Könnun á umfangi fátæktar

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 17:35:23 (3070)

2003-01-27 17:35:23# 128. lþ. 65.13 fundur 51. mál: #A könnun á umfangi fátæktar# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[17:35]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér till. til þál. um könnun á umfangi fátæktar. Ég vil byrja á að þakka hv. 1. flm., Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrir að reifa þetta mál.

Það er ljóst að velferðarkerfið sem við búum við hefur ýmsar gloppur. Ég tel það markmið okkar að gera það skilvirkt þannig að á því séu ekki göt og ekki heldur um að ræða tvítryggingu. Það er líka til að það sé oftrygging í kerfinu.

Það er hins vegar ljóst að gott og skilvirkt velferðarkerfi byggir á góðu og skilvirku atvinnulífi. Að því hafa ríkisstjórnir Sjálfstfl. stuðlað undanfarin ár enda er atvinnulífið mjög blómlegt, skilar góðum arði og getur greitt mjög há laun sem hafa farið síhækkandi þannig að tekið er eftir í alþjóðlegum samanburði. Við þurfum jafnframt að gæta þess að þegar við byggjum upp velferðarkerfi, sem að sjálfsögðu er greitt með sköttum eða iðgjöldum, sé ekki lagt of mikið á, hvorki á fyrirtæki né einstaklinga, þannig að viljinn til að starfa og vinna sé ekki drepinn niður.

Ef við lítum á bótakerfið frá árinu 1995 þá hafa almennar bætur Tryggingastofnunar hækkað meira en lægstu laun. Lægstu laun hafa sem betur fer hækkað meira en laun almennt. Það tókst með mikilli sátt aðila vinnumarkaðarins að hækka lægstu laun sem voru skammarlega lág þegar ég kom á þing 1995, þá voru þau 42 þús. kr. á mánuði. Nú eru þau komin vel yfir 90 þús. kr. og er það vel. Lægstu launin hafa hækkað meira en meðallaunin, miklu meira, og meðallaunin hafa hækkað umtalsvert umfram verðlag. Kaupmáttur almennings hefur þannig hækkað mjög mikið á undanförnum árum og kaupmáttur bótaþega sömuleiðis, þ.e. þeirra sem eru hjá Tryggingastofnun. Bætur bótaþega sem fá lífeyri úr lífeyrissjóði hafa hins vegar hækkað eins og verðlag. Það er innbyggt í lífeyrissjóðina. Vilji menn breyta því verður líka að breyta verðtryggingu húsbréfa og lána til sjóðfélaga lífeyrissjóðanna sem eru verðtryggð miðað við verðlag en ekki laun. Þá er nú hætt við að hvíni í einhverjum sem þykir verðtryggingin erfið miðað við verðlag, ef þau ætti að verðtryggja miðað við laun. Þessar bætur frá lífeyrissjóðunum, sem er helmingurinn af öllum bótum í landinu, hafa ekki haldið í við hækkun launa eins og bætur Tryggingastofnunar. Þessu má ekki gleyma í umræðunni.

Fátæktarskilgreiningin, sem við notum mikið, byggir að hluta á eftirfarandi skilgreiningu: þeir sem hafa minna en helming af meðaltekjum til ráðstöfunar teljast fátækir. Þessi skilgreining er meingölluð að mörgu leyti. Ef öll laun og allar bætur í landinu yrðu tvöfaldaðar án þess að verðlag breyttist, yrðu jafnmargir fátækir og nákvæmlega sama fólkið. Það mundi ekkert breytast við það. Ef allir Íslendingar væru með 10 þús. kr. á mánuði í laun og bætur, hver og einn einasti, þá væri enginn fátækur, samkvæmt þessari skilgreiningu væri enginn fátækur. En ég ætla ekki að bera saman hve lífskjörin yrðu miklu verri.

Svo er það líka það að maður sem á feikna eignir en hefur lágar tekjur, telst fátækur ef hann fer undir þessa skilgreiningu. Þetta er gallinn við þessa skilgreiningu. Aðalgallinn við hana er orðið fátækt, orð sem segir: af fáu að taka. Við setjum í sama flokk fólk sem dó úr ófeiti á 18. öld, sem við kölluðum fátækt, og þá sem eru fátækir í dag, vegna þess að þeir geta ekki keypt sér bíl eða að bensínið á bílinn er orðið svo dýrt. Við setjum í sama flokk fólk úti í heimi sem sveltur og fær ekki nóg að borða og fólk hér á landi sem flokkast undir fátækt. Mér finnst brýnt að finna yfir þetta annað orð ef hægt er, eitthvað sem lýsir hlutfallslegri neyslugetu. Að hlutfallsleg neyslugeta sé lág.

Menn hafa bent á lækkun barnabóta, sem voru einu sinni miðaðar við laun. Þar sem launin hafa hækkað svona mikið þá eru sífellt færri og færri sem þurfa barnabætur. Alþfl. kom inn með það á sínum tíma að tekjutengja barnabætur. Þær voru jafnframt hækkaðar mjög umtalsvert.

Menn hafa gleymt því að það eru hópar manna hér á Íslandi sem hafa lágar tekjur. Það eru sauðfjárbændur. Þeir hafa mjög lágar tekjur. Ég hygg að mjög margir sauðfjárbændur mundu flokkast sem fátækir en þeir leita sér ekki aðstoðar. Ég held að þeir geri það ekki.

Svo hafa menn bent á hjálparstofannir sem fá sívaxandi fjölda umsókna. Þá vil ég benda á að þar er lítið spurt og lítið verið að kynna sér málin. Það getur nánast hver sem er sótt um styrk frá hjálparstofnun. Þó að mörgum séu eflaust þung sporin þangað, eins og hér var nefnt áðan, eru líka einhverjir sem fara þangað vegna þess að þá skortir sjálfsvirðingu.

Það sem hér er lagt til og horft á eru eingöngu tekjur. Ég held að það sé mjög rangt, menn finna ekki fátækt með því að leita að lágum tekjum. Ég held að það séu ný fyrirbæri sem við horfumst í augu við sem við verðum að taka með inn í þessa umræðu, hvort sem það er vinsælt eða ekki. Það er t.d. fíkn, áfengisfíkn sem við þekkjum svo sem frá fornu fari og valdið hefur fátækt hjá öllum meðlimum fjölskyldna jafnvel þó að tekjurnar væru miklar, sérstaklega saklausum aðilum sem ekki voru haldnir fíkn. Þ.e. börnum, maka, foreldrum, systkinum o.s.frv., fólki sem átti enga sök á aðstæðum, ef menn tala yfirleitt um sök þegar um fíkn er að ræða. Eiturlyfjafíkn er nýtt fyrirbæri og síðan er spilafíkn, sem er hraðvirkust. Þar tekst mönnum að eyða feiknarlegum tekjum, mörgum milljónum á ári í spilafíkn eins og dæmin sanna.

Svo er annað fyrirbæri hér á Íslandi, þ.e. uppáskriftir, séríslenskt fyrirbæri sem við vorum einmitt að greiða atkvæði um hér áður á fundinum. Uppáskriftir valda því að þegar menn verða gjaldþrota þá geta þeir ekki lýst sig gjaldþrota vegna þess að öll ættin fellur með. Þetta er ósiður sem á að leggja af. Þetta veldur fátækt. Fólk situr uppi með miklar skuldir, getur ekki afskrifað þær eins og eðlilegt væri og er fátækt í áratugi við að borga niður skuldirnar. Allir sem tengjast því, börn, systkini o.s.frv. líða fyrir og eru fátæk þó að tekjurnar geti verið mjög myndarlegar. Þær fara allar í að greiða niður skuldir til að afi gamli missi ekki íbúðina sína. Við skulum ekki horfa fram hjá þessu.

En það sem kannski er mest um vert er að við sjáum núna, sem var óþekkt þegar ég lærði mín fræði, tryggingafræði, að fólk verður öryrkjar í stórum stíl fyrir fertugt. Það var nánast ekki til en það erum við að sjá í dag. Afleiðingar fíknar eru þær að fólk sem ánetjast eiturlyfjum, kannski 17, 18 ára eða tvítugt, verður því miður oft og tíðum óvinnufært 25 ára og er orðið öryrkjar stuttu síðar. Þetta er nýtt fyrirbæri sem við verðum að bregðast við. Ég sé félagsþjónustu sveitarfélaga sem tæki til að bregðast við þessum vanda.