Framlög Byggðastofnunar til eignarhaldsfélaga og atvinnuþróunarsjóða

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 15:39:03 (1143)

2002-11-06 15:39:03# 128. lþ. 24.8 fundur 178. mál: #A framlög Byggðastofnunar til eignarhaldsfélaga og atvinnuþróunarsjóða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[15:39]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég er ánægð að heyra að hv. þingmönnum finnst að eignarhaldsfélögin hafi verið til hagsbóta fyrir landsbyggðina. Til þess var leikurinn vitanlega gerður. Því er hins vegar ekki að neita að það hefur verið nokkuð mismunandi milli landshluta. Sums staðar hefur verið erfitt að fá mótframlag og þar hafa þessir fjármunir því miður ekki komið að eins miklu gagni og ella. Þetta var alltaf hugsað sem tímabundin aðgerð, þessi eignarhaldsfélagaaðferð. Þess vegna verður henni ekki fram haldið. Það er ekki gert ráð fyrir fjármunum til eignarhaldsfélaga í næstu fjárlögum eins og hv. þingmenn hafa eflaust séð í fjárlagafrv.

Hins vegar er ákveðið að verja fjármagni til nýsköpunar á landsbyggðinni, þ.e. samtals 1 milljarði kr. á því tímabili sem byggðaáætlunin ríkir. Það held ég að sé líka mikilvægt mál og ég vona að það komi ekki að minna gagni en fjármagnið sem veitt hefur verið til eignarhaldsfélaganna.

Nú er það þannig með Byggðastofnun, sem hefur þetta fjármagn til ráðstöfunar, að hún lýtur sinni stjórn. Það er ekki þannig að Byggðastofnun sé stjórnað úr iðnrn. Henni er að sjálfsögðu stjórnað af stjórn stofnunarinnar og þar verður tekin ákvörðun um hvernig þeim 200 millj. verður varið sem enn er óráðstafað. Ég tel mjög eðlilegt og sjálfsagt að þeir fjármunir fari til eignarhaldsfélaga á landsbyggðinni, svo fremi sem mótframlag fæst.