Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 14:54:57 (948)

2002-11-01 14:54:57# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[14:54]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er nú alveg undrandi að heyra hv. þm. halda þessu fram. Hvað er glæframennska í sambandi við það sem ríkisstjórnin er að gera í sölu ríkisfyrirtækja? Er það glæframennska t.d. að auglýsa eftir áhugasömum aðilum í sambandi við kaup á bönkunum? Það gefa sig fram nokkrir aðilar, síðan eru þeir grandskoðaðir og af samkeppnisástæðum er ekki talað við einn og vegna þess að einn skilar ekki inn fullnægjandi upplýsingum þá er ekki talað við hann. Það er talað við hina þrjá. Síðan er Landsbankinn seldur þeim sem best var metinn af hálfu ráðgjafarfyrirtækis og nú erum við í sama ferli í sambandi við Búnaðarbankann. Ráðgjafarfyrirtæki er að aðstoða okkur við að meta þessa tvo aðila sem eftir eru. Það er verið að selja eignir ríkisins á góðu verði. Þetta eru fjármunir sem munu skila sér í ríkiskassann og verða notaðir til skynsamlegra framkvæmda.