Könnun á umfangi fátæktar

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 17:29:05 (3069)

2003-01-27 17:29:05# 128. lþ. 65.13 fundur 51. mál: #A könnun á umfangi fátæktar# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[17:29]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég kem í pontu til þess að lýsa yfir stuðningi okkar í Frjálslynda flokknum við þessa tillögu til þingsályktunar sem hér er flutt af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og fleirum úr Samfylkingunni. Við höfum tekið þá stefnu í Frjálslynda flokknum að styðja þau mál sem við teljum til velferðar horfa hvaðan sem þau koma, hvaða flokkur flytur þau svo á þingi.

Í samræmi við þá stefnu okkar fylgjum við eindregið þessu máli. Við teljum hér sé hreyft afar þörfu máli um umfang fátæktar hér á landi. Svo virðist sem fátækt hafi farið vaxandi í þjóðfélaginu á síðustu missirum þrátt fyrir að líka megi finna því stað að margir hafi hagnast gífurlega á sömu þrem, fjórum árunum sem menn líta nú gjarnan til.

[17:30]

Herra forseti. Svo virðist sem misskipting fari vaxandi í okkar annars ágæta þjóðfélagi. Mér finnst auðvitað óásættanlegt að málin þróist þannig að sífellt fleiri hafi ekki nægjanlega framfærslu en jafnframt hafi sífellt fleiri í þjóðfélagi okkar tekjur langt umfram það sem áður hefur þekkst. Það er ekki nóg með að menn hafi stórar og miklar tekjur á starfstíma sínum heldur virðist líka ætla að verða til sérstakur hópur manna sem fær alveg sérstaka meðferð í eftirlaunum sínum í svokölluðum starfslokasamningum sem nema tugum ef ekki hundruðum milljónum króna.

Þetta misvægi sem er að myndast í þjóðfélagi okkar, herra forseti, er að mínu viti blettur á íslenskri þjóðfélagsgerð. Mér finnst þessi þróun okkur til vansa. Þess vegna tek ég heils hugar undir það, herra forseti, að fram fari könnun á umfangi fátæktar hér á landi. Ég er því fylgjandi að kostnaður við framfærslu fjölskyldu, einstaklings eða annarra sem hafa lágur tekjur eða atvinnulausra verði kannaður. Taka verður upp þá stefnumótun í þjóðfélaginu að þeir sem búa við lökust kjör hafi það þó eigi verra en svo að þeir geti komist eðlilega af. Það verður að forðast þá þróun í þjóðfélagi okkar að sífellt fleiri þurfi að leita á náðir hjálparstofnana eftir framfærslu fyrir sig og sína, ekki síst svo þeir geti tekið þátt í þeim hátíðahöldum sem sjálfsögð teljast í þjóðfélagi okkar og sjálfsögð réttindi hvers og eins, t.d. jól, páskar og fleiri hátíðir sem yfirleitt teljast fjölskylduhátíðir.

Eins og fram kemur í greinargerðinni segir í nýlegri könnun verkalýðsfélaga að 30% aðspurðra töldu fjárhagsstöðu sína lakari nú en á síðustu þremur, fjórum árum, og að það megi m.a. rekja til verðhækkana á vöru og þjónustu.

Ég tel að efni það sem hér er lagt upp í tillögunni, um að Alþingi álykti að fela félagsmálaráðherra að láta fara fram úttekt á umfangi, orsökum og afleiðingum fátæktar á Íslandi, bæði félagslegum og fjárhagslegum, með það að markmiði að leggja fram tillögur um úrbætur sem treysti öryggisnet velferðarkerfisins, eigi fyllsta rétt á sér eins og málin hafa þróast í þjóðfélagi okkar. Það eru greinilegar vísbendingar um að afkoma fólks sé verri en áður var. Fleiri leita sér aðstoðar og fólk er ekki að fara í þær gönguferðir að gamni sínu. Það er í raun og veru furðulegt að menn geti látið þá skoðun í ljós að þeir telji að menn fari í þessar gönguferðir til þess að ná sér í framfærslu frá hjálparstofnunum eingöngu til þess að auka enn á tekjur sínar. Fólk gerir þetta af hreinni þörf. Ég tel engar líkur á að fólk sé að sækjast eftir þessari aðstoð nema það eigi beinlínis brýnt erindi þangað og þurfi nauðsynlega á því að halda. Í þessum hópi eru auðvitað öryrkjar og aldraðir, einstæðir foreldrar, atvinnulausir og einnig barnmargar fjölskyldur.

Við þurfum því að taka á þessu máli, þetta er að fara á verri veg í þjóðfélagi okkar. Það er brýnt að vinna gegn þessari þróun. Um það hljóta allir að geta verið sammála. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að ég hef vaxandi áhyggjur af misvægi í þjóðfélagi okkar, því misvægi að tiltölulega fáir verði ofurríkir en á móti eru margir undir afkomumörkum hvað varðar tekjur og velferð fjölskyldunnar. Síðan bitnar það auðvitað á börnum þeirra. Það er auðvitað sárast þegar menn sjá að þeir eiga ekki möguleika á að veita börnum sínum það sem þeir telja eðlilegt og sjálfsagt.

Ég tek því fyrir hönd flokks míns heils hugar undir þessa tillögu og tel að hér sé hreyft afar þörfu máli.