Stjórn fiskveiða í Norður-Atlantshafi

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 14:34:23 (2891)

2003-01-22 14:34:23# 128. lþ. 63.91 fundur 362#B stjórn fiskveiða í Norður-Atlantshafi# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[14:34]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Okkur sem erum í stjórnarandstöðu ber að halda uppi ábyrgri andstöðu og eftirliti með gerðum ríkisstjórnarinnar. En það væri að æra óstöðugan ef við færum fram á það að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hefðu sérstakt samráð sín á milli um hvernig þeir deildu út ráðstöfunarfé einstakra ráðherra. Það er ekkert óeðlilegt við að hæstv. sjútvrh. Árni Mathiesen viti ekki af því þó að hæstv. utanrrh. deili út 500 þús. kr. styrk í tiltekna átt.

Að því er varðar þann sem kom hér upp með hnút í maganum, hv. 1. þm. Norðurl. e., er það þannig að málflutningur af þessu tagi er ekki sæmandi manni sem gegnir embætti þingforseta. Ég er aðallega með hnút í maganum yfir því hvernig hann túlkar söguna og túlkar afstöðu einstakra manna. (Gripið fram í.) Hann talaði um að Samfylkingin væri hægt og bítandi að reyna að grafa undan fiskveiðiréttindum Íslendinga með því að hleypa ESB hingað inn. Nú hefur gengið í salinn sá maður, hæstv. forsrh., sem veitti forstöðu ríkisstjórn sem gerði, að því er ég man best, fyrsta tvíhliða samninginn sem hleypti togurum Evrópusambandsins inn fyrir efnahagslögsöguna. Ég samþykkti það ásamt hæstv. þáv. sjútvrh. Þorsteini Pálssyni. Hafi einhver byrjað á að hleypa útlendingum inn í efnahagslögsöguna voru það sjávarútvegsráðherrar Sjálfstfl.

Herra forseti. Þetta mál snýst um hvort í lagi sé að ríkisstjórnin styrki rannsóknir af þessu tagi. Að sjálfsögðu er það í lagi.

Ég er þeirrar skoðunar að utanríkisstefna VG sé fullkomlega ga-ga. (Gripið fram í.) Þeir byggja á því að það eigi að gera tvíhliða samning við Evrópusambandið. Við vitum hvernig það hefur gengið varðandi Sviss. Ég yrði hins vegar fyrstur manna til að samþykkja að utanrrh. mundi styrkja með 500 þús. kr. framlagi rannsóknir á þeirri dellu.