Hvalveiðar

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 15:34:56 (2916)

2003-01-22 15:34:56# 128. lþ. 63.5 fundur 330. mál: #A hvalveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[15:34]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Það fer ekki á milli mála, herra forseti, að leifar veiðimannasamfélagsins ná enn inn á hv. Alþingi og það er vel. Þetta mál snerist bara ekki um það sem hv. síðasti ræðumaður var að fjalla um, þ.e. hvalveiðar eða ekki hvalveiðar, hreint ekki, heldur miklu frekar hitt: Hvernig getum við komið málum þannig fyrir að hvalveiðar og hvalasýningar geti hvorutveggja átt sér stað?

Herra forseti. Í dag hafa fjöldamargir atvinnu af hvalaskoðun og hvalasýningum og þetta skiptir verulegu máli í efnahag margra sveitarfélaga og fyrirtækja innan þeirra. (Gripið fram í: Og Norðmenn.) Það er með þessum hætti sem við erum að nýta hvalastofninn í dag.

Svo langar mig vegna þessarar umræðu um veiðar á smáhvelum að ítreka það að ég er ekki á móti veiðum á smáhvelum. En ég spyr, herra forseti: Eru þetta einu dýrin sem engar reglur þurfa að gilda um hvernig eru veidd? Ef menn ætla að fá að veiða hér spendýr eða fugla þá þurfa þeir veiðikort. Menn geta ekki bara vaðið hér um og hagað sér eins og dónar í náttúrunni, eins og því miður eru dæmi um. Þarf ekki reglur um þessar veiðar líka, herra forseti, eða á að skilja smáhvelin eftir til þess að menn geti fengið þar þá útrás sem þeir telja sig þurfa að fá, en fá kannski ekki þar sem reglur hafa verið settar?

Herra forseti. Ég skora á hæstv. sjútvrh., ef hann yfir höfuð lítur þá svo á að smáhveli heyri undir hans ráðuneyti, að snúa sér að því að móta reglur um veiðar þessara dýra þannig að þetta geti farið saman, vegna þess að þó að hvalaskoðunarfyrirtækin hafi blómstrað þá er það nú einu sinni svo, og það veit hæstv. sjútvrh., að það eru þarna árekstrar sem eiga ekki að eiga sér stað, þurfa ekki að eiga sér stað og hægt er að koma í veg fyrir.