Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 15:46:31 (4491)

2003-03-06 15:46:31# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, JB
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[15:46]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég tek til máls um frv. til laga um breytingu á lögum um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga. Samkvæmt þessu frv. yrði álbræðslunni á Grundartanga, Norðuráli, heimilt að stækka og auka framleiðslu sína í 300 þús. tonna álframleiðslu á ári. Þetta er gríðarlega mikil stækkun. Áður mun fyrirtækið fá heimild til að framleiða allt að 180 þús. tonn á ári. Segja má að skammt sé stórra högga milli hjá hæstv. ríkisstjórn hvað það varðar að gera Ísland að einhliða álframleiðslulandi.

Það er kostur að hafa fjölbreytt atvinnulíf og sjálfsagt hið besta mál að byggðar séu einstaka verksmiðjur sem krefjast mikillar orku ef það er gert í sátt, bæði við umhverfi og almennt við þróun atvinnulífs í landinu. En ég held, virðulegi forseti, að við hljótum að spyrja okkur vandlega á hvaða braut við erum í uppbyggingu á íslensku atvinnulífi.

Verði þær framkvæmdir sem hér eru fyrirhugaðar að raunveruleika, til viðbótar því sem Alþingi var að samþykkja í gær, með þeim virkjunum sem þarf til þess að halda þessum verksmiðjum gangandi lætur nærri að um 80% af virkjaðri orku í landinu verði bundið í einni hráefnisframleiðslugrein. Mér finnst mjög alvarlegt umhugsunarefni að keyra atvinnulíf okkar inn í mikla einhæfni og verja auk þess til þess orkuauðlindum okkar, auðlindunum sem eru ein dýrmætasta eign sem við eigum. Orkuauðlindir okkar er mjög mikilvægt að nýta vel til uppbyggingar atvinnulífi á líðandi stundu en einnig líka til framtíðar. Horfa þarf á fjölþætt gildi þeirra náttúruverðmæta sem felast í orkunni og því náttúrufari sem hún er sprottin úr.

Þetta frv. gerir ráð fyrir gríðarlegri stækkun á álverksmiðjunni á Grundartanga. Það er keyrt inn í þingið skömmu fyrir þinglok og mér finnst það ekki vera vinnubrögð sem Alþingi ætti að tileinka sér.

Ef við lítum á orkuhlið málsins, sem kemur til umræðu síðar í dag, þá hefur ríkisstjórnin fyrir tilstilli Alþingis sett af stað vinnu við rammaáætlun um virkjun vatnsfalla og jarðvarma í landinu. Að sjálfsögðu viljum við nýta orkuauðlindir okkar og náttúruauðlindir í sátt við uppbyggingu atvinnulífs og náttúruna. Þess vegna var einmitt sett upp nefnd um slíka rammaáætlun til að meta þá virkjunarkosti sem væru nærtækastir, meta náttúrufarslegt gildi þeirra, hver umhverfisleg áhrif það hefði að ráðast í þau og forgangsraða þeim virkjunarkostum miðað við þá vinnu. Þeirri vinnu hefur enn ekki verið skilað en áfram erum við að byggja upp stóriðju og samþykkja virkjanir sem þessi rammaáætlun um virkjun vatnsafls og jarðvarma ætti að ná yfir. Þetta er slík handarbakavinna og virðingarleysi gagnvart dýrmætum náttúruauðlindum okkar að það er fullkomlega óviðunandi og ósæmandi.

Umræðan um álverksmiðjuna gengur ekki út á að finna að álverksmiðjum sem vinnustöðum. Ég hef t.d. komið í álverksmiðjuna á Grundartanga. Þar er unnið af metnaði og keppst við að umhverfi starfsmanna sé sem best og til fyrirmyndar. Það er mjög gott mál. Þeir starfsmenn sem þar vinna starfa að sjálfsögðu af metnaði og vilja skila sem bestri vinnu. Sú umræða sem hér fer fram um uppbyggingu á álverksmiðju á Grundartanga eða verksmiðjum annars staðar gengur því ekki út á að þeir sem þar vinna muni ekki gera sitt besta hvað varðar umhverfið og arðsemina af vinnunni.

Okkur ber á hinn bóginn að horfa á uppbyggingu atvinnulífsins sem heildar. Svo ógurleg stækkun á einni verksmiðju sem tekur til sín svo gríðarlega mikið fjármagn og orku hlýtur að þurfa vandlega skoðun af hálfu þingsins og að kallaðir séu til sérfræðingar á sviði umhverfis- og efnahagsmála og öllum þeim sviðum sem komið gætu að málinu.

Ég vil t.d. vekja athygli á umsögn vefrits fjmrn. varðandi áætlanir ríkisstjórnarinnar um stóriðju og virkjanaframkvæmdir sem hæstv. iðnrh. vitnaði til. Þar er verið að leiða getum að því hvaða áhrif þær stórframkvæmdir muni hafa á íslenskt efnahagslíf. Þar eru jafnframt slegnir þeir varnaglar að því miður sé þessi vinna, forsendur vinnunnar hjá efnahagsskrifstofu fjmrn., mjög veikar. Það er ítrekað hvað eftir annað.

Tökum til dæmis það sem þar stendur um forsendur, með leyfi forseta:

,,Staða þjóðarbúsins í grunndæmi skiptir miklu máli fyrir niðurstöðu framreikninganna.`` --- Það er sem sagt gefið grunndæmi um þróun efnahags- og atvinnulífs í landinu og síðan hvaða áhrif þessar framkvæmdir í heild sinni hafi á efnahags- og atvinnulífið og reyna að spá fram í tímann. --- ,,Mikilvæg forsenda í grunndæminu er að gengisvísitala krónunnar verði 130 stig allt framkvæmdatímabilið`` --- þau fimm ár sem þarna er talað um --- ,,sem er ívið lægra en meðaltal ársins 2002.``

Menn gefa sér í upphafi allar forsendur, þ.e. efnahagsskrifstofa fjmrn. byggir spár sínar um þróun og viðbrögð íslensks atvinnulífs á gengisvísitölu upp á 130 stig. Hvað er gengisvísitalan í dag? Er hún ekki 121 stig? Það þýðir að gengi íslensku krónunnar hefur samkvæmt forsendunum hækkað úr 121 stigi í 130 stig á nokkrum mánuðum. Allir efnahagssérfræðingar sem ég hef heyrt tjá sig um frekari framvindu efnahagslífsins í landinu, þar með um gengisþróunina, hafa lýst því yfir að verði af þessum framkvæmdum og því meiri sem þær verða því hærra muni gengið verða. Líkurnar á því að gengið hækki eru því afar litlar og minnka ef ráðist verður í þær framkvæmdir sem hér er gert ráð fyrir. Gengisvísitalan sem lögð er til grundvallar fyrir efnahagsleg áhrif þessara virkjanaframkvæmda hjá fjmrn. er því í raun allt önnur og þar af leiðandi eru forsendur spádóma þeirra brostnar. Enda segja þeir það hvað eftir annað að þetta sé byggt á mjög veikum grunni, m.a. hvað varðar gengið.

Gengisáhrif í þessa veruna hafa það í för með sér, herra forseti, að samkeppnisstaða allra útflutningsgreina versnar. Hækki gengið t.d. um 20% þýðir það í flestum tilfellum 20% verðlækkun á þeim útflutningsafurðum þar sem meiri hluti aðfanga er innlendur kostnaður. Fiskvinnslan, hvernig mun verða fyrir fiskvinnsluna að bera 20% hærra raungengi en efnahagslífinu er annars eðlilegt? Hvernig mun fara fyrir ferðaþjónustunni sem yrði þá að bera 20% hærra raungengi en henni væri eðlilegt? Áfram mætti telja.

Herra forseti. Grunnútflutningsgreinarnar eru úti á landi. Svo gríðarlegt inngrip í íslenskt efnahagslíf eins og hér gert ráð fyrir í heild sinni, stækkun álvers á Grundartanga og hugsanlega framkvæmdir fyrir austan eru gríðarlegar stærðir fyrir íslenskt efnahagslíf. Meira að segja fjármála- og efnahagssérfræðingar treysta sér ekki til að spá hver áhrifin verði en þau verði mikil.

Það er ekki víst að ráðist verði í stækkun eins og hér er gert ráð fyrir, í þessu andrúmslofti í atvinnuástandi og efnahagslífi. Það er ekki víst að það muni í sjálfu sér styrkja atvinnulíf á því svæði sem við erum þarna að tala um. Hvernig fer samkeppnisstaða fiskvinnslunnar á Akranesi? Hvernig fer samkeppnisstaða skipasmíðaiðnaðar og vélsmíða á Akranesi, sem keppa við útlönd? Vonandi stendur sá iðnaður það af sér. En það er mjög mikilvægt, herra forseti, að þegar farið er út í gríðarleg inngrip í íslenskt efnahagslíf eins og hér er gert ráð fyrir sé þetta mál virkilega skoðað í heild sinni.

Ég treysti því að fari þetta mál til umfjöllunar í hv. iðnn. verði því þar gefinn rækilegur tími til að skoða allar hliðar þess og við séum þar ekki að stíga skref sem verði okkur til ógæfu.

Það er líka vert að skoða vandlega hvaða áhrif þetta hefur fyrir ímynd okkar og umhverfið á iðnaðarsvæðinu á Grundartanga og nágrenni þess. Þarna er verið að byggja upp ferðaþjónustu og ýmiss konar annan atvinnuveg. Menn þurfa að huga að ímynd þess svæðis, ímynd sem getur verið markaðsvara í sjálfu sér þó að við getum ekki persónulega hvert sagt til um hver hún er. En landið hefur ákveðna ímynd og við þurfum að bera virðingu fyrir henni og ekki skemma þar fyrir okkur. Þarna þarf því að skoða margt. Einnig hafa vaknað umræður um að setja þarna upp rafskautaverksmiðju og mér finnst afar mikilvægt að Alþingi skoði þetta mál í heild sinni en ekki í bútum.

[16:00]

Virðulegi forseti. Varðandi efnahagsmálin þá er líka umhugsunaratriði ef við fáum hér hvert stóriðjufyrirtækið á fætur öðru sem tekur lungann úr allri virkjanlegri orku okkar til starfsemi sinnar, en jafnframt er því ívilnað í sköttum og gjöldum til ríkisins og samfélagsþjónustunnar. Hvaða atvinnugreinar gætu ekki blómstrað ef þær fengju aðrar eins ívilnanir í sköttum og raforkuverði og þessi stórfyrirtæki fá? Ferðaþjónustan skilar nú tugum milljarða króna í útflutningstekjur. Hún er í útflutningstekjum jafngild stóriðju og stóriðjuverum og jafnvel stærri en einstök stóriðjuver hérna. En hún skilur mun meira eftir í samfélaginu af tekjum því ekki er nóg að horfa bara á útflutningsverðmætið heldur verður líka að draga frá hvað kostar að framleiða.

Menn hafa rætt heildarútflutningstekjurnar fjálglega, að þær vaxi um þetta og þetta mörg prósent. En þeir skulu þá líka huga að því að draga frá tilkostnaðinn. Hvað gæti ferðaþjónustan skilað hér ef hún fengi tilsvarandi stofnkostnað, stofnstyrki til að byggja sig upp eins og þessi stóriðja fær frá hinu opinbera, sem ég tel að ætti að skoða? Ferðaþjónustan á ekki höfuðstól en þarf á höfuðstól að halda til þess að byggja sig upp. Ef hún fengi tilsvarandi stofnstyrki --- hún þyrfti ekki marga milljarða króna í stofnstyrki til þess að vaxa og fá sterkari grunn. En hún þarf nauðsynlega á fjármagni að halda og hún skilar meiri tekjum inn í samfélagið en þessar álverksmiðjur. Ef ferðaþjónustan nyti sömu skattfríðinda og fyrirgreiðslu af hálfu stjórnvalda hvað það varðar, hvernig gæti hún þá vaxið og blómstrað? Af hverju stillum við ekki upp þessum valkostum okkar í íslensku atvinnulífi? Í okkar litla fámenna samfélagi er nefnilega ekki pláss fyrir margar risaverksmiðjur af þessu tagi. Þegar við veljum einn kost þá erum við í mörgum tilvikum líka að hafna öðrum.

Virðulegi forseti. Ég tel mjög mikilvægt að þetta mál fái mjög vandaða meðferð á þinginu, allir þættir þess, orkuöflunarþátturinn, efnahagslegi þátturinn í heild sinni fyrir þjóðina alla og aðrir valkostir í uppbyggingu atvinnulífs gagnvart svona gríðarlegu fjármagni og gríðarlegri orkuráðstöfun til eins atvinnuvegar. Eigum við að binda 50--60% af útflutningsvörum okkar í einu hráefni, áli? Eigum við að binda um 80% af allri virkjaðri orku okkar í einni framleiðslugrein? Er það skynsamlegt? Mér finnst það ekki, virðulegi forseti.

Við vitum að fyrirtæki sem starfa í þessari grein og eru hingað komin, leggja metnað sinn í að gera vel og starfsfólkið sem þar starfar leggur metnað sinn í að gera vel í sínum störfum og aðbúnaði.

Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á að þetta mál fái mjög vandaða meðferð í hv. iðnn. verði því vísað áfram til þingnefndar.