Flugumferð um Keflavíkurflugvöll

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 15:11:08 (2906)

2003-01-22 15:11:08# 128. lþ. 63.3 fundur 148. mál: #A flugumferð um Keflavíkurflugvöll# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[15:11]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Ég er ánægður með það að af hálfu ráðuneytisins hafi verið mörkuð afstaða til þess að samræma gjöld á flugvöllum, óháð því hvort þau eru lögð á innanlands- eða utanlandsflug, sem þýðir að sjálfsögðu lækkun á flugvallargjöldum á Keflavíkurflugvelli og ætti því að geta lækkað þann kostnað sem er á hvern farþega sem fer í gegnum flugvöllinn.

Það er að sönnu rétt og auðvitað nauðsynlegt að auka markaðssetningu á Íslandi sem ferðamannalandi þannig að menn hafi sérstaka ástæðu til að koma til Íslands, en það sé ekki háð millilendingum. Það er augljóst að mörg af þeim flugfélögum sem nú lenda hér, m.a. kanadíska flugfélagið, gera það vegna nauðsynjar á millilendingu að setja upp áætlun hingað. En ef þessari flugvélagerð yrði breytt þannig að hún tæki meira eldsneyti þá þyrfti hún í sjálfu sér ekkert að lenda hér og mundi þess vegna sleppa þessari millilendingu. Þannig er þetta í mjög mörgum tilfellum og okkur er því náttúrlega mikill vandi á höndum.

Ég fagna því mikla starfi sem unnið er af hálfu utanrrn. og flugmálayfirvalda í því að markaðssetja landið. Það hefur verið gert með ýmsu móti, með auglýsingum og með kynningu, bæði samgrn. og utanrrn., af flugvallarstarfsmönnum sjálfum. Það þarf mikið til og allt það starf sem unnið hefur verið af Flugleiðum er mjög þakkarvert.