Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 14:09:31 (933)

2002-11-01 14:09:31# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[14:09]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég er þingmaður Sjálfstfl. eins og kunnugt er. Sjálfstfl. hefur ákveðna stefnu. Síðan er Sjálfstfl. í samstarfi við Framsfl. í ríkisstjórn og þar þarf að taka mið af stefnu beggja flokkanna. Þess vegna náum við ekki alfarið fram í ríkisstjórn því sem er stefna Sjálfstfl., að sjálfsögðu ekki. Vilji menn breyta því þá þurfa þeir að tryggja það að Sjálfstfl. fái meiri hluta á Alþingi. Þá gætum við hugsanlega farið að gera eitthvað af viti að mínu mati.

Herra forseti. Hv. þm. talaði um tvískinnung vegna þess að menn neyðast oft til þess á Alþingi að vega og meta hagsmuni hverja á móti öðrum. Ég stóð frammi fyrir því varðandi virkjanirnar að vega það og meta hvort ég vildi nýta auðlindir þjóðarinnar til hagsbóta fyrir þjóðina eða horfa svo stíft á það að það er ríkið og sveitarfélagið Reykjavík sem eiga Landsvirkjun --- og Akureyri reyndar --- og vera þar af leiðandi á móti því. Ég mat fyrri hagsmunina meiri enda ber ég þá von í brjósti að þetta fyrirtæki verði selt.

Hv. þm. svaraði eiginlega sjálfum sér varðandi fé án hirðis. Hann sagði: ,,Við sölu ríkiseigna hefur afskaplega illa verið að verki staðið.`` Hann var að segja að það er bara farið illa með fé án hirðis. Hann var að segja að gæslumenn fjárins --- jafnvel þó að Ríkisendurskoðun, Alþingi og fleiri séu að passa það þá er samt sem áður staðið illa að verki. Er þá ekki niðurstaðan sú að menn reyni að hafa ríkið sem allra minnst og draga úr skattheimtu, (Gripið fram í.) hætta að rífa peninga úr vösum fólks, úr öðrum vasanum og setja í hinn?