Matvælaverð á Íslandi

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 16:47:37 (301)

2002-10-07 16:47:37# 128. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[16:47]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ekki sé ástæða til að tefja þetta mikið lengur. Ég held að allir geti tekið undir það með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að allir eigi að reyna að sameinast um það að hafa matvöruverð sem allra lægst á Íslandi og þar hafa margir þættir áhrif. Og eins og ég hef margítrekað hafa skattar að sjálfsögðu mikil áhrif og Sjálfstfl. hefur beitt sér sérstaklega og ríkisstjórnin í því máli.

Ég veit ekki betur en hæstv. forsrh. og ríkisstjórnin hafi margoft reynt að hafa áhrif á verð með aðkomu sinni í fjölmiðlum, í almennri umræðu um að þessir stóru aðilar sem ráða matvælamarkaðnum hagi álagningu sinni þannig að vöruverð sé í hófi. Það er ekki hægt að ásaka ríkisstjórnina né þingmenn stjórnarmeirihlutans fyrir að hafa sofið á verðinum, en við fögnum því að sjálfsögðu að fá eins mikla aðstoð við það að halda niðri vöruverði og kostur er. Þess vegna held ég að umræðan sem slík sé alltaf góð og í rauninni nauðsynlegt að halda henni vakandi.