Staða löggæslumála frá Höfn til Keflavíkur

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 12:58:49 (677)

2002-10-17 12:58:49# 128. lþ. 13.95 fundur 180#B staða löggæslumála frá Höfn til Keflavíkur# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[12:58]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Mér þykir miður að hv. málshefjandi sé svo reið þegar henni er bent á ákveðnar staðreyndir í þessu máli. Ég hefði haldið að þar sem þingmaðurinn á sæti í fjárln. hefði hún kynnt sér hvað er verið að bæta við í fjárveitingum til kjördæmis hennar. (MF: Ég þekki það.) Það er auðvitað áhyggjuefni að þingmaðurinn skuli ekki kynna sér það betur. (MF: Það er verra ef dómsmrh. þekkir ekki stöðuna.) Ég vil biðja hv. þingmenn um að kynna sér líka umsagnir frá sýslumönnum í þessu kjördæmi sem ég hef undir höndum og er tilbúin til að afhenda. Það er auðvitað ekkert eðlilegra en að þeir sem ábyrgð bera á stjórn og skipulagningu þessara embætta hafi á því skoðun hvernig mál standa í þeirra embættum og láti þær í ljós. Það er alveg ljóst að umsagnir sýslumanna eru skýrar og sýna fram á að ýmsar af fullyrðingunum sem hér hafa komið fram eru tilhæfulausar. (MF: Frá lögreglunni?)

Ég sé hins vegar ástæðu til að minna sérstaklega á að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson er alltaf jafnmálefnalegur í þessum umræðum. Ég vona bara að kjósendur (Gripið fram í.) hans taki eftir því hvað hann hefur til málanna að leggja í löggæslumálum og öðrum málum reyndar.

Ég vil taka það fram, herra forseti, að það hefur komið skýrt fram að í þeim tilvikum sem þörf hefur verið til staðar hafa yfirvöld brugðist við með auknum fjárveitingum, svo sem á Selfossi og í Vík í fyrirliggjandi fjárlagafrumvörpum, og í Höfn í frv. á síðasta ári og með þeirri úttekt sem nú er unnin af embættinu. Það er auðvitað svo í lögreglumálum eins og á mörgum öðrum sviðum að ávallt er hægt að gera betur. Staðan er ekki fullkomin. En það er ekki þar með sagt að málin standi ekki vel. Það er unnið að því að efla löggæslu á þessu svæði öllu eins og á landinu almennt séð. Ég hef bent á það með áþreifanlegum dæmum: Aukning á framlögum til lögreglunnar í Höfn á síðustu fjárlögum, nýr fíkniefnalögreglumaður á Selfossi árið 2000, aukning um 1 millj. til Víkur í fjárlagafrv., 50 millj. til lögreglunnar á Selfossi og nýr lögreglumaður á Hvolsvöll. Við munum halda áfram á þessari braut til þess að gera góða löggæslu enn betri.