Verkaskipting ráðuneyta

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 14:39:23 (2893)

2003-01-22 14:39:23# 128. lþ. 63.1 fundur 70. mál: #A verkaskipting ráðuneyta# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[14:39]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég hef beint fyrirspurn til forsrh. um hvað líði endurskoðun verkaskiptingar ráðuneyta, m.a. flutningi félagslegra verkefna til félmrn. og endurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands sem ríkisstjórnin boðaði í stefnuyfirlýsingu sinni 28. maí 1999.

Í umræðum í fyrirspurnatíma fyrir tveimur árum upplýsti hæstv. forsrh. að taka ætti verkaskiptingu ráðuneytanna til skoðunar sem hluta af endurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands sem ríkisstjórnin boðaði í stefnuyfirlýsingu 28. maí 1999. Boðað var að sú endurskoðun mundi eftir atvikum einnig ná til verkaskiptingar milli félmrn. og heilbr.- og trmrn.

Herra forseti. Ég hef ítrekað hreyft við því að félagsleg verkefni sem vistuð kunna að vera hjá öðrum ráðuneytum, sérstaklega heilbr.- og trmrn., yrðu flutt til félmrn. til að tryggja samvirkni og góða þjónustu í málaflokknum. Samkvæmt ályktun Alþingis var sérstök nefnd sett á laggir sem gera átti tillögur um fyrirkomulag þessara verkefna. Henni var jafnframt falið að skoða flutning sérstakra verkefna á þessu sviði frá menntmrn. Nefndin dó drottni sínum eftir 3--4 fundi árið 1997. Nú fyrir jól var hún formlega lögð af með bréfi til hæstv. forsrh. Gríðarlegum verkefnum nefndarinnar, svo ég vísi í orð fyrrv. formanns hennar, var vísað til heildarendurskoðunar á verkaskiptingu ráðuneytanna en í stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna segir, með leyfi forseta:

,,Að endurskoða lög um Stjórnarráð Íslands, skipan ráðuneyta og verkefni þeirra, þar sem hliðsjón verði höfð af breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu. Í því samhengi munu stjórnarflokkarnir taka til endurskoðunar verkaskiptingu sín á milli. Fyrsta verkefnið verði að færa Byggðastofnun undir iðnaðarráðuneyti og sameina atvinnuþróunarstarfsemi á vegum þess, svo og að fella Seðlabanka Íslands undir forsætisráðuneyti sem efnahagsráðuneyti.``

Herra forseti. Ég hef talið víst að svar forsrh. fyrir tveimur árum ætti við fleira en þetta fyrsta verk sem varðar flutning Byggðastofnunar og Seðlabanka og reyndar að leggja af Þjóðhagsstofnun. Þess vegna spyr ég hvað hafi verið unnið í þessum málum og hvað líði skoðun á félagslegum verkefnum sem enn heyra undir önnur ráðuneyti sex árum eftir ályktun Alþingis þar um.