Óhreyfð skip í höfnum og skipsflök

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 11:30:42 (655)

2002-10-17 11:30:42# 128. lþ. 13.4 fundur 14. mál: #A óhreyfð skip í höfnum og skipsflök# þál., Flm. KF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[11:30]

Flm. (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um úttekt á óhreyfðum skipum í höfnum og skipsflökum og kostnaði við hreinsun.

Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Ásta Möller, Gunnar Birgisson, Kristján Pálsson, Guðjón Guðmundsson, Guðmundur Hallvarðsson og Einar Oddur Kristjánsson.

Í tillögunni segir:

,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta kanna fjölda óhreyfðra og úreltra skipa í höfnum landsins, svo og fjölda strandaðra skipa og skipsflaka nálægt landi. Kannað verði hvort unnt sé að nýta þessi skip á einhvern hátt en ella hvað það kosti að flytja þau burt og farga þeim og jafnframt hvort það borgi sig að endurvinna brotamálm, timbur og plast úr skipsskrokkunum.``

Herra forseti. Umhverfis landið, jafnt í höfnum sem annars staðar, er að finna óhreyfð skip, úrelt, ónýt og jafnvel án eigenda. Þar sem eigendur eru fyrir hendi er oft enginn vilji til að fjarlægja úr sér gengna skipsskrokka sökum þess hve kostnaðarsamt það er talið vera.

Á síðustu árum hefur verið lögð vaxandi áhersla á það, bæði hér heima og erlendis, að endurnýta og endurvinna og draga þar með úr sóun. Starf á vegum Sorpu bs. hefur verið þungt á metunum og skipt sköpum hvað endurvinnslu varðar hér á landi.

Á árinu 2000 voru tæp 36 þús. tonn af brotajárni og málmúrgangi flutt úr landi. Sama ár var skilað 10.000 tonnum af timbri til endurvinnslu í Sorpu og þar var einnig tekið á móti 60 tonnum af drykkjarfernum og 5.500 tonnum af dagblöðum. Endurvinnslan hf. tók á móti 3.300 tonnum af gleri, 1.400 tonnum af plasti og 500 tonnum af málmi, aðallega áli.

Ætlunin er að koma á skilagjaldi á bifreiðar. Það mun gjörbreyta margra ára ófremdarástandi því að bílhræ hafa víða verið skilin eftir í reiðileysi um landið. Þó hefur hreinsun á bílflökum um allt land skilað þó nokkrum árangri. Erfiðleikar hafa hins vegar skapast á mörgum stöðum á landinu hvað skipsskrokka varðar. Þannig hafa safnast saman úr sér gengin og ónýt skip í höfnum sums staðar á landinu. Þar geta legið talsverð verðmæti í málmi, timbri og plasti. Þá er skipsflök einnig að finna utan hafna auk þess sem skip hafa strandað eða sokkið nálægt landi. Ekki hefur verið lagt mat á hvert verðmæti í þessum skipum og bátum kynni að vera, en kostnaður við að flytja efnið í móttökustöð til endurvinnslu hefur vaxið mönnum í augum og orðið til að engin úrlausn hefur fundist. Þannig er um óleyst umhverfisvandamál að ræða.

Samkvæmt upplýsingum hafnarstjórans í Reykjavík eru engin ónýt skip í Reykjavíkurhöfn. En þar eru nokkur verkefnalaus skip sem þó er vel við haldið.

Umhverfisnefnd Hafnasambands sveitarfélaga gekkst fyrir könnun á langlegu- og reiðileysisskipum í höfnum á Íslandi í desembermánuði árið 2000 og kom í ljós að slík skip voru á þeim tíma um 161 talsins, brúttóþyngd þeirra alls 37 þús. tonn. Þar voru m.a. 14 skuttogarar, 88 fiskibátar og 38 trillur. Í Hafnarfjarðarhöfn voru þá 17 skip, í Vestmannaeyjahöfn tíu skip og á Höfn í Hornafirði þrjú skip, svo að dæmi séu nefnd frá desembermánuði árið 2000. Á Mjóafirði var þá einn skuttogari og á Reyðarfirði annar. Í Grindavíkurhöfn voru sjö skip, sex fiskibátar og ein trilla. Í Ísafjarðarhöfn voru sjö skip, þar af fimm fiskibátar, og á Siglufirði fimm skip, tveir skuttogarar og þrír fiskibátar.

Herra forseti. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, sbr. 3. tölul. 3. gr. sömu laga, er bannað að sökkva skipum í sjó og er það í samræmi við alþjóðlega samninga, sem kallast OSPAR, þótt í þeim sé gert ráð fyrir að bannið taki gildi á alþjóðavísu í ársbyrjun 2005, þ.e. fram að þeim tíma má veita undanþágu til að sökkva skipum í sjó.

Tillagan sem ég mæli hér fyrir gerir ráð fyrir að metið verði umfang þessa umhverfisvandamáls nú, einkum með tilliti til þess hve kostnaðarsamt yrði að leysa það. Í kjölfarið þyrfti ríkisstjórnin, í samvinnu við hafnarstjórnir og sveitarfélög og einstaklinga sem e.t.v. vildu nýta þessa skipsskrokka, að ákveða til hvaða aðgerða sé rétt að grípa.

Herra forseti. Tillaga þessi er nú endurflutt frá síðasta þingi. Hún hlaut þá ekki afgreiðslu en ég vona að henni reiði betur af í þetta sinn.