Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 14:19:48 (4473)

2003-03-06 14:19:48# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[14:19]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það liggur í augum uppi að fjárfesting þriggja banka, sem voru í eigu ríkissjóðs, upp á 6 milljarða kr. verður ekki tekin nema eigandinn vilji það og hafi ákveðið það. Það fer því ekkert á milli mála í þeim efnum. Þegar það er skoðað í samhengi við það að ríkisstjórnin lagði fram frv. hér á Alþingi sem Alþingi gerði að lögum til þess að treysta grundvöllinn undir starfsemi fyrirtækisins held ég að það fari ekkert á milli mála að hér var um að ræða atvinnumálaaðgerð sem stjórnarflokkarnir stóðu að.

Varðandi stefnu í byggðamálum og hvað hafi verið samþykkt og hvaða tillögur eða hugmyndir eru í raun þær sem vísað er til vitna ég til nál. meiri hluta iðnn. á þskj. 1407, í 538. máli, á síðasta þingi þar sem segir, með leyfi forseta, að meiri hlutinn mæli með samþykkt hinna almennu markmiða þingsályktunarinnar. Það liggur þá fyrir að það var samþykkt. Annað var ekki borið upp til atkvæðagreiðslu á þinginu. Í nál. kemur hins vegar fram, með leyfi forseta:

,,Meiri hlutinn styður þær hugmyndir til aðgerða er fylgja tillögunni.``

Það eru þessar 22 tillögur sem fylgdu með tillögu ríkisstjórnarinnar. Síðan bætti meiri hlutinn við öðrum hugmyndum í 11 tölusettum liðum sem voru til umfjöllunar meðal stjórnarflokkanna, og í a.m.k. þingflokki framsóknarmanna voru þær ræddar og samþykktar. Það liggur fyrir pólitískur stimpill á þessar tillögur í 11 tölusettum liðum sem er að finna í nál.

Þess vegna segi ég með fullum rétti að það sem vísað er til eru þá samanlagðar tillögur úr þessum tveimur skjölum.