Samþjöppun í útgerð og fiskvinnslu

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 15:32:25 (279)

2002-10-07 15:32:25# 128. lþ. 5.2 fundur 149#B samþjöppun í útgerð og fiskvinnslu# (óundirbúin fsp.), JB
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[15:32]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að Alþingi samþykkti lög sem áttu að veita vissa takmörkun og var það nokkru meiri takmörkun heldur en hafði verið gert ráð fyrir í viðkomandi frv. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs vöruðu við því að þau mörk væru allt of rúm sem mér virðist nú vera að koma á daginn. Ég held að það sé fyllilega ástæða til að skoða þessi mál aftur og vita hvort ekki beri nauðsyn til að þrengja þarna að því að það er alveg ljóst að sú þróun ef hún heldur áfram sem nú er mun enn auka á óvissu og ósjálfstæði byggðanna sem treysta svo mjög á sjávarútveginn. Ég skora á hæstv. sjútvrh. að skoða þetta mál og kanna hvort ekki sé rétt að hann beiti sér hér á Alþingi fyrir því að þessi mörk verði þrengd og kanna hvernig það megi styrkja og efla sjálfsforræði byggðanna yfir þessum náttúruauðlindum sínum. Ég skora á hæstv. sjútvrh. að endurskoða þessi lög með það að markmiði.