Alþjóðasakamáladómstóllinn

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 15:13:35 (2907)

2003-01-22 15:13:35# 128. lþ. 63.4 fundur 179. mál: #A alþjóðasakamáladómstóllinn# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[15:13]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Hæstv. forseti. Þann 1. júlí sl. tók Alþjóðasakamáladómstóllinn formlega til starfa í Haag í Hollandi. Dómstólnum er ætlað að rannsaka og ákæra einstaklinga sem taldir eru hafa gerst sekir um glæpi gegn mannkyni, þjóðarmorð eða stríðsglæpi. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu dómstólsins hafa 139 ríki skrifað undir sáttmála um stofnun hans og 87 hafa nú þegar staðfest þann samning. Þess má geta að Ísland var tíunda ríkið til þess að staðfesta hann.

Stofnun Alþjóðasakamáladómstólsins á sér áratugalangan aðdraganda, en með henni myndaðist loks skýr pólitískur vilji á alþjóðlegum vettvangi til þess að binda enda á refsileysi einstaklinga þegar um er að ræða stórkostlega glæpi eins og þá sem að ofan voru nefndir.

Á liðnu ári stóðu miklar deilur á milli Bandaríkjastjórnar og annarra ríkja, aðallega Evópusambandsríkja og Kanada, vegna kröfu Bandaríkjanna um undanþágu fyrir bandaríska þegna frá lögsögu dómstólsins, en þau hafa á undanförnum mánuðum þrýst á ríki til þess að gera tvíhliða samninga sem veita bandarískum ríkisborgurum undanþágu frá framsalskröfu dómstólsins og m.a. sent sérstakan erindreka sinn um allan heim til þess að reyna að ná samningum við ríkisstjórnir um það, þ.e. um það að aðrar ríkisstjórnir framselji ekki bandaríska þegna til dómstólsins né rétti yfir þeim í eigin landi, en óhætt er að fullyrða að með kröfugerð sinni grafi Bandaríkjastjórn undan starfi og lögmæti Alþjóðasakamáladómstólsins.

Að því ég best veit hafa Bandaríkin nú þegar gert slíka samninga við um tvo tugi landa. Þar á meðal eru Ísrael, Afganistan, Austur-Tímor, Tadsjikistan og Úsbekistan, sem sum hver hafa ekki eini sinni undirritað sáttmálann um dómstólinn.

Herra forseti. Í septemberlok á síðasta ári náðist samkomulag á utanríkisráðherrafundi Evrópusambandsins um að koma til móts við kröfur Bandaríkjastjórnar með því að samþykkja að aðildarríki gætu hvert fyrir sig samið um afnám framsalskröfunnar en þá aðeins ef hermenn eða diplómatar ættu í hlut. Ákvörðun ráðherrafundar Evrópusambandsins hefur verið gagnrýnd af mannréttindasamtökum um allan heim, en viðbrögð Bandaríkjastjórnar voru að segjast mundu hunsa samþykki ESB, með öðrum orðum, herra forseti, að halda fast í fyrri kröfur.

Í ljósi alls þessa vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh. hvort bandarísk stjórnvöld hafi farið fram á viðræður við íslensk stjórnvöld um tvíhliða samning um friðhelgi bandarískra þegna fyrir Alþjóðasakamáladómstólnum?