Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 20:52:22 (3128)

2003-01-28 20:52:22# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[20:52]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég er akkúrat á þveröfugri skoðun við hv. síðasta ræðumann. Ég tel að það sé afskaplega ánægjulegt tilefni að vera hér með kvöld- og næturumræðu og fjalla um frv. til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði. Ég held að það séu ekki einungis Austfirðingar sem gleðjist. Ég held að þegar við förum að fá tekjurnar af þeim framkvæmdum, af framleiðslunni sem þarna á að fara fram, í budduna okkar fari fleiri að gleðjast.

Meiri hluti landsmanna er stuðningsmenn þessara framkvæmda þannig að ég hef ekki nokkrar einustu áhyggjur af því að menn muni ekki gleðjast allt í kringum landið, á Reyðarfirði og annars staðar.

En ég ætla aðeins, hæstv. forseti, að vitna í grein eftir dr. Þorkel Helgason orkumálastjóra sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þar fer orkumálastjóri yfir ýmis atriði tengd virkjunarmálum og leiðréttir ýmsar rangfærslur um virkjunarmál. Hann fer m.a. yfir rennslisvirkjanir sem stundum hafa verið nefndar sem annar kostur á móti Kárahnjúkavirkjun. Þar færir hann rök að því að slíkar rennslisvirkjanir muni alls ekki gefa sömu orku og séu hreinlega ekki hagkvæmar með sama hætti og þær virkjanir sem við erum að stefna á við Kárahnjúka. En ég ætla að vitna sérstaklega til þess þar sem hann talar um rammaáætlunina af því að hún hefur verið notuð hér í umræðunni. Í greininni segir, með leyfi forseta:

,,Rammaáætlun er umfangsmikið verkefni sem felst í því að endurmeta orkukosti okkar, bæði með tilliti til hagkvæmni og umhverfisáhrifa, en líka áhrif á byggð og ferðamennsku. Verkefninu var hrundið af stað af iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra fyrir fjórum árum og stendur enn yfir. Engin endanleg niðurstaða`` --- hæstv. forseti, engin endanleg niðurstaða --- ,,er fengin en visst tilraunamat á nokkrum jökulvötnum var birt á nýliðnu ári; m.a. mat á Kárahnjúkavirkjun. Virkjunin var metin meðal þeirra alhagkvæmustu með tilliti til orkukostnaðar.`` --- Síðar í greininni segir: ,,Þannig var Kárahnjúkavirkjun talin valda umhverfisspjöllum sem metin voru til 12 stiga á sama tíma og t.d. ein af mögulegum virkjunum Skjálfandafljóts fékk 4 stig. Er þar með rétt að álykta að Kárahnjúkavirkjun sé þrefalt verri en sú síðarnefnda? Engan veginn. Virkjun í Skjálfandafljóti gæfi aðeins tólfta hluta af orku Kárahnjúkavirkjunar. Til að framleiða sömu orku og Kárahnjúkavirkjun þyrftum við að reisa 12 virkjanir af þeirri stærð sem Skjálfandafljót gefur.`` --- Svo segir áfram, hæstv. forseti: ,,Líklegt má telja að samanlögð umhverfisáhrif þeirra yrðu meiri en Kárahnjúkavirkjunar. Og að þar með sé bæði hagkvæmara og umhverfisvænna að virkja við Jökulsá á Brú en 12 virkjanir á borð við Skjálfandafljót.``

Hæstv. forseti. Þetta eru býsna léttvæg rök þegar verið er að tala um það tilraunamat sem fram hefur farið í vinnu við rammaáætlun. Ég vildi draga það hér fram og ég vil einnig vitna hér áfram í orð orkumálastjóra þar sem hann segir:

,,Orkulindir okkar eru vannýttar. Við gætum framleitt um sexfalt meira rafmagn en nú er gert, og er þá búið að slá verulega af möguleikunum af umhverfisástæðum. Við hljótum að vilja nýta þessar endurnýjanlegu auðlindir okkur til hagsbóta. Og okkur ber siðferðileg skylda til að gera það öllu mannkyni til góða.``

Svo mörg voru þau orð, hæstv. forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að þetta komi fram í þeirri einlitu umræðu sem hér hefur farið fram um Kárahnjúkavirkjun við þessa umræðu sem fjallar nú reyndar um álverið við Reyðarfjörð.

Hæstv. forseti. Hér er um að ræða framkvæmd sem mun hafa gífurlega góð og mikil efnahagsleg áhrif og við eigum eftir að njóta góðs af því um ókomna framtíð að í þessar framkvæmdir verði ráðist. Þar er um að ræða fleiri stoðir undir atvinnulífið, þar er um að ræða mikla atvinnusköpun. Við erum að tala um bætt lífskjör í landinu, við erum að tala um auknar útflutningstekjur og almennt er þetta algjörlega nauðsynleg innspýting í efnahagslífið á þessum tímapunkti.

Svo vitnað sé í athugasemdir með frv. þá segir að athugunin bendi til að framleiðslustig þjóðar- og landsframleiðslu á framkvæmdatíma verði að jafnaði 3% hærri en ef ekkert væri að gert, og að árlegur hagvöxtur á árunum 2005 og 2006 verði um 5%. Þetta eru auðvitað heilmikil tíðindi, hæstv. forseti, enda er það svo að bæði Samtök atvinnulífsins og ASÍ hafa stutt það af mikilli einurð að ráðist verði í þessar framkvæmdir. Það er nú bara þannig, hæstv. forseti, að menn sjá mikinn hag af þessu.

Forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem ég hef rætt við telja að þarna sé um mjög áhugavert verkefni að ræða. Við þingmenn Sjálfstfl. vorum í fyrirtækjaheimsóknum á Norðurlandi og þar kom fram hjá forsvarsmönnum fyrirtækja að þeir eru á fullri ferð að undirbúa sig undir það að taka þátt í þessum verkefnum. Ég veit ekki, hæstv. forseti, hve lengi menn ætla að berja hausnum við steininn með það að þarna sé um góða innspýtingu í efnahagslífið að ræða. Ég átta mig ekki á þeim endalausa málflutningi að allt sé á leið norður og niður ef við fáum auknar framkvæmdir inn í landið. Það er satt að segja alveg ótrúlegt að hlusta á þetta endalaust.

[21:00]

Ég er ekkert að gera því skóna að það hefði verið ráðist í þessar framkvæmdir til þess að styrkja byggð á Austurlandi. Það er ekki sá grunnþáttur sem menn hafa fyrir framan sig. Það vill hins vegar þannig til að sem betur fer mun þessi framkvæmd hafa gífurlega góð byggðaleg áhrif á Austurlandi en hún mun einnig hafa mjög mikil byggðaleg áhrif allt í kringum landið. Við getum skoðað framkvæmdir af svipuðum toga, þó að minni hafi verið, við Grundartanga, þau gífurlega góðu byggðalegu áhrif í Borgarfirði og á Akranesi sem hafa orðið við þær stóriðjuframkvæmdir sem var ráðist í þar. Auðvitað á að halda áfram á þeim nótum.

Straumsvík. Ætli Straumsvík hafi ekki haft býsna mikil byggðaleg áhrif í Hafnarfirði og hér á höfuðborgarsvæðinu? Þurfa menn að skoða það dæmi mjög lengi til þess að sjá það? Ég held ekki. Ég held að einmitt þessi dæmi rökstyðji það að byggðalegu áhrifin munu verða mikil og þetta mun hafa áhrif um allt land. Þetta mun hafa byggðaleg áhrif þannig að efnahagslífið mun taka kipp. Og fyrirtæki um allt land þrífast, þarna er um gífurlega stórar og miklar framkvæmdir að ræða og fyrirtæki um allt land munu taka þátt í þeim.

Sú umræða sem hér hefur farið fram um að menn séu ekki að gera neitt í atvinnumálum, í byggðamálum, í uppbyggingu atvinnulífsins nema hugsa um uppbyggingu álvers og nýtingu fallvatna er fráleit. Þetta er verkefni sem hefur tekið mikinn tíma í umræðunni sem hefur þá líka aftur skyggt á önnur góð verkefni sem menn eru að vinna að víða um land, bæði á vegum hins opinbera og einkafyrirtækja. Af umræðunni mætti halda að við værum eingöngu að tala um að á Austurlandi ætluðu menn ekki að lifa af öðru en álveri þegar það er komið til. Það vill samt þannig til að á Austurlandi er býsna traustur sjávarútvegur. Þróunin í honum er hins vegar sú að með aukinni tæknivæðingu verður mannaflaþörfin sífellt minni þannig að augljóslega þarf að huga að öðrum atvinnukostum og það hafa menn nú gert. Sjávarútvegsfyrirtæki á Austurlandi hafa lagt í miklar fjárfestingar varðandi fiskeldi, laxeldi og þróunarverkefni af þeim toga sem mun auðvitað til framtíðar skila miklu inn í íslenskt þjóðarbú. Ferðaþjónustan mun njóta góðs af þeim miklu umsvifum sem þarna verða því að vandamálin í ferðaþjónustunni eru þess eðlis að ferðamannatíminn er afar stuttur og mönnum hefur gengið illa að greiða niður fjárfestingar í ferðaþjónustunni. Satt að segja er ekki góð afkoma af ferðaþjónustu sem gjarnan hefur þó verið nefnd sem bjargvættur alls af þeim sem ekki vilja ráðast í byggingu álvers. En einmitt það að þessar miklu framkvæmdir eru að fara af stað mun valda því að menn fá inn aukin umsvif í ferðaþjónustunni og auknar tekjur utan háannatíma. Þessar framkvæmdir munu því hafa gífurlega góð áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu, og veitir satt að segja ekki af.

Í skýrslum sérfræðinga hafa verið leidd rök að því að þessar framkvæmdir muni einnig hafa mikil áhrif á aðrar atvinnugreinar, jákvæð áhrif, og er þar landbúnaður sérstaklega nefndur til. Ekki veitir af, hæstv. forseti.

Við horfum auðvitað mjög sterkt á atvinnusköpunina. Ég heyrði það haft eftir prófessor hjá Háskóla Íslands að það væri sérkennilegt við efnahags- og atvinnumálaumræðu á Íslandi, miðað við önnur lönd, að hér legðu menn mesta áherslu á hvað einstök fyrirtæki sköpuðu mörg störf, ekki hversu mikill hagnaður kæmi út úr atvinnustarfseminni. Ég held að skýringin á þessu sé afskaplega einföld. Við Íslendingar viljum hafa atvinnu. Það er bara í okkar þjóðarsál. Ég held að það sé hreinlega innbyggt í okkur að við getum ekki hugsað okkur atvinnuleysi og þær hörmungar sem það leiðir til. Við þurfum ekki að horfa mjög langt aftur til þess að muna atvinnuleysistíma og þá hefðu menn gjarnan viljað fá þau tækifæri sem hér eru fram undan. Þegar við horfum til þess núna að þessar framkvæmdir eru að komast af stað passar það afskaplega vel inn í efnahagskerfið eins og það er um þessar mundir. Atvinnuleysi hefur því miður aukist og fyrirtæki hafa sagt að þau mundi draga úr vinnuafli, fækka starfsfólki. Allt ber þetta að sama brunni, hæstv. forseti. Við eigum að ráðast í þessar framkvæmdir nú og það er fagnaðarefni. Það hefur verið horft til þess og nefnt víða að þjóðgarðar mundu skapa álíka mörg störf og þetta álver, og jafnvel hefur verið nefnt að það mundi skapa mörgum sinnum fleiri störf.

Stofnuð hefur verið nefnd um verndarsvæði eða þjóðgarð norðan Vatnajökuls og við sem erum í þeirri nefnd áttum fundi nýlega með hagsmunaaðilum, ferðaþjónustufólki og umhverfissamtökum á Norður- og Austurlandi og var sú umræða öll mjög áhugaverð. Það kom hins vegar berlega í ljós að á Austurlandi geta menn ekki hugsað sér að þjóðgarður norðan Vatnajökuls yrði með þeim hætti að hreindýraveiðar yrðu bannaðar. Umsýsla um hreindýr skapar þó nokkur störf á Austurlandi og það var alveg sama hvar menn töldu sig standa sem umhverfissinna, það var samdóma álit allra að ekki mætti skerða svo heimildir gagnvart veiðum að menn gætu ekki stundað hreindýraveiðar á hálendinu. Það átti reyndar við um grágæsaveiðar líka. Þarna eru þó nokkur atvinnutækifæri sem menn vilja auðvitað halda til haga og menn vilja geta stundað sína útivist. Það að við ætlum að virkja jökulvötnin, ætlum að byggja álver, skerðir ekki á nokkurn hátt aðra athafnastarfsemi, hvorki á Austurlandi né annars staðar. Þetta er innspýting í efnahagslífið. Við munum halda áfram að byggja upp aðra atvinnu. Til þess höfum við mörg tækifæri.

Nýlega var stofnuð nýsköpunarmiðstöð á Akureyri, starfsemi Byggðastofnunar lýtur einnig að þessum þáttum og eignarhaldsfélög á landsbyggðinni. Síðast vil ég nefna atvinnuþróunarfélögin sem svo sannarlega hafa reynst vel í nýsköpunarstarfsemi á landsbyggðinni. Ég vil kannski sérstaklega nefna að Atvinnuþróunarfélag Austurlands hefur um langt skeið verið að undirbúa þessar miklu fyrirhuguðu framkvæmdir, einmitt með því að kalla saman fyrirtæki eða forsvarsmenn fyrirtækja í hinum ýmsu atvinnugreinum þar sem menn hafa lagt sameiginlega á ráðin um það hvernig eigi að takast á við þessi miklu verkefni. Eins og ég segi, til viðbótar við þau góðu efnahagslegu áhrif sem þessar framkvæmdir munu hafa á íslenskt hagkerfi munu þessar framkvæmdir hafa gífurlega góð byggðaleg áhrif á Austurlandi, á Norðausturlandi og um allt land.