Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 15:15:46 (3098)

2003-01-28 15:15:46# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., SvH
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[15:15]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég hef áður margbent á hvílíkt virðingarleysi hinu háa Alþingi er sýnt af stjórnarliðinu, einkum og sér í lagi hæstv. ráðherrum. Hér situr einn, og kannski tveir þegar best lætur. Þetta er ekkert undarlegt þegar haft er í huga að við erum ekki lengur með þingbundna stjórn í landinu heldur, eins og ég hef margtekið fram, stjórnbundið þing. Það er auðvitað sök hinna almennu þingmanna stjórnarflokkanna að þeir skuli láta handjárna sig með þeim hætti að það sé hægt að reikna með þeim án þess að þeir kynni sér málin eða hlusti á minni hlutann. Minni hlutinn hefur sinn rétt. Og þetta er virðingarleysi fyrir hinu háa Alþingi sem forsetadæmið ætti að taka fyrir og áminna þingmenn fyrir. Ég hefði sérstaklega snúið mér til hæstv. forseta Halldórs Blöndals ef hann hefði enn þá setið í forsetastól því að ég er viss um að afi hans hefði ekki liðið þessa framkomu.

Hér erum við að ræða eitt mikilverðasta mál þingsins og að margra dómi það langstærsta. Samt sem áður veita menn málinu slíka umhirðu eins og raun ber vitni. Ég hef orðið þess var að margur hefur litið svo á að sá sem hér stendur væri eindregið andvígur virkjunum og stóriðju af því sem ég gagnrýndi mjög þau áform að ætla sér að semja við Norðmenn um álver í Reyðarfirði sem Norðmenn ætluðu reyndar ekki að eiga nema 20--25% í. Ég hef lengstum talað fyrir daufum eyrum þegar ég hef haldið því fram að ef við sæjum virkjunarkost sem við vildum sætta okkur við og stað til stóriðju sem okkur þætti henta ættum við að segja við ál- eða stóriðjufursta heims: Gjörið svo vel, þarna er virkjunarkosturinn. Virkið á ykkar ábyrgð og byggið stóriðjuver á ykkar ábyrgð. Það er reikningsdæmi hvenær við eignumst þetta orkuver. Þetta hefur verið mín skoðun lengi en, eins og ég segi, ég hef talað fyrir daufum eyrum.

Hvers vegna varaði ég svo harkalega við samningum við Norðmenn sem raun bar vitni um fyrr á þessu þingi? Það er af margfaldri reynslu af samningum við þá og með tilliti til þess að ef þeir ætluðu að eiga aðeins lítinn hluta af iðjuverinu er þess að geta að Íslendingar ráða engu um framgang mála á stóriðjumarkaði heims, geta engin áhrif haft þar á. Norðmenn ætluðu sér að hirða afraksturinn af útflutningnum, umboðslaunin sín, og taka takmarkaða eða enga ábyrgð. Þegar álverð kannski ryki niður mundi Norsk Hydro sitja á sölu frá Íslandi og láta sína framleiðslu annars staðar ganga fyrir af því sem þeir ættu svo lítinn hlut í stóriðjunni.

Hver er reynsla okkar af frændum vorum sem heita í skálaræðunum sem ég hef marghlustað á á Norðurlandaráðsþingi ,,venner og frænder``? Þannig stóð á fyrir okkur á sínum tíma, eins og jafnan fyrr og síðar og alveg sérstaklega nú, að við rukum í framkvæmdir án þess að hafa fast undir fótum um sölu orkunnar. Og þar kom á sínum tíma að við höfðum Sigöldu fullbúna og gerðum ráð fyrir, án þess að hafa það fast í hendi, að ná samningum um sölu orkunnar til Union Carbide. Það fyrirtæki hljóp út undan sér og við stóðum höndum uppi. Norðmenn vissu fullvel hvernig á stóð fyrir okkur og komu til skjalanna. Til þess að koma þó orkunni í eitthvert lóg neyddumst við til að semja við þá um svo ótrúlegt verð að ekki er hægt að hugsa sér neitt lakara og kjör önnur. Verðið var einhvers staðar milli 6 og 7 mill og hefur reyndar hangið í því mestallan tímann síðan. Þeir tóku ómælda fjármuni í umboðslaun sér til handa og af veltunni sjálfri, sama hvernig verðlag á afurðunum var. Þetta er sagan af því og nú náttúrlega prísar Alcoa sig sælt af því sem það á orðið Elkem og getur sjálft þreifað á því hvert orkuverðið er í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. Og það getur vel verið, eins og samningsstaða Íslendinga var í þessu máli, að það hafi notfært sér það verð til viðmiðunar.

Ég vil taka það fram að frá því í öndverðu pólitískra afskipta minna hef ég verið virkjunarsinni, og ég hef verið stóriðjusinni að því leyti að ég hefði viljað skjóta aukastoðum undir íslenskan efnahag með því að reisa stóriðjuver og koma okkar miklu orku í lóg. Ég minni enn á, sem ég hef áður gert, að í apríl 1999 hélt ég allfjölmennan fund á Reyðarfirði, í mínu gamla kjördæmi, þar sem ég benti mönnum á að eins og komið var mundi Fljótsdalsvirkjun ekki verða barn í brók, það væri það lítil orka að það væri miklu hægara um vik og girnilegra að taka fyrir Kárahnjúka. Ég ætla ekkert að lýsa því hvernig mér var tekið með þennan málflutning því það var, eins og það heitir á nútímaíslensku, ullað á mig. Verkalýðsforinginn á staðnum sagði að ég væri alltaf sama helvítis fíflið. Það var auðvitað erfitt að taka við því en þetta var ekki flokksmaður minn.

Ég hygg að að því gefnu að nú verði reist áliðjuver í Reyðarfirði og Grundartangi stækkaður eigum við að hugsa okkur vandlega um með framhaldið og einnig með hvaða hætti við öflum orku til þess arna vegna þess að við höfum hér um bil ekkert nýtt okkur enn af jarðgufunni. Það er þó orka sem í öllu falli er umhverfisvæn eins og það heitir. Og við þurfum að beina framkvæmdum okkar að öðrum kostum.

Ég neita því ekki að ég hef miklar áhyggjur af hinu stóra stöðuvatni við Kárahnjúka og þar inn eftir öllu vegna hins mikla fjöruborðs sem myndast þegar vatn þverr. Ég hef farið mjög margar ferðir um Vesturöræfi, þar eystra, á hreindýraveiðum aðallega. Þetta eru einhverjar fegurstu víðlendur sem þetta land á. Ég hef hins vegar ekki verið nógu næmur á fegurð sjálfra gljúfranna. Það er kannski af því að ég er lofthræddur. Ég hef samt flogið þar yfir og séð hversu mikil náttúrufyrirbrigði þetta eru þar sem fljótið hefur skorið eins og með tertuspaða 200 metra niður í hásléttuna. En sama er, við getum ekkert fengið ókeypis né heldur þegar við þurfum að taka til við að beisla orkuna okkar. Ég ítreka að ég álít að jarðvarminn sé miklu betri kostur, lífvænlegri og vistvænni en sá sem ráðist var í. Ég bæti því við að ég tel mér trú um að tæknin sé orðin slík að við getum ráðið við að hefta sandfokið af þessum firnalegu bökkum. Við vitum vel hvað sest til. Það er svo hárfínn sandur að varla getur annað eins. Og menn skulu hafa í huga að ég hygg að Jökulsá hafi í hlaupi verið mæld með 150 þús. tonna framburð á sólarhring. Menn geta auðvitað ekki ímyndað sér hver býsn þetta eru. En ég tel mér trú um að hægt mundi vera með öflugum vatnsdælum sem væru á pramma að sigla upp og niður þetta fljót, þetta mikla stöðuvatn, og halda sandinum rökum þannig að ekki kæmi til þessa ógnvænlega sandroks. Það verður að finna lausn á því vandamáli.

Ég neita því ekki heldur að ég hef áhyggjur af Lagarfljóti, að teyma þetta ólma jökulvatn yfir í Lagarfljót, yfir í Löginn sjálfan. Ég veitti því athygli í vetur þegar flóðin miklu voru á Egilsstöðum --- þá var flugvöllurinn nærri á kafi --- að þá sögðu sérfræðingar að það hefði engu máli skipt þótt Jökla eða frárennslið frá virkjuninni hefði bæst þar við. Þetta eru útreikningar sem ég ekki skil. Það minnir mig á hér um árið þegar rjúpnastofninn var talinn ein milljón héldu sérfræðingar því fram að það skipti engu máli upp á stofninn þótt drepinn væri 1/4 af honum, 250 þúsund. Þetta eru talnaleikir sem ég kann ekki að meta og var ég þó ágætur í stærðfræði á sínum tíma.

Ég tel að Reyðarfjörður henti að mörgu leyti mjög vel. Staðsetning hans er góð fyrir stóriðju og ég vænti þess að þeir sem koma til með að njóta geri það án þess að eiturefni sáldrist yfir þá.

Það er hart deilt um Kárahnjúkavirkjun að vonum. Öldur úlfúðar og ósamkomulags hækka stöðugt. Í þessu litla þjóðfélagi verðum við að finna leiðir til þess að ná sáttum um mál. Við megum til með það. Við höfum ekkert afl til þess að vinna bug á þrætunum og deilunum og uppivöðslunni nema að við getum orðið ásamt um lausnina. Fyrir því segi ég þetta og beini því eindregið til stjórnvalda: Kárahnjúkar eru afgreitt mál en sláið nú á úlfúðina með því að bjóða fram að við Þjórsárverum verði aldrei raskað héðan í frá. Ég get svo sem bætt því við að stjórnvöld geta reynt þetta en það er spá mín að það muni leiða til slíkra átaka að ófyrirséð er hvar þau lenda.

Það vill svo til að þann 6. apríl næstkomandi verða liðin 39 ár frá því að sá sem hér stendur settist fyrst inn á þing. Hann var frá barnæsku mikill fuglaáhugamaður og hann hafði lesið þær rannsóknir sem fram höfðu farið á Þjórsárvirkjun. Þegar ég kom til þings var Jóhann Hafstein heitinn iðnrh. og þá var umræðan á fullu um að stífla þar efra og sökkva Þjórsárverunum. Það var nú hvorki meira né minna. Og ég, strákurinn, tilkynnti Jóhanni að ég mundi aldrei samþykkja að þannig yrði farið með Þjórsárver. Ég man að hann horfði mjög lengi á mig, sá afbragðsmaður, og sagði ekki eitt einasta orð. Auðvitað hefur gengið fram af honum að þessi strákur skyldi vera að steyta görn með þessum hætti. En ég ítreka: Leitum samkomulags. Finnum lausn á þessum háskalegu átökum, og vanda sem við okkur ella snýr.

Það er mikið rætt um að hér höfum við með þessu álveri og stórvirkjun lausn í boði á atvinnumálum Austfirðinga. Hvaða vanda þarf þar að leysa og af hverju stafar hann aðallega? Hv. þm. Austurl. Arnbjörg Sveinsdóttir spurði: ,,Skiptir þá fólk ekki máli?`` Hvað segja þeir um það sem bera ábyrgð á núverandi sjávarútvegsstefnu? Skiptir þá fólk máli? Hvernig má það vera að hvert sjávarþorpið á fætur öðru austur þar er að sviðna upp? Af hverju flýja menn? Af hverju verða eignir þeirra að engu? Af því að þeim er bannað að sækja sjóinn sinn. Og ein aðalástæðan fyrir æðibunuganginum í sambandi við þessi atvinnufæri sem þarna á að skapa er að þeir eru búnir að loka á afkomu fólksins með því að fá að róa til fiskjar. Þetta eru umbjóðendur fólksins og þeir láta sem þeir einir vilji sjá fyrir fólki og annast hagsmuni þess.

[15:30]

Og búsetuna á bara að meta eftir þessu en ekki eftir hinu sem öll þessi þorp eiga rætur sínar að rekja til, og það er sjávarauðlindin. Allar þeirra lífæðar liggja út í sjó. Enda þótt ég sé þeirrar skoðunar að virkja beri við Kárahnjúka, og að héðan í frá eigum við að snúa okkur að öðru, og að selja eigi orkuna til stóriðju er öll samningsaðstaða sú sem íslenskir ráðamenn hafa mótað sér með þeim endemum að það kemur ekki til nokkurra mála að ég veiti þeim umboð til að gera þá samninga sem farið er fram á samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir, kemur ekki til nokkurra mála. Þeir verða sjálfir að bera ábyrgð á því.

Þessi æðibunugangur minnir mig ofurlítið á ganginn í gamla daga þegar ég var umboðsmaður að semja um smíði síldarskipa í Noregi, einum átta eða svo. Þar komu skipstjórar eða útgerðarmenn og sögðu, kannski ári fyrr: ,,Eitt stykki síldarskip fyrir 1. júlí næsta ár.`` Svo var sest niður og samið. Norðmenn kunna sitt fag. Það voru að vísu gerðir samningar en síðan komu bakreikningarnir, og allir vegna þess að asinn var slíkur. Þeir sögðu að ef þeir fengju ekki fjármuni til þess að framkvæma þetta og þetta svona hratt drægist afhending skipsins, og gengið var að öllum bakreikningum. Ég hef mikið dálæti á Ítalíu og jafnvel fólkinu sem þar býr en skyldu ekki kannski koma einhverjir bakreikningar frá þessu nýja sérstaka fyrirtæki sem ofan í kaupið þarf að liggja undir mútuákærum?

Svona var þetta hér í sambandi við þetta stórmál. Það þurfti að ná fram einu stykki virkjun fyrir næstu kosningar og einu stykki álveri. Allt er þetta með þeim ódæmum framkvæmt. Virkjun og stóriðju, hvað sem það kostar. Menn geta ímyndað sér samningsstöðuna, baneitraða. Og formaður Framsfl. lýsti því yfir fyrir meira en ári að það yrði virkjað við Kárahnjúka. Formaður stjórnar Landsvirkjunar, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, lýsti því yfir um mitt sumar að orkuverðið væri ekkert vandamál. Halda menn að Alcoa-menn hafi ekki fylgst með þessu? Halda menn að Alcoa sé eitthvert gjafa- og styrktarfyrirtæki sem er tilbúið til að hjálpa upp á atkvæði fyrir framsóknarmenn, á Austurlandi sérstaklega? Alcoa er auðvitað eitt harðsnúnasta stóriðjufyrirtæki heimsins eins og þessir stóriðjuhöldar eru allir. Og Alcoa hefur harðan húsbónda þar sem eru hluthafar sem ekkert gefa eftir af þeim kröfum sínum að haldið sé sem best á málum. Það er dálítið annað en hér vill brenna við þar sem við erum bláeyg gagnvart hlutafélögum sem við eigum í og finnum eiginlega ekkert að hvernig sem þau haga sér.

,,Orkuverðið er engin fyrirstaða`` var orðalag formanns stjórnar Landsvirkjunar. Við Alcoa hefur blasað þetta álver og þeir vita fullvel að æðstu stjórnendur Ísalands eru tilbúnir til þess að fórna pólitísku lífi sínu fyrir það að þeir gangi til samninga við þá. Þeir sóttust sjálfir ekki eftir því í upphafi að koma hingað. Þeir voru sóttir til þess arna og sagt: ,,Gjörið þið svo vel. Þið verðið bara að standa ykkur til þess að þetta verði allt komið fram fyrir kosningar.`` Mér býður í grun að Alcoa hafi verið sótt eftir æðstu diplómatísku leiðum. Það kæmi mér ekkert á óvart að í byrjun hefði verið haft samband við Colin Powell og hann beðinn að athuga þetta sérstaklega fyrir Íslendinga. Þeir eru kannski að launa það, ráðherrarnir, núna með því að bjóðast til þess að aðstoða Bandaríkjamenn í hernaðarumsvifum. (Gripið fram í.)

Vegna þessarar samningsstöðu get ég ekki neitað því að að mér sækir mikill uggur um að þeir samningar sem stendur til að gera séu ekki aðgengilegir fyrir okkur, heldur blasi blátt áfram við nauðasamningar sem við höfum boðið upp á með asa okkar og óforsjálni. Ég tók hér til handargagns mynd af laglegri stúlku norðan frá Lómatjörn sem birtist í Fréttablaðinu 8. ágúst. Þar segir stúlkan, hæstv. iðnrh. reyndar: ,,Höfum ekki borgað með álverum.`` Þetta stendur hérna. Ég vona að hæstv. ráðherra segi þetta af vanþekkingu en ekki einhverri annarri framsóknaráráttu. Við höfum nefnilega alltaf borgað með þeim. Hæstv. ráðherra þyrfti að leita sér upplýsinga um að það gerðum við við Ísal með opnum augum og tilkynntum það opinberlega að okkur væri svo mikið í mun að fá virkjun við Búrfell að við borguðum verulega með orkunni.

Það var samið við Grundartanga, Columbia Ventures, langt undir því sem við þurfum að fá fyrir nýja framleidda orku, langt undir því. Ég hef áður minnst á Elkem. Við höfum alltaf borgað, hinn íslenski neytandi, með því að borga sjálf okurverð fyrir orkuna. Þetta eru staðreyndir málsins sem verða ekkert hraktar ef grannt er skoðað. Það nægir ekki neitt að verja sig með því að samkomulag sé um að gefa ekki upp orkuverð. Það kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að hann hefur heyrt af því --- hann var að vísu með örlítið hærra verð. Mínar upplýsingar eru 17,4 mill en ég held að hann hafi sagt 17,5 (Gripið fram í.) miðað við 1.550 dollara tonnið. Nú stendur það í 1.370 og langtímaspár spá verðinu niður á við. Við skulum vona að svo verði ekki.

Uggur minn stafar einnig af því hvernig í ósköpunum á því stóð að þrjú af kunnustu verktakafyrirtækjum Norðurlanda hurfu frá því að gera tilboð eftir að hafa varið ótrúlegum fjárhæðum í söfnun upplýsinga. Hvernig mátti það vera? Og er það rétt að þeir Ítalir hafi boðið rúma 34 milljarða í stíflu og göng en Ístak og Pihl & Søn 58? Getur það verið satt --- ég sá þessar tölur --- að munurinn sé svo ótrúlegur, 24 milljarðar? Ég óttast bakreikningana frá þeim heiðursmönnum og vonandi að fljótlega verði búið að þurrka af þeim mútukæruna.

Menn hafa gert lítið úr því að hér hefur verið varað við þeirri spennu sem af þessu hlýst í íslensku efnahagskerfi, og eins og kom fram í umræðunni virtust menn vera sammála um það í upphafi að gagnaðgerða skyldi leitað hið fyrsta. Málið kom til umræðu hér í síðustu viku og þar var því öllu ýtt út af borðinu sem ótímabæru með öllu. En það verður að segja hverja sögu eins og hún gengur. Hæstv. forsrh. er haldinn þeim skafanka að hafa ekkert vit á fjármálum og peningamálum. Og það kemur auðvitað fram í því þegar hann sópar þessu út af borðinu sem ótímabæru máli.

Vegna þeirrar erfiðu stöðu sem íslensk stjórnvöld hafa komið sér í við þessa samninga legg ég til að þegar á næstu fjárlögum tökum við til hliðar 10 milljarða og þar fram eftir götunum næstu ár. Í fyrsta lagi til að standa undir bakreikningum sem munu koma og í öðru lagi til þess þá að standa undir taprekstri sem fullkomin hætta er á að verði. Við þurfum að mæta þensluáhrifunum, ella verða hér hækkandi vextir sem fyrirtæki okkar þola illa og almenningur skuldar gífurlega. Undanfarin þensluár skyldi það henda í hvert einasta skipti að útgjaldahlið fjárlaga hækkaði langt umfram verðbólgu. Aðalráð stjórnvalda á hverjum tíma til þess að hefta verðþenslu er að beita fjárlögum, að skera niður sem kostur er á fjárlögum, og 10 milljarðar til hliðar aukalega mundi þjóna þeim tilgangi fullkomlega að hamla gegn þeirri þenslu sem þetta gæti ella haft í för með sér. Ég endurtek að vegna hinnar miklu óvissu og þeirrar fáránlegu samningsstöðu sem íslensk stjórnvöld hafa komið sér í kemur ekki til nokkurra greina að sá sem hér stendur veiti þeim umboð sitt til þess að gera þessa samninga og taki með því ábyrgð á slíkum samningum. Hann mun að vísu ekki setja fót fyrir framgang þess en stjórnarliðar sjálfir verða einir að bera ábyrgð á þessum málum.