Viðræður við Alcoa um álver á Reyðarfirði

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 10:48:56 (892)

2002-11-01 10:48:56# 128. lþ. 20.91 fundur 200#B viðræður við Alcoa um álver á Reyðarfirði# (aths. um störf þingsins), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[10:48]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Það er í rauninni merkilegt að heyra hér fulltrúa Vinstri grænna enn einu sinni koma upp og reyna að gera allt sem lýtur að álversframkvæmdum torkennilegt. Málflutningur þeirra er alveg með eindæmum. Þau vaða hér uppi rétt einu sinni með stóryrði, ásaka hæstv. ráðherra um það beinlínis að ljúga að Alþingi. Það hefur áður verið rekið ofan í hv. þingmenn Vinstri grænna og væri einmitt ánægjulegt að rifja upp þá umræðu upp sem átti sér stað í vor. (ÖJ: Gerðu það.)

Það er rétt að minna á að það var hæstv. ráðherra sem ákvað, í góðu samkomulagi við Norsk Hydro, að segja upp samningnum sem gerður hafði verið vegna þess að íslensk stjórnvöld voru ekki tilbúin til að bíða. Og til allrar hamingju tókst að finna eitt besta fyrirtæki heimsins á þessu sviði, Alcoa. (ÖJ: Besta?)

Hér talaði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon um það og notaði sem forsendu að álverð færi lækkandi og þess vegna væri þetta allt saman mjög torkennilegt. Hv. þm. veit það eflaust og sessunautur hans, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, gæti upplýst hann um það að hingað til lands komu fulltrúar eins virtasta fyrirtækis í heimi á sviði ráðgjafar um álver og héldu ráðstefnu. Þar var því spáð almennt að álverð muni fara mjög hækkandi en sveiflur í álverði hafa alltaf verið fyrir hendi. Í það heila tekið mun samt þörf fyrir ál í heiminum fara vaxandi. Málið er í eðlilegum farvegi, segir Alcoa. Málið er í eðilegum farvegi, segir Landsvirkjun. Málið er í eðlilegum farvegi, segir iðnrn. Það eru hins vegar vinstri grænir einir sem telja það ekki vera í eðlilegum farvegi.

Ég minni á að fulltrúar Landsvirkjunar hafa komið fyrir iðnn. og gert mjög rækilega grein fyrir því í hvaða farvegi málið er, og þar voru ekki gerðar athugasemdir. Viðræður eru í gangi og við skulum vona að þær leiði til jákvæðrar niðurstöðu og þá væntanlega mun hæstv. ráðherra kynna frv. fyrir Alþingi. En ég bið menn um að vera heldur málefnalegri þó að þeir berjist hatrammlega gegn öllu sem heitir álver eða öðru sem kann að horfa til framfara í íslensku atvinnulífi.