Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 11:15:20 (896)

2002-11-01 11:15:20# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[11:15]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram í máli mínu er ekki ákvæði í frv. sem bannar sölu stofnbréfa á yfirverði. Það er m.a. vegna þess að við höfum, eins og kom fram líka, fengið lögfræðiálit á því efni þar sem fram kemur að ákveðin hætta er á því að það stæðist ekki ákvæði stjórnarskrár að setja fram slíkt ákvæði.

Hins vegar eru yfirtökuvarnir eins og við köllum það í frv. fleiri en ein og fleiri en tvær og reynt er að nálgast málefnið á þann hátt með lögum að ekki komi upp aðstæður eins og sköpuðust á síðasta sumri og það tel ég mjög mikilvægt.

Ég vil taka fram varðandi frv. að ekki er gerð tillaga um breytingar á þeim lögum sem samþykkt voru í fyrra frá Alþingi. Þetta eru breytingar á lögum frá 1985 fyrst og fremst.