their nationality;
(e)    the right of family members to pursue an economic activity, irrespective of their nationality;
(f)    the right to acquire immovable property in so far as this is linked to the exercise of rights conferred by this Annex;
(g)    during the transitional period, the right, after the end of an economic activity or period of residence in the territory of a Member State, to return there for the purposes of pursuing an economic activity and the right to have a temporary residence permit converted into a permanent one.

ARTICLE 8
Coordination of social security systems

    The Member States shall make provision, in accordance with Appendix 2, for the coordination of social security systems with the aim in particular of:
(a)    securing equality of treatment;
(b)    determining the legislation applicable;
(c)    aggregating, for the purpose of acquiring and retaining the right to benefits, and of calculating such benefits, all periods taken into consideration by the national legislation of the States concerned;
(d)    paying benefits to persons residing in the territory of the Member States;
(e)    fostering mutual administrative assistance and co-operation between authorities and institutions.

ARTICLE 9
Mutual recognition of professional qualifications (diplomas, certificates and other evidence of formal qualifications)

    In order to make it easier for nationals of the Member States to gain access to and pursue activities as employed and self-employed persons and to provide services, the Member States shall take the necessary measures, in accordance with Appendix 3, concerning the mutual recognition of diplomas, certificates and other evidence of formal qualifications, and with the coordination of the laws, regulations and administrative provisions of the Member States on access to and pursuit of activities as employed and self-employed persons and the provision of services.












II.     GENERAL AND FINAL PROVISIONS

ARTICLE 10
Transitional provisions and development of this Annex

1.     For 51 years after the entry into force of the Agreement between the European Community and its Member States, of the one part, and the Swiss Confederation of the other, on the free movement of persons (hereinafter the “Swiss-EC Agreement on the free movement of persons”), Switzerland may maintain quantitative limits in respect of access to an economic activity for the following two categories of residence: residence for a period of more than four months and less than one year and residence for a period equal to, or exceeding, one year. There shall be no restriction on residence for less than four months.
    From the beginning of the 6th year, all quantitative limits applicable to nationals of the other Member States shall be abolished.
2.     For a maximum period of 2 years after the entry into force of the Swiss-EC Agreement on the free movement of persons, the Member States may maintain the controls on the priority of workers integrated into the regular labour market and wage and working conditions applicable to nationals of other Member States, including the persons providing services referred to in Article 5. Before the end of the first year, the Committee referred to in Article 14 (hereinafter the “Committee”) shall consider whether these restrictions need to be maintained. The Council may curtail the maximum period. The controls on the priority of workers integrated into the regular labour market shall not apply to providers of services liberalised under Annexes P, Q and R in so far s it covers the provision of services.


3.     Upon entry into force of the Swiss-EC Agreement on the free movement of persons, and until the end of the 5th year, each year Switzerland shall reserve, within its overall quotas, for employed and self-employed persons of the other Member States, at least 300 new residence permits valid for a period equal to, or exceeding, one year and 200 valid for more than four months and less than one year. If the agreed quota should not suffice, arrangements will be made by the Council.




1 The transitional period should expire at the same time as the corresponding period in the bilateral agreement between Switzerland and the European Community.

4.     The number of new residence permits issued by Switzerland to employed and self-employed persons of the other Member States may not be limited to fewer than 300 per year valid for a period equal to, or exceeding, one year and 200 per year valid for more than four months and less than one year.
5.     The transitional provisions of paragraphs 1 to 4, and in particular those of paragraph 2 concerning the priority of workers integrated into the regular labour market and controls on wage and working conditions, shall not apply to employed and self-employed persons who, at the time of the entry into force of the Swiss-EC Agreement on the free movement of persons, are authorised to pursue an economic activity in the territory of the Member States. Such persons shall in particular enjoy occupational and geographical mobility. The holders of residence permits valid for less than one year shall be entitled to have their permits renewed; the exhaustion of quantitative limits may not be invoked against them. The holders of residence permits valid for a period equal to, or exceeding, one year shall automatically be entitled to have their permits extended. Such employed and self-employed persons shall therefore enjoy the rights to free movement accorded to established persons in the basic provisions of this Annex, and in particular Article 7 thereof, from its entry into force.
6.     Switzerland shall regularly and promptly forward to the Council any useful statistics and information, including measures implementing paragraph 2. A Member State may request a review of the situation.

7.     No quantitative limits may be applied to frontier workers.
8.     The transitional provisions on social security and the retrocession of unemployment insurance contributions are laid down in Protocols 1, 2 and 3 to Appendix 2.

ARTICLE 11
Processing of appeals

1.     The persons covered by this Annex shall have a right of appeal to the competent authorities of the Member State concerned in respect of the application of the provisions of this Annex.
2.     Appeals must be processed within a reasonable period of time.
3.     Persons covered by this Annex shall have the opportunity to appeal to the competent national judicial body in respect of decisions on appeals, or the absence of a decision within a reasonable period of time.

ARTICLE 12
More favourable provisions

    This Annex shall not preclude any more favourable national provisions which may exist for both nationals of the Member States and their family members.

ARTICLE 13
Standstill

    The Member States undertake not to adopt any further restrictive measures vis-à-vis each other's nationals in fields covered by this Annex.


ARTICLE 14
Committee on the movement of persons

1.     The Council shall establish a Committee on the movement of persons, which shall be responsible for the management and proper application of the Annex. To that end it shall issue recommendations. It may set up working groups on the coordination of social security systems and on the mutual recognition of professional qualifications.
2.     For the purposes of proper implementation of this Annex, the Member States shall regularly exchange information and, at the request of one Member State, shall hold consultations within the Committee.
3.     The Council may decide to modify the Appendices 2 and 3 of this Annex.

ARTICLE 15
Safeguard measures

    In the event of serious economic or social difficulties, the Committee shall meet, at the request of one Member State, to examine appropriate measures to remedy the situation. The Council may decide what measures to take within 60 days of the date of the request. This period may be extended by the Council. The scope and duration of such measures shall not exceed that which is strictly necessary to remedy the situation. Preference shall be given to measures that least disrupt the working of this Annex.

ARTICLE 16
Reference to Community law

1.     In order to attain the objectives pursued by this Annex, the Member States shall take all measures necessary to ensure that rights and obligations equivalent to those contained in the legal acts of the European Community to which reference is made, as incorporated in the EEA Agreement and in the Swiss – EC Agreement on the free movement of persons, are applied in relations between them.

2.     Insofar as the application of this Annex involves common concepts of the legal instruments referred to in paragraph 1, account shall be taken of relevant case-law prior to 21 June 1999. In order to ensure the good functioning of this Annex, the Council shall, at the request of any Member State, determine the implications of case-law after 21 June 1999.

ARTICLE 17
Development of law

1.     As soon as one Member State initiates the process of adopting a draft amendment to its domestic legislation, or as soon as there is a change in the case-law of authorities against whose decisions there is no judicial remedy under domestic law in a field governed by this Annex, it shall inform the other Member States through the Committee.

2.     The Committee shall hold an exchange of views on the implications of such an amendment for the proper functioning of this Annex.

ARTICLE 18
Relationship to bilateral social security agreements

    Unless otherwise provided for under Appendix 2, bilateral social security agreements between the Member States shall be suspended upon entry into force of this Annex, in so far as the latter covers the same subject matter.

ARTICLE 19
Relationship to bilateral agreements
on double taxation

1.     The provisions of bilateral agreements between the Member States on double taxation shall be unaffected by the provisions of this Annex. In particular, the provisions of this Annex shall not affect the double taxation agreements' definition of 'frontier workers'.
2.     No provision of this Annex may be interpreted in such a way as to prevent the Member States from distinguishing, when applying the relevant provisions of their fiscal legislation, between taxpayers whose situations are not comparable, especially as regards their place of residence.
3.     No provision of this Annex shall prevent the Member States from adopting or applying measures to ensure the imposition, payment and effective recovery of taxes or to forestall tax evasion under their national fiscal legislation or agreements aimed at preventing double taxation between the Member States, or any other tax arrangements.

ARTICLE 20
Relationship to bilateral agreements on matters other than social security and double taxation

1.     Notwithstanding the provisions of Articles 18 and 19, this Annex shall not affect bilateral agreements between Member States, such as those concerning private individuals, economic operators, cross-border co-operation or local frontier traffic, in so far as they are compatible with this Annex.
2.     In the event of incompatibilities between such agreements and this Annex, the latter shall prevail.

ARTICLE 21
Acquired rights

    In the event of termination or non-renewal, rights acquired by private individuals shall not be affected. The Member States shall settle by mutual agreement what action is to be taken in respect of rights in the process of being acquired.


APPENDIX 1
Movement of persons (Art. 20)


I.     GENERAL PROVISIONS

ARTICLE 1
Entry and exit

1.     The Member States shall allow nationals of the other Member States and members of their family within the meaning of Article 3 of this Appendix and posted persons within the meaning of Article 16 of this Appendix to enter their territory simply upon production of a valid identity card or passport.
    No entry visa or equivalent requirement may be demanded save in respect of members of the family and posted workers within the meaning of Article 16 of this Appendix who do not have the nationality of a Member State. The Member State concerned shall grant these persons every facility for obtaining any necessary visas.
2.     The Member States shall grant nationals of the Member States, and members of their family within the meaning of Article 3 of this Appendix and posted workers within the meaning of Article 16 of this Appendix, the right to leave their territory simply upon production of a valid identity card or passport. The Member States may not demand any exit visa or equivalent requirement from nationals of the other Member States.
    The Member States, acting in accordance with their laws, shall issue to such nationals, or renew, an identity card or passport, which shall state in particular the holder's nationality.
    The passport must be valid at least for all the Member States and for the countries through which the holder must pass when traveling between them. Where the passport is the only document on which the holder may lawfully leave the country, its period of validity may not be less than five years.

ARTICLE 2
Residence and economic activity

1.     Without prejudice to the provisions for the transitional period, which are laid down in Article 10 of the Annex and Chapter VII of this Appendix, nationals of a Member State shall have the right to reside and pursue an economic activity in the territory of the other Member State under the procedures laid down in Chapters II to IV. That right shall be substantiated through the issue of a residence permit or, for persons from frontier zones, by means of a special permit.
    Nationals of a Member State shall also have the right to visit another Member State or to remain there after a period of employment of less than one year in order to seek employment and to reside there for a reasonable amount of time, which may be up to six months, to allow them to find out about the employment opportunities corresponding to their professional qualifications and, if necessary, take the appropriate steps to take up employment. Those seeking employment shall have the right, in the territory of the Member State concerned, to receive the same assistance as employment agencies in that State grant to its own nationals. They may be excluded from social security schemes for the duration of such residence.
2.     Nationals of the Member States not pursuing any economic activity in the host State who do not have a right of residence pursuant to other provisions of the Annex shall, provided they fulfill the preconditions laid down in Chapter V, have a right of residence. That right shall be substantiated through the issue of a residence permit.
3.     The residence or special permit granted to nationals of the Member States shall be issued and renewed free of charge or on payment of a sum not exceeding the charges or taxes which nationals are required to pay for the issue of identity cards. The Member States shall take the necessary measures to simplify the formalities and procedures for obtaining those documents as far as possible.
4.     The Member States may require nationals of the other Member States to report their presence in the territory.

ARTICLE 3
Members of the family

1.     A person who has the right of residence and is a national of a Member State is entitled to be joined by the members of his family. An employed person must possess housing for his family which is regarded as of normal standard for national employed persons in the region where he is employed, but this provision may not lead to discrimination between national employed persons and employed persons from the other Member State.
2.     The following shall be regarded as members of the family, whatever their nationality:
(a)    his spouse and their relatives in the descending line who are under the age of 21 or are dependent;
(b)    his relatives in the ascending line and those of his spouse who are dependent on him;
(c)    in the case of a student, his spouse and their dependent children.
    The Member States shall facilitate the admission of any member of the family not covered by the provisions of this paragraph under (a), (b) and (c), if that person is a dependant or lives in the household of the national of a Member State in the country of provenance.
3.     When issuing a residence permit to members of the family of a national of a Member State, the Member States may require only the documents listed below:
(a)    the document by virtue of which they entered the territory;
(b)    a document issued by the competent authority of the State of origin or provenance proving their relationship;
(c)    for dependants, a document issued by the competent authority of the State of origin or provenance certifying that they are dependants of the person referred to in paragraph 1 or that they live in his household in that State.
4.     The period of validity of a residence permit issued to a member of the family shall be the same as that of the permit issued to the person on whom he is dependent.
5.     The spouse and the dependent children or children aged under 21 of a person having a right of residence shall have the right to take up an economic activity whatever their nationality.
6.     The children of a national of a Member State, whether or not he is pursuing or has pursued an economic activity in the territory of the other Member State, shall be admitted to general education, apprenticeships and vocational training courses on the same basis as nationals of the host State, if those children are living in its territory. The Member States shall promote initiatives to enable such children to follow the abovementioned courses under the best conditions.

ARTICLE 4
Right to stay

1.     Nationals of a Member State and members of their family shall have the right to stay in the territory of another Member State after their economic activity has finished.
2.     In accordance with Article 16 of the Annex, reference is made to Regulation (EEC) No 1251/70 (OJ L 142, 1970, p. 24) and Directive 75/34/EEC (OJ L 14, 1975, p. 10), as incorporated in the EEA Agreement and in the Swiss – EC Agreement on free movement of persons and as in force on 21 June 1999.

ARTICLE 5
Public order

1.     The rights granted under the provisions of the Annex may be restricted only by means of measures which are justified on grounds of public order, public security or public health.
2.     In accordance with Article 16 of the Annex, reference is made to Directives 64/221/EEC (OJ L 56, 1964, p. 850), 72/194/EEC (OJ L 121, 1972, p. 32) and 75/35/EEC (OJ L 14, 1975, p. 10), as incorporated in the EEA Agreement and in the Swiss – EC Agreement on free movement of persons and as in force on 21 June 1999.


II.     EMPLOYED PERSONS

ARTICLE 6
Rules regarding residence

1.     An employed person who is a national of a Member State (hereinafter referred to as “employed person”) and is employed for a period of one year or more by an employer in the host State shall receive a residence permit which is valid for at least five years from its date of issue. It shall be extended automatically for a period of at least five years. When renewed for the first time, its period of validity may be limited, but not to less than one year, where its holder has been involuntarily unemployed for more than 12 consecutive months.
2.     An employed person who is employed for a period of more than three months but less than one year by an employer in the host State shall receive a residence permit for the same duration as his contract. An employed person who is employed for a period of up to three months does not require a residence permit.
3.     When issuing residence permits, the Member States may not require an employed person to produce more than the following documents:
(a)    the document by virtue of which he entered their territory;
(b)    a contractual statement from the employer or a written confirmation of engagement.
4.     A residence permit shall be valid throughout the territory of the issuing State.
5.     Breaks in residence of less than six consecutive months and absences for the purposes of fulfilling military service obligations shall not affect the validity of the residence permit.
6.     A valid residence permit may not be withdrawn from an employed person merely on the grounds that he is no longer working, either because he has become temporarily unable to work owing to an accident or illness, or because he is involuntarily unemployed as certified by the competent employment office.
7.     Completion of the formalities for obtaining a residence permit shall not prevent an applicant immediately taking up employment under the contract he has concluded.

ARTICLE 7
Employed frontier workers

1.     An employed frontier worker is a national of a Member State who has his residence in the territory of a Member State and who pursues an activity as an employed person in the territory of the other Member State, returning to his place of residence as a rule every day, or at least once a week.
2.     Frontier workers shall not require a residence permit.
    The competent authorities of the State of employment may nevertheless issue the frontier worker with a special permit for a period of at least five years or for the duration of his employment where this is longer than three months and less than one year. It shall be extended for at least five years provided that the frontier worker furnishes proof that he is actually pursuing an economic activity.

3.     Special permits shall be valid throughout the territory of the issuing State.

ARTICLE 8
Occupational and geographical mobility

1.     Employed persons shall have the right to occupational and geographical mobility throughout the territory of the host State.
2.     Occupational mobility shall include changes of employer, employment or occupation and changing from employed to self-employed status. Geographical mobility shall include changes in the place of work and residence.

ARTICLE 9
Equal treatment

1.      An employed person who is a national of a Member State may not, by reason of his nationality, be treated differently in the territory of the other Member State from national employed persons as regards conditions of employment and working conditions, especially as regards pay, dismissal, or reinstatement or re-employment if he becomes unemployed.
2.     An employed person and the members of his family referred to in Article 3 of this Appendix shall enjoy the same tax concessions and welfare benefits as national employed persons and members of their family.
3.      He shall also be entitled on the same basis and on the same terms as national employed persons to education in vocational training establishments and in vocational retraining and occupational rehabilitation centres.
4.     Any clause in a collective or individual agreement or in any other collective arrangements concerning access to employment, employment, pay and other terms of employment and dismissal, shall be automatically void insofar as it provides for or authorizes discriminatory conditions with respect to foreign employed persons who are nationals of the Member States.
5.     An employed person who is a national of a Member State and is employed in the territory of the another Member State shall enjoy equal treatment in terms of membership of trade union organisations and exercise of union rights, including the right to vote and right of access to executive or managerial positions within a trade union organisation; he may be precluded from involvement in the management of public law bodies and from holding an office governed by public law. He shall, moreover, have the right to be eligible for election to bodies representing employees in an undertaking.
    These provisions shall be without prejudice to laws or regulations in the host State which confer more extensive rights on employed persons from another Member State.
6.     Without prejudice to the provisions of Article 25 of this Appendix, an employed person who is a national of a Member State and employed in the territory of another Member State shall enjoy all the rights and all the advantages accorded to national employed persons in terms of housing, including ownership of the housing he needs.
    Such a worker shall have the same right as nationals to register on the housing lists in the region in which he is employed, where such lists exist; he shall enjoy the resultant benefits and priorities. If his family has remained in his State of provenance, it shall be considered for this purpose as residing in the said region, where national workers benefit from a similar presumption.

ARTICLE 10
Public service employment

    A national of a Member State pursuing an activity as an employed person may be refused the right to take up employment in the public service which involves the exercise of public power and is intended to protect the general interests of the State or other public bodies.

III.     SELF-EMPLOYED PERSONS


ARTICLE 11
Rules regarding residence

1.     A national of a Member State wishing to become established in the territory of another Member State in order to pursue a self-employed activity (hereinafter referred to as a self-employed person) shall receive a residence permit valid for a period of at least five years from its date of issue, provided that he produces evidence to the competent national authorities that he is established or wishes to become so.
2.     The residence permit shall be extended automatically for a period of at least five years, provided that the self-employed person produces evidence to the competent national authorities that he is pursuing a self-employed economic activity.
3.     When issuing residence permits, the Member States may not require self-employed persons to produce more than the following:
(a)    the document by virtue of which he entered their territory;
(b)    the evidence referred to in paragraphs 1 and 2.
4.     A residence permit shall be valid throughout the territory of the issuing State.
5.     Breaks in residence of less than six consecutive months and absences for the purposes of fulfilling military service obligations shall not affect the validity of the residence permit.
6.     Valid residence permits may not be withdrawn from persons referred to in paragraph 1 merely because they are no longer working owing to temporary incapacity as a result of illness or accident.

ARTICLE 12
Self-employed frontier workers

1.     A self-employed frontier worker is a national of a Member State who is resident in the territory of a Member State and who pursues a self-employed activity in the territory of another Member State, returning to his place of residence as a rule every day or at least once a week.
2.     Self-employed frontier workers shall not require a residence permit.
    The relevant authorities of the State concerned may nevertheless issue a self-employed frontier worker with a special permit valid for at least five years provided that he produces evidence to the competent national authorities that he is pursuing or wishes to pursue a self-employed activity. The permit shall be extended for at least five years, provided that the frontier worker produces evidence that he is pursuing a self-employed activity.

3.     Special permits shall be valid throughout the territory of the issuing State.

ARTICLE 13
Occupational and geographical mobility

1.     Self-employed persons shall have the right to occupational and geographical mobility throughout the territory of the host State.
2.     Occupational mobility shall include change of occupation and changing from self-employed to employed status. Geographical mobility shall include changes in the place of work and residence.

ARTICLE 14
Equal treatment

1.     As regards access to a self-employed activity and the pursuit thereof, a self-employed worker shall be afforded no less favourable treatment in the host State than that accorded to its own nationals.
2.     The provisions of Article 9 of this Appendix shall apply mutatis mutandis to the self-employed persons referred to in this Chapter.

ARTICLE 15
Exercise of public authority

    A self-employed person may be denied the right to pursue an activity involving, even on an occasional basis, the exercise of public authority.


IV.     PROVISION OF SERVICES

Persons providing services

ARTICLE 16

    With regard to the provision of services, the following shall be prohibited under Article 5 of the Annex:
(a)    any restriction on the cross-frontier provision of services in the territory of a Member State not exceeding 90 days of actual work per calendar year;
(b)    any restriction on the right of entry and residence in the cases covered by paragraph 2 of Article 5 of the Annex concerning:
    (i)    persons providing services who are nationals of a Member State and are established in the territory of a Member State other than that of the person receiving services;

    (ii)    employees, irrespective of their nationality, of persons providing services, who are integrated into one Member State's regular labour market and posted for the provision of a service in the territory of another Member State without prejudice to Article 1.

ARTICLE 17

    The provisions of Article 16 of this Appendix shall apply to companies formed in accordance with the law of a Member State and having their registered office, central administration or principal place of business in the territory of a Member State.

ARTICLE 18

    A person providing services who has the right or has been authorised to provide a service may, for the purposes of its provision, temporarily pursue his activity in the State in which the service is provided on the same terms as those imposed by that State on its own nationals, in accordance with the provisions of this Appendix and Appendices 2 and 3 to the Annex.

ARTICLE 19

1.     Persons referred to in Article 16(b) of this Appendix who have the right to provide a service shall not require a residence permit for periods of residence of 90 days or less. Such residence shall be covered by the documents referred to in Article 1, by virtue of which they entered the territory.
2.     Persons referred to in Article 16(b) of this Appendix who have the right or have been authorised to provide a service for a period exceeding 90 days shall receive, to substantiate that right, a residence permit for a period equal to that of the provision of services.
3.     The right of residence shall apply throughout the territory of the Member States.
4.     For the purposes of issuing residence permits, the Member States may not require of the persons referred to in Article 16(b) of this Appendix more than:
(a)    the document by virtue of which they entered the territory;
(b)    evidence that they are providing or wish to provide a service.

ARTICLE 20

1.     The total duration of provision of services under Article 16(a) of this Appendix, whether continuous or consisting of successive periods of provision, may not exceed 90 days of actual work per calendar year.
2.     The provisions of paragraph 1 shall be without prejudice to the discharge by the person providing a service of his legal obligations under the guarantee given to the person receiving the service or to cases of force majeure.

ARTICLE 21

1.     The provisions of Articles 16 and 18 of this Appendix shall not apply to activities involving, even on an occasional basis, the exercise of public authority in the Member State concerned.
2.     The provisions of Articles 16 and 18 of this Appendix and measures adopted by virtue thereof shall not preclude the applicability of laws, regulations and administrative provisions providing for the application of working and employment conditions to employed persons posted for the purposes of providing a service. In accordance with Article 16 of the Annex reference is made to Directive 96/71/EC of 16 December 1996 concerning the posting of workers in the framework of the provision of services (OJ L 18, 1997, p.1), as incorporated in the EEA Agreement and in the Swiss – EC Agreement on free movement of persons and as in force on 21 June 1999.
3.     The provisions of Articles 16(a) and 18 of this Appendix shall be without prejudice to the applicability of the laws, regulations and administrative provisions prevailing in all Member States at the time of the entry into force of the Annex in respect of:
(a)    the activities of temporary and interim employment agencies;
(b)    financial services where provision is subject to prior authorisation in the territory of a Member State and the provider is subject to prudential supervision by that Member State's authorities.
4.     The provisions of Articles 16(a) and 18 of this Appendix shall be without prejudice to the applicability of the Member States' respective laws, regulations and administrative provisions concerning the provision of services of 90 days of actual work or less required by imperative requirements in the public interest.

Persons receiving services

ARTICLE 22

1.     A person receiving services within the meaning of paragraph 3 of Article 5 of the Annex shall not require a residence permit for a period of residence of three months or less. For a period exceeding three months, a person receiving services shall be issued with a residence permit equal in duration to the service. He may be excluded from social security schemes during his period of residence.
2.     A residence permit shall be valid throughout the territory of the issuing State.

V.     PERSONS NOT PURSUING AN ECONOMIC ACTIVITY

ARTICLE 23
Rules regarding residence

1.     A person who is a national of a Member State not pursuing an economic activity in the State of residence and having no right of residence pursuant to other provisions of the Annex shall receive a residence permit valid for at least five years provided he proves to the competent national authorities that he possesses for himself and the members of his family:
(a)    sufficient financial means not to have to apply for social assistance benefits during their stay;

(b)    all-risks sickness insurance cover. 1
    The Member States may, if they consider it necessary, require the residence permit to be revalidated at the end of the first two years of residence.
2.     Financial means shall be considered sufficient if they exceed the amount below which nationals, having regard to their personal situation and, where appropriate, that of their family, can claim social security benefits. Where that condition cannot be applied, the applicant's financial means shall be regarded as sufficient if they are greater than the level of the minimum social security pension paid by the host State.



1 In Switzerland, sickness insurance for persons who do not elect to make it their domicile must include accident and maternity cover.
3.     Persons who have been employed for less than one year in the territory of a Member State may reside there provided they comply with the conditions set out in paragraph 1 of this Article. The unemployment benefits to which they are entitled under national law which is, where appropriate, complemented by the provisions of Appendix 2 to the Annex, shall be considered to be financial means within the meaning of paragraphs 1(a) and 2 of this Article.
4.     A student who does not have a right of residence in the territory of another Member State on the basis of any other provision of the Annex shall be issued with a residence permit for a period limited to that of the training or to one year, if the training lasts for more than one year, provided he satisfies the national authority concerned, by means of a statement or, if he chooses, by any other at least equivalent means, that he has sufficient financial means to ensure that neither he, his spouse nor his dependent children will make any claim for social security of the host State during their stay, and provided he is registered in an approved establishment for the purpose of following, as his principal activity, a vocational training course and has all-risks sickness insurance cover. The Annex does not regulate access to vocational training or maintenance assistance given to the students covered by this Article.
5.     A residence permit shall automatically be extended for at least five years provided that the eligibility conditions are still met. Residence permits for students shall be extended annually for a duration equal to the remaining training period.
6.     Breaks in residence of less than six consecutive months and absences for the purposes of fulfilling military service obligations shall not affect the validity of the residence permit.
7.     A residence permit shall be valid throughout the territory of the issuing State.
8.     The right of residence shall remain for as long as beneficiaries of that right fulfill the conditions laid down in paragraph 1.

VI.     PURCHASE OF IMMOVABLE PROPERTY

ARTICLE 24

1.     A national of a Member State who has a right of residence and his principal residence in the host State shall enjoy the same rights as a national as regards the purchase of immovable property. He may set up his principal residence in the host State at any time in accordance with the relevant national rules irrespective of the duration of his employment. Leaving the host State shall not entail any obligation to dispose of such property.
2.     The national of a Member State who has a right of residence but does not have his principal residence in the host State shall enjoy the same rights as a national as regards the purchase of immovable property needed for his economic activity. Leaving the host State shall not entail any obligation to dispose of such property. He may also be authorised to purchase a second residence or holiday accommodation. The Annex shall not affect the rules applying to pure capital investment or business of unbuilt land and apartments.
3.     A frontier worker shall enjoy the same rights as a national as regards the purchase of immovable property for his economic activity and as a secondary residence. Leaving the host State shall not entail any obligation to dispose of such property. He may also be authorised to purchase holiday accommodation. The Annex shall not affect the rules applying in the host State to pure capital investment or business of unbuilt land and apartments.

VII.     TRANSITIONAL PROVISIONS AND DEVELOPMENT OF THE ANNEX

ARTICLE 25
General provisions

1.     When the quantitative restrictions laid down in Article 10 of the Annex are applied, the provisions contained in this Chapter shall supplement or replace the other provisions of this Appendix, as the case may be.
2.     When the quantitative restrictions laid down in Article 10 of the Annex are applied, the pursuit of an economic activity shall be subject to the issue of a residence and/or a work permit.

ARTICLE 26
Rules relating to the residence
of employed persons

1.     The residence permit of an employed person who has an employment contract for a period of less than one year shall be extended for up to a total of 12 months provided that the employed person furnishes proof to the competent national authorities that he is able to pursue an economic activity. A new residence permit shall be issued provided that the employed person furnishes proof that he is able to pursue an economic activity and that the quantitative limits laid down in Article 10 of the Annex have not been reached. There shall be no obligation to leave the country between two employment contracts in accordance with Article 23 of this Appendix.
2.     During the period referred to in paragraph 2 of Article 10 of the Annex, a Member State may require that a written contract or draft contract be produced before issuing a first residence permit.
             3. (a) Persons who have previously held temporary jobs in the territory of the host State for at least 30 months shall automatically have the right to take up employment for an unlimited duration. 2 They may not be denied this right on the grounds that the number of residence permits guaranteed has been exhausted.
(b)    Persons who have previously held seasonal employment in the territory of the host State for a total of not less than 50 months during the last 15 years and do not meet the conditions of entitlement to a residence permit in accordance with the provisions of subparagraph (a) above shall automatically have the right to take up employment for an unlimited duration.

ARTICLE 27
Employed frontier workers

1.     An employed frontier worker is a national of a Member State who has his normal place of residence in the frontier zones of Switzerland or neighbouring States and who pursues an activity as an employed person in the frontier zones of Switzerland and its neighbouring States returning as a rule to his principal residence every day, or at least once a week. For the purposes of the Annex, frontier zones shall mean the zones defined in the agreements concluded between Switzerland and its neighbouring States concerning movement in frontier zones.
2.     The special permit shall be valid throughout the frontier zone of the issuing State.

ARTICLE 28
Employed persons' right to return

1.     An employed person who, on the date the Annex entered into force, was holding a residence permit valid for at least one year and who has then left the host State shall be entitled to preferential access to the quota for a new residence permit within six years of his departure provided he proves that he is able to pursue an economic activity.
2.     A frontier worker shall have the right to a new special permit within six years of the end of his previous employment over an uninterrupted period of three years, subject to verification of his pay and working conditions if he is employed for the two years following the entry into force of the Annex, provided he proves to the competent national authorities that he is able to pursue an economic activity.


2 They shall not be subject to the priority accorded to workers integrated into the regular labour market or monitoring of compliance with wage and employment conditions in a particular sector or place.

3.     Young persons who have left the territory of a Member State before the age of 21, after residing there for at least five years, shall have the right for a period of four years after having left to return to that Member State and pursue an economic activity.

ARTICLE 29
Employed persons' occupational
and geographical mobility

1.     An employed person holding a residence permit valid for less than one year shall, for the twelve months following the commencement of his employment, have the right to occupational and geographical mobility. The right to change from employed to self-employed status shall also be allowed subject to compliance with Article 10 of the Annex.
2.     Special permits issued to employed frontier workers shall confer the right to occupational and geographical mobility within all the frontier zones of Switzerland or its neighbouring States.

ARTICLE 30
Rules relating to the residence
of self-employed persons

    A national of a Member State wishing to become established in the territory of another Member State in order to pursue a self-employed activity (hereinafter referred to as a 'self-employed worker') shall receive a residence permit valid for a period of six months. He shall receive a residence permit valid for at least five years provided that he proves to the competent national authorities before the end of the six-month period that he is pursuing a self-employed activity. If necessary, the six-month period may be extended by a maximum of two months if there is a genuine likelihood that he will produce such proof.

ARTICLE 31
Self-employed frontier workers


1.     A self-employed frontier worker is a national of a Member State who is ordinarily resident in the frontier zones of Switzerland or neighbouring States and who pursues a self-employed activity in the frontier zones of Switzerland or its neighbouring States returning as a rule to his principal residence in principle every day or at least once a week. For the purposes of the Annex, frontier zones shall mean the zones defined in the agreements concluded between Switzerland and its neighbouring States concerning movement in frontier zones.
2.     A national of a Member State who wishes in his capacity as a frontier worker to pursue a self-employed activity in the frontier zones of Switzerland or its neighbouring States shall receive a preliminary six-month special permit in advance. He shall receive a special permit for a period of at least five years provided that he proves to the competent national authorities, before the end of that six-month period, that he is pursuing a self-employed activity. If necessary, the six-month period may be extended by a maximum of two months if there is a genuine likelihood that he will produce such proof.
3.     Special permits shall be valid throughout the frontier zone of the issuing State.

ARTICLE 32
Self-employed persons' right to return


1.     A self-employed person who has held a residence permit valid for a period of at least five years and who has left the host State shall have the right to a new permit within six years of his departure provided he has already worked in the host State for an uninterrupted period of three years and proves to the competent national authorities that he is able to pursue an economic activity.
2.     A self-employed frontier worker shall have the right to a new special permit within a period of six years of the termination of previous activity lasting for an uninterrupted period of four years provided he proves to the competent national authorities that he is able to pursue an economic activity.

3.     Young persons who have left the territory of a Member State before the age of 21, after residing there for at least five years, shall have the right for a period of four years after having left to return to that Member State and pursue an economic activity.

ARTICLE 33
Self-employed persons' occupational and geographical mobility

    Special permits issued to self-employed frontier workers shall confer the right to occupational and geographical mobility within the frontier zones of Switzerland or its neighbouring States. Preliminary six-month residence permits issued in advance (in the case of frontier workers, special permits) shall confer the right only to geographical mobility.




APPENDIX 2

Co-ordination of social security schemes (Art. 21)


ARTICLE 1

1.     The Member States agree, with regard to the co-ordination of social security schemes, to apply among themselves the Community acts to which reference is made, as incorporated in the EEA Agreement and the Swiss-EC Agreement on the free movement of persons, and as in force on 21 June 1999 and as amended by Section A of this Appendix, or rules equivalent to such acts.
2.     The term “Member State(s)” contained in the acts referred to in Section A of this Appendix shall be understood to refer to the Member States of this Convention.

ARTICLE 2

1.     For the purposes of applying the provisions of this Appendix, the Member States shall take into consideration the Community acts referred to in or amended by Section B of this Appendix, as incorporated in the EEA Agreement and the Swiss-EC Agreement on the free movement of persons, and as in force on 21 June 1999.
2     For the purposes of applying the provisions of this Appendix, the Member States shall take note of the Community acts referred to in Section C of this Appendix, as incorporated in the EEA Agreement and the Swiss-EC Agreement on the free movement of persons, and as in force on 21 June 1999.


ARTICLE 3

1.     The arrangements relating to unemployment insurance for workers from the Member States other than Switzerland holding a Swiss residence permit valid for less than one year are set out in Protocol 1 to this Appendix.
2.     Sections A and B are applicable to the relations between Liechtenstein and Switzerland under the conditions set out in Protocol 2 to this Appendix.
3.     Sections A and B are applicable to the relations between Norway and Switzerland under the conditions set out in Protocol 3 to this Appendix.

SECTION A: ACTS REFERRED TO

1.      371 R 1408 1: Council Regulation (EEC) No 1408/71 of 14 June 1971 on the application of social security schemes to employed persons, to self-employed persons and to the members of their families moving within the Community,

as updated by:
–     397 R 0118: Council Regulation (EC) No 118/97 of 2 December 1996 (OJ L 28, 30.1.97, p. 1) modifying and updating Regulation (EEC) No 1408/71 on the application of social security schemes to employed persons, to self-employed persons and to members of their families moving within the Community and Regulation (EEC) No 574/72 fixing the procedure for implementing Regulation (EEC) No 1408/71,

1 The principles of aggregation of entitlements to unemployment benefit and its provision in the State of last employment apply irrespective of the duration of employment.
    Persons who have been employed for a period of less than one year within the territory of a Member State may, in order to seek a new job, reside there after the end of their employment for a reasonable period, which may be up to six months, for the purpose of identifying offers of jobs corresponding to their professional qualifications and, if necessary, taking the steps required to obtain employment. These persons may also remain after the end of their employment if they have sufficient financial means to support themselves and the members of their families without having to draw on welfare benefits during their stay, and if they have sickness insurance cover for all risks. Unemployment benefit to which they are entitled under national legislation, and which may if necessary be supplemented under aggregation rules, is to be regarded as such financial means. Financial means are deemed adequate if they exceed the amount below which nationals of the State concerned may, while taking into account their personal circumstances and possibly those of their families, claim welfare benefits. If this precondition is not applicable, the financial means of the applicant are considered adequate if they exceed the level of the minimum social security pension granted by the host State.
    Seasonal workers may exercise their rights to unemployment benefits in the State of last employment regardless of when the season concerned comes to an end. They may remain after the end of their employment provided that they satisfy the conditions mentioned in the previous paragraph. If they make themselves available for work in the State of residence, they will receive unemployment benefits in that State in accordance with the provisions of Article 71 of Regulation 1408/71.
    Frontier workers may make themselves available for work in the State of residence or in the State of last employment if they have maintained personal and professional links and thus have better prospects of finding employment there. They will draw unemployment benefits in the State in which they make themselves available for work.

–     397 R 1290: Council Regulation (EC) No 1290/97 of 27 June 1997 (OJ L 176, 4.7.97, p. 1) modifying Regulation (EEC) No 1408/71 on the application of social security schemes to employed persons, to self-employed persons and to members of their families moving within the Community and Regulation (EEC) No 574/72 fixing the procedure for implementing Regulation (EEC) No 1408/71,
–     398 R 1223: Council Regulation (EC) No 1223/98 of 4 June 1998 (OJ L 168, 13.6.98, p.1) modifying Regulation (EEC) No 1408/71 on the application of social security schemes to employed persons, to self-employed persons and to members of their families moving within the Community and Regulation (EEC) No 574/72 fixing the procedure for implementing Regulation (EEC) No 1408/71,
–     398 R 1606: Council Regulation (EC) No 1606/98 of 29 June 1998 (OJ L 209, 25.7.98, p. 1) modifying Regulation (EEC) No 1408/71 on the application of social security schemes to employed persons, to self-employed persons and to members of their families moving within the Community and Regulation (EEC) No 574/72 fixing the procedure for implementing Regulation (EEC) No 1408/71,

–     399 R 0307: Council Regulation (EC) No 307/1999 of 8 February 1999 (OJ L 38, 12.2.1999 p. 1) amending Regulation (EEC) No 1408/71 on the application of social security schemes to employed persons, to self-employed persons and to members of their families moving within the Community and Regulation (EEC) No 574/72 laying down the procedure for implementing Regulation (EEC) No 1408/71 with a view to extending them to cover students.

The provisions of the Regulation shall, for the purposes of this Convention, be read with the following adaptations:
1.    The third subparagraph of Article 1(j) shall not apply.

2.    Article 94 (9) shall not apply.

3.    Article 95a shall not apply.

4.    Article 95b shall not apply.

5.    Article 96 shall not apply.

6.    The following shall be added to Annex I(I):

    “P.     ICELAND
    Any person who is an employed or self-employed person within the meaning of the provisions relating to the occupational injuries insurance in the Social Security Act shall be considered respectively as employed or self-employed within the meaning of Article 1(a)(ii) of the Regulation.

    Q.    LIECHTENSTEIN
    Does not apply.

    R.     NORWAY
    Any person who is an employed or self-employed person within the meaning of the National Insurance Act shall be considered respectively as employed or self-employed within the meaning of Article 1(a)(ii) of the Regulation.

    S.     SWITZERLAND
    If a Swiss institution is the competent institution for granting healthcare benefits in accordance with Title III Chapter 1 of the Regulation: (a) an employed worker within the meaning of the Federal Old Age and Survivors' Insurance Act shall be deemed 'employed person' within the meaning of Article 1(a)(ii) of the regulation; and (b) a self-employed worker within the meaning of the Federal Old-Age and Survivors' Insurance Act shall be deemed a 'self-employed person' within the meaning of Article 1(a)(ii) of the Regulation.”.

7.     The following shall be added to Annex I(II):

    “P.     ICELAND
    For the purpose of determining entitlement to benefits in kind pursuant to the provisions of Chapter 1 of Title III of the Regulation, 'member of the family' means a spouse or a child under the age of 25.

    Q.     LIECHTENSTEIN
    For the purpose of determining entitlement to benefits in kind pursuant to the provisions of Chapter 1 of Title III of the Regulation, 'member of the family' means a spouse or a dependent child under the age of 25.

    R.     NORWAY
    For the purpose of determining entitlement to benefits in kind pursuant to the provisions of Chapter 1 of Title III of the Regulation, 'member of the family' means a spouse or a child under the age of 25.

    S.     SWITZERLAND
    For the purpose of determining entitlement to benefits in kind pursuant to the provisions of Title III Chapter 1 of the Regulation, 'member of the family' shall mean the spouse as well as the children under the age of 18 and those under the age of 25 attending school, pursuing studies or undergoing apprenticeship.”.

8.     The following shall be added to Annex II(I):

    “P.     ICELAND
    Does not apply.

    Q.     LIECHTENSTEIN
    Does not apply.

    R.     NORWAY
    Does not apply.

    S.     SWITZERLAND
    The cantonal schemes (Graubunden, Lucerne, St. Gallen) for family allowances for self employed persons.”.

9.     The following shall be added to Annex II(II):

    “P.     ICELAND
    None.

    Q.     LIECHTENSTEIN
    None.

    R.     NORWAY
    (a)    Lump sum grants payable at childbirth pursuant to the National Insurance Act;

    (b)    Lump sum grants payable at adoption pursuant to the National Insurance Act.

    S.     SWITZERLAND
    Birth grants and adoption grants pursuant to the relevant cantonal legislation on family benefits (Fribourg, Geneva, Jura, Lucerne, Neuchatel, Schaffhausen, Schwyz, Solothurn, Uri, Valais, Vaud).”.

10.     The following shall be added to Annex II(III):

    “P.     ICELAND
    None.

    Q.     LIECHTENSTEIN
    None.

    R.     NORWAY
    None.

    S.     SWITZERLAND
    Does not apply.”.

11.     The following shall be added to Annex IIa:

    “P.     ICELAND
    None.

    Q.     LIECHTENSTEIN
    (a)    Allowances for blind persons (Law on the granting of allowances for blind persons of 17 December 1970).
    (b)    Maternity allowances (Law on the granting of maternity allowances of 25 November 1981).
    (c)    Supplementary benefits to the old age, survivors' and invalidity insurance Law on supplementary benefits to the old age, survivors' and invalidity insurance of 10 December 1965 as revised on 12 November 1992).
    (d)    Helplessness allowance (Law on supplementary benefits to the old age, survivors' and invalidity insurance of 10 December 1965 as revised on 12 November 1992).

    R.     NORWAY
    (a)    Basic benefit and attendance benefit in accordance with Articles 6-1 to 6-8 of the National Insurance Act of 28 February 1997 No 19 to cover extra expenses or the need for special attention, nursing or domestic help incurred by the disability, except for instances where the beneficiary is drawing old-age, disability or survivors' pensions from the National Insurance Scheme.
    (b)    Guaranteed minimum supplementary pension to persons who are born disabled or become disabled at an early age in accordance with Articles 3-21 and 3-22 of the National Insurance Act of 28 February 1997 No 19.
    (c)    Child care benefit and educational benefit to surviving spouse in accordance with Article 17-9 of the National Insurance Act of 28 February 1997 No 19.

    S.     SWITZERLAND
    (a)    Supplementary benefits (Federal Supplementary Benefits Act of 19 March 1965) and similar benefits provided for under cantonal legislation.
    (b)    Pension in the case of hardship under invalidity insurance (Article 28 subpara. 1a of the Federal Invalidity Insurance Act of 19 June 1959, as amended on 7 October 1994).

    (c)    Non-contributory mixed benefits in the event of unemployment, as provided for under cantonal legislation.”.

12.     The following shall be added to Annex III(A):

    “106.     ICELAND – LIECHTENSTEIN
    No convention.

    107.     ICELAND – NORWAY
    Article 10 of the Nordic Convention on social security of 15 June 1992.

    108.     ICELAND – SWITZERLAND
    No convention.

    109.     LIECHTENSTEIN – NORWAY
    No convention.

    110.     LIECHTENSTEIN – SWITZERLAND
    (a)    Article 4 of the Convention on Social Security of 8 March 1989 as amended by the Complementary Conventions No 1 of 9 February 1996 and No 2 of 29 November 2000 as regards the payment of cash benefits to persons residing in a third State;

            Article 5 paragraphs 1 and 2 as well as Articles 6 to 8a with respect to the legal provisions of the two States covered by article 4 paragraph 1 of the Regulation;

            Article 14 paragraph 1, with the reservation that rehabilitation measures granted pursuant to the legislation of the last State of employment are granted only for a period of three years. After that the insurance scheme of the State of residence takes over and deals with the claim as if it had arisen under its own legislation;

            Article 14 paragraphs 3 and 4; Articles 20 to 22;

            Point 20 of the Final Protocol to the said Convention and Article 3 paragraph 3 of the said Complementary Convention No 2.

    (b)    Article 6 of the Convention on Unemployment Insurance of 15 January 1979.

    111.     NORWAY – SWITZERLAND
    Article 6(2) of the Convention on social security of 21 February 1979.”.

13.     The following shall be added to Annex III(B):

    “106.     ICELAND – LIECHTENSTEIN
    No convention.

    107.     ICELAND – NORWAY
    None.

    108.     ICELAND – SWITZERLAND
    No convention.

    109.     LIECHTENSTEIN – NORWAY
    No convention.

    110.     LIECHTENSTEIN – SWITZERLAND
    (a)    Article 4 of the Convention on Social Security of 8 March 1989 as amended by the Complementary Conventions No 1 of 9 February 1996 and No 2 of 29 November 2000 as regards the payment of cash benefits to persons residing in a third State.
    (b)    Article 6 of the Convention on Unemployment Insurance of 15 January 1979.

    111.     NORWAY – SWITZERLAND
    Article 6(2) of the Convention on social security of 21 February 1997.”.

14.    The following shall be added to Annex IV Heading A:

    “P.     ICELAND
    None.

    Q.     LIECHTENSTEIN
    None.

    R.     NORWAY
    None.

    S.     SWITZERLAND
    None.”.

15.    The following shall be added to Annex IV Heading B:

    “P.     ICELAND
    None.

    Q.     LIECHTENSTEIN
    None.

    R.     NORWAY
    None.

    S.     SWITZERLAND
    None.”.

16.    The following shall be added to Annex IV Heading C:

    “P.     ICELAND
    All applications for the old-age basic, supplementary and special scheme for civil servants' pensions.

    Q.     LIECHTENSTEIN
    All applications for ordinary pensions of the old-age, survivors' and invalidity insurances as well for old-age, survivors' and invalidity pensions of the occupational scheme so far as the regulations of the respective pension fund do not contain provisions concerning reduction.

    R.     NORWAY
    All applications for old-age pensions, except pensions mentioned in Annex IV(D).

    S.     SWITZERLAND
    All claims for old-age, survivors' and invalidity pensions under the basic scheme and old-age pensions under the occupational benefit plans.”.

17.    The following shall be added to Annex IV Heading D 2:
    “(g)    Norwegian disability pensions, also when converted into an old-age pension upon the reaching of the pensionable age, and all pensions (survivors' and old-age pensions) based on a deceased person's pension earnings.
    (h)        Swiss Survivors' and invalidity pensions under the Federal Law on occupational benefits plans for old-age, survivors' and invalidity insurance of 25 June 1982.”.

18.     The following shall be added to Annex VI:

    “P.     ICELAND
    1.          Where employment or self-employment in Iceland has terminated and the contingency occurs during employment or self-employment in another State to which this Regulation applies and where the disability pension of both the social security and the supplementary pension schemes (pension funds) in Iceland no longer includes the period between the contingency and the pensionable age (future periods), periods of insurance under the legislation of another State to which this Regulation applies shall be taken into consideration for the requirement of the future periods as if they were periods of insurance in Iceland.
    2.          A person who is covered by a special scheme for civil servants who is resident in Iceland and

        to whom the provisions of Title III, Chapter 1, sections 2 to 7 do not apply, and
        who is not entitled to an Icelandic pension,
        shall be liable to pay for the costs of benefits in kind granted to him or his family members in Iceland, insofar as the benefits in kind are covered by the special scheme concerned and/or by the personal insurance scheme supplementing it.
    3.          Persons insured in Iceland who are registered in the National Registry, with residence in Iceland, and who take up studies in another State to which this Regulation applies, are covered by the Icelandic social security scheme. The student's insurance is independent of the duration of the studies. In case of transfer of residence from Iceland to, or active employment in, another State to which this Regulation applies the student's insurance coverage is withdrawn.

    Q.     LIECHTENSTEIN
    Any employed or self-employed person who is no longer subject to the Liechtenstein legislation on invalidity insurance shall, for the purpose of Chapter 3 of Title III of the Regulation, be considered as insured under this insurance for the granting of an ordinary invalidity pension if:
    (a)    either for the date on which the insurance risk materializes according to the provisions of the Liechtenstein legislation on invalidity insurance:
            (i)    he benefits from rehabilitation measures provided under the invalidity insurance of Liechtenstein; or

            (ii)    he is insured under the legislation on old age, survivors' or invalidity insurance of another State to which this Regulation applies; or
            (iii)    he can establish a claim to pensions under the invalidity or old age insurance of another State to which this Regulation applies or if he receives such a pension; or
            (iv)    he is incapable for work under the legislation of another State to which this Regulation applies and can establish a claim to benefits from the sickness or accident insurance of that State or if he receives such a benefit; or
            (v)    he can establish a claim, due to unemployment, to cash benefits from the unemployment insurance of another State to which this Regulation applies or if he receives such a benefit;
    (b)    or if he worked in Liechtenstein as a frontier worker and, within the three years immediately before the risk materializes according to the Liechtenstein legislation, he paid contributions under this legislation for at least twelve months; or
    (c)    if he has to give up his employment or self-employment in Liechtenstein following an accident or illness, for as long as he stays in Liechtenstein; he shall be required to contribute on the same basis as a person without a gainful activity.

    R.     NORWAY
    1.          The transitional provisions of the Norwegian legislation entailing a reduction of the insurance period which is required for a full supplementary pension for persons born before 1937 shall be applicable to persons covered by the Regulation provided that they have been residents of Norway, or engaged in gainful occupation as employed or self-employed in Norway, for such a number of years as is required after their sixteenth birthday and before 1 January 1967. This requirement shall be one year for each year the person's year of birth falls before 1937.
    2.          A person insured under the National Insurance Act who provides care to insured care-needing old, disabled or sick persons shall, according to prescribed conditions, be credited pension points for such periods. Likewise, a person who takes care of small children shall be credited pension points when staying in another State to which this Regulation applies than Norway provided that the person concerned is on parental leave under Norwegian labour law.

    3.          In so far as Norwegian survivors' or disability pension is payable under the Regulation, calculated in accordance with Article 46(2) and by applying Article 45, the provisions of Articles 12-2 section 3, 17-3 section 4 and 18-2 section 4 of the National Insurance Act by which a pension may be granted by making an exception from the general requirement of having been insured under the National Insurance Act during the last three years up to the contingency, shall not apply.
    4.          Persons insured in Norway to whom this Regulation applies, who receive a loan or scholarship from the State Educational Loan Fund (Statens lånekasse for utdanning) and who take up studies in another State to which this Regulation applies are covered by the Norwegian national insurance scheme. As far as studies in Denmark, Finland, Iceland and Sweden are concerned, the student must also be registered in the Norwegian Population Register. The student's insurance is independent of the duration of the studies. In case of active employment in another State to which this Regulation applies the student's insurance coverage is withdrawn.

    S.     SWITZERLAND
    1.          Article 2 of the Federal Old-Age and Survivors' Insurance Act and Article 1 of the Federal Invalidity Insurance Act, which govern voluntary insurance in these insurance branches, shall be applicable to persons, who are nationals of the other Member States and who reside outside Switzerland, the territory of the other Member States and the territory of the Member States of the European Community, where these persons join the voluntary insurance scheme not later than one year after the date on which they ceased to be covered by old-age, survivors' and invalidity insurance after a continuous period of insurance of at least five years.
    2.          Where a person ceases to be insured under Swiss old-age, survivors' and invalidity insurance after a continuous period of insurance of at least five years, he shall continue to be entitled to be insured with the agreement of the employer unless he works in a Member State or in a Member State of the European Community for an employer in Switzerland and if he submits an application to this effect within six months of the date on which he ceases to be insured.
    3.     (a)    Where in application of Article 14 paragraph 1, Article 14a paragraph 1 and Article 17 a person remains subject to the legislation of one Member State while he or she is gainfully occupied in the territory of an other Member State, the same applies to the spouse and the children of this person residing with that person in the territory of the latter Member State, provided that they are not gainfully occupied themselves in the territory of this State.
         (b)    Where in application of paragraph a) the Swiss legislation applies to the spouse and the children, they are insured in the Swiss old-age, survivors' and invalidity insurance.
    4.          The Swiss legal provisions with respect to the compulsory insurance under the sickness insurance scheme apply to the following persons who are not resident in Switzerland:
    (i)        persons subject to Swiss legal provisions under the terms of Title II of the Regulation;
    (ii)        persons for whom Switzerland is the competent State under Articles 28, 28a or 29 of the Regulation;
    (iii)        persons receiving Swiss unemployment insurance benefits;
    (iv)        members of the family of these persons or of a worker resident in Switzerland who is insured under the Swiss sickness insurance scheme.
    5.          For the purposes of applying Articles 22, 22a, 22b, 22c, 25 and 31 of the Regulation, the Swiss insurer shall bear all invoiced costs.

    6.          Periods of daily allowance insurance completed under the insurance scheme of another Member State shall be taken into account for reducing or lifting a possible reserve in daily allowance insurance in the event of maternity or sickness where the person becomes insured with a Swiss insurer within three months of ceasing to be covered by insurance in another State.
    7.          An employed or self-employed person who is no longer subject to Swiss legislation on invalidity insurance shall be regarded as being insured by that insurance for a period of one year with effect from the day on which work preceding invalidity was interrupted, if he had to give up his gainful employment or self-employment in Switzerland owing to an accident or an illness and if the invalidity was diagnosed in this State; he shall be obliged to pay contributions to old-age, survivors' and invalidity insurance as if he were domiciled in Switzerland.
    8.          An employed or self-employed person who is no longer subject to Swiss legislation on invalidity insurance, since he had to give up his employment in Switzerland providing sufficient income for living because of an accident or an illness, shall be regarded as being insured by that insurance for the purposes of granting rehabilitation measures and throughout the period for which he undergoes these measures, unless he takes up another gainful employment outside of Switzerland.”.

19.     The following shall be added to Annex VII:
    “13.     Where a person resident in Iceland is self-employed in Iceland and gainfully employed in any other State to which this Regulation applies.
    14.          Where a person is self-employed in Liechtenstein and gainfully employed in any other State to which this Regulation applies.
    15.          Where a person resident in Norway is self-employed in Norway and gainfully employed in any other State to which this Regulation applies.
    16.     Where a person is self-employed in Switzerland and gainfully employed in the territory of another Member State.”.

2.      372 R 0574: Council Regulation (EEC) No 574/72 of 21 March 1972 fixing the procedure for implementing Regulation (EEC) No 1408/71 on the application of social security schemes to employed persons, to self-employed persons and to the members of their families moving within the Community,

as updated by:
–     397 R 118: Council Regulation (EC) No 118/97 of 2 December 1996 (OJ L 28, 30.1.97, p. 1) modifying and updating Regulation (EEC) No 1408/71 on the application of social security schemes to employed persons, to self-employed persons and to members of their families moving within the Community and Regulation (EEC) No 574/72 fixing the procedure for implementing Regulation (EEC) No 1408/71,
–     397 R 1290: Council Regulation (EC) No 1290/97 of 27 June 1997 (OJ L 176, 4.7.97, p. 1) modifying Regulation (EEC) No 1408/71 on the application of social security schemes to employed persons, to self-employed persons and to members of their families moving within the Community and Regulation (EEC) No 574/72 fixing the procedure for implementing Regulation (EEC) No 1408/71,
–     398 R 1223: Council Regulation (EC) No 1223/98 of 4 June 1998 (OJ L 168, 13.6.98, p. 1) modifying Regulation (EEC) No 1408/71 on the application of social security schemes to employed persons, to self-employed persons and to members of their families moving within the Community and Regulation (EEC) No 574/72 fixing the procedure for implementing Regulation (EEC) No 1408/71,
–     398 R 1606: Council Regulation (EC) No 1606/98 of 29 June 1998 (OJ L 209, 25.7.98, p. 1) modifying Regulation (EEC) No 1408/71 on the application of social security schemes to employed persons, to self-employed persons and to members of their families moving within the Community and Regulation (EEC) No 574/72 fixing the procedure for implementing Regulation (EEC) No 1408/71,


–     399 R 307: Council Regulation (EC) No 307/1999 of 8 February 1999 (OJ L 38,12.2.1999 p. 1) amending Regulation (EEC) No 1408/71 on the application of social security schemes to employed persons, to self-employed persons and to members of their families moving within the Community and Regulation (EEC) No 574/72 laying down the procedure for implementing Regulation (EEC) No 1408/71 with a view to extending them to cover students.


The provisions of the Regulation shall, for the purposes of this Convention, be read with the following adaptations:
1.     The following shall be added to Annex 1:

    “P.     ICELAND
    1.        Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Minister of Health and Social Security), Reykjavík
    2.        Félagsmálaráðherra (Minister of Social Affairs), Reykjavík
    3.        Fjármálaráðherra (Minister of Finance), Reykjavík

    Q.     LIECHTENSTEIN
    Die Regierung des Fürstentums Liechtenstein (the Government of the Principality of Liechtenstein), Vaduz

    R.     NORWAY
    1.        Sosial- og helsedepartementet (Ministry of Health and Social Affairs), Oslo
    2.        Arbeids- og administrasjonsdepartementet (Ministry of Labour and Government Administration), Oslo
    3.        Barne- og familiedepartementet (Ministry of Children and Family Affairs), Oslo
    4.        Justisdepartementet (Ministry of Justice), Oslo
    5.        Utenriksdepartementet (Ministry of Foreign Affairs), Oslo

    S.     SWITZERLAND
    1.        Bundesamt für Sozialversicherung, Bern – Office fédéral des assurances sociales, Berne – Ufficio federale delle assicurazioni sociali, Berna (Federal Social Insurance Office, Berne)
    2.        Staatssekretariat für Wirtschaft, Direktion für Arbeit, Bern – Secrétariat d'Etat à l'économie, Direction du travail, Berne – Segretariato di Stato dell'economia, Direzione del lavoro, Berna (State Secretariat for Economic Affairs, Directorate of Labour, Berne)”.

2.     The following shall be added to Annex 2:

    “P.     ICELAND
    1.        For all contingencies except unemployment benefits and family benefits:
            Tryggingastofnun ríkisins (the State Social Security Institute), Reykjavík
    2.        For unemployment benefits:
            Atvinnuleysistryggingasjóður, Vinnumálaskrifstofan (the Unemployment Insurance Fund), Reykjavík
    3.        For family benefits:
             (a)    Family benefits with the exception of children's and supplementary children's benefits:
                    Tryggingastofnun ríkisins (the State Social Security Institute), Reykjavík
             (b)    Children's and supplementary children's benefits:
                     Ríkisskattstjóri (the Director of Internal Revenue), Reykjavík

    Q.     LIECHTENSTEIN
    1.        Sickness and maternity:

            –    the Recognized Sickness Insurance Fund with which the person concerned is insured; or
             –    the Amt für Volkswirtschaft (Office of National Economy)

    2.        Invalidity:
             (a)    Invalidity insurance:
                    Liechtensteinische Invalidenversicherung (Invalidity Insurance of Liechtenstein)
             (b)    Occupational scheme:
                    the pension fund to which the last employer is affiliated
    3.        Old-age and death (pensions):
            (a)     Old age and survivors insurance:
                    Liechtensteinische Alters- und Hinterlassenenversicherung (Old Age and Survivors' Insurance of Liechtenstein)
            (b)    Occupational scheme:
                     the pension fund to which the last employer is affiliated
    4.        Accidents at work and occupational diseases:
            the accident insurance fund with which the person concerned is insured; or
            the Amt für Volkswirtschaft (Office of National Economy)
    5.         Unemployment:
            Amt für Volkswirtschaft (Office of National Economy)
    6.        Family benefits:
            Liechtensteinische Familienausgleichskasse (Families' Compensation Fund of Liechtenstein)

    R.     NORWAY
    1.        Unemployment benefits:
            Arbeidsdirektoratet, Oslo, fylkesarbeidskontorene og de lokale arbeids-kontorer på bostedet eller oppholdsstedet (the Directorate of Labour, Oslo, the regional labour offices and the local labour offices at the place of residence or at the place of stay)
    2.        All other benefits under the Norwegian National Insurance Act:
            Folketrygdkontoret for utenlandssaker (the National Office for Social Insurance Abroad), Oslo
    3.        Family allowances:
            Rikstrygdeverket (the National Insurance Administration), Oslo and Folketrygdkontoret for utenlandssaker (the National Office for Social Insurance Abroad), Oslo
    4.        Pension insurance scheme for seafarers:
            Pensjonstrygden for sjømenn (the Pension Insurance for Seafarers), Oslo
    5.        Act of 16 June 1989 on Industrial Injury Insurance (lov av 16. juni 1989 om yrkesskadeforsikring):
            The insurer by whom the employer is insured. If not insured; Yrkesskadeforsikringsforeningen (the Industrial Injury Insurance Association), Oslo
    6.        Guarantee scheme for social security entitlements pursuant to section 32 of the Seamen's Act of 30 May 1975 (sjømannsloven av 30. mai 1975):
            The insurer by whom the employer is insured

    7.        Benefits under the Act of 28 July 1949 No 26 on the Norwegian Public Service Pension Fund (lov av 28. juli 1949 nr 26 om Statens Pensjonskasse):
            Statens Pensjonskasse (the Norwegian Public Service Pension Fund)

    S.     SWITZERLAND
    1.        Sickness and maternity:
            Versicherer – Assureur – Assicuratore (Insurer) under the Federal Sickness Insurance Act providing cover to the person concerned.


    2.        Invalidity:
            (a)     Invalidity insurance:
                    (i)    Persons resident in Switzerland:
                            IV-Stelle – Office AI – Ufficio AI (Invalidity insurance office) of the canton in which they are resident.
                    (ii)    Persons not resident in Switzerland:
                            IV-Stelle für Versicherte im Ausland, Genf – Office AI pour les assurés à l'étranger, Genève – Ufficio AI per gli assicurati all'estero, Ginevra (Invalidity insurance office for persons insured abroad, Geneva).
            (b)    Occupational benefit plans:
                    Pension fund of which the most recent employer is a member.
    3.        Old age and death:
            (a)    Old-age and survivors' insurance:
                    (i)    Persons resident in Switzerland:
                            Ausgleichskasse – Caisse de compensation – Cassa di compensazione (Compensation fund) to which contributions have been paid most recently.
                    (ii)    Persons not resident in Switzerland:
                            Schweizerische Ausgleichskasse, Genf – Caisse suisse de compensation, Genève – Cassa svizzera di compensazione, Ginevra (Swiss Compensation Fund, Geneva).
            (b)     Occupational benefit plans:
                    Pension fund of which the most recent employer is a member.
    4.        Occupational accidents and diseases:
            (a)     Employed persons:
                    Insurer against accidents with which the employer is insured.
            (b)     Self-employed persons:
                    Insurer against accidents with which the person concerned is voluntarily insured.
    5.        Unemployment:
            (a)     Full unemployment:
                    Unemployment insurance fund chosen by the worker.
            (b)    Partial unemployment:
                    Unemployment insurance fund chosen by the employer.
    6.        Family benefits:
            (a)     Federal scheme:
                    (i)     Employed persons:
                            Kantonale Ausgleichskasse – Caisse cantonale de compensation – Cassa cantonale di compensazione (cantonal compensation fund) of which the employer is a member.
                    (ii)     Self-employed persons:
                            Kantonale Ausgleichskasse – Caisse cantonale de compensation – Cassa cantonale di compensazione (cantonal compensation fund) of the canton of residence.
            (b)    Cantonal schemes:
                    (i)     Employed persons:
                            Familienausgleichskasse – Caisse de compensation familiale – Cassa di compensazione familiale (family compensation fund) of which the worker is a member, or the employer.
                    (ii)     Self-employed persons:
                            The institution designated by the canton.”.

3.    The following shall be added at the end of Annex 3:

    “P.     ICELAND
    1.        Sickness, maternity, invalidity, old-age, death, accidents at work and occupational diseases:
            Tryggingastofnun ríkisins (the State Social Security Institute), Reykjavík
    2.        Unemployment benefits:
            Atvinnuleysistryggingasjóður, Vinnumálaskrifstofan (the Unemployment Insurance Fund), Reykjavík
    3.        Family benefits
            (a)     Family benefits with the exception of children's and supplementary children's benefits:
                    Tryggingastofnun ríkisins (the State Social Security Institute), Reykjavík
            (b)     Children's and supplementary children's benefits:
                     Ríkisskattstjóri (the Director of Internal Revenue), Reykjavík

    Q.     LIECHTENSTEIN
    1.        Sickness, maternity, accidents at work and occupational diseases, unemployment:

            Amt für Volkswirtschaft (Office of National Economy)
    2.        Old age and death
            (a)    Old age and survivors insurance:
                    Liechtensteinische Alters- und Hinterlassenenversicherung (Old-Age and Survivors' Insurance of Liechtenstein)
            (b)     Occupational scheme:
                    Amt für Volkswirtschaft (Office of National Economy)
            (c)     Occupational scheme for civil servants:
                    Stiftungsrat der Pensionskasse für das Staatspersonal (Foundation Board of the occupational scheme for civil servants).

    3.        Invalidity:
            (a)     Invalidity insurance:
                    Liechtensteinische Invalidenversicherung (Invalidity Insurance of Liechtenstein)
            (b)     Occupational scheme:
                     Amt für Volkswirtschaft (Office of National Economy)
            (c)     Occupational scheme for civil servants:
                    Stiftungsrat der Pensionskasse für das Staatspersonal (Foundation Board of the occupational scheme for civil servants).

    4.        Family benefits:
            Liechtensteinische Familienausgleichskasse (Families' Compensation Fund of Liechtenstein)

    R.     NORWAY
    1.        De lokale arbeidskontor og trygdekontor på bostedet eller oppholdsstedet (the local labour and insurance offices of the place of residence or the place of stay).
    2.        Act of 16 June 1989 on Industrial Injury Insurance (lov av 16 juni 1989 om yrkesskadeforsikring):
            The insurer by whom the employer is insured. If not insured: Yrkesskadeforsikringsforeningen (the Industrial Injury Insurance Association), Oslo.
    3.        Guarantee scheme for social security entitlements pursuant to section 32 of the Seamen's Act of 30 May 1975 (sjømannsloven av 30. mai 1975):
            Employees may contact the employer at the place of service, i.e. on board hip. From the place of residence or stay the employee must contact the insurer by whom the employer is insured.
    4.        Benefits under the Act of 28 July 1949 No 26 on the Norwegian Public Service Pension Fund (lov av 28. juli 1949 nr 26 om Statens Pensjonskasse):
            Statens Pensjonskasse (the Norwegian Public Service Pension Fund).

    S.     SWITZERLAND
    1.        Sickness and maternity:
            Gemeinsame Einrichtung KVG, Solothurn – Institution commune LAMal, Soleure – Istituzione commune LAMal, Soletta (common institution under the Federal Sickness Insurance Act, Solothurn).

    2.        Invalidity:
            (a)     Invalidity insurance:
                    Schweizerische Ausgleichskasse, Genf – Caisse suisse de compensation, Genève – Cassa svizzera di compensazione, Ginevra (Swiss Compensation Fund, Geneva).
            (b)     Occupational welfare benefit:
                    Sicherheitsfonds – Fonds de garantie – Fondo di garanzia LPP (Guarantee Fund).
    3.        Old age and death:
            (a)     Old-age and survivors' insurance:
                    Schweizerische Ausgleichskasse, Genf – Caisse suisse de compensation, Genève – Cassa svizzera di compensazione, Ginevra (Swiss Compensation Fund, Geneva).
            (b)     Occupational benefit plans:
                    Sicherheitsfonds – Fonds de garantie – Fondo di garanzia LPP (Guarantee Fund).
    4.        Occupational accidents and diseases:
            Schweizerische Unfallversicherungsanstalt, Luzern – Caisse nationale suisse d'assurance en cas d'accidents, Lucerne – Cassa nazionale svizzera di assicurazione contro gli incidenti, Lucerna (Swiss National Accident Insurance Fund, Lucerne).
    5.        Unemployment:
            (a)     Full unemployment:
                    Unemployment insurance fund chosen by the employed person.
            (b)     Partial unemployment:
                    Unemployment insurance fund chosen by the employer.
    6.        Family benefits:
            The institution designated by the canton of residence or the host canton.”.

4.     The following shall be added to Annex 4:

    “P.     ICELAND
    1.        Sickness, maternity, invalidity, old-age, death, accidents at work and occupational diseases:
            Tryggingastofnun ríkisins (the State Social Security Institute), Reykjavík
    2.        Unemployment benefits:
            Atvinnuleysistryggingasjóður, Vinnumálaskrifstofan (the Unemployment Insurance Fund), Reykjavík
    3.        Family benefits:
            (a)    Family benefits with the exception of children's and supplementary children's benefits:
                    Tryggingastofnun ríkisins (the State Social Security Institute), Reykjavík
            (b)    Children's and supplementary children's benefits:
                     Ríkisskattstjóri (the Director of Internal Revenue), Reykjavík

    Q.     LIECHTENSTEIN
    1.        Sickness, maternity, accidents at work and occupational diseases, unemployment:
            Amt für Volkswirtschaft (Office of National Economy)
    2.        Old age and death:
            (a)     Old age and survivors insurance:
                    Liechtensteinische Alters- und Hinterlassenenversicherung (Old Age and Survivors Insurance of Liechtenstein)
            (b)     Occupational scheme:
                     Amt für Volkswirtschaft (Office of National Economy)
            (c)     Occupational scheme for civil servants:
                    Geschäftsleitung der Pensionsversicherung für das Staatspersonal (Management of the occupational scheme for civil servants)

    3.        Invalidity:
            (a)     Invalidity insurance:
                    Liechtensteinische Invalidenversicherung (Invalidity Insurance of Liechtenstein)
            (b)     Occupational scheme:
                     Amt für Volkswirtschaft (Office of National Economy)
            (c)     Occupational scheme for civil servants:
                    Geschäftsleitung der Pensionsversicherung für das Staats-personal (Management of the occupational scheme for civil servants)

    4.        Family benefits:
            Liechtensteinische Familienausgleichskasse (Families' Compensation Fund of Liechtenstein)

    R.     NORWAY
    1.        Unemployment benefits:
            Arbeidsdirektoratet (the Directorate of Labour), Oslo
    1a.    Benefits under the Act of 28 July 1949 No 26 on the Norwegian Public Service Pension Fund (lov av 28. juli 1949 nr 26 om Statens Pensjonskasse):
            Statens Pensjonskasse (the Norwegian Public Service Pension Fund
    2.        In all other cases:
            Rikstrygdeverket (the National Insurance Administration), Oslo

    S.     SWITZERLAND
    1.        Sickness and maternity:
            Gemeinsame Einrichtung KVG, Solothurn – Institution commune LAMal, Soleure – Istituzione commune LAMal, Soletta (common institution under the Federal Sickness Insurance Act, Solothurn).

    2.        Invalidity:
            (a)     Invalidity insurance:
                    Schweizerische Ausgleichskasse, Genf – Caisse suisse de compensation, Genève – Cassa svizzera di compensazione, Ginevra (Swiss Compensation Fund, Geneva).
            (b)     Occupational benefit plans:
                    Sicherheitsfonds – Fonds de garantie – Fondo di garanzia LPP (Guarantee Fund).
    3.        Old-age and death:
            (a)     Old-age and survivors' insurance:
                    Schweizerische Ausgleichskasse, Genf – Caisse suisse de compensation, Genève – Cassa svizzera di compensazione, Ginevra (Swiss Compensation Fund, Geneva).
            (b)     Occupational benefit plans:
                    Sicherheitsfonds – Fonds de garantie – Fondo di garanzia LPP (Guarantee Fund).
    4.        Occupational accidents and diseases:
            Schweizerische Unfallversicherungsanstalt, Luzern – Caisse nationale suisse d'assurance en cas d'accidents, Lucerne – Cassa nazionale svizzera di assicurazione contro gli incidenti, Lucerna (Swiss National Accident Insurance Fund, Lucerne).
    5.        Unemployment:
            Staatssekretariat für Wirtschaft, Direktion für Arbeit, Bern – Secrétariat d'Etat à l'économie, Direction du travail, Berne – Segretariato di Stato dell'economia, Direzione del lavoro, Berna (State Secretariat for Economic Affairs, Directorate of Labour, Berne).
    6.        Family benefits:
            Bundesamt für Sozialversicherung, Bern – Office fédéral des assurances sociales, Berne – Ufficio federale delle assicurazioni sociali, Berna (Federal Social Insurance Office, Berne).”.

5.     The following shall be added to Annex 5:

    “106.     ICELAND-LIECHTENSTEIN
    Does not apply.

    107.     ICELAND-NORWAY
    Article 23 of the Nordic Convention on Social Security of 15 June 1992: Agreement on the reciprocal waiver of refunds pursuant to Articles 36(3), 63(3) and 70(3) of the Regulation (costs of benefits in kind in respect of sickness and maternity, accidents at work and occupational diseases, and unemployment benefits) and Article 105(2) of the implementing Regulation (costs of administrative checks and medical examinations).

    108.     ICELAND-SWITZERLAND
    Does not apply.

    109.     LIECHTENSTEIN-NORWAY
    Does not apply.

    110.     LIECHTENSTEIN-SWITZERLAND
    Does not apply.

    111.     NORWAY-SWITZERLAND
    Does not apply.”.

6.     The following shall be added to Annex 6:

    “P.     ICELAND
    Direct payment.

    Q.     LIECHTENSTEIN
    Direct payment.

    R.     NORWAY
    Direct payment.

    S.     SWITZERLAND
    Direct payment.”.

7.     The following shall be added to Annex 7:

    “P.     ICELAND:
    None.

    Q.     LIECHTENSTEIN:
    Liechtensteinische Landesbank (National Bank of Liechtenstein), Vaduz.

    R.     NORWAY:
    Sparebanken NOR (the Union Bank of Norway), Oslo.

    S.     SWITZERLAND
    UBS S.A., Genf – Genève – Ginevra – Geneva.”.

8.    The following shall be inserted into Annex 8 at the end of Point A. (a):

    “Iceland and Liechtenstein
    Iceland and Norway
    Liechtenstein and Norway”.

9.     The following shall be added to Annex 9:

    “.P.     ICELAND
    The average annual cost of benefits in kind shall be calculated by taking into account the benefits provided under social-security schemes in Iceland.

    Q.     LIECHTENSTEIN
    The average annual cost of benefits in kind shall be calculated by taking into account the benefits granted by the recognized sickness funds in accordance with the provisions of the national legislation on sickness insurance.

    R.     NORWAY
    The average annual cost of benefits in kind shall be calculated by taking into consideration the benefits provided under chapter 5 of the National Insurance Act (Act 28 February 1997), under the Act 19 November 1982 on Municipal Health Care, under the Act 2 July 1999 on Specialised Health Services etc.

    S.     SWITZERLAND
    The annual average cost of benefits in kind is calculated by taking into account the benefits granted by insurers under federal legislation on sickness insurance.”.

10.     The following shall be added to Annex 10:

    “P.     ICELAND
    1.        For the purpose of applying Articles 13(2)(d), 14(1)(a), 14(2)(b), 14a(1)(a), 14a(2), 14a(4), 14b(1), 14b(2), 14b(4) and 14c(a) of the Regulation and Articles 11, 11a, 12a(2)(a), 12a(5)(c) and 12a(7)(a) of the implementing Regulation:
            Alþjóðadeild Tryggingastofnunar ríkisins (International Division of the State Social Security Institute), Reykjavík

    2.        For the purpose of applying Article 17 of the Regulation:
            Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið (the Ministry of Health and Social Security), Reykjavík
    3.        For the purpose of applying Chapters 1, 2, 3, 4, 5 and 8 of Title III of the Regulation and the provisions linked to these provisions in the implementing Regulation:
            Tryggingastofnun ríkisins (the State Social Security Institute), Reykjavík
    4.        For the purpose of applying Chapter 6 of Title III of the Regulation and the provisions linked to these provisions in the implementing Regulation:
            Atvinnuleysistryggingasjóður, vinnumálaskrifstofan (the Unemployment Insurance Fund), Reykjavík
    5.        For the purpose of applying Chapter 7 of Title III of the Regulation and the provisions linked to these provisions in the implementing Regulation:
            Ríkisskattstjóri (the Directorate of Internal Revenue), Reykjavík

    Q.     LIECHTENSTEIN
    1.        For the purpose of applying Article 11(1) of the implementing Regulation:
            (a)    In relation to Article 14(1) and Article 14b(1) of the Regulation:
                    Liechtensteinische Alters-, Hinterlassenen- und Invalidenversicherung (Old Age, Survivors and Invalidity Insurance of Liechtenstein)
            (b)    In relation to Article 17 of the Regulation:
                     Amt für Volkswirtschaft (Office of National Economy)
    2.        For the purpose of applying Article 11a(1) of the implementing Regulation:
            (a)    In relation to Article 14a(1) and Article 14b(2) of the Regulation:
                    Liechtensteinische Alters-, Hinterlassenen- und Invalidenversicherung (Old Age, Survivors and Invalidity Insurance of Liechtenstein)
            (b)    In relation to Article 17 of the Regulation:
                     Amt für Volkswirtschaft (Office of National Economy)
    3.        For the purpose of applying Article 13(2) and (3) and Article 14(1) and (2) of the implementing Regulation:
            Amt für Volkswirtschaft und Liechtensteinische Alters-, Hinterlassenen- und Invalidenversicherung (Office of National Economy and Old Age, Survivors and Invalidity Insurance of Liechtenstein)
    4.        For the purpose of applying Articles 38(1), 70(1), 82(2) and 86(2) of the implementing Regulation:
            Gemeindeverwaltung (Communal Administration) of the place of residence
    5.        For the purpose of applying Article 80(2) and Article 81 of the implementing Regulation:
            Amt für Volkswirtschaft (Office of National Economy)
    6.        For the purpose of applying Article 102(2) of the implementing Regulation in relation to Articles 36, 63 and 70 of the Regulation:
            Amt für Volkswirtschaft (Office of National Economy)
    7.        For the purpose of applying Article 113(2) of the implementing Regulation:
            Amt für Volkswirtschaft (Office of National Economy)

    R.     NORWAY
    1.        For the purpose of applying Articles 14(1)(a) and (b) of the Regulation, Article 11(1)(a) and (2) of the implementing Regulation when the work is carried out outside Norway, and Article 14a(1)(b) of the Regulation:
            Folketrygdkontoret for utenlandssaker (the National Office for Social Insurance Abroad), Oslo
    2.        For the purpose of applying Article 14a(1)(a) of the Regulation if the work is carried out in Norway:
            The local insurance office in the municipality where the person concerned is resident
    3.        For the purpose of applying Article 14(1)(a) and (b) of the Regulation, if the person concerned is posted in Norway:
            The local insurance office in the municipality where the employer has his registered office, and if the employer has no registered office in Norway, Stavanger trygdekontor (Stavanger local insurance office), Stavanger

    4.        For the purpose of applying Article 14(2) and Article 14(3) of the Regulation:
            The local insurance office in the municipality in which the person concerned is resident

    5.        For the purpose of applying Article 14a(2) of the Regulation:
            The local insurance office in the municipality where the work is carried out
    6.        For the purpose of applying Article 14b(1) and (2) of the Regulation:
            Folketrygdkontoret for utenlandssaker (the National Office for Social Insurance Abroad), Oslo
    7.        For the purpose of applying Article 17 of the Regulation:
            (a)    Folketrygdkontoret for utenlandssaker (the National Office for Social Insurance Abroad), Oslo
            (b)    Stavanger trygdekontor (Stavanger local insurance office), Stavanger
                     For the particular case of:
                    (i)    Persons working in Norway for a foreign employer not having any registered office in Norway,
                    (ii)    Persons working in Norway for an employer with a registered office in Stavanger
    8.        For the purpose of applying Articles 36, 63 and 87 of the Regulation and Articles 102(2) and 105(1) of the implementing Regulation:
            Rikstrygdeverket (the National Insurance Administration), Oslo
    9.        For the purpose of applying the remaining provisions of Chapters 1, 2, 3, 4, 5, 7, and 8 of Title III of the Regulation and the provisions linked to these provisions in the implementing Regulation:
            Rikstrygdeverket (the National Insurance Administration), Oslo and its designated bodies (Folketrygdkontoret for utenlandssaker, Oslo (the National Office for Social Insurance Abroad), the regional insurance offices and the local insurance offices)
    10.    For the purpose of applying Chapter 6 of Title III of the Regulation and the provisions linked to these provisions in the implementing Regulation:
            Arbeidsdirektoratet (the Directorate of Labour), Oslo and its designated bodies
    11.    For the purpose of applying Article 10a of the Regulation and Article 2 of the implementing Regulation:
            Folketrygdkontoret for utenlandssaker (the National Office for Social Insurance Abroad), Oslo
    12.    For the pension insurance scheme for seafarers:
            (a)    The local insurance office at the place of residence when the person concerned is resident in Norway
            (b)    Folketrygdkontoret for utenlandssaker (the National Office for Social Insurance Abroad), Oslo in relation to paying benefits under the scheme to persons resident abroad
    13.    Benefits under the Act of 28 July 1949 No 26 on the Norwegian Public Service Pension Fund (lov av 28. juli 1949 nr 26 om Statens Pensjonskasse):
            Statens Pensjonskasse (the Norwegian Public Service Pension Fund).

    S.     SWITZERLAND
    1.        For the application of Article 11(1) of the implementing Regulation:
            (a)    in relation to Article 14(1) and 14b(1) of the Regulation:
                    Ausgleichskasse der Alters-, Hinterlassenen- und Invalidenversicherung – Caisse de compensation de l'assurance-vieillesse, survivants et invalidité – Cassa die compensazione dell'assicurazione vecchiaia, superstiti e invalidità (the competent compensation fund for old-age, survivors' and invalidity insurance);
            (b)    in relation to Article 17 of the Regulation:
                    Bundesamt für Sozialversicherung, Bern – Office fédéral des assurances sociales, Berne – Ufficio federale delle assicurazioni sociali, Berna (Federal Social Insurance Office, Berne).
    2.        For the application of Article 11a(1) of the implementing Regulation:
            (a)    in relation to Articles 14a(1) and 14b(2) of the Regulation:
                    Ausgleichskasse der Alters-, Hinterlassenen- und Invalidenversicherung – Caisse de compensation de l'assurance-vieillesse, survivants et invalidité – Cassa die compensazione dell'assicurazione vecchiaia, superstiti e invalidità (the competent compensation fund for old-age, survivors' and invalidity insurance);
            (b)    in relation to Article 17 of the Regulation:
                    Bundesamt für Sozialversicherung, Bern – Office fédéral des assurances sociales, Berne – Ufficio federale delle assicurazioni sociali, Berna (Federal Social Insurance Office, Berne).
    3.        For the application of Article 12a of the implementing Regulation:
            Ausgleichskasse der Alters-, Hinterlassenen-und Invalidenversicherung – Caisse de compensation de l'assurance-vieillesse, survivants et invalidité – Cassa die compensazione dell'assicurazione vecchiaia, superstiti e invalidità (the competent compensation fund for old-age, survivors' and invalidity insurance).
    4.        For the application of Article 13(2) and (3) and Article 14(1) and (2) of the implementing Regulation:
            Eidgenössische Ausgleichskasse, Bern – Caisse fédérale de compensation, Berne – Cassa federale di compensazione, Berna (Federal Compensation Fund, Berne).
    5.        For the application of Articles 38(1), 70(1), 82(2) and 86(2) of the implementing Regulation:
            Gemeindeverwaltung – Administration communale – Amministrazione communale (the local authority).
    6.        For the application of Articles 80(2) and 81 of the implementing Regulation:
            Staatssekretariat für Wirtschaft, Direktion für Arbeit, Bern – Secrétariat d'Etat à l'économie, Direction du travail, Berne – Segretariato di Stato dell'economia, Direzione del lavoro, Berna (State Secretariat for Economic Affairs, Directorate of Labour, Berne).
    7.        For the application of Article 102(2) of the implementing Regulation:
            (a)    in relation to Article 36 of the Regulation:
                    Gemeinsame Einrichtung KVG, Solothurn – Institution commune LAMal, Soleure – Istituzione commune LAMal, Soletta (common institution under the Federal Sickness Insurance Act, Solothurn);
            (b)    in relation to Article 63 of the Regulation:
                    Schweizerische Unfallversicherungsanstalt, Luzern – Caisse nationale Suisse d'assurance en cas d'accidents, Lucerne – Cassa nazionale svizzera di assicurazione contro gli incidenti, Lucerna (Swiss National Accident Insurance Fund, Lucerne);
            (c)    in relation to Article 70 of the Regulation:
                    Staatssekretariat für Wirtschaft, Direktion für Arbeit, Bern – Secrétariat d'Etat à l'économie, Direction du travail, Berne – Segretariato di Stato dell'economia, Direzione del lavoro, Berna (State Secretariat for Economic Affairs, Directorate of Labour, Berne).
    8.        For the application of Article 113(2) of the implementing Regulation:
            (a)    in relation to Article 20(1) of the Regulation:
                    Gemeinsame Einrichtung KVG, Solothurn – Institution commune LAMal, Soleure – Istituzione commune LAMal, Soletta (common institution under the Federal Sickness Insurance Act, Solothurn);
            (b)    in relation to Article 62(1) of the implementing Regulation:
                    Schweizerische Unfallversicherungsanstalt, Luzern – Caisse nationale Suisse d'assurance en cas d'accidents, Lucerne – Cassa nazionale svizzera di assicurazione contro gli incidenti, Lucerna (Swiss National Accident Insurance Fund, Lucerne).”.

11.    The following shall be added to Annex 11:

    “P.     ICELAND
    None.

    Q.     LIECHTENSTEIN
    None.

    R.     NORWAY
    None.

    S.     SWITZERLAND
    None.”.

3.      398 L 0049: Council Directive 98/49/EC of 29 June 1998 (OJ L 209, 25.7.98, p. 46) on safeguarding the supplementary pension rights of employed and self-employed persons moving within the Community.


SECTION B: ACTS OF WHICH THE MEMBER STATES SHALL TAKE DUE ACCOUNT

4.1 373 Y 0919(02): Decision No 74 of 22 February 1973 concerning the provision of medical care in cases of temporary stay under Article 22(1)(a)(i) of Council Regulation (EEC) No 1408/71 and Article 21 of Council Regulation (EEC) No 574/72 (OJ C 75, 19.9.1973, p. 4).

4.2 373 Y 0919(03): Decision No 75 of 22 February 1973 concerning the investigation of applications for review made under Article 94(5) of Council Regulation (EEC) No 1408/71 by invalidity pensioners (OJ C 75, 19.9.1973, p. 5).

4.3 373 Y 0919(06): Decision No 78 of 22 February 1973 concerning the interpretation of Article 7(1)(a) of Council Regulation (EEC) No 574/72 relating to the procedure for implementing the provisions on reduction and suspension (OJ C 75, 19.9.1973, p. 8).

4.4 373 Y 0919(07): Decision No 79 of 22 February 1973 concerning the interpretation of Article 48(2) of Council Regulation (EEC) No 1408/71 relating to the aggregation of insurance periods treated as such with regard to insurance for invalidity, old age and death (OJ C 75, 19.9.1973, p. 9).

4.5 373 Y 0919(09): Decision No 81 of 22 February 1973 concerning aggregation of insurance periods completed in a specific employment pursuant to Article 45(2) of Council Regulation (EEC) No 1408/71 (OJ C 75, 19.9.1973, p. 11).

4.6 373 Y 0919(11): Decision No 83 of 22 February 1973 concerning the interpretation of Article 68(2) of Council Regulation (EEC) No 1408/71 and of Article 82 of Council Regulation (EEC) No 574/72 relating to increases in unemployment benefit for dependent members of the family (OJ C 75, 19.9.1973, p. 14).

4.7 373 Y 0919(13): Decision No 85 of 22 February 1973 concerning the interpretation of Article 57(1) of Council Regulation (EEC) No 1408/71 and of Article 67(3) of Council Regulation (EEC) No 574/72 relating to the determination of the applicable legislation and the institution competent for the granting of benefits in respect of occupational diseases (OJ C 75, 19.9.1973, p. 17).

4.8 373 Y 1113(02): Decision No 86 of 24 September 1973 concerning the methods of operation and the composition of the Audit Board of the Administrative Commission of the European Communities on social security for migrant workers (OJ C 96, 13.11 1973, p. 2), as amended by: 395 D 0512: Decision No 159 of 3 October 1995 (OJ L 294, 8.12.1995, p. 38).

4.9 374 Y 0720(06): Decision No 89 of 20 March 1973 concerning the interpretation of Article 16(1) and (2) of Council Regulation (EEC) No 1408/71 relating to persons employed by diplomatic missions and consular posts (OJ C 86, 20.7.1974, p.7).

4.10 374 Y 0720(07): Decision No 91 of 12 July 1973 concerning the interpretation of Article 46(3) of Council Regulation (EEC) No 1408/71 relating to the award of benefits due under paragraph 1 of the said Article (OJ C 86, 20.7.1974, p. 8).

4.11 374 Y 0823(04): Decision No 95 of 24 January 1974 concerning the interpretation of Article 46(2) of Council Regulation (EEC) No 1408/71 on the calculation of pro rata pensions (OJ C 99, 23.8.1974, p. 5).

4.12 374 Y 1017(03): Decision No 96 of 15 March 1974 concerning the revision of rights to benefit pursuant to Article 49(2) of Council Regulation (EEC) No 1408/71 (OJ C 126, 17.10.1974, p. 23).

4.13 375 Y 0705(02): Decision No 99 of 13 March 1975 concerning the interpretation of Article 107(1) of Council Regulation (EEC) No 574/72 with regard to the obligation to recalculate current benefits (OJ C 150, 5.7.1975, p. 2).

4.14 375 Y 0705(03): Decision No 100 of 23 January 1975 concerning the refund of cash benefits provided by the institution of the place of stay or of residence on behalf of the competent institution and the details of refunding these benefits (OJ C 150, 5.7.1975, p. 3).

4.15 376 Y 0526(03): Decision No 105 of 19 December 1975 on the implementation of Article 50 of Council Regulation (EEC) No 1408/71 (OJ C 117, 26.5.1976, p. 3).

4.16 378 Y 0530(02): Decision No 109 of 18 November 1977 amending Decision No 92 of 22 November 1973, concerning the concept of sickness and maternity insurance benefits in kind referred to in Articles 19(1) and (2), 22, 25(1), (3) and (4), 26, 28(1), 28a, 29 and 31 of Council Regulation (EEC) No 1408/71 and the determination of the amounts to be refunded under Articles 93, 94 and 95 of Council Regulation (EEC) No 574/72, as well as the advances to be paid in pursuance of Article 102(4) of the same Regulation (OJ C 125, 30.5.1978, p. 2).


4.17 383 Y 0115: Decision No 115 of 15 December 1982 concerning the granting of prostheses, major appliances and other substantial benefits in kind provided for in Article 24(2) of Council Regulation (EEC) No 1408/71 (OJ C 193, 20.7.1983, p. 7).

4.18 383 Y 0117: Decision No 117 of 7 July 1982 concerning the conditions for implementing Article 50(1)(a) of Council Regulation (EEC) No 574/72 (OJ C 238, 7.9.1983, p. 3).

The provisions of the Decision shall, for the purposes of this Convention, be read with the following adaptations:

The following shall be added to Point 2(2):

Iceland
Tryggingastofnun ríkisins (the State Social Security Institute), Reykjavík.

Liechtenstein
Liechtensteinische Alters-, Hinterlassenen- und Invalidenversicherung (Old Age, Survivors' and Invalidity Insurance of Liechtenstein), Vaduz.

Norway
Rikstrygdeverket (National Insurance Administration), Oslo.

Switzerland
Schweizerische Ausgleichskasse, Genf – Caisse suisse de compensation, Genève – Cassa svizzera di compensazione, Ginevra (Swiss Compensation Fund, Geneva).”.

4.19 383 Y 1112(02): Decision No 118 of 20 April 1983 concerning the conditions for implementing Article 50(1)(b) of Council Regulation (EEC) No 574/72 (OJ C 306, 12.11.1983, p. 2).

The provisions of the Decision shall, for the purposes of this Convention, be read with the following adaptations:

The following shall be added to point 2(4):

Iceland
Tryggingastofnun ríkisins (the State Social Security Institute), Reykjavík.

Liechtenstein
Liechtensteinische Alters-, Hinterlassenen- und Invalidenversicherung (Old Age, Survivors' and Invalidity Insurance of Liechtenstein), Vaduz.

Norway
Rikstrygdeverket (National Insurance Administration), Oslo.

Switzerland
Schweizerische Ausgleichskasse, Genf – Caisse suisse de compensation, Genève – Cassa svizzera di compensazione, Ginevra (Swiss Compensation Fund, Geneva).”.

4.20 383 Y 1102(03): Decision No 119 of 24 February 1983 concerning the interpretation of Article 76 and Article 79(3) of Council Regulation (EEC) No 1408/71 and of Article 10(1) of Council Regulation (EEC) No 574/72 relating to the overlapping of family benefits and allowances (OJ C 295, 2.11.1983, p. 3).

4.21 383 Y 0121: Decision No 121 of 21 April 1983 concerning the interpretation of Article 17(7) of Council Regulation (EEC) No 574/72 relating to the granting of prostheses, major appliances and other substantial benefits in kind (OJ C 193, 20.7.1983, p. 10).

4.22 386 Y 0126: Decision No 126 of 17 October 1985 concerning the application of Articles 14(1)(a), 14a(1)(a), 14b(1) and (2) of Council Regulation (EEC) No 1408/71 (OJ C 141. 7.6.1986, p. 3).


4.23 387 Y 1009(01): Decision No 132 of 23 April 1987 concerning the interpretation of Article 40(3)(a)(ii) of Council Regulation (EEC) No 1408/71 (OJ C 271, 9.10.1987, p. 3).

4.24 387 Y 1022(01): Decision No 133 of 2 July 1987 concerning the application of Articles 17(7) and 60(6) of Council Regulation (EEC) No 574/72 (OJ C 284, 22.10.1987, p. 3 and OJ C 64, 9.3.1988, p. 13).

4.25 388 Y 0309(01): Decision No 134 of 1 July 1987 concerning the interpretation of Article 45(2) of Council Regulation (EEC) No 1408/71 relating to aggregation of insurance periods completed in an occupation subject to a special scheme in one or more Member States (OJ C 64, 9.3.1988, p. 4).

4.26 388 Y 0309(03): Decision No 135 of 1 July 1987 concerning the granting of benefits in kind provided for in Article 17(7) and Article 60(6) of Council Regulation (EEC) No 574/72 and the concept of urgency within the meaning of Article 20 of Council Regulation (EEC) No 1408/71 and of extreme urgency within the meaning of Articles 17(7) and 60(6) of Council Regulation(EEC) No 574/72 (OJ C 281, 9.3.1988, p. 7).

The provisions of the Decision shall, for the purposes of this Convention, be read with the following adaptations:

The following shall be added to Article 2 No 2:
– “CHF 800 for the institution of the place of residence in Switzerland;”
– “Euro 500 for the institutions of the place of residence in Iceland, Liechtenstein and Norway”.

4.27 388 Y 0309(01): Decision No 136 of 1 July 1987 concerning the interpretation of Article 45(1) to (3) of Council Regulation (EEC) No 1408/71 with regard to the taking into account of insurance periods completed under the legislations of other Member States for the acquisition, retention or recovery of the right to benefits (OJ C 64, 9.3.1988, p. 7).

The provisions of the Decision shall, for the purposes of this Convention, be read with the following adaptations:

The following shall be added to the Annex:

“P.          ICELAND
None.

Q.          LIECHTENSTEIN
None.

R.          NORWAY
None.

S.          SWITZERLAND
None.”.

4.28 389 Y 0606(01): Decision No 137 of 15 December 1988 concerning the application of Article 15(3) of Council Regulation (EEC) No 574/72 (OJ C 140, 6.6.1989, p. 3).

4.29 389 Y 1115(01): Decision No 138 of 17 February 1989 concerning the interpretation of Article 22 (1)(c)(i) of Council Regulation (EEC) No 1408/71 in the case of organ transplants or other forms of surgery requiring tests on biological samples while the person concerned is not present in the Member State where the tests are carried out (OJ C 287, 15.11.1989, p. 3).

4.30 390 Y 0412(01): Decision No 139 of 30 June 1989 concerning the date to be taken into consideration for determining the rates of conversion referred to in Article 107 of Council Regulation (EEC) No 574/72 to be applied when calculating certain benefits and contributions (OJ C 94, 12.4 1990. p. 3).

4.31 390 Y 0412(02): Decision No 140 of 17 October 1989 concerning the rate of conversion to be applied by the institution of a wholly unemployed frontier worker's place of residence to the last wage or salary he received in the competent State (OJ C 94, 12.4.1990, p. 4).

4.32 390 Y 0412(03): Decision No 141 of 17 October 1989 amending Decision No 127 of 17 October 1985 concerning the compilation of the lists provided for in Articles 94(4) and 95(4) of Regulation (EEC) No 574/72/EEC (OJ C 94, 12.4.1990, p. 5).


4.33 390 Y 0330(01): Decision No 142 of 13 February 1990 concerning the application of Articles 73, 74 and 75 of Council Regulation (EEC) No 1408/71 (OJ C 80, 30.3.1990, p. 7).

The provisions of the Decision shall, for the purposes of this Convention, be read with the following adaptations:

(a)    Point 1 shall not apply.
(b)    Point 3 shall not apply.

4.34 391 D 0140: Decision No 144 of 9 April 1990 on the model forms necessary for the application of Council Regulations (EEC) No 1408/71 and (EEC) No 574/72 (E401- E410 F) (OJ L 71, 18.3.1991, p. 1).

4.35 391 D 0425: Decision No 147 of 11 October 1990 concerning the application of Article 76 of Council Regulation (EEC) No 1408/71 (OJ L 235, 23.8.1991, p. 21), as amended by:
–     395 D 2353: Decision No 155 of 6 July 1994 (E 401-411) (OJ L 209, 5.9.1995, p. 1).

4.36 393 D 0068: Decision No 148 of 25 June 1992 concerning the use of the certificate concerning the applicable legislation (Form E 101) where the period of posting does not exceed three months (OJ L 22, 30.1.1993, p. 124).

4.37 393 D 0825: Decision No 150 of 26 June 1992 concerning the application of Articles 77, 78 and 79(3) of Regulation (EEC) No 1408/71 and of Article 10(1)(b)(ii) of Regulation (EEC) No 574/72 (OJ C 229, 25.8.1993, p. 5).

The provisions of the Decision shall, for the purposes of this Convention, be read with the following adaptations:

The following shall be added to the Annex:

“P.     ICELAND
Tryggingastofnun ríkisins (The State Social Security Institute), Laugavegur 114, 150 Reykjavík.

Q.     LIECHTENSTEIN
1.    For family benefits:
    Liechtensteinische Familienausgleichskasse (Families' Compensation Fund of Liechtenstein).
2.    For orphan pensions:
    Liechtensteinische Alters- und Hinterlassenenversicherung (Old Age and Survivors' insurance of Liechtenstein).


R.     NORWAY
Folketrygdkontoret for Utenlandssaker (the National Office for Social Insurance Abroad), Oslo.

S.     SWITZERLAND
Schweizerische Ausgleichskasse, Genf – Caisse suisse de compensation, Genève – Cassa svizzera di compensazione, Ginevra (Swiss Compensation Fund, Geneva).”.

4.38 394 D 0602: Decision No 151 of 22 April 1993 concerning the application of Article 10a of Regulation (EEC) No 1408/71 and Article 2 of Regulation (EEC) No 1247/92 (OJ L 244, 19.9.1994, p. 1).

The provisions of the Decision shall, for the purposes of this Convention, be read with the following adaptations:

The following shall be added to the Annex:

“13.     Iceland:
– Tryggingastofnun ríkisins (The State Social Security Institute), Laugavegur 114, 150 Reykjavík.

14.     Norway:
– Folketrygdkontoret for Utenlandssaker (the National Office for Social Insurance Abroad), Oslo.

15.     Liechtenstein:
– Amt für Volkswirtschaft (Office of National Economy) concerning maternity allowances
– Liechtensteinische Alters- und Hinterlassenenversicherung (Old Age and Survivors' Insurance of Liechtenstein) concerning allowances for widowers, supplementary benefits to the old age, survivors' and invalidity insurance and concerning helplessness allowances
– Liechtensteinische Invalidenversicherung (Invalidity Insurance) concerning allowances for blind persons.

16.     Switzerland:
1.    Invalidity, old age and death
    (a)    Old Age, survivors' and Invalidity insurance:
            Schweizerische Ausgleichskasse, Genf – Caisse suisse de compensation, Genève – Cassa svizzera di compensazione, Ginevra (Swiss Compensation Fund, Geneva).
    (b)    Occupational welfare benefit:
            Sicherheitsfonds – Fonds de garantie – Fondo di garanzia LPP. Provident institution under the Federal Act on occupational benefit plans for old-age, survivors' and invalidity insurance.
2.    Unemployment
    Staatssekretariat für Wirtschaft, Direktion für Arbeit, Bern – Secrétariat d'Etat à l'économie, Direction du travail, Berne – Segretariato di Stato dell'economia, Direzione del lavoro, Berna – (State Secretariat for Economic Affairs, Directorate of Labour, Berne).
3.    Family benefits
    Bundesamt für Sozialversicherung, Bern – Office fédéral des assurances sociales, Berne – Ufficio federale delle assicurazioni sociali, Berna (Federal Social Insurance Office, Berne).”.


4.39 394 D 0604: Decision No 153 of 7 October 1993 on the model forms necessary for the application of Council Regulations (EEC) No 1408/71 and (EEC) No 574/72 (E001, E103-E127) (OJ L 244, 19.9.1994, p. 22).

4.40 394 D 0605: Decision No 154 of 8 February 1994 on the model forms necessary for the application of Council Regulations (EEC) No 1408/71 and (EEC) No 574/72 (E301, E302, E303) (OJ L 244, 19.9.1994, p. 123).

4.41 395 D 0353: Decision No 155 of 6 July 1994 on the model forms necessary for the application of Council Regulations (EEC) No 1408/71 and (EEC) No 574/72 (E401- E411) (OJ L 244, 5.9.1995, p. 1).


4.42 395 D 0419: Decision No 156 of 7 April 1995 concerning the rules of priority with regard to sickness and maternity insurance (OJ L 249, 17.10.1995, p. 41).

4.43 396 D 0732: Decision No 158 of 27 November 1995 on the model forms necessary for the application of Regulations (EEC) No 1408/71 and (EEC) No 574/72 (E201-E215) (OJ L 336, 27.12.1996, p. 1).

4.44 395 D 0512: Decision No 159 of 3 October 1995 amending Decision No 86 of 24 September 1973 concerning the methods of operation and the composition of the Audit Board of the Administrative Commission of the European Communities on Social Security for Migrant Workers (OJ L 294, 8.12.1995 p. 38).

4.45 396 D 0172: Decision No 160 of 28 November 1995 concerning the scope of Article 71(1)(b)(ii) of Council Regulation (EEC) No 1408/71 relating to the right to unemployment benefits of workers, other than frontier workers, who, during their last employment, were resident in the territory of a Member State other than the competent State (OJ L 49, 28.2.1996, p. 31).

4.46 396 D 0249: Decision No 161 of 15 February 1996 concerning the reimbursement by the competent institution of a Member State of the costs incurred during a stay in another Member State by means of the procedure referred to in Article 34(4) of Regulation (EEC) No 574/72 (OJ L 83, 2.4.1996, p. 19).

4.47 396 D 0554: Decision No 162 of 31 May 1996 concerning the interpretation of Articles 14(1) and 14b(1) of Council Regulation (EEC) No 1408/71 on the legislation applicable to posted workers (OJ L 241, 21.9.1996, p. 28).

4.48 396 D 0555: Decision No 163 of 31 May 1996 concerning the interpretation of Article 22(1)(A) of Regulation (EEC) No 1408/71 in respect of persons undergoing dialysis or oxygen therapy (OJ L 241, 21.9.1996, p. 31).

4.49 397 D 0533: Decision No 164 of 27 November 1996 on the model forms necessary for the application of Council Regulations (EEC) No 1408/71 and (EEC) No 574/72 (E 101 and E 102) (OJ L 216 du 8.8.1997, p. 85).

4.50 397 D 0823: Decision No 165 of 30 June 1997 on the model forms necessary for the application of Council Regulations (EEC) No 1408/71 and (EEC) No 574/72 (E128 and E128B) (OJ L 341, 12.12.1997, p. 61).

4.51 398 D 0441: Decision No 166 of 2 October 1997 on the amending of forms E106 and E109 (OJ L 195, 11.7.1998, p. 25).

4.52 398 D 0442: Decision No 167 of 2 December 1997 amending Decision No 146 of 10 October 1990 concerning the interpretation of Article 94(9) of Regulation (EEC) No 1408/71 (OJ L 195, 11.7.1998, p. 35).

4.53 398 D 0443: Decision No 168 of 11 June 1998 on the amending of forms E121 and E127 and the discontinuance of form E122 (OJ L195, 11.7.1998, p. 37).

4.54 398 D 0444: Decision No 169 of 11 June 1998 concerning the methods of operation and the composition of the Technical Commission on Data Processing of the Administrative Commission of the European Communities on Social Security for Migrant Workers (OJ L 195, 11.7.1998, p. 46).

4.55 398 D 0565: Decision No 170 of 11 June 1998 amending Decision No 141 of 17 October 1989 concerning the compilation of the lists provided for in Articles 94(4) and 95(4) of Council Regulation (EEC) No 574/72 of 21 March 1972 (OJ L 275, 10.10.1998, p. 40).


SECTION C: ACTS OF WHICH THE MEMBER STATES SHALL TAKE NOTE

The Member States shall take note of the content of the following acts:

5.1 Recommendation No 14 of 23 January 1975 concerning the issue of Form E111 to workers posted abroad (adopted by the Administrative Commission during its 139th meeting on 23 January 1975).

5.2 Recommendation No 15 of 19 December 1980 on the determination of the language of issue of the forms required for the purposes of Regulations (EEC) No 1408/71 and (EEC) No 574/72/EEC (adopted by the Administrative Commission during its 176th meeting on 19 December 1980).

5.3 385 Y 0016: Recommendation No 16 of 12 December 1984 concerning the conclusion of agreements pursuant to Article 17 of Regulation (EEC) No 1408/71 (OJ C 273, 24.10.1985, p. 3).

5.4 385 Y 0017: Recommendation No 17 of 12 December 1984 concerning the statistical data to be supplied each year for the drawing up of the reports of the Administrative Commission (OJ C 273, 24.10.1985, p. 3).

5.5 386 Y 0018: Recommendation No 18 of 28 February 1986 relating to the legislation applicable to unemployed persons engaged in part-time work in a Member State other than the State of residence (OJ C 284, 11.11.1986, p. 4).

5.6 392 Y 0019: Recommendation No 19 of 24 November 1992 on the improvement of cooperation among the Member States in implementing the Community Regulations (OJ C 199, 23.7.1993, p. 11).

5.7 396 X 0592: Recommendation No 20 of 31 May 1996 concerning improvement of the administration and settlement of reciprocal claims (OJ L 259, 12.10.1996, p. 19).

5.8 397 Y 0304(01): Recommendation No 21 of 28 November 1996 concerning the application of Article 69(1)(a) of Regulation (EEC) No 1408/71 to unemployed persons accompanying their spouses employed in a Member State other than the competent State (OJ C 67, 4.3.1997, p. 3).

5.9 380 Y 0609(03): Updating of the Declarations of the Member States provided for in Article 5 of Council Regulation (EEC) No 1408/71 of 14 June 1971 on the application of social security schemes to employed persons and their families moving within the Community (OJ C 139, 9.6.1980, p. 1).

6.0 381 Y 0613(01): Declarations by Greece provided for in Article 5 of Council Regulation (EEC) No 1408/71 of 14 June 1971 on the application of social security schemes to employed persons and their families moving within the Community (OJ C 143, 13.6 1981, p. 1).

6.1 380 Y 0609(01): Updating of the Declarations of the Member States provided for in Article 5 of Council Regulation (EEC) No 1408/71 of 14 June 1971 on the application of social security schemes to employed persons and their families moving within the Community (OJ C 139, 9.6.1980, P. 1).

6.2 C/107/87/p. 1: Declarations of the Member States provided for in Article 5 of Council Regulation (EEC) No 1408/71 of 14 June 1971 on the application of social security schemes to employed and self employed persons and their families moving within the Community (OJ C 107, 22.4.1987, p. 1).


6.3 C/323/80/p. 1: Notifications to the Council by the Governments of the Federal Republic of Germany and of the Grand Duchy of Luxembourg of the conclusion of a convention between these two Governments on various social security questions, pursuant to Articles 8(2) and 96 of Council Regulation (EEC) No 1408/71 of 14 June 1971 on the application of social security schemes to employed persons and their families moving within the Community (OJ C 323, 11.12.1980, p. 1).

6.4 L/90/87/p. 39: Declaration made by the French Republic pursuant to Article 1(j) of Council Regulation (EEC) No 1408/71 on the application of social security schemes to employed persons, self-employed persons and members of their families moving within the Community (OJ L 90, 2.4.1987, p. 39).

Protocol 1 to Appendix 2

UNEMPLOYMENT INSURANCE

1.    The following rules shall apply with respect to unemployment insurance for workers holding a residence permit with a period of validity of less than one year:
1.1    Only workers who have paid contributions in Switzerland for the minimum period required under the Federal Unemployment Insurance and Insolvency Allowances Act (loi fédérale sur l'assurance-chômage obligatoire et l'indemnité en cas d'insolvabilité – LACI) 1 and who also satisfy the other conditions of eligibility for unemployment benefit shall be entitled to such benefit provided by the unemployment insurance under the conditions laid down by law.
1.2    A portion of the contributions levied for workers whose period of contribution is too short to give entitlement to unemployment benefit in Switzerland under 1.1 shall be refunded to their States of origin in accordance with the provisions of 1.3. in order to contribute towards the cost of benefits provided to these workers in the event of full unemployment; these workers shall then have no entitlement to benefit in the event of their being fully unemployed in Switzerland. They shall, however, be entitled to allowances for bad weather and in the event of the employer becoming insolvent. Benefits in the event of full unemployment shall be paid by the State of origin, provided that the workers concerned make themselves available for work there. Periods of insurance completed in Switzerland shall be taken into account in the same way as if they had been completed in the State of origin.
1.3    The portion of the contributions levied for workers referred to in 1.2 shall be refunded on an annual basis in accordance with the following provisions:
    (a)    The total contributions of these workers shall be calculated, by State, on the basis of the annual number of workers employed and the average annual contributions paid for each worker (employer's and employee's contributions).
    (b)    Of the amount calculated in this way, a portion thereof corresponding to the relative share represented by unemployment benefit as a percentage of all the allowances referred to in 1.2 shall be refunded to the workers' States of origin, and a portion shall be retained by Switzerland as a reserve for subsequent benefits. 2





1 Currently 6 months, or 12 months in the event of recurring unemployment.
2 Refunded contributions for workers who will exercise their right to unemployment benefit in Switzerland after having paid contributions for at least six months – over several periods of residence – within the space of two years.

    (c)    Switzerland shall, on an annual basis, provide a statement showing the contributions refunded. If the States of origin so request, it shall indicate the bases for the calculation and the sums refunded. The States of origin shall each year notify Switzerland of the number of recipients of unemployment benefit as referred to in 1.2.
1.4    Number 1.2 first sentence and number 1.3 are not applicable to Liechtenstein.
2.    Article 9 of the Convention on Unemployment Insurance between Switzerland and Liechtenstein of 15 January 1979 shall continue to be applicable.
3.    The arrangements under 1 and 2 shall apply for a period of seven years from the date of entry into effect of the Agreement. If, at the end of the seven-year period, a Member State encounters difficulties with the ending of the arrangements for refunding of contributions, or Switzerland encounters difficulties with the aggregation arrangements, the matter may be referred to the Working Group on Social Security referred to in Article 14 of the Annex by any of the Member States.

ALLOWANCES FOR HELPLESS PERSONS


Allowances for helpless persons under the Federal Old-Age and Survivors' Insurance Act (loi fédérale sur l'assurance-vieillesse et survivants) and the Federal Invalidity Insurance Act (loi fédérale sur l'assurance-invalidité) shall, by means of a decision of the Council, be provided for in the text of Appendix 2 to the Annex in Annex IIa to Regulation No 1408/71, as soon as the amendment of these Acts stipulating that these benefits shall be financed exclusively by the public autorities enters into effect.

OCCUPATIONAL BENEFIT PLANS CONCERNING OLD-AGE, SURVIVORS' AND INVALIDITY PENSIONS

Notwithstanding Article 10 (2) of Council Regulation (EEC) No 1408/71, the vested benefit provided for under the Federal Act on free movement among occupational benefit plans concerning old-age, survivors' and invalidity pensions (Loi fédérale sur le libre passage dans la prévoyance professionnelle vieillesse, survivants et invalidité) of 17 December 1993 shall be paid out on request to an employed or self-employed person who intends to leave Switzerland for good and who, under Title II of the Regulation, will no longer be subject to Swiss law, provided that they leave Switzerland within five years of the entry into force of the Annex.

Protocol 2 to Appendix 2

Sections A and B of Appendix 2 are applicable to the relations between Liechtenstein and Switzerland under the conditions set out in this Protocol:

1.     Compulsory insurance under the sickness insurance scheme
1.1    Persons residing in one of the two States are subject to the legal provisions on compulsory sickness insurance of their State of residence, if:
    (a)    being gainfully employed, they are subject to the legal provisions relative to the other branches of social security in one of the two States;
    (b)    pursuant to Title III Chapter 1 of the Regulation, they are subject to the legislation of one of the two States as beneficiaries or claimants of a pension;
    (c)    they receive unemployment benefits from one of the two States;
    (d)    they are family members of a person subject to the provisions concerning compulsory sickness insurance of one of the two States pursuant to letters a) to c).
1.2    The obligation to be insured under the daily allowance insurance is determined by the legislation applicable to the person by reason of his or her gainful employment.
1.3    Workers who pursuant to point 1.1 letter a) are subject to Swiss provisions, and are subject to provisions of Liechtenstein with reference to point 1.2 are entitled to a subsidy from their employer in Liechtenstein corresponding to the part that employers there have to contribute to the premiums of their employees affiliated in the compulsory Liechtenstein sickness insurance scheme.
1.4    Article 20 of the Regulation applies in analogy to frontier workers who, pursuant to point 1.1 letter a), are subject to the compulsory sickness insurance in their State of residence.


2.    Children's and orphans' pensions from the old age, survivors' and invalidity insurance scheme

    Title III Chapter 3 of the Regulation applies to:

    (a)    Increases and supplements to pensions in respect of children, when the pension beneficiary receives old age or invalidity benefits exclusively according to the legislations of Liechtenstein and Switzerland;
    (b)    Orphans' pensions, except those granted under insurance schemes for accidents at work and occupational diseases, if the deceased employed or self-employed person was subject exclusively to the legislations of Liechtenstein and Switzerland.


3.    Unemployment insurance
    A totally unemployed employed or self-employed person who, pursuant to Article 69 paragraph 1 of the Regulation, fulfils the conditions for entitlement according to the legislation of one State, and moves to the other State in search of employment, will, as a departure from Article 70 paragraph 1 first sentence of the Regulation, receive benefits from the competent institution of the first State and be subject to its control regulations.

Protocol 3 to Appendix 2

Sections A and B of Appendix 2 are applicable to the relations between Norway and Switzerland under the conditions set out in this Protocol:

Title III Chapter 3 of the Regulation applies to:

(a)    Increases and supplements to pensions in respect of children, when the pension beneficiary receives old age or invalidity benefits exclusively according to the legislations of Norway and Switzerland;
(b)    Orphans' pensions, except those granted under insurance schemes for accidents at work and occupational diseases, if the deceased employed or self-employed person was subject exclusively to the legislations of Norway and Switzerland.


APPENDIX 3

Mutual recognition of professional qualifications (diplomas, certificates and other evidence of formal qualifications)
(Art. 22)


1.     The Member States agree, with regard to the mutual recognition of professional qualifications, to apply among themselves the Community acts to which reference is made, as incorporated in the EEA Agreement and in the Swiss-EC Agreement on the free movement of persons, and as in force on 21 June 1999 and as amended by Section A of this Appendix, or rules equivalent to such acts.
2.     For the purposes of applying the provisions of this Appendix, the Member States shall take into consideration the Community acts referred to in or amended by Section B of this Appendix, as incorporated in the EEA Agreement and in the Swiss-EC Agreement on the free movement of persons, and as in force on 21 June 1999.
3.     The term “Member State(s)” contained in the acts referred to in Section A of this Appendix shall be understood to refer to the Member States of the present Convention.


SECTION A – ACTS TO WHICH REFERENCE IS MADE

A.    GENERAL SYSTEM

1 .    389 L 0048: Council Directive 89/48/EEC of 21 December 1988 on a general system for the recognition of higher-education diplomas awarded on completion of professional education and training of at least three years' duration (OJ L 19 of 24.1.1989, p. 16).
2 .    392 L 0051: Council Directive 92/51/EEC of 18 June 1992 on a second general system for the recognition of professional education and training to supplement Directive 89/48/EEC (OJ L 209 of 24.7.1992, p. 25), as amended by:
     – 394 L 0038: Commission Directive 94/38/EC of 26 July 1994 amending Annexes C and D to Council Directive 92/51/EEC on a second general system for the recognition of professional education and training to supplement Directive 89/48/EEC (OJ L 217 of 23.8.1994, p. 8),

     – 395 L 0043: Commission Directive 95/43/EC of 20 July 1995 amending Annexes C and D to Council Directive 92/51/EEC on a second general system for the recognition of professional education and training to supplement Directive 89/48/EEC (OJ L 184 of 3.8.1995, p. 21),

     – 395 D 0001: 95/1/EC, Euratom, ECSC, adjusting the instruments concerning the accession of new Member States to the European Union (OJ L 1 of 1.1.1995, p. 1),
     – 397 L 0038: Commission Directive 97/38/EC of 20 June 1997 amending Annex C to Council Directive 92/51/EEC on a second general system for the recognition of professional education and training to supplement Council Directive 89/48/EEC (OJ L 184 of 3.8.1997, p. 31).

For the purposes of this Convention, the Directive shall be read with the following adaptations:

(I)    The following shall be added to Annex C (LIST OF COURSES HAVING A SPECIAL STRUCTURE AS REFERRED TO IN POINT (II) OF THE SECOND INDENT OF THE FIRST SUBPARAGRAPH OF ARTICLE 1(a)):
    (a)    Under the heading “2. Master craftsman sector (“Mester/ Meister/Maître”) which represents education and training courses concerning skills not covered by the Directives listed in Annex A” the following shall be inserted:

            “ In Norway
            training for:
            –     landscape gardener (“anleggsgartner”),
            –     dental technician (“tanntekniker”).
            These courses are of a total duration of at least fourteen years, including at least five years training within a structured training framework divided into an apprenticeship of at least three years' duration, comprising training partly received in the workplace and partly provided by a vocational training establishment, and a period of professional practice and training of two years' duration, culminating in a mastership examination relating to the craft and conferring the rights to train apprentices and to use the title “Mester”.”
    (b)    Under the heading “3. Seafaring sector” the following shall be inserted:
            (i)    Under the subheading “(a) Sea transport”:

                    “ In Iceland
                    training for:
                    –    ship's captain (“skipstjóri”),
                    –    chief mate (“stýrimaður”),
                    –    watchkeeping officer (“undirstýrimaður”),
                    –    marine engineer, first grade (“vélstjóri 1. stigs”).

                     In Norway
                    training for:
                    –    master mariner/deck officer Class 1 (“skipsfører”),
                    –    hief mate/deck officer Class 2 (“overstyrmann”),
                    –    master home trade/deck officer Class 3 (“kystskipper”),
                    –    mate/watchkeeping officer/deck officer Class 4 (“styrmann”),
                    –    chief engineer officer/engineer officer Class 1 (“maskinsjef”),
                    –    second engineer officer/engineer officer Class 2 (“1. maskinist”),
                    –    solo engineer/engineer officer Class 3 (“enemaskinist”),
                    –    watchkeeping engineer/engineer officer Class 4 (“maskinoffiser”),
                    which represents training
                    –    in Iceland, of nine or ten years' primary schooling followed by two years' service at sea, supplemented by three years of specialized vocational training (five years for the marine engineer),
                    –    in Norway, of nine years' primary schooling followed by a course of basic training and service at sea of three years (two and a half years for engineering officers), supplemented by,
                    –    for watchkeeping officers, one year of specialized vocational training,
                    –    for the others, two years of specialized vocational training,
                    and by further service at sea and which is recognized under the International STCW Convention (International Convention on Standards of Training, Certification and Watchkeeping for Seafarers, 1978).

                     In Norway
                    training for:
                    –    electro-automation officer (ship's electrician), (“elektro-automasjonstekniker/skipselektriker”),
                    which represents training of nine years' primary schooling followed by a two year course of basic training, supplemented by one year of practical experience and service at sea and one year of specialized vocational training.”.
            (ii)    Under the sub-heading “(b) Sea fishing”:

                    “ In Iceland
                    training for:
                    –     ship's captain (“skipstjóri”),
                    –     chief mate (“stýrimaður”),
                    –    watchkeeping officer (“undirstýrimaður”),
                    which represents training of nine or ten years' primary schooling followed by two years' service at sea, supplemented by two years of specialized vocational training culminating in an examination and is recognized under the Torremolinos Convention (1977 International Convention for the Safety of Fishing Vessels).”.
            (iii)    Under a new sub-heading “(c) Mobile drilling rig personnel”:

                     “In Norway
                    training for:
                    –     platform manager (“plattformsjef”),
                    –    stability section manager (“stabilitetssjef”),
                    –    control room operator (“kontrollromoperatør”),
                    –    technical section leader (“teknisk sjef”),
                    –    assistant technical section leader (“teknisk assistent”),
                    which represents training of nine years' primary schooling, followed by a two year course of basic training, supplemented by at least one year's service off-shore and,
                    –    for the control room operator, one year of specialized vocational training,
                    –    for the others, two and a half years of specialized vocational training.”.
    (c)    Under the heading “4. Technical sector” the following shall be inserted:

             “In Liechtenstein
            training for:
            –     fiduciary expert (“Treuhänder”)
            Length, level and requirements:
            The training is based on nine years' compulsory school and – unless a maturity certificate is achieved – a commercial apprenticeship of three years with training of practical skills in an enterprise, while the necessary theoretical knowledge as well as general education are provided by a vocational school, both combined leading to the national examination (National certificate of proficiency as a commercial employee).
            After three years of practical experience in an enterprise combined with further theoretical education of four years, which may be done simultaneously, the national diploma may be passed, leading to the abovementioned professional title.
            In general the whole duration of this training is between 16 and 19 years.
            Regulations:
            The profession is regulated by national legislation. Any candidate is free to choose the way he wants to prepare himself for the examination (vocational schools, private schools, distance learning),
            –     auditing expert (“Wirtschaftsprüfer”)
            Length, level and requirements:
            The training is based on nine years of compulsory school, followed by a commercial apprenticeship of three years with training and practical skills in an enterprise, while the necessary theoretical knowledge as well as general education are provided by a vocational school.
            After three more years of practical experience in an enterprise and further theoretical education of five years, which may be done simultaneously as distance learning, the national diploma may be passed, leading to the abovementioned professional title.
            The whole duration of this training is between 17 and 18 years. Candidates who have gained their practical experience abroad have only to provide proof of a further year's professional experience in Liechtenstein.
            Regulations:
            The profession is regulated by national legislation.”.
(II)        The additions to Annex C listed in adaptation I are to be read together with the list included in Annex II to Commission Directive 95/43/EC, as amended by Commission Directive 97/38/EC and as incorporated in the EEA Agreement and in the Swiss-EC Agreement on the free movement of persons.

(III)    The Swiss lists relating to Annexes C and D of Directive 92/51/EEC will be drawn up in the framework of the application of the present Convention.

B.     LEGAL PROFESSIONS

3.     377 L 0249: Council Directive 77/249/EEC of 22 March 1977 to facilitate the effective exercise by lawyers of freedom to provide services (OJ L 78 of 26.3.1977, p. 17), as amended by:
     – 1 79 H: Act concerning the conditions of accession of the Hellenic Republic to the European Communities and the adjustments to the treaties (OJ L 291 of 19.11.1979, p. 91),
     – 1 85 I: Act concerning the conditions of accession of the Kingdom of Spain and the Portuguese Republic to the European Communities (OJ L 302 of 15.11.1985, p. 160),
     – 395 D 0001: 95/1/EC, Euratom, ECSC, adjusting the instruments concerning the accession of new Member States to the European Union (OJ L 1 of 1.1.1995, p. 1).

    The provisions of the Directive shall, for the purposes of this Convention, be read with the following adaptation:
    The following shall be added to Article 1(2):

    “In Iceland:                “Lögmaður”,
    In Liechtenstein:     “Rechtsanwalt”,
    In Norway:            “Advokat”,
    In Switzerland:        “Avocat/Advokat, Rechtsanwalt, Anwalt, Fürsprecher, Fürsprech/Avvocato”.”.

C.    MEDICAL AND PARAMEDICAL ACTIVITIES

4.     381 L 1057: Council Directive 81/1057/EEC of 14 December 1981 supplementing Directives 75/362/EEC, 77/452/EEC, 78/686/EEC and 78/1026/EEC concerning the mutual recognition of diplomas, certificates and other evidence of the formal qualifications of doctors, nurses responsible for general care, dental practitioners and veterinary surgeons respectively, with regard to acquired rights (OJ L 385 of 31.12.1981, p. 25).

     Doctors

5.     393 L 0016: Council Directive 93/16/EEC of 5 April 1993 to facilitate the free movement of doctors and the mutual recognition of their diplomas, certificates and other evidence of formal qualifications (OJ L 165 of 7.7.1993, p. 1), as amended by:

     – 398 L 0021: Commission Directive 98/21/EC of 8 April 1998 amending Council Directive 93/16/EEC to facilitate the free movement of doctors and the mutual recognition of their diplomas, certificates and other evidence of formal qualifications (OJ L 119 of 22.4.1998, p. 15),

     – 398 L 0063: Commission Directive 98/63/EC of 3 September 1998 amending Council Directive 93/16/EEC to facilitate the free movement of doctors and the mutual recognition of their diplomas, certificates and other evidence of formal qualifications (OJ L 253 of 15.9.1998, p. 24).



    The provisions of the Directive shall, for the purposes of this Convention, be read with the following adaptations:
    (I)    The following shall be added to Article 3:
            “(m)     In Iceland:
                    “próf í læknisfræði frá læknadeild Háskóla Íslands” (diploma from the Medical Faculty of the University of Iceland) and a certificate of practical training issued by the competent authorities;
              (n)     In Liechtenstein:
                    the diplomas, certificates and other titles awarded in another State to which this Directive applies and listed in the present Article, accompanied by a certificate on the completed practical training issued by the competent authorities;
              (o)     In Norway:
                    “bevis for bestått medisinsk embetseksamen” (diploma of the degree cand. med.) awarded by a university faculty of medicine and a certificate of practical training issued by the competent public health authorities;
              (p)     In Switzerland:
                    “titulaire du diplôme fédéral de médecin”
                    “Eidgenössisch diplomierter Arzt”
                    “titolare di diploma federale di medico”
                    awarded by the Département fédéral de l'intérieur.”.
    (II)    The following shall be added to Article 5(2):

             “In Iceland:
            “sérfræðileyfi” (certificate of specialist in medicine) issued by the Ministry of Health;

             In Liechtenstein:
            the diplomas, certificates and other titles awarded in another State to which this Directive applies and listed in the present article, accompanied by a certificate on the completed practical training issued by the competent authorities;

              In Norway:
            “bevis for tillatelse til å benytte spesialisttittelen” (certificate of the right to use the title of specialist) issued by the competent authorities;

             In Switzerland:
            “spécialiste”
            “Facharzt”
            “specialista”
            awarded by the Département fédéral de l'intérieur.”.

(III)    The following entries shall be added to the indents in Article 5(3) indicated hereafter:

             anaesthetics:
            “Iceland:    svæfinga- og gjörgæslulæknisfræði
            Liechtenstein:     Anästhesiologie
            Norway:    anestesiologi
            Switzerland:     anesthésiologie
                            Anästhesiologie
                            anestesiologia,”;

             general surgery:
            “Iceland:    skurðlækningar
            Liechtenstein:     Chirurgie
            Norway:    generell kirurgi
            Switzerland:     chirurgie
                            Chirurgie
                            chirurgia,”;

             neurological surgery:
            “Iceland:    taugaskurðlækningar
            Liechtenstein:     Neurochirurgie
            Norway:    nevrokirurgi
            Switzerland:     neurochirurgie
                            Neurochirurgie
                            neurochirurgia,”;

             obstetrics and gynaecology:
            “Iceland:    fæðingar- og kvenlækningar
            Liechtenstein:    Gynäkologie und Geburtshilfe
            Norway:    fødselshjelp og kvinnesykdommer
            Switzerland:    gynécologie et obstétrique
                            Gynäkologie und Geburtshilfe
                            ginecologia e ostetricia,”;

             general (internal) medicine:
            “Iceland:    lyflækningar
            Liechtenstein:    Innere Medizin
            Norway:    indremedisin
            Switzerland:     médecine interne
                            Innere Medizin
                            medicina interna,”;

             ophthalmology:
            “Iceland:    augnlækningar
            Liechtenstein:     Augenheilkunde
            Norway:    øyesykdommer
            Switzerland:     ophtalmologie
                            Ophthalmologie
                            oftalmologia,”;

             otorhinolaryngology:
            “Iceland:    háls-, nef- og eyrnalækningar
            Liechtenstein:    Hals-, Nasen- und Ohrenkrankheiten
            Norway:    øre-nese-halssykdommer
            Switzerland:    oto-rhino-laryngologie
                            Oto-Rhino-Laryngologie
                            otorinolaringoiatria,”;

             paediatrics:
            “Iceland:    barnalækningar
            Liechtenstein:     Kinderheilkunde
            Norway:    barnesykdommer
            Switzerland:     pédiatrie
                            Kinder- und Jugendmedizin
                            pediatria,”;

             respiratory medicine:
            “Iceland:    lungnalækningar
            Liechtenstein:     Lungenkrankheiten
            Norway:    lungesykdommer
            Switzerland:     pneumologie
                            Pneumologie
                            pneumologia,”;

             urology:
            “Iceland:    þvagfæraskurðlækningar
            Liechtenstein:     Urologie
            Norway:    urologi
            Switzerland:     urologie
                            Urologie
                            urologia,”;

             orthopaedics:
            “Iceland:    bæklunarskurðlækningar
            Liechtenstein:    Orthopädische Chirurgie
            Norway:    ortopedisk kirurgi
            Switzerland:    chirurgie orthopédique
                            Orthopädische Chirurgie
                            chirurgia ortopedica,”;

             pathological anatomy:
            “Iceland:    vefjameinafræði
            Liechtenstein:    Pathologie
            Norway:    patologi
            Switzerland:     pathologie
                            Pathologie
                            patologia,”;

             neurology:
            “Iceland:     taugalækningar
            Liechtenstein:     Neurologie
            Norway:    nevrologi
            Switzerland:     neurologie
                            Neurologie
                            neurologia,”;

             psychiatry:
            “Iceland:    geðlækningar
            Liechtenstein:    Psychiatrie und Psychotherapie
            Norway:    psykiatri
            Switzerland:    psychiatrie et psychothérapie
                            Psychiatrie und Psychotherapie
                            psichiatria e psicoterapia.”.

(IV)    The following entries shall be added to the indents in Article 7(2) indicated hereafter:

             microbiology – bacteriology:
            “Iceland:    sýklafræði
            Norway:    medisinsk mikrobiologi,”;

             biological chemistry:
            “Iceland    klinísk lífefnafræði
            Norway:    klinisk kjemi,”;

             immunology:
            “Iceland:    ónæmisfræði
            Norway:    immunologi og transfusjonsmedisin,”;

             plastic surgery:
            “Iceland:    lýtalækningar
            Norway:    plastikkirurgi
            Switzerland:    chirurgie plastique et reconstructive
                            Plastische und Wiederherstellungschirurgie
                            chirurgia plastica e ricostruttiva,”;

             thoracic surgery:
            “Iceland:    brjóstholsskurðlækningar
            Norway:    thoraxkirurgi
            Switzerland:    chirurgie cardiaque et vasculaire thoracique
                            Herz- und thorakale Gefässchirurgie
                            chirurgia del cuore e dei vasi toracici,”;

             paediatric surgery:
            “Iceland:    barnaskurðlækningar
            Norway:    barnekirurgi
            Switzerland:    chirurgie pédiatrique
                            Kinderchirurgie
                            chirurgia pediatrica,”;

             vascular surgery:
            “Iceland:    æðaskurðlækningar
            Norway:    karkirurgi,”;

             cardiology:
            “Iceland:    hjartalækningar
            Norway:    hjertesykdommer
            Switzerland:     cardiologie
                            Kardiologie
                            cardiologia,”;

             gastro-enterology:
            “Iceland:    meltingarlækningar
            Norway:    fordøyelsessykdommer
            Switzerland:     gastro-entérologie
                            Gastroenterologie
                            gastroenterologia,”;

             rheumatology:
            “Iceland:    gigtlækningar
            Liechtenstein:     Rheumatologie
            Norway:    revmatologi
            Switzerland:     rhumatologie
                            Rheumatologie
                            reumatologia,”;

             general haematology:
            “Iceland:    blóðmeinafræði
            Norway:    blodsykdommer
            Switzerland :     hématologie
                            Hämatologie
                            ematologia,”;

             endocrinology:
            “Iceland:    efnaskipta- og innkirtlalækningar
            Norway:    endokrinologi
            Switzerland:    endocrinologie-diabétologie
                            Endokrinologie-Diabetologie
                            endocrinologia-diabetologia,”;


             physiotherapy:
            “Iceland:    orku- og endurhæfingarlækningar
            Liechtenstein:    Physikalische Medizin und Rehabilitation
            Norway:    fysikalsk medisin og rehabilitering
            Switzerland:    médecine physique et réadaptation
                            Physikalische Medizin und Rehabilitation
                            medicina fisica e riabilitazione,”;

             dermato-venereology:
            “Iceland:    húð- og kynsjúkdómalækningar
            Liechtenstein:    Dermatologie und Venereologie
            Norway:    hudsykdommer og veneriske sykdommer
            Switzerland:    dermatologie et vénéréologie
                            Dermatologie und Venerologie
                            dermatologia e venereologia,”;

             radiology:
            “Iceland:    geislalækningar
            Norway:    radiology,”;

             diagnostic radiology:
            “Iceland    geislagreining
            Liechtenstein    Medizinische Radiologie
            Switzerland:    radiologie médicale/radio-diagnostic
                            Medizinische Radiologie/Radiodiagnostik
                            radiologia medica/radiodiagnostica,”;

             radiotherapy:
            “Norway:    onkologi
            Switzerland:    radiologie médicale/radio-oncologie
                            Medizinische Radiologie/Radio-Onkologie
                            radiologia medica/radio-oncologia,”;

             tropical medicine:
            “Switzerland:     médecine tropicale
                            Tropenmedizin
                            medicina tropicale,”;

             child psychiatry:
            “Iceland:    barna- og unglingageðlækningar
            Liechtenstein:    Kinder- und Jugendpsychiatrie und -psychotherapie
            Norway:    barne- og ungdomspsykiatri
            Switzerland:    psychiatrie et psychothérapie d'enfants et d'adolescents
                            Kinder- und Jugendpsychiatrie und -psychotherapie
                            psichiatria e psicoterapia infantile e dell'adolescenza,”;

             geriatrics:
            “Iceland:    öldrunarlækningar
            Liechtenstein:     Geriatrie
            Norway:    geriatri,”;

             renal diseases:
            “Iceland:    nýrnalækningar
            Norway:    nyresykdommer
            Switzerland:     néphrologie
                            Nephrologie
                            nefralogia,”;

             communicable diseases:
            “Iceland:    smitsjúkdómar
            Norway:    infeksjonssykdommer,”;

             community medicine:
            “Iceland:    félagslækningar
            Liechtenstein:    Prävention und Gesundheitswesen
            Norway:    samfunnsmedisin
            Switzerland:    prévention et santé publique
                            Prävention und Gesundheitswesen
                            prevenzione e salute pubblica,”;

             pharmacology:
            “Iceland:    lyfjafræði
            Norway:    klinisk farmakologi,“;

             occupational medicine:
            “Iceland:    atvinnulækningar
            Norway:    yrkesmedisin
            Switzerland:    médecine du travail
                            Arbeitsmedizin
                            medicina del lavoro,”;

             allergology:
            “Iceland:    ofnæmislækningar
            Switzerland:    allergologie et immunologie clinique
                            Allergologie und klinische Immunologie
                            allergologia e immunologia clinica,”;

             gastro enterological surgery:
            “Norway:    gastroenterologisk kirurgi,”;

             dental, oral and maxillo-facial surgery (basic medical and dental training):
            “Liechtenstein:    Kieferchirurgie
            Norway:    kjevekirurgi og munnhulesykdommer
            Switzerland:    chirurgie maxillo-faciale
                            Kiefer- und Gesichtschirurgie
                            chirurgia mascello-facciale,”;


             nuclear medicine:
            “Switzerland:    radiologie médicale/médecine nucléaire
                            Medizinische Radiologie/Nuklearmedizin
                            radiologia medica/medicina nucleare.”.

         Nurses

6.     377 L 0452: Council Directive 77/452/EEC of 27 June 1977 concerning the mutual recognition of diplomas, certificates and other evidence of the formal qualifications of nurses responsible for general care, including measures to facilitate the effective exercise of this right of establishment and freedom to provide services (OJ L 176 of 15.7.1977, p. 1), as amended by:
    – 1 79 H: Act concerning the conditions of accession of the Hellenic Republic to the European Communities and the adjustments to the treaties (OJ L 291 of 19.11.1979, p. 91),
     – 1 85 I: Act concerning the conditions of accession of the Kingdom of Spain and the Portuguese Republic to the European Communities (OJ L 302 of 15.11.1985, p. 160),
     – 389 L 0594: Council Directive 89/594/EEC of 30 October 1989 (OJ L 341 of 23.11.1989, p. 19),
     – 389 L 0595: Council Directive 89/595/EEC of 30 October 1989 (OJ L 341 of 23.11.1989, p. 30),
     – 390 L 0658: Council Directive 90/658/EEC of 4 December 1990 (OJ L 353 of 17.12.1990, p. 73),
     – 395 D 0001: 95/1/EC, Euratom, ECSC, adjusting the instruments concerning the accession of new Member States to the European Union (OJ L 1 of 1.1.1995, p. 1).

    The provisions of the Directive shall, for the purposes of this Convention, be read with the following adaptations:
    (a)    The following shall be added to Article 1(2):

             “In Iceland:
            “hjúkrunarfræðingur”;

             In Liechtenstein:
            “Krankenschwester – Krankenpfleger”;

             In Norway:
            “offentlig godkjent sykepleier”;

             In Switzerland:
            “infirmière, infirmier”,
            “Krankenschwester, Krankenpfleger”,
            “infermiera, infermiere”.”.

    (b)    The following shall be added to Article 3:
            “(o)      In Iceland:
                    “próf í hjúkrunarfræðum eða hjúkrunarpróf” (diploma in nursing) certified by the competent authorities;
            (p)     In Liechtenstein:
                    the diplomas, certificates and other titles awarded in another State to which this Directive applies and listed in the present Article;
            (q)      In Norway:
                    “bevis for bestått sykepleiereksamen” (diploma of general nursing) awarded by a college of nursing;
            (r)      In Switzerland:
                    “infirmière diplômée en soins généraux, infirmier diplômé en soins généraux”,
                    “diplomierte Krankenschwester in allgemeiner Krankenpflege, diplomierter Krankenpfleger in allgemeine Krankenpflege”,
                    “infermiera diplomata in cure generali, infermiere diplomato in cure generali”
                    awarded by the Conférence des directeurs cantonaux des affaires sanitaires (cds).”.

7.     377 L 0453: Council Directive 77/453/EEC of 27 June 1977 concerning the coordination of provisions laid down by law, regulation or administrative action in respect of the activities of nurses responsible for general care (OJ L 176 of 15.7.1977, p. 8), as amended by:
     – 389 L 0595: Council Directive 89/595/EEC of 30 October 1989 (OJ L 341 of 23.11.1989, p. 30).

         Practitioners of dentistry

8.     378 L 0686: Council Directive 78/686/EEC of 25 July 1978 concerning the mutual recognition of diplomas, certificates and other evidence of the formal qualifications of practitioners of dentistry, including measures to facilitate the effective exercise of the right of establishment and freedom to provide services (OJ L 233 of 24.8.1978, p. 1), as amended by:
     – 1 79 H: Act concerning the conditions of accession of the Hellenic Republic to the European Communities and the adjustments to the treaties (OJ L 291 of 19.11.1979, p. 91),
     – 1 85 I: Act concerning the conditions of accession of the Kingdom of Spain and the Portuguese Republic to the European Communities (OJ L 302 of 15.11.1985, p. 160),
     – 389 L 0594: Council Directive 89/594/EEC of 30 October 1989 (OJ L 341 of 23.11.1989, p. 19),
     – 390 L 0658: Council Directive 90/658/EEC of 4 December 1990 (OJ L 353 of 17.12.1990, p. 73),
     – 395 D 0001: 95/1/EC, Euratom, ECSC, adjusting the instruments concerning the accession of new Member States to the European Union (OJ L 1 of 1.1.1995, p. 1).

    The provisions of the Directive shall, for the purposes of this Convention, be read with the following adaptations:
    (a)    The following shall be added to Article 1:

             “In Iceland:
            “tannlæknir”,

             In Liechtenstein:
            “Zahnarzt”,

             In Norway:
            “tannlege”,

             In Switzerland:
            “médecin-dentiste”,
            “Zahnarzt”,
            “medico-dentista”.”.

    (b)    The following shall be added to Article 3:
            “(m)    In Iceland:
                    “próf frá tannlæknadeild Háskóla Íslands” (diploma from the Dental Faculty of the University of Iceland);
            (n)      In Liechtenstein:
                    the diplomas, certificates and other titles awarded in another State to which this Directive applies and listed in the present article, accompanied by a certificate on the completed practical training issued by the competent authorities;
            (o)      In Norway:
                    “bevis for bestått odontologisk embetseksamen” (diploma of the degree cand. odont.) awarded by a university faculty of dentistry;
            (p)      In Switzerland:
                    “titulaire du diplôme fédéral de médecin-dentiste”,
                    “eidgenössisch diplomierter Zahnarzt”,
                    “titolare di diploma federale di medico-dentista”
                    awarded by the Département fédéral de l'intérieur.”.

    (c)    The following entries shall be added to the indents in Article 5 indicated hereinafter:
            1.        Orthodontics:

                     “In Norway:
                    “bevis for gjennomgått spesialistutdanning i kjeveortopedi” (certificate of specialist studies in orthodontics) awarded by a university faculty of dentistry,

                     In Switzerland:
                    “diplôme fédéral d'orthodontiste”,
                    “Diplom als Kieferorthopäde”,
                    “diploma di ortodontista”
                    awarded by the Département fédéral de l'intérieur.”;

            2.         Oral surgery:

                     “In Norway:
                    “bevis for gjennomgått spesialistutdanning i oralkirurgi” (certificate of specialist studies in oral surgery) awarded by a university faculty of dentistry.”.

9.     378 L 0687: Council Directive 78/687/EEC of 25 July 1978 concerning the coordination of provisions laid down by law, regulation or administrative action in respect of the activities of dental practitioners (OJ L 233 of 24.8.1978, p. 10), as amended by:
     – 395 D 0001: 95/1/EC, Euratom, ECSC, adjusting the instruments concerning the accession of new Member States to the European Union (OJ L 1 of 1.1.1995, p. 1).

     Veterinary surgeons

10.     378 L 1026: Council Directive 78/1026/EEC of 18 December 1978 concerning the mutual recognition of diplomas, certificates and other evidence of formal qualifications in veterinary medicine, including measures to facilitate the effective exercise of the right of establishment and freedom to provide services (OJ L 362 of 23.12.1978, p. 1), as amended by:
     – 1 79 H: Act concerning the conditions of accession of the Hellenic Republic to the European Communities and the adjustments to the treaties (OJ L 291 of 19.11.1979, p. 91),
     – 1 85 I: Act concerning the conditions of accession of the Kingdom of Spain and the Portuguese Republic to the European Communities (OJ L 302 of 15.11.1985, p. 160),
     – 389 L 0594: Council Directive 89/594/EEC of 30 October 1989 (OJ L 341 of 23.11.1989, p. 19),
     – 390 L 0658: Council Directive 90/658/EEC of 4 December 1990 (OJ L 353 of 17.12.1990, p. 73),
     – 395 D 0001: 95/1/EC, Euratom, ECSC, adjusting the instruments concerning the accession of new Member States to the European Union (OJ L 1 of 1.1.1995, p. 1).

    The provisions of the Directive shall, for the purposes of this Convention, be read with the following adaptations:

    The following shall be added to Article 3:
    “(o)      In Iceland:
                the diplomas, certificates and other titles awarded in another State to which this Directive applies and listed in the present Article, accompanied by a certificate on the completed practical training issued by the competent authorities;
    (p)         In Liechtenstein:
                the diplomas, certificates and other titles awarded in another State to which this Directive applies and listed in the present Article, accompanied by a certificate on the completed practical training issued by the competent authorities;
    (q)         In Norway:
                “eksamensbevis utstedt av Norges veterinærhøgskole for bestått veterinærmedisinsk embetseksamen” (diploma of degree cand. med.vet.) awarded by the Norwegian College of Veterinary Medicine;
    (r)          In Switzerland:
                “titulaire du diplôme fédéral de vétérinaire”,
                “eidgenössisch diplomierter Tierarzt”,
                “titolare di diploma federale di veterinario”
                awarded by the Département fédéral de l'intérieur.”.

11.     378 L 1027: Council Directive 78/1027/EEC of 18 December 1978 concerning the coordination of provisions laid down by law, regulation or administrative action in respect of the activities of veterinary surgeons (OJ L 362 of 23.12.1978, p. 7), as amended by:
     – 389 L 0594: Council Directive 89/594/EEC of 30 October 1989 (OJ L 341 of 23.11.1989, p. 19).

     Midwives

12.     380 L 0154: Council Directive 80/154/EEC of 21 January 1980 concerning the mutual recognition of diplomas, certificates and other evidence of formal qualifications in midwifery and including measures to facilitate the effective exercise of the right of establishment and freedom to provide services (OJ L 33 of 11.2.1980, p. 1), as amended by:
     – 380 L 1273: Council Directive 80/1273/EEC of 22 December 1980 (OJ L 375 of 31.12.1980, p. 74),
     – 1 85 I: Act concerning the conditions of accession of the Kingdom of Spain and the Portuguese Republic to the European Communities (OJ L 302 of 15.11.1985, p. 160),
     – 89 L 0594: Council Directive 89/594/EEC of 30 October 1989 (OJ L 341 of 23.11.1989, p. 19),
     – 390 L 0658: Council Directive 90/658/EEC of 4 December 1990 (OJ L 353 of 17.12.1990, p. 73),
     – 395 D 0001: 95/1/EC, Euratom, ECSC, adjusting the instruments concerning the accession of new Member States to the European Union (OJ L 1 of 1.1.1995, p. 1).

    The provisions of the Directive shall, for the purposes of this Convention, be read with the following adaptations:
    (a)    The following shall be added to Article 1:

             “In Iceland:
            “ljósmóðir”,

             In Liechtenstein:
            “Hebamme”,

             In Norway:
            “jordmor”,

             In Switzerland:
            “sage-femme”,
            “Hebamme”,
            “levatrice”.”.

    (b)    The following shall be added to Article 3:
            (m)      In Iceland:
                    “embættispróf frá Háskóla Íslands eða próf í ljósmóðurfræðum frá Ljósmæðraskóla Íslands” (diploma in midwifery) certified by the competent authorities;
            (n)      In Liechtenstein:
                    the diplomas, certificates and other titles awarded in another State to which this Directive applies and listed in the present Article;
            (o)      In Norway:
                    “bevis for bestått jordmoreksamen” (diploma of midwifery) awarded by a college of midwifery and a certificate of practical training issued by competent public health authorities;
            (p)      In Switzerland:
                    “sage-femme diplômée”,
                    “diplomierte Hebamme”,
                    “levatrice diplomata”
                    diplomas awarded by the Conférence des directeurs cantonaux des affaires sanitaires (cds).”.

13.     380 L 0155: Council Directive 80/155/EEC of 21 January 1980 concerning the coordination of provisions laid down by law, regulation or administrative action relating to the taking up and pursuit of the activities of midwives (OJ L 33 of 11.2.1980, p. 8), as amended by:
     – 389 L 0594: Council Directive 89/594/EEC of 30 October 1989 (OJ L 341 of 23.11.1989, p. 19).

     Pharmacy

14.     385 L 0432: Council Directive 85/432/EEC of 16 September 1985 concerning the coordination of provisions laid down by law, regulation or administrative action in respect of certain activities in the field of pharmacy (OJ L 253 of 24.9.1985, p. 34).

15.     385 L 0433: Council Directive 85/433/EEC of 16 September 1985 concerning the mutual recognition of diplomas, certificates and other evidence of formal qualifications in pharmacy, including measures to facilitate the effective exercise of the right of establishment relating to certain activities in the field of pharmacy (OJ L 253 of 24.9.1985, p. 37), as amended by:

     – 385 L 0584: Council Directive 85/584/EEC of 20 December 1985 (OJ L 372 of 31.12.1985, p. 42),
     – 390 L 0658: Council Directive 90/658/EEC of 4 December 1990 (OJ L 353 of 17.12.1990, p. 73),
     – 395 D 0001: 95/1/EC, Euratom, ECSC, adjusting the instruments concerning the accession of new Member States to the European Union (OJ L 1 of 1.1.1995, p. 1).

    The provisions of the Directive shall, for the purposes of this Convention, be read with the following adaptations:

    The following shall be added at the end of Article 4:
    “(m)      In Iceland:
                “próf frá Háskóla Íslands í lyfjafræði” (diploma in pharmacy from the University of Iceland);
    (n)         In Liechtenstein:
                the diplomas, certificates and other titles awarded in another State to which this Directive applies and listed in the present article, accompanied by a certificate on the completed practical training issued by the competent authorities;
    (o)         In Norway:
                “bevis for bestått cand.pharm. eksamen” (diploma of the degree cand. pharm.) awarded by a university faculty;
    (p)         In Switzerland:
                “titulaire du diplôme fédéral de pharmacien”,
                “eidgenössisch diplomierter Apotheker”,
                “titolare di diploma federale di farmacista”
                awarded by the Département fédéral de l'intérieur.”.

D.    ARCHITECTURE

16.     385 L 0384: Council Directive 85/384/EEC of 10 June 1985 on the mutual recognition of diplomas, certificates and other evidence of formal qualifications in architecture, including measures to facilitate the effective exercise of the right of establishment and freedom to provide services (OJ L 223 of 21.8.1985, p. 15), as amended by:

     – 385 L 0614: Council Directive 85/614/EEC of 20 December 1985 (OJ L 376 of 31.12.1985, p. 1),
     – 386 L 0017: Council Directive 86/17/EEC of 27 January 1986 (OJ L 27 of 1.2.1986, p. 71),

     – 390 L 0658: Council Directive 90/658/EEC of 4 December 1990 (OJ L 353 of 17.12.1990, p. 73),
     – 395 D 0001: 95/1/EC, Euratom, ECSC, adjusting the instruments concerning the accession of new Member States to the European Union (OJ L 1 of 1.1.1995, p. 1).

    The provisions of the Directive shall, for the purposes of this Convention, be read with the following adaptations:
    (a)    The following shall be added to Article 11:
            “(l)      In Iceland:
                    the diplomas, certificates and other titles awarded in another State to which this Directive applies and listed in the present Article, accompanied by a certificate on the completed practical training issued by the competent authorities;
            (m)      In Liechtenstein:
                    the diplomas awarded by the “Fachhochschule” (Dipl.-Arch. (FH));
            (n)      In Norway:
                    –    the diplomas (“sivilarkitekt”) awarded by the Norwegian Institute of Technology at the University of Trondheim, the Oslo College of Architecture and the Bergen College of Architecture,
                    –    the certificates of membership of the “Norske Arkitekters Landsforbund” (NAL) if the persons concerned have received their training in a State to which this Directive applies;
            (o)      In Switzerland:
                    –    the diplomas awarded by the Ecoles polytechniques fédérales, Eidgenössische Technische Hochschulen, Politecnici Federal (arch.dipl.EPF, dipl.Arch.ETH, arch.dipl.PF),
                    –    the diplomas awarded by the Ecole d'architecture de l'Université de Genève (architecte diplômé EAUG),
                    –    the certificates of the Fondation des registres suisses des ingénieurs, des architectes et des techniciens, Stiftung der Schweizerischen Register der Ingenieure, der Architekten und der Techniker, Fondazione dei Registri svizzeri degli ingegneri, degli architetti e dei tecnici (REG): architecte REG A, Architekt REG A, architetto REG A.”.
    (b)    The provisions of Article 15 shall not apply.

E.    COMMERCE AND INTERMEDIARIES

     Trade in and distribution of toxic products

17.     374 L 0556: Council Directive 74/556/EEC of 4 June 1974 laying down detailed provisions concerning transitional measures relating to activities, trade in and distribution of toxic products and activities entailing the professional use of such products including activities of intermediaries (OJ L 307 of 18.11.1974, p. 1).

18.     374 L 0557: Council Directive 74/557/EEC of 4 June 1974 on the attainment of freedom of establishment and freedom to provide services in respect of activities of self-employed persons and of intermediaries engaging in the trade and distribution of toxic products (OJ L 307 of 18.11.1974, p. 5), as amended by:
     – 395 D 0001: 95/1/EC, Euratom, ECSC, adjusting the instruments concerning the accession of new Member States to the European Union (OJ L 1 of 1.1.1995, p. 1).

    The provisions of the Directive shall, for the purposes of this Convention, be read with the following adaptation:

    The following shall be added to the Annex:

     “In Liechtenstein:
    1.        Benzol and tetrachlorocarbon (Regulation No 23 of 1 June 1964);
    2.        All toxic substances and products according to Art. 2 of the Toxicity Law (SR 814.80), especially those that are registered in the list of toxic substances or products 1, 2, 3 according to Art. 3 of the Regulation relating to Toxic Substances (SR 814.801) (applicable according to Customs Treaty, Public Notice No 47 of 28 August 1979).

     In Norway:
    1.        Pesticides covered by the Act on Pesticides of 5 April 1963 and regulations;
    2.        Chemicals covered by the Regulation of 1 June 1990 on marking and trading of chemicals which may be of danger for the health of man, with the corresponding Regulation on the List of Chemicals.

     In Switzerland:
            All the products and toxic substances set out in Article 2 of the Poisons Act (RS 814.80), and in particular those on the list of toxic substances and products in classes 1, 2 and 3, in accordance with Article 3 of the Regulation on toxic substances (RS 814.801).”.

     Self-employed commercial agents

19.     386 L 0653: Council Directive 86/653/EEC of 18 December 1986 on the coordination of the laws of the Member States relating to self-employed commercial agents (OJ L 382 of 31.12.1986, p. 17).

K.     MISCELLANEOUS

20.     385 D 0368: Council Decision 85/368/EEC of 16 July 1985 on the comparability of vocational training qualifications between the Member States of the European Community (OJ L 199 of 31.7.1985, p. 56).


SECTION B – ACTS OF WHICH THE MEMBER STATES SHALL TAKE NOTE

The Member States shall take note of the content of the following acts:

         In general terms

21.     C/81/74/p.1: Communication from the Commission concerning the proofs, declarations and certificates relating to good repute, absence of previous bankruptcy, nature and duration of activity in country of provenance, provided for in Council Directives adopted before 1 June 1973 in the field of freedom of establishment and freedom to provide services (OJ C 81 of 13.7.1974, p. 1).


22.     374 Y 0820(01): Council Resolution of 6 June 1974 on the mutual recognition of diplomas, certificates and other evidence of formal qualifications (OJ C 98 of 20.8.1974, p. 1).

     General system

23.     389 L 0048: Declaration of the Council and the Commission on Council Directive 89/48/EEC of 21 December 1988 on a general system for the recognition of higher-education diplomas awarded on completion of professional education and training of at least three years' duration (OJ L 19 of 24.1.1989, p. 23).


     Doctors

24.     375 X 0366: Council Recommendation 75/366/EEC of 16 June 1975 concerning nationals of the Grand Duchy of Luxembourg who hold a diploma in medicine conferred in a third country (OJ L 167 of 30.6.1975, p. 20).

25.     375 X 0367: Council Recommendation 75/367/EEC of 16 June 1975 on the clinical training of doctors (OJ L 167 of 30.6.1975, p. 21).

26.     375 Y 0701(01): Council Statements made on adopting the texts concerning freedom of establishment and freedom to provide services for doctors within the Community (OJ C 146 of 1.7.1975, p. 1).

27.     386 X 0458: Council Recommendation 86/458/EEC of 15 September 1986 concerning nationals of the Grand Duchy of Luxembourg who hold a diploma in medicine conferred by a third State (OJ L 167, 30.6.1975, p. 30).

28.     389 X 0601: Commission Recommendation 89/601/EEC of 8 November 1989 concerning the training of health personnel in the matter of cancer (OJ L 346 of 27.11.1989, p. 1).

     Dental surgeons

29.     378 Y 0824(01): Council Statement on the Directive concerning the coordination of provisions laid down by law, regulation or administrative action in respect of the activities of dental surgeons (OJ C 202 of 24.8.1978, p. 1).

     Veterinary medicine

30.     378 X 1029: Council Recommendation 78/1029/EEC of 18 December 1978 concerning nationals of the Grand Duchy of Luxembourg who hold a diploma in veterinary medicine conferred in a third country (OJ L 362 of 23.12.1978, p. 12).

31.     378 Y 1223(01): Council Statements on the Directive concerning the mutual recognition of diplomas, certificates and other evidence of formal qualifications in veterinary medicine, including measures to facilitate the effective exercise of the right of establishment and freedom to provide services (OJ C 308 of 23.12.1978, p. 1).

     Pharmacy

32.     385 X 0435: Council Recommendation 85/435/EEC of 16 September 1985 concerning nationals of the Grand Duchy of Luxembourg who hold a diploma in pharmacy conferred in a third State (OJ L 253 of 24.9.1985, p. 45).

     Architecture

33.     385 X 0386: Council Recommendation 85/386/EEC of 10 June 1985 concerning holders of a diploma in architecture awarded in a third country (OJ L 223 of 21.8.1985, p. 28).


VIÐAUKI L

Fyrirvarar af hálfu Íslands
(IX. kafli – Fjárfestingar og X. kafli – Þjónustuviðskipti)


    Ísland mun, frá og með gildistöku samningsins um breytingu á stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu frá 21. júní 2001, veita Sviss samskonar meðferð og það hefur veitt Noregi og Liechtenstein í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
    Að því er varðar flutninga í lofti munu erlendar fjárfestingar áfram heyra undir íslenska löggjöf.

    Aðildarríkin eru ásátt um að endurskoða fyrirvara um flutninga í lofti innan tveggja ára frá gildistöku samningsins um breytingu á stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu frá 21. júní 2001 með það að leiðarljósi að afnema þær hömlur sem enn eru við lýði á flutningnum í lofti.

ANNEX L

Reservations by Iceland
(Chapter IX – Investment and Chapter X – Trade in services)


    As of the entry into force of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association of 21 June 2001, Iceland will grant Switzerland treatment identical to that granted to Norway and Liechtenstein pursuant to the Agreement on the European Economic Area.
    As regards air transport, foreign investment will continue to be subject to the current Icelandic legislation.
    The Member States agree to review the reservation on air transport within two years after the entry into force of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association of 21 June 2001 with the aim of eliminating the remaining restrictions on air transport.

VIÐAUKI M

Fyrirvarar af hálfu Liechtenstein
(IX. kafli – Fjárfestingar og X. kafli – Þjónustuviðskipti)


    „Óbundið“ merkir að Liechtenstein skuldbindur sig ekki að því er varðar tilgreint atriði.

Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
I.     LÁRÉTTIR FYRIRVARAR
ÖLL SVIÐ
Ekki skal litið svo á að skuldbindingar innan tiltekins þjónustusviðs leysi af hólmi skuldbindingar sem gengist er undir að því er varðar annað þjónustusvið, sem slík þjónusta kemur til viðbótar við eða tengist á annan hátt. CPC-númerin, sem tilgreind eru í hornklofum, vísa til Aðalvöruflokkunar Sameinuðu þjóðanna (Statistical Papers Series M nr. 77, Provisional Central Product Classification, Department of International Economics and Social Affairs, Statistical Office of the United Nations, New York, 1991).
Þrátt fyrir 4. mgr. 23. og 29. gr. er Liechtenstein heimilt að fella inn nýjar takmarkanir á sviðum sem heyra undir „óbundinn“ fyrirvara að því marki að slíkar takmarkanir hafi ekki áhrif á heildarjafnvægi réttinda og skuldbindinga samkvæmt þessum samningi. Liechtenstein ber að tilkynna ráðinu fyrirfram, með skriflegri tilkynningu, ásetning sinn að fella inn slíkar takmarkanir. Við viðtöku slíkrar skriflegrar tilkynningar getur sérhvert aðildarríki annað farið fram á samráð. Liechtenstein og viðkomandi aðildarríki skulu hafa slíkt samráð. Þetta ákvæði skal endurskoðað innan tveggja ára frá gildistöku samningsins um breytingu á stofnsamningi Evrópsku fríverslunarsamtakanna með það að markmiði að afnema það.

Óbundið að því er varðar styrki, skattaívilnanir og skattafslátt. Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
Meðferð, sem veitt er dótturfyrirtækjum fyrirtækja frá þriðju löndum sem stofnsett eru samkvæmt lögum aðildarríkis EES og hafa skráða skrifstofu, yfirstjórn eða aðalstarfsstöð í aðildarríki EES, nær ekki til útibúa eða umboðsskrifstofa sem stofnuð eru í aðildarríki EES af fyrirtæki frá þriðja landi.
Þjónustuviðskipti og fjárfestingar


Veita má dótturfyrirtækjum fyrirtækja frá þriðju löndum, sem aðeins hafa skráða skrifstofu á yfirráðasvæði aðildarríkis EES, óhagstæðari meðferð nema þau sýni fram á að þau hafi virk og varanleg tengsl við hagkerfi í einu aðildarríki EES. Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
Það hvort lögaðili (þar með talin útibú) geti stofnað til viðskiptanærveru er háð því að ekki mæli gegn henni neinar ástæður tengdar innlendu hagkerfi (að jafnvægi sé á milli hlutfalls innlends og erlends fjármagns, hlutfalls erlendra aðila samanborið við íbúafjölda, hlutfalls heildarfjölda starfa innan efnahagslífsins samanborið við fjölda þeirra sem búsettur er þar; að jafnvægi sé í landfræðilegri staðsetningu; að jafnvægi sé í efnahagsþróun innanlands, milli sviða og innan þeirra). Fjárfestingar


ANNEX M

Reservations by Liechtenstein
(Chapter IX – Investment and Chapter X – Trade in services)


The term “unbound” shall mean that Liechtenstein does not commit itself with respect to the specified item.

Sector or subsector Reservations Chapter to which reservations apply
I.     HORIZONTAL RESERVATIONS
ALL SECTORS
The level of commitments in a particular services sector shall not be construed to supersede the level of commitments taken with respect to any other services sector to which such service is an input or to which it is otherwise related. CPC numbers indicated in brackets are references to the UN Provisional Central Product Classification (Statistical Papers Series M No. 77, Provisional Central Product Classification, Department of International Economics and Social Affairs, Statistical Office of the United Nations, New York, 1991).
Notwithstanding paragraph 4 of Articles 23 and 29, Liechtenstein may incorporate new limitations in sectors that are subject to an “unbound”-reservation to the extent that such limitations do not affect the overall balance of rights and obligations under the present Convention. Liechtenstein shall inform the Council in advance of its intent to introduce such new limitations by written notification. On receiving such written notification, any other Member State may request consultations. Liechtenstein and that Member State shall enter into such consultations. This provision shall be reviewed within two years after the entry into force of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association, with a view to its elimination.

Unbound for subsidies, tax incentives and tax credits. Trade in services and Investment
Treatment accorded to subsidiaries of third country companies formed in accordance with the law of an EEA Member State and having registered office, central administration or principal place of business within an EEA Member State is not extended to branches or agencies established in an EEA Member State by a third-country company. Trade in services and Investment
Treatment less favourable may be accorded to subsidiaries of third countries having only their registered office in the territory of an EEA Member State unless they show that they possess an effective and continuous link with the economy of one of the EEA Member States. Trade in services and Investment
The establishment of a commercial presence by a legal entity (including branches) is subject to the requirement that no objection for reasons of national economy (balanced proportion of national and foreign capital; balanced ratio of foreigners in comparison with the number of resident population; balanced ratio of total number of jobs in the economy in comparison with the number of the resident population; balanced geographic situation; balanced development of the national economy, between and within the sectors) exists. Investment
Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
Að minnsta kosti einn meðlimur stjórnsýslu lögaðilans, sem hefur heimild til að stjórna og vera í fyrirsvari, skal vera liechtensteinskur ríkisborgari með lögheimili í Liechtenstein, hafa starfsleyfi sem lögmaður, umboðsmaður, fjárvörslumaður eða endurskoðandi, eða hafa viðskiptaprófskírteini sem viðurkennt er af stjórnvöldum. Lögaðilar, sem hafa framkvæmdastjóra með starfsréttindi í samræmi við lög um viðskipti, eru undanþegnir þessum skyldum.
Í lögum um viðskipti er kveðið á um eftirfarandi: Það hvort einstaklingur getur stofnað til viðskiptanærveru er háð því að hann hafi verið búsettur í tiltekinn tíma í Liechtenstein og hafi fasta búsetu þar. Hann/hún skal hafa prófskírteini innan tiltekins sviðs sem viðurkennt er af stjórnvöldum. Það hvort lögaðili (þar með talin útibú) geti stofnað til viðskiptanærveru er háð eftirfarandi skilyrðum: Að minnsta kosti einn framkvæmdastjóranna skal hafa verið búsettur í tiltekinn tíma í Liechtenstein og hafa fasta búsetu þar. Hann/hún skal hafa prófskírteini innan tiltekins sviðs sem viðurkennt er af stjórnvöldum. Meiri hluti framkvæmdastjóranna (sem hafa heimild til að stjórna og vera í fyrirsvari fyrir lögpersónuna) skal hafa búsetu í Liechtenstein og annað hvort vera liechtensteinskir ríkisborgarar eða hafa búið í tiltekinn tíma í Liechtenstein. Sameignarfélög og sameignarfélög með takmarkaðri ábyrgð skulu uppfylla sömu skilyrði og hlutafélög með takmarkaða ábyrgð (lögpersónur). Auk þess skal meirihluti félaga vera liechtensteinskir ríkisborgarar eða hafa verið búsettir í tiltekinn tíma í Liechtenstein. Liechtensteinskur félagaréttur bannar ekki hlutafélögum að kveða á um að fyrirbyggja eða takmarka framsal skráðra hlutabréfa í stofnsamningum sínum.

Öll fasteignakaup eru háð leyfi. Slíkt leyfi er einungis veitt ef gefin er raunveruleg og sönnuð ástæða fyrir tilgangi búsetu eða viðskipta og viðkomandi hefur verið búsettur í landinu í tiltekinn tíma. Aðilar, sem ekki eru búsettir í landinu, eru útilokaðir frá fasteignakaupum. Fjárfestingar
II.     FYRIRVARAR UM TILTEKIN SVIÐ
1.    VIÐSKIPTI OG SÉRHÆFÐ ÞJÓNUSTA
a)     Lögfræðiþjónusta Óbundið, að undanskilinni ráðgjöf um lög heimalandsins (ekki liechtensteinsk lög) og alþjóðalög. Þjónustuviðskipti
Óbundið Fjárfestingar
b)    Bókhaldsþjónusta og endurskoðun
Sector or subsector Reservations Chapter to which reservations apply
At least one member of the administration of a legal entity authorized to manage and represent it must be a Liechtenstein citizen domiciled in Liechtenstein and in possession of the professional licence to act as a lawyer, legal agent, trustee or auditor, or a government-recognized business qualification. From these obligations are excepted legal entities which on the basis of the law concerning trade have a qualified manager.
The law concerning trade stipulates: The establishment of a commercial presence by an individual is subject to the requirement of prior residence during a certain period of time and of permanent domicile in Liechtenstein. He/she must possess sector specific government-recognized professional qualifications. The establishment of a commercial presence by a legal entity (including branches) is subject to the following requirements: At least one of the managers has to fulfil the requirements of prior residence during a certain period of time and of permanent domicile in Liechtenstein. He/She must possess sector specific government-recognized professional qualifications. The majority of the administrators (authorized to manage and represent the juridical person) must be resident in Liechtenstein and have either to be Liechtenstein citizens or have prior residence during a certain period of time in Liechtenstein. The general and the limited partnership have to fulfil the same conditions as corporations with limited liability (juridical person). In addition the majority of the associates have to be Liechtenstein citizens or to have prior residence during a certain period of time in Liechtenstein. The Liechtenstein company law does not prohibit joint stock companies from stipulating in their articles of incorporation the preclusion or limitation of the transfer of registered shares.
All acquisitions of real estate are subject to authorization. Such authorization is granted only if an actual and proven requirement for living or business purposes is given and a certain period of residence has been completed. Non-residents are excluded from the acquisition of real estate. Investment
II.     SECTOR-SPECIFIC RESERVATIONS
1.    BUSINESS SERVICES
a)    Legal services Unbound except for consultancy on home country law (not Liechtenstein law) and international law. Trade in services
Unbound Investment
b)    Accounting, auditing and book-keeping services
Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
-     Bókhaldsþjónusta og endurskoðun, að undanskilinni endurskoðun banka (Hluti af 8621)

Óbundið. Erlent eiginfé má ekki vera meira en 49%. Erlendir aðilar mega ekki ráða yfir meiru en 49% atkvæða. Að minnsta kosti einn meðlimur stjórnsýslunnar, sem hefur heimild til að stjórna og vera í fyrirsvari, skal vera liechtensteinskur ríkisborgari með lögheimili í Liechtenstein, hafa starfsleyfi sem endurskoðandi og vera í fullu starfi hjá viðkomandi lögpersónu. Meirihluti meðlima stjórnsýslunnar skulu hafa starfsleyfi sem endurskoðendur.
Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
-     Endurskoðun tengd bönkum Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
c)    Skattaráðgjöf (CPC 863) Óbundið. Erlent eiginfé má ekki vera meira en 49%. Erlendir aðilar mega ekki ráða yfir meiru en 49% atkvæða. Að minnsta kosti einn meðlimur stjórnsýslunnar, sem hefur heimild til að stjórna og vera í fyrirsvari, skal vera liechtensteinskur ríkisborgari með lögheimili í Liechtenstein, hafa starfsleyfi sem endurskoðandi eða fjárvörslumaður og vera í fullu starfi hjá viðkomandi lögpersónu. Fjárfestingar
e)    Verkfræðiþjónusta (CPC 8672) Krafist er liechtensteinsks ríkisfangs til eftirlitsstarfa á vegum hins opinbera (erlendir skoðunarmenn geta þó unnið á ábyrgð viðurkennds liechtensteinsks skoðunarmanns).
Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
h)    Læknis- og tannlæknaþjónusta (CPC 9312) Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
i)    Dýraskurðlækningar (CPC 932) Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
j)    Þjónusta ljósmæðra, hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara og bráðaliða
Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
k)    Annað Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
C.    Rannsóknir og þróunarstarf Óbundið, þegar um er að ræða verkefni sem fjármögnuð eru að hluta eða öllu leyti með opinberu fé. Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
D.    Fasteignaviðskipti Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
E.    Leigustarfsemi án stjórnanda
a)    Tengd skipum Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
Sector or subsector Reservations Chapter to which reservations apply
-     Accounting and auditing services, excluding auditing of banks (Part of 8621) Unbound. Foreign equity ceiling of 49 per cent. Foreign voting rights may not exceed 49 per cent. At least one member of the administration body authorized to manage and represent must be a Liechtenstein citizen domiciled in Liechtenstein, be in possession of the professional licence to act as an auditor and must work full-time for the juridical person. The majority of the members of the administrative body must be in possession of the professional licence to act as an auditor. Trade in services and Investment
-     Auditing services related to banks Unbound Trade in services and Investment
c)    Taxation services
    (CPC 863)
Unbound. Foreign equity ceiling of 49 per cent. Foreign voting rights may not exceed 49 per cent. At least one member of the administration body authorized to manage and represent must be a Liechtenstein citizen domiciled in Liechtenstein, be in possession of the professional licence to act as an auditor or trustee and must work full-time for the juridical person.
Investment
e)    Engineering services
    (CPC 8672)
Liechtenstein nationality necessary for survey activities for official public purposes (however, foreign surveyors can work under the responsibility of a licensed Liechtenstein surveyor). Trade in services and Investment
h)    Medical and dental services
    (CPC 9312)
Unbound Trade in services and Investment
i)    Veterinary surgeons
    (CPC 932)
Unbound Trade in services and Investment
j)    Services provided by midwives, nurses, physiotherapists and para-medical personnel Unbound Trade in services and Investment
k)    Other Unbound Trade in services and Investment
C.    Research and Development Services Unbound for projects financed in whole or in part by public funds. Trade in services and Investment
D.    Real Estate Services Unbound Trade in services and Investment
E.    Rental/Leasing without Operators
a)    Relating to ships Unbound Trade in services and Investment
Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
e)    Annað Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
F.    Önnur viðskipti og sérhæfð þjónusta
a)    Auglýsingastarfsemi Óbundið að því er varðar umhverfisauglýsingar, auglýsingar á vörum sem eru háðar innflutningsleyfi og á lyfjavörum, áfengi, tóbaki, eiturefnum, sprengiefnum, vopnum og skotfærum. Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
j)    Þjónusta tengd orkudreifingu Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
k)    Vinnumiðlun og ráðningarþjónusta Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
l)    Eftirgrennslan og öryggisþjónusta Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
o)    Ræstingar á byggingum Óbundið að því er varðar aðrar ræstingar (CPC 87409). Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
2.     PÓST- OG FJARSKIPTAÞJÓNUSTA
A.     Póstþjónusta Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
B.     Boðberaþjónusta Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
C.    Fjarskiptaþjónusta Almennt skilyrði sem gildir um öll svið fjarskipta: innlendur einkaréttur er á netgrunnvirki, þjónustu skal veita um almennt net eða leigulínur; þráðlaus netkerfi eru háð leyfi, verðlagning leigulína er óháð magni sem um þær fer, tenging við almenna netkerfið er möguleg.
Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
Óbundið, nema að því er varðar tölvupóst, talpóst, upplýsinga- og gagnaheimt um beinlínutengingu, rafræn gagnaskipti (EDI), sérstaklega styrkta/virðisaukandi bréfasímaþjónustu, umkóðun og útskiptingu á samskiptareglum, beinlínutengda upplýsinga- og/eða gagnavinnslu, myndbandstexta, sérstaklega styrkta/virðisaukandi þjónustu byggða á leyfisskyldum, þráðlausum netkerfum, að meðtöldu sérstaklega styrktu/virðisaukandi boðkerfi, að undanskildum talflutningi.
D.    Hljóð- og myndmiðlun Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
Sector or subsector Reservations Chapter to which reservations apply
e)    Other Unbound Trade in services and Investment
F.    Other Business Services
a)    Advertising services Unbound for outdoor advertising, advertising for goods subject to import authorization and pharmaceutical products, alcohol, tobacco, toxics, explosives, weapons and ammunition. Trade in services and Investment
j)    Services incidental to energy distribution Unbound Trade in services and Investment
k)    Placement and supply services of personnel Unbound Trade in services and Investment
l)    Investigation and security Unbound Trade in services and Investment
o)    Building cleaning Unbound for other cleaning services (CPC 87409). Trade in services and Investment
2.    COMMUNICATION SERVICES
A.    Postal services Unbound Trade in services and Investment
B.    Courier Services Unbound Trade in services and Investment
C.    Telecommunication services
General condition applicable to all telecommunication sectors: national monopoly on network infrastructure, services have to be provided over the public network or over leased lines; wireless networks subject to licensing, pricing of leased lines not volume-sensitive, connection with the public network possible. Trade in services and Investment
Unbound except for electronic mail, voice mail, on-line information and date base retrieval, electronic data interchange (EDI), enhanced/value-added facsimile services, code and protocol conversion, on-line information and/or date processing, videotext, enhanced/value added services based on licensed wireless networks including enhanced/value-added paging services, except for voice transmission.
D.    Audio-visual services Unbound Trade in services and Investment
Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
3.    BYGGINGARSTARFSEMI OG MANNVIRKJAGERÐ OG VERKFRÆÐIÞJÓNUSTA TENGD HENNI Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
4.    DREIFINGARÞJÓNUSTA
-    þjónusta tengd vörum sem eru háðar innflutningsleyfi, lyfjavörum, eiturefnum, sprengiefnum, vopnum og skotfærum og verðmætum málmum
Óbundið


Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
-    smásala í gegnum færanlega sölueiningu Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
B.    Heildsala
Takmarkanir á sölusvæði Fjárfestingar
C.    Smásala Takmarkanir á sölusvæði Fjárfestingar
5.     MENNTUN
-    Skyldunám (nám á grunnskóla- og framhaldsskólastigi I) Óbundið Þjónustuviðskipti og Fjárfestingar
-    Nám á framhaldsskólastigi, sem er ekki skylda (framhaldsskólanám II), æðri menntun, fullorðinsfræðsla, önnur fræðslustarfsemi
Útlendingar mega einungis koma á viðskiptanærveru séu þeir skráðir sem lögpersóna samkvæmt liechtensteinskum lögum. Fjárfestingar
6.    UMHVERFISÞJÓNUSTA 1
B.    Sorphreinsun
    (CPC 9402)
Óbundið að því er varðar sorphreinsun. Fjárfestingar
Sector or subsector Reservations Chapter to which reservations apply
3.    CONSTRUCTION AND RELATED ENGINEERING SERVICES

Unbound Trade in services and Investment
4.    DISTRIBUTION SERVICES
-    services related to goods subject to import authorisation, to pharmaceutical products, toxic, explosives, weapons and ammunition, and precious metals Unbound Trade in services and Investment
-    retailing services through mobile sales unit Unbound
Trade in services and Investment
B.    Wholesale trade services Restrictions on sales area. Investment
C.    Retailing services Restrictions on sales area. Investment
5.    EDUCATIONAL SERVICES
-    Compulsory education services (primary & secondary I) Unbound Trade in services and Investment
-    Non-compulsory secondary education services (secondary II), Higher education services, Adult education services, other education services Foreigners may establish commercial presence only when organized as juridical person according to Liechtenstein law. Investment
6.    ENVIRONMENTAL SERVICES 1
B.    Refuse Disposal Services
    (CPC 9402)
Unbound for garbage dump. Investment
Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
7.    FJÁRMÁLAÞJÓNUSTA
    Skuldbindingar tengdar bankamálum, verðbréfum og vátryggingastarfsemi eru í samræmi við „samkomulag um skuldbindingar í fjármálaþjónustu“ (hér á eftir nefnt „samkomulagið“) og eru háðar takmörkunum og skilyrðum í I. hluta (láréttar skuldbindingar) og sem talin eru upp hér á eftir. Litið er svo á að málsgrein B.4 í „samkomulaginu“ feli ekki í sér skyldu til að leyfa aðilum sem veita fjármálaþjónustu, en ekki eru búsettir í landinu, að stofna til viðskipta.
    Vátryggingastarfsemi og tengd þjónusta Viðskiptanærveru er krafist til að stunda megi vátryggingastarfsemi í Liechtenstein. Þeir sem búsettir eru í landinu mega ekki kaupa þjónustu vátryggingafélaga á yfirráðasvæði annars samningsaðila. Þjónustuviðskipti
Leyfi til að stofna vátryggingafélög frá öðrum löndum en Liechtenstein eru aðeins veitt félögum sem eru undir eftirliti svissnesks vátryggingaeftirlits.
Til að vera viðurkenndir til þátttöku í grunnsjúkratryggingakerfinu skulu þeir aðilar sem selja sjúkratryggingar vera gagnkvæm félög (Genossenschaft, Verein; Versicherungsverein auf Gegenseitigkeit eða Hilfskasse) eða stofnanir (Stiftung).
Öryggisskylda þeirra sem selja vátryggingar: prófun á fjármagnsþörf vegna slysatrygginga.
Viðskiptanærvera á ekki við um stofnun umboðsskrifstofa.
Innlendir lögaðilar og stofnun útibús eða umboðsskrifstofu af hálfu erlendra lögaðila, þar sem þeir sem stjórna eða eru í fyrirsvari, svo sem stjórn og framkvæmdastjórn, eru aðallega útlendingar eða erlend fyrirtæki, skulu skipa í Liechtenstein liechtensteinskan ríkisborgara með fasta búsetu þar, annaðhvort með málflutningsumboð, sem getur komið fram gagnvart yfirvöldum eða, með umboð til undirritunar (prókúruhafi), til að hafa sjálfstætt fyrirsvar. Áður en viðskiptanærveru er komið á til að selja sérstakar greinar tryggingaþjónustu verður erlendur vátryggjandi að hafa haft leyfi til að stunda sömu greinar tryggingaþjónustu í heimalandi sínu í a.m.k. þrjú ár.



Fjárfestingar
Bankastarfsemi og önnur fjármálaþjónusta (að undanskilinni vátryggingastarfsemi) 1 Þátttaka í jöfnun og uppgjöri viðskipta er háð viðskiptanærveru í Liechtenstein.
Framlag til húsbygginga er einungis veitt liechtensteinskum ríkisborgurum sem skulu taka lán fyrir húsbyggingunni í innlendum banka.
Samkvæmt venju í Liechtenstein skal markaðssetja verðbréfasjóði með milligöngu banka með viðskiptanærveru í Liechtenstein.
Þjónustuviðskipti
Sector or subsector Reservations Chapter to which reservations apply
7.    FINANCIAL SERVICES
    Commitments on banking, securities and insurance services in accordance with the “GATS Understanding on Commitments in Financial Services” (hereafter “Understanding”) and subject to limitations and conditions as contained in Part I (horizontal commitments) and as listed below. It is understood that paragraph B.4 of the Understanding does not impose any obligation to allow non-resident financial services suppliers to solicit business.
    Insurance and Insurance-Related Services Establishment of a commercial presence is required for the provision of insurance services in Liechtenstein. Residents may not purchase insurance services in the territory of another Member State. Trade in services
Permit for establishment of insurance companies from countries other than Liechtenstein is granted only to companies which are supervised by the Swiss insurance supervision authority;
To be recognized for participation in the basic health insurance scheme, health insurance suppliers must be organized in the form of mutual associations (Genossenschaft, Verein: Versicherungsverein auf Gegenseitigkeit or Hilfskasse) or foundations (Stiftung);
Duty of security for insurance services;
Economic need test for accident insurance services;
Commercial presence does not cover the setting up of representative offices;
Domestic legal entities and the branch or agency establishment of foreign legal entities whose managing or representing bodies, such as the board of directors and the administration, are comprised in the main of foreigners or foreign firms, shall appoint in Liechtenstein a Liechtenstein citizen who is permanently resident here either to represent the legal entity towards the authorities as a legal representative or, empowered as an authorized signatory (procurist), to exercise the representation, without the cooperation of others. Before setting up a commercial presence to provide specific classes of insurance services, a foreign insurer must have been authorised to operate in the same classes of insurance in its country of origin for at least three years.
Investment
    Banking and Other Financial Services (excluding insurance) 2 Participation in settlement and clearing networks is subject to a commercial presence in Liechtenstein.
Subvention for house building is only granted to Liechtenstein citizen, which have to take out the loan for the house building at a domestic bank.
According to the practice in Liechtenstein, mutual funds (collective investments) have to be marketed through banks having a commercial presence in Liechtenstein.
Trade in services
Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
Einungis banki með viðskiptanærveru (skráða skrifstofu eða útibú) í Liechtenstein má hafa umsjón með verðbréfaútgáfu í svissneskum frönkum.
Liechtensteinska þingið skal samþykkja leyfi sem veitt eru bönkum og fjármálafyrirtækjum, samkvæmt lögum Liechtenstein um banka og fjármálafyrirtæki.
Einn af stjórnarmönnunum og framkvæmdastjórunum skal eiga lögheimili í Liechtenstein. Þeir skulu hafa fullt umboð til að koma fram fyrir hönd fyrirtækis síns í einu og öllu.
Banka og fjármálafyrirtæki skal stofna sem félög með takmarkaða ábyrgð.
Fjármálastofnanir, aðrar en bankar og fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum Liechtenstein um banka og fjármálafyrirtæki, skulu uppfylla eftirfarandi kröfur til að fá leyfi: Erlent eiginfé má ekki vera meira en 49%; erlendir aðilar mega ekki ráða yfir meiru en 49% atkvæða; að minnsta kosti einn meðlimur stjórnsýslunnar, sem hefur heimild til að stjórna og vera í fyrirsvari, skal vera liechtensteinskur ríkisborgari með lögheimili í Liechtenstein, hafa starfsleyfi sem endurskoðandi eða fjárvörslumaður og vera í fullu starfi hjá viðkomandi lögpersónu.
Viðskiptanærvera erlendra fjármálastofnana er háð leyfiskröfum, sem tengjast nafni fyrirtækisins, skyldum þess gagnvart svissneska seðlabankanum og reglum um fjármálastofnanir í heimalandinu.
Fjárfestingar
8.    HEILBRIGÐIS- OG FÉLAGSÞJÓNUSTA Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
9.    FERÐAÞJÓNUSTA OG TENGD ÞJÓNUSTA
A.    Hótel og veitingahús (þar með talin matsöluþjónusta)
    (CPC 641 – 643)
Leyfi er einungis veitt ef þörf er á veitingahúsum (mat á efnahagslegum forsendum byggist á forsendum eins og íbúafjölda, þéttbýlisstigi, gerð hverfa, aðdráttarafli fyrir ferðamenn og fjölda veitingahúsa sem fyrir eru). Nauðsynlegt kann að vera að standast próf. Fjárfestingar
    - matsöluþjónusta Óbundið Þjónustuviðskipti
10.    TÓMSTUNDA-, MENNINGAR- OG ÍÞRÓTTASTARFS EMI (annað en hljóð- og myndmiðlun)
A.    Menningar- og skemmtistarfsemi Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
Sector or subsector Reservations Chapter to which reservations apply
Swiss franc denominated issues can be lead-managed only by a bank having a commercial presence (registered office or branch office) in Liechtenstein.
Licences granted to banks and financial companies according to the Liechtenstein Banking and Financial Companies Act have to be approved by the Liechtenstein parliament. One member of the board of directors and the administrators must have domicile in Liechtenstein. They must be duly authorized to fully represent their company.
Banks and financial companies must be organized in the form of a limited company.
Financial institutions other than banks and financial companies according to the Liechtenstein Banking and Companies Act are subject to the following licensing requirements: foreign equity ceiling of 49 per cent; foreign voting rights may not exceed 49 per cent; at least one member of the administrative body authorized to manage and represent must be a Liechtenstein citizen domiciled in Liechtenstein, be in possession of the professional licence to act as an auditor or trustee and must work full-time for the juridical person.
Commercial presence of foreign financial institutions is subject to licensing requirements relating to the name of firm, duties toward the Swiss national bank and regulations on financial institutions in the country of origin.
Investment
8.    HEALTH RELATED AND SOCIAL SERVICES Unbound Trade in services and Investment
9.    TOURISM AND TRAVEL RELATED SERVICES
A.    Hotels and Restaurants (includes catering)
    (CPC 641 – 643)
Licence only granted if need for restaurants exists (assessment of economic needs is based on criteria such as population, degree of built-up area, type of neighbourhood, touristical interests, number of existing restaurants). Passing an examination may be required. Investment

    -    catering Unbound Trade in services
10.    RECREATIONAL, CULTURAL AND SPORTING SERVICES (other than audio-visual services)
A.    Entertainment services Unbound Trade in services and Investment
Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
C.    Starfsemi bókasafna, skjalasafna og annarra safna og önnur menningarstarfsemi Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
11.    FLUTNINGAR
D.    Geimferðir
    (CPC 733)
Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
G.    Flutningur eftir leiðslum Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
12.    FRAMLEIÐSLA OG DREIFING ORKU; UPPSETNING BÚNAÐAR INNAN ORKUGEIRANS
Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar

Sector or subsector Reservations Chapter to which reservations apply
C.    Libraries, archives, museums and other cultural services
Unbound Trade in services and Investment
11    TRANSPORT SERVICES
D.    Space Transport
    (CPC 733)
Unbound Trade in services and Investment
G.    Pipeline Transport Unbound Trade in services and Investment
12.    ENERGY PRODUCTION AND DISTRIBUTION; INSTALLATION OF EQUIPMENT IN THE ENERGY SECTOR Unbound Trade in services and Investment

VIÐAUKI N

Fyrirvarar af hálfu Noregs
(IX. kafli – Fjárfestingar og X. kafli – Þjónustuviðskipti)


    „Óbundið“ merkir að Noregur skuldbindur sig ekki að því er varðar tilgreint atriði.

Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
I.     LÁRÉTTIR FYRIRVARAR
Ekki skal litið svo á að skuldbindingar innan tiltekins sviðs leysi af hólmi skuldbindingar, sem gengist er undir að því er varðar annað svið, sem slík starfsemi kemur til viðbótar við eða tengist á annan hátt. CPC-númerin, sem tilgreind eru í hornklofum, vísa til Aðalvöruflokkunar Sameinuðu þjóðanna (Statistical Papers Series M nr. 77, Provisional Central Product Classification, Department of International Economics and Social Affairs, Statistical Office of the United Nations, New York, 1991).
Öll svið: Félagaréttur Framkvæmdastjóri og að minnsta kosti helmingur stjórnarmanna nokkurra flokka félaga, þ.e.a.s. hlutafélaga, skulu vera búsettir í Noregi. Þetta gildir ekki um ríkisborgara aðildarríkja EES. Fjárfestingar
Til þess að geta talist norskur fyrirtækjahópur skal móðurfyrirtækið vera norskt fyrirtæki. Erlend móðurfyrirtæki með norsk dótturfyrirtæki geta einnig, upp að vissu marki, talist fyrirtækjahópur. Þetta á fremur við þegar um er að ræða móðurfyrirtæki frá aðildarríkjum EES en fyrirtæki utan EES-svæðisins. Fyrirtæki er fremur leyft að veita lán til eða leggja fram tryggingu fyrir móðurfyrirtæki frá aðildarríki EES en fyrir hlutafélag frá öðrum ríkjum.
Öll svið: Styrkir Óbundið Þjónustuviðskipti
Heimilt er að takmarka rétt til styrkja við lögpersónur með staðfestu í Noregi. Óbundið að því er varðar styrki til rannsókna- og þróunarstarfs. Fjárfestingar
Öll svið: Meðferð útibúa og umboðsskrifstofa Meðferð, sem veitt er dótturfyrirtækjum fyrirtækja frá þriðju löndum sem stofnsett eru samkvæmt lögum aðildarríkis EES og hafa skráða skrifstofu, yfirstjórn eða aðalstarfsstöð í aðildarríki EES, nær ekki til útibúa eða umboðsskrifstofa sem stofnuð eru í aðildarríki EES af fyrirtæki frá þriðja landi.
Fjárfestingar
Veita má dótturfyrirtækjum fyrirtækja frá þriðju löndum, sem stofnuð eru í samræmi við lög aðildarríkis EES og hafa einungis skráða skrifstofu á yfirráðasvæði aðildarríkis EES, óhagstæðari meðferð nema þau sýni fram á að þau hafi virk og varanleg tengsl við hagkerfi í einu aðildarríki EES.
II.     FYRIRVARAR UM TILTEKIN SVIÐ
1.    VIÐSKIPTI OG SÉRHÆFÐ ÞJÓNUSTA
A.    Sérfræðiþjónusta

ANNEX N

Reservations by Norway
(Chapter IX – Investment and Chapter X – Trade in services)


    The term “unbound” shall mean that Norway does not commit itself with respect to the specified item.

Sector or subsector Reservations Chapter to which reservation applies
I.     HORIZONTAL RESERVATIONS
The level of commitments in a particular sector shall not be construed to supersede the level of commitments taken with respect to any other sector to which such activity is an input or to which it is otherwise related. CPC numbers indicated in brackets are references to the UN Provisional Central Product Classification (Statistical Papers Series M No. 77, Provisional Central Product Classification, Department of International Economics and Social Affairs, Statistical Office of the United Nations, New York, 1991).
All sectors: Company Law The managing director and at least half of the members of the board of directors of several categories of companies, i.a. joint stock companies, must be domiciled in Norway. Investment
This does not apply to citizens of EEA Member States. As a main rule, in order to be considered a Norwegian group, the parent company must be a Norwegian company. To some extent also foreign parent companies with Norwegian subsidiaries can be considered a group. This applies to a wider extent regarding parent companies from EEA Member States than companies outside the EEA area. A company is to a wider extent permitted to grant credits or pledge security for a parent company from an EEA Member State than for a shareholding company from other states.
All sectors: Subsidies Unbound Trade in services
Eligibility for subsidies may be limited to juridical persons established in Norway. Unbound for research and development subsidies. Investment
All sectors: Treatment of branches and agencies Treatment accorded to subsidiaries of third country companies formed in accordance with the law of an EEA Member State and having their registered office, central administration or principal place of business within an EEA Member State may not be extended to branches or agencies established in an EEA Member State by a third-country company. Investment
Treatment less favourable may be accorded to subsidiaries of third-country companies formed in accordance with the law of an EEA Member State having only their registered office in the territory of an EEA Member State unless they show that they possess an effective and continuous link with the economy of one of the EEA Member States.
II.     SECTOR-SPECIFIC RESERVATIONS
1.    BUSINESS SERVICES
A.    Professional services
Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
a)    Lögfræðiþjónusta Lögmaður ber persónulega ábyrgð á eigin starfsemi. Einungis er mögulegt að eiga hagsmuna að gæta (eigin hlutabréf og/eða vera stjórnarmaður fyrirtækis) í norsku lögmannafyrirtæki með virkri þátttöku í fyrirtækinu. Fjárfestingar
Erlendir lögmenn mega veita ráðgjöf um erlend lög og alþjóðalög eftir beitingu þeirra. Nokkrar takmarkanir eru á samstarfi við norska lögmenn í kjölfar löggjafar um skipulag norskra lögmannafyrirtækja.
b)    Bókhaldsþjónusta og endurskoðun
-    Endurskoðun Endurskoðendur, sem sinna lögskipaðri endurskoðun, skulu hafa fasta starfsstöð í Noregi og vera búsettir innan Evrópska efnahagssvæðisins. Endurskoðendafyrirtæki skulu hafa fasta starfsstöð í Noregi. Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
-    Bókhaldsþjónusta Bókhald skal fara fram í Noregi. Konungur getur ákvarðað að bókhald skuli fara fram erlendis. 1 Þjónustuviðskipti
Viðurkenndir bókarar skulu hafa fasta starfsstöð í Noregi, vera búsettir á Evrópska efnahagssvæðinu og hafa að minnsta kosti 2 ára starfsreynslu í Noregi á næstliðnum 5 árum. Framkvæmdastjóri bókhaldsfyrirtækis skal vera viðurkenndur bókari.
h)    Læknis- og tannlæknaþjónusta (CPC 9312) Óbundið Þjónustuviðskipti
Skal tala norsku og hafa staðist tiltekin innlend próf á ýmsum sviðum. Heimilt er að viðurkenna erlend próf sem eru jafngild. Fjárfestingar
i)    Dýralækningar Óbundið Fjárfestingar
j)    Þjónusta ljósmæðra, hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara og bráðaliða (CPC 93191)
Óbundið Fjárfestingar
C.    Rannsóknir og þróunarstarf
a)    Rannsóknir og þróunarstarf á sviði náttúruvísinda Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
c)    Þverfaglegar rannsóknir og þróunarstarf Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
D.     Fasteignaviðskipti
Sector or subsector Reservations Chapter to which reservation applies
a)    Legal services The advocate is personally responsible for his activities. To have an interest (own shares and/or be a member of the board of the firm) in a firm of Norwegian advocates is only possible when taking active part in the business. Investment
Foreign advocates can give advice on foreign law and international law after application. Some restrictions on co-operation with Norwegian advocates as a consequence of legislation on how a firm of Norwegian advocates may be organized.
b)    Accounting, auditing and book-keeping services
-    Auditing services Auditors who perform statutory audits must have a permanent place of business in Norway and reside within the European Economic Area. Auditing firms must have a permanent place of business in Norway. Trade in services and Investment
-    Accounting and bookkeeping services Accounting shall take place in Norway. The King may decide that accounting takes place abroad. 1 Trade in services
Authorised accountants must have a permanent place of business in Norway, reside within the European Economic Area, and have a minimum of 2 years practice in Norway during the 5 preceding years. The managing director of an accounting firm must be an authorised accountant.
h)    Medical and dental services (CPC 9312) Unbound Trade in services and Investment
Must speak Norwegian and have passed certain national exams in different areas. Foreign exams giving equivalent competence may be recognized.
i)    Veterinary services Unbound Investment
j)    Services provided by midwives, nurses, physiotherapists and para-medical personnel (CPC 93191) Unbound Investment
C.    Research and development services
a)    R&D on natural science Unbound Trade in services and Investment
c)    Interdisciplinary R&D services Unbound Trade in services and Investment
D.    Real Estate Services
Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
a)    með eigin fasteignir eða fasteignaleiga Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
E.    Leiga á tækjum og vélum án stjórnanda
b)    tengd loftförum Til að vera skráð í loftfaraskrá Noregs skal loftfarið annaðhvort vera í eigu norskra einstaklinga eða norskra lögpersóna. Fjárfestingar
c)    tengd bílaleigu
    (CPC 83101)
Óbundið Þjónustuviðskipti
F.    Önnur viðskipti og sérhæfð þjónusta
h)    þjónusta tengd námuvinnslu Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
j)    Þjónusta tengd orkudreifingu Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
l)    Eftirgrennslan og öryggisþjónusta
-    öryggisgæsla og vöktun Framkvæmdastjórinn skal vera ríkisborgari EES-ríkis. Stjórnarmenn í hlutafélögum og meðeigendur í öðrum félagagerðum skulu vera ríkisborgarar EES-ríkja. Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
s)    Ráðstefnuþjónusta Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
2.    FJARSKIPTAÞJÓNUSTA
A.    Póstþjónusta Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
D.    Hljóð- og myndmiðlun Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
4.    DREIFINGARÞJÓNUSTA
A.    Þjónusta umboðsaðila Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
B.    Heildsala (innflutningur og sala á áfengi, vopnum, lyfjavörum, fiski og korni) Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
Sector or subsector Reservations Chapter to which reservation applies
a)    involving own or leased property Unbound Trade in services and Investment
E.    Rental/Leasing without operators
b)    relating to aircraft To be registered in the aircraft register of Norway, the aircraft must be owned either by Norwegian natural persons or by Norwegian juridical persons. Investment
c)    relating to car-hiring (CPC 83101) Unbound Trade in services
F.    Other business services
h)    services incidental to mining Unbound Trade in services and Investment
j)    services incidental to energy distribution Unbound Trade in services and Investment
l)    investigation and security
-    security and guarding The manager must be an EEA-citizen. The members of the board in joint stock companies and partners in other company forms must be EEA-citizens. Trade in services and Investment
s)    convention services Unbound Trade in services and Investment
2.    COMMUNICATION SERVICES
A.    Postal services Unbound Trade in services and Investment
D. Audiovisual services Unbound Trade in services and Investment
4.    DISTRIBUTION SERVICES
A.    Commission Agents' services Unbound Trade in services and Investment
B.    Wholesale trade services (import and trade in alcohol, arms, pharmaceuticals, fish and grain) Unbound Trade in services and Investment
Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
C.    Smásala (innflutningur og sala á lyfjavörum, áfengi og vopnum)
Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
5.    MENNTUN
-    Menntun sem leiðir til prófa og/eða prófgráða sem eru viðurkenndar af ríkinu
Menntun á grunnskóla- og framhaldsskólastigi heyra til opinberrar þjónustu. Heimila má stofnunum og öðrum lögaðilum að bjóða til viðbótar hliðstæða menntun eða sérmenntun, hvort sem er á viðskiptalegum grunni eða ekki. Fjárhagsaðstoð við menntastofnanir eða nemendur er aðeins veitt vegna náms við viðurkenndar stofnanir.
Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
A.    Menntun á efra og neðra stigi grunnskóla
B.    Menntun á framhaldsskólastigi
C.    Æðri menntun
D.    Fullorðinsfræðsla
6.    UMHVERFISÞJÓNUSTA 1
A.    Rekstur skólpveitna (CPC 9401) Óbundið Þjónustuviðskipti
B.    Sorphreinsun (CPC 9402) Einkaleyfi er á sumum flokkum sorps. Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
C.    Hreinsunardeildir og skyld starfsemi (CPC 9403) Óbundið Þjónustuviðskipti
D.    Annað
-    Hávaðavarnir (CPC 9405), náttúruvernd og landslagsvernd (CPC 9406), önnur umhverfisvernd (CPC 9409)

Óbundið Þjónustuviðskipti
-    Hreinsun útblásturslofts (CPC 9404) Ríkið hefur einkarétt á eftirliti með útblæstri frá bílum og vörubifreiðum. Slíka þjónustu má ekki veita í hagnaðarskyni. Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
7.    FJÁRMÁLAÞJÓNUSTA
Sector or subsector Reservations Chapter to which reservation applies
C.    Retailing services services (import and trade in pharmaceutical products, alcohol and arms) Unbound Trade in services and Investment
5.    EDUCATIONAL SERVICES
-    Educational services leading to the conferring of State recognized exams and/or degrees
Primary and secondary education are public service functions. Authorization may be given to foundations and other legal entities to offer additional parallel or specialized education on a commercial or non-commercial basis. Financial assistance to educational institutions or to students only available for studies at certified establishments. Trade in services and Investment
A.    Primary and lower secondary education services
B.    Upper secondary education services
C.    Higher education services
D.    Adult education
6.    ENVIRONMENTAL SERVICES 2
A.    Sewage Services (CPC 9401) Unbound Trade in services
B.    Refuse disposal services (CPC 9402) For some categories of waste there exists a monopoly situation. Trade in services and Investment
C.    Sanitation and similar services (CPC 9403)
Unbound Trade in services
D.    Other
-    Noise abatement services (CPC 9405), Nature and landscape protection services (CPC 9406) other environmental protection services (CPC 9409) Unbound Trade in services
-    Cleaning services of exhaust gases (CPC 9404) Government owned monopoly for control services of exhaust-gas from cars and trucks. Such services must be offered on a non-profit basis. Trade in services and Investment
7.    FINANCIAL SERVICES
Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
Noregur skuldbindur sig í tengslum við fjármálaþjónustu í samræmi við „samkomulag um skuldbindingar í fjármálaþjónustu“ (hér á eftir nefnt „samkomulagið“) og háð takmörkunum og skilyrðum í I. hluta (láréttar skuldbindingar) og sem talin eru upp hér á eftir.
I.    Litið er svo á að málsgrein B.4 í samkomulaginu feli ekki í sér skyldu til að leyfa aðilum sem veita fjármálaþjónustu, en ekki eru búsettir í landinu, að stofna til viðskipta.
II.    Eftirfarandi höft og takmarkanir gilda:
Vátryggingastarfsemi og tengd þjónusta Auk þjónustunnar, sem talin er upp í a-lið málsgreinar B.3 í samkomulaginu, er erlendum vátryggingafélögum heimilt að selja vátryggingar í tengslum við rannsóknarstarfsemi á hafi úti eða vátryggingasamninga fyrir innlend fyrirtæki með starfsemi sem nemur a.m.k. 10 mannárum eða árlegri sölu upp á a.m.k. 50 milljónir norskra króna. Þjónustuviðskipti
Erlend vátryggingafélög skulu bjóða þá þjónustu sem talin er upp í a-lið málsgreinar B.3 í samkomulaginu með milligöngu tryggingamiðlara sem viðurkenndur er í Noregi.
Enginn einn fjárfestir eða samræmdur hópur fjárfesta má kaupa eða eiga meira en 10 prósent hlutafjár í norsku vátryggingafélagi. Fjármála- og tollaráðuneytið getur, í sérstökum tilvikum, veitt undanþágur frá þessum takmörkunum á eignarhaldi eins fjárfestis. Fjárfestingar
Þrátt fyrir framangreint geta erlend vátryggingafélög stofnað útibú í Noregi og átt þau að hluta eða öllu leyti. Aðrir eigendur útibúa, sem þau eiga að hluta, skulu vera erlend vátryggingafélög eða norskar fjármálastofnanir.
Skylt er að líftryggingar, skaðatryggingar og lánsáhættutryggingar hjá dótturfyrirtækjum eða útibúum fjármálastofnana, sem ekki eru skráðar innan Evrópska efnahagssvæðisins, séu aðskildar að því er varðar innlenda meðferð.
Vátryggingafélög, skráð í Noregi, skal stofna sem hlutafélög eða gagnkvæm vátryggingafélög. Tryggingamiðlanir, skráðar í Noregi, skal stofna sem hlutafélög.
Í norskum vátryggingafélögum, þ.m.t. dótturfyrirtækjum erlendra vátryggingafélaga, skal framkvæmdastjóri, a.m.k. helmingur stjórnarmanna og helmingur stjórnarmanna í yfirstjórn fyrirtækisins hafa fasta búsetu í Noregi. Þessi krafa gildir ekki um ríkisborgara ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins sem hafa búsetu í slíku ríki. Viðskipta- og iðnaðarráðherra getur veitt undanþágu frá þessum reglum.
Erlendar fjármálastofnanir, aðrar en vátryggingafélög, mega ekki eiga hlutafé í norsku vátryggingafélagi sem er dótturfélag að hluta til í eigu erlends vátryggingafélags.
Sector or subsector Reservations Chapter to which reservation applies
Norway undertakes commitments on financial services in accordance with the “GATS Understanding on Commitments in Financial Services” (hereafter “the Understanding”) and subject to limitations and conditions as contained in Part I (horizontal reservations) and as listed below.
I.    It is understood that paragraph B.4 of the Understanding does not impose any obligation to allow non-resident financial service suppliers to solicit business.
II.    The following restrictions and limitations apply:
Insurance and Insurance-Related services In addition to the services listed in paragraph B.3 (a) of the Understanding, non-resident insurance companies may supply insurance related to offshore exploration activities or insurance contracts regarding domestic companies with an activity of at least 10 man-years or annual sales of at least NOK 50 million. Trade in services
Non-resident insurance companies must supply the services listed above and in paragraph B.3 (a) of the Understanding through an insurance broker authorised in Norway.
No single or coordinated group of investors may acquire or hold more than 10 per cent of the share capital in a Norwegian insurance company. The Ministry of Finance and Customs may in special circumstances make exemptions from these limitations on single investor ownership. Investment
Notwithstanding the foregoing, foreign insurance companies may establish partly or wholly owned subsidiaries in Norway. The other owners of such partly owned subsidiaries must be foreign insurance companies or Norwegian financial institutions.
For subsidiaries or branches of financial institutions not incorporated within the European Economic Area, a separation requirement applies on a national treatment basis between life insurance, non-life insurance and credit risk insurance.
Insurance companies incorporated in Norway must be organised as joint stock companies or mutual insurance companies. Insurance brokerage firms incorporated in Norway must be organised as joint stock companies.
In Norwegian insurance companies, including subsidiaries of foreign insurance companies, the manager, at least half the members of the board of directors and half the members of the corporate assembly must be permanent residents of Norway. This requirement does not apply to citizens of a State within the European Economic Area when residing in such State. The Ministry of Industry and Trade may grant exemptions from these rules.
Foreign financial institutions other than insurance companies cannot own shares in a Norwegian insurance company, which is a partly owned subsidiary of a foreign insurance company.

Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
Vinnuveitendum er skylt að hafa tryggingu vegna vinnuslysa. Meginreglan er sú að vátryggingafélög skulu hafa leyfi norskra yfirvalda. Það er þó ekki nauðsynlegt ef aðalskrifstofa fyrirtækisins er stofnuð í aðildarríki EES með leyfi yfirvalda þess ríkis. Réttindi starfsmanna frá aðildarríki EES lúta sérstökum reglum.

Lyfjaframleiðendur og, í vissum tilvikum, lyfjainnflytjendur skulu hafa sérstaka skaðabótaábyrgðartryggingu. Meginreglan er sú að vátryggingafélag skal hafa leyfi norskra yfirvalda Það er þó ekki nauðsynlegt ef aðalskrifstofa fyrirtækisins er stofnuð í aðildarríki EES með leyfi yfirvalda þess ríkis. Innflutningur frá aðildarríkjum EES lýtur sérstökum reglum varðandi skaðabótaábyrgð.
Bankastarfsemi og önnur fjármálaþjónusta (að undanskilinni vátryggingastarfsemi) Enginn einn fjárfestir eða samræmdur hópur fjárfesta má kaupa eða eiga meira en 10 af hundraði hlutafjár viðskiptabanka eða fjármálafyrirtækja né heldur meira en 10 af hundraði hlutafjárskírteina sparisjóða. Fjármála- og tollaráðuneytið getur, í sérstökum tilvikum, veitt undanþágur frá takmörkunum á eignarhaldi eins fjárfestis í slíkum stofnunum.
Fjárfestingar
Þrátt fyrir framangreint geta erlendir bankar og fjármálafyrirtæki stofnað útibú í Noregi og átt þau að hluta eða öllu leyti. Aðrir eigendur slíkra útibúa, sem þau eiga að hluta, skulu vera bankar annars vegar eða fjármálastofnanir hins vegar.
Verðbréfaskráning, eins og segir í lögum um norsku verðbréfavörslumiðstöðina sem stjórnar skráningarkerfi fyrir pappírslaus verðbréf, er háð lögbundnum einkarétti. 1
Viðskiptabankar, verðbréfafyrirtæki og rekstrarfélög verðbréfasjóða, sem skráð eru í Noregi, skal stofnað sem hlutafélög.
Útibú banka, verðbréfafyrirtækja og rekstrarfélaga verðbréfasjóða í Noregi, sem skráð eru utan Evrópska efnahagssvæðisins, geta ekki verið reikningsstofnanir í norsku verðbréfavörslumiðstöðinni.

Sector or subsector Reservations Chapter to which reservation applies
Employers are obliged to have an insurance covering work-related injuries. The insurance company must as a rule have a permission from Norwegian authorities. However, this is not necessary if the head office of the company is established in an EEA Member State on the basis of a permission from the authorities of this state. Workers from EEA Member State are subject to some special rules regarding their rights.
Producers and – on certain conditions – importers of medicines must have a specific kind of liability insurance. The insurance company must as a rule have a permission from Norwegian authorities. However, this is not necessary if the head office of the company is established in an EEA Member State on the basis of a permission from the authorities of this state. Import from EEA Member States is subject to some special rules regarding liability.
Banking and Other Financial Services (excluding Insurance) No single or coordinated group of investors may acquire or hold more than 10 per cent of the share capital of commercial banks or financing undertakings, or more than 10 per cent of the equity certificates of savings banks. The Ministry of Finance and Customs may in special circumstances make exemptions from these limitations on single investor ownership in such institutions. Investment
Notwithstanding the foregoing, foreign banks and financing undertakings may establish partly or wholly owned subsidiaries in Norway. The other owners of such partly owned subsidiaries must be banks or financial institutions respectively.
Registration of securities, as stated in the act relating to the Norwegian Central Securities Depository regulating the book-entry registration system for paperless securities, is subject to a legal monopoly. 3
Commercial banks, securities firms and management companies for collective investment funds incorporated in Norway must be organised as joint stock companies.
Branches in Norway of banks, securities firms and management companies for collective investment funds incorporated outside the European Economic Area cannot be account-operators in the Norwegian Central Securities Depository.

Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um



Í norskum viðskiptabönkum, fjármálafyrirtækjum, fjárfestingafyrirtækjum og rekstrarfélögum verðbréfasjóða, þ.m.t. dótturfyrirtækjum slíkra erlendra stofnana, skal framkvæmdastjóri, a.m.k. helmingur stjórnarmanna og helmingur stjórnarmanna í yfirstjórn fyrirtækisins hafa fasta búsetu í Noregi. Þessi krafa gildir ekki um ríkisborgara ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins sem hafa búsetu í slíku ríki. Viðskipta- og iðnaðarráðherra getur veitt undanþágu frá þessum reglum.
Í sparisjóðum og fjármálafyrirtækjum, sem ekki eru stofnuð sem hlutafélög, skulu ákvörðunaraðilar vera ríkisborgarar ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins og hafa fasta búsetu í ríkjum innan þess. Fjármála- og tollaráðuneytið getur veitt undanþágu frá þessum reglum.
8.    HEILBRIGÐIS- OG FÉLAGSÞJÓNUSTA Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
10.    TÓMSTUNDA-, MENNINGAR- OG ÍÞRÓTTASTARFSEMI (annað en hljóð- og myndmiðlun)
A.    Menningar- og skemmtistarfsemi Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
C.    Starfsemi bókasafna, skjalasafna og annarra safna og önnur menningarstarfsemi Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
D.    Íþróttir og önnur tómstundastarfsemi Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
11.    FLUTNINGAR
A.    Sjóflutningar
-    Millilandaflutningar (á farmi og farþegum) CPC 7211 og 7212 að undanskildum gestaflutningum 1 ) Skip skráð í almennu norsku skipaskrána (NOR).
Skip skulu vera í eigu norskra ríkisborgara eða norsks fyrirtækis þar sem norskir ríkisborgarar eiga að minnsta kosti 60% hlutafjár. Veita má undanþágur frá 60% reglunni.
Fjárfestingar

Sector or subsector Reservations Chapter to which reservation applies
In Norwegian commercial banks, financing undertakings, investment firms and management companies for collective investment funds, including subsidiaries of such foreign institutions, the manager, at least half the members of the board of directors and half the members of the corporate assembly must be permanent residents of Norway. This requirement does not apply to citizens of a State within the European Economic Area when residing in such State. The Ministry of Industry and Trade may grant exemptions from these rules.
In savings banks and financing undertakings, which are not organised as joint stock companies, the members of decision-making bodies must be citizens of States within the European Economic Area and permanently residing in such States. The Ministry of Finance and Customs may grant exemptions from these rules.
8.    HEALTH RELATED AND SOCIAL SERVICES Unbound Trade in services and Investment
10.    RECREATIONAL, CULTURAL AND SPORTING SERVICES (other than audio-visual services)
A.    Entertainment services Unbound Trade in sevices and Investment
C.    Libraries, archives museums and other cultural services Unbound Trade in services and Investment
D.    Sporting and other recreational activities Unbound Trade in services Investment
11.    TRANSPORT SERVICES
A.    Maritime transport services
-    International transport (freight and passengers) CPC 7211 and 7212 less cabotage 4 transport) Ships on the Norwegian Ordinary Ship Register (NOR).
Ships have to be owned by Norwegian citizens or by a Norwegian company where Norwegian citizens own at least 60 per cent of the capital. Exemptions from the 60 per cent rule may be granted.
Investment

Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
Ef skipseigendafélag er félag með takmarkaða ábyrgð skulu höfuðstöðvar þess vera í Noregi. Meirihluti stjórnarmanna, þar með talinn stjórnarformaður, skulu vera norskir ríkisborgarar með búsetu í Noregi og hafa verið búsettir þar næstliðin tvö ár. Stoðkerfi fyrir hluta af flotanum sem skráður er í almennu norsku skipaskrána.
Skip skráð í alþjóðlegu norsku skipaskrána (NIS): Skip, sem erlendir aðilar eiga meira en 40% í, skal rekið af norsku skipseigendafélagi með höfuðstöðvar í Noregi eða af norsku rekstrarfélagi. Ef erlent fyrirtæki skráir skipið beint í alþjóðlegu norsku skipaskrána, er krafist norsks fulltrúa.
-    Gestaflutningar Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
B.    Flutningar á vatnaleiðum Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
C.    Geimferðir
    (CPC 733)
Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
D.    Flutningur eftir leiðslum Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar

Sector or subsector Reservations Chapter to which reservation applies
When the ship-owning company is a limited liability company, it must be headquartered in Norway. The majority of the members of the board, including the chairman, must be Norwegian citizens resident in Norway, having resided in Norway the preceding two years. Support scheme for parts of the NOR-fleet.
Ships on the Norwegian International Ship Register (NIS): Ships with more than 40 per cent foreign ownership must be operated by a Norwegian ship-owning company with head office in Norway, or by Norwegian management company. If the ship is registered directly in the NIS by a foreign company, a Norwegian representative is required.
-    Cabotage Unbound Trade in services and Investment
B.    Internal Waterways Transport Unbound Trade in services and Investment
C.    Space Transport
    (CPC 733)
Unbound Trade in services and Investment
D.    Pipeline Transport Unbound Trade in services and Investment

Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
E.    Stoðþjónusta við allar greinar flutninga Óbundið, að undanskilinni stoðþjónustu við sjóflutninga (vöruafgreiðsla í sjóflutningum 1 , vörugeymsla (CPC 742); tollafgreiðsla 2 ; gámaþjónusta 3 , þjónusta umboðsskrifstofa á sviði siglinga 4 ; þjónusta flutningamiðlana 5 og önnur stoðþjónusta við flutninga 6 ).
Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
III.     AÐRAR UNDANTEKNINGAR
Fiskveiðar Sérleyfi til kaupa á fiskiskipi eða hlutafé í fyrirtæki sem á slík skip má einungis veita norskum ríkisborgara eða aðila sem skilgreina má sem norskan ríkisborgara. Litið er svo á að fyrirtæki hafi jafnan rétt á við norskan ríkisborgara ef aðalskrifstofa þess er í Noregi og meirihluti stjórnarmanna, þar með talinn stjórnarformaður, eru norskir ríkisborgarar og hafa verið búsettir í landinu næstliðin tvö ár. Norskir ríkisborgarar skulu einnig eiga að minnsta kosti 60% hlutafjár og ráða yfir að minnsta kosti 60% atkvæða.
Fjárfestingar
Eignarhald í fiskiskipaflotanum skal takmarkast við atvinnusjómenn. Til að öðlast rétt til að eiga fiskiskip skal viðkomandi hafa stundað fiskveiðar að atvinnu á norskum fiskibáti í að minnsta kosti þrjú af næstliðnum fimm árum.

Sector or subsector Reservations Chapter to which reservation applies
E.    Services auxiliary to all modes of transport Unbound except for maritime auxiliary services (maritime cargo handling services 5 , Storage and warehousing services (CPC 742); customs clearance services 6 ; container station and depot services 7 , maritime agency services 8 ; freight forwarding services 9 and other supporting auxiliary transport services 10 ). Trade in services and Investment
III.     OTHER EXCEPTIONS
Fisheries A concession to acquire a fishing vessel or share in a company which owns such vessels can only be given to a Norwegian citizen or a body that can be defined as a Norwegian citizen. A company is regarded as having equal rights with a Norwegian citizen when its main office is situated in Norway and the majority of the Board, including the Chair of the Board, are Norwegian citizens and have stayed in the country the last two years. Norwegian citizens also have to own a minimum of 60% of the shares and have to be authorised to vote for at least 60% of the votes. Investment
Ownership to the fishing fleet shall be reserved for professional fishermen. To obtain the right to own a fishing vessel, one has to have a record of active, professional fishing on a Norwegian fishing boat for at least three of the last five years.

Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
Öðrum en norskum ríkisborgurum eða fyrirtækjum, eins og tilgreint er hér að framan, er bannað að vinna, pakka eða flytja fisk, krabbadýr og lindýr, hluta af þeim eða afurðir þeirra innan fiskveiðilögsögu norska efnahagssvæðisins. Það gildir bæði um afla norskra og erlendra skipa. Undanþágur eru veittar við sérstakar aðstæður.
Fasteignaviðskipti Kaup eða leiga erlendra aðila á aukahúsnæði er háð sérleyfi. Fjárfestingar
Happdrætti Sérstakar reglur gilda í Noregi um rétt einstaklinga frá aðildarríkjum EES til að láta í té þjónustu tengda happdrættum. Þjónustuviðskipti
Innheimta Einstaklingum og fyrirtækjum sem hafa atvinnu af innheimtu í Noregi ber skylda til að hafa fasta starfsstöð í Noregi og skulu hafa sérstakt leyfi norsku ríkisstjórnarinnar.
Þjónustuviðskipti

Sector or subsector Reservations Chapter to which reservation applies
It is prohibited for others than Norwegian nationals or companies as specified above to process, pack or tranship fish, crustaceans and mollusc or parts and products of these inside the fishing limits of the Norwegain Economic zone. This applies to catches from both Norwegian and foreign vessels. Exceptions are granted under special circumstances.
Real Estate Acquisition or leasing of secondary residences by non-residents is subject to a concession. Investment
Lotteries There are special rules for persons from the EEA Member States regarding the right to provide services related to lotteries in Norway. Trade in services
Debt collection Persons and companies performing professional debt collecting in Norway are obligated to have a permanent place of business in Norway and must have a special authorisation from the Norwegian government. Trade in services

VIÐAUKI O

Fyrirvarar af hálfu Sviss
(IX. kafli – Fjárfestingar og X. kafli – Þjónustuviðskipti)


    „Óbundið“ merkir að Sviss skuldbindur sig ekki að því er varðar tilgreint atriði.


Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
I.     LÁRÉTTIR FYRIRVARAR
Ekki skal litið svo á að skuldbindingar innan tiltekins sviðs leysi af hólmi skuldbindingar, sem gengist er undir að því er varðar annað svið, sem slík starfsemi kemur til viðbótar við eða tengist á annan hátt. CPC-númerin, sem tilgreind eru í hornklofum, vísa til Aðalvöruflokkunar Sameinuðu þjóðanna (Statistical Papers Series M nr. 77, Provisional Central Product Classification, Department of International Economics and Social Affairs, Statistical Office of the United Nations, New York, 1991).
Óbundið þegar um er að ræða einkavæðingu að því er varðar 24. og 30. gr. samningsins.
Óbundið þegar um er að ræða ráðstafanir sem gerðar eru af yfirvöldum kantóna og sveitarfélaga, þ.m.t. óopinberum stofnunum sem fara með umboð slíkra yfirvalda.
Öll svið Meirihluti stjórnarmanna „hlutafélags“ (société anonyme/Aktiengesellschaft eða société en commandite par actions/ Kommanditaktiengesellschaft) skal vera svissneskir ríkisborgarar búsettir í Sviss (að undanskildum eignarhaldsfélögum). Að minnsta kosti einn framkvæmdastjóri „hlutafélags með takmarkaða ábyrgð“ (société à responsabilité limitée/Gesellschaft mit beschränkter Haftung) skal vera búsettur í Sviss. Meirihluti framkvæmdastjóra „samvinnufélags“ (société coopérative/Genossenschaft) skulu vera svissneskir ríkisborgarar búsettir í Sviss. Hlutafélögum er ekki bannað að taka fram í stofnsamningum sínum að synja megi hluthöfum um skráningu í hluthafaskrá, m.a. ef alríkislög kveða á um tiltekna samsetningu hluthafa. Til að stofna megi útibú er krafist fulltrúa (einstaklings), með búsetu í Sviss, sem hefur fullt umboð til að koma fram fyrir hönd fyrirtækisins. Það hvort einstaklingar eða fyrirtæki geti stofnað til viðskiptanærveru án þess að vera lögpersóna samkvæmt svissneskum lögum (þ.e. í annarri mynd en sem „hlutafélag“, „hlutafélag með takmarkaða ábyrgð“ eða „samvinnufélag“) er háð því að viðskiptafélagi eða -félagar hafi varanlegt dvalarleyfi samkvæmt lögum kantónunnar.

Fjárfestingar


ANNEX O

Reservations by Switzerland
(Chapter IX – Investment and Chapter X – Trade in services)


    In the reservations section, the term “unbound” shall mean that Switzerland does not commit itself with respect to the specified item.

Sector or subsector Reservations Chapter to which reservation applies
I.    HORIZONTAL RESERVATIONS
The level of commitments in a particular sector shall not be construed to supersede the level of commitments taken with respect to any other sector to which such activity is an input or to which it is otherwise related. CPC numbers indicated in brackets are references to the UN Provisional Central Product Classification (Statistical Papers Series M No. 77, Provisional Central Product Classification, Department of International Economics and Social Affairs, Statistical Office of the United Nations, New York, 1991).
Unbound for privatisation as regards Articles 24 and 30 of the Convention.
Unbound for measures taken by cantonal and communal authorities including by non-governmental bodies in the exercise of powers delegated by such authorities.
All sectors The majority of the board of directors of a “joint stock company” (société anonyme/Aktiengesellschaft or société en commandite par actions/ Kommanditaktiengesellschaft) must be Swiss citizens with domicile in Switzerland (except for holding companies). At least one manager of a “corporation with limited liability” (société à responsabilité limitée/Gesellschaft mit beschränkter Haftung) must have his domicile in Switzerland. The administrators of a “co-operative society” (société coopérative/Genossenschaft) must be composed of a majority of Swiss citizens with domicile in Switzerland. Joint stock companies are not prohibited to foresee in their articles of incorporation that shareholders can be denied registration in the shareholder register, inter alia in case federal law requires a certain composition of shareholders. The establishment of a branch requires a representative (natural person) with domicile in Switzerland who is duly authorized by the company to fully represent it. The establishment of a commercial presence by natural persons or in the form of an enterprise without juridical personality according to Swiss law (i.e. in a form other than “joint stock company”, “cooperation with limited liability” or “co-operative society”) is subject to the requirement of a permanent residency permit of the associate(s) by cantonal law. Investment
Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
Fasteignakaup erlendra aðila, sem ekki eru með varanlega staðfestu í Sviss og fyrirtækja með höfuðstöðvar erlendis og/eða undir erlendri stjórn, er háð leyfi. Að því er varðar húsnæði til persónulegra nota (að undanskildum kaupum á leyfisbústöðum), til atvinnunota og viðskiptastarfsemi, er leyfi veitt gegn sönnun þar að lútandi. Hreinar fjárfestingar, fasteignaviðskipti, kaup á orlofsíbúðum og annarri aðstöðu en hótelum í atvinnuskyni (s.s. fjölbýlishúsum, búðum, íþróttasvæðum) og kaup á fasteignum til landbúnaðar er bönnuð.
Fjárfestingar
Óbundið að því er varðar styrki, skattaívilnanir og skattafslátt. Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
II.     FYRIRVARAR UM TILTEKIN SVIÐ
1.    VIÐSKIPTI OG SÉRHÆFÐ ÞJÓNUSTA
a)    Lögfræðiþjónusta, að undanskilinni ráðgjöf um lög heimalandsins og alþjóðalög Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
b)     Bókhaldsþjónusta og endurskoðun
-    Endurskoðun, að undanskilinni endurskoðun banka (hluti af CPC 86211) Að minnsta kosti einn einstaklingur sem sinnir endurskoðun fyrir hlutafélag (société anonyme/Aktiengesellschaft) eða société en commandite par actions/ Kommanditaktiengesellschaft skal hafa viðskiptanærveru í Sviss. Þjónustuviðskipti
-    Endurskoðun tengd bönkum Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
e)    Verkfræðiþjónusta (CPC 8672) Krafist er svissnesks ríkisfangs til eftirlitsstarfa á vegum hins opinbera (erlendir skoðunarmenn geta þó unnið á ábyrgð viðurkennds svissnesks skoðunarmanns). Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
h)    Læknis- og tannlæknaþjónusta (CPC 9312) Óbundið Fjárfestingar
i)    Dýraskurðlækningar (CPC 932) Óbundið Fjárfestingar
j)    Þjónusta ljósmæðra, hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara og bráðaliða
Óbundið. Engir fyrirvarar í 5 ár eftir gildistöku samningsins um breytingu á stofnsamningi Evrópsku fríverslunarsamtakanna frá 21. júní 2001. Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
D.    Fasteignaviðskipti Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
Sector or subsector Reservations Chapter to which reservation applies
The acquisition of real estate by foreigners who are not permanently established in Switzerland and by enterprises with headquarters abroad and/or under foreign control is subject to authorization. For the purpose of personal housing needs (except the acquisition of holiday residences), professional use and business activities, authorization is granted upon verification of the purpose. Prohibited are purely financial investments, real estate business operations, acquisition, on a professional basis, of holiday apartments and facilities other than hotels (e.g. apartment houses, camps, sport areas) and acquisition of agricultural real estate. Investment
Unbound for subsidies, tax incentives and tax credits. Trade in services and Investment
II.     SECTOR-SPECIFIC RESERVATIONS
1.    BUSINESS SERVICES
a)    Legal services, except consultancy on home country law and international law Unbound Trade in services and Investment
b)     Accounting, auditing and book-keeping services
-    Auditing services, excluding auditing of banks (part of CPC 86211) At least one person supplying auditing services to a joint stock company (société anonyme/Aktiengesellschaft) or a société en commandite par actions/Kommanditaktiengesellschaft must have a commercial presence in Switzerland. Trade in services
-    Auditing services related to banks Unbound Trade in services and Investment
e)    Engineering services (CPC 8672) Swiss nationality necessary for survey activities for official public purposes (however, foreign surveyors can work under the responsibility of a licensed Swiss surveyor). Trade in services and Investment
h)    Medical and dental services
    (CPC 9312)
Unbound Investment
i)    Veterinary surgeons
    (CPC 932)
Unbound Investment
j)    Services provided by midwives, nurses, physiotherapists and para-medical personnel Unbound. None 5 years after the entry into force of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association of 21 June 2001. Trade in services and Investment
D.    Real Estate Services Unbound Trade in services and Investment
Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
E.    Leiga á tækjum og vélum án stjórnanda
a)    Tengd skipum
-    Til sjóflutninga (hluti af CPC 83103)
Óbundið Þjónustuviðskipti
Til að skip megi sigla undir svissneskum fána skulu svissneskir ríkisborgarar eiga allt skipið (100%) og stjórna því að öllu leyti og verða 3/4 hlutar þeirra að hafa búsetu í Sviss. Fjárfestingar
Í stjórnum og framkvæmdastjórnum fyrirtækja, sem eiga skip sem sigla undir svissneskum fána, skulu eingöngu sitja svissneskir ríkisborgarar og skal meirihluti þeirra vera búsettur í Sviss. Fjárfestingar
-    Til flutninga á vatnaleiðum á Rín (hluti af CPC 83103)
Óbundið Þjónustuviðskipti
Til að skip megi sigla undir svissneskum fána skal skipið vera í eigu fyrirtækis sem einstaklingar, búsettir í Sviss eða í ríki í samræmi við Mannheim-samninginn og bókanir við hann, eiga veruleg ítök í (ráða yfir 66 af hundraði hlutafjár og atkvæðisréttar) Fjárfestingar
Siglingaréttindi, þar á meðal til gestaflutninga, takmarkast á grundvelli Mannheim-samningsins og bókana við hann; eigendur skipa skulu reka viðeigandi umsýsluskrifstofu í Sviss. Fjárfestingar
F.    Önnur viðskipti og sérhæfð þjónusta
j)    Þjónusta tengd orkudreifingu Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
k)    Vinnumiðlun og ráðningarþjónusta Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
l)    Eftirgrennslan og öryggisþjónusta Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
2.    PÓST- OG FJARSKIPTAÞJÓNUSTA
A.    Póstþjónusta Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
B.    Boðberaþjónusta Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
Sector or subsector Reservations Chapter to which reservation applies
E.    Rental/Leasing without Operators
a)    Relating to ships
-    For maritime transport services
    (part of CPC 83103)
Unbound Trade in services
In order to sail under Swiss flag, vessels must be 100 per cent owned and controlled by Swiss nationals, 3/4 of which having residency in Switzerland.
Investment
Board of directors and management of companies owning ships sailing under Swiss flag must be composed of Swiss nationals, the majority of which having residency in Switzerland. Investment
-    For internal waterways transport on the Rhine
    (part of CPC 83103)
Unbound Trade in services
In order to sail under Swiss flag, vessels must be owned by a company which is substantially influenced (66 per cent of capital and vote) by persons domiciled in Switzerland or in a State according to the Mannheim Convention and the protocols related to it. Investment
Traffic rights including cabotage are limited on the basis of the Mannheim Convention and the protocols related to it; owner of vessels must dispose of an appropriate managing agency in Switzerland. Investment
F.    Other Business Services
j)    Services incidental to energy distribution Unbound Trade in services and Investment
k)    Placement and supply services of personnel Unbound Trade in services and Investment
l)    Investigation and security Unbound Trade in services and Investment
2.     COMMUNICATION SERVICES
A.    Postal services Unbound Trade in services and Investment
B.    Courier Services Unbound Trade in services and Investment
Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
D.    Hljóð- og myndmiðlun Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
3.    BYGGINGARSTARFSEMI OG MANNVIRKJAGERÐ OG VERKFRÆÐIÞJÓNUSTA HENNI TENGD
C.    Uppsetning og samsetning
    (CPC 514 + 516)
Óbundið þegar um er að ræða uppsetningar á sviði orku, upphitunar, vatns, fjarskipta og lyfta. Fjárfestingar
4.    DREIFINGARÞJÓNUSTA
-    Þjónusta umboðsaðila og smásala á vörum sem eru háðar innflutningsleyfi, lyfjavörum, eiturefnum, sprengiefnum, vopnum og skotfærum og verðmætum málmum

Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
-    smásala í gegnum færanlega sölueiningu Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
5.     MENNTUN
-    Skyldunám (nám á grunnskóla- og framhaldsskólastigi I)
Óbundið Þjónustuviðskipti
6.    UMHVERFISÞJÓNUSTA 1
B.    Sorphreinsun
    (CPC 9402)
Óbundið að því er varðar sorphreinsun. Fjárfestingar
7.    FJÁRMÁLAÞJÓNUSTA
Sector or subsector Reservations Chapter to which reservation applies
D.    Audio-visual services Unbound Trade in services and Investment
3.    CONSTRUCTION AND RELATED ENGINEERING SERVICES

C.    Installation and Assembly Work
    (CPC 514 + 516)
Unbound for installations in the area of energy, heating, water, communications and elevators. Investment
4.    DISTRIBUTION SERVICES
-    Commission agents and retailing services related to goods subject to import authorisation, to pharmaceutical products, toxic, explosives, weapons and ammunition, and precious metals Unbound Trade in services and Investment
-    retailing services through mobile sales unit Unbound Trade in services and Investment
5.    EDUCATIONAL SERVICES
-    Compulsory education services
    (primary & secondary I)
Unbound Trade in services
6.     ENVIRONMENTAL SERVICES 1
B.    Refuse Disposal Services
    (CPC 9402)
Unbound for garbage dump. Investment
7.    FINANCIAL SERVICES
Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
    Skuldbindingar tengdar bankamálum, verðbréfum og vátryggingastarfsemi eru í samræmi við „samkomulag Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um skuldbindingar í fjármálaþjónustu“ (hér á eftir nefnt „samkomulagið“) og eru háðar takmörkunum og skilyrðum í I. hluta (láréttar skuldbindingar) og sem talin eru upp hér á eftir. Litið er svo á að málsgrein B.4 í „samkomulaginu“ feli ekki í sér skyldu til að leyfa aðilum sem veita fjármálaþjónustu, en ekki eru búsettir í landinu, að stofna til viðskipta.
    Vátryggingastarfsemi og tengd þjónusta Viðskipti sem tilgreind eru í málsgrein B.3 í samkomulaginu: í Sviss skal vera um viðskiptanærveru að ræða til að heimilt sé að selja ábyrgðartryggingu loftfara. Þjónustuviðskipti
Fasteignakaup erlendra aðila takmarkast eins og fram kemur í I. hluta. Þó fá erlend vátryggingafélög eða vátryggingafélög undir stjórn erlendra aðila leyfi til að fjárfesta í fasteignum svo framarlega sem heildarverðmæti eignar kaupanda er ekki hærra en tryggingasjóðurinn, sem krafist er vegna starfsemi fyrirtækisins í Sviss, og til að kaupa eignir sem tryggingu fyrir veðlánum ef kæmi til gjaldþrots eða félagsslita. Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
Viðskipti sem tilgreind eru í málsgrein B.4 í „samkomulaginu“: í Sviss skal vera um viðskiptanærveru að ræða til að heimilt sé að selja ábyrgðartryggingu loftfara. Þjónustuviðskipti
Umboðsskrifstofur geta ekki stýrt viðskiptum eða gegnt hlutverki umboðsaðila. Vátryggingafélög, skráð í Sviss, skulu vera hlutafélög (Aktiengesellschaft, société anonyme) eða gagnkvæmt félag (Genossenschaft, société cooperative). Þegar um er að ræða útibú erlendra vátryggingafélaga skal vátryggingafélagið í landinu, þar sem aðalskrifstofurnar eru, vera sambærilegt við svissneskt hlutafélag eða svissneskt, gagnkvæmt félag. Til að taka þátt í grunnsjúkratryggingakerfinu skulu þeir aðilar sem bjóða sjúkratryggingar vera einn af eftirtöldum lögaðilum: samband (Verein, association), gagnkvæmt félag, stofnun (Stiftung, fondation) eða hlutafélag.Til að taka þátt í lögboðna lífeyrissjóðskerfinu (Berufsvorsorge / prévoyance professionnelle) skulu lífeyrissjóðir vera stofnaðir sem gagnkvæmt félag eða stofnun.

Fjárfestingar
Krafist er þriggja ára lágmarksreynslu af frumtryggingastarfsemi í ríkinu þar sem aðalskrifstofurnar eru. Fjárfestingar
    Bankastarfsemi og önnur fjármálaþjónusta (að undanskilinni vátryggingastarfsemi) Einkaréttur, eins og tilgreint er í málsgrein B.1 í „samkomulaginu“: tvær veðlánastofnanir hafa einkarétt á útgáfu sérstakra veðskuldabréfa (Pfandbrief, lettre de gage). Einungis svissneskir kantónubankar eru samþykktir sem aðilar að fyrri stofnuninni. Bankar með aðalskrifstofu í Sviss, með innlend veðlánaviðskipti, sem nema a.m.k. 60 prósentum af efnahagsreikningi þeirra, geta orðið aðilar að seinni stofnuninni. Þessar reglur hafa ekki áhrif á útgáfu annarra fasteignatryggðra skuldabréfa.
Sector or subsector Reservations Chapter to which reservation applies
    Commitments on banking, securities and insurance services in accordance with the “GATS Understanding on Commitments in Financial Services” of the WTO (hereafter “Understanding”) and subject to limitations and conditions as contained in Part I (horizontal commitments) and as listed below. It is understood that paragraph B.4 of the “Understanding” does not impose any obligation to allow non-resident financial services suppliers to solicit business.
    Insurance and Insurance-Related Services Transactions as indicated in paragraph B.3 of the “Understanding”: the underwriting of aircraft liability insurance requires a commercial presence in Switzerland. Trade in services
Acquisition of real estate by foreigners is limited as indicated in Part I; however, foreign or foreign-controlled insurance companies are granted authorisation to invest in real estate, provided the total value of the buyer's property does not exceed the technical reserves required for the company's activities in Switzerland, as well as to acquire property that serves as a security for mortgage loans in case of bankruptcy or liquidation. Trade in services and Investment
Transactions as indicated in paragraph B.4 of the “Understanding”: the underwriting of aircraft liability insurance requires a commercial presence in Switzerland. Trade in services
Representative offices cannot conduct business or act as an agent; for insurance companies incorporated in Switzerland, the legal form of a joint-stock company (Aktiengesellschaft, société anonyme) or a mutual association (Genossenschaft, société cooperative) is required ; for branches of foreign insurance companies, the legal form of the insurance company in the head office State must be comparable to a Swiss joint-stock company or to a Swiss mutual association; participation in the basic health insurance scheme requires health insurance suppliers to be organized in one of the following legal entities: association (Verein, association), mutual association, foundation (Stiftung, fondation) or joint-stock company; participation in the statutory pension funds scheme (Berufsvorsorge / prévoyance professionnelle) requires pension funds to be organized in the form of a mutual association or a foundation. Investment
A minimum of three years of experience in the direct insurance business in the head office State is required. Investment
    Banking and Other Financial Services
    (excluding insurance)
Monopoly rights as indicated in paragraph B.1 of the “Understanding”: two mortgage bonds issuance institutes have been granted an exclusive right for the issuance of specific mortgage bonds (Pfandbrief, lettre de gage); with regard to the first institute only Swiss cantonal banks are accepted as members; in the case of the second institute banks with head office in Switzerland whose national mortgage loan business amounts to at least 60 per cent of the balance sheet can be members; the issue of other mortgage-backed bonds is not affected by this regulation.
Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
1 Erlenda fjárfestingasjóði má einungis markaðssetja með milligöngu viðurkennds fulltrúa með búsetu í Sviss. Einungis banka eða verðbréfasala með viðskiptanærveru (að undanskildum umboðsskrifstofum) í Sviss er heimilt að hafa umsjón með verðbréfaútgáfu í svissneskum frönkum.
Þjónustuviðskipti
Fasteignakaup erlendra aðila takmarkast eins og fram kemur í I. hluta. Þó fá erlendir bankar eða bankar, undir stjórn erlendra aðila, leyfi til að kaupa eignir sem tryggingu fyrir veðlánum ef kæmi til gjaldþrots eða félagaslita. Stimpilgjald er lagt á útgáfu sameiginlegra erlendra söfnunarsjóða.
Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
Einungis banka eða verðbréfasala með viðskiptanærveru (að undanskildum umboðsskrifstofum) í Sviss er heimilt að hafa umsjón með verðbréfaútgáfu í svissneskum frönkum. Þjónustuviðskipti
Viðskiptanærvera erlendra aðila sem veita fjármálaþjónustu er háð sérstökum kröfum sem tengjast nafni fyrirtækisins og reglum um fjármálastofnanir í heimaríkinu. Synja má um viðskiptanærveru þeim aðilum sem veita fjármálaþjónustu þar sem eiginlegir hluthafar og/eða eiginlegir eigendur eru frá ríki sem ekki er aðili að GATS-samkomulaginu. Umboðsskrifstofur geta ekki átt eða stýrt viðskiptum eða gegnt hlutverki umboðsaðila. Fjárfestingar
8.    HEILBRIGÐIS- OG FÉLAGSÞJÓNUSTA Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
9.    FERÐAÞJÓNUSTA OG TENGD ÞJÓNUSTA
A.    Hótel og veitingahús
    (CPC 641–643)
Ákvæði alríkislaga heimila kantónum að veita leyfi fyrir veitingahúsum á grundvelli efnahagslegra forsendna (mat á efnahagslegum forsendum byggist á forsendum eins og íbúafjölda, þéttbýlisstigi, gerð hverfa, aðdráttarafli fyrir ferðamenn og fjölda veitingahúsa sem fyrir eru). Fjárfestingar
-    Matsöluþjónusta Óbundið Þjónustuviðskipti
10.    TÓMSTUNDA-, MENNINGAR- OG ÍÞRÓTTASTARFSEMI (annað en hljóð- og myndmiðlun)
A.    Menningar- og skemmtistarfsemi Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
Sector or subsector Reservations Chapter to which reservation applies
1 Foreign investment funds can only be marketed or distributed through a licensed representative agent resident in Switzerland; Swiss franc denominated issues can be lead-managed only by a bank or a securities dealer having a commercial presence (except representative office) in Switzerland. Trade in services
Acquisition of real estate by foreigners is limited as indicated in Part I; however, foreign or foreign-controlled banks are granted authorisation to acquire property that serves as a security for mortgage loans in case of bankruptcy or liquidation; the issue of foreign collective investment funds is subject to stamp duty. Trade in services and Investment

Swiss franc denominated issues can be lead-managed only by a bank or a securities dealer having a commercial presence (except representative office) in Switzerland. Trade in services
Commercial presence of foreign financial service suppliers is subject to specific requirements relating to the name of firm and the regulations on financial institutions in the State of origin; commercial presence may be denied to financial service suppliers whose ultimate shareholders and/or beneficial owners are persons of a non-GATS Member; representative offices can neither conclude or deal business nor act as an agent. Investment
8.    HEALTH RELATED AND SOCIAL SERVICES Unbound Trade in services and Investment
9.    TOURISM AND TRAVEL RELATED SERVICES
    Hotels and Restaurants
    (CPC 641 – 643)
Federal law enables cantons to grant licence for restaurants based on economic needs (assessment of economic needs is based on criteria such as population, degree of built-up area, type of neighbourhood, touristical interests, number of existing restaurants. Investment
-     Catering Unbound Trade in Services
10.    RECREATIONAL, CULTURAL AND SPORTING SERVICES (other than audio-visual services)
A.    Entertainment services Unbound Trade in services and Investment
Svið eða undirsvið Fyrirvarar Kafli sem fyrirvarar gilda um
C.    Starfsemi bókasafna, skjalasafna og annarra safna og önnur menningarstarfsemi Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
11.    FLUTNINGAR
A.    Sjóflutningar Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
B.    Flutningar á vatnaleiðum Óbundið Þjónustuviðskipti
    Flutningar á vatnaleiðum á Rín:

Til að skip megi sigla undir svissneskum fána skal skipið vera í eigu fyrirtækis sem einstaklingar, búsettir í Sviss eða ríki í samræmi við Mannheim-samninginn og bókanir við hann, eiga veruleg ítök í (ráða yfir 66 af hundraði hlutafjár og atkvæðisréttar). Fjárfestingar
-    Farm- og farþegaflutningar (hluti af CPC 7221 og hluti af 7222) Siglingaréttindi, þar á meðal til gestaflutninga, takmarkast á grundvelli Mannheim-samningsins og bókana við hann; eigendur skipa skulu reka viðeigandi umsýsluskrifstofu í Sviss.
-    Leiga á skipum með áhöfn (hluti af CPC 7223) Til að skip megi sigla undir svissneskum fána skal skipið vera í eigu fyrirtækis sem einstaklingar, búsettir í Sviss eða ríki í samræmi við Mannheim-samninginn og bókanir við hann, eiga veruleg ítök í (ráða yfir 66 af hundraði hlutafjár og atkvæðisréttar). Fjárfestingar
Siglingaréttindi, þar á meðal til gestaflutninga, takmarkast á grundvelli Mannheim-samningsins og bókana við hann; eigendur skipa skulu reka viðeigandi umsýsluskrifstofu í Sviss. Fjárfestingar
D.    Geimferðir
    (CPC 733)
Óbundið Fjárfestingar
G.    Flutningur eftir leiðslum Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar
12.    FRAMLEIÐSLA OG DREIFING ORKU;

        UPPSETNING BÚNAÐAR INNAN ORKUGEIRANS
Óbundið Þjónustuviðskipti og fjárfestingar

Sector or subsector Reservations Chapter to which reservation applies
C.    Libraries, archives, museums and other cultural services
Unbound Trade in services and Investment
11.    TRANSPORT SERVICES
A.    Maritime Transport Services Unbound Trade in services and Investment
B.    Internal Waterways Transport Unbound Trade in services
    Internal Waterways Transport on the Rhine: In order to sail under Swiss flag, vessels must be owned by a company which is substantially influenced (66 per cent of capital and vote) by persons domiciled in Switzerland or in a State according to the Mannheim Convention and the protocols related to it. Investment
-    Passenger and freight transportation
    (part of CPC 7221 and part of 7222)
Traffic rights including cabotage are limited on the basis of the Mannheim Convention and the protocols related to it; owner of vessels must dispose of an appropriate managing agency in Switzerland.
-    Rental of vessels with crew
    (part of CPC 7223)
In order to sail under Swiss flag, vessels must be owned by a company which is substantially influenced (66 per cent of capital and vote) by persons domiciled in Switzerland or in a State according to the Mannheim Convention and the protocols related to it. Investment
Traffic rights including cabotage are limited on the basis of the Mannheim Convention and the protocols related to it; owner of vessels must dispose of an appropriate managing agency in Switzerland. Investment
D.    Space Transport
    (CPC 733)
Unbound Investment
G.    Pipeline Transport Unbound Trade in services and Investment
12.    ENERGY PRODUCTION AND DISTRIBUTION;

        INSTALLATION OF EQUIPMENT IN THE ENERGY SECTOR
Unbound Trade in services and Investment

VIÐAUKI P

Flutningar á landi (35. gr.)

I. BÁLKUR – ALMENN ÁKVÆÐI


1. gr.
Meginreglur og markmið

1.     Viðauki þessi miðar að því að gefa frjálsan aðgang aðildarríkjanna að flutningsmörkuðum hjá hvert öðru fyrir farþega- og vöruflutninga á vegum og járnbrautum með þeim hætti að tryggð sé skilvirk stýring umferðar með því að nota leiðir sem, í tæknilegu, landfræðilegu og efnahagslegu tilliti, henta best öllum flutningsmáta sem fellur undir þennan viðauka.
2.     Ákvæði þessa viðauka og beiting þeirra byggjast á meginreglunni um gagnkvæmni, meginreglunni um yfirráðasvæði, meginreglunni um gagnsæi og frelsi til að velja flutningsmáta.
3.     Aðildarríkin skuldbinda sig til að gera engar ráðstafanir sem fela í sér mismunun við beitingu á ákvæðum þessa viðauka.
4.     Beiting á ákvæðum þessa viðauka, innan þeirra marka sem valdsvið aðildarríkis einskorðast við, er byggð samtímis á meginreglum og markmiðum um sjálfbæran hreyfanleika og samstillta flutningsstefnu í Alpahéruðunum, sem komið var á með 4. kafla samningsins um landflutninga milli Sviss og Evrópubandalagsins frá 21. júní 1999 (hér á eftir nefndur „samningur Sviss og Evrópubandalagsins“).

2. gr.
Gildissvið

1.     Viðauki þessi gildir um tvíátta flutninga á vörum og farþegum á vegum milli aðildarríkjanna, gegnumferð á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, með fyrirvara um 3. mgr. 7. gr., og farþega- og vöruflutninga á vegum á þríhliða grundvelli.

2.     Viðauki þessi gildir um millilandaflutninga á farþegum og vörum á járnbrautum og um samsetta millilandaflutninga. Hann gildir ekki um járnbrautarfyrirtæki ef starfsemi þeirra takmarkast við þjónustu í borgum, útborgum eða héraði.
3.     Viðauki þessi gildir um flutningastarfsemi fyrirtækja sem stunda flutninga á vegum eða járnbrautarfyrirtækja sem hafa staðfestu á yfirráðasvæði eins af aðildarríkjunum.

3. gr.
Skilgreiningar

1.     Flutningar á vegum
    Að því er þennan viðauka varðar merkir:
–    „starfsgrein farmflytjenda á vegum“: starfsemi fyrirtækis sem flytur vörur gegn þóknun eða gjaldi annaðhvort með vélknúnu ökutæki eða samtengdum ökutækjum;
–    „starfsgrein aðila sem stunda farþegaflutninga á vegum“: starfsemi fyrirtækis sem, gegn þóknun eða gjaldi, stundar millilandaflutninga á farþegum með hópbifreiðum;
–    „fyrirtæki“: einstakling eða lögpersónu, hvort sem viðskiptin eru stunduð í ábataskyni eða ekki, samtök eða hóp fólks án réttarstöðu lögaðila, hvort sem viðskiptin eru stunduð í ábataskyni eða ekki, eða opinbera stofnun sem hefur hvort heldur sem er réttarstöðu lögaðila eða heyrir undir yfirvald sem hefur slíka réttarstöðu;
–    „ökutæki“: vélknúið ökutæki eða samtengd ökutæki, þar sem að minnsta kosti dráttartækið er skráð á yfirráðasvæði aðildarríkis, eingöngu notað til vöruflutninga, eða ökutæki sem eru byggð og útbúin til þess að flytja fleiri en níu manns, að meðtöldum bílstjóra, og eru til þess ætluð;



–    „millilandaflutningar“: akstur ökutækis frá yfirráðasvæði eins aðildarríkis til yfirráðasvæðis annars aðildarríkis eða þriðja ríkis og öfugt og flutningur ökutækis án farms í tengslum við slíkan akstur. Sé brottfararstaðurinn eða ákvörðunarstaðurinn í þriðja ríki verður að nota ökutæki sem er skráð á yfirráðasvæði aðildarríkis þar sem brottfarar- eða ákvörðunarstaðurinn er;




–    „umflutningur“: vöru- eða farþegaflutninga (með fermingu eða affermingu) og ferð ökutækis án farms um yfirráðasvæði aðildarríkis;

–    „þríhliða flutningastarfsemi er tekur til þriðju ríkja“: alla farþega- eða vöruflutninga frá yfirráðasvæði eins aðildarríkis til þriðja ríkis og öfugt með ökutæki sem er skráð á yfirráðasvæði annars aðildarríkis, hvort sem ökutækinu er ekið eða ekki ekið, í sömu ferð og eftir venjulegri akstursleið, um ríkið þar sem það er skráð;

–    „heimild“: heimild, leyfi eða sérleyfi sem krafist er samkvæmt löggjöf viðkomandi aðildarríkis.

2.     Flutningur á járnbrautum
    Að því er þennan viðauka varðar merkir:
–    „járnbrautarfyrirtæki“: einkarekið eða opinbert fyrirtæki sem hefur aðalstarfsemi sína á sviði járnbrautarflutninga á vörum og/eða farþegum og er skuldbundið til að leggja til dráttaraflið;

–    „samtök milli landa“: samtök að minnsta kosti tveggja járnbrautarfyrirtækja með staðfestu í mismunandi aðildarríkjum, og er Sviss annað þeirra, sem annast flutningaþjónustu milli aðildarríkja;

–    „mannvirkjastjórn“: opinber stofnun eða fyrirtæki sem sér einkum um að koma upp og viðhalda járnbrautarmannvirkjum og annast einnig eftirlit og öryggiskerfi;

–    „leyfi“: heimild útgefin af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki til handa fyrirtæki þar sem staða þess sem járnbrautarfyrirtækis er viðurkennd. Takmarka má þessa stöðu við veitingu sérhæfðrar tegundar flutningaþjónustu;

–    „leyfisyfirvald“: aðila sem aðildarríki veitir umboð til að gefa út leyfi;
–    „lestarleið“: mannvirkjaaðstöðu sem þarf að vera fyrir hendi svo að lest geti gengið milli tveggja staða á tilteknum tíma;
–    „úthlutun“: úthlutun aðstöðu við járnbrautarmannvirki af hálfu úthlutunaraðila;
–    „úthlutunaraðili“: yfirvald og/eða mannvirkjastjórn sem aðildarríkin tilnefna til að úthluta aðstöðu við mannvirki;
–    „flutningar í borgum og útborgum“: flutninga sem eru starfræktir til að mæta þörfum borga eða borgarhluta og/eða flutningaþörfinni milli þessara borga eða borgarhluta og nærliggjandi svæða;
–    „innanhéraðsflutningar“: flutninga sem eru starfræktir til að mæta flutningaþörf í héraði;
–    „samsettir flutningar“: vöruflutninga með þungaflutningabifreiðum eða hleðslueiningum sem fara hluta af leiðinni með járnbraut en hefja og ljúka henni á vegum.

4. gr.
Fyrirliggjandi tvíhliða samningar

1.     Með fyrirvara um undanþágur, sem eru teknar upp samkvæmt þessum viðauka, skulu ákvæði þessa viðauka ekki hafa áhrif á réttindi og skyldur aðildarríkjanna sem eiga rætur að rekja til tvíhliða samninga milli þeirra.
2.     Að því er varðar Liechtenstein og Sviss skulu fyrirliggjandi tvíhliða samningar milli aðildarríkjanna tveggja, sem eru tilgreindir í 9. viðbæti, vera mikilvægari að því er varðar millilandaflutninga, gestaflutninga, umflutninga og þríhliða flutninga.
3.     Samningarnir, sem um getur í 1. mgr., eru tilgreindir í 9. viðbæti við þennan viðauka.

II. BÁLKUR – MILLILANDAFLUTNINGAR Á VEGUM

A. ALMENN ÁKVÆÐI

5. gr.
Aðgangur að starfsgreininni

1.     Fyrirtæki sem vilja starfa sem atvinnumenn í flutningum skulu standast kröfur um eftirfarandi:

a)     góðan orðstír;
b)     góða fjárhagsstöðu;
c)     starfshæfni.
2.     Ákvæðin, sem gilda á þessu sviði, eru sett fram í 1. þætti 1. viðbætis.

6. gr.
Félagslegir staðlar

    Ákvæðin um félagsmál, sem gilda á þessu sviði, eru sett fram í 2. þætti 1. viðbætis.

7. gr.
Tæknistaðlar

1.     Ákvæðin um tæknistaðla, sem gilda á þessu sviði, eru sett fram í 3. þætti 1. viðbætis.
2.     Sérhvert aðildarríki skuldbindur sig til að láta ekki strangari skilyrði en þau sem eru í gildi á yfirráðasvæði þess gilda um ökutæki sem eru viðurkennd á yfirráðasvæði annars aðildarríkis.
3.     Með hliðsjón af meginreglunni um bann við mismunun, meðalhófsreglunni, meginreglunni um yfirráðasvæði og meginreglunni um gagnsæi skulu aðildarríkin beita gagnvart ökutækjum frá öðrum aðildarríkjum, á sama hátt og gagnvart eigin ökutækjum, sömu reglum um þungatakmarkanir, vegagjöld og, ef við á, bann við akstri á sunnudögum og að nóttu til.
4.     Undanþágur frá svissneskum reglum um þungatakmarkanir og frá banni við akstri að nóttu til og á sunnudögum eru tilgreindar í 6. viðbæti.

8. gr.
Bráðabirgðafyrirkomulag um þyngd ökutækja


1.     Vöruflutningar með ökutæki, sé raunveruleg heildarþyngd þess með hleðslu yfir 34 tonnum (milli 1. janúar 2001 og 31. desember 2004) en ekki yfir 40 tonnum, frá brottfararstað í öðru aðildarríki á ákvörðunarstað handan svissnesks svæðis í grennd við landamærin, sem eru skilgreind í 10. viðbæti, (og öfugt) eða í umflutningi um Sviss skulu falla undir kvóta, byggðum á greiðslu viðbótargjalds fyrir að nota grunnvirki, í samræmi við þá málsmeðferð sem sett er fram í 2 . og 3. mgr. hér á eftir.

2.     Ísland fær kvóta sem er fjögur leyfi, Liechtenstein kvóta sem er 4000 leyfi og Noregur kvóta sem er 900 leyfi á árinu 2001 og árinu 2002.

3.     Ísland fær kvóta sem er sjö leyfi, Liechtenstein kvóta sem er 5000 leyfi og Noregur kvóta sem er 1200 leyfi á árinu 2003 og árinu 2004.

4.     Notkun leyfa, sem kveðið er á um í 2. og 3. mgr., fyrir hvern flutningsaðila skal fara eftir greiðslu gjalds fyrir að nota svissnesk grunnvirki, sem er reiknaður út og lagður á í samræmi við málsmeðferð sem mælt er fyrir um í 2. viðbæti.

5.     Frá og með 1. janúar 2005 skulu ökutæki, sem standast kröfur samkvæmt svissneskri löggjöf um hæstu leyfilegu þungatakmarkanir á ökutækjum í millilandaakstri, vera undanþegin öllu kvóta- eða leyfisfyrirkomulagi.

B. VÖRUFLUTNINGAR Á VEGUM MILLI LANDA

9. gr.
Vöruflutningar milli yfirráðasvæða aðildarríkjanna

1.     Vöruflutningar á vegum milli landa gegn þóknun eða gjaldi sem og akstur án farms milli yfirráðasvæða aðildarríkjanna skal eiga sér stað samkvæmt heimild flutningafyrirtækis, sett fram í reglugerð (EBE) nr. 881/92 sem er felld inn í EES-samninginn og samning Sviss og Evrópubandalagsins, en fyrirmyndina er að finna í 3. viðbæti, og áþekkri svissneskri heimild svissneskra flutningafyrirtækja.
2.     Flutningastarfsemin, sem um getur í 4. viðbæti, skal vera undanþegin öllum heimildum flutningafyrirtækja og leyfisveitingakerfum.
3.     Málsmeðferð við útgáfu, endurnýjun og afturköllun leyfa og málsmeðferð við gagnkvæma aðstoð skal falla undir ákvæði reglugerðar (EBE) nr. 881/92, sem er felld inn í EES-samninginn og samning Sviss og Evrópubandalagsins, og jafngild svissnesk ákvæði.

10. gr.
Flutningur á vörum í umflutningi um yfirráðasvæði aðildarríkjanna

1.     Reglur um vöruflutninga milli landa gegn þóknun eða gjaldi, sem og um ferð ökutækis án farms í umflutningi um yfirráðasvæði aðildarríkjanna, skulu afnumdar. Þessi flutningastarfsemi skal fara fram samkvæmt leyfunum sem um getur í 9. gr.

2.     Ákvæði 2. og 3. mgr. 9. gr. skulu gilda.

11. gr.
Þríhliða flutningastarfsemi er tekur til þriðju ríkja


1.     Fyrirkomulag á þríhliða flutningastarfsemi er tekur til þriðju ríkja skal ákvarða með sameiginlegu samkomulagi við nauðsynlegra samningagerð hlutaðeigandi aðildarríkis og hlutaðeigandi þriðja ríkis. Tilgangurinn með þessum samningum er að tryggja gagnkvæma meðferð flutningsaðila frá aðildarríkjunum að því er varðar þríhliða flutninga.

2.     Uns gerðir hafa verið samningar milli hlutaðeigandi aðildarríkja og hlutaðeigandi þriðju ríkja skal viðaukinn ekki hafa áhrif á ákvæði um þríhliða flutninga sem eru sett í tvíhliða samningum milli aðildarríkjanna varðandi flutninga er taka til þriðju ríkja. Þessi réttindi eru tilgreind í 5. viðbæti við þennan viðauka.

12. gr.
Flutningar milli tveggja staða á yfirráðasvæði
eins aðildarríkis

    Flutningar milli tveggja staða á yfirráðasvæði eins aðildarríkis með ökutæki sem er skráð í öðru aðildarríki er ekki heimilaður samkvæmt þessum viðauka.

C. MILLILANDAFLUTNINGAR Á FARÞEGUM MEÐ HÓPBIFREIÐUM

13. gr.
Skilyrði sem gilda um flutningafyrirtæki

1.     Flutningafyrirtækjum, sem starfa gegn þóknun eða gjaldi, er heimilt að starfrækja þá flutningaþjónustu sem er skilgreind í 1. gr. 7. viðbætis, án mismununar á grundvelli ríkisfangs eða staðfestu ef þau:
–    fá leyfi í ríkinu þar sem þau hafa staðfestu til að starfrækja flutninga með hópbifreiðum í formi reglubundinnar þjónustu, að meðtalinni sérstakri reglubundinni þjónustu eða óreglubundinni þjónustu;
–    standast lagakröfur um öryggi á vegum að því er varðar staðla sem gilda um ökumenn og ökutæki.

2.     Flutningafyrirtækjum, sem starfa í eigin þágu, er heimilt að starfrækja þá flutningaþjónustu sem er skilgreind í 3. mgr. 1. gr. 7. viðbætis, án mismununar á grundvelli ríkisfangs eða staðfestu ef þau:
–    fá leyfi í ríkinu þar sem þau hafa staðfestu til að starfrækja flutninga með hópbifreiðum samkvæmt skilyrðum um aðgang að markaðinum sem mælt er fyrir um í landslögum;
–    standast lagakröfur um öryggi á vegum að því er varðar staðla sem gilda um ökumenn og ökutæki.

3.     Flutningafyrirtækjum, sem uppfylla skilyrðin sem eru sett fram í 1. mgr., er heimilt að stunda farþegaflutninga milli landa með hópbifreiðum ef þau hafa tilskilið leyfi. Fyrirmyndin að slíku leyfi og málsmeðferð sem er beitt til að fá, nota og endurnýja þau skal vera eins og mælt er fyrir um í reglugerð (EBE) nr.. 684/92, eins og henni var breytt með reglugerð (EBE) nr. 11/98, sem er felld inn í EES-samninginn og samning Sviss og Evrópubandalagsins, og jafngild svissnesk ákvæði.

14. gr.
Aðgangur að markaðinum

1.     Leyfi er ekki skilyrði fyrir óreglubundinni þjónustu, sem um getur í lið 2.1 í 1. gr. 7. viðbætis.

2.     Leyfi er ekki skilyrði fyrir sérstakri reglubundinni þjónustu, sem er skilgreind í lið 1.2 í 1. gr. 7. viðbætis ef hún fellur undir samning, á yfirráðasvæði annarra aðildarríkja en Sviss, milli skipuleggjandans og flutningafyrirtækisins.
3.     Leyfi er heldur ekki skilyrði fyrir akstri án farms í tengslum við flutningastarfsemi sem um getur í 1. og 2. mgr.
4.     Í samræmi við greinar 2ff í 7. viðbæti er leyfi skilyrði fyrir reglubundinni þjónustu.
5.     Í samræmi við greinar 2ff í 7. viðbæti er leyfi skilyrði fyrir sérstakri reglubundinni þjónustu ef hún fellur ekki, á yfirráðasvæði annarra aðildarríkja en Sviss, undir samning milli skipuleggjandans og flutningafyrirtækisins. Í Sviss er leyfi ekki skilyrði fyrir slíkri þjónustu.

6.     Leyfi er ekki skilyrði fyrir flutningum á vegum í eigin þágu sem eru skilgreindir í 3. lið 1. gr.


15. gr.
Þríhliða flutningastarfsemi er tekur til þriðju ríkja

1.     Fyrirkomulag á þríhliða flutningastarfsemi er tekur til þriðju ríkja skal ákvarðað með sameiginlegu samkomulagi við nauðsynlegra samningagerð hlutaðeigandi aðildarríkis og hlutaðeigandi þriðja ríkis. Tilgangurinn með þessum samningum er að tryggja gagnkvæma meðferð flutningsaðila frá aðildarríkjunum að því er varðar þríhliða flutninga.

2.     Uns gerðir hafa verið samningar milli hlutaðeigandi aðildarríkja og hlutaðeigandi þriðju ríkja skal viðaukinn ekki hafa áhrif á ákvæði um flutninga sem eru sett í tvíhliða samningum milli aðildarríkjanna varðandi flutninga er taka til þriðju ríkja. Þessi réttindi eru tilgreind í 8. viðbæti við þennan viðauka.

16. gr.
Flutningar milli tveggja staða á yfirráðasvæði
eins aðildarríkis

1.     Flutningar milli tveggja staða á yfirráðasvæði eins aðildarríkis á vegum flutningafyrirtækis með staðfestu á yfirráðasvæði í öðru aðildarríki er ekki heimilaður samkvæmt viðaukanum.
2.     Þó er áfram leyfilegt að neyta réttinda samkvæmt tvíhliða samningum sem eru í gildi milli aðildarríkja, að því tilskildu að jafnræði sé milli flutningafyrirtækja og engin röskun á samkeppni. Réttindi þessi eru tilgreind í 8. viðbæti við viðaukann.


17. gr.
Málsmeðferð

    Málsmeðferð við útgáfu, notkun, endurnýjun og gildislok leyfa og málsmeðferð við gagnkvæma aðstoð fellur undir ákvæði 7. viðbætis við viðaukann.


18. gr.
Bráðabirgðaákvæði

    Leyfi fyrir þjónustu sem er starfrækt við gildistöku þessa viðauka skulu gilda áfram uns þau falla úr gildi, að því marki sem þjónustan heldur áfram að vera leyfisbundin.


III. BÁLKUR – MILLILANDAFLUTNINGAR MEÐ JÁRNBRAUTUM

19. gr.
Sjálfstæði í rekstri

    Aðildarríkin skuldbinda sig:
–    til að ábyrgjast sjálfstæði í rekstri járnbrautarfyrirtækja, einkum með því að sjá til þess að þau hafi óháða stöðu, og gera þeim kleift að laga starfsemi sína að markaðinum og reka starfsemina á ábyrgð rekstraraðila;

–    til að aðgreina rekstur járnbrautarmannvirkja frá járnbrautarþjónustunni, að minnsta kosti í bókhaldi. Aðstoð sem veitt annarri af þessum tveimur greinum starfseminnar er veitt í formi greiðslna má ekki flytja yfir á hina.

20. gr.
Réttur til aðgangs og umflutninga með tilliti til járnbrautarmannvirkja

1.     Járnbrautarfyrirtæki og samtök milli landa skulu hafa rétt til aðgangs og/eða umflutninga, eins og skilgreint er í löggjöf bandalagsins sem um getur í 4. þætti 1. viðbæti og felld er inn í EES-samninginn og samning Sviss og Evrópubandalagsins.
2.     Járnbrautarfyrirtæki sem hafa staðfestu á yfirráðasvæði eins aðildarríkis skulu fá rétt til aðgangs að mannvirkjum á yfirráðasvæði annarra aðildarríkja með það fyrir augum að starfrækja samsetta flutninga milli landa.
3.     Járnbrautarfyrirtæki og samtök milli landa, sem nýta rétt sinn til aðgangs eða umflutninga, skulu gera alla nauðsynlega samninga, stjórnunarlega, tæknilega og fjárhagslega, við stjórn járnbrautarmannvirkja sem notuð eru til að stjórna umferðareftirliti og öryggismálum vegna millilandaþjónustunnar sem um getur í 1. og 2. málsgrein.


21. gr.
Rekstrarleyfi járnbrautarfyrirtækja

1.     Viðeigandi leyfisveiting vegna viðkomandi járnbrautarþjónustu skal vera forsenda fyrir beiðni um aðgang eða umflutning sem tekur til járnbrautarmannvirkis, og þar með rétti til að stunda flutningaþjónustu. Samt sem áður skal líkt leyfi í sjálfu sér ekki veita rétt til aðgangs að járnbrautarmannvirkinu.
2.     Járnbrautarfyrirtæki skal eiga rétt á að sækja um leyfi í því aðildarríki sem það hefur staðfestu. Aðildarríkin mega hvorki gefa út leyfi né framlengja gildistíma þeirra ef kröfum þessa viðauka er ekki fullnægt.
3.     Leyfin skulu gefin út, á ábyrgð aðildarríkjanna, af yfirvaldi sem ber ábyrgð á leyfum fyrirtækja sem þegar eru til og nýrra fyrirtækja.

4.     Leyfin skulu viðurkennd í aðildarríkjunum á gagnkvæmnisgrundvelli.
5.     Þau skulu fullnægja kröfum aðildarríkjanna um góðan orðstír, góða fjárhagsstöðu, starfshæfni og tryggingu fyrir hugsanlegri skaðabótaábyrgð á gildistímanum. Ákvæðin sem gilda á þessu sviði eru sett fram í 4. þætti 1. viðbætis.

6.     Leyfi er í gildi á meðan járnbrautarfyrirtæki stendur við skuldbindingar sínar samkvæmt áðurnefndum ákvæðum. Samt sem áður getur þar til bært yfirvald farið fram á endurskoðun leyfa með reglulegu millibili.
7.     Málsmeðferð við skoðun, breytingu, frestun eða afturköllun leyfis skal heyra undir áðurnefnd lagaákvæði.

22. gr.
Útgáfa öryggisskírteinis

1.     Aðildarríkin skulu enn fremur skylda járnbrautarfyrirtæki til að leggja fram öryggisskírteini, þar sem settar eru fram öryggiskröfur sem þeim er skylt að hlíta, með því markmiði að tryggja öryggi þjónustunnar á viðkomandi leiðum.
2.     Járnbrautarfyrirtæki getur sótt um öryggisskírteini hjá aðila sem er tilnefndur í tilteknu aðildarríki ef mannvirkið, sem fyrirtækið notar, er á yfirráðasvæði þess ríkis.
3.     Til að fá öryggisskírteinið verður járnbrautarfyrirtækið að fara að lögum aðildarríkis að því er varðar þann hluta leiðarinnar sem er á yfirráðasvæði þess aðildarríkis.

23. gr.
Úthlutun lestarleiða

1.     Sérhvert aðildarríki skal tilnefna aðila sem ber ábyrgð á að úthluta aðstöðu, annaðhvort sérstakt yfirvald eða mannvirkjastjórnina. Úthlutunaraðili, sem á að þekkja allar lestarleiðir sem völ er á, skal einkum tryggja að:
–    aðstöðu við járnbrautarmannvirki sé úthlutað með sanngjörnum hætti og á jafnræðisgrundvelli og að,
–    málsmeðferðin við úthlutun geri kleift að nýta mannvirkin með sem hagkvæmustum hætti, samanber þó 4. og 5. gr.
2.     Járnbrautarfyrirtæki eða samtök milli landa, sem sækja um eina eða fleiri lestarleiðir, skulu leggja fram umsókn hjá úthlutunaraðila aðildarríkis á því yfirráðasvæði þar sem brottfararstaður þjónustunnar er. Úthlutunaraðili, sem fengið hefur umsókn um aðstöðu við járnbrautarmannvirki í hendur, skal þegar tilkynna það samsvarandi aðilum. Þeir síðarnefndu skulu taka afstöðu til hennar eigi síðar en einum mánuði eftir að tilskildar upplýsingar hafa verði lagðar fram. Úthlutunaraðilar hafa rétt til að synja umsókn. Úthlutunaraðili sem umsókn hefur verið lögð fram hjá skal, ásamt samsvarandi aðilum, taka afstöðu til umsóknarinnar eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að tilskildar upplýsingar hafa verið lagðar fram. Málsmeðferð, vegna umsókna um aðstöðu við járnbrautarmannvirki, er að finna í ákvæðum sem sett eru fram í 4. þætti 1. viðbætis.


3.     Aðildarríkin mega gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að eftirtalin járnbrautarþjónusta hafi forgang við úthlutun aðstöðu við járnbrautarmannvirki:
a)     þjónusta sem veitt er í þágu almennings;
b)    mannvirki sem eru byggð eða löguð að þessari þjónustu (til dæmis sérhæfðar háhraðalínur eða flutningalínur).

4.     Aðildarríkjunum er heimilt, enda felist ekki í því mismunun, að beina því til úthlutunaraðilans að veita sérstök réttindi við úthlutun aðgangs að mannvirkjum til handa járnbrautarfyrirtækjum sem starfrækja tiltekna þjónustu, eða veita hana á tilteknum svæðum, ef slík réttindi eru nauðsynleg forsenda þess að unnt sé að tryggja fullnægjandi opinbera þjónustu eða skilvika nýtingu á afkastagetu mannvirkisins eða til að greiða fyrir fjármögnun nýrra mannvirkja.
5.     Aðildarríkin mega kveða á um að með umsókn um aðgang að aðstöðu við mannvirki sé lagt fram tryggingarfé eða sambærileg trygging.
6.     Aðildarríkin skulu semja og birta málsmeðferðarreglur um úthlutun aðstöðu við járnbrautarmannvirki. Þau skulu tilkynna nefndinni, sem um getur í 29. gr., um það.

24. gr.
Reikningar og afnotagjald

1.     Reikningar mannvirkjastjórnar skulu stemma, að minnsta kosti á hæfilega löngu tímabili, hvað varðar tekjur af þessum gjöldum og framlag ríkisins annars vegar og hvað varðar útgjöld við mannvirki hins vegar.

2.     Mannvirkjastjórn skal innheimta gjald fyrir afnot af þeim járnbrautarmannvirkjum sem undir hana heyra, sem greiðist af járnbrautarfyrirtækjum og samtökum milli landa sem hafa afnot af þessum mannvirkjum.
3.     Afnotagjöldin skulu einkum ákveðin í samræmi við eðli þjónustunnar, hve lengi hún varir, markaðsaðstæður og tegund og umfang slits á mannvirkjum.

4.     Gjöldin skulu greidd til mannvirkjastjórnar.

5.     Að höfðu samráði við mannvirkjastjórn setja aðildarríkin reglur um þetta gjald. Ekki má mismuna aðilum við innheimtu gjalda fyrir þjónustu sem er sambærileg og innt af hendi á sama markaði.

6.     Mannvirkjastjórn skal með góðum fyrirvara tilkynna járnbrautarfyrirtækjum eða samtökum milli landa, sem nota mannvirki til að veita þjónustuna sem um getur í 20. gr., um allar stórvægilegar breytingar sem verða á gæðum eða aðstöðu við viðkomandi mannvirki.

25. gr.
Málskot

1.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að unnt sé að skjóta ákvörðunum um úthlutun aðstöðu við mannvirki eða innheimtu gjalda til óháðs aðila. Þessi aðili skal taka ákvörðun í málinu innan tveggja mánaða frá því að allar nauðsynlegar upplýsingar eru lagðar fram.
2.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að ákvarðanir sem teknar eru í samræmi við 1. mgr. hér að framan og 3. mgr. 21. gr. haldi fyrir dómstólum.


IV. BÁLKUR – ÝMIS ÁKVÆÐI

26. gr.
Kvóti léttra ökutækja

    Ísland fær árlegan kvóta sem er fimm, Liechtenstein árlegan kvóta sem er 3000 og Noregur árlegan kvóta sem er 500, á tímabilinu 1. janúar 2001 til 31. desember 2004, fyrir akstur ökutækis aðra leið án farms eða fyrir ökutæki með léttar vörur, að því tilskildu að raunveruleg heildarþyngd ökutækis með hleðslu sé ekki yfir 28 tonnum, í umflutningi um svissnesku alpana, gegn greiðslu kostnaðar við notkun mannvirkis. Kostnaður þessi skal vera 50 svissneskir frankar árið 2001, 60 svissneskir frankar árið 2002, 70 svissneskir frankar árið 2003 og 80 svissneskir frankar árið 2004. Þessi akstur heyrir undir venjubundið eftirlit.

27. gr.
Auðveldara landamæraeftirlit

    Aðildarríkin skuldbinda sig til að fækka formsatriðum og einfalda í tengslum við flutningastarfsemi, einkum að því er tolla varðar.

28. gr.
Vistfræðilegir staðlar fyrir vöruflutningabifreiðir

    Ef EURO-flokkur fyrir útblástur þungaflutningabifreiða (eins og skilgreint er í löggjöf Evrópubandalagsins sem er felld inn í EES-samninginn og samning Sviss og Evrópubandalagsins) er ekki tilgreindur í skráningarskjali ökutækis verður að komast að raun um hann út frá þeim degi þegar ökutækið er fyrst tekið í notkun, eins og kemur fram í skjalinu, eða, eftir því sem við á, út frá sérstöku viðbótarskjali sem lögbær yfirvöld útgáfuríkisins hafa gefið út.

29. gr.
Nefnd

1.     Ráðið skal koma á fót nefnd um landflutninga, sem skal vera ábyrg fyrir framkvæmd og réttri beitingu á ákvæðum þessa viðauka.
2.     Í þessu skyni skal nefndin leggja fram tilmæli og taka ákvarðanir í tilvikum sem kveðið er á um í þessum viðauka.
3.     Hún getur einkum beint þeim tilmælum til ráðsins að breyta ákvæðum 1. og 3. til 9. viðbætis við þennan viðauka.

1. VIÐBÆTIR

GILDANDI ÁKVÆÐI


Með það í huga að ná markmiðum þessa viðauka skulu aðildarríkin, í samræmi við tímaáætlanir sem mælt er fyrir um í viðaukanum, gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að réttindi og skuldbindingar er jafngilda þeim sem koma fram í eftirtöldum lagagerningum Evrópubandalagsins, sem eru felldir inn í EES-samninginn og samning Sviss og Evrópubandalagsins, gildi í samskiptum þeirra:

1. þáttur:
–    Tilskipun ráðsins 96/26/EB frá 29. apríl 1996 um aðgang að starfsgrein farmflytjenda á vegum og starfsgrein aðila sem stunda farþegaflutninga á vegum og um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi sem á að auðvelda þessum aðilum að neyta staðfesturéttarins í innanlands- og millilandaflutningum (Stjtíð. EB nr. L 124, 23.5.1996, p.1), eins og henni var síðast breytt með tilskipun ráðsins 98/76/EB frá 1. október 1998 (Stjtíð. EB nr. L 277, 14.10.1998, bls.17).

Ákvæði tilskipunarinnar hljóði svo með eftirfarandi breytingum:

í c-lið 3. mgr. 3. gr., varðandi aðildarríkin, verði „gjaldmiðlum þeirra aðildarríkja sem ekki eru þátttakendur í þriðja áfanga myntbandalagsins“ að „gjaldmiðlum aðildarríkjanna“ og „birt er í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna“ verði „birt er opinberlega í hverju aðildarríki“;


aðildarríkin skulu viðurkenna vottorð sem eru gefin út í öðrum aðildarríkjum í samræmi við d-lið 4. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar, sem er felld inn í EES-samninginn og samning Sviss og Evrópubandalagsins.

2. þáttur:
–    Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3821/85 frá 20. desember 1985 um að taka upp skráningarbúnað í ökutækjum í flutningum á vegum (Stjtíð. EB nr. L 370, 31/12/1985, bls. 8), eins og henni var síðast breytt með reglugerð ráðsins (EB) nr. 2135/98 frá 24 september 1998 (Stjtíð. EB nr. L 274, 9.10.1998, bls.1).

Ákvæði reglugerðarinnar hljóði svo með eftirfarandi breytingum:
a)    í IV. kafla A í I. viðauka B bætist eftirfarandi við í a-lið 3. liðar varðandi fyrstu blaðsíðu ekilskortsins:
    „ch:     Fahrerkarte
                Carte de conducteur
                Carta del conducente“
    „is:         Ekilskort“
    „fl:         Fahrerkarte“
    „no:    Sjåførkort“;
b)    í IV. kafla A í I. viðauka B, varðandi fyrstu blaðsíðu ekilskortsins, hljóðar inngangsmálsliður c-liðar 3. liðar svo:
    „einkennisstafir aðildarríkisins sem gefur kortið út, með sporöskjumerkinu í kring, eins og um getur í 37. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um umferð á vegum frá 8. nóvember 1968, og sama bakgrunn og ökukortið. Einkennisstafirnir eru eftirfarandi:';
c)    í IV. kafla A í I. viðauka B, varðandi fyrstu blaðsíðu ekilskortsins, bætist eftirfarandi við c-lið 3. liðar:
    „IS        Ísland
    FL         Liechtenstein
    N         Noregur
    CH         Sviss.“
–    Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3820/85 frá 20. desember 1985 um samhæfingu tiltekinnar löggjafar á sviði félagsmála er varðar flutninga á vegum (Stjtíð. EB nr. L 370, 31.12.1985, bls.1), eða sambærilegar reglur sem mælt er fyrir um í AETR-samningnum, með áorðnum breytingum.

Ákvæði reglugerðarinnar hljóði svo með eftirfarandi breytingum:

Ákvæði 3. gr. gilda ekki.
–    Tilskipun ráðsins 88/599/EBE frá 23. nóvember 1988 um staðlaðar aðferðir við eftirlit með framkvæmd reglugerðar (EBE) nr.3820/85 um samhæfingu tiltekinnar löggjafar á sviði félagsmála er varðar flutninga á vegum og reglugerðar (EBE) nr. 3821/85 um að taka upp skráningarbúnað í ökutækjum í flutningum á vegum (Stjtíð. EB nr. L 325, 29.11.1988, bls.55), eins og henni var síðast breytt með reglugerð ráðsins (EB) nr. 2135/98 frá 24. september 1998 (Stjtíð. EB nr. L 274, 9.10.1998, bls.1).
–    Tilskipun ráðsins 76/914/EBE frá 16. desember 1976 um lágmarksþjálfun fyrir tiltekna ökumenn sem sjá um flutninga á vegum (Stjtíð. EB nr. L 357, 29.12.1976, bls. 36).

3. þáttur:
–    Tilskipun ráðsins 96/53/EB frá 25 júlí 1996 um að ákveða leyfileg hámarksmál vegna umferðar innan aðildarríkja og milli landa og leyfilega hámarksþyngd vegna umferðar milli landa fyrir tiltekin ökutæki sem eru í notkun í bandalaginu (Stjtíð. EB nr. L 235, 17.9.1996, bls. 59).

–    Tilskipun ráðsins 96/96/EB frá 20. desember 1996 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um prófanir á aksturshæfni vélknúinna ökutækja og eftirvagna þeirra (Stjtíð. EB nr. L 46, 17.2.1997, bls.1).
–    Tilskipun ráðsins 91/542/EBE frá 1. október 1991 um breytingu á tilskipun 88/77/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi aðgerðir gegn mengandi efnum í útblæstri dísilhreyfla til nota í ökutækjum (Stjtíð. EB nr. L 295, 25.10.1991, bls.1).

–    Tilskipun ráðsins 92/6/EBE frá 10. febrúar 1992 um uppsetningu og notkun búnaðar sem takmarkar hraða í tilteknum flokkum vélknúinna ökutækja innan bandalagsins (Stjtíð. EB nr. L 57, 23.2.1992, bls. 27).
–    Tilskipun ráðsins 92/24/EBE frá 31. mars 1992 um hraðatakmörkunarbúnað eða svipuð innbyggð hraðatakmörkunarkerfi í ákveðnum flokkum vélknúinna ökutækja (Stjtíð. EB nr. L 129, 14.5.1992, bls.154).
–    Tilskipun ráðsins 92/97/EBE frá 10. nóvember 1992 um breytingu á tilskipun 70/157/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna um leyfilegt hljóðstig og útblásturskerfi vélknúinna ökutækja (Stjtíð. EB nr. L 371, 19.12.1992, bls.1).

–    Tilskipun ráðsins 94/55/EB frá 21. nóvember 1994 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna varðandi flutning á hættulegum farmi á vegum (Stjtíð. EB nr. L 319, 12.12.1994, bls.7).

–    Tilskipun ráðsins 95/50/EB frá 6. október 1995 um samræmt eftirlit með flutningi á hættulegum farmi á vegum (Stjtíð. EB nr. L 249, 17.10.1995, bls. 35).
–    Tilskipun ráðsins 96/35/EB frá 3. júní 1996 um tilnefningu og starfsmenntun og hæfi öryggisráðgjafa við flutninga á hættulegum farmi á vegum, járnbrautum og skipgengum vatnaleiðum (Stjtíð. EB nr. L 145, 19.6.1996, bls.10).
–    Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 96/86/EB frá 13. desember 1996 um aðlögun að tækniframförum á tilskipun ráðsins 94/55/EB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna varðandi flutning á hættulegum farmi á vegum (Stjtíð. EB nr. L 335, 24.12.1996, bls. 43).

4. þáttur:
–    Tilskipun ráðsins 95/18/EB frá 19. júní 1995 um veitingu leyfa til járnbrautarfyrirtækja (Stjtíð. EB nr. L 143, 27.6.1995, bls.70).
–    Tilskipun ráðsins 95/19/EB frá 19. júní 1995 um úthlutun aðstöðu við járnbrautarmannvirki og innheimtu mannvirkjagjalds (Stjtíð. EB nr. L 143, 27.6.1995, bls.75).
–    Tilskipun ráðsins 91/440/EBE frá 29. júlí 1991 um þróun járnbrauta innan bandalagsins (Stjtíð. EB nr. L 237, 24.8.1991, bls. 25).

5. þáttur:
–    Tilskipun ráðsins 96/49/EB frá 23. júlí 1996 um samræmingu laga aðildarríkjanna að því er varðar flutninga á hættulegum farmi með járnbrautum (Stjtíð. EB nr. L 235, 17.9.1996, bls. 25).
–    Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 96/87/EB frá 13. desember 1996 um aðlögun að tækniframförum á tilskipun ráðsins 96/49/EB um samræmingu laga aðildarríkjanna að því er varðar flutninga á hættulegum farmi með járnbrautuml (Stjtíð. EB nr. L 335, 24.12.1996, bls. 45).


2. VIÐBÆTIR

REGLUR UM ÁLAGNINGU GJALDS SEM KVEÐIÐ ER Á UM Í 8. GR.


1.     Hámarksgjald í Sviss fyrir ökutæki sem hefur leyfið sem um getur í 2. mgr. 8. gr., raunverulega heildarþyngd með hleðslu yfir 34 tonnum en ekki yfir 40 tonnum og ekur 300 km leið yfir Alpana skal vera 252 svissneskir frankar fyrir ökutæki sem samræmist ekki EURO-stöðlum, 211 svissneskir frankar fyrir ökutæki sem samræmist EURO I-staðlinum og 178 svissneskir frankar fyrir ökutæki sem samræmist EURO II-staðlinum.
2.     Hámarksgjald í Sviss fyrir ökutæki sem hefur leyfið sem um getur í 3. mgr. 8. gr., raunverulega heildarþyngd með hleðslu yfir 34 tonnum en ekki yfir 40 tonnum og ekur 300 km leið yfir Alpana skal vera 300 svissneskir frankar fyrir ökutæki sem samræmist ekki EURO-stöðlum, 240 svissneskir frankar fyrir ökutæki sem samræmist EURO I-staðlinum og 210 svissneskir frankar fyrir ökutæki sem samræmist EURO II-staðlinum.

ANNEX P

Land Transport (Art. 35)


TITLE I – GENERAL PROVISIONS


ARTICLE 1
General principles and objectives

1.     This Annex is aimed at liberalising access by the Member States to each other's transport markets for the carriage of passengers and goods by road and rail in such a way as to ensure the more efficient management of traffic using routes which, from a technical, geographical and economic viewpoint, are most suitable for all the modes of transport covered by this Annex.
2.     The provisions of this Annex and their application are based on the principles of reciprocity, territoriality, transparency and free choice of mode of transport.
3.     The Member States undertake not to take discriminatory measures when applying this Annex.

4.     The application of this Annex is based at the same time, within the limits of the Member States' competence, on the principles and objectives of a sustainable mobility and a co-ordinated transport policy in the Alpine regions such as established in chapter 4 of the Land Transport agreement between Switzerland and the EC of 21 June 1999 (hereinafter referred to as the “Swiss-EC Agreement”).

ARTICLE 2
Scope

1.     This Annex shall apply to the two-way carriage of goods and passengers by road between the Member States, to through traffic crossing the territory of the Member States, subject to Article 7(3), and to the carriage by road of passengers and goods on a triangular basis.
2.     This Annex shall apply to the international carriage by rail of passengers and goods and to combined international transport. It shall not apply to railway undertakings whose activities are limited solely to urban, suburban or regional operations.
3.     This Annex shall apply to transport operations carried out by road transport undertakings or by railway undertakings established in the territory of one of the Member States.

ARTICLE 3
Definitions

1.     Road transport
    For the purposes of this Annex:
–    the occupation of road haulage operator shall mean the activity of any undertaking transporting goods for hire or reward by means of either a motor vehicle or a combination of vehicles;
–    the occupation of road passenger transport operator shall mean the activity of any undertaking engaged, for hire or reward, in the international carriage of passengers by coach or bus;
–    undertaking shall mean any natural person, any legal person, whether profit-making or not, any association or group of persons without legal personality, whether profit-making or not, or any official body, whether having its own legal personality or being dependent upon an authority having such personality;
–    vehicle shall mean a motor vehicle registered in the territory of a Member State or a combination of vehicles of which at least the tractive unit is registered in the territory of a Member State and intended exclusively for the carriage of goods, or any motor vehicle so constructed and equipped as to be suitable for carrying more than nine persons, including the driver, and intended for that purpose;
–    international carriage shall mean a journey undertaken by a vehicle, the point of departure of which is on the territory of one Member State and the destination of which is on the territory of another Member State or in a third State, or vice versa, and the movement of an unladen vehicle in connection with the aforesaid journey; if the point of departure or the destination of the journey is located in a third State, carriage must be effected by a vehicle registered in the territory of a Member State where the point of departure or the destination of the journey is located;
–    transit shall mean the carriage of goods or passengers (without loading or unloading) and the movement of unladen vehicles across the territory of a Member State;
–    triangular transport operations involving third States shall mean any carriage of passengers or goods from the territory of one Member State to a third State, and vice versa, by a vehicle registered in the territory of another Member State, whether or not, in the course of the same journey and using the normal route, the vehicle travels through the State in which it is registered;
–    authorisation shall mean the authorisation, licence or concession required under the legislation of the Member State.
2.     Rail transport
    For the purposes of this Annex:
–    railway undertaking shall mean any private or public undertaking the main business of which is to provide rail transport services for goods and/or passengers, with a requirement that the undertaking must ensure traction;
–    international grouping shall mean any association of at least two railway undertakings established in different Member States, one of them being Switzerland, for the purpose of providing international transport services between the Member States;
–    infrastructure manager shall mean any public body or undertaking responsible in particular for establishing and maintaining railway infrastructure, as well as for operating the control and safety systems;
–    licence shall mean an authorisation issued by the competent authority of a Member State to an undertaking, by which its capacity as a railway undertaking is recognised. That capacity may be limited to the operation of specific types of transport services;
–    licensing authority shall mean the body charged by each Member State with the issue of licences;
–    train path shall mean the infrastructure capacity needed to run a train between two places at a given time;
–    allocation shall mean the allocation of railway infrastructure capacity by an allocation body;
–    allocation body shall mean the authority and/or infrastructure manager designated by a Member State for the allocation of infrastructure capacity;
–    urban and suburban services shall mean transport services operated to meet the transport needs of an urban centre or conurbation, as well as the transport needs between such centre or conurbation and surrounding areas;
–    regional services shall mean transport services operated to meet the transport needs of a region;
–    combined transport shall mean the carriage of goods by heavy goods vehicles or loading units which complete part of their journey by rail as well as begin and/or end the journey by road.

ARTICLE 4
Existing bilateral arrangements

1.     Subject to the derogations introduced under this Annex, the rights and obligations of the Member States arising from bilateral agreements between them shall not be affected by the provisions of this Annex.
2.     In respect of Liechtenstein and Switzerland, existing bilateral arrangements between the two Member States, listed in Appendix 9, shall take precedence as regards international carriage, cabotage, transit and triangular transport.
3.     The agreements referred to in paragraph 1 are listed in Appendix 9 to this Annex.

TITLE II – INTERNATIONAL ROAD TRANSPORT

A. COMMON PROVISIONS


ARTICLE 5
Admission to the occupation

1.     Undertakings wishing to operate as professional road hauliers shall meet the following three requirements:
(a)    good repute;
(b)    appropriate financial fitness;
(c)    professional competence.
2.     The provisions applicable in this area are set out in Section 1 of Appendix 1.

ARTICLE 6
Social standards

    The social provisions applicable in this area are set out in Section 2 of Appendix 1.

ARTICLE 7
Technical standards

1.     The provisions on technical standards applicable in this area are set out in Section 3 of Appendix 1.
2.     Each Member State undertakes not to subject vehicles approved in the territory of another Member State to conditions that are more restrictive than those in force in its own territory.
3.     Based on the principles of non-discrimination, proportionality, territoriality and transparency, the Member States shall apply to vehicles from the other Member States, in the same manner as they do to their own vehicles, the same rules regarding weight limit, road charges and, where applicable, ban on Sunday and night driving.

4.     Exemption from the Swiss rules on the weight limit and from the ban on night and Sunday driving are listed in Appendix 6.

ARTICLE 8
Transitional arrangements governing
the weight of vehicles

1.     The carriage of goods by means of a vehicle the actual total laden weight of which is in excess of 34 t (between 1 January 2001 and 31 December 2004) but does not exceed 40 t, from a point of departure in another Member State for a destination beyond the Swiss zone close to the frontier, as defined in Appendix 10, (and vice versa) or in transit across Switzerland shall be subject to a quota based on the payment of a supplementary charge for use of the infrastructure, in accordance with the procedures set out in paragraphs 2 and 3 below.
2.     Iceland shall receive a quota of 4 authorisations, Liechtenstein a quota of 4000 authorisations and Norway a quota of 900 authorisations for the year 2001 and the year 2002.
3.     Iceland shall receive a quota of 7 authorisations, Liechtenstein a quota of 5000 authorisations and Norway a quota of 1200 authorisations for the year 2003 and the year 2004.
4.     The use of the authorisations provided for in paragraphs 2 and 3 shall be subject, in the case of each operator, to the payment of a charge for the use of the Swiss infrastructure, calculated and levied in accordance with the procedures laid down in Appendix 2.
5.     With effect from 1 January 2005, vehicles meeting the requirements laid down in Swiss legislation on the maximum permissible weight limits for vehicles in international traffic, shall be exempt from any quota or authorisation arrangements.

B. INTERNATIONAL CARRIAGE OF GOODS BY ROAD


ARTICLE 9
Carriage of goods between the territories of the Member States

1.     The international carriage of goods by road for hire or reward as well as unladen journeys between the territories of the Member States shall take place under the authorisation for carriers, set out in Regulation (EEC) No 881/92, as incorporated in the EEA Agreement and in the Swiss-EC Agreement and of which a model is given in Appendix 3, and under a similar Swiss authorisation for Swiss carriers.
2.     The transport operations referred to in Appendix 4 shall be exempt from any carriage authorisation and any system of licences.
3.     The procedures governing the issuing, renewal and withdrawal of authorisations and the procedures governing mutual assistance shall be covered by the provisions of Regulation (EEC) No 881/92, as incorporated in the EEA Agreement and in the Swiss-EC Agreement, and by equivalent Swiss provisions.

ARTICLE 10
Carriage of goods in transit across the territory of the Member States

1.     The international carriage of goods for hire or reward as well as movements of empty vehicles in transit across the territory of the Member States shall be deregulated. These transport operations shall be carried out under the licences referred to in Article 9.
2.     Paragraphs 2 and 3 of Article 9 shall apply.

ARTICLE 11
Triangular transport operations involving
third States

1.     The arrangements governing triangular transport involving third States shall be determined by joint agreement on conclusion of the necessary agreement between any Member State and the third State in question. The purpose of these arrangements is to ensure reciprocity of treatment between operators from the Member States with respect to triangular transport.
2.     Pending the conclusion of agreements between the Member States and the third States concerned, the Annex shall not affect the provisions relating to triangular transport as set out in bilateral agreements concluded between the Member States concerning transport involving third States. These rights are listed in Appendix 5 to this Annex.

ARTICLE 12
Transport between two points situated on the territory of one Member State

    Transport between two points situated on the territory of one Member State by vehicles registered in another Member State is not authorised under this Annex.

C. INTERNATIONAL CARRIAGE OF PASSENGERS BY COACH AND BUS


ARTICLE 13
Conditions applicable to carriers

1.     Carriers operating for hire or reward shall be permitted to carry out the transport services defined in Article 1 of Appendix 7, without discrimination as to nationality or place of establishment, provided those carriers:
–    are authorised in the Member State where they are established to undertake carriage by coach and bus in the form of regular services, including special regular services, or occasional services;

–    meet legal requirements on road safety as far as the standards for drivers and vehicles are concerned.
2.     Own-account carriers shall be permitted to carry out the transport services defined in Article 1(3) of Appendix 7, without discrimination as to nationality or place of establishment, provided those carriers:
–    are authorised in the Member State where they are established to undertake carriage by coach and bus in accordance with the market-access conditions laid down by national legislation;
–    meet legal requirements on road safety as far as the standards for drivers and vehicles are concerned.
3.     Carriers who meet the conditions set out in paragraph 1 may carry out international passenger transport operations by coach and bus provided that they hold the appropriate licence. The model for such licences and the procedures for obtaining, using and renewing them shall be as laid down in Regulation (EEC) No. 684/92, as amended by Regulation (EEC) No. 11/98, as incorporated in the EEA Agreement and the Swiss-EC Agreement, and in equivalent Swiss legislation.

ARTICLE 14
Access to the market

1.     Occasional services as referred to in Article 1, point 2.1, of Appendix 7 shall not require authorisation.
2.     Special regular services, as defined in Article 1, point 1.2, of Appendix 7 shall not require authorisation if they are covered, on the territory of Member States other than Switzerland, by a contract concluded between the organiser and the carrier.
3.     Unladen journeys by vehicles in connection with the transport operations referred to in paragraphs 1 and 2 shall likewise not require authorisation.
4.     In accordance with Articles 2ff of Appendix 7, authorisation shall be required for regular services.
5.     In accordance with Articles 2ff of Appendix 7, authorisation shall be required for special regular services not covered, on the territory of Member States other than Switzerland, by a contract concluded between the organiser and the carrier. In Switzerland, such services shall not require authorisation.
6.     Own-account road transport operations defined in Article 1, point 3, of Appendix 7 shall not require authorisation.

ARTICLE 15
Triangular transport operations involving
third States

1.     The arrangements governing triangular transport involving third States shall be determined by joint agreement on conclusion of the necessary agreement between any Member State and the third State in question. The purpose of these arrangements is to ensure reciprocity of treatment between operators from the Member States with respect to triangular transport.
2.     Pending the conclusion of agreements between the Member States and the third States concerned, the Annex shall not affect the provisions relating to transport as set out in bilateral agreements concluded between the Member States concerning transport involving third States. These rights are listed in Appendix 8 to this Annex.

ARTICLE 16
Transport between two points situated on the territory of one Member State

1.     Transport between two points situated on the territory of one Member State by carriers established in the territory of another Member State is not authorised under the Annex.
2.     However, it shall continue to be permissible to exercise rights under any bilateral agreements concluded between Member States in force, provided there is no discrimination between carriers and no distortion of competition. These rights are listed in Appendix 8 to the Annex.

ARTICLE 17
Procedures

    The procedures governing the issuing, use, renewal and expiry of authorisations and the procedures governing mutual assistance shall be covered by the provisions of Appendix 7 to the Annex.

ARTICLE 18
Transitional provision

    Authorisations in respect of services existing at the time of entry into force of this Annex shall remain valid until their expiry, to the extent that the services in question continue to be subject to authorisation.

TITLE III – INTERNATIONAL RAIL TRANSPORT


ARTICLE 19
Management independence

    The Member States undertake:
–    to guarantee the management independence of the railway undertakings, mainly by according them independent status, thus enabling them to adapt their activities to the market and to manage their affairs under the responsibility of their governing bodies;
–    to separate the management of the railway infrastructure from the provision of railway transport services, at least at the accounting level; aid paid to one of these two areas of activity may not be transferred to the other.

ARTICLE 20
Access and transit rights with regard to the railway infrastructure

1.     Railway undertakings and international groupings shall have the access and/or transit rights defined in the Community legislation referred to in Appendix 1, Section 4, as incorporated in the EEA Agreement and in the Swiss-EC Agreement.
2.     Railway undertakings established on the territory of one Member State shall be granted right of access to the infrastructure on the territory of the other Member States for the purpose of operating international combined transport services.
3.     Railway undertakings and international groupings making use of their access or transit rights shall conclude the necessary administrative, technical and financial agreements with the managers of the railway infrastructure used with a view to regulating traffic control and safety issues concerning the international transport services referred to in paragraphs 1 and 2.

ARTICLE 21
Railway licences

1.     The granting of an appropriate licence for the type of railway service in question shall be a precondition for any access or transit request involving the railway infrastructure, and hence the right to provide transport services. However, such a licence shall not in itself confer right of access to the railway infrastructure.
2.     A railway undertaking shall be entitled to apply for a licence in the Member State in which it is established. The Member States shall not issue licences or extend their validity where the requirements of this Annex have not been met.
3.     Under the responsibility of the Member States, the licences shall be issued by the authority responsible for licences specially designated for existing and new undertakings.
4.     The licences shall be recognised in the Member States on a reciprocal basis.
5.     They shall be subject to requirements laid down by the Member States relating to good repute, financial fitness, professional competence and cover for civil liability during their entire period of validity. The provisions applicable in this area are set out in Section 4 of Appendix 1.
6.     A licence shall be valid for as long as the railway undertaking fulfils its obligations under the abovementioned provisions. However, the authority responsible may require licences to be reviewed at regular intervals.
7.     The procedures for checking, amending, suspending or withdrawing a licence shall be governed by the abovementioned legal provisions.

ARTICLE 22
Issuing the safety certificate

1.     The Member States shall also require railway undertakings to submit a safety certificate setting out the safety requirements imposed on them with a view to ensuring a risk-free service on the routes in question.
2.     A railway undertaking may apply for a safety certificate to a body designated by the Member State in whose territory the infrastructure used by the railway body is situated.
3.     To obtain the safety certificate, the railway undertaking must comply with the law of a Member State in respect of that part of the route which is located on the territory of that Member State.

ARTICLE 23
Allocation of train paths

1.     Each Member State shall designate the body responsible for allocating capacity, whether it be a specific authority or the infrastructure manager. In particular, the allocation body, which shall be informed of all train paths available, shall ensure that:
–    railway infrastructure capacity is allocated on a fair and non-discriminatory basis and that,

–    subject to paragraphs 3 and 4 of this Article, the allocation procedure allows optimum effective use of the infrastructure.
2.     A railway undertaking or international grouping applying for one or more train paths shall submit its application to the allocation body or bodies of the Member State on whose territory the departure point of the service concerned is situated. The allocation body to which an application for infrastructure capacity has been submitted shall immediately inform its counterparts of this request. The latter shall take a decision no later than one month after receiving the necessary information; each allocation body shall have the right to refuse an application. The allocation body to which an application has been submitted shall, together with its counterparts, take a decision on the application no later than two months after all the necessary information has been submitted. The procedures for dealing with the handling of applications for infrastructure capacity are governed by the provisions set out in Section 4 of Appendix 1.
3.     The Member States may take the necessary measures to ensure that priority is given to the following rail services in the allocation of railway infrastructure capacity:
(a)    services provided in the public interest;
(b)    services wholly or partly operated on infrastructure constructed or developed for these services (for example, special high-speed or specialised freight lines).
4.     The Member States may instruct the allocation body to grant special rights as regards infrastructure capacity allocation on a non-discriminatory basis to railway undertakings operating certain types of services or providing such services in certain areas if such rights are indispensable to ensure adequate public services or efficient use of infrastructure capacity or to allow the financing of new infrastructures.

5.     The Member States may provide for the possibility that applications for infrastructure access are accompanied by a deposit or similar security.
6.     The Member States shall draw up and publish procedures for allocating railway infrastructure capacity. They shall notify accordingly the Committee referred to in Article 29.

ARTICLE 24
Accounts and user fees

1.     The accounts of an infrastructure manager must be at least in balance when considered over a reasonable period of time between, on the one hand, the revenue accruing from these fees and from possible State contributions and, on the other, the infrastructure expenditure.
2.     The infrastructure manager shall apply a railway infrastructure user fee, which he shall be responsible for managing, to be paid by the railway undertakings or international groupings using this infrastructure.

3.     The infrastructure user fees shall be determined mainly on the basis of the type of service, the period of service, the state of the market and the nature and degree of wear and tear on the infrastructure.
4.     Fees shall be payable to the infrastructure manager(s).
5.     Each Member State shall determine the procedures for fixing the fees, after consultations with the infrastructure manager. The fees charged for services of an equivalent nature in the same market shall apply without discrimination.
6.     The infrastructure manager shall, in good time, notify the railway undertakings or international groupings which use his infrastructure in order to provide the services referred to in Article 20 of all major changes in the quality or capacity of the infrastructure concerned.

ARTICLE 25
Appeals

1.     The Member States shall take the necessary measures to ensure that decisions on allocating infrastructure capacity or on collecting fees are subject to appeal before an independent body. This body shall give its judgement within two months of receiving all the necessary information.
2.     The Member States shall take the necessary measures to ensure that the decisions taken in accordance with paragraph 1 above and with Article paragraph 3 of Article 21 are subject to judicial review.

TITLE IV – MISCELLANEOUS


ARTICLE 26
Quotas for light vehicles

    Iceland shall receive an annual quota of 5, Liechtenstein an annual quota of 3000 and Norway an annual quota of 500 for the period 1 January 2001 to 31 December 2004, for single journeys by empty vehicles or vehicles carrying light products, provided that the actual total laden weight of the vehicle does not exceed 28 t, in transit across the Swiss Alps, against payment of a charge for the use of the infrastructure. This charge shall be CHF 50 in the year 2001, CHF 60 in the year 2002, CHF 70 in 2003 and CHF 80 in 2004. These journeys shall be subject to the usual control procedure.


ARTICLE 27
Facilitation of frontier controls

    The Member States undertake to reduce and simplify the formalities associated with transport operations, particularly in the area of customs.

ARTICLE 28
Ecological standards for commercial vehicles

    The EURO emission category for heavy goods vehicles (as defined in European Community legislation, as incorporated in the EEA Agreement and in the Swiss-EC Agreement), if not stated on the vehicle registration document, must be ascertained from the date on which the vehicle first entered into service, as stated on that document, or, where appropriate, from an additional special document issued by the competent authorities of the issuing State.

ARTICLE 29
Committee

1.     The Council shall establish a Committee on land transport, which shall be responsible for the management and proper application of this Annex.
2.     For this purpose, the Committee shall make recommendations and take decisions in the cases provided for in this Annex.
3.     It may in particular recommend to the Council to amend the provisions of Appendices 1 and 3 to 9 of this Annex.

APPENDIX 1

APPLICABLE PROVISIONS


With a view to attaining the objectives set out in this Annex, the Member States shall, in accordance with the timetables laid down in the Annex, take all necessary measures to ensure that the rights and obligations equivalent to those in the following legal instruments of the European Community, as incorporated in the EEA Agreement and in the Swiss-EC Agreement, are applied in their relations:

Section 1:
–    Council Directive 96/26/EC of 29 April 1996 on admission to the occupation of road haulage operator and road passenger transport operator and mutual recognition of diplomas, certificates and other evidence of formal qualifications intended to facilitate for these operators the right to freedom of establishment in national and international transport operations (Official Journal No. L 124, 23.5.1996, p.1), as last amended by Council Directive 98/76/EC of 1 October 1998 (Official Journal No. L 277, 14.10.1998, p.17).

The provisions of the Directive shall be read with the following adaptations:

in Article 3(3)(c), regarding the Member States, “those national currencies which are non participants in the third stage of monetary union” shall read “the national currencies of the Member States” and “published in the Official Journal of the European Communities” shall read “published officially in each Member State”;

the Member States shall recognise certificates issued by the other Member States in accordance with Article 3(4)(d) of the Directive, as incorporated in the EEA Agreement and in the Swiss-EC Agreement.

Section 2:
–    Council Regulation (EEC) No 3821/85 of 20 December 1985 on recording equipment in road transport (Official Journal No. L 370, 31/12/1985, p.8), as last amended by Council Regulation (EC) No 2135/98 of 24 September 1998 (Official Journal No. L 274, 9.10.1998, p.1).

The provisions of the Regulation shall be read with the following adaptations:
(a)    in Chapter IV.A. of Annex IB, the following shall be added in point 3(a) regarding page 1 of the driver card:
    'ch:    Fahrerkarte
                Carte de conducteur
                Carta del conducente'
    'is:        Ökumannskort'
    'fl:        Fahrerkarte'
    'no:    Sjåførkort';
(b)    in Chapter IV.A. of Annex IB regarding page 1 of the driver card, the introductory sentence in point 3(c) shall read as follows:
    'the distinguishing sign of the Member State issuing the card encircled by the ellipse referred to in Article 37 of the U.N. Convention on road traffic of 8 November 1968 with the same background as the driving card; the distinguishing sign shall be as follows:';
(c)    in Chapter IV.A. of Annex IB regarding page 1 of the driver card, the following shall be added to point 3(c):
    'IS        Iceland
    FL        Liechtenstein
    N            Norway
    CH        Switzerland.';
–    Council Regulation (EEC) No 3820/85 of 20 December 1985 on the harmonisation of certain social legislation relating to road transport (Official Journal No. L 370, 31.12.1985, p.1), or equivalent rules laid down in the AETR Agreement, including amendments thereto.

The provisions of the Regulation shall be read with the following adaptation:

The provisions of Article 3 shall not apply.
–    Council Directive 88/599/EEC of 23 November 1988 on standard checking procedures for the implementation of Regulation (EEC) No 3820/85 on the harmonisation of certain social legislation relating to road transport and Regulation (EEC) No 3821/85 on recording equipment in road transport (Official Journal No. L 325, 29.11.1988, p.55), as last amended by Council Regulation (EC) No 2135/98 of 24 September 1998 (Official Journal No. L 274, 9.10.1998, p.1).
–    Council Directive 76/914/EEC of 16 December 1976 on the minimum level of training for some road transport drivers (Official Journal No. L 357, 29.12.1976, p.36).

Section 3:
–    Council Directive 96/53/EC of 25 July 1996 laying down for certain road vehicles circulating within the Community the maximum authorised dimensions in national and international traffic and the maximum authorised weights in international traffic (Official Journal No. L 235, 17.9.1996, p.59).
–    Council Directive 96/96/EC of 20 December 1996 on the approximation of the laws of the Member States relating to roadworthiness tests for motor vehicles and their trailers (Official Journal No. L 46, 17.2.1997, p.1).
–    Council Directive 91/542/EEC of 1 October 1991 amending Directive 88/77/EEC on the approximation of the laws of the Member States relating to the measures to be taken against the emission of gaseous pollutants from diesel engines for use in vehicles (Official Journal No. L 295, 25.10.1991, p.1).
–    Council Directive 92/6/EEC of 10 February 1992 on the installation and use of speed limitation devices for certain categories of motor vehicles in the Community (Official Journal No. L 57, 23.2.1992, p.27).
–    Council Directive 92/24/EEC of 31 March 1992 relating to speed limitation devices or similar speed limitation on-board systems of certain categories of motor vehicles (Official Journal No. L 129, 14.5.1992, p.154).
–    Council Directive 92/97/EEC of 10 November 1992 amending Directive 70/157/EEC on the approximation of the laws of the Member States relating to the permissible sound level and the exhaust system of motor vehicles (Official Journal No. L 371, 19.12.1992, p.1).
–    Council Directive 94/55/EC of 21 November 1994 on the approximation of the laws of the Member States with regard to the transport of dangerous goods by road (Official Journal No. L 319, 12.12.1994, p.7).
–    Council Directive 95/50/EC of 6 October 1995 on uniform procedures for checks on the transport of dangerous goods by road (Official Journal No. L 249, 17.10.1995, p.35).
–    Council Directive 96/35/EC of 3 June 1996 on the appointment and vocational qualification of safety advisers for the transport of dangerous goods by road, rail and inland waterway (Official Journal No. L 145, 19.6.1996, p.10).
–    Commission Directive 96/86/EC of 13 December 1996 adapting to technical progress Council Directive 94/55/EC on the approximation of the laws of the Member States with regard to the transport of dangerous goods by road (Official Journal No. L 335, 24.12.1996, p.43).

Section 4:
–    Council Directive 95/18/EC of 19 June 1995 on the licensing of railway undertakings (Official Journal No. L 143, 27.06.1995, p.70).
–    Council Directive 95/19/EC of 19 June 1995 on the allocation of railway infrastructure capacity and the charging of infrastructure fees (Official Journal No. L 143, 27.6.1995, p.75).
–    Council Directive 91/440/EEC of 29 July 1991 on the development of the Community's railways (Official Journal No. L 237, 24.8.1991, p.25).

Section 5:
–    Council Directive 96/49/EC of 23 July 1996 on the approximation of the laws of the Member States with regard to the transport of dangerous goods by rail (Official Journal No. L 235, 17.9.1996, p.25).
–    Commission Directive 96/87/EC of 13 December 1996 adapting to technical progress Council Directive 96/49/EC on the approximation of the laws of the Member States with regard to the transport of dangerous goods by rail (Official Journal No. L 335, 24.12.1996, p.45).


APPENDIX 2

RULES FOR APPLYING THE CHARGES PROVIDED FOR IN ARTICLE 8


1.     The maximum Swiss charge for vehicles using the authorisation referred to in paragraph 2 of Article 8 and having an actual total laden weight of more than 34 t but not more than 40 t and travelling a distance of 300 km across the Alps shall be CHF 252 for a vehicle not complying with the EURO standards, CHF 211 for a vehicle complying with the EURO I standard and CHF 178 for a vehicle complying with the EURO II standard.
2.     The maximum Swiss charge for vehicles using the authorisation referred to in paragraph 3 of Article 8, having an actual total laden weight of more than 34 t but not more than 40 t and travelling a distance of 300 km across the Alps shall be CHF 300 for a vehicle not complying with the EURO standards, CHF 240 for a vehicle complying with the EURO I standard and CHF 210 for a vehicle complying with the EURO II standard.

3. VIÐBÆTIR

FYRIRMYND AÐ LEYFI



(Blátt kort – DIN A4)

(Fyrsta síða leyfis)

(Ritað á opinberu tungumáli eða tungumálum aðildarríkisins sem veitir leyfið)


Ríkið sem gefur út leyfið
Auðkenni lands ( 1 )
Lögbært yfirvald eða stofnun


LEYFI NR. ................
til vöruflutninga milli landa gegn gjaldi


Þetta leyfi heimilar







( 2 )


að stunda vöruflutninga á vegum milli landa gegn gjaldi á hvaða leið sem er á yfirráðasvæði Evrópubandalagsins og Íslands, Liechtenstein og Noregs( 3 ) eins og kveðið er á um í reglugerð ráðsins (EBE) nr. 881/92 frá 26. mars 1992, eins og hún var löguð að markmiðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins), og í almennum ákvæðum leyfisins.

Sérstakar athugasemdir:






Þetta leyfi gildir frá og með
til

Gefið út
í
,
hinn
( 4 )

APPENDIX 3

MODEL AUTHORISATION



(Blue card – DIN A4)

(First page of the authorisation)

(Text in (one of) the official language(s) of the EFTA State issuing the authorisation)


State issuing the authorisation
Distinguishing sign ( 1 )
Name of the competent
authority or body


AUTHORISATION No................
for the international carriage of goods by road for hire or reward


This authorisation entitles







( 2 )


to engage in the international carriage of goods by road for hire or reward by any route, for journeys or parts of journeys effected for hire or reward within the territory of the European Community and Iceland, Liechtenstein and Norway( 3 ) as laid down in Council Regulation (EEC) No 881/92 of 26 March 1992 as adapted for the purposes of the Agreement on the European Economic Area (EEA Agreement), and subject to the general provisions of this authorisation.

Particular remarks:






This authorisation shall be valid from
to


Issued in
,


on
( 4 )


(b)

(Önnur síða leyfis)


Leyfi þetta er gefið út samkvæmt reglugerð ráðsins (EBE) nr. 881/92 frá 26. mars 1992, eins og hún var löguð að markmiðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Það veitir leyfishafa rétt til að stunda vöruflutninga á vegum milli landa gegn gjaldi á hvaða leið sem er á yfirráðasvæði Evrópubandalagsins og EFTA-ríkjanna og, eftir atvikum, með skilyrðum sem kveðið er á um í leyfinu:

—    þar sem brottfarar- og ákvörðunarstaður eru ekki í sama ríki, sem eru annaðhvort aðildarríki EB eða EFTA-ríki, með eða án umflutnings um eitt eða fleiri aðildarríki EB, EFTA-ríki eða þriðju lönd,

—    frá aðildarríki EB eða EFTA-ríki til þriðja lands eða öfugt, með eða án umflutnings um eitt eða fleiri aðildarríki EB, EFTA-ríki eða þriðju lönd,

—    milli þriðju landa með umflutningi um eitt eða fleiri aðildarríki EB eða EFTA-ríki,

og ferðir án farms í sambandi við slíkan flutning.

Í flutningum frá aðildarríki EB eða EFTA-ríki til þriðja lands eða öfugt, gildir þetta leyfi fyrir þann hluta leiðarinnar sem farinn er í aðildarríki EB eða EFTA-ríki þar sem er fermt eða affermt.

Leyfið er bundið við leyfishafa og er ekki framseljanlegt.

Lögbær yfirvöld í EFTA-ríkinu sem gaf það út geta afturkallað það, til dæmis ef flutningafyrirtækið hefur:

—    ekki uppfyllt öll skilyrð fyrir notkun leyfisins,

—    veitt rangar upplýsingar að því er varðar gögn sem nauðsynleg eru vegna útgáfu eða endurnýjun leyfis.

Frumrit leyfis skal geymt hjá vöruflutningafyrirtækinu.

Staðfest afrit leyfis skal geymt í ökutækinu ( 1 ).

Þegar um er að ræða samtengd ökutæki skal það geymt í vélknúna ökutækinu. Það gildir fyrir tengivagna jafnvel þótt eftir- eða festivagninn sé hvorki skráður á nafn leyfishafa né hann hafi akstursleyfi fyrir honum eða vagninn skráður og með akstursleyfi í aðildarríki EB eða öðru EFTA-ríki.

Leyfinu skal framvísað hvenær sem viðurkenndur eftirlitsmaður krefst þess.

Á yfirráðasvæði aðildarríkja EB og EFTA-ríkja ber leyfishafa að fara að lögum og stjórnsýslufyrirmælum sem gilda í hverju landi, einkum að því er varðar reglur um flutninga og umferðarreglur.


(b)

(Second page of the authorisation)


This authorisation is issued under Council Regulation (EEC) No 881/92 of 26 March 1992 as adapted for the purposes of the EEA Agreement.

It entitles the holder to engage in the international carriage of goods by road for hire or reward by any route for journeys or parts of journeys effected within the territories of the European Community and the EFTA States and, when appropriate, subject to the conditions laid down herein:

–    where the point of departure and the point of arrival are situated in two different States which are either EC Member States or EFTA States, with or without transit through one or more EC Member States or EFTA States or third countries,

–    from an EC Member State or an EFTA State to a third country or vice versa, with or without transit through one or more EC Member States or EFTA States or third countries,

–    between third countries with transit through the territory of one or more EC Member States or EFTA States,

and unladen journeys in connection with such carriage.

In the case of carriage from an EC Member State or EFTA State to a third country or vice versa, this authorisation is not valid for that part of the journey effected in the EC Member States or EFTA State of loading or unloading.

The authorisation is personal to the holder and is not transferable.

It may be withdrawn by the competent authority of the EFTA State which issued it, notably where the haulier has:

–    not complied with all the conditions for using the authorisation,

–    supplied incorrect information with regard to the data needed for the issue or extension of the authorisation.

The original of the authorisation must be kept by the haulage undertaking.

A certified copy of the authorisation must be kept in the vehicle( 1 ).

In the case of a coupled combination of vehicles it must accompany the motor vehicle. It covers the coupled combination of vehicles even if the trailer or semi-trailer is not registered or authorised to use the roads in the name of the authorisation holder or if it is registered or authorised to use the roads in an EC Member State or another EFTA State.

The authorisation must be produced whenever required by an authorised inspecting officer.

Within the territory of each EC Member State and EFTA State the holder must comply with the laws, regulations and administrative provisions in force in that State, in particular with regard to transport and traffic.


4. VIÐBÆTIR

FLUTNINGAR SEM ERU UNDANÞEGNIR LEYFISKERFUM OG LEYFUM



1.    Opinber póstflutningaþjónusta.
2.    Flutningur ökutækja sem hafa laskast eða eru óökufær.
3.    Vöruflutningar með ökutækjum með 6 tonna leyfilega hámarksþyngd með hleðslu, að eftirvögnum meðtöldum, eða með 3,5 tonna leyfilega hámarkshleðslu, að meðtalinni hleðslu eftirvagna.
4.    Vöruflutningar með vélknúnum ökutækjum, svo framarlega sem eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
    a)    vörurnar sem fluttar eru skulu vera eign fyrirtækisins eða hafa verið seldar, keyptar, leigðar út eða teknar á leigu, framleiddar, unnið úr þeim eða með þær í fyrirtækinu eða þær verið í viðgerð þar;
    b)    tilgangur flutninganna skal vera sá að flytja vörur til eða frá fyrirtækinu eða færa þær til annaðhvort innan fyrirtækisins eða utan til eigin þarfa;
    c)    vélknúnum ökutækjum sem notuð eru til slíkra flutninga skal ekið af starfsmönnum fyrirtækisins;
    d)    ökutæki sem flytja vörur skulu vera í eigu fyrirtækisins eða keypt með afborgunum eða tekin á leigu af fyrirtækinu, í síðastnefnda tilvikinu með þeim fyrirvara að uppfyllt séu skilyrði tilskipunar ráðsins 84/647/EBE frá 19. desember 1984 um notkun ökutækja sem leigð eru án ökumanna til vöruflutninga á vegum, sem er felld inn í EES-samninginn og samning Sviss og Evrópubandalagsins. Þetta ákvæði gildir ekki um notkun annars ökutækis í stað þess sem notað er venjulega en sem er um stundarsakir í óökufæru ástandi;
    e)    flutningarnir skulu einungis vera aukastarfsemi fyrir starfsemi fyrirtækisins í heild.
5.    Flutningur lyfja, búnaðar og tækja og annarra nauðsynja til neyðarhjálpar, einkum þegar náttúruhamfarir verða.



5. VIÐBÆTIR

SKRÁ YFIR ÁKVÆÐI Í TVÍHLIÐA SAMNINGUM UM FLUTNINGA Á VEGUM, SEM GERÐIR ERU MILLI AÐILDARRÍKJA Í TENGSLUM VIÐ VÖRUFLUTNINGA Í ÞRÍHLIÐA UMFERÐ



    Samningur milli ríkisstjórnar Svissneska ríkjasambandsins (Swiss Federal Council) og ríkisstjórnar Konungsríkisins Noregs um millilandaflutninga á farþegum og vörum á vegum frá 26. maí 1998:

    Ákvæði 4. gr.: vöruflutningar.


6. VIÐBÆTIR

REGLUR UM ÞUNGATAKMARKANIR OG BANN VIÐ AKSTRI AÐ NÆTURLAGI OG Á SUNNUDÖGUM


1.    Undanþága frá þungatakmörkunum á tímabilinu sem lýkur 31. desember 2004:
    Fyrir akstur sem hefst erlendis og lýkur á landamærasvæði Sviss, sem er skilgreint í 10. viðbæti, (og öfugt) eru undantekningar leyfðar án gjalds fyrir hvaða vörur sem er allt að 40 tonnum samtals og fyrir 40-feta ISO-gáma í samsettum flutningum allt að 44 tonnum samtals. Sumar tollstöðvar hafa mörkin lægri ef það er nauðsynlegt vegna aðstæðna á veginum.
2.     Aðrar undanþágur frá þungatakmörkunum:
    Fyrir akstur sem hefst erlendis og lýkur á landamærasvæði Sviss (og öfugt) og fyrir umflutning um Sviss er einnig heimilt að leyfa raunverulega heildarþyngd með hleðslu, sem er meiri en leyfileg heildarþyngd í Sviss, ef um er að ræða flutninga sem ekki er getið í 8. gr. viðaukans:

    a)    flutninga á vörum sem eru óskiptanlegar, í tilvikum þegar ekki er hægt að hlíta ákvæðum þrátt fyrir að ökutækið sé nothæft;

    b)    flutninga eða notkun á sérstökum ökutækjum, einkum vinnuvélum sem, vegna þess tilgangs sem þær þjóna, samræmast ekki ákvæðum um þyngd;

    c)    flutninga á skemmdum eða óökufærum ökutækjum í neyðartilvikum;
    d)    flutninga á flugvistum;

    e)    flutninga á vegum á upphafs- og lokastigum samsettra flutninga, yfirleitt innan 30 km frá stöðinni.
3.    Undanþágur frá banni við akstri að næturlagi og á sunnudögum:
    Fyrirhugaðar eru eftirtaldar undanþágur frá banni við akstri að næturlagi og á sunnudögum:
    a)    Án sérstaks leyfis
             –    akstur í því skyni að veita neyðaraðstoð þegar neyðarástand skapast,
            –    akstur í því skyni að veita neyðaraðstoð þegar slys verða, einkum ef slysin tengjast almannasamgöngum eða flugumferð.
    b)     Með sérstöku leyfi
             Flutningar á vörum sem, eðli sínu samkvæmt, réttlæta flutninga að næturlagi og, af gildum ástæðum, flutninga á sunnudögum:
            –    landbúnaðarafurðir sem eru viðkvæmar fyrir skemmdum (svo sem ber, ávextir og grænmeti, plöntur (einnig afskorin blóm) eða nýpressaður ávaxtasafi), allt árið,
             –    svín og kjúklingar til slátrunar,
             –    nýmjólk og mjólkurafurðir sem eru viðkvæmar fyrir skemmdum,
             –    búnaður fyrir sirkus, hljóðfæri hljómsveita, leikmunir o.s.frv.,
             –    dagblöð, þar með talinn ritstjórnarpistill, og póstsendingar sem eru nauðsynlegar í tengslum við lögfræðiaðstoð.
    Til að auðvelda málsmeðferð við viðurkenningu er heimilt að gefa út leyfi sem gildir um ótakmarkaðan fjölda ferða í allt að því tólf mánuði, að því tilskildu að um sams konar ferðir sé að ræða.
4.    Undanþágu frá banni við akstri að næturlagi ber að veita án mismununar og á einni skrifstofu. Hana ber að veita gegn greiðslu þóknunar sem nægir fyrir umsýslukostnaði.



7. VIÐBÆTIR

FARÞEGAFLUTNINGAR MILLI LANDA MEÐ HÓPBIFREIÐUM


1. gr.
Skilgreiningar

    Í þessum viðauka er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.     Reglubundnir flutningar
    1.1.        Reglubundnir flutningar eru flutningar með farþega milli tiltekinna staða með tilteknu millibili á ákveðnum leiðum þar sem farþegar eru teknir og þeim skilað á fyrirfram ákveðnum viðkomustöðum. Öllum er heimilt að notfæra sér reglubundna flutninga, óháð því hvort nauðsynlegt geti verið að bóka far. Þótt skilyrðum fyrir því að stunda slíka flutninga sé breytt teljast þeir samt sem áður til reglubundinna flutninga.
    1.2.        Flutningaþjónusta, hver svo sem skipuleggur hana, þar sem séð er fyrir flutningum á tilteknum hópum farþega en aðrir farþegar eru útilokaðir, telst til reglubundinna flutninga að því tilskildu að hún uppfylli þau skilyrði sem tilgreind eru í 1.1. Slíkir flutningar kallast hér á eftir „sérstakar áætlunarferðir“.
                   Til sérstakra áætlunarferða teljast:
                   a)    flutningar á starfsmönnum milli heimilis og vinnustaðar;
                   b)    flutningar á nemendum til og frá skóla;


                   c)    flutningar á hermönnum og fjölskyldum þeirra frá upprunaríki sínu til herbúðanna. Þótt sérstakar áætlunarferðir séu sniðnar að þörfum notendanna teljast þær samt sem áður til sérstakra áætlunarferða.

    1.3.        Skipulag samhliða eða tímabundinna flutninga sem þjóna sama farþegahópi og reglubundnir flutningar sem fyrir eru, að sleppa sumum viðkomustöðum eða bæta öðrum við skal háð sömu reglum og gilda um reglubundna flutninga sem fyrir eru.

2.     Óreglubundnir flutningar
    2.1.        Óreglubundnir flutningar eru flutningar sem falla ekki undir skilgreininguna á reglubundnum flutningum, að meðtöldum sérstökum áætlunarferðum (sérstökum reglubundnum flutningum), og sem einkennast öðru fremur af því að þar eru fluttir hópar farþega sem er safnað saman að frumkvæði þess sem kaupir þjónustuna eða flutningafyrirtækisins sjálfs.
                  Skipulagning samhliða eða tímabundinna flutninga, sem eru sambærilegir reglubundnum flutningum sem fyrir eru og þjóna sömu farþegahópum, skal háð leyfi í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í I. þætti.
    2.2.        Ekki er hætt að flokka þá flutningaþjónustu sem um getur í 2. lið sem óreglubundna flutninga af þeirri ástæðu einni að þeir fara fram með vissu millibili.
    2.3.        Hópur flutningafyrirtækja sem starfa fyrir sama verktaka getur annast óreglubundna flutninga. Nöfn flutningafyrirtækja og, eftir því sem við á, skiptistaðir á leiðinni skulu tilkynnt lögbærum yfirvöldum hlutaðeigandi aðildarríkja, í samræmi við málsmeðferð sem nefndin tekur ákvörðum um.
3.     Flutningar í eigin þágu
    Flutningar í eigin þágu er flutningastarfsemi á vegum einstaklings eða lögpersónu, sem ekki er rekin í ábata- eða hagnaðarskyni, svo fremi að:

    –    flutningarnir séu aukastarfsemi fyrir einstaklinginn eða lögpersónuna,
    –    ökutækin, sem notuð eru, séu í eigu viðkomandi einstaklings eða lögpersónu eða hafi verið keypt með afborgunum eða tekin á leigu með langtímaleigusamningi og viðkomandi einstaklingur sjálfur eða starfsmaður viðkomandi einstaklings eða lögpersónu aki þeim.

I. ÞÁTTUR

REGLUBUNDNIR FLUTNINGAR SEM ERU LEYFISBUNDNIR


2. gr.
Tegund leyfis

1.     Leyfið er gefið út á nafn flutningafyrirtækisins; ekki er unnt að framselja það til þriðju aðila. Þó getur flutningafyrirtækið sem fékk leyfið, með samþykki yfirvaldsins sem um getur í 1. mgr. 3. gr. þessa viðauka, fengið undirverktaka til að sjá um þjónustuna. Ef svo ber undir skal nafn hins síðarnefnda og hlutverk hans sem undirverktaka koma fram í leyfinu. Undirverktakinn verður að uppfylla skilyrðin sem mælt er fyrir um í 13. gr. viðaukans.


    Ef í hlut eiga fyrirtæki sem hafa bundist samtökum um að stunda reglubundna flutninga, skal leyfið gefið út á nöfn allra fyrirtækjanna. Það skal afhent fyrirtækinu sem stjórnar starfseminni og hin fyrirtækin fá afrit. Nöfn allra rekstraraðila skulu standa í leyfinu.

2.     Gildistími leyfis skal eigi vera lengri en fimm ár.

3.     Í leyfi skal eftirfarandi koma fram:
a)     tegund flutninga;
b)    flutningaleið, þar sem brottfarar- og ákvörðunarstaður er sérstaklega tekinn fram;
c)     gildistími leyfis;
d)     viðkomustaðir og tímaáætlun.
4.     Leyfin skulu vera í samræmi við fyrirmyndina í reglugerð (EB) nr. 2121/98 frá 2. október 1998 þar sem settar eru nákvæmar reglur um beitingu reglugerða ráðsins (EBE) nr. 684/92 og (EB) nr.12/98 að því er varðar skjöl vegna flutnings farþega með hópbifreiðum (Stjtíð. EB nr. L 268, 3.10.1998, bls.10), sem er felld inn í EES-samninginn og samning Sviss og Evrópubandalagsins.
5.     Leyfin veita handhafa eða handhöfum rétt til að stunda reglubundna flutninga á yfirráðasvæðum aðildarríkjanna.
6.     Sá sem stundar reglubundna flutninga má nota viðbótarökutæki tímabundið og við óvenjulegar aðstæður. Þegar svo háttar til skal flutningafyrirtækið tryggja að eftirtalin skjöl séu fyrir hendi í ökutækinu:
–    endurrit af leyfinu til reglubundinna flutninga;
–    endurrit af samningi þess sem stundar reglubundna flutninga við fyrirtækið sem útvegar viðbótarökutæki eða jafngilt skjal;
–    staðfest endurrit af leyfinu sem gefið er út á nafn þess sem stundar reglubundna flutninga.

3. gr.
Umsóknir um leyfi

1.     Flutningafyrirtæki frá öðrum aðildarríkjum en Sviss, sem sækja um leyfi, skulu leggja inn umsóknir sínar í samræmi við ákvæði 6. gr. reglugerðar (EBE) nr. 684/92, eins og henni var breytt með reglugerð (EB) nr. 11/98 sem er felld inn í EES-samninginn og samning Sviss og Evrópubandalagsins um flutninga á landi, og flutningafyrirtæki í Sviss, sem sækja um leyfi, skulu leggja inn umsóknir sínar í samræmi við 5. kafla reglugerðar frá 25. nóvember 1998 um sérleyfi til farþegaflutninga (OCTV). Þegar flutningar eru undanþegnir leyfi í einu aðildarríki en bundnir leyfi í öðru aðildarríki skulu flutningafyrirtækin, sem sækja um leyfi, leggja inn umsóknir sínar hjá lögbærum yfirvöldum í brottfararríkinu.
2.     Leyfin skulu vera í samræmi við fyrirmyndina í reglugerð (EB) nr. 2121/98.
3.     Umsækjendur um leyfi skulu veita allar frekari upplýsingar sem þeir telja máli skipta eða sem útgáfuyfirvald æskir. Meðal annars skulu umsækjendur leggja fram akstursáætlun, svo að unnt sé að fylgjast með því að farið sé að löggjöf bandalagsins um akstur og hvíldartíma. Flutningafyrirtæki frá öðrum aðildarríkjum en Sviss skulu einnig leggja fram endurrit af bandalagsleyfinu til farþegaflutninga á vegum milli landa gegn gjaldi, sem kveðið er á um í EES-samningnum, og flutningafyrirtæki í Sviss afrit af áþekku svissnesku leyfi, sem gefið er út til handa þeim sem stundar reglubundna flutninga.

4. gr.
Tilhögun leyfisveitinga

1.     Leyfin eru gefin út með samþykki lögbærra yfirvalda á yfirráðasvæðum aðildarríkja þar sem farþegar eru teknir eða þeim skilað. Útgáfuyfirvald skal senda mat sitt til slíkra yfirvalda, svo og lögbærra yfirvalda á yfirráðasvæðum sem farið er um án þess að taka farþega eða skila þeim, ásamt afrit af umsókninni og öllum skjölum sem máli skipta.


2.     Yfirvöld þeirra aðildarríkja sem leitað var samþykkis hjá skulu tilkynna útgáfuyfirvaldi ákvörðun sína innan tveggja mánaða. Þessi frestur er talinn frá þeim degi að beiðni um álitsgerð var lögð fram. Ef útgáfuyfirvald hefur ekki fengið svar innan þess tíma telst viðkomandi yfirvald hafa gefið samþykki sitt og skal þá útgáfuyfirvald gefa út leyfið.



3.     Með fyrirvara um 7. og 8. mgr., skal útgáfuyfirvald taka ákvörðun um umsóknina innan fjögurra mánaða að telja frá því að umsóknin var lögð fram.
4.     Veita skal leyfi nema:
a)    umsækjandinn geti ekki annast þá flutninga, sem sótt er um að stunda, með þeim tækjabúnaði sem hann hefur til umráða;
b)    umsækjandinn hafi áður gerst brotlegur við landslög eða alþjóðlega löggjöf um flutninga á vegum milli landa, einkum varðandi skilyrði og kröfur er varða leyfi til farþegaflutninga milli landa á vegum eða ef hann hefur gerst sekur um alvarleg brot á lögum um öryggi á vegum, einkum að því er varðar reglur um ökutæki og akstur og hvíldartíma ökumanna;
c)    skilyrðin fyrir leyfisveitingunni hafi ekki verið uppfyllt þegar um endurnýjun leyfis er að ræða;

d)    sýnt þyki að umræddir flutningar tefli beinlínis í tvísýnu starfrækslu reglubundinna flutninga sem hafa áður verið leyfðir, nema þeir flutningar séu starfræktir af einu flutningafyrirtæki eða einum hópi flutningafyrirtækja eingöngu;

e)    svo virðist sem umsækjandinn stefni eingöngu að starfrækslu á leiðum sem fyrir eru og gefa af sér mestan hagnað;
f)    lögbært yfirvald aðildarríkis ákveði, á grundvelli ítarlegrar athugunar, að umræddir flutningar tefli starfrækslu sambærilegra flutninga með járnbrautum á viðkomandi leiðum í tvísýnu. Tilkynna skal flutningafyrirtækjum, sem málið varðar, um allar ákvarðanir sem teknar eru samkvæmt þessu ákvæði og enn fremur rökstuðninginn fyrir þeim. Frá 1. janúar 2000 getur lögbært yfirvald aðildarríkis, ef sýnt þykir að núverandi millilandaflutningar með hópbifreiðum tefli starfrækslu sambærilegra flutninga með járnbrautum á viðkomandi leiðum í tvísýnu, að fengnu samþykki nefndarinnar, frestað eða afturkallað leyfi til að starfrækja millilandaflutninga með hópbifreiðum enda fái flutningafyrirtækið sex mánaða fyrirvara. Ekki er réttlætanlegt að hafna umsókn á þeim forsendum einum að flutningafyrirtæki bjóði lægra verð en önnur flutningafyrirtæki á vegum eða að á þeirri leið, sem um er að ræða, séu starfandi fyrir önnur fyrirtæki er stunda flutninga á vegum.
5.     Útgáfuyfirvald getur einungis hafnað umsókn af ástæðum sem eru samrýmanlegar viðauka þessum.
6.     Ef ekki tekst samkomulag á grundvelli málsmeðferðarinnar sem um getur í 1. mgr. má leggja málið fyrir nefndina.

7.      Nefndin skal, eins skjótt og unnt er, taka ákvörðun sem kemur til framkvæmda eigi síðar en 30 dögum eftir að hlutaðeigandi aðildarríkjum er tilkynnt um hana.
8.     Að lokinni þeirri málsmeðferð sem mælt er fyrir um í þessari grein ber útgáfuyfirvaldi að tilkynna öllum yfirvöldum sem um getur í 1. mgr. um ákvörðun sína og, eftir atvikum, senda þeim afrit af leyfinu.

5. gr.
Veiting og endurnýjun leyfa

1.     Að lokinni málsmeðferðinni sem um getur í 4. gr. ber útgáfuyfirvaldi að veita leyfið eða hafna umsókninni með formlegum hætti.

2.     Þegar ákveðið er að hafna umsókn skulu gefnar ástæður fyrir synjun. Aðildarríkin skulu tryggja að flutningafyrirtækjum gefist færi á að gæta réttar síns ef umsókn þeirra er hafnað.
3.     Að breyttu breytanda tekur 4. gr. til umsókna um endurnýjun leyfa eða til breytinga á skilyrðum fyrir rekstri leyfisbundinna flutninga. Ef gerðar eru smávægilegar breytingar á skilyrðum fyrir rekstri, einkum breytingar á fargjaldi eða áætlunartímum, nægir að útgáfuyfirvaldið sendi lögbærum yfirvöldum hinna aðildarríkjanna þær upplýsingar.



6. gr.
Leyfi fellt niður

    Málsmeðferð, sem ber að fylgja þegar leyfi er fellt niður, skal vera eins og mælt er fyrir um í 9. gr. reglugerðar (EBE) nr. 684/92, sem er felld inn í EES-samninginn, og 44. gr. reglugerðar frá 25. nóvember 1998 (OCTV).

7. gr.
Skyldur flutningafyrirtækja

1.     Flutningafyrirtæki í reglubundnum flutningum er skuldbundið til að tryggja, nema óviðráðanleg atvik komi til og þar til leyfistímabilið rennur út, flutningaþjónustu sem fullnægir settum reglum um órofna þjónustu, reglubundnar ferðir og nægilegt framboð og uppfylla önnur skilyrði sem lögbært yfirvald setur í samræmi við 3. mgr. 2. gr. þessa viðbætis.
2.     Flutningafyrirtæki skal birta upplýsingar um leiðir, viðkomustaði, tímaáætlun, fargjöld og flutningsskilmála, að því marki sem ekki er bundið í lögum, á þann hátt að tryggt sé að slíkar upplýsingar sé aðgengilegar öllum notendum.
3.      Viðkomandi aðildarríki geta, ef þau samþykkja það sameiginlega og með samþykki leyfishafa, breytt skilyrðunum fyrir rekstri reglubundinna flutninga.


II. ÞÁTTUR

ÓREGLUBUNDNIR FLUTNINGAR OG ÖNNUR ÞJÓNUSTA SEM ER UNDANÞEGIN LEYFUM


8. gr.
Eftirlitsskjöl

1.     Flutningaþjónustan sem um getur í 1. mgr. 14. gr. skal fara fram með hliðsjón af eftirlitsskjali (akstursskrá).
2.     Flutningafyrirtæki sem stundar óreglubundna flutninga skal fylla út akstursskrá fyrir hverja ferð.
3.     Akstursskrárheftin fást afhent hjá lögbærum yfirvöldum aðildarríkisins þar sem flutningafyrirtækið hefur staðfestu eða öðrum aðilum á þeirra vegum.

4.     Útlit eftirlitsskjalsins og hvernig ber að nota það skal vera eins og mælt er fyrir um í reglugerð (EB) nr. 2121/98.

9. gr.
Vottorð

    Vottorðið sem kveðið er á um í 1. mgr. skal gefið út af lögbæru yfirvaldi aðildarríkisins þar sem ökutækið er skráð. Það skal vera samkvæmt fyrirmyndinni í reglugerð (EB) nr. 2121/98.


III. ÞÁTTUR

EFTIRLIT OG VIÐURLÖG


10. gr.
Farseðlar

1.     Farþegar sem nota reglubundna flutningaþjónustu eða ferðir fram og til baka, að undanskildum sérstökum reglubundnum flutningum, skulu hafa farseðil undir höndum alla ferðina, annaðhvort farseðil fyrir einn eða hópfarseðil þar sem koma fram eftirfarandi upplýsingar um:
–    brottfarar- og ákvörðunarstað og, ef við á, ferðina til baka;
–    gildistíma farseðils;
–    fargjald.
2.     Skylt er að framvísa farseðlinum sem um getur í 1. mgr. ef viðurkenndur eftirlitsmaður fer fram á það.

11. gr.
Eftirlit á vegum og í fyrirtækjum

1.     Ef um er að ræða flutninga gegn gjaldi verða eftirtalin skjöl að vera fyrir hendi í ökutækinu og ber að framvísa þeim ef viðurkenndur eftirlitsmaður fer fram á það: staðfest afrit af aðildarríkisleyfi, annaðhvort leyfið (eða staðfest afrit af því) eða akstursskráin, allt eftir tegund flutninga. Ef um er að ræða flutninga í eigin þágu skal vottorðið (eða staðfest afrit af því) geymt í ökutækinu og ber að framvísa því ef viðurkenndur eftirlitsmaður fer fram á það. Ef um er að ræða flutningaþjónustu, sem 2. mgr. 14. gr. þessa viðbætis tekur til, kemur samningurinn eða staðfest afrit af honum í stað eftirlitsskjals.


2.     Flutningafyrirtæki sem hafa hópbifreiðir í farþegaflutningum milli landa skulu heimila hvers konar eftirlitsskoðanir til þess að tryggja að reksturinn fari fram eins og vera ber, einkum að því er varðar akstur og hvíldartíma.

12. gr.
Gagnkvæm aðstoð

1.     Ef þess er óskað skulu lögbær yfirvöld aðildarríkis veita öðrum hlutaðeigandi aðildarríkjum allar tiltækar upplýsingar sem máli skipta um:
–    brot á ákvæðum þessa viðbætis svo og öðrum reglum á sviði farþegaflutninga milli landa með hópbifreiðum sem flutningafyrirtæki frá öðru aðildarríki fremur á yfirráðasvæði þeirra og viðurlög við þeim;
–    viðurlög sem beitt hefur verið gegn innlendum flutningafyrirtækjum vegna brota sem framin hafa verið á yfirráðasvæði annars aðildarríkis.
2.     Lögbær yfirvöld í aðildarríkinu þar sem viðkomandi flutningafyrirtæki hefur staðfestu skal afturkalla leyfi sitt ef handhafi þess:
–    uppfyllir ekki lengur þau skilyrði sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 13. gr. í viðaukanum;
–    hefur lagt fram rangar upplýsingar varðandi gögnin sem beðið var um vegna útgáfu leyfis aðildarríkis.
3.     Útgáfuyfirvaldið skal afturkalla leyfið ef leyfishafi uppfyllir ekki lengur skilyrðin fyrir útgáfu þess samkvæmt þessum viðbæti, einkum ef lögbær yfirvöld aðildarríkisins þar sem flutningafyrirtækið hefur staðfestu fer fram á það. Útgáfuyfirvaldið skal þegar í stað tilkynna það til lögbærra yfirvalda hinna aðildarríkjanna.

4.     Ef um alvarlegt brot er að ræða eða ítrekuð lítils háttar brot á reglum um umferðaröryggi, einkum brot á reglum sem gilda um ökutæki, akstur og hvíldartíma ökumanna og rekstur án leyfis á hliðstæðri eða tímabundinni þjónustu, sem um getur í lið 2.1 í 1. gr., geta lögbær yfirvöld í aðildarríkinu þar sem flutningafyrirtækið hefur staðfestu meðal annars afturkallað aðildarríkisleyfið eða beitt sér fyrir tímabundinni og/eða takmarkaðri afturköllun á staðfestum endurritum af aðildarríkisleyfinu.

    Slík viðurlög skulu ákveðin í samræmi við það hversu alvarlegt brot handhafa aðildarríkisleyfis telst og hve mörg staðfest endurrit hann hefur undir höndum vegna millilandaflutninganna sem hann stundar.


8. VIÐBÆTIR

SKRÁ YFIR ÁKVÆÐI Í TVÍHLIÐA SAMNINGUM UM FLUTNINGA Á VEGUM, SEM GERÐIR ERU MILLI AÐILDARRÍKJA Í TENGSLUM VIÐ VEITINGU LEYFA TIL FARÞEGAFLUTNINGA Í ÞRÍHLIÐA UMFERÐ



–    Samningur milli ríkisstjórnar Svissneska ríkjasambandsins og Furstadæmisins Liechtenstein um millilandaflutninga á farþegum frá 1. apríl 1999:

    Ákvæði 3. gr.: óreglubundnir farþegaflutningar.
    Ákvæði 4. gr.: reglubundnir farþegaflutningar og flutningar á farþegum sem daglega sækja vinnu eða skóla fjarri heimili.
    Ákvæði 5. gr.: millilandaflutningar.

–    Samningur milli ríkisstjórnar Svissneska ríkjasambandsins og ríkisstjórnar Konungsríkisins Noregs um millilandaflutninga á farþegum og vörum á vegum frá 26. maí 1998:

    Ákvæði 3. gr.: farþegaflutningar.
    Ákvæði 6. gr.: bann við gestaflutningum.


9. VIÐBÆTIR

SKRÁ YFIR ÁKVÆÐI Í TVÍHLIÐA SAMNINGUM SEM GERÐIR ERU MILLI AÐILDARRÍKJA OG FJALLA AÐ ÖLLU LEYTI EÐA AÐ HLUTA UM MÁLEFNI SEM FALLA UNDIR GILDISSVIÐ VIÐAUKANS


–    Samningur milli ríkisstjórnar Svissneska ríkjasambandsins og ríkisstjórnar Konungsríkisins Noregs um millilandaflutninga á farþegum og vörum á vegum frá 26. maí 1998.

–    Tollabandalag við Liechtenstein: samningur milli ríkisstjórnar Svissneska ríkjasambandsins og ríkisstjórnar Furstadæmisins Liechtenstein um aðgang Furstadæmisins Liechtenstein að tollsvæði Sviss frá 29. mars 1923.


–    Samningur milli ríkisstjórnar Svissneska ríkjasambandsins og Furstadæmisins Liechtenstein um millilandaflutninga á farþegum frá 1. apríl 1999.


10. VIÐBÆTIR

LANDAMÆRASVÆÐI SVISS


    Landamærasvæði Sviss er skilgreint í 4. viðauka við fundargerð 5. fundar sameiginlegu nefndarinnar, sem komið var á laggirnar samkvæmt samkomulaginu frá 1992, sem haldinn var í Brussel 2. apríl 1998. Það er yfirleitt innan 10 km frá tollstöð. ( 1 )









1 Hægt er að nálgast þetta skjal í samgönguráðuneyti hvers aðildarríkis.

APPENDIX 4

TYPES OF CARRIAGE EXEMPT FROM ANY SYSTEM OF LICENCES AND
FROM ANY AUTHORISATION


1.    Carriage of mail as a public service.
2.    Carriage of vehicles which have suffered damage or breakdown.
3.    Carriage of goods in motor vehicles the permissible laden weight of which, including that of trailers, does not exceed six tonnes or the permissible payload of which, including that of trailers, does not exceed 3,5 t.
4.    Carriage of goods in motor vehicles provided the following conditions are fulfilled:

    (a)    the goods carried must be the property of the undertaking or must have been sold, bought, let out on hire or hired, produced, extracted, processed or repaired by the undertaking;

    (b)    the purpose of the journey must be to carry the goods to or from the undertaking or to move them, either inside the undertaking or outside for its own requirements;
    (c)    motor vehicles used for such carriage must be driven by employees of the undertaking;

    (d)    the vehicles carrying the goods must be owned by the undertaking or have been bought by it on deferred terms or hired provided that in the latter case they meet the conditions of Council Directive 84/647/EEC of 19 December 1984 on the use of vehicles hired without drivers for the carriage of goods by road, as incorporated in the EEA Agreement and in the Swiss-EC Agreement. This provision shall not apply to the use of a replacement vehicle during a short breakdown of the vehicle normally used;

    (e)    carriage must be no more than ancillary to the overall activities of the undertaking.
5.    Carriage of medicinal products, appliances, equipment and other articles required for medical care in emergency relief, in particular for natural disasters.


APPENDIX 5

LIST OF PROVISIONS CONTAINED IN BILATERAL ROAD TRANSPORT AGREEMENTS CONCLUDED BETWEEN THE MEMBER STATES RELATING TO THE CARRIAGE OF GOODS IN TRIANGULAR TRAFFIC


    Agreement between the Swiss Federal Council and the Government of the Kingdom of Norway on international road passenger and goods transport of 26 May 1998:

    Article 4: carriage of goods.


APPENDIX 6

RULES ON THE WEIGHT LIMIT AND ON THE BAN ON NIGHT AND SUNDAY DRIVING


1.    Exemption from the weight limit during the period ending on 31.12.2004:
    For journeys originating abroad and ending in the Swiss frontier area as defined in Appendix 10 (and vice versa), exceptions are permitted without charge for any goods up to a total 40 t and for 40-foot ISO containers in combined transport up to a total of 44 t. For reasons of road design, certain customs posts apply lower limits.

2.    Other exemptions from the weight limit:
    For journeys originating abroad and ending beyond the Swiss frontier area (and vice versa), and for transit through Switzerland, an actual total laden weight greater than the maximum weight permitted in Switzerland may also be authorised for types of carriage not referred to in Article 8 of the Annex:
    (a)    for the carriage of goods which are indivisible, in cases in which the stipulations cannot be obeyed despite the use of a suitable vehicle;
    (b)    for transfers or for the use of special vehicles, notably working vehicles which, owing to the purpose for which they are used, are not compatible with the provisions regarding weight;
    (c)    for the transport in an emergency of damaged or broken-down vehicles;
    (d)    for the transport of supplies for aircraft catering;
    (e)    haulage by road during the initial and final stages of combined transport, usually within a 30 km radius of the terminal.
3.    Exemption from the ban on night and Sunday driving:
    The following exemptions from the ban on night and Sunday driving are planned:
    (a)    Without special permission
            –    journeys made to provide emergency assistance in case of disasters,
            –    journeys made to provide emergency assistance in the event of accidents, notably public transport and air traffic accidents.
    (b)    With special permission
            For the carriage of goods which, because of their nature, justify night-time haulage and, for genuine reasons, haulage on Sundays:
            –    perishable agricultural products (such as berries, fruit and vegetables, plants (including cut flowers) or freshly squeezed fruit juices), throughout the year,
            –    pigs and chickens for slaughter,
            –    fresh milk and perishable milk products,

            –    circus equipment, musical instruments belonging to an orchestra, theatre props, etc.,
            –    daily newspapers including an editorial component, and postal consignments transported under a legal service requirement.
    To ease approval procedures, authorisations valid for up to twelve months for any number of journeys may be issued, provided all the journeys are of the same nature.

4.    Exemptions from the ban on night driving shall be granted in a non-discriminatory manner and may be obtained from a single office. They shall be granted against payment of a fee to cover the administrative costs.


APPENDIX 7

INTERNATIONAL CARRIAGE OF PASSENGERS BY COACH AND BUS


ARTICLE 1
Definitions

    For the purposes of this Annex, the following definitions shall apply:
1.     Regular services
    1.1.     Regular services are services which provide for the carriage of passengers at specified intervals along specified routes, passengers being taken up and set down at predetermined stopping points. Regular services shall be open to all, subject, where appropriate, to compulsory reservation. An adaptation of the conditions of the carriage of such a service does not affect its character as a regular service.
    1.2.         Services, by whomsoever organised, which provide for the carriage of specified categories of passengers to the exclusion of other passengers, insofar as such services are operated under the conditions specified in 1.1, shall be deemed to be regular services. Such services are hereinafter called 'special regular services'.
                  Special regular services shall include:
                   (a)    the carriage of workers between home and work;
                   (b)    carriage to and from the educational institution for school pupils and students;
                   (c)    the carriage of soldiers and their families between their state of origin and the area of their barracks. The fact that a special service may be varied according to the needs of users shall not affect its classification as a regular service.
    1.3.         The organisation of parallel or temporary services, serving the same public as existing regular services, the non-serving of certain stops and the serving of additional stops on existing regular services shall be governed by the same rules as existing regular services.
2.     Occasional services
    2.1.         Occasional services are services which do not meet the definition of regular services, including special regular services, and which are characterised above all by the fact that they carry groups of passengers assembled at the initiative of the customer or of the carrier himself.


                  The organisation of parallel or temporary services comparable to existing regular services and serving the same public as the latter shall be subject to authorisation in accordance with the procedure laid down in Section I.
    2.2.         The services referred to in point 2 shall not cease to be occasional services solely because they are provided at certain intervals.

    2.3.         Occasional services may be provided by a group of carriers acting on behalf of the same contractor. The names of such carriers and, where appropriate, the connection points en route shall be communicated to the competent authorities of the Member States, in accordance with the procedures to be determined by the Committee.
3.     Own-account transport operations
    Own-account transport operations are those carried out for non-profit-making and non-commercial purposes by a natural or legal person, provided that:
    –    the transport activity is only an ancillary activity for that natural or legal person,
    –    the vehicles used are the property of that natural or legal person, or have been obtained on deferred terms by them or have been the subject of a long-term leasing contract and are driven by that natural or legal person or by a member of their staff.

SECTION I

REGULAR SERVICES SUBJECT TO AUTHORISATION


ARTICLE 2
Nature of the authorisation

1.     Authorisations shall be issued in the name of the transport undertaking; they may not be transferred by the latter to third parties. However, the carrier who has received the authorisation may, with the consent of the authority referred to in paragraph 1 of Article 3 of this Appendix, operate the service through a sub-contractor. In this case, the name of the latter undertaking and its role as sub-contractor shall be indicated in the authorisation. The sub-contractor must fulfil the conditions laid down in Article 13 of the Annex.
    In the case of undertakings associated for the purpose of operating a regular service, the authorisation shall be issued in the names of all the undertakings. It shall be given to the undertaking that manages the operation and copies shall be given to the others. The authorisation shall state the names of all the operators.
2.     The period of validity of an authorisation shall not exceed five years.
3.     Authorisations shall specify the following:
(a)    the type of service;
(b)    the route of the service, in particular the place of departure and the place of destination;
(c)    the period of validity of the authorisation;
(d)    the stops and the timetable.
4.     Authorisations shall conform to the model set out in Regulation (EC) No 2121/98 of 2 October 1998 laying down detailed rules for the application of Council Regulations (EEC) No 684/92 and (EC) No 12/98 as regards documents for the carriage of passengers by coach and bus (Official Journal No. L 268, 03.10.1998, p.10), as incorporated in the EEA Agreement and in the Swiss-EC Agreement.
5.     Authorisations shall entitle their holder(s) to operate regular services in the territories of the Member States.
6.     The operator of a regular service may use additional vehicles to deal with temporary and exceptional situations. In this event, the carrier must ensure that the following documents are on board the vehicle:
–    a copy of the regular service authorisation;
–    a copy of the contract between the operator of the regular service and the firm supplying the additional vehicles, or an equivalent document;
–    a certified copy of the license, issued to the operator of the regular service.

ARTICLE 3
Submission of applications for authorisation

1.     Operators of other Member States than Switzerland applying for authorisation shall submit their applications in accordance with the provisions of Article 6 of Regulation (EEC) No. 684/92, as amended by Regulation (EC) No. 11/98, as incorporated in the EEA Agreement and in the Swiss-EC Agreement on land transport, and Swiss operators applying for authorisation shall submit their applications in accordance with chapter 5 of the Ordinance of 25 November 1998 on concessions for the carriage of passengers (OCTV). In the case of services exempt from authorisation in a Member State but subject to authorisation in another, the operators applying for authorisation shall submit their applications to the competent authorities in the State of departure.
2.     Applications shall conform to the model set out in Regulation (EC) No. 2121/98.
3.     Persons applying for authorisation shall provide any additional information they consider relevant or which is requested by the issuing authority. In particular, applicants should provide a driving schedule which makes it possible to check whether the service complies with legislation on driving and rest periods. Carriers from Member States other than Switzerland should also submit a copy of the Community licence for the international carriage of passengers by road for hire or reward, as provided for in the EEA Agreement, and Swiss carriers a copy of a similar Swiss licence, issued to the operator of the regular service.

ARTICLE 4
Authorising procedure

1.     Authorisations shall be issued in agreement with the competent authorities of the Member States on whose territories passengers are picked up or set down. The issuing authority shall send its assessment to such authorities – as well as to the competent authorities of the Member States whose territories are crossed without passengers being picked up or set down – together with a copy of the application and copies of any other relevant documentation.
2.     The competent authorities of the Member States whose agreement has been requested shall notify the issuing authority of their decision within two months. This time limit shall be calculated from the date of receipt of the request for an opinion which is shown in the acknowledgement of receipt. If, within this period, the issuing authority has received no reply, the authorities consulted shall be deemed to have given their agreement, and the issuing authority shall issue the authorisation.
3.     Subject to paragraphs 7 and 8, the issuing authority shall take a decision within four months of the date on which the carrier submits the application.
4.     Authorisation shall be granted unless:
(a)    the applicant is unable to provide the service which is the subject of the application with equipment directly available to him
(b)    in the past, the applicant has failed to comply with national or international legislation on road transport, and in particular the conditions and requirements relating to authorisations for international road passenger services, or has committed serious breaches of legislation in regard to road safety, in particular the rules applicable to vehicles and driving and rest periods for drivers;
(c)    in the case of an application for renewal of an authorisation, the authorisation conditions have not been met;
(d)    it is shown that the service being applied for would directly compromise the existence of regular services already authorised, except in cases where the regular services in question are provided by a single carrier or group of carriers only;
(e)    it appears that the applicant intends to operate only the most profitable of the existing services on the routes concerned;
(f)    the competent authority of a Member State decides, on the basis of a detailed analysis, that the said service would seriously affect the viability of a comparable rail service on the direct sections concerned. All decisions taken under this provision, and the reasons for those decisions, shall be notified to the carriers concerned. From 1 January 2000, where an existing international coach or bus service is seriously affecting the viability of a comparable rail service on the direct sections concerned, the competent authority of a Member State may, with the agreement of the Committee, suspend or withdraw the authorisation to operate the international coach or bus service after giving the carrier six months' notice. The fact that a carrier offers lower prices than are offered by other road carriers, or that the route in question is already being operated by other road carriers, may not in itself constitute justification for refusing the application.

5.     The issuing authority may refuse applications only for reasons compatible with the Annex.
6.     If the procedure for reaching the agreement referred to in paragraph 1 does not result in an agreement being reached, the matter may be referred to the Committee.
7.     The Committee shall, as swiftly as possible, take a decision which shall take effect within 30 days of its being notified to the Member States concerned.

8.     Once the procedure laid down in this Article has been completed, the issuing authority shall inform all the authorities referred to in paragraph 1 and shall, where appropriate, send them a copy of the authorisation.

ARTICLE 5
Issuing and renewing authorisations

1.     Once the procedure laid down in Article 4 has been completed, the issuing authority shall either grant the authorisation or shall formally refuse the application.
2.     A decision refusing an application must state the reasons for that refusal. The Member States shall ensure that carriers have the opportunity to invoke their rights if their application is refused.
3.     Article 4 of this Appendix shall apply, mutatis mutandis, to applications for the renewal of authorisations or for alteration of the conditions under which the services subject to authorisation must be operated. In the event of a minor alteration to the operating conditions, in particular the adjustment of fares or timetables, the issuing authority need only supply the information in question to the competent authorities of the other Member State.

ARTICLE 6
Lapse of an authorization

    The procedure to be followed in respect of the lapse of an authorisation shall be as laid down in Article 9 of Regulation (EEC) No. 684/92, as incorporated in the EEA Agreement, and in Article 44 of the OCTV.

ARTICLE 7
Obligations of carriers

1.     Save in the event of force majeure, the operator of a regular service shall, until the authorisation expires, take all measures to guarantee a transport service that meets the required standards of continuity, regularity and capacity and complies with the other conditions laid down by the competent authority in accordance with paragraph 3 of Article 2 of this Appendix.
2.     The carrier shall publish the route of the service, the stops, the timetable, the fares and the conditions of carriage – insofar as these are not laid down by law – in such a way as to ensure that this information is readily available to all users.
3.     It shall be possible for the Member States concerned, by common agreement and in agreement with the holder of the authorisation, to make changes to the operating conditions governing a regular service.

SECTION II

OCCASIONAL SERVICES AND OTHER SERVICES EXEMPT FROM AUTHORISATION


ARTICLE 8
Control document

1.     The services referred to in paragraph 1 of Article 14 of the Annex shall be carried out under cover of a control document (journey form).
2.     A carrier operating occasional services must fill out a journey form before each journey.
3.     The books of journey forms shall be supplied by the competent authorities of the Member States where the carrier is established or by bodies appointed by those authorities.
4.     The model for the control document and the way in which it is to be used shall be as laid down in Regulation (EC) No 2121/98.

Article 9
Certificate

    The certificate referred to in paragraph 6 of Article 14 of this Appendix shall be issued by the competent authority of the Member State where the vehicle is registered. It shall conform to the model set out in Regulation (EC) No 2121/98.

SECTION III

CONTROLS AND PENALTIES


ARTICLE 10
Transport tickets

1.     Passengers using a regular service, excluding special regular services, shall throughout their journey possess transport tickets, either individual or collective, which indicate:


–    the places of departure and destination and, where appropriate, the return journey;
–    the period of validity of the ticket;
–    the fare.
2.     The transport ticket provided for in paragraph 1 shall be presented at the request of any authorised inspecting officer.

ARTICLE 11
Inspections on the road and in undertakings

1.     In the case of carriage for hire or reward, the following documents must be carried on board the vehicle and must be presented at the request of any authorised inspecting officer: a certified true copy of a Member State licence, depending on the type of service, either the authorisation (or a certified copy thereof) or the journey form. In the case of own-account transport operations, the certificate (or a certified copy thereof) must be carried on board the vehicle and must be presented at the request of any authorised inspecting officer. In the case of the services covered by Article 14(2) of this Appendix the contract or a certified true copy of it shall serve as a control document.
2.     Carriers operating coaches and buses in international passenger transport shall allow all inspections intended to ensure that operations are being conducted correctly, in particular as regards driving and rest periods.

ARTICLE 12
Mutual assistance

1.     The competent authorities of the Member States shall, on request, provide each other with any relevant information in their possession concerning:
–    breaches of this Appendix, and of other rules governing the international carriage of passengers by coach or bus, committed in their territory by a carrier from another Member State, and the penalties imposed;
–    the penalties imposed on their own carriers for breaches committed on the other Member State's territory.
2.     The competent authorities of the Member State in which the carrier is established shall withdraw a Member State licence if the holder:
–    no longer meets the conditions laid down in paragraph 1 of Article 13 of the Annex;
–    has provided inaccurate information on the data needed for issuing the Member State licence.

3.     The issuing authority shall withdraw an authorisation if the holder no longer meets the conditions for issuing that authorisation under this Appendix, in particular if the competent authorities of the Member State in which the carrier is established request such withdrawal. The issuing authority shall immediately inform the competent authorities of the other Member States.
4.     If a carrier commits a serious breach or repeatedly commits minor breaches of transport regulations and road safety rules, in particular the rules applicable to vehicles, driving and rest periods for drivers and the unauthorised operation of the parallel or temporary services referred to in Article 1, point 2.1, the competent authorities of the Member State in which that carrier is established may, in particular, withdraw his Member State licence, or may temporarily and/or partially withdraw the certified copies of his Member State licence.
    These penalties shall be determined according to the seriousness of the offence committed by the holder of the Member State licence, and according to the total number of certified copies he possesses in connection with his international transport operations.

APPENDIX 8

LIST OF PROVISIONS CONTAINED IN BILATERAL ROAD TRANSPORT AGREEMENTS CONCLUDED BETWEEN THE MEMBER STATES RELATING TO THE GRANTING OF AUTHORIZATIONS FOR THE CARRIAGE OF PASSENGERS IN TRIANGULAR TRAFFIC


–    Agreement between the Swiss Federal Council and the Government of the Principality of Liechtenstein on international road passenger transport of 1 April 1999:

    Article 3: occasional carriage of passengers.
    Article 4: regular and commuter carriage of passengers.

    Article 5: international transport.

–    Agreement between the Swiss Federal Council and the Government of the Kingdom of Norway on international road passenger and goods transport of 26 May 1998:

    Article 3: carriage of passengers.
    Article 6: prohibition of cabotage.


APPENDIX 9

LIST OF BILATERAL AGREEMENTS CONCLUDED BETWEEN THE MEMBER STATES ADDRESSING IN WHOLE OR IN PART ISSUES FALLING WITHIN THE SCOPE OF THE ANNEX


–    Agreement between the Swiss Federal Council and the Government of the Kingdom of Norway on international road passenger and goods transport of 26 May1998.

–    Customs Union with Liechtenstein: Agreement between the Swiss Federal Council and the Government of the Principality of Liechtenstein regarding the entry of the Principality of Liechtenstein into the Swiss customs area of 29 March 1923.

–    Agreement between the Swiss Federal Council and the Government of the Principality of Liechtenstein on international road passenger transport of 1 April 1999.


APPENDIX 10

SWISS FRONTIER AREA


    Switzerland's frontier area is defined in Annex 4 to the minutes of the 5th meeting of the joint committee set up under the 1992 Agreement, held in Brussels on 2 April 1998. It is generally an area within 10 km radius of a customs post. 1









1 This document is available at the Ministry of Transport of each Member State.

VIÐAUKI Q

Flutningar í lofti (29. gr.)


1. gr.
Gildissvið

    Í viðauka þessum eru settar fram reglur aðildarríkjanna um flutninga í lofti og skulu þær gilda að því marki sem þær varða flutninga í lofti eða málefni sem tengjast flutningum í lofti með beinum hætti og um getur í viðbætinum við þennan viðauka.

2. gr.
Bann við mismunun

    Banna skal mismunun á grundvelli þjóðernis að því er gildissvið þessa viðauka varðar, samanber þó sérákvæði hans.


3. gr.
Staðfesturéttur

1.     Engar takmarkanir skulu vera á staðfesturétti ríkisborgara aðildarríkis á yfirráðasvæði annars aðildarríkis að því er gildissvið þessa viðauka varðar, með fyrirvara um ákvæði reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 2407/92, sem er að finna í viðbætinum við þennan viðauka. Hið sama gildir einnig þegar ríkisborgarar aðildarríkis, sem hafa staðfestu á yfirráðasvæði annars aðildarríkis, stofna umboð, útibú eða dótturfyrirtæki. Staðfesturéttur felur í sér rétt til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi og til að stofna og reka fyrirtæki, einkum félög eða fyrirtæki í skilningi 2. mgr. 4. gr., með þeim skilyrðum sem gilda að landslögum um ríkisborgara þess ríkis þar sem staðfestan er fengin.


2.     Ákvæði þessa viðauka skulu gilda að því marki sem engar takmarkanir fyrirfinnast samkvæmt viðauka L, viðauka M og bókuninni við viðauka K um ferðir einstaklinga milli Liechtenstein og Sviss.


4. gr.
Félög eða fyrirtæki

1.     Með félög eða fyrirtæki sem stofnuð eru í samræmi við lög aðildarríkis og hafa skráða skrifstofu, yfirstjórn eða aðalstarfsstöð á yfirráðasvæði aðildarríkis skal farið, að því er gildissvið þessa viðauka varðar, á sama hátt og einstaklinga sem eru ríkisborgarar aðildarríkjanna.

2.     Með félögum og fyrirtækjum er átt við félög og fyrirtæki, stofnuð á grundvelli einkamálaréttar eða verslunarréttar, þar með talin samvinnufélög, svo og aðrar lögpersónur sem lúta allsherjarrétti eða einkamálarétti, að frátöldum þeim sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.

5. gr.
Undantekningar

1.     Ákvæði 3. og 4. gr. gilda ekki um starfsemi sem í aðildarríki fellur undir meðferð opinbers valds, jafnvel þótt svo sé aðeins í einstökum tilvikum..

2.     Ákvæði 3. og 4. gr. og ráðstafanir í samræmi við þau útiloka ekki að beitt verði ákvæðum í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum um sérstaka meðferð á erlendum ríkisborgurum er grundvallast á sjónarmiðum um allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði.

6. gr.
Ríkisaðstoð

1.     Ef ekki er kveðið á um annað í viðauka þessum er hvers kyns aðstoð sem eitt eða fleiri aðildarríki veitir eða veitt er af ríkisfjármunum og raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðsluvörum, ósamrýmanleg þessum viðaauka, að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli aðildarríkjanna.

2.     Eftirtalið samrýmist þessum viðauka:

a)    aðstoð af félagslegum toga sem veitt er einstökum neytendum, enda sé hún veitt án mismununar með tilliti til uppruna viðkomandi framleiðsluvara;
b)    aðstoð sem veitt er til að bæta tjón af völdum náttúruhamfara eða óvenjulegra atburða.
3.     Eftirtalið getur talist samrýmanlegt þessum viðauka:
a)    aðstoð til að efla hagþróun á svæðum þar sem lífskjör eru óvenju bágborin eða atvinnuleysi er mikið;
b)    aðstoð til að hrinda í framkvæmd mikilvægum verkefnum, sem þjóna sameiginlegum evrópskum hagsmunum, eða ráða bót á alvarlegri röskun á efnahagslífi aðildarríkis;
c)    aðstoð til að greiða fyrir þróun ákveðinna greina efnahagslífsins eða ákveðinna efnahagssvæða enda hafi hún ekki svo óhagstæð áhrif á viðskiptaskilyrði að stríði gegn sameiginlegum hagsmunum.

7. gr.
Eftirlit

    Lögbær yfirvöld skulu fylgjast stöðugt með aðstoðarkerfum sem eru við lýði í hlutaðeigandi aðildarríki. Ef hafin er málsmeðferð til að tryggja að reglum 6. gr. sé hlítt skal sérhvert hlutaðeigandi aðildarríki sjá til þess að hinum aðildarríkjunum sé tilkynnt þar um og, ef nauðsyn ber til, er þeim heimilt að leggja fram athugasemdir áður en lokaákvörðun er tekin. Fari eitt aðildarríki fram á það skal ráðið fjalla um allar viðeigandi ráðstafanir sem gera þarf með hliðsjón af markmiði og framkvæmd þessa viðauka.

8. gr.
Fyrirliggjandi tvíhliða samningar

1.     Ákvæðin um flugréttindi, sem um getur í viðbætinum, leysa af hólmi viðkomandi ákvæði í fyrirliggjandi tvíhliða samningum milli aðildarríkjanna. Þó er heimilt að nýta áfram flugréttindi sem rekja má til þessara tvíhliða samninga og falla ekki undir þessi ákvæði, að því tilskildu að ekki sé um mismunun að ræða á grundvelli þjóðernis eða röskun á samkeppni.


2.     Með fyrirvara um 1.mgr. skal þessi viðauki leysa af hólmi viðkomandi ákvæði í gildandi tvíhliða samningum milli aðildarríkjanna um málefni sem falla undir þennan viðauka.

9. gr.
Nefnd

1.     Ráðið skal koma á fót nefnd um flutninga í lofti, sem skal vera ábyrg fyrir meðferð og réttri beitingu á ákvæðum þessa viðauka.
2.     Nefndin skal koma með tilmæli þar að lútandi.

3.     Hún getur einkum beint þeim tilmælum til ráðsins að breyta ákvæðum viðbætisins.
4.     Að því er varðar rétta framkvæmd á ákvæðum þessa viðauka skulu aðildarríkin skiptast á upplýsingum og, fari eitt aðildarríki fram á slíkt, halda viðræðufundi innan nefndarinnar.

10. gr.
Áunnin réttindi

1.     Komi til uppsagnar þessa samnings eða afturköllunar aðildarríkis er heimilt, uns viðkomandi áætlunartímabili lýkur, að halda áfram flugþjónustu sem er rekin á þeim degi þegar samningurinn fellur úr gildi eða þegar aðild tekur gildi.

2.     Uppsögn eða afturköllun þessa samnings skal ekki hafa áhrif á áunnin réttindi og skuldbindingar fyrirtækja með skírskotun til 3. og 4. gr. þessa viðauka og reglna reglugerðar ráðsins (EBE) nr.2407/92, sem er að finna í viðbætinum við þennan viðauka.


VIÐBÆTIR


Að því er þennan viðbæti varðar:

–    ef gerðir, sem um getur í þessum viðbæti, innihalda tilvísanir til aðildarríkja Evrópubandalagsins eða kröfu um tengsl við Evrópubandalagið ber að skilja tilvísanirnar þannig, að því er þennan viðauka varðar, að þær gildi jafnt um aðildarríkin eða um kröfuna um tengsl við eitt þeirra;


–    heitið „bandalagsflugfélag“, sem um getur í eftirtöldum tilskipunum og reglugerðum, ber að skilja þannig að það merki flugfélag sem hefur leyfi og aðalstarfsstöð sína og skráða skrifstofu, ef um hana er að ræða, í einu aðildarríkjanna samkvæmt ákvæðum reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 2407/92.

Að svo miklu leyti sem beiting ákvæða viðaukans tekur til sameiginlegra hugtaka í lagagerningunum sem um getur í þessum viðbæti, ber að taka tillit til viðeigandi fordæmisréttar fyrir 21. júní 1999. Til að tryggja góða framkvæmd þessa viðauka skal ráðið, að beiðni hvaða aðildarríkis sem er, ákvarða áhrif fordæmisréttar eftir 21. júní 1999.

1.     Þriðji flugmálapakkinn um afnám hafta og aðrar reglur um almenningsflug

     Nr. 2407/92
    Reglugerð ráðsins frá 23. júlí 1992 um veitingu flugrekstrarleyfa til handa flugfélögum.
    (1.–18. gr.; að því er varðar beitingu 3. mgr. 13. gr. ber að skilja tilvísunina til 169. gr. EB sáttmálans sem tilvísun til gildandi málsmeðferðar samkvæmt þessum viðauka)

     Nr. 2408/92
    Reglugerð ráðsins frá 23. júlí 1992 um aðgang bandalagsflugfélaga að flugleiðum innan bandalagsins.
    (1.–10. gr., 12.–15. gr.)

    Að því er þennan samning varðar lesist ákvæði reglugerðarinnar með eftirfarandi lagfæringu:


    Viðaukarnir við reglugerðina skulu einungis taka til flugvalla í EFTA-ríkjunum.

     Nr. 2409/92
    Reglugerð ráðsins frá 23. júlí 1992 um fargjöld og farmgjöld í flugþjónustu.
    (1.–11. gr.)

     Nr. 295/91
    Reglugerð ráðsins frá 4. febrúar 1991 um sameiginlegar reglur um skaðabætur til handa farþegum sem er vísað frá vegna umframskráningar í áætlunarflugi.
    (1.–9. gr.)

     Nr. 2299/89
    Reglugerð ráðsins frá 24. júlí 1989 um starfsreglur fyrir notkun tölvufarskráningarkerfa, eins og henni var breytt með reglugerð ráðsins nr. 3089/93.
    (1.–22. gr.)

     Nr. 3089/93
    Reglugerð ráðsins frá 29. október 1993 um breytingu á reglugerð (EBE) nr. 2299/89 um starfsreglur fyrir notkun tölvufarskráningarkerfa.
    (1. gr.)

     Nr. 80/51
    Tilskipun ráðsins frá 20. desember 1979 um takmörkun á hávaða frá loftförum sem fljúga undir hljóðhraða, eins og henni var breytt með tilskipun 83/206/EBE.
    (1.–9. gr.)

     Nr. 89/629
    Tilskipun ráðsins frá 4. desember 1989 um takmörkun á hávaða frá almennum þotum sem fljúga undir hljóðhraða.
    (1.–8. gr.)

     Nr. 92/14
    Tilskipun ráðsins frá 2. mars 1992 um skorður við notkun flugvéla sem falla undir 1. bindi, II. hluta, 2. kafla í 16. viðauka samþykktar um alþjóðaflugmál, 2. útg. (1988).
    (1.–11. gr.)


     Nr. 91/670
    Tilskipun ráðsins frá 16. desember 1991 um gagnkvæma viðurkenningu á flugstarfaskírteinum.
    (1.–8. gr.)

     Nr. 95/93
    Reglugerð ráðsins frá 18. janúar 1993 um sameiginlegar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á bandalagsflugvöllum.
    (1.–12. gr.)

     Nr. 96/67
    Tilskipun ráðsins frá 15. október 1996 um aðgang að flugafgreiðslumarkaðinum á flugvöllum bandalagsins.
    (1.–9. gr., 11.–23. gr., 25. gr.)

     Nr. 2027/97
    Reglugerð ráðsins frá 9. október 1997 um bótaábyrgð flugfélaga vegna slysa.
    (1.–8. gr.)

     Nr. 323/1999
    Reglugerð ráðsins frá 8. febrúar 1999 um breytingu á reglugerð (EBE) nr. 2229/89 um starfsreglur fyrir notkun tölvufarskráningarkerfa.
    (1. og 2. gr.)


2.      Tæknileg samhæfing

     Nr. 3922/91
    Reglugerð ráðsins frá 16. desember 1991 um samræmingu á tæknikröfum og stjórnsýslumeðferð á sviði flugmála.
    (1.–3. gr., 2. mgr. 4. gr., 5.–11. gr., 13. gr.)


     Nr. 93/65
    Tilskipun ráðsins um skilgreiningu og notkun samhæfðra tækniforskrifta vegna kaupa á búnaði og kerfum fyrir flugumferðarþjónustu.
    (1.–5. gr., 7.–10. gr.)


    Að því er þennan samning varðar lesist ákvæði tilskipunarinnar með eftirfarandi lagfæringu:


    Viðaukann ber að lagfæra þannig að hann taki til stofnana í EFTA-ríkjum sem falla undir 5. gr.

     Nr. 97/15
    Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar frá 25. mars 1997 um samþykkt staðla sem Evrópustofnun um flugumferðaröryggi hefur samið og breytingu á tilskipun ráðsins 93/65/EBE um skilgreiningu og notkun samhæfðra tækniforskrifta vegna kaupa á búnaði og kerfum fyrir flugumferðarþjónustu.
    (1.–4. gr., 6. gr.)

3.      Flugöryggi

     Nr. 94/56
    Tilskipun ráðsins frá 21. nóvember 1994 um setningu grundvallarreglna við rannsóknir á slysum og óhöppum í almenningsflugi.
    (1.–13. gr.)


4.      Aðrar

     Nr. 90/314
    Tilskipun ráðsins frá 13. júní 1990 um ferðapakka, orlofspakka og skoðunarferðapakka.
    (1.–10. gr.)

     Nr. 93/13
    Tilskipun ráðsins frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum.
    (1.–11. gr.)

ANNEX Q

Air transport (Art. 29)


ARTICLE 1
Scope

    This Annex sets out rules for the Member States in the field of air transport and shall apply to the extent that they concern air transport or matters directly related to air transport as mentioned in the Appendix to this Annex.

ARTICLE 2
Non-discrimination

    Within the scope of this Annex, and without prejudice to any special provisions contained therein, any discrimination on grounds of nationality shall be prohibited.

ARTICLE 3
Freedom of establishment

1.     Within the scope of this Annex and without prejudice to the provisions of Council Regulation (EEC) No 2407/92, as included in the Appendix to this Annex, there shall be no restrictions on the freedom of establishment of nationals of a Member State in the territory of another Member State. This shall also apply to the setting up of agencies, branches and subsidiaries by nationals of a Member State established in the territory of another Member State. Freedom of establishment shall include the right to take up and pursue activities as self-employed persons and to set up and manage undertakings, in particular companies or firms within the meaning of paragraph 2 of Article 4 under the conditions laid down for its own nationals by the law of the State where such establishment is effected.
2.     The provisions of this Article shall apply to the extent that no restrictions exist according to Annexes L and M and the Protocol to Annex K on movement of persons between Liechtenstein and Switzerland.

ARTICLE 4
Companies or firms

1.     Within the scope of this Annex, companies or firms formed in accordance with the law of a Member State and having their registered office, central administration or principal place of business in the territory of Member State shall be treated in the same way as natural persons who are nationals of a Member State.
2.     “Companies or firms” means companies or firms constituted under civil or commercial law, including co-operative societies, and other legal persons governed by public or private law, save for those which are non-profit-making.


ARTICLE 5
Exceptions

1.     Articles 3 and 4 shall not apply, as far as a Member State is concerned, to activities which in that Member State are connected, even occasionally, with the exercise of official authority.
2.     Articles 3 and 4 and measures taken in pursuance thereof shall not prejudice the applicability of provisions laid down by law, regulation or administrative action providing for special treatment for foreign nationals on grounds of public policy, public security or public health.

ARTICLE 6
State aid

1.     Save as otherwise provided in this Annex, any aid granted by one or several Member States or through State resources in any form whatsoever which distorts or threatens to distort competition by favouring certain undertakings or the production of certain goods shall, insofar as it affects trade between Member States, be incompatible with this Annex.
2.     The following shall be compatible with this Annex:
(a)    aid having a social character, granted to individual consumers, provided that such aid is granted without discrimination related to the origin of the products concerned;
(b)    aid to make good the damage caused by natural disasters or exceptional occurrences.
3.     The following may be considered to be compatible with this Annex:
(a)    aid to promote the economic development of areas where the standard of living is abnormally low or where there is serious under-employment;
(b)    aid to promote the execution of an important project of common European interest or to remedy a serious disturbance in the economy of a Member State;
(c)    aid to facilitate the development of certain economic activities or of certain economic areas, where such aid does not adversely affect trading conditions to an extent contrary to the common interest.

ARTICLE 7
Surveillance

    The competent authorities shall keep under constant review all systems of aid existing respectively in the Member State concerned. Each Member State shall ensure that the other Member States are informed of any procedure initiated to guarantee respect of the rules of Article 6 and, if necessary, may submit observations before any final decision is taken. Upon request by one Member State, the Council shall discuss any appropriate measures required by the purpose and functioning of this Annex.


ARTICLE 8
Existing bilateral agreements

1.     The provisions concerning traffic rights, referred to in the Appendix, supersede the relevant provisions of existing bilateral arrangements between the Member States. However, existing traffic rights which originate from these bilateral arrangements and which are not covered under these provisions can continue to be exercised, provided that there is no discrimination on the grounds of nationality and competition is not distorted.
2.     Without prejudice to paragraph 1, this Annex shall supersede the relevant provisions of bilateral arrangements in force between the Member States concerning any matter covered by this Annex.

ARTICLE 9
Committee

1.     The Council shall establish a Committee on air transport, which shall be responsible for the management and proper application of this Annex.
2.     For this purpose, the Committee shall make recommendations.
3.     It may in particular recommend to the Council to amend the provisions of the Appendix.
4.     For the purpose of the proper implementation of this Annex, the Member States shall exchange information and, at the request of one Member State, shall hold consultations within the Committee.

ARTICLE 10
Acquired rights

1.     In the event of termination of this Convention or the withdrawal of a Member State, air services operated at the date of the expiry of the Convention or when the secession becomes effective may continue until the end of the scheduling season into which that date falls.
2.     The rights and obligations acquired by undertakings by virtue of Articles 3 and 4 of this Annex and of the rules of Council Regulation (EEC) No 2407/92 as included in the Appendix to this Annex, shall not be affected by the termination of or withdrawal from this Convention.


APPENDIX


For the purposes of this Appendix:

–    wherever acts referred to in this Appendix contain references to Member States of the European Community, or a requirement for a link with the latter, the references shall, for the purpose of the Annex, be understood to apply equally to the Member States or to the requirement of a link with one of the Member States;

–    the term “Community air carrier” referred to in the following Community directives and regulations shall be understood to mean an air carrier which is licensed and has its principal place of business and, if any, its registered office in one of the Member States according to the provisions of Council Regulation (EEC) No 2407/92.

Insofar as the application of the Annex involves common concepts of the legal instruments referred to in this Appendix, account shall be taken of relevant case-law prior to 21 June 1999. In order to ensure the good functioning of this Annex, the Council shall, at the request of any Member State, determine the implications of case-law after 21 June 1999.

1.     Third aviation package of liberalisation and other civil aviation rules

     No 2407/92
    Council Regulation of 23 July 1992 on licensing of air carriers.
    (Articles 1–18; as regards the application of Article 13(3), the reference to Article 169 of the EC Treaty shall be understood to mean a reference to the applicable procedures of this Annex)

     No 2408/92
    Council Regulation of 23 July 1992 on access for Community air carriers to intra-Community air routes.
    (Articles 1–10, 12–15)

    The provisions of the Regulation shall, or the purposes of this Convention, be read with the following adaptation:

    The Annexes to the Regulation shall include only airports in the EFTA States.

     No 2409/92
    Council Regulation of 23 July 1992 on fares and rates for air services.
    (Articles 1–11)

     No 295/91
    Council Regulation of 4 February 1991 establishing common rules for a denied-boarding compensation system in scheduled air transport.
    (Articles 1–9)


     No 2299/89
    Council Regulation of 24 July 1989 introducing a code of conduct for computer reservation systems, as amended by Council Regulation No 3089/93.
    (Articles 1–22)

     No 3089/93
    Council Regulation of 29 October 1993 amending Regulation (EEC) No 2299/89 on a code of conduct for computerised reservation systems.
    (Article 1)

     No 80/51
    Council Directive of 20 December 1979 on the limitation of noise emissions from subsonic aircraft, as amended by Directive 83/206/EEC.
    (Articles 1–9)


     No 89/629
    Council Directive of 4 December 1989 on the limitation of noise emissions from civil subsonic jet aeroplanes.
    (Articles 1–8)

     No 92/14
    Council Directive of 2 March 1992 on the limitation of the operation of aeroplanes covered by Part III, Chapter 2, Volume I of Annex 16 to the Convention of International Civil Aviation, second edition (1988).
    (Articles 1–11)

     No 91/670
    Council Directive of 16 December 1991 on mutual acceptance of personnel licences for the exercise of functions in civil aviation.
    (Articles 1–8)

     No 95/93
    Council Regulation of 18 January 1993 on common rules for the allocation of slots at Community airports.
    (Articles 1–12)

     No 96/67
    Council Directive of 15 October 1996 on access to the groundhandling market at Community airports.
    (Articles 1–9, 11–23, 25)

     No 2027/97
    Council Regulation of 9 October 1997 on air carrier liability in the event of accidents.
    (Articles 1–8)

     No 323/1999
    Council Regulation of 8 February 1999 amending Regulation (EEC) No 2229/89 on a code of conduct for computer reservation systems (CRSs).
    (Articles 1 and 2)

2.      Technical Harmonisation

    No 3922/91
    Council Regulation of 16 December 1991 on the harmonisation of technical requirements and administrative procedures in the field of civil aviation.
    (Articles 1–3, 4(2), 5–11, 13)

     No 93/65
    Council Directive on the definition and the use of compatible technical and operating specifications for the procurement of air traffic management equipment and systems.
    (Articles 1–5, 7–10)

    The provisions of the Directive shall, for the purposes of this Convention, be read with the following adaptation:

    The Annex should be adapted to include organisations in the EFTA States covered by Article 5.

     No 97/15
    Commission Directive of 25 March 1997 adopting Eurocontrol standards and amending Council Directive 93/65/EEC on the definition and use of compatible technical specifications for the procurement of air-traffic-management equipment and systems.
    (Articles 1–4, 6)

3.      Air Safety

    No 94/56
    Council Directive of 21 November 1994 establishing the fundamental principles governing the investigation of civil aviation accidents and incidents.
    (Articles 1–13)

4.      Others

    No 90/314
    Council Directive of 13 June 1990 on package travel, package holidays and package tours.
    (Articles 1–10)

     No 93/13
    Council Directive of 5 April 1993 on unfair terms in consumer contracts.
    (Articles 1–11)

VIÐAUKI R

Opinber innkaup (37. gr.)


1. gr.
Gildissvið

    Aðgangur birgja og þjónustuveitenda aðildarríkjanna að kaupum á vöru og þjónustu, meðal annars byggingarþjónustu, járnbrautarfyrirtækja, stofnana á sviði orkumála, að frátöldum rafmagnsveitum, og einkarekinna þjónustustofnana á sviði vatnsveitu, raforku, samgangna í þéttbýli, höfnum og flughöfnum aðildarríkjanna skal vera í samræmi við ákvæði þessa viðauka.

2. gr.
Skilgreiningar

    Í þessum viðauka:
a)    er með hugtakinu „járnbrautarfyrirtæki“ („ROs“) átt við samningsaðila sem eru annaðhvort opinber yfirvöld eða opinber fyrirtæki eða starfa á grundvelli sérréttinda eða einkaleyfis, sem lögbær yfirvöld í einu af aðildarríkjunum hafa veitt, og reka meðal annars kerfi til að þjóna almenningi með flutningum á járnbrautum;


b)    er með hugtakinu „stofnanir á sviði orkumála, að frátöldum rafmagnsveitum“ átt við samningsstofnanir sem eru annaðhvort opinber yfirvöld eða opinber fyrirtæki eða starfa á grundvelli sérréttinda eða einkaleyfis, sem lögbær yfirvöld í einu af aðildarríkjunum hafa veitt, og reka meðal annars einhverja starfsemi sem um getur í i- og ii-lið, sem hér fara á eftir, eða einhverja samsetningu þeirra:
    i)        veita aðgang að föstum netum eða starfrækja föst net sem ætlað er að þjóna almenningi með framleiðslu, flutningi eða dreifingu á gasi eða hita eða með því að veita gasi eða hita til slíkra kerfa; eða
    ii)    nýta landsvæði í því skyni að að leita að eða vinna olíu, gas, kol eða annað fast eldsneyti1;



1 Í kjölfar breytinga á innlendum reglum um innkaup stofnana í Noregi, með setningu annars konar reglna til að tryggja að samningsaðilar, sem nýta olíu eða gas, geri samninga sem eru án mismununar, gagnsæir og samkeppnishæfir, Noregur er undanþeginn beitingu allra málsmeðferðarreglna í viðkomandi tilskipun (tilskipun ráðsins 93/38/EBE frá 14. júní 1993 um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti) gagnvart aðilum sem nýta landsvæði í því skyni að að leita að eða vinna olíu eða gas. Undanþágan var veitt að beiðni Noregs, eftir að ESA hafði ályktað að
c)    er með hugtakinu „einkareknar þjónustustofnanir“ átt við samningsstofnanir sem falla ekki undir samninginn um opinber innkaup2 en starfa á grundvelli sérréttinda eða einkaleyfis, sem lögbær yfirvöld í einu af aðildarríkjunum hafa veitt, og reka meðal annars einhverja starfsemi sem um getur í i-lið til v-liðar, sem hér fara á eftir, eða einhverja samsetningu þeirra:
    i)        veita aðgang að föstum netum eða starfrækja föst net sem ætlað er að þjóna almenningi með öflun, flutningi eða dreifingu drykkjarvatns eða með því að veita vatni til slíkra kerfa;
    ii)    veita aðgang að föstum netum eða starfrækja föst net sem ætlað er að þjóna almenningi með framleiðslu, flutningi eða dreifingu rafmagns eða með því að veita rafmagni til slíkra kerfa;
    iii)    veita flugfélögum aðgang að flugvelli eða annarri stöðvaraðstöðu;
    iv)    veita flytjendum á sjó eða innlendum vatnaleiðum aðgang að höfn við sjó eða vatn eða annarri stöðvaraðstöðu;
    v)    starfrækja samgöngukerfi sem þjóna almenningi í þéttbýli með járnbrautum, sjálfvirkum kerfum, sporvögnum, rafknúnum strætisvögnum, hópbifreiðum eða togbrautum;
d)    gildir viðauki þessi um lög, reglugerðir eða starfshætti varðandi innkaup járnbrautarfyrirtækja aðildarríkjanna, stofnana á sviði orkumála, að frátöldum rafmagnsveitum, og einkarekinna þjónustustofnana (hér á eftir nefndar „tilgreindar stofnanir“), sem eru skilgreindar í þessari grein og tilgreindar í 1. til 9. viðbæti við þennan viðauka, og um alla innkaupasamninga sem slíkar tilgreindar stofnanir bjóða út og gera.

3. gr.
Samkeppni

    Viðauki þessi gildir ekki um samninga sem járnbrautarfyrirtæki, stofnanir á sviði orkumála, að frátöldum rafmagnsveitum, og einkaaðilar bjóða út og gera, um leið og takmörkunum hefur verið aflétt í þessum geirum, vegna kaupa sem eingöngu eru ætluð til að gera þeim kleift að veita eina eða fleiri tegundir þjónustu þar sem öðrum stofnunum er frjálst


Noregur hefði lögleitt með réttum hætti tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/22/EB frá 30. maí 1994 um skilyrði fyrir veitingu og notkun leyfa til að leita að, rannsaka og vinna kolvatnsefni, sem er forsenda fyrir veitingu slíkrar undanþágu.



2 Eins og hann er 21. júní 2001.
að bjóða sömu þjónustu á sama landsvæði og með skilyrðum sem eru efnislega þau sömu. Sérhvert aðildarríki skal tilkynna hinum aðildarríkjunum tafarlaust um slíka samninga.

4. gr.
Þjónusta

    Þjónusta, þar með talin byggingarþjónusta, sem viðauki þessi gildir um er skráð í 10. og 11. viðbæti við þennan viðauka.

5. gr.
Viðmiðunarmörk

    Viðauki þessi gildir um samninga, eða röð samninga, þegar áætluð samningsfjárhæð að frádregnum virðisaukaskatti er ekki minni en:
a)    sem boðnir eru út og gerðir af járnbrautarfyrirtækjum og stofnunum á sviði orkumála, að frátöldum rafmagnsveitum:
    400 000 evrur þegar um er að ræða vörukaup og þjónustu;
    5 000 000 evrur þegar um er að ræða verkframkvæmdir;
b)    sem boðnir eru út og gerðir af einkareknum þjónustustofnunum:
    SDR 400 000 þegar um er að ræða vörukaup og þjónustu;
    SDR 5 000 000 þegar um er að ræða verkframkvæmdir.

6. gr.
Innlend meðferð og bann við mismunun

    Að því er varðar lög, reglur, málsmeðferð og starfshætti varðandi opinber innkaup sem falla undir þennan viðauka skal sérhvert aðildarríki veita þá meðferð sem kveðið er á um í III. gr. samningsins um opinber innkaup.

7. gr.
Gildissvið undir viðmiðunarmörkum

    Með reglum sínum og starfsháttum við útboð og gerð samninga um opinber innkaup undir þeirri fjárhæð viðmiðunarmarka sem mælt er fyrir um í 5. gr. eru aðildarríkin að hvetja tilgreindar stofnanir sínar til að veita birgjum og þjónustuveitendum í hinum aðildarríkjunum meðferð í samræmi við 2. mgr. 37. gr. þessa samnings. Þetta er gert með fyrirvara um ráðstafanir sem eru nauðsynlegar vegna þróunar á







innanlandsmarkaði Sviss3 eða aðrar ráðstafanir sem aðildarríkin tilkynna og skráðar eru í 12. viðbæti við þennan viðauka.

8. gr.
Undantekningar

    Viðauki þessi gildir ekki um tilgreindar stofnanir ef þær uppfylla skilyrðin sem mælt er fyrir um í 10. og 13. viðbæti við þennan viðauka.

9. gr.
Reglur um opinber innkaup og kærur

    Aðildarríkin skulu sjá til þess að reglur um opinber innkaup og kærur séu án mismununar og gagnsæar. Að því er varðar stofnanir, sem falla undir þennan viðauka, gilda reglurnar um opinber innkaup og kærur í samningnum um opinber innkaup sem eru tilgreindar í 14. viðbæti við þennan viðauka.

10. gr.
Upplýsingaskipti

    Aðildarríkin skulu senda hvert öðru nafn og heimilisfang „tengiliða“ sem bera ábyrgð á að veita upplýsingar um reglur og reglugerðir á sviði opinberra innkaupa.

11. gr.
Nefnd

1.     Ráðið skal koma á fót nefnd um opinber innkaup (hér á eftir kölluð „nefndin“) og skal hún tryggja skilvirka beitingu og framkvæmd á viðauka þessum.

2.     Nefndin getur einkum lagt til við ráðið að breyta þessum viðauka og viðbætunum við hann.

3.     Ráðinu er heimilt að breyta ákvæðum 5. gr. í þessum viðauka og viðbætum við hann.













3 Undanþágan tekur einungis til reglna um málsmeðferð við kærur vegna útboða, sem krafist er í lögum ríkjasambandsins frá 6. október 1995 um innri markaðinn vegna reglna um opinber innkaup undir viðmiðunarmörkum. Lögin taka til þróunar innri markaðarins í Sviss, með tilliti til þess hvernig skipulagi ríkjasambandsins í Sviss er háttað.

1. VIÐBÆTIR

ÖFLUN, FLUTNINGUR EÐA DREIFING DRYKKJARVATNS


ÍSLAND
Stofnanir sem sem sjá um að afla eða dreifa vatni samkvæmt lögum nr. 81/1991, um vatnsveitur sveitarfélaga.

LIECHTENSTEIN
Gruppenwasserversorgung Liechtensteiner Oberland.
Wasserversorgung Liechtensteiner Unterland.

NOREGUR
Stofnanir sem sjá um að afla eða dreifa vatni samkvæmt Forskrift om drikkevann og vannforsyning (FOR 1995-01-01 Nr 68).

SVISS
Stofnanir sem sem sjá um að afla, flytja og dreifa drykkjarvatni og eru starfræktar samkvæmt kantónu- eða staðarlögum eða sérstökum samningum sem byggja á þeim.
Til dæmis: Wasserversorgung Zug AG, Wasserversorgung Düdingen.


2. VIÐBÆTIR

FRAMLEIÐSLA, FLUTNINGUR EÐA DREIFING RAFMAGNS


ÍSLAND
Landsvirkjun (the National Power Company), lög nr. 42/1983;
Rafmagnsveitur ríkisins (the State Electric Power Works), orkulög nr. 58/1967;
Orkuveita Reykjavíkur (Reykjavík Energy), lög nr. 38/1940;
Hitaveita Suðurnesja (Suðurnes Regional Heating), lög nr. 100/1974;
Orkubú Vestfjarða (Vestfjord Power Company), lög nr. 66/1976;
Aðrar stofnanir sem framleiða, flytja eða dreifa rafmagni samkvæmt orkulögum nr. 58/1967.

LIECHTENSTEIN
Liechtensteinische Kraftwerke.

NOREGUR
Stofnanir sem framleiða, flytja eða dreifa rafmagni samkvæmt Lov om erverv av vannfall, bergverk og annen fast eiendom m.v., kap. I, jf. kap.V (LOV 1917-12-14 16, kap. I), or
Vassdragsreguleringsloven (LOV 1917-12-14 17) eða Energiloven (LOV 1990-06-29 50).

SVISS
Stofnanir sem framleiða og dreifa rafmagni og sem kann að verða veittur réttur til eignarnáms samkvæmt Loi fédérale concernant les installations électriques à faible et à fort courant frá 24. júní 1902.
Stofnanir sem framleiða rafmagn samkvæmt Loi fédérale sur l'utilisation des forces hydrauliques frá 22. desember 1916 og Loi fédérale sur l'utilisation pacifique de l'énergie atomique frá 23. desember 1959. Til dæmis: CKW, ATEL, EGL.


3. VIÐBÆTIR

FLUTNINGUR EÐA DREIFING Á GASI
EÐA HITA


ÍSLAND
Orkuveita Reykjavíkur (Reykjavík Energy), lög nr. 38/1940.
Hitaveita Suðurnesja (Suðurnes Regional Heating), lög nr. 100/1974.
Aðrar stofnanir sem sjá um að flytja eða dreifa hita samkvæmt orkulögum nr. 58/1967.

LIECHTENSTEIN
Liechtensteinische Gasversorgung.

NOREGUR
Stofnanir sem sem sjá um að flytja eða dreifa hita samkvæmt Lov om produksjon, omforming, overføring, omsetning og fordeling av energi m.m (LOV 1990-06-29 50) (Energiloven).

SVISS
Stofnanir sem sjá um að flytja eða dreifa hita samkvæmt 2. gr. Loi fédérale sur les installations de transport par conduits de combustibles ou carburants liquides ou gazeux frá 4 October 1963.
Stofnanir sem sjá um að flytja eða dreifa hita á grundvelli sérleyfis kantónu.
Til dæmis: SWISSGAS AG, Gaznat SA, Gasverbund Ostschweiz AG, REFUNA AG, Cadbar SA.






4. VIÐBÆTIR

LEIT AÐ OLÍU OG GASI/OLÍU-
OG GASNÁM


ÍSLAND


LIECHTENSTEIN


NOREGUR
Samningsstofnanir sem falla undir Lov om petroleumsvirksomhet (LOV 1996-11-29 72) (Petroleum Act) og reglugerðir samkvæmt Lögum um jarðolíu (Petroleum Act) eða Lov om undersøkelse etter og utvinning av petroleum i grunnen under norsk landområde (LOV 1973-05-04 21).

SVISS
Stofnanir sem sjá um að leita að og vinna olíu eða gas samkvæmt Concordat intercantonal concernant la prospection et l'exploitation du pétrole entre les cantons de Zürich, Schwyz, Glaris, Zoug, Schaffhouse, Appenzell Rh.-Ext., Appenzell Rh.-Int., Saint-Gall, Argovie et Thurgovie frá 24. september 1955. Til dæmis: Seag AG.


5. VIÐBÆTIR

LEIT AÐ KOLUM EÐA ÖÐRU FÖSTU ELDSNEYTI/KOLA- EÐA ELDSNEYTISNÁM


ÍSLAND


LIECHTENSTEIN


NOREGUR


SVISS



6. VIÐBÆTIR

SAMNINGSSTOFNANIR Á SVIÐI JÁRNBRAUTARÞJÓNUSTU


ÍSLAND


LIECHTENSTEIN


NOREGUR
Norges Statsbaner (NSB) og stofnanir er starfa samkvæmt Lov om anlegg og drift av jernbane, herunder sporvei, tunnelbane og forstadsbane m.m (LOV 1993-06-11 100) (Jernbaneloven).

SVISS
Chemins de fer fédéraux (CFF).
Stofnanir í skilningi 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 2. gr. í Loi fédérale sur les chemins de fer frá 20. desember 1957, sem reka opinbera flutningaþjónustu með járnbraut af staðlaðri sporvídd eða lítilli sporvídd. 1 Til dæmis: BLS, MthB, Chemin de fer du Jura, RhB, FO, TPF.


7. VIÐBÆTIR

SAMNINGSSTOFNANIR Á SVIÐI JÁRNBRAUTARÞJÓNUSTU Í BORGUM, SPORVAGNAÞJÓNUSTU, ÞJÓNUSTU RAFKNÚINNA STRÆTISVAGNA OG ÞJÓNUSTU HÓPBIFREIÐA


ÍSLAND
Strætisvagnar Reykjavíkur (the Reykjavík Municipal Bus Service).
Almenningsvagnar bs.
Önnur þjónusta hópbifreiða á vegum sveitarfélaga
Stofnanir sem annast flutninga á landi samkvæmt 3. gr. laga nr. 13/1999 skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum.

LIECHTENSTEIN
Liechtenstein Bus Anstalt (the Liechtenstein Bus Institution)

NOREGUR
NSB BA A og stofnanir sem annast flutninga á landi samkvæmt Lov om anlegg og drift av jernbane, herunder sporvei, tunnelbane og forstadsbane m.m (LOV 1993-06-11 100) (Jernbaneloven).

SVISS
Stofnanir sem reka sporvagnaþjónustu í skilningi 1. mgr. 2. gr. Loi fédérale sur les chemins de fer frá 20. desember 1957.




1 Nema um sé að ræða bújarðir og fyrirtæki sem eiga ekki beina aðild að flutningsgeiranum.

Stofnanir sem þjóna almenningi með flutningaþjónustu í skilningi 1. mgr. 4. gr. í Loi fédérale sur les entreprises de trolleybus frá 29. mars 1950.

Stofnanir sem reka, sem atvinnustarfsemi, reglubundnar áætlunarferðir með farþega á grundvelli sérleyfis sem er veitt samkvæmt 4. gr. Loi fédérale sur le transport de voyageurs et les transports par route frá 18. júní 1993, ef leiðir þeirra falla undi þjónustu í skilningi 3. mgr. 5. gr. Ordonnance sur les indemnités, les prêts et les aides financières selon la loi sur les chemins de fer frá 18. desember 1995.



8. VIÐBÆTIR

SAMNINGSSTOFNANIR SEM REKA FLUGVALLARVIRKI


ÍSLAND
Flugmálastjórn (Directorate of Civil Aviation).

LIECHTENSTEIN


NOREGUR
Stofnanir sem reka flugvallarvirki samkvæmt Luftfartsloven (LOV 1993-06-11 101).

SVISS
Stofnanir sem starfrækja flugvelli á grundvelli sérleyfis sem er veitt í samræmi við 1. mgr. 37. gr. Loi fédérale sur la navigation aérienne frá 21. desember 1948.
Til dæmis: Bern-Belp, Birrfeld, Grenchen, Samedan.



9. VIÐBÆTIR

SAMNINGSSTOFNANIR SEM STARFRÆKJA HAFNIR VIÐ SJÓ EÐA VATN EÐA ÖNNUR HAFNARVIRKI


ÍSLAND
Siglingastofnun, (Icelandic Maritime Administration).
Aðrar stofnanir sem starfa samkvæmt Hafnalögum nr. 23/1994.

LIECHTENSTEIN


NOREGUR
Norges Statsbaner (NSB) (Járnbrautarstöðvar).
Stofnanir sem starfa samkvæmt Havneloven (LOV 1984-06-08 51).

SVISS


10. VIÐBÆTIR

ÞJÓNUSTA


Þjónusta

Eftirtalin þjónusta, sem er skráð í flokkun þjónustu eftir sviðum sem er endurprentuð í WTO-skjali MTN.GNS/W/120, fellur undir viðaukann:


Þjónusta CPC-númer (aðalvöruflokkun)
Viðhalds- og viðgerðarþjónusta 6112, 6122, 633, 886
Flutningaþjónusta á landi1, þ.m.t. með brynvörðum bifreiðum, og hraðsendingarþjónusta, að undanskildum póstflutningi 712 (nema 71235)
7512, 87304
Farþega- og vöruflutningaþjónusta í lofti, að undanskildum póstflutningi 73 (nema 7321)
Póstflutningar á landi (nema flutningaþjónusta með járnbrautum) og í lofti 71235, 7321
Fjarskiptaþjónusta 7522
Fjármagnsþjónusta:
a)    vátryggingar
b)    banka- og fjárfestingarþjónusta3
úr 81
812, 814
Tölvuþjónusta og skyld þjónusta 84
Reikningshald, endurskoðun og bókfærsluþjónusta 862
Markaðsrannsóknir og skoðanakönnunarþjónusta 864




1 Að frátalinni flutningaþjónustu með járnbrautum.
2 Að frátalinni talsíma-, fjarrita-, radíósímtala-, boðkerfis- og gervihnattarþjónustu.
3 Að frátalinni þjónustu á fjármálamarkaði vegna útgáfu, kaupa, sölu og framsals verðbréfa eða annarra fjármálaskjala, og að frátalinni þjónustu seðlabanka.

Þjónusta CPC-númer (aðalvöruflokkun)
Ráðgjöf við stjórnun og skyld þjónusta 865, 8664
Arkitektaþjónusta; verkfræðiþjónusta og samræmd verkfræðiþjónusta; borgarskipulag og þjónusta landslagsarkitekta; vísindaleg og tæknileg ráðgjöf sem tengist þessum greinum; tækniprófunar- og greiningarþjónusta 867
Auglýsingaþjónusta 871
Hreingerningar- og húsvarðaþjónusta 874, 82201–82206
Útgáfu- og prentunarþjónusta gegn gjaldi eða samkvæmt samningi 88442
Rekstur skólpveitna og sorphreinsun, starfsemi hreinsunardeilda og þ.u.l. 94

Skuldbindingar aðildarríkjanna á sviði þjónustu samkvæmt viðaukanum takmarkast við upphaflegu skuldbindingarnar sem eru tilgreindar í sérstakri skuldbindingarskrá frá 15. apríl 1994, sem aðildarríkin lögðu fram samkvæmt hinum almenna samningi um þjónustuviðskipti (GATS).

Viðauki þessi gildir ekki um:

1.    þjónustusamninga sem gerðir eru við stofnun, sem er sjálf samningsstofnun í skilningi þessa viðauka og 1., 2. eða 3. viðauka við samninginn um opinber innkaup, á grundvelli einkaleyfis sem hún nýtir samkvæmt lögum eða stjórnsýslufyrirmælum;
2.    þjónustusamninga sem samningsaðili gerir við eignatengt fyrirtæki eða sem eru boðnir út og gerðir af sameiginlegu fyrirtæki, sem nokkrir samningsaðilar mynda í því skyni að standa að viðkomandi starfsemi í skilningi 3. gr. viðaukans, við eina þessara samningsstofnana eða við fyrirtæki sem er í eignatengslum við einn þessara samningsaðila. Minnst 80 prósent af meðalveltu þess fyrirtækis á undangengnum þremur árum verður að hafa myndast við slíka þjónustu við fyrirtæki sem það er í eignatengslum við. Ef fleiri en eitt fyrirtæki, sem eru í eignatengslum




4 Að frátalinni þjónustu vegna gerðardómsmeðferðar og sáttaumleitana.
við samningsaðilann, veita sömu þjónustu ber að taka tillit til heildarveltunnar sem myndast af þjónustu þessara fyrirtækja;



3.    þjónustusamninga vegna kaupa eða leigu, á hvaða fjárhagsgrundvelli sem er, á landi, byggingum sem þegar eru til, eða öðrum fasteignum eða um réttindi til þeirra;

4.    ráðningarsamninga;

5.    samninga um kaup, þróun, framleiðslu eða samvinnu við framleiðslu á dagskrárefni, sem gerðir eru af útvarpsrekendum, eða samninga um útsendingartíma.


11. VIÐBÆTIR

BYGGINGARÞJÓNUSTA


Byggingarþjónusta

Lýsing tilgreindrar byggingarþjónustu:

Skilgreining: Samningur um byggingarþjónustu er samningur um vinnu, með hvaða móti sem er, við byggingu, mannvirkjagerð eða húsbyggingar, í skilningi deildar 51 í aðalvöruflokkuninni (CPC).


Skrá um þjónustu í deild 51 í CPC:


    Undirbúningur vettvangs
511

    Byggingastarfsemi
512

    Mannvirkjagerð
513

    Samsetning og uppsetning
    forsmíðaðra eininga
514

    Sérhæfð mannvirkjagerð
515

    Lagnavinna
516

    Vinna við frágang bygginga
517

    Önnur þjónusta
518


Skuldbindingar aðildarríkjanna á sviði byggingarþjónustu samkvæmt viðaukanum takmarkast við upphaflegu skuldbindingarnar sem eru tilgreindar í sérstakri skuldbindingarskrá frá 15. apríl 1994, sem aðildarrríkin lögðu fram samkvæmt hinum almenna samningi um þjónustuviðskipti (GATS).


12. VIÐBÆTIR

RÁÐSTAFANIR SEM AÐILDARRÍKIN TILKYNNA


Ráðstafanir sem Sviss tilkynnir:

–    Endurskoðun í samræmi við ákvæði 9. gr. viðaukans sem var tekin upp í kantónum og sveitarfélögum fyrir samninga undir viðmiðunarmörkum á grundvelli Loi fédérale sur le marché intérieur frá 6. október 1995.


13. VIÐBÆTIR

UNDANTEKNINGAR


Flutningar með hópbifreiðum:

Að þjóna almenningi með flutningum með hópbifreiðum telst ekki vera starfsemi í skilningi c-liðar 2. gr. í viðaukanum ef öðrum stofnunum er frjálst að veita þessa þjónustu almennt eða á tilteknu landsvæði með sömu skilyrðum og samningsstofnanir.



Öflun drykkjarvatns, raforku, gass eða hita til veitukerfis:

Þegar samningsstofnun sem ekki er opinbert yfirvald aflar drykkjarvatns, raforku, gass eða hita til veitukerfia sem veita almenningi þjónustu telst það ekki vera starfsemi í skilningi 2. gr. viðaukans ef:


a)    þegar um er að ræða drykkjarvatn eða raforku:

    1)    framleiðsla viðkomandi stofnunar á drykkjarvatni eða raforku á sér stað vegna þess að notkun þess er nauðsynleg í annarri starfsemi en um getur í i- og ii-lið c-liðar 2. gr. viðaukans, og

    2)    öflun til almenningsveitukerfa kemur aðeins til vegna eigin þarfa stofnunarinnar og til þeirra hefur ekki farið yfir meira en 30% af heildarframleiðslu stofnunarinnar á drykkjarvatni eða raforku miðað við meðaltal undanfarinna þriggja ára að yfirstandandi ári meðtöldu;

b)    þegar um er að ræða gas eða hita:

    1)    gas- eða hitaframleiðsla stofnunarinnar er óhjákvæmileg afleiðing starfsemi sem ekki er getið um í i-lið b-liðar 2. gr. viðaukans, og


    2)    öflun til almenningsveitukerfis er aðeins ætlað að nýta slíka framleiðslu í ábataskyni og hún má ekki nema hærri upphæð en 20% af veltu stofnunarinnar miðað við meðaltal undanfarinna þriggja ára að yfirstandandi ári meðtöldu.

Starfsemi við aðstæður þar sem ekki er um að ræða áþreifanlega notkun kerfa eða landsvæða innan aðildarríkis:

Ákvæði viðaukans gilda ekki um samninga eða hönnunarsamkeppni sem samningsstofnanir efna til í öðru skyni en að stunda starfsemi eins og lýst er í 2. gr. viðaukans eða um slíka starfsemi utan aðildarríkis við aðstæður þar sem ekki er um að ræða áþreifanlega notkun kerfa eða landsvæða innan þess aðildarríkis.


Endursala eða leiga til þriðja aðila:

Ákvæði viðaukans gilda ekki um samninga sem gerðir eru vegna endursölu eða leigu til þriðja aðila að því tilskildu að samningsstofnun njóti hvorki sérréttinda né hafi einkaleyfi til að selja eða leigja umsaminn hlut og öðrum stofnunum sé frjálst að selja hann eða leigja með sömu skilyrðum og samningsstofnunin.

Vörukaupasamningar:

Ákvæði viðaukans gilda ekki um:

a)    samninga sem samningsstofnanir gera um kaup á vatni;

b)    samninga sem samningsstofnanir gera um aðfengna orku eða eldsneyti til orkuframleiðslu.


Þjóðaröryggi:

Ákvæði viðaukans gilda ekki um samninga þegar aðildarríki lýsir þá leynilega, þegar sérstökum öryggisráðstöfunum verður að beita við framkvæmd þeirra í samræmi við lög eða stjórnsýslufyrirmæli sem í gildi eru í viðkomandi aðildarríki eða þegar verndun grundvallaröryggishagsmuna ríkisins krefst þess.


Alþjóðlegar skuldbindingar:

Ákvæði viðaukans gilda ekki um:

a)    samninga sem gerðir eru á grundvelli milliríkjasamkomulags og taka til sameiginlegra framkvæmda eða hagnýtingar verkefna á vegum tveggja eða fleiri aðildarríkja;

b)    samninga sem gerðir eru samkvæmt sérstökum reglum alþjóðastofnunar;

c)    við fyrirtæki í Noregi, á Íslandi, í Liechtenstein eða þriðja ríki á grundvelli milliríkjasamkomulags um setu herliðs.


Sérákvæði um járnbrautarfyrirtæki:

Ákvæði viðaukans gilda ekki um samninga sem gerðir eru við stofnun sem stundar starfsemi sem um getur í a-lið 2. gr. viðaukans, að því tilskildu að þeir miði að endurfjármögnun í formi „sölu og endurleigu“ á vörukaupasamningi sem gerður er í samræmi við ákvæði þessa viðauka.



14. VIÐBÆTIR

REGLUR UM OPINBER INNKAUP
OG KÆRUR


Eftirtalin ákvæði gilda um viðaukann:


    II. gr.             Mat á samningum
    III. gr.             Innlend meðferð og bann við mismunun
    IV. gr.             Upprunareglur
    VI. gr.             Tækniforskriftir
    VII. gr.             Verklagsreglur við útboð
    VIII. gr.             Hæfi birgja
    IX. gr.             Boð um þátttöku í fyrirhuguðum innkaupum
    X. gr.             Málsmeðferð við val
    XI. gr.             Tilboðs- og afhendingarfrestur
    XII. gr.             Útboðsgögn
    XIII. gr.             Innsending, móttaka og opnun tilboða og gerð samninga

    XIV. gr.             Samningaviðræður
    XV. gr.             Lokað útboð
    XVII. gr.             Gagnsæi
    XVIII. gr.         Upplýsingar og endurskoðun að því er varðar skyldur aðila
    XX. gr.             Matsmeðferð við kæru
    XXIII. gr.         Undantekningar frá samningnum
    a- og b-liður    Lokaákvæði (leiðréttingar eða
    6. mgr. XXIV. gr.    breytingar)

ANNEX R

Public Procurement (Art. 37)


ARTICLE 1
Scope

    The access of the Member States' suppliers and service providers to purchases of products and services, including construction services, by railway operators, entities active in the field of energy other than electricity and private utilities active in the fields of drinking water, electricity, urban transport, ports and airports by Member States shall take place according to the provisions of this Annex.

ARTICLE 2
Definitions

    For the purposes of this Annex:
(a)    “railway operators” (hereinafter referred to as “ROs”) shall mean contracting entities which either are public authorities or public undertakings or operate on the basis of special or exclusive rights granted by a competent authority of one of the Member States and which have as one of their activities the operation of networks providing a service to the public in the field of transport by railway;
(b)    “entities active in the field of energy other than electricity” shall mean contracting entities which either are public authorities or public undertakings or operate on the basis of special or exclusive rights granted by a competent authority of one of the Member States and which have as one of their activities any of those referred to in subparagraphs (i) and (ii) below or any combination thereof:
    (i)    the provision or operation of fixed networks intended to provide a service to the public in connection with the production, transport or distribution of gas or heat or the supply of gas or heat to such networks; or
    (ii)    the exploitation of a geographical area for the purpose of exploring for or extracting oil, gas, coal or other solid fuels1;


1 Following changes in the national rules on utilities procurement in Norway, by establishing alternative rules that ensure that the contracting authorities engaged in the exploitation of oil or gas award contracts on a non-discriminatory, transparent and competitive basis, Norway is exempted from applying all the procedural rules in the utilities directive (Council Directive 93/38/EEC of 14 June 1993 coordinating the procurement procedures of entities operating in the water, energy, transport and telecommunications sectors) to entities engaged in the exploitation of geographical areas for the purpose of exploring for or ex-
(c)    “private utilities” shall mean contracting entities which are not covered by the GPA2 but operate on the basis of special or exclusive rights granted by a competent authority of one of the Member States and which have as one of their activities any of those referred to in subparagraphs (i) to (v) below or any combination thereof:

    (i)    the provision or operation of fixed networks intended to provide a service to the public in connection with the production, transport or distribution of drinking water or the supply of drinking water to such networks;
    (ii)    the provision or operation of fixed networks intended to provide a service to the public in connection with the production, transport or distribution of electricity or the supply of electricity to such networks;
    (iii)    the provision of airport or other terminal facilities to carriers by air;
    (iv)    the provision of maritime or inland port or other terminal facilities to carriers by sea or inland waterway;
    (v)    the operation of networks providing a service to the public in the field of transport by urban railway, automated systems, tramway, trolley bus, bus or cable;
(d)    this Annex applies to any law, regulation or practice regarding procurement by the Member States' ROs, entities active in the field of energy other than electricity, and private utilities (hereinafter referred to as “Covered Entities”) as defined in this Article and specified in Appendices 1 to 9 to this Annex and to the award of all procurement contracts by such Covered Entities.


ARTICLE 3
Competition

    This Annex shall not apply to contracts, awarded by ROs, entities active in the field of energy other than electricity and private utilities, as soon as these sectors have been liberalised, for purchases intended exclusively to enable them to provide one or more services where other entities are free to offer the same services in the same geographical area and


tracting oil or gas. The exemption was granted upon a request from Norway and after the ESA had concluded that Norway had correctly transposed the Council Directive 94/22/EC of the European Parliament and of the Council of 30 May 1994 on the conditions for granting and using authorizations for the prospection, exploration and production of hydrocarbons, which is a prequisite for granting such an exemption.
2 As in force on 21 June 2001.
under substantially the same conditions. Each Member State shall promptly inform the other Member States about such contracts.


ARTICLE 4
Services

    With regard to services, including construction services, this Annex shall apply to those listed in Appendices 10 and 11 to this Annex.

ARTICLE 5
Thresholds

    This Annex shall apply to contracts, or series of contracts, the estimated value of which, excluding VAT, is not less than:
(a)    when awarded by ROs and entities active in the field of energy other than electricity:

    EUR 400 000 as regards supplies and services;

    EUR 5 000 000 as regards works;

(b)    when awarded by private utilities:

    SDR 400 000 as regards supplies and services;

    SDR 5 000 000 as regards works.


ARTICLE 6
National treatment and non-discrimination

    With respect to all laws, regulations, procedures and practices regarding government procurement covered by this Annex, each Member State shall provide the treatment provided for in Article III of the GPA.

ARTICLE 7
Coverage below thresholds

    In their procedures and practices for the award of procurement contracts below the value thresholds laid down in Article 5, the Member States undertake to encourage their Covered Entities to treat the suppliers and service providers of the other Member States in accordance with paragraph 2 of Article 37 of this Convention. This shall be without prejudice to measures made necessary by the development of







the Swiss domestic market3 or other measures noti-fied by the Member States and listed in Appendix 12 to this Annex.

ARTICLE 8
Exceptions

    This Annex shall not apply to Covered Entities where they fulfil the conditions laid down in Appendices 10 and 13 to this Annex.

ARTICLE 9
Procurement and challenge procedures

    The Member States ensure that the procurement and challenge procedures are non-discriminatory and transparent. For entities covered by this Annex the procurement and challenge procedures in the GPA are applicable, as specified in Appendix 14 to this Annex.

ARTICLE 10
Information exchange

    The Member States shall communicate to each other the names and addresses of “contact points” responsible for providing information on the rules and regulations in the field of public procurement.

ARTICLE 11
Committee

1.     The Council shall establish a Committee on public procurement (hereinafter referred to as the “Committee”) which shall ensure the effective implementation and operation of this Annex.
2.     The Committee may in particular propose to the Council amendments to this Annex and its Appendices.
3.     The Council may amend Article 5 of this Annex and the Appendices thereto.













3 This exemption only covers bid challenge procedures required by the Federal Law of 6 October 1995 on the Internal Market for procurement procedures below the thresholds. The law deals with the development of the internal market of Switzerland, taking into account the federal structure of Switzerland.

APPENDIX 1

PRODUCTION, TRANSPORT OR DISTRIBUTION OF DRINKING WATER


ICELAND
Entities producing or distributing water pursuant to lög nr. 81/1991, um vatnsveitur sveitarfélaga.


LIECHTENSTEIN
Gruppenwasserversorgung Liechtensteiner Oberland.
Wasserversorgung Liechtensteiner Unterland.

NORWAY
Entities producing or distributing water pursuant to Forskrift om drikkevann og vannforsyning (FOR 1995-01-01 Nr 68).

SWITZERLAND
Entities producing, transporting and distributing drinking water and operating pursuant to cantonal or local legislation or under individual agreements complying with such legislation.
For example: Wasserversorgung Zug AG, Wasserversorgung Düdingen.


APPENDIX 2

PRODUCTION, TRANSPORT OR DISTRIBUTION OF ELECTRICITY


ICELAND
Landsvirkjun (the National Power Company), lög nr. 42/1983;
Rafmagnsveitur ríkisins (the State Electric Power Works), orkulög nr. 58/1967;
Orkuveita Reykjavíkur (Reykjavík Energy), lög nr. 38/1940;
Hitaveita Suðurnesja (Suðurnes Regional Heating), lög nr. 100/1974;
Orkubú Vestfjarða (Vestfjord Power Company), lög nr. 66/1976;
Other entities producing, transporting or distributing electricity pursuant to orkulög nr. 58/1967.

LIECHTENSTEIN
Liechtensteinische Kraftwerke.

NORWAY
Entities producing, transporting or distributing electricity pursuant to Lov om erverv av vannfall, bergverk og annen fast eiendom m.v., kap. I, jf. kap.V (LOV 1917-12-14 16, kap. I), or
Vassdragsreguleringsloven (LOV 1917-12-14 17) or Energiloven (LOV 1990-06-29 50).

SWITZERLAND
Entities transporting and distributing electricity which may be granted a right to expropriate pursuant to the Loi fédérale concernant les installations électriques à faible et à fort courant of 24 June 1902.

Entities producing electricity pursuant to the Loi fédérale sur l'utilisation des forces hydrauliques of 22 December 1916 and the Loi fédérale sur l'utilisation pacifique de l'énergie atomique of 23 December 1959. For example: CKW, ATEL, EGL.


APPENDIX 3

TRANSPORT OR DISTRIBUTION OF
GAS OR HEAT


ICELAND
Orkuveita Reykjavíkur (Reykjavík Energy), lög nr. 38/1940.
Hitaveita Suðurnesja (Suðurnes Regional Heating), lög nr. 100/1974.
Other entities transporting or distributing heat pursuant to orkulög nr. 58/1967.

LIECHTENSTEIN
Liechtensteinische Gasversorgung.

NORWAY
Entities transporting or distributing heat pursuant to Lov om produksjon, omforming, overføring, omsetning og fordeling av energi m.m (LOV 1990-06-29 50) (Energiloven).

SWITZERLAND
Entities transporting or distributing gas pursuant to Article 2 of the Loi fédérale sur les installations de transport par conduits de combustibles ou carburants liquides ou gazeux of 4 October 1963.
Entities transporting or distributing heat on the basis of a cantonal concession.
For example: SWISSGAS AG, Gaznat SA, Gasverbund Ostschweiz AG, REFUNA AG, Cadbar SA.






APPENDIX 4

EXPLORATION FOR AND EXTRACTION OF OIL AND GAS


ICELAND


LIECHTENSTEIN


NORWAY
Contracting entities covered by Lov om petroleumsvirksomhet (LOV 1996-11-29 72) (Petroleum Act) and regulations pursuant to the Petroleum Act or by Lov om undersøkelse etter og utvinning av petroleum i grunnen under norsk landområde (LOV 1973-05-04 21).

SWITZERLAND
Entities exploring for and extracting oil or gas in accordance with the Concordat intercantonal concernant la prospection et l'exploitation du pétrole entre les cantons de Zurich, Schwyz, Glaris, Zoug, Schaffhouse, Appenzell Rh.-Ext., Appenzell Rh.-Int., Saint-Gall, Argovie et Thurgovie of 24 September 1955. For example: Seag AG.


APPENDIX 5

EXPLORATION FOR AND EXTRACTION OF COAL OR OTHER SOLID FUELS



ICELAND


LIECHTENSTEIN


NORWAY


SWITZERLAND



APPENDIX 6

CONTRACTING ENTITIES IN THE FIELD OF RAILWAY SERVICES


ICELAND


LIECHTENSTEIN


NORWAY
Norges Statsbaner (NSB) and entities operating pursuant to Lov om anlegg og drift av jernbane, herunder sporvei, tunnelbane og forstadsbane m.m (LOV 1993-06-11 100) (Jernbaneloven).

SWITZERLAND
Chemins de fer fédéraux (CFF).
Entities within the meaning of Articles 1(2) and 2(1) of the Loi fédérale sur les chemins de fer of 20 December 1957, where they operate public transport services by standard- or narrow-gauge railway. 1 For example: BLS, MthB, Chemin de fer du Jura, RhB, FO, TPF.


APPENDIX 7

CONTRACTING ENTITIES IN THE FIELD OF URBAN RAILWAY, TRAMWAY, TROLLEY, BUS OR BUS SERVICES




ICELAND
Strætisvagnar Reykjavíkur (the Reykjavík Municipal Bus Service).
Almenningsvagnar bs.
Other municipal bus services
Land transporting entities operating pursuant to Article 3 of lög nr. 13/1999 skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum.

LIECHTENSTEIN
Liechtenstein Bus Anstalt (the Liechtenstein Bus Institution)

NORWAY
NSB BA and land transport entities operating pursuant to Lov om anlegg og drift av jernbane, herunder sporvei, tunnelbane og forstadsbane m.m (LOV 1993-06-11 100) (Jernbaneloven).

SWITZERLAND
Entities operating tramway services within the meaning of Article 2(1) of the Loi fédérale sur les chemins de fer of 20 December 1957.




1 Except for holdings and undertakings, which are not directly active in the transport sector.

Entities providing transport services to the public within the meaning of Article 4(1) of the Loi fédérale sur les entreprises de trolleybus of 29 March 1950.
Entities providing, as a business activity, regular scheduled passenger transport services on the basis of a concession granted pursuant to Article 4 of the Loi fédérale sur le transport de voyageurs et les transports par route of 18 June 1993, where their lines provide a service within the meaning of Article 5(3) of the Ordonnance sur les indemnités, les prêts et les aides financières selon la loi sur les chemins de fer of 18 December 1995.


APPENDIX 8

CONTRACTING ENTITIES IN THE FIELD OF AIRPORT FACILITIES


ICELAND
Flugmálastjórn (Directorate of Civil Aviation).

LIECHTENSTEIN


NORWAY
Entities providing airport facilities pursuant to Luftfartsloven (LOV 1993-06-11 101).

SWITZERLAND
Entities operating airports on the basis of a concession granted pursuant to Article 37(1) of the Loi fédérale sur la navigation aérienne of 21 December 1948.
For example: Bern-Belp, Birrfeld, Grenchen, Samedan.


APPENDIX 9

CONTRACTING ENTITIES IN THE FIELD OF MARITIME OR INLAND PORT OR OTHER TERMINAL FACILITIES


ICELAND
Siglingastofnun, (Icelandic Maritime Administration).
Other entities operating pursuant to Hafnalög nr. 23/1994.

LIECHTENSTEIN


NORWAY
Norges Statsbaner (NSB) (Railway terminals).
Entities operating pursuant to Havneloven (LOV 1984-06-08 51).

SWITZERLAND


APPENDIX 10

SERVICES


Services

The following services, which are listed in the sectoral classification of services reproduced in the WTO document MTN.GNS/W/120, are covered by the Annex:

CPC (Central

Product Classification)

Subject
reference No
Maintenance and repair services 6112, 6122, 633, 886
Land transport services1 including armoured car services, and courier services, except carriage of mail
712 (except 71235) 7512, 87304
Air transport services: carriage of passengers and freight, except carriage of mail 73 (except 7321)
Carriage of mail by land (except transport services by rail) and by air
71235, 7321
Telecommunications services 7522
Financial services:
a)     insurance services
b)    banking and investment services3
ex 81
812, 814
Computer and related services 84
Accounting, auditing and book-keeping services 862
Market research and public opinion polling services 864




1 Excluding rail transport services.
2 Excluding services of voice telephony, telex, radiotelephony, radiopaging and satellite telecommunications.
3 Excluding financial market services relating to the issue, purchase, sale and transfer of securities or other financial instruments, and central bank services.

CPC (Central

Product Classification)

Subject
reference No
Management consulting services and related services 865, 8664
Architectural services; engineering services and integrated engineering services; urban planning and landscape engineering services; related scientific and technical consulting services; technical testing and analysis services 867
Advertising services 871
Building-cleaning services and property management services 874, 82201–82206
Publishing and printing services on a fee or contract basis 88442
Sewage and refuse disposal services; Sanitation and similar services 94

The commitments entered into by the Member States in the field of services under the Annex are limited to the initial commitments specified in the Schedules of Specific Commitments of 15 April 1994 submitted by the Member States under the General Agreement on Trade in Services (GATS).

The Annex does not apply to:

1.    service contracts awarded to an entity which is itself a contracting authority within the meaning of this Annex and of Annex 1, 2 or 3 to the GPA on the basis of an exclusive right which it enjoys pursuant to a published law, regulation or administrative provision;
2.    service contracts which a contracting entity awards to an affiliated undertaking or are awarded by a joint venture formed by a number of Contracting Entities for the purpose of carrying out a relevant activity within the meaning of Article 3 of the Annex to one of those contracting entities or to an undertaking which is affiliated with one of these contracting entities, provided that at least 80% of the average turnover of that undertaking with respect to services for the preceding three years derives from the provision of such services to undertakings with which it is




4 Excluding arbitration and conciliation services.

affiliated. Where more than one undertaking affiliated with the contracting entity provides the same service or similar services, the total turnover deriving from the provision of services by those undertakings shall be taken into account;

3.    service contracts for the acquisition or rental, by whatever financial means, of land, existing buildings or other immovable property or concerning rights thereon;

4.    employment contracts;

5.    contracts for the acquisition, development, production or co-production of programme material by broadcasters and contracts for broadcasting time.


APPENDIX 11

CONSTRUCTION SERVICES


Construction Services

Specification construction services covered:

Definition: A contract for construction services is a contract which has as its object the execution, by whatever means, of construction, civil engineering or building work within the meaning of Division 51 of the Central Product Classification (CPC).

List of services covered according to Division 51 of the CPC:

    Site preparation work
511

    Construction work
512

    Civil engineering work
513

    Assembly and construction of
    prefabricated structures
514

    Specialised construction work
515

    Installation work
516

    Building completion work
517

    Other services     
518


The commitments entered into by the Member States in the field of construction services under the Annex are limited to the initial commitments specified in the Schedules of Specific Commitments of 15 April 1994 submitted by the Member States under the General Agreement on Trade in Services (GATS).


APPENDIX 12

MEASURES NOTIFIED BY THE MEMBER STATES


Measures notified by Switzerland:

        Review procedures in accordance with Article 9 of the Annex introduced in the cantons and municipalities for contracts below the thresholds on the basis of the Loi fédérale sur le marché intérieur of 6 October 1995.


APPENDIX 13

EXCEPTIONS


Bus Transport Services:

The provision of bus transport services to the public shall not be considered to be a relevant activity within the meaning of Article 2 (c) of the Annex where other entities are free to provide those services, either in general or in a particular geographical area, under the same condition as the contracting entities.

Supply of drinking water, electricity, gas or heat to networks:

The supply of drinking water, electricity, gas or heat to networks which provide a service to the public by a contracting entity other than a public authority shall not be considered as a relevant activity within the meaning of Article 2 of the Annex where:

(a)     in the case of drinking water or electricity:

    (1)    the production of drinking water or electricity by the entity concerned takes place because its consumption is necessary for carrying out an activity other than that referred to in Article 2(c) (i) and (ii) of the Annex, and

    (2)    supply to the public network depends only on the entity's own consumption and has not exceeded 30% of the entity's total production of drinking water or energy, having regard to the average for the preceding three years, including the current year;


(b)     in the case of gas or heat:

    (1)    the production of gas or heat by the entity concerned is the unavoidable consequence of carrying on an activity other than that referred to in Article 2(b) (i) of the Annex, and

    (2)    supply to the public network is aimed only at the economic exploitation of such production and amounts to not more than 20% of the entity's turnover having regard to the average for the preceding three years, including the current year.

Activities under conditions not involving the physical use of network or geographical area within a Member State:

The provisions of the Annex shall not apply to contracts or design contests which the contracting entities award or organize for purposes other than the pursuit of their activities as described in Article 2 of the Annex or for the pursuit of such activities outside each Member State, in conditions not involving the physical use of a network or geographical area within that Member State.

Resale or hire to third parties:

The provisions of the Annex shall not apply to contracts awarded for purposes of resale or hire to third parties, provided that the contracting entity enjoys no special or exclusive right to sell or hire the subject of such contracts and other entities are free to sell or hire it under the same conditions as the contracting entity.

Supply contracts:

The provisions of the Annex shall not apply to:

(a)    contracts which contracting entities award for the purchase of water;

(b)    contracts which contracting entities award for the supply of energy or of fuels for the production of energy.

National Security:

The provisions of the Annex shall not apply to contracts when they are declared to be secret by Member States, when their execution must be accompanied by special security measures in accordance with the laws, regulations or administrative provisions in force in the Member State concerned or when the protection of the basic security interests of that State so requires.

International Obligations:

The provisions of the Annex shall not apply to:

(a)    contracts awarded pursuant to an international agreement and covering the joint implementation or exploitation of a project by two or more Member States;

(b)    contracts awarded pursuant to the particular procedure of an international organisation;

(c)    to undertakings in Norway, Iceland and Liechtenstein or a third State in pursuance of an international agreement relating to the stationing of troops.

Special provision for ROs:

The provisions of the Annex shall not apply to contracts awarded by contracting entities carrying out an activity referred to in Article 2 (a) of the Annex, provided that the contracts have as their object the re-financing in the form of “sale and lease back” of a supply contract awarded in accordance with the provisions of this Annex.


APPENDIX 14

PROCUREMENT AND CHALLENGE PROCEDURES


The following GPA provisions shall apply to the Annex:

    Article II         Valuation of Contracts
    Article III        National Treatment and Non-discrimination
    Article IV        Rules of Origin
    Article VI         Technical Specifications
    Article VII        Tendering Procedures
    Article VIII    Qualification of Suppliers
    Article IX        Invitation to Participate Regarding Intended Procurement
    Article X            Selective Procedures
    Article XI        Time Limits for Tendering and Delivery General
    Article XII        Tender Documentation
    Article XIII    Submission, Receipt and Opening of Tenders and Awarding of Contracts
    Article XIV    Negotiation
    Article XV        Limited Tendering
    Article XVII    Transparency
    Article XVIII    Information and Review as Regards Obligations of Entities
    Article XX        Challenge Procedures
    Article XXIII    Exceptions to the Agreement

    Article XXIV    Final Provisions (Rectifications
    (6)(a & b)        or modifications)

VIÐAUKI S

Stofnanir, nefndir og aðrir aðilar sem eru ráðinu til aðstoðar (3. mgr. 43. gr.)


NEFNDIR

1.         Nefnd sérfræðinga á sviði viðskipta1
2.         Nefnd á sviði tæknilegra viðskiptahindrana2
3.         Nefnd sérfræðinga á sviði uppruna- og tollamála3
4.         Nefnd á sviði landbúnaðar og fiskveiða4
5.          Efnahagsnefnd5
6.         Nefnd um efnahagsþróun6
7.          Þingmannanefnd7
8.          Ráðgjafarnefnd8
9.          Fjárlaganefnd9
10.          Endurskoðunarnefnd10
11.         Stýrinefnd portúgalska sjóðsins11
12.         Nefnd um samskipti við þriðju lönd12
13.         Nefnd um fræ (viðauki E)
14.         Nefnd um lífrænan landbúnað (viðauki F)
15.         Nefnd sem komið var á fót samkvæmt viðauka I
16.         Nefnd um för fólks (viðauki K)

17.         Nefnd um flutninga á landi (viðauki P)
18.         Nefnd um flutninga í lofti (viðauki Q)
19.         Nefnd um opinber innkaup (viðauki R)








1 Ákvörðun ráðsins nr. 18/60, eins og henni var breytt með ákvörðun ráðsins nr. 9/47 og 11/84.
2 Ákvörðun ráðsins nr. 10/84, eins og henni var breytt með ákvörðunum ráðsins nr. 8/88 og 4/94.
3 Ákvörðun ráðsins nr. 8/74, eins og henni var breytt með ákvörðun ráðsins nr. 4/92.
4 Ákvörðun ráðsins nr. 12/73, sem fellir úr gildi ákvarðanir ráðsins nr. 8/63 og 7/64.
5 Ákvörðun ráðsins nr. 16/64, eins og henni var breytt með ákvörðun ráðsins nr. 11/73 en í stað hennar kemur EFTA/C.SR 9/95 (EFTA/EC 1/95).
6 Ákvörðun ráðsins nr. 9/63.
7 Ákvörðun ráðsins nr. 11/77.
8 Ákvörðun ráðsins nr. 5/61, eins og henni var breytt með ákvörðunum ráðsins nr. 10/68, 11/88, 1/94 og 2/94.
9 Ákvörðun ráðsins nr. 10/60.
10 EFTA/C.SR 14/92 (EFTA/EEA 46/92, 14. mgr.) og ákvörðun ráðsins nr. 6/98.
11 Ákvörðun ráðsins nr. 4/76.
12 Ákvörðun ráðsins nr. 2/96.


SÉRFRÆÐINGAHÓPAR

1.         Hópur lagasérfræðinga13
2.         Hópur sérfræðinga um ríkisaðstoð, samkeppni og undirboð 14 15
3.         Hópur sérfræðinga um verðjöfnun16
4.         Hópur sérfræðinga um opinber innkaup17
5.         Hópur sérfræðinga um þjónustu, stofnsetningu og fjármagnsflutninga 18 19
6.         Hópur sérfræðinga um hugverk20




































13 Ákvörðun ráðsins nr. 6/87.
14 Ákvörðun ráðsins nr. 6/96.
15 Ráðið gaf hópnum nýtt heiti á 6. fundi sínum 23. apríl 1998 (C/S 6/98).
16 Ákvörðun ráðsins nr. 6/96.
17 Ákvörðun ráðsins nr. 6/96.
18 Ákvörðun ráðsins nr. 6/96.
19 Ráðið gaf hópnum nýtt heiti á 6. fundi sínum 23. apríl 1998 (C/S 6/98).
20 Ákvörðun ráðsins nr. 6/96.

ANNEX S

Organs, committees and other bodies assisting the Council (Art. 43 paragraph 3)


COMMITTEES

1.         Committee of Trade Experts1
2.         Committee on Technical Barriers to Trade2
3.         Committee of Origin and Customs Experts3

4.         Committee on Agriculture and Fisheries4
5.         Economic Committee5
6.         Committee of Economic Development6
7.         Committee of Members of Parliament7
8.         Consultative Committee8
9.         Budget Committee9
10.         Board of Auditors10
11.         Steering Committee of the Portuguese Fund11
12.         Committee on Third Country Relations12
13.         Committee on seeds (Annex E)
14.         Committee on organic agriculture (Annex F)
15.         Committee established under Annex I

16.         Committee on the movement of persons (Annex K)
17.         Committee on land transport (Annex P)
18.         Committee on air transport (Annex Q)
19.         Committee on public procurement (Annex R)








1 Council Decision No. 18/60, as amended by Council Decisions Nos. 9/47 and 11/84.
2 Council Decision No. 10/84, as amended by Council Decisions Nos. 8/88 and 4/94.
3 Council Decision No. 8/74, as amended by Council Decision No. 4/92.
4 Council Decision No. 12/73, revoking Council Decisions Nos. 8/63 and 7/64.
5 Council Decision No. 16/64, as amended by Council Decision No. 11/73 and replaced by EFTA/C.SR 9/95 (EFTA/EC 1/95).
6 Council Decision No. 9/63.
7 Council Decision No. 11/77.
8 Council Decision No. 5/61, as amended by Council Decisions Nos. 10/68, 11/88, 1/94 and 2/94.
9 Council Decision No. 10/60.
10 EFTA/C.SR 14/92 (EFTA/EEA 46/92 paragraph 14) and Council Decision No. 6/98.
11 Council Decision No. 4/76.
12 Council Decision No. 2/96.

EXPERT GROUPS

1.         Group of Legal Experts13
2.         Group of experts on state aid, competition and anti-dumping 14 15
3.         Group of experts on price compensation16
4.         Group of experts on public procurement17
5.         Group of experts on services, establishment and capital movements 18 19
6.         Group of experts on intellectual property20




































13 Council Decision No. 6/87.
14 Council Decision No. 6/96.
15 Renamed by the Council at its 6th meeting of 23 April 1998 (C/S 6/98).
16 Council Decision No. 6/96.
17 Council Decision No. 6/96.
18 Council Decision No. 6/96.
19 Renamed by the Council at its 6th meeting of 23 April 1998 (C/S 6/98).
20 Council Decision No. 6/96.

VIÐAUKI T

Gerðardómur (48. gr.)


1. gr.
Stofnun og starfsemi gerðardómsins
og framkvæmd úrskurða hans


1.     Þrír gerðardómsmenn skulu skipa gerðardóminn.

2.      Í skriflegri tilkynningu samkvæmt 48. gr. þessa samnings skal aðildarríkið eða þau aðildarríki, sem vísa deilumálinu í gerðardóm, tilnefna einn gerðardómsmann í gerðardóminn.
3.     Aðildarríkið eða aðildarríkin sem fá tilkynninguna skulu á sama hátt tilnefna einn gerðardómsmann innan 15 daga frá móttöku tilkynningarinnar sem um getur í 2. mgr.
4.     Hlutaðeigandi aðildarríki skulu, innan 30 daga frá móttöku tilkynningarinnar sem um getur í 2. mgr., samþykkja tilnefningu þriðja gerðardómsmannsins. Sá gerðardómsmaður skal ekki vera ríkisborgari deiluaðila né heldur hafa fasta búsetu á yfirráðasvæði aðildarríkis. Gerðardómsmaðurinn sem er þannig skipaður skal gegna formennsku í gerðardóminum.
5.     Hafi ekki allir þrír gerðardómsmennirnir verið tilnefndir eða skipaðir innan 30 daga frá móttöku tilkynningarinnar sem um getur í 2. mgr. skal forseti Alþjóðadómstólsins, að beiðni annars hvors deiluaðilans, annast nauðsynlegar tilnefningar á grundvelli 3. og 4. liðar. Ef forsetinn er ófær um að starfa samkvæmt þessari málsgrein eða er ríkisborgari einhvers deiluaðilanna skal sá dómari dómstólsins, sem er elstur í starfi og er hvorki ófær um að starfa né er ríkisborgari aðildarríkis, annast tilnefningar.

6.     Fyrir gerðardómi skulu gilda valkvæðar reglur, sem öðluðust gildi 20. október 1992, um lausn deilumála tveggja ríkja sem eiga aðild að Alþjóðagerðardóminum í Haag (PCA), nema deiluaðilar komi sér saman um annað, sbr. þó 48. gr. samningsins og þennan viðauka.
7.     Ákvarðanir gerðardómsins skulu samþykktar með meirihluta atkvæða. Álit minnihlutans eru ekki birt.
8.     Aðildarríki sem á ekki aðild að deilumálinu skal, þegar það fær í hendur skriflega tilkynningu frá deiluaðilum, eiga rétt á að leggja fram skriflegar athugasemdir fyrir gerðardóminn, fá skriflegar athugasemdir frá deiluaðilum, vera viðstatt alla vitnaleiðslur og gera athugasemdir munnlega.
9.     Úrskurður gerðardóms skal liggja fyrir innan sex mánaða frá þeim degi er forseti dómstólsins var útnefndur. Heimilt er að framlengja þann tíma um mest þrjá mánuði ef deiluaðilar samþykkja það.

10.     Kostnaður við gerðardóminn, þar með talin þóknun til gerðardómsmanna, skal skiptast jafnt milli deiluaðila. Þóknanir og kostnaður, sem ber að greiða gerðardómurum við gerðardóm sem stofnaður er samkvæmt þessum greinum, eru háðar áætlunum ráðsins sem eru í gildi við stofnun gerðardómsins.


2. gr.
Framkvæmd úrskurða gerðardómsins

1.     Þegar deiluaðilar fá úrskurð gerðardóms í hendur skulu þeir koma sér saman um framkvæmd úrskurðarins í samræmi við ásetning og tilmæli gerðardómsins nema þeir geri með sér samkomulag um annað. Deiluaðilar skulu tilkynna hinum aðildarríkjunum um hverja þá lausn sem þeir samþykkja til að leysa deiluna.

2.     Þegar því verður við komið skal lausnin fela það í sér að ráðstöfun, sem samræmist ekki þessum samningi, kemur ekki til framkvæmda eða að hætt er við hana ella séu greiddar bætur.
3.     Ef deiluaðilar eru ósammála um það hvort ráðstöfun, til framkvæmdar úrskurði gerðardómsins, hafi verið gerð eða henni viðhaldið í samræmi við tilmæli gerðardómsins skal sami gerðardómur fella úrskurð í deilunni áður en unnt er að sækja um bætur eða fresta ávinningi í samræmi við 3. gr. hér á eftir.

4.     Kæruríkinu er ekki heimilt að hefja gerðardómsmeðferð samkvæmt fyrri málsgrein fyrr en 12 mánuðum eftir að úrskurður samkvæmt 3. mgr. 48. gr. er felldur. Alla jafna skal gerðardómurinn fella úrskurði, sem um getur í fyrri málsgrein, innan þriggja mánaða frá því að beiðni um gerðardómsmeðferð berst.

3. gr.
Úrskurðir ekki framkvæmdir ávinningi frestað

1.     Ef gerðardómur hefur, í samræmi við 3. mgr. 48. gr., ákveðið að ráðstöfun samræmist ekki skuldbindingum þessa samnings og aðildarríkið, sem kæra beinist gegn, hefur ekki náð samkomulagi við kæruríkið um lausn sem báðir aðilar geta sætt sig við innan 30 daga frá því að úrskurður gerðardómsins barst þeim, eða ef ekki hefur verið gerð nein ráðstöfun til framkvæmdar úrskurðinum, er kæruríkinu eða kæruríkjunum heimilt að:
a)    leita eftir samkomulagi við aðildarríkið, sem kæra beinist gegn, um greiðslu bóta; eða
b)    fresta ávinningi, sem hefur samsvarandi áhrif, til handa aðildarríkinu, sem kæra beinist gegn, þar til deiluaðilar hafa komið sér saman um lausn deilunnar.

2.     Berist skrifleg beiðni frá deiluaðila til hins aðildarríkisins eða aðildarríkjanna skal á ný kalla til sama gerðardóminn til að ákveða hvort að sá ávinningur, sem aðildarríki frestar samkvæmt 1. mgr., hafi samsvarandi áhrif.

3.     Málsmeðferð fyrir gerðardómi skal fara fram í samræmi við 2. mgr. 1. gr. hér að framan. Gerðardómurinn skal leggja fram úrskurð sinn innan 60 daga frá því að beiðni, sem um getur í 2. mgr., berst eða innan þess frests sem deiluaðilar koma sér saman um.

ANNEX T

Arbitration (Art. 48)


ARTICLE 1
Establishment and functioning of the arbitral tribunal and the implementation of arbitral awards

1.     The arbitral tribunal shall comprise three members.
2.     In its written notification pursuant to Article 48 of this Convention, the Member State(s) referring the dispute to arbitration shall designate one member of the arbitral tribunal.
3.     Within 15 days from the receipt of the notification referred to in paragraph 2, the Member State(s) to which it was addressed shall, in turn, designate one member.
4.     Within 30 days from the receipt of the notification referred to in paragraph 2, the Member States concerned shall agree on the designation of a third member. The third member shall not be a national of the parties to the dispute, nor permanently reside in the territory of either Member State. The member thus appointed shall be the President of the arbitral tribunal.
5.     If all three members have not been designated or appointed within 30 days from the receipt of the notification referred to in paragraph 2, the necessary designations shall be made, at request of either party to the dispute, by the President of the International Court of Justice applying the criteria of paragraphs 3 and 4. If the President is unable to act under this paragraph or is a national of a party to the dispute, the designations shall be effected by the next senior member of the Court who is neither unable to act nor a national of a Member State.
6.     Unless otherwise agreed between the parties to the dispute, and subject to Article 48 of the Convention and this Annex, the Optional Rules for Arbitrating Disputes between Two States of the Permanent Court of Arbitration (PCA), effective 20 October 1992, shall apply.
7.     The arbitral tribunal shall take its decisions by majority vote. Minority opinions shall not be disclosed.
8.     A Member State which is not a party to the dispute, on delivery of a written notice to the disputing parties, shall be entitled to make written submissions to the arbitral tribunal, to receive written submissions of the disputing parties, attend all hearings and make oral submissions.
9.     The arbitral award shall be rendered within six months of the date at which the President of the arbitral tribunal was appointed. This period can be extended by a maximum of three additional months, if the parties to the dispute so agree.
10.     The expenses of the arbitral tribunal, including the remuneration of its members, shall be borne by the parties to the dispute in equal shares. Fees and expenses payable to members of an arbitral tribunal established under these Articles will be subject to schedules established by the Council and in force at the time of the establishment of the arbitral tribunal.

ARTICLE 2
Implementation of the arbitral award

1.     On receipt of the arbitral award, the parties to the dispute shall agree on the implementation of the arbitral award, which, unless they decide otherwise by common accord, shall conform with the determinations and recommendations of the arbitral tribunal. The parties to the dispute shall notify the other Member States of any agreed resolution of the dispute.
2.     Wherever possible, the resolution shall be non-implementation or removal of a measure not conforming with this Convention or, failing such a resolution, compensation.
3.     In case of disagreement as to the existence or consistency of a measure implementing the arbitral award with the recommendations of the arbitral tribunal, such dispute shall be decided by the same arbitral tribunal before compensation can be sought or suspension of benefits can be applied in accordance with Article 3 below.
4.     The complaining Member State may not initiate arbitration under the preceding paragraph before a period of 12 months has expired following the rendering of the award pursuant to paragraph 3 of Article 48. The award of the tribunal referred to in the preceding paragraph shall normally be rendered within three months of the request for arbitration.

ARTICLE 3
Non-implementation – suspension of benefits

1.     If the arbitral tribunal, in accordance with paragraph 3 of Article 48, has determined that a measure is inconsistent with the obligations of this Convention, and the Member State complained against has not reached agreement with any complaining Member State on a mutually satisfactory resolution within 30 days of receiving the arbitral award, or if no implementing measures have been taken, such complaining Member State or Member States may:
(a)    seek compensation through an agreement with the Member State complained against; or
(b)    suspend the application to the Member State complained against of benefits of equivalent effect until such time as the disputing Member States have reached agreement on a resolution of the dispute.
2.     Upon written request of any party to the dispute delivered to the other Member State or Member States, the same arbitral tribunal shall be reconvened to determine whether the level of benefits suspended by a Member State pursuant to paragraph 1 is of equivalent effect.
3.     The proceedings of the arbitral tribunal shall be conducted in accordance with paragraph 2 of Article 1 above. The arbitral tribunal shall present its determination within 60 days after the date of the request referred to in paragraph 2 or such other period as the parties to the dispute may agree.


VIÐAUKI U

Svæðisbundið gildissvið (58. gr.)


    Við fullgildingu samningsins um breytingu á samningi um stofnun um Fríverslunarsamtaka Evrópu frá 21. júní 2001 hefur Konungsríkið Noregur rétt til að undanskilja Svalbarðasvæðið beitingu þessa samnings, nema að því er varðar vöruviðskipti.


ANNEX U

Territorial application (Art. 58)


    When ratifying the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association of 21 June 2001, the Kingdom of Norway shall have the right to exempt the territory of Svalbard from the application of this Convention with the exception of trade in goods.

BÓKUN
UM FRELSI FÓLKS TIL FLUTNINGA MILLI SVISS OG LIECHTENSTEIN



Sviss og Liechtenstein, er nefnast hér á eftir „aðilarnir“,

–    sem með hliðsjón af þeirri niðurstöðu Sviss, Íslands og Noregs, innan ramma samningsins um breytingu á samningi um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu, sem er að finna í samningi um flutninga fólks er byggist á samningi milli Evrópubandalagsins og aðildarríkja þess annars vegar og Svissneska ríkjasambandsins hins vegar um frelsi fólks til flutninga,


–    sem hafa hliðsjón af því markmiði Sviss og Liechtenstein að ganga einnig frá slíkum samningi,

–    sem hafa í huga sérstöðu Liechtenstein en á grundvelli hennar hefur ríkið, sem aðildarríki að Evrópska efnahagssvæðinu (EES), samið um sérstaka lausn varðandi frelsi fólks til flutninga er byggist á yfirlýsingu EES-ráðsins um frelsi fólks til flutninga sem varð hluti af niðurstöðum annars fundar EES-ráðsins frá 20. desember 1994 en í henni viðurkennir EES-ráðið að Liechtenstein er afar lítið en byggilegt svæði með dreifðri byggð og er hlutfall erlendra íbúa og starfandi fólks þar óvenjuhátt og er landinu mikið í mun að varðveita þjóðareinkenni sín; og sem hafa enn fremur í huga ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 191/1999 frá 17. desember 1999,



–    sem hafa hliðsjón af sameiginlegri yfirlýsingu Sviss og Liechtenstein frá 2. nóvember 1994 um sambærilega meðferð,

–    sem koma til framkvæmda yfirlýsingu sendinefnda Liechtenstein og Sviss um frelsi fólks til flutninga, sem var undirrituð 6. apríl 2001 í Genf, innan ramma viðræðna um breytingu á EFTA-samningnum,


hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

A)    Að því er varðar 29. lið (Frelsi fólks til flutninga) og VIII. viðauka við samninginn um breytingu á samningi um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu (20. gr. og viðauki K í samsteyptri útgáfu EFTA-samningsins):

1. Meginreglur

1.1.     Liechtenstein og Sviss koma sér saman um að Liechtenstein muni veita ríkisborgurum Sviss sams konar meðferð og ríkisborgarar Evrópska efnahagssvæðisins njóta samkvæmt þeirri sérlausn sem á við um Liechtenstein á Evrópska efnahagssvæðinu.

1.2.     Liechtenstein og Sviss koma sér saman um að Sviss beiti ákvæðum í VIII. viðauka við samninginn um breytingu á samningi um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu (viðauki K í samsteyptri útgáfu EFTA-samningsins) gagnvart Liechtenstein.


1.3.     Liechtenstein og Sviss skulu hafa með sér samráð um samsvarandi reglur með það í huga að finna sambærilegar lausnir.

1.4.     Ef hætta er á alvarlegum efnahagslegum eða þjóðfélagslegum erfiðleikum eða erfiðleikum í umhverfismálum að því er varðar sérstakar atvinnugreinar eða sérstök svæði, sem líklegt er að verði viðvarandi, geta Liechtenstein og Sviss gripið einhliða til viðeigandi ráðstafana. Slíkar öryggisráðstafanir skulu vera takmarkaðar, að því er varðar umfang og gildistíma, við það sem telst bráðnauðsynlegt til þess að ráða bót á ástandinu. Þær ráðstafanir skulu helst gerðar sem raska minnst framkvæmd samnings þessa.

Aðili sem hyggst grípa til öryggisráðstafana skal tilkynna hinum aðilanum það án tafar og skal hann veita allar nauðsynlegar upplýsingar. Liechtenstein og Sviss skulu tafarlaust bera saman ráð sín með það fyrir augum að finna viðunandi lausn fyrir báða aðila og skulu tilkynna EFTA-ráðinu um hana. Ekki má grípa til öryggisráðstafana fyrr en einum mánuði eftir dagsetningu tilkynningarinnar til hins aðilans, nema samráði hafi verið lokið áður en umræddur frestur var liðinn. Þegar óvenjulegar aðstæður, sem krefjast tafarlausra aðgerða, útiloka könnun fyrir fram er heimilt að grípa strax til þeirra verndarráðstafana sem bráðnauðsynlegar teljast til þess að ráða bót á ástandinu.


Tvíhliða samráð skal fara fram í það minnsta á þriggja mánaða fresti frá því að gripið er til öryggisráðstafana með það fyrir augum að fella þær niður fyrir áætluð lok gildistímabilsins eða takmarka umfang þeirra.

Ef öryggisráðstöfun, sem samningsaðili hefur gripið til, veldur misvægi milli réttinda og skyldna samkvæmt þessari bókun getur hvor aðili gripið til jafn umfangsmikilla jöfnunarráðstafana gagnvart hinum aðilanum og bráðnauðsynlegar eru til að jafna umrætt misvægi. Þær ráðstafanir skulu helst gerðar sem raska minnst framkvæmd samnings þessa.

2. Framkvæmd

2.1. Þegar eitt ár er liðið frá gildistöku samningsins um breytingu á samningi um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu veitir Liechtenstein svissneskum ríkisborgurum, sem eru þegar búsettir í Liechtenstein, sömu meðferð og ríkisborgarar Evrópska efnahagssvæðisins, sem eru búsettir í Liechtenstein, njóta.

2.2. Á sama tíma veitir Sviss, í samræmi við 5. mgr. 10. gr. í VIII. viðauka við samninginn um breytingu á samningi um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu (viðauki K í samsteyptri útgáfu EFTA-samningsins), ríkisborgurum Liechtenstein, sem eru búsettir í Sviss, frelsi til flutninga.



2.3. Liechtenstein og Sviss skulu koma sér saman um ákvæði varðandi sölu á þjónustu yfir landamæri innan árs frá gildistöku samningsins um breytingu á samningi um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu.


2.4. Innan tveggja ára, eða eigi síðar en þremur árum, eftir gildistöku samningsins um breytingu á samningi um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu skulu Liechtenstein og Sviss koma sér saman um að ríkisborgarar Sviss skuli njóta sams konar meðferðar og ríkisborgarar Evrópska efnahagssvæðisins, sem eru ekki búsettir í Liechtenstein, njóta og ríkisborgarar Liechtenstein sams konar meðferðar og ríkisborgarar ESB/EFTA, sem eru ekki búsettir í Sviss, njóta, eftir því sem við á.

B)    Að því er varðar 29. lið (Samræming á almannatryggingakerfum) og VIII. viðauka, og 2. viðbæti við hann, við samninginn um breytingu á samningi um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu (21. gr. og viðauka K í samsteyptri útgáfu EFTA-samningsins):


Ákvæði VIII. viðauka (viðauki K í samsteyptri útgáfu EFTA-samningsins) og 2. viðbætis í VIII. viðauka (viðauki K í samsteyptri útgáfu EFTA-samningsins) í samningnum um breytingu á samningi um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu skulu gilda í samskiptum Sviss og Liechtenstein.


C)    Að því er varðar 29. lið (Gagnkvæm viðurkenning á prófskírteinum) og 3. viðbæti í VIII. viðauka við samninginn um breytingu á samningi um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu (22. gr. og viðauki K í samsteyptri útgáfu EFTA-samningsins):

Ákvæði VIII. viðauka (viðauki K í samsteyptri útgáfu EFTA-samningsins) og 3. viðbætis í VIII. viðauka (viðauki K í samsteyptri útgáfu EFTA-samningsins) í samningnum um breytingu á samningi um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu skulu gilda í samskiptum Sviss og Liechtenstein í samræmi við ákvæðin um flutninga fólks sem aðilarnir hafa samþykkt.


Þessi bókun er óaðskiljanlegur hluti samningsins um breytingu á samningi um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu og öðlast gildi á sama tíma og hann.



Yfirlýsing
ríkisstjórna Sviss og Liechtenstein um frekari viðræður milli Sviss og Liechtenstein um að ríkisborgarar fái sambærilega meðferð í ríki hins



Með hliðsjón af ákvæðum í liðum 2.1 til 2.3 í þessari bókun (einstaklingar búsettir í hinu ríkinu) skulu Sviss og Liechtenstein kanna sameiginlega fyrir lok ársins 2001 lagakröfur með hliðsjón af þörf fyrir reglusetningu og með það í huga að útfæra nánar viðeigandi samning milli aðilanna. Að því loknu hefst rannsókn á efni lagakrafnanna varðandi lið 2.4 í þessari bókun (einstaklingar sem eru ekki búsettir í hinu ríkinu).



SAMEIGINLEG YFIRLÝSING

Samkeppni


Aðildarríkin viðurkenna að ekki ber að túlka ákvæði 18. gr. (áður 15. gr.) samningsins á þann hátt að í þeim felist beinar skuldbindingar fyrir fyrirtæki. Þau staðfesta enn fremur að túlka beri þá starfshætti, sem um getur í 18. gr. (áður 15. gr.), í ljósi innlendra samkeppnislaga í aðildarríkjunum.


Aðildarríkin viðurkenna mikilvægi samvinnu um málefni sem varða stefnu um framkvæmd samkeppnislaga svo sem tilkynningar, samráð og upplýsingaskipti í því skyni að greiða fyrir skilvirkri beitingu 18. gr. (áður 15. gr.). Þau munu gera með sér samstarfssamninga þar sem slíkt telst æskilegt.



SAMEIGINLEG YFIRLÝSING

Þróun laga


Aðildarríkin munu kappkosta að uppfæra samninginn reglulega svo að tillit sé tekið til þróunar samningsins um Evrópska Efnahagssvæðið og tvíhliða samninga frá 21. júní 1999 milli Svissneska ríkjasambandsins annars vegar og Evrópubandalagsins og aðildarríkja þess hins vegar. Einkum munu aðildarríkin, innan þriggja mánaða frá gildistöku samnings um breytingu á samningi um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu frá 21. júní 2001, laga samninginn að sameiginlegri þróun EES-samningsins og tvíhliða samninga Sviss og Evrópubandalagsins.




SAMEIGINLEG YFIRLÝSING

Verndun fjárfestinga með tilliti til þriðju ríkja


Aðildarríkin munu stefna að því að samþykktar verði sameiginlegar viðmiðunarreglur í því skyni að vernda fjárfestingar fjárfesta sinna í þriðju ríkjum.


SAMEIGINLEG YFIRLÝSING

Gagnkvæm viðurkenning á góðum klínískum starfsháttum og skoðunum tengdum þeim


Að því er varðar lyfjavörur eru niðurstöður klínískra prófana, sem fram fara á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, nú samþykktar og skulu fylgja með umsóknum um markaðsleyfi og um breytingar og rýmkun á þeim. Í grundvallaratriðum samþykkja aðildarríkin að halda áfram að viðurkenna þessar klínísku prófanir fyrir umsóknir um markaðsleyfi. Þau samþykkja að miða að því að starfa samkvæmt góðum klínískum starfsháttum, nánar tiltekið með því að hrinda í framkvæmd gildandi yfirlýsingum Helsinki og Tókýó og öllum leiðbeiningum sem tengjast klínískum prófunum og samþykktar voru innan ramma Alþjóðaráðstefnunnar um samhæfingu. Vegna þróunar á löggjöf um skoðanir og leyfi til klínískra prófana í Evrópubandalaginu þarf þó, í náinni framtíð, að huga að fyrirkomulagi gagnkvæmrar viðurkenningar á opinberu eftirliti með þessum prófunum og setja fram í sérstökum kafla.



SAMEIGINLEG YFIRLÝSING

Samhliða beiting I. viðauka (samsteypt útgáfa) um gagnkvæma viðurkenningu í tengslum við samræmismat og samnings Sviss og Evrópubandalagsins um gagnkvæma viðurkenningu


Það er sameiginlegur skilningur aðildarríkjanna að viðaukanum skuli beitt samhliða samningnum um gagnkvæma viðurkenningu í tengslum við samræmismat milli Sviss og Evrópubandalagsins.


Aðildarríkin skuldbinda sig til að uppfæra viðbætana við I. viðauka (samsteypt útgáfa) eigi síðar en einum mánuði eftir gildistöku hans.

Til að taka af allan vafa staðfesta aðildarríkin að skýrslur, vottorð, leyfi og samræmismerki, sem gefin eru út af viðurkenndum aðilum samkvæmt samningi Sviss og Evrópubandalagsins um gagnkvæma viðurkenningu, verði samþykkt að því er varðar viðaukann.


GAGNKVÆM YFIRLÝSING

Gagnkvæm viðurkenning á samræmismati


Aðildarríkin hafa orðið ásátt um að bæta ákvæðum um gagnkvæma viðurkenningu í tengslum við samræmismat inn í samninginn í þeirri trú að tilhögun samkvæmt 53. og 59. gr. samningsins (samsteypt útgáfa) og 10. gr. I. viðauka, muni ekki skaða góða framkvæmd samstarfs, einnig við Evrópubandalagið, á þessu sviði. Aðildarríkin munu endurskoða þessa tilhögun ef þörf krefur



YFIRLÝSING

Noregs og Sviss um bókun 1 við 2. viðbæti við viðauka K (samsteypt útgáfa) um atvinnuleysisbætur


Að því er varðar fyrirkomulag á endurgreiðslu framlaga skulu yfirvöld atvinnumála í Noregi og Sviss hafa komist að samkomulagi, eins og lýst er í lið 1.2 og 1.3 í bókun 1 við 2. viðbæti við viðauka K (samsteypt útgáfa) við samninginn, áður en samningurinn um breytingu á samningnum um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu frá 21. júní 2001 öðlast gildi.



SAMEIGINLEG YFIRLÝSING

Ökutækjakvóti


Að því er varðar 2. og 3. mgr. 8. gr. og 26. gr. í viðauka P (samsteypt útgáfa) um flutninga á landi lýsa aðildarríkin því yfir að fyrirkomulag þeirra verði endurskoðað í ljósi reynslunnar og eftir þörfum. Sviss mun senda ráðinu reglulega tilskildar tölfræðilegar upplýsingar og upplýsingar um raunverulega notkun slíkra kvóta.

PROTOCOL
REGARDING THE FREE MOVEMENT OF PERSONS BETWEEN SWITZERLAND AND LIECHTENSTEIN


Switzerland and Liechtenstein, hereinafter referred to as the “Parties”,

–    Having regard to the conclusion by Switzerland, Iceland and Norway, within the framework of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association, of an agreement regarding the movement of persons which is based on the Agreement between the European Community and its Member States on the one hand and the Swiss Confederation on the other on the free movement of persons;

–    Having regard to the aim of Switzerland and Liechtenstein to conclude such an agreement as well;

–    Considering the special situation of Liechtenstein, as a result of which Liechtenstein as a Member State of the European Economic Area (EEA) has negotiated a special solution in the field of free movement of persons that is based on the Declaration of the EEA Council regarding the free movement of persons, which in turn is part of the Conclusions of the second meeting of the EEA Council of 20 December 1994 and in which the EEA Council recognises that Liechtenstein is a very small habitable area of a rural character with an exceptionally high percentage of foreign residents and workers and also has a vital interest to preserve its national identity; and considering further the Decision of the EEA Joint Committee No 191/1999 of 17 December 1999;

–    Having regard to the Joint Declaration on equal treatment between Switzerland and Liechtenstein of 2 November 1994;

–    Implementing the Declaration of the delegations of Liechtenstein and Switzerland on free movement of persons that was signed on 6 April 2001 in Geneva within the framework of the negotiations for the amendment of the EFTA Convention;

have agreed as follows:

A)    As regards point 29 ( Free movement of persons) and Annex VIII of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association (Art. 20 and Annex K of the consolidated version of the EFTA Convention):

1. Principles

1.1. Liechtenstein and Switzerland agree that Liechtenstein will apply to Swiss citizens treatment equal to that applied to EEA citizens under the special solution granted to Liechtenstein in the EEA.


1.2. Liechtenstein and Switzerland agree that Switzerland will apply to Liechtenstein the provisions set out in Annex VIII of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association (Annex K of the consolidated version of the EFTA Convention).

1.3.     With a view to equivalent solutions, Liechtenstein and Switzerland shall concert their corresponding regulations.

1.4. If serious economic, societal or environmental difficulties of a sectorial or regional nature liable to persist are arising, Liechtenstein and Switzerland may unilaterally take appropriate measures. Such safeguard measures shall be restricted with regard to their scope and duration to what is strictly necessary in order to remedy the situation. Priority shall be given to such measures as will least disturb the functioning of this agreement.



A Party which is considering taking safeguard measures shall, without delay, notify the other Party thereof and shall provide all relevant information. Liechtenstein and Switzerland shall immediately enter into consultations with a view to finding a mutually acceptable solution and shall inform the EFTA Council thereof. The safeguard measures may not be taken until one month has elapsed after the date of notification of such measures to the other Party, unless the consultations have been completed before the expiration of the stated time-limit. When exceptional circumstances requiring immediate action exclude prior examination, the protective measures strictly necessary to remedy the situation may be applied forthwith.

Bilateral consultations shall take place at least every three months with a view to the abolition of safeguard measures before the date of expiry envisaged, or to the limitation of their scope of application.


If a safeguard measure taken by a Contracting Party creates an imbalance between the rights and obligations under this Protocol, each Party may towards the other Party take such proportionate rebalancing measures as are strictly necessary to remedy the imbalance. Priority shall be given to such measures as will least disturb the functioning of this agreement.

2. Implementation

2.1. After one year from the entry into force of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association, Liechtenstein will apply to Swiss citizens who are already residing in Liechtenstein treatment identical to that applied to EEA citizens residing in Liechtenstein.


2.2. At the same time, Switzerland will, in accordance with Art. 10 para. 5 set out in Annex VIII of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association (Annex K of the consolidated version of the EFTA Convention), grant the free movement of persons to Liechtenstein citizens who are already residing in Switzerland.

2.3. Within one year after the entry into force of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association, Liechtenstein and Switzerland shall agree on provisions regarding the cross-border supply of commercial services.

2.4. Within two, or at the latest three years after the entry into force of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association, Liechtenstein and Switzerland shall agree on the introduction of treatment of Swiss citizens equal to that of EEA citizens without residence in Liechtenstein and on the introduction of treatment of Liechtenstein citizens equal to that of EU-/EFTA-citizens without residence in Switzerland respectively.

B)    As regards point 29 ( Co-ordination of social security systems) as well as Annex VIII and Appendix 2 in Annex VIII of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association (Art. 21 and Annex K of the consolidated version of the EFTA Convention):

The provisions set out in Annex VIII (Annex K of the consolidated version of the EFTA Convention) and Appendix 2 in Annex VIII (Annex K of the consolidated version of the EFTA Convention) of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association shall apply to the relations between Switzerland and Liechtenstein.

C)    As regards point 29 ( Mutual recognition of diplomas) as well as Annex VIII and Appendix 3 in Annex VIII of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association (Art. 22 and Annex K of the consolidated version of the EFTA Convention):

The provisons set out in Annex VIII (Annex K of the consolidated version of the EFTA Convention) and Appendix 3 in Annex VIII (Annex K of the consolidated version of the EFTA Convention) of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association shall apply to the relations between Switzerland and Liechtenstein in accordance with the provisions on the movement of persons agreed upon by the Parties.

This Protocol forms an integral part of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association and will enter into force simultaneously.


Declaration
of the Governments of Switzerland and of Liechtenstein on further negotiations between Switzerland and Liechtenstein regarding the equal treatment of their own citizens in the other State


With regard to the provisions in points 2.1 to 2.3 of this Protocol (persons with residence in the other State), Switzerland and Liechtenstein shall examine together by the end of 2001 the legal requirements regarding the need for a regulation and with a view to elaborating an appropriate agreement between the two Parties. Thereafter, the studies for the clarification of the legal requirements regarding point 2.4 of this Protocol (persons without residence in the other State) will be initiated.


JOINT DECLARATION

Competition


The Member States recognise that the provisions of Article 18 (ex Article 15) of the Convention shall not be construed so as to create any direct obligations for undertakings. They furthermore confirm that the practices referred to in Article 18 (ex Article 15) shall be interpreted in the light of the national competition laws of the Member States.

The Member States recognise the importance of co-operation on issues concerning competition law enforcement policy, such as notification, consultation and exchange of information in order to facilitate an effective application of Article 18 (ex Article 15). Where desirable, they will conclude co-operation agreements.


JOINT DECLARATION

Development of law


The Member States endeavour to regularly update the Convention in order to take account of developments of the Agreement on the European Economic Area and of the bilateral agreements of 21 June 1999 between the Swiss Confederation on the one hand and the European Community and its Member States on the other. In particular, the Member States shall, within 3 months after the entry into force of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association of 21 June 2001, align the Convention to common developments of the EEA Agreement and the Swiss-EC bilateral agreements.


JOINT DECLARATION

Investment protection in relation to third States


The Member States will aim at agreeing on common guidelines in order to protect the investments of their respective investors in third States.


JOINT DECLARATION

Mutual recognition of Good Clinical Practice and inspections relating thereto


For medicinal products, the results of clinical trials carried out on the territory of the Member States are currently accepted for inclusion in applications for marketing authorisations and their variations or extensions. In principle, the Member States agree to continue to accept these clinical trials for the purpose of marketing authorisations applications. They agree to work towards an approximation of Good Clinical Practice, namely by implementing the current Declarations of Helsinki and Tokyo and all guidance relevant to clinical trials adopted in the framework of the International Conference on Harmonisation. However, due to legislative developments concerning inspections and authorisations of clinical trials in the European Community, detailed arrangements for the mutual recognition of the official supervision of these trials will have to be considered in the near future and laid down in a specific Chapter.


JOINT DECLARATION

Parallel application of Annex I (consolidated version) on mutual recognition in relation to conformity assessment with the Switzerland-EC Mutual Recognition Agreement



It is the common understanding of the Member States that the Annex shall be applied in parallel with the Agreement on the Mutual Recognition in relation to Conformity Assessment between Switzerland and the European Community.

The Member States undertake to update the Appendices to Annex I (consolidated version) not later than one month after its entry into force.

In order to avoid any doubt, the Member States confirm that for the purposes of the Annex reports, certificates, authorisations and conformity marks issued by bodies recognised under the Switzerland-EC MRA will be accepted.



JOINT DECLARATION

Mutual recognition of conformity assessments


The Member States have agreed to include provisions on mutual recognition in relation to conformity assessments in the Convention on the understanding that the arrangements made under Articles 53 and 59 of the Convention (consolidated version) and Article 10 of Annex I will not impair the good functioning of the co-operation, including as regards with the European Community, in this field. The Member States will review these arrangements if necessary.


DECLARATION

by Norway and Switzerland on Protocol 1 to Appendix 2 to Annex K (consolidated version) on unemployment benefits


Regarding refunding of contributions, arrangements as described in paragraph 1.2 and paragraph 1.3 of Protocol 1 to Appendix 2 to Annex K (consolidated version) to the Convention should be concluded between the labour market authorities of Norway and Switzerland before the entry into force of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association of 21 June 2001.


JOINT DECLARATION

Quotas for vehicles


With respect to paragraphs 2 and 3 of Article 8, and Article 26, of Annex P (consolidated version) on land transport, the Member States declare that their arrangements will be reconsidered in the light of their experiences and needs. Switzerland will regularly forward to the Council relevant statistics and information on the actual use of such quotas.

LOKAGERÐ



Fulltrúar:

    LÝÐVELDISINS ÍSLANDS,
    FURSTADÆMISINS LIECHTENSTEIN,
    KONUNGSRÍKISINS NOREGS,
    SVISSNESKA RÍKJASAMBANDSINS,

er nefnast hér á eftir „EFTA-ríkin“, sem til þess hafa fullt umboð,

er komu saman í Vaduz, tuttugasta og fyrsta dag júnímánaðar 2001 til þess að undirrita samninginn um breytingu á samningi um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu, hafa orðið ásáttir um eftirfarandi texta:

1.     samninginn um breytingu á samningi um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu;

2.     textana sem eru skráðir hér á eftir og fylgja samningnum um breytingu á samningi um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu:

I. viðauki         Viðauki Dbis við samninginn – Skrá yfir tollaívilnanir á landbúnaðarvörum

II. viðauki         Viðauki J við samninginn – Sáðvörur

III. viðauki        Viðauki K við samninginn – Lífrænn landbúnaður

IV. viðauki        Viðauki L við samninginn – Ráðstafanir um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna

V. viðauki         Viðauki H við samninginn – Reglur um tilhögun upplýsingaskipta vegna tæknilegra reglna og reglna um þjónustu í upplýsingasamfélaginu


VI. viðauki        Viðauki M við samninginn – Gagnkvæm viðurkenning með tillit til samræmismats

                            1. viðbætir    Framleiðslusvið
                            2. viðbætir    Almennar reglur varðandi tilnefningu aðila sem annast samræmismat

VII. viðauki        Viðauki N við samninginn – Hugverkaréttindi

VIII. viðauki        Viðauki O við samninginn – Frelsi fólks til flutninga

                            1. viðbætir     Flutningar fólks
                            2. viðbætir    Samræming almannatryggingakerfa
                                      Bókun 1
                                      Bókun 2
                                      Bókun 3
                            3. viðbætir    Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi (prófskírteini, vottorð og annar vitnisburður um formlega menntun og hæfi)

IX. viðauki        Viðauki P við samninginn – Fyrirvarar af hálfu Íslands varðandi fjárfestingar og þjónustuviðskipti

X. viðauki         Viðauki Q við samninginn – Fyrirvarar af hálfu Liechtenstein varðandi fjárfestingar og þjónustuviðskipti

XI. viðauki        Viðauki R við samninginn – Fyrirvarar af hálfu Noregs varðandi fjárfestingar og þjónustuviðskipti

XII. viðauki        Viðauki S við samninginn – Fyrirvarar af hálfu Sviss varðandi fjárfestingar og þjónustuviðskipti

XIII. viðauki        Viðauki T við samninginn – Flutningar á landi

                            1. viðbætir     Gildandi ákvæði
                            2. viðbætir    Reglur um álagningu gjalds sem kveðið er á um í 8. gr.
                            3. viðbætir    Fyrirmynd að leyfi
                            4. viðbætir    Flutningar sem eru undanþegnir leyfiskerfum og leyfum

                            5. viðbætir    Skrá yfir ákvæði í tvíhliða samningum um flutninga á vegum, sem gerðir eru milli aðildarríkja í tengslum við vöruflutninga í þríhliða umferð

                            6. viðbætir    Reglur um þungatakmarkanir og bann við akstri að næturlagi og á sunnudögum
                            7. viðbætir    Farþegaflutningar milli landa með hópbifreiðum
                            8. viðbætir    Skrá yfir ákvæði í tvíhliða samningum um flutninga á vegum, sem gerðir eru milli aðildarríkja í tengslum við veitingu leyfa til farþegaflutninga í þríhliða umferð

                            9. viðbætir    Skrá yfir ákvæði í tvíhliða samningum sem gerðir eru milli aðildarríkja og fjalla að öllu leyti eða að hluta um málefni sem falla undir gildissvið viðaukans
                            10. viðbætir    Landamærasvæði Sviss

XIV. viðauki    Viðauki U við samninginn – Flutningar í lofti

                            Viðbætir

XV. viðauki        Viðauki V við samninginn – Opinber innkaup

                            1. viðbætir     Öflun, flutningur eða dreifing drykkjarvatns

                            2. viðbætir    Framleiðsla, flutningur eða dreifing rafmagns

                            3. viðbætir    Flutningur eða dreifing á gasi eða hita
                            4. viðbætir    Leit að olíu og gasi/olíu- og gasnám

                            5. viðbætir    Leit að kolum eða öðru föstu eldsneyti/kola- eða eldsneytisnám
                            6. viðbætir    Samningsstofnanir á sviði járnbrautarþjónustu
                            7. viðbætir    Samningsstofnanir á sviði járnbrautarþjónustu í borgum, sporvagnsþjónustu, þjónustu rafknúinna strætisvagna og þjónustu hópbifreiða
                            8. viðbætir    Samningsstofnanir sem reka flugvallarvirki

                            9. viðbætir    Samningsstofnanir sem starfrækja hafnir við sjó eða vatn eða önnur hafnarvirki
                            10. viðbætir    Þjónusta
                            11. viðbætir    Byggingarþjónusta
                            12. viðbætir    Ráðstafanir sem Sviss tilkynnir
                            13. viðbætir    Undantekningar
                            14. viðbætir    Reglur um opinber innkaup og kærur

XVI. viðauki    Viðauki W við samninginn – Stofnanir, nefndir og aðrir aðilar sem eru ráðinu til aðstoðar

XVII. viðauki    Viðauki X við samninginn – Gerðardómur

XVIII. viðauki    Viðauki F við samninginn – Skrá yfir yfirráðasvæði sem 58. gr. á við um

XIX. viðauki     Samsvörunartafla

XX. viðauki        Samsteypt útgáfa samningsins um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu


Fulltrúar EFTA-ríkjanna, sem til þess hafa fullt umboð, hafa tekið mið af því að Liechtenstein og Sviss hafa samþykkt bókun um frelsi fólks til flutninga milli Sviss og Liechtenstein og er hún óaðskiljanlegur hluti samningsins um breytingu á samningnum um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu og fylgir VIII. viðauka og þessari lokagerð.


Fulltrúar EFTA-ríkjanna, sem til þess hafa fullt umboð, hafa samþykkt sameiginlegar yfirlýsingar sem eru taldar upp hér á eftir og fylgja þessari lokagerð:

1.     Þróun laga.

2.     Samkeppni.

3.    Gagnkvæm viðurkenning í tengslum við samræmismat.

4.    Samhliða beiting I. viðauka (samsteypt útgáfa) um gagnkvæma viðurkenning í tengslum við samræmismat og samnings Sviss og Evrópubandalagsins um gagnkvæma viðurkenningu.

5.    Gagnkvæm viðurkenning á góðum klínískum starfsvenjum og skoðunum þeim tengdar.

6.     Kvóti fyrir ökutæki.

7.    Verndun fjárfestinga með tilliti til þriðju ríkja.

Fulltrúar EFTA-ríkjanna, sem til þess hafa fullt umboð, hafa enn fremur tekið mið af yfirlýsingu Noregs og Sviss um bókun 1 við 2. viðbæti við viðauka K (samsteypt útgáfa) um atvinnuleysisbætur sem fylgir þessari lokagerð.

Loks hafa fulltrúar EFTA-ríkjanna, sem til þess hafa fullt umboð, tekið mið af leiðréttingum sem fylgja þessari lokagerð.


Gjört í Vaduz 21. júní 2001 í einu fullgiltu eintaki á ensku sem skal komið í vörslu ríkisstjórnar Noregs.





……………………………………………..

Fyrir hönd Lýðveldisins Íslands




……………………………………………..

Fyrir hönd Furstadæmisins Liechtenstein




……………………………………………..

Fyrir hönd Konungsríkisins Noregs




……………………………………………..

Fyrir hönd Svissneska ríkjasambandsins

FINAL ACT



The plenipotentiaries of:

    THE REPUBLIC OF ICELAND,
    THE PRINCIPALITY OF LIECHTENSTEIN,
    THE KINGDOM OF NORWAY,
    THE SWISS CONFEDERATION,

hereinafter referred to as “the EFTA States”,


meeting at Vaduz, this twenty-first day of June 2001 for the signature of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association, have adopted the following texts:


1.     the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association;

2.     the texts listed below which are annexed to the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association:

Annex I             Annex Dbis to the Convention – List of tariff concessions to agricultural products

Annex II             Annex J to the Convention – Seeds

Annex III         Annex K to the Convention – Organic agriculture

Annex IV         Annex L to the Convention – Sanitary and phytosanitary measures


Annex V             Annex H to the Convention – Procedure for the provision of information in the field of technical regulations and of rules on Information Society services

Annex VI         Annex M to the Convention – Mutual Recognition in relation to conformity assessment

                            Appendix 1    Product sectors
                            Appendix 2    General rules regarding the designation of Conformity assessment bodies

Annex VII         Annex N to the Convention – Intellectual property rights

Annex VIII         Annex O to the Convention – Free movement of persons

                        Appendix 1    Movement of persons
                        Appendix 2    Co-ordination of social security schemes
                                Protocol 1
                                 Protocol 2
                                 Protocol 3
                        Appendix 3    Mutual recognition of professional qualifications (diplomas, certificates and other evidence of formal qualifications)

Annex IX         Annex P to the Convention – Reservations by Iceland on investment and trade in services

Annex X             Annex Q to the Convention – Reservations by Liechtenstein on investment and services

Annex XI         Annex R to the Convention – Reservations by Norway on investment and services

Annex XII         Annex S to the Convention – Reservations by Switzerland on investment and services

Annex XIII         Annex T to the Convention – Land transport

                        Appendix 1    Applicable provisions
                        Appendix 2    Rules for applying the charges provided for in Article 8
                        Appendix 3    Model authorisation
                        Appendix 4    Types of carriage exempt from any system of licences and from any authorisation
                        Appendix 5    List of provisions contained in bilateral road transport agreements concluded between the Member States relating to the carriage of goods in triangular traffic
                        Appendix 6    Rules on the weight limit and on the ban on night and Sunday driving
                        Appendix 7    International carriage of passengers by coach and bus
                        Appendix 8    List of provisions contained in bilateral road transport agreements concluded between the Member States relating to the granting of authorisations for the carriage of passengers in triangular traffic
                        Appendix 9    List of bilateral agreements concluded between the Member States addressing in whole or in part issues falling within the scope of the Annex
                        Appendix 10    Swiss frontier area


Annex XIV        Annex U to the Convention – Air transport

                        Appendix

Annex XV        Annex V to the Convention – Public Procurement

                        Appendix 1    Production, transport or distribution of drinking water
                        Appendix 2    Production, transport or distribution of electricity
                        Appendix 3    Transport or distribution of gas or heat
                        Appendix 4    Exploration for and extraction of oil and gas
                        Appendix 5    Exploration for and extraction of coal or other solid fuels
                        Appendix 6    Contracting entities in the field of railway services
                        Appendix 7    Contracting entities in the field of urban railway, tramway, trolley bus or bus services



                        Appendix 8    Contracting entities in the field of airport facilities
                        Appendix 9    Contracting entities in the field of maritime services

                        Appendix 10    Services
                        Appendix 11    Construction services
                        Appendix 12    Measures notified by Switzerland
                        Appendix 13    Exceptions
                        Appendix 14    Procurement and challenge procedures

Annex XVI        Annex W to the Convention – Organs, committees and other bodies assisting the Council

Annex XVII        Annex X to the Convention – Arbitration

Annex XVIII    Annex F to the Convention – List of territories to which Article 58 applies

Annex XIX        Table of equivalence

Annex XX         Consolidated version of the Convention establishing the European Free Trade Association

The plenipotentiaries of the EFTA States have taken note that Liechtenstein and Switzerland have adopted a Protocol regarding the free movement of persons between Switzerland and Liechtenstein which shall form an integral part of the Agreement amending the Convention establishing the European Free Trade Association and which is annexed to Annex VIII and to this Final Act.

The plenipotentiaries of the EFTA States have adopted the joint declarations listed below and annexed to this Final Act:

1.    Development of law;

2.    Competition;

3.    Mutual recognition of conformity assessments;

4.    Parallel application of Annex I (consolidated version) on mutual recognition in relation to conformity assessment with the Switzerland-EC Mutual Recognition Agreement;

5.    Mutual recognition of Good Clinical Practice and inspection relating thereto;

6.    Quotas for vehicles;

7.    Investment protection in relation to third States.

Furthermore, the plenipotentiaries of the EFTA States have taken note of the Declaration by Norway and Switzerland on Protocol 1 to Appendix 2 to Annex K (consolidated version) on unemployment benefits which is annexed to this Final Act.

Finally, the plenipotentiaries of the EFTA States have taken note of the Corrigendum which is annexed to this Final Act.


Done at Vaduz this 21st day of June 2001, in a single authentic copy in the English language, which shall be deposited with the Government of Norway.




……………………………………………

For the Republic of Iceland




……………………………………………

For the Principality of Liechtenstein




……………………………………………

For the Kingdom of Norway




……………………………………………

For the Swiss Confederation

     1 Undanþágan varðandi Zea indurata maize gildir til 31.12.2002.
     1 The exception concerning the Zea indurata maize is applicable until 31.12.2002.
     1 Sjá skýringar nr. 7.1 og 7.3 í inngangskaflanum um sérstakar reglur um „sérstaka vinnslu“.
     2 Sjá skýringar nr. 7.2. í inngangskaflanum um sérstakar reglur um „sérstaka vinnslu“.
     1 For the special conditions relating to “specific processes” see Introductory Notes 7.1 and 7.3
     2 For the special conditions relating to “specific processes” see Introductory Notes 7.2
     1 Sjá skýringar nr. 7.2. í inngangskaflanum um sérstakar reglur um „sérstaka vinnslu“.
     2 Sjá skýringar nr. 7.1 og 7.3 í inngangskaflanum um sérstakar reglur um „sérstaka vinnslu“.
     1 For the special conditions relating to “specific processes” see Introductory Notes 7.2
     2 For the special conditions relating to “specific processes” see Introductory Notes 7.1 and 7.3
     1 Sjá skýringar nr. 7.1 og 7.3 í inngangskaflanum um sérstakar reglur um „sérstaka vinnslu“.
     1 For the special conditions relation to “specific processes” see Introductory Notes 7.1 and 7.3
     1 Sjá skýringar nr. 7.1 og 7.3 í inngangskaflanum um sérstakar reglur um „sérstaka vinnslu“.
     1 For the special conditions relating to “specific processes” see Introductory Notes 7.1 and 7.3.
     1 Í skýringu nr. 3 við 32. kafla segir að þessar blöndur séu til nota við litun hvers konar efnis eða sem efnisþættir við framleiðslu litarefna, enda flokkist þær ekki undir annan vörulið í 32. kafla.
     2 „Flokkur“ telst vera hvaða hluti vöruliðar sem er aðskilinn með semíkommu.
     1 Note 3 to Chapter 32 says that these preparations are those of a kind used for colouring any material or used as ingredients in the manufacturing of colouring preparations, provided they are not classified in another heading in Chapter 32.
     2 A “group” is regarded as any part of the heading separated from the rest by a semi-colon.
     1 Sjá skýringar nr. 7.1 og 7.3 í inngangskaflanum um sérstakar reglur um „sérstaka vinnslu“.
     1 For the special conditions relating to “specific processes” see Introductory Notes 7.1 and 7.3.
     1 Að því er varðar vörur úr efnum sem flokkast annars vegar í nr. 3901 til 3906 og hins vegar í nr. 3907 til 3911 gildir takmörkun þessi aðeins um þann flokk efna sem meira er af miðað við þyngd.

     1 In the case of the products composed of materials classified within both heading No 3901 to 3906, on the one hand, and within heading No 3907 to 3911, on the other hand, this restriction only applies to that group of materials which predominates by weight in the product.
     1 Að því er varðar vörur úr efnum sem flokkast annars vegar í nr. 3901 til 3906 og hins vegar í nr. 3907 til 3911 gildir takmörkun þessi aðeins um þann flokk efna sem meira er af miðað við þyngd.

     1 In the case of the products composed of materials classified within both heading No 3901 to 3906, on the one hand, and within heading No 3907 to 3911, on the other hand, this restriction only applies to that group of materials which predominates by weight in the product.
     1 Eftirtaldar himnur teljast mjög gagnsæjar: himnur sem draga minna en 2% úr ljósmagni, mælt samkvæmt ASTM-D 1003-16 af Gardner Hazemæli (þ.e. Haze-þáttur).
     1 The following foils shall be considered as highly transparent: foils, the optical dimming of which – measured according to ASTM-D 1003-16 by Gardner Hazemeter (i.e. Hazefactor) – is less than 2 per cent.
     1 Sjá skýringu nr. 5 í inngangskaflanum um sérstakar reglur um framleiðsluvörur úr blönduðum textílefnum.
     1 For special conditions relating to products made of a mixture of textile materials, see Introductory Note 5.
     1 Sjá skýringu nr. 5 í inngangskaflanum um sérstakar reglur um framleiðsluvörur úr blönduðum textílefnum.
     1 For special conditions relating to products made of a mixture of textile materials, see Introductory Note 5.
     1 Sjá skýringu nr. 5 í inngangskaflanum um sérstakar reglur um framleiðsluvörur úr blönduðum textílefnum.
     1 For special conditions relating to products made of a mixture of textile materials, see Introductory Note 5.
     1 Sjá skýringu nr. 5 í inngangskaflanum um sérstakar reglur um framleiðsluvörur úr blönduðum textílefnum.
     1 For special conditions relating to products made of a mixture of textile materials, see Introductory Note 5.
     1 Sjá skýringu nr. 5 í inngangskaflanum um sérstakar reglur um framleiðsluvörur úr blönduðum textílefnum.
     1 For special conditions relating to products made of a mixture of textile materials, see Introductory Note 5.
     1 Sjá skýringu nr. 5 í inngangskaflanum um sérstakar reglur um framleiðsluvörur úr blönduðum textílefnum.
     1 For special conditions relating to products made of a mixture of textile materials, see Introductory Note 5.
     1 Sjá skýringu nr. 5 í inngangskaflanum um sérstakar reglur um framleiðsluvörur úr blönduðum textílefnum.
     1 For special conditions relating to products made of a mixture of textile materials, see Introductory Note 5.
     1 Sjá skýringu nr. 5 í inngangskaflanum um sérstakar reglur um framleiðsluvörur úr blönduðum textílefnum.
     1 For special conditions relating to products made of a mixture of textile materials, see Introductory Note 5.
     1 Sjá skýringu nr. 5 í inngangskaflanum um sérstakar reglur um framleiðsluvörur úr blönduðum textílefnum.
     1 For special conditions relating to products made of a mixture of textile materials, see Introductory Note 5.
     1 Sjá skýringu nr. 5 í inngangskaflanum um sérstakar reglur um framleiðsluvörur úr blönduðum textílefnum.
     1 For special conditions relating to products made of a mixture of textile materials, see Introductory Note 5.
     1 Sjá skýringu nr. 5 í inngangskaflanum um sérstakar reglur um framleiðsluvörur úr blönduðum textílefnum.
     1 For special conditions relating to products made of a mixture of textile materials, see Introductory Note 5.
     1 Sjá skýringu nr. 5 í inngangskaflanum um sérstakar reglur um framleiðsluvörur úr blönduðum textílefnum.
     2 Notkun þessa efnis takmarkast við framleiðslu ofins efnis af þeirri gerð sem er notuð í vélbúnað til pappírsgerðar.
     1 For special conditions relating to products made of a mixture of textile materials, see Introductory Note 5.
     2 The use of this material is restricted to the manufacture of woven fabrics of a kind used in paper-making machinery.
     1 Notkun þessa efnis takmarkast við framleiðslu ofins efnis af þeirri gerð sem er notuð í vélbúnað til pappírsgerðar.
     2 Sjá skýringu nr. 5 í inngangskaflanum um sérstakar reglur um framleiðsluvörur úr blönduðum textílefnum.
     1 The use of this material is restricted to the manufacture of woven fabrics of a kind used in paper-making machinery.
     2 For special conditions relating to products made of a mixture of textile materials, see Introductory Note 5.
     1 Sjá skýringu nr. 5 í inngangskaflanum um sérstakar reglur um framleiðsluvörur úr blönduðum textílefnum.
     2 Sjá skýringu nr. 6 í inngangskaflanum.
     1 For special conditions relating to products made of a mixture of textile materials, see Introductory Note 5.
     2 See Introductory Note 6.
     1 Sjá skýringu nr. 6 í inngangskaflanum.
     2 Sjá skýringu nr. 5 í inngangskaflanum um sérstakar reglur um framleiðsluvörur úr blönduðum textílefnum.
     1 See Introductory Note 6.
     2 For special conditions relating to products made of a mixture of textile materials, see Introductory Note 5.
     1 Sjá skýringu nr. 5 í inngangskaflanum um sérstakar reglur um framleiðsluvörur úr blönduðum textílefnum.
     2 Sjá skýringu nr. 6 í inngangskaflanum.
     3 Sjá skýringu nr. 6 um prjónaðar eða heklaðar vörur, án teygju- eða gúmmíefna, sem unnar eru með því að sauma eða festa saman með öðru móti tvö eða fleiri stykki úr prjónuðu eða hekluðu efni (sem hafa verið sérstaklega sniðin eða prjónuð þannig).
     1 For special conditions relating to products made of a mixture of textile materials, see Introductory Note 5.
     2 See Introductory Note 6.
     3 For knitted or crocheted articles, not elastic or rubberized, obtained by sewing or assembly pieces of knitted or crocheted fabrics (cut out or knitted directly to shape), see introductory note 6.

     1 Sjá skýringu nr. 6 í inngangskaflanum.
     1 See Introductory Note 6
     1 SEMII – Semiconductor Equipment and Materials Institute Incorporated.
     1 SEMII – Semiconductor Equipment and Materials Institute Incorporated.
     1 Þessi regla gildir til 31. desember 2005.
     1 This rule shall apply until 31 December 2005.
     1 Þegar viðurkenndur útflytjandi, í skilningi 22. gr. þessa viðauka, gefur út yfirlýsingu á vörureikningi skal leyfisnúmer hans koma fram í þessari eyðu. Ef yfirlýsingin er ekki gefin út af viðurkenndum útflytjanda skal svigagreinin felld burt eða skilin eftir eyða.
     2 Hér á að tilgreina uppruna vörunnar.
     3 Ekki er þörf á að taka þetta sérstaklega fram ef upplýsingarnar koma fram á skjalinu sjálfu.
     4 Sjá 5. mgr. 21. gr. þessa viðauka. Ef þess er ekki krafist að útflytjandi skrifi undir eigin hendi felur það jafnframt í sér að ekki er þörf á að taka fram nafn þess sem undirritar.
     1 When the invoice declaration is made out by an approved exporter within the meaning of Article 22 of the Annex, the authorization number of the approved exporter must be entered in this space. When the invoice declaration is not made out by an approved exporter, the words in brackets shall be omitted or the space left blank.
     2 Origin of products to be indicated.
     3 These indications may be omitted if the information is contained on the document itself.
     4 See Article 21(5) of the Annex. In cases where the exporter is not required to sign, the exemption of signature also implies the exemption of the name of the signatory.
     * Ath.:    ST-númer 07.11, 20.01, 20.04: Til sykurmaíss, sem um getur í þessum vöruliðum í I. hluta viðauka C, teljast ekki blöndur af sykurmaís og öðrum vörum í þessum vöruliðum. Slíkar blöndur falla undir III. hluta viðauka C.
     * Note:    HS heading Nos. 07.11, 20.01, 20.04: Sweet corn mentioned under these headings in Part I of Annex C does not include mixtures of sweet corn and other products of these headings. Such mixtures are contained in Part III of Annex C.
     1 Innan 60 tonna innflutningskvóta.
     1 Within a tariff rate quota of 60 tons.
     1 Tollaívilnanirnar gilda einnig um vörur sem fluttar eru inn til Liechtenstein frá Noregi og Íslandi meðan tollabandalagssamningurinn frá 29. mars 1923 milli Svissneska ríkjasambandsins og furstadæmisins Liechtenstein er í gildi.

     1 The tariff concessions shall also be applied on imports from Norway and Iceland to Liechtenstein as long as the Customs Union Treaty of 29 March 1923 between the Swiss Confederation and the Principality of Liechtenstein remains in force.
     1 Ekki skal litið svo á að þessi skuldbinding taki að neinu leyti til opinberrar þjónustu, hvort sem sveitarstjórnir og ríkisstjórn Liechtenstein á hana, rekur eða býður hana út.
     1 Nothing in this commitment should be construed to include public work function whether owned and operated by municipalities or the Liechtenstein government or contracted out by them.
     1 Undir þetta heyra ekki aðeins viðskiptin sem um getur í málsgrein B.3 í samkomulaginu heldur öll bankaviðskipti og önnur fjármálaþjónusta (að undanskilinni vátryggingastarfsemi).
     2 Covered are not only transactions indicated in paragraph B.3 of the 'Understanding' but the whole range of banking and other financial services transactions (excluding insurance).
     1 Þessi krafa gildir áfram uns breytingar á norsku bókhaldslögunum ganga í gildi.
     1 This requirement continues to apply until changes in the Norwegian Accounting Act come into force.
     1 Ekki skal litið svo á að þessi skuldbinding taki að neinu leyti til opinberrar þjónustu, hvort sem hún er í eigu sveitarfélaga, kantóna eða sambandsstjórna, er rekin af þeim eða boðin út.
     2 Nothing in this commitment should be construed to include public work function whether owned and operated by municipalities, cantons or federal government or contracted out by them.
     1 Lögin um norsku verðbréfavörslumiðstöðina eru í endurskoðun. Fyrirhugað er að afnema lögbundinn einkarétt.

     3 The act relating to the Norwegian Central Securities Depository is currently under revision. The legal monopoly is proposed to be abolished.
     1 „Gestaflutningar“ er skilgreint sem sjóflutningar á vörum og farþegum milli hafna í Noregi að meðtöldum stöðum á landgrunni þar sem jarðolíuleit eða -vinnsla fer fram.
     4 “Cabotage” is defined as maritime transport of goods and passengers between ports in Norway, including locations on the continental shelf where petroleum is explored or produced.
     1 „Vöruafgreiðsla í sjóflutningum“ merkir starfsemi lestunar- og losunarfyrirtækja, þar með talið birgðastöðva, en tekur ekki til beinnar starfsemi hafnarverkamanna ef slíkt vinnuafl er ekki á vegum lestunar- og losunarfyrirtækjanna eða birgðastöðvanna. Starfsemin sem heyrir undir þetta nær yfir skipulagningu á og eftirlit með:
    -    lestun/losun farms í/úr skipi;
    -    festingu/losun farms;
    -    viðtöku/afhendingu og vörslu farms fyrir flutning eða eftir losun.
     2 „Tollafgreiðsla“ (einnig kallað „þjónusta tollmiðlara“) merkir starfsemi sem felst í að sinna fyrir hönd annars aðila formsatriðum varðandi innflutning, útflutning eða gegnumflutning farms, hvort sem þessi þjónusta er aðalstarfsemi þjónustuveitanda eða eðlileg viðbót við aðalstarfsemi hans.

     3 „Gámaþjónusta (Container station and depot services)“ merkir starfsemi sem felst í geymslu á gámum, á hafnarsvæði eða inni í landi, með hleðslu/tæmingu, viðgerðir og frágang til sendingar í huga.
     4 „Þjónusta umboðsskrifstofa á sviði siglinga“ merkir starfsemi sem felst í að koma fram, á tilteknu landsvæði, sem fulltrúi viðskiptahagsmuna eins eða fleiri skipafélaga eða skipaútgerða í eftirfarandi tilgangi:
    -    að markaðssetja og selja sjóflutninga og tengda þjónustu, frá verðtilboði til gerðar vörureikninga, og útgáfu farmskírteina fyrir hönd fyrirtækjanna; kaup og endursala á nauðsynlegri, tengdri þjónustu, skjalagerð og veiting viðskiptaupplýsinga;
    -    að koma fram fyrir hönd fyrirtækja við að skipuleggja viðkomu skips eða yfirtöku farms þegar nauðsyn krefur.
     5 „Þjónusta flutningamiðlana“ merkir starfsemi sem felst í skipulagningu á og eftirliti með flutningi fyrir hönd farmsendenda, með kaupum á flutningum og tengdri þjónustu, skjalagerð og veitingu viðskiptaupplýsinga.

     6 „Önnur stoðþjónusta við flutninga“ merkir þjónustu flutningamiðlara, endurskoðun reikninga og upplýsingaþjónustu um farmgjöld; þjónustu við flutningsskjalagerð; þjónustu við pökkun og að taka upp; skoðun á farmi, vigtun og sýnatöku og móttöku og viðurkenningu farms (þar á meðal að sækja og senda á hverjum stað).

     5 “Maritime cargo handling services” means activities exercised by stevedore companies, including terminal operators, but not including the direct activities of dockers, when this workforce is organized independently of the stevedoring or terminal operator companies. The activities covered include the organization and supervision of:
-    the loading/discharging of cargo to/from a ship;
-    the lashing/unlashing of cargo;
-    the reception/delivery and safekeeping of cargoes before shipment or after discharge.
     6 “Customs clearance services” (alternatively “customs house brokers' services”) means activities consisting in carrying out on behalf of another party customs formalities concerning import, export or through transport of cargoes, whether this service is the main activity of the service provider or a usual complement of its main activity.
     7 “Container station and depot services” means activities consisting in storing containers, whether in a port area or inland, with a view to their stuffing/stripping, repairing, and making them available for shipments.
     8 “Maritime agency services” means the activities consisting in representing, within a given geographic area, as an agent the business interests of one or more shipping lines or shipping companies, for the following purposes:
-    marketing and sales of maritime transport and related services, from quotation to invoicing, and issuance of bills of lading on behalf of the companies; acquisition and resale of the necessary related services, preparation of documentation, and provision of business information;
-    acting on behalf of the companies organizing the call of the ship or taking over cargoes when required.
     9 “Freight forwarding services” means the activity consisting of organizing and monitoring shipment operations on behalf of shippers, through the acquisition of transport and related services, preparation of documentation and provision of business information.
     10 “Other supporting and auxiliary transport services” means freight brokerage services; bill auditing and freight rate information services; transportation document preparation services; packing and crating and unpacking and de-crating services; freight inspection, weighing and sampling services; and freight receiving and acceptance services (including local pick-up and delivery).
     1 Ekki skal litið svo á að þessi skuldbinding taki að neinu leyti til opinberrar þjónustu, hvort sem hún er í eigu sveitarfélaga, kantóna eða sambandsstjórna, er rekin af þeim eða boðin út.
     1 Nothing in this commitment should be construed to include public work function whether owned and operated by municipalities, cantons or federal government or contracted out by them.
     1 Undir þetta heyra ekki aðeins viðskiptin sem um getur í málsgrein B.3 í samkomulaginu heldur öll bankaviðskipti og önnur fjármálaþjónusta (að undanskilinni vátryggingastarfsemi).
     1 Not only transactions indicated in paragraph B.3 of the “Understanding” but the whole range of banking and other financial services transactions are covered (excluding insurance).
     1 Auðkenni landanna eru IS (Ísland), (FL) Liechtenstein, (N) Noregur.
     2 Nafn eða firmanafn og fullt heimilisfang flutningafyrirtækis.
     3 Hér á eftir nefnd „EFTA-ríkin“.
     4 Undirskrift og stimpill lögbæra yfirvaldsins eða stofnunarinnar sem gefur leyfið út.
     1 The distinguishing signs are IS (Iceland), (FL) Liechtenstein, (N) Norway.
     2 Name or business name and full address of the haulier.
     3 Hereinafter referred to as “the EFTA States”.
     4 Signature and stamp of the issuing competent authority or body.
     1 „Ökutæki“ er vélknúið ökutæki, skráð í EFTA-ríki, eða samtengt ökutæki þar sem að minnsta kosti vélknúna ökutækið er skráð í EFTA-ríki og eingöngu notað til vöruflutninga.
     1 “Vehicle” means a motor vehicle registered in an EFTA State or a coupled combination of vehicles, the motor vehicle of which at least is registered in an EFTA State, used exclusively for the carriage of goods.