Hafnalög

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 19:56:31 (4536)

2003-03-06 19:56:31# 128. lþ. 90.7 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[19:56]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki að reyna að gera neitt tortryggilegt. Ég er að vísa í málflutning hæstv. ráðherra sem segir að að sínu mati sé hlutafélagið heppilegasta formið fyrir rekstur hafna á Íslandi. Ég hef miklar efasemdir um að það sé rétt. Hins vegar er það rétt hjá hæstv. ráðherra að hugsanlegir fjárfestar í höfnum vilja fá eitthvað fyrir sinn snúð. Með öðrum orðum, þeir vilja fá meira út úr fjárfestingunni en nemur sjálfri fjárfestingunni. Það er arðurinn. Það er ástæðan fyrir því að t.d. að elliheimilið Sóltún er miklu dýrara fyrir íslenska skattgreiðendur en dvalarheimili sem ekki eru rekin á þeim forsendum. Það kemur fram í úttekt Ríkisendurskoðunar að eigendur dvalarheimilisins þurfi að fá eitthvað fyrir sinn snúð.

Mér finnst mjög undarlegt þegar um er að ræða samfélagslega þjónustu eins og hafnir að hér komi fram hæstv. ráðherra, fulltrúi ríkisstjórnar, og tali fyrir hönd fjárfesta sem þurfi að fá eitthvað fyrir sinn snúð og hann telji það vera einn af kostum hlutafélagaformsins að eigendur, fjárfestar, geti tekið gróða út úr slíkri fjárfestingu, íslenskum höfnum. Mér finnst þetta mjög undarlegur málflutningur. Ég hefði skilið þennan málflutning frá Verslunarráðinu eða einhverjum samtökum fjárfesta, en ekki frá ríkisstjórn eða hæstv. ráðherra sem á að tala fyrir hönd skattgreiðandans.