Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 12:17:37 (665)

2002-10-17 12:17:37# 128. lþ. 13.5 fundur 15. mál: #A sveitarstjórnarlög# (íbúaþing) frv., Flm. MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[12:17]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir undirtektir hv. þingmanns. Hv. þm. hafði efasemdir um að nauðsynlegt sé að binda þetta í lög en ég tel það nauðsynlegt. Á undanförnum árum hafa sveitarfélög verið að sameinast, tvö eða fleiri, og ef það hefði t.d. verið lögbundin skylda sveitarfélaga að hafa samráð við íbúa sína með íbúaþingi tel ég að miklu betur hefði mátt vinna málið. Sterkari og stærri heild hefði komið út ef íbúum hefði verið gert kleift að fjalla um sameiningu viðkomandi sveitarfélaga á íbúaþingum og koma að því með hvaða hætti tekist væri á við verkefnið.

Ég tel sjálfsagt líka að við gerð langtímaáætlana hvers sveitarfélags og Staðardagskrár 21, eins og hv. þm. nefndi hérna, sé unnið eftir skýrt skilgreindu ferli. Fyrirtækið Alta hefur unnið að gerð skipulagsmála þar sem þessi íbúaþing hafa verið tekin inn. Alta hefur jafnframt komið að mótun frv.

Í hinum vestrænu ríkjum, kannski sérstaklega í Evrópusambandinu, er íbúalýðræði í stöðugt auknum mæli bundið í ákvarðanatökuferlið með tilskipunum, ekki bara varðandi mat á umhverfisáhrifum og skipulagsmálum almennt heldur fleiri þætti. Þar er verið að taka upp þetta virka íbúalýðræði og leggja áherslu á það. Og ég tel nauðsynlegt að setja þetta hreinlega í lög til þess að breyta vinnuaðferðum innan sveitarfélaga. Ég get tekið undir það að ég vildi sjá íbúaþingin oftar en einu sinni á hverju kjörtímabili en það er hins vegar algjört lágmark við gerð langtímaáætlunar.