Heilsugæsla, félagsþjónusta og öldrunarþjónusta

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 15:50:09 (2923)

2003-01-22 15:50:09# 128. lþ. 63.6 fundur 449. mál: #A heilsugæsla, félagsþjónusta og öldrunarþjónusta# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[15:50]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég tek undir orð hæstv. heilbrrh. hvað varðar þessi mál, samhæfingu félagsþjónustu, öldrunarþjónustu og heilsugæslu. Þau tilraunaverkefni sem sett hafa verið á hjá nokkrum sveitarfélögum hafa gengið þokkalega. Þegar ég segi þokkalega þá er helst að fjármagn hafi skort til verkefnisins. En sveitarfélögin eru misjöfn og að mínu mati væri það mjög stórt skref að taka að færa heilsugæsluna alfarið yfir á sveitarfélögin þar sem þau stæðu mjög svo misjafnlega að vígi að taka við þeirri þjónustu. Því tel ég rétt að fara þá leið sem farin hefur verið að bjóða þeim sveitarfélögum sem afl hafa til að taka þessi verkefni að sér, að halda því áfram og fleiri gætu þá bæst við.