Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 14:46:55 (4480)

2003-03-06 14:46:55# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[14:46]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Mér finnst eðlilegt að ég segi örfá orð hér í lokin bara til að þakka fólki fyrir ágætar undirtektir við þetta þingmál og málefnalegar umræður sem hafa einkum snúist um það að kannski væri hægt að verja þessum peningum eitthvað ofurlítið öðruvísi og þeir mættu gjarnan vera meiri. Ég tek undir það. Mörg eru góðu málin sem þarf að sinna. En þetta er niðurstaða ríkisstjórnarinnar í bili hvað sem síðar kann að verða.

Auðvitað er erfitt að skipta svona miklum fjármunum til vega vegna þess að mörg uppbyggingarverkefni bíða. En ég held að við getum öll verið sammála um að þetta flýtir þá fyrir því að annað kemst að bæði hérna á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar.

Varðandi menningarhúsin þá er ekki hægt að fullyrða að þetta fjármagn verði allt nýtt á þessu ári. Aðalatriðið er að ef þetta nær inn í þessi fjáraukalög þá er búið að tryggja þetta fjármagn þó svo að það kunni að þurfa að flytja fjárveitinguna að einhverju leyti til næsta árs eða jafnvel enn lengra eftir því hvernig verkunum miðar áfram. Um skiptingu þess fjár, þess milljarðs sem þarna er um að ræða, þá er það mál sem er á verksviði menntmrh. sem hann vinnur nú að í samvinnu við þau sveitarfélög sem þarna eiga hlut að máli, Akureyri og Vestmannaeyjar.

Varðandi það að einungis séu 4,7 milljarðar í þessu frv. í stað 6,3, þá stafar það auðvitað af því að átakið er til 18 mánaða og það sem upp á vantar kemur að sjálfsögðu í fjárlögum næsta árs. (Gripið fram í: Hjá næstu ríkisstjórn?) Jafnvel.

Að öðru leyti þakka ég þingmönnum hér fyrir málefnalegar umræður um þetta mál.