Staðan á kjötmarkaðnum

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 15:33:08 (3039)

2003-01-27 15:33:08# 128. lþ. 65.1 fundur 373#B staðan á kjötmarkaðnum# (óundirbúin fsp.), EKG
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[15:33]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég spurði þó sérstaklega hvort hann hygðist með einhverjum hætti bregðast beinlínis við því bréfi sem Landssamtök sláturleyfishafa sendu honum þann 5. desember sl. þar sem farið var fram á það að skipaður yrði formlegur starfshópur til að fara ofan í þetta mál.

Ég rakti það hér áðan að þetta mál er í rauninni alls ekkert einfalt og aðkoman að því er kannski ekki einföld fyrir stjórnvöld. Engu að síður eru þetta miklir breytingatímar og það er mjög mikilvægt að þessi aðlögun geti átt sér stað og að eðlileg verðmyndun verði á kjötmarkaði sem sannarlega er ekki í dag. Það er offramboð og það er verðlagning sem stenst ekki til lengdar, það er öllum ljóst. Þess vegna er mjög mikilvægt, fyrir okkur a.m.k., að átta okkur á í hvað stefnir. Þetta getur haft mikil áhrif, m.a. byggðaleg. Við vitum til að mynda varðandi sauðfjárræktina að frekari samdráttur og frekari tekjusamdráttur í sauðfjárræktinni getur haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þess vegna, virðulegi forseti, ítreka ég spurningu mína til hæstv. landbrh. um hvort hann hyggist með beinum hætti bregðast við þessu bréfi frá Landssamtökum sláturleyfishafa.