Launamunur kynjanna hjá hinu opinbera

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 15:52:49 (3044)

2003-01-27 15:52:49# 128. lþ. 65.95 fundur 380#B launamunur kynjanna hjá hinu opinbera# (umræður utan dagskrár), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[15:52]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að afar margar kannanir hafa sýnt mikinn launamun á milli karla og kvenna. Það er okkur til vansa hve lítið hefur þokast í þeim efnum. Eins og fram kom áðan var fyrir skömmu gerð könnun af Jafnréttisráði og nefnd um efnahagsleg völd kvenna sem hæstv. forsrh. skipaði. Sú könnun sýndi að þegar menn skoða allar afsakanir sem til eru gagnvart launamun kynja er samt eftir 7,5--11% launamunur. Þegar búið er að reyna að útskýra með öllum mögulegum afsökunum er sá launamunur 7,5--11%. Sumar rannsóknir sýna enn frekari launamun.

Það kemur líka fram í þessari rannsókn að þegar laun karla og kvenna eru skoðuð hvor í sínu lagi virðast laun karla aukast um 4--5% við að vera í sambúð eða ganga í hjónaband en laun kvenna eru óbreytt hvort sem þær fara í sambúð eða ekki.

Það kemur líka fram að séu börn yngri en sjö ára á heimilinu hækka laun kvenna um 1% en laun karla um 3--4%. Af hverju fá karlarnir meira við að fara í sambúð en konurnar ekki? Af hverju fá karlarnir hærri laun fyrir það að eiga ung börn en konurnar ekki? Í þessari rannsókn er það útskýrt með því að áhrif sambúðar og barneigna á launamun liggi meira á konunum en körlunum vegna þess að þær taka lengri barneignaleyfi og hverfa oftar af vinnumarkaði vegna barneigna.

Ég fagna því mjög að stjórnvöld hafa á síðustu missirum tekið skref í átt að því að eyða þessum mun, m.a. með því að lengja fæðingarorlof karla. Karlar hafa verið hvattir til að taka meiri þátt í heimilisstörfum og umönnun barna sinna. Það er búið að bæta leikskólaþjónustu og fleiri atriði þannig að ég tel að í framtíðinni verði launamunurinn minni.

Ég verð þó að viðurkenna að maður er orðinn ansi þreyttur á því hve hægt gengur í þessum málum og ég fagna því mjög þessari umræðu.