Staða löggæslumála frá Höfn til Keflavíkur

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 12:52:02 (674)

2002-10-17 12:52:02# 128. lþ. 13.95 fundur 180#B staða löggæslumála frá Höfn til Keflavíkur# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[12:52]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það er dálítið fróðlegt og forvitnilegt að fylgjast með þeirri umræðu sem hér fer fram. Við sem höfum tekið þátt í umræðunni, við sem höfum verið á því svæði sem hér er um rætt, höfum orðið vör við um langt skeið, í langan tíma, óánægju vegna lítillar almennrar löggæslu. Svo kemur hæstv. ráðherra hér upp og segir okkur sem höfum verið á ferðinni í nokkuð langan tíma að hér sé allt í fínasta standi. (Gripið fram í.)

Ég verð að segja það alveg eins og er að það er dálítið sérstætt að fylgjast með þessu. Síðan koma hér aðrir þingmenn sama flokks og fullyrða eitthvað svipað. En það er eins og það fólk sem býr við þessa löggæslu og það fólk sem vinnur við þessa löggæslu hafi þá lítið sem ekkert vit á þessum málum, ef marka má þessi orð og þessa umræðu. Mig langar, virðulegi forseti, í ljósi þeirra merku bréfa sem hæstv. ráðherra las upp úr hér áðan að leyfa mér að lesa, með leyfi forseta, upp úr grein Óskars Bjartmarz, sem er formaður Landssambands lögreglumanna, en þar segir svo:

,,Lögreglumenn upplifa æ oftar að umræður á opinberum vettvangi um raunverulega stöðu lögreglunnar í landinu virðast ráðamönnum í dómsmálaráðuneytinu ekki þóknanlegar. Tjáningarfrelsi hér á landi er kannski að mati ýmissa ekki svo sjálfsagt þegar upp er staðið.``

Þetta er fullyrðing formanns Landssambands lögreglumanna. Síðan kemur hér hver spekingurinn á fætur öðrum með sjálfan dómsmrh. í broddi fylkingar og lýsir yfir því að allt sé í himnalagi, allt sé í stakasta lagi. Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að ég bar þá von í brjósti þegar hæstv. dómsmrh. tók við, vegna þess að henni var falið að gegna einu ráðuneyti, að eitthvað mundi koma út úr þessum verkum. En líklega verða eftirmælin og bautasteinarnir ekki aðrir en bætt salernisaðstaða í ráðuneytinu, sveit pappalögga og stórt ríkislögreglustjóraembætti. (Gripið fram í: ... er málefnalegur.)